Hér er sagt frá “Feigðarför Laugdæla og Tungnamanna á Mosfellsheiði 1857”:
Byggt er á grein séra Magnúsar Helgasonar í Huld og fleiri heimildum. Loftur Guðmundsson skráði.
“Þeir lögðu upp frá Þingvöllum, 14 talsins, laugardaginn þriðja í Góu 1857. Þeir voru úr Laugardal og Biskupstungum og ætluðu til sjóróðra við Faxaflóa svo sem tíðkaðist. Á leiðinni til Þingvalla blotnuðu þeir, áttu þar slæma nótt og voru blautir þegar þeir lögðu af stað í hnésnjó. Á Mosfellsheiði rauk upp með aftakabyl og þegar þeir náðu yfir heiðina, höfðu sex orðið úti, en þeir sem eftir lifðu voru skaðskemmdir af kali.
Formáli
Gönguleiðin um Mosfellsheiði.
Upp úr góubyrjun fór að sjást til óvenjumikilla mannaferða austan heiða. Þá héldu menn í verið. Útróðramenn úr öllum sveitum á Suðurlandsundirlendinu, jafnvel austan úr Austur-Skaftafellssýslu, lögðu þá leið sína til verstöðvanna á Reykjanesskaganum, út í Þorlákshöfn, niður á Eyrarbakka eða Stokkseyri.
Flestir fóru þeir fótgangandi og báru færur sínar á bakinu, oft allt að sex fjórðungum — smjör, kæfu og hangikjöt til skrínukosts á vertíðinni, sjóklæði og annan fatnað — og seig sú byrði í, þegar þung var færð eða stormur stóð í fang, kannski dag eftir dag, enda var margur óharðnaður unglingurinn lúinn að kvöldi, þegar kom á áfangastað.
Venjulega fóru vermenn allmargir saman: sammæltust af nágrannabæjum og síðan bættust fleiri í hópinn á leiðinni. Var það gert vegna félagsskaparins, en þó fyrst og fremst til öryggis, því oft voru kröggur í vetrarferðum, eins og sagði í máltækinu, og um þetta leyti vetrar var allra veðra von, en dagur enn skammur. Áttu og margir vermenn yfir mörg og viðsjál vatnsföll að fara, eða eyðisanda og mýraflæmi þar sem fátt var um kennileiti, og því villugjarnt í dimmviðri og eftir að myrkva tók. Það var því föst venja þeirra að skipta þannig dagleiðum, að þeir nytu dagsbirtunnar í viðureigninni við vatnsföllin og aðrar torfærur, eða þar sem villugjarnast var. Af þessum ástæðum var og yfirleitt alltaf um sömu, fastákveðnu gististaðina að ræða við dagleiðaskil, kannski ekki nema einn eða tvo bæi, en þar sem þéttbýlla var, skiptu vermenn sér niður á heimilin sem jafnast, að minnsta kosti þegar þeir fóru margir saman. En færi var gott og stillt veður, náðu þeir oftast á náttstað snemma á vöku, en í þungri færð og slæmu veðri, hríð, slyddu eða jafnvel slagviðri, gat það dregizt fram undir lágnættið og urðu þeir þá að vekja heimilisfólk upp. Yfirleitt var þeim jafnvel tekið þrátt fyrir það. Konur drifu sig á fætur, tóku upp eld í hlóðum, báru gestum mat, drógu af þeim vosklæðin og létu þeim loks eftir rekkjur sínar — og þegar þeir voru sofnaðir, náðum fegnir, undu þær plögg þeirra, þurrkuðu á felhellum og hlóðsteinum og vöktu yfir, því hafa varð stöðuga gát á eldunum svo þau brynnu ekki en yrðu þó þurr að morgni. Sjálfsagt þótti líka að bæta skó þeirra og staga í sokka ef með þurfti; höfðu vinnukonur og heimasætur því í rauninni lítil not fyrir bólið sitt þær næturnar — og þær nætur urðu margar út góuna. Þannig hafði það verið öldum saman á þessum bæjum sem lágu við dagleiðaskil vermanna og annarra í vetrarferðum, og var þó sízt talíð til annmarka, enda mun það aldrei hafa heyrzt að nokkurt það býli legðist í eyði fyrir gestanauð. Þvert á móti þótti til þess koma að vera þar húsráðandi, eða jafnvel aðeins hjú, og metnaðarsök að taka sem bezt á móti gestunum, hvenær sólarhringsins, sem þá bar að garði og hvernig sem þeir voru á sig komnir, og yfirleitt kom ekki til mála að taka eða þiggja greiðslu fyrir beinann, amstrið og næturvökurnar. Það var jafnvel ekki örgrannt um að vinnukonum og heimasætum þætti það nokkur upphefð að mega ganga úr rúmi fyrir næturgestum og eiga vökunótt yfir plöggum þeirra. Það síðarnefnda mátti líka að minnsta kosti kallast mikilvægt trúnaðarstarf, því að hæglega gat svo farið, að viðkomandi ætti limi sína og jafnvel líf undir því daginn eftir, að trúlega væri vakað yfir plöggum hans um nóttina og að þeim dyttað eftir þörfum, því að klæðnaður og allur útbúnaður manna í vetrarferðum var með afbrigöum óhentugur.
Þótt þjóðin hefði búið öldum saman í þessu landi, kunni hún ekki heldur að gera sér klæðnað eftir veðurfari og öðrum aðstæðum, þótt efni í hann væri fyrir hendi. Kunni ekki að súta skinn svo það yrði voðfellt og sæmilega vatnshelt, komst því aldrei upp á lag með að gera sér hlíðfarstakka úr sauðagærunum eða sómasamlegan skófatnað úr leðrinu. Vaðmálsflíkurnar voru að vísu skjólgóðar í þurrakulda, en söfnuðu í sig vætu og urðu þá þungar og stirðar; hlupu svo í klakastokk ef skyndilega frysti og geröi mönnum óhægt um gang og hreyfingu alla. Sama var að segja um fótabúnaðinn, skinnsokkana og skóna, sem var yfirleitt heilsuspillandi í öllum veðrum, en stórhættulegur í frosthörkum. Þá var höfuðbúnaður manna í slíkum feröum yfirleitt með þeim endemum, að þá kól á eyrum og í andliti, hvað lítið sem út af bar — prjónahetturnar, sem tíðkuðust norðanlands og vestan hlífðu þó eyrunum, og jafnvel andlitinu að mestu leyti. Kom því að litlu haldi þótt ullarnærfötin væru afbragðsflíkur, hlý og mjúk; og þelsokkarnir góð og hentug plögg í sjálfu sér, þar eð utanyfirfatnaðurinn var svo óhentugur og fótabúnaðurinn lélegur að öðru leyti.
