Víkingaskip

Hér er birt “lokaorð” eins FERLIRsfélaganna í tilefni af lokaritgerð hans í námi við HÍ; Fornleifafræði Norðurlanda. Orðin eru birt með leyfi höfundar. Ritgerðin er að sjálfsögðu mun ítarlegri umfjöllun um efnið:
“Víkingaskipin voru með stærstu „gripum” víkingaaldar, á tímabilinu 800-1100. Samkvæmt heimildum vorGaukstaðaskipið-2u fjölmörg skip smíðuð á tímabilinu – af ýmsum stærðum og gerðum. Þrátt fyrir rannsóknir er ekki vitað hvenær fyrsta víkingaskipið var smíðað, en líklegt er að það hafi orðið til í aðdraganda víkingaaldar eftir langa þróun. Hönnun víkingaskipanna, einkum kjölurinn og „sveigjueiginleiki” skipanna, réði miklu um yfirburði þeirra, bæði hvað snerti grunnsiglingar og burði á löngum og erfiðum siglingaleiðum. Talsvert er til skráð í fornum heimildum um notkun og tegund skipanna, en lítið virðist vera til af nákvæmlega skráðum lýsingum um smíði þeirra og meðferð þar til skipin fundust í Ásubergi, Gaukstað og víðar. Síðan hefur mikillar vitneskju verið aflað. Ljóst er að smíði víkingaskipanna hefur grundvallast á hugviti og þeirri bestu þekkingu er um getur í langri sjólist. Skipin hafa verið einstaklega gagnleg og góð sjóskip. Siglingartækni nútímans grundvallast í raun á þeirri miklu þekkingu er þá var aflað – fyrir meira en þúsund árum síðan.
Af fornleifarannsóknum að dæma voru víkingaskipin af fleiri en einni tegund. Langskip voru t.d. notuð í strandsiglingum og siglingum um ár og fljót, en kaupför og knerrir á lengri leiðum þar sem flytja hefur þurft meira magn.
Skipin voru notuð til annars en siglinga eftir að hlutverki þeirra lauk, t.d. sem grafstaður mektarfólks. Þau hafa, sum hver a.m.k., verið skreytt eftir stílfræði þeirra tíma.
Víkingaskipum sem gripum, smíði þeirra, mismunandi gerðum, eiginleikum og notkun, hefur ekki verið mikill gaumur gefinn hér á landi í fornleifalegum skilningi. Ástæðan er helst sú að menn hafa ekki átt von á því að finna leifar stórra skipa eða hluta þeirra hér eftir svo langan tíma frá „hvarfi” þeirra. Minni bátar hafa þó fundist. Ekki er með öllu útilokað að fleiri skipaleifar og meiri eigi eftir að finnast hér við land – eða á landi.
Fornleifafræðin, sem og áhugafólk um efnið hefur, aflað dýrmætra viðbótarupplýsinga um víkingaskipin og án efa á þekkingin eftir að aukast í framtíðinni.
Við vinnslu ritgerðarinnar var reynt að takmarka efnið svo sem kostur var – þrátt fyrir að viðfangsefnið væri ærið.”

Íslendingur

Íslendingur í Víkingaheimum.