Færslur

Kapella

Kristján Eldjárn skrifaði um fornleifarannsóknir í Kapelluhrauni vestan Hafnarfjarðar og Kapellulág austan Grindavíkur í “Árbók hins íslenska fornleifafélags” árið 1955:

Kristján Eldjárn

Kristján Eldjárn.

“Á tveimur stöðum á Reykjanesskaga eru örnefni dregin af kapellu. Þau eru Kapelluhraun í landi Lambhaga í Garðahreppi og Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík. Báðum örnefnunum eru tengdar sagnir, sem snúast um mannvirki á stöðunum. Verður hér skýrt frá árangri rannsókna, sem gerðar hafa verið á þessum fyrirferðarlitlu en forvitnilegu mannaverkum.

Kapellan í Kapelluhrauni við Hafnarfjörð (fornleifarannsókn 1950)
Fyrir sunnan Hafnarfjörð er hraunfláki mikill, sem upptök á í gígaröð meðfram Undirhlíðum og hefur runnið þaðan allt norður í sjó. Hraun þetta heitir nú í daglegu tali Bruninn, nema neðsti eða nyrzti hluti þess heitir Kapelluhraun. Það er mjög úfið og lítt gróið apalhraun, og eru jarðfræðingar á einu máli um, að það hafi runnið eftir að land byggðist. Ráða þeir það af útliti og ástandi hraunsins, en auk þess er talið víst, að þetta sé hraun það, sem í gömlum heimildum er nefnt Nýjahraun.

Kapelluhraun

Kapellan í Kapelluhrauni – herforingjaráðskort 1903.

Í landamerkjaskrám er sagt, að mörkin milli Hvaleyrar og Straums séu í norðurbrún Nýjahrauns. Kjalnesinga saga, sem talin er rituð á 14. öld, nefnir og Nýjahraun, og í annálum er þess getið, að skip, er lét út úr Hvalfirði, hafi brotið við Nýjahraun fyrir utan Hafnarfjörð, og á þetta að hafa gerzt árið 1343. Nafnið Nýjahraun sýnir ótvírætt, að hraunið hefur runnið eftir landnámsöld, en heimildirnar, að það sé eldra en frá 1343.
Þegar Nýjahraun rann, hefur það orðið ófær farartálmi á leiðinni suður með sjó. Hefur eflaust þá þegar verið ruddur um það vegur sá, sem síðan var notaður, unz bílvegur var gerður.

Keflavíkurvegur

Hleðslur við gamla Suðurnesjaveginn gegnt Gerði ofan Péturskots, skammt vestan kapellunnar.

Gamli vegurinn var mikið mannvirki. Hann liggur þar sem skemmst er yfir hraunið (á ská yfir akveginn, sem nú er, 1955), mjög krókóttur, eins og slíkir hraunvegir eru, sem þurfa að þræða milli hárra hraunhóla og djúpra katla, en nóg er af hvoru tveggja í Kapelluhrauni. En vegurinn er sæmilega sléttur og breiður, enda mátti skeiðríða hann. Fast við veginn sjávarmegin, um miðju vegu milli hraunjaðra, er mannvirki, sem kallað er Kapellan, og dregur neðsti hluti hins gamla Nýjahrauns nafn af henni á síðustu tímum.

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni áður en Suðurnesjavegurinn kom til.

Ekki er mér kunnug eldri heimild um Kapelluna en sóknarlýsing séra Árna Helgasonar um Garðaprestakall frá 1842. Séra Árni segir svo: „Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rétt við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir þar séu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir hafi verið í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551, er ólíklegt þykir satt geti verið”.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er stutt frásögn um Kapelluhraun og Kapelluna, og er henni lýst þannig: „Hún er að norðanverðu við veginn, hlaðin upp af hellugrjóti í lögun eins og borg.
KapellaDyrnar hafa snúið móti suðri, en nú eru þær fullar af mold og mosa. Kapellan er og hærri að norðan en sunnan. Sagt er, að í Kapellunni sé grafinn einn af umboðsmönnum þeim, sem áður voru á Bessastöðum. Var honum gert umsátur þarna í hrauninu, drepinn þar og grafinn”. Þessi frásaga mun eiga rætur að rekja til séra Jóns Þórðarsonar á Auðkúlu.
Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir þannig frá Kapellunni: „Kapellutóftin í Kapelluhrauni, þar sem sagt er, að lík Kristjáns skrifara hafi verið náttsett, stendur enn að mestu. Raunar er hún nokkuð hrunin utan, einkum vesturgaflinn, og eru dyrnar hrundar saman. Innan er tóftin að öðru leyti hér um bil heil. Er hún hlaðin úr smáum, flötum hraunhellum. Hún er nálægt jöfn á lengd og breidd, ekki fullar fjórar álnir. Þakið er dottið ofan í tóftina. Það mun hafa verið hlaðið saman í topp, einnig úr hraunhellum”.
KapellaLoks má geta þess, að Bjarni Sæmundsson hermir þau munnmæli að í Kapellunni hafi verið dysjaður einn af mönnum Kristjáns skrifara. Kallar Bjarni mannvirkið grjótdys.

