Færslur

Þorbjarnastaðarétt

Ætlunin var að ganga til baka og fram eftir Alfaraleiðinni, hinni gömlu þjóðleið milli Innnesja (Hafnarfjarðar) og Útnesja (Voga, Njarðvíkna, Hafna, Keflavíkur, Garðs og Sandgerðis). Vestari hluti leiðarinnar, milli Hvassahrauns og Voga, hefur jafnan verið nefnd Almenningsleið (Menningsleið), en kaflinn frá Hvassahrauni til Hvaleyrar Alfaraleið.

Gvendarbrunnur

Gangan hófst við nýlegt bílastæði sunnan undirgangna Reykjanesbrautar innan (austan) við Hvassahraun. Þegar Reykjanesbrautin var breikkuð var tekinn hluti af Alfaraleiðinni á þessum kafla. Áður sást hún sunnan brautarinnar, liggja undir hana og síðan spölkorn af henni norðan brautarinnar, ofan við gömlu réttina.

Alafarleið

Alfaraleiðin milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

Gengið var beint inn á Alfaraleiðina, gegnt gatnamótunum, þar sem hún byrjar núna. Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást á stangli við götuna, þ.a. ein mjög myndarleg er stendur hátt á hraunhól hægra megin hennar. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Í götunni fannst m.a. skeifubrot frá löngu liðnum tíma. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Myndarleg varða við götuna sést á hæðarhrygg framundan.
Innan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Við hólinn liggur Lónakotsselsstígur áleiðis upp í Lónakotssel. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Þarna liggur Óttarsstaðaselsstígur þvert á Alfaraleiðina. Gatnamótin eru nokkuð glögg. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðin með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Listaverkið Slunkaríki var þar til skamms tíma, en hefur nú verið fjarlægt.
Varða við Alfaraleiðina HvassahraunsmeginÞá er gengið um Draugakróka. Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing, landamerki Straums og Óttarsstaða.
Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er önnur af þremur fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Miðmundarhæð. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Neðan við hann er gatan mjög greinileg en frá hólnum og ofan eyðibýlisins Þorbjarnarstaða er hún óljós og hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahúss á vegum álversins). Þar sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra. Mótar enn fyrir því í hraunkantinum þar sem gatan liðast upp á hraunbrúnina.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Gatan sést þar á um 10 m kafla. Kapellan, sem var endurhlaðin klúðurslega á sjöunda áratug 20. aldar, er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna tekur við rutt svæði, en göngustígur liggur um það áleiðis til Hafnarfjarðar. Þegar komið er inn á hraunið á ný sjást vörðubrot. Þeim er fylgt til norðurs uns gatan beygir undir Reykjanesbrautina þar sem hún fylgir hraunlægðum í áttina að hárri vörðu, sem nú er á golfvellinum. Héðan í frá sést ekki móta lengur fyrir gömlu Alfaraleiðinni milli Hvaleyrar og Hafnarfjarðar.

Í ljóAlfaraleiðins hafði komið að leiðin er vel greinileg svo til alla leiðina, vel mörkuð í landið á körflum og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.
Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni.
“Gerði reisti Guðjón Jónsson frá Setbergi um aldamótin 1900. Alfaraleiðin út á Útnes lá svo að segja um túnblettinn. Hann lá yfir Kapelluhraunið, eða Brunann, eins og það var stundum nefnt, síðan lá leiðin áfram, þar til komið er í Brunaskarð vestra. Við hvort skarð eru vörður, er nefnast Stóravarðan eystri og Stóravarðan vestri. Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys. Úr skarðinu liggur alfaraleiðin vestur um Hraunin ofan eða sunnan garðs á Þorbjarnarstöðum. Þegar hér er komið, verður fyrir stígur, er liggur frá Gerðinu, nefnist Gerðisstígur. Lá stígur þessi suður með vesturbrún Brunans.”

Alfaraleið

Alfaraleið sunnan Gerðis – Bruninn framundan.

Gengið var eftir Alfaraleiðinni gömlu frá Gerði þar sem hún kemur niður úr Brunanum sunnan við Hraunshornið, norðan Gerðis, og henni fylgt yfir að brunninum í Brunntjörninni. Flóruð brú liggur út að brunninum, sem er í tjörninni. Þarna var og þvottur þveginn og skammt austar var þvegin ull.
Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða. Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðslur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum. Réttin var fyrrum nefnt Stekkurinn, en eftir að hann var færður út og réttargerði hlaðið norðan við stekkinn, var hann jafnan nefndur Réttin eða Þorbjarnarstaðarétt.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól/-hæð), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum. Við Miðmundarhæðina eru gatnamót götu heim að Þorbjarnarstöðum. Önnur gatnamót eru skammt austar. Mun þar vera um að ræða Skógargötuna frá Straumi er lá upp með vestanverðum túngarði Þorbjarnarstaða. Gránuskúti er þarna skammt sunnar, lítið en einstaklega fallegt fjárskjól frá Þorbjarnarstöðum.
Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu (GS) fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. “Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu. Síðan er þarna kallað Himnaríki.
Þegar kemur vestur úr þessum þrengslum eða skorningum, má finna götu, sem liggur upp á klappir norðan við þær, og liggur gatan austur áleiðis að Þorbjarnarstöðum. Gata þessi nefnist Vetrarleið. Snjóþungt var í AGvendarbrunnurlfaraleið, en snjóléttara hér og því var hún farin á vetrum.
Sunnan í klettahrauni því, sem hér er, vestan Miðmundahæðar (sjá Þorbjarnarstaði), liggur rani fram úr. Á þessum rana er vel hlaðið Skotbyrgi, sem stendur enn. Fjárgata liggur upp úr rétt hjá byrginu. Í skrá G.S. segir, að hér liggi fram úr hrauni þessu Mosastígurinn og Skógarstígurinn frá Þorbjarnarstöðum, en þennan Mosastíg kannast sr. Bjarni og heimildarmenn hans ekki við (sjá Þorbjarnarstaði).” Skotbyrgið sést enn, við vestari Straumsselsstíginn, en er ekki í sjónlínu frá Alfaraleið.
Sunnan við Þorbjarnastaði er Stekkurinn eða Réttin undir háum hraunhól. Hún er vel hlaðin. Í henni er lambakró. Þar er Stekkatún.”
Gengið er þvert yfir vestari Straumsselsstíg að Hæðunum. Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma.
Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.
Varða í DraugadölumÞegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Líklega er hér um misskilning að ræða. Skógargötunnar er getið í lýsingu upp frá Straumi. Þar liggur hún til suðurs vestan túngarðs Þorbjarnarstaða með stefnu upp í Draugahraun. Neðan þess eru gatnamót götu er liggur síðan þvert á Óttarsstaðaselsstíg og áfram upp í Skógarnef. Þessi leið er auðfarin, en ógreinileg vegna gróninga, með föllnum vörðubrotum í fyrstu, en vestan Óttarstaðaselsstígs hafa vörðurnar verið endurreistar og því auðveldara um vik. Líklega er hér um hina eiginlegu Skógargötu að ræða.
Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Leiðin milli Hvassahrauns og Þorbjarnarstaða er 6 km. Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 1 og 1/2 klst.
Frábært veður.

Heimild m.a.:

-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.
-Örnefnalýsing fyrir Straum.
-Gísli Sigurðsson.

Alfaraleiðin

Alfaraleiðin.

Loftskúti

Á korti mátti sjá götu dregna upp frá Hvassahrauni áleiðis upp í Skógarnef. Gatan endar, skv. kortinu, á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots, nokkuð ofan við Lónakotssel. Á þessu korti eru merkin svolítið vestar en á nýrri kortum.
Veturinn að víkja fyrir vorinuÆtlunin var að reyna að skoða hvort þarna marki fyrir leið, og ef svo er, hvert hún liggur og í hvaða tilgangi. Ekki er ólíklegt að um “skógargötu” hafi verið að ræða, líkt og nöfnur hennar frá Óttarsstöðum og Straumi.
Reyndar hafði Eggert Kristmundsson frá Stakkavík (Brunnastöðum) sagt að Skógarnefsskútinn væri “neðan við Nefið og á mörkum”. Þarna gætu leynst, við nánari leit, áhugaverðar minjar!
Þá var  ætlunin að koma við í Hvassahraunsseli og fylgja selsstígnum áleiðis að Hvassahrauni.
Gengið var upp með Virkishólum, Virkið barið augum og götu síðan fylgt upp hraunið til austurs. Stefnan á henni var ofan við Grændali og nokkuð norðan við Hálfnunarhæðir. Legan var áfram upp tiltölulega slétta hraungróninga millum Hvassahraunssel og Lónakotssel, svo til beint á áberandi vörðu á klapparhæð. Við götuna mátti víða sjá litlar mosagrónar vörður, jafnvel einungis einn stóran stein á öðrum jarðföstum eða tvo slíka.
KindÁ leiðinni voru rifjaðar upp örnefnalýsingar af göngusvæðinu.
Ari Gíslason skráði: “Upp af bænum, fast ofan við veginn [neðan núverandi Reykjanesbrautar], eru hólar sem heita Hjallhólar. Þetta eru allfyrirferðarmiklir hraunhólar með sprungum og undir þeim sem er næst vegi er Hjallhólsskúti, er fjárhellir. Svo taka við þar ofar Smalaskáli og Smalaskálahæðir. Á Smalaskála er varða sem blasir mjög vel við af Hjallhólum. Svo er þar austar, upp af Skyggni er fyrr getur, tveir hólar nefndir Virkishólar og milli þeirra er gömul fjárborg sem heitir Virki. Þar upp af er svo hólaklasi sem heitir Brennhólar. Beint upp af Öskjuholti í líkri fjarlægð og Smalaskáli heitir svo Öskjuholtsbruni.
Upp og suður af Öskjuholtsbruna er Jónsvarða, stendur þar á flatri klöpp [áberandi stök varða]. Þar upp af eru svo Grendalir og Grendalahellir er ofarlega í þeim, norður af Brennihólum er fyrr getur. Milli Smalaskála og Brennihóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti. Upp af Grendölum er stakur hóll sem heitir Skuggi. Upp af Brennihólum efst eru Hálfnaðarhæðir, þar hefur verið hálfnað upp í Hvassahraunssel, stórar hæðir tvær. Þar upp og austur af eru Selsskrínshæðir og austur af þeim er Viðunarhóll, þar var skógur. Þessi hóll er austur af Skugga.

Skúti undir vörðu á mörkum Hvassahrauns

Þá er í suðaustur af Selskrínshæðum Hvassahraunssel en það er milli Mosanna fyrrnefndu og Krossstapa en Neðsti-Krossstapi er á merkjum móti Lónakoti og Mið-Krossstapi er hornmark þar sem þrjár jarðir mætast. Krossstaparnir eru í suðaustur frá Skugga.
Upp af Hvassahraunsseli eru Selhæðir, þar austur og upp af er Snjódalaás, allstór ás með stóru keri í sem heitir Snjódalir. Þá beint upp og austur er Skógarnef, þar voru gren, það er hæð upp til fjalls, lyngi og skógi vaxin og nær upp að Búðavatnsstæði, þar er oftast vatn. Upp af því er Markaklettur þar mætast lönd Óttarsstaða og Krýsuvíkur.”
Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar Guðmundar Sigurðssonar má sjá eftirfarandi: “Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi. Suður af þessu svæði er Smalaskáli og Smalaskálahæð. Þar á er varða, Smalaskálavarða. Hún sést vel af Hjallhólum. Í suðaustur frá Skyggni eru þrír miklir klapparhólar, sem heita Virkishólar. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið. Þarna var hrútunum hleypt til ánna um fengitímann. Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla. Norðaustur af  Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir, Grændalahellir, sem er fjárskjól, og Grændalavarða. Upp af Grændölum er hóll, sem nefnist Skuggi.
Heiman úr Tröðum liggur troðningur suður um Hellur, suður á hraunið. Það er Hvassahraunsselsstígur eða Selsstígur. Rúmgott skjól syðst í Skorási, skammt sunnan markaStígur þessi lá áfram suður hraun allt til Krýsuvíkur. Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnar nokkuð Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásum. Veggirnir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af Selinu, og er erfitt að finna það [það er í litlu, grónu jarðfalli, einu af þremur, sem þar eru, skammt austan við rana er liggur niður frá Selásnum].
Sunnan við Rjúpnadalahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta [erfitt er að finna opið því gróið hefur fyrir það, en inni má sjá allmiklar fyrirhleðslur], Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til. Þar suður af eru Höfðar, allgott beitiland. Efst í Höfðunum er Sauðhóll og Sauðhólsskúti eða Sauðhólsbyrgi. Suður af Öskjuholti er svo Jónsvarða og stendur á hraunklöpp.” Þá segir ennfremur: “Þaðan úr Búðarhól liggur línan um Klofningsklett, Skógarnef, Skógarnefsskúta, sem er fjárskjól, og Skógarnefsgren.”
Hér er Skógarnefsskúti sagður á landamerkjum Hvassahrauns og Lónakots/Óttarsstaða, en merki Lónakots ná skammt upp fyrir Lónakotssel. Skútans er ekki getið í örnefnalýsingum þeirra jarða, svo leiða má líkur að því að hann sé inni í Hvassahraunslandi.

Í Hvassahraunsseli

Eftir viðkomu í eiginlegri “Dauðagildru”, þ.e. litlu, en djúpu jarðfalli utan í klapparhæð (ef einhver hæð ætti að fá “Dauða”nafnbótina þá er það þessi staður) milli seljanna þar sem sjá mátti beinagrindur þriggja kinda, lá gatan upp með syðsta hluta mikillar klapparhæðar, þeirri sömu og Skorás er nyrsti hluti af. Undir honum er Lónakotssel. Þarna á hæðinni eru tvær háar vörður, auk selsvörðunnar. Þá eru þrjár minni í réttri röð, í beinni línu á mörkum jarðanna. Stærri vörðurnar tvær höfðu greinilega aðra þýðingu, enda sjást þær mjög langt að þegar komið er upp frá Hvassahrauni, einkum sú syðri. Þegar að var gætt kom ljós önnur lítil varða skammt suðaustan við syðri vörðuna, á brún á stóru, grónu og ílöngu jarðfalli. Við norðvesturenda þess, undir stóru vörðunni, er hið ágætasta fjárskjól. Ekki var að sjá manngerðar hleðslur framan við munnann, en þar er gróinn lyngbakki. 

Gatan, sem rakin var upp að sunnanverðum Skorás

Líklegt má telja að þarna hafi verið fjárskjól og/eða nátthagi og þá sennilega frá Hvassahraunsseli. Örskammt sunnar er stór og rúmgóður skúti með mold í botni – hið besta fjárskjól. Snjór huldi framanverðan innganginn, en aðrekstur að munnanum hefur verið mjög góður þar sem hann er í krika utan við fyrrnefnt jarðfall.
Nyrðri stóra varðan, skammt sunnan við Skorásvörðuna, er einmitt ofan við fjárskjól og nátthaga frá Lónakotsseli.
Haldið var yfir að Hvassahraunsseli, en selsvarðan norðaustan þess sést greinilega þar sem hún stendur við gjásprungu á klapparhæð, Selásnum.
Blankalogn, sól og friður var þarna í selinu þennan vordag. Tóftirnar í selstöðunum tveimur höfðu komið vel undan sjónum og böðuðu veggi sína í sólinni. Tíbráin lá yfir þeim í jarðvarmanum. Við skoðun á hugsanlegri götu upp úr selinu kom í ljós að ein slík liggur upp frá því sunnan við Selásinn áleiðis upp í Mosa. Sennilega hefur gatan, sem liggur framhjá Bögguklettum inn í gegnum Skógarnefið og áfram inn á Óttarsstaðaselsstíg, haft þvergötu sunnan við Skógarnefið er lá niður í Hvassahraunssel ogáfram til bæjar.
Selsstígurinn sést glögglega þar sem hann liggur vestur úr selinu, að Hálfnaðarhæð. Þegar komið er yfir línuveginn verður erfiðara að fylgja stígnum því tveir slíkir koma til greina; annars vegar um Smalaskála og hins vegar sunnan Grændala niður með Virkishólum.
Stök varða er á milli leitanna. Stendur hún á lágri hæð í krika hærri klapparhæðar. Erfitt er að sjá til hvers hún hefur verið hlaðinn, nema ef vera skyldi að greni gæti hafa verið þar í hæðinni. A.m.k. tók hundtík, sem var með í för, viðbragð, brá sér undir eini er slútti yfir skúta og virtist bæði óróleg og leitandi.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.
Virkið

Auðnaborg

Hér verður fjallað um hverfin í “Vatnsleysustrandarhreppi“.  Sögulegt efnið er fengið úr skýrslu Óbyggðanefndar frá árinu 2004 eftir úrskurð nefndarinnar um eignarhald á jörðum í hreppnum. Taka þarf það með fyrirvara.

Brunnastaðahverfi

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í skrá um kvikfé og leigumála á jörðum Viðeyjarklausturs frá árinu 1395 kemur fram að klaustrið á jörð sem kallast Brunnastaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Brunnastaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 fylgdu Brunnastöðum hjáleigurnar Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð, Skjaldarkot, Traðarkot (Fjósahjáleiga), Vesturhús (Stephanarkot), Naustakot, Austurhús og Suðurhús. Fimm síðustu hjáleigurnar voru í eyði þegar Árni og Páll sömdu skýrslu sína. Í greinargerð þeirra stendur eftirfarandi: “Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum. … Lýngrif og hríssrif lítið lángt til að sækja hefur jörðin, og þó ekki fyrir utan stóran ágreining við Vogamenn”.

Brunnastaðahverfi
Árið 1755 létu opinberir aðilar meta jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi. Í skýrslu þeirri sem var unnin um Brunnastaði stóð meðal annars.: “… Jorden fölger Selstade til Malke Qvæget, som Aarligen kand forbruges, mens underrettes at dend er Bleven meget slet, udeen Vand og neppelig Værd med Umage at forbruges. Anden Græsgang eller Fædrift fölger Jorden noget liden, Nemlig i mellem Brynnestad og Woge hvor Torvskiæren haver været hidintil forbrugt,” …. (Með Brunnastöðum eru þá taldar hjáleigurnar Brunnastaðakot, Naustakot, Skjaldakot, Austurkot, Tangabúð og Halakot og 2 – 3 hjáleigur í eyði).
Þann 17. maí 1786 hvarf jörðin Brunnastaðir úr eigu konungs.

