Tag Archive for: jarðfræði

Litluborgir

Í skýrslu Umhverfisstofnunar; „Litluborgir – Hafnarfjarðarbær, Stjórnunar- og verndaráætlun“ frá árinu 1022 er fjallað um Litluborgir í Þríhnúkahrauni ofan Helgafells. Þar segir m.a.: „Leiðarljós fyrir stjórnun náttúruvættisins Litluborga er að standa vörð um sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Hið friðlýsta svæði

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009 með auglýsingu nr. 395/2009. Mörk náttúruvættisins eru sýnd á korti í viðauka ll og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi. Stærð svæðisins er 10,6 ha.
Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Hellar og skútar eru í hrauninu og eru þeir viðkvæmir fyrir ágangi.
Markmiðið með friðlýsingu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir í landi Hafnarfjarðar. Jafnframt er það markmið með friðlýsingunni að varðveita jarðmyndanir svæðisins vegna mikils fræðslugildis.

Tengsl við áhrifasvæði og aðkomuleiðir

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir eru innan Reykjanesfólkvangs. Svæðið er í næsta nágrenni við vinsælt útivistarsvæði við rætur Helgafells. Erfitt er fyrir ókunnuga að finna svæðið þar sem það lætur lítið fyrir sér fara í hrauninu og auðvelt að ganga fram hjá því. Hægt er að komast að því gangandi með því að fylgja línuvegi sem liggur við jaðar svæðisins. Við jaðar svæðisins er Búrfellslína 3b. Línan er innan afmarkaðs beltis fyrir háspennulínur í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.

Stjórnunar- og verndaráætlun

Litluborgir

Litluborgir.

Vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar Litluborga hófst í nóvember 2020. Áætlunin er unnin af samstarfshópi sem skipaður var vegna gerðar hennar og er hún sett í samræmi við 81. gr. laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Stjórnunar- og verndaráætluninni er ætlað að vera stefnumótandi skjal sem lýsir framtíðarsýn og þeim grundvallarsjónarmiðum sem höfð eru til hliðsjónar um hvernig viðhalda og auka eigi verndargildi svæðisins. Áætlunin er unnin í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ.

Eignarhald og umsjón

Litluborgir

Litluborgir – loftmynd 2023.

Litluborgir eru í upplandi Hafnarfjarðarbæjar og er sveitarfélagið landeigandi. Umsjón og rekstur náttúruvættisins er í höndum sveitarfélagsins Hafnarfjarðar samkvæmt samningi á milli sveitarfélagsins og Umhverfisstofnunar sem staðfestur var af umhverfis- og auðlindaráðherra árið 2015 og gildir til tíu ára, sjá samningur. Umsjón og rekstur felst m.a. í því að sveitarfélagið sér um að svæðið líti vel út, fjarlægir rusl, hefur eftirlit með því að verndargildi svæðisins rýrni ekki, bregst við raski o.s.frv. Málefnum sem upp kunna að koma og kalla á sérstakar ráðstafanir eða stjórnvaldsákvarðanir ber að vísa til Umhverfisstofnunar.

Lagalegur og stjórnsýslulegur rammi

Reykjanesfólkvangur

Reykjanesfólkvangur.

Náttúruvættið Litluborgir er innan Reykjanesfólkvangs sem var friðlýstur árið 1975 með auglýsingu nr. 520/1975. Starfsmaður Umhverfisstofnunar er áheyrnarfulltrúi í stjórn fólkvangsins og upplýsir stjórnina um umsjón og rekstur náttúruvætta innan
Reykjanesfólkvangs.
Hluti svæðisins er grannsvæði vatnsverndarsvæðis höfuðborgarsvæðisins. Allar framkvæmdir og starfsemi sem geta ógnað öryggi vatnsöflunar eru bannaðar á grannsvæðinu sjá vatnsverndarsvæði og reglugerð nr. 1999/796 um varnir gegn mengun vatns og kort af vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Verndargildi og verndarflokkur

Litluborgir

Í Litluborgum.

Verndargildi Litluborga felst fyrst og fremst í sérstæðum jarðmyndunum. Til að stuðla að vernd jarðfræðilegrar fjölbreytni landsins og fjölbreytni landslags, skal, skv. b-lið 3. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013,stefnt að því að vernda jarðmyndanir sem eru sérstakar eða einstakar á lands- eða heimsvísu. Eldhraun, gervigígar og hraunhellar njóta sérstakrar verndar sbr. 61. gr. sömu laga. Þá eru dropsteinar í hellum landsins friðlýstir sérstaklega sbr. auglýsingu um friðlýsingu dropsteina nr. 120/1974. Verndun Litluborga stuðlar auk þess að verndarmarkmiðum fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir sbr. 2. gr. laga um náttúruvernd.

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir flokkast sem náttúruvætti skv. 48. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013 þar sem segir að friðlýsa megi einstakar  náttúrumyndanir sem ástæða þykir til að varðveita sökum fræðilegs gildis, fegurðar eða sérkenna. Þetta geta t.d. verið fossar, eldstöðvar, hellar og drangar, svo og fundarstaðir steingervinga, sjaldgæfra steinda, bergtegunda og berggerða, eða lífræn fyrirbæri sem eru einstök og skera sig úr umhverfinu. Friðlýsingin skal jafnframt ná til svæðis kringum náttúrumyndanirnar svo sem nauðsynlegt er til þess að þær fái notið sín.

Náttúruminjar; jarðminjar og lífríki

Litluborgir

Í Litluborgum.

Litluborgir eru hraunborgir og gervigígar í Þríhnúkahrauni sem myndast hafa við það að hraun hefur runnið yfir stöðuvatn. Í Litluborgum er að finna hella og skúta með viðkvæmum hraunmyndunum.
Megin vistgerð svæðisins er mosahraunavist og er mosategundin hraungambri ríkjandi en vistgerðin er fátæk af æðplöntum. Þeir fuglar sem algengt er að sjá í þeirri vistgerð eru heiðlóa, spói, þúfutittlingur, steindepill og rjúpa. Svæðið er mjög viðkvæmt fyrir ágangi.

Menningarminjar
Engar skráðar menningarminjar eru innan friðlýsta svæðisins.

Ferðaþjónusta, útivist og fræðsla

Litluborgir

Litluborgir – sérstök gróðurmyndun.

Þar sem Litluborgir eru ekki mjög áberandi í hrauninu þá hafa fáir heimsótt þær í gegnum tíðina en það er að breytast með aukinni umferð útivistarfólks. Svæðið er hins vegar mjög viðkvæmt utan stíga.

Helstu ógnir
Svæðið hefur ekki verið mjög fjölfarið í gegnum tíðina enda lítið og úr alfaraleið. Engar skilgreindar gönguleiðir liggja um svæðið og því var ekki unnt að stýra umferð fólks frá viðkvæmum svæðum. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir. Vísbendingar eru um að efni frá möstrum geti haft neikvæð áhrif á gróður en þess sér merki í mosa á svæði í námunda við náttúruvættið.

Sérstakar reglur um umferð og dvöl

Litluborgir

Litluborgir – göngustígur frá Helgafelli 2020.

Sérstakar reglur um umferð manna og dvöl í náttúruvættinu Litluborgum sem settar eru í samræmi við ákvæði 2. mgr. 81. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd eru eftirfarandi:
1. Kvikmyndataka, ljósmyndun og viðburðir skulu ekki raska jarðminjum, gróðri eða dýralífi innan náttúruvættisins og truflun við aðra gesti skal vera í lágmarki. Kvikmyndataka og viðburðir eru háðir leyfi Umhverfisstofnunar og Hafnarfjarðarbæjar. Heimilt er að setja skilyrði um t.d. fjölda þeirra sem kom að viðburðinum, umgengni og aðstöðu þegar slík leyfi eru veitt.
2. Heimilt er að hjóla á skilgreindum hjólreiðastígum séu þeir til staðar.
3. Umhverfisstofnun getur takmarkað umferð á viðkvæmum svæðum, þar sem hætta er á raski á náttúruminjum eða vegna erfiðra gönguaðstæðna, og beina gestum svæðisins um aðrar leiðir.“

Litluborgir

Í Litluborgum 2010.

Ýmislegt í framangreindri skýrslu er annað hvort ekki rétt eða ranglega með farið. Ekkert er t.d. minnst á verksummerki akstursslóða girðingar- og rjúpnaveiðimanna við borgirnar, afmarkaða og nauðsynlega stígagerð áhugafólks að borgunum vegna áhugaleysis Umhverfisstofnunar og stjórnenda Hafnarfjarðarbæjar á upplandi bæjarins. Í skýrslunni kemur fram að ágangur á svæðið hafi aukist 2022 með tilheyrandi mosaskemmdum. Það er rangt, líkt og svo margt annað, sem ekki verður farið nánar út í hér. Svo virðist að fæst það fólk er kom að skýrslugerðinni hafi haft hið minnsta vit á viðfangsefninu! Verður það að þykja miður…

Heimild:
-Litluborgir, Hafnarfjarðarbær – Stjórnunar- og verndaráætlun, desember 2022, Umhverfisstofnun.

Litluborgir

Gengið að Litluborgum 2010.

Litluborgir

Ofan Helgafells, skammt ofan línuvegarins nálægt einu háspennulínustaurnum, er skilti. Á því má lesa eftirfarandi:

Litluborgir

Litluborgir – skilti.

„Litluborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2009. Stærð náttúrvættsins er 10,6 ha.
Markmiðið með friðlýsngu Litluborga er að vernda sérstæðar jarðmyndanir sem hafa mikið fræðslugildi.

Litluborgir eru smágerðar hraunborgir og gervigígar sem myndast hafa þegar hraun frá Tvíbollum rann yfir stöðuvatn fyrir um þúsund árum. Aðrar merkar og áhugaverðar myndanir á svæðinu eru dropsteinar og kísilgúr.

Litluborgir

Litluborgir.

Litluborgir er undraheimur fíngerðra hraunmyndana. Líkja má þeim við minnkaða útgáfu af Dimmuborgum í Mývatnssveit. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér úr fjaska, en þegar inn í það er komið og við skoðum nærumhverfið blasa við okkur heillandi hraunskútar, steinbogar og alls kyns form sem hraunið hefur tekið á sig þegar það flæddi hér yfir um, var undir því sauð og af urðu gufusprengingar sem tættu yfirborðið og mótuðu alls kyns kynjamyndir.“

Litluborgir

Litluborgir – friðlýsingarkort.

