Bátakuml
Bátakuml hafa fundist hér á landi. Brimnes var bær á Upsaströnd. Lönd hans, Upsa, Hrísa og Böggvisstaða liggja nú undir Dalvíkurkaupstað. Svarfdælasaga segir frá vígi Karls hins rauða og fleiri við Brimnesá og að hann hafi verið lagður í haug með skipi. Norðan Brimnesár fannst merkur kumlateigur. Daniel Bruun og Finnur Jónsson rannsökuðu hann árið 1909 og fundu 13 grafir, þar af eitt bátkuml. Síðan hefur bæst í safnið, s.s. bátkuml u.þ.b. 300 m frá kumlateignum, og ýmsir munir komið í ljós.
Gaukstaðaskipið.
Talið er að hið forna Hyltinganaust hafi verið við Brimesá. Ekki er þó, enn að a.m.k., vitað um bátakuml á Reykjanesskaga.
Vorið 1964 fundust mannabein á sjávarbökkum rétt innan við Vatnsdalsá í Patreksfirði. Við athugun kom í ljós bátkuml með leifum úr sex metra löngum báti og beinum úr sjö einstaklingum á aldrinum 15-45 ára, þremur konum og fjórum körlum. Ýmsir munir fundust í kumlinu, s.s. sörvistölur, atmbaugar og hringur.
Í greini sinni í Árbók hins íslenska fornleifafélags (1966) lýsir Þór Magnússon bátakumli í Vatnsdal. Um var að ræða bát frá víkingaöld. “Báturinn veitir okkur ekki miklar nýjar heimildir um farkosti víkingaaldar. Hann er skiljanlega lítt sambærilegur við hin stóru grafskip þess tíma, sem grafin hafa verið úr jörðu í Noregi og víðar á Norðurlöndum. Norsku víkingaskipin, Ásubergsskipið og Gauksstaðaskipið, eru hvort um sig yfir 20 metra löng, og sama er að segja um Ladbyskipið í Danmörku. Skipin, sem nýlega fundust í Hróarskeldufirði, eru einnig af svipaðri stærð.
Til eru þó bátar frá víkingaöld, sem ætla má, að svipi til Vatnsdalsbátsins, en það eru bátarnir þrír, sem fundust í Gauksstaðaskipinu.
Stærsti báturinn úr Gaukstaðaskipinu er 9.75 m að lengd, 1.86 m breiður og 0.57 m djúpur. Næsti bátur hefur verið sem næst 8 m langur, en minnsti báturinn er 6.51 m langur, 1.38 m breiður og 0.49 m djúpur. Þeir eru því allir heldur stærri en ætla má, að báturinn í Vatnsdal hafi verið. Þessir bátar eru að mestu úr eik, borðin breið og þunn og hafa verið fimm í hvorum byrðingi í stærsta bátnum, en aðeins þrjú í hinum minnsta. Bönd eru mjög fá, sex í hinum stærsta, en aðeins þrjú í minnsta bátnum, og hafa þeir því verið veikbyggðir.
Ásubergsskipið.
Hins vegar eru böndin reyrð við byrðinginn eða negld með trésaum, svo að bátarnir hafa verið sveigjanlegri en ef þeir hefðu verið negldir með járnsaum.”
Reyndar segir bátkumlið í Vatnsdal okkur allnokkuð um bátasmíðina í ljósi aukinnar þekkingar í þeim efnum eftir að greinin var skrifuð. “Böndin voru reyrð við byrðingin” er ágætt dæmi um byggingu víkingaskipanna. Böndin á þeim voru einnig reyrð, en ekki negld við byrðinginn. Telja má líklegt að minni bátar hafi verið smíðaðir á svipaðan hátt og með svipuðum aðferðum og stærri skip víkingatímabilsins. Þess vegna er bátkumlið í Vatnsdal merkilegt, auk þess sem að það er dæmi um grafsiði þess tíma.