Efri-Brunnastaðir

Í kaflanum um Brunnastaði í jarðamati 1804 kemur fram að fylgja hjáleigurnar Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot og Skjaldarkot.
Í kaflanum um Brunnastaði og hjáleigurnar: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot í Jarðamati 1849 – 1850 kemur fram að landrými jarðarinnar sé talsvert.
Landamerkjabréf Brunnastaðahverfis gagnvart Hlöðunesi og Vogum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: Landamerki milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfisins eru úr Markakletti sem stendur ofarlega í fjöru fyrir innan Skjaldakot, uppá uppmjóa þúfu sem stendur á klöpp að innanverðu við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni í laginu sem stendur nokkru ofar, þaðan beina línu norðanhallt við Brunnastaðasel og svo þaðan beina línu til fjalls, svo langt sem Vatnsleysustrandarhrepps er talið. Landamerki milli Brunnastaðahverfisins, Norður- og Suðurvoganna eru: Úr dýpsta ós sem til sjáfar fellur í djúpavogi, uppí vörðu sem stendur fyrir sunnan presthóla, þaðan beina línu í vörðu sem stendur á Hrafnagjá og kölluð er leifur Þórður, þaðan í markhól og þaðan beina línu uppí fjall, svo langt sem Vatnsleysustrandarhreppsland er talið. Undir landamerkjabréfið skrifa Teitur Þórðarson og Björn Einarsson fyrir Hlöðuneshverfi og Klemens Egilsson og Guðm. J. Waage fyrir Norður og Suður–Voga.

Brunnastaðir

Brunnastaðir.

Í köflum þeim sem fjalla um Brunnastaðahverfið124 í fasteignamati 1916–1918 stendur að tún og garðar séu úrskift, en að heiðarland og hagbeit séu í sameign Brunnastaðahverfisjarðanna.
Annað landamerkjabréf er samið fyrir Brunnastaðahverfi árið 1921. Það er undirritað 20. desember það ár og fært í landamerkjabók 7. mars 1922. Þetta landamerkjabréf er aðeins um landið næst bæjunum en ekki heiðarlandið sem er í óskiptri sameign. Í því kemur fram að: “enginn ágreiningur á milli jarða, hvorki með tún- nje fjörumörk. En landamerkji milli „hverfa” vísast til sýslubókanna frá 16. júní 1890; þá gjörð landamerkji milli Voga, Brunnastaða- og Hlöðuneshverfis, eftir samkomulagi þáverandi hlutaðeigenda”.

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

Landamerkjabréfið er vottað af: Ágústi Guðmundssyni, Halakoti, Símoni Símonarsyni, Skólanum, Gísla Eiríkssyni, Naustakoti, Helga Jónssyni og Guðjóni Péturssyni, Brunnastöðum Gunnari Gíslasyni, Skjaldarkoti, Kristjáni Hannessyni, Grund, Þórdísi Guðmundsdóttur, Traðarkoti og Bjargmundi Hannessyni, Suðurkoti.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingar ábúenda eftirfarandi jarða í Brunnastaðahverfi: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri–Brunnastaðir, Efri–Brunnastaðir, Suðurkot I og II, Naustakot og Halakot.

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Í kaflanum um Skjaldarkot segir að landamerkjalýsing sé til og enginn ágreiningur sé um hana.
Samkvæmt skýrslunni um Traðarkot hefur jörðin ekki afréttarland. Hvað landamerki varðar er vísað til þeirrar landamerkjalýsingar sem hefur verið gerð fyrir hverfið í heild sinni.

Brunnastaðir

Brunnastaðir – loftmynd 1954.

Í kaflanum um Austurkot kemur fram að beitiland jarðarinnar sé í meðallagi víðlent. Jörðin á sameiginleg landamerki [með öðrum jörðum Brunnastaðahverfisins] og eru þau ágreiningslaus.
Samkvæmt jarðalýsingu Neðri – Brunnastaða er enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.
Efri – Brunnastaðir hafa í meðallagi víðlent beitiland. Enginn ágreiningur er um landamerki jarðarinnar.

Suðurkot

Suðurkot.

Í skýrslunni um Suðurkot kemur fram að jörðin eigi rétt til upprekstar á landi sem sé í eigu jarðanna í Brunnastaðahverfinu. Enginn ágreiningur er um landamerkin.
Að sögn ábúanda á Suðurkoti II er enginn ágreiningur um landamerki jarðarinnar.
Á meðal þess sem kemur fram í kaflanum um Naustakot er að heiðarland sé í sameign við aðrar jarðir í hreppnum og að landamerki séu ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorðum sem gefin voru út í júní 2004 kemur fram að í Brunnastaðahverfinu séu: Skjaldarkot, Traðarkot, Austurkot, Neðri-Brunnastaðir, Efri-Brunnastaðir, Suðurkot, Naustakot og Halakot.

Hlöðuneshverfi

Hlöðuneshverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Hlöðunes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Hlöðunes í eigu Viðeyjarklausturs.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns árið 1703 segir eftirfarandi um Hlöðunesi: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hlöðunesskinn, og eru þar hagar bjarglegir en vatnsból í lakasta máta, so orðið hefur fyrir vatnsskort að flytja heim úr selinu”.
Hlöðunesi fylgdi hjáleigan Hlöðuneskot.

Hlöðunes

Hlöðunes 1939.

Árið 1755 fór fram mat á jörðum í Vatnsleysustrandarhreppi. Í greinargerðinni sem var skrifuð um jörðina Hlöðunes stóð m.a.: “Selstade op til Fields fölger með Jorden som Aarligen kand Forbruges, Mens Fæedrivt og Græsgang for Heste og Studer meget lidt, undtagen hvis som kand erholdes udi Bermelte Selstade, og ude een Moe Sydvest fra Tunet” …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Hlöðunes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Eigandi hálfs austurhluta Hlöðuness seldi eign sína þann 17. júní 1839.
Samkvæmt afsalsbréfinu þá var hér um að ræða bæ, útmælt tún og túngarð. Í skjalinu kemur einnig fram að eignir og ítök til lands og vatns, sem eru tún og úthagar til fjalls og fjöru, og veiða- og rekahlunnindi hafi fylgt með í sölunni.

Hlöðunes

Hlöðunes – túnakort 1919.

Í Jarðamati 1849 – 1850 stendur eftirfarandi um jörðina Hlöðunes og býlin Hlöðuneskot og Vesturkot: “Sumar- og vetrarbeit allgóð í óskiptu landi utangarða”.
Þann 25. nóvember 1869 seldi eigandi Hlöðuneskots bóndanum á Minni–Vatnsleysu jörðina. Í afsalsbréfinu kemur fram að jörðin er seld með: “öllum þeim húsum og byggingum, eignum og ítökum, til sjós og lands, er … fylgt hefur og fylgja ber til ystu ummerkja, að afsöluðum öllum óðals og innlausnarrjétti frá minni og erfingja minna hálfu” … .

Hlöðunes

Hlöðunes.

Landamerkjabréf Hlöðunesshverfis gagnvart Brunnastöðum og Ásláksstöðum var undirritað 22. maí 1890. Bréfið var þinglesið 16. júní 1890: “Milli Hlöðunes og Brunnastaðahverfa: frá svokölluðum markakletti, sem stendur ofarlega í fjöru skammt fyrir innan Skjaldakot beina línu uppí uppmjóa þúfu er stendur á klöpp innan vert við túngarðinn í Skjaldakoti, þaðan beina línu í aðra þúfu líka hinni síðastnefndu í laginu, sem er nokkrum föðmum ofar og þaðan beina línu norðanvert við Brunnastaðasel til fjalls svo langt, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Milli Hlöðunes og Ásláksstaðahverfis frá ós þeim sem lengst skerst uppí land innúr svokölluðu Álfasundi, þaðan beina línu í svokallaðan Álfhól, þaðan beina línu í hól sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli, þaðan beina línu sunnan til við Ásláksstaðaholt uppí Hrafnshóla og þaðan beina línu sunnan til við gamla Hlöðunes<s>el til fjalls svo langt sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær”. Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eigendum og ábúendum Brunnastaðahverfis og Ásláksstaðahverfis.

Hlöðunessel

Hlöðunessel.

Í þeim hluta fasteignamats Gullbringu- og Kjósarsýslu 1916 – 1918 sem fjallar um jörðina Hlöðuness er að finna landamerkjalýsingu fyrir hverfið. Hún er samhljóða þeim hluta landamerkjabréfsins frá 22. maí 1890 sem fjallar um landamerki milli Hlöðuness og Brunnastaðahverfa. Í köflunum um Hlöðunes og býlin Halldórsstaði og Narfakot í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit í félagi.

Narfakot

Narfakot – Altlagerðistangaviti fjær.

Í upphafi þriðja áratugar síðustu aldar var samið annað landamerkjabréf fyrir Hlöðuneshverfi sem nær til túna og fjöru. Það var undirritað 27. desember 1921 og innritað í landamerkjabók 12. janúar 1922. Þar kemur m.a. fram að: Landamerkjalýsing þessi innibindur Hlöðuneshverfi í Vatnsleysustrandarhreppi; Hlöðunes, Halldórsstaði, Narfakot og Miðhús, sem takmarkast af Brunnastaðahverfi að sunnan og Ásláksstaðahverfi að norðan (innan) samkvæmt landamerkjalýsing útgefin og þinglesinni 1890 og athugasemdarlaust undirskrifaðri af öllum hlutaðeigendum, bæði hvað fjöru og heiðarmörk snertir en áðurnefnd merkjalýsing, tekur ekki neitt til um túnmörk innan hverfis, en þau eru sem hjer segir: …Eigendur Halldórsstaða og Miðhúsa auk eiganda Hlöðuness og umboðsmanns eiganda Narfakots skrifuðu undir landamerkjabréfið.
Í Fasteignamati 1932 er að finna lýsingar á jörðum í Hlöðunesshverfi: Halldórsstöðum, Narfakoti og Hlöðunesi. Í skýrslunni um Halldórsstaði segir að heiðarland sé óskipt og að landamerki jarðarinnar séu ágreiningslaus og þinglesin.

Ásláksstaðahverfi

Ásláksstaðahverfi
Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Ásláksstaðir.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Stóru– og Minni–Ásláksstaðir í eigu Viðeyjarklausturs.
Ásláksstaðahverfið var metið árið 1703. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að Stóru Ásláksstaðir eigi hjáleiguna Atlagerði. Þar stendur einnig eftirfarandi: “Selstöðu á jörðin frí þar sem heita Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta en vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin i almenningum frí”.
Í greinargerð sem var unnin um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 eru kaflar um bæði Stóru– og Minni–Ásláksstaði. Um Stóru – Ásláksstaði segir m.a.: “… Selstade Fölger Jorden som Aarlig kand forbruges, mens Græsgang og Fædrift til liden nytte, uden hvis som er at faae paa bemelte Selstade” …

Knarrarnessel

Ásláksstaðasel í Knarrarnesseli. Uppdáttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Minni–Ásláksstaði stendur m.a.: “… Selstade til Malke Qvæg fölger Jorden som Aarligen forbruges, Mens Græsgang eller Fædrivt icke meget andet end som paa Berörte Selstade og hvad der kand være i fælles. Fædrivten med Store Axlestade efter foranförte,” …
Jörðin Ásláksstaðir hvarf úr eigu konungs þann 7. ágúst 1813.
Eitt af því sem sagt er um Innri – Ásláksstaði í Jarðamati 1849-1850 er: “Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi”.
Í Fasteignamati árins 1849 segir um Ytri – Ásláksstaði: “Utangarða óskipt lóð”.
Í þeim köflum í fasteignamati 1916 – 1918 sem fjalla um jarðirnar í Ásláksstaðahverfinu, Ytri – og Innri Ásláksstaði og Sjónarhól, kemur fram að tún og matjurtagarðar þeirra séu úrskipt en að heiðarland og hagbeit séu í sameign jarðanna þriggja.

Móakot

Móakot og Móakotsbrunnur.

Landamerkjabréf Ásláksstaðahverfis var undirritað 31. desember 1921. Bréfið var fært í landamerkjabók Gullbringu- og Kjósarsýslu þann 7. mars 1922: Landamerkjalýsing þessi, innibindur Ásláksstaðahverfi en það eru þessar jarðir og býli: Sjónarhóll, Innri – Ásláksstaðir, Hallandi (Nýjibær), Ytri-Ásláksstaðir og Móakot. Ásláksstaðahverfi, tilheyrir land alt, girt og ógirt á milli Hlöðunes-hverfis, að sunnan og Knarraness að innan, svo langt til heiðar eða fjalls, sem land Vatnsleysustrandarhrepps nær. Að sunnan, milli Hlöðuneshverfis annarsvegar og Ásláksstaðahverfis hinsvegar (að innan) eru þessi landamerki: Álfasund frá ós þeim sem lengst skerst uppí land, úr Álfasundi og ræður framhald á þeim ós einnig mörkum á milli hverfanna, alla leið til sjáfar fram um fjöru; í Álfshól beina stefnu í Hól, sem stendur fyrir sunnan Arnarbæli sunnan til við Ásláksstaðaholt í Hrafnshóla sunnan til við gamla Hlöðunes<sel> til fjalls. Að innan, milli (Sjónarhóls) Ásláksstaðahverfis að sunnan og Knarrarness að innan, eru þessi landa- og fjörumerki: úr ós upp eftir fjöru í klöpp er liggur í svonefndum girðingum hjer um bil til miðsvæðis ofan til við flæðarmál, þaðan sunnantil við svo nefnda Digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt þaðan í Eldborgargreni, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digruvarða og Knarrarnesholt eru sjest þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Austast í Ásláksstaðahverfi að Knarranesmörkum innan girðingar og fjöru liggur:

Ásláksstaðir

Sjónarhóll. Ásláksstaðir og Móakot fjær.

1. Sjónarhóll: Tún hans takmarkast af heiðargarði, alla leið frá túni Ytri-Ásláksstaða og austur að garði þeim er liggur í norður, fyrir austurkanti Sjónarhóls-túns á milli þess og girðinga þeirra, er honum tilheyra og eru þar heiðar og sjáfarmegin afgirtar með görðum og gaddavír og ná næstum, þó ekki alveg að mörkum Knarrarrnes og Ásláksstaðahverfis. Austast í girðingum þessum er nýbýlið Garðhús með þurrabúðar útmæling; matjurtagarð á býli þetta fyrir neðan eða sjáfarmegin við girðingarnar og annan fyrir ofan þær, lóð býlis þessa er eign Sjónarhóls ásamt girðingunum. Að norðan liggur tún Sjónarhóls alt að sjó; að vestan takmarkast það af grjótgarði, sem er á milli Hallanda og Sjónarhólstúns og liggur hann að austurhorni á matjurtagarði þeim, sem er eign Ytri – Ásláksstaða, eftir garðsvegg þessum meðan hann nær yfir Traðargötu á milli bæanna eftir vírgirðingu, sem kemur dálítið vestar, en í beinni línu eftir þeim mörkum sem áður er lýst og liggur með dálitlum boga, út að heiðargarði túnanna, í stóran stein merktan M. … … [Framhaldslýsingar eiga eingöngu við heimalönd innan garðs.] …Utangarðs er heyðarland alt óskift og tilheyrir eftir hundraðshlutföllum innanhverfis. Þess skal loks getið að árið 1918 var selt með samningi útgefnum og þinglesnum það ár lóðarspilda undir vitanum og í kringum hann.
Þetta landamerkjabréf er vottað af bændunum á Knarrarnessbæjunum að áður sé lesið milli hverfa.

Ásláksstaðir

Nýibær (Hallandi).

Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingar ábúenda Sjónarhóls, Ytri–Ásláksstaða, Nýjabæjar og Móakots.
Í skýrslunni um Sjónarhól kemur fram að beitiland býlisins sé frekar þröngt en skjólgott. Sjónarhóll hefur allt sitt upprekstrarland á heimalandi. Landamerki jarðarinnar eru óumdeild.
Í svörum ábúanda á Ytri–Ásláksstöðum kemur fram að landamerkin séu ekki vafalaus.
Í spurningalistanum sem ábúandi á Nýjabæ fyllti út kemur fram að beitiland Nýjabæjar sé víðlent og að landamerkjalýsing sé til.
Að sögn ábúanda í Móakoti eru landamerki ágreiningslaus.
Í þinglýsingarvottorði frá 26. maí 2004 kemur fram að Sjónarhóll sé í eigu nokkurra aðila..
Þann 14. júní 2004 var gefið út þinglýsingarvottorð fyrir jörðina Ásláksstaði.

Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var Knarrarnes.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Stóra– og Minna–Knarrarnes í eigu Viðeyjarklausturs.
Lagt var mat á Knarrarnesjarðirnar árið 1703. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi um Litla – Knarrarnes: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Knararness sel, og eru þar hagar í lakasta máta, en vatnsból brestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar á jörðin frí í almenningum”.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæði. Selstaðan ofar.

Í kaflanum um Stóra–Knarrarnes kemur eftirfarandi fram: “Selstaða þar sem heitir Knararness sel; eru hagar litlir mjög, en vatnsskortur til stórmeina, so að selstöðuna hafa menn næsta því forlátið, og kaupir bóndinn nokkrum sinnum selstöðu í fjarlægð. Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum”.
Eftirfarandi texta er að finna í mati sem unnið var um býlið Stóra–Knarrarnes árið 1755: “Selstade Fölger som Aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift til liden nytte undtagen Bemeldte Selstade, Hvor udjnden der er störste mangel paa Huusse og Höe Torv Skiæren uden giærde”…
Í ritinu Jarðatal á Íslandi, eftir J. Johnsen, kemur fram að konungsjörðin Stærra–Knarrarnes hafi verið seld þann 19. apríl 1837.
Þann 13. júní 1838 hvarf jörðin Minna – Knarrarnes úr eigu konungs.
Í umfjölluninni um Stóra – Knarrarnes í Jarðamati 1849 – 1850 kemur m.a. fram að: “Hagbeit sumar og vetur rír í óskiptu landi utangarða”. …

Minna-Knarrarnes

Minna-Knarrarnes.

