Tag Archive for: jarðfræði

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Hraun

Margir, sem leið eiga framhjá Seltjörn á norðurmörkum Grindavíkur, veita eldri grágrýtissteinum athygli þar sem þeir liggja ofan á yngri hraunum. Í fljóti bragði virðist tilurð þeirra stinga í stúf við öll eðlileg lögmál. Jón Jónsson, jarðfræðingur, skrifaði eftirfarandi í Náttúrufræðinginn um grettistök í nútímahraunum og þ.á.m. Seltjorn-1björgin við Seltjörn: „Allir kannast við hin svo nefndu grettistök, stórbjörg, sem oft er tildrað ofan á minni steina eins og þau hefðu verið færð þangað af mannahöndum, eða sem liggja á fáguðum klöppum ein síns liðs, stundum á brúnum hárra fjalla. Þjóðtrúin hefur sett þau í samband við Gretti hinn sterka og má vera, að í því felist ævaforn dýrkun orkunnar, og er það naumast framandi fyrir okkar tíma. Hvert mannsbarn veit að um er að ræða björg, sem jöklar hafa borið með sér og orðið hafa eftir, er jökullinn bráðnaði. Það vekur því enga athygli að finna þau á landi, sem jökull hefur gengið yfir, en talsvert er öðru máli að gegna, er þau verða á vegi manns ofan á hraunum, sem runnið hafa löngu eftir að ísöld lauk.

Seltjörn sú, sem hér er um að ræða, er sunnan við Vogastapa og skammt vestan við Grindavíkurveg. Hún er milli grágrýtisklappa í sigdal, sem stefnir norðaustur-suðvestur og fyllir þann hluta hans, sem lægstur er. Eftir lægðinni milli grágrýtisásanna vestur af Seltjörn hefur runnið hraun eftir að ísöld lauk og eftir að sjór hvarf af þessu svæði, en síðla á síðustu ísöld gekk sjór yfir það, eins og sjá má af lábörðu grjóti víðs vegar um Vogastapa. Hraun þetta er komið frá Sandfellshæð, sem er stór dyngja um 5 km vestur af Stapafelli. 

Seltjorn-2

Hrauntungan, sem runnið hefur austur eftir áðurnefndum sigdal nær austur í Seltjörn. Skammt vestur af tjörninni liggur dreif af grágrýtisbjörgum ofan á þessu hrauni. Steinar þessir eru í ýmsum stærðum, allt frá sæmilegum „hálfsterk“ upp í björg, sem vart eru minna en 8—10 tonn. Þau liggja ofan á hrauninu og hvergi hef ég séð þess merki að þau hafi sokkið ofan í það, en víða má sjá hraungára (hraunreipi) liggja inn undir steinana og án þess að hafa orðið fyrir áhrifum af þeim, þótt um stórbjörg sé að ræða. Sum björgin liggja þvert yfir sprungur í hrauninu. Engin merki sjást þess, að grágrýtisbjörgin hafi orðið fyrir hitaáhrifum frá hrauninu. Björg sem þessi eru dreifð í jökulurðinni um allan Vogastapa, en hvernig hafa þau komist ofan á hraunið? Það kostaði mig talsverðar vangaveltur að komast að því sanna hvað þetta varðar, en ég tel það nú liggja fullkomlega ljóst fyrir.
Hraun-221Grágrýtisbjörgin eru ættuð af svæðinu sunnan Vogastapa og skriðjökull hefur skilið þau eftir á jökulhefluðum klöppum, væntanlega ekki langt frá þeim stað, þar sem þau eru nú. Meðan stóð á gosum í Sandfellshæð hefur hraunið náð að renna austur dalinn milli grágrýtisásanna allt austur í Seltjörn. Hraun þetta er dæmigert dyngjuhraun. Það hefur verið þunnfljótandi, heitt og hefur runnið nánast eins og þunn leðja og því mun hraunið þarna ekki þykkt. Hraunið hefur runnið umhverfis grágrýtisbjörgin og undir þau, lyft þeim upp og síðan hafa þau borist með hraun straumnum eins og jakar á vatni. Hraunkvika, sem misst hefur verulegan hluta af því gasi, sem upprunalega var í henni, hlýtur að hafa nokkru hærri eðlisþyngd en storknað hraun enda þótt munur á efnasamsetningu þeirra sé nánast enginn. Hliðstæður eru vatn og ís og sú staðreynd, að storknaðir hraunflekar fljóta á rennandi hrauni. Nánast enginn munur er á samsetningu hraunanna frá Sandfellshæð og grágrýtisins (Jónsson 1972) og hlutfallið milli eðlisþyngdar hins rennandi hraun og grágrýtisbjarganna því væntanlega ekki ósvipað og milli íss og vatns.

Seltjötn

Seltjörn – loftmynd.

Grágrýtið á Suðurnesjum og eins kringum Reykjavík er yfirleitt frauðkennt og eðlisþyngd þess virðist að mestu leyti vera á bilinu 2,66—2,78 og ólivíninnihald um 8—14% (Jónsson 1972).
Hvað grettistökin ofan á nútímahrauni varðar, hef ég fundið þau víðar en við Seltjörn. Eitt slíkt heljarbjarg liggur ofan á hrauni suðaustan við Vogastapa og dálitla dreif af slíkum framandsteinum er að finna norðan í Brúnum, þ. e. utan í dyngjunni miklu, sem er norðan undir Fagradalsfjalli, en frá henni eru Strandar- (Vatnsleysustrandar) hraunin komin. Af ofannefndu má ljóst vera, að þar sem svona björg finnast getur aðeins verið um eitt hraun ofan á jökulurðinni að ræða.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 45.árg. 1975-1976, bls. 205-209 – [
HEIMILDARIT; Jónsson, 1972: Grágrýtið, Náttúrufr., 42: 21-30].

Seltjörn

Við Seltjörn.

Hrútagjárdyngja

Gengið var frá Sandfelli um Hrútagjádyngju og á hellasvæðið norðan hennar.

Dyngja

Dyngjugos.

Við Sandfell er Hrútfell, sem dyngjan dregur nafn sitt af. Á toppi þess stendur hrúturinn. Hrúthólmi er vestan dyngjunnar og Hrútafell sunnar. Dyngjan sjálf er mikil um sig. Gígurinn er hringlaga og sléttur í henni vestanverðri. Út frá honum liggja myndarlegar hrauntraðir er mynduðust er hraunið rann fyrir u.þ.b. 4500 árum síðan.
Dyngjur myndast við eitt flæðigos upp um pípulaga eldrás. Talið er að gosin standi mánuðum og jafnvel árum saman. Gígurinn er í dyngjuhvirflinum og kraumar þar þunn kvikan meðan á gosinu stendur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – hraunið er varð undirstaða Hraunabæjanna.

Við og við vellur hún út yfir gígbarmana og sendir þunnar hraunspýjur niður hlíðarnar eða finnur sér leið úr gígnum um hraungöng sem opnast neðar í hlíðum fjallsins. Þannig myndar kvikan þunnar hraunspýjur sem runnið geta langar leiðir og leggjast hver ofan á aðra þannig að hraunið verður lagskipt en þó án millilaga úr gjalli eða jarðvegslögum. Gott dæmi um slíka lagskiptingu má sjá í vegg Almannagjár.

Húshellir

Við Húshelli.

Á þennan hátt hlaðast upp hraunskildir úr helluhraunslögum. Gígbarmarnir rísa venjulega ekki yfir umhverfið en fyrir kemur að hraundrýli rísi meðfram gígbörmunum eins og sjá má á Selvogsheiði (Hnúkum). Í hraundrýlunum og í nágrenni þeirra má oft sjá pípulaga bergmola sem myndast þegar gas brýtur sér leið í gegnum hálfstorknaða kvikuna. Algengt er einnig að hrauntjarnirnar tæmist og myndast þá oft djúpur ketill með bröttum veggjum.
Engar dyngjur hafa gosið á Íslandi síðustu 2000 árin ef frá er talinn hraunskjöldur Surtseyjar, sem er á mörkum eldborgar og dyngju.

Hrútagjárdyngja

Gengið um Hrútagjárdyngju.

Utan Íslands eru dyngjur sjaldgæfar nema á Hawaii-eyjum þar sem þrjár dyngjur eru enn virkar. Úr dyngjunum renna oft mikil hraun, sbr. Sandfellshæðina, Þráinsskjöld, Heiðina há og Hrútargjárdyngju.
Hrútargjárdyngja er einstaklega fallegt jarðfræðifyrirbæri. Barmar meginhraunsins hafa lyfst á gostímanum og myndað veggi og gjár með köntunum. Hrauntraðirnar eru miklar vegna hins mikla hraunmassa og hafa myndað gerðarlega og greiðfæra ganga um hraunið.
Hellunum neðan Hrútargjárdyngju er lýst í öðrum FERLIRslýsingum, sjá meira HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-http://www.ismennt.is/not/gk/jfr/ordskyr/
-Árni Hjartarson – JÍ 2003.

Húshellir

Í Húshelli.

Fossvogsbakkar

Norðan Fossvogs, milli Nauthólsvíkur og Nestis, er skilti; Fossvogsbakkar. Á því má lesa eftirfarandi:
„Fossvogsbakkar eru friðlýstir vegna einstæðra setlaga frá lokum ísaldar. Friðlýsta svæðið nær all frá Nauthólsvík inn í botn Fossvogs. Stærð svæðisins er um 18 ha.

Jarðsaga og myndun

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar – mörk friðlýsta svæðisins.

