Í Náttúrufræðingnum 1998 segir m.a. að „Hvaleyrarholt og Ásfjall eru að mestu úr grágrýti sem er yngra en 0,7 milljón ára og undir Hvaleyrarvatni og Ástjörn er einnig að finna grágrýti frá sama tíma. Hraunið sem stíflar vötnin er hluti af Hellnahrauni, sem er dæmigert helluhraun, með ávölum sprungnum hraunkollum, að mestu gróðurlaust nema í gjótum og bollum og sjást þess engin merki að það hafi nokkurn tíma verið gróið að marki. Hellnahraun er í raun tvö hraun sem hafa verið nefnd Yngra- og Eldra-Hellnahraun.
Hraunin eru ákaflega lík að ytri ásýnd og nokkuð erfitt að greina þau að. Eldra-Hellnahraun er um 2000 ára gamalt og líkt og Yngra-Hellnahraun komið frá eldstöðvum í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla og hefur runnið svipaða leið til sjávar. Yngra-Hellnahraun hefur einnig verið nefnt Tvíbollahraun, en það hefur að öllum líkindum runnið í sömu goshrinu og Breiðdalshraunið á síðari hluta 10. aldar og komið úr Tvíbollum í Grindaskörðum (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá þessu má ætla að Hvaleyrarvatn og Ástjörn hafi orðið til fyrir u.þ.b. 2000 árum.“
Lítill lækur rennur frá Ásfjalli í Ástjörn, en í Hvaleyrarvatn hefur einungis safnast yfirborðsvatn eftir rigningar og snjóa. Hið síðarnefnda er því háðari veðursveiflum frá einum tíma til annars.
Ómar Smári Ármannsson skrifaði grein í Fjarðarpóstinn 2003 undir fyrirsögninni: „Á Gangi við Hvaleyrarvatn“. Í greininni er m.a. lýst gönguferð við vatnið, tóftum, seljum og borgum:
„Hvaleyrarvatn er í kvos sem er umlukin hæðardrögum á þrjá vegu; Vatnshlíð að norðanverðu, Húshöfða að austanverðu og Selhöfða að sunnanverðu. Selhraun (Hellnahraun) lokar fyrir afrennsli vatnsins að vestanverðu.
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar hóf uppgræðslu við vatnið árið 1956. Nú er svæðið orðið kjörið útivistarsvæði. Göngustígar liggja um skóginn og í kringum vatnið, um 20 mínútna léttur gangur. Á svæðinu eru einnig nokkrar minjar frá tímum fjárbúskapar, sem gaman er að skoða, auk þess sem torfhlaðin hafa verið ágæt skeifuskjól á stöku stað. Hús Skógræktarfélags Hafnarfjarðar er í Húsmúla, en í Selhöfða er skáli Gildisskátanna. Sumarhús er undir Vatnshlíðinni, en vestan hans er Bleikingsháls.
Ákjósanlegt er að byrja göngu frá bílastæðinu norðan við vatnið.
Í Húshöfða má t.d. sjá tóft af hlöðnum stekk efst á hæð, Beitarhúsahálsi, norðan húss Skógræktarfélagsins. Sunnan hússins er nokkuð stór tóft í hlíðinni. Það er rúst beitarhúss, Veturhúss, frá Jófríðarstöðum, en var síðast notað árið 1922 frá Ási. Rétt vestar eru jarðlægar leifar, líklega af fyrrum selstöðu. Þar skammt sunnar í hlíðinni við göngustíg er minnisvarði í svonefndum Systkinalundi. Hann er um Kristmundarbörn, en þau létu eftir sig minningarsjóð til styrktar skógræktarstarfi í Hafnarfirði.
Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóttir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins. Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla áríð 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.
Vestan við veginn, sem liggur vestan við vatnið, eru hleðslur í klapparkvos. Þar gæti hafa verið stekkurinn frá Hvaleyrarseli.
Sunnan við Selhöfða er Seldalur, þangað sem vegurinn liggur. Sunnan hans er Stórhöfði. Uppi á hálsinum, vinstra megin við veginn þegar komið er að Seldal, er tótt. Norðan hennar er ágæt gönguleið til norðurs upp á Selhöfða. Þegar þangað er komið er beygt til hægri, uppá klapparhæðina, sem þar er. Á henni eru leifar gamals stekkjar, auk annars minni og eldri skammt austar. Auðvelt er fyrir vant fólk að koma auga á minjarnar, en erfiðara fyrir aðra. Þær eru augljósastar þegar staðið er norðan við hleðslurnar og horft í átt að Stórhöfða. Þá sjást þær vel. Í norðanverðum Seldal er stekkur og auk þess óljósar seltóftir á grónum hvammi.
Vestan við Stórhöfða er grjóthlaðinn nátthagi með fjárskjólum. Líklegt má telja að hafi tengst selstöðunni í Seldal fyrrum. Vestan við Hvaleyrarvatn eru einnig minjar, bæði hlaðinn stekkur og óljósar jarðlægar tóftir.
Vörður eru á höfðunum fimm umleikis. Flestar eru þetta landamerkjavörður frá bæjunum er landið tilheyrði fyrrum.
Ágæt gönguleið er niður af Selhöfða til vesturs, á milli furulunda. Þá er komið að vatninu á milli seljanna og auðvelt að ganga meðfram því til baka – að bílastæðunum. Þessi ganga tekur u.þ.b. klst.“
Sjá einnig MYNDIR frá Hvaleyrarvatni og nágrenni..
Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 01.05.1998, bls. 276.
-Fjarðarpósturinn, 17. tbl. 30.04.2003, Á Gangi við Hvaleyrarvatn – Ómar Smári Ármannsson, bls. 11.