Íslendingur

Vestmannaeyingurinn Gunnar Marel Eggertsson skipasmíðameistari ákvað að smíða eftirlíkingu af Gaukstaðaskipinu sem er á safni í Noregi.

Gauksstaðaskip

Gauksstaðaskipið.

Hann byrjaði að byggja skipið í Héðinshúsinu í Reykjavík árið 1994. Skipið sem Gunnar smíðaði er 23,5 m á lengd og 5,5 m á breidd. Mastrið er 14,5 m. + toppurinn sem er 18 metrar. Seglið er 13o m2. Skipið tekur 25 farþega og 5 manns í áhöfn. Skipið getur gengið upp í 12 mílur. Það hefur 2 Yammar vélar.
Gunnar Marel fæddist í Vestmanneyjum 1954. Skipasmiður var hann orðinn einungis 25 ára gamall. Hann hefur skipstjóraréttindi og hefur mikla reynslu af sjómennsku. Þegar hann fékk fréttir af fyrirhugaðri siglingu víkingaskipsins Gaia frá Noregi til Washington í Bandaríkjunum fékk hann áhuga á að taka þátt í siglingunni. Hann sigldi síðan með Gaia frá því í maí og þangað til í október 1991. Seinna tók hann þátt í öðrum leiðangri Gaia frá Washington til Rio de Janeiro þar sem Umhverfisráðstefnan var haldin og opnuð við komu skipsins þangað.
Gunnar Marel byrjaði á smíði Íslendings í september 1994 og lauk verkinu 16. maí 1996. Íslendingur er byggður á málum Gaustaðaskipsins.

Íslendingur

Íslendingur í Víkingaheimum.

Gunnar Marel Eggertsson var með fyrirlestur um víkingasiglingar, smíði víkingaskipa og siglingar þeirra fyrir Atlandshafið í Víkinni í Keflavík þann 23. nóv. s.l. Hjá honum kom m.a. fram að víkingaskipin væru týndur hlekkur í sögunni.  Þekkingin á smíði þeirra og sjóhæfni hefði glatast, en mikið af henni hefði opinberast að nýju eftir fund víkingaskipanna í Noregi og Danmörku. Skip hans, Íslendingur, væri eftirlíking af Gaukstaðaskipinu. Sú tegund skipa hafi verið vinsæl frá 700-1200 (víkingatímabilið) og jafnvel lengur, en svo virðist sem afturhvarf hafi verið í byggingu þeirra eftir það. Eiginleikar skipsins (Íslendings) eru þeir bestu sem þekkist í skipum í dag.

Knörr

Knörrinn Skuldelev I er stærsta skipið á Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu. Það er yfir 16m langt og um 5m breitt með yfir 20 tonna lestarrými.

Knerrir munu mest hafa verið notaðir í siglingum til Íslands því þeir gátu borið mikið magn og mikinn þunga. Norsk heimild kveði á um að 400 menn hafi farið með slíku skipi til Íslands í einni siglingu. Gunnar telur það vel hafa getað staðist. Langskipin gátu verið allt upp í 50 metra löng. Íslendingur er um 23 m langur, litlu styttra en Gaukstaðaskipið. Ástæðan var sú að ekki var til lengra tré í kjölinn. Lengd trjáa í kjöl hefur eflaust ráðið lengd og stærð skipanna á hverjum stað. Tréð í kjöl Íslendings kom frá Svíðþjóð. Það vó þá um 5 tonn. Efnið í kjölinn kostaði 2.5 millj. kr.
Um 700 var fyrst settur kjölur í skip. Það gerðu Norðmenn. Aukin kjöllengd þýðir aukinn hraði. Þá komust þeir yfir höfin og pirruðu m.a. Englendinga. Um 850 urðu skipin líkt og Íslendingur og þannig var það út víkingatímann. Kjölurinn er þykkastur um miðjuna og í rauninni mjög hugvitsamlega hannaður. Hann var og þykkastur neðst, en mjókkaði upp. Þetta var t.d. gert til að koma í veg fyrir hliðarskrið.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Hægt var að róa skipunum á 5-7 mílna hraða, en þeim var aldrei róið og siglt með seglum samtímis. Gaukstaðaskipið hefur verið þannig hannað að stefnið “safnaði loftbólum undir sig”. Þannig lyftist skipið í siglingu og viðnámið varð minna. Knerrir voru einnig byggðir með það fyrir augum að safna loftbólunum undir byrðinginn til að lyfta þeim upp og draga úr viðnámi þeirra stóru skipa. Það var gert með því að hafa botninn V-laga að hluta beggja vegna. Víkingaskip veltur ekki vegna byggingarlags þess. Byrðingurinn er misþykkur, þykkastur um miðjuna (32 mm), þynnstur til endanna (16 mm). Skipið flýtur mest um miðjuna. Endarnir “hanga” svo að segja á miðbikinu.

Víkingaskip

Handverk við smíði víkingaskips.

