Tag Archive for: Kaldársel

Gjár

Þann 3. apríl 2009 var birt „AUGLÝSING um náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar„. Hvorki í auglýsingunni né í sérstakri, væntanlega rándýrri, nánast óþarfa skýrslu, um friðlýsingarsvæðið, er hvergi, af einhverri ástæðu, getið um fyrrum skógrækt og bústað og athafnir fólks í Gjánum á síðari árum. Sagan sú virðist ekki heldur hafa verið skráð í opinberar bækur bæjarins, þrátt fyrir fyrirliggjandi heimildir þar um. Sagan sú virðist því með öllu huld þeim er hingað til hafa viljað um þær fjalla.

Gjár

Gjár – loftmynd.

FERLIR lék forvitni á að vita nánar um framangreindar mannvistir í árþúsunda gamalli hrauntjörninni frá Búrfelli vestast í Gjánum. Þar má í dag m.a. sjá hlaðna garða, hleðslu við grunn flaggstangar, húsgrunn og leifar af bústað, auk myndarlegra trjáa, sem þar hafa verið gróðursett, vonandi til langrar framtíðar.

Helgi G. Þórðarson átti bústaðinn síðastur manna uns hann varð skemmdarvörgum að bráð um og í kringum 1980. Uppaflega mun Þórir Grani Baldursson, arkitekt, hafa byggt bústaðinn þarna í skjóli innan friðsældar Gjárinnar á árunum í kringum 1949 með samþykki bæjarráðs og staðfestingu bæjarstjórnar, líkt og gekk og gerðist með frumkvöðla skógræktarmanna í Sléttuhlíð á árunum 1925 og síðar.

Gjár

Gjár – garður.

Baldvin Jónsson? eignaðist bústaðinn um tíma uns Helgi og eiginkona hans, Thorgerd Elísa Mortensen, festu kaup á honum um 1974. Þau hjónin stunduðu m.a. skógrækt í nágrenninu, eða allt þangað til bústaðurinn var gereyðilagður í kringum 1980. Áður hafði hann nokkrum sinnum orðið fyrir barðinu á veiklynduðum skemmdarvörgum.
Bústaðasvæðið hafði verið afgirt, en skömmu fyrir friðlýsinguna 2009 höfðu bæjaryfirvöld fyrirskipað að girðingin skyldi fjarlægð. Eftir standa í dag girðingastaurarnir sem og hliðsstólparnir. Starfsfólki Skógræktarfélags Hafnarfjarðar hafði verið fyriskipað að fjarlægja netgirðinguna á stólpunum.

Gjár

Gjár – aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005-2024. Skástrikaði hlutinn er friðuð svæði. 

Að sögn afkomenda Helga hefur þeim verið fyrirmunað að endurreisa bústaðinn þrátt fyrir gildandi lóðasamning sem þeim er á hverju ári gert að greiða af lögbundin fasteignagjöld.
Þórir Grani (1901-1986) var þekkur arkitekt. Hann starfaði t.d. sem forstöðumaður hjá Teiknistofu landbúnaðarins 1938-1969, teiknaði fjölmargar opinberar byggingar; héraðsskóla, kaupfélagshús, samkomuhús og verksmiðjuhús víða um landið. Hann var frumkvöðull í gerð húsa með stíl fúnksjónalisma. Hins vegar er hvergi getið um hið lítillátlega athvarf hans í Gjánum.

Helgi G. Þórðarson

Helgi G. Þórðarson (1929-2003).

Nefnds Baldvins virðist hvergi vera getið í tengslum við þennan tiltekna bústað.
Á kortum danska herforingaráðsins frá 1903 til 1974 er á tímabilinu skráð örnefnið „Skátaskáli“ í Gjánum. Hingað til hefur ekki verið hægt að rekja uppruna þessa „örnefnisins“.
Helgi G. Þórðarson var í Skátafélaginu á Ísafirði, þá 18 ára. Á aðalfundi þess árið 1948 mátti t.d. lesa eftirfarandi: „Aðalfundur félagsins var haldinn í Alþýðuhúsinu 7. okt. Ritari var kosinn Magnús Baldvinsson, gjaldkeri Helgi G. Þórðarson og skálavörður Kristján Arngrímsson. Á fundinum var samþykkt, að félagið segði sig úr íþróttasambandi Íslands. Var þetta gert með hliðsjón af ályktun, sem gerð var á aðalfundi B.I.S. 1944, þar sem þess er óskað, að skátafélögin taki ekki þátt i opinberum kappmótum.
1. október hyrjaði félagið á að halda regluleg varðeldakvöld eða skemmtifundi með Valkyrjum, og var fyrsti varðeldurinn haldinn í Alþýðuhúsinu 14. október. Tókst þessi varðeldur mjög vel, og hafa slíkir varðeldar verið haldnir mánaðarlega síðan. Þá byrjaði félagið einnig að gefa út fjölritað innanfélagsblað, sem nefnt var Varðeldar, og var Helgi G. Þórðarson ritstjóri þess.“

Gjár

Gjár – skógrækt.

Þess er og getið í heimildum að Helgi hafi verið ötull skógræktarmaður í upplandi Hafnarfjarðar.
Í Morgunblaðinu 2003 er minningargrein um Helga. Þar segir m.a.: „Helgi kvæntist Thorgerd Elísu Mortensen frá Frodby á Suðurey í Færeyjum, hjúkrunarfræðingi 1929. Hún er dóttir Daniel Mohr Mortensen kóngsbónda þar.
Börn Helga og Thorgerdar eru Þórður, Daníel og Hallur, allt fyrrum skátar með þeim formerkjum „skáti – ávallt skáti“).

Gjár

Gjár – herforingjaráðskortið 1967. „Skátabústaður“ var ekki til á eldri kortum ráðsins.

Helgi ólst upp hjá foreldrum sínum í Ögurvík við alla almenna vinnu útvegsmanna eins og hún gerðist á fjórða og fimmta tug síðustu aldar. Þar gekk hann í barnaskóla og síðar í Héraðsskólann í Reykjanesi við Djúp. Hús foreldra hans brann 1943 og fluttist fjölskyldan ári seinna út á Ísafjörð og þremur árum seinna til Reykjavíkur. Helgi lauk gagnfræðaprófi frá gagnfræðaskólanum á Ísafirði 1945 og landsprófi 1946, stúdentsprófi frá MR 1950, fyrrihlutaprófi í verkfræði frá HÍ 1954 og M.Sc.prófi í verkfræði frá DTH í Kaupmannahöfn 1958.

Gjár

Gjár – leifar bústaðar Helga.

Í dag (2025) mæta aðkomufólki á vettvangi annars vegar sorglegar leifar sögu bústaðarins og hins vegar blómstrandi afurð skógræktarinnar.
Skv. framangreindu má sjá að yfrið hefur verið nóg að gera hjá Helga og Elísu samfara slitdróttri dvölinni í Gjánum, enda tala vanrækt verksummerkin þar í dag sínu máli. Hafnarfjarðarskátarnir höfðu sóst eftir að kaupa (aðrir segja að yfirtaka) bústaðinn undir það síðasta, en úr varð  því skiljnlega ekki eftir eyðilegginguna. Skátarnir höfðu þá um þann mund þann draum að byggja skála í Helgadal. Bæjaryfirvöld komu í veg fyrir slíkar hugmyndir, líkt og svo margar aðrar annars góðar, en enn í dag má þó þar sjá þar fyrrum undirstöðurnar undir „draumabústað“ þeirra.

Gjár

Gjár.

Skv. upplýsingum afkomenda Helga er þeim enn gert að greiða fasteignagjöld af „bústaðnum“ í Gjánum, þrátt fyrir að hafa verið meinað af hálfu bæjaryfirvalda að endurbyggja hann og nýta svæðið á upphaflegan hátt. Girt hafði t.d. verið umhverfis bústaðastæðið, en bæjaryfirvöld fengu starfsfólk Skógrækarfélags Hafnarfjarðar til að fjarlægja girðinguna, en girðingarstaurarnir standa þó enn. Svo virðist sem bæjaryfirvöld viti ekkert hvernig þau eigi að bregðast við þessu máli, hvorki laga- né skynsamlega.

Kaldársel

Gjár – herforingjaráðskort frá 1927 – hvergi minnst á „Skátaskála“.

Hið skondna er og að á umræddu athafnasvæðinu hafa í skrám Byggðasafns Hafnarfjarðar opinberlega verið skráðar sjö „fornleifar“ þrátt fyrir að slíkar minjar skv. gildandi Minjalögum verða að teljast a.m.k. eitt hundrað ára eða eldri til að geta talist til slíkra skráninga. Engar þessara tilteknu minja í fornleifaskráningunni uppfylla þau skilyrði!

Allir sem og öll er geta gefið nánari upplýsingar um mannvistirnar í Gjánum er velkomið að hafa samband við ferlir@ferlir.is

Sjá nánar um „Friðlýsingu Kaldárhrauns og GjárnaHÉR.

