Færslur

Þyrill

Tilgangur ferðarinnar var að skoða tófir gamla bæjarins og hofhús að Þyrli í Hvalfirði.
BæjarstæðiðSvo segir í Harðar sögu Hólmverja: “Þorsteinn gullknappur bjó þá á Þyrli, grályndr ok undirförull, slægvitr ok vel fjáreigandi.” Harðar saga, ÍF XIII, 62, sbr. 87 “[Indriði] fór um morgininn einn saman, ok it gegnsta reið hann til Þyrils. hann steig þá af baki ok gekk ofan Indriðastíg hjá Þyrli ok beið þar, unz Þorsteinn fór til blóthúss síns … Hann snýr þá fram fyrir hann ok hjó hann með sverðinu Sótanaut undir kverkina, svá at af tók höfuðit. Hann lýsti þessu vígi á hendur sér heima at Þyrli …” “Bæjarhús jarðarinnar standa undir samnefndu fjalli.”, segir í örnefnaskrá. Í Fornleifaskráningu fyrir Hvalfjarðarstönd 2003 segir að þar sé steinhús með kjallara, byggt 1937, um 5 m norðaustar heldur en gömlu bæjarhúsin stóðu. Ekki er lengur búið í húsinu en er notað sem afdrep í búskaparsnúningum. Ekki er vitað til að mannvistarlög hafi fundist við byggingu hússins.
BærinnHúsin á Þyrli eru á milli tinda Þyrilsins og Þyrilsness sem gengur fram í Hvalfjörðinn. Umhverfis húsið eru sléttuð tún. Allt svæðið er í halla í hlíðarrótum fjallsins Þyrils sem gnæfir yfir bænum, girt klettabelti. Suðaustan við húsið er malarborið og flatt hlað, á milli íbúðarhúss og fjárhúss og hlöðu sem enn eru notuð. Steypta húsið stendur á nokkuð láréttum stalli sem gengur út úr hlíðinni og gæti kallast hóll en þó að öllum líkindum náttúrulegur en ekki upphlaðinn. Lítil ummerki sjást eftir gömlu bæjarhúsin en þó er óslétt og glittir í grjót nokkrum metrum suðvestan við steinhúsið. Eins sker gróður sig úr umhverfinu þar sem gömlu húsin voru, vallhumall áberandi á um 26 m svæði, N-S og um 10 m A-V. Garðlög þau sem eru á túnakorti og voru við gamla bæinn sjást enn greinilega. Gömlu bæjarhúsin stóðu á meðan var verið að byggja nýja húsið en voru rifin fljótlega eftir að nýbyggingu lauk.
MerkiÍ riti Kristians Kålunds um íslenska sögustaði frá 1872-1874 segir: “Ofan við bæinn er svonefndur Goðahóll. Er talið að þar hafi staðið hof það sem nefnt er í Harðar sögu. Tóftin er mjög óljós snýr austur og vestur. Hún er um 6 faðma löng, en mjög mjó, 1 faðmur, svo að hún virðist naumast meira en breið skora; má þó vera að stafi af því, að veggir séu fallnir saman. Dyr virðast hafa verið við syðri langvegg nokkru nær austurenda. [Nmgr. Sigurður Vigfússon gróf upp tóftina, mældi hana og lýsti henni nákvæmlega, taldi hana 17-57 fet. Árb. Fornl. 1880-81, 17.] Í húsvegg skammt frá bæjardyrum er neðst í veggnum allstór steinn (um 1.5 álnar langur, 1 álnar hár), nálægt miðju er skálmynduð laut, að stærð eins og fyrir krepptan hnefa. Steinninn nefnist, þótt undarlegt sé, “blótsteinn Harðar”, en ýmsir telja, að þar sé steinn sá er Þorsteinn blótaði í hofi sínu, að því er sagan segir.”

Hoftóttin

Sigurður Vigfússon, fornfræðingur, kom að Þyrli sumarið 1880 og gróf í tóftina. Hann segir í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1881: “Að Þyrli er forn tótt uppi í túninu fyrir ofan bæinn, sem kölluð eru Hoftóft… Steinn einn mikill hefir lengi verið í bæjarveggnum, er fram snýr á Þyrli. Hann er og hefir verið kallaðr Blótsteinn, og um það eru sagnir, sem einlægt eiga að hafa haldizt, að hann hafi staðið í hofinu eða blóthúsinu á Þyrli… Hann er úr blágrýti. Síðan tók ég nákvæma mynd af steininum, sem hér fylgir með [myndin er sýnd aftast í árbókinni, bls. 124], hann er 1.25 alin á lengð, 0.75 al. á breidd og 0.5 al. á þykt.