Eik var notuð í víkingaskipin – höggvin snemma. Gaukstaðaskipið og Ásubergsskipið eru t.d. úr eik og Íslendingur að hluta til, en eftir að ekki var nægilega mikið til af stórri eik munu skipin hafa vera smíðuð úr furu.
Mastur Íslendings er 18 metrar. Seglið er úr bómull og vegur um 500-600 kíló, um 130 m2. Erfiðast við seglið er að draga það upp með handaflinu og síðan að strekkja böndin. Það er venjulega gert með því að strekkja það bandið sem er hlémegin hverju sinni. Hampur var í böndum skipanna. Í dag fæst hann einungis á einum stað í litlu þorpi í Danmörku.
Gunnar sagði að ekki lægju fyrir áreiðanlegar upplýsingar um efni seglanna. Hann hefði heyrt af því að seglbútur hefði fundist upp á lofti í gömlu húsi og var álitið að hann hefði verið úr segli víkingaskips. Þessum bút var hent eftir því sem hann komst næst.
Í málum Gaukstaðaskipsins er mikið talað um töluna 16; í tengslum við rými, ræðara og árar hvoru megin og fjölda mann um borð. Einnig voru 16 borð í byrðingi o.s.frv.

Víkingaskip

Handverk við smíði víkingaskipa.

Lengsta langskip, sem endurgert hefur verið á Norðurlöndum er 34 metra langt. Um 70 manns voru í áhöfn meðalstórs langskips (2×32, skipsstjóri, stýrimenn og hálmsmenn). Sjálfur hefur hann siglt með 90 manns um borð á Ísl. Fjórir til fimm vanir menn geta þó stjórnað skipinu á siglingu í sæmilegu veðri. Í verri veðrum þarf fleiri, jafnvel tvær vaktir samtímis.
Gunnar taldi að fram til 930 hafi um 20.000 manns verið flutt með skipunum til Íslands. Þá voru hér um 30.000 manns. Þetta hafi verið miklir flutningar á erfiðri siglingaleið. Skipin voru 4-5 daga í siglingu milli Noregs og Íslands, ef ekki var komið við í Færeyjum. Þau fóru 12-15 mílur á klst., á sama hraða og vindurinn. Logn var því um borð.

Víkingaskip

Víkingaskip.

Hafurtask áhafnameðlima hefur viktað 8-10 tonn. Einn kistill (32) voru fyrir hverja tvo róðramenn. Sátu þeir á þessum kistlum sínum þegar róið var. Íslendingur ber um 30 tonn. Skipið sjálft vegur um 8 tonn, sem er um meðal víkingaskip.
Skyldir, sem hver og einn áhafnameðlimur kom með, voru bundnir með ákveðnu lagi á skipið, 32 á hvora hlið.
Ballest var úr fjörugrjóti og blýi, ca. 8 tonn. Mannskapurinn var einnig að hluta til ballestin.
Áhöfnin vildi helst taka land í sandfjöru, láta flatreka. Hún gat þá gengið nær þurrum fótum í land. Húfurinn (borð nr. 10) tók á móti og þunginn hvíldi á honum, þykkasta borðinu. Með því var skipið hallalaust að kalla. Orðatiltækið “mikið í húfi” komið þaðan.

Gunnar Marel Eggertsson

Gunnar Marel Eggertsson.

Annað orðatiltæki: “fer mikið í súginn”, er komið frá súgnum, verkfæri, sem notaður var til að koma hinum 5000 járnnöglum í skipið. Allt járn var dýrmætt á þeim tíma.
Yfirleitt voru 4-5 skip í smíðum í einu til forna. Tréð nýttist vel, ekki þurfti mörg tré í eitt skip því 16 borð voru hvoru megin og þau heil yfir. Yfirleitt var veturinn notaður til skipasmíðanna.
Skipin voru mjög tæknilega smíðuð, sem fyrr segir, og mjög góð sjóskip. Miklu meiri kunnátta lá að baki smíði þeirra, en við gerumokkur grein fyrir. Um 1200 virðist þessi mikla þekking hverfa og nær ekki að þróast eftir það. Seinni tíma skip þróuðust út frá öðrum forsendum, s.s. skip Kólumbusar. Þau voru ekki ekki eins góð sjóskip og víkingaskipin, en gátu borið meira. Skip Kólumbusar var því nokkurs konar “koffort” miðað við víkingaskipin.

Víkingaskip

Víkingaskip.

Halda mætti að erfitt hafi verið um eldun umborð, en svo var ekki. Sandur var í tveimur bilum og í þeim opinn eldur eða kol – nógur ferskur matur um borð.
Gunnar sagði að það hafi komið mönnum á óvart að sjá að víkingaskipin, sem grafin hafi verið upp hafi verið máluð að hluta. Þannig var Gaukstaðaskipið málað við efsta borð. Skipið var mikið skreytt með útskurði, einkum eftir endurlöngum borðum.
Fram kom hjá Gunnari Marel að skipin hefðu venjulega verið byggð til 10 ára. Íslendingur hefði t.a.m. látið mikið á sjá á einu ári. Reynslan sýndi að skipin væru fljóð að grotna niður að ákveðnum tíma liðnum. Hann benti á að bæði Ásubergs- og Gauksstaðaskipin væru nú mjög viðkvæm. Viðirnir hefðu einungis þunna skel er héldi þeim saman, en að innan væru þeir orðnir að dufti. Varla mætti hnerra í návist þeirra.

ÓSÁ tók saman.

Íslendingur

Íslendingur.