Hinn 21. maí 1950 var Kapellan rannsökuð, eftir því sem kostur var á. Auk mín unnu að rannsókninni Gísli Gestsson safnvörður, Jóhann Briem listmálari og dr. Jón Jóhannesson. Þegar við hófum rannsóknina, var húslag rústarinnar svo skýrt, að engum gat blandazt hugur um, að þarna hefði staðið hús og ekkert annað. Hið sama kemur berlega fram í lýsingum Brynjúlfs Jónssonar og þjóðsagnanna. Séra Árni Helgason kallar rústina hins vegar „upphlaðna grjóthrúgu“, og bendir það orðalag til þess, að hún hafi litið öðruvísi út á hans dögum, verið líkari hrúgu en hústóft.
KapellaHúslagið hefði eftir þessu átt að koma fram seinna við það, að einhver hefði rifið upp grjót innan úr tóftinni, enda þóttumst við sjá þess ótvíræð merki, að tekið hefði verið mikið grjót við austurgafl, bæði stærri steinar, sem oltið höfðu úr veggjum, og smásteinar úr gólfi, og hafði þessu grjóti verið varpað yfir í vesturendann. Lá þar dyngja mikil, og sá ekki fyrir dyrum eða dyrakömpum að vestan. Einhver hefur þannig grafið niður með austurgafli og alveg niður á gólf eða jafnvel niður úr gólfi, og líklega hefur þetta gerzt um miðja 19. öld, ef marka má orðalagsmun höfundanna, sem til var vitnað hér að framan. Við tíndum það sem eftir var af grjóti út úr tóftinni, og kom þá lögun hennar skýrt fram.

Jóhann Briem

Jóhann Briem.

Kapellutóftin snýr austur-vestur, þó ekki alveg eftir áttavita, heldur veit framstafninn ögn til suðvesturs. Hann er þó kallaður vesturhlið hér og aðrar hliðar eftir því. Tóftin er öll lögulega hlaðin úr hraunsteinum, og halda veggir sér furðu vel, einkum að innan. Lengdin er 2,40 m, breidd við vesturgafl 2,20 m, en við austurgafl 2,10, og má það í rauninni heita sama breidd austast og vestast. Hæð veggja að innan er 1,80 m við austurgafl, 1,20 í norðausturhorni, 1,35 í suðausturhorni, 0,95 í norðvesturhorni og 1,0 í suðvesturhorni.

Gísli Gestsson

Gísli Gestsson, safnvörður. tók fjölmargar myndir, en fáar eru tila f honum sjálfum. Hér er hann við kumlarannsóknir í Þjórsárdal.

Þar sem hægt er að mæla veggþykkt, er hún um 1,0 m. Á vesturgafli eru dyrnar, og eru dyrakampar meira hrundir en aðrir veggir, einkum þó syðri dyrakampur, en þó eru þeir mjög skýrir. Ekki grófum við alveg út úr dyrum, og var það gert í því skyni, að auðveldara væri að koma rústinni í samt lag eftir rannsóknina. Inn úr dyrum hússins voru flatar hraunhellur í gólfi, enda einnig lítils háttar í suðausturhorni, og virðist svo sem allt hafi gólfið verið flórað, en hellur að miklu leyti rifnar upp, þegar gert var rask það, er að framan getur. Á gólfinu sást töluvert af rauðbleikri ösku og viðarkolabútar í, einkum neðst. Miklu meira bar þó á öskunni en kolamolunum. Langmest var af öskunni í suðvesturhorni tóftarinnar. Í öskunni voru naglarnir og leirkerabrotin, sem talin verða hér á eftir, en þó strjálingur þessara hiuta um gólfið allt.