Blótsteinninn

Niðr í hann er klappaðr bolli lítið sporöskjumyndaðr. Að innan er bolli þessi sem hálfkúla að lögun og mjög sléttr með lítt ávölum börmum. Hann er að þvermáli 4 þuml. og 2.25 þuml. á dýpt. Að ofan er steinninn mjög sléttr af náttúrunni, því að eigi sýnist hann vera höggvinn. Af einu horninu virðist jafnvel að vera brotið síðar, eins og myndin sýnir. Síðan tók ég að grafa tóttina af blóthúsinu. Tóttin snýr í útnorðr og landsuðr, afhúsið í útnorðr. Hún stendr í nokkrum halla; spottakorn fyrir landsunnan tóttina kemr upp lækr og rennr þar niðr eftir, og minnir mig, að hann sé kallaðr blótkelda… Öll tóttin, þegar hún hafði verið grafin, var 57 fet á lengd út á ytri hleðslur og 17 fet á breidd; afhúsið er 17 fet á lengd, og þannig er það ferskeytt.”
Brynjólfi Jónssyni fornfræðingi segist svo frá í Árbók fornleifafélagsins 1904: “Mér var falið að athuga, hvernig blóthústóftin á 
Þyrli liti nú út.
MyndinÞað eru nú 12 ár síðan Sigurður sál. Vigfússon gróf hana út, og er hún nú aftur grasi gróin; enda er hún í túni. Fyrir bakvegg hennar sér glögglega og er sem mjótt þrep langs með honum að innanverðu. Einnig sér fyrir vesturgafli og er hann bogadreginn. En eigi mótar neitt fyrir framvegg, millivegg eða austurgafli. Að eins standa steinar upp úr grasrótinni hér og þar, alveg óreglulega. Er hætt við, að úr þeim veggjum hafi verið tekið grjót  eftir að S. V. skildi við þá. Nú er annað fólk nýkomið að Þyrli, og vissi það ekkert um blóthústóftina. Að eins einn drengur var þar, sem gat vísað mér á hana. Gjörði eg uppdrátt af henni, eins og hún kom mér fyrir sjónir.”

Hoflindin

Í Frásögum um fornaldaleifar er minnst á merkilega staði í Hvalfirði.: “Geirhólmr á Hvalfirdi, Hardarhæd i Dagverdarnesi, er nú kallast Þyrilsnes, rústir af Hofi Þorsteins Gullknapps á Þyrli og Önundarholt ynnfrá Brecku, er Hólmverja saga hermir frá.” (FF 1983, 344). Tóftin er friðlýst: “Þyrill. I) Leifar forns blóthúss, vestur á túninu. Sbr. Árb. 1880-1881: 74-76; Árb. 1904: 18. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 22.01.1931.”(Friðlýsingarskrá 1990). Í Harðarsögu segir: “Hann [Indriði] fór um morguninn einn saman, ok it gegnsta reið hann til Þyrils. Hann steig þá af baki ok gerði gekk ofan Indriðastíg hjá Þyrli ok beið þar, unz Þorsteinn fór til blóthúss síns, sem hann var vanur. En er Þorsteinn kom, gekk hann inn í blóthúsit ok fell fram fyrir stein þann, er hann blótaði ok þar stóð í húsinu, ok mæltist þar fyrir…

Hoflindin

Síðan gekk Þorsteinn út ok heim Indriði sá ferð hans gerla. Indriði bað hann eigi hlaupa svá mikinn. Hann snýr þá fram fyrir hann ok hjó þegar með sverðinu Sótanaut undir kverkina, svá at af tók höfuðit.” (ÍF XIII, 90-92). Tóftin er rétt rúma 100 m norðaustur af bæ. Tóftin er í túnbrekku í hlíðarfæti Þyrils og snýr mót suðvestri. Túnið er í rækt, borið er á það og það slegið. Tóftinni er þó hlíft. Tóftin er orðin mjög svo ógreinileg. Hún virðist snúa NV-SA, 20,5 m á lengd og um 6 m á breidd en þó er erfitt að greina hvar norðaustur langvegg sleppir því hann fjarar út upp í brekkuna að norðaustan.