Stóra-Eldborg

Við bílastæði Stóru Eldborgar við gamla Herdísarvíkurveginn undir Geitahlíð er skilti með yfirskriftinni „Eldborgir undir Geitahlíð“ og eftirfarandi upplýsingum:

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg – skilti.

„Stóra og Litla Eldborg eru syðstu eldvörp á yfirborði í Brennisteinsfjallakerfinu. kerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum Reykjaness á nútíma (síðustu 12.000 ár). Eldborgrinar eru myndarlegir gjallgígarr sem mynduðust í skammvinnum gosum á hringlaga gosopum eða stuttum sprungum. Þar gaus þunnfljótandi kviku með nokkurri kvikustrókavirkni.
Eldborgirnar ná eingöngu að myndast við hraungos og því er augljóst að jöklar voru ekki til staðar á Reykjanesi þegar eldsumbrotin urðu, en jöklar lágu síðast yfir Reykjanesi fyrir um 10.000 árum. Geitahlíð er aftur á móti móbergsstapi, myndaður við eldsumbrot undir jökli á jökulskeiði síðustu ísaldar. Stóra Eldborg og Litla Eldborg eru hluti af gígaröðum sem mynduðust með 1000 ára millibili. Stóra Eldborg er eldri og talin vera um 6000 ára og Litla Eldborg um 5000 ára.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg – skilti.

Svæðið var friðlýst sem náttúruvætti árið 1987 og eru eldborgirnar með fegurstu gíga Suðvestanlands. Stærð náttúruvættisins er 1200,5 hektarar.
Minjar eru á svæðinu og finnast hér þrjár dysjar. Talið er að tvær þeirra tilheyri systrunum Krýsu og Herdísi, en sú þriðja er nefnd smaladys.
Hér er einnig gömul þjóðleið, Herdísarvíkurgata.
Vinsamlegast gangið á skilgreindum stígum til að hlífa jarðmyndum og gróðri.
Náttúrvættið er í Reykjanesfólkvangi og hluti af Reykjanesjarðvangi.“

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg – skilti.

Litla-Eldborg

Við bílastæði nálægt Litlu Eldborg undir Geitahlíð, neðan gamla Herdísarvíkurvegarins er skilti. Á því eru eftirfarandi upplýsingar:

Litla-Eldborg

Litla Eldborg – skilti.

„Litla Eldborg var friðlýst sem náttúruvætti 1987. Hér er ekki bara einn gígur, heldur 350 m long röð gjall- og klepragíga sem nær upp að Geitahlíðum.
Talið er að gosið hafi verið fyrir um 5000 árum. Hraunið úr gígunum liggur ofan á hrauni Stóru Eldborgar og ran það m.a. í sjó fram og myndaði tanga.
Upp af ströndinni má sjá brúnir gamalla sjávarhamra sem hraunið ran fram af.
Stærsti gígur Litlu Eldborgar er nánast horfinn eftir alarnám vegan framkvæmda á 20. old, en efnistöku var hætt um 1990.“

Stóra-Eldborg

Litla-Eldborg og nágrenni: örnefni og minjar – loftmynd.

Eldgos

Krýsuvíkureldar voru tímabil stöðugrar eldvirkni í sprungusveim sem kennt er við Krýsuvík á Reykjanesskaga. Eldarnir hófust um miðja 12. öld, líklega árið 1151 og benda ritaðar heimildir til þess að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun sunnanvert – kort.

Fjórir aðskildir hraunflákar mynduðust smám saman í Krýsuvíkureldunum þótt hraunið allt sé nú kennt við Ögmundarhraun.  Syðst er Ögmundarhraun sem nær frá Djúpavatni í Móhálsadal suður í sjó. Næst norðan við það er lítið hraun sem runnið hefur út á Lækjarvelli og er það langminnst þessara hrauna. Þriðja hraunið er við Mávahlíðar, norðaustur af Trölladyngju, og liggur til hliðar við megingossprunguna. Nyrst er svo Kapelluhraun sem runnið hefur frá Undirhlíðum til sjávar sem og Gvendarselshæðargígaröðin vestan Helgafells.
Hraunin eru dæmigerð fyrir apalhraunin sem koma upp í gliðnunarhrinum á Reykjanesskaga. Hraunin eru þunnfljótandi og gasrík og mynda oft þunnt frauðkennt helluhraun næst gígunum. Algeng þykkt slíkra hrauna er um einn metri á sléttu landi og eru hraunaðrarnir oft ekki nema um hálfur metri á hæð.

Sundhnúkagígaröðin

Eldgos á Sundhnúkagígaröðinni 16. júlí 2025.

Þegar hraunin hafa runnið nokkur hundruð metra frá gígunum hefur verulegur hluti gassins verið rokinn úr hraunkvikunni, þannig að hún verður seigari og hraunið þykknar og breytist smám saman í apalhraun sem verður þeim mun úfnara sem fjær dregur gígunum. Hæstu hraunjaðrar af þessari gerð á Reykjanesskaga eru 10-15 m.

Ögmundarhraun, þ.e. hraunið sem rann frá syðsta hluta gossprungunnar fyllti allan Móhálsadal sunnan Djúpavatns og rann í sjó fram á um 5 km breiðu belti. Hraunið fyllti allstóra vík sem að líkindum hefur verið hin forna Krýsuvík. Þessi hraunfláki er stærstur af þeim fjórum sem mynduðust í Krýsuvíkureldum. Hann gæti hafa myndast í tveimur gosum (en þó í sömu goshrinu).

Djúpavatnsgígar

Djúpavatnsgígar.

Sá hluti hraunsins sem kominn er frá gígunum við Djúpavatn hefur runnið til austurs og síðan til suðurs austan Traðarfjalla. Við suðurbrún Traðarfjalla leggst yfir það yngra hraun sem runnið hefur frá þeim hluta gígaraðarinnar sem liggur í skarðinu milli Traðarfjalla og Núpshlíðarháls. Hraunið er allúfið austan Traðarfjalla, enda hefur það runnið þar í nokkrum halla.
Syðri hluti hraunsins fyllir allan Móhálsadal sunnan Traðarfjalla. Þar er hraunið víðast slétt hellhraun en í dalnum ofanverðum er það að verulegu leyti horfið undir framburð lækja, sem er afar mikill á þessum slóðum. Móbergið í hálsunum í grennd er mikið ummyndað vegna jarðhita og því auðrofið. Jafnhliða ummynduninni þéttist bergið þannig að úrkoma hripar ekki beint niður, eins og víðast á Reykjanesskaga, heldur myndar læki sem renna á yfirborði. Þeir hverfa reyndar fljótlega niður í jörðina er þeir koma út fyrir ummyndaða svæðið. Af þessum sökum er ógerningur að segja til um þykkt hraunsins í dalnum.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – Tófubrunagígar.

Meginhraunið hefur komið upp í dalnum sunnanverðum. Þegar hraunið fellur suður úr dalnum breytist það að mestu í úfið apalhraun, enda búið að renna alllangan veg frá gígunum. Hraunið hefur síðan runnið allt til sjávar og fyllt hina fornu Krýsuvík. Ætla má að á flatlendi sé hraunið víðast um 5-10 m þykkt og miklu þykkara þar sem það náði út í sjó. Í Móhálsadal er það eflaust nokkru þynnra og vart meira en 3-4 m þykkt, en slík tala er þó ágiskun ein. Flatarmál hraunsins er um 18,6 km2 og ef gert er ráð fyrir 7 m meðalþykkt er rúmmálið um 0,13 km3.
Norður af Djúpavatni liggur ungleg gígaröð til norðausturs eftir Móhálsadal, í beinu framhaldi af gígum Krýsuvíkurelda.
Allt framangreint svæði er einstaklega áhugavert í jarðsögulegum tilgangi, ekki síst í ljósi þeirra atburða sem núverandi Grindvíkingar hafa þurft að horfa upp á tengda samfelldri goshrinu á Sundhnúkagígaröðinni ofan bæjarins á undanförnum árum.

Framangreindri umfjöllun fylgja myndir af einstökum gosstöðvum á  u.þ.b. 25 km langri sprungureininni er náði allt frá Höfða og Latfjalli í suðri að Helgafelli að vestanverðu í norðri – Sjá Myndir.
Reykjaneseldar

Sundhnúkagígaröðin

Í Vikunni árið 1964 er viðtal við Jón Jónsson, jarðfræðing, undir fyrirsögninni „Það má búast við gosi á Reykjanesi„:
Jón Jónsson„Reykjanesskagi er meir eldbrunninn en nokkur annar hluti þessa lands. Ég ætla að engin viti hversu margar eru þær eldstöðvar og því síður hversu mörg þau hraun eru, sem þar hafa brunnið frá því að jökla leysti af landinu. Um hraunflákana á þessu svæði fær maður nokkra hugmynd ef það er athugað að hægðarleikur er að ganga alla leið frá Þingvallavatni út á Reykjanestá án þess að stíga nokkurntíma af hrauni.
Fyrsta gos, sem sögur fara af á þessu svæði er það, sem átti sér stað árið 1000 og sem getið er um í Kristnisögu. Það gos var á Hellisheiði norð-austur og austur af Hveradölum og eru eldstöðarnar vel sýnilegar hverjum þeim, sem um Hellisheiði fer. Ekki fara sögur af fleiri gosum á austanverðum Reykjanesskaga. Þó hefur þar gosið síðar a.m.k. tvisvar sinnum, í Eldborg nyrðri og syðri, milli Lambafells og Bláhnjúks, því hraun frá þeim gosum hafa runnið út á hraunið frá 1000.

Hellisheiði

Gígarnir á Hellisheiði – upptök Kristnitökuhraunsins frá árinu 1000.

Í námunda við þær eldstöðvar hefur áður gosið oftar en einu sinni eftir ísöld, og þaðan er komið það hraun, sem næst hefur komizt höfuðborginni, en það er hraunið sem runnið hefur út í Elliðaárvog. Samkvæmt rannsóknum Þorleifs Einarssonar er þetta hraun komið úr stórum gíg er nefnist Leitin sunnan við Ólafsskarð austan undir Bláfjöllum. Yngri hraun þekja þetta að mestu vestur að Draugshlíðum, en þaðan er auðvelt að rekja það alla leið til sjávar. Þetta hraun hefur verið mjög þunnfljótandi og væntanlega runnið hratt. Það er helluhraun og myndar hvergi kraga það ég veit, en í því eru gervigígir á nokkrum stöðum og þekktastir þeirra eru Rauðhólar við Elliðavatn. Skammt ofan við brúna yfir Elliðaár á Suðurlandsvegi er mór undir hrauninu. Hann hefur verið aldursákvarðaður með C14 aðferð og reynzt vera 5300 + eða + 340 ára.