Gjár

Á þessu opinberlega auglýstu korti virðist bústaðasvæðið „Skátaskáli“, efst fyrir miðju (h.m. við O7), vera undanþegið friðlýsingunni!!??

Heimildir:
-Einhverjar 20 ára, 1. tbl. 29.02.1948.
-Morgunblaðið, 308 tbl. 13.11.2003, bls. 40.
-ust.is/library/sida/Nattura/Kald%c3%a1rhraun%20og%20Gj%c3%a1rnar
-ferlir.is/kaldarhraun-og-gjarnar-fridlysing/
Aðalskipulag Hafnarfjarðar 2005 – 2024

Lækjarbotnar

Þegar gengið er upp með læknum er kemur úr Lækjarbotnum má sjá hvar hann liðast með norðurjaðri Stekkjarhrauns og Gráhelluhrauns (Lækjarbotnahrauns). Við upptökin eru hleðslur undan timburhúsi, sem þar stóð um tíma á vatnsþró. Frá húsinu lá trépípa niður til bæjarins. Sjá má leifar hennar neðan við hleðslurnar. Skammt neðar er stíflumannvirki, steypt og hlaðið. Á skilti þarna stendur eftirfarandi:
Leifar vatnsstokksins frá Kaldá„Fram til 1904 var engin vatnsveita í Hafnarfirði en það ár stofnuðu nokkrir Hafnfirðingar „Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar“. Félagið stóð meðal annars fyrir því að grafnir voru brunnar á Jófríðarstaðarholtinu og þaðan lagðar vatnspípur vestur eftir bænum. Nokkur hús voru þá tengd veitunni en auk þess voru settir upp vatnspóstar bíða um bæinn, þangað sem bæjarbúar sóttu sitt neysluvatn. Þessi vatnsveita varð þó snemma ófullnægjandi auk þess sem hún náði aldrei til alls þorpsins og því þurfti að grípa til frekari aðgerðar.
Eftir að ljóst var að Vatnsveitan annaði ekki sívaxandi bæ ákvað bæjarstjórn Hafnarfjarðar árið 1909 að kaupa eignir hennar og leggja nýja vatnsveitu héðan ofan úr Lækjarbotnum. Þessi ákvörðun var tekin eftir athugun Erlends Zakaríassonar og Th. Krabbe landfræðings en það þótti mjög hentugur kostur að leiða vatnið frá Lækjarbotnum vegna hæðarmismunar sem er héðan og niður að bænum. Byggð var vatnsþró í Lækjarbotnum og lögð þriggja tommu aðfærsluæð til bæjarins. Vatnsveita þessi dugði vel í nokkur ár en þó þurfti að víkka leiðslurnar til að auka flutningsgetuna oftar en einu sinni.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stíflan.

Árið 1916 var svo komið að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki nægilega vatnsmikil fyrir bæinn. Árið eftir var brugðið á það ráð, samkvæmt tillögu Jóhannesar Reykdals og Jóns Ísleifssonar verkfræðings, að veita vatni úr Kaldá yfir á aðrennslusvæði Lækjarbotna. Var þá byggður 1.600 metra langur stokkur þar sem vatni var veitt úr Kaldá og sleppt niður í hraunið við suðurenda Sléttuhlíðar, um þremur kílómetrum sunnan lindarinnar. Vonuðust menn til að vatnsheld jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna og varð það úr.
Þessi lausn dugði um tíma en þó kom að því að betur þurfti að gera og hófust framkvæmdir á vatnsveitu frá Kaldárbotnum 1949 en vatnsmagnið þar er talið nægja bænum um ófyrirsjáanlega framtíð. Lauk því verki í júní 1951.“

Vatnspípan í Lækjarbotnum

Í Sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar segir m.a. um þessar framkvæmdir: „Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu.
Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.

Kaldársel

Kaldársel – undirstaðan undir vatnsleiðsluna.

Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – stíflan.

Þá  var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni. Undanfarin ár hefur verið nægilegt neysluvatn að fá í Hafnarfirði og talið að endurbætur á bæjarveitukerfinu hafi átt mestan þátt í því.“
Vatnspípan í Lækjarbotnum

Kaldársel

Í skrautgarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði eru sex aðskilin skilti með yfirskriftinni „Kaldársel í 100 ár„.

Fyrsta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1925-1945:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli reis fyrsti sumarbúðakálinn sem KFUMfélögin hér á landi eignuðust. Félögin byggðu húsið árið 1925 til sumardvalar fyrir börn og var það vígt 25. júní sama ár.
Jólel Friðrik Ingvarsson var mikill frumkvöðull í KFUK í Hafnarfirði og gegndi lykilhlutverki við stofnun sumarbúðanna í Kaldárseli. Hann fór með sér Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK í Reykjavík, í Kaldársel og í þeirri ferð fæddist sú hugmynd að þar væri gott fyrir KFUM að eiga bústað.

Kaldársel

Kaldársel 1926.

Náttúrfegurðin í Kaldárseli heillaði alla sem þangað komu. Nokkurra ára aðdragandi var að stofnun sumarbúðanna, þar sem félagar í KFUM báðu fyrir hugmyndinni og söfnuðu í skálasjóð.
Í Vísi árið 1929 lýsti Sigurbjörn Á Gíslason dagsferð í Kaldársel, meðal anars húsakynnum KFUM: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt [herbergi], þar eru 24 rúm. þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði“.

Annað skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1946-1965:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Börnin sem dvalið hafa í Kaldárseli í gegnum tíðina eiga þaðan fallegar minningar um fjölbreytt starf og skemmtilegan leik.
Gyða Gunnarsdóttir skrifaði eftirfarandi orð um sína fyrstu sumarbúðaferð í Kaldársel árið 1958 sem hófst á ferðalaginu þangað; „Það kom rúta á Hverfisgötuna í Hafnarfirði og stoppaði fyrir framan KFUM og K húsið. Við stelpurnar vorum að fara í Kaldársel, ég í fyrsta sinn í fjórar vikur og var aðeins sex ára. Árið 1958. Ég var spennt. Jafngaman að fara í rútu og það var að fara í strætó en núna var að hefjast ævintýri.

Kaldársel

Kaldársel – buslað í Kaldá.

Leiðin lá út Hverfisgötuna og upp Öldugötuna og upp fyrir bæinn. Þegar rútan lagði af stað vinkaði mamma, ég vinkaði á móti og fann strax fryir heimþrá sem svo gleymdist fljótt vegna alls þess sem beið mín og gerðist. Leiðin lá um hraunið fyrir ofan bæinn, framhjá Sléttuhlíð og svo niður brekkuna með klettum á báðar hliðar næstum eins og Alammangjá á Þingvöllum. Svo blasti litla hvíta húsið við, húsið við Kaldána við Kaldársel, þar sem við allar í rútunni ætluðum að dvelja næstu fjórar vikurnar….“

Þriðja skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1966-1985:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í viðtali við Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur matráðskonu í Kaldárseli við tímaritið Bjarma árið 1985 rifjaði hún upp gamla tíma í Selinu eins og flestir kölluðu Kaldársel í daglegu tali: „Eldað var á kolavél sem var um leið eina upphitunin í skálanum. […] Í þá daga voru börnin heilan mánuð í einu í Selinu og þegar þau áttu að fara í bað, eins og nauðsynlegt var, þurfti að hita allt vatn á kolavélinni. Oft bogaði af manni sveitinn við það starfs og eitt sinn var mér orðið svo heitt að ég skutlaði mér út í Kaldá á eftir.

Kaldársel

Kaldársel endurbætt.

Það gefur einnig hugmynd um starfið þá, að eitt af kvöldverkum ráðskonunnar var að hreinsa útikamrana og grafa í jörð það sem í föturnar hafði safnast um daginn. Nú eru aðstæður allar aðrar og munar þar kannski mest um breytinguna sem varð þegar byggt var við skálann og hann endurbættur [árið] 1967. Nú höfum við heitt vatn frá olíuhitun og gasvél er tekinvið af gömlu kolavélinni. Enn höfum við þó ekki fengið rafmagn“.

Fjórða skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1986-2005:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli fá börnin að heyra um Jesú og ýmsar sögur úr Biblíunni. Auk þess læra þau mörg vers og kristilega söngva. Þeir Guðmundur Vignir og Friðfinnur Freyr höfðu þetta að segja í Barnablaðinu árið 1989 þegar þeir voru spurðir að því hvað þeir höfðu helst lært af verunni í Kaldárseli: „Fyrst og fremst höfum við lært um Guð. Það er allatf verið að tala um Guð hérna. Okkur eru sagðar kristilegar sögur og venjulegar sögur sem við eigum að læra eitthvað af. T.d. höfum við lært að fyrirgefa og hvað það er nauðsynlegt að vera vinir, sagði Guðmundur.

Kaldársel

Drengir í Kaldárseli.