Hoflindin

Megineinkenni tóftarinnar er fyrrnefndur norðaustur langveggur, eða ruðningur, sem er 20,5 m langur. Hann er hæstur 0,7 m og um 2 m breiður. Við suðausturenda eru 7 steinar, um 0,3 x 0,4 m að jafnaði, í hnapp og liggja tiltölulega óreglulega N-S. Við norðvesturenda mótar fyrir bogadregnum garði – gafli. Suðvestur langhlið er ógreinileg og lítið sem ekkert upphleypt en þó má greina mörk garðsins á þúfum og lægðum í landið.
Í Árbók Hins íslenska fornleifafræðifélags 1881 fjallar Sigurður Vigfússon um “Um hof og blótsiðu í fornöld”. Þar segir m.a. um hofið í Þyrli: “HlN fyrsta hoftótt, sem rannsökuð hefir verið hér á Íslandi, er blóthúsið á pyrli. MinjasvæðiðAðaleinkenni þessarar tóttar eru einkannlega afhúsið eða þó öllu fremr veggrinn, sem skilr það frá aðalhúsinu, sem, eins og tekið er fram áðr, hefir aldrei verið með neinum dyrum; afhúsið hefir því verið fullkomlega skilið frá aðalhúsinu og enginn gangr þar á milli, eftir því sem tóttin sýnir ; þenna millivegg dyralausan hefi eg einnig orðið var við á fleirum hoftóttum, sem kallaðar eru. Afhús er í öðrum enda og veggrinn milli þess og aðalhússins er fult eins mikill og þykkr eins og aðalveggir tóttarinnar, og er það auðséð, að á honum hafa aldrei dyr verið. Tóttin er hálfkringlótt fyrir endann á af húsinu og miklu kringlóttari enn nokkur tótt, er eg hef séð, enda tóttin öll mjög regluleg. Dyr eru á af húsinu á miðjum gafli; þær sjást glögglega; fyrir hinn endann er tóttin hornótt, eins og vanalegt er, og eru þar einnig dyr á miðjum gafli. Við nyrðra kampinn á dyrunum er hola eða lægð, sem mig minnir að nefnd sé blótkelda, enn í henni er þó ekkert vatn nú eða deigja; enda virðist hún mjög sigin saman.
Tóttin öll er nær 14 faðmar á lengd og Hoftóttin7 faðmar á breidd, sem er ákafleg breidd. pannig sjá menn, að tótt þessi er ákaflega stór, einkannlega á breiddina. pessi tótt er kölluð „Hoftótt”. Málið er ekki, ef til vill, nákvæmt, með því að eg gat að eins stigið tóttina, enn nærri mun það samt láta. Það eru 14 eða 15 ár, síðan eg skoðaði þessa tótt; tók eg þá af henni mynd, sem eg hefi enn til. Eg nefni tóttina á pyrli blóthús, af því að í sögunni er nefnt blóthús á pyrli, enn eigi hof, og hygg eg, að það sé svo nefnt, af því að það hefir eigi verið höfuðhof, heldr einungis heimilishof, ef svo mætti að orði komast, þvíað, eins og kunnugt er, skyldu vera þrjú höfuðhof í hverju þingi, nefnilega eitt höfuðhof í hverju goðorði. par vóru menn vandaðir til að varðveita hofin bæði að vitrleik og réttlæti. peir skyldu dóm nefna á þingum og stýra sakferlum, og því vóru þeir goðar kallaðir. Það, sem enn fremr er einkennilegt við tóttina á þyrli, er það, að afhúsið liggr alt miklu lægra, eins og áðr er getið, og dyrnar út úr hliðveggnum bæði á afhúsinu og aðalhúsinu, og auk þess þessir bálkar i afhúsinu, hvé mjög sem þeir kunna að vera úr lagi gengnir. 

Þyrill

Það er auðvitað, að ekkert verðr með vissu ákveðið að sinni, fyrr enn fleiri hoftóttir verða rannsakaðar, sem nógar eru til á landi hér, og samanburðr fæst; enn hvað sem þessu líðr, þá er tótt þessi í öllu verulegu lík þeirri lýsingu, sem vér höfum á hofum í fornsögum vorum. í afhúsið var skipað goðunum, enn aðalhúsið var haft fyrir veizlusal, er blótveizlur vóru haldnar. Sakir þessa eru engar dyr milli aðalhússins og af hússins, að þangað hefir vist engum verið leyfilegt að koma, nema goðanum sjálfum eða þeim, sem hann leyfði. Alt hofið skoðuðu fornmenn heilagt, og helgi hofanna var aftekin með lögum, þegar kristni var lögtekin, nefnilega „að hof öll skyldi vera óheilög”, enn mest helgi hefir þó hvílt yfir afhúsinu, og milliveggrinn hefir því verið sem nokkurs konar fortjald fyrir afhúsinu sem hinu allra helgasta…”
ÞyrillÍ túnbrekkunni fyrir neðan tóftirnar er brunnur (Hoflind). “Ásinn er enn nefnt Hofið, þar sem blótshúsið stóð, og lind er þar, sem heitir Hoflind; neðan við lindina er kallaður Brunnvöllur. Nafn sitt dregur hann af því að lækurinn frá lindinni var þar leiddur í hlaðinn brunn. Þangað var vatn sótt…”, segir í örnefnaskrá. 6 – 8 m sunnan við fornleif “blóthús” er brunnur eða lind. 3 m vestan við lindina er raflínustaur. Lindin er í túnbrekku í hlíðarfæti Þyrils sem snýr mót suðvestri. Túnið er í rækt, borið er á það og það slegið. Brunnurinn er hlaðinn, 6 – 7 umför steina sjást ofan við vatnsborð (1,3 m) en ekki er vitað hve langt niður hleðslan nær. Byggt hefur verið yfir grjóthleðsluna, timburraftar þversum yfir brunninn, bárujárnþak yfir röftunum og svo torf þar ofna á. Heildarhæðin er um 1,6 m. Mannvirkið er hringlaga, um 4 m í þvermál. Vatn seytlar úr brunninum, undan brekkunni í vestsuðvestur. Þar sem vatnið kemur út er op og timburfleki þar fyrir sem lokar opinu. Opið er 0,7 m breitt neðst en 1,3 m efst. Lindin sér enn bænum (útihúsum) fyrir vatni og er greinilega viðhaldið.”
Þörf er að afgirða minjasvæðið og beita á það hestum. Við það gætu minjarnar skýrst verulega.
Frábært veður. Gangan tók 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Harðar saga, ÍF.
-Örnefnalýsing fyrir Þyril.
-Fornleifaskráning fyrir Hvalfjarðarströnd 2003.
-Kristian Kålunds um íslenska sögustaði frá 1872-1874, 215.
-Árb 1881, 71, 74-75.
-Árb 1904, 18.
-FF, 344.
-Friðlýsingarskrá.
-Sigurður Vigfússon – Árbók Hins íslenska fornleifafræðifélags 1881.