Þótt nærtækast sé að skýra þetta með úrræðaleysi og vanafestu, hafa orsakirnar ef til vill legið dýpra. Allt fram á þennan dag hefur það verið rík hneigð með þjóðinni, „að láta sig hafa það” — láta sig hafa óþægindin og annmarkana, jafnvel þótt jaðra við lítilmennsku að leitast við að ráða bót á þeim. Menn létu sig því hafa það að kala á andliti og fótum á leið milli bæja og verða úti á heiðum og fjallvegum fyrir óhentugan útbúnað. Og svo gerði forlagatrúin, sem alltaf hefur verið okkur í blóð borin, líka sitt til. Mönnum lagðist alltaf eitthvað til, ef ekki voru uppi dagarnir, og hvorki varð feigðum forðað né ófeigum í Hel komið. Hverju skipti því útbúnaðurinn — eða þótt menn kynnu hvorki að grafa sig í fönn né gera sér snjóskjól, sem oft heföi þó getað borgið limum þeirra og lífi í baráttunni við hríðarnar og frosthörkuna? Það eitt barg því, að ekki skyldu oftar verða slys og mannskaðar í þessum vetrarferðum en raun ber vitni, hve menn voru orðnir þrautþjálfaðir í þeirri hörðu íþrótt, aö láta sig hafa það — og hafa það af. Fyrir miskunnarlaust tillitsleysi við sjálfa sig fyrir þrotlaust strit myrkranna á milli við vosbúð og skort, öldum saman, fyrir hetjudýrkun í sögu, sögn og kveðskap hafði þjóðin öðlazt þá ódrepandi seiglu og þrákelkni, líkamlega og andlega, að nálgaðist hið ofurmannlega, og afrekin, þegar á reyndi urðu eftir því. Og þegar ósigurinn varð ekki umflúinn, buðu menn hamremi höfuðskepnanna á sjó og landi byrginn, af óskiljanlegri þrautseigju og kjarki unz yfir lauk. Fátt lýsir betur því hve almenningi fannst sjálfsagt að láta sig hafa það og hversdagslegt að hafa það af á hverju sem gekk, að þess var yfirleitt ekki að neinu getið, þegar menn komu lífs heim úr hrakningum og svaðilförum, og þrekraunir þeirra þá sjaldan skráðar, en ef þeir hinsvegar urðu undir í átökunum við náttúruöflin, þótti hálft í hvoru minnkunn að viðurkenna að þeir hefðu ekki haft það af — að hríðin, frostharkan, veðurofsinn og veglaus auðnin hefði orðið þeim ofurefli, og það eins þótt hinsta barátta þeirra og vörn, vanbúinna, hraktra og örþreyttra, væri ofurmannleg hetjudáð. Því var gripið til draumana og fyrirboðanna, í því skyni að sanna það, að ferðalokin hefðu verið fyrirfram ákveðin af því almáttka dularvaldi, sem enginn mátti við og engum var vansæmd að lúta í lægra haldi fyrir, forlögunum. Þetta býr atburðamynd flestra frásagna af válegum atburðum, slysum og mannsköðum á sjó og landi, svo sterka umgerð, að þær glata yfirleitt mjög svip sínum án hennar.
Ill nótt hjá Þingvallapresti
Laugardaginn þriðja í góu, veturinn 1857, gat að líta hóp vermanna, er sátu á vestri barmi Almannagjár og fengu sér árbita af nesti sínu. Þeir voru fjórtán talsins, úr Biskupstungunum og Laugadalnum, og á öllum aldri, tveir yngstu aöeins seytján ára, Guðmundur frá Múla í Biskupstungum og Þorsteinn frá Kervatnsstöðum. Aðrir í hópnum voru þeir Kristján frá Arnarholti, Sveinn frá Stritlu, Einar frá Hrauntúni, Bjarni frá Böðmóðsstöðum, Gísli úr Austurey, Gísli nokkur Jónsson, Ísak og Diðrik úr Útey, Jón frá Ketilvöllum, Guðmundur og Egill frá Hjálmsstöðum — og loks Pétur Einarsson, þá vinnumaður í Múla í Biskupstungum, tæplega hálfþrítugur að aldri.
Þetta var þriðji dagur ferðalagsins fyrir þá Pétur og aöra úr Biskupstungunum, því að þeir höfðu lagt af stað á fimmtudag, sex saman, gist á bæjum í Laugadalnum um nóttina, þar sem hinir átta bættust í hópinn, og haldið af stað í býtið á föstudagsmorguninn, hreppt slydduhríð svo myrka að þeir villtust nokkuð; þegar rofaði til, sáu þeir bæinn að Gjábakka í Þingvallasveit, komu þar við og þágu kaffi; voru þeir því fegnir, því að þeir voru mjög blautir orðnir og föt þeirra tekin að þyngjast af slyddunni, en snjónum kyngdi niður og tók víða meir en í miðja kálfa. Þegar þeir lögðu af stað frá Gjábakka, leit út fyrir að enn mundi skella yfir dimmt él; virtist þeim því óráð að halda út á vatnið, yfir að Heiðabæ og Skálabrekku, en gengu með landi. Lengdist þá leið þeirra að óþörfu, því að aldrei skall yfir élið; þó var það lakara að fyrir bragðið áttu flestir þeirra heldur illa nótt að prestsetrinu á Þingvöllum, kytrað fjórum og fjórum saman í rekkju í köldu kamersi, blautum og lúnum eftir slydduna og ófærðina um daginn og ekki höfð nein hugsun á að þurrka plögg þeirra, svo þeir urðu að fara í allt hráblautt og kalt að morgni. Höfðu þeir því verið því fegnir, er prestur bauð þeim að doka við eftir kaffi, en svo löng varð biðin að þeir sársáu eftir að hafa ekki hafnað boðinu, enda var þá hrollurinn úr þeim að mestu, þegar kaffið loksins kom. Þeir fáu úr hópnum, sem gistu að Skógarkoti, höfðu hinsvegar átt góða nótt og fengið plögg sín og vosklæði þurrkuð, og vafalítið mundu þeir allir hafa getað sagt þá sögu, ef þeir hefðu haldið yfir vatnið og gist að Heiðarbæ og Skálabrekku. Þótt Þingvallaklerkur væri vel að sér í grísku og hebresku, sýndi það sig oftar en í þetta skipti að hann kunni kotbændum síður að taka á móti gestum, veita þeim beina og skilja þarfir þeirra. Þó varð það enn afdrifaríkara fyrir þá félaga, að fyrir bragðið urðu þeir mun síðbúnari á heiðina; þangað var drjúgur spölur frá Skógarkoti og Þingvöllum og seingenginn í ófærð, en snjór tók nú víöast hvar á hné, og auk þess hafði biðin eftir kaffinu orðið til að tefja för þeirra — bæirnir Heiðabær og Skálabrekka lágu hinsvegar uppi í sjálfri heiðinni. Það var annars einkennilegt hve margt hafði orðið til að tefja för þeirra. Hún hafði verið ráðin nokkrum dögum fyrr, en dregizt sökum þess hve einn þeirra félaga úr Biskupstungunum, Kristján frá Arnarholti, var síðbúinn.
Illa dreymdi mig í nótt piltar
Þeir snæða árbít sinn af beztu lyst; það er bezta veður, bjart og milt og gangan í ófærðinni hefur tekið hrollinn og ónotakenndina úr þeim, sem á Þingvöllum gistu. Þeir gera að gamni sínu og eru léttir í máli, en þó’er eins og einhver illur grunur eða beygur, sem virðist hjákátlegur í blíðunni og enginn vill því færa í mál, búi undir glensi þeirra. Og þegar nokkur þögn verður á, mælir Kristján frá Arnarholti upp úr eins manns hljóði og helzt við sálfan sig: „llla dreymdi mig í nótt, piltar.”
