Tag Archive for: Landnáma

Víkingaskip

Í Samvinnunni 1951 fjallar Helgi P. Briem „Um nafngift Íslands – Hafði Hrafna-Flóki vetursetur í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi, en ekki í Vatnsfirði á Barðaströnd?„. Margir hafa talið Hrafna-Flóka haft vetursetu við Vatnsfjörð á Barðaströnd, en það er þó málum blandið sbr. eftirfarandi;

Helgi P. Briem

Helgi P. Briem (1902-1981).

„Marga hefur undrað á því, að Ísland skyldi fá svo kaldranalegt nafn. Hafa komið ýmsar tillögur um, að það fengi annað nafn. Er tillaga Einars skálds Benediktssonar merkust. Vill hann nefna landið Sóley og telur það þýðingu á elzta nafni þess: Tíli eða Thule, „því þar gerir sól sumarhvörf“. Vinsamlegir ferðamenn segja oft, að Ísland ætti að hafa nafnaskipti við Grænland.
Í strjálbýlu landi og lítt þekktu eru þau nöfn þó líklegust til langlífis, sem lýsa staðháttum, snjallyrði eins og Herðubreið, Dyrhólaey og Blanda eru á við landabréf. Þau segja ferðamanninum, hvar hann er staddur. Orðhagur maður er velgerðarmaður allra ferðamanna, og gat bjargað lífi þeirra, sem villtir voru. En hvergi er villugjarnara en á hafinu og torveldara að spyrja til vegar. Er því mikill vandi að gefa eyju nafn, svo að hún segi til sín við landtöku.
Ísland mun hafa fengið ýms nöfn, og er ekki ólíklegt, að hið írska nafn: I Brezil — Hamingjueyjarnar — eigi við Ísland, því að hvar væri þeirra ella að leita?

Íslandskort

Íslandskort 1528

Landnáma nefnir þrjú nöfn eldri en Ísland: Tíli, Garðarshólmi og Snæland. Garðarshólmi er svo fráleitt nafn, að það hvarflar að manni, að Garðar hafi naumast getað hugsað það sem nafn á landinu. Hins vegar eru fáar eyjar við landið, sem hægt væri að kalla hólma, nema þá Hrísey. Til þess að slíkt gæti staðizt yrði að telja Eyjafjörðinn árós, og má telja það í ríflegra lagi, þó að þeir Hrafna-Flóki hafi kallað Faxaós, sem við teljum nú réttar nefndan Faxaflóa.
Snæland er lítið betra, því mörg lönd eru snævi hulin að vetrarlagi og víða fellur snær mikill í fjöll. Hins vegar mun enginn landnámsmanna hafa séð fyrr land, þar sem fjöll voru hulin glampandi, fannhvítum ís að sumarlagi. Og hér voru ekki aðeins einstök fjöll með fönnum og sköflum, heldur voru víðáttumikil fjalllendi undir ís.

Vatnajökull

Vatnajökull.

Líklegast hafa landnámsmenn aldrei séð jökla fyrr en þeir komu til Íslands. Munu norskir jöklar ekki sjást frá sjó. Þeir nota heldur ekki norsku orðin fonn eða bræ, sem á íslenzku er breði og mjög sjaldgæft. Þeir virðast því hafa verið í nokkrum vandræðum með að gefa þessu nýja náttúrufyrirbrigði nafn, en ísrennslið úr fjöllunum fékk fljótt nafnið jökull. Það mun skylt orðinu jaki. Síðar mun nafnið jökull hafa færzt á allan hjálm fjallanna, enda þótt lítil hreyfing sé á ísbreiðunni.
Svo segir í Landnámu, að þeir Flóki „komu austan at Horni og sigldu fyrir sunnan landit“, enda munu flestir hafa komið þá leið. Það fyrsta, sem þeir sáu af landinu, hefur því verið Vatnajökull, mesti jökull, sem hvítir menn höfðu þá augum litið. Hann varpar glampa langt til hafs og var ótvíræð sönnun um það, að þeir væru komnir til landsins, sem þeir leituðu, en hvorki til Skotlands né Írlands.

Horn

Vestra-horn.

