Færslur

Breiðabólstaðasel II

FERLIR sótti heim Breiðabólstaðasel II eð Hafnarsel (Þorlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum. Um 10 mín. gangur er að selinu frá Þrengslavegi.

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel – uppdráttur ÓSÁ.

Í “Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I” má lesa eftirfarandi um Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) undir norðanverðum Krossfjöllum:
“Ómar Smári Ármannsson fjallar um þessar minjar á heimasíðu Ferlis. Þar segir: “Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. […].” Selið er ekki þekkt úr rituðum heimildum og er því nafnlaust. Hér er stuðist við nafngjöf Ómars Smára og selið nefnt Breiðabólsstaðarsel II. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 1,7 km NNA við Breiðabólsstaðarsel I. Selið er undir norðurhlífðum Krossfjalla.

Breiðabólstaðase II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Allt umhverfis selið er mosavaxið hraun. Meðfram norðurenda Krossfjalla er mjótt undirlendi og er selið þar, byggt upp við fjallshlíðarnar.
Á svæði sem er 100×40 m að stærð og snýr norður-suður eru sjö tóftir. Ástand þeirra allra er svipað, veggirnir útflattir og tóftirnar grónar. Var hverri tóft gefin bókstafur til aðgreiningar í lýsingu þessari. Tóft A er byggð norðan undir fjallshlíð Krossfjalla og er sú stærsta á svæðinu. Hún er 20×7 m að stærð, snýr austur-vestur og skiptist í fjögur hólf. Austast er hólf 1.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II).

Það er 1,5×1 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er byggt upp við klett til suðurs en aðrir veggir eru hlaðnir. Þeir eru 0,3-0,4 m að hæð og má sjá tvenn umför grjóthleðslu í þeim. Op er á miðjum norðurvegg.
Hólf 2 er vestan við hólf 1. Það er 5×2 m að innanmáli og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð og glittir í grjót hér og þar. Op er á miðjum norðurvegg. Hólf 3 er vestan við hólf 2. Það er 5×3 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru algrónir og 0,6-1 m á hæð. Tóftin er betur varðveitt að sunnan en til norðurs. Op er sem fyrr á miðjum norðurvegg.

Breiðabólstasel II

Breiðabólstaðasel II (Hafnarsel II) – stekkur.

Hólf 4 er vestan við hólf 3. Það er byggt upp við hraunbrún að sunnan. Það er 3×3 m að innanmáli og op er til norðurs. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og grónir. Það má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóft B er 2 m vestan við tóft A, fast upop við gróna hraunbrún til suðurs. Hún er 7×7 m að stærð og einföld. Veggirnir eru 0,4-0,6 m á hæð, 2-2,5 m á breidd, algrónir og reisulegri að innan en utan. Op er á miðjum norðurvegg. Tóft C er 5 m vestan við tóft B. Hún er 7×6 m að stærð, einföld og snýr norður-suður. Veggirnir eru 0,5 m á hæð og má greina 2 umför af grjóthleðslu í þeim. Þeir eru mosavaxnir og útflattir. Op er á miðjum austurvegg. Tóft D er 20 m norðan við tóft A. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og snýr suðaustur-norðvestur. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, útflattir og algrónir. Op er á miðjum suðurvegg.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstasel II – uppdráttur í fornleifaskráningunni.

Tóftir E og F eru uppi á mosavaxinni hraunklöpp, tæpum 50 m norðan við tóft D. Tóft E er sunnar. Hún er 3×3 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina eitt umfar grjóthleðslu í þeim. Ekkert op er inn í tóftina.
Tóft F er 2 m norðaustan við tóft E. Hún er 6×5 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Hún snýr norður-suður og líklega er op í suðausturhorni. Veggirnir eru 0,3 m á hæð og má greina 1-2 umför af grjóti í þeim. Tóftin er lyngivaxin að innan líkt og hluti af veggjunum. Tóft G er nyrst og er tæpum 30 m norðan við tóft F. Tóftin er 8×8 m að stærð, einföld og er opin til norðvesturs. Veggirnir eru útflattir og lyngivaxnir. Tóftin er í viki inn í hraunbrúnina, suðaustan við mosavaxin hraunhól.”
Ágætt vatnsstæði er norðan við selstöðuna, en hún var þurr að þessu sinni – í lok júlímánaðar. Selstaðan er tiltölulega nýleg, en þó má sjá í henni a.m.k. tvær kynslóðir selja, þ.e. þá nýlegu og aðra mun eldri. Til að gæta allrar sanngirni rak Alda Agnes Sveinsdóttir augun á selstöðuna í seinni tíð á leið hennar norður yfir Krossfjöll frá Breiðagerðisseli I og gerði FERLIR kunnugt um dásemina.