Þeim félögum hinum verður litið á hann; þeir hafa fleiri haft þunga drauma um nóttina, þótt þeir hafi ekki viljað á það minnast, og nú krefja þeir Kristján sagna eins og þeim sé í mun að fá það staðfest, að beygur þeirra sé ef til vill ekki með öllu út í bláinn þrátt fyrir veðurblíðuna.
„Það dreymdi mig,” svarar Kristján seinlega og hnýtir að mal sínum, „að tveir griðungar gráir kæmu á móti okkur á heiðinni og stönguðu til bana sex af förunautum mínum, en blóðguðu þann sjöunda.” Þetta verður til þess að menn hætta öllu glensi, og hafa fleiri orð á draum sínum á meðan þeir eru að ganga frá nestinu og halda aftur af stað. Veður er nú jafnvel enn mildara en fyrr, en ófærðin söm, og sækist þeim því heldur seint gangan, enda bera þeir flestir allþungar byrðar, og þótt ekki setji að þeim í blíðunni, sem urðu að fara í allt blautt um morguninn, gera flíkurnar þá þyngri og stirðari í spori.
Pétur Einarsson veður knálega mjöllina, og ekki virðist hann muna mikið um poka sinn, þótt hann sé sízt léttari en hinna, enda orðlagður fyrir fjör, krafta og harðfylgi. En þótt hann hafi líka það orð á sér, að vera kátur og skemmtilegur ferðafélagi, mælir hann nú fátt og er þungur á brún. Ekkert mark er að draumum, segir hið fornkveðna, en þó getur hann ekki varizt því, að draumsögn Kristjáns rifjar upp fyrir honum hans eigin drauma, þunga drauma, sem hann hefur haft í haust og vetur. Hann minnist næturinnar, sem hann átti í rekkju Geirs Zoéga, kaupmanns og útgerðarmanns í Reykjavík, en hjá honum reri hann á haustvertíð. Hafði farð vel á með þeim; Geir gamli var ekki allra, en trölltryggur þeim, sem hann batt vináttu við og kunni manna bezt að meta heilsteypta skapgerð, karlmennsku og áræði, og spillti þá ekki að viðkomandi gæti goldið orðknapp og hreinskilnisleg, og á stundum dálítið meinleg tilsvör hans í sömu mynt. Sýnir það nokuð álit hans á Pétri, að hann bað hann sofa í rekkju sinni, þegar hann var sjálfur í burtu um haustið, en svo var þessa umræddu nótt. Víst var um það, að sízt gat það verið hugur þess, sem rekkjuna átti, sem varnaði Pétri svefns lengi nætur og olli honum þeirri annarlegu vanlíðan, að hann var hvað eftir annað kominn á fremst hlunn með að fara á fætur, og hefði gert það ef honum hefði ekki þótt minnkun að. Og hvernig mátti skýra það, að hann heyrði braka og bresta í húsviðnum öðru hverju, en blæjalogn var úti? Það var ekki fyrr en undir morgun, að hann festi blund og þó ekki nema í svip. Þóttist hann þá ganga suður Kirkjugarðsstíginn og var frosin gatan, tína nokkra gullpeninga upp af leið sinni og heyrði hann sjálfan sig mæla í því hann vaknaði: „Þar hef ég þá fjórtán.” Fjórtán — og nú voru þeir félagar fjórtán saman í för.
Seinna um veturinn haföi hann þótzt vera staddur úti á hlaði að Mosfelli í Mosfellssveit í draumi sínum, horfa austur á heiðina og sjá koma þar menn með sleða sex í drætti, en er hann spurði hvaða menn þeir færu þar með, var honum svarað því til, að það væru samferðamenn hans. Kannski stóð þessi draumur hans þó í einhverju sambandi við atburði, sem ættu eftir að gerast aö Mosfelli, en kæmu honum annars ekki við; það hafði frétzt, að kirkjuklukkur hringdu þar líkhringingu af sjálfu sér á gamlárskvöld og nýársmorgun, og töldu margir að það mundi boða andlát prestsins þar, séra Magnúsar Grímssonar… Pétri varð litið til Guðmundar, seytján ára piltsins, sem gekk næst honum; hann hafði verið lagsmaður Péturs í Múla um veturinn, og var kært með þeim. Eina nóttina hafði Pétur dreymt, aö hann sæi kirkjuklukku hanga yfir höfði Guðmundar, þar sem hann hvíldi hjá honum; var öxi í stað kólfs í klukkunni og sló eitt högg og hrökk Pétur þá upp, en ískyggilegur hafði honum þótt draumurinn og leið hann ekki úr minni. Ekki heldur sá draumur, sem hann dreymdi nokkru síðar, og sem hann gat ekki varizt að gerði honum nokkurn geig nú, er hann átti heiðina framundan. Hann hafði einmitt þótzt vera staddur suður á Mosfellsheiði, búinn til bardaga og allvel liðaður, en vopnlaus sjálfur og kunni því illa, einkum þegar hann sá lið sitt taka að falla. Gekk þá að honum maður mikill vexti og rétti honum eitthvað að vopni, sem honum leizt þó ekki sigurstranglegt og þóttist hann mæla, í því hann vaknaði: „Ég kann að geta bjargazt við það, en ekki líkar mér það.” En hví var hann að rekja drauma þá í huga sér nú? Ekkert mark var að draumum, og gilti einu hvort það voru draumar hans sjálfs eða Kristjáns frá Arnarholti. Hafði ekki Egill á Hjálmstöðum, sem nú var í för með þeim, hætt við að reka fé sitt sjálfur suður yfir Mosfellsheiði þá um haustið, vegna þess aö hann dreymdi áður draum nokkurn, er hann réði þannig, að hann yrði úti á heiðinni, ef hann færi? Fengu rekstrarmenn þó bezta veður og varð ekkert sögulegt við för þeirra yfir heiðina. Pétur færði poka sinn yfir á hina öxlina meö snörpu handtaki, rétt eins og hann vildi um leið varpa af sér fargi þess geigs, sem ásókn draumanna hafði vakið með honum. Um leið varð honum litið til Egils bónda og í sömu andrá var, sem einhver mælti í eyra honum að ekki rættust allir draumar þann dag er maður hygði. Og það varð með geigþungann eins og pokann; hann gat dregið úr byrðinni í bili með því að skipta á öxl, því að betur var ódreymt en illa dreymt. Og hver og einn hlaut að taka því, sem að höndum bar, eins og hann var maður til. Bjóða örlögum sínum, ef ill væru, byrginn í lengstu lög og láta ekki bugast fyrr en yfir lyki. Og hvað gat svo sem valdið þeim, fjórtán fullfrískum karlmönnum, alvarlegum farartálma í slíku blíðskaparveöri. Þeim átti að endast dagsbirta yfir heiðina, enda þótt færðin væri þung og þeir hefðu orðið helzt til síðbúnir að heiman frá Þingvallaklerki um morguninn. Að vísu gat skjótt skipt veðri um þetta leyti…
Um leið var sem helkaldur gustur færi um heiðina Pétur Einarsson kippti pokanum hærra á öxl sér og svipaðist um. Þeir voru komnir utarlega í Vilborgarkeldu, veður var enn milt sem fyrr og bjart yfir allt um kring, nema hvað lítinn skýhnoðra dró upp yfir Esjunni; í svo skjótri svipan að furðu gegndi og varð að myrkri kólgu. Um leið var sem helkaldur gustur færi um heiðina og urðu nú snögg umskipti úr blíðu og birtu í norðansterkviðri með grimmdarfrosti og svo myrkri hríð, að ekki sá út úr augunum. Þeir félagar námu staðar til aö setja á sig stefnu og vindátt og ráða ráðum sínum. Vildu sumir snúa við og freista að ná á bæi í Þingvallasveitinni, en öðrum leizt ekki á það óráð — bæði vegna þess hve þar var vandhitt á bæi sökum strjábýlis, og voðalegt að villast út á vatnið, þar sem víða voru afætur við landið vegna kaldavermsla, eða út í hraunið, þar sem menn urðu að hafa fyllstu gætni í snjó þótt albjart væri veður, að þeir gengu ekki í þröngar gjár eða djúpar sprungur, sem hemað hafði yfir. Sýndist þeim því flestum meiri von, að þeir gætu náð að sæluhússkofa, sem þeir vissu á heiðinni, en færu þeir samt framhjá honum hallaði brátt undan fæti, ofan í Mosfellsdalinn og næðu þar á einhvern bæinn, enda mátti gera ráð fyrir að veðurofsinn væri þar öllu minni. Lögðu þeir því enn af stað, í þá stefnu er þeir hugðu á sæluhúskofanum, og gekk Egill frá Hjálmstöðum fyrir.