Þyrill

Þyrill.

Glymur

Gengið var um Leggjarbrjót frá Þingvöllum yfir í Botnsdal í Hvalfirði. Þetta er forn þjóðleið milli Botnsdals og Þingvalla en einnig milli Brynjudals og Þingvalla.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – skilti.

Þegar farið er frá Þingvöllum er haldið upp vestan við túnin í Svartagili, en þar er nú engan bæ að sjá enda lagðist búskapur þar niður fyrir allmörgum árum. Farið er vestan við gil er nefnist Hrútagil upp á lágan ás. Þegar þangað er komið blasir við grösugur dalur, Botnssúlur gnæfa við himin í norðri og lengra til norðausturs sér inn í Svartagil, sem virðist bera nafn, sem því hæfir. Af gili þessu dregur bærinn nafn sitt. Á vinstri hönd gnæfir Búrfell, 783 metrar að hæð, formfagurt og hlýlegt. Gott er að líta í kringum sig og skoða útsýnið af Orrustuhól, sem er rétt austan við götuna. Ekki er vitað hvernig þetta örnefni er til komið. Gagnheiði er til landnorðurs, það er forn þjóðleið.

Leggjabrjótur

Leggjarbrjótur-Fossar í Hvalsskarðsá.

Framundan er svo Öxarárdalur og von bráðar kemur gatan að árgili, þar sem Súlnalækur rennur og hafnar að lokum í Öxará, sem sveigir örlítið til vesturs á þeim slóðum og kemur niður af hálendinu allmiklu vestar, þ.e.a.s. fyrir ofan Brúsastaði. Leiðin hefur verið vel vörðuð fyrrum. Sumar eru fallnar, en aðrar hafa verið endurhlaðnar. Með því að fylgja þeim er  auðvelt að rata um hálsana.

Öxarárdalur er grösugur dalur og fagur með Súlur á hægri hönd en Búrfell á þá vinstri. Leiðin er öll vel vörðuð og engin hætta á að villast af leið í björtu veðri. Þó ber að varast að fara langt frá slóðinni vegna mýrarfenja, sem sums staðar eru á leiðinni. Dalurinn hækkar skyndilega er komið er yfir Súlá (Súlnaá), sem rennur úr Súlnadal norðan við Systusúlu (1090 m á hæð). Súlnadalur er stuttur dalur hátt uppi í fjöllunum. Þar er Bratti, skáli Íslenska Alpaklúbbsins.

Glymur

Glymur.

Súlá getur verið allvatnsmikil. Hún rennur í Öxará á þeim slóðum, er vegurinn hættir að fylgja Öxará en fylgir Súlá um skeið. Verður leiðin nú grýtt mjög og seinfarin um skeið en þéttar vörður varða leiðina. Hér er komið að sjálfum Leggjarbrjóti, sem er nokkur hundruð metra langur kafli. Hér eru sýslumörkin. Efst í Leggjarbrjóti má vel sjá hvar erfiðasti hlutinn hefur verið lagaður til. M.a. hefur verið hlaðið í kanta götunnar. Norðar hefur stærsta grjótinu verið kastað úr henni.
Þegar halla tekur undan norður af blasir Biskupskelda við á hægri hönd fram undan og lækur, sem í hana rennur úr vestri. Yfir læk þennan er sérkennileg steinbrú. Það er vel þess virði að líta vel í kringum sig því að útsýni er hér hvað fegurst á þessari leið. Vísu um Leggjabrjót orti séra Jón Þorláksson. Hún er svona:

Tunnan valt og úr henni allt,
ofan í djúpa keldu.
Skulfu lönd og brustu bönd,
en botngjarðirnar héldu.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – Biskupskelda.

Keldan sem hér er átt við er Biskupskelda en þar hefst hinn eiginlegri Leggjabrjótur.
Súlur byggja að vísu útsýn til austurs og norðurs en í suðri sér í norðurenda Þingvallavatns. Búrfell blasir við í vestri. Sé gengið upp á höfðann vestan við Biskupskeldu og raunar lítið eitt lengra vestur, sér í Myrkavatn, en þar eru upptök Öxarár. Í norðaustri skammt frá Biskupskeldu er Sandvatn, þar sem Brynjudalsá á upptök sín og ofan við vatnið er Sandvatnshlíðar.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða.