Í frétt í Morgunblaðinu 23. febrúar á þessu ári, baksíðu, segir að framundan sé að rannsaka landnámshöfn í tengslum við Hólarannsóknina. Í fréttinni segir m.a.: “Sefnt er á að fá erlenda fornleifafræðinga sem sérhæfa sig í að rannsaka mannvistarleifar á sjávarbotni til að kafa við Kolkuós sumarið 2005, en Kolkuós var landnámshöfn, ein af helstu höfnum landsins og hafnaraðstaða Hóla í Hjaltadal til einhvers tíma.
Þetta er hluti af tilraunum fornleifafræðinga til að fá heildarsýn á Hóla, þennan forna höfuðstað Norðurlands”, segir Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur. Hún segir brýnt að rannsaka Kolkuós sem fyrst þar sem landbrot, og jafnvel landsig, ógni minjum frá þessari sögufrægu höfn. Mælingar á hafsbotni verða gerðar í samvinnu við Landhelgisgæsluna næsta sumar til að finna vænlegustu staðina fyrir kafarana að skoða.
“Við héldum að þetta væru meira og minna einhver ruslalög sem væru að fara út í sjó, en allar niðurstöður frá þessum þremur vikum sem við vorum þarna í sumar lofa svo miklu meiru. Þarna erum við að finna síðustu leifar af verslunarstað sem á sögu aftur að landnámi, það hafa engar landnámshafnir verið skoðaðar áður,” segir Ragnheiður.”
Íslendingur.
Víkingaskipið Íslendingur
Vestmannaeyingurinn Gunnar Marel Eggertsson, skipasmíðameistari, ákvað að smíða eftirlíkingu af Gaukstaðaskipinu, sem er á safni í Noregi. Hann byrjaði að byggja skipið í Héðinshúsinu í Reykjavík árið 1994. Skipið sem Gunnar smíðaði er 23,5 m á lengd og 5,5 m á breidd. Mastrið er 14,5 m. + toppurinn sem er 18 metrar. Seglið er 13o m2. Skipið tekur 25 farþega og 5 manns í áhöfn. Skipið hefur tvær Yammar vélar og getur gengið upp í 12 mílur.
Gunnar Marel er Vestmanneyingur (f:1954). Skipasmiður var hann orðinn einungis 25 ára gamall. Hann hefur skipstjóraréttindi og hefur mikla reynslu af sjómennsku. Þegar hann frétti af fyrirhugaðri siglingu víkingaskipsins Gaia frá Noregi til Washington í Bandaríkjunum fékk hann áhuga á að taka þátt í siglingunni. Hann sigldi síðan með Gaia frá því í maí og þangað til í október 1991. Seinna tók hann þátt í öðrum leiðangri Gaia frá Washington til Rio de Janeiro þar sem Umhverfisráðstefnan var haldin og opnuð við komu skipsins þangað.
Gunnar Marel byrjaði á smíði Íslendings í september 1994 og lauk verkinu 16. maí 1996. Skipið er því að verða 10 ára gamalt. Líkt og Gaia er Íslendingur byggður á málum Gaustaðaskipsins.
Gunnar Marel heldur því fram að víkingaskipin séu týndur hlekkur í sögunni. Þekkingin á smíði þeirra og sjóhæfni hafi glatast, en mikið af henni hafi síðan opinberast að nýju eftir fund víkingaskipanna í Noregi og Danmörku. Skip hans, Íslendingur, væri eftirlíking af Gaukstaðaskipinu. Sú tegund skipa hafi verið vinsæl frá 700-1200 (víkingatímabilið) og jafnvel lengur, en svo virðist sem afturhvarf hafi verið í byggingu þeirra eftir það. Eiginleikar skipsins (Íslendings) eru þeir bestu sem þekkist í skipum í dag.
Íslendingur.
Knerrir munu mest hafa verið notaðir í siglingum til Íslands því þeir gátu borið mikið magn og mikinn þunga. Norsk heimild kveði á um að 400 menn hafi farið með slíku skipi til Íslands í einni siglingu. Gunnar telur það vel hafa getað staðist. Langskipin gátu verið allt upp í 50 metra löng. Íslendingur er um 23 m langur, litlu styttra en Gaukstaðaskipið. Ástæðan var sú að ekki var til lengra tré í kjölinn. Lengd trjáa í kjöl hefur eflaust ráðið lengd og stærð skipanna á hverjum stað. Tréð í kjöl Íslendings kom frá Svíðþjóð. Það vó þá um 5 tonn. Efnið í kjölinn kostaði 2.5 millj. kr.