Það slettist þó stundum upp á vinskapinn, sagði Friðfinnur, en við leysum alltaf úr öllum hlutum og allir verða vinir aftur.“
Þrisvar sinnum var farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaðurinn bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júní 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum fyrir rafmagni og hita en fyrir það hafði ekki verið rafmagn í Kaldárseli. Um 250 börn dvöldust í sumarbúðunum það árið og voru þau 38 í einu þegar flokkurinn var fullskipaður“.

Fimmta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 2006-2025:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í 100 ára hafa börn komið í Kaldársel, þar hafa þau fengið dýrmæt tækifæri til að rækta líkama, sál og anda. Umhverfi Kaldársels spilar stórt hlutverk í dagskrá sumarbúðanna og leikjanámskeiðanna. Þar er fjöldi hella og ævintýralegra staða sem gaman er að skoða. Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir börnin allan daginn. Útileikir, sullað í ánni, búleikir og virki í hrauninu, hellaferðir, fjallganga, samverustundir, fræðsla, föndur, söngur og bænir svo eitthvað sé nefnt. Í Kaldárseli er leitast við að efla og styðja góð samskipti með uppbyggilegri leiðsögn og kristnifræðslu.

Kaldársel

Stúlkur í Kaldárseli.

Ásamt sumarbúðunum hefur Vinasetrið bæst við í starfsemi Kaldársels og er það starfrækt um helgar allan ársins hring. Tilgangur og markmið Vinasetursins er að veita börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á þéttu stuðningsneti frá fagfólki að halda athvarf og stuðning. Unnið er af heilhug eftir þeirri hugsjón að hvert barn er einstakt og á skilið það allra besta.
Kaldársel hefur verið til staðar fyrir börnin okkar í 100 ár“.

Sjötta skiltið fjallar um Benedikt Arnkelsson og Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Benedkit forstöðumaður, alltaf kallaður Benni, starfaði í Kaldárseli í rúmlega 45 sumur og lengur ef talin eru sumur þar sem hann kom til aðstoðar í tyttri tíma. Hann var trúr sinni köllun af vera innanlandskristniboði. Hann hafði fastar skorður á hlutunum og náði vel til barnanna.
Sigrún Sumarrós, alltaf kölluð Rúna, var matráðskoma í Kaldárseli í um það bil 50 sumur. Eldhúsið var hjarta Kaldársels og Rúna sá til þess að hjartað sló traustum takti. Rúnu féll aldrei verk úr hendi og naut hún sín hvergi betur en í skarkala og hlátrasköllum barnanna.
Í sameiningu stýrðu Benni og Rúna sumarbúðunum í Kaldárseli með styrkri hendi og hlýju. Vitnisburðir óteljandi barna, sem nú eru löngu orðin fullorðin, segja að þau hafi gengið þeim í föður- og móðurstað meðan á dvöl þeirra stóð í Selinu góða“.

Heimild:
-Skilti í Hellisgerði í Hafnarfirði árið 2025.

Hellisgerði

Hellisgerði 2025.

Kaldársel

Við affall Kaldár í Kaldárbotnum er skilti; „Kaldárssel í 100 ár (1925-2025)„. Á því er eftirfarandi upplýsingar:

Kaldársel

Kaldársel – skilti.

„Sumarbúðirnar í Kaldárseli eiga sér fallega sögu sem spannar rúma öld. Eftir messu í Bessastaðakirkju á annan hvítasunnudag 1921 var haldinn KFUM-fundur þar sem stofnaður var sumarbústaðarsjóður. Félagsmenn úr Hafnarfirði lögðu þá fram 100 krónur í sjóðinn og tveir ungir piltar bættu við 5 krónum hvor. Eftir þetta tóku fleiri félagar þátt og ákváðu að hittast mánaðarlega til bæna og framlag til sjóðsins.

Kaldárssel

Kaldársel – unnið við stækkun fyrsta skálans 1945.

Árið 1925 hafði sjóðurinn vaxið í nær 400 krónur og þá hófust framkvæmdir. Hafnarfjarðarbær gaf félaginu leyfi til að nota svæðið í kringum gamla Kaldárselið með skilyrði um að það yrði eingöngu fyrir starfsemi KFUM. Hafist var handa við að ryðja veg frá kirkjugarðinum fyrir ofan Hafnarfjörð upp að hraunhálsi vestan við selið og flytja þannig byggingarefni á svæðið með hjálp velviljaðra eigenda flutningabíla.

Frá enda vegarins þurfti að bera efnið um 1,5 km leið yfir hálsinn að byggingarstaðnum. Sjálfboðaliðar komu saman í hvassviðri og rigningu seint í maí og kláruðu verkið af miklum dugnaði.

Kaldársel

Kaldársel á fyrstu starfsárum sumarbúðanna Selið sést h.m. við skálann, þá komið með yfirbyggt ris.

Skálinn var vígður 25. júní 1925. Hann var þá 14 álnir á lengd og 10 á breidd, með svefn- og borðsal, eldhúsi og litlu herbergi. Skáladyrnar snéru í suður að Kaldá sem hverfur svo ofan í hraunið. Við skálann var reist fánastöng þar sem íslenski fáninn blakti þegar fólk var í Selinu.

Tuttugu árum síðar var byggt við skálann vestan megin og hann tvöfaldaður að stærð. Vinsældir sumarbúðanna jukust í sífellu og var því aftur hafist handa við stækkun skálans sem lauk árið 1967.

Kaldársel

Kaldársel – Börn að leik í Kaldá.

Enn var ekkert rafmagn á staðnum á þessum árum en búið var að skipta út gömlu kolaeldavélinni sem áður sá skálanum fyrir hita, í stað hennar var komin gasvél og heitt vatn frá olíuhtun. Allt í allt var þrisvar sinnum farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaður bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júni 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum loks fyrir rafmagni og hita.

Í heila öld hafa börn átt þess kost að dvelja í sumarbúðunum í Kaldárseli, þar sem þau hafa fengið tækifæri til að auðga andann og leika sér.

Kaldársel

Kaldárssel 2025.

Náttúran í kring með hrauni, árfarvegi, hellum og fjöllum, hefur alltaf verið órjúfanlegur hluti af dagskránni. Áhersla hefur verið lögð á jákvæð samskipti og kristnifræðslu. Frá árinu 2017 hefur Vinasetrið verið hluti af starfinu en það er helgardvöl fyrir börn sem þurfa séstakan stuðning. Þar hefur verið unnið út frá þeirri hugsjón að hvert barn sé einstakt og eigi skilið kærleika og umhyggju líkt og hefur einnig verið leiðarljós í starfi sumarbúðanna í Kaldárseli.“

Hafnfirðingar hafa jafnan notið þess að koma að Kaldárseli, en viðmót staðarhaldara hefur því miður breyst til hins verra síðustu árin. Það skýrir líklega staðsetningu skiltisins að hluta, þ.e. við affall Kaldár en ekki í nánd við sjálft Kaldársel.

Kaldársel

Kaldárssel – skilti.

Kaðalhellir

Gengið var með Þórarni Björnsyni, hellamanni, í Kaðalhelli norðvestan Kaldársels, og í Hreiðrið þar skammt frá. Þórarinn lék sér í Kaðalhelli ásamt ungum mönnum í Kaldárseli, en síðar fann hann Hreiðrið, sem mun vera einstakt í sinni röð. Hann var eini maðurinn, sem fram að þessu hafði litið innvolsið augum.

Kaðalhellir

Kaðalhellir.

Kaðalhellir er í háum hraunkanti. Hann er í rauninni hluti af Gjánum svonefndu norðnorðvestan Kaldársels. Í þeim eru hrauntraðir og ná þær út fyrir Gjárnar. Kaðalhellir er að hluta til opin og lokuð hraunrás og að hluta til sprunga í hraunjarðrinum. Hann er tvískiptur. Efri hlutinn er á tveimur hæðum. Til að komast upp í efri hluta rásarinnar þarf aðstoð kaðals. Hún nær spölkorn inn undir hraunið, en mesta rýmið er fremst. Neðri hluti rásarinnar er greinilega safnþró frá efri hlutanum.
Skammt vestan við rásina er hægt að fara niður um sprungu. Þá er komið niður í helli, sem með jökulgólfi allan ársins hring. Vatnsdropar úr loftinu hafa holað klakann og mynda sérstakt mynstur. Umhverfið er mjög myndrænt.

Hreiðrið

Hreiðrið – op.

Nokkru vestar er Hreiðrið. Opið er á berangri og því mjög erfitt að finna það. Fara þarf niður um loftið og liggur þá rás til norðurs og suðurs. Af ummmerkjum að dæma undir opinu hafði ekki verið farið þarna niður um alllangan tíma. Rásin til norðurs lokast fljótlega, en hægt er að fylgja rásinni til suðurs með því að skríða á fjórum fótum. Botninn er mjög grófur. Eftir u.þ.b. 30 metra skrið er komið að svæði þar sem sjá má víða inn undir hraunið. Á þessu svæði eru falleg og misstór hraunegg, dökkbrún að lit. Um er að ræða gasbólur, sem hafa storknað, en ekki náð að sprynga. Eggin eru misstór, allt frá títuprjónshausum upp í hænueggsstærð. Svo virðist sem þetta jarðfræðifyrirbæri sé einungis á litlu svæði. Fara þarf mjög varlega þarna um til að valda ekki skemmdum. Þegar komið var inn í Hreiðrið var auðvelt að skilja hvers vegna ástæða hefur verið til að halda staðnum leyndum.
Frábært veður – reynar kemur veður ekkert við sögu inni í hellum – en hvað um það. Fljótlega verður farið á ný í Hreiðrið og það myndað, ásamt Kaðalhelli.