Færðin gerðist nú enn þyngri og tók snjórinn víða meir en hné. Frostharkan jókst og veðurhæðin að sama skapi og ekki sá spönn frá sér fyrir hríðarsortanum, sem umlykti þá á alla vegu. Nú hlupu klæði þeirra, sem báru þau blaut frá því í slyddunni daginn áður, óðara í einn klakastokk og heftu hverja hreyfingu sem fjötur væru. Eins og áður er á minnzt, var höfuðbúnaður manna í vetrarferöum með afbrigðum óhentugur; varð jafnvel ekki haminn í roki, eins og sýndi sig líka nú, því að veðrið reif höfuðfötin af sumum þeirra félaga, og að sjálfsögu ekkert viðlit að elta þau, og stóðu þeir berhöfðaðir eftir í frostinu og hríðinni. Þarf ekki að hafa mikla reynslu af vetrarferðum til þess að geta gert sér í hugarlund hvílíkt harðræði það hefur verið.
Ekki leið heldur á löngu, áður en margir þeirra félaga tóku að mæðast og lýjast, og bersýnilegt að þeir mundu gefast upp þá og þegar, en mundu þó endast eitthvað lengur ef þeir mættu losna við byrði sína. En — að fleygja frá sér mat og fatnaði, og vita hvort tveggja þá glatað fyrir fullt og allt, slíkt kom ekki til mála, og buðust því þeir, sem voru ekki eins lúnir orðnir, að taka á sig poka þeirra til viðbótar sinni eigin byrði, þótt það lægi í augum uppi að slíkt væri hin mesta fásinna eins og á stóð, þar sem það hlaut aðeins aö leiða til þess að alla þryti fyrr en ella. Svo hafði aldabarátta við skort og fátækt rist mark sitt á hugarfar manna, og gert þeim dýrmætt það matar- og fatakyns, sem þeir höfðu, að þeir gátu ekki fyrir nokkurn mun fengið sig til að sleppa því úr hendi, jafnvel ekki þótt líf þeirra lægi við, og það yrði aldrei að neinum notum.
Pétur í Múla og Einar í Hrauntúni taka forystuna
Sagt er að þeir, sem gefin er karlmennska og kjarkur umfram það, sem almennt gerist, hafi jafnan hægt um sig meðan allt gengur eins og í sögu, og sætti sig þá við forystu annarra og forræði, en fari sínu fram þegar á reynir og taki þá forystuna, beinlínis eða óbeinlínis eftir atvikum. Þannig virðist það hafa verið með Pétur Einarsson í þetta skiptið; hans er fyrst getið að afskiptum, þegar sumir félaga hans eru að þrotum komnir, en aðrir vilja létta þeim, og þyngja sér gönguna, með því að taka á sig poka þeirra. Svarar Pétur því þá til, og heldur ómjúklega, að það skuli hann aldrei gera, enda megi einu gilda þótt pokarnir liggi eftir. Og nú er eins og hann, og sá maður annar, sem hraustastur var í hópnum og kjarkmestur, veljist ósjálfrátt til forystunnar, en það var Einar frá Hrauntúni, jafnaldri Péturs. Þeir verða á einu máli um það, að Egill bóndi frá Hjálmstöðum muni ekki hafa haldið réttri stefnu, en sótt um of í veðrið og því farið of norðarlega, en það marka þeir af því, að enn hafa þeir ekki orðið varir við klif nokkurt, sem annars átti að verða á vegi þeirra, og hlutu þeir að vera komnir famhjá því, þar eð nú var farið að halla undan fæti. Taka þeir því forystuna, en breyta stefnunni og halda undan veðrinu í þá átt, sem þeir telja að sé á Mosfellsdalinn. Ganga þeir svo um hríð: Þótt nú sé undan veðrinu að fara, er þess skammt að bíða að fimm af þeim félögum gerist svo kröftum þrotnir, að ekki reynist viðlit að koma þeim lengra, og er nú rætt um hvað til bragðs skuli taka. Vilja sumir halda áfram ferðinni og freista að ná til byggða, en láta hvern liggja þar, sem hann þraut og bjarga þannig sínu eigin lífi, enda sé hver sjálfum sér næstur. Enn verður Pétur Einarsson að taka af skarið og sveigja þá hina til hlýðni við vilja sinn sem honum voru minni að skaphöfn og þreki — kveðst hann aldrei láta það henda sig, að yfirgefa félaga sína í nauðum, heldur skuli eitt yfir hann og þá ganga, og sáu þá allir að annað mundi engum þeirra sæmandi og urðu kyrrir hjá þeim hinum, sem þrotnir voru.
Hríðin hafði skollið yfir skömmu fyrir hádegið, og nú, er þeir tóku þann kostinn að láta fyrirberast á hjarninu og eitt yfir alla ganga, lifði enn löng stund af degi og sást þá bezt hve afdrifarík þeim hafði orðið biðin eftir kaffinu á Þingvöllum; ef ekki hefði verið fyrir hana, mundu þeir hafa átt skamman spöl ófarinn að sæluhússkofanum, er hríðin skall á þá, en hefðu þeir samt farið framhjá honum, mundu þeir nú vera komnir langleiðina niður í Mosfellsdalinn og ekki hafa tekið þennan örþrifakost, er þeir vissu sig í grennd við bæi, enda líklegt að veður væri vægara niðri í dalnum. Og hefðu þeir ekki óttazt daginn áður él það, sem aldrei varð neitt úr, haldið yfir vatnið og fengið næturgistingu á bæjunum uppi í heiðinni, mundu þeir hafa átt skammt til bæjanna niðri í dalnum, þegar hríðin skall á. Þannig virtist öllum atvikum að því stefnt, sem nú var orðið, eða öllu heldur því, sem beið þeirra og draumar höfðu boðað þeim sumum og getur hver skýrt það að vild, en gera má ráð fyrir að þunglega hafi nóttin lagzt í Pétur Einarsson, er hann minntist nú enn sinna drauma, og gripið hafi hann sá grunur, að ekki mundu þeir rætast nema á einn veg. En slík var karlmennska hans og þrek, að hann lét það ekki á sig fá og tók æðrulaust, því sem að höndum bar; má og vera að það hafi aukið honum kjark fremur en hitt, að enginn drauma hans virtist boða feigð hans sjálfs, en sárt mun hann hafa tekið til félaga sinna, er hann þóttist vita suma þeirra feiga, þótt ekki gæti hann verið viss um á hverjum þeirra draumar hans myndu rætast þannig, nema þá helzt Guðmundi, rekkjunauti sínum og vini. Eflaust hefur það verið þetta sem olli, að hann gerðist heldur önugur í orði og svarkaldur, því að alltítt er það um skapmikla og tilfinninganæma, en æðrulausa menn, að þeir leyni þannig viðkvæmni sinni.