Um 700 var fyrst settur kjölur í skip. Það gerðu Norðmenn. Aukin kjöllengd þýðir aukinn hraði. Þá komust þeir yfir höfin og pirruðu m.a. Englendinga. Um 850 urðu skipin líkt og Íslendingur og þannig var það út víkingatímann. Kjölurinn er þykkastur um miðjuna og í rauninni mjög hugvitsamlega hannaður. Hann var og þykkastur neðst, en mjókkaði upp. Þetta var t.d. gert til að koma í veg fyrir hliðarskrið.
Hægt var að róa skipunum á 5-7 mílna hraða, en þeim var aldrei róið og siglt með seglum samtímis. Gaukstaðaskipið hefur verið þannig hannað að stefnið “safnaði loftbólum undir sig”. Þannig lyftist skipið í siglingu og viðnámið varð minna. Knerrir voru einnig byggðir með það fyrir augum að safna loftbólunum undir byrðinginn til að lyfta þeim upp og draga úr viðnámi þeirra stóru skipa. Það var gert með því að hafa botninn V-laga að hluta beggja vegna. Víkingaskip veltur ekki vegna byggingarlags þess. Byrðingurinn er misþykkur, þykkastur um miðjuna (32 mm, þynnstur til endanna (16 mm). Skipið flýtur mest um miðjuna. Endarnir “hanga” svo að segja á miðbikinu.
Eik var notuð í víkingaskipin – höggvin snemma. Gaukstaðaskipið og Ásubergsskipið eru t.d. úr eik og Íslendingur að hluta til, en eftir að ekki var nægilega mikið til af stórri eik munu skipin hafa vera smíðuð úr furu. Yfirleitt voru 4-5 skip í smíðum í einu til forna. Tréð nýttist vel, ekki þurfti mörg tré í eitt skip því 16 borð voru hvoru megin og þau heil yfir. Veturinn var venjulega notaður til skipasmíðanna.
Skyldir, sem hver og einn áhafnameðlimur kom með, voru bundnir með ákveðnu lagi á skipið, 32 á hvora hlið. Ballest var úr fjörugrjóti og blýi, ca. 8 tonn. Mannskapurinn var einnig að hluta til ballestin.
Íslendingur.
Mastur Íslendings er 18 metrar. Seglið er úr bómull og vegur um 500-600 kíló, um 130 m2. Erfiðast við seglið er að draga það upp með handaflinu og síðan að strekkja böndin. Það er venjulega gert með því að strekkja það bandið sem er hlémegin hverju sinni. Hampur var í böndum skipanna. Í dag fæst hann einungis á einum stað í litlu þorpi í Danmörku.
Gunnar sagði að ekki lægju fyrir áreiðanlegar upplýsingar um efni seglanna. Hann hefði heyrt af því að seglbútur hefði fundist upp á lofti í gömlu húsi og var álitið að hann hefði verið úr segli víkingaskips. Þessum bút var hent eftir því sem hann komst næst.
Í málum Gaukstaðaskipsins er mikið talað um töluna 16; í tengslum við rými, ræðara og árar hvoru megin og fjölda manna um borð. Einnig voru 16 borð í byrðingi o.s.frv.
Lengsta langskip, sem endurgert hefur verið á Norðurlöndum er 34 metra langt. Um 70 manns voru í áhöfn meðalstórs langskips (2×32, skipsstjóri, stýrimenn og hálmsmenn (halmsmen)). Sjálfur hefur hann siglt með 90 manns um borð á Íslendingi. Fjórir til fimm vanir menn geta þó stjórnað skipinu á siglingu í sæmilegu veðri. Í verri veðrum þarf fleiri, jafnvel tvær vaktir samtímis. Íslendingur ber um 30 tonn. Skipið sjálft vegur um 8 tonn, sem er um meðal víkingaskip.