Breiðabólstaðasel II

Breiðabólstaðasel II (Þórlákshafnarsel II) undir Krossfjöllum.

Í Jarðabók Árna og Páls 1708 segir um Breiðabólsstað í Ölfusi: “Skipsuppsátur á jörðin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi.” Í 1. bindi sögu Þorlákshafnar eftir Skúla
Helgason segir: “Frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi… Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi, sem er skammt fyrir norðan þjóðveginn um Þrengslin. Þar má enn sjá tóftir selsins. Ef Hafnarselið undir Votabergi hafi verið í landi Breiðabólstaðar hefur selið norðan Krossfjalla örugglega verið í landi staðarins.

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi.

Þá sótti FERLIR heim Hraunssel í Ölfusi milli Eldborgarhrauns og Skógarhlíðar. Lagt var af stað frá bifreiðastæðinu við Raufarhólshelli í Þrengslunum og gengið austur yfir gamburmosahraunið með grónum lyngbollum í beina línu að hlíðinni þar sem styst er yfir hraunið. Gangan tók innan við 10 mínútur.
Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið, greinilega miðlungs gamalt. Í selinu eru fimm rými; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn liggur niður með kantinum um Skóghlíðarstíg. Ofan við selið eru grasi grónar Lönguhlíðar.
Frábært veður.

Heimildir:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, 2015.
-http://www.ferlir.is/?id=1772

Hraunssel

Hraunssel í Ölfusi – uppdráttur ÓSÁ.

Torfdalur

Torfdalur er ofan Breiðabólstaðar í Ölfusi. Ofan hans eru Krossfjöll. Fyrir nokkru var skoðuð þar tóft, sem reyndar er merkt inn á kort.

Torfdalur

Annars er Torfdalsnafnið þekkt víðar um land, s.s. vestur í Grímarsfelli, suðaustan Reykjafells. Líklegt hefur verið talið að nafnið sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum, sbr. eftirfarandi örnefnalýsingu Ölfuss; “Torfdalur – örnefni, rista – dæld í hraunið, vestan engjagötunnar, blautur, góður torfvöllur. Þar var skorið mikið torf til einangrunnar á Hitaveitu Reykjavíkur 1939.” Hér er átt við Núpa undir Núpafjalli sunnan Kamba í Ölfusi. Víða eru og til sambærileg heiti, s.s. Torfufell, Torfufellsdalur, Torfastaðir o.s.frv.
Þegar haldið var á ný í Torfdal fyrir skömmu fundust tvær aðrar tóftir, og jafnvel sú fjórða.
Fyrsta myndin sýnir vörðu á hjallanum ofan dalsins og niður á gatnamót þar en um dalinn liggur gömul gata (götur), sem kemur úr Krossfjöllunum. Í þeim eru margar þjóðgötur og krossgötur og telja má líklegt að nafn fjallsins sé tilkomið af þeim.
Í örnefnalýsingu fyrir Breiðabólstað kemur m.a. eftirfarandi fram um nýtingu og minjar í dalnum: “Mómýri – heimild um mógrafir;
Suður frá Krossfjöllum austanverðum, austan Ása er allstór dalur. Innsti hluti hans heitir Torfdalur. Innst í honum er mýri sem heitir Mómýri. Þar var tekinn mór.” Einnig er til önnur heimild í nefndri örnefnaskrá um nýtingu dalsins, sbr. eftirfarandi: “Mókofi – heimild um mókofa; Sunnan við Mómýri er dálítil slétt vallendisflöt, sem heitir Torfdalsflöt. Á henni miðju eru rústir, sennilega mókofarústir.”
Torfdalur Til að fá meiri heimildir um Torfdalsnafnið var Örnefnastofnun rituð beiðni um frekari upplýsingar og útskýringar á því. Ekki stóð á svari stofnunarinnar að venju: “Þegar leitað var í Sarpi komu upp komu 93 skjöl (og síðan 2 til viðbótar) þar sem Torfdal er að finna. Að vísu eru dalirnir ekki alveg svona margir því að stundum eru fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö skjöl um sömu jörð, en margir eru þeir, og þar sem ekki nærri allt örnefnasafnið er í Sarpi má vel margfalda þessa tölu með tveimur. Leitað var í margar þessar skrár – ekki þó allar því að það er seinlegt að leita í kerfinu – og mjög víða er ekkert minnst á torfristu eða annað sem skýrir nafnið. En þrátt fyrir það fundust mörg dæmi þar sem tekið er fram að í Torfdal sé torfrista eða -skurður. Má í því sambandi nefna bæi s.s. Svínhagi á Rangárvöllum, Brandsstaðir í Blöndudal, Hellisholt og Núpstún í Hrunamannahreppi, Grashóll á Sléttu, Feigsdalur í Arnarfirði, Bjarg í Miðfirði, Hróardalur í Skagafirði, Helgadalur í Mosfellssveit (Grímansfell), Torfastaðir í Grafningi og loks Núpar í Ölfusi þar sem skorið var torf til einangrunar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur 1939. Af þessu má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi langoftast – ef ekki alltaf – nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór (“elditorf”). Í landi Breiðabólstaðar í Ölfusi er einmitt Mómýri í Torfdal en það þarf þó alls ekki að vera að dalurinn hafi fengið nafn af mónum, þar gat líka verið torfrista þó þess sé ekki getið. Fyrir kemur orðmyndin Tordalur en telja má að það sé aðeins framburðaratriði, “f” hefur tilhneigingu til að detta út í þessari stöðu.