Hreiðrið

Í Hreiðrinu.

Helgafell

Guðmundur Kjartansson fjallar um Búrfellshraun og tilurð Gjánna norðan Kaldársels í Náttúrufræðingnum árið 1973:
Búrfellshraun„Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Hafnarfjarðarlækur, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“.
Heimamönnum í Hafnarfirði er tamast að kalla hraunið fyrir vestan læk bara Hraunið, aðrir nefna það Hafnarfjarðarhraun. En þetta er aðeins hluti af allvíðáttumiklu hrauni. Aðrir hlutar þess heita hver sínu nafni, t. d. Garðahraun og Gálgahraun norðvestur og norður frá Hafnarfirði, en í gagnstæða átt er Vífilsstaðahraun, Urriðakotshraun, Gráhelluhraun og Smyrlabúðarhraun.
BúrfellshraunAllt er þetta eitt og sama hraunflóð að uppruna, og runnið í einu eldgosi úr Búrfellsgíg, 71/2 km suðaustur frá miðbænum í Hafnarfirði. Hér verður það í heild kallað Búrfellshraun. Það er allt innan marka Garðahrepps og Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Heildarnafnið Búrfellshraun, um allt það hraun sem frá Búrfelli er runnið, komst fyrst á prent í ritgerð um jarðfræði þessa svæðis eftir ]ón Jónsson (1965) og öðru sinni í grein eftir Eystein Tryggvason (1968). Þetta nýnefni er vel til fundið og einkar hentugt. En á það ber að líta sem jarðfræðilegt hugtak, og það má með engu móti útrýma gömlum og grónum örnefnum.
Vegna halla landsins hefur hraunið úr Búrfellsgíg sama sem ekkert runnið til norðurs og norðausturs. Það hefur einnig komist mjög skammt suðaustur og suður, í mesta lagi að rótum móbergsfellanna Húsafells, Valahnúka og Kaldárhnúka.

Lambagjá

Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.

En á þessa hlið er nokkur óvissa um legu hraunjaðarsins, eins og síðar verður að vikið. Í vestri hverfur Búrfellshraunið undir yngri hraun aðeins 1—2 km frá upptökum, og rennur þar Kaldá á hraunmótunum.

Kaldársel

Borgarstandur – fjárborg.

Hraunin fyrir sunnan Kaldá eru mjög ungleg að sjá. Eitt þeirra, hraun úr Óbrinnishólum, er samkv. C14-aldursgreiningu, sem Jón Jónsson hefur nú fyrir skemmstu fengið gerða á koluðum jurtaleifum undir því, aðeins um 2200 ára. Hið allra yngsta, Kapelluhraun, sem álverið við Straumsvík stendur á, er vafalítið runnið eftir landnám (Guðm. Kj. 1952). Fyrir neðan (vestan) Kaldársel er nokkur brekka fram af Búrfellshrauni niður að ánni. Sú brekka líkist grunsamlega hraunbrún og gefur með því í skyn, að Búrfellshraunið nái ekki að neinu ráði inn undir yngri hraunin, heldur hafi þau staðnæmst þarna við jaðar þess.

Lambagjá

Lambagjá – hleðsla undir vatnsleiðslu.

En þetta er engan veginn einhlítur hraunjaðar. Hitt kemur einnig til mála, að Búrfellshraun nái langar leiðir vestur og síðan norðvestur sunnan við Stórhöfða, Hamranes, Grímsnes og Hvaleyrarholt, og jafnvel allt til sjávar á Hvaleyrarsandi, en sé nú á þessum kafla víðast grafið undir yngri hraununum.

Auk Búrfellsgjár eru talsverðar leifar eftir af annarri hrauntröð í Búrfellshrauni. Sú liggur í hlykkjum með meginstefnu nálægt vestri skammt norðan við Kaldárrétt og Kaldársel.

Kaldársel

Borgarstandur – misgengi.

Hún hefur bersýnilega myndast fyrr í Búrfellsgosinu en Búrfellsgjá, og af þeim sökum eru nú aðeins slitrur eftir af henni. Annars staðar hefur hún fyllst aftur af hrauni síðar í gosinu. Þessi hrauntröð verður víst að teljast nafnlaus, og er það illa farið. Hún hefur stundum — út úr vandræðum, eða af misskilningi — verið nefnd „Gullkistugjá“, en það er gamalt örnefni í nágrenninu og á við raunverulega gjá (sprungu) í allt öðru hrauni, suður frá Helgafelli.

Kaldársel

Fjárskjól.

Gísli Sigurðsson, varðstjóri í Hafnarfirði, sem hefur af mikilli natni og kunnleika skráð örnefni á þessum slóðum, kveðst einnig hafa heyrt hrauntröðina hjá Kaldárseli kallaða Lambagjá, en telur það nafn naumast viðurkennt af kunnugum mönnum. En eitthvað verður „gjáin“ að heita, og af framangreindum óviðurkenndum nöfnum er „Lambagjá“ heppilegast.

Um þvera Lambagjá liggur garður einn mikill og vel hlaðinn. Hlutverk hans liggur engan veginn í augum uppi ókunnugum manni. Hann var undirstaða undir vatnsveitu úr Kaldá yfir á vatnasvið Hafnarfjarðarlækjar, en síðarnefnt vatnsfall knúði hreyflana í raforkustöð Hafnarfjarðar á fyrstu áratugum þessarar aldar. Vatninu var veitt í opinni rennu, timburstokk, sem sums staðar varð að hlaða undir en annars staðar að grafa nokkuð niður, svo að alls staðar yrði vatnshalli í rétta átt. Vatninu var sleppt niður í hraunið fjarri upptökum lækjarins, en mun allt hafa skilað sér þangað.

Gjár

Gjár.

Það virðist skilyrði fyrir langlífi hrauntraðar, að hraunáin, sem myndar hana, hverri nokkuð snögglega. En tilefni þess getur verið tvenns konar, annaðhvort það, að hraungosið hættir snögglega, eða hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.

Gjárnar eru fornt hrauntjarnarstæði. Barmar hennar voru storknar skarir að glóandi kvikunni, en tjörnin hefur haft frárennsli neðanjarðar um æðar í nýstorknuðu hrauninu og lækkað í henni áður en hún storknaði í botn.

Gjár

Gjár.

Einsætt virðist, að hraunið sem rann til suðurs frá Búrfellsgíg hafi breiðst fast að rótum móbergshæðanna Valahnúka og Kaldárhnúka, þá verða nú mörk þess ekki rakin þar nákvæmlega svo að víst sé. Svo stendur á því, að vestur með þessum hæðum hefur runnið hraun af þessum uppruna. Það liggur þvert vestur yfir Helgadal og allt til Kaldár og Lambagjár, og hefur átt þátt í að fylla upp þá hrauntröð ofanverða. Þetta er flatt helluhraun og jaðar þess, þar sem það liggur ofan á Búrfellshrauninu, víða mjög hitt, að hraunrennslið fer allt í einu í annan farveg.

Gjár

Gjár.

Meðan enn hélst allmikið hraungos og kvikan beljaði út um skarðið í vesturbarm gígsins tif Búrfellsgjár, brast gat á suðurvegg hans niðri við rætur. Hrauntjörnin, sem fram til þessa hafði fyllt gíginn upp á barma, fékk þar nýja útrás, sem var fáeinum tugum metra lægri en hin fyrri. Yfirborð tjarnarinnar lækkaði að sama skapi, og síðan rann aldrei hraun til Búrfellsgjár né annars staðar yfir gígbarminn. Hraunáin var þar með stemmd að ósi. Kvikan, sem þar var fyrir, rann af afli burt undan hallanum, uns „gjáin“ tæmdist smám saman að meira eða minna leyti.

Gjár

Gjár – garður.

Mikið misgengi liggur um austanverðar Gjár. Jón Jónsson (1965) nefnir hana Hjallamisgengið, og er það réttnefni, því að Hjallarnir sunnan og austan við Vífilsstaðahlíð eru sjálfur misgengisstallurinn þar sem hann er hæstur.

Frá suðurenda Vífilsstaðahlíðar heldur Hjallamisgengið áfram með lítið eitt suðlægri stefnu þvert yfir Búrfellshraun og kemur að Kaldá laust vestan við Kaldársel.

Hjallar

Hjallar – misgengi.