Sá fyrsti hnígur á hjarnið
Brátt tók mjög að þynnast fylking þeirra, er uppi stóðu. Þeir, sem harðast voru komnir sökum þreytu og kulda, höfðu samstundis fleygt sér niður, en sumir þó reynt að gera sér gróf í hjarnið meö stöfum sínum, svo fyrr skefldi yfir þá. Þegar komið var fast að dagsetri, rak Þorsteinn ungi frá Kervatnsstöðum upp hljóð þrisvar sinnum og hneig síðan niður á hjarnið. Lét Kristján frá Arnarholti, er þá stóð enn uppi, svo um mælt, að hörmulegt væri að heyra, en Pétur svaraði því til, að sæmst væri honum að þegja, fyrst hann fengi ekki að gert. Má af því kaldranasvari ráða, að sárt hafi þau hljóð látið í eyrum hans, og þungt hafi honum fallið það að fá sjálfur ekki neitt að gert.
Hvorki lægði veðurhæðina né dró úr frosthörkunni, færðist heldur í aukana ef nokkuð var. Loks stóðu þeir einir uppi, jafnaldrarnir, Pétur og Einar. Hétu þeir þá hvor öðrum því, að uppi skyldu þeir báðir standa meðan þeim entist þrek og ræna…
Fullyrða má að fáir hafi nokkru sinni átt svo erfiða og vonlitla varðstöðu eða svo ógnþrungna vökunótt, sem þeir. Að fáir hafi nokkru sinni háð jafn harða hólmgöngu, ekki einungis við umhverfið, aðstæðurnar og rás atburðanna, heldur og sjálfa sig — og haft sigur.
Ekkert okkar er þess umkomið, að setja sig fyllilega í annarra spor, jafnvel ekki þótt troðin séu á tiltölulega tálmalausri alfaraleið, svo einstaklingsbundin eru viðbrögð manna og tilfinningar, þótt ekki sé nema um alvanalegustu hluti að ræða, sem þeir vita engum örlögum valda; við höfum meira að segja ekki hugmynd um hvernig við munum sjálf bregðast við þeim hlutum, eða gerum okkur alranga hugmynd um það, þangað til á reynir. Þeim mun ógerlegra er okkur því að setja okkur í annarra spor, sem þau liggja fjær ruddri alfaraleið, um vegleysur og torfærur, erfiði og örðugleika eða einstigi þjáninga og þrenginga, þar sem hvert fótmál getur ráðið óafturkallanlegum úrslitum, og þó jafnvel enn ógerlegra að spá nokkru um það, hvernig við mundum sjálf bera okkur á þeirri göngu.
Hólmganga við Feigð og Hel
Það reyndist þeim mest mein hve á þá sótti svefn, enda lúnir af erfiðri göngu og illa fyrirkallaðir eftir hvíldarlitla nótt. Urðu þeir þó að hafa sig alla við, að veðrið hrekti þá ekki hvorn frá öðrum eða skellti þeim flötum, og máttu því aldrei slaka á vökuvitund sinni, hvernig sem óvættur feigðarinnar gól þeim svefngaldur sinn í náttmyrkrinu við sefandi gnauð hríðarinnar og einhljóma síbyljustef norðanroksins. Það gerði og enn máttkari þann grimma galdur, að þeir gátu ekki vitað nema félagar þeirra lægju flestir dauðir eða í andarslitrunum undir því kalda brekáni, sem hríðin og stormurinn höfðu að þeim ofið, og væru það návein þeirra, annarleg og ámátleg, sem öðru hverju heyrðust úr skaflinum. Enn voru þeir Pétur og Einar sjálfir ókalnir, en klæði þeirra öll ein klakabrynja og klakahúð lagðist á andlit þeim, og urðu þeir að brjóta hana frá vitum sér og augum með gödduðum vettlingunum.
Eflaust hefur „heilbrigð skynsemi” hvíslað í eyra þeim: spurt þá hvort þeir sæu ekki hversu heimskulegt það væri að þrauka þarna yfir félögum sínum dauðum eða sama og dauðum, og væri því öll þeirra barátta til einskis háð; spurt þá hvers vegna þeir gæfust því ekki upp, eða freistuðu að bjarga sjálfum sér á flótta, þar sem ekki væri örvænt um að þeir næðu til byggða, svo fremi, sem þeir drægju það ekki stundinni lengur; að þetta heit þeirra væri fásinna ein…
Þá var skammt til morguns, þegar þeim Pétri og Einari barst fyrsta raunverulega lífsmarkið frá félögum sínum í skaflinum. Einhver kallaði og bað fyrir guðs skuld að rofinn yrði snjórinn ofan af sér, því sér lægi við köfnun…
Stóðu 12 uppi þegar gránaði af degi Við þetta kall var sem álagafjötur brysti af þeim, tvímenningum. Þeir fengu ekki einungis tækifæri til athafna, heldur voru þeir nú ekki einir lengur. Og þó var ef til vill mest um það vert, að þessi vökurödd færði þeim sanninn um það, að ekki hefðu þeir til einskis þraukað af þessa ógnþrungnu nótt.
Pétur þreifaði í skaflinn; þar lá Þorsteinn ungi örendur og hafði hnigið ofan á höfuð þeim Bjarna og Ísaki, sem báðir voru á lífi. Hafði Pétur nú snör handtök og kippti ofan af þeim líkinu, en Einar kom honum til aðstoðar og reyndi að losa þá Bjarna og Ísak úr hjarngrófinni; hafði líkamshitinn þýtt frá þeim snjóinn fyrst í stað, en föt þeirra síðan frosið föst niður og máttu þeir sig nú hvergi hræra og eins var um þá aðra, sem nú vöknuðu til ráðs og rænu og beiddust hjálpar er þeir heyrðu að enn stóðu einhverjir uppi. Tókst þeim Einari og Pétri að losa þá hvern af öðrum, sem var þó erfiði mikið, þar eð eingöngu varð að beita til þess höndunum, en þeir hinir veittu þeim þó lið jafnótt og þeir höfðu sjálfir verið losaðir og studdir á fætur; þó kól þá nú báða, Einar og Pétur, mjög á höndum og fótum við þetta björgunarstarf. Þorsteinn frá Kervatnsstöðum var látinn, eins og fyrr segir, og annan félaga sinna, Jón frá Ketilvöllum, fundu þeir látinn í hjarngróf sinni.
Þegar gránaði af degi gegnum hríðarsortann, stóðu upp þeir tólf, sem enn voru á lífi; þótt hvorki hefði veðrinu slotað né dregið úr hríðinni eða frosthörkunni, var hin langa hörmunganótt þeirra þó liðin og dagurinn framundan jók lífsvon og þrótt, jafnvel þeim, sem hún hafði harðast leikið.