Í kafla þeim sem helgaður er Litla–Knarrarnesi í Jarðamati 1849 – 1850 stendur m.a. að: “… Sumar og vetrarbeit lítil í óskiptu landi utangarða”. … Landamerkjabréf Knarrarness var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar:
Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Stóra-Knararnes og Minna-Knararnes og eru mörkin þessi:
1. Að austanverðu milli Stóra – Knararness að vestan og Breiðagerðis að austan: Frá Selskeri sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings, upp eptir maðkasandinum, í Duggusker, þannig, að tveir þriðjungar þess eru eign Stóra – Knararness; þaðan í neðri enda svo nefnds Merkjagarðs, er liggur fyrir austurenda Stóra–Knararnesstúns, og er garður þessi í mörkum það sem hann nær, upp að túngarði; þaðan í nyrðri (eystri) Geldingahól, þaðan um nyrðri Keilisbróður beint að landi Krýsivíkur.
Einungis frá þeim enda Merkjagarðs, er til heiðar snýr, er heiðin óskipt land, er eigendur Knarrarnesja eiga saman eptir jarðarhundraða tiltölu. En túnmörkeru:
a) milli austurparts og vesturparts Stóra–Knarrarness: Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur á Knarranesshöfða er bera skulu hvora í aðra og þá eptir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eptir tröðinni út að túngarðahliði.
b) Milli Stóra – Knarrarness og Minna – Knarrarness. Úr syðra parti Vörðuskers (2/3 þess er eign Stóra–Knarrarness) beint eptir fjörunum í Markaklöpp; þaðan í Krosshóla í túni, og eptir garðlagi því, er þaðan liggur suður og upp tún út að túngarði.

Eldborgargren

Eldborgargren.

2. Að vestanverðu milli Knarrarness og Ásláksstaða: Úr ós eptir fjöru í Klöpp, er liggur í svo nefndum girðingum hjer um bil miðsvæðis, ofan til við flæðarmál, þaðan sunnan til við svo nefnda Digruvörðufyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarranessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnanhöll við markalínuna að Digravarða og Knarrarnessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá Klöppinni í Eldborgargren. Bréfið var samþykkt af fjórum mönnum, eigendum Breiðagerðis og Innri-Ásláksstaða.
Í lok bréfsins bæta eigendur vesturparts Stóra Knarrarness og ¾ Minna Knarrarness við athugasemd: “Við Sigurður Gíslason og Stefán Jónsson erum samþykkir mörkunum að sunnan, en ekki að innan”.
Í kaflanum um Minna – Knarrarnes í Fasteignamati 1916 – 1918 koma fram upplýsingar um landamerki: “Landamerki milli Áslaksstaða og Knarrarnes eru við sjó er steinn á Klapparhorni við svonefndar girðingar í svokallaðan Markhól þaðan beina línu til heiðar í stóra hrút fyrir norðan Hagafell þaðan norður í Litla-Hrút, þaðan í innri Geldingahól, þaðan niður í merkisgarð, þaðan í svonefndan Selastein í fjöru”.
Í köflunum um Minna – Knarrarnes og hinar tvær jarðirnar í Knarrarneshverfinu, Stóra–Knarrarnes (tvær hálflendur með sama nafni) í sama riti kemur fram að tún og matjurtagarðar séu úrskift en heiðarland og hagbeit séu í félagi jarðanna þriggja.

Eldborg

Eldborg ofan Knarrarnessels.

Í maí 1920 gáfu nokkrir aðilar út yfirlýsingu um afnot á hluta lands Knarrarness: “Vjer undirritaðir eigendur og ábúendur jarðanna: Knarrarnes, Breiðagerði, Auðnar, Landakot, Þórustaðir og Kálfatjörn, allar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, lýsum því yfir með skjali þessu að vjer í samráði við hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps, fyrirbjóðum innbyggendum Grindavíkurhrepps, innan Gullbringusýslu, öll afnot af landi því, er, samkvæmt landamerkjalýsing fyrir Knarranesi, þinglesin á manntalsþingi Vatnsleysustrandar- og Grindavíkurhrepps 1887, sem eru: „Þaðan sunnan til við svonefnda digruvörðu fyrir sunnan Hellur (bæinn) beint í Knarrarnessholt sunnanhalt, þaðan í Eldborgargren, þaðan beint í Krýsuvíkurland. Hversu sunnahöll við markalínuna að Digurvarða og Knarranessholt eru, sjest, þegar bein lína er dregin frá klöppinni (í fjörunni) í Eldborgargren….””

Stóra-Knarrarnes

Stóra-Knarrarnes.

Allt það land sem fyrir innan þessa línu er, eða er milli hennar og Krýsivíkurlands, teljum vjer eign áðurnefndra jarða sbr. landamerkjalýsingar fyrir öllum áðurnefndum jörðum, þinglesnar á báðum stöðunum 1886 og 1887 og undirskrifaðar af Árna sál. Gíslasyni í Krýsuvík 1891. Undir þessa yfirlýsingu skrifa; Sæmundur Kr. Klemensson fyrir hönd skólanefndarinnar, eigendur Knarrarnesjanna, umboðsmaður alls Breiðagerðisins og viss hluta Auðnahverfis, Þórarinn Einarsson [Bergskoti], Benedikt Þorláksson [Höfða], eigandi nokkurs hluta Þórustaða og hreppsnefndaroddvitinn.

Stóra-Knarrarnes

Tóftir Stóra-Knarrarness.

Þann 31. maí 1920 var haldið manntalsþing í Grindavíkurhreppi. Á því þingi mótmælti Hafliði Magnússon, bóndi á Hrauni, landamerkjalýsingu fyrir Auðnahverfi í Vatnsleysustrandarhreppi, dagsettri 12. júní 1886, og yfirlýsingu um landamerki fyrir jarðirnar Knarrarnes, Breiðagerði, Auðna, Landakot, Þórustaði og Kálfatjörn sem gefin var út í maí 1920, en þessi skjöl voru þinglesin á manntalsþinginu. Hafliði greindi einnig frá því hver hann teldi landamerki Hrauns og Þórkötlustaða þar sem þau liggja að landi Strandahrepps eiga að vera: “Lína tekin úr Sogaselsdal beint vestur í Kálffell og þaðan beina línu í þúfuna á litla Skógfelli”. Fram kom í máli Hafliða að þessum landamerkjum hefði áður verið lýst á manntalsþingi í Grindavík hinn 12. október 1889.
Í fasteignamati 1932 er að finna jarðalýsingu ábúenda á eftirfarandi jörðum í Knarrarneshverfi; Stóra–Knarrarnes I, Stóra–Knarrarnes II (Austurbær) og Minna–Knarrarnes.
Að sögn ábúanda á Stóra–Knarrarnesi er beitilandið víðlent. Hann greinir einnig frá því að jörðin eigi sameiginlegt beitiland við hálflenduna [Stóra–Knarrarnes II] og Minna–Knarrarnes. Einnig nefnir hann að landamerki séu þinglesin og enginn ágreiningur sé um þau.
Samkvæmt upplýsingum ábúanda á Stóra–Knarrarnesi II (Austurbæ) er beitiland býlisins nægilegt. Einnig nefnir hann í skýrslu sinni að jörðin eigi rétt til upprekstrar í afrétt. Landamerki jarðarinnar eru ágreiningslaus.
Í svörum ábúanda á Minna – Knarrarnesi kemur fram að beitilandið sé fremur þröngt.
Af þinglýsingarvottorðum dagsettum 15. og 21. júní 2004 má ráða að í Knarrarnestorfunni séu; Minna–Knarrarnes, Stóra–Knarrarnes I og Stóra–Knarrarnes

Breiðagerði

Breiðagerði

Breiðagerði – túnakort 1919.

Þann 9. september 1447 seldi Viðeyjarklaustur fjórar jarðir. Kaupandinn greiddi fyrir þær með fjórum jörðum er voru í hans eigu. Ein þeirra jarða sem klaustrið eignaðist í þessum viðskiptum var jörðin Breiðagerði.
Þann 13. september árið 1500 áttu sér stað eigendaskipti á jörðinni Breiðagerði. Henni fylgdu öll gögn og gæði.
Viðeyjarklaustur eignaðist jörðina aftur 30. maí 1501.
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 var Breiðagerði í eigu Viðeyjarklausturs.
Árið 1703 var jörðin Breiðagerði metin. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir Selstöðu brúkar jörðin þar sem kallað er Knararness sel, eru þar hagar mjög litlir og vatnsbrestur til stórmeina. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin frí í almenningum.

Breiðagerði

Tóft við Breiðagerði.

Í opinberri skýrslu sem gerð var um jarðir í Vatnsleysustrandarhreppi árið 1755 stendur eftirfarandi um býlið Breiðagerði: “… Selstade Fölger Jorden som aarlig forbruges, Mens Græsgang og Fædrift undtagen bemelte Selstade icke til nogen betydelig nytte, hvoraf flyder huse og Höe torves Mangel”…
Í Jarðamatinu 1849 – 1850 segir m.a. um jörðina Breiðagerði: “Hagbeit sæmileg sumar og vetur í óskiptu landi utangarða”. …
J. Johnsen minnist á það í bók sinni, Jarðatal á Íslandi, að konungsjörðin Breiðagerði hafi verið seld þann 2. maí 1827.

Breiðagerði

Breiðagerðishverfið.

Landamerkjabréf Breiðagerðis var undirritað 11. júní 1886 og þinglesið fjórum dögum síðar: Landamerkin eru þessi: Breiðagerði tilheyrir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjáfar milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Stóra–Knarrarness að sunnanverðu. Landamerkin eru þessi:
1. Milli Bergskots, Höfða og Auðna að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu: Lendingarósinn, sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis, sunnanvert við Bláklett, sem er hár klettur fyrir norðan og utan Bergskots-lendinguna. Frá flæðarmáli til heiðar liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti, norðanvert við efri Sundvörðuna um Þúfuhól þann, er hún stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið Hól; þaðan eptir vörðum upp heiðina, milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, allt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Ásláksstaðasel

Ásláksstaðasel.

2. Milli Stóra – Knaraness að sunnanverðu og Breiðagerðis að norðanverðu eru þessi landamerki: Selsker, sem er lítið sker milli skerjanna Söðuls og Þríhyrnings; þaðan upp eptir maðkasandinum í sprungu, sem er nokkru norðar en í miðju Dugguskeri, sem er stórt sker á sandinum milli Knaraness og Breiðagerðis: – Stóra–Knararnesi tilheyrir því tveir þriðjungar af Dugguskeri, en Breiðagerði einn þriðjungur. Úr þessari sprungu liggja mörkin beint í litla klöpp, sem er í flæðarmáli við neðri enda merkjagarðsins, er liggur fyrir austurenda Stóra – Knararnesstúnsins frá sjó upp að túngarði, og eptir þessum merkjagarði meðan hann nær til, en frá efri enda hans liggja mörkin í nyrðri Geldingahól; þaðan í nyrðri Keilisbróðir og eptir þeirri stefnu alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.
Landamerkin eru samþykkt af eigendum Auðnahverfis og umráðamanni Stóra-Knarrarness.

Breiðagerði

Breiðagerði – innsiglingarvarða ofan við vörina.

Í kaflanum um Breiðagerði í fasteignamati 1916 – 1918 stendur að heiðarland og hagbeit séu í félagi við nágrannajarðir.
Í fasteignamati 1932 er að finna lýsingu ábúanda Breiðagerðis á jörðinni. Í henni kemur fram að tún eru girt af með grjótgarði og beitiland með gaddavír. Þar stendur einnig að jörðin eigi óskipt beitiland og að þar sé talsvert af grjóti sem nota megi sem byggingaefni. Landamerki Breiðagerðis eru ágreiningslaus. Jörðin fylgir Auðnum.
Vatnsleysustrandarhreppur seldi Hitaveitu Suðurnesja land ofan Vatnsleysustrandarvegar (gamla þjóðvegarins) sem tilheyrt hafði jörðinni Breiðagerði þann 1. september 2004. Landið afmarkaðist af Knarrarnesi til suðvesturs, Auðnahverfi til norðausturs, en heiðarmörk til suðausturs liggja móti landi Krýsuvíkur.

Auðnahverfi

Vatnsleysubæir
Samkvæmt fógetareikningum frá 1547 – 1548 voru Auðnir í eigu Viðeyjarklausturs.
Auðnir voru metnar árið 1703. Þeim fylgdu hjáleigurnar Auðnahjáleiga, Lönd, Hjáleiga og Hólmsteinshús. Í Jarðabók Árna og Páls stendur eftirfarandi: “Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem kallað er Auðnasel, þar eru hagar nýtandi, en vatnsskortur til stórmeina margoft. … Skóg til kolgjörðar brúkar jörðin í almenningum”.
Í Jarðabókinni kemur fram að jörðin Landakot sé hálflenda Auðna og er selstaða ekki nefnd við þá jörð.
Árið 1755 var lagt mat á jörðina Auðna. Í þeirri úttekt kom m.a. fram að: “Jorden Fölger Selstade sem Aarlige Forbruges, mens udmark meget slet hvoraf fölger Torveskiærs Mangel at dæcke med Husse og Höe, hvis Aarssage Torvet er skaaren jnden Gierdes Tunet til Störste Bedervelse”… Í jarðamati árið 1804 kemur fram að Auðnum fylgir hjáleigan Auðnakot.
Jörðin Auðnar hvarf úr eigu konungs þann 19. apríl 1837.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Í kaflanum um Auðna, með hjáleigunni Bergskoti, í Jarðamati 1849-1850 kemur m.a. eftirfarandi fram: “Nokkur hagbeit sumar og vetur í óskiptu landi utangarða”.
Landamerkjabréf Auðnahverfis var undirritað 12. júní 1886 og þinglesið þremur dögum síðar: Landamerkjalýsing þessi innibindur jarðirnar Auðna (norður- og suður-part heimajarðarinnar), Höfða og Bergskot. Eiga þessar jarðir land allt með gögnum og gæðum til lands og sjávar milli Landakots að norðanverðu og Breiðagerðis að sunnanverðu. Fjörunni er skipt í spildur með hverri jörð fyrir sig; sömuleiðis eru tún jarðanna aðgreind hvert frá öðru, ýmist með grjótgörðum eða járnþráðargirðingum, en heiðarland allt milli Landakots og Breiðagerðis tilheyrir þessum þrem jörðum sameiginlega og ber hverri jörð af því eptir hundraðatölu hennar.

Höfði

Höfði.

1. Að norðanverðu milli Auðnahverfis og Landakots eru landamerki þessi: Fyrir neðan flæðarmál: Markaós, sem er austasti ósinn, er skerst inn úr aðalós þeim, er liggur inn á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti tilheyrir og um krók þann, er sjávargarðar Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast; þaðan eptir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots, þaðan um Brunnhóla eptir grjótgarði; þaðan eptir gömlu torf-garðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eptir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu; þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðna – Klofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eptir þeirri stefnu spölkorn fyrir sunnan Keilir allt að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnar

Auðnar – túnakort 1919.

2. Að sunnanverðu milli Auðnahverfis og Breiðagerðis eru þessi landamerki: Lendingarósinn sem liggur út frá lendingum Bergskots og Breiðagerðis fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eptir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól þann, sem efri Sundvarðan stendur á, skammt fyrir austan tómthúsið „Hól”. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eptir vörðum upp heiðina milli Auðna – Klofninga og Breiðagerðis – Skjólgarðs spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir (Litla hrút) alla leið að landi Krísivíkur í Þetta landamerkjabréf var samþykkt af eiganda Landakots.
Í fasteignamati 1916 – 1918 er greint frá landamerkjum Auðna: Landamerki að sunnan við Auðnahverfi er norðan við Breiðagerði. Lendingarósinn sem liggur út frá lendingu Bergskots og Breiðagerðis, fyrir sunnan Bláklett. Frá flæðarmáli liggja mörkin eftir beinni stefnu úr Blákletti í Þúfuhól, þann sem efri sundvarðan stendur á, skamt fyrir austan tómthúsið Hól. Úr Þúfuhól þessum liggja mörkin beint eftir vörðum upp heiðina milli Auðnaklofninga og Breiðagerðis-skjólgarðs, spölkorn fyrir norðan nyrðri Keilisbróðir, Litla hrút alla leið að landi Krýsivíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnaborg

Auðnaborg.

Að norðanverðu við Auðnahverfi og milli Landakots eru mörkin þessi. Fyrir neðan flæðarmál Markaós, sem er austasti ósinn, skerst innúr aðalós þeim, er liggur á milli Landakotstanga og Sílalónsskers. Fyrir ofan flæðarmál eru mörkin við suðurenda stakkstæðis, sem Landakoti til heyrir og um Krók þann, er sjávargarður Landakots og Auðna mynda, þar sem þeir mætast. Þaðan eftir járnþráðargirðingu í syðsta horn á sjávarkálgarði Landakots; þaðan um Brunnhóla eftir grjótgarði; þaðan eftir gömlu torfgarðlagi og járnþráðargirðingu um sunnanverðan Landakotshól; þaðan út að túngarði eftir gömlu grjótgarðlagi og járnþráðargirðingu. Þaðan um Skálholt sunnanvert og um sunnanverða Auðnaklofninga yfir Stórhæð; þaðan í Klofa og eftir stefnu þeirri, spölkorn fyrir sunnan Keilir, alt að landi Krýsuvíkur í Grindavíkurhreppi.

Auðnasel

Auðnasel.

Í sama riti kemur fram að býlin í Auðnahverfi, Auðnir, Bergskot og Höfði, hafa sameiginlegt heiðarland og hagbeit.
Í kaupsamningi sem gerður var 1. nóvember 2001 var hluti Bergskots og Höfða í óskiptri sameign Auðnahverfis (Auðnir ekki aðilar samnings) seldur Hitaveitu Suðurnesja. Hið óskipta land markast af merkjum Landakots að norðan, Breiðagerðis að sunnan og Krýsuvíkur að austanverðu (suðausturátt). Að vestanverðu af Reykjanesbraut.
Í þinglýsingarvottorði fyrir Auðna, dagsettu 15. júní 2004, kemur fram að úr landi Auðna hafa verið seldar eða leigðar lóðir undir loðdýrabú og sumarbústaði. Jörðin virðist að öðru leyti haldast.

Sjá meira um hverfin á Vatnsleysutrönd HÉR.

Heimild:
Úrskurður Óbyggðanefndar 2004 – Grindavík og Vatnsleysuströnd.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

 

Hraunsnes

Gengið var frá gömlu Hvassahraunsréttinni vestan Skyggnis, niður hraunið að ströndinni og henni síðan fylgt til austurs um Stekkjarnes og með Hvassahraunsbót að Markakletti. Þaðan var gengin bein lína yfir að upphafsstað, áfram að Hjallhólaskúta og síðan haldið yfir Reykjanesbrautina að Strokkamelum og brugghellinum.

Hvassahraun

Hvassahraun – gerði.