Gunnar taldi að fram til 930 hafi um 20.000 manns verið flutt með skipunum til Íslands. Þá voru hér um 30.000 manns. Þetta hafi verið miklir flutningar á erfiðri siglingaleið. Skipin voru 4-5 daga í siglingu milli Noregs og Íslands, ef ekki var komið við í Færeyjum. Þau fóru 12-15 mílur á klst., á sama hraða og vindurinn. Logn var því um borð.
Hafurtask áhafnameðlima hefur viktað 8-10 tonn. Einn kistill (32) voru fyrir hverja tvo róðramenn. Sátu þeir á þessum kistlum sínum þegar róið var. Halda mætti að erfitt hafi verið um eldun um borð, en svo var ekki. Sandur var í tveimur bilum og í þeim opinn eldur eða kol – nógur ferskur matur til staðar.
Áhöfnin vildi helst taka land í sandfjöru, láta flatreka. Hún gat þá gengið nær þurrum fótum í land. Húfurinn (borð nr. 10) tók á móti og þunginn hvíldi á honum, þykkasta borðinu. Með því var skipið hallalaust að kalla. Orðatiltækið “mikið í húfi” væri komið þaðan.
Annað orðatiltæki: “of mikið í súginn”, er komið frá súgnum, verkfæri, sem notað var til að koma skinnum á hina 5000 járnnagla í skipinu. Allt járn var dýrmætt á þeim tíma. Ef naglinn var langur og skinnan gekk of langt inn á hann “fór of mikið járn í súginn”. Þá hefur járnsmiðurinn eflaust fengið orð í eyra.
Íslendingur.
Skipin voru mjög tæknilega smíðuð, sem fyrr segir, og mjög góð sjóskip. Miklu meiri kunnátta lá að baki smíði þeirra, en við gerum okkur grein fyrir. Um 1200 virðist þessi mikla þekking hverfa og nær ekki að þróast eftir það. Seinni tíma skip þróuðust út frá öðrum forsendum, sbr. skipi Kólumbusar. Þau voru ekki ekki eins góð sjóskip og víkingaskipin, en gátu borið meira. Skip Kólumbusar var því nokkurs konar “koffort” miðað við víkingaskipin.
Gunnar sagði að það hafi komið mönnum á óvart að sjá að víkingaskipin, sem grafin hafi verið upp hafi verið máluð að hluta. Þannig var Gaukstaðaskipið málað við efsta borð. Skipið var mikið skreytt, aðallega með línulegum útskurði á borðum.
Fram kom hjá Gunnari Marel að skipin hefðu venjulega verið byggð til 10 ára. Íslendingur hefði t.a.m. látið mikið á sjá á stuttum tíma, meira en á árunum á undan. Reynslan sýndi að skipin væru fljóð að grotna niður að ákveðnum tíma liðnum. Hann benti á að bæði Ásubergs- og Gauksstaðaskipin væru nú mjög viðkvæm. Viðirnir hefðu einungis þunna skel er héldi þeim saman, en að innan væru þeir orðnir að dufti. Varla mætti hnerra í návist þeirra.
Víkingaskip entust í u.þ.b. 10 ár og jafnvel lengur. Þá hafa þau eflaust verið notuð í annað, t.d. klæðningar, húsagerð, áhaldagerð o.fl. Skipin voru flest úr eik, en einnig öðrum viðartegundum. Veikasti hlekkurinn í þeim voru böndin, sem byrðingurinn var bundinn með. Þau voru úr hampi og fúnuðu. Ekki var hægt að binda skip upp að nýju nema rífa það frá grunni. Það var líka erfitt því í einu skipi voru þúsundir járnhnoðnagla. Járnið var dýrmætt og notað aftur þegar það gafst.
Landnámsmenn hafa með skjótum hætti þurft gott skjól við komuna hingað til lands. Er hugsanlegt að landnámsmenn hafi miðað fyrstu húsagerð sína, þ.e. fyrsta tímabundna íveruhúsið, við skipið? Þeir hafi hlaðið veggi, ca. 120 cm háa með svipuðu lagi og breidd og skipið ofanvert og hvolft því síðan yfir? Þannig gætu þeir hafa fengið gott þak yfir höfuðið, bæði fljótt og vel.