Kappella

Kapellan í Kapelluhrauni endurgerð.

Ekki tel ég auðið úr því að skera nú, hvort hús þetta hefur verið borghlaðið, eins og Brynjúlfur Jónsson telur. Fremur þykir mér það ólíklegt. Hornin eru að vísu bogadregin, en þó verður húsið að kallast greinilega ferhyrnt að lögun. Hins vegar hafa veggir allir verið hiaðnir í fullri hæð úr hraungrýti, einnig gaflar alveg upp úr, a. m. k. austurgafl með vissu og sennilega einnig vesturgafl. Þakið sjálft tel ég líklegt, að hafi verið uppreft og tyrft, þó að hugsanlegt sé, að það hafi að einhverju leyti verið gert af hraunhellum án þess að vera borghlaðið.

Kapella

Kapellan með friðlýsingaskilti framan við.

Eftir rannsóknina var reynt að ganga frá tóftinni sem líkastri því, sem hún var áður. Ég kom aftur að Kapellunni 26. nóv. 1955. Hún hafði farið vel að stöfnum eftir rannsóknina, ekki hrunið, en klæðzt mosa eðlilega. Hins vegar hefur umhverfi hennar stórum verið spillt við stórkostlega töku hraunsalla í vegi og húsgrunna. Hafnarfjarðarbær hefur keypt þennan hluta hraunsins. Á því friðlýsingarskjal Kapellunnar að vera í hans vörzlu, og hafa ráðstafanir verið gerðar til að koma því í rétt horf.
[Lambhagi (181125 167). Kapellutóft (181125 167-1) forn úr grjóti í Kapelluhrauni. Sbr. Árb. 1903: 34. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

KapellaÍ Kapellunni reyndust vera fjölskrúðugri mannvistarleifar en búizt var við að órannsökuðu máli. M.a. fannst mynd af heilagri Barböru, telgd úr grágulum leirsteini, aðeins efri hluti eða vel niður fyrir mitti, fannst í þremur hlutum, sem auðvelt var að fella saman. Myndin eða líkneskið er nú aðeins 3,3 sm á hæð, en hefur líklega verið um 5,5 sm heilt. Það er haglega telgt, andlitið nokkuð máð, hár mikið og hrokkið og nær niður á herðar og sveigur um yfir ennið. Barbara er í flegnum kjól, aðskornum í mitti, barmurinn hvelfdur, kjóllinn í miklum fellingum neðan beltis. Hún grípur hægri hendi i kjólinn, og sést, að hann er ermalangur. Skikkju slegna hefur hún yfir um axlir, og fellur hún með stórum, mjúkum fellingum á baki.

Kapella

Endurgerð stytta af heilagri Barböru í kapellunni.

Í vinstri hendi heldur Barbara á einkunn sinni, turninum, og hvílir hann við vinstri öxl og upp með vinstri vanga hennar. Turninn er ferstrendur með undirstöðu neðst, síðan nokkru grennri bol, þar sem tveir gluggar sjást, sinn á hvorri hlið, slær sér síðan aftur út líkt og neðst, en upp úr hefur loks verið toppur, sem nú er að miklu leyti brotinn af. Sýnilegt er, að einhvern tima hefur verið brugðið knífi á líkneskinu, sennilega til að kanna efnivið þess, eins og menn gera oft fyrir forvitni sakir. — Lítið brot úr sams konar eða mjög líkum steini fannst einnig í tóftinni skammt frá Barbörulíkneskinu. Það er tiltelgt og mætti vel vera úr neðri hluta myndarinnar, þótt ekki sé hægt að koma því í samhengi nú.

Kapellan

Kapellan – líklenski heilagrar Barböru endurgert.

Ekki virðist ástæða til að efa, að Barbörulíkneskið sé frá kaþólskum tíma, en ekki treysti ég mér til að tímasetja það nánar. Líkneskið sýnir þá, að húsrúst þessi mun vera síðan fyrir siðaskipti, því að óhugsandi virðist með öllu, að það hafi borizt í rústina á seinni öldum. Þá bendir og líkneskið eindregið til þess, að nafn rústarinnar segi rétt til um upphaflega notkun hússins. Það hefur að líkindum verið kapella, þar sem vegfarendur gátu staðnæmzt til að gera bæn sína.
Húsið hefur verið alveg við gamla veginn og vitað við áttum eins og kirkja. Mætti hugsa sér, að kapellan hafi verið reist þarna um leið og vegurinn var gerður yfir nýja hraunið, sem þvergirti fyrir leið manna suður með sjó. Eflaust hafa þau tíðindi þótt mikil og ill og ekki hættulaust að ryðja veginn og fara hraunið, meðan það var nýrunnið. Gat hætta sú og óhugnaður, sem hrauninu fylgdi, verið ástæða þess, að kapella var reist einmitt þarna. Stoðar þó að vísu lítt að gizka á slíkt, en hitt má vera því nær víst, að hús þetta hafi í raun og veru verið kapella, eins og nafn þess bendir til.