Þá var gengið til baka yfir brautina áleiðis að Fögruvík skammt vestar og skoðað hlaðið gerði skammt vestan hennar.
Skammt norður undan hól vestan við Skyggni er gamla Hvassahraunsréttin, fallega hlaðin í hraunkvos. Girðingin, sem liggur frá henni til norðurs, eða öllu heldur undirhleðslan, endar niður við sjó skammt austan við Stekkjarhól. Austan undir hólnum eru hleðslur. Gengið var austur með ströndinni, Hvassahraunsbót. Gatan er að mestu gróin og auðvel yfirferðar. Grjótkampurinn er mikið til sérkennilegt grágrýti, sem ber þess glögg merki að hafa storknað í sjó. Eftir u.þ.b. hálftíma göngu skipti um.

Hraunsnes

Hraunsnes-rétt.

Framundan var nokkuð langur, grasi gróinn, tangi, Hraunsnes. Framan við hann voru falleg vatnsstæði. Inn á nesinu er hlaðið fjárskjól. Svæðið ber með sér að þarna hafi verið beitt á árum áður. Haldið var áfram austur með ströndinni. Framundan sást Markaklettur þar sem hann stóð upp úr hrauninu næst sjónum. Kletturinn er landamerki Hvassahrauns og Lónakots. Gömul girðing liggur upp frá honum áleiðis að Skógarhól og síðan áfram upp í Rjúpnadalahraunið. Ofan Markakletts eru tveir staurar og hefur hlið verið á milli þeirra.
Gengið var til baka suðvestur með stefnu suður fyrir Hvassahraun.

Hvassahraun

Hvassahraun – nú horfið.

Ekki er mikið vitað um ábúendur í Hvassahrauni fyrr á öldum, en þó er vitað að árið 1786 bjuggu þar Þorbjörn Jónsson, fæddur 1739, og kona hans Anna Magnúsdóttir, fædd 1734. Líklega hafa þau búið um tíma í Krýsuvík en með vissu eru þau farin að búa í Hvassahrauni 1786. Þau munu hafa komið austan úr Skaftafellssýslu í Skaftáreldum. Þau eru búandi þar í manntalinu 1801.

Þegar gengið er í gegnum annars gróið hraunið er ljóst að talsvert kjarr hefur verið í því fyrrum. Nú hefur berlega komið í ljós hversu vel kjarrið hefur tekið við sér eftir að fé á svæðinu hefur dregið sig til hlés.

Hrístóur

Stígur um Hrístóur í Afstapahrauni.

Árið 1703 var t.d. hrísrif á heimalandi Hvassahrauni og var það einnig notað í heyskorti. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, 1703, eru talin upp hlunnindi jarða, þar á meðal skógarhögg til kolagerðar. Við lauslega athugun teljast sjötíu og sjö jarðir í sýslunni eiga skógarhögg á almenningum. Ekki liggur ljóst fyrir hvar þessir almenningar hafa verið. Þó er örnefnið til á milli Kapelluhrauns og Afstapahrauns. Af orðalagi má þó ráða, að með almenningum sé stundum átt við uppland, þar sem landamerkjum jarða sleppir. Í Álftanes- og Seltjarnarneshreppi er talað um einn eða tvo hríshesta (hestburði) á hverja jörð, en sunnar á Reykjanesinu er ekki talað um slíkar takmarkanir. Við upphaf nútíma fyrir um 10 þúsund árum var öðruvísi um að litast en nú á ströndinni frá Straumsvík vestur að Kúagerði.

Hraun - aldur

Hraun á Reykjanesskaga.

Á síðasta jökulskeiði lá jökulfargið meira og minna yfir Reykjanesskaga, en hafði að því er virðist ekki áhrif á gosvirknina. Stundum náðu hraunin að dreifa úr sér þegar íslaust var, en stundum gaus undir ísnum og gosefnin hlóðust upp í geilinni sem þau bræddu, hörðnuðu þar og urðu að móbergi. Sum hraun sem náðu að renna og dreifast hurfu alveg undir önnur nýrri. Það elzta sem sést á yfirborði í námunda við þetta svæði er Búrfellshraun, sem rann fyrir um 7.300 árum og Norðurbærinn í Hafnarfirði er byggður á.

Fyrir um 5000 árum varð mikið gos í Hrútagjá, nyrst í Móhálsadal, milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls. Hraunið, sem kennt er við Hrútagjárdyngju, rann til sjávar og myndaði svæðið vestan við Straumsvík þar sem Hraunabæirnir voru byggðir, nærri 4000 árum síðar.

Afstapahraun

Í Afstapahrauni.

Afstapahraun er síðari tíma hraun eins og Kapelluhraunið austar. Hraunið undir landi Hraunabæjanna hafði góðan tíma til að gróa upp áður en nokkur lifandi skepna gekk um það og myndaðist víða kjarr í því, eða skógur, sem eyddist af rányrkju á öldum fátæktarinnar.

Hin reglubundna goshrina, sú síðasta, fór hinsvegar í gang fyrir um 1000 árum; Ísland þá búið að vera numið á aðra öld og ef til vill enn lengur. Þá rann Hellnahraunið yngra, sem svo er nefnt, frá Tvíbollum í Grindaskörðum og náði einn hraunstraumurinn langleiðina til Straumsvíkur, en óvíst er að nokkur bær hafi þá verið í Hraununum; elztu heimildir um byggð þar eru frá því um 1200.

Víkingaskip

Víkingaskip í Afstapahrauni.

Hálfri öld áður rann Kapelluhraun til sjávar í Straumsvík og hafði áhrif á landmótun þar; yngsta hraunið á þessu svæði.

Frá fornu fari hafði ábúendum og öðru fólki á Reykjanesskaga verið skipt í útnesjamenn, sem bjuggu utan við Kúagerði, og innnesjamenn sem til að mynda bjuggu í Hraunum og á Álftanesi. Fram á 20. öld var mikil umferð ríðandi, en mun oftar þó gangandi manna suður með sjó og þaðan “inn” í Hafnarfjörð og Reykjavík. Menn fóru í verið til Suðurnesja og svo þurfti að ná í blessaða þorskhausana og reiða þá austur í sveitir á baggahestum. Þorskhausalestir voru dagleg sjón á vorin. Enginn var vegurinn, aðeins götur sem fótspor hesta og manna höfðu markað og þær lágu í krókum og krákustígum eftir því hvar skást var að komast yfir hraunin.

Afstapavarða

Afstapavarða (nú horfin).

Hraunabyggðin taldist löngum vera í Garðahreppi, en vestan Lónakotslands tekur Vatnsleysustrandarhreppur við. Hvassahraun er austasta jörðin í hreppnum.

Eftir að hafa kíkt á Hjallhólaskúta norðan Reykjanesbrautarinnar var gengið upp fyrir brautina. Byrjað var að skoða hraundrílin á Strokkamelum. A.m.k. tvö þeirra eru alveg heil, tvö önnur eru fallega formuð og önnur hálfheil eða hrunin. Hraundrílin hafa myndast á svipaðan hátt og tröllakatlanir undir Lögbergsbrekkunni, en eru einungis minni í sniðum. Fegurð þeirra er þó engu minni eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Hvassahrauns

Strokkamelar – hraundríli.

Þaðan var gengið að opi Brugghellisins, en til þess að komast niður í hann þarf a.m.k. 6 metra langan stiga. Þetta er greinilega rúmgóður hellir. Niður í honum eru hleðslur, bæði undir opinu og síðan út frá þeim beggja vegna. Flóðs og fjöru gætir í hellinum og flýtur ferska vatnið ofan á saltvatninu. Í háflæði er einungis hægt að tilla sér á hleðslurnar.

Sagt er að hellirinn hafi áður fyrr verið notaður til brugggerðar, enda erfitt er að finna opið. Björn Blöndal átti að hafa gert nokkrar árangursríkar tilraunir til að finna hellinn á sínum tíma. Hvað sem öðru líður er þarna hin ákjósanlegasta aðstaða til vínandaframleiðslu, hafi menn á annað borð áhuga á slíku.

Hvassahraun

Hvassahraun – brugghellir.

Handan Reykjanesbrautarinnar, skammt vestar, er Fagravík. Við hana var áformað að byggja stálbræðslu. Féllst bygginganefnd Vatnsleysustrandarhrepps á það fyrir sitt leyti, en ekkert var úr rekstri hennar þrátt fyrir undirbúningsframkvæmdir á svæðinu.
Vestan við víkna er hlaðið gerði. Búið er að fjarlægja hluta þess, en veggir er enn standa, sýna nokkurn veginn hver stærðin hefur verið. Ekki er útilokað að þarna geti hafa verið um fjárborg eða rétt að ræða.
Fjaran og strandlengjan frá Fögruvík að Straumi á u.þ.b. 500 metra breiðu belti, ásamt ísöltum tjörnum, frá botni Fögruvíkur að Straumi, njóta náttúrverndar fyrir sérstætt umhverfi með einstökum náttúruperlum.

Hraunsnes

Fjárskjól í Hraunsnesi.

Hraunin - Glaumbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1987 fjallar Gísli Sigurðsson, ristjóri Lesbókarinnar, um Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun:

Hvassahraun

Hvassahraun.

“Þegar komið er framhjá Kúagerði á leiðinni frá Keflavík til Reykjavíkur, blasir allt í einu við einkennileg byggð í hrauninu, sem hlýtur að gefa ókunnum útlendingum einkennilega hugmynd um menningu og bústaði landsmanna. Glöggskyggn gestur sér að vísu af Keflavíkurveginum, að naumast geti verið búið í þessum kofum, því þar er yfirleitt ekki til gler í gluggum, heldur gapa augntóftir húsanna við vegfarendum, eða þá að neglt hefur verið fyrir þær. Og einn er brunninn til ösku. Þetta gæti minnt víðförla ferðamenn á hreysin í fátækrahverfum Mexikó City og Hong Kong, sem byggð hafa verið úr kassafjölum, en að vísu mun þéttar en hallir sumarlandsins við Hvassahraun. Þar er heldur ekki trjágróður til að fela óþrifnað af þessu tagi; hann blasir við svo skýrt sem framast má verða og eru spýtnahrúgur og ryðbrunnar olíutunnur hafðar með til skrauts.

Hvassahraun

Hvassahraun 1987.

Á sólbjörtum sumardegi, þegar undirritaður tók myndirnar, virtist ekki nokkra lifandi veru að sjá þarna utan mófugla og kríu, sem gerði harða hríð að komumanni. Litlu síðar hitti ég tvo útlendinga á bílaleigubíl og til að kanna viðbrögðin, benti ég þeim á kofana og spurði hvort þeir vissu hvaða bær þetta væri. Þeir vissu það að sjálfsögðu ekki, en annar sagði: „Það virðist vera draugabær” (It seems to be a ghost town).
Einhver hlýtur að eiga þetta land og hefur þá heimilað þessi sorglegu hús, ef hús skyldi kalla. Einhverjir hljóta að eiga þau og einhver yfirvöld hljóta að geta ráðið því, hvort þau fá að standa svona áfram, gestum til furðu og okkur til lítils sóma.” – Gísli Sigurðsson

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 26. tbl. 22.08.1987, Hallir Sumarlandsins við Hvassahraun – Gísli Sigurðsson, bls. 16.

Hvassahraun

Hvassahraun – loftmynd.

Búðarvatnsstæðið

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík segir Þorsteinn Bjarnason frá Háholti m.a. frá Búðarvatnsstæðinu:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

“Frá Dagon er landamarkalínan í Núphlíð. Austan í henni, syðst, er Skalli, en austan undir Núphlíð er Sængurkonuhellir. Frá Núphlíð eru landamerki sjónhending í vesturrætur á Trölladyngjum, frá þeim í Markhelluhól við Búðarvatnsstæði. Að norðan eru mörkin sjónhending úr Markhelluhól, norðvestan við Fjallið eina, öðru nafni Eldborgarhellir, í Melrakkagil, sem kemur niður úr Undirhlíðum.”

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Í Örnefnalýsingu fyrir Krýsuvík sem Ari Gíslason skráði segir m.a:
“Norður frá Mávahlíðum rís upp Mávahlíðarhnúkur. Héðan til norðausturs liggur leiðin um hraun að Búðarvatnsstæði.”

Merkhella

Markhella – áletrun.

Í skráningu “Menningarminja í Vatnsleysustrandarhreppi”, svæðisskráningu, sem Sædís Gunnarsdóttir skráði árið 2006 segir:
“Búðarvatnsstæði – heimild um vatnsból
Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll.” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata iggur meðfram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæðinu. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum.” “Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður og þá jafnvel yfir nótt, þ.e. einhverskonar “búðir”. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafist við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.”

Markhella

Markhella – áletrun.

Í Örnefnalýsingu fyrir Hvassahraun eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar og upplýsingum, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980 segir m.a.:
“Er þá komið á Dyngjuháls. Austur af honum eru Mávahlíðar, en þar um liggur landamerkjalínan milli Hvassahraunslands sunnanvert og Krýsuvíkur. Austur af Lambafellum eru Einihlíðar, og vex þar einir. Ofan eða sunnan þeirra er Einihlíðabruni. Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa.- Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri [hellan snýr reyndar við norðvestri]. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða. Þaðan liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er hraunhóll. Þar vestur af er lægð í hrauninu, sem nefnist Helgulaut. Þar hafði kona að nafni Helga orðið úti.”

Í Örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði, lýsingu Gísla Sigurðssonar segir m.a.:

Markhella

Markhella – áletrun.

“Úr Markhelluhól liggur merkjalínan um vestasta hluta Sauðabrekkugjár, en þá um Búðarvatnsstæði, og skiptist það jafnt milli Óttarsstaða og Hvassahrauns. Norður og niður af vatnsstæðinu nefnast Búðarhólar. Mörkin liggja líklega gegnum þá.”

Markhelluhóll

Markhelluhóll við Búðarvatnsstæðið.

Búðarvatnsstæðið er á sléttu hrauni undir nýrri hraunbrún. Á brúninni, á svonefndum Markhelluhól, eru tvær vörður, önnur lítil og hin mosavaxin; greinilega fornar. Um vatnsstæðið lá fyrrum sauðfjárveikigirðing og má enn sjá staura hennar við og í nágrenni við það. Girðingin var þá á mörkum Krýsuvíkur, Hvassahrauns og Óttarsstaða. Hvers vegna framangreindir stafir hafi verið grafnir á steinvegg Markhellu, í eins og hálfs kílómeters fjarlægð frá Búðarvatnsstæðinu til austurs, hefur aldrei verið skýrð að fullu. Ekki er ólíklegt að ætla að einhver á ströndinni hafi látið sér detta í hug að krota nöfnin þarna, enda í skjóli frá mögulegri umferð Krýsuvíkurbænda um ofanverð fáfarin hraunin. Landamerkjalýsingin um Markhelluna á þessum stað kemur a.m.k. ekki heim og saman við fyrri lýsingar.

Heimildir:
-Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík – Þorsteinn Bjarnason frá Háholti safnaði og skráði.
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, svæðisskráning; Sædis Gunnarsdóttir, 2006.
-Örnefnalýsing fyrir Hvassahraun; lýsing Gísla Sigurðssonar, víða tekin upp orðrétt. Upplýsingar, sem Guðmundur Sigurðsson gaf í viðtali á Örnefnastofnun 16. júlí 1980. Hann hafði áður borið lýsingu Hvassahrauns undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikotinu. Guðmundur er fæddur á Hvassahrauni árið 1919.
-Örnefnalýsing – Óttarsstaðir; lýsing Gísla Sigurðssonar var borin undir Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti og síðan samin upp úr henni ný lýsing. Gústaf er fæddur í Reykjavík 1906, en ólst upp í Eyðikotinu í Hraununum og var þar til 1937.

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Brunnastaðasteinninn

Í Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Brunnastaði, Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot, Traðarkot, Hvassahraun og Hvassahraunskot, og nokkrar aðrar merkar minjar í sveitarfélaginu.

Vatnsskersbúðir (verbúð)

Vatnsskerbúðir

Vatnsskersbúðir.

“Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af er Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör,” segir í örnefnaskrá Voga. Farið var á vettvang árið 2006 og fundust ekki minjar um Vatnsskersbúðir þá.
Aftur var farið á vettvang þegar verið var að skrá Brunnastaði árið 2013 og fundust þá tóftir á Vatnsskeri. Vatnsskersbúðir eru merktar inn á kort af býlum, götum, slóðum og hliðum sem fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar sjást signar tóftir um 320 m SSV við Hvamm og 780 m NNA við Minni-Voga. Ein tóftin er líklega af herslubyrgi. Vatnssker er lítið sker með jarðvegstorfu ofaná. Það flæðir sjór allt í kringum það á flóði.

Brunnastaðir (býli)

Brunnastaðahverfi

Brunnastaðahverfi.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 123. 1395 er Brunnastaða getið í eignaskrá Viðeyjarklausturs.
Þá eru hálfir Brunnastaðir metnir á 30 hdr. DI III, 597-598. 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. DI XII, 124.
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 1 hdr. Í fríðu og 2 vættir fiska. Árni Óla: Strönd og Vogar, 26.
Hjáleigur í byggð 1703, Halakot, Brunnastaðakot, Stöðlakot, Tangabúð og Skjaldarkot. Í eyði Traðarkot, Vesturhús, Naustakot, Austurhús (að öllum líkindum sama og Austurkot) og Suðurhús (að öllum líkindum sama og Suðurkot). JÁM III, 125-127. Hjáleigur í byggð 1847: Halakot, Suðurkot, Austurkot, Naustakot, Skjaldarkot og Traðarkot. JJ, 90. Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba, Vorhúsabæirnir, Austurbær eða Bjarnabær og Vesturbær eða Guðjónsbær, Hausthús og Hvammur. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 31. Tvíbýli var um tíma á Efri-Brunnastöðum. Guðmundur Jónsson. Mannlíf og mannvirki, 224-33.
1703: “Tún jarðarinnar spillast af sjáfar og sands ágángi meir og meir. Engjar eru öngvar. Útihagarnir um sumur í lakasta máta, um vetur nær enginn nema fjaran.” JÁM III, 124-5. 1919: Tún alls 5,9 teigar, garðar 2300m2.

