Fáni
Fáninn er tákn lands og þjóðar. Íslenski fáninn minnir okkur á himinblámann, snæviþakta jökla og eldinn í iðrum jarðar.
Íslenski fáninn hefur þó ekki alltaf litið út eins og hann gerir í dag.

Þegar Jörundur hundadagakonungur tók hér völd árið 1809, gaf hann tilskipun um, að Ísland skyldi hafa sérstakan fána. Segir í augslýsingu Jörundar, að íslenski fáninn skuli vera blár með þremur þorskfiskum í efsta horni.

Fáni

Fáni Jörundar.

Hinn 12. júlí 1809 var slíkur fáni dreginn að húni á Petræusarvöruhúsi í Hafnarstræti í Reykjavík. Fáni þessi leið þó undir lok með Jörundi. Eigi að síður verður þessi fáni að teljast fyrsta hugmyndin um þjóðfána fyrir Ísland.
Ekki er ljóst, hvers vegna Jörundur valdi þjóðfánanum bláan lit. Það kann þó að hafa ráðið miklu hér um, að blátt hafi verið talinn þjóðarlitur Íslendinga og á þessum tíma var merki Íslands þorskur með konungskórónu á strjúpanum á rauðum skildi, og hafði svo verið lengi.

Fáni

Fáni – fálkafáni.

Um 1870 vakti Sigurður Guðmundsson málari athygli á því, að þjóðin ætti fremur að hafa íslenska fálkann heldur en þorskinn í merki sínu. Máli hans var vel tekið. Stúdentar og skólapiltar urðu fljótir til að taka fálkann upp í merki sitt.
Sumarið 1873 var blár fáni með hvítum fálka í fyrsta skipti dreginn að húni á Þingvöllum. Þjóðhátíðarsumarið 1874 voru haldnar samkomur víða um land og var þá víðast flaggað með fálkamerkinu.
Á þessum árum skapast talsvert almennur áhugi fyrir því, að íslenska þjóðin eignist sitt sérstaka tákn eða merki. Þjóðin var óánægð með þorskmerkið og vildi leggja það niður og taka upp fálkamerkið. Kom þetta skýrt í ljós þegar Alþingishúsið var reist árið 1881, en þá var þorskmerkið sett framan á það.

Fáni

Fáni – hvítbláinn.

Árið 1897 skrifaði Einar Benediktsson grein í blaðið Dagskrá, sem hann nefndi “Íslenski fáninn.” Bendir hann þar á að fálkafáninn sé ósamræmanlegur við flögg annarra kristinna þjóða. Krossinn sé hið algengasta og hentugasta flaggmerki. Leggur hann til að fáni Íslands verði hvítur kross á bláum feldi.
Þessi grein hafði mjög mikil áhrif og náði fánagerð þessi þegar almennum vinsældum. Sumarið 1897 var þessi fáni í fyrsta skipti hafður á lofti á þjóðminningunni í Reykjavík.

Fáni

Fáni – fáninn 1918-1944 var með mun skærari litum en nú þekkist.

Ekki voru þó allir alls kostar ánægðir með þennan fána. Ýmsir töldu hann of líkan fánum annarra þjóða, aðallega Svía og Grikkja. Töldu þeir að örðugt gæti reynst að greina þessa fána í sundur á sjó úti.

19. júní 1915, fyrir nákvæmlega 90 árum síðan, var ákveðið að fáninn skuli vera “heiðblár með hvítum krossi og hárauðum krossi innan í hvíta krossinum.” Og þannig er hann enn þann dag í dag.

Heimild:
-http://www.ismennt.is/not/ggg/fani.htm

Fáni

Flaggað við Eiríksvörðu á Arnarfelli að gefnu tilefni.