En það var eins og sú óvættur feigðarinnar, sem fyrst hafði gengið í slóð þeirra eins og hljóður skuggi allt frá því er för þeirra að heiman hófst, og síðan til návígis við þá hvern og eínn eftir að hríðin skall á, tæki það sem ögrandi storkun við sig, er þessar ásókn hennar. Voru meira að segja svo blindaðir af oftrú sinni á sigurmátt lífsins að ekki þurfti annars við en þær sæju bjarma af nýjum degi, til þess að þær tækju aftur uþpgjöf sína fyrir ofurefli hennar í myrkrum næturinnar. Og nú var sem hún afréði það í bræði sinni að láta til skarar skríða og brjóta þennan heimskulega mótþróa þeirra á bak aftur í eitt skipti fyrir öll. Á einu vetfangi var sem stormurinn trylltist, frostið tæki á allri sinni grimmd og hríðin færðist í aukana að sama skapi. Hin volduga vættur feigðarinnar krafði lífið og daginn um herfang það, er hún hafði helmerkt sér, sviþti þeim, sem minnimáttar voru og kröftum þrotnir, hvað eftir annað niður á hjarnið, jafnótt og hinum, sem meira máttu sín enn í átökunum við hana, tókst að reisa þá upp aftur; þreif þá jafnvel úr höndum þeirra og linnti ekki þessari æðisgengnu sókn sinni fyrr en þrír lágu enn dauðir í val, þeir Ísak, Diðrik og Egill — fimm alls.
Í þessari hólmgöngulotu gengu allir hart fram er máttu og sáust ekki fyrir — að einum þó undanskildum — og mundi fáa hafa grunað, sízt sjálfa þá, að þeir ættu enn þá hörku og þrek í sér, eftir það sem á undan var gengið. Það var eins og þeir fyndu það á sér, aö þetta væru úrslitaátökin og þeim, sem stæðust þau, væri undankomu von. Enginn gekk þó harðara fram en Pétur, enda mun hann gerst hafa skilið um hvað var barizt, hvort sem hann gerði sér grein fyrir því eða ekki hvaðan honum kom sá skilningur á meðan átökin stóðu yfir. En þegar hann sá þá þrjá falla til viðbótar hinum tveim, og þeirra á meðal Egil bónda á Hjálmstöðum, mun hann varla hafa verið í vafa um það, og ekki heldur um hitt, að enn mundu þeir félagar og óvættur feigðarinnar ekki skilin að skiptum að fullu. Bað um að klakagríman fyrir andlitinu yrði rofin með broddstaf Það var ekki fyrr en hinni æðisgengnu hólmgöngulotu lauk, að Pétur mundi til sjálfs sín. Var þá klakagríman fyrir andliti hans svo þykk orðin og samfelld, að allt var ein ísskán, höfuðfat, hár skegg og trefill, hvergi op fyrir augun né vitum, nema gat lítið við annað munnvikið, og fékk hann hvorki brotið þá skán eða rofið, þótt hann beitti gegn henni gödduðum vettlingunum. Lagðist hann þá aftur á bak á hjarnið og bað Kristján frá Arnarholti að beita nú broddstaf sínum, en hann mun að líkum hafa verið tregur til, því að bæði voru honum kaldar hendur og stirðar og engu mátti skeika.
Það gerði Pétur sér að sjálfsögðu líka ljóst; engu að síður lá hann grafkyrr á meðan Kristján beitti broddinum þar að skáninni, sem hann hugði minnst meiðsli að verða þótt örlítið geigaði, en fór sér þó hægt. Þegar honum hafði loks tekizt að rjúfa grímuna yfir enninu, þótti Pétri meir en nóg um varúð hans og seinlæti; greip báðum höndum að brotskörunum, fletti skáninni af andliti sér með einu hörðu taki og skeytti þá engu þótt skegg fylgdi og hár og spratt á fætur. Þótt Kristján hafi eflaust verið því fegnastur að þurfa ekki að beita hvössum stafbroddinum frekar að andliti hans, eins og allar aðstæður voru, er ekki ólíklegt að honum hafi allt að því blöskrað harka Péturs í þetta skiptið. Vera má að honum hafi þá orðið litið til Sveins í Stritlu, þess eina í hópnum, sem sparað hafði sjálfan sig; staðið hjá og ekki hafzt að, er félagar hans voru sem harðast sóttir og vissi hann Svein þó hraustmenni. Slík framkoma á neyðarstund er vöskum mönnum og ósérhlífnum jafnan öllu fremur óskiljanleg en fyrirlitleg, vekur með þeim óhugnanlega undrun fyrst og fremst, því þeir geta ekki trúað ódrengskap á neinn og sízt þá, er þeim eru áður kunnir að öllu sæmilegu, og því verður þeim slíkt enn lengur í minni. Heigulsskap og manndómsleysi geta þeir reiðzt þegar svipað stendur á, og fyrirgefið um leið og raunin er yfirstaðin, en hinu geta þeir hvorki gleymt né fyrirgefið.
Sá sjötti fellur í valinn
Þeim kom nú saman um að leita til byggða, skildu eftir byrðar sínar og broddstafi og héldu af stað. Ofsa þann, sem hljóp í veðrið í morgunsárið, hafði nú nokkuð lægt aftur; hríðin var söm og um nóttina og veðurhæðin svipuð, en frost öllu harðara. Þótt undan veðri væri að sækja, var það mikil þrekraun að spyrna stöðugt við, svo sterkviðrið hrifi þá ekki með sér, hrekti þá eftir hjarninu og skellti þeim flötum, en þá hefði verið óvíst um það, hvort þeim entist vilji og kraftur til að standa upp aftur, einkum þeim, sem þrekaðastir voru. Auk þess reið þeim lífið á að halda hópinn og veita hver öðrum eftir megni.
Ekki höfðu þeir langan spöl gengið, er Guðmundur frá Múla, seytján ára unglingurinn, sem þegar hafði sýnt að hann væri ósvikið mannsefni, þótt hann væri enn óharðnaður, kallaði til Péturs og bað hann leiða sig, því nú þryti sig mátt. Var Pétur fús til þess, enda ekki ósennilegt að hann hefði haft grun um, að nú yrði hann að berjast um líf þessa rekkjunautar síns og vinar, á svipaðan hátt og hann hafði áður barizt um líf þeirra fimm, er fallnir voru — og mundi eins fara. Þótt óvættur feigðarinnar hefði nú aftur hægra um sig, var hún enn á slóð þeirra og beið færis að heimta herfang sitt að fullu. Sex höfðu þeir verið, sem griðungurinn grái lagði að velli í draumi Kristjáns frá Arnarholti; sex höfðu þeir verið sleðarnir, sem hann hafði sjálfur séð í draumi dregna ofan af heiðinni, og verið svarað því til, að á þeim lægju ferðafélagar hans. Hann fann að Guðmund þraut stöðugt mátt; lagðist að síðustu svo þungt á arm honum, að hann varð að kalla í Einar og biðja hann að ljá sér lið til að halda honum uppi. Þess mundi vart langt að bíða úr þessu, að axarkólfurinn slægi sitt dumba, dimma slag.
En fleiri gerðust nú þreki þrotnir en Guðmundur, og það þótt eldri væru og harðnaðri.