Efri-Brunnastaðir (býli)

Efri-Brunnastaðir“Neðri-Brunnastaðir eru allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924 [skrifuð 1703], er getið Brunnastaða og Brunnastaðakots, en hvort kotið sé annað hvort núverandi býla skal ósagt látið. Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það. Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í sama riti segir: “Bæjarhóll heitir sá sem Efri- Brunnastaðir standa á. Hlaðið, eða Brunnstaðahlað er hluti af Bæjarhól.” Samkvæmt túnakorti frá 1919 voru íbúðarhús á bæjarhólnum og samtengt margskipt útihús sem skráð er með bæjarhúsum á bæjarhólnum. Af afstöðu Bænhúshóls að dæma verður að teljast líklegt að bænhús á honum hafi tilheyrt Efri-Brunnastöðum. Það bendir þá til þess að Efri-Brunnastaðir séu elsta bæjarstæði Brunnastaða.
Efri-Brunnastaðir eru á háum hól um 120 m suðvestan við Brunnastaðatjörn. Tún er í kringum bæjarstæðið sem er enn slegið að hluta og að hluta nýtt til beitar.

Efri-Brunnastaðir

Brunnastaðir

Í greininni “Suður með sjó” eftir Björn Þorsteinsson sagnfræðing segir að Jón Breiðfjörð Jónsson sem fluttist að Brunnastöðum um 1870 hafi rekið þar verslun. Að sögn Jóns Hauks Aðalsteinssonar, heimildamanns, sást grunnur verslunarinnar til skamms tíma norðan við íbúðarhúsið á Efri-Brunnastöðum og veginn sem liggur niður að Neðri-Brunnastöðum. Hóllinn sem gamli bærinn var á er um 100 m í þvermál og virðist að mestu leyti náttúrulegur en öruggt má telja að hann sé einnig að stórum hluta uppsöfnuð mannvistarlög. Hóllinn er hæstur um 2 m. Það hús sem nú er á bæjarstæðinu var byggt 1930 og er með niðurgröfnum kjallara. Það er fast suðaustan við eldra íbúðarhús á bæjarstæðinu en það var rifið fyrir fáum árum. Enn sést móta fyrir hleðslum úr grunni þess.

Bænhúshóll (kirkja)

Brunnastaðir

Bænhúshóll.

“Bænhúshóll eða Kirkjuhóll heitir svo því þar á að hafa verið bænhús í kaþólskri tíð,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Bænhúshóll er í landi Neðri-Brunnastaða en virðist hafa tilheyrt Efri-Brunnastöðum 001 ef tekið er tillit til afstöðu hólsins og bæjanna. Hóllinn er um 60 m VSV við Efri- Brunnastaði og um 115 m suðaustan við Neðri-Brunnastaði.
Afgerandi hóll er í túni nærri merkjum milli Efri- og Neðri-Brunnastaða. Túnið hefur verið slegið til skamms tíma en var nýtt til hrossabeitar þegar skráningarmaður var á ferð haustið 2013.
Að sögn Jóhanns Sævars Símonarsonar, heimildamanns, komu upp mannabein og legsteinn við túnrækt á hólnum í kringum 1950. Sléttað var yfir staðinn og beinin látin hvíla áfram á sama stað. Bænhúshóllinn er um 28×24 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er um 2 m á hæð og er kúptur að ofan. Ekki sést til minja um kirkjugarð eða kirkju á yfirborði hólsins en á loftmyndum á GoogleEarth frá 2002 má óljóst greina gerði umhverfis hólinn og dökkan blett á miðjum hólnum þar sem líklegt er að bænhúsið hafi staðið.

Neðri-Brunnastaðir (býli)

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir 1928.

“Neðri-Brunnastaðir eru allnærri sjávarkampinum, en Efri-Brunnastaðir eru talsvert fjær og standa á allháum hól. Ekki ber hverfisingum saman um hvort býlanna séu hinir upphaflegu Brunnastaðir. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1923-1924 [skrifuð 1703], er getið Brunnastaða og Brunnastaðakots, en hvort kotið sé annað hvort núverandi býla skal ósagt látið.
Sigurjón Sigurðsson í Traðarkoti telur Neðri-Brunnastaði upphaflega býlið, án þess þó að slá neinu föstu um það.
Ályktun sína dregur hann af því, að ýmis býli á Vatnsleysuströnd hafi fyrrum verið byggð alveg niðri við sjávarkampinn, en síðan verið færð fjær sjó, eftir því sem landbrot jókst,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar segir einnig: “Neðri-Brunnastaðir, gömlu, var oft nefnt Húsið í daglegu tali, vegna þess, að það þótti stórglæsilegt timburhús á sinni tíð, er þar var reist, skömmu eftir síðustu aldamót (1907-8). Stendur þetta hús enn ásamt áföstum útihúsum, hvorttveggja hrörlegt mjög. …

Neðri-Brunnastaðir

Neðri-Brunnastaðir.

Núverandi íbúðarhús á Neðri-Brunnastöðum var reist 1957, töluvert fjær sjó en hið gamla.” Neðri-Brunnastaðir eru niður við sjó, um 175 m VNV við Efri-Brunnastaði.
Bæjarstæði Neðri-Brunnastaða er á lágri hæð í túni sem nýtt er til beitar.
Ekki sést afgerandi bæjarhóll en allmiklar breytingar hafa orðið í kringum bæinn vegna húsbygginga, vegagerðar og sjóvarnargarðs. Gamla húsið A sem sýnt er á túnakorti frá 1919 stendur enn. Húsið er bárujárnsklætt milli fjóss og íbúðarhúss. Fjósið sem enn stendur er steypt og verður ekki lýst nánar hér. Jóhann Sævar hefur eftir Símoni Kristjánssyni, föður sínum, að eldra íbúðarhús B í Neðri-Brunnastöðum hafi verið fast norðaustan við fjárhús og um 10 m vestan við húsið sem reist var 1906 og enn stendur. Þar sjást hins vegar engin ummerki um byggingar.

Grund (býli)

Grund

Grund – túnakort 1919.

Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. Þeir voru þessir: Grund eða Trumba,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Þar kemur fram að tún hafi verið umgirt grjótgörðum og að brunnur hafi verið utan túns. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum kemur fram að húsið í Grund hafi verið byggt upp þegar nýir ábúendur fluttu þangað 1912 en það svo rifið 1920.
Það nýtilegasta úr húsinu var notað í nýtt íbúðarhús, Suðurkot 2. Jón Haukur Aðalsteinsson, heimildamaður, hefur grúskað talsvert í ítarheimildum um Bieringstanga og Brunnastaðahverfið á Þjóðskjalasafni Íslands. Hann hefur fundið heimild um byggð á Grund í Sóknarmannatali Kálfatjarnarkirkju frá 1883. Býlið Grund er um 835 m suðvestan við Efri-Brunnastaði. Sumarhús Magnúsar Ágústssonar frá Halakoti er fast vestan við bæjartóftina og liggur vegur að honum. Á túnakort frá 1919 eru eftirtalin mannvirki teiknuð: bæjarhús, útihús, brunnur, túngarður, kálgarður og fiskreitir.

Bieringstangi

Bieringstangi – uppdráttur ÓSÁ.

Tún býlisins er hæðótt og er það komið í órækt og orðið þýft. Utan túns er grónir hraunmóar til austurs.
1919: Tún 0,29 teigar, garðar 540m2. Minjar um býlið sjást á svæði sem er um 95×75 m að stærð og snýr NNA-SSV. Innan þess eru húsgrunnur, tóft, tveir brunnar, brunngata, sjávargata, kálgarður, garðlag, heimild um fiskreit og þúst. Allar minjarnar fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Lýsingin hefst á húsgrunni A þar sem bærinn Grund stóð. Grunnurinn er á lágum klapparhól, um 20 m suðaustan við norðvesturjaðar túnsins og 30 m norðaustan við suðvesturjaðar þess.
Húsið sem stóð á grunninum var rifið 1920. Alls eru sýnlegar leifar hússins á svæði sem er um 6,5×6 m að stærð og snýr norður-suður. Grunnur hússins er um 4×6 m að stærð og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,6 m á þykkt, grjóthlaðnir úr tilhöggnu grjóti og er sementslím í hleðslunni.

Hvammur (býli)

Hvammur

Hvammur.

“Á Bieringstanga voru nokkrir bæir sem fóru í eyði á árunum 1920-1925. … Auk þessara voru í Bieringstanga Hausthús og Hvammur,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í örnefnalýsingu fyrir Bieringstanga segir: “Hvammsblettur er afgirtur með grjótgörðum og gaddavír. Bærinn [A] stendur austarlega í blettinum. Rétt norðaustan við bæinn er brunnur, Hvammsbrunnur [B]. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Syðsti bær í Brunnastaðahverfi var Hvammur. Nú er þar eingöngu rústir að sjá og grjótgarð umhverfis túnið. Þetta var lítið grasbýli á leigulandi og greiddi afgjald til Neðri-Brunnastaða, en var úr óskiptu landi Brunnastaðahverfis.” Jón Haukur Aðalsteinsson, heimildamaður, hefur grúskað talsvert í ítarheimildum um Bieringstanga og Brunnastaðahverfið á Þjóðskjalasafni Íslands. Hann hefur fundið heimild um byggð í Hvammi í Sóknarmannatali Kálfatjarnarkirkju frá 1883. Hvammur er um 1,2 km suðvestan við bæ og um 70 m suðaustan við Hausthús. Býlinu tilheyrir bæjartóft, brunnur, gryfja, túngarður, brunngata, sjávargata, tvær tóftir, tvö mannvirki og þúst. Á túnakort frá 1919 eru eftirtalin mannvirki teiknuð: bær, þró, útihús og túngarður.
Býlið er sunnan við grösuga hæð í grónum klapparmóa.

Kristmundarvarða (varða)

Kristmundarvarða

Kristmundarvarða.

“Tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól.
Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Varðan er um 360 m sunnan við Töðugerðisvörðu og um 1,1 km suðvestan við Efri-Brunnastaði.
Varðan stendur lágt í hraunmóa sem er að hluta uppblásinn.
Varðan stendur vel. Hún er um 1 m í þvermál og 1,1 m á hæð. Í henni sjást 6 umför. Fast norðaustan undir vörðunni er minningarskjöldur um Kristmund. Ekki er vitað hvenær varðan var upphaflega hlaðin en hún var endurhlaðin árið 1993 af Ragnari Ágústssyni frá Halakoti.

Töðugerðisvarða (varða)

Töðugerðisvarða

Töðugerðisvarða.

“Hin varðan, Töðugerðisvarða eða Halakotsvarða stendur rétt ofan eða sunnan við Skipholt. Þar hjá er reiðgata sem notuð var sem þjóðbraut fram til 1912 og heitir Gamlivegur,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Reiðgatan sem nefnd er Gamlivegur í tilvísun hér að framan er að öllum líkindum leið sem lá á milli bæja og til kirkju í Kálfatjörn eftir að hún varð sóknarkirkja fyrir hreppinn. Varðan er um 395 m austan við Grund og um 230 m suðaustan við Töðugerðisbæina.
Varðan stendur allhátt á hól í hraunmóa. Varðan er stæðileg, ferköntuð og vandlega hlaðin. Hún er um 1×1 m að grunnfleti og 1,3 m áhæð. Í henni sjást 8 umför. Hún virðist ekki mjög gömul en getur hafa verið endurhlaðin. Hlutverk vörðunnar er ekki þekkt en hún gæti verið siglingamerki eða varðað Kirkjugötu.

Hemphóll (áfangastaður)
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Í Brúnum ofan og austan við Brunnastaðasel stendur Hemphóll eða Hemphólar en þar áðu smalarnir úr Brunnastaðahverfi um leið og skipt var í leitir.
Smalaleiðin lá skammt norðan við Brunnastaðasel og á Hemphól.” Á heimasíðu FERLIRs segir: “Talsvert ofan við selið er hinn sögufrægi Hemphóll, á honum er varða.”
Hemphóll er um 1 km suðaustan við Brunnastaðasel og stendur enn varða á honum. Varðan er á hól í mosavaxinni hraunheiði. Stendur hóllinn mjög hátt í heiðinni og víðsýnt er af honum til allra átta. Efst á hólnum er stór varða úr stóru grjóti. Var mögulega holrými í henni neðst en varðan hefur fallið saman. Hún er um 1,2×1,2 m að grunnfleti og 1,2 m á hæð. Í henni sjást enn 5 umför. Í holrýminu neðst eru gamlar brotnar gosflöskur.

Guðmundarstekkur (stekkur)
“Þar sem lömbum var í eina tíð stíað frá ánum heitir Guðmundarstekkur, en Ragnar Ágústsson nefnir hann aðeins Stekk,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. “Stuttu austur af Þúfuhól er svo Guðmundarstekkur norðan undir Stekkholti,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Stekkjartóftin er um 130 m norðvestan við vörðu á Neðri-Presthól.

Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða (varða)

Brunnastaðalangholtsvarða

Brunnastaðalangholtsvarða.

“Skammt frá [Einingavegi] er langt og fremur mjótt klapparholt, Brunnastaðalangholt. Á holtinu eru tvær vörður, Nyrðri- og Syðri- Brunnastaðalangholtsvörður …,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Langholtið er hár malarhryggur skammt frá merkjum Voga og Brunnastaða. Á holtinu er áberandi varða sem sést langt að. Hún er um 340 m sunnan við Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvörðu og 2,2 km SSA við Efri-Brunnastaði. Holtið er hálfgróið en umhverfis vörðuna, hæst á holtinu, er ógróinn melur.
Á Langholtinu eru auk vörðunnar tvö önnur mannvirki á svæði sem er um 30×30 m. Í lýsingunni verður hverju þeirra gefinn bókstafur til aðgreiningar. Varðan (A) er um 1,5×1,5 m að utanmáli en hol að innan og því um 1 x 1 m að innanmáli. Hleðslan er einföld og um 1,2 m á hæð. Allt að 6 umför grjóts standa en eitthvað virðist hrunið úr hleðslunni. Upp við vörðuna sunnanverða er einföld grjóthleðsla sem myndar einskonar kró við hana. Króin er um 1×1 m að innanmáli en hleðsluhæð um 0,3 m. Umför eru tvö, en virðast hafa verið a.m.k. þrjú í vesturhluta.

Hringurinn (fjárskýli)

Hringurinn

Hringurinn.

“Hringurinn heitir hringlaga grjótbyrgi, sem notað var fyrir fé, síðast á seinni hluta 19. aldar,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Grjóthlaðin (fjár)borg eða rétt er í grónum slakka austan við Langholtið, um 290 m austur af Syðri-Brunnastaðalangholtsvörðu og 2,3 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Réttin stendur í grasi grónum dal á milli hraunholta.
Réttin er tæplega 10×10 m að utanmáli og er ekki hringmynduð eins og fjárborgir eru gjarnan. Innanmál hennar er um 6×6 m. Hleðslur eru að mestu hrundar út en hafa verið miklar og háar og líklega allt að 2 m breiðar. Hæð þeirra er nú mest um 1,5 m og um 6 umför. Op er á suður-, eða suðausturhlið. Það er um 0,5-0,7 m breitt en breikkar inn á við. Yfir opinu hefur verið hella/hellur en er nú hrunin og er opið hálffullt af hruni. Einfaldar grjóthleðslur, 1 umfar, liggja út frá opinu og mynda einskonar rennu að því. Mikið hrun er innan réttarinnar og erfitt að greina hvort þar hafi verið um hólf eða skilrúm að ræða. Þó er greinilegt mannvirki við innanverðan norðurvegg, þar sem mögulega hefur verið einhverskonar kró eða garði.

Gangnabyrgi (áfangastaður)

Gangnabyrgi

Gangnabyrgi.

“Þá koma Strákar eða Strákavörður sem eru þrjár og greinast í Austurvörðu, Miðvörðu og Syðstuvörðu. Þá er Viðaukur og Kánabyrgi enn réttu nöfnin munu vera Viðuggur og Gangnabyrgi,” segir í örnefnaskrá Voga. Gangnabyrgi er norðan við línuveg, um 220 m suðaustan við vörðu 102 og um 180 m norðan við línuveg. Byrgið er uppi á háum hraunhelluhól og er mosa- og lyngi vaxið í kringum það. Frá þessum hól sést vel til allra átta. Allt í kring eru hraunhólar og mosavaxinn mói á milli þeirra.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Á Kánabyrgi komu leitarmenn úr Brunnastaðahverfi saman áður en lagt var á heiðina og þar átti hver karl sinn stein til að tylla sér á. Rétt neðan við hólinn er svo lítil vatnshola í klöpp en holan var gerð af mannahöndum svo hægt yrði að svala þorstanum á meðan áð var á hólnum.” Tóft byrgisins er um 3,5×3 m og snýr norðvestur- suðaustur. Hleðslur eru almennt signar, um 0,4 m á hæð en í vesturhluta tóftar er grjóthrúga, um 2×1 m að stærð og um 0,6 m á hæð. Mögulega er það hrunin varða sem hlaðin hefur verið ofan í tóftina. Grjótið í hrúgunni er stórt og vaxið skófum og mosa. Að öðru leyti er tóftin vel gróin, grjóthlaðin, en op ekki greinilegt.

Gjásel (sel)

Gjásel

Gjásel – uppdráttur ÓSÁ.

“Í Gjáseli, en svo heita gamlar selstöður, má nú sjá átta til níu tóttarbrot. Lítið seltún mun hafa verið þar framanvið. Ofan við selið er Gjáselsgjá, sem sagt var um að í væri óþrjótandi vatn, en erfiðleikum bundið að ná því,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. “Af Einiberjahólum sjáum við vel til Gjásels sem kúrir undir næstu gjá fyrir ofan Klifgjá. Óvíst er frá hvaða bæ var haft í seli þarna því selstæðið er sagt í eða alveg við austurmörk Brunnastaðalands. Gjásel er ekki nefnt í Jarðabókinni [Árna Magnússonar og Páls Vídalín] 1703 og virðast tóftirnar þar vera með þeim yngstu í heiðinni. Heimildir nefna bæði Hlöðunesmenn og Brunnastaðamenn en líklega hafa Hlöðunesmenn haft þarna í seli því árið 1703 er selstaða þeirra ofar í heiðinni aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir höfðu þá enn nothæfa selstöðu. Tóftir af átta húsum standa þétt hlið við hlið í beinni röð undir gjárveggnum sem bendir til þess að nokkrir bæir hafi haft þarna í seli eins og reyndar annarsstaðar. Skipulag húsa á þessu selstæði er gjörólíkt því sem er á öllum hinum stöðunum í heiðinni en þar eru tveggja húsa samstæður á víð og dreif á grasblettinum en í Gjáseli er eins konar raðhúsalengja. … Heimildir geta um gott og mikið vatn í gjánni við Gjásel og sagt er að vatnið hafi bunað út úr berginu en jarðskjálftar á fyrri hluta 20. aldar hafi eytt þessum eina “fossi” í hreppnum,” segir í Örnefni og gönguleiðir. Gjásel er um 6,4 km suðaustan við Efri-Brunnastaði og 6,4 km suðaustan við Hlöðunes. Þar eru tvær tóftir og varða. Selið er undir gjárvegg og gjá sem er að miklu leyti gróin og full af grjóti austan við seljatóftirnar. Seltúnið er ekki ýkja stórt en er að mestu gróið.
Minjar í Gjáseli eru á svæði sem er 80×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Ólafsvarða (varða)

Ólafsvarða

Ólafsvarða.