Horn var mikið kennileiti og gott. Það er tvöfalt: Eystra-Horn og Vestra-Horn. Bæði eru þau hrikaleg með hvössum tindum og ólík öðrum fjöllum, enda er í þeim gabbró og ekki lagskipt eins og blágrýtisfjöllin, sem mynduð eru af hraunum.
Fjörðurinn milli Horna hét að sjálfsögðu Hornafjörður, en það nafn átti sér örlög. Landnáma segir, að Garðar „kom at landi fyrir austan Horn, þar var þá höfn“. Þetta bendir til þess, að höfnin hafi þegar verið tekin af, er Landnáma var færð í letur rúmlega þremur öldum eftir að Garðar kom þangað. Eftir að höfnin spilltist gerði minna til um nafnið á firðinum, og þó að fjörðurinn segði svo greinilega til nafns, fluttist nafn hans vestur fyrir Skarðsfjörð, en sá upprunalegi Hornafjörður heitir nú Lón eða Lónsvík. Þórður biskup Þorláksson hefur auðsjáanlega verið í vandræðum með nafnið á Hornafirði, því hann kallar Vestra-Horn við Skarðsfjörð Eystra-Horn á korti því, sem við hann er kennt og merkt ártalinu 1668.

Hrafnaflóki

Hrafna-Flóki – leiðir að og frá Íslandi.

Leið Flóka er lýst svo: „En er þeir sigldu vestr um Reykjanes ok upp lauk firðinum, svo at þeir sá Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: Þetta mun vera mikit land, er vér höfum fundit. Hér eru vatnsföll stór. Síðan er þat kallaðr Faxaóss. Þeir Flóki sigldu vestr yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörðr við Barðaströnd. Þá var fjörðrinn fullr af veiðiskap. Ok gáðu þeir eigi fyrir veiðum at fá heyjanna, ok dó allt kvikfé þeira um vetrinn. Vor var heldr kalt. Þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landit Ísland, sem þat hefur síðan heitit.“
Hafa sagnfræðingar oft bætt við, að hann hafi kallað fjörðinn Ísafjörð, en ekki mun það sagt í neinu handriti Landnámu. Er þó enginn vafi á því, að nafnið er fornt.

Vatnsfjörður vestra

Vatnsfjörður á Barðaströnd – kort.

Í tveimur handritum Landnámu (Hauksbók og Melabók) er því bætt við: „Þar sér enn skálatopt þeirra inn frá Branslæk ok svá hrófit ok svá seyði þeira.“ Hér sýnist ekki geta verið vafi á, hvar Flóki hefur haft vetrarsetu.
Vatnsfjörður á Barðaströnd er vel þekktur. En auk þess er vísað á kuml, sem enn er við líði. Munu fáar þjóðir í heiminum geta vísað á rústir, sem hlaðnar voru af nafngreindum manni, áður en landið byggðist, og væri ástæða til þess að góðir fornfræðingar rannsökuðu það. Samt sem áður er frásögnin grunsamleg, fyrst og fremst vegna þess, að maður undrast, hvernig örnefni gætu lifað í mannlausu landi.
Þau, sem nefnd eru í sambandi við Flóka, eru þó svo skýr, að þar er ekki um að villast í byrjun: Horn, Reykjanes, Faxaós, Snæfellsnes. Enginn er í vafa um, hvað Reykjanesið muni heita, er hann siglir fyrir nesið.

Keflavík

Kort af Reykjanesskaga 1809.

Raunverulega er það aðeins hællinn á nesinu, sem heitir Reykjanes, en hinn miklu skagi hefur verið nefndur Reykjanesskagi í landafræðum, og er það nafn engum til sóma, en hér fer sem víðar, að menn gefa því nafn, sem menn sjá yfir, en gleyma að gefa stærri svæðum nafn.
Faxaós fylgir svo skemmtileg saga, að nafn Faxa hefur lifað í Faxaflóa, enda er hann afmarkaður af Reykjanesi og Snæfellsnesi. Það lýsir einnig nafni, því á öllu Íslandi er það eina fellið, sem sést frá sjó og er snævi hulið.
Þegar komið er norður yfir Breiðafjörð, verður hins vegar erfiðara að átta sig. Tangar á Vestfjörðum eru margir og firðir, og hver öðrum líkir. Þaulvanir skipstjórar þekkja firðina auðvitað, en fyrir þá, sem sjaldan fara um, mun erfitt að þekkja firðina án korts, og sérstaklega að lýsa þeim, svo að aðrir geti áttað sig eftir þeirri lýsingu.