Á síðustu hlýskeiðum ísaldar fyrir um 11 þúsund árum leiddi bráðnun jökla til umtalsverðrar hækkunar sjávarstöðu. Þá mynduðust sjávarsetlög í kyrrlátu grunnsævi sem sjást einstaklega vel i Fossvogsbökkum. Setlögin mynduðust ofan á grágrýtisklöpp sem tilheyrir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndaðist við eldumbrot á hlýskeiðum síðustu ísaldar, sennilega fyfir 100-200 þúsund árum. Silt-, eðju- og sandsteinslög einkenna setlögin sem eru auk þess mjög rík af steingervingum. Allra síðustu jöklar gengu yfir svæðið skömmu eftir myndun setlaganna og skildu eftir jökulruðning.

Setlögin

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar – setlög.

Setlögin ná yfir 2 km strandlengju en eru misþykk og víðar nær rofin í burt af sjávarföllunum. Þykkust eru þau í botni Fossvogs og er hámarksþykktin tæpir 5 metrar. Neðsta lagið er jökulberg myndað úr jökulruðningi sem bendir til hörfunar jökla. Næstu lög eru sjávarsetlög, einkum fíngerð silt- og eðjusteinslög sem sýna að sjávarstaða hafi hækkað.
Í sjávarsetinu eru steingervingar einkum skeljar samlokutegunda svo sem hallloka, rataskel, smyrslingur, gimburskel, trönuskel og kúskel, en einnig skeljar kuðunga og hrúðukarla.
Flestir steingervingarnir eru óbrotnir og í lífstöðu sem bendir til þess að setið hafi myndast í kyrrlátu grunnsævi.

Fossvogsbakkar

Fossvogsbakkar.

Ofan á sjávarsetinu er meira jökulberg frá síðasta jökulskeiði ísaldar. Þar eru ummerki um áhrif rennandi vatns sem bendir til þess að jökullinn hafi verið þunnur.

Vestast á svæðinu, næst Nauthólsvík, er hið 200.000 ára gamla Reykjavíkurgrágrýti áberandi undir setlögunum.
Í klettinum Míganda innst í Fossvogi eru setlögin þykk og auðvelt að skoða þau. Þar eru nær eingöngu eðjusteinslög, mjög þykk og lagskipt. Það sést ekki í Reykjavíkurgrágrýtið. Neðsta dökka lagið er hvarfs- leirkenndur eðjusteinn og ofan á honum eru ljósari eðjusteinslög. Á einstöku stað eru skeljar eða för eftir skeljar.“

Fossvogur

Fossvogur.

Háubakkar

Vestan Geirsnefs nyrst í Fossvogi (veg veg að smábátahöfninni) er skilti; Háubakkar. Á því má lesa eftirfarandi:

Háubakkar

Háubakkar – mörk hins friðaða svæðis.

„Háubakkar eru eitt af sex friðlýstum svæðum í Reykjavík. Háubakkar voru friðlýstir árið 1983. Á Háubökkum finnast þykk og afar merkileg setlög, sennilega um 200 þúsund ára gömul.
Þar sjást áhrif mikilla loftslagsbreytinga á ísöld. Eftir nýjar aldursgreiningar í Fossvogslögunum sem leiddu til nýrra upplýsinga um aldur þeirra er e.t.v. rétt að taka framanskráðan aldur Háabakka með fyrirvara. Setlögin eru um 8 m á þykkt og er þar m.a. að finna undir grágrýtislagi um 20 sm þykkt surtarbrandslag og í því fræ, aldin og fjókorn ýmissa jurtategunda.
Stærð náttúrvættisins er 2,1 ha.

Setlög
Setlögin í Háubökkum eru staðsett undir Reykjavíkurgrágrýtinu sem myndar að miklum hluta berggrunn Reykjavíkur og er grunnur setlaganna á tveggja milljón ára gömlum hraunlagamyndunum frá fyrri hluta ísaldar.

Háubakkar

Háubakkar – setlög.

Þar ofan á eru sjávarsetlög með steingerðum leifum ýmissa sjávaradýra og má þar nefna skeljategundir eins og hallloku, kúskel og krókskel.
Ofan á sjávarsetlögunum eru síðan setlög mynduð af framburði áa sem runnið hafa um svæðið. Þar ofan á er um 20 sm þykkt surtarbrandslag (en þá var gróðurfar svipað og nú) og efst er Reykjavíkurgrágrýtið.

Í klettunum hér beint á móti eru nær eingöngu siltsteinslög og sandsteinslög til skiptis. Ekki sést þar í Reykjavíkurgrágrýtið né í surtarbrandslögin, en þau eru norðar í setlögunum.

Jarðasaga og myndun

Háubakkar

Háubakkar.

Þegar ísaldarjökullinn hopaði í lok þriðja síðasta jökulsskeiðs ísaldar fylltust lægðir í berggrunninum af sjávarsetlögum. Yfir þau lögðust síðan setlög mynduð í sjó úr áframburði. Eftir það tók við langt tímabil þar sem land var algróið þar til gífurlegt eldgos varð á Mosfellsheiði og hraunið er myndar Reykjavíkurgrágrýtið rann yfir svæðið.
Jöklar síðustu íslandarskeiða gengu síðan yfir og mótuðu landið í svipað horf og það er nú.“

Auðvelt aðgengi að Háubökkum er frá litlu bílastæði við skiltið.

Háubakkar

Háubakkar í Elliðavogi.

Laugarás

Laugarás var friðlýstur sem náttúruvætti með auglýsingu nr. 41/1982 í Stjórnartíðindum B samkvæmt heimild í 22. gr. laga um náttúruvernd nr. 47/1971. Stærð: Friðlýsta svæðið er 1,5 hektarar.

Laugarás

Laugarás – friðlýsing 1982.

Samkvæmt lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 hefur Umhverfisstofnun umsjón með svæðinu, en Reykjavíkurborg var falin dagleg umsjón þess og rekstur svæðisins með umsjónarsamningi árið 2015.

Verndargildi Laugaráss felst fyrst og fremst í verndun jarðminja á svæðinu, en þar er að finna grágrýtisklappir sem eru í senn jökulsorfnar og bera ummerki um hæstu sjávarstöðu við lok ísaldar í Reykjavík.

Náttúruvættið Laugarás er 1,5 hektarar að stærð. Það er staðsett efst á Laugarásholti í Langholtshverfi í Reykjavík.
Jarðminjar í Laugarási eru afmarkaðar við hæsta punkt. Þar er að finna grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem talin eru vera um 200 þúsund ára og eru hluti af Reykjavíkurgrágrýtismynduninni. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð og var Laugarás einn af fáum stöðum sem var ekki neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst og má sjá ummerki um það á svæðinu.

Laugarás

Laugarás – friðlýsingarmörk.

Jarðminjar svæðisins veita mikilvæga sýn í jarðsögu Reykjavíkur og upplýsingar um loftslags- og landháttabreytingar. Jarðminjarnar eru víða þaktar mosa og hrúðurfléttum. Áður fyrr var holtagróður ríkjandi á svæðinu, en hann á nú undir högg að sækja vegna lúpínu og trjágróðurs. Lúpínan myndar stórar og þéttar breiður og sem stundum skyggja á eða hylja jarðmyndanirnar. Heildarþekja lúpínu á svæðinu er um 50-60%. Birki er algengasta trjátegundin, en einnig er mikið um selju.
Aðrar trjátegundir sem finnast eru reynir, viðja, alaskavíðir, loðvíðir, stafafura og elri. Ýmsir fuglar halda til á svæðinu, s.s. stari, svartþröstur og auðnutittlingur. Flugur og fiðrildi eru mest áberandi af skordýrum, einkum hunangsflugur, geitungar, birki- og víðifetar og ýmsar tvívængjur. Innan um gróðurinn er nokkuð um hattsveppi.

Laugarás

Laugarás.

Í náttúruvættinu hefur verið lagður göngustígur frá bílastæði við Vesturbrún upp að hæsta punkti svæðisins. Við göngustíginn stendur fræðsluskilti. Töluvert margir aðrir stígar, misgreinilegir, hafa myndast í gegnum svæðið, en um er að ræða troðninga en ekki eiginlega stíga. Flestir þeirra liggja að hæsta punkti svæðisins, en þar er steypustöpull sem skilgreinir mælingapunkt frá Landmælingum Íslands.
Bílastæði eru við jaðar svæðisins að sunnanverðu í Vesturbrún sem ætluð eru gestum Áskirkju en nýtast vel þeim sem vilja heimsækja Laugarás. Við göngustíg rétt utan friðlýsta svæðisins að norðaustanverðu er nýlegur bekkur og ruslafata. Þá er bekkur við Vesturbrún við suðurenda svæðisins og annar hinu megin við götuna hjá Áskirkju.

Laugarás

Laugarás (MWL).

Laugarás hefur mikið gildi sem útivistarsvæði. Svæðið liggur hátt og er útsýni gott til allra átta, yfir borgarlandið, sundin og til fjalla. Svæðið er í miðri íbúabyggð og er nálægt öðrum mikilvægum útivistar- og náttúrusvæðum, Laugardal og Laugarnesi.

Laugarás hefur mikið fræðslu- og menntunargildi, t.d. fyrir nálæga leik- og grunnskóla, sem og almenning. Jarðminjarnar veita tækifæri til fræðslu á sviði jarðfræði, jarðsögu og landafræði. Gróðurfar svæðisins veitir tækifæri til fræðslu í grasafræði, vistfræði og annarri náttúrufræði. Þá halda spörfuglar sig á svæðinu og ýmis smádýr.
Staðsetning svæðisins í miðju þéttbýli gefur tækifæri til fræðslu í umhverfisfræði um tengsl manns og náttúru, áhrif garðyrkju á náttúruleg gróðurlendi, sorp, aðra mengun og fleira.
Útsýnið yfir Reykjavík veitir tækifæri til fræðslu í landafræði Reykjavíkur, byggingar- og skipulagssögu, arkitektúr og fleira.