“Nokkurn veg norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. … Um síðustu aldamót hrapaði í sprunguna Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að gá að fé rétt fyrir jól árið 1900. …
Árið 1931 eða um 30 árum seinna fundust svo bein hans í gjánni,” segir í Örnefni og gönguleiðir.
Ólafsvarða er við Ólafsgjá um 1,2 km VNV af Gjáseli og um 5,4 km suðaustan við Efri- Brunnastaði. Varðan er ekki nógu gömul til að geta talist til fornleifa en hún er skráð engu að síður því auk þess að vera minnisvarði um Ólaf Þorleifsson þá er hún einnig minnisvarði um fjárrekstur í Vogaheiði og Strandarheiði og hætturnar sem því fylgdu.
Varðan er við norðvesturbrún lítillar og mjórrar gjár í mosavaxinni hraunheiði. Varðan er um 1,5 m á hæð og um 1 m í þvermál. Grunnflötur hennar er hringlaga. Hún er vandlega hlaðin úr meðalstóru grjóti sem er orðið skófum vaxið. Lítið sem ekkert hefur hrunið úr hleðslum.

Stapahóll (legstað)

Stapahóll

Stapahóll.

Í ritinu Frásögur um fornaldarleifar segir: “Í Búfjárhögum Brunnastada er Haugur sem þeckjanleg gömul Mannaverk eru á, Stapa Hóll /nefndur/.” Hóllinn er um 430 m suðvestan við Gjásel og um 6,6 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Hóllinn er einnig nefndur Stapaþúfa eða Stapaþúfuhóll eins og fram kemur í bókinni Örnefni og gönguleiðir.
Hóllinn er í mosagróinni hraunheiði og stendur hátt í henni. Grónir flekkir er í kring og grjótbreiður. Mjó hraunsprunga er fáum metrum suðaustan við hann.
“Hann er krínglóttur, 14 Fadmar ummhverfis ad nedan, 3ia Fadma hár, 2ia Fadma umhverfis ad efra, með grióthledslulogum hér og þar nærfelldt í Kríng.” Hóllinn er um 6 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Hann er strýtulaga og er gróinn efst en þar er hundaþúfa. Mögulega er varða þar undir gróðrinum en engin sýnileg mannaverk eru á hólnum og minnir hóllinn ekki á haug.

Brunnastaðasel (sel)

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu hefur jörðin við fjallgarð, eru þar hagar litlir, en vatnsskortur að miklu meini, þegar þerrar gánga.” Í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi segir: “Brunnastaðasel heita gamlar selstöður frá Brunnastöðum. Þar má sjá allmörg tóttarbrot.” Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir: “Frá Gamla-Vogaseli höldum við austur af Vogaholtinu og að Brunnastaðaseli undir Brunnastaðaselsgjá … Á efri gjárbarminum fyrir ofan selið er Brunnastaðaselsvarða. Heimildir eru til um Brunnastaðaselsvatnsstæði ofan og sunnan selsins. Selstæðið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir en aðeins norðar og neðar í grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni sjáum við litla kví óskemmda með öllu og hafa gjárveggirnir verið notaðir
sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma.”
Brunnastaðasel er um 1 km suðaustan við Gjásel og 7,4 km suðaustan við Efri-Brunnastaði. Í selinu eru að líkindum tvö selstæði. Selið er norðan undir gróinni brekku í litlu selstæði. Jarðvegsrof umhverfis selstæðið ógnar minjunum.
Minjarnar eru á svæði sem er um 170×55 m að stærð og snýr norður-suður. Þær fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu hér á eftir. Svæðið skiptist í tvö selstæði. Selstæði I sem er umfangsminna og virðist vera yngra er nyrst á svæðinu en þar eru tóftir E og F. Selstæði II er á suðurhluta svæðisins, þar eru tóftir A-D og G. Það hefur tilheyrt Efri-Brunnastöðum. Selstæði I er um 110×110 m að stærð.

Hausabyrgi (herslubyrgi)

Hausabyrgi

Hausabyrgi.

“Inni á landi var einnig svonefnt Hausabyrgi er hlaut nafn sitt af fiskhausum sem í því voru þurrkaðir. Ragnar Ágústsson í Halakoti segir það hafa staðið umhverfis slétta klöpp miðja vegu milli Töðugerðis og Töðugerðisvörðu eða Halakotsvörðu,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Hausabyrgi og þrjú önnur sambærileg herslubyrgi eru 112 m suðaustan við Töðugerðisbæina og og 60 m norðan við Töðugerðisvörðu.
Byrgin eru í allgrónum hraunmóa litlu sunnan við veg sem liggur að sumarbústað í túni Grundar.
“Segir Ragnar, að inn í sjálfu byrginu, sem og öðrum álíka, hafi verið einfaldir grjótgarðar sem vel gustaði um til þess að flýta fyrir þurrkun fiskhausa sem á þá voru settir. Í þessum byrgjum, sem sum hver voru opin, en fjárheld, fékkst skjót og góð þurrkun þess fiskjar sem í þau var lagður,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Fjögur byrgi eru á svæði sem er um 68×42 m að stærð og snýr nálega norður-suður. Byrgin fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu hér á eftir. Almennt má segja um þau að þau eru grjóthlaðin og eru hleðslurnar í þeim hvergi breiðari en 0,5 m og hæð þeirra 0,2-0,5 m. Í þeim sjást 1-3 umför. Stærsta byrgið A er það sem talað er um í heimildum sem Hausabyrgi. Það er nyrst á svæðinu, er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Byrgi A er nokkuð hringlaga en hleðslur meðfram norðausturhlið eru horfnar. Innan gerðisins eru grjótgarðar sem eru jarðlægir og hvergi breiðari en 0,5 m. Í suðurhluta gerðisins liggja garðarnir norðvestur-suðaustur en í norðurhlutanum liggja þeir austur-vestur. Gerði B er um 24 m SSA við gerði A.

Halakot (býli)

Halakot

Halakot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703. JÁM III, 125. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Halakot var ekki sérstök jörð fyrr en á fyrsta tug þessarar aldar. Mætti ætla að í upphafi hafi verið þarna tómthús frá Brunnastöðum og þá að Efri-Brunnastaðir séu móðurjörð Brunnastaðahverfisins. Í lok 16. aldar, eru aðeins nefndir einir Brunnastaðir, einnig um 1700, en þá er talað um Brunnastaðakot og Halakot sem hjáleigu. …. Hefur Halakot verið tómthús á suðurenda aðaljarðarinnar og þá leiguliða leyft að rækta út sem uppbót á landskuld.” “Töðugerðisbæirnir svokölluðu, Suðurbær og Norðurbær (eða Grímsbær) syðst í Halakotstúninu, í Töðugerði, fóru í eyði á síðustu árum 19. aldar.” Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 31.
1919: Tún 2 teigar, garðar 870m2.
“Að sögn heimamanna hefur Halakotsbærinn verið fluttur þrisvar sinnum. Fyrsta húsið stóð rétt við (eða ofan við) sjávarkampinn, skammt norðan við núverandi sjávarhús,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Halakot hefur verið byggt upp að minnsta kosti fjórum sinnum (ný íbúðarhús) og það á fjórum stöðum. Fyrst var Halakot niðri við sjó norðaustur af uppsátrinu og síðan var byggt annað sunnan við sjávargötuna, um það bil mitt á milli uppsátursins og núverandi Halakots.” Elsti þekkti bærinn í Halakoti er um 60 m norðan við bæjarstæði. Að sögn Magnúsar Ágústssonar, heimildamanns, er baðstofugaflinn af elsta bænum í sjávarkampinum rétt innan við nýlegan sjóvarnargarð í norðvesturjaðri túnsins. Þar sjást hleðslur á tveimur stöðum. Grýttur sjávarkampur á milli sjóvarnargarðs og túns.
Bæjarhóll er ekki sýnilegur. Hleðslurnar sem sjást eru á svæði sem er um 25×8 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur.

Halakotsbrunnur (vatnsból)

Halakotsbrunnur

Halakotsbrunnur.

“Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum …Í (Neðri-) Brunnastaðabrunni gamla, sem af Hverfisingum er talinn elsti brunnurinn, voru steintröppur, og sömuleiðis í gamla Halakotsbrunni,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnur er um 20 m norðan við bæ og um 30 m norðvestan við bæjarstæði. Brunnurinn er í túni, fast norðaustan við malarveg sem liggur að fjöru og gömlu sjóhúsi sem byggt var 1930 eða 1940 og hefur verið endurgert.
Brunnurinn er við brún í túni og lækkar það NNA við hann. Þar sem brunnurinn er hefur verið steyptur upp ferkantaður stokkur og er hleri ofan á honum svo ekki sést ofan í hann. Ætla má að brunnurinn sé grjóthlaðinn og nokkuð heillegur.

Töðugerðisbæir/Suðurbær/Norðurbær (býli)

Töðugerði

Töðugerði.

“Töðugerðisbæirnir svokölluðu, Suðurbær og Norðurbær (eða Grímsbær) syðst í Halakotstúninu, í Töðugerði, fóru í eyði á síðustu árum 19. aldar,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bókinni Mannlíf og mannvirki segir að Töðugerði hafi lagst í eyði rétt eftir aldamótin 1900 en ekki er tiltekið hvor bærinn það var eða hvort það voru báðir bæirnir. Bæjartóft Norðurbæjarins er um 20 m norðaustan við Suðurbæinn og um 220 m suðvestan við bæ. Bærinn er fast sunnan við klapparfjöru og eru sjóvarnargarðar sitthvoru megin við hana. Tóftin er í túnjaðri Halakotstúns til norðurs. Tóftin er þrískipt og snýr austur-vestur. Hún er torf- og grjóthlaðin og er um 10,5×10 m að stærð. Vesturhluti tóftarinnar er vel greinilegur og í honum eru þrjú hólf.

Suðurkot (býli)

Suðurkot

Suðurkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, sennilega sama og Suðurhús þá, í eyði frá því fyrir 1683. JÁM III, 127. Skólajörðin var upphaflega jörð Vesturbæjarins í Suðurkoti. Þar var reistur einn fyrsti barnaskólinn í landinu 1872.
Kothús 012 stóðu í Skólatúni og fóru í eyði skömmu fyrir 1900. Suðaustan við nýja skólahúsið voru Fögruvellir 013. Þar var búið fram yfir 1920. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 27. Tvíbýli var a jörðinni frá 1920 og búskap var hætt 1942. Guðmundur Jónsson: Mannlíf og mannvirki, 214.
1919: Tún alls 2,99 teigar, garðar 1420 m2.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Árið 1871 var Suðurkotsjörðin tvær hálflendur og átti Hafliði nokkur Þorsteinsson … annan hlutann. Þann part seldi Hafliði undir Suðurkotsskólann, eins og Brunnastaðaskólinn var þá kallaður.” Að sögn Jóns Hauks Aðalsteinssonar, heimildamanns, er Suðurkots fyrst getið í búnaðarskýrslu árið 1781 og er þá þegar tvíbýli þar. Bæirnir í Suðurkoti virðast ekki hafa staðið saman og er líklegt að vestari bærinn 004 hafi verið þar sem þrískipt útihús með sambyggðum kálgarði er merkt inn á túnakort frá 1919, 20-25 m vestan við austari bæinn sem hér er skráður.
Í bókinni Mannlíf og mannvirki kemur fram að timburhús hafi verið byggt á austara bæjarstæðinu árið 1920 sem leysti gamla torfbæinn af hólmi. Sama ár flutti Kristján Hannesson að Suðurkoti og byggði Suðurkot 2 um 30 m suðaustan við gamla bæjarstæðið. Þar var gamli Grundarbærinn settur upp árið 1922 og búið var í honum þar til nýtt hús var reist á sama stað árið 1930. Það hús stendur enn og hefur verið gert upp á smekklegan hátt. Búskap var hætt á austurbæ Suðurkots árið 1942 þegar hreppurinn keypti jörðina. Suðurkot 2 hélst áfram í byggð en var eftir þetta aðeins kallað Suðurkot. Gamla bæjarstæði Suðurkots er fáum metrum norðaustan við malarveg sem liggur að Naustakoti, um 160 m sunnan við Efri-Brunnastaði.
Bærinn var á hæð í gömlu túni sem komið er í órækt að hluta til. Ekki sést afgerandi bæjarhóll en bæjarstæðið nær yfir svæði sem er um 20×20 m að stærð. Á því eru minjar um síðustu húsin sem stóðu þar á svæði sem er um 14×12 m að stærð og snýr nálega norðvestur-suðaustur. Í norðvesturenda er hlaðinn grunnur með sementslími í hleðslum. Hann er um 7×5 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. 0,4 m breitt op er á honum á suðvesturgafli. Þar sem hleðslur standa enn eru þær 0,5-0,7 m á hæð og sjást 4 umför. Hleðslur á norðausturgafli grunnsins hafa hrunið undan halla og er ekki nema ein röð af grjóti á suðausturhlið.

Suðurkotsskóli (skóli)

Suðurkotsskóli

Suðurskotsskóli.

Í bókinni Mannlíf og mannvirki eftir Guðmund Jónsson segir: “Árið 1871 var Suðurkotsjörðin tvær hálflendur og átti Hafliði nokkur Þorsteinsson … annan hlutann. Þann part seldi Hafliði undir Suðurkotsskólann, eins og Brunnastaðaskólinn var þá kallaður.” “Fyrsta Brunnastaðaskólahúsið var byggt árið 1872 og var þá með íbúð í risi, er ætluð var kennurum eða starfsfólki skólans. Skólanum fylgdi jarðnæði sem lítið var notað af skólaíbúum, en mest leigt til nytjar. … Sami háttur var á þegar nýtt skólahús var reist árið 1907, en þar var íbúð í vesturenda hússins,” segir í bókinni Mannlíf og mannvirki. Þar kemur einnig fram að skólinn var ýmist kallaður Suðurkotsskóli eða Brunnastaðaskóli. Árið 1886 var byggt við skólahúsið frá 1872. Nýr skóli var reistur skammt frá árið 1944 og var hann kallaður Brunnastaðaskóli. Skólinn er nú íbúðarhús sem ber nafnið Skólatún. Grunnur Suðurkotsskóla sést enn um 50 m VSV við bæ og fast suðvestan við Skólakálgarða.

Suðurkotsskóli

Suðurkotsskóli.

Skólahússgrunnurinn er í gömlu túni sem komið er í órækt. Í grein sem birtist í Þjóðólfi 21. janúar 1873 er stofnun og gerð fyrsta skólahúss Suðurkotsskóla lýst: “Upptök skólans eru þessi: Prestrinn síra St. Thorarensen lét ganga boðsbréf um sóknir sínar haustið 1870 um samskot til barnaskóla; gáfust þá innan sóknanna loforð um nálega 700 rd. á einni viku. Árið 1871 var tekið megnið af timbrinu til skólans, en byggingunni var frestað til næsta árs, sökum þess að nokkra máttarviði vantaði til hússins, er þá fengust hvergi. Sama ár (1871) var keyptr jarðarpartr í Brunnastaðahverfi, undir skólann til ábúðar fyrir skólahaldara (framvegis). Sumarið 1872 var húsið bygt af smiðum, er allir eiga heima í hreppnum ; það er 10 álnir á breidd, 14 álnir á lengd og 5 áln. rúmar undir loft; sakir vanefna er húsið hvergi nærri fullbygt; kenslustofan er í öðrum enda hússins, og nær yfir það þvert (10 áln. á lengd og hérum 7 áln. á breidd); í hinum endanum eru tvö herbergi fyrir kennarann; eldhús er í skólanum með eldavél; uppi á lopti er stórt herbergi, einkum ætlað Thorchilliibörnum, og fyrir setulopt sér í lagi, þá börnum er kend handvinna; að öðru leyti er annað óbygt uppi, en í áformi að gjöra í öðrum enda kenslustofu, ef þörf gjörist síðar meir.”
Húsgrunnur gamla barnaskólans er um 7×13 m að stærð og snýr hann norðvestur-suðaustur. Á miðri norðausturhlið eru tröppur og tvö lítil hólf sitthvoru megin við þær. Þar hefur verið anddyri. Alls er því húsgrunnurinn 10×13 m að stærð. Hleðslan í grunninum er hæst í suðausturenda þar sem hún er 0,7 m á hæð. Þar sjást 3-4 umför og er múrlím í hleðslunni. Grunnurinn er gróinn. Hólfin tvö sem er á norðausturhlið grunnsins eru hvort um sig um 2×1 m að innanmáli og snúa norðvestur-suðaustur. Á milli þeirra er um 1 m. Ekki sjást op inn í þau. Á milli þeirra og norðaustan við þau er steypt stétt og grjóthröngl þar norðaustan við.

Suðurkotsbrunnur (vatnsból)

Suðurkotsbrunnur

Suðurkotsbrunnur.

“Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum, Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á korti sem fylgir ritgerðinni er nafnið Suðurkotsbrunnur gamli. Er það sami brunnur og merktur er inn á túnakort frá 1919. Brunnurinn var 70-75 m ANA við bæ. Hann sést en hefur verið byrgður og er þúst ofan á honum. Brunnurinn er í flatlendum hluta túnsins. Votlent er í túninu sunnan og vestan við brunninn.
Þar sem brunnurinn er sést gróin grjótþúst á yfirborði. Hún er um 3 m í þvermál og 0,4 m á hæð. Ekki var hægt að sjá ofan í brunninn og ekki fengust lýsingar af honum.

Kothús (býli)

Kothús

Kothús.