Misgengið er glöggt alla þessa leið, en stallurinn er miklu lægri í Búrfellshrauni en í Hjallagrágrýtinu. Í ungu hraununum sunnan við Kaldá vottar ekkert fyrir misgenginu, allt þangað til kemur að Sauðabrekkugjá í Hrútargjárdyngjuhrauni í vestri.

Búrfellshraun rann um tíma í tveimur kvíslum norðvestur yfir misgengisbrúnina, annarri hjá Gjáarrétt og hinni vestur af Kaldárseli. Það er einsætt, að syðri kvíslin, sem hér verður til bráðabirgða kölluð „Kaldárhraun“, rann fyrr í gosinu.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá – hrauntjörn.

Í henni er Lambagjá, leifar hrauntraðar, sem fylltist að mestu er á leið gosið. Ætla má, að sú kvísl hafi lagt leið sína um lægsta skarð, sem þá var í misgengisbrúninni. Þessi hraunálma stefnir litlu vestar en norður á leið sinni milli Fremstahöfða og Miðhöfða að vestan og Sléttuhlíðar að austan, en hverfur þar undir Gráhelluhraun, sem er kvísl úr nyrðri hraunálmunni, runninni síðar í gosinu.“

Kaldá

Kaldá – farvegur árinnar fyrrum, áður en Búrfellshraunin runnu.

Sennilega hefur Kaldá, fyrir Búrfellshraunagosið, fyrrum runnið til norðurs og vesturs millum grágrýtishlíðanna vestan Vífilsstaða, í sjó nálægt Langeyri, en um stutt skeið vegna hraunskriðsins úr austri á gostímabilinu hefur hún runnið þá leið, sem „Kaldárhraun“ rann síðar, og hefur áin þá átt sér farveg ofanjarðar um hraunlausan dal, þar sem nú liggja „Kaldárhraun“ og Gráhelluhraun, eitt affalla Gjánna, alla leið í botn Hafnarfjarðar.
Eftir að gosinu lauk leitaði Kaldá sér nýjan farveg, líkt og ár gera, niður með vesturkanti Búrfellshraunsins (Kaldárshrauns), alla leið til sjávar austan Hvaleyrarhöfða. Seinni tíma hraungos, s.s. í Óbrinnishólum, í Bollum og í Undirhlíðum þrýstu að ánni úr vestri svo hún neyddist til að hörfa af yfirborðinu og leita leiða neðanjarðar milli hraunlaganna, alla leið til sjávar á svæðinu millum Hvaleyrar og Straumsvíkur.

Vífilsstaðahellir

Vífilsstaðahellir.

Árni Hjartarson fjallar um Búrfellshraun og Maríuhella í Náttúrufræðingnum 2009. Hann leggur reyndar of mikla áherslu á hellamyndunina og heiti einstakra hella, sem reyndar er villandi í ljósi sögunnar. En hvað um það; vel má una við hluta umfjöllunarinnar: „Búrfellsgígur og misgengin tilheyra eldstöðvakerfi Trölladyngju á Reykjanes[skaga]i. Gossögunni má skipta í fjóra þætti eða lotur og í hverri hrinu runnu ólíkar hrauntungur frá gígnum.

I. Straumsvíkurlota. Í upphafi goss rann hraunið niður í sigdalinn og eftir honum til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum. Þar hefur það sveigt til vesturs og síðan til norðvesturs hjá Stórhöfða og runnið til sjávar í Straumsvík og þar í grennd. Nær allur sá hraunstraumur er nú hulinn yngri hraunum, en komið hefur í ljós að Búrfellshraun leynist þar undir. Við boranir hjá nýrri skolphreinsistöð við ströndina austur af Álverinu í Straumsvík sást að hraunið er þar að finna. Yfirborð þess er á 15,5 m dýpi í borholunni, eða 8 m undir sjávarmáli.

Lambagjá

Lambagjá.

II. Lambagjárlota. Næsti kafli í gossögunni hófst þegar hraunið hafði hlaðið vel undir sig og komst yfir misgengisþröskuld við Kaldá. Þá gat það farið að renna niður með Ásfjalli og hefur hugsanlega náð til sjávar utan við Hamarinn í Hafnarfirði.
Ystu tungur hraunsins þar eru nú huldar yngri hrauntungum sem runnu í þriðja kafla gossins. Á þessum tíma myndaðist Lambagjá, sem er hrauntröð við Kaldárbotna.

III. Urriðavatnslota. Þegar enn lengra leið á gosið fyllti hraunið sigdalinn neðan við Búrfell og komst yfir misgengisstalla við Smyrlabúð. Þá hætti það að flæða niður með Ásfjalli en rann þess í stað niður með Vífilsstaðahlíð, stíflaði uppi Urriðavatn og náði til sjávar bæði við Hafnarfjörð og í Arnarnesvogi.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þessa leið hefur hraunið runnið alllengi og þá hefur Búrfellsgjáin og hellarnir í tengslum við hana myndast og verið meginfarvegur hraunstraumsins frá gígnum.

IV. Goslok. Við goslok virðist hraunið hafa hætt að flæða um Búrfellsgjána og tekið að streyma um undirgöng til suðurs frá gígnum. Þar urðu til sérkennilegar hrauntjarnir sem tæmdust í goslok og mynduðu Kringlóttugjá.
Erfitt er að gera sér grein fyrir hversu lengi gosið stóð. Ekkert bendir þó til mikils gosofsa. Það er því líklegt að gosið hafi staðið alllengi, jafnvel í eitt til tvö ár.“

Búrfellshraun

1. Hleinar – Voru friðlýstir 2009. Fjöldi fornra búsetuminja. 2. Gálgahraun – Í friðlýsingarferli vegna jarðmyndana og lífríkis. 3. Stekkjarhraun – Friðlýst til að vernda útivistarsvæði í fögru hraunumhverfi. Athyglisvert gróðurlendi og sérstakar menningarminjar. 4. Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár – Verndað vegna jarðmyndana sem hafa vísinda, fræðslu og útivistargildi. Fornminjar má finna á svæðinu. 5. Garðahraun neðra – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningar minjar eru verndaðar. 6. Maríuhellar – Fyrrum fjárhellar og stærstu þekktu hellar innan höfuðborgarsvæðisins. 7. Garðahraun efra, Vífilsstaðahraun – Í friðlýsingarferli til að stofna fólkvang og útivistarsvæði í þéttbýli þar sem gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar eru verndaðar. 8. Kaldárhraun og Gjárnar – Verndaðar vegna helluhraunsmyndana og fagurra klettamyndana í vestari hrauntröðinni frá Búrfelli.

Á vef Umhverfisstofnunar má lesa eftirfarandi um friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjárnar, þ.m.t. Lambagjá: „Kaldárhraun og Gjárnar í Hafnarfirði voru friðlýst sem náttúruvætti árið 2009. Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.

Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.

Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur.
Stærð hins friðlýsta svæðis er 208,9 ha.“

Í auglýsingu um „náttúruvættið Kaldárhraun og Gjárnar í upplandi Hafnarfjarðar“ – nr. 396/2009 3. apríl 2009, segir: „Umhverfisráðherra hefur ákveðið að tillögu Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands og með samþykki bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar, sem landeiganda og sveitarstjórnar, að friðlýsa Kaldárhraun og Gjárnar, þ.e. Norðurgjá, Suðurgjá og Lambagjá, sem náttúruvætti, skv. 2. tölulið 53. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.
Kaldárhraun er heillegt og óraskað helluhraun á vinsælu útivistarsvæði við Helgafell, en upptök hraunsins eru í gígum austan við norðurenda Gvendarselshæðar.

Kaldársel

Borgarstandur – nátthagi.

Kaldárhraun er eitt síðasta dæmið um heillegt og óraskað helluhraun í landi Hafnarfjarðar og er fræðslu- og útivistargildi svæðisins metið hátt. Á svæðinu eru fornminjar sem tengjast selbúskap, m.a. gömul gata, Kaldárstígur. Stærð hins friðlýsta svæðis er 207,1 hektari.

Markmið með friðlýsingu Kaldárhrauns og Gjánna sem náttúruvættis er að vernda helluhraunsmyndun og fagrar klettamyndanir í vestari hrauntröðinni frá hinni kunnu eldstöð Búrfelli.“

Kaldársel

Borgarstandur – fjárskjól.

Gjárnar eru stórbrotin hrauntjörn, afurð Búrfellshrauns að sunnanverðu um Lambagjá, rúmlega 5000 ára gamalt. Þrátt fyrir að sá hluti hraunsins hafi runnið um forn misgengissvæði með tilheyrandi dölum og lægðum náði það, þrátt fyrir allt, smám saman allt til strandar.
Frá þeim tíma sem hraunið rann fyrir meira en fimm þúsund árum hefur orðið framhald á misgenginu, er gerir heildarsvip þess nær óþekkjanlega miðað við það hvernig það leit út í lok gossins. Bara misgengið í gegnum Búrfellsgjá, sem sker hana í sundur og aðskilur frá Selgjá, útskýrir vel breytingarnar.