Laugarás

Laugarás – steinstöpull fyrrum.

Vernda skal jarðminjar náttúruvættisins Laugaráss og gæta þess að framkvæmdir og ágangur manna rýri ekki ásýnd þeirra eða breyti landslagi svæðisins. Uppbyggingu innviða skal vera þannig háttað að þeir falli vel að landslaginu og rýri ekki ásýnd svæðisins. Tryggja skal að ástand og sýnileiki jarðmyndana verði eins og best verður á kosið. Við skipulag og framkvæmdir innan svæðisins skal verndun jarðminja höfð að leiðarljósi.

Jarðminjarnar á svæðinu eru afmarkaðar við hæsta punkt svæðisins. Um er að ræða grágrýtisstórgrýti, ávalar klappir og hnullunga sem tilheyra stóru Reykjavíkurgrágrýtismynduninni.

Laugarás

Laugarás.

Aldur grágrýtisins í Laugarási er líklega um 200 þúsund ára þegar upphleðsla Reykjavíkurgrágrýtisins var sem viðamest. Jöklar ísaldar mótuðu grágrýtið í Laugarási eins og víða annars staðar í Reykjavík og má sjá jökulrákir á stærri hnullungunum. Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi. Ummerkin eru svipuð og sjá má í Öskjuhlíð þó í minna mæli séu.

Laugarás

Laugarás – fræðsluskilti.

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur hefur látið hanna, smíða og setja upp fræðsluskilti um þrjú friðlýst náttúruvætti í landi Reykjavíkur, Fossvogsbakka, Háubakka og Laugarás. Náttúruvætti er einn flokkur friðlýstra náttúruminja og eru skilgreind sem einstök náttúrufyrirbæri, jarðmyndanir eða lífræn fyrirbæri, sem skera sig úr umhverfinu og er ástæða til að varðveita vegna fegurðar, fágætis, stöðu í landslagi, vísindalegs gildis eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Laugarás í Langholtshverfi var friðlýstur sem náttúruvætti árið 1982 vegna áhugaverðra jarðminja, einkum jökulsorfins grágrýtis og ummerkja um forna sjávarstöðu.

Laugarás

Laugarás – frá undirskrift Verndar- og stjórnunaráætlunar um Laugarás 2015.

Við lok ísaldar hækkaði sjávarborð til muna þegar jöklar bráðnuðu og var Laugarás einn af fáum stöðum á núverandi landsvæði Reykjavíkur sem var ekki að fullu neðansjávar þegar sjávarstaðan var sem hæst en þá var hún um 45 metrum hærri en hún er í dag. Aðeins efsti hluti Laugaráss stóð upp úr þannig að hann var lítið meira en sker. Ummerki um þetta má sjá á stórgrýti nálægt efsta punkti sem er lábarið af öldugangi.

Meginmarkmið með gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir svæðið er að leggja fram stefnu um verndun náttúruvættisins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins.
Verndar- og stjórnunaráætlunin var unnin af starfsfólki umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Umhverfisstofnunar árið 2015 og er sett í samræmi við lög nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Heimildir:
-http://www.umhverfisstofnun.is
-https://reykjavik.is/laugaras
-https://reykjavik.is/frettir/samid-um-thrju-fridlyst-svaedi-i-reykjavik
-https://reykjavik.is/frettir/ny-fraedsluskilti-um-fridlystar-jardminjar
-Auglýsing um Friðlýsingu Laugaráss í Reykjavík (1982). Stjórnartíðindi, B-deild, nr. 41.
-Árni Hjartarson (1980): Síðkvarteri jarðlagastaflinn í Reykjavík of nágrenni, Náttúrufræðingurinn, 50:108-117.

Laugarás

Laugarás – jökulssorfið hvalbak.

Eldgos

„Reykjanesskagi er hluti af gosbeltinu, sem liggur um Ísland þvert og er í beinu framhaldi af Reykjaneshryggnum, sem neðansjávar teygir sig langt suðvestur í haf og raunar er hluti af Atlantshafshryggnum mikla. Frá því að síðasta kuldaskeiði lauk hefur mikil eldvirkni verið á þessu svæði bæði ofansjávar og í hafi. Sú eldvirkni hefur á umliðnum öldum byggt upp Reykjanesskaga og verður ekki enn séð nokkurt lát á þeirri starfsemi, sbr. nýjasta eldgosið í Geldingadal í Fagradalsfjalli.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Fyrsta heimild um gos á umræddu svæði er hin alkunna frásögn Kristnisögu: „Þá kom maðr hlaupandi ok sagði að jarðeldr var upp kominn í Ölfusi ok mundi hann hlaupa á bæ Þorodds goða“ . Kristnisaga er talin vera „að stofni til frá 12. öld“ og gæti því verið rituð rösklega öld eftir að atburðir þessir áttu sér stað. Hér er að sjálfsögðu látið liggja milli hluta hvort kristnitakan hafi verið árið 1000 eða 999. Lengi hefur verið fullyrt að gos þetta hafi verið í gígaröð austan við Hveradali.

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Síðari heimildir um eldgos á Reykjanesskaga eru með afbrigðum óljósar og torráðnar. Þannig er t. d. getið um gos í Trölladyngju eða Trölladyngjum 1151, 1188, 1340, 1360 og 1389-90 og um hraun, sem runnið hafi niður í Selvog 1340 . Líkur eru til að það, sem nú er nefnt Brennisteinsfjöll hafi áður fyrr verið nefnt Trölladyngjur, en sannanlega hefur þar verið eldvirkni mikil — og líka á sögulegum tíma og verður að því vikið síðar.
Ljóst er að Ögmundarhraun hefur runnið á sögulegum tíma þar eð það hefur runnið yfir bæ og hluti af rústum hans sést ennþá, en skráðar heimildir um það gos munu ekki vera fyrir hendi.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Vafalaust hafa skráðar heimildir um ýmsa atburði á þessum landshluta, þar á meðal eldgos, glatast í aldanna rás. Má í því sambandi minna á afdrif bóka Viðeyjarklausturs .
Nú hefur, eftir mismunandi leiðum, verið mögulegt að sýna fram á, að a. m. k. 12 eða 13 eldgos hafa átt sér stað á Reykjanesskaga frá því að norrænt landnám hófst hér.  Einkum eru það tvö öskulög, sem hafa haft mikla þýðingu í þessu sambandi, en þau eru landnámslagið frá því um 900.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Bæði eru þessi öskulög auðþekkt séu þau á annað borð sæmilega greinileg. Landnámslagið er tvílitt, ljóst að neðan en svart að ofan. Öskulagið frá Kötlu er svart og þykkara en nokkurt annað öskulag í jarðvegssniðum á þessu svæði ofar en landnámslagið.

Aldursákvarðanir
Aðferðum, sem notaðar hafa verið til þess að flokka aldur hrauna á Reykjanesskaga má skipta í 4 flokka:
1) Sögulegar heimildir.
2) Geislakolsákvarðanir, C14.
3) Öskulög.
4) Afstaða til hrauna með þekktan aldur.

Eins og áður er sagt, eru sögulegar heimildir um eldgos á þessum landshluta bæði mjög fátæklegar og auk þess svo ruglingslegar að vant er að vita hverju má treysta.

Bæjarrústirnar í Ögmundarhrauni tala sínu máli, en þar með eru sannanir á þrotum. Um vitnisburð annála er áður getið. Ákvarðanir aldurs gróðurleifa (C14) hafa reynst notadrjúgar þar sem þeim verður við komið. Öskulög með þekktan aldur hafa einnig verið mjög til hjálpar.

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – kort.

Þegar Krýsuvíkureldar loguðu var aðalgosið árið 1151. Í því gosi opnaðist 25 km löng gossprunga, og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan er það Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krýsuvík sem stóð niður við sjávarbakkann.
Ögmundarhraun er runnið frá norðurhluta gígaraðar austan í Núpshlíðarhálsi og hefur meginhraunflóðið fallið milli Latsfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells og allt suður í sjó og langleiðina austur undir Krýsuvíkurberg.

Hér á eftir má sjá nokkrar umfjallanir um afmörkuð hraun:

Svínahraun — Kristnitökuhraunið
Kristnitökuhraun
Sýnt hefur verið fram á að yngsta hraunið austan við Hveradali getur ekki verið frá gosi því, er Kristnisaga getur um, ekki heldur hraunið úr Eldborg undir Meitli, er runnið hefur þannig, að það stefnið á Hjalla í Ölfusi og kemur að því leyti vel heim við söguna.

Eldborg

Edborg undir Meitlum.

Hins vegar er landnámslagið ofan á Eldborg, og mosakol undan hrauninu við Hveradali sýna að það er um 800 árum eldra en kristnitakan . Þetta leiddi til þess að gerðar voru athuganir á yngsta hrauninu milli Lambafells og Bláhnúks, en það er augljóslega yngra en það, sem talið var vera Kristnitökuhraunið. Kom brátt í ljós að landnámslagið er undir þessu hrauni, en Kötlulagið frá um 1495 ofan á því (. Endurteknar athuganir í óbrennishólmanum í Svínahrauni leiddu í ljós, að ekki verður greindur minnsti vottur af jarðvegi eða gróðurleifum milli öskulagsins og hraunsins. Það, sem hér er nefnt Svínahraun, er hraunið úr Nyrðri Eldborg, en hraunið úr Syðri Eldborg er nefnt Lambafellshraun. Það hraun er eitthvað yngra, en talið vera nær samtíma, þ. e. úr sömu goshrinu. Þó er þetta enn ekki sannað mál. Bæði þessi hraun ná yfir 11,9 km2 svæði) og teljast um 0,24 km Þetta eru ólivínþóleíthraun og innihalda rösklega 14% ólivín.