Þegar farið er áfram til norðurs er haldið sem leið liggur og vörðurnar varða fram hjá Biskupskeldu. Sandvatn er fagurt fjallavatn og lætur ekki mikið yfir sér en skyndilega breytir um svip í landslaginu, þegar komið er norður fyrir vatnið. Vestur af Sandvatni að norðanverðu eru Djúpadalsborgir eða Djúpadalshæðir og neðan þeirra er Djúpidalur. Þegar horft er niður dalinn blasa við þrengsli mikil, er Gljúfur nefnast. Í þeim eru þrír fossar, sem heita einu nafni Gljúfurfossar. Hér er hrikaleg náttúrufegurð.
Af Djúpadalsborgum er gott útsýni yfir innsta hluta Brynjudalsins. Syðst er Djúpidalur sem fyrr segir, vestan hans tekur við Lokhamragil og utan þess er Hestgil. Fjallið upp af giljunum er Bollafell sunnan til 510 m að hæð, en Suðurfjall stefnir til útnorðurs.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata.

Vegarslóðin liggur beint norður af Sandvatni austanverðu og brátt er komið að Sandhrygg, þaðan sem gott er að skoða útsýnið yfir Brynjudal, sem blasir héðan við í allri sinni dýrð. Innst í dalnum norðaustanverðum er eyðibýlið Hrísakot, þá Ingunnarstaðir. Utar sér í Þrándarstaði og yst Skorhaga. Þá sést vel út á Brynjudalsvog og Hvalfjörð og utar sér í Hvammsvíkurbæina.
Af Sandhrygg breiðir Múlafjallið úr sér til útnorðurs og nú sést niður í Botnsdal, þangað sem ferðinni er heitið. Hins vegar er hér beint niður undan hin forna leið niður í Brynjudal, leiðin um Brennigil, og er það auðfarin leið gegnum kjarrið. Önnur leið er litlu norðar, það er leiðin upp með Laugalæk, sem dregur nafn sitt af heitri (33 gráður) laug ofarlega í hlíðinni. Þar má sjá verksummerki eftir framkvæmdir hugvitsmannsins Lúthers Lárussonar, sem bjó á Ingunnarstöðum fyrr á þessari öld.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – varða Botnsdalsmegin.

Þessar tvær leiðir voru auðveldustu leiðirnar, þegar farið var yfir Hrísháls niður í Botnsdal, yfir Leggjarbrjót til Þingvalla eða yfir Hvalskarð suður með suðurströnd Hvalvatns og áfram til austurs. Hvalskarð er norðan við Sandhrygg, það er milli Hvalfells (852 m) að norðan og Háusúlu (1023 m) að sunnan.
Í Hvalskarði rennur Hvalskarðsá, fyrst í vestur en síðan meira til norðvesturs uns hún sameinast Botnsá rétt innan við Stórabotn.
Norðan við Hvalfell rennur hins vegar Botnsá úr Hvalvatni. Hún er á sýslumörkum milli Kjósarsýslu og Borgarfjarðarsýslu og jafnframt skilur hún milli Hvalfjarðarstrandarhrepps og Kjósarhrepps. Mörkin liggja síðan um mitt Hvalvatn og síðan um Háusúlu og rétt norðan við Biskupskeldu og um Myrkavatn yfir Kjöl og í Sýsluhólma í Laxá í Kjós. Í Hvalvatni endar þjóðsagan um Rauðhöfða, en þangað á hann að hafa synt í hvalslíki um Faxaflóa og úr Hvalfirði.

Leggjabrjótur

Leggjabrjótur – gata í Botnsdal.

Vegarslóðin liggur nú þvert yfir Hvalskarð gegnum sauðfjárveikivarnagirðinguna og niður allgóðan veg niður í Botnsdal gegnum kjarr og skóg. Brátt sést Botnsá, þar sem hún kemur úr Stóragili en efst í því er hæsti foss landsins, Glymur. Í Botnsdal er skógrækt mikil, sem síðar verður vikið nánar að og sést hér vel, hve áhrifamikil friðunin hefur verið. Innst í dalnum er Stóribotn, nú í eyði; þaðan er forkunnarfagurt útsýni. Auðvelt er að komast yfir Botnsá, t.d. á stálbrú beint suður af Stórabotni.
Gangan tók 5 klst og 05 mín. Frábært veður.

Heimild:
-Eftirfarandi er byggt á lýsingu eftir séra Gunnar Kristjánsson sóknarprest á Reynivöllum og birtist hún sem sérprent með Árbók Ferðafélags Íslands árið 1985.Leggjarbrjotur

Litla-Botnssel

Í Lesbók Morgunblaðsins 1933 fjallar Magnús Lárusson um Hvalfjörð.

“Ó, fjörður væni, sœll að sýn
í sumarsólar loga.
Hve framnes, björg og flóðvík þín
í faðm sjer hug minn toga.
Hvar stenst öll prýðin eins vel á
við insta botn og fremst við sjá?
Hvar sje jeg fleiri fjöllin blá
og fegri marar-voga?” – Steingr. Thorsteinsson.