Kapella

Kapellan – misvísandi skilti frá mismunandi aðilum…

Líkneski Barböru er af þeirri tegund smálíkneskja, sem menn báru á sér sem verndargripi. Dýrkun heilagrar Barböru meyjar hefur sjálfsagt verið allmikil hér á landi eins og annars staðar. Þó var hún ekki nafndýrlingur neinnar kirkju hér á landi, en meðal verndardýrlinga tveggja, kirknanna í Reykholti og Haukadal. Barbörulíkneski áttu að minnsta kosti fjórar kirkjur, í Reykholti, Vestmannaeyjum, Holti í Saurbæ (Stórholti) og Möðruvöllum í Eyjafirði.
Myndir af Barböru hafa auk þessa auðvitað verið á mörgum kirkjugripum, svo sem altaristöflum og skrúða, og má nefna sem dæmi þess saumaða mynd á kórkápu Jóns Arasonar, Barbörumyndir á útskornum altaristöflum frá Reykholti og Síðumúla og á sjálfri stóru altaristöflunni í Hólakirkju, en fleira mætti sjálfsagt nefna. Barbörumyndin í Kapellunni er vitanlega ekki full sönnun þess, að rúst þessi hafi í raun og veru verið kapella á kaþólskum tíma. En hún bendir þó til þess, að menn hafi haft þar tilbeiðslu um hönd öðrum stöðum fremur.

kapella

Leirkersbrot, nagla og skeifubrot treysti ég mér ekki til að tímasetja, en ekkert er óeðlilegt að rekast á þetta dót þarna, þó aldrei nema húsið hafi verið kapella í pápísku. Líklega hefur það verið eins konar sæluhús öðrum þræði, menn hafa farið þar inn til að gera bæn sína, en einnig til þess að hvílast eða leita skjóls í vondu veðri, jafnvel til að matast. Þetta kann að hafa verið frá upphafi ellegar ekki fyrr en eftir siðaskipti, því að sennilega hefur húsið staðið a.m.k. fram á 17. öld. Krítarpípuleggurinn sýnir það. Þarna hafa menn verið á ferð eftir að tóbak komst í notkun hér á landi. Og eldur hefur verið gerður á gólfi til þess að orna sér við, sjóða mat eða hvort tveggja. En ekkert af þessu þarf að mæla því í gegn, að húsið hafi upprunalega verið bænahús vegfarenda á óhugnanlegum stað.

Kapella

Kapella á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Í ýmsum kristnum löndum eru enn til smákapellur, sem reistar hafa verið við vegi á miðöldum, ætlaðar vegfarendum til bænagerðar. Þá voru og stundum reistir krossar úti á víðavangi í sama skyni. Slíkur hefur verið krossinn, sem lengi stóð við hættuleiðina í Njarðvíkurskriðum, milli Njarðvíka og Borgarfjarðar eystra. Við hann áttu menn að lesa faðirvor. Af slíkum krossum kunna og að vera dregin sum örnefni af krossi eða krossum. Nefna má og í þessu sambandi hústóft litla úr grjóti, sem er uppi á Helgafelli á Snæfellsnesi og kölluð er „kapellan“. Víst mun hún hafa verið bænahús í kaþólskum sið. Hana má bera saman við Kapelluna í Kapelluhrauni, þótt ekki standi hún við veg. Fleiri sambærilegar menjar er mér ekki kunnugt um hér á landi, úr því að rústin í Kapellulág verður að dæmast úr leik, svo sem fram kemur hér að aftan.

Kapellulág hjá Hrauni í Grindavík (fornleifarannsókn 1954)

Kapella

Hraunssandur og nágrenni – herforingjaráðskort 1903.

Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum. Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað.
Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi 2023.

Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni.

Kapella

Kapellan í Kapellulág 2000.

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: „Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapeliulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans”.
Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni.