Rjúpnadyngnahraun

Rjúpnadyngjuhraun

Rjúpnadyngjuhraun.

Í nær miðjum Húsfellsbruna milli Þríhnúka og [Húsfells] er eldstöð, sem mjög lítið ber á, en nefnist Rjúpnadyngjur. Húsfellsbruni er örnefni, sem nær til margra hrauna, sem flest eru runnin fyrir landnám, en einnig eru þar yngri hraun. Naumast verður það talið, að augljóst sé við fyrstu sýn, að Rjúpnadyngjur séu eldvörp.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Rjúpnadyngjuhraun og nágrenni.

Þarna er óvenju stórbrotið hraun með djúpum sprungum og illfærum gjám. Eitt hringlaga niðurfall er á þessu svæði og er talið líklegast að það sé yfir uppvarpinu. Gjall kemur aðeins fyrir á litlum hól miðsvæðis. Við nánari athugun sést að þarna er um eldstöð og um dæmigert hraungos að ræða, en yngri hraun hafa runnið upp að henni sunnan frá og verið langt komin með að færa hana í kaf. Hraun frá Rjúpnadyngjum hefur runnið norður og norð-vestur.
Nyrsti tangi þess endar í allhárri brún rétt austan við Búrfell og hefur þar runnið út á Búrfellshraun. Leysingavatn hefur grafið dálítinn farveg meðfram hraunröndinni norðaustur af Búrfelli og þar reyndist mögulegt að grafa inn undir hraunið. Komu þá í ljós bæði öskulögin, sem áður var minnst á.
Landnámslagið liggur inn undir hraunið, en svarta Kötlulagið er ofan á því. Þar með er ljóst að þarna hefur gosið eftir 900. Annað, sem sannar þetta, er að hraunið hefur á einum stað runnið út á Tvíbollahraun, en það var áður aldursákvarðað (sjá síðar). Gróðurleifar undir þessu hrauni eru afar fátæklegar og því hefur enn ekki verið hægt að koma C14 athugunum við.

Kóngsfellshraun

Stóri-Bolli

Stóri-Bolli, Kóngsfellsgígur, í Kóngsfelli.

Vestan við Stóra Kóngsfell er stutt gígaröð, sem nær upp í fellið og er á sprungu, sem gengur gegnum það. Þarna hafa einkum tveir gígir verið virkir. Hraunið hefur runnið báðum megin við Kóngsfell norður og niður á við. Það hefur runnið upp að Rjúpnadyngjum og báðum megin við þær og er því yngra en sú gosstöð og þar með frá sögulegum tíma. Nánari aldursákvörðun á þessu gosi liggur ekki enn fyrir.

Breiðdalshraun

Breiðdalur

Breiðdalur.

Á Brennisteinsfjöllum er feiknamikil eldstöð. Það hraun, sem til norðurs rann, er dæmigert helluhraun.

Brennisteinsfjöll

Útsýnið að Brennisteinsfjöllum úr Kistuhrauni (ÓSÁ).

Unun er að ganga þessar svörtu klappir, sem bjóða upp á hin furðulegustu mynstur í formi straumgára, fellinga og hraunreipa. Það hefur runnið í fremur mjóum straumi norðvestur fjallið milli eldri hrauna og fallið í bröttum fossi ofan í Fagradal, þar sem það hefur hrifið með sér stór björg og steina úr brúninni og liggja þeir nú í tugatali ofan á hrauninu í dalnum, meðal grjóts sem síðar hefur hrunið úr fjallinu út á hraunið. Það hefur svo haldið áfram allt að Undirhlíðum og loks staðnæmst í Breiðdal og þekur allan dalbotninn með sléttu hrauni. Þar sem það fellur niður í dalinn austan við Breiðdalshnjúk er það örþunnt. Leysingavatn hefur þar grafið sér farveg meðfram því og nokkuð inn undir rönd þess. Þar má sjá jarðveg þann, sem hraunið rann yfir og finna leifar þess gróðurs, sem þar var þá og raunar liggja þær gróðurleifar í sjálfu landnámslaginu. Liggur því tvöföld sönnun fyrir aldri þessa hrauns, enda gaf C“ ákvörðun um ár 910. Meðal gróðurleifa virtist vera beitilyng, víðir, bláberjalyng og einír, en þetta allt vex á staðnum enn í dag.

Gráfeldur á Draugahlíðum

Gráfeldur

Gráfeldsgígur í Draugahlíðum.

Skammt eitt austan við hina fornu brennisteinsnámu, sem raunar mun hafa gefið þessum fjallaslóðum nafn, rís á fjallsbrún hár og brattur gígur, nefnt Gráfeld. Hljóti það nafn viðurkenningu, skal hraun þetta Gráfeldshraun heita,

Gráfeldur

Gráfeldur – loftmynd.

Þessi gígur er á sprungu og smágígir eru vestan við hann. Auðsætt er að hann hefur þegar í upphafi tekið völdin og sent hraunflóð mikið niður í dalinn, þar sem fleiri hraun voru þegar fyrir og fylla hann nú fjalla milli. Meðal þeirra er áðurnefnt Breiðdalshraun, sem hverfur inn undir þetta hraun, sem þannig örugglega er yngra, enda yngst í dalnum og samkvæmt þessu frá sögulegum tíma. Annálar geta þess að hraun hafi runnið niður í Selvog 1340 og 1389 . Mjög trúlegt sýnist að Selvogshraun sé frá öðru hvoru þessu gosi, en vel gætu hafa orðið enn fleiri gos í Brennisteinsfjöllum á sögulegum tíma og vafalaust hafa bæði þessi gos orðið þar, en tímasetning er óljós. Hraunið hefur fallið fram af Herdísarvíkurfjalli við Hlíðarvatn, en staðnæmst neðan við brekkurætur aðeins norðan við núverandi þjóðveg. Hraun það er fallið hefur niður í Kleifarvatn sunnanvert og Hvammahraun nefnist er mjög ungt og gæti jafnvel verið frá sögulegum tíma.

Tvíbollahraun

Tvíbolli

Tvíbollar.

Við Grindaskörð eru gígaraðir á sprungubelti og hefur þar verið mikil eldvirkni. Meðal þessara gíga eru Tvíbollar, en það eru gígir tveir, sem gnæfa á norðurbrún fjallsins .

Tvíbolli

Tvíbolli (Miðbolli).

Eins og nafnið bendir til eru gígir þessir samvaxnir og sést það vel neðan úr byggð. Aðalgígurinn er 40 – 60 m hár en minni gígurinn tæplega þriðjungur þess. Gígirnir eru hlaðnir úr gjalli og hraunkleprum og hraunstraumurinn hefur fallið norður og mest um undirgöng, sem enn má sjá. Lengst norður nær hraun þetta að Helgafelli og hefur runnið í örþunnum straumi vestur með því að sunnan en hverfur loks undir Gvendarselshraun við suðvesturhornið á fellinu. Rétt þar hjá hefur leysingavatn grafið fornan jarðveg undan hrauninu svo það hefur á kafla fallið niður. Kemur við það í ljós jarðvegslag, sem er rösklega 1,2 m þykkt og í því m. a. eitt ljóst öskulag, sem talið er að sé H3 (frá Heklu fyrir 2.800 árum), en næst hrauninu eru kolaðar gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst 1075±60 C'4 ár, en það þýðir að hraunið gæti hafa runnið árið 875 og er því frá sögulegum tíma. Jafnframt fannst landnámslagið undir þessu hrauni, aðeins ofan við áðurnefnt niðurfall. Þrjú hraun hafa síðar runnið út á þetta hraun og eru því yngri, en þau eru Rjúpnadyngnahraun, Kóngsfellshraun og svo það litla hraun, sem næst verður fjallað um í þessari grein.

Gvendarselshraun

Gvendarselshæðargígar

Nyrstu Gvendarselshæðargígarnir norðvestan Helgafells.

Norðurendi Undirhlíða er nefndur Gvendarselshæð. Hún endar við Kaldárbotna. Austan í hæðinni gegnt Helgafelli er gígaröð, nefnt Gvendarselsgígi. Þeir eru á misgengi því, sem liggur eftir endilöngum Undirhlíðum, klýfur Kaldárhnúk, myndar vesturbrún Helgadals og klýfur Búrfellsgíginn um þvert og heldur áfram um Heiðmörk.

Gvendarselsgígar

Gvendarselsgígaröðin og Gvendarselshraun.

Hraun frá þessari litlu gígaröð þekur allt svæðið milli Gvendarselshæðar og Helgafells. Víðast er það dæmigert helluhraun. Það hefur runnið niður í Kaldárbotna að norðaustan í smátotu, sem hangir þar níður, en hefur staðnæmst neðan við hjallann. Annar straumur hefur fallið vestur um skarðíð milli Kaldárbotna og Hlíðarhorns og nær nokkuð vestur fyrir Kaldársel. Vestast er það svo þunnt að talsverða nákvæmni þarf til þess að rekja ystu mörk þess. Þriðja hraunkvíslin hefur svo fallið um Kýrskarð við suðurenda megin gígaraðarinnar, og út á Óbrinnishólahraun, og myndar smá hraunbleðil vestan undir hæðinni. Eins og áður er sagt hverfur
Tvíbollahraun inn undir Gvendarselshraun við suðurenda Helgafells. Gvendarselshraun er því yngra undir hraunið syðst og fundum þar bæði landnámslagið og gróðurleifar, sem aldursákvarðaðar hafa verið og reynst vera frá því um 1075.

Nýjahraun — Kapelluhraun

Kapelluhraun

Kapelluhraun – loftmynd.