Vatnsfjörður vestra

Vatnsfjörður við Barðaströnd.

Vatnsfirðir munu ekki vera nema tveir, en gætu verið fleiri og Vatnsdalir eru allmargir, og Vatnadalir. Af örnefnum Vestfjarða er þó eitt, sem ekki getur flutzt til: Ísafjörður. Er það eini fjörðurinn á Íslandi, sem skerst milli ísa, þ.e. jökla. Er Drangajökull á aðra hlið, en Gláma á hina.
Það- er einkennilegt, að höfundur Landnámu, sem flestir telja skráða á Vesturlandi, skuli tala um, að er þeir Flóki komu frá Faxaflóa, skuli þeir hafa siglt „vestr yfir Breiðafjörð ok tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd“, því sú leið er í norðaustur frá Öndverðarnesi. Hér er tekið einkennilega til orða, að tala um að sigla yfir fjörðinn, þegar siglt er inn í hann og tekið land heldur fyrir innan miðju Barðastrandarinnar.

Vatnsfjörður

Vatnsfirðir fyrir Vestan.

Höfundur Landnámu lýsir því, að um vorið gekk Flóki „upp á fjall eitt hátt ok sá norðr yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; Því kölluðu þeir landit Ísland“. Hér er einnig einkennilega tekið til orða, því ekkert fjall er nærri Vatnsfirði, sem gæfi útsýn yfir Ísafjörð. Firðirnir eru skorur í hálendið, sem leyna sér þar til komið er að þeim. Jafnvel þó Flóki hefði gengið á Glámu, þar sem hún bar hæst, hefði hann naumast getað séð niður í Ísafjarðardjúp eða Ísafjörð. Hefur höfundurinn því hugsað sér, að fjallið hafi þurft að vera hátt. Er venjulega talið, að Flóki muni hafa gengið á Hornatær og séð niður í Arnarfjörð. Raunar er líklegra, að hann hafi getað séð niður í Trostansfjörð og út til Arnarfjarðar, og er sú átt frekar í vestur eða norðvestur. Hitt er þó harla ólíklegt, að Arnarfjörður eða Suðurfirðir hafi verið fullir af hafísum. Slíkt skeður víst mjög sjaldan og ber tvennt til: straumar liggja ekki, svo að þeir beri mikinn hafís inn í firðina fyrir sunnan Ísafjarðardjúp og eins er grunn út af þeim öllum, sem stöðvar stóra jaka, þó smærri jakar kunni að slæðast þangað.

Vatnsfjörður eystri

Vatnsfjörður í Ísafjarðardjúpi – kort.

Hins vegar er Ísafjarðardjúp berskjaldað í þessu tilliti, og þangað getur komið hafís og hefir gert iðulega.
Margt þetta bendir til þess, að þeir Flóki hafi farið eitthvað norðar en til Barðastrandarinnar og síðan upp á Hornatær. En það er landið sjálft, sem rökstyður það. Svo hagar til í Vatnsfirði, að þar er hafnleysa. Sýnist því undarlegt, ef Flóki hefur einmitt leitað þangað. Fjörðurinn er eins og axarfar inn í hálendið. Hlíðar eru brattar og undirlendi ekkert nema niður að stóru vatni, sem er talið mjög djúpt. Í því er nokkur silungur. Úr vatninu fellur elfur, sem heitir Vatnsdalsá. Er hún mikið vatnsfall og straumhörð. Hefur hún sorfið sig gegnum malarhjalla nokkra og niður í bergið, en fellur af stöllum og myndar smáfossa. Þessir malarhjallar eru eina undirlendið í dalnum, nema eyrar myndaðar af árframburði við norðurenda vatnsins.

Vatnsfjörður eystra

Vatnsfjörður í Djúpinu – kort.