HvalfjörðurSumarið er liðið og vetur genginn í garð. Ferðalögum út í guðsgræna náttúruna er lokið að þessu sinni. En hafi nú sumarið komið á náin í kynni yið einhvern fagran og svipmikinn stað, er gaman að geta brugðið sjer til hans að loknu dagstritinu, þegar húmar og kaldir vindar gnauða — látið þá hugann bera sig til hans. Og sá maður eða kona er úr “skrítnum steini” , sem ekki á sjer einn eða fleiri ástvini í ríki hinnar íslensku náttúru.
Einn af fegurstu stöðum ættjarðar vorrar er Hvalfjörður. —
Hann skerst inn í landið úr Faxaflóa, milli Kjalarness að sunnan og Akraness að norðan, nálægt 17 sjómílur að lengd. Norðan megin við hann gnæfa Akrafjall og Skarðsheiði, sem verið hefir spákona okkar hjer um norðanátt, því að það bregst varla að hún skauti þá hvítum þokubólstrum, þegar norðanáttin er í aðsigi. —
Sunnan megin fjarðarins er Reynivallaháls og góðkunningi okkar hjer, hún Esja: “Þú aldraða vina með björgin þín hlá, undir blœfögru hrímguðu þaki”.
Á innnesi situr þú sviphrein og há með sögurnar mörgu að baki eins og “Muninn” mælir til hennar um haust. Og svipað munu margir hugsað hafa.
Fleiri fjalla er að minnast, t.d. Þyrils, þar sem Helga jarlsdóttir, harmi lostin og þjökuð af sundraun, kleif upp einstigi það, sem enn er við hana kent og kallað Helguskarð.
Inn og út af Þyrli er Þyrilsnes „þar háði blóðdóm öldin forn”.
Hvalfjörður

Flestum, sem til Hvalfjarðar koma, mun vera hugstætt að koma að Saurbæ, þar sem Hallgrímur Pjetursson var og kvað svo: „að hrygðar húmið svart hvar sem stendur verður engilbjart“, og það í sjálfu 17. aldar myrkrinu. Rjett findist mjer, á meðan vinum hans tekst ekki að reisa honum hinn fyrirhugaða minnisvarða þar, kirkjuna, að þeir sjái um að legstaður hans væri hækkaður, svo að hundar og menn træði ekki á honum, og lindin hans ljúfa væri hlaðin upp, með hringpalli til að sitja á fyrir fólk, sem vildi hvíla sig þar og rifja upp minningar hins ástsæla skálds.
Sumum finst að Hallgrímskirkja ætti að vera í Reykjavík, en er ekki nógu mörgu hrúgað þar saman? Og er það ekki sorgleg lýsing á safnaðarlífi voru að veitingahúsið “Hótel Borg” skuli standa rjett hjá aðalkirkju landsins og vera betur sótt en kirkjan.

Brynjudalur

Brynjudalur – Ingunnarstaðir.

Nei, í Reykjavík á Hallgrímskirkja ekki heima, heldur í hinum heillandi faðmi hins sagnaríka Hvalfjarðar og á þeim stað er trúarskáldið bjó. —
Margar sagnir ganga um síra Hallgrím Pjetursson, og langar mig til að segja eina: „Það er sögn ein, frá Hallgrími presti, að hann var eitt sinn á ferð við þriðja mann, og ætlaði heim sunnan yfir Brynjudalsvog; flæður sævar gengu að; varð það þá ráð þeirra að bíða þar um nóttina til þess útfjaraði, og áin minkaði, og bjuggust að liggja í Bárðarhelli við fossinn. Þótti þá förunautum prests leitt að heyra fossniðinn, er mjög ýrði frá inn í hellisdyrin. Annar förunautur prests var fremstur og fekk ei sofið fyrir aðsókn. Sýndist honum og ferlíkan nokkurt eða vættur sækja að inn alt í hellisdyrin; bað hann þá prest að vera fremstan, og ljet hann það eftir; er þá sagt hann kvæði Stefjadrápu, því var yrði hann hins sama og förunautur hans, en jafnan hörfaði vætturin frá við hvert stefið, og að aftur á milli, uns hún hyrfi með öllu, og er drápan á þessa leið, sem nú er að fá:

1. Sætt með sönghljóðum
sigur vers bjóðum
Guði föður góðum,
sem gaf lífið þjóðum;
næsta naumt stóðum,
naktir vjer óðum
í hættum helsglóðum.

5. Heims því að hætti
hver einn mjer þætti
bölið sem bætti
bjóða lof ætti.
Guðsson vor gætti,
Guðs við almætti,
hann sálirnar sætti.

6. Minn Jesú mæti,
mín jafnan gæti;
brjóst Jesús bæti,
brár Jesús væti,
sjá Jesús sæti,
send Jesús kæti
mitt í mótlæti.

8. Sök synda afmái,
sonur Guðs hái;
frið svo jeg fái
og föðurlandi nái;
ógn engri þjái,
að oss Guð gái.
sálirnar um sjái.

23. Ó. þú alvalda
eining þrefalda.
lát lýð þinn kalda
lof þitt margfalda;
gef oss heit halda
og heiður þjer gjalda
um aldir alda!”