Eins og áður er sagt bendir upprunalegt nafn þessa hrauns ótvírætt til þess að það hafi orðið til á
sögulegum tíma. Um aldur þess hefur að öðru leyti ekki verið vitað. Í sambandi við rauðamalarnám við gígina, sem hraunið er komið úr, opnaðist möguleiki til þess að komast að jarðvegslögum undir því og ná þar í kolaðar gróðurleifar. Þar voru tekin alls 3 sýni á jafnmörgum mismunandi stöðum. Aldursákvarðanir á þeim sýndu að gosið hafi þarna um 1005. Þrátt fyrir þær skekkjur, sem loða við
þessar aldursákvarðanir er með þeim staðfest að hraunið er frá sögulegum tíma og næsta ljóst að gosið hafi orðið snemma á 11. öld.

Ögmundarhraun

Latur

Latur í Ögmundarhrauni.

Ekki er kunnugt um uppruna nafnsins á hrauni þessu, en langt er síðan að ljóst var að það hafði runnið á sögulegum tíma. Það sanna rústir bæjar, sem eyðst hafði í gosinu. Ögmundarhraun er komið úr gígaröðum austan í og austanundir Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi).

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – yfirlit.

Samanlögð lengd þessara gígaraða er nær 5 km. Næsta ljóst er að allar hafa þær verið virkar aðeins í byrjun gossins, en fljótlega hefur hraunrennslið færst yfir í, einkum þrjá gígi, nálægt austurenda gígaraðarinnar og þaðan hefur megin hraunflóðið runnið suður dalinn milli Krýsuvíkurmælifells og Latsfjalls alla leið í sjó fram. Þarna hefur það farið yfir gróið land og eyðilagt a. m. k. eitt býli eins og rústirnar sanna, en vel gætu þau hafa verið fleiri og raunar ekki ólíklegt að svo hafi verið . Hraunið hefur fallið í sjó fram á um 7,5 km strandlengju og hugsanlegt gæti verið að þar hafi sú vík verið, sem Krýsuvík er kennd við — sé það á annað borð nauðsynlegt að skýra nafnið svo – og hafi hraunið
fyllt hana. Um þetta skal ekkert fullyrt. Lengi hefur því verið haldið fram að þetta gos hafi orðið árið 1340. Þetta ártal er komið frá Jónasi Hallgrímssyni, en ekki getur hann heimilda fyrir því.
Því má aðeins bæta við hér að engar mannvistarleifar er að finna í tveim smá óbrennishólmum ofar í hrauninu. Þess skal hér einnig getið að svo virðist sem Ögmundarhraun, Nýjahraun (Kapelluhraun) og Gvendarselshraun hafi öll orðið í einni goshrinu, sem þá hafi orðið á fyrri hluta 11. aldar. Því má svo bæta við, að vel gætu fleiri gos hafa orðið um svipað leyti eða samtímis víðar á Reykjanesskaga

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Hraun þetta hefur komið upp í tveim gígum og ber sá þeirra sem hæstur er nafnið Arnarsetur.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Hraunið hefur ótvíræða dyngjulögun, einkum séð vestan frá, en bergfræðilega er það skyldara sprunguhraunum. Þetta hefur verið allmikið gos. Hraunið þekur sem næst 22 km2 og telst samkvæmt því 0,44 km en sennilega er sú tala talsvert of lág því hraunið er greinilega mjög þykkt á stóru svæði kringum eldvarpið. Eldra hraun, sem aðeins sést í smá óbrennishólma bendir til þess að áður hafi gosið á þessum sama stað. Í sambandi við jarðfræðikortlagningu kom í ljós að Arnarseturshraun hlaut að vera yngst allra hrauna á þessu svæði. Það vakti grun um að það gæti verið frá sögulegum tíma.
Út frá þeím skráðu heimildum, sem til eru, virtist liggja beinast fyrir að ætla að gos þetta hafi orðið 1660 og sé það, sem getið er um í annál Gunnlaugs Þorsteinssonar fyrir árið 1661, Vallholtsannál, (Annálar 1400-1800) sem getur um eldgos í Grindavíkurfjöllum þetta ár.

Eldborg við Trölladyngju

Eldborg

Eldborg við Trölladyngju.

Þess skal og getið að gos það er orðið hefur rétt norðan við Trölladyngju og myndað gíginn Eldborg sýnist hafa orðið um líkt leyti og Afstapahraun rann.
Vel gætu þessi gos bæði hafa verið svo að segja samtímis og mætti þá raunar um það deila hvort um er að ræða eitt gos eða tvö. Einar Gunnlaugsson (1973) fann öskulag ofan við landnámslagið í Hörðuvallaklofa og er líklegt að það sé af þessum slóðum komið. Ekki verður hins vegar í það ráðið hvort það kann að vera úr Eldborg eða öðru eldvarpi í nágrenninu.

Traðarfjöll

Reeykjanes

Dásemdir Reykjanesskagans má í dag finna víða, þökk sé jarðvánni….

Í jarðfræði Reykjanesskaga (eftir Jón Jónsson 1978,) er eldstöðvum á þessu svæði nokkuð lýst og hraunið nefnt Traðarhraun, en réttara væri e. t. v. að nefna það Traðarfjallahraun. Þegar vegur var lagður gegnum Reykjanesfólkvang var hann skorinn inn í gíg sunnan í Traðarfjöllum. Við það kom í ljós allþykkt moldarlag undir gjallinu og reyndist þar auðvelt að grafa fram jarðvegssnið, sem nær frá því og niður á fast berg, sem þarna er móberg.

Traðarfjöll

Traðarfjöll – loftmynd.

Undir gjallinu er fyrst 9 cm þykkt moldarlag en þá kemur ljósleitt (nánast gulleitt) öskulag, sem ekki getur annað verið en landnámslagið margumtalaða. Sýnir þetta að þarna hefur gosið, að líkindum þó nokkru eftir árið 900 þar eð um 9 cm jarðvegur hefur verið kominn ofan á öskulagið áður en gosið varð. Vel gæti þetta hafa verið um sama leyti og Ögmundarhraun rann, þótt ekkert sé um það hægt að fullyrða. Eins og teikningin sýnir er annað ljóst öskulag neðar í sniðinu og ætti það samkvæmt reynslu að vera H3. Ekki hefur enn gefist tími til að rekja útbreiðslu hraunsins frá þessu gosi, enda er það ekki auðvelt. Hitt er ljóst að með þessu bætist við enn eitt gos, sem örugglega hefur orðið á sögulegum tíma á Reykjanesskaga. Þykir þetta renna enn einni stoð undir það að meiriháttar goshrina hafi þar orðið snemma á landnámsöld. Ekki var mögulegt að greina neinar gróðurleifar undir gjallinu. Nægilega mikið loft hefur þarna komist að til þess að gras hefur brunnið til ösku en ekki kolast. Því má bæta hér við að þar eð svona þykkt jarðvegslag er komið ofan á landnámslagið, gæti þetta verið það gos sem Jónas Hallgrímsson talar um og Þorvaldur Thoroddsen (1925) vitnar í. Gæti þetta verið skýringin á því að ártalið 1340 hefur verið tengt Ögmundarhrauni.

Nöfn á hraunum á Reykjanesskaga.
1. Rjúpnadyngjuhraun
2. Húsfellsbruni
3. Tvíbollahraun (Hellnahraun eldra)
4. Grindaskarðahraun (Hellnahraun yngra)
5. Þríhnúkahraun
6. Þjófakrikahraun (Eyrahraun)
7. Kristjánsdalahraun
8. Hellur
9. Markrakahraun (Hellnahraun yngra)
10. Dauðadalahraun (Hellnahraun eldra)
11. Skúlatúnshraun (Hellnahraun eldra)
12. Búrfellshraun
13. Flatahraun (Búrfellshraun)
14. Selgjárhraun (Búrfellshraun)
15. Svínahraun
16. Urriðakotshraun (Búrfellshraun)
17. Vífilsstaðahraun (Búrfellshraun)
18. Stórakrókshraun (Búrfellshraun)
19. Garðahraun (Búrfellshraun)
20. Gálgahraun (Búrfellshraun)
21. Klettahraun (Klettar)
22. Mosar (Eldborgarhraun)
23. Smyrlabúðahraun (Búrfellshraun)
24. Gjárnar (Búrfellshraun)
25. Norðurgjár (Búrfellshraun)
26. Seljahraun
27. Gráhelluhraun (Búrfellshraun)
28. Lækjarbotnahraun (Búrfellshraun)
29. Stekkjahraun (Búrfellshraun)
30. Sjávarhraun
31. Hörðuvallahraun (Búrfellshraun)
32. Hafnarfjarðarhraun (Búrfellshraun)
33. Helgafellshraun (Stórabollahraun)
34. Kaldárhraun (Búrfellshraun)
35. Brunahryggur
36. Óbrinnishólabruni
37. Arnarklettabruni
38. Stórhöfðahraun (Hellnahraun yngra)
39. Kornstangarhraun
40. Selhraun (Eldra Afstapahraun)
41. Hellisdalshraun
42. Hellnahraun
43. Leynidalahraun
44. Hvaleyrarhraun (Hellnahraun eldra)
45. Hraunhólshraun
46. Nýjahraun
47. Háibruni
48. Bruni (Kapelluhraun/Nýjahraun)
49. Hrauntungur (Hrútagjárdyngjuhraun)
50. Brenna
51. Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn)
52. Snókalönd (Hrútagjárdyngjuhraun)
53. Hrútadyngjuhraun
54. Almenningur (Hrútagjárdyngjuhraun)
55. Hólahraun
56. Sauðabrekkuhraun (Sauðabrekkugígar)
57. Fjallgrenshraun (Sauðabrekkugígar)
58. Brundtorfuhraun (Brunntorfuhraun)
59. Hafurbjarnarholtshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
60. Stórhólshraun
61. Eyjólfsbalahraun
62. Bringur (Hvammahraun)
63. Einihólshraun
64. Merarhólahraun
65. Rauðhólshraun (Kapelluhraun)
66. Tóhólahraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
67. Þúfuhólshraun
68. Sléttahraun (Búrfellshraun)
69. Laufhólshraun (Hrútargjárdyngjuhraun)
71. Meitlahraun (Eldborgarhraun)
72. Bekkjahraun (Hrútargjárdynguhraun)
73. Brenniselshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
74. Katlar (Hrútagjárdyngjuhraun)
75. Draughólshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
76. Flár (Hrútagjárdyngjuhraun)
77. Rauðamelshraun (Hrútagjárdyngjuhraun)
78. Ögmundarhraun
79. Katlahraun (Moshólshraun)
80. Leggjabrjótshraun (Höfðagígahraun)
81. Beinavörðuhraun (Sunhnúkahraun)
82. Illahraun
83. Bræðrahraun og Blettahraun (Eldvarparhraun)
84. Eldvarparhraun
85. Stampahraun
86. Eldvörp
87. Þríhnúkahraun
88. Hellisheiðarhraun
89. Eldborgarhraun
90. Eldborgahraun
91. Hnúkahraun
92. Dauðadalahraun (Hnúkahraun)
93. Kistufellshraun
94. Draugahlíðahraun
95. Heiðin há
96. Leitarhraun
97. Þurárhraun
98. Astapahraun
99. Kálffellshraun