Byggð mun aldrei hafa festst í dalnum til langframa. Þó eru rústir þar eftir fjögur kot. Nýtur dalurinn fjarvistar manna, því þar er fríður lurkskógur, mestmegnis birki, en einnig víðir og óvenjulega fögur reynitré. Í skóginum er smiðjutóft og aska og járngjall í jörðu. Segir Eggert Ólafsson, að þar muni Gestur hinn spaki Oddleifsson frá Haga hafa stundað rauðablástur og margir síðan.
Vegna þess, hve skip Flóka hefur verið lítið, mun hann ekki hafa getað flutt fullorðin dýr til Íslands. Hann hefur því þurft að hafa með sér ungviði til uppeldis en treysta algerlega á fisk og fugl fyrstu árin. Sýnist Vatnsfjörður ekki hafa þau skilyrði að bjóða, sem Flóka voru lífsnauðsynleg. Virðast margir staðir á landinu til stórra muna álitlegri. Finnig virðist það einkennilegt, að kvikfé þeirra dó allt um veturinn. Virðist það ólíklegt, ef fáein lömb og kálfar gátu enga snöp fundið í skóginum, sem var þar hátt upp í hlíðum, jafnvel þótt heyskapurinn hefði fanð út um þúfur.

Víkingar

Víkingaskip – knerrir í legu.

Skip sín geymdu fornmenn venjulega á landi. Voru þau dregin upp í læki, en síðan hlaðin stífla fyrir aftan þau. Er hækkaði í þessu lóni, var skipið dregið lengra upp í lækinn og stíflað aftur og haldið áfram, þangað til það var komið á þann stað, sem því var ætlaður staður. Var þá hlaðið hróf utan um það. Vegna þess hve sæbratt er í Vatnsfirði, virðist enginn ós þar hentugur til að draga skip á land.
Hleðslur þær, sem áður er getið um, eru ekki í þeim eiginlega Vatnsfirði, heldur skammt fyrir norðan Brjánslæk. Mótar þar fyrir nokkrum gömlum tóftum, sem kallaðar eru Flókatóptir. Mestar þeirra og greinilegastar eru tvær langtóftir sambyggðar. Er hin stærri talin hrófið, en sú skemmri skáli Flóka. Virðist það algerlega útilokað, að Flóki hefði getað komið skipi sínu upp í hrófið með skipsfólki sínu einu.

Flókatóftir

Flókatóftir? við Brjánslæk við Vatnsfjörð vestari.

Tóftirnar eru þó mjög fornlegar og gætu verið frá fyrstu árum Íslandsbyggðar, úr því munnmælasögur hafa myndazt um þær, er Landnáma er færð í letur.

Við vitum ekki mikið um skip þau, sem forfeður okkar notuðu til siglinga um hið úfna Norðuratlantshaf. Af hafskipum, sem geymzt hafa, eru þrjú merkust, því þau eru heillegust. Elzt þeirra er skip það, er fannst við Sutton Hoo skammt frá Woodbridge í Englandi. Það er talið vera sett á haug á árunum 650—670. Það var 27 metra langt og 4,3 metra breitt. Engan hafði það seglbúnað, en 38 ræðara.

Ásubergsskipið

Ásubergsskipið.

Oseberg skipið var 21,44 m. langt, en 5,10 m. breitt. Hæð um miðju var 1,60 m. og var 0,85 m. yfir vatnsborð og risti því 0,75 m. Það er talið byggt rétt eftir árið 800 sem skemmtiskip fyrir Ásu móður Hálfdánar svarta, en ekki til langferða.
Gökstad skipið var 23,33 m. stafna á milli, en 5,25 m. á breidd. Frá kili til borðstokks um mitt skipið var 1,95 m., en hæðin úr sjó 1,10 m., svo það risti 0,85 m. Til gamans hafa menn reiknað þvngd þess og var hún talin 20,2 smálestir, en burðarmagnið 31,78 smálestir. Talið er, að það sé byggt um miðja 9. öld eða um svipað leyti og Flóki fór til Íslands.
Bæði þessi skip höfðu seglbúnað og hafði Osebergskipið 15 árar, en Gökstadskipið 16 árar á borð (sextánsessa). Gökstadskipið var fullkomið bafskip. Var gerð nákvæm eftirlíking af því, og sigldu nokkrir vaskir, ungir Norðmenn því vestur yfir haf og upp Fljót beilags Lárentíusar og alla leið til Chicago árið 1892.

Gauksstaðaskipið

Gauksstaðaskipið.