Eldborg

Eldborg (Drottning) og Stóra-Kóngsfell vestan við Bláfjöll.

Vestan við Bláfjöll eru allmargir gígir og sumir þeirra stórir. Meðal þeirra er sá sem gerður hefur verið hinn mesti ógnvaldur í Vikunni á undanförnum vikum. Frá eldstöðvum á þessum slóðum hafa hraun runnið norður á Sandskeið, milli Sandfells og Selfjalls og vestan við Selfjall, milli þess og Heiðmerkur. Á síðast nefnda svæðinu ber hraun þetta nafnið Hólmshraun. Þarna er þó um a.m.k. 5 mismunandi hraunstrauma að ræða, og verða þeir nefndir Hólmshraun I—V hér.

Hólmshraun

Hólmshraun – uppdráttur Jón Jónsson.

Hólmshraun I er þá þeirra elzt og V yngst. Ekki hafa þessi hraun ennþá verið rakin til einstakra eldstöðva, og er raunar óvisst hvort það er mögulegt, a.m.k. með öll þeirra. Af þessum slóðum hafa þau samt komið. Engar sagnir eru til um gos á þessum slóðum. Hólmshraun I hefur runnið út á Leitahraunið rétt austan við Gvendarbrunna og langleiðina yfir það þar skammt fyrir austan. Hólmshraun II hefur einnig runnið út á það austan við Lækjarbotna og myndar hina áberandi, háu hraunsbrún ofan við gamla Lögbergsbæinn aðeins norðan við Suðurlandsveginn. Af þessu er ljóst að Hólmshraunin öll eru yngri en Leitahraunið, en um aldur þess var áður getið.

Nesjahraun

Nesjahraun í Grafningi.

Samkvæmt því sem hér hefur verið sagt hafa orðið a.m.k. 9 eldgos á austanverðum Reykjanesskaga á síðastliðnum 5300 árum. Auk þess er Nesjahraun í Grafningi, en það er samkvæmt rannsóknum Kristjáns Sæmundssonar 1880 + eða + 65 ára, C14 aldursákvörðun. Þar með eru gosin orðin 10. Milli Selfjalls og Helgafells virðist ennfremur vera nokkuð á annan tug mismunandi hrauna, sem öll eru runnin eftir ísöld, eru þá ekki talin með áðurnefnd fimm Hólmshraun né heldur hraun það sem komið er úr Búrfellsgígnum, og sem nefnt er ýmsum nöfnum, svo sem Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Gálgahraun o.s.frv., en sem ég mun nefna Búrfellshraun. Á þessu hrauni stendur meginhluti Hafnarfjarðarbæjar. Ekki skal nú haldið lengra vestur skagann að sinni, en aðeins geta þess að fjöldi hrauna og eldstöðva eru þar, og hafa sumar þeirra verið virkar eftir að land byggðist.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Það er óhætt að slá því föstu, að alls engar líkur eru til þess að eldgosum sé að fullu og öllu hætt á Reykjanesi. Það verður þvert á móti að teljast í fyllsta máta líklegt að gos muni enn verða þar. Sé jafnframt litið á, hversu oft hefur gosið þar og hvað langt er liðið frá síðasta gosi, en það hefur líklega verið um 1340 [var reyndar 1151] er Ögmundarhraun brann, þá vaknar sú spurning hvort ekki muni nú líða að því að gos verði einhvers staðar á þessu svæði.
Vitanlega er þetta nokkuð sem enginn veit, ekki jarðfræðingar fremur öðrum. Það er þó ljóst að a.m.k. verulegur hluti þeirra mynda, sem — sumar í allsterkum litum hafa verið dregnar upp í undangengnum blöðum VIKUNNUR gætu áður en varir verið komnar í hinn kaldliamraða ramma veruleikans. Við höfum ekki leyfi til að haga okkur eins og við vitum ekki, að við byggjum eitt mesta eldfjallaland jarðarinnar. Það er skoðun mín að það sé í fyllsta máta tímabært að hiutaðeigandi geri sér nokkra grein fyrir því, hvað komið getur fyrir og hvernig við því skal bregðast. Sumt af því er svo augljóst að ástæðulaust er um það að fjölyrða. Ég á þar við truflanir á samgöngum og beina skaða á mannvirkjum.

Kaldá

Kaldárbotnar.

Því er ekki að neita að vatnsból Reykjavíkur og Hafnarfjarðar geta legið nokkuð illa til í þessu sambandi. Vatnsbóli Hafnarfjarðar í Kaldárbotnum hagar þannig til að vatnið kemur úr misgengissprungu, sem klýfur Kaldárhnjúk, Búrfell og myndar vesturhlið Helgadals. Svo sem 1—1,5 km. sunnan við Kaldárbotna hefur sama sprunga gosið hrauni. Það er að vísu lítið hraun, en hætt er við að gos á þessum stað eða með svipaða afstöðu til vatnsbóls ins gæti haft óheppileg áhrif á vatnið.
Þess skal getið að ólíklegt virðist að gos mundi hafa veruleg eða jafnvel nokkur áhrif á vatnsrennslið. Um Gvendarbrunna er svipað að segja. Vatnið kemur þar líka úr sprungum, sem a.m.k. tvö og líklega þrjú Hólmshraunanna hafa runnið yfir. Vatnið í Gvendarbrunnum kemur því ekki aðeins undan hrauninu í venjulegum skilningi heldur dýpra úr jörðu og af miklu stærra svæði.

Gvendarbrunnar

Gvendarbrunnar.

Því er ekki líklegt að gos hefði áhrif á rennslið, en kæmi enn eitt Hólmshraun, gæti það hæglega runnið y|ir vatnsból Reykjavíkurborgar. Bullaugu eru hins vegar ekki á sambærilegu hættusvæði. Vel gæti komið til mála að hægt væri að segja fyrir gos á því svæði, sem hér er um að ræða með því að fylgjast stöðugt með efnasamsetningu vatnsins. Þetta hafa Japanir gert, en á þessu sviði sem alltof mörgum öðrum fljótum við ennþá sofandi að feigðarósi.

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur og aðrar dyngjur Reykjanesskagans.

Eldstöðvarnar á Reykjanesi eru aðallega tvennskonar: dyngjur og gossprungur. Dyngjurnar eru eldri a.m.k. á vestanverðu nesinu. Frá þeim eru stærstu hraunin komin, og ná sum þeirra yfir mjög stór svæði. Sprungugosin virðast hins vegar flest hafa verið tiltölulega lítil og ekki hafa gert mikinn usla. Mörg þeirra hafa ekki verið öllu meiri en Öskjugosið síðasta og sum minni. Þau virðast einnig hafa verið samskonar, þ.e. hraungos með sáralitlu af ösku, og hafa yfirleitt ekki staðið lengi. Svo er að sjá sem þannig sé um Hólmshraunin. Nokkuð öðru máli gegnir um gosið í Búrfelli. Það hefur verið mikið gos, og er hraunið víða um og yfir 20 m þykkt.

Búrfell

Búrfell í Garðabæ.

Ekki verður séð að Búrfell hafi gosið nema einu sinni. Um aldur þess hrauns er ekki vitað, en líklegt virðist mér að það sé með eldri hraunum hér í grennd. Ekki er því að leyna að allófýsilegt væri að búa í Hafnarfirði ef Búrfell tæki að gjósa á ný, sérstaklega á þetta við um þann hluta bæjarins, sem stendur á hrauninu eða við rönd þess. Sama er að segja um Grindavík, ef eldstöðvarnar, sem þar eru næst færu aftur að láta til sín taka. Aðeins eru um 5 km. frá Búrfelli til Hafnarfjarðar og mun skemmra til Grindavíkur frá gígunum, sem þar eru næstir. Í þessu sambandi má benda á að hraunið frá Öskjugosinu síðasta mun hafa runnið um 11 km. á 2—2% sólarhringum. Hveragerði gæti verið hætta búin af gosum á Hellisheiði.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Vera má að sumum lesenda finnist hér hafa verið málað svart, að ég sé hér að spá illu og jafnvel að hræða fólk að ástæðulausu. Því fer fjarri að það sé ætlun mín. Ég, sem allir aðrir vona að sjálfsögðu að þær byggðir sem um hefur verið rætt fái um alla framtíð að vaxa og dafna í friði. Hins vegar er í hæsta máta óheppilegt í þessu sem öðru að loka augunum fyrir staðreyndum.
Enginn veit hvar eða hvenær eldur kann næst að brjótast upp á Reykjanesskaga. Þeir sem nú byggja þessar slóðir sjá kannski ekkert af honum, kannski ekki heldur þeir næstu, en persónulega efast ég ekki um að, ef ekki við, þá muni einhver eða öllu heldur einhverjar komandi kynslóða verða að taka afstöðu til þess, hvað gera skuli er glóandi hraunflóð stefna að byggðu bóli — og þá væri gott að vera ekki alveg óviðbúinn.“ – Jón Jónsson.

Heimild:
-Vikan, 7. tbl. 13.02.1964, Það má búast við gosi á Reykjanesi, Jón Jónsson, bls. 20-21 og 30.
Drottning í Bláfjöllum

Krýsuvík

Jarðhitarannsóknir á Krýsuvíkursvæðinu eiga sér langa sögu og má rekja fyrstu skráðu könnunina allt aftur til ársins 1756 þegar gerðar voru rannsóknir á hverum og leirpottum í Krýsuvík, sem teljast meðal fyrstu vísindalegu jarðfræðirannsókna á Íslandi.

Krýsuvík

Krýsuvík 2023.

Í gegnum árin hafa síðan farið fram margvíslegar rannsóknir og boranir á svæðinu. Á árunum 1941–1951 voru boraðar fjölmargar grunnar holur í nágrenni Krýsuvíkur með það að markmiði að afla gufu til rafmagnsframleiðslu fyrir Hafnarfjörð og höfuðborgarsvæðið. Borholurnar leiddu í ljós jarðhita en ekki í nægjanlegu miklu magni til að hefja raforkuframleiðslu á þeim tíma. Holurnar þóttu samt gagnlegar sem undanfari frekari rannsókna síðar meir.