Hvalfjörður

Hvalfjörður.

Í Hvalfirði eru þessar eyjar: Hvammsey, Þyrilsey og Geirshólmi. Bestu skipalægri á firðinum eru hjá Þyrli, innan við Geirshólm (15—20 metra dýpi) á Brynjudalsvogi (5—10 metra dýpi) og á Maríuhöfn undan Hálsi í Kjós (10-16 metra dýpi).

Brynjudalur

Brynjudals á og hellarnir; Bárðarhellir (t.h.) og Maríuhellir (t.v). Huldukona fær sér að drekka vatn úr ánni.

Þessi skipalægi eru öll örugg, og önnur eftir áttum, svo sem undan Reynivöllum, Valdastöðum, Meðalfelli. Úskálahamri og á Saurbæjarvík á Kjalarnesi. Innsigling fjarðarins er óhrein að sunnan, en hrein með norðurlandinu, en þar sigla ekki aðrir en kunnugir menn.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá því af hverju Hvalfjörður, Hvalfell og Hvalvatn draga nöfn sín, og skal það ekki rakið hjer. En við skulum bregða okkur inn til dalanna fyrir botni Hvalfjarðar og hitta þar konu, sem heitir Oddný Sigurðardóttir, og er húsfreyja á Stóra-Botni í Botnsdal. Hún segir okkur svo frá dölunum:

Botnsdalur.

Botnsdalur

Botnsdalur – Stóri-Botn (Efri-Botn).

Botnsdalur er hinn nyrðri af dölunum tveim, er liggja fyrir botni Hvalfjarðar. Á milli þessara tveggja dala gengur Múlafjall fram í sjó og myndast vogar, sinn hvoru megin fjallsins. Og inn fyrir þessa voga liggur Hvalfjarðar akbrautin. Í Botnsdal eru nokkurar skógarleifar, þó smávaxnar sje, en þarna var það, sem Avangur hinn írski ljet smíða hafskipið á dögum landnámsmannanna. En hið merkasta í dalnum verður að telja fossinn Glym, sem er mjög hár, líklega með hæstu fossum á landinu, þó aldrei hafi verið mældur, og er í á samnefndri bæjunum í dalnum.
Við Glym orti Þorsteinn Gíslason vísurnar: Í Botnsdal er fagurt einn blíðviðrisdag o.s.frv. Þá er einnig skylt að gleyma ekki Botnssúlum, en þaðan er mjög víðsýnt.

Í norðaustri er Hvalfell og norðan við það er Hvalvatn, en þaðan kemur Botnsá. Fyrir austan enda Hvalvatns er Skinnhúfuhöfði og Skinnhúfuhellir, þar sem Skinnhúfa bjó á dögum Ármanns í Ármannsfelli. Nú er þar alt kyrlátara og friðsamara en var á þeim dögum og álftin á sjer dyngju rjett fyrir framan hellismunnann. Niður undir vatnsröndinni, norðan í Hvalfelli er hellir sá, er sagt var að Arnes — er eitt sinn var fjelagi Fjalla-Eyvindar — hafi hafst við í. Í helli þessum hefir fundist mikið a{ beinum — bæði stórgripabeinum og kindabeinum — sem sjest hafa á för eftir eggjárn, og sömuleiðis kambur úr horni.
Í hinum fornu sögum finst hvergi getið nema eins bæjar í Botnsdal — en nú eru þeir tveir.

Hvalvatn

Hvalvatn – flugmynd.

Landnámabók segir svo frá að fyrstur hafi bygt bæ í Botni, maður sá er Avangur hjet og kallaður hinn írski. Þá var þar skógur svo mikill að hann ljet af gera hafskip. Það var hlaðið við Hlaðhamar en hann er fyrir botni Botnsvogs, sunnan Botnsár. Dýpi við hamarinn nú á tímum er um flóð líklega 3—4 metrar, en algerlega þurt um fjöru. Í Harðarsögu er talað um Neðra-Botn, þar sem Geir bjó um skeið. Af því er auðsætt að þá hefir Efri-Botn einnig verið bygður þó þess sje eigi getið. Löngu seinna hefir svo bygst þriðji bærinn: Holukot. —

Holukot

Holukot – tóftir.

Hann stóð sunnan árinnar neðarlega í dalnum. Sá bær hefir að líkindum tekist af eða lagst í eyði vegna skriðufalls er eyðilagt hefir meginhluta túnsins. Skriða þessi er fyrir löngu uppgróin og sums staðar klædd smávöxnu kjarri. Fyrir rústunum sjest mjög greinilega og hafa þau hýbýli verið rúmlítil.
Af örnefnum, sem getið er í fornsögunum er meðal annars Múlafell, nú breytt í Múlafjall, Kattarhöfði, þar sem Þórður köttur var dysjaður og Kötlugróf þar sem Þorbjörg katla og Þorgríma smiðkona ljetu líf sitt og hringurinn Sótanautur er falinn. Víðar man jeg ekki eftir að Botnsdals sje getið í fornum sögum.
Að síðustu skal þess getið, að hjer í Stóra-Botni var bænahús eða kirkja, og er örnefnið Kirkjuhóll þekt enn þá. Í þann hól var grafið fyrir 4—5 árum, en aðeins lítilsháttar, enda fundust engar minjar.