Skip Flóka hefur líkast til verið knörr og ekki stór. Það munu ekki hafa fundizt neinar leifar eftir knerri, sem hægt væri að nota til að gera sér grein fyrir byggingu þeirra og stærð eða stærðarhlutföllum. Lag norsku skipanna er svo fagurt, að menn skyldu ætla, að slík gagnsemis fegurð geti varla skapazt nema við vinnugleði margra kynslóða.
Þó bendir allt til þess, að ekki hafi verið gerð seglskip fyrr en á 8. öld. Til þess tíma voru skipin seglalaus, enda höfðu þau botnfjöl en ekki kjöl, en hún gat ekki borið upp mastur og það átak, er skipið skreið fullum seglum. Sumir halda því, að knerrir hafi haft þrjár árar hvoru megin við framstafn. En hvernig sem það hefur verið, hefur skip Flóka verið sterkara og viðameira en langskipið, þó það væri minna.
Kaupskipin voru kölluð knörr eða birðingur.

Knörr

Knörrinn Skuldelev I er stærsta skipið á Víkingaskipasafninu í Hróarskeldu. Það er yfir 16m langt og um 5m breitt með yfir 20 tonna lestarrými.

Knerrir voru víst lítið frábrugðnir langskipum, en smærri. Byrðingar voru styttri og breiðari og höfðu meira burðarmagn. Þeir voru því notaðir til strandsiglinga, enda þótt sögurnar minnist oft á, að þeir hafi komið til Íslands. Líklega hefur verið lítill munur á langskipum og öðrum skipum, því „þat var upphaf enna heiðnu laga, at menn skyldu eigi hafa höfuðskip í hafi, en ef þeir hefði, þá skyldu þeir af taka höfuð, áðr þeir kæmu í landsýn, ok sigla eigi at landi með gapandi höfðum eða gínandi trjónum, svá at landsvættir fælist við“, segir í Landnámu um Úlfljótslög.
Er hér greinilega landvarnarákvæði, því óspektarmenn, sem komu með ófriði til landsins, vildu að sjálfsögðu fæla landvætti, en um leið vöruðu þeir landsbúa við, að ills væri von af þeim, og að þar færu ekki menn, er virtu lög landsins.

Ormen Friske

Ormen Friske.

Flóki mun hafa komið á knerri til Íslands og ekki mjög stórum. Áhöfn á knerri mun venjulega hafa verið 15—30 manns í Íslandsferðum. Ekki eru nafngreindir nema 4 af skipsmönnum og Flóki sá fimmti, en þeir munu hafa verið fleiri.
Ormen Friske, hið sænska víkingaskip, sem fórst við Hélgoland árið 1949, var 24 m. langt, 5,5 m. breitt og risti 1 m. Það var talið hafa vegið 12 smálestir, að því er blöðin sögðu.
Virðist því fjarri sanni að hugsa sér, að knörr Flóka hafi vegið minna en 8 smálestir að þyngd og mun þó hafa verið meira. En hvernig hann ætti að geta komið svo þungu skipi í naustina með 15—30 mönnum, er ekki skiljanlegt.

Það má teljast líklegt, að Flóki hafi haft bát aftan í skipi sínu (eftirbát) eða innanborðs. Er þess sérstaklega getið um Garðar, að hann hafi skotið út báti. Mátti þá nota bátinn til fiskveiða, en leggja skipinu í skjól.

Íslendingur

Íslendingur í Víkingaheimum. Skipið er byggt á málum Ásubergsskipsins.

Það var þó hægara sagt en gert, að leggja skipi þarna við Vatnsfjörð, sem er hyldjúpur, því legufæri voru þá næsta ótrygg. Akkeri voru lítið betri en stjórar, og var reynt að nota trjástofn með mörgum greinum í hvirfingu, er mynduðu fleina þess. Var síðan bundið grjót við legginn. En ekki hrifu slík akkeri vel og voru varla notandi við millilandaskip nema stutta stund inni í víkum.
Hvað sem Flóki hugðist fyrir, varð hann að gæta skips síns, koma því á land og sjá um, að ekkert yrði að því, en það þýddi, að hann gat ekki notað það til róðra, enda hlaut það að vera óþjált til slíkra smáferða. Er jafnvel ólíklegt, að hann hafi notað eftirbátinn til fiskveiða, hafi hann verið til, því ekki mundi hann hafa tekið alla skipshöfnina, og þeir sem höfðu landlegur, þá getað aflað heyja.

Vatnsfjörður eystra

Vatnsfjörður í Djúpinu – tóftir.