Í Gjánum eru minjar. Í fornleifaskráningu fyrir svæðið er meint aðhald norðan undir Nyrstastapa skráð sem stekkur, en við skoðun á vettvangi var augljóslega um náttúrmyndun að ræða. Þarna eru tvær vörður og virðist önnur vísa á þokkalegt hraunskjól, væntanlega fyrir smala.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Í gjánum norðvestanverðum eru leifar sumarbústaðar og hlaðinn garður honum tengdum þvert yfir djúpan hraunbollar.
Skammt norðaustan við Gjárnar eru Kaldárselsfjárhellar með heykumli og suðaustan þeirra er leiðigarður vestan Borgarstands, skráður stekkur sem reyndar hefur verið notaður sem nátthagi, leifar fjárskjóls og fjárborg efra. Borgirnar voru reyndar tvær fyrrum, en við gerð vatnsleiðslunnar um Lambagjá var grjóið úr eystri borginni notað í hleðsluna.
Um norðanverðar Gjárnar lá hinn forni Kaldárstígur. Enn má sjá hann klappaðan í hraunhelluna á kafla og áfram yfir hraunsprungu suðvestan Borgarstand áleiðis að Kaldárseli.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, 4. tbl. 1973, Guðmundur Kjartansson, Aldur Búrfellshrauns við Hafnarfjörð, bls. 159-183.
-Náttúrufræðingurinn, 3.-4. tbl. 2009, Búrfellshraun og Maríuhellar, Árni Hjartarson, bls. 93-100.
-Fjarðarpósturinn, 40. tbl. 311.10.2013, Skilti um Búrfellshraun, bls. 4.

Kaldársel

Gjár – minjar.

Kaldársel

Farið var með Þórarni Björnssyni um Kaldársel, en hann er að vinna að bók um sögu staðarins.

 Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Þórarinn sýndi þátttakendum það sem hann hafði grafið upp um  staðinn og FERLIRsfólk sýndi honum annað, s.s. Gvendarsel undir Gvendarselshæð, fjárhellana norðan við Borgarstand, Nátthagann í Nátthaga, Þorsteinshelli vestan Selgjár o.fl. Þórarinn benti m.a. á letursteinana við Kaldá, en á nokkra þeirra eru klappaðar sálmatilvitnanir. Á einu er vísað í Davíðssálma þar sem segir að það tré, sem gróðursett er við lind og fær næga næringu, dafnar vel. Þetta mun hafa verið sett á steinana á 5. áratug 20. aldar af aðstandendum KFUMogK í Kaldárseli með vísan til megintilgangs sumarbúðanna á sínum tíma.
Kaðalhellir er þarna skammt norðvestar sem og Hreiðrið. Gamla gatan frá Kaldárseli til Hafnarfjarðar er mörkuð í klöppina á kafla sem og gamla gatan frá Kaldárseli til Krýsuvíkur.
Þetta var róleg ferð, en fróðleg. Nokkrir áhugasamir slógust í hópinn.
Veður var frábært.

Áletrun

Áletrun í Kaldárseli.

Kaldársel

Ætlunin var að ganga á Undirhlíðum til suðvesturs, framhjá Stóra-Skógarhvammi, um Móskarðshnúka, framhjá Markrakagili (Melrakkagili), upp á Háuhnúka (262 m.y.s.) og að Vatnsskarði þar sem gengið verður til baka um Breiðdal og Slysadali að upphafsstað.

Markrakagil

Þegar gengið er frá Bláfjallavegi (sunnan við námuna) er fyrst farið um lága melhæð og lágum hæðum síðan fylgt á ásnum. Gil eru í hlíðinni og verður Stóra-Skógarhvammsgil fyrst áberandi. Í Skógarhvammi er skógrækt Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Nú eru liðin u.þ.b. hálf öld síðan byrjað var að gróðursetja tré þarna í hlíðunum og hefur af hlotist hinn myndarlegasti skógur, líkt og í Ingvarslundi nokkru norðar með þeim. Utan í gíg neðan og skammt sunnan við Bláfjallaveginn vottar fyrir fornum hleðslum.
Þá var komið að svonefndum Móskarðshúkum. Hauhnukar-2Örnefnið hefur valdið ágreiningi í gegnum tíðina, en hvað sem því líður er þarna um að ræða bæði fallegar og tignarlegar móbergskletta-myndanir, sem verð er að gefa góðan gaum. Myndræn skál er í „Hnúkunum“ og ef gengið er umleikis þá má bæði sjá fallegar myndanir og góð skjól.
Áður en komið var upp á Háuhnúka; efstu hæðir Hlíðarinnar, má sjá steina á stökum móbergsstandi. Þar mun vera um að ræða landamerki Hafnarfjarðar (?) og Krýsuvíkur. Loks var komið á efsta Háahnúkinn. Þar er varða. Staðsetninguna má ráða af hinu fallegasta útsýni í allar áttir; einkum til suðurs og suðvesturs.

Markrakagil

Markrakagil.

Markrakagil er síðan á hægri hönd. Aðrar lýsingar segja Markrakagil og Vatnsskarð vera eitt og hið sama. Landamerki Hafnarfjarðar liggja um gilið og í beina línu í Markraka ofan við Dauðadali suðaustan við Helgafell. Mörkin eru reyndar óviss vegna þessa álitamáls, en samhengi er í nöfnunum á þessum tveimur stöðum. Markraki er eitt af mörgum nafngiftum refsins, melrakkans.
Þá var komið í Vatnsskarð. Ofan við það er varða; líklega hin fornu landamerki, en þarna munu landamerkin hafa legið fyrir aldarmótin 1900 (sjá herforingjakort frá 1919).
VatnsskardOfan í Melkrakagili (Vatnsskarðsgili?) er fallegur berggangur, einn sá fallegasti og aðgengilegasti á Reykjanesskaganum. Hann var barinn augum. Loks var Dalaleiðinni fylgt um Breiðdal og Slysadölum að upphafsstað. 

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1945 lýsir Ólafur Þorvaldsson svonefndri Dalaleið, þ.e. um fyrrnefnda dali að norðanverðu Kleifarvatni: „Áður en við yfirgefum þessar slóðir að fullu, skulum við nú, þegar við hverfum frá Krýsuvík að þessu sinni, fara leið, sem við höfum ekki áður farið. Þessi leið er hin svonefnda Vatns- eða Dalaleið. Nú vill svo til, að nokkur kafli hins nýja vegar frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur liggur með Kleifarvatni að vestan, svo að nú gefst fleiri mönnum kostur á að fara þessa leið en áður var.
Þessi leið mun ekki hafa talizt til höfuðleiða milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, enda sjaldan farin, og þá helzt á vetrum. Þó tel ég hana ekki með öllu ómerkilega, og ber fleira til en eitt. Það er þá fyrst, að þessi leið er stytzta og beinasta lestaleiðin milli Krísuvíkur og Hafnarfjarðar. Hún er greiðasta og hægasta leiðin. Hún liggur í sérkennilegu og fögru umhverfi. Hún var nokkrum annmörkum háð, — og hún gat verið hættuleg.“

Breiðdalur

Breiðdalur – Helgafell fjær.

Þegar komið var að endamörkum var rifjuð upp fyrr ferð um svæðið, líkt og sjá má á eftirfarandi texta: Gengið var frá Krýsuvíkurvegi ofan við Vatnsskarð um Breiðdal, Leirdal og Slysadali, haldið yfir á Skúlatún í Skúlatúnshrauni og síðan niður í Kaldársel framhjá Gvendarselshæðargíga og Kaldárhnúka.
Gengið var niður í sunnanverðan Breiðdalinn og áfram til norðausturs vestan Breiðdalshnúks. Norðan hans var beygt upp á holtin og haldið áfram á þeim til norðausturs, yfir í Leirdal. Þar er Leirdalsvatnsstæðið, annað af tveimur. Beygt var frá því og gengið að Leirdalshöfða og með honum niður í Slysadali. Dalirnir eru vel grónir. Í þeim norðanverðum er nokkuð er líkist tóftum, en Breiddalur-2gæti verið hvað sem er. Dalirnir virðast vera einn, en Bláfjallavegurinn sker nú dalina. Landið þarna er að mestu innan hinna fornu Almenningsskóga Álptaneshrepps, en Slysadalir eru innan lögsögu Hafnarfjarðar. Útlendur ferðamaður var að koma frá Krýsuv
ík á 19. öldinni, hafði farið um Hvammahraun og Fagradal að vetrarlagi. Hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur og ekki fyrir hesta. Vilpur voru í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð enginn.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Áður en komið var upp á þjóðveginn var beygt til austurs, yfir nokkrar klettasprungur. Í þeim óx fallegur burkni. Nokkur jarðföll eru þarna á svæðinu og í nokkrum þeirra litlir og lágir skútar.
Skúlatúnið blasti við í austri. Í Landnámu er tveggja jarða getið innan þess svæðis sem Garðabær nær til. Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarssonar, er sagður hafa búið á Skúlastöðum, en nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt. Eru munnmæli um að Skúalstaðir hafi verið þar sem Skúlastaðahraun er, sem er norðan við Lönguhlíðarhorn, innan Almenningsskóga Álftaneshrepps.