Festarfjall

Festarfjall frá sunnanverðum Hvalhól.

Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir. Þannig bar Gísli á Hrauni þetta fram mjög greinilega. Magnús bróðir hans sagði Dúknhellir, en Jón Engilbertsson á Hrauni sagði Dúnkshellir. Á korti herforingjaráðsins stendur Dúknahellir. Þannig skrifar einnig séra Geir Bachmann í sóknarlýsingu Grindavíkur 1840— 41 (Landnám Ingólfs III, bls. 142).

Hraunsvík

Hraunsvík – Dúknahellir.

Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir víst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn). Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur.
KapellaBrynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð”. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóli, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
[Hraun (181010 10). Lítil rúst í Kapellulág (181010 10-1), við veginn upp á Siglubergsháls. Sbr. Árb. 1903: 46-47. Skjal undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938.]

kapellaÞegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði. Inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu.
KapellaNú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. Í miðnafninu Húsið hefur hins vegar geymzt minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið, 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð og standa vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ.e. hallast út.

Grindavík

Grindavík – dys við Hraun. Kristján Elján hafði meiri áhuga á þessum manngerða hól, en entist ekki aldur til.

Ekkert bendir til þess, að hús þetta hafi verið kapella, annað en nafnið Kapellulág. Rústin sjálf var ekki kölluð Kapella, heldur Dysin. Miðnafnið Húsið er fremur bending um, að hús þetta hafi ekki verið kapella. Ekki er þarna heldur neinn svo hættulegur staður, að eðlilegt væri að hafa þar bænhús fyrir vegfarendur, enda örstutt að Hrauni, þar sem áður var kirkja. Þrátt fyrir þetta hefðu þó getað verið einhverjar ástæður til þess að þarna væri reist kapella, en heimildir eða staðhættir mæla ekki sérstaklega með því, og fornleifafundurinn mælir því mikið heldur í gegn, þótt hann afsanni það ekki að fullu. Til dæmis snýr húsið í vestur án þess að sjáist, hvernig á því stendur, jafnvel snýr það dálítið skakkt upp á móti brekku, eins og nokkuð hafi þótt við liggja, að það snéri einmitt þannig. En ekki er þetta nógu veigamikið til þess að halda megi fram þess vegna, að húsið hafi verið bænhús.

Hraun

Signingasteinn (skírnarsteinn) við Hraun. “Sigurðarhús” h.m.

Þegar hinir mörgu smáhlutir komu fram á svo litlum bletti og loks enskur peningur í þokkabót, hvarflaði hugurinn óneitanlega að verzlun Englendinga hér á miðöldum. Eins og kunnugt er, var Grindavík einmitt einn sá staður, þar sem þeir stóðu hvað föstustum fótum. Gat það verið, að þarna væri beinlínis fundin svolítil ensk búðarhola, þar sem einkum hefði verið verzlað með kvenlegan glysvarning? Hugmyndin virtist góð í fyrstu, en ekki get ég þó haldið þessari skýringu til streitu.
Að öllu athuguðu held ég helzt, að hús þetta hafi verið verkstofa málmsmiðs. Því til sönnunar tel ég fyrst og fremst það, að sumir smáhlutirnir virðast greinilega ekki fullgerðir. Afklippur úr látúni og tini benda og í sömu átt. Skylt er þó að vekja athygli á, að ekki fundust nein merki um, að bræddur hefði verið málmur á þessum stað, hvorki málmdropar né gjall, deiglubrot eða þess háttar. En ekki afsannar það, að þarna hafi hafzt við maður, sem hafði að atvinnu að smíða hluti þá ýmsa, sem þarna fundust.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi í dag (2024).

Einkennilegast er staðarvalið. Að vísu er ekki ljóst, hvernig umhverfi hússins hefur verið á miðöldum, þó að trúlegt sé, að þá þegar hafi það verið mjög blásið, og hefði það þó ekki þurft að gera smiðnum neitt til. Hitt er torskýrðara, hversu einangrað þetta hús er og snautt að öllum mannvistarleifum öðrum.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenzka fornleifafélags – 01.01.1955, Kapelluhraun og Kapellulág; fornleifarannsókn 1950 og 1954, Kristján Eldjárn, bls. 5-34.

Kapella

Kapellan á Hraunssandi.