Ber hér allt að sama brunni: Flóki hefur ekki haft vetursetu í Vatnsfirði á Barðaströnd. Það er auðvelt að rekja slóð hans fyrir Snœfellsjökul, en það gengi kraftaverki næst, ef hægt hefði verið að varðveita nákvœmlega ferðasögu hans við Vestfirði, því þar
er hver fjörðurinn öðrum líkur.
Liggur það því nærri að láta sér detta í hug að villt hafi verið á þessum tveim Vatnsfjörðum og skulu því hér athugaðir möguleikar á því, að Flóki hafi haft vetrarsetu að Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.
Þar sem ekki virðist hafa verið samfelld byggð í Vatnsfirði á Barðaströnd, er Vatnsfjörður við Djúp landnámsjörð. Þar nam Snæbjörn, bróðir Helga magra land, en síðan hefur það verið höfuðból og prestssetur fram á þennan dag. Kannast allir Íslendingar við ábúendur Vatnsfjarðar, svo sem Þorbjörgu digru, dóttur Ólafs pá, Þorvald Snorrason, Vatnsfjarðar-Kristínu og Björn Jórsalafara.

Vatnsfjörður eystra

Á Vestfjarðarhálsi innst í Ísafjarðardjúpi.

Svo einkennilega vill til, að oft er getið um mikil vorharðindi einmitt í sambandi við Vatnsfjörð. „En brátt varð með harðindum til fengið búsins, sem lengi hafði siðr verit til í Vatnsfirði“, segir í Sturlungu, og enn segir: „Þar var hörð vist, því at vár var illt, en vetr allgóðr. Fjórtán hestar dóu í Æðey uppstigningardag, meðan menn váru at mat. Til landauðnar horfði í Ísafirði, áðr fiskr gekk upp á Kvíarmið.“
Fiskur hefur ætíð gengið langt inn á Djúpið, þó að áraskipti séu að því. Er þó lítill vafi, að hann hefur verið þar á landnámsöld. Vatnið, sem fjörðurinn dregur nafn af, er allmikið lón. Heitir það nú Sveinhúsavatn. Í það rennur á, er Þúfnaá heitir, en smálækir eru að auki, svo hafnarskilyrði sýnast í bezta lagi. Veiðiskapur er bæði í lóninu og ánni, en hlíðar grónar og voru þar miklir skógar áður, shr. frásögn í Grettlu um það, að Grettir leyndist í skóginum. Er þar sumarfagurt og álitlegt og ekki ósennilegt, að þeim, er siglir með Snæfjallaströnd, virðist naumast ástæða til að leita lengur, er honum býðst vetrarseta, þar sem skógur er og grösugt, fiskur bæði í sjó og vatni og fuglar, en að auki betri skilyrði til að koma skipi á land, en hann hafði séð ella við Vestfirði.

Íslandskort 1545

Íslandskort 1545.

Ekki er nokkur vafi á því, að Drangajökull hefur minnkað eins og aðrir jöklar á Íslandi. Á korti Bjarnar Gunnlaugssonar, er styðst við mælingar gerðar 1806—1809, virðist jökullinn ná suður undir Ingólfsfjörð og svipað virðist á korti eftir Knopf frá 1733. Örnefnin bera einnig vott um, að jökullinn hafi minnkað. Snæfjall, Snæfjallaheiði og Snæfjallaströnd eru nú ekki svo snævi þakin, að þessi nöfn geti talizt réttnefni. Suðurmörk Snæfjallastrandar er Kaldalón. Það er aðeins 1.5 km. breitt, en með snarbröttum hlíðum. Fyrir sunnan það er mikið fjall og hátt, er heitir Skjaldfannarfjall. Lýsir nafn þess betur fannhjálmi íslenzkra fjalla en nokkurt annað nafn, ef jöklarnir eru taldir rennslið frá fannbreiðunni. Þó er ekki ólíklegt, að fjallið hafi heitið Skjaldfönn áður eins og bærinn, sem stendur undir því, en nú, þegar sem enginn snjór er eftir í því, hafi hafi verið bætt við nafnið.

Kaldalón

Kaldalón – Drangjökull fjær.

