Tag Archive for: Kristmundarvarða

Goðhóll

SGG ritaði grein í 6. tbl. Faxa 1993 er fjallaði um Kristmundarvörðu í Brunnastaðahverfi á Vatnsleysuströnd.
Sesselja„Nú í sumar, árið 1993, endurhlóð Ragnar Ágústsson í Halakoti vörðuna og var það þarft verk og vel gert. Hún stendur á sléttri klöpp svo til beint upp af eyðibýlinu Vorhúsum á Bieringstanga, ca. 50 m ofan við gömlu götuna (eða hitaveitulögnina) og lætur ekki mikið yfir sér. Fast norðaustan við vörðuna er hóll með áberandi þúfu.“ Í raun er varðan rétt ofan við nefndan gamla veg í Voga. Leiðin sést vel ofan við „hitaveituveginn“ þar sem hún liggur framhjá vörðunni.
„Í smalamennsku 10. nóvember 1905 týndist maður í Strandarheiðinni sem hét Kristmundur Magnússon og var frá Goðhóli í Kálfatjarnarhverfi. Mikil leit var gerð að piltinum en án árangurs. Heimildum um atburðinn ber ekki saman og vík ég nánar að því síðar. Sérkennileg saga tengist líkfundinum og fer hún hér á eftir.“
Vilhjálmur, sonur Guðmundar Jónssonar frá Hreiðri í Holtum, mun hafa ferið á ferð um Ströndina þennan vetur á leið sinni, líklega í ver, í Leiru. Ólöf Árnadóttir frá Skammbeinsstöðum í sömu sveit átti þá von á barni með Guðmundi. Barnið reyndist drengur.
RagnarSamkvæmt kirkjubókum Kálfatjarnakirkju mun lík Kristmundar frá Goðhóli hafa fundist 13. nóv. 1905.
„Vilhjálmur kom við í Halakoti (hefur líklega gist þar), en hélt síðan áfram suður í Voga. Þegar hann var kominn spöl suður fyrir Halakot gekk hann fram á lík Kristmundar Magnússonar og lá það stuttan spöl ofan við götuna sem lá rétt við túngarða Bieringstangabæjanna. Vilhjálmur lét vita af líkfundinum og hélt síðan áfram suður úr. Stuttu eftir að Ólöf í Arnarstaðarkoti fæddi drenginn, sem fyrr er nefndur, dreymdi hana að Vilhjálmur kæmi til sín og segði: „Ég er hér með ungan mann sem heitir Kristmundur og mig langar til þess að biðja þig fyrir hann.“ Ólöf leit svo á að Vilhjálmur væri að vita nafns og þau hjónin ákváðu að skíra nýfædda drenginn Kristmund. veturinn leið og um vorið kom Vilhjálmur austur og þá fyrst fengu hjónin í Arnarstaðarkoti skýringu á draumanafninu.

Kristmundarvarða

Sögu þessa sagði mér Ragnhildur Magnúsdóttir, f. 1913, frá Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd, en hún er gift Kristmundi þessum frá Arnarstaðarkoti.“
Þá er vitnað í örnefnalýsingu Sigurjóns Sigurðssonar frá Traðarkoti, f. 1902, um Brunnastaði: „Svo bar  til, að haustið 1907 eða 1908 var farið til smölunar í sveitinni. Einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundur Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“
KristmundarvarðaSigurjón lýsir því hvar varðan stendur og segir hana vera við gömlu leiðina nokkuð sunnar en Halakotsvarða Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar frá 1958 segir: „Skammt suður frá Töðugerði upp við veginn, gamla veginn, er varða sem heitir Kristmundarvarða, dregur hún nafn sitt af því að piltur að nafni Kristmundur frá Goðhól, 16-17 ára gamall, var að smala fé en villtist í slagviðri og fannst látinn þarna og hafði gengið sig inn í bein…
Guðríður Egilsdóttir frá Hliði í Kálfatjarnarhverfi, f. 1897, sagði í samtali 1992 að ungi maðurinn hafi týnst fyrri part vetrar, líklega rétt eftir að faðir hennar dó árið 1905 en þá var Guðríður 8 ára. Hún hélt að atburðurinn hafi átt sér stað í október því skólinn, sem þá var í Norðurkoti, hafi verið byrjaður. Henni var það minnistætt þegar menn báru lík piltsins um hlaðið á Hliði og niður að Goðhóli og inn í hlöðuna þar…
Í kirkjubókum Kálfatjarnarkirkju segir að Kristmundur Magnússon hafi verið 17 ára Halakotsvarðavinnumaður í Goðhóli og týnst við smalamennsku 10. nóv. 1905, fundist örendur 13. nóv. og verið jarðaður 24. nób. 1905.“
Í bréfi, sem fannst í gömlum kistli í húsi á Hofsvallagötunni í Reykjavík, segir frá atburðinum: „Goðhól… (dags. ólæsileg). Elsku Hjartkæra dóttir mín. Komdu ætíð marg blessuð og sæl….
Elskann mín góða, guð reindi okkur með því sorgar tilfelli að taka til sín okkar Elskulega son og ykkar bróður Kristmund (sál). Það vildi til með þeim hætti að við ljéðum hann í smalamennsku hjér uppí heiðina og voru þeir fjórir dreingir saman, allir á líku reki en hann var helst ókunnugur leitunum þegar þeir fóru til baka, nefninlega heimleið. Skildu þeir og áttu að reka ofaneftir skamt hvor frá öðrum. Veður var hvast á austann, landsunnan, með stór rigningar hriðjum enn þokulaust og marauð jörð.
En um kvöldið kom hann ekki. Þú gétur nærri hvað við Goðhóllhöfðum að bera, Elskann mín. Svo var gerð almenn leit með mannsöfnuði í þrjá daga og á þriðja degi fannst hann, en ekki af leitarmönnum. Maður sem var á ferð austann úr holtum varð til þess að finna hann og var hann mjög stutt frá bænum á milli voganna og strandarinnar, skamt frá alfaravegi. Þar lá hann andvana á sléttri klöpp með krosslagðar hendur á brjósti. Hann hefur því lagt sig sjálfur til í Hjartans auðmíkt undir Guðs blessaðan vilja… (ólæsilegt). Við erum sannfærð um það að hann hefur undir atlögu dauðans horft upp till himin ljósanna sem eynmitt þá leiftruðu svo skírt. Veður batnaði svo mjög og loftið varð ljétt svo túngl og stjörnur hafa því orðið fyrir hans deijandi augum.

Kristmundarvarða

Okkur er óhætt að hugga okkur við það að hann hefur gétað beiðið til guðs því hann kunni mikiða f góðu. En Engill dauðanns hefur flutt hans fresluðu sál til Guðs Eilífu ljóss heimkinna. Eftir öllum atvikum hefur hann andast 11. Nóvenber. Guðisjé lof fyrir að hann fanst svo við gátum búið hann til moldar og var hann jarð súnginn þann 24. sama mánaðar…. “ Undirskrift vantaði á bréfið.
Kristmundur var jarðsettur við suðurvegg Kálfatjarnarkirkju en enginn grafsteinn var settur á leiðið. Herdís Erlendsdóttir á Kálfatjörn man vel eftir hjónunum á Goðhóli og sorg þeirra þegar þau vitjuðu grafarinnar.
Nú er búið að leggja göngustíg yfir leiði Kristmundar og varðan í Djúpavogsheiðinni er það eina hér í hreppnum sem minnir á drenginn sem varð úti svo að sega við bæjardyr sveitunga sinna.
Einn lítinn hlekk vantar þó enn í söguna: Hver eða hverjir hlóðu Kristmundarvörðu?“
Það var Magnús í Halakoti, bróðir Ragnars, sem vísaði FERLIR á vörðuna síðdegis í haustsólinni. FERLIR hefur borist nokkrar ábendingar um staðsetningu Kristmundarvörðu, en til að taka af allan vafa eru hér gefin um hnitin af henni – [6359599-2222860].

Heimild:
-Sesselja G. Guðmundsdóttir – Faxi, 6. tbl., 53. árg., bls. 202-203.

Kristmundarvarða

Arahólavarða
Gengið var um Kirkjuholt í Vogum undir leiðsögn Voktors og JóGu. Hús þeirra stendur utan í norðaustanverðu holtinu. Í örnefnaskráningu Ara Gíslasonar segir um Kirkjuholtið: „Það sem myndar Aragerði að austan er holt sem heitir Kirkjuholt, en þar liggur vegurinn niður í Voganna.“ Þar á hann trúlega við Strandarveginn eins og hann er í dag.
Töðugerðisvarða

Töðugerðisvarða.

 

Gísli Sigurðsson nefnir holtið „Kirkjuhóll“ en líklega er það ekki rétt því heimamenn hafa jafnan talað um Kirkjuholtið. Heyrst hefur sú tilgáta um nafnið, að upp á holtinu hefði fyrst sést til kirkju (á Stóru-Vogum) þegar komið var Almenningsveginn niður í Voga fremur en að þar hafi fyrrum staðið kirkja. Ekki er vitað til þess að tilgátan hafi verið fest á prent. Á seinni tímum hafa einhverjir hugsað sér að sniðugt væri að reisa kirkju á Kirkjuholtinu, en það gæti varla talist sniðugt fyrir nálæga íbúa, sem hingað til hafa fengið að njóta holtsins. Þegar það er skoðað mætti ætla sneiðing götu í því norðanverðu. Ekki munu vera mannvistaleifar á holtinu.
Haldið var eftir gömlu götunni frá Vogum áleiðis að Kálfatjörn í gegnum Brunnastaðaland og m.a. skoðaðar minjar við Vatnsskersbúðir.
Í framhaldi af því var leitað upplýsinga hjá Símoni Kristjánssyni á Neðri-Brunnastöðum (f: 1916) um nokkra staði í Brunnastaðalandi og nágrenni þess að vestanverðu. Símon fæddist á Grund á Bieringstanga og þekkir vel staðhætti á svæðinu.

Bieringstangi

Grund – brunnur.

Þegar Bieringstangi var skoðaður í fylgd Magnúsar Ágústssonar í Halakoti og Hauks Aðalsteinssonar (móðir hans er fædd á Grund) var m.a. gengið að Vatnsskersbúðum, sem eru á ystu mörkum Brunnastaðalands í vestri.
Í örnefnalýsingu fyrir Brunnastaði segir m.a. um Vatnsskersbúðir: „Yst í Djúpaós er Dýpstiós. Nokkru innar er Vatnasker, þar upp af er Vatnsskersbúðir og Vatnsskersbúðarvör. Einnig Djúpavogsvör.” Í svæðaskráningarskýrslu fyrir Vatnsleysustrandarhrepp (2006) segir að „staðsetning minjanna hefur verið óljós enda hafa deilur verið innan sveitarfélagsins um staðsetningu þessara örnefna. Ása Árnadóttir kannaðist ekki við þessi örnefni, en gat þó aðstoð við að staðsetja örnefnin gróflega út frá staðsetningu annarra þekktra örnefna. Grýtt og víðfeðm fjara er á þessum slóðum og engin merki sjást um verbúð“.  Ágúst og Haukur bentu FERLIR hins vegar óhikað á gróinn tanga vestan Djúpavogs. Út frá honum eru mörkin, sem reyndar nú hafa fengist viðurkennd með dómi. Á tanganum er hlaðinn ferkantaður grunnur undan timburhúsi (Vatnsskersbúðum). Flóruð stétt sést við grunninn, auk annarra hleðslna. Ofan við rústirnar eru garðar, greinilegir þurrkgarðar. Í svæðaskráningarskýrslunni segir að „um 75 m ASA af Vatnsskersbúðum, eru mjög ógreinilega hleðsluleifar. Hleðslan er uppi á grónu lágu holti.

Umverfis er mosagróið hraun. Tvískipt tóft sem snýr norður-suður, og er alls 15 x 5 m á stærð. Að norðanverðu er stórt grjóthlaðið hólf. Op hefur verið á því syðst á vesturvegg.
Beint suður þessu hólfi eru ógreinilegar leifar af hleðslum, annars vegar er þar 2 m langur veggstubbur (norður-suður) og hins vegar, suður af honum, annar veggstubbur nokkuð lengri. Hann snýr austur-vestur og er um 5 m langur. Hleðsluhæð er mest 1 umfar, eða 0,2 metrar. Þessi ummerki eru fremur óljós en afar líklegt verður að telja að þarna séu leifar einhvers konar mannvirki, þó óljós séu þau.“
Norðan við hleðslur þessar eru leifar er virðast vera af hlöðnum brunni. Hlaðið hefur verið umhverfis stutta hraunsprungu og hefur verið gengið niður í innvolsið um eitt þrep. Hleðslan er að hluta til fallinn inn, en þó sjást þær enn vel umhverfis. Ferskt vatn streymir þarna undan klöppunum í fjörunni. Mannvirki þetta er í grasúfnu landi og því ekki auðvelt að koma auga á það. Magnús í Halakoti sagðist ekki hafa rekið augun í þetta mannvirki, en hann vissi til þess að þarna, a.m.k. á þessu svæði, hafi áður verið hænsnakofi.

Varða

Ragnar í Halakoti (f:1916) sagðist vera vel kunnugur þarna. Þetta hafi verið brunnur í lítilli hraunsprungu. Vatn hefði safnast saman í möldarlægð skammt ofar og þegar þar fylltist, einkum á vorin eftir snjóa, hafi vatn seitlast niður í sprunguna og fyllt brunninn. Hænsnakofinn hafi verið svo til alveg við Vatnsskersbúðirnar. Hann teldi þó sjálfu að nafnið hafi átt að vera Vatnskatlar því á klöppunum innan við búðirnar hafi við hringlaga katlar með mold og ýmsum gróðri, marglitum. Þessar tjarnir hafi jafnan fyllst af sílum.
Ofar liggur gamla kirkjugatan frá Vogum að Kálfatjörn. Enn sér móta fyrir henni. Vörður eru við götuna, bæði endurreistar og einnig fallnar og grónar.
Í örnefnaskrá segir að „tvær vörður eru í Djúpavogsheiði ofan við Bieringstanga og heitir önnur þeirra Kristmundarvarða, kennd við Kristmund Magnússon sem varð úti á heiðinni þar sem varðan er, svo til beint austur af svonefndum Voghól. Þessi atburður gerðist 1907 eða 1908 er verið var að smala fé.” (Sjá meira HÉR.)
Símon sagði þessa vörðu jafnan hafa verið mönnum kunn. Hún hafi verið nálægt gömlu kirkjugötunni, en fyrir nokkrum Kristmundarvarðaárum hafi Ragnar Ágústsson hlaðið hana upp.
Samkvæmt bestu vitund fróðra manna í Vogum er Kristmundarvarða ofan við Vorhús eða Grund, í lægð við hól einn með áberandi hundaþúfu. Um hana segir Sigurjón Sigurðsson frá Traðakoti í örnefnalýsingu; „Svo bar til, að haustið 1907 eða 1908 var farið í smölun í sveitinni. Einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundur Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“ Sigurjón frá Traðakoti lýsir staðsetningu Kristmundarvörðu svo; „í suð-suðvestur frá Gilhólum (það eru tveir þúfuhólar suðaustur af Brunnastaðaafleggjara) er klapparhóll með þúfu á vesturendanum, heitir Boghóll. …. Í suður frá Boghól er hóll sunnan við þjóðveginn, …. Hóll þessi heitir Grænhóll. … Í norðvestur frá Grænhól er grjótvarða, sem heitir Halakotsvarða. Er hún ofan við veginn, sem notaður var sem þjóðvegur til 1912. Þar, nokkuð sunnar með veginum, er grjótvarða, sem heitir Kristmundarvarða.“
Vogshóll, sbr. framangreint, er líka til, inn á Bieringstanga, einnig nefndur Hvammsvogshóll.
HalakotsvarðaÖnnur varða væri við götuna og nefndist hún Töðugerðisvarða. Stendur hún heil á hól ofan við Töðugerði. Á milli hennar og annarrar endurhlaðinnar vörðu ofan við Grænuborgarrétt væru nokkrar fallnar og nú grónar.
Í örnefnalýsingu segir: „Hin varðan, Töðugerðisvarða eða Halakotsvarða stendur rétt ofan eða sunnan við Skipholt. Þar hjá er reiðgata sem notuð var sem þjóðbraut fram til 1912 og heitir Gamlivegur.”
Þá var Símon spurður um Gestsrétt og Skiparéttina, en í örnefnalýsingu segir að uppsátur sé rétt við fjöruna. “Svokölluð Skiparétt var fornt uppsátur í Skjaldarkotsfjöru, en Gestsrétt var ofan við Gestvör, einnig fornt uppsátur.”
Skiparétt er merkt inn á örnefnakort, rétt við sjávargarðinn.
Símon sagði mannvirki þessi nú vera komin undir kampinn. Fyllt hafi verið upp ofan við uppsátrið og varnargarður hlaðinn. Hann hafi sjálfur róið þaðan fyrsta sinni árið 1930 á Hafrenningi. Þá hafi vörin verið norðan við sjávarhúsin og réttin ofar. En nú væri þetta allt farið – eins og svo margt annað.
Haldið verður áfram að skoða nokkra minjastaði á Ströndinni.Heimild m.a.:
-Menningarminjar í Vatnsleysustrandarhreppi, Svæðisskráning – Sædís Gunnarsdóttir – 2006.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995.
-Örnefnalýsingar.
-Árni Óla: Strönd og vogar.
-Mannlíf og mannvirki – Guðmundur B. Jónsson.
-Túnakort 1919.
-JÁM 1703.
-Símon Kristjánsson.
-Magnús Ágústsson.
-Ragnar Ágústsson.