Festisfjall

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1955-1956 er m.a. fjallað um kapelluna í Kapellulág ofan Hrauns við Grindavík: “Austur frá Hrauni í Grindavík og allt til Festarfjalls heitir Hraunssandur, enda er þar mjög blásið og sér lítinn sem engan gróður á heilum flákum.
Kapellulag-1Þó sagði Gísli Hafliðason, gamall bóndi á Hrauni og átti þar heima alla ævi (d. 1956), að allt sé þarna heldur að gróa upp, sandurinn sé að festast, og mun það eflaust rétt athugað. Um Hraunssand hefur frá fornu fari legið vegur, og var um hann áður fyrri mikil umferð af mönnum austan úr sýslum, lestamönnum haust og vor og vermönnum um vetur. Frumstæður bílvegur liggur nú mjög þar sem gamli vegurinn var áður. Um það bil 1 km fyrir austan bæinn á Hrauni er lægðardrag allmikið í sandinum, hefst í hæðunum hið efra og nær niður að sjó, víkkar niður eftir og virðist myndað af rennandi vatni, þó að nú sé hvergi vatn á þessum slóðum. Lægð þessi heitir Kapellulág. Rétt neðan við bílveginn, sem nú liggur þvert yfir lægðina á sama stað og gamli vegurinn lá fyrrum, er töluvert áberandi þúst eða grjóthrúga, auðþekkt mannaverk í sandauðninni. 

kapellulag-2

Þessi grjóthrúga er í daglegu tali kölluð Dysin, og hermir Brynjúlfur Jónsson um hana eftirfarandi sögu: ,,Þá er Tyrkir rændu í Grindavík (1627), flýði drengur einn undan þeim, ríðandi á rauðri meri, og hleypti upp veg. Einn af Tyrkjum elti hann og var svo fljótur á fæti, að hann náði honum í Kapellulág. Þreif hann þá í tagl merarinnar. En hún sló báðum afturfótum fyrir brjóst honum svo hart, að hann lá dauður eftir. Var hann þar dysjaður, og á rústin að vera dys hans”. Á sjávarbakkanum um 200 m suðaustur frá dysinni er grasi gróinn hóll, sem heitir Hvalhóll. Menn taka mið af þessum hól, þegar hann ber í dysina frá sjónum séð, og heitir þetta mið Húsið. Í því nafni felst sjálfsagt réttari bending um uppruna þessa mannvirkis en í munnmælasögunni. Fleira er eftirtektarvert í umhverfi dysjarinnar. Fyrir austan hana er allmikil hæð, og af henni er skammt austur að sjó, þar sem Hraunsvík nær lengst inn undir Festarfjall. Þar er mjög hár sjávarbakki, og grefur sjór hella inn í móbergið. Þar var hellir, sem nú er mjög lítið eftir af, og hét Dúnknhellir.
kapellulag-3Á skerjum nokkrum undir Festi segja þeir á Hrauni, að áður hafi verið járnhringar til þess að festa skip, og hafi írar fest þar skip sín. Þessir járnhringar munu ekki sjást lengur, og enginn þeirra á Hrauni hafði sjálfur séð þá, en þeir þóttust þó vita fyrir yíst, að þessir hringar hefðu verið þarna. (Sbr. og Jón Þorkelsson, Þjóðsögur og munnmæli, Reykjavík 1899, bls. 1.)
Dysin í Kapellulág var rannsökuð dagana 13. og 14. maí 1954. Auk mín unnu við rannsóknina Gísli Gestsson safnvörður og Jóhann Briem listmálari fyrri daginn, en Gísli og Guðmundur Þorsteinsson frá Lundi seinni daginn. Báða dagana nutum við gestrisni Gísla Hafliðasonar á Hrauni og konu hans. Veður var gott báða dagana, skúrir þó seinni daginn, en vinnufriður sæmilegur. Brynjúlfur Jónsson lýsir dysinni svo árið 1903, að hún sé „dálítil grjótrúst, nokkuð grasgróin, svo sem 3 al. í þvermál að ofan, en fláir utan og virðist vera nokkuð hrunin. Naumast er hún yfir 1 al. á hæð”. Þessi lýsing á sæmilega við dysina, eins og hún leit út, áður en við byrjuðum að grafa í hana. Hún var að sjá eins og hver annar blásinn hóll, steinar oltnir út úr á allar hliðar, en nokkuð gróið á milli. Einkum var kollurinn vel gróinn, og vottaði þar ekki fyrir neinni laut eða lægð. Að ógröfnu mátti þó aðeins greina steinaraðir, sem stóðu upp úr þessum gróna kolli og virtust sýna innri brúnir veggja í litlu húsi.
Kapella-201Þegar við vorum búnir að mynda dysina, fórum við að grafa innan úr henni, eftir því sem þessar steinaraðir eða veggbrúnir sögðu til. Mold létum við sér og grashnausa sér til þess að geta komið öllu í sama fallega lagið aftur, þegar rannsókninni væri lokið. Efsta rekustungan eða vel það var eingöngu foksandur moldarblandinn. Í honum voru nokkur stórgripabein og fuglabein nýleg. Á hér um bil 50 sm dýpi varð vart við fyrstu mannvistarleifar, koladrefjar, sem ekki voru tilkomumeiri en það, að þær héngu ekki saman svo að lag myndaðist. Við hreinsuðum upp alla tóftina við þetta lag, gerðum uppdrátt og tókum myndir. Niðri við lagið eða um 45 sm frá yfirborði, inni undir húsgafli (þ. e. austurgafli), fundum við eina stappaða látúnsþynnu. Rétt fyrir neðan efstu mannvistarleifarnar, einkum við suðurhlið, en þó nokkuð um alla tóftina, var 1—2 sm þykkt lag af hreinlegum sjávarsandi með skeljamulningi í, en annars var allt hér fyrir neðan og niður á gólf tóftarinnar meira og minna blandað mannvistarleifum, þótt mest væri af leirlituðum foksandi með stærri og smærri steinum í.
Kapella-202Hér og hvar voru örlitlir öskublettir og viðarkolamolar, en eldstæði ekkert, og yfirleitt voru þessi eldsmerki smávægileg. Neðst var gul, leirkennd moldarskán, sem í vottaði fyrir morknum beinum og fúnum spýtum, og mun þetta eflaust vera gólf hússins, en í því voru engar eldsleifar, sem þó eru algengastar á gólfum. Neðan við þetta lag var hrein ísaldarmöl og engar mannvistarleifar.
Nú skal lýsa húskofa þessum, eins og hann kemur fyrir sjónir uppgrafinn. Það varð þegar í stað ljóst við rannsóknina, að við höfðum fyrir okkur lítið hús eða hústóft, sem var barmafull af mold, sandi og grjóti, innveggir lítið sem ekki hrundir, en útveggir mjög hrundir og steinar úr þeim skriðnir út á alla vegu. Af því skapaðist dysjarútlitið og þá einnig nafnið og loks munnmælasagan um Tyrkjann. 1 miðhafninu.