Ef maður hugsar sér að fjallið hafi verið snævi þakið og Snæfjallaströndin öll, hlýtur jökullinn að hafa verið svo mikill, að skriðjökull hafi gengið niður í lónið og myndað jaka af jökulsporðinum í vorleysingum. Á uppdrætti Þórðar biskups Þorlákssonar frá 1668 er Drangajökull nefndur Lónjöklar og virðist þá sem hann hafi dregið nafn af Kaldalóni.
Hafi Flóki siglt inn Ísafjarðardjúpið, hefur hann hlotið að sjá Kaldalón, sem var ólíkt öllu, sem hann hafði séð áður. Þá hefur hann séð fjörð „fullan af hafísum“, og gat naumast lýst þeirri sýn á annan hátt, hvort sem jöklar voru þar á floti eða mynduðu jökulhamra. En Kaldalón er í hánorður frá Vatnsfirði.

Víkingaskip

Víkingaskip.

Á öllu Íslandi er naumast um að ræða nema Kaldalón og Leirufjörð, sem hefðu getað fyllzt af ís, svo að sá ís kæmi ekki af hafi, en um Leirufjörð er ekki að ræða í þessu sambandi. Virðist allt þetta styðja þá skoðun, að Hrafna-Flóki hafi komizt norður í Ísafjarðardjúp og haft vetrarsetu í Vatnsfirði. Þurfti hann þá ekki að ganga á hátt fjall til að sjá fjörðinn, eins og höfundur Landnámu varð að segja til að skýra það, hvernig hann gat séð fjörð fullan af hafísum. Hafi hann heyrt jöklabrak og dynki í vorIeysingum, er líklegt, að hann hafi gengið á næstu fjöll til að forvitnast um, hvaðan þau háreysti komu, og kemur allt þetta furðuvel heim við frásögn Landnámu, enda þótt fólk gæti ekki fest örnefni á réttan stað, þegar enginn var til að geyma þau eftir brottför þeirra.

Kaldalón

Kaldalón.

Bendir margt til þess, að frásögnin um Flóka hafi geymzt svo óbrengluð, að við getum bent á, að hann muni hafa gengið á Vatnsfjarðarháls og þar gefið landinu nafn. Hefur þá ekkert brenglazt í frásögninni í 350 ár, nema hvað höfundur Landnámu staðfærir Vatnsfjörð við Barðaströnd í stað Ísafjarðardjúps, en frásögnin öll getur staðizt og fær gildi þegar sá litli misskilningur hans er leiðréttur.

Vestfirðir

Frá innanverður Ísafjarðardjúpi.

Fornmenn létu sér nægja að gefa þeim stað nafn, sem þeir sáu, enda er hlutlaus hugsun nýtilkomin. Hefur Flóki því líklega ætlað að gefa vesturkjálkanum einum nafnið Ísland, enda átti hann honum grátt að gjalda. En þeir, sem komu til landsins „austan at Horni“ og sáu jökulglampann löngu áður en þeir sáu landið, færðu nafnið yfir á landið allt eins og nafnið á Reykjanesi var fært yfir á hinn stóra skaga.
Nafnið Ísland er því gott nafn og réttnefni á því eina landi í Norðurálfu, þar sem jöklar lýsa vegfarendum, og getum við verið ánægðir með það.
Ef Grænland hefði fundizt á undan Íslandi, hefði það sjálfsagt fengið nafn af jöklum sínum. Nú skipaðist ekki svo, þar sem landnemarnir komu að austan. Er Eiríkur rauði sigldi frá Íslandi og suður með Grænlandi, voru firðir þar ekki byggilegir.

Eystribyggð

Eystribyggð – byggðasvæði Eiríks rauða. Hann byggðis ér bú innst í Eiríksfirði.

Er hann kom suður fyrir Hvarf, fann hann firði og dali með birkikjarri og grængresi. Nefndi hann það hérað sitt Grænland, „því at hann lét þat men mjök mundu fýsa þangat, ef landit héti vel“.
Það nafn færðist síðan yfir á hið mikla land, sem hann aldrei sá nema lítið af. Hins vegar virðist það hafa verið réttnefni vegna þess hve gróður þar stakk í stúf við gróðurleysi á öðrum stöðum landsins.
Ísland hefði því aldrei getað fengið nafnið Grænland, því það hefði ekkert gildi haft fyrir sæfarendur, er komu frá Norðurálfu, þar sem öll lönd eru græn. Það nafn er því óskiljanlegt nema fyrir þá, sem séð hafa Ísland og skilið nafngift þess.“ – Helgi P. Briem.