Heimild:
-https://redlion.blog.is/blog/redlion/

Eldgos

Eldgos á Reykjanesskaga – Geldingadalur mars 2021.

Geldingadalir

Á Vísindavefurinn er fjallað um „Eldvirkni á Reykjanesskaga“:

Eldstövakerfi
„Gosbeltið á Reykjanesskaga er sniðreksbelti, það er að segja í senn þverbrota- og gliðnunarbelti. Stefna þess er 70-80 gráður austur, en það sveigir til norðaustlægari stefnu allra vestast. Þarna munar 25-35 gráðum frá rekstefnu.

Misgengi

Misgengi getur verið siggengi, samgengi eða sniðgengi.

Þáttur þverbrotabeltisins kemur fram í norður-suður sniðgengjum með hægri hliðrun. Sniðgengin eru minni háttar skástígar gjár, oft samtengdar með sprunguhólum. Gliðnunarbeltin koma fram sem gígar og gígaraðir, gjár og misgengi í eldstöðvarkerfum skagans. Þau eru sex, að meðtöldu Hengilskerfinu, og liggja norðaustur-suðvestur, skáhallt á gosbeltið. Eldstöðvakerfin eru flest hver miklu lengri en gosmenjar á yfirborði gefa til kynna. Eldvirkni nær yfir stóran hluta þeirra, en á norðausturhlutanum eru svo til eingöngu gjár og misgengi. Þar hefur hraunkvika sjaldan náð til yfirborðs en setið eftir í berggöngum.
Sprunguop
Eldstöðvakerfin mynda grunneiningar í jarðfræði Reykjanesskaga. Þau eru fimm til átta kílómetra breið og flest 30 til 50 kílómetra löng. Í hverju þeirra eru tvær eða fleiri gos- og sprungureinar.

Sprungusveimar

Sprungusveimar.

Fullmótuð kerfi með háhitasvæði og sprungusveim eru fimm. Þau eru kennd við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og Hengil (sjá mynd hér fyrir neðan). Sjötta eldstöðvakerfið, sem kenna má við Fagradalsfjall, er ólíkt hinum að gerð. Þar er hvorki jarðhiti né sprungusveimur. Skil milli kerfanna eru oftast skýr, en þau skarast þegar kemur norðaustur á gjásvæðin. Milli Reykjaness- og Svartsengiskerfanna er einföld röð dyngna og bólstrabergsfella úr ólivínríku basalti, Háleyjabunga yst og Stapafell innst. Mörk Fagradalsfjallskerfisins við þau næstu markast af löngum gossprungum beggja vegna. Skil Krýsuvíkur- og Brennisteinsfjallakerfanna eru í Kleifarvatnslægðinni með stapana Lönguhlíð og Geitahlíð að austanverðu. Skil Brennisteinsfjalla- og Hengilskerfis eru hér sett við Þrengsli.

Fagradalsfjall

Eldgos í Fagradalsfjalli.

Á Reykjanesskaga skiptast á gos- og gliðnunartímabil á sprungusveimum með stefnu norðaustur-suðvestur og skjálftatímabil með virkni á norður-suður sprungum. Það er afleiðing af því að Reykjanesskagi liggur skáhallt á rekstefnuna og spennusviðið sveiflast á milli lóðréttrar mestu bergspennu og láréttrar með suðvestur-norðausturstefnu.

Kvikuhólf

Kvikuhólf og kvikuþró.

Í báðum tilvikum er minnsti þrýstingur í stefnu reksins. Kvikuinnskot þarf til að gjárnar gliðni, en það getur gerst án þess að gjósi. Gos- og gliðnunartímabilin, hér nefnd gosskeið, standa yfir í nokkrar aldir hvert. Á síðasta gosskeiði fluttist gosvirknin milli eldstöðvakerfanna með 30-150 ára millibili. Gosvirknin einkennist af sprungugosum sem vara í nokkra áratugi, en með hléum á milli gosa. Goshrinur af þessu tagi eru kallaðar eldar. Á milli gosskeiðanna eru löng skjálftatímabil án kvikuvirkni og þá væntanlega eins og á síðustu áratugum með ótal snöggum hrinum sem standa daglangt eða í fáar vikur. Gosskeið síðustu 3500 ára eru þrjú, og vísbendingar eru um fleiri þar á undan. Í Fagradalsfjallskerfinu hefur ekki gosið á þessu tímabili og aðeins einu sinni í Hengilskerfinu.

Sundhnúkagígaröðin

Sundhnúkagígaröðin.

Á Reykjanesskaga hefur aðeins gosið basalti eftir að land varð jökullaust. Bergið í hraununum er pikrít, ólivínþóleiíti og þóleiít. Dyngjuhraun eru úr pikríti og ólivínþóleiíti en hraun frá gossprungum yfirleitt úr þóleiíti. Súrt berg er ekki að finna á skaganum nema í Hengilskerfinu. Þar spannar samsetning bergsins allt bilið frá pikríti í ríólít. Í hinum kerfunum nær það einungis yfir í þróað basalt.

Sprungugos

Sprungugos.

Aldursdreifing sprungugosa sem vitað er um á Reykjanesskaga síðustu 3500 árin, er sýnd á næstu mynd hér að ofan. Tímasetning er byggð á sögulegum heimildum, aldursgreiningu með geislakoli (C-14) og öskulagsrannsóknum. Af myndinni má ráða að skipst hafi á gosskeið sem stóðu í 400-500 ár, og goshlé í 600-800 ár. Núverandi hlé er nálægt efri mörkum. Sé hins vegar litið á eldstöðvakerfin ein og sér, verða hléin mun lengri, að meðaltali nálægt 1000 árum. Í engu eldstöðvakerfanna er komið fram yfir lágmarkslengd fyrri hléa, nema ef til vill í Brennisteinsfjöllum. Allt að fjórar aldir þurfa að líða þar til lengstu hléunum er náð. Í Hengilskerfinu varð eina kvikuhlaupið án goss sem vitað er um. Þá er átt við Þingvallasigið árið 1789. Eldri hraun eru of fá tímasett til að rekja söguna lengra aftur. Segja má þó að grilli í fleiri gosskeið, svo sem fyrir 4000 og 8000 árum. Eins og sjá má á myndinni hefur eldvirkni á hverju gosskeiði oftast hafist í Brennisteinsfjallakerfinu og síðan færst vestur.

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Að frátöldum dyngjunum hefur upphleðsla gosefna í eldstöðvakerfum Reykjanesskaga, öðrum en Henglafjöllum, verið mest þar sem sprungusveimar liggja yfir flekaskilin. Þau markast af skjálftabelti skagans, og þar eru einnig háhitasvæðin.

Dyngjugos

Dyngjugos.

Segja má að þar séu vísar að megineldstöðvum. Ætla má að í rætur þeirra geti safnast kvika sem síðan leitar út í sprungusveimana, myndar ganga og kemur upp í sprungugosum. Hnyðlingar í gjalli og úrkasti sprengigíga í Krýsuvík eru vísbending um að grunnstæð gabbróinnskot, það er kvikuhólf sem voru eða eru þar undir, en greinast ekki í skjálftum.
Á Reykjanesskaga eru dyngjur í þyrpingum, ýmist í virknimiðjum eldstöðvakerfanna, svo sem í Hengils-, Brennisteinsfjalla- og Fagradalsfjallskerfunum, eða utan þeirra. Stærstu dyngjurnar ná yfir 200 ferkílómetra og áætlað rúmmál þeirra stærstu er fimm til sex rúmkílómetrar. Alls eru þekktar um tuttugu dyngjur á Reykjanesskaga. Af þeim eru 12 úr ólivínþóleiíti, hinar úr pikríti.“

Tilvísanir:
-Freysteinn Sigmundsson, 1985. Jarðvatn og vatnajarðfræði á utanverðum Reykjanesskaga II. hluti. Viðaukar um jarðfræði. Orkustofnun, skýrsla, OS-85075/VOD-06, 49 bls.
-Páll Einarsson, 1991a. Earthquakes and present-day tectonism in Iceland. Tectonophysics, 189, 261-279.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Clifton, A. E. og S. Kattenhorn, 2006. Structural architecture of a highly oblique divergent plate boundary segment. Tectonophysics, 419, 27-40.
-Sigrún Hreinsdóttir og fleiri, 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW-Iceland: GPS measurements from 1993 to 1998. Journal of Geophysical Research, 106(B7), 13803-13816.
-Keiding og fleiri, 2009. Earthquakes, stress and strain along an oblique plate boundary: the Reykjanes Peninsula, southwest Iceland. Journal of Geophysical Research, 114, B09306, doi: 10.1029/2008JB006253. 16 bls.
-Sveinn P. Jakobsson og fleiri, 1978. Petrology of the Western Reykjanes peninsula, Iceland. Journal of Petrology, 19, 669-705.
-Gee, M. A. M., 1998. Volcanology and Geochemistry of Reykjanes Peninsula: Plume-Mid-Ocean Ridge interaction. Doktorsritgerð, Royal Holloway University of London. 315 bls.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=65699
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur og fyrrverandi deildarstjóri á Orkustofnun.
-Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Geldingadalir

Eldgos í Geldingadölum í Fagradalsfjalli.

Geldingadalir

Á vefnum Eldey.is má lesa eftirfarandi um „Eldstöðvar og jarðsögu Reykjanesskagans„, auk annars:

Eldvörp

Eldvörp.

„Á Reykjanesskaga má finna allar tegundir eldstöðva sem gosið hafa á Íslandi. Talið er að um tólf hraun hafi runnið þar frá því að land byggðist eða að meðaltali eitt hraun á öld.
Á Reykjanesskaganum eru þrjú háhitasvæði sem eru sérstök fyrir það að í þeim hitnar jarðsjór er hann kemst í snertingu við kólnandi kviku. Þessi háhitasvæði eru Reykjanes, Eldvörp og Svartsengi þar sem jarðsjórinn er notaður til að hita upp kalt vatn fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Jarðfræðikort

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Reykjanesskaginn er um 1.700 ferkílómetrar að flatarmáli og er þar að finna margvíslegar menjar um eldvirkni undanfarinna 200.000 ára. Reykjanes er til að mynda eini staðurinn á jörðinni þar sem berlega má sjá hvar úthafshryggur gengur á land með eldsumbrotum og jarðhræringum.
Reykjanesskagi dregur nafn sitt af Reykjanesi á suðvesturhorni skagans. Mest af skaganum er innan gosbeltis Íslands og yst á skaganum skríður Mið-Atlantshafshryggurinn á land. Gosbeltið liggur eftir miðjum skaganum frá vestri til austurs þar sem það tengist svo aðalgosbeltum landsins.

Reykjanesskagi

Fjórar sprungureinar eru á skaganum: Reykjanes-, Krýsuvíkur-, Brennisteins-, fjalla og Hengilsreinar. Hver þeirra samanstendur af hundruðum opinna spungna. Þá er þar einnig fjöldi gíga og gígaraða.

Háleyjabunga

Háleyjabunga.

Önnur gerð af eldfjöllum á Reykjanesskaga eru dyngjur, skjaldarlaga bungur sem eru svipaðar og eldfjöllin á Hawaii nema mun minni.
Gosbergið er að mestu af tveimur gerðum. Annars vegar er móberg sem er samanþjöppuð gosaska sem myndaðist við eldgos þegar landið var að mestu hulið jöklum. Hins vegar eru hraun; apalhraun með úfnum karga á yfirborði og helluhraun sem eru slétt og oft með hraunreipum. Eldri hraun hafa verið slípuð af jöklum, og er yfirborð þeirra því jökulrákað.
Jarðskjálftar eru tíðir á svæðinu vegna eldvirkninnar og stöku sinnum valda þeir tjóni. Flestir eru þó minni háttar og finnast sem titringur.

Jarðsaga Reykjanesskaga er tiltölulega vel þekkt og hefur verið rakin nokkur hundruð þúsund ár aftur í tímann.

Jón Jónsson

Jón Jónsson; jarðfræðikort – Vogar og Stapi.

Elsta bergið á skaganum er á Romshvalanesi (Stapinn) og í grennd við Reykjavík og er talið vera um 500 þúsund ára gamalt. Mest af jarðlögum á skaganum eru hins vegar innan við 100 þúsund ára gömul. Á þessum tíma hefur loftslag verið mjög breytilegt og óstöðugt. Á vissum tímabilum var Ísland hulið mikilli íshellu. Á milli voru tímabil með svipuðu loftslagi og nú er. Kuldatímabilin eru nefnd jökulskeið og hlýrri tímabilin eru nefnd hlýskeið. Við lifum á hlýskeiði.
Þau hraun sem runnið hafa síðan síðasta jökulskeiði lauk eru ekki slípuð af jöklum.
Á jökulskeiðum áttu sér stað gos undir jökli, og móbergsfjöll mynduðust í geilum sem gosin bræddu upp í ísinn. Þegar jöklarnir hopuðu stóðu eftir óregluleg móbergsfjöll. Á hlýskeiðum runnu hraun svipað og nú þ.e.a.s. frá gosstöðvum undan halla og oft til sjávar. Kappelluhraun og Ögmundarhraun eru dæmi um slík hraun.
Allt gosberg á Reykjanesskaganum er basalt (gosberg með lágt kísilsýrumagn).

Ísöld

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Loftslag hefur verið mjög sveiflukennt síðustu þrjár milljónir ára. Á því tímabili hafa komið um 30 jökulskeið. Meðalhiti var þá 8 gráðum lægri en nú. Hvert jökulskeið stóð í um 100 þúsund ár en hlýskeiðin á milli aðeins í um 10 þúsund ár. Síðasta jökulskeiði lauk fyrir um 10 þúsund árum. Tímabilið sem síðan er liðið nefnist Nútími.

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Jöklarnir skófu og hefluðu landið sem þeir skriðu yfir og mýktu það. Þeir mynduðu U-laga dali, rispuðu berggrunninn sem undir var og skildu eftir sig hvalbök og jökulrispur.
Á jökulskeiðunum var gríðarlegt vatnsmagn bundið í jöklum, og meðan þau stóðu yfir lækkaði yfirborð sjávar á jörðinni um allt að 130 m miðað við núverandi sjávarmál. Aftur á móti fergðu jöklarnir landið undir næst sér.
Jökulskeið enda snögglega og meðalhitastig hækkar undrahratt. Þá bráðna jöklar á tiltölulega stuttum tíma. Sjávarborð hækkar og sjór gengur á land. Fornar strandlínur eru því allhátt yfir núverandi sjávarmáli. Munar þar um 110 m á Suðurlandi. Skeljar og bein sávarspendýra finnast í gömlum sjávarsetlaögum. Einn slíkur staður er við Pattersonflugvöll á Njarðvíkurheiði.

Eldgos á Reykjanesskaga

Stampahraunið

Stampahraunið.

Gossaga Reykjanessskagans er tiltölulega vel þekkt. Eldvirknin virðist hafa verið stöðug síðustu árhundruðþúsundin. Dyngjugos virðast hafa verið algeng á fyrri hluta Nútíma þ.e. fyrir 5000 – 10 000 árum en sprungugosin hafa verið nær einráð síðustu 5000 árin.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – eldgos á nútíma.

Eldgos eru ekki jafndreifð í tíma. Þau virðast koma í hrinum. Á Reykjanesskaganum koma hrinurnar á um 1000 ára fresti og stendur hver goshrina í 200 – 350 ár. Síðasta hrinan hófst um miðja tíundu öld og lauk á seinni hluta þrettándu aldar.
Eldgosin hegða sér þannig að í upphafi þeirra opnast spunga og landrek á sér stað. Rekið er nokkrir metrar í hverri hrinu. Hvert gos er líka í hrinum. Það stendur í fáeina daga eða vikur og síðan er að draga úr virkninni í mánuði eða ár áður en næsta gos verður.
Neðansjávargos verða einnig á Reykjaneshryggnum, suðvestur af Reykjanesi. þau hegða sér svipað og gos undir jökli. Spungugos undir jökli mynda móbergshryggi og eru þeir algengir á Reykjanesskaganum.

Eldgos á sögulegum tíma

Húshólmi

Í Húshólma í Ögmundarhrauni.

Sögulegur tími á Íslandi nær frá landnámsöld til okkar daga, þ.e.a.s. í yfir 1100 ár. Ein meiri háttar goshrina hefur átt sér stað á Reykjanesskaganum á þeim tíma. Þeirri hrinu má skipta í þrjú aðalgos.

Reykjaneseldar

Nýjasta goshrinan á Reykjanesskaga er ofan Grindavíkur.

Það elsta eru: Bláfjallaeldar. Það hófst um árið 950 og stóð fram yfir árið 1000 í þessu gosi myndaðist feiknarmikið hraun.
Miðgosið er nefnt Krýsuvíkureldar. Aðalgos þeirra var árið 1151 en minniháttar gos varð 1188. Í því fyrra opnaðist um 25 km löng gosspunga og rann hraunið til sjávar bæði sunnan og norðan megin á Reykjanesskaganum. Að sunnan heitir hraunið Ögmundarhraun en að norðan Kapelluhraun. Þá tók af stórbýlið Krísuvík sem stóð niður á sjávarbakka. Hraunið rann allt um kring kirkjuna á staðnum.
Þriðja gosið voru svonefndir Reykjaneseldar sem urðu á árabilinu 1210 til 1240. Það gos var yst á skaganum og hluti umbrotanna var í sjó. Þá reis upp eyja sem heitir Eldey í fárra sjómílna fjarlægð frá stöndinni.
Aðalgosið var árið 1226 við Reykjanestána, að mestu í sjó. Mikil aska kom upp og dreifðist hún undan suðvestanvindi yfir Reykjanesskagann. Sést öskulagið víða greinilega í jarðvegssniðum. Í kjölfarið jókst mjög jarðvegseyðing á Reykjanesskaga.“

Meira HÉR á Wikipedia.

Sogin

Sogin.