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Gengið var í átt að Skúlatúni. Að sumra áliti gæti þar hafa verið landnámsbær, en þó er það talið ólíklegt. Skúlatún er þúfótt graseyja í Tvíbollahrauni (Skúlatúnshrauni). Ekki skyldi þó efast fullkomlega eða útiloka með öllu að þar undir kynnu að leynast einhverjar minjar. Skúlatúnshraun (stundum einnig nefnt Hellnahraun eldra) er slétt helluhraun og er talið hafa runnið fyrir 2000 árum.
Tvíbollahraun eða Hellnahraun yngra eru frá því um 950. Það kom úr Brennisteinsfjallakerfinu, líklega frá Stórabolla í Grindaskörðum og stíflaði meðal annars Hvaleyrarvatn. Hraunið myndar ströndina milli Straumsvíkur og Hvaleyrarholts.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Gengið var norður hraunið, yfir Gullkistugjá og í beina stefnu að nyrsta hluta Gvendarselshæðargíga. Gígarnir eru tilkomumiklir og er hægt á gönguleiðinni norður með þeim austanverðum að lesa jarðfræði gíganna sem og svæðisins, auk tilkomu hraunsins, nokkuð vel, allt nema kannski aldurinn.
Gengið var niður með Kaldárhnúkum og niður að Kaldá, þar sem gangan endaði.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 3 mín.
breiddalur

Kaldársel

Gengið var frá Kaldárseli eftir Kúastíg, um Kýrskarð og Gvendarselshæðargíga, yfir Undirhlíðar, niður í Kerin og suður með vestanverðum Undirhlíðum. Litið var niður í dýpi Aðalholu og sigið niður í Aukaholu. Um er að ræða gamlar djúpar (17 m og 10 m) sprungugjár, sem nýrra hraun hefur runnið niður í og smurt veggi og lausagrjót, formað súlur og ýmis litbrigði. Bandspotti reyndist nauðsynlegur til að komast upp úr holunni.

Kerin

Kerin í Undirhlíðum – Helgafell fjær.

Undirhlíðarnar eru framhald af Sveifluhálsinum til norðurs, ef svo má segja. Nyrsti hluti þeirra að austanverðu nefnast Gvendarselshæðir og Gvendarselshæðargígar norðan þeirra. Þeir eru stórbrotnir þar sem þeir liggja á sprungurein austan með hæðinni og út frá henni til norðausturs.
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866 og lögðust þar með af í Álftaneshreppi og líkast til á öllu Reykjanesi. Eftir það var reynd búseta í Kaldárseli sem lagðist fljótlega af vegna rýrra landkosta.

Aukahola

Aukahola.

Við Kaldársel eru m.a. bæjarrústir, fjárhústóft og gerði sem eru friðlýstar fornminjar. Nær friðlýsingin einnig yfir hleðslu undir vatnsveitustokk sem lagður var frá Kaldárbonum áleiðis til Hafnarfjarðar 1917 – 1918. Var 1600 m löng trérenna látin flytja vatnið og því sleppt niður í Gráhelluhraun við Sléttuhlíð. Það rann síðan um 3 km neðanjarðar og kom upp í Lækjarbotninum við norðurenda hraunsins. Vatnsból Hafnfirðinga er nú við Kaldárbotna og er vatnasvæðið girt af þ.á.m. Helgidalur sem var áður vinsæll útivistastaður. Kaldá sprettur fram undar Kaldárhöfða og streymir um 1100 m leið ofanjarðar áður en hún hverfur ofan í gljúpt hraunið. Talið er að hún renni í sjó fram við Straumsvík og hraunin sunnan Hafnarfjarðar. Ofan við Karlársel eru Gjárnar, merkileg náttúrusmíð.

Sprungur

Vatnsból Hafnfirðinga í Kaldárbotnum.

Kaldárstraumur á upptök í sunnanverðum Bláfjöllum og Lönguhlíð. Hann streymir þaðan til norðvesturs um Húsfellsbruna og Heiðmörk. Grunnvatnsskil liggja frá Straumsvík og í vesturenda Lönguhlíðar. Berggrunnurinn er úr hraunum, grágrýti og móbergsmyndunum. Þótt hraunin þeki víðáttumilkil svæði á þessum slóðum liggja þau að mestu yfir grunnvatnsborði. Sprungur auka mjög vatnsleiðni og hafa afgerandi áhrif á grunnvatnsstreymið. Sprungurnar eru hluti af sprunguskara sem kenndur hefur verið við Krýsuvík. Þær beina grunnvatninu úr sunnanverðri Heiðmörk til suðvesturs í átt til Kaldárbotna.

Aðalhola

Aðalhola.

Athyglisvert er að fyrir vikið streymir grunnvatnið á þessum slóðum ekki hornrétt á grunnvatnshæðarlínur, eins og algengast er, heldur skálægt á þær. Straumþunginn fylgir því sprunguskaranum. Í Kaldárbotnum sést örlítið brot af því vatni sem þarna er á ferð. Meðalrennsli Kaldár skammt neðan upptakanna er 800 l/s samkvæmt mælingum í vatnshæðarmælinum vhm 124, en sveiflur eru miklar í rennslinu. Kaldá er einskonar yfirfall úr grunnvatnsstraumnum. Einum kílómetra neðar er hún öll horfin til grunnvatnsins á ný. Neðan við Undirhlíðar sveigir grunnvatnið út úr sprunguskaranum og flæðir um hraunin til norðvesturs uns það birtist í fjörulindum í Straumsvík og í Hraunsvík, en svo nefnist bugurinn milli Hvaleyrarholts og Straumsvíkur. Þar upp af ströndinni eru vatnsból Álversins. Sennilegt er að einungis minnihluti lindarennslisins komi í ljós í fjörulindum þegar lágt stendur í sjó en að meirihluti þess sé jafnan í flæðarmálinu sjálfu eða neðan þess. Kaldárstraumur er langmesti grunnvatnsstraumurinn á höfuðborgarsvæðinu. Stærð hans er áætluð 5 – 10 m³/s.
Gengið var frá Kaldárseli frá seltóftunum sunnan undir húsgafli KFUMogK. Kaldá rennur þar um hraunið neðanvert. Sunnan hennar eru áklappaðir letursteinar. Sólin baðaði bakkana og vatnið lét sér við klakana.

Aukahola

Í Aukaholu.

Fylgt var Kúsastígnum að Kaldárhnúkum nyrst á Undirhlíðum og þeim síðan fylgt til suðurs að Kýrskarði um skógræktina til suðurs með vestanverðum hlíðunum. Gengið var upp skarðið og upp að Gvendarselshæð. Gvendarselshæðargígar sáust þar norðar, en haldið var ofan og framhjá einum syðsta gígnum og áfram upp að hinu svonefnda Gvendarseli. Þar eru tóftir selstöðu, en hvort hún hafi verið brúkuð til lengri eða skemmri tíma er erfitt að álykta með því eina að horfa á tóftirnar.
Gengið var niður dal milli Undirhlíða og Gvendarselsgíga og var stefnan tekin að rafmagnsmastri fremst á brún Undirhlíða, að vestanverðu. Þar fyrir neðan eru Kerin, falleg náttúrufyrirbæri, hluti af gígaröð. Hægt er að gagna niður í nyrðri gíginn og um gat upp í þann syðri. Hann er kjörinn áningastaður, enda skjólgóður með afbrigðum. Ofan við barma hans vex ein stærsta villta birkihrísla á Reykjanesskaganum, ca. 5-6 m há. Hið ágætasta útsýni var frá Kerunum suðvestur að Keili og Grænudyngju með Fjallið eina í forgunni. Stighækkandi sólin baðaði hæstu fjallakollana.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur framundan.

Undirhlíðastígnum var fylgt til suðurs, yfir Bláfjallalveg og inn að Stóra-Skógarhvammi. Þar hefur átt sér stað mikil gróðursetning trjáplatna s.l. 40 ár á vegum Skógræktarfélags Hafnarfjarðar. Guðmundur Þórarinsson, kennari, var m.a. einn frumkvöðla þessarar gróðursetningar og er lundurinn í raun lifandi minnisvarði um þann ágæta , annars hlédrægna, heiðursmann.
Undirhlíðar eru hluti af vestra gosbelti landsins, sem liggur eftir endilöngu Reykjanesi noður í Langjökul, oft kallað Reykjanesgosbeltið. Helstu einkenni þess eru móbergshryggir með hraunþekju inn ámilli. Móbergshryggirnir hafa sennilega myndast á síðasta jökulsskeiði, sem stóð yfir í um 100.000 ár og lauk fyrir um 10.000 árum. Þeir hafa myndast við gos undir jöklum, þars em gosefni ná ekki að renna sem hraun heldur hlaðast þau upp nálægt gosstöðvum sem móbergsfjöll eða móbergshryggir, allt eftir lengd gossprungu.