Íslendingur.
Skipið (þakið) hafi verið hægt að taka aftur og sigla því ef einhverjum hefði snúist hugur eða á hefur þurft að halda.
Um 70 menn voru í áhöfn langskipanna, færri á knörrum. Fjórir til fimm vanir menn gátu siglt þeim. Þyngd skipanna var um 5000 til 8000 kg (fór eftir stærð – mastur og segl, sem var laust er frátalið). Það hefur því þurft um 50 – 70 menn til að bera, lyfta eða velta einu skipi. Skipin voru ca. 23-25 metrar á lengd og ca. 3 – 5 metrar á breidd.
Giuseppe Maiorano hefur ritað um mögulega notkun skipanna sem þök í ‘Viking age ships as roofing structures in ship-shaped houses and their contribution to the origin of the Gothic Architecture.’Current issues in Nordic Archaeology, Reykjavík 2004, s. 79-84). En menn eru nú yfirleitt ekki trúaðir á þessa hugmynd – aðallega af því að þeir hafa aldrei fundið neinar sannfærandi leifar sem gætu bent til þessarar þakgerðar en líka af því að menn telja yfirleitt að skipin hafi verið notuð lengur en gefið er til kynna og verið miklu verðmætari en svo að það borgaði sig að nota þau fyrir þök. “Vel smíðað tréþak er margfalt einfaldari og ódýrari smíð en skip” (Orri Vésteinsson).
Er hins vegar er ekki með öllu útilokað, miðað við lögun, lengd og breidd landnámshúsa, að þannig hafi verið málum háttað í einhverjum tilvikum? Litlar líkur eru þó á að tóftir slíkra húsa finnist nú því bæði hafa þær þá staðið mjög nálægt ströndinni og auk þess verður að telja líklegt að sjórinn hafi nú þegar brotið þær undir sig eða byggingarefnið notað í annað.
Einstakir hlutar skips, s.s. mastrið, gætu hafa verið notað í hluti, t.d. stoðir og hluti þess hafa verið útskorið sem goðalíkneski eða gerðir úr því setbekkir við langeldinn. Kjölurinn var mikið tré og því ekki ólíklegt að hann hafi verið notaður í mæni eða annað burðarvirki.
Áhöfnin hefur áreiðanlega tekið kistla sína með sér og átt þá áfram. Ekki er vitað til þess að slíkur kistill hafi varðveist hér á landi, enda efnið forgengilegt.
Seglin voru stór og mikið efni í þeim. Ekki er ólíklegt að ætla að úr þeim hafi verið búið til nytjahlutir eða þau t.d. notuð til að klæða veggi híbýlanna.
Framangreint eru að mestu tilgátur því fátt af því hefur kvorki verið sannreynt við fornleifauppgrefti eða þess getið í rituðum heimildum. Hins vegar er ekki óraunhæft að ætla að hinn mikli efniviður hafi verið notaður að einhverju leyti eftir að upprunalegu hlutverki hans lauk. Dæmi um slíka endurnýtingu muna og gripa eru allnokkur, sbr. kléberg, járn og tré.
Íslendingur.
Víkingaskipunum var siglt víða um höf, ár og vötn. Vitað er að skipin voru notuð í a.m.k. tvennum tilgangi eftir að líftíma þeirra lauk. Annars vegar eru dæmi um að skipin hafi verið grafin með eiganda sínum að honum látnum ásamt öðrum gripum, sbr. frásagnir í Landnámu [Ásmundur var heygður í Ásmundarleiði og lagður í skip og þræll hans hjá honum] og [Geirmundur heljarskinn andaðist á Geirmundarstöðum, og er hann lagður í skip þar út í skóginum frá garði] og hins vegar munu vera til sagnir um að látnir víkingar hafi verið brenndir í skipum sínum þótt slíkt virðist ekki hafa verið tíðkað hér á landi svo vitað sé.”Víkingaöldin var einhver mesti upplausnar- og endursköpunartími sem norrænar þjóðir hafa lifað. Hún hlýtur að hafa losað um margar fornar venjur og gefið einstaklingnum meira frelsi til að velja og hafna en kreddufesta kyrrstæðra heimabyggða getur gert.”
Ótrúlega lítið hefur verið skrifað um víkingaskipin. Víkingaskipin voru með stærstu “gripum”, sem landnámsmenn, notuðu. Lítið virðist vera til af nákvæmu efni um þau sérstaklega, þangað til nýlega. Hula var yfir skipunum þangað til skipin fundust í Oseberg og Gogstad og síðan í Hróarskeldu. Síðan hafa menn mikið mælt og skoðað og komist að þeirri niðurstöðu að víkingaskipin hafi verið bæði gagnleg og góð sjóskip. Þeim hafi verið hægt að sigla langar leiðir í misjöfnum veðrum. Langskip hafi verið notuð í strandsiglingum og siglingum um ár og fljót, en knerrir á lengri leiðum þar sem flytja hefur þurft meira magn. Ekki er vitað til þess að sambærilegt skip hafi fundist hér á landi, en ljóst er að hundruðir slíkra skipa komu hingað og mörg þeirra “urðu til” hér. Talið er að um 20.000 manns hafi verið t.d. fluttur með skipunum hingað fram til 930, auk húsdýra og aðfanga.
Skipin hafa eflaust verið notuð hér til annars en siglinga eftir að hlutverki þeirra lauk. Í þeim var mikill unninn viður og sumir stórir (mastur og kjölur). Í einu skipi voru t.d. um 5000 járnhnoðsnaglar, sem hafa verið endurnýttir. Skipin voru úr eik, svo hún hefur enst eitthvað eftir úreldingu skipanna (entust í u. þ.b. 10 ár (sumir telja þó að þau hafi enst lengur) , en þá fúnaði hampbindingin, sem byrðingurinn var bundinn með við tréböndin. Ekki er útilokað að einhverjar leifar þessa eigi einhvern tímann eftir að sjá aftur dagsins ljós í uppgrefti hér á landi. Annars voru skipin þung, ca. 5-8 tonn, svo ekki hefur verið farið langt með þau á landi í heilu lagi.
Íslendingur.
Skipagrafir hafa ekki fundist hér á landi, en bátakuml hafa fundist. Þau gefa óljósa mynd af byggingu, gerð og notkun skipanna, en þó einhverja. Þau gefa a.m.k. til kynna grafarsiði frá víkingatímabilinu.
Víkingaskipunum sem gripum, smíði þeirra, gerð og notkun, hefur ekki verið mikill gaumur gefinn, a.m.k. ekki hér á landi. Ástæðan er kannski helst sú að menn hafa ekki átt von á því að finna leifar slíkra skipa eða hluta þeirra hér eftir svo langan tíma frá “hvarfi” þeirra. Hér er þó bæði um forvitnilegt og áhugavert efni að ræða, ekki síst í forleifafræðilegu tilliti. Mikilvægt að hafa tilvist víkingaskipanna í huga við einstaka uppgrefti. Þá er og ekki með öllu útilokað að skipaleifar kunni að finnast í vatni, mýri eða í sjó hér við land, sbr. Kolkuós.
Ekki var hjá því komist að tvinna saman sagnfræði- og fornleifafræðiupplýsingar við gerð ritgerðarinnar, enda engin ástæða til skarpra skila þar á millum. Mestu máli skiptir að reyna að upplýsa sem mest um víkingaskipin sem “gripi”, uppruna, smíði þeirra, gerð og notkun þannig að sem heilstæðust mynd fáist af viðfangsefninu. Fornleifafræðin hefur áorkað miklu í því sambandi og á eflaust eftir að grafa upp enn meiri vitneskju um þau í framtíðinni.
Nú er víkingaskipið Íslendingur til sýnis við Stekkjarkot í Njarðvík. Gunnar Marel er þar ávallt nærtækur og reiðubúinn að fræða áhugasamt fólk um smíði og sjóhæfni skipsins.
ÓSÁ tók saman.
Íslendingur í Víkingaheimum.