“Kothús stóðu í Skólatúni og fóru í eyði skömmu fyrir seinustu aldamót,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. “Ofan við hana [Móaflöt] var fram á síðustu ár átjándu aldar tómthúsið Kothús.
Suðvestan við bæinn var kálgarður, Kothúsakálgarður, afgirtur með grjótgörðum, sem nú eru að mestu fallnir,” segir í örnefnaskrá fyrir skólann. Kothúsakálgarður sést enn og er hann 130 m sunnan við Suðurkot. Þrjár þústir eru við kálgarðinn. Minjarnar eru í gömlu túni sem komið er í órækt. Trjágróður er í hluta kálgarðsins. Minjarnar eru á svæði sem er um 26×26 m að stærð og fá þær bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Kálgarður er fyrirferðarmestur. Hann er grjóthlaðinn en gróinn, er 26×16 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Búið er að taka grjót úr hleðslum að því er virðist og eru þær 0,3-0,4 m á hæð en ekki sést fjöldi umfara. Kothúsakálgarður tengist Sveitakálgarði í austurhorni.

Fögruvellir (býli)
“Suðaustan við nýja skólahúsið voru Fögruvellir, kot sem byggt var yfir gömul hjón á fyrstu árum þessarar aldar. Þar var búið fram yfir 1920,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Býlið var þar sem húsið Sunnuhlíð stendur nú (2013). Malarplan á milli hússins Sunnuhlíðar og malarvegar sem liggur að nýbýlum og áfram að Naustakoti. Engar minjar um býlið sjást vegna byggingaframkvæmda og vegagerðar.

Austurkot (býli)

Austurkot

Austurkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, þá nefnd Austurhús, í eyði frá 1683. JÁM III, 127. Byggt upp fyrir 1847. JJ, 90.
1919: Tún 1,3 teigar, garðar 520 m2.
“Gamli bærinn í Austurkoti stóð þar sem útihúsin eru nú, sunnan við bæinn sem byggður var 1930,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Gamli Austurkotsbærinn var 130 m suðaustan við Efri-Brunnastaði og 70 m suðvestan við Traðarkot. Á túnakorti frá 1919 er hann samtengdur kálgarði sem liggur nánast í kringum allan bæinn. Kálgarðurinn skiptist í Suðurgarð og Vesturgarð eins og fram kemur í örnefnalýsingu og var upphlaðinn stígur á milli þeirra. Kálgarðarnir og stígurinn eru skráðir með bænum. Þar sem bærinn stóð eru enn gömul útihús sem kunna að hafa tilheyrt gömlu bæjarröðinni eða tekið við af eldri húsum. Aftan við (VNV við) húsin er mikið búið að raska með því að ýta jarðvegi upp í mön. Vegur að Brunnastaðabæjunum, Austurkoti og Traðarkoti liggur fast NNA við bæjarstæðið.
Ekki er bæjarhóll sýnilegur á bæjarstæði Austurkots en ummerki um bæinn eru á svæði sem er um 24×12 m að stærð og snýr NNA-SSV. Engin ummerki sjást um kálgarðana eða upphlaðna stíginn á milli þeirra.

Naustakot (býli)

Naustakot

Naustakot.

Hjáleiga Brunnastaða, í eyði 1703. JÁM III, 127. Í eyði frá 1965 en tún nytjuð frá Neðri-Bunnastöðum. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 27.
1919: Tún 1 teigur, garðar 320 m2.
“Í Naustakoti var gamla bæjarstæðið alveg í sjávarkampinum og einn veggur bæjarins hluti af sjávargarðinum sem þar var. Telur Sigurjón Sigurðsson, að þar hafi bærinn margoft verið byggður upp, og síðast 1905. Í honum var búið fram til 1924, en þá var bærinn fluttur 10-15 metra ofar í túnið. Það hús fór úr byggð 1965,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum kemur fram að Naustakot hafi ekki verið í ábúð um aldamótin 1900. Á túnakorti frá 1919 er kálgarður sýndur sambyggður bæjarhúsunum að norðanverðu og er hann skráður með bænum. Hann hét Norðurgarður samkvæmt korti sem sýnir tún og kálgarða og fylgir ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi.
Bærinn í Naustakoti var um 180 m suðvestan við Efri-Brunnastaði og 150 m sunnan við Neðri- Brunnastaði. Mikið rask hefur orðið á gamla bæjarstæði Naustakots vegna landbrots, vegagerðar og byggingar sjóvarnargarðs. Ekki sést bæjarhóll á bæjarstæði Naustakots. Þar sjást hins vegar leifar af Norðurgarði, hleðsla og húsgrunnur. Þessar minjar eru á svæði sem er um 20×20 m að stærð og fá bókstafi til aðgreiningar í lýsingu. Ætla má að bæjarstæði Naustakots A hafi verið 40×30 m að stærð og sneri nálega norður-suður. Leifar af Norðurgarði B eru norðaustast á svæðinu. Þar afmarkar grjóthlaðið garðlag svæði sem er 3×8 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Það er 0,6 m á breidd og 0,3-0,5 m á hæð. Mest sjást 2 umför í hleðslum utanmáls. Stór hluti kálgarðsins er kominn undir malarveg sem liggur meðfram ströndinni á milli Naustakots og Brunnastaðabæjanna. Hleðsla C er 7 m suðvestan við Norðurgarð B og er hún á milli nýlegs sjóvarnargarðs og malarvegar. Hún sést á 11 m löngum kafla og liggur NNV-SSA. Tveir hlykkir eru á hleðslunni sem er úr grjóti og er múrlím á milli steina. Viðarstaur stendur upp úr henni á einum stað. Hleðslan er 0,3-0,5 m á hæð og mest sjást 3 umför í henni.

Skjaldarkot (býli)

Skjaldarkot

Skjaldarkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703. JÁM III, 126-7. Í eyði frá 1958, tún í eigu Efri Brunnastaða og nytjuð þaðan. Gerði 008 var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905. Tjörn var einnig í Skjaldarkotslandi, að suðaustanverðu. Fór Tjörn í eyði 1918. Gunnar Ingimundarson: Örnefni í Brunnastaðahverfi, 30-31.
1919: Tún 2,8 teigar, garðar 1000 m2.
Bæjarhóllinn í Skjaldarkoti er norðvestarlega í túni, fast suðvestan við nýlegan sjóvarnargarð. Skjaldarkot var um 400 m norðaustan við Efri- Brunnastaði og um 150 m suðvestan við býlið Gerði. Á túnakorti frá 1919 eru sýnd nokkur útihús auk bæjar á bæjarhólnum og tveir samtengdir kálgarðar. Allar þær minjar eru skráðar saman undir númeri bæjarhólsins.
Íbúðarhúsið í Skjaldarkoti var selt og flutt í heilu lagi til Reykjavíkur á síðari hluta 20. aldar. Sléttað tún sem enn er nytjað af Efri-Brunnastöðum.
Vegur, líklega gömul heimreið, liggur yfir bæjarhólinn að suðvestanverðu að sjóvarnargarði. Talsvert rask hefur orðið á og í kringum bæjarstæðið vegna niðurrifs gamalla bygginga og byggingar sjóvarnargarðs.
Bæjarhóllinn er um 24×11 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er um 1,5 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hóllinn er gróinn en á stöku stað sést glitta í grjót. Meðfram hólnum að norðaustan og suðaustanverðu en leifar af kálgarði sem eru um 26×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Grjóthleðslur sjást í austurhorni á norðausturhlið en garðurinn sést aðeins sem kantur. Mesta hleðsluhæð er um 0,6 m og sjást 2 umför. Suðaustast í bæjarhólnum mótar fyrir litlu hólfi sem er um 1,2×2 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Í suðurhorni þess sést grjót úr hleðslum. Líklega eru þetta leifar af niðurgrafinni þró sem var fast suðaustan við bæinn og sýnd er á túnakorti. Stutt er niður á yngstu minjar á hólnum.

Skjaldarkotsbrunnur (vatnsból)

Skjaldarkotsbrunnur

Skjaldarkotsbrunnur.

Samkvæmt túnakorti frá 1919 var brunnur 20- 30 m sunnan við bæ. “Eftir Sigurjóni Sigurðssyni í Traðarkoti er haft, að fram undir 1908 hafi aðeins verið fjórir brunnar í Brunnastaðahverfi, innangarðs, þ.e. Í Halakoti, Neðri-Brunnastöðum], Skjaldarkoti og Suðurkoti. Utangarðs voru brunnar í Grund og Vorhúsum.”
Brunnurinn er í túni, um 50 m suðaustan við sjóvarnargarð. Túnið er í rækt.
Lítið hús með steyptum grunni hefur verið byggt yfir brunninn. Húsið var læst þegar skráningarmaður var á vettvangi vorið 2013 og var því ekki hægt að skoða hann. Ætla má að brunnurinn sé heillegur.

Gerði (býli)

Gerði

Gerði.

Samkvæmt túnkorti frá 1919 var útihús og kálgarður um 150 m norðaustan við bæ. Þar var býlið Gerði.
“Fyrstan er að nefna tómthúsbæinn Gerði sem var norðaustast í Skjaldarkotslandi. Féll Gerði úr byggð 1905, en við hann eru kenndir Gerðiskálgarðar,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Á kort sem fylgir ritgerðinni er merktur brunnur hjá býlinu og er hann skráður með því. Enn sjást kálgarðarnir, allstór tóft og ummerki um brunninn.
Minjarnar eru á og við hóla í túnjaðri nærri mörkum móti Hlöðunesi. Til austurs eru fjárhús og annað hús. Minjarnar eru á svæði sem er um 50×50 m að stærð og snýr norður-suður. Innan þess er tóft, kálgarður, garðlag og leifar af brunni.

Tjörn (býli)

Tjörn

Tjörn.

“Tjörn var einnig í Skjaldarkotslandi, að suðaustanverðu. Fór Tjörn í eyði 1918,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í bók Guðmundar Björgvins Jónssonar um Mannlíf og mannvirki í hreppnum segir: “Í Skjaldarkotslandi nokkru ofan við Skjaldarkot, nálægt tjörninni Gráhellu, var byggður bærinn Tjörn nokkru fyrir aldamótin 1900.” Þar segir að Tjörn hafi farið í eyði 1920. Samkvæmt túnakorti frá 1919 var býlið um 130 m suðaustan við bæ 001. Því tilheyrðu tvískipt hús og afgirtur blettur sem skiptist í tún og kálgarð. Að sögn Virgils Scheving Einarssonar, heimildamanns, var íbúðarhúsið í Tjörn flutt að Efri-Brunnastöðum 2 á sínum tíma en það er ekki lengur þar. Gamla heimreiðin að Skjaldarkoti liggur yfir bæjarstæðið en enn sést móta fyrir grunni íbúðarhússins og garðhleðslum. Minjarnar eru í túnjaðri fast norðan við Brunnastaðatjörn/Gráhellu.
1919: Tún 0,09 teigar, garðar 560m2. Ummerki um býlið Tjörn sjást á svæði sem er um 30×30 m að stærð. Norðvestast á því sjást óljóst ummerki um húsgrunn. Útflattur og gróinn garður sést syðst á svæðinu. Garðurinn afmarkar svæði sem er 15×30 m að stærð og snýr ASA-VNV. Garðurinn er 1,5-2 m á breidd og 0,3 m á hæð.

Traðarkot (býli)

Traðarkot

Traðarkot.

Hjáleiga Brunnastaða 1703, öðru nafni Fjósahjáleiga, byggð í stað Austurhúsa. Í eyði frá 1693 en byggð aftur fyrir 1847. JÁM III, 127; JJ, 90.

1919: Tún 1,4 teigar, garðar 660 m2.
“Traðarkotsbærinn, gamli, sem byggður var 1904 af Sigurði, föður Sigurjóns, var þar sem nú er hjallur við útihúsin, norðvestan við íbúðarhúsið sem nú er. Það hús byggði Sigurjón 1927. Hvar bærinn stóð áður en faðir Sigurjóns byggði sinn, er ekki gott að segja til um, en nafnið Traðarkot telur Sigurjón vera dregið af heimtröðinni að Efri- og Neðri-Brunnastöðum sem lá þvert yfir
þýfðan móa þar sem nú er Gamlatún í Traðarkoti, og áfram upp eftir, í gegnum Tjarnarhlið eða Heiðarhlið sem þá var. Hafi bærinn staðið nálægt slíkum tröðum er ekki ólíklegt að hann hafi fengið nafn sitt af þeim,” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Í örnefnalýsingu segir: “Bærinn stendur á nokkuð háum bala, sem endar með lágum hól suðvestan við bæinn, Bæjarhólnum.” Bæjarstæðið í Traðarkoti er uppi á grónum hraunhól í sléttuðu túni 20-30 m suðaustan við brunn. Á túnakorti frá 1919 má sjá húsaröð á bæjarstæðinu sem var um 15 m á lengd og sneri norðaustur-suðvestur. Hlaðið var suðaustan við
húsaröðina.
Talsvert rask hefur orðið á bæjarstæði Traðarkots vegna byggingar nýrra húsa og niðurrifs eldri mannvirkja. Þar stendur eitt íbúðarhús og er búið að slétta allt í kringum það.
Ekki sést afgerandi bæjarhóll í Traðarkoti en hraunhóllinn sem bærinn er á er um 60×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er 2-3 m á hæð. Við norðausturenda hólsins má sjá grjót og steypuleifar sem rutt hefur verið fram af hólnum.

Traðarkotsbrunnur (vatnsból)

Traðarkotsbrunnur

Traðarkotsbrunnur.

“Brunnlaut dregur nafn sitt af Traðarkotsbrunni …, ” segir í ritgerð um örnefni í Brunnastaðahverfi. Brunnurinn er merktur inn á túnakort frá 1919 og er um 30 m vestan við bæ.
Brunnurinn er í hólóttu túni. Dálítil brekka er frá brunninum upp á hólinn þar sem bæjarstæði Traðarkots er. Brunnurinn er grjóthlaðinn. Hann er 3,5 m í þvermál að utanmáli og 1,5 m í þvermál að innanmáli. Hleðslurnar standa vel og eru 0,5 m á hæð ofan jarðar. Steypt hefur verið ofan á brunninn og sett viðarlok þar ofan á. Gat er á lokinu og hægt að sjá niður um það ofan í brunninn. Hann virðist vera 4-5 m á dýpt og sjást 12-14 umför í innanverðum hleðslum. Ekki sést vatn í brunninum en slanga liggur úr brunninum í fiskikar sem notað er til að brynna skepnum.

Hvassahraun (býli)

Hvassahraun

Hvassahraun – Suðurkot framar.

Jarðadýrleiki óviss 1703, konungseign. JÁM III, 155. Um 1234 segir í máldaga Viðeyjarklausturs að Magnús biskup hafi gefið klaustrinu sjöundahlut úr hvalreka og viðreka í Hvallahraunslandi. (DI I, 507). Um 1284. Þá á klausturið í Viðey sjöunda hluta hvalreka á Hvassahraunslandi. (DI II, 247)1397, vitnisburðarbréf um máldag og reka kirkjunnar í Viðey að Hvassahrauni. (DI III, 341). 1547-48 er jarðarinnar getið í fógetareikningum. (DI XII, 114).
1584: Landskuld jarðarinnar til Viðeyjarklausturs 6 vættir fiska. (Árni Óla: Strönd og Vogar, 26) Hjáleigur í byggð 1703, Þóroddskot og tvær nafnlausar. JÁM III, 156-7. Hvassahraunskot hjáleiga 1847. JJ, 91 Sönghóll var býli í byggð um 1840. “Við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. …” “Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur.” Ö-Hvassahraun, 3-4, 6. Lengi tvíbýli að Hvassahrauni og fór Hvassahraun 1 í eyði fyrir 1962, Hvassahraun 2 fór fyrr í eyði.
1703: “Engjar eru öngvar. Úthagar, sem áður voru sæmilegir, gánga mjög til þurðar, því hríssrifið eyðist.” JÁM III, 156.
“Hvassahraunsbær stóð á klapparrana. Þar var oftast í fyrri daga tvíbýli, Austurbær og Vesturbær,” segir í örnefnaskrá. Nú stendur bárujárnsklædd timburbygging þar sem gamli bærinn var áður. Guðmundur Sigurðsson, heimildamaður, man eftir eldra húsi (forsköluðu) á nákvæmlega sama stað og það hús sem nú stendur og taldi að þar hefði Vesturbærinn í Hvassahrauni staðið um langa hríð. Húsið sem nú stendur á þessum stað er með steyptum kjallara. Það er á hæð sem virðist að mestu náttúruleg enda túnið allt í hæðum. Víða sjást hleðslur í og við bæinn. Engar leifar um torfbyggingar hafa sést á þessum stað um áratugaskeið. Hóllinn er um 200 m norðan við Reykjanesbraut.

Norðurkot (býli)

Hvassahraun

Norðurkot.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði …” segir í örnefnaskrá. Um 185-195 m norðan við Hvassahraunsbæinn var Norðurkot og sjást merki þess enn greinilega. Norðurkot er um 80-90 m norðaustan við Niðurkot og útihús norðaustan við kotið er um 5 m innan við túngarð. Tóftin er tæpum 400 m neðan við Reykjanesbraut.
Norðurkot er á hæð og allt umhverfis er grasigróið tún, ræktað upp á hrauni. Túnið er allt í hæðum og dældum. Tóftin snýr norðaustursuðvestur. Fast aftan austan við hana er önnur tóft sem snýr þvert á hana og eru þær nú samgrónar. Tóftin er 12,5 X 8 m að stærð. Enginn suðvesturveggur er á tóftinni. Hólfið er grjóthlaðið en gróið að utan. Mikið grjót hefur fallið inn í það. Norðvestan við bæinn er djúp dæld og hlaðið umhverfis hana.
Suðvestan við bæinn má sjá óljósar leifar garðlags sem girt hefur af ræktaðan blett. Suðaustan við bæinn eru einnig nokkrar hleðslur garðlags sem girt hefur af tún.

Niðurkot (býli)

Hvassahraun

Niðurkot – uppdráttur.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún …” segir í örnefnaskrá. Rúma 120 m norðvestan við bæ sjást enn leifar Niðurkots. Kotið er um 80 m suðvestan við Norðurkot og 300-350 m neðan við Reykjanesbraut. Tóftin er á grasi gróinni hraunhæð en allt umhverfis eru dældir og hæðir.
Tóftin er einföld, um 7 m á lengd en 6 m á breidd. Enginn vesturveggur er fyrir tóftinni. Hún hefur verið hlaðin úr grjóti en er alveg gróin að utan. Hæð hleðslna er 1,3 m.

Þorvaldskot (býli)

Hvassahraun

Þorvaldskot.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði. Norðurkot með Norðurkotsgerði, þá var Niðurkot og Niðurkotstún, líka Þorvaldskot og Þorvaldskotstún. Sjást þar alls staðar rústir,” segir í örnefnaskrá. Samkvæmt lýsingu virðist Þorvaldskot hafa verið nyrsta kotið í túni Hvassahrauns, fremur nálægt sjó. Guðmundur Sigurðsson man ekki eftir þessu heiti en taldi að lýsingin gæti helst átt við tóftir um 300 m norðvestan við bæ. Þar er hringlaga túngarður og tóft í miðjunni. Tóftin er um rúmum 500 m norðan Reykjanesbrautar.
Tóftin og garðlagið umhverfis eru á grasi grónu svæði fast ofan við fjöruborðið. Svæðið samanstendur af einni einfaldri tóft sem er um 16 X 6 m að stærð og er opin til norðurs og túngarði sem liggur umhverfis hana. Tóftin er hlaðinn úr grjóti en er mjög gróinn að utan. Grjóthleðslur eru byrjaðar að falla inn í tóftina og því er hún aðeins 3 X 9 m að innanmáli. Stærð túngarðsins að innan er 35 m X 24 m. Hleðslur tóftarinnar eru mest 1,5 m á hæð en túngarðurinn er 0,3 m á hæð. Tóftin var þaklaus undir það síðasta og var notuð í tengslum við sjósókn.

Kirkjuhóll (huldufólksbústaður)

Hvassahraun

Kirkjuhóll.

“Kirkjuhóll er í Norðurtúni og Kirkjuhólsflöt. Hóllinn er einnig nefndur Álfahóll, því að þar messaði huldufólkið,” segir í örnefnaskrá. Skáhallt (suðaustur) af Norðurkoti er aflöng klöpp eða hóll sem liggur norðvestur-suðaustur og var nefndur Kirkjuhóll. Hóllinn er um 300 m norðan Reykjanesbrautar. Gróinn aflangur hraunhóll í túni (ræktuðu upp á hraunsvæði). Klöppin er mjög löng og í suðausturenda hennar er fjárréttin.

Látur (býli)
“Vestan Látra tók við Vesturhraun. Þar, er talið, að staðið hafi bær, sem lagðist af við hraunrennslið, nefndist Látur,” segir í örnefnaskrá. Látur er um 800 m vestan við Hvassahraun. Ekki sjást nein merki um bæjarstæði á þessum slóðum. Á svipuðum stað voru hlaðnar 3 tóftir og nokkrar vörður úr grjóti fyrir tökur á kvikmyndinni “Myrkrahöfðinginn”. Látur er um 150 m norðan við Reykjanesbraut. Þröng vík með mörgum skerjum.

Hjallhólaskúti (fjárskýli)

Hjallhólaskúti

Hjallhólaskúti.

“Hellur eru suður og upp frá Tröðunum. Lítið eitt vestar eru Hjallhólar og Hjallhólaskúti þar í. Hann var fjárbyrgi,” segir í örnefnaskrá.
Hjallhóll er rétt suðaustan túns en fast neðan Reykjanesbrautar. Hóllinn er 210-220 m suðaustan við bæ. Frá Reykjanesbrautinni er opið í hellinn greinilegt enda hellirinn innan við 20 m norðan við Reykjanesbraut.
Hraunhóll með jarðsigi. Gengið er ofan í dældina að sunnan og gefur þá að líta klettaveggi sem slúta inn og mynda þannig skjól. Hellar eða skjól eru bæði á austur- og vesturvegg.
Austari hellirinn er líklega sá sem notaður hefur verið sem fjárskýli. Hann er um 10 m á lengd en 4-5 m á dýpt. Hellinum lokar að hluta náttúruleg upphækkun en ofan á hana hefur að hluta verið hlaðið 5-7 m langur veggur.

Loftsskúti (fjárskýli)

Loftsskúti

Loftsskúti.

“Þar suður og upp af [Virkinu] er hólaþyrping, Brennhólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla,” segir í örnefnaskrá. “Á einum hraunhólnum er varða sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í síðari heimildinni er Loftsskúta og Grændalahelli slegið saman í eitt en Grændalahellir er 1,2 km norðan við Loftsskúta og er um tvo aðgreinda staði að ræða. Fjárskýli eru á þeim báðum. Loftsskúti er um 860 m austan við Virkið og um 1,8 km austan við bæ. Varða 124 er 20 m norðan við skútann. Fjárskýlið er ofan í hringlaga jarðfalli í grónu hrauni ofan Reykjanesbrautar. Skútinn er um 13 m á lengd og snýr austur-vestur. Hann er víðast 4 m á breidd og 0,5-1,5 m á hæð. Lofthæðin í skútanum lækkar eftir því sem innar dregur (til norðurs). Hlaðið er fyrir skútann og er hleðslan úr grjóti. Hún liggur frá austri til vesturs og sveigir lítillega til norðurs, inn undir þak skútans, og liggur í mjúkum boga frá austri til vesturs. Hún er 11 m á lengd og 0,5-1 m á breidd. Hæst er hún um 1,5 m og mest sjást 7-8 umför. Vestast í hleðslunni hefur hraunhellum verið tyllt upp á rönd í hleðslunni og halla þær inn að þaki skútans og ná þannig að loka honum alveg. Op inn í skútann er við austurenda hleðslunnar og er það 1,5 m á breidd.

Öskjuholtsskúti (fjárskýli)

Öskjuholtsskúti

Öskjuholtsskúti.

“Sunnan við Rjúpnahraun tekur við hraunhryggur, er liggur frá vestri til austurs. Heitir það Öskjuholt og nær vestur í Afstapabruna. Þar er að finna Öskjuholtsskúta, Öskjuholtsgjá og Öskjuholtsbruna ofan til,” segir í örnefnaskrá. Hleðsla er fyrir Öskjuholtsskúta og hefur hann þjónað sem fjárskýli. Skútinn er um 1,2 km sunnan við Virki og um 1,4 km suðaustan við bæ. Öskjuholtið er afgerandi í landslaginu og er stór sprunga eftir því endilöngu. Holtið er gróið og eru birkirunnar allt í kringum það og uppi á því. Erfitt er að koma auga á skútann vegna gróðurs en hann er neðst á u.þ.b. miðju sunnanverðu holtinu. Þröngt op er inn í skútann í austurenda sem er 0,5 m á breidd. Skútinn er um 1 m dýpri en umhverfið fyrir utan hann.
Grjóthleðsla er við vestanvert opið inn í skútann. Hún er einföld á breiddina en í henni sjást þrjú umför hleðslu og er hún um 1 m á hæð. Skútinn er allstór, 5×10 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Í vesturenda hans má sjá kindabein. Skútinn er hæstur innan við opið inn í hann en þar er hann um 1,2 m á hæð. Hann lækkar skarpt til vesturs. Ekki sjást önnur mannaverk á eða við skútann en áðurnefnd hleðsla.

Markhelluhóll (áletrun)

Markhelluhóll

Markhelluhóll.

“Sunnan Einihlíða lá landamerkjalína Hvassahrauns og Krýsuvíkur í Markaklett, sem er austur af Búðarvatnsstæði. Hann er nefndur Markhelluhóll í landamerkjalýsingu. Stafirnir Hvassa. – Ótta. – Krv. eru þar markaðir á hellu, sem snýr við norðaustri. Á hólnum er varða, sem mun heita Markhelluhólsvarða,” segir í örnefnaskrá. Markhelluhóllinn með vörðu og áletrun er um 800 m suðaustan við Búðarvatnsstæði og 7,6 km suðaustan við bæ. Áletrunin hefur einnig verið skráð í landi Krýsuvíkur en þar er vörðunni ekki lýst. Hóllinn er á holti sem er mjög sprungið og margar djúpar gjár eru á því norðvestanverðu. Mosavaxið hraun er allt í kring.
Markhelluhóll er allhár og krosssprunginn. Áletrunin er á flatri hellu á norðausturhlið hólsins. Stafirnir er um 10 sm á hæð og nær áletrunin yfir svæði sem er 0,5×0,6 m að stærð. Hún er enn vel greinileg. Varðan er 10 m sunnan við áletrunina, á hæsta punkti hólsins. Hún virðist ungleg eða hefur verið endurhlaðin. Viðarprik stendur upp úr henni. Varðan er um 1 m í þvermál og 1 m á hæð. Hleðslan í henni er óvönduð en í henni má sjá 3 umför.

Búðarvatnsstæði (vatnsból)

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæði.

“Þaðan [frá Markhelluhól] liggur landamerkjalínan í norður um mitt Búðarvatnsstæði og Búðarhól, sem er Hraunhóll,” segir í örnefnaskrá “Gömul hestagata [069] liggur með fram hrauninu og við fylgjum henni í austurátt fyrir tunguna og að Búðarvatnsstæði. Um vatnsstæðið endilangt liggur gamla sauðfjárveikivarnargirðingin sem hefur vísað okkur veginn hingað til. … Vatnsstæðið er nokkuð stórt miðað við önnur í hreppnum og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum. … Það er líklegt að þeir sem unnu við kolagerð og hrístöku í Almenningi hafi hafst við tímabundið við Búðarvatnsstæði og af því sé nafnið dregið,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Vatnsstæðið er um 270 m suðaustan við vörðu, 3,7 km suðaustur af Hvassahraunsseli og 6,9 km suðaustan við bæ.
Vatnsstæðið er á mosavöxnum flata í skeifulöguðu viki inn í úfið, mosavaxið apalhraun. Það er innst/vestast í vikinu, næst hraunbrúninni. Staurar úr gömlu sauðfjárveikivarnargirðingunni sjást enn, sem og hleðsla sem var undir henni. Hún liggur frá hraunjaðri, að vatnsstæðinu og yfir það. Vatnsstæðið er um 5×9 m að innanmáli og snýr norður-suður. Af bakka og niður á vatnsborð er um 0,5 m og niður í botn eru um 0,8 m. Lögun vatnsstæðisins er fremur regluleg og því líklegt að mannaverk séu á því. Engar aðrar skýrar minjar sjást hér í kring en óljós tóft er þó mögulega við suðvesturhorn vatnsstæðisins. Meint tóft er um 6×4 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hún er grjóthlaðin en nánast algróin. Það sést í grjót í suðvesturenda og utanverðum suðaustur-langvegg. Mesta hæð veggja er um 0,2 m. Innst í meintri tóft, í norðausturenda er ferköntuð dæld sem er 0,3×0,4 m að innanmáli, snýr eins og tóft, og er 0,1 m á dýpt. Ýmsar mosaþústir eru hér í kring en engin þeirra hefur tóftarlag og óvíst er að hér séu fleiri minjar.

Brugghellir (hellir)

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

“Fast við Strokkamel að suðvestan er djúpur hellir eða jarðfall og til skamms tíma var girðing umhverfis opið svo kindur féllu ekki þar niður. Í hellinum eru hleðslur en niður í hann er aðeins hægt að komast með því að síga eða nota stiga. Sagt er að hellirinn hafi verið notaður til landasuðu á bannárunum og því oft kallaður Brugghellir,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Hellirinn er um 730 m suðvestan við bæ og 1,5 km VSV við fjárskýli í Virkinu.
Hellirinn er í fremur flatlendu og jafnlendu mosagrónu hrauni. Leifar af girðingu eru í kringum hellisopið sem er beint niður í hraunið og tveir uppistandandi staurar.
Hellisopið er um 2 m í þvermál og eru 4-5 m niður úr því ofan á hellisgólf. Ekki sést vel ofan í hellinn sökum myrkurs. Þó sést að vatn stendur í honum (haust 2014).

Grændalahellir (fjárskýli)

Grændalahellir

Grændalahellir.

“Norðaustur af Virkishólum eru Draugadalir. Þar eru einnig Grændalaflatir, Grændalir og Grændalavarða,” segir í örnefnaskrá. “Á einum hraunhólnum er varða sem heitir Grændalavarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum sem heitir Grændalahellir eða Loftsskúti og snýr op þess í suðurátt,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Í síðari heimildinni er Loftsskúta og Grændalahelli slegið saman í eitt en Loftsskúti er 1,2 km sunnan við Grændalahelli og er um tvo aðgreinda staði að ræða. Fjárskýli eru á þeim báðum. Grændalahellir er norðan í hólnum sem Grændalavarða er á og gengið er inn að norðan til suðurs. Hellirinn er um 100 m suðaustan við steyptan stöpul frá Landmælingum sem sést greinilega frá Reykjanesbraut. Hann er um 2 km ANA við bæ.
Gróið hraun. Fjárskýlið er að mestu náttúrulegt. Hellirinn er 11-12 m á lengd og 3-4 m á breidd. Hæstur er hann 1,6-1,8 m en hallar mikið inn á við. Fyrir framan hellinn er náttúruleg hraunbrún sem afmarkar hann en ofan á henni er grjót og hleðslur á stöku stað. Skarð er í hraunbrúnina á einum stað.

Suðurkot (býli)

Hvassahraun

Hvassahraun – túnakort 1919.

“Á hægri hönd við Sjávargötuna voru ýmis kot, einu nafni nefnd Hvassahraunskotin. Þar var Suðurkot og Suðurkotsgerði,” segir í örnefnaskrá. Ekki er vitað hvar Suðurkot var. Suðaustan við Hvassahraunsbæinn voru tún nefnd Suðurtún og því eðlilegt að álykta að á þeim slóðum hafi Suðurkot verið. Hins vegar ber að hafa í huga að Sjávargata er sögð liggja frá bænum (Hvassahrauni) og niður að sjó og Suðurkot er sagt austan hennar.
Samkvæmt því ætti því Suðurkot að vera norðan bæjar! Ef svo hefur verið má vera að hringlaga garðlag sunnan Norðurkots gæti hafa kallast Suðurkot. Garðlagið sem enn sést er a.m.k. sunnar en önnur kot sem þekkt eru í túninu. Um þetta verður þó ekkert fullyrt.
Grasi gróið hraunsvæði þar sem skiptast á hæðir og dældir.

Hvassahraunssel (sel)

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel – uppdráttur ÓSÁ.

Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703 segir: “Selstöðu á jörðin þar sem heitir Hvassahraunssel; hagar eru þar sæmilegir, en vatnsból brestur til stórmeina.” “Upp af Brennhólum er Hálfnaðarhæð. Þar er hálfnuð leið frá bænum í Selið. Þá tekur við sunnan nokkur Selskrínshæð og þar sunnar er Viðunarhóll, skógi eða hrísi vaxinn. Þá er komið í Selið eða Hvassahraunssel, sem er vestan undir Selásnum. Veggir standa enn nokkurn veginn uppi, og gróður er þar í kring. Vatnsbólið er undir skúta, eiginlega beint austur af selinu og er erfitt að finna það,” segir í örnefnaskrá.” Á heimasíðu FERLIRs segir: “Í austurátt frá Haugrúst og langan veg suðaustur af Bennhólum sjáum við Selásinn eða Selhæðirnar og þar norðvestan undir er Hvassahraunssel.
Selstæðið er nokkuð stórt og þar eru tveir rústahólar en kvíin er vestarlega í seltúninu,” segir í bókinni Örnefni og gönguleiðir. Hvassahraunssel er um 3,1 km suðaustan við bæ 001 og 215 m VNV við vörðu 065 á Selásnum.
Selið er vestan og norðan við Selás sem er afgerandi í landslaginu og veitir skjól. Selstæðið er fremur flatlent næst ásnum en svo taka lágar hraunhæðir við og lautir á milli enn fjær er mosagróið hraun. Gras vex enn á selstæðinu en mikill mosi er í því.
Í bókinni Örnefni og gönguleiðir segir ennfremur: “Jón Helgason frá Litlabæ segir í sendibréfi árið 1984: “Ég tel að alllangt fram á 19. öldina hafi verið haft í seli frá Hvassahrauni, því móðir Þórunnar, sem þar bjó lengi, Ingibjörg, var þar selráðskona þegar hún var ung að árum en hún lifði líklega fram á annan tug þessarar aldar.” … Trúlega hafa öll sel lagst af í kjölfar fjárkláðans sem hófst árið 1856 en þá var allt fé skorið niður hér um slóðir … .” Fjórar tóftir eru sýnilegar á selstæðinu.

Hraunsnesskjól (fjárskýli)

Hraunsnesskjól

Hraunsnesskjól.

“Frá [Hraunsnefs-]tjörnunum blasir við Hraunsneshellir eða Hraunsnesskjól, og tekur þá Hraunsnes við,” segir í örnefnaskrá. Hraunsneshellir er skúti sem hlaðið hefur verið fyrir og notaður sem fjárskjól. Hann er um 280 m norðan við meint skotbyrgi 030, 90 m suðaustan við vörðu 131 og um 2,1 km norðaustan við bæ.
Fjárskýlið er norðan við Hraunsnefstjarnir í litlu viki inn í hraunhóla sem eru krosssprungnir. Grösugt er í kringum tjarnirnar en þar fyrir utan er hraunmói í næsta nágrenni.
Grjóthleðslur eru bæði framan við skútann og uppi á þaki hans og eru þær á svæði sem er 10×5 m að stærð og snýr norðvestur- suðaustur. Skútinn er um 10×2 m að innanmáli og er rúmlega 1 m á hæð þar sem hann er hæstur. Hlaðinn veggur liggur í sveig framan við skútann. Um 2 m norðvestan við suðausturenda veggjarins er op sem er 0,6 m á breidd. Veggurinn er um 1 m á breidd en hrunið hefur úr honum, sér í lagi úr innri brún norðvestan við opið en suðaustan við opið er veggurinn alveg útflattur. Mesta hleðsluhæð er um 1,2 m og mest sjást 5 umför hleðslu. Inni í skútanum og utan hans er spýtnabrak og annað rusl. Frá suðausturenda veggjarhleðslunnar framan við skútann liggur önnur hleðsla upp á þak hans. Hún er um 6 m á lengd og liggur í sveig til norðvesturs. Hleðslan er 1 m á breidd og 0,5 m á hæð. Í henni sjást 3 umför í innri brún en ytri brún sést ekki og er gróin.

Hvassahraunskot (býli)
Hjáleiga Hvassahrauns 1847. JJ, 91.
Norðurkot, Niðurkot og Suðurkot voru oft einu nafni nefnd Hvassahraunskot, einnig getur verið að Hvassahraun 2 hafi verið nefnt Hvassahraunskot en ekkert verður um það sagt.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Sveitarfélaginu Vogum – Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2016.

Hvassahraun

Hvassahraun – uppdráttur ÓSÁ.