Aðalhola

Í Aðalholu.

Undirhlíðar er dæmigerður móbergshryggur. Á hlýskeiðum renna gosefnin aðallega sem hraun er mynda breiður í dali og lægðir á milli gosbergsmyndana. Harun,s em myndast hafa eftir síðustu ísöld kallast nútímahraun og eru Kapelluhraun (rann 1151) og Skúlatúnshraun dæmi um slík hraun. Skúlatúnshraun er svonefnt dyngjuhraun, en dyngjuhraun eru í raun stafli af mjög þunnum hraunlögum.
Undirhlíðar eru móbergshryggur með bólstrabergskjarna, sem myndast hefur á ísöld, en síðustu ísöld lauk fyrir u.þ.b. 10.000 árum.
Bólstraberg er stundum nefnt kubbaber eða bögglaberg eftir stærð bólstranna.

Gvendarselshæð

Gvendarsel í Gvendarselshæð.

Fornleifakönnun var gerð árið 1998 og Dalaleið, sem liggur ofan Undirhlíða (Gvendarselshæðar) var könnuð árið 2003. Á svæðinu fundust sex fornleifar á þremur stöðum. Þær eru Gvendarsel (sel frá Görðum, fjórar rústir), óþekktar rústir í gíg vestan við Báfjallaveg og Undirhlíðarvegur, gömul þjóðleið, sem lá til Krýsuvíkur. Undirhlíðavegur er þegar spilltur á kafla þar sem Bláfjallavegur fer yfir hann. Dalaleiðin var forn þjóðleið er lá til Krýsuvíkur.
Vestan við Stóra-Skógarhvamm er alllöng sprunga á misgengi. Um er að ræða eldri sprungu í nýrra hrauni. Óbrennisbrunahraunið hefur runnið niður í gömlu gjána og myndað falleg litbrigði sem og formað hinar ýmsustu hraunmyndanir.
Óbrinnishólar er röð gígaraða í hæð sem stendur upp úr hraunhafinu um 700 metra vestan við Undirhlíðar og tæpum 2 km sunnan við Kaldársel. Hólaröðin sjálf er um 900 metrar á lengd. Hæsti gígurinn er um 44 metra hár yfir næsta umhverfi og 124 metrar yfir sjó.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Óbrinnishólar tilheyra Krísuvíkureldstöðvakerfinu. Talið er að um tvö gos hafi verið að ræða sem sést af gróðurleifum sem fundust milli gosmyndanna. Um fyrra gosið í Óbrinnishólum er lítið vitað eða hvenær það gaus, en frá því eru a.m.k. 3 gígir og virðist gosið hafa verið á sama stað þá og í því síðara. Hraun frá þessu gosi er nú hulið yngri gosmyndun. Það er aðeins á einum stað sem fundist hefur hraun frá fyrra gosinu og var það í sjálfum gíghólnum. Þetta hraun er frábrugðið hinu hrauninu að það inniheldur verulega meira ólivín. Síðara gosið hófst fyrir 1800 árum og voru nyrstu gosstöðvarnar í Óbrinnishólum. Hæðin sem Óbrinnishólar eru á er að mestu úr bólstrabergi og grágrýti. Eftir endilangri hæðinni er um 50 metra breiður sigdalur. Að vestan takmarkast hann af 4-6 m háu misgengi. Rétt austan við sigdalinn rísa gígarnir og stefnir röðin eins og dalurinn. Óbrinnishólahraun er undir Kapelluhrauni við Straumsvík.

Óbrinnishólar

Í Óbrinnishólahelli.

Eftir að kíkt hafði verið niður í Aðalholu, lítt árennilega, var haldið yfir að Aukaholu skammt sunnar með sprungunni.
Sigið var á böndum niður í hana. Fallegar hraunmyndanir eru niður í sprungunni og enn bættu grýlukertin og klakaseparnir á gólfum um betur. Hellirinn í holunni er á tveimur hæðum. Birta kemur og niður um stórt op sunnan við það sem farið var niður um.
Gengið var til baka um Óbrinnishólabruna með stefnu á Kaldársel. Víða sáust refa- og rjúnaspor, auk þess fjölmargar rjúpur sásust á flugi með hlíðunum.

Kaldársel

Áletrun við Kaldársel.

Garðar

Fjallað er m.a. um „Séra Markús Magnússon í Görðum á Álftanesi“ í Lesbók Morgunblaðsins árið 1992 og Alþýðublaðinu árið 1958. Í síðarnefndu skrifunum er getið um tengsl Markúar og mannvirkja í og við Kaldársel.

Í Lesbókinni segir:

Garðakirkja

Garðakirkja fyrrum.

„Næstan merkisklerka sem setið hafa í Görðum má telja Markús Magnússon (1748-1825) sem þjónaði Álftnesingum frá 1780 til æviloka. Hann hafnaði biskupsembætti á Hólum, en gegndi um skamma hríð biskupsdómi í Skálholti 1796-1797. Markús lét málefni er vörðuðu bættan þjóðarhag nokkuð til sín taka. Hann var m.a. einn af stofnendum Landsuppfræðingarfélagsins 1779 og hvatti samsveitunga sína mjög til jarðabóta og garðyrkju (Páll Eggert Olason, 1948-1952. HI-.47).
Nálægt hálfri annarri mílu frá Hafnarfirði beygðum við upp frá sjónum að litlu bæjarþorpi, sem heitir Garðar. Þar er prestsetur og kirkja en fáein kot umhverfis aðalbýlið.
Presturinn heitir Markús Magnússon. Hann er prófastur eða umsjónarmaður kirknanna í Gullbringusýslu. Auk heimakirkjunnar í Görðum þjónar nann einnig Bessastaðakirkju… . [P]restsetrinu [fylgir] stórt, grösugt land.
Við heilsuðum upp á síra Markús og sátum stundarkorn inni hjá honum. Hýbýlum hans verður ekki hrósað fyrir mikil þægindi, en hann hefir nærri lokið við að láta byggja sér nýjan bæ í grennd við hinn gamla, og þar fær hann miklu betri húsakynni. Hann á dálítið bókasafn, 100-150 bindi. (Henry Holland, 1960:71.)“

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi við Kaldársel. Myndin er tekin af Daniel Bruun 1898.

Í Alþýðublaðinu segir:
„Enn segir í Ferðabók Sveins: Hinn 1. nóvembermánaðar könnuðum við áðurnefndan helli, sem reyndist vera skapaður við jarðeld á sama hátt og Surtshellir, sem lýst er í Ferðabók Eggerts og Bjarna. Hellir þessi er svo fallegur, að hann á skilið sérstaka lýsingu, en dagurinn var svo stuttur, að við gátum eigi gert hana. Verður bún því að bíða betra tíma. Við fundum aðra hella ok könnuðum 40 faðma af einum þeirra, en vissum eigi, hversu langur hann var alls, því að við höfðum hvorki kerti né blys. Þarna í grenndinni hefur Markús prófastur í seli og hyggst einnig héðan í frá að hafa allt fé sitt þar á vetrum og láta tvo menn gæta þess þar. Í þessu skyni hefur hann látið bera þar saman 100 hesta hey, sem slegið er þar efra, svo að hægt sé að gefa fé, ef svo verður hart í ári, að tekur fyrir beit. Auk þessa hefur þessi dugnaðarbóndi látið gera nokkrar fjárborgir úr grjóti þar í grennd.

Kaldársel - fjárhellar

Fjárskjól og heykuml við Kaldársel – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta eru eins konar fjárhús, mönnum sínum, búmaður góður og ýtti mjög á eftir sóknarbændum sínum í garðrækt og jarðyrkju.“ Hann var í biskupsstað í eitt ár, en það voru fleiri Garðaprestar. Hann var beðirin að taka Hólastól árið 1787, en baðst undan; vildi heldur sitja í Görðum.
Varla er vafi á því, að selið, sem Sveinn Pálsson getur um, er Kaldársel, enda eru hinir mestu og fallegustu hellar þar í grennd. Er og ljóst af þessari frásögn, að Garðar hafa átt beitiland þar i kringum Helgafell og í Undirhlíðum, og sennilega allt upp í Grindaskörð. Hefur allt þetta víðáttumikla fjalllendi þá legið undir Garða.“

Að ofan má sjá að nefndur Markús hafi látið byggja bæði fjárborgirnar á Borgarstandi sem og hlaðið um fjárskjólin norðan hans, væntanlega í kringum aldarmótin 1800.

Sjá meira um Kaldársel HÉR.

Heimildir:
-Lesbók Morgunblaðsins, 21. desember 1992, Gísli Ragnarsson; Kirkjustaðurinn á Görðum, bls. 40.
-Alþýðublaðið 19. apríl 1958, Stefán Júlíusson; Garðar á Álftanesi, bls, 7.

Kaldársel

Heykuml við Kaldársel.