Torfdalur Í gamallli örnefnaskrá Núpstúns í Hrunamannahreppi er því haldið fram að nafn dalsins, Tordals, sé af því að torvelt hafi verið að komast með hesta niður í hann, en bóndi sem þar er fæddur og uppalinn og hefur búið alla sína tíð hrekur þá kenningu í nýrri skrá. Stundum er tekið fram að slægjur séu í Torfdal eða eitthvað sagt um gróðurfar, og á einum stað – í Botni í Tálknafirði – er skógur í Torfdal. Að lokum má benda á grein um Torfa- og Torfustaði sem Þórhallur Vilmundarson skrifar í Grímni 1 (1980).”
Framangreint er hið ágætasta svar og útskýrir nafngiftina prýðilega út frá nýtingu og örðum nytjum.
Á annarri mynd sést niður á flötina þar sem tvær tóftir eru í Torfdal neðan Krossfjalla, önnur er með grjóti í, þessi nær en hin er mestmegnis úr torfi og er að sjá vinstra megin við grjóttóftina alveg við rof sem er þarna fyrir framan lækinn. Einn steinn sést í þeirri tóft.
Á þriðju myndinni sést enn eldri tóft, sem er ofar í dalnum með rofi umhverfis og er staf stungi niður í hana. Þar nálægt er ferköntuð gröf, trúlega mógröf. Við neðri tóftirnar er vatnslögn sem kemur úr gilinu efst en ólíklegt er að þessar tóftir tengist henni eitthvað. Athugandi er að gaumgæfa þetta svæði betur við tækifæri.
Að lokum má geta þess að í leiðinni var gengið fram á 10 urtandaregg í hreiðri, sem næstum var búi að stíga ofan á. En það kom nú öndinni til góða að þjálfaðir sjáendur eru með jafnan með augun allsstaðar, einnig næst sér.

Heimildir m.a.:
-Ö-Breiðabólsstaður.
-Ö-Núpar.
-Örnefnastofun – Jónína Hafsteinsdóttir.

Urtönd

Urtönd.

Hafnarsel

Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. Það er í skjóli fyrir austanáttinni og því er um að ræða dæmigerða staðsetningu fjársels á Reykjanesskaganum, sem nú teljast vera 289 talsins. Annars er undarlegt að minjarnar hafi ekki fyrr verið skráðar, svo greinilegar sem þær eru. Hins vegar ber að hafa í huga að engar skráðar heimildir eru til um þær (svo vitað sé). En hverjum tilheyrði þessi mikilfenglega selstaða forðum? Tilheyrði hún landeigandum (Breiðabólstað (Vindheimum)) eða Þorlákshöfn? Hingað til hefur verið talið að Þorlákshafnarsel (Hafnarsel) hafi verið undir Votabergi. En gæti verið að selstaða frá Þorlákshöfn hafi verið færð á einhverjum tímapunkti?

Breidabolstadasel I-2

Skoðum heimildir. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um selstöðu frá Breiðabólstað, en hins vegar segir í lýsingunni: “Skipsuppsátur á jörnin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi”.
Í lýsingu fyrir Þorlákshöfn segir: “Selstöðu á jörnin í Breiðabólstaðalandi, en Breiðabólstaður þar í mót skipsstöðu um vertíð”.
Í örnefnalýsingu fyrir Hjallahverfi segir m.a.: “Þorlákshöfn á ekki land til fjalls, en hefur langa sævarströnd.”
Í örnefnalýsingu fyrir Þorlákshöfn segir þó: “Þorlákshöfn á land að sjó, austan frá Miðöldu í Hraunsmörkum, vestur að Þrívörðum í Selvogsmörkum. Önnur landamerki eru bókfærð: milli Hrauns frá sjó eftir miðin á tvær vörður fyrir ofan Leirur í Skóg
hlíðargafl. Klappir merktar R M, upp Sand í vörðu fyrir ofan Leirur merkta M, hornmark milli Þorlákshafnar, Breiðabólsstaðar og Vindheima, og Hrauns, út miðjan Sand í vörðu í Hálfförum, hornmark Litlalands og Breiðabólsstaðar, þaðan í vörðu fyrir ofan Leirur, hornmark Litlalands og Hlíðarenda. Við hana er merkt L M, svo út miðjan Sand þar til Markhóla ber í Þrívörður. Við sjó fram tekur Nesland við og er þar hornmark á miðjum Sandi frá sjó til heiðar milli Hlíðarenda og Þorlákshafnar.”
Um landamerki jarðarinnar segir: “Að austan: Ingólfsfjalls öxl eystri í Meitlana, bærinn í Hnúka úr því komið er á Grynnraskarð, þ.e. Núpahnúkur gengur út úr fjallinu niður undan Skálafelli, en þar norður af eru tvö skörð í 

Breidabolstadasel I-1

Reykjafjöllin, sem Núpahnúkur er miðaður við. Dýpraskarð vestar, Grynnra-skarð austar.
Að vestan: Ekki nœr landi en svo að þegar komið er á Einstíg, þ.e. Geitafell ber í Skarð á urðinni við Bergsendann yst á Hafnarnesi, að Þorlákshóll sjáist upp yfir urðina. Er svo haldið þar til Hafnarvarða ber í bæinn, og er þá komið á Grynnraskarð. Nær landi, milli Kúlu og Hafnarvörðu má ekki fara nema í ládeyðu. Er svo beygt norður á við þar til bæinn ber í Hnúka.”
Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1978 segir m.a. í Skýrslu Þjóðminjasafnis: “Eftirtaldar fornleifar voru friðlýstar á árinu: Allar gamlar mannaminjar í Herdísarvík í Árnessýslu, fjöldi ótilgreindur, Dælaréttir í landi Skálmholts í Árnessýslu og Þorlákshafnarsel undir Votabergi
á Hellisheiði.”

Breidabolstadasel II-4

Hér er, til fróðleiks, áhugavert viðtal við forstöðumann Fornleifaverndar ríkisins frá árinu 2011, en þessi mál hvíla fyrst og fremst á þeirri stofnun: Viðtalið bar hina viðeigandi yfirskrift “Skráningu fornminja áfátt: “Hvaða tillit er tekið til fornminja við mat á virkjunarkostum? Ísland, eitt Norðurlandaríkjanna, hefur ekki lokið tæmandi fornleifaskráningu. Við gerð 1. og 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða vegna orkunýtingar þurftu fornleifafræðingar því að reiða sig á heimildarskráningu fornleifafræðinga 19. aldar. Minjayfirvöld telja sig hafa litlar forsendur til að svara því hvaða menningarverðmæti verði fyrir skaða vi

ð þá virkjunarkosti sem áætlunin fjallar um.
Breidabolstadasel II-5Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, segir stöðuna í raun sorglega og að ástæðan fyrir því hversu aftarlega Íslendingar eru við skráningu fornminja sé að ekki hafi verið veitt nauðsynlegu fjármagni til slíkrar vinnu. Tími og peningar segir Kristín að sé ekki sér
stakt vandamál. Athugun Fornleifaverndar fyrir nokkrum árum leiddi í ljós að um fimm ár þarf til að ljúka fullnaðarskráningu og áætlaður kostnaður þeirrar vinnu var 400 milljónir. Hún gagnrýnir jafnframt hart það misvægi sem er á fjárframlögum ríkisins. „Af því fjármagni sem ríkið ætlar til umhverfisins fá minjarnar þrjú prósent. Og það er merkileg staðreynd þegar við höfum reynt um árabil að fá fjármagn til að ljúka grundvallar skráningu fornminja,“ segir Kristín.

Náttúra og minjar
Breidabolstadasel II-7Í greinargerð sem Kristín skrifaði, og fylgir skýrslu verkefna-stjórnarinnar, er bent á að horfa beri á umhverfi og landslag í víðara samhengi en gert hefur verið og að minjar verði teknar inn til jafns við náttúru í allri framtíðarvinnu varðandi umhverfi landsins og nýtingar þess. Grunnforsenda þess að hægt sé að taka ákvarðanir um menningar arfinn sé að þekkja hann. „Það gefur auga leið að til þess að vernda menningarminjar þurfum við að vita hvar þær eru, hverjar þær eru og í hvernig ástandi þær eru,“ skrifar Kristín. Gróflega er áætlað að fornleifar á Íslandi, minjar sem eru 100 ára og eldri, gætu verið um 200 þúsund. Þær dreifast um landið allt, jafnt um byggð sem óbyggðir.
Fornfræðingar
Breidabolstadasel II-8Stór hluti þeirra svæða sem komu til umfjöllunar í 1. áfanga rammaáætlunar var óskráður og er það enn nú þegar 2. áfanga er lokið og til stendur að undirbúa þingsályktunartillögu um hvernig nýta skuli náttúruna með vali á virkjunar kostum. Við mat á svæðum þar sem gufuaflsvirkjanir koma til greina höfðu fornleifafræðingar í sumum tilfellum ekki annað á milli handanna en skráðar heimildir fornfræðinga 19. aldar þar sem grunnrannsókn hefði verið nauðsynleg. Þar sem vatnsaflsvirkjanir koma til greina höfðu fornleifafræðingar lítið sem ekkert að styðjast við. „Það er ótækt og óforsvaranlegt að fornleifafræðingum á 21. öld sé gert að vinna við þessar aðstæður,“ segir Kristín og bætir við að minjayfirvöld hafi ekki forsendur að óbreyttu til að meta hvort menningarminjar verði fyrir skaða vegna virkjanaframkvæmda sem til greina komi.
Ferðaþjónusta

Hafnarsel II - Breiðabólstaðasel II

Hafnarsel II – Breiðabólstaðasel II – vatnsstæði.

 Fornleifar og menningarlandslag eru þáttur í menningarferðaþjónustu allra landa og telur Fornleifavernd vert að minna á að á sama tíma og farið er með það sem heilagan sannleik að 80 prósent ferðamanna segjast hafa áhuga á íslenskri náttúru þá segist stór hluti sama hóps hafa áhuga á íslenskri menningu og sögu. Það er því mat Fornleifaverndar að í framtíðarvinnu með rammaáætlun sé eðlilegt að fjallað um menningarminjar til jafns við náttúru þegar lagt verði mat á ferðaþjónustu á Íslandi. „Í raun má segja að við búum við gervimennsku því það er verið að búa til sögustaði og söfn á meðan ekkert er gert fyrir sjálfar fornleifarnar sem við eigum. Það er öfugsnúið,“ segir Kristín.”
Með greinininni eru tilgreindir minjastaðir á svæðunum, t.d. á Hengilssvæðinu: “Á Hengilssvæðinu eru tveir friðlýstir minjastaðir, annars vegar Þorlákshafnarsel og hins vegar Hellurnar (ásamt Hellukofanum svokallaða).”
Að öllu framansögðu vaknar eftirfarandi spurning þar sem ekkert hefur enn (árið 2012) verið sagt um framangreinda selstöðu ofan Krossfjalla: Hvers eiga fornleifarnar að gjalda í fornfáleikanum? Eiga þær ekki meiri virðingu skilið en vanrækslu og áhugaleysi viðkomandi yfirvalda?
Frábært veður. 

Heimildir m.a.:
-Árbók Hins íslenskla fornleifafélags, 75. árg. 1978, bls. 149.
-Fréttablaðið 8. júlí 2011, viðtal við Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Fornleifaverndar ríkisins, segir stöðuna í raun sorglega og að – Skráningu fornminja áfatt –  bls. 11.
-Örnefnalýsing fyrir Hjallhverfi.
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.

Breidabolstadasel II-1

Þorlákshafnarsel

Gengið var yfir Eldborgarhraun eftir Lágaskarðsvegi gegnt Raufarhólshelli, norður með Lönguhlíð, inn á Selstíg, upp í Sandali og á Eldborg undir Meitlum, um Lágaskarð milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells og um Lákastíg austan Stóra-Meitils um Stóradal að Hveradölum. Þessi fyrrum fjölfarni vegur var nefndur Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Gatnamót eru undir Lönguhlíð þar sem Selstígurinn liggur af honum suður með hlíðinni að Hrauni. Þessi leið hefur einnig verið nefnd Lágaskarðsvegur, líkt og hin, sem liggur frá gatnamótunum til suðvesturs áleiðis niður að Breiðabólstað. Sá hluti götunnar (Selstígur/Lágaskarðsvegur) lá niður að Hjalla í Ölfusi. Hraunsselið er skammt neðan við gatnamótin, fast við hraunbrúnina. Í bakaleiðinni var gengið suður með austanverðum Litla-Meitli, ofan við Innbruna og áð undir Votabergi þar sem Hafnarsel kúrir undir grettistaki.
Lágaskarðsvegur var genginn yfir Eldborgarhraunið frá malarnámusvæðinu við Raufarhólshelli að Lönguhlíð. Ofar er Sanddalahlíðin og Suðurhálsar. Þegar komið var yfir hraunið var gengið spölkorn suður eftir Selstígnum og litið á tóftir Hraunssels.
Þá var haldið áfram upp með Lönguhlíð gengið norður eftir Lágaskarðsvegi, milli hraunsins og hlíðarinnar. Undirhlíðin er grasi gróin og því greiðfar göngufólk.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Litli-Meitill blasti við í norðvestri og Eldborgin var beint framundan, ofan Sanddala. Undir Litla-Meitli eru fallegir grasbalar, auk þess sem sjá má vísir af skógrækt undir hlíðinni. Nyrðri-Eldborg er framundan. Úr henni liggur falleg hrauntröð á sléttlendið fyrir neðan. Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla í Ölfusi, kom úr þessari Eldborg. Í raun er það miklu mun eldra en Kristnitökuhraunið norðvestan við Lambafellið, það er myndaði Svínahraunsbrunann.
Gígurinn er mikilfenglegur, ekki síst þar sem hann trjónaði þarna uppi í þokukenndri hlíðinni. Hann hefur hlaðið upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Gígurinn er opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gígarnir tveir, þessi er nefnist Nyrði-Eldborg og annar mun minni austar, utan í Stóra-Sandfelli, nefndur Syðri-Eldborg. Hraunið norðan þeirra er úr Eldborg ofan Hveradala, austan í Stóra-Reykjafelli.
Gengið var áfram um Lágaskarð. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar um þræla Ingólfs Arnarssonar, Sviða og Vífil segir m.a.: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn.”

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Í örnefnalýsingum er fjallað um Lágaskarðsveg. Þar segir m.a. að “Lágaskarð liggur hjá Stakahnúk [en hann er áberandi þegar komið er í skarðið austan við Stóra-Meitil]. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.
Lágaskarðsvegur hefst við Breiðabólstað. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð og upp á Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.”
Varða Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: “Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar (303 m.y.s.).

Skálafell

Skálafell.

Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: “Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.”

Lakadalur

Lakadalur.

Í Þjóðólfi 14. september árið 1906 er fjallað um fyrirhugaða járnbrautalagningu milli Reykjavíkur og Ölfuss. Þar segir m.a. um járnbrautarleiðina austur í sýslur að verkfræðingurinn Þorvaldur Krabbe hafi nú athugað leiðina. “Skýrði hann oss frá, að hann hefði fyrst athugað leiðina héðan austur í Ölfus. Er þar um þrjár leiðir að tala: um Ólafsskarð, Lágaskarð og um Hellisheiði niður hjá Reykjaholti og Reykjum, en um þá leið væri naumast að tala. Um Ólafsskarð mætti leggja braut, og væri þá farið fram hjá Vífilfelli, en Lágaskarðsleiðin niður að Hrauni væri greiðust, en á þeirri leið væri um hraun að fara á mjög löngum kafla, og hann vildi ekki leggja til, að járnbrautir væru lagðar yfir hraun. Undirstaðan eða hleðslan undir brautina héldist þar afarilla, sigi niður og skekktist allavega, og það gæti orðið stórhættulegt, því að járnbrautarteinarnir mega ekki haggast hið minnsta, annars er við því búið, að lestin hlaupi út af sporinu.”

Lágaskarðsvegur

Stapi við Lágaskarðsveg.

Framundan var Hveradalaflötin norðan Lakahnúka og Hveradalir suðavestan í Reykjafelli (Stóra-Reykjafelli). Í efsta dalnum, vestan við Eldborg, var skíðastökkpallur og heitir þar Flengingarbrekka. Stærsti dalurinn heitir Stóridalur og ofan við mynni hans er Skíðaskálinn. Hverirnir, sem dalirnir eru við kenndir, eru í litlum hvammi fyrir ofan Skíðaskálann.
Skíðaskálinn í Hveradölum var reistur árið 1934 af Skíðafélagi Reykjavíkur og var hann í eigu þess til 1971 er Reykjavíkurborg keypti hann. Skálinn brann til kaldra kola 21. janúar 1991. Nýr skáli í svipuðum stíl var þá reistur á grunni hins gamla. Hann var tekinn í notkun 4. apríl 1992 og formlega vígður 17. júní það ár.

Skíðaskáli

Skíðaskálinn í Hveradölum.

Uppi í brekkunni fyrir ofan skálann eru tveir minnisvarðar. Annar þeirra er til minningar um Ludvig H. Müller (1879-1952), kaupmann, er var formaður Skíðafélags Reykjavíkur í 26 ár, frá stofnun þess 1914, en hinn um Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1951), kaupmann, er var formaður þess næstu 11 árin. Í Hveradölum bjó á árunum milli 1930 og 1940 danskur maður, A.C. Høyer að nafni. Hafði hann þar greiðasölu. Þá hafði hann gufu- og leirböð og vísi að gróðurhúsarækt, líklega einn fyrsti maður hér á landi sem stundaði þann atvinnuveg.
Gengið var til baka um Stóradal, niður í Stórahvamm vestan undir Stóra-Meitli og hlíðinni fylgt til suðurs milli hennar og Lambafellshrauns, framhjá Hrafnakletti og að Votabergi. Undir berginu er Þorlákshafnarsel (Hafnarsel).
RaufarhólshellirÍ örnefnalýsingu segir að “frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi. Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi. Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við stóran klett kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi. Þar hafði Þorlákshafnarbóndi í seli gegn skipsuppsátri Breiðabólsstaðarbóndans í Þorlákshöfn. Sunnar frá selinu er hóll eða klettaborg og þar við lóðréttan, lítinn hamravegg er eitthvert mannvirki, sem gæti verið kvíar og raunar ekki sýnilegt, hvað það gæti verið annað.

Votaberg

Votarberg.

Hamraveggurinn hefur veirð notaður á eina hlið, en síðan hlaðið á þrjá vegu úr grjóti. Þetta er um 7 m á lengd og 2 m á breidd, kynni að hafa tekið um 25-30, en það má þykja helst til lítið fyrir stórbýlið Þorlákshöfn. Þetta gæti þó vel staðist, því fjöldi sauðfjár var þar ekki svo mikill á 18. öld og fram á þá 19.”
Rústirnar voru friðlýstar af Þór Magnússyni í janúar 1976.
Í heimildum er einnig sagt frá Tæpistíg, leið er lá “upp úr grasgeira ofan við Votaberg, sniðgata í snarbrattri hlíðinni, upp á brúnina.”
Gengið var niður með Litla-Meitli og niður Eldborgarhraun að upphafsstað. Á leiðinni var leitað hugsanlegra hella í hrauninu, en engir fundust að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.