Gísli Jónsson var og að lotum kominn. Náði hann taki á þeim Einari og Pétri, og urðu þeir nú að draga hann, en höfðu Guðmund á milli sín og gengu báðir undir honum. Sóttist þeim seint ferðin, sem ekki var að undra og misstu þrátt sjónir á þeim út í hríðina, sem á undan fóru. Barg þeim það eitt, að nú var snjórinn heldur harðari orðinn og því bezta færi, en fljótt mundu þeir, Einar og Pétur, hafa gerzt uppgefnir þótt hraustir væru, hefðu þeir orðið að kafa fannirnar eins og áður, með þær byrðar, sem nú voru á þá lagðar.
Þannig gengu þeir langa hríð; báru Guðmund á milli sín frekar en leiddu. Áfram héldu þeir, og óvættur feigðarinnar gekk í slóð þeirra eins og hljóður skuggi og beið færis. Það sagði Pétur síðar, að þá fannst honum sem hann vildi helzt deyja, þegar hann hafði náð til bæja að segja tíðindin og má nokkuð af því ráða hve hart var nú að honum gengið, en einnig hver hann var — að honum kom aldrei til hugar að semja frið við óvættina miklu og máttku, fyrr en honum hefði tekizt að standa við heitstrengingu sína, þá er hann vann vætti lífsins; Guðmundur var nú orðinn örmagna og rænulaus, en þó var sem honum þætti allt öruggt, á meðan hann mátti njóta þreks og lífsmáttar rekkjunautar síns og vinar. Þess eru mörg og óvefengjanleg dæmi, þótt við fáum ekki skilið það til hlítar, að svo hefur maður veitt vini sínum í baráttunni við dauðann að ekki verður skilgreint á annan hátt en að um beina lífsorkumiðlun hafi verið að ræða, annað hvort fyrir bæn eða aðra þá einbeitingu, sem jaðraði við hið ofurmannlega. Hver veit nema slíkt hafi átt sér þarna stað. Vafalaust vissi Pétur vin sinn feigan, svo næm sem ósjálfráð vitund hans var, eins og draumar hans sanna, á það, sem dylst handan við takmörk hversdagslegrar skynjunar. Og víst er um það, að einbeittari og viljasterkari mann getur varla en Pétur hefur verið, og ekki hvað sízt er því var að skiþta, að duga nauðstöddum. Hörð var sú líkamlega raun, sem hann lagði á sig, er hann barðist við hina hljóðu óvætt feigðarinnar um líf félaga síns og vinar, en kannski hefur þó sú andlega raun verið enn harðari. Til þess benda að minnsta kosti andlátsorð Guðmundar, að hann hafi fundið hvar lágu tengsl, sem bundið höfðu hann lífinu síðustu stundirnar, og því hafi gripið hann ótti, er hann fann að þau dugðu ekki lengur til. „Ætlarðu að yfirgefa mig, Pétur?”
„Nei, aldrei,” svaraði Pétur.
Þá tók Guðmundur fyrsta andvarpið, og svo voru harðar dauðateygjur hans, að hann hratt þeim báðum frá sér, Einari og Pétri. Axarkólfurinn hafði slegið sitt dumba, dimma slag…
Og óvættur feigðarinnar hafði heimt herfang sitt að fullu — nú voru þeir fallnir allir sex. Um leið slotaði hríðinni jafnskyndilega og hún hafði skollið á, storminn lægði og birti yfir.
Vökuvitundin úr öllum tengslum
Enn gengu þeir Pétur og Einar og leið enn alllangur tími unz þeir voru komnir heim til bæja, en svo var þá af þeim dregið, að ekki gátu þeir hjálparlaust komizt upp lág baðstofuþrepin. Og ekki rak Pétur minni til þess síðar, að hann hafi svarað öllu, er hann var spurður og voru svör hans þó skýr og skilmerkileg. Kaffi var honum boðið. „Því ætli ég vilji ekki kaffi,” svaraði hann, tók við bollanum, drakk það standandi og eins stóð hann á meðan Jóhannes bóndi dró af honum klæðin; mundi þó ekkert til þess eða annars, sem gerðist fyrst eftir að hann kom inn í baðstofuna. Svo örmagna var vökuvitund hans orðin, að hún féll gérsamlega úr öllum tengslum í svip, um leið og henni var það ekki lengur bráð nauðsyn að skynja umhverfi og aðstæður og móta ákvarðanir og viðbrögð samkvæmt því. Slíkt ástand getur skapazt eingöngu fyrir ofbeitingu viljans, hvort sem hún er ráðin eða fyrir utankomandi þvingun, t.d. frá dávaldi, eöa þá fyrir langvarandi ofraun sem öryggisráðstöfun gegn bilun, sem haft gæti hinar alvarlegustu, langvarandi afleiðingar. Það er vitað, að menn, sem annaðhvort eru gæddir óvenjulegum viljastyrk eða hafa þjálfað vilja sinn að meira eða minna leyti af ráðnum hug, eða þá ósjálfrátt fyrir knýjandi aðstæður, en hvað sem veldur því, leysir það alltaf úr læðingi dulda orku, sem gerir viðkomandi kleift að afreka það, sem honum væri með öllu ógerlegt annars og oft og tíðum hlýtur að teljast ofurmannlegt, eða að þola þá raun, sem hann fengi ekki annars afborið og vera þó heill eftir. Oftast er sá hæfileiki, auk þess sem hann byggist á óvenjulegum viljastyrk, samfara einhverjum þeim hæfileikum öðrum, sem kallast meira eða minna dulrænir, meðal annars þeim að vita fyrir óorðna atburði fyrir hugboð eða drauma. En eins og sjá má af undanfarinni frásögn var Pétur ekki aðeins viljasterkur maður með afbrigðum, heldur og draumspakur, og er þar með ef til vill ekki einungis fengin skýring á því ástandi, sem hann komst í þarna inni í baðstofunni að Bringum, heldur og á allt að því ofurmannlegu þreki hans og harðfylgi.
„Bágara eiga þeir sem á eftir eru”
Þeir fimm, sem á undan fóru, náðu miðmorguns að bæ, sem heitir að Bringum, aðframkomnir og svo rænulitlir, að þeir minntust ekki á félaga sína fyrr en einhver heimamanna hafði orð á því hve hart þeir væru leiknir; þá áttaði einn þeirra sig það, að hann mælti: „Bágt eigum við, en bágara eiga þeir, sem á eftir eru.” Þegar Jóhannes bóndi heyrði það, þóttist hann vita að þeir hefðu fleiri verið og bjóst tafarlaust til að leita þeirra. Enda slotaði hríðinni í þeim svifum. Fann hann þá Pétur, Einar og Gísla skömmu síðar, eins og áður er getið. Heimilið í Bringum var fátækt af veraldargæðum, húsakynni þröng og léleg — svo sagði mér Jón heitinn bóndi að Laxnesi í Kjós, sonur Jóhannesar bónda að Bringum, að í baðstofunni hefði verið þiljað eitt eða tvö stafgólf með palli, að hann minnti, en moldargólf og ber veggjahleðslan að öðru leyti. Engu að síður var hinum hröktu og nauðstöddu mönnum tekið þar af frábærri alúð og veitt öll sú hjúkrun, sem kostur var á, enda munu þau hjón bæði hafa verið mikil að mannkostum; gekk það og í arf til barna þeirra, ekki hvað sízt raungæði og gestrisni, til dæmis var heimilið að Laxnesi annálað fyrir hvortveggja.