Kapella-203

Húsið hefur hins vegar geymzt sem minning um, að þetta hafði í upphafi verið hús. Það hefur verið ótrúlega lítið. 2,20 m að lengd og 1,20 m að breidd. Veggirnir eru hlaðnir úr grjóti í 1 m hæð ogstanda vel að innan, lítið eitt fláandi upp eftir, þ. e. hallast út. Veggjarþykktin hefur verið um 1 m, eftir því sem næst verður komizt. Húsið hefur snúið frá austri til vesturs, þó lítið eitt tifl norðvesturs. Vesturgafl hefur verið úr timbri og dyr á að norðan. Í þeim hefur verið eins konar stétt af smásteinum. Við syðri langvegginn lágu tvær stórar og myndarlegar hellur, og hefur hin fremri náð alveg fram undan þilstafninum, sem beinlínis virðist hafa hvílt á henni. Eitthvað virðist hafa hvílt á þessum hellum við suðurvegginn, t. d. borð eða bekkur. Fremri hellan er 15 sm þykk, og álíka hátt þrep er í dyrunum við hliðina á henni, enda er gólfið þetta lægra en hlaðið fyrir framan.
Fleira er varla nauðsynlegt að taka fram í lýsingu þessa húskrílis. Eftir rannsóknina fylltum við tóftina og færðum allt í samt lag aftur. Ég kom þar aftur í nóvember 1955, og var þá varla hægt að sjá, að nokkurn tíma hefði verið við henni rótað.”
Í “Skrá um friðlýstar fornleifar 1990” má lesa eftirfarandi um Kapellulág: “
Hraun – undirritað af MÞ 25.10.1930. Þinglýst 15.11.1938. Lítil rúst í Kapellulág, við veginn upp á Siglubergsháls, sbr. Árb. 1903; 46-47.”

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 54. árg. 1955-1956, bls. 16-20.
-Skrá um friðýstar fornleifar 1990.