Flekaskil

Samkvæmt jarðfræðikenningum þá þrýstast Evrasíu- og Norður- Ameríkuflekarnir hvor frá öðrum á Reykjanesi. Plötuskilin afmarkast af gosreinum, gjám og gígaröðum sem liggja frá Reykjanesi og norðaustur um land. Segja má að Reykjaneshryggurinn (Mið-Atlantshafshryggurinn) „gangi“ á land á Reykjanesi en með honum liggja skil þessara tveggja fleka. Ísland skiptist þannig milli tveggja jarðskorpufleka. Austurhluti landsins tilheyrir svonefndum Evrasíufleka og vesturhlutinn svonefndum Norður-Ameríkufleka. Skilin milli flekanna birtast okkur ýmist sem opnar sprungur og gjár eða sem sem gígaraðir.

Möttull

Jörðin – að innan.

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk.

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð.

Flekaskil

Mismunandi flekaskil.

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa – flekaskil.

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja.

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland.

Möttulstrókur

Möttulstrókur undir Íslandi.

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla.

Jörðin er mjög spennandi viðfangsefni fyrir alla aldurshópa. Það er margt sem hægt er að skoða og rannsaka nánar hvort sem það er sólkerfið sem tilheyrir jörðinni, samspili lífvera og jarðarinnar eða uppbyggingu jarðarinnar.

Landrekskenningin – Alfred Wegener

Alfred Wegener

Alfred Wegener.

Árið 1912 kynnti þýskur veðurfræðingur Alfred Wegener fyrstur kenningu um landrek. Þremur árum síðar eða 1915 var Landrekskenning Wegeners sett fram í bókinni Myndun meginlanda og úthafa. Hann hélt því fram að öll meginlönd gætu flust úr stað með því að fljóta. Wegener taldi að meginlöndin hafi verið ein heild, þ.e. Pangea (al-álfa) sem hafi brotnað upp og brotin flust úr stað. Hann taldi með þessu að hann gæti útskýrt ásæðuna fyrir því af hverju löndin pössuðu vel saman. Um 1930 töldu jarðeðlisfræðingar að það væri ekki til nægilega stór kraftur sem gæti flutt heimsálfurnar úr stað og tókst þeim þar með að afsanna þann hluta kenningar Wegeners.

Reykjaneshryggur

Reykjaneshryggur.

Árið 1964 var landrekskenningin endurvakin og var þá nefnd botnskriðskenning og var þá gerð athugun á gerð hafsbotnsins. Í ljós kom að á hafsbotni leyndust langir fjallgarðar sem risu í um 2000-4000 m yfir hafsbotninn. Árið 1968 kom fram flekakenningin, en samkvæmt henni skiptist jarðskorpan í jarðfleka sem eru á reiki um yfirborð jarðar og eru flekarnir knúnir af hita frá möttlinum. Á úthafshryggjum á hafsbotni jarðarinnar rekur þessa fleka í sundur og til þess að það myndist ekki gap í jarðskorpunni fyllir bergkvika bilið og myndar á ný úthafsskorpu.

Innri gerð jarðar

Jörðin er flóknara fyrirbæri en við höfum gert okkur grein fyrir og verður stikklað á stóru um jörðina. Hún er þriðja reikistjarnan frá sólu en fimmta stærsta reikistjarna sólkerfisins.

Möttull

Jörðin – að innan.

Þykkur lofthjúpur umlykur jörðina sem er að mestu úr nitri og súrefni. Á jörðinni hafa miljónir lífvera viðveru, hvort sem það eru plöntur eða dýr.

Möttull

Möttull jarðar.

Jörðin snýst um möndul sinn heilan hring á sólarhring en hún snýst einnig umhverfis sólu, sem tekur hana heilt ár. Jörðinni er skipt upp í nokkur lög, þ.e.a.s. innri kjarna, ytri kjarna, möttul og jarðskorpu. Innan möttulsins er 100 km þykkt lag sem kallast deighvel en ofan á deighvelinu flýtur u.þ.b 100 km þykkir jarðflekar. Ysta lag jarðflekanna hefur tvær misþykkar jarðskorpur, meginlandsskorpu og hafsbotnsskorpu. Jarðskorpan er að stærstum hluta byggð upp af 8 frumefnum eða u.þ.b. 98,5%, súrefni (45,6%), kísil (27,7%), áli (8,1%), járni (5,0%) ásamt kalsíum, natríum, kalíum og magnesíum en þau finnast í minna magni.

Jarðflekar

Flekaskil

Jarðflekar.

Jarðflekarnir sem eru um 100 km á þykkt innihalda jarðskorpuna ásamt efsta hluta möttulsins. Yfirborð jarðarinnar skiptist upp í 6 stóra jarðskorpufleka ásamt nokkra minni. Stærstu flekar jarðarinnar eru Evrasíufleki, Ameríkufleki, Afríkufleki, Kyrrahafsfleki, Suðurskautsfleki og Indlands-Ástralíufleki. Á mörkum þessara jarðskorpufleka birtast innri öfl, til dæmis með eldgosum og jarðskjálftum. Samkvæmt tilraun sem var gerð á árunum 1955-1965 kom fram að flestir jarðskjálftar ásamt mestallri eldvirkni jarðar var á mjóum beltum, þ.e. flekamörkum. Í berginu við mjóu beltin eða flekamörkin byggist upp spenna þegar flekamörkin hnikast til og jörðin losar sig við þennan varma hvort sem það er á meginlandi eða á hafsbotni. Flekamörkin skiptist í þrjá flokka, flekaskil, flekamót og sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti.

Flekaskil

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Flekaskil koma fram þar sem flekarnir gliðna í sundur, eldvirkni er í sprungunum og bergkvika kemur upp um sprungurnar, sem hafa myndast á skilunum. Þegar bergkvikan storknar kemur hún sem viðbót beggja vegna við flekana. Á hafsbotni myndast miðhafshryggir, til dæmis Atlantshafshryggurinn, og þar sem flekarnir gliðna í sundur þá myndast djúpir sigdalir. Á Íslandi má finna marga staði þar sem hægt er að sjá og jafnvel skoða flekaskil sem eru á þurru landi.

Flekaskil og gosbelti á Íslandi

Flekaskil

Flekaskil – Jarðfræðikort ÍSOR – http://jardfraedikort.is/?coordinate=64.96%2C-18.62&zoom=2

Á Íslandi eru flekaskil mjög aðgengileg og liggja þau þvert yfir landið frá Reykjanestá norður í Öxarfjörð.

Þingvellir

Misgengi á Þingvöllum.

Einn vinsælasti staður til þess að sjá flekaskil á þurru landi eru Þingvellir en einnig er hægt að sjá flekaskil vel á Reykjanesi. Á Þingvöllum hefur sigdalur myndast á milli Almannagjár og Hrafnagjár og hefur dalurinn sigið um 40 m á síðustu 9000 árum. Ísland hefur fleiri sérkenni sem má rekja til flekaskilanna, til dæmis mikið af sprungum og gjám, mikinn jarðvarma til dæmis í Kröflu, Öskju og Hengli, eldgos í löngum sprungum en væga jarðskjálfta sem skipta tugum á hverjum sólarhring sem við finnum ekki fyrir.

Flekamót

Við flekamót mætast tveir flekar, þar sem annar lútir fyrir hinum og sveigir undir hann og „eyðist“. Djúpálir myndast þegar hafsbotn eyðist en hafsbotninn sveigir u.þ.b. í 45° niður á við og fer undir hafsbotninn eða meginlandið sem kemur á móti honum. Mikilir jarðskjálftar verða á flekamótum á hafsbotni ásamt hættulegum eldgosum. Þrjár tegundir flekamóta eru til, hafsbotn mætir hafsbotni, hafsbotn mætir meginlandi og meginland mætir meginlandi.

Flekamót

Flekamót.

Hafsbotn mætir hafsbotni; þar myndast djúpálar og hafsbotninn sem hefur svegt 45° niður á við eyðist upp þegar komið er niður í möttulinn og samlagast honum að hluta til. Mikil eldvirkni er á þessum svæðum og eyjabogar myndast, sem er röð eldfjallaeyja. Kúileyjar í Norður-Kyrrahafi eru dæmi um eyjaboga.
Hafsbotn mætir meginlandi; hafsbotninn lútir fyrir meginlandinu og treðst undir meginlandinu í djúpál. Á svæðum þar sem hafsbotn mætir meginlandi er einnig mikil eldvirkni og fellingafjöll með eldfjöllum myndast.
Meginland mætir meginlandi; hvorugur flekanna sveigir undir hinn, heldur myndast óregluleg hrúga, fellingafjöll, þar sem begið leggst í fellingar. Þegar fellingafjöllin myndast er lítil sem engin eldvirkni en harðir jarðskálftar eru á þessum svæðum. Himalayafjöllin í Asíu þar sem Indland rekur til norðurs er dæmi um flekamót þar sem meginland mætir meginlandi.

Sniðgeng flekamörk eða þverbrotabelti

Flekaskil

Jarðflekar.

Engin eyðing eða myndun bergs á sér stað við sniðgeng flekamörk. Tveir flekar nuddast saman á hliðunum og við það koma frekar harðir jarðskjálftar. Aðaleinkenni miðhafshryggjanna er hryggjarstykkin sem myndast við sniðgengu flekamörkin, en flekamörkin búta miðhafshryggina niður og við það kemur hliðrun víða fram á miðhafshryggjunum. San Andreas sprungan í Bandaríkjunum er dæmi um sýnileg sniðgeng flekamörk en þau koma fram á fleiri stöðum á meinglöndunum.

Heimildir:
-https://natkop.kopavogur.is/syningar/jardfraedi/landrek-flekaskil/
-https://is.wikibooks.org/wiki/Jar%C3%B0flekar
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=3811

Flekaskil

Flekaskilin um Ísland.