Í Alþýðublaðinu 1951 segir m.a. af „Framkvæmdum og fyrirætlunum í Krýsuvík„.

Seltún

Seltún – gufugos 1950.

„Krýsuvík er eitt þeirra hverasvæða landsins, sem mestar framtíðarvonir eru við bundnar, og mestar tilraunir hafa verið gerðar á með virkjun fyrir augum.
Í eftirfarandi grein, sem tímarit ungmennafélaganna „Skinfaxi“ birti fyrir nokkru og byggð er á upplýsingum Jens Hólmgeirssonar, bústjóra í Krýsuvík, varðandi gróðurhús og búskap, og Valgarðs Thoroddsen, rafveitustjóra í Hafnarfirði, varðandi jarðboranir og raforkuframkvæmdir, er gerð allítarleg grein fyrir því, sem gert hefur verið í Krýsuvík.

Á síðari árum hefur margt og mikið verið rætt og ritað um framkvæmdir Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Verður hér stuttlega skýrt frá því, sem þegar hefur verið gert þar og helztu fyrirætlunum.
Krýsuvík liggur um miðbik Reykjaness að sunnanverðu, milli Grindavíkur og Herdísarvíkur, en suðvestan við Kleifarvatn. Fyrr á tímum var þar höfuðból með sex hjáleigum, og um síðustu aldamót lifðu þar um 40 manns. Var sauðfjárræktin undirstaða búskaparins þar og sömuleiðis sjósókn.

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvíkurtorfan – uppdráttur ÓSÁ.

— Síðan tók fólki stöðugt að fækka og byggðin að eyðast. Olli því að sjálfsögðu breyttir búskaparhættir og þjóðarhættir, og auk þess samgönguleysi. Kom þar að lokum að aðeins einn maður dvaldi í Krýsuvík, og hafðist hann við í leifum af kirkjunni. Leið þó ekki nema einn vetur, að mannlaust væri í Krýsuvík, áður en starfsfólk Hafnarfjarðarbæjar settist þar að.
Hafnarfjarðarbær fékk eignarrétt á ræktunarlandi og hitasvæði í Krýsuvík árið 1937. Undirstaða framkvæmda þar hlaut að teljast vegarlagning þangað, en lög um Krýsuvíkurveg höfðu verið samþykkt á alþingi árið 1936. Síðan sá vegur tengist Suðurlandsundirlendinu, hefur hann komið í góðar þarfir á vetrum, — ekki hvað sízt á síðastliðnum vetri.
— Milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur eru 25 km. Framkvæmdir í Krýsuvík eru þríþættar, og hafa þessir þrír þættir frá upphafi verið aðskildir, þótt á síðasta ári hafi tveir þættirnir verið sameinaðir undir eina stjórn. Þessir þrír þættir eru: Ræktun í gróðurhúsum, grasrækt og kúabúsframkvæmdir Og boranir eftir jarðhita.

Gróðurhús

Krýsuvík

Krýsuvík – Vinnan í gróðurhúsunum.

Vegna jarðhitans eru skilyrði til ræktunar í gróðurhúsum ótakmörkuð í Krýsuvík. Nú eru gróðurhúsin orðin fjögur, og eru ca. 1600 ferm. undir gleri. Tvö þessara gróðurhúsa (600 ferm.) voru tekn í notkun vorið 1949, en hin tvö er verið að ljúka við. Í gróðurhúsunum eru einkum ræktaðir tómatar, agúrkur, gulrætur og blóm. Í
sambandi við gróðurhúsin er auk þess hálfur hektari útiræktar, þar sem gert er ráð fyrir að rækta alls konar grænmeti. Jarðhitinn, sem gróðurhúsin eru hituð með, er gufa, og er hún leidd í þró þar sem katli hefur verið komið fvrir, og hitar gufan þannig vatnið í hitakerfi gróðurhúsanna, en það er venjulegt miðstöðvarkerfi.
Í sambandi við gróðurhúsin hafa verið reist tvö íbúðarhús, ca. 360 ferm. að grunnflatarmáli, fyrir bústjóra og starfsfólk. Eru í húsunum öll þægindi, vatnsleiðsla, skólpræsi og rafrnagn frá dieselraístöð.

Búskapur

Krýsuvík

Krýsuvík 1962- fjósið (HH).

Í Krýsuvík eru ca. 300 ha. ræktanlegt graslendi, en auk þess melar, sem e.t.v. mætti rækta með sérstakri aðferð.
Kom fljótt til tals að setja þarna á fót stórt kúabú, er jafnan gæti séð Hafnfirðingum fyrir ferskri og góðri barnamjólk. Á þessum grundvelli hafa verið hafnar allmiklar búskaparframkvæmdir, þótt enn megi þær teljast á byrjunarstigi. Þegar hafa verið brotnir um 30 ha. lands, en vinnslu er misjafnlega langt á veg komið, vinna undir grasfræssáningu á þessu vori. Grafnir hafa verið 8 km. langir opnir skurðir til landþurrkunar, en ca. 45 km. löng lokræsi (kílræsi). Tveir súrheysturnar hafa verið reistir. Eru þeir 5 m. í þvermál og 14 m. háir. Fjós fyrir 154 kýr og tilheyrandi ungviði er komið undir þak.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið; uppdráttur.

Hér er komið framkvæmdum í búskaparmálum í Krýsuvík, en um framhaldið verður ekki sagt á þessu stigi málsins. Það er rétt að geta þess, að í Krýsuvík er mjög votviðrasamt, og verður bví naumast gerlegt að vera háður náttúrunni með verkun á heyi. Gera má ráð fyrir. að þarna mætti hafa um 300 kýr.
Öll mannvirki, sem hingað til hafa verið reist í Krýsuvík, bæði vegna rætkunar í gróðúrhúsum og fvrirhugaðs búskapar. eru hin vönduðustu og af fullkomnustu gerð.

Boranir eftir jarðhita

Seltún

Seltún – borhola.

Í Krýsuvík er eitt mesta jarðhitasvæði á landinu, enda ber Reykjanesskaginn allur ljósar menjar mikilla jarðumbrota og eldgosa. — Festi Hafnarfjarðarbær ekki hvað sízt kaup á Krýsuvík vegna jarðhitans, enda hafa jafn miklar vonir til hans staðið og standa enn.
Fyrstu jarðbornir í Krýsuvík voru framkvæmdar af rannsóknaráði ríkisins árið 1941 og 1942. Var þá borað við
suðurenda Kleifarvatns. Þetta var aðeins gert í rannsóknarskyni til þess að kynnast jarðlögum. Festust borarnir tíðum, og engin gufa kom.
Næst var borað 1945. Rafmagnseftirlit ríkisins hafði þær boranir með höndum, einnig í tilraunaskyni. Borað var við svonefndan Austurengjahver og í Seltúni. Jarðborar voru grannir.
Nokkurt gufumagn, kom þó, en þar sem holurnar voru þröngar, stífluðust þær fljótt, enda var hér um rannsókn að ræða.

Krýsuvík

Borað á hlaðinu í Krýsuvík um 1950.

Haustið 1946 var Ólafur Jóhannsson úr Hveragerði, fenginn til að bora eftir gufu vegna væntanlegra gróðurhúsa. Þá voru boraðar 3 holur, alm. með allgóðum árangri, og er íbúðarhús starfsfólks gróðurstöðvarinnar hitað með gufu þaðan.
Um áramótin 1948 tók til starfa í Krýsuvík nýr jarðbor, sem Hafnarfjarðarbær hafði keypt, en Rafveitu Hafnarfjarðar var falið að annast rekstur hans. Þessi bor er fallbor, en fram til þessa höfðu verið notaðir spúningsborar. Fallborar geta borað víðari holur en snúningsborar, þótt vélaorkan, sem knýr þá, sé hin sama. Enn fremur er minni festuhætta fyrir þá gerð, en áður hafði það tafið mikið, hve borar vildu festast.
Með fallbornum var fyrst borað vegna gróðurstöðvarinnar, skammt frá henni. Sú borhola mistókst.

Seltún

Seltún árið 1950.

Var þá borinn fluttur í svonefnt Seltún og byrjað að bora með tilliti til væntanlegrar raforkuvirkjunar. Meðan á því stóð var aftur fenginn bor frá Rafmagnseftirliti ríkisins til þess að bora uppi í fjallinu ofan við gróðurstöðina, í svonefndum Hveradölum. Voru þær boranir vegna gróðurhúsanna og gáfu nægjanlegt gufumagn fyrir þau eins og þau voru þá. —
Þessar holur hafa þó stíflazt, og hefur fallborinn þá verið fluttur upp í Hveradalina til þess að bora upp þessar stíflur. Enn fremur hafa víðari holur verið borðara með fallbornum í Hveradölum, sem heppnazt hafa, og gefa þær samtals um 10 tonn af gufu á klst. Gufumagn, sem fvrir hendi er úr borholum í Hveradölum, er þrefalt meira en gróðurstöðin þarfnast, eins og hún er nú. Í Seltúni hafa boranir gengið upp og ofan, enda er jarðvegur í Krýsuvík sérstaklega erfiður viðfangs fyrir jarðboranir.
Með fenginni reynslu tókst þó að endurbæta svo borvélina á síðastliðnu ári, að borun hefur gengið mun greiðar en áður. Hefur nú tekizt að bora allt að að 13 m. á dag, en stundum áður varð ekki komizt nema nokkra centimetra niður á degi hverjum.

Seltún

Seltún – borhola 1956.

Það var 12. sept. síðatl. að verulegur árangur varð af borunum í Seltúni. Þá kom skyndilega gos úr holu, sem verið var að bora og orðin var 229 m. djúp. Hola þessi er fóðruð með 8 tommu víðum járnpípum 190 m. niður. Gosið hefur sífellt haldið áfram síðan það byrjaði, og kemur úr bolunni all vatnsblönduð gufa. Hefur magnið verið mælt við mismunandi mótþrýsting þ.e. þrengt hefur verið mismunandi mikið að gosinu. Gufa sú, sem úr holunnii kemur, mun geta framleitt um 5000 kílóvött rafmagns. En auk þess koma úr holunni um 30 l. af 100° heitu vatni á sekúndu, sem nota mætti í hitaveitu eða til annars. — Til samanburðar má geta þess að Hafnarfiarðarbær notar nú 3000 kílóvött rafmagns. Gos kemur úr 5 bolum alls, þótt gosið úr fyrrrnefndri holu sé langmest, en heildargufan úr öllum holunum er 60 tonn á klst.

Seltún

Seltún – borhola.

Í ráði er að virkja þarna í Seltúni, og hefur ýmsum fyrirtækjum í Evrópu og Bandaríkiunum verið send greinargerð um þetta efni og óskað eftir tilboðum um vélar og tæki. Komið hefur í liós, að ítalsk og svissnesk fyrirtæki ein telja sig geta sinnt svo sérstæðu verkefni, sem hér um ræðir. Stendur Rafveita Hafnarfjarðar nú í sambandi við ítölsk fyrirtæki varðandi þessi mál.
Bráðabirgðaáætlun sýnir að slík gufuvirkjun yrði nokkru ódýrari en samsvarandi vatnsvirkjanir. Stendur rafveitan í sambandi við ítölsk orkuver, sem revnslu hafa af gufuvirkjunum. Hafa ítalir gufuorkuver, sem framleiða 300 þús. kílóvött rafmagns. Til samanburðar má geta þess, að nýja Sogsvirkjunin, eins og hún er
nú áætluð, mun framleiða 31 þús. kílóvött.
Borunum er að sjálfsögðu haldið áfram í Krýsuvík.“

Heimild:
-Alþýðublaðið, 20. sept 1951, Framkvæmdir og fyrirætlanir í Krýusuvík, bls. 5.

Seltún

Seltún – borhola er sprakk í loft upp í október árið 1999.

Eldgos

Það er kominn tími á eldgos„, sagði Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfæðingur hjá ISOR í viðtali Guðna Einarssonar blaðamanns mbl.is, þann 5. mars árið 2021. “ Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi, að mati Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings hjá ÍSOR – Íslenskum orkurannsóknum.“

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Eldgos hófst síðan í Geldingadölum á Fagardalsfjalli þann 19. sama mánaðar. Gosið var upphaf hrinu eldgosa, fyrst í fjallinu og nágrenni og síðan ofan Grindavíkur, á svonefndri Sundhnúksgígaröð. Þegar þetta er skrifað í lok sept 2025 hafa hrinurnar orðið tólf talsins, þar af níu á Sundhnúksgígaröðinni.
Hér verða af þessu tilefni rifjað upp nefnt viðtal sem og tvö önnur sambærileg við sérfræðinga á sviði jarðfræðirannsókna í aðdraganda eldgosahrinunnar.

Eldgos við Fagradalsfjall hófst, sem fyrr segir, þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall 2022.

Þann 3. ágúst árið 2022, rúmum tíu mánuðum eftir að eldgosinu við Fagradalsfjall lauk opnaðist um 300 metra löng sprunga við norðanverða Meradali, við norðurenda hrauns sem rann 2021, og nálægt Meradalahnjúkum. Jarðskjálftahrina var vikurnar áður og 3 dögum áður var skjálfti upp á 5,5 nálægt Grindavík. Sprungan sem opnaðist var lengri og gosið öflugra en í síðasta gosi þegar það hófst. Hún þéttist í nokkur gosop og einn aðalgíg fyrstu vikuna. Gosið stóð í um 18 daga.

Sundhnúkseldar eru eldgosahrina sem hófst í desember 2023 við Sundhnúksgíga norðan Grindavíkur og austan Svartsengis. Kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023 og stór kvikugangur myndaðist í nóvember.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin 2020.

Nú hafa orðið níu sprungugos á kvikuganginum þar sem hraunrennsli er mest fyrstu klukkustundirnar þegar gýs á langri sprungu en gosin hafa svo dregist saman á fáein gosop sem hafa sum verið virk í margar vikur.

Eldgosahrinan og jarðhræringar í aðdraganda hennar eru á meðal stærstu náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Íslandi. Grindavíkurbær var rýmdur þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 og þar hefur orðið verulegt eignatjón á fasteignum og innviðum, aðallega vegna sprunguhreyfinga. Hraun frá eldgosunum hefur runnið yfir vegi og lagnir og ráðist hefur verið í gerð mikilla varnargarða til að verja Grindavíkurbæ, Svartsengisvirkjun og aðra innviði.

Eldgos

Yfirlit Sundhnúkagígagosanna fram til 16.07.2025.

Í visir.is þann 5. október 2018 hafði Kristín Ólafsdóttir skrifað; „Reykjanesskagi „kominn á tíma“ og búast má við eldgosi hvenær sem er“ eftir viðtal við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing.

„Eldgos gæti orðið hvað úr hverju á Reykjanesskaga, að sögn Þorvalds Þórðarsonar, eldfjallafræðings, sem rannsakað hefur náttúruvá á svæðinu undanfarin þrjú ár ásamt samstarfsfólki sínu. Þorvaldur segir mikilvægt að hægt sé að bregðast við og meta hættuna sem fylgir yfirvofandi gosi. Viðbragðsaðilar munu aðeins hafa nokkra klukkutíma til stefnu eftir að eldgos hefst en byggðalög á Reykjanesskaga eru nær öll í grennd við „heit svæði“.

Eldgos

Eldgosa- og náttúruvárhópur jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur unnið að reiknilíkani vegna jarðvár á Reykjanesi undanfarin þrjú ár og fékk hópurinn nýlega viðbótarstyrk frá Evrópusambandinu til áframhaldandi starfa. Þorvaldur hefur unnið að verkefninu frá upphafi, ásamt Ármanni Höskuldssyni, Ingibjörgu Jónsdóttur og hópi meistaranema. Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingar rýna í gögn. Taldar eru verulegar líkur á því að eldgos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð.

Þorvaldur segir í samtali við Vísi að verkefnið felist fyrst og fremst í því að setja saman svokallaða „verkfærakistu“ fyrir eldgosavá. Þannig verði jarðfræðileg gögn notuð til að leggja mat á vána á ákveðnum svæðum. Hópurinn hefur einblínt á Reykjanesskagann og vinnur að því að meta hvar á svæðinu er líklegast að gjósi.

„Þó svo það geti orðið eldgos á Reykjanesskaga þá er ekki þar með sagt að það muni endilega gjósa hvar sem er. Það eru meiri líkur á að það gjósi á ákveðnum stöðum sem tengjast jarðfræðilegu uppbyggingu svæðisins, eldstöðvakerfum og þar sem síðast kom upp gos,“ segir Þórarinn. Úrvinnslu gagnanna er svo hægt að nota á marga vegu, til að mynda við skipulag á byggð.

„Og að sjálfsögðu getur þetta líka hjálpað okkur við að undirbúa okkur betur undir það hvernig á að bregðast við eldgosum.“

Reykjanesskagi

Kort af vesturhluta Reykjanesskaga sem sýnir heit svæði (rauð) þar sem mestar líkur eru taldar á eldsuppkomu í náinni framtíð. Einnig eru sýndir helstu byggðarkjarnar svæðisins (Heimild: MS-ritgerð Þóru B. Andrésdóttur, 2018).

Þá hefur verið unnið að gerð svokallaðra hermilíkana sem hægt er að nota til að spá fyrir um hvert hraun flæðir í tilteknu gosi, hvert gjóska dreifist og hvernig gas breiðist út. Þannig verði hægt að búa til viðbragðsáætlun í samræmi við þessar upplýsingar. Þorvaldur segir hópinn vilja koma á fót vefsíðu, þar sem upplýsingarnar og gögnin yrðu aðgengileg opinberum aðilum á borð við Almannavarnir, Veðurstofuna og fulltrúa sveitarfélaga.

Vinna hópsins á Reykjanesskaga er að nokkru leyti almenns eðlis en ýmislegt hefur þó komið í ljós um eldvirkni og jarðhræringar á svæðinu. Þorvaldur segir til dæmis að verulegar líkur séu á því að hraungos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð. Ákveðnir staðir á Reykjanesi eru þó líklegri í því samhengi en aðrir.
„Þeir staðir sem við teljum vera heitasta, miðað við þau gögn sem við höfum notað, eru staðir þar sem hafa orðið gos nýlega. Við höfum skoðað tvö tímabil. Annars vegar sögulega tímann og svo förum við þrjú þúsund ár aftur í tímann,“ segir Þorvaldur.
Heitu svæðin á sögulegum tíma eru að sögn Þorvaldar alveg úti á Reykjanesi, þ.e. „hælnum“ á Reykjanesskaga, en þar voru til dæmis gos á 9. og 13. öld. Þá eru heit svæði við Svartsengi, í Krýsuvík, nánar tiltekið í Ögmundarhrauni og Kapelluhrauni, og í Bláfjöllum.

Eldgos

Gos á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Kort frá Þorvaldi sem sýnir eldsupptök á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Tölurnar gefa til kynna gosárið. Eldar í sjó undan Reykjanesi eru líklegir til þess að mynda sprengigos sem getur dreift gjósku og eldfjallagösum yfir stóran hluta Reykjanesskagans.

„Jarðhræringar á svæðinu allra síðustu ár hafa verið mest úti í sjó, út af Reykjanesi. Þá getum við fengið sprengigos, eða öskumyndandi gos. Slíkt gos gerði líka á þrettándu öld og bjó til gjóskulag sem heitir Miðaldalag og nær frá Reykjanesi og upp í Hvalfjörð, og ríflega það, og fór yfir Reykjavík.“

Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga og hefur töluverð eldvirkni verið á svæðinu á nútíma. Virknin er lotubundin og gengur yfir á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það gæti byrjað að gjósa eftir 50 ár – eða á morgun.

„Í flestum tilfellum eru þetta hraungos og þau virðast koma í ákveðnum hrinum sem við köllum elda. Þessir eldar standa yfir í um tíu til þrjátíu ár og í þeim eru nokkur gos.

Þorvaldur Þórðarson

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.

Þetta er ekki samfelld virkni heldur er kannski pása í hundrað ár og svo byrjar aftur að gjósa. Þessar syrpur, þ.e. hrinur af eldum, þær virðast ganga yfir í bylgjum og koma á sirka átta hundruð til þúsund ára fresti og standa þá yfir í um fjögur hundruð ár,“ segir Þorvaldur.

Langt er síðan síðasta eldahrina varð á Reykjanesskaga og því er gert ráð fyrir að von sé á gosi á svæðinu í náinni framtíð, hugtak sem þó ber að fara gætilega með í jarðvísindum.

„Besta leiðin til að útskýra það, og svo geta menn dregið sínar ályktanir, er að það eru um átta hundruð ár síðan síðustu eldar voru á Reykjanesskaga.

Eldgos

Reykjanesbraut – Skaginn er þakinn hrauni (Brunntjörn/Urtartjörn við Straum).

Og svona hrinur koma á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það má því alveg búast við eldgosi. Við vitum ekki nákvæmlega tímann en það virðist vera, miðað við það sem við þekkjum, að þá er Reykjanesskaginn „kominn á tíma“, eins og sagt er. Það geta náttúrulega liðið 50 ár þangað til næsta gos kemur en það gæti líka orðið á morgun.“

„Við yrðum sennilega vör við óróa á svæðinu, skjálfta og annað, kannski vikum eða mánuðum áður en eitthvað skeður. En þegar kemur að gosi þá er nú sennilega ekki meiri viðvörun en upp í sólarhring, og hugsanlega styttra. Þegar við vitum að það er að koma gos, og að það verður á tilteknum stað, þá eru það einhverjir klukkutímar sem við höfum til að vinna með. Þá þurfum við að geta okkur til um hvernig gos það verður og nota hermilíkanið til að segja fyrir um hvert hraunið eða askan fer, og bregðast þá við samkvæmt því.“

Eldgos

Hraunflæði á Sundhnúkagígaröðinni 2024.

„Þegar hraungos byrjar þá er oft mestur gangur á þeim í byrjun, þá flæða hraunin hraðast og þau geta farið nokkra kílómetra á klukkustund og eyðileggja allt sem fyrir þeim verður. Ef þetta kemur mjög nálægt byggð eða mannvirkjum þar sem fólk er þá þarf að koma því burtu einn tveir og þrír, þú hleypur ekkert undan þessu,“ segir Þorvaldur.

„Ef verður öskufall, hvort sem það afmarkast við ysta hluta Reykjanesskagans eða nær alla leið til Reykjavíkur, þá myndi það loka flugvöllum í einhvern tíma. Gjóskufall getur valdið skaða og óþægindum, bæði skaða á innviðum og svo er óþægilegt fyrir fólk að anda því að sér. Verulegt gjóskufall er yfirleitt fyrstu klukkutímana eða dagana, en svo kemur brennisteinsmengunin og hún getur verið viðvarandi. Það fer eftir lengd gossins og hún getur þess vegna verið til staðar í vikur og mánuði ef gosið stendur það lengi.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Byggð á Reykjanesskaga er nær öll nálægt eldstöðvakerfum á svæðinu, og það er einkum þess vegna sem gos á umræddum slóðum gætu reynst hættuleg. Þorvaldur segir þó ákveðin byggðalög berskjaldaðri en önnur í þessu samhengi.
„Þau eru öll náttúrulega mjög nálægt en þau sem eru berskjölduðust fyrir þessu eru kannski Grindavík og Þorlákshöfn. Svo eru Vogarnir, Keflavík og Reykjanesbær. Það fer líka eftir því hvort við erum að tala um hraun, ösku eða brennisteinsmengun en þessir bæir eru allir í þessari línu, svo og Reykjavíkursvæðið.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – rauðlituð nútímahraun. Þorvaldur útskýrir jarðfræðina fyrir áhorfendum í sjónvarpi.

Þorvaldur ítrekar jafnframt að höfuðborgarsvæðið sé ekki undanskilið í umræðu um hættu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga.
„Mín skilaboð eru að það er miklu betra að læra að lifa með þessu og vera undirbúinn heldur en að vera að velta því fyrir sér hvar er öruggast að búa. Því við þurfum alltaf að bregðast við þessu hvort eð er.“

Úlla Árdal ræddi við Pál Einarsson, jarðeðilsfræðing, í RÚV þann 27. janúar 2020 undir yfirskriftinni „Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga„.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeldisfræðingur.

„Jarðeðlisfræðingur segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á Reykjanesskaga til þess að hafa gos.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Skaginn liggi á flekamótum og síðasta eldgos þar hafi verið árið 1240. Frá þeim tíma hafi flekarnir færst í sundur sem útskýrir hvers vegna Reykjavík og svæðið í kring hafi sigið: „Vegna þess að flekarnir eru að færast í sundur, þá þarf náttúrulega að fylla í gatið og það er það sem eldgosin gera. Ef ekki er fyllt í gatið þá síga flekaskilin. Þess vegna sígur landið í Reykjavík og þess vegna verðum við fyrir æ verri sjávarflóðum eftir því sem tíminn líður.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fólk hugsar misjafnlega til eldgosa, í aðra röndina sé þetta skelfilegt en í hina sé eldgos vinsæl alþýðuskemmtun. Eldgos hafi ákveðið skemmtanagildi en á móti séum við minnt á það annað slagið að þetta er ekkert grín.“

Páll segir tvo staði á landinu þar sem mögulegt sé að gjósi í þéttbýli. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík. Reykjavík sé í sjálfu sér ekki innan hættumarka en gjósi á flekaskilunum séu byggðarlög í næsta nágrenni í hættu. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á skaganum til þess að hafa gos.“

Eldgos

Gosvirkni á Reykjanesskaga 800-1240 (M.ÁS.).

Í fyrstnefnda viðtali Guðna Einarssonar á mbl.is við Magnús Á Sigurgeirsson undir fyrirsögninni „Það er kominn tími á eldgos„, fjórtán dögum áður en fyrsta eldgosahrinan hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli, segir: „Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi. Ef það fer að gjósa þá er líklegt að það verði byrjun á löngu eldgosaskeiði,“ sagði Magnús. Kvikugangurinn sem nú er fylgst með við Fagradalsfjall tilheyrir eldstöðvakerfi sem kennt er við fjallið. Magnús segir að á því svæði hafi ekki verið mikil eldvirkni en samt séu merki um eldgamlar gossprungur frá því snemma á nútíma utan í fjallinu.
Hann skrifaði yfirlitsgrein um síðasta gosskeið á Reykjanesskaga, 800-1240 e.Kr. sem birtist á heimasíðu ÍSOR (sem því miður virðist hafa horfið við endurnýjun vefsíðunnar). Með henni birtist kortið sem sýnir hvar hraun runnu á þessu gosskeiði.

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Magnús segir að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi sem raðast í stefnu frá norðaustri til suðvesturs. Vestast er Reykjaneskerfið, svo eru til austurs Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og loks Hengill. Hann segir að þessi kerfi séu nokkuð sjálfstæð en eldvirknin færist á milli þeirra. Hvert gosskeið getur náð yfir nokkrar aldir með áratuga löngum hléum á milli eldgosa. „Það er kominn rétti tíminn fyrir eldgos. Það hafa liðið um eitt þúsund ár á milli gosskeiða og það er nánast nákvæmlega sá tími núna frá því síðasta,“ sagði Magnús. Hann hefði giskað á að ný eldgosavirknin hæfist í Brennisteinsfjallakerfinu eða í Krýsuvíkurkerfinu. Það hafi gerst á síðustu gosskeiðum. Síðan færðist hún vestur eftir Reykjanesskaganum.
„Það er ekki byrjað eldgos,“ sagði Magnús um miðjan dag í gær. „Gosvirknin gæti byrjað í Krýsuvíkursveimnum eða hann farið af stað stuttu eftir að þetta byrjar við Fagradalsfjall, ef það gerist. Það er ekki langt þarna á milli,“ sagði Magnús.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Mögulega geta eldgos á Reykjanesi valdið tjóni á mannvirkjum eins og t.d. í Grindavík, í Svartsengi eða á Reykjanesi. Eldgos í sjó hafa fylgt eldvirkni á Reykjanesi og frá þeim komið aska sem hefur borist yfir land. Hún gæti haft áhrif á flugumferð en Magnús telur ólíklegt að hraungos muni gera það.
„Allgóð þekking er til staðar um þrjú síðustu gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk, en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 km langar. Stök hraun eru innan við 25 km2 að stærð, flest mun minni,“ skrifar Magnús í greininni á isor.is.
ReykjanesskagiSíðasta gosskeið hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og Krýsuvíkurkerfinu. Aftur gaus í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Svo gaus í Krýsuvíkurkerfinu líklega 1151. Reykjaneseldar sem stóðu yfir 1210-1240 marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs, skrifar Magnús. Yngra-Stampahraun rann frá 4 km langri gígaröð líklega 1211. Sprungugos hófst í Svartsengiskerfinu um 20 árum eftir Yngra-Stampagosið og á árunum 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Ekki hafa orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 54. tbl. 05.03.2021, Það er kominn tími á eldgos, Guðni Einarsson, bls. 6.
-https://www.visir.is/g/20181327521d/reykjanesskagi-kominn-a-tima-og-buast-ma-vid-eldgosi-hvenaer-sem-er
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/timi-kominn-a-eldgos-a-reykjanesskaga

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Þingvellir

Í Morgunblaðinu árið 2018 má finna skrif Einars Á.E. Sæmundsen um „Þingvelli, friðun og fullveldi„. Þingvellir skipa sérstakan sess í hjarta íslensku þjóðarinnar. Einar Á.E. Sæmundsen, þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, fjallar hér um mikilvægi staðarins í sjálfstæðisbaráttunni.

Einar E.Á. Sæmundsen

Einar E.Á. Sæmundsen.

„Saga Íslands og íslensku þjóðarinnar kemur hvergi betur fram á einum stað en á Þingvöllum við Öxará. Með stofnun Alþingis um árið 930 urðu Þingvellir að einum mikilvægasta samkomustað landsins. Eftir að formlegu þinghaldi lauk árið 1798 urðu Þingvellir að hljóðum stað utan alfaraleiða.
[Reyndar er þetta ekki alveg rétt. Saga Íslendinga endurspeglast hvergi betur en í minjum þeim sem skilgreina má sem leifar liðinna kynslóða um land allt, frá upphafi byggðar til vorra daga. Að skilgreina Þingvelli sem miðdepil alls athafna- og mannlífs í landinu í gegnum tíðina verður að teljast svolitla þröngsýni].
Kröfur um aukna sjálfstjórn til handa Íslendingum og heimsóknir erlendra ferðamanna færðu Þingvöllum nýtt hlutverk í samfélaginu að loknu þinghaldi. Erlendir ferðamenn, sem komu til Þingvalla, undruðust og dáðust að landslagi og söguminjum um leið og þeir fengu fyrirgreiðslu hjá presti og fólki hans á Þingvöllum. Lýsingar ferðamanna rötuðu á ferðabækur og komu Þingvöllum á kortið sem fyrsta ferðamannastað landsins.

Kristján VIII

Kristján VIII Danakonungur.

Á sama tíma náðu straumar sjálfstæðisvakningar í Evrópu til Íslendinga. Við það fengu Þingvellir táknrænt hlutverk í þjóðlífinu þar sem saga Alþingis á þjóðveldisöld var sett fram í ræðum og ritum. Fjölnismenn settu fram kröfur um að endurvekja Alþingi á Þingvöllum. Úr varð þó með konungsúrskurði Kristjáns VIII, um stofnun þings á Íslandi, að endurnýjað Alþingi kom saman í húsi Menntaskólans í Reykjavík 1. júlí 1845. Þrátt fyrir það urðu Þingvellir að mikilvægum fundarstað þar sem kjörnir fulltrúar mættu til hvatningarfunda allt til ársins 1907, til knýja á um meiri réttindi Íslendingum til handa. Þingvellir festust í sessi sem mikilvægur staður til að fagna merkustu atburðum í sögu þjóðarinnar eins og afhendingu stjórnarskrárinnar 1874 á völlunum skammt norðan við Öxará. Á síðari hluta 19. aldar fjölgaði gestum á Þingvöllum og var því gistihúsið Valhöll reist skömmu fyrir aldamótin norðanvert á þingstaðnum forna.

Þingvellir 1907

Heimsókn Friðriks VIII til Þingvalla 1907.

Heimsókn Friðriks VIII konungs til Íslands í ágúst 1907 var stórviðburður sem hafði mikil áhrif vegna allra þeirra framkvæmda sem fylgdu heimsókninni víða um land en einnig vegna þess samningaferlis sem hófst í kjölfar konungsheimsóknarinnar og átti eftir að leiða til fullveldis Íslands 1918. Heimsókn konungs var ekki án gagnrýni. Árið 1907 birtist fyrsta skrif þar sem fjallað var um nauðsyn þess að friða Þingvelli og aðra staði. Í grein sinni „Um verndun fagurra staða og merkra náttúruminja“ í Skírni fjallaði Matthías Þórðarson fornminjavörður um nauðsyn þess að friða merka staði landsins og ritar:

Þingvellir

Almannagjá.

„Fyrst og fremst má nefna Almannagjá alla og svæðið umhverfis Þingvelli við Öxará,– er ekki getur kallast sögustaður alt eða talist til fornmenja“.
Síðar í grein sinni nefnir hann að vegagerð hafi spillt Almannagjá og söguminjum þar. Hann fjallaði um friðunaráform erlendis og nefndi meðal annars Yellowstone í Bandaríkjunum sem dæmi um stað sem friðaður væri með allsherjarlögum. En vegurinn var kominn um Almannagjá og greiddi leið gesta til Þingvalla. Fleiri ferðamenn komu og vinsældir Þingvalla jukust jafnt og þétt. Fyrsti helgaráfangastaður ferðamanna utan Reykjavíkur var orðinn að veruleika en slæm umgengni varð viðvarandi.

Þingvellir

Þingvellir – Almannagjá frá vestri til austurs.

Árið 1913 ritaði Guðmundur Davíðsson kennari grein í Eimreiðina sem ýtti hugmyndum um friðun Þingvalla úr vör. Honum blöskraði umgengnin og ritaði: „Náttúrufegurð og sögufrægð Þingvalla gæti ekki verið höfð í jafnlitlum metum hjá neinni menningarþjóð, eins og raun er á, nema Íslendingum einum.“
Guðmundur hafði kynnt sér hugmyndir um þjóðgarða erlendis og lýsti þeim: „Þjóðgarðarnir eru friðhelgir reitir. Engum er leyft að deyða þar nokkra skepnu, né skemma jurtagróðurinn. Náttúran fær algerlega að njóta sín, óspilt af hálfu mannsins og alidýra hans. Þjóðgarðar þessir eru flestir þjóðeignir og opinberir skemtistaðir almennings, – „til gagns ok gleði fyrir þjóðina“, eins og komist er að orði um þjóðgarðinn fræga í Bandaríkjunum.“

Þingvellir

Þingvellir við Öxará ásamt „allra þjóða gestum“.

Niðurstaða Guðmundar var skýr en hann ritaði að „Þingvellir við Öxará væri sá staður, sem framar öllum öðrum stöðum hér á landi ætti skilið að vera gjörður að þjóðgarði Íslands.“
Í grein sinni lýsti hann ýmsum hugmyndum varðandi framtíðarnýtingu svæðisins, mögulega stærð og hvaða áhrif friðunin myndi hafa. Í lokin nefnir hann að til að varðveita Þingvelli sem best á 1.000 ára afmæli Alþingis árið 1930, sem þó voru enn 17 ár í, væri best að friðlýsa svæðið sem þjóðgarð.
Greinin vakti athygli og var gagnrýnd. En fræjum var sáð með þessari hugvekju Guðmundar og á næstu árum fóru fram umræður um framtíð Þingvalla og hugmyndir um þjóðgarð.

Þingvellir

Þingvellir 1944.

Sumarið 1918 voru samningaviðræður á lokastigi um fullveldi Íslands. Sunnudag einn í júlí gerði samninganefnd Dana og Íslendinga um fullveldissamninginn hlé á vinnu sinni og fór í dagsferð til Þingvalla. Þrátt fyrir kalsalegt veður gengu þeir um vellina og virtu fyrir sér söguminjar staðarins og nutu veitinga í Konungshúsinu skammt neðan við Öxarárfoss. Var glatt á hjalla og komið seint til baka til Reykjavíkur.
Líklega má telja að þessi einfalda heimsókn samninganefndarinnar til Þingvalla hafi verið eina beina tenging Þingvalla við samningagerðina um fullveldi Íslands í konungssambandi við Danmörku sem tók gildi 1. desember 1918. Þrátt fyrir það var saga og ímynd Þingvalla alltaf Íslendingum hvatning til að vinna að sjálfstæði Íslands áratugina á undan.
Rúmum aldarfjórðungi síðar, þann 17. júní 1944, urðu Þingvellir meginvettvangur stærsta atburðar í nútímasögu Íslands þegar sambandinu við Danmörku var slitið og stofnað sjálfstætt lýðveldi á Lögbergi að viðstöddu fjölmenni.“

Heimild:
-Morgunblaðið 01.12.2018, „Þingvellir, friðun og fullveldi, Einar Á.E. Sæmundsen, bls. 16.

Þingvellir

Þingvellir – íslenski ríkisfáninn að húni á Lögbergi.

Krýsuvík

Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað margan ferðamanninn, auk listamanna. Stórbrotið landslag Krýsuvíkur er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn að ógleymdum Sveifluhálsi og síðast en ekki síst Krýsuvíkurbjarg, stórbrotinn útvörður svæðisins niður við ströndina. Margar gamlar gönguleiðir liggja út frá Krýsuvík, sem áhugavert er að huga nánar að.

Lifandi náttúra
HverKynngikraftur náttúrunnar blasir við augum í Krýsuvík. Höfuðskepnurnar eldur, vatn, loft og jörð hafa mótað umhverfið í aldanna rás. Gufustrókar stíga til himins, sjóðandi leirhverir leika taktfasta sinfóníu, hverahvammar skarta grænum, gulum og rauðleitum litum sem skipta um svipmót eftir veðrinu. Náttúruöflin eira engu í glímunni við gróðurinn, vatnsrof leikur stórt hlutverk þegar það rignir og ísa leysir. Vindurinn flettir þekjunni burtu og feykir jarðvegi á haf út þar sem öldur ólmast við klettaströnd og mola standbergið hvíldarlaust. Þetta er íslensk náttúra í öllu sínu veldi.

Litrík hverasvæði
BaðstofaHelstu hverasvæði Krýsuvíkur eru Seltún, Hverahvammur, Hverahlíð,  Austurengjar, suðurhluti Kleifarvatns og Sveifla undir Hettutindi, sem Sveifluháls heitir eftir. Við Seltún er Svunta og stór leirhver sem myndaðist þegar Drottningarhola sprakk haustið 1999. Fúlipollur er austan þjóðvegar og enn austar er Engjahver sem magnaðist við mikinn hverakipp 1924. Hann er líka nefndur Stórihver og svæðið umhverfis hann Austurengjahverir.

Land í mótun
Land í mótunVirka gosbeltið sem liggur eftir Reykjanesskaga er milli landreksflekanna sem kenndir eru við Evrópu og Ameríku. Elsti hlutinn eru Lönguhlíðarfjöll norðaustan Kleifarvatns sem sýna merki tveggja kuldaskeiða og tveggja hlýskeiða. Sveifluháls er móbergshryggur sem myndast hefur við gos undir íshellu á kuldaskeiði. Sunnan Krýsuvíkurhverfis milli Geitahlíðar og Sveifluháls eru nokkur lög af grágrýtishraunum, sum þakin jökulbergi, en efst ber mest á mó og mýrlendi. Jarðlögin sjást vel í Krýsuvíkurbergi. Rauðskriða á Krýsuvíkurheiði og Trygghólar eru leifar gamalla eldgíga sem hraun hafa runnið frá. Fyrir vestan og austan Krýsuvík eru yngri hraun, Litlahraun, Krýsuvíkurhraun og Ögmundarhraun sem eiga upptök sín í Brennisteinsfjöllum, gígum við Eldborgir sunnan Geitahlíðar og í gossprungum í Móhálsadal.

Sprengigígar kallast á
GrænavatnLandslag í Krýsuvík er mótað af umbrotum og jarðeldum. Grænavatn, Gestsstaðavatn og Augun eru sprengigígar sem myndast hafa við sprengigos á ýmsum tímum. Grænavatn er stærst um 46 m djúpt. Vatnið fær lit sinn af hveraþörungum og kristöllum sem draga grænan lit sólarinnar í sig. Gestsstaðavatn heitir eftir fornu býli sem fór í eyði á miðöldum. Beggja vegna þjóðvegarins eru lítil gígvötn sem kallast Augun.

Krýs og Herdís deila um landamerki
DysjarÞjóðsagan hermir að Krýsuvík sé nefnd eftir Krýs sem bjó í Krýsuvík. Hún átti í deilum um landamerki við grannkonu sína, Herdísi í Herdísarvík. Báðar töldu sig órétti beittar og ákváðu að skera úr í deilumáli sínu í eitt skipti fyrir öll. Sammæltust þær um að leggja af stað frá bæjum sínum við sólarupprás og ákveða mörk landa sinna  þar sem þær mættust. Þegar þær hittust á Deildarhálsi taldi Krýs að Herdís hefði lagt fyrr af stað en um var samið. Tóku þær að biðja hvor annarri óbæna ásamt jörðum þeirra. Herdís lagði það á Krýsuvík að allur silungur í Kleifarvatni skyldi verða að loðsilungi en Krýs mælti svo fyrir um að ein eða fleiri skipshafnir skyldu drukkna í Herdísarvíkurtjörn. Sagan um þessa landaþrætu kerlinganna hefur lifað meðal Krýsvíkinga í ýmsum myndum og sýnir kynngimagn Krýsuvíkur.

Fornminjar
TóftÍ landi Krýsuvíkur eru víða merkar fornleifar og búsetuminjar. Elstar eru Gestsstaðarústirnar, sennilega frá fyrri hluta miðalda. Mestar eru fornleifarnar í Krýsuvíkurhverfi undir Bæjarfelli þar sem höfuðbólið og flestar hjáleigurnar voru. Nútímavæðing hefur lítið komið við sögu og jörðin haldist nánast óbreytt frá fyrri tíð, en snemma á sjöunda áratugnum varð sögulegt slys á bæjarhólnum. Krýsuvíkurbærinn, sem stóð vestan kirkjunnar, var þá kominn að falli og voru stórvirkar vinnuvélar notaðar til að ryðja hólinn og slétta út minjar um þennan merka bæ. Neðan hólsins og allt í kringum hann eru gömlu túnin með túngörðum sínum ósnertum að mestu, tóftir gömlu kotanna og fleiri merkar fornminjar.

Dulúð regnsins
Það getur verið mjög votviðrasamt í Krýsuvík því þar gætir fyrst áhrifa frá lægðum sem nálgast landið úr suðvestri. Umhleypingar eru algengir með tilheyrandi úrkomu en í norð- og austlægum áttum má gera ráð fyrir þurrviðri í Krýsuvík. Þá skartar staðurinn sínu fegursta, en einnig getur dulúðin sem fylgir þokulofti og skýjuðu veðurfari búið yfir ólýsanlegri fegurð.

Einföld bændakirkja
KrýsuvíkurkirkjaKrýsuvíkurkirkju er fyrst getið í kirkjuskrá Páls Jónssonar Skálholtsbiskups um 1200. Margt bendir til að kirkja hafi risið í Krýsuvík á fyrstu áratugum kristni, en núverandi kirkju byggði Beinteinn Stefánsson á Arnarfelli 1857. Þetta er lítið guðshús einfaldrar gerðar, án turns, og eina húsið sem enn stendur á bæjarhólnum. Kirkjan var aflögð sem helgidómur og rúin öllum verðmætum 1929. Eftir það notaði einbúinn Magnús Ólafsson, síðasti íbúi Krýsuvíkur, hana sem íbúðarhús til 1945. Endurbygging kirkjunnar hófst 1957 og var hún endurvígð 31. maí 1964 og færð Þjóðminjasafninu til eignar. Árið 1997 var Sveinn Björnsson listmálari jarðsettur í kirkjugarðinum en þá voru liðin 80 ár frá síðustu greftrun þar. Á vorin er haldin messa í kirkjunni og altaristafla eftir Svein hengd þar upp, en tekin niður við messu á haustin og færð til vetrarvistar í Hafnarfjarðarkirkju.

Fuglalíf og eggjataka
KrýsuvíkurbjargUm 57.000 sjófuglapör verpa í Krýsuvíkurbergi, aðallega rita og svartfugl, sem skiptist í álkur, langvíur og stuttnefjur. Einnig verpir þar nokkuð af fýl, toppskarfi og silfurmáfi. Fyrrum var eggjataka mikil og máttu kotamenn taka tiltekið magn af fugli og eggjum úr berginu. Svo mikið fékkst af svartfuglseggjum á vorin að þau voru flutt á mörgum hestum heim til bæjanna. Sömu sögu var að segja af bergfuglinum sem gaf af sér kjöt og fiður. Á Krýsuvíkurheiði og í nágrenni Bæjarfells verpir mófugl, spói, heiðlóa, snjótittlingur og fleiri tegundir. Arnarfell og Arnarfellsstjörn eru kunn kennileiti á Krýsuvíkurheiði og á miðjum Sveifluhálsi eru Arnarvatn og Arnarnípa. Þessi nöfn vísa til þess að ernir hafi orpið á þessum stöðum í eina tíð.

Mannrækt í Krýsuvíkurskóla
KrýsuvíkurskóliUm miðjan áttunda áratuginn hófust miklar byggingaframkvæmdir á mel sunnan Gestsstaðavatns, en þar var ætlunin að reisa skóla fyrir unglinga sem þurftu á sérúrræðum að halda. Áður en byggingunni var lokið var fallið frá hugmyndinni og stóð húsið autt um margra ára skeið þar til Krýsuvíkursamtökin fengu það til afnota. Hafa þau rekið þar meðferðarheimili, uppeldis- og fræðslustofnun fyrir fíkniefnaneytendur.

Hnignandi gróður

Í Krýsuvík

Gróðri hefur farið mjög aftur í Krýsuvík á síðustu öldum. Talið er að jörðin hafi verið kjarri vaxin milli fjöru og fjalls af birkiskógi og víðikjarri, áður en Ögmundarhraun brann. Í jarðabók Páls Vídalín og Árna Magnússonar 1703 er sagt að skógur til kolagerðar nægi ábúendum. Skógurinn eyddist að mestu á harðindaskeiði sem gekk yfir landið í lok 19. aldar. Þá hófst landeyðing með miklum uppblæstri og vatnsrofi í landi Krýsuvíkur. Sauðfjár- og hrossabeit hafði einnig afdrifarík áhrif. Á Sveifluhálsi eru fáeinir grasbalar sem gefa til kynna að þar hafi verið mun grónara í eina tíð. Svæðið sunnan Kleifarvatns einkennist af miklu mýrlendi, slægjulandinu Vesturengjum og Austurengjum. Austan Arnarfells er Bleiksmýri og sunnan Trygghóla er Trygghólamýri.

Ritháttur Krýsuvíkur
TóftirÞegar gamlar sagnir frá Krýsuvík eru skoðaðar kemur glögglega fram að nafn víkurinnar er ætíð ritað með ý en ekki í eins og oft sést í seinni tíð. Örnefnið Krýsuvík er trúlega dregið af orðinu Crux sem merkir kross og hefur Krossvíkin hugsanlega verið við sjóinn nærri Húshólma í Ögmundarhrauni þar sem munnmæli herma að fyrsti bærinn hafi staðið. Mesta fuglabjarg Reykjaness Krýsuvíkurberg, mesta fuglabjarg Reykjaness, er um 7 km langt frá Bergendum við Keflavík í austri til Heiðnabergs vestan Hælsvíkur og 40 hektarar að flatarmáli. Bergið er um 50 m hátt á löngum kafla en Strandaberg, austasti hlutinn, er um 70 m hátt.
Rauðskriða er áberandi kennileiti á vesturhluta bergsins en neðan hennar var einstigið Ræningjastígur sem var eina gönguleiðin niður í fjöru. Meðan enn var farið á sölvafjöru var jafnan farið af sjó því bergið var ekki árennilegt öðrum en sigmönnum. Ræningjastígur var samt fær þeim sem treystu sér til að feta hann en nú er hann ófær með öllu.

Höfuðból og hjáleigur
KrýsuvíkurbjargKrýsuvík var heil kirkjusókn og eitt mesta höfuðból landsins með mörgum hjáleigum. Munnmæli herma að byggðin hafi upphaflega verið í Húshólma, óbrennishólma í austanverðu Ögmundarhrauni.  Þar er altént mjög fornt bæjarstæði sem kallað er Hólmastaður í eldri heimildum. Hjáleigur voru að jafnaði fimm til átta talsins en í gömlum heimildum er getið um 13 býli. Á heimajörðinni voru Suðurkot, Norðurkot, Snorrakot, Stóri-Nýibær, Litli-Nýibær, Arnarfell og nýbýlið Lækur. Fjær voru kotin Vigdísarvellir, Bali, Fitjar og Fell. Kaldrani stóð við suðvesturenda Kleifarvatns og Gestsstaðir sunnan Krýsuvíkurskóla.

Fiskisæld undir berginu
Sjósókn var alla tíð mikilvæg fyrir afkomu Krýsvíkinga. Undir Krýsuvíkurbergi, Hælsvík og lengra út með var löngum fiskisælt en þar er engin lending. Líklega hefur góð lending verið í Hólmastað eða gömlu Krýsuvík, en eftir að Ögmundarhraun rann tók hana af og eftir það var gert út frá Selatöngum. Biskupsskip frá Skálholti, skip útvegsbænda í Árnes- og Rangárþingum og sjávarbænda í Hraunum gengu frá Selatöngum með leyfi Krýsuvíkurbónda.  Krýsvíkingar stunduðu einnig útróðra frá Herdísarvík um aldir.

Kynlegt er Kleifarvatn
Krýsuvík 1810Kleifarvatn er 10 ferkílómetrar að flatarmáli og stærsta stöðuvatn á Reykjanesskaga. Það er á milli Sveifluháls í vestri og Vatnshlíðar í austri. Aðrennsli í vatnið er takmarkað og ekkert frárennsli er sjáanlegt ofanjarðar. Vatnsborðið fylgir grunnvatnsyfirborði svæðisins sem sveiflast um allt að 4 m á tugum ára. Félagar úr Stangveiðifélagi Hafnarfjarðar fluttu bleikjuseiði í Kleifarvatn um 1960 og dafnar fiskurinn bærilega í vatninu. Áður fyrr þóttust menn verða varir við kynjaveru líka stórum ormi í vatninu.

Sjá meira undir Krýsuvík – yfirlit HÉR og HÉR.

Heimild:
-visithafnarfjordur.is

Krýsuvík

Krýsuvík.

Tag Archive for: jarðfræði