Kapella

Kapellan við Hraun.

Sigurður Gíslason

Eftirfarandi er upprifjun, að gefnu tilefni, úr fyrrum FERLIRsferð frá Hrauni í Grindavík og nágrenni:

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

FERLIR gekk um sunnanverð Suðurnes s.l. laugardag. Tekið var hús á fjölfróðum merkismanni, Sigurði Gíslasyni, bónda á Hrauni austan Grindavíkur. Leiddi hann hópinn og sýndi honum m.a. fallega tilhöggvin stein, sem gæti verið forn skírnarfontur úr gömlu bænahúsi eða kirkju, sem hafði staðið þar skammt frá og getið er um í gömlum heimildum.

Hraun

Hraun – fontur.

Fonturinn er hinn merkilegasti gripur. Hann kom upp þegar verið var að grafa utan í fjárhús fyrir nokkrum misserum, en aftan þeirra átti bænahúsið að hafa staðið fyrrum. Fyrir stuttu var fonturinn síðan sóttur í gröftinn og komið á tryggari stað. Sigurður sýndi hópnum auk þess fallega hlaðinn brunn, Gamlabrunn, á söndunum ofan Hrólfsvíkur, en þangað sóttu íbúar Þórkötlustaða vatn á 19. og á framanverðri 20. öld. Brunnurinn hefur fallið í gleymsku og virðast fáir vita af tilvist hans nú orðið. Skammt austar er Kapellulág, en þar undir sandinum er kapella frá því á 15. öld, ein af gersemum svæðisins. Þá benti Sigurður á forna dys á hól vestan Hrauns, en í hana hafði Kristján Eldjárn áhuga að grafa, en entist ekki aldur til.

Hraun

Refagildra við Hraun.

Loks var skoðuð gömlu hlaðin krossrefagildra, líklega sú eina á landinu, svo vitað sé.
Sigurður sýndi hleðslur ofan Húsfells, sem og opin á “Tyrkjahellinum” á Efri-Hjalla.

Geldingadalur

Í Geldingadal – Dys Ísólfs.

Þá var gengið að Drykkjarsteini í Drykkjarsteinsdal, en hann stendur við gamla Sandakraveginn (Krýsuvíkurleiðina) þar sem hann liggur á bak við Slögu að Méltunnuklifi og áfram austur úr til Krýsuvíkur.

Krýsuvíkurleið

Krýsuvíkurleið.

Gatan (leiðin) er mjög greinileg. Hún var gerð ofan í vagnveginn, sem lagður var millum Ísólfsskála og Krýsuvíkur 1923 um  hinn forna Ögmundarstíg.
Þaðan var gengið um Nátthaga, upp skarðið og yfir að Stórahrút og að ofanverðum Merardölum. Þar var beygt yfir í Geldingadal og litið á dys Ísólfs gamla á Skála, en sagan segir að hann hafi látið dysja sig í dalnum þar sem sauðir hans undur hags sínum svo vel.

Borgarhraun

Borgarhraun – stekkur.

Gengið var auðveldlega upp úr dalnum að vestanverðu og þá komið niður í Selskál norðan Borgarfjalls, en í skálinni er talið að Ísólfsskálasel hafi verið. Engar tættur er þó þar, enda landeyðing þarna mikil í seinni tíð. Skammt vestar er stekkur í hraunkanti Borgarhrauns. Líklegt er að selstaðan hafi þar verið og þá heimasel.

Neðan Einbúa var komið að gömlu leiðinni norður að Stóra-Skógfelli, en við hana er gamalt hlaðið aðhald. Við það er hlaðið lítið skjól. Skammt vestan þess má sjá gamalt fallega staðsett refabyrgi og enn vestar, undir hraunhrygg, er forn stekkur. Þar við gæti hafa verið heimaselstaða til einhvers tíma.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Sunnar er hlaðna Ísólfsskálaréttin (Borgarhraunsréttin) og Borgin forna (Viðeyjarborg) í Borgarhrauni, en hún gæti jafnvel verið frá þeim tíma er Viðeyjarklaustur nýtti staðinn því til handa.
Eins og sjá má er Reykjanesskaginn fjölbreytileg útivistarparadís – og það við hver fótmál. Stutt er í alla áhugaverða og fallegu staðina, hvort sem þeir tengjast merkilegum náttúrufyrirbrigðum, minjum eða sögu.

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn í Drykkjarsteinsdal.