Arneshellir

Arneshellir við Hvalvatn.

Á bæjunum hjerna í Botnsdalnum var mikið um álfa og álfatrú. Ekki mátti veiða silunga úr sumum lækjum, ekki höggva hrís á vissum stöðum, ekki færa sum hús, ekki sljetta tiltekna bletti í túnununi og þar fram eftir götunum. Í hólunum heyrðist sífelt rokkhljóð og strokkhljóð. Þannig var til dæmis sagt að víða í túninu í Litla-Botni og í klapparholtum umhverfis það, væri bústaðir huldufólks. Austast í túninu þar er hóll, sem kallaður er Krosshóll. Mátti eigi sljetta hann og var þar engin þúfa hreifð þangað til síðasti ábúandi kom þangað árið 1907. Á þessum hól var hrísla allstór og mátti enginn skerða hana. Var hún að síðustu orðin svo fúin að hún brotnaði. Mátti enginn á neinn hátt nýta sjer lurkinn og var sagt að hann færi jafnan sjálfur á hólinn aftur þó hann væri borinn heim. Skamt fyrir utan túnið er klapparholt, sem kallað er Steinkirkja og heyrast þaðan oft tíðahringingar og sálmasöngur. Á götunum fyrir utan túnið er kallað Mannabygð og þar mátti aldrei ríða hart. Á milli þessara staða: Kirkjunnar og Mannabygðar annars vegar og Krosshóls hins vegar voru sífeldar ferðir huldufólksins og var för þess stundum sjeð af gamla fólkinu.

Brynjudalur.

Brynjudalur

Brynjudalur.

Syðri dalurinn fyrir botni Hvalfjarðar er Brynjudalur. Hann er grösugur og vaxinn kjarri fremst. Samnefnd á rennur eftir honum og er hún straumlygn og mild.
Nú eru þrír bæir í dalnum: Ingunnarstaðir, Skorhagi og Þrándarstaðir og auk þess eyðibýlið Hrísakot.
Hina elstu sögn um Brynjudal er að finna í Landnámabók, þar sem sagt er frá deilu Refs hins gamla og Hvamm-Þóris, út af kúnni Brynju, sem gekk úti í dalnum með afkvæmum sínum og hann er við kendur. Og sú deila endaði með falli Hvamm-Þóris. Þar er einnig sagt, að Refur hafi búið á Múla. Bærinn Múli hefir að líkindum verið skamt þaðan sem nú er Skorhagi, en þó nokkru nær fjallinu og er trúlegt, að skriðuföll hafi eytt bæinn.
Harðar saga segir hinsvegar svo frá, að Refur hafi búið á Stykkisvelli (í Brynjudal) en Þorbjörg katla, móðir hans á Hrísum og vitanlega geta báðar sögurnar haft rjett fyrir sjer. Bæjarnafnið Hrísakot og örnefnið Hrísasneið benda að minsta kosti til þess að bær með því nafni hafi verið þar að norðanverðu í dalnum, þó það þurfi ekki endilega að vera.

Stykkisvellir

Stykkisvellir – tóft.

Loks segir Harðar saga svo frá, að Kjartan sá, er seinna sveik Hólmverja, hafi búið á Þorbrands stöðum. Hins vegar segir í upphafi Kjalnesingasögu að Þrándur landnámsmaður Helga bjólu hafi numið land í Brynjudal og búið á Þrándarstöðum, en það bæjarnafn er enn þá til.

Hrísakot

Hrísakot – túnakort 1917.

En verið gæti að Þorbrandsstaðir og Þrándarstaðir sjeu hið sama. Ingunnarstaða er getið í Kjósarannál að mig minnir einhverntíma á 16. öld. — Þá týndist á Hríshálsi, þ.e. hálsinum á milli dalanna, óljett kona með þrjú börn í fylgd með sjer og fanst ekkert af nema hendin af einu barninu. Og þessi kona fór frá Ingunnarstöðum.

Svo jeg snúi mjer aftur að honum fornu sögum, þá er Brynjudals getið f Bárðar sögu Snæfellsáss og er sagt að Bárður hafi hafst við í Bárðarhelli. Það er móhergshellir sunnanmegin árinnar, við foss þann er skamt er fyrir ofan hina nýju brú á ánni, er bygð var síðastliðið sumar (1932). Annar skúti er norðan árinnar, beint á móti Bárðarhelli, kallaður Maríuhellir.
Á Ingunnarstöðum var bænahús og var goldin þaðan presstmata þar til núverandi ábúandi keypti hana af. Mjer hefir einnig verið sagt að eitt sinn — fyrir löngu síðan — er byggja skyldi íbúðarhús á Ingunnarstöðum hafi verið grafið á mannabein. —

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 44. tbl. 12.11.1933, Magnús Lárusson, Hvalfjörður, bls. 345-347.

Brynjudalur

Brynjudalur.