Ekki var þó unnt að veita öllum hinum hröktu mönnum nauðsynlega hjúkrun og – aðhlynningu til langframa í slíkum húsakynnum og voru þeir því fluttir á hestum á næstu bæi. Þess er getið, að þá var Sveinn í Stritlu ekki lúnari en það, að hann gekk á skíðum alllanga bæjarleið, og mun þá sumum félögum hafa fundizt, að helzt til lengi hefði hann sparað krafta sína, er hann stóð hjá og veitti þeim ekki lið í feigðarsvipnum mikla uppi á heiðinni.
Daginn eftir leituðu byggðamenn líkanna, kváðu þeir þau hafa legið við lækjarsprænu nokkra, en líkið af Jóni á Ketilsvöllum í vatni úr læknum. Voru líkin dregin á sleðum ofan heiðina að Mosfelli, og rættist þar enn einn draumur Péturs. Og enn dreymdi hann draum, sem sannarlega kom fram.
Líkkisturnar voru smíðaðar í Reykjavík og fluttar upp að Mosfelli, og vildi Pétur leggja til líkklæðin utan um vin sinn og rekkjunaut, Guðmund, og gerði nauðsynlegar ráðstafanir til þess. Þá var það nokkru síðar að hann dreymdi að Guðmundur kæmi til sín, og þóttist hann spyrja hvernig honum liði. Lét hann lítt af því og kvartaði um kulda. Komst þá Pétur að raun um það nokkru síðar, að fyrir vangá höfðu líkklæðin orðið eftir í Reykjavík þegar kisturnar voru fluttar upp eftir.
Allir munu þeir, sem komust lífs af úr þessari þrekraun, hafa borið hennar nokkur merki æ síðan, að Sveini undanskildum, en þó kann hann að hafa komizt að raun um, að seinna grær heilt um sumt en kalsárin.
Betur sluppu þó þeir, sem hvíldu í fönninni um nóttina, en þeir jafnaldrarnir, Einar og Pétur, — en þeim tveim áttu allir þeir, er af komust, tvímælalaust líf sitt að launa, því án þeirra aðstoðar hefði þeim verið ógerlegt að losa sig úr skaflinum, enda spurning að þeir hefðu vaknað af sjálfsdáðum, og er einsýnt hvernig þá hefði farið.
Sár Péturs gréru seint
Að Sveini undanskildum munu þeir félagar allir hafa legið lengur eða skemur. Einar lá lengi og löngum með óráði, þungt haldinn, enda mikið kalinn, en náði sér þó að lokum og greri heill sára sinna.
Um leið og fréttin af hrakningum þeirra félaga barst til Reykjavíkur, brá Geir kaupmaður Zoéga skjótt við, sótti Pétur upp eftir, tók hann heim til sín og lét veita honum alla þá hjúkrun og læknishjálp sem unnt var. Sýnir það enn, hversu mikils Geir mat Pétur. Lá Pétur þá í sama herbergi og sömu rekkju og hann hafði hvílt í haustið áður, þegar annarleg ásókn varnaði honum svefns lengi nætur, og hann dreymdi undir morguninn fyrsta draum sinn fyrir hrakningunum á heiðinni. Lá Pétur lengi, enda var hann þeirra félaga langmest kalinn, einkum á fótum. Greru sár hans seint og örkuml hafði hann alla ævi.
Því var viðbrugðið, að aldrei heyrðist Pétur kveinka sér, hversu þungt sem hann var haldinn, og aldrei missti hann ráð eða rænu. Komst hann loks á fætur, en ekki greru öll sár háns að fullu það sumar, og var hann til lækninga hjá Skúla lækni Thorarensen að Móeiðarhvoli lengi hinn næsta vetur. Var Skúla lækni minnisstæð harka hans og taldi með eindæmum. Sagði hann þá sögu til marks um það, að eitt sinn vildi hann reyna hve lengi hann þoldi. Sat Pétur þá í sæti niðri í herbergi hans, en Skúli tálgaði og skóf bein í fæti hans, vitanlega ódeyft með öllu. Pétur hafði orð á því, að öruggara mundi að hann léti menn halda sér, og væri ekki víst hve lengi hann fengi varizt því að hreyfa fótinn. Sinnti Skúli læknir því engu, eða lézt ekki heyra það, en hélt áfram að tálga og skafa beinið. Svo fór að lokum að Pétur kipptist við; Varð Skúla þá það eitt að orði: „Á, svei því,” en Pétur gekk upp stigann og settist við vinnu sína uppi á loftinu. Þótti Skúla lækni með ólíkindum hve lengi hann mátti tálga og skafa beinið, áður en hann fékk Pétur til að kveinka sér.
Sumum kann að þykja sem hlutur Péturs sé miklaður um of umfram Einars, jafnaldra hans, sem sýndi þó að hann var honum jafnoki að þreki, karlmennsku og drengskap.
Satt er það að vísu, að ekki kemur hann eins við frásögn þessa og Pétur, og er þar fyrst og fremst skorti á heimildum um að kenna. Einar hefur verið hið mesta karlmenni, þrekmenni, skapfastur og æðrulaus. En jafnan fer svo þegar í raun rekur, að einn tekur forystuna og þá yfirleitt sá, sem til hennar er hæfastur, því að hina bilar. Og hæfileikar til forystu á hættustund eða í þrekraunum, eru ekki öllum gefnir, jafnvel þótt þeir hefðu annars til þess þrek og karlmennsku, og séu færir um að vinna frábær afrek undir forystu annarra. Það er þarna, sem skilur á milli þeirra, Einars og Péturs. Hann hefði getað spurt að lokinni raun eins og garpurinn í brennunni að Bergþórshvoli: „Hvar fórstu, sem ég fór ekki eftir?” Hann fylgdi Pétri eftir að öllu, — en hann fór aldrei fyrir. Engu að síður hefði það verið mikils virði að hafa ljósari heimildir um Einar — hann hefur eflaust verið einn af þessum hlédrægu, yfirlætislausu og hljóða mönnum, sem hvergi vekja á sér athygli, fyrr en verulega reynir á, duga þá manna bezt, en aldrei verða nein hámæli um. Og þó þeir vinni þau yfirleitt ekki án forystu, er víst um það, að jafnvel mikilhæfustu og dugmestu forystumenn njóta sín því aðeins til fulls að þeir hafi þá að bakhjarli. Einmitt þetta gerir hlut Einars mikinn í sambandi við atburði þá sem nú hefur verið lýst, og þá mynd af honum, sem þar er brugðið upp, athyglisverða og minnisstæða, þótt hún sé dregin fáum dráttum — eða kannski helzt fyrir það.
Því er við að bæta, að Pétur ílentist ekki hér lengi eftir þetta; hann var einn þeirra fjölmörgu Sunnlendinga, sem hugðust segja skilið við harðindin og fluttu til Kanada. Þar gerðist Pétur landnámsmaður og hefur ugglaust haft þörf fyrir sitt mikla þrek þótt minni sögum fari af því.
Heimildir: Ritgerð séra Magnúsar Helgasonar í „Huld”, II. hefti o.fl.”
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1981, bls. 6-9.
-Lesbók Morgunblaðsins 9. janúar 1982, bls. 6-7.