Heimild:
-Samvinnan, 10. tbl. 01.10.1951, Um nafngift Íslands – Hafði Hrafna-Flóki vetursetur í Vatnsfirði í Ísafjarðardjúpi, en ekki á Barðaströnd?, Helgi Þ. Briem, bls. 4-6 og 26-28.

Vatnsfjörður

Í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.

Landnám

Í ritinu „Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess„, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs:

Ritun Landnámu

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1067/1068 – 1148).

Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; „Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.“

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.

Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á Íslandi.

Víkingaskip

Farkostur landnámsmanna.

Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á Íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða „eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur“ (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.

Hauksbók

Hauksbók á sýningu í gamla Landsbókasafninu.

Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, Hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.

Styrmisbók

Styrmisbók.

Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
„Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð“ (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið.

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar.

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, „er langt mundi fram“, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), „er var margspök og óljúgfróð“.
LandnámÞessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Sjá meira um landnám Ingólfs HÉR.

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.

Reykjanes

Reykjanes fyrrum – kort ÓSÁ.

Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé við erfiðar aðstæður.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum.

Landnám Ingólfs

Landnám Ingólfs.

Þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla.

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – fyrrum landnám Ingólfs – kort Björns Gunnlaugssonar 1844.

Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast.

Landnám

Við upphaf landnáms.

Landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.

Vífilsstaðir

Vífilsstaðir fyrrum.

Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann „bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum“ (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.

Vatnsleysuströnd

Vatnsleysuströnd – kort.

Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarli, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hrolleifur bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.

Gufuskálar

Gufuskálar – óskilgreind skálatóft á hól.

Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans „átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár“ og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi „vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi“ (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.

Skeggjastaðir

Skeggjastaðir og Hrafnhólar.

Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.

Stardalur

Stardalur – fyrrum bæjarstæði Múla?

Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.

Esjuberg

Esjuberg.

Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.

Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.

Eilífsdalur

Eilífsdalur.

Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.

Brynjudalur

Brynjudalur – tóftir Múla?.

Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ekki í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og „kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós“ (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós.

Ölfusá

Ölfusá neðan Gnúpa.

Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu „inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun“ (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll „í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað“ (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur „allt í Álfós“ (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson „nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi“ (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson „nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.“ Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.

Steinröðarstaðir

Steinröðarstaðir.

Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur „nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum“ (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, „þá er landið var víða byggt með sjó.“ Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og „nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli“ (Mb. 24-25).

Skálholt

Skálholt – teikning; Kalund.

Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að;
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
ÞingnesHér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Landnám

Í „Landnámu“ er greinargóð lýsing á landnámi Ingólfs – hins fyrsta norræna landnámsmanns.

Landnám

Landnám Íslands – póstkkort Samúels Eggertssonar.

Samkvæmt henni ræður Ölfusá og Sogið að suðaustan og austanverðu, þá Ölfusvatn, sem síðar nefndist Þingvallavatn, þá Öxará. Öxará rennur milli Búrfells og Súlna og fellur úr Myrkravatni, sem er skammt norður af Búrfelli. Norðaustur af Myrkravatni er Sandvatn, vestan undir Súlum, en úr því fellur Brynjudalsá, og ræður hún takmörkum landnáms, en síðan Hvalfjörður og þá haf allt að vestan og sunnan til mynnis Ölfusár.

Landnám

Landnámið.

Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, var hinn fyrsta vetur með honum eftir að hún kom til landsins. Þá hún síðan af honum Rosmhvalanes allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum í staðinn heklu flekkótta og vildi þá kalla, að hún hefði keypt landið svo að síður væri hætta á að rift væri gjöfinni. Land það, er Steinunn eignaðist, var afar víðáttumikið, náði frá Ósabotnum yfir allt Rosmhvalanesi, Miðnes, Garðskaga, Njarðvík og alla Vatnsleysuströnd inn að Hvassahrauni. Eflaust hefur hún búið suður á Rosmhvalanesi, líklega á Gufuskálum, því alla Vatnsleysuströndina gaf hún aftur úr landi sínu.

Landnám

Landnám Ingólfs á Reykjanesskaga.

Eyvindur, frændi Steinunnar og fóstri, fékk að gjöf frá henni landið milli Kvíguvogabjarga og Hvassahrauns. Hann bjó í Kvíguvