Færslur

Kjói

Fánanefndin 1913

Fáni

Íslenski ríkisfáninn.

Hinn 30. desember 1913 skipaði ráðherra nefnd “til þess að taka gerð fánans til rækilegrar íhugunar, kynna sér eftir föngum hvað fullnægja myndi óskum þjóðarinnar í þessu efni og koma fram með tillögur til stjórnarinnar um lögun og lit fánans svo snemma að stjórnin geti gert Alþingi, þá er það kemur saman næst, kost á að láta uppi skoðun sína um þær.”
Í nefndina voru skipaðir Guðmundur Björnson landlæknir, formaður, Matthías Þórðarson þjóðminjavörður, Ólafur Björnsson ritstjóri, Jón Jónsson (Aðils) dósent og Þórarinn B. Þorláksson listmálari.

Bláhvíti fáninn

Bláhvíti fáninn.

Var talið af sumum, að bláhvíti fáninn líktist svo mjög grískum fána, að konungur myndi eigi vilja á slíka fánagerð fallast fyrir Ísland. Leitaði ráðherra að beiðni fánanefndar álits konungs á því, hvort hann myndi vilja löggilda bláhvíta fánann. Svar konungs var neitandi, þar eð fáninn líktist um of grískum fána. Vegna þessarar andstöðu konungs hætti nefndin við að gera tillögu um bláhvíta fánann. Einnig var álitið eftir athugun, sem skólastjóri Stýrimannaskólans gerði, að slíkur fáni kynni í miður góðu skyggni að reynast of líkur sænska fánanum, sem er gulur kross í bláum feldi, eins og kunnugt er.
Fánanefndin skilaði tveimur tillögum um liti fánans:
(1) Fáninn skyldi vera heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum, eða
(2) hvítur með heiðbláum krossi og hvítri og blárri rönd utan með beggja vegna.

Stjórnarráðshús

Ríkisfáninn.

Á fyrsta degi Alþingis 1914, 1. júlí, gerði ráðherra, Hannes Hafstein, grein fyrir hvað gerst hefði í fánamálinu og lét útbýta skýrslu fánanefndarinnar. Lýsti ráðherra meinbugum, er á því væru að fá bláhvíta fánann staðfestan, en á eindæmi hefði hann ekki talið fært að gera tillögu til konungs um aðra gerð. Hefði hann því skipað áðurgreinda nefnd í málið. Um liti fánans voru menn ekki sammála. Sumir vildu bláhvíta fánann að viðbættri stórri hvítri stjörnu í efra stangarreit og loks vildu sumir fána þann sem fánanefndin gerði að aðaltillögu sinni, hvítan kross í bláum feldi með rauðum krossi í miðju.

Bláhvíti fáninn

Bláhvíti fáninn.

Í sameiginlegri tillögu nefnda efri og neðri deilda til þingsályktunar um gerð fánans var í fyrsta lagi mælt með bláhvíta fánanum óbreyttum, í öðru lagi með þeim fána að viðbættri stórri hvítri fimmblaða stjörnu í efra stangarreit og í þriðja lagi með þrílita fánanum.
Á hádegi sunnudaginn 1. desember 1918 var klofinn fáni dreginn að hún á fánastöng Stjórnarráðshússins er sambandslögin gengu í gildi.
Um leið og fáni hins fullvalda íslenska ríkis var dreginn að hún, kvað við tuttugu og eitt fallbyssuskot frá varðskipinu “Islands Falk”. Skipherra varðskipsins, Victor Lorenz Lorck, flutti ávarp, og einnig forseti sameinaðs Alþingis Jóhannes Jóhannesson. Loks var leikinn konungssöngurinn og danski og íslenski þjóðsöngurinn.

Fáni

Á 4. áratug 20. aldar var gerð sundlaug hjá sumarbústaðnum Skógarnesi í Reykjahverfi Mosfellsveit. Heitur lækur var stíflaður og þar myndaðist ylvolg laug. Bláhvíti fáninn og þjóðfáninn við húna.

Rauði liturinn á að tákna eld, blái liturinn hafið og himininn og hvíti liturinn jökla. Rautt og hvítt táknar þannig eld og ís.
Rauði liturinn var settur í íslenska fánann að beiðni danskra stjórnvalda en Íslendingar höfðu fyrst valið sér bláhvítan fána. Meginröksemd Dana var sú að bláhvíti fáninn væri allt of líkur gríska fánanum og raunar alveg eins og grískur sérfáni, konungsfáninn. Málið var Danakonungi nokkuð skylt þar sem Georg I, konungur Grikklands 1863-1913, var sonur Kristáns IX Danakonungs (1863-1906) og albróðir Friðriks VIII Danakonungs (1906-1912).

Íslenski fáninn

Forsetafáninn.

Margir íslenskir þjóðernissinnar kunnu hins vegar rauða litnum illa vegna þess að tillagan um hann var upphaflega dönsk. Því var haldið fram að tillagan ætti rætur að rekja til þess að minna ætti á tengsl Íslands og Danmerkur en eins og er kunnugt er rautt grunnlitur danska fánans.
Íslendingar hafa löngum kunnað vel við rauða litinn; andstæðurnar eldur og ís koma oft fyrir í ættjarðarumræðum um Ísland.

-Eftir Birgi Thorlacius. Áður birt í ritinu “Fáni Íslands, skjaldarmerki, þjóðsöngur, heiðursmerki“, útg. af forsætisráðuneyti 1991
og http://www.visindavefur.hi.is/svar.asp?id=917

Fáni

Íslenski fáninn.

Fáni
Fáninn er tákn lands og þjóðar. Íslenski fáninn minnir okkur á himinblámann, snæviþakta jökla og eldinn í iðrum jarðar.
Íslenski fáninn hefur þó ekki alltaf litið út eins og hann gerir í dag.

Þegar Jörundur hundadagakonungur tók hér völd árið 1809, gaf hann tilskipun um, að Ísland skyldi hafa sérstakan fána. Segir í augslýsingu Jörundar, að íslenski fáninn skuli vera blár með þremur þorskfiskum í efsta horni.

Fáni

Fáni Jörundar.

Hinn 12. júlí 1809 var slíkur fáni dreginn að húni á Petræusarvöruhúsi í Hafnarstræti í Reykjavík. Fáni þessi leið þó undir lok með Jörundi. Eigi að síður verður þessi fáni að teljast fyrsta hugmyndin um þjóðfána fyrir Ísland.
Ekki er ljóst, hvers vegna Jörundur valdi þjóðfánanum bláan lit. Það kann þó að hafa ráðið miklu hér um, að blátt hafi verið talinn þjóðarlitur Íslendinga og á þessum tíma var merki Íslands þorskur með konungskórónu á strjúpanum á rauðum skildi, og hafði svo verið lengi.

Fáni

Fáni – fálkafáni.

Um 1870 vakti Sigurður Guðmundsson málari athygli á því, að þjóðin ætti fremur að hafa íslenska fálkann heldur en þorskinn í merki sínu. Máli hans var vel tekið. Stúdentar og skólapiltar urðu fljótir til að taka fálkann upp í merki sitt.
Sumarið 1873 var blár fáni með hvítum fálka í fyrsta skipti dreginn að húni á Þingvöllum. Þjóðhátíðarsumarið 1874 voru haldnar samkomur víða um land og var þá víðast flaggað með fálkamerkinu.
Á þessum árum skapast talsvert almennur áhugi fyrir því, að íslenska þjóðin eignist sitt sérstaka tákn eða merki. Þjóðin var óánægð með þorskmerkið og vildi leggja það niður og taka upp fálkamerkið. Kom þetta skýrt í ljós þegar Alþingishúsið var reist árið 1881, en þá var þorskmerkið sett framan á það.

Fáni

Fáni – hvítbláinn.

Árið 1897 skrifaði Einar Benediktsson grein í blaðið Dagskrá, sem hann nefndi “Íslenski fáninn.” Bendir hann þar á að fálkafáninn sé ósamræmanlegur við flögg annarra kristinna þjóða. Krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands verði hvítur kross á bláum feldi.
Þessi grein hafði mjög mikil áhrif og náði fánagerð þessi þegar almennum vinsældum. Sumarið 1897 var þessi fáni í fyrsta skipti hafður á lofti á þjóðminningunni í Reykjavík.

Fáni

Fáni – fáninn 1918-1944 var með mun skærari litum en nú þekkist.

Ekki voru þó allir alls kostar ánægðir með þennan fána. Ýmsir töldu hann of líkan fánum annarra þjóða, aðallega Svía og Grikkja. Töldu þeir að örðugt gæti reynst að greina þessa fána í sundur á sjó úti.

19. júní 1915, fyrir nákvæmlega 90 árum síðan, var ákveðið að fáninn skuli vera “heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum.” Og þannig er hann enn þann dag í dag.

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/ggg/fani.htm

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli að gefnu tilefni.