Torfdalur

Torfdalur er ofan Breiðabólstaðar í Ölfusi. Ofan hans eru Krossfjöll. Fyrir nokkru var skoðuð þar tóft, sem reyndar er merkt inn á kort.

Torfdalur

Annars er Torfdalsnafnið þekkt víðar um land, s.s. vestur í Grímarsfelli, suðaustan Reykjafells. Líklegt hefur verið talið að nafnið sé til komið vegna torfristu og/eða mótekju fyrrum, sbr. eftirfarandi örnefnalýsingu Ölfuss; “Torfdalur – örnefni, rista – dæld í hraunið, vestan engjagötunnar, blautur, góður torfvöllur. Þar var skorið mikið torf til einangrunnar á Hitaveitu Reykjavíkur 1939.” Hér er átt við Núpa undir Núpafjalli sunnan Kamba í Ölfusi. Víða eru og til sambærileg heiti, s.s. Torfufell, Torfufellsdalur, Torfastaðir o.s.frv.
Þegar haldið var á ný í Torfdal fyrir skömmu fundust tvær aðrar tóftir, og jafnvel sú fjórða.
Fyrsta myndin sýnir vörðu á hjallanum ofan dalsins og niður á gatnamót þar en um dalinn liggur gömul gata (götur), sem kemur úr Krossfjöllunum. Í þeim eru margar þjóðgötur og krossgötur og telja má líklegt að nafn fjallsins sé tilkomið af þeim.
Í örnefnalýsingu fyrir Breiðabólstað kemur m.a. eftirfarandi fram um nýtingu og minjar í dalnum: “Mómýri – heimild um mógrafir;
Suður frá Krossfjöllum austanverðum, austan Ása er allstór dalur. Innsti hluti hans heitir Torfdalur. Innst í honum er mýri sem heitir Mómýri. Þar var tekinn mór.” Einnig er til önnur heimild í nefndri örnefnaskrá um nýtingu dalsins, sbr. eftirfarandi: “Mókofi – heimild um mókofa; Sunnan við Mómýri er dálítil slétt vallendisflöt, sem heitir Torfdalsflöt. Á henni miðju eru rústir, sennilega mókofarústir.”
Torfdalur Til að fá meiri heimildir um Torfdalsnafnið var Örnefnastofnun rituð beiðni um frekari upplýsingar og útskýringar á því. Ekki stóð á svari stofnunarinnar að venju: “Þegar leitað var í Sarpi komu upp komu 93 skjöl (og síðan 2 til viðbótar) þar sem Torfdal er að finna. Að vísu eru dalirnir ekki alveg svona margir því að stundum eru fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö skjöl um sömu jörð, en margir eru þeir, og þar sem ekki nærri allt örnefnasafnið er í Sarpi má vel margfalda þessa tölu með tveimur. Leitað var í margar þessar skrár – ekki þó allar því að það er seinlegt að leita í kerfinu – og mjög víða er ekkert minnst á torfristu eða annað sem skýrir nafnið. En þrátt fyrir það fundust mörg dæmi þar sem tekið er fram að í Torfdal sé torfrista eða -skurður. Má í því sambandi nefna bæi s.s. Svínhagi á Rangárvöllum, Brandsstaðir í Blöndudal, Hellisholt og Núpstún í Hrunamannahreppi, Grashóll á Sléttu, Feigsdalur í Arnarfirði, Bjarg í Miðfirði, Hróardalur í Skagafirði, Helgadalur í Mosfellssveit (Grímansfell), Torfastaðir í Grafningi og loks Núpar í Ölfusi þar sem skorið var torf til einangrunar fyrir Hitaveitu Reykjavíkur 1939. Af þessu má e.t.v. draga þá ályktun að Torfdalur dragi langoftast – ef ekki alltaf – nafn af torfskurði, hugsanlega mótaki því að torf merkir að fornu bæði grastorf og mór (“elditorf”). Í landi Breiðabólstaðar í Ölfusi er einmitt Mómýri í Torfdal en það þarf þó alls ekki að vera að dalurinn hafi fengið nafn af mónum, þar gat líka verið torfrista þó þess sé ekki getið. Fyrir kemur orðmyndin Tordalur en telja má að það sé aðeins framburðaratriði, “f” hefur tilhneigingu til að detta út í þessari stöðu.

Torfdalur Í gamallli örnefnaskrá Núpstúns í Hrunamannahreppi er því haldið fram að nafn dalsins, Tordals, sé af því að torvelt hafi verið að komast með hesta niður í hann, en bóndi sem þar er fæddur og uppalinn og hefur búið alla sína tíð hrekur þá kenningu í nýrri skrá. Stundum er tekið fram að slægjur séu í Torfdal eða eitthvað sagt um gróðurfar, og á einum stað – í Botni í Tálknafirði – er skógur í Torfdal. Að lokum má benda á grein um Torfa- og Torfustaði sem Þórhallur Vilmundarson skrifar í Grímni 1 (1980).”
Framangreint er hið ágætasta svar og útskýrir nafngiftina prýðilega út frá nýtingu og örðum nytjum.
Á annarri mynd sést niður á flötina þar sem tvær tóftir eru í Torfdal neðan Krossfjalla, önnur er með grjóti í, þessi nær en hin er mestmegnis úr torfi og er að sjá vinstra megin við grjóttóftina alveg við rof sem er þarna fyrir framan lækinn. Einn steinn sést í þeirri tóft.
Á þriðju myndinni sést enn eldri tóft, sem er ofar í dalnum með rofi umhverfis og er staf stungi niður í hana. Þar nálægt er ferköntuð gröf, trúlega mógröf. Við neðri tóftirnar er vatnslögn sem kemur úr gilinu efst en ólíklegt er að þessar tóftir tengist henni eitthvað. Athugandi er að gaumgæfa þetta svæði betur við tækifæri.
Að lokum má geta þess að í leiðinni var gengið fram á 10 urtandaregg í hreiðri, sem næstum var búi að stíga ofan á. En það kom nú öndinni til góða að þjálfaðir sjáendur eru með jafnan með augun allsstaðar, einnig næst sér.

Heimildir m.a.:
-Ö-Breiðabólsstaður.
-Ö-Núpar.
-Örnefnastofun – Jónína Hafsteinsdóttir.

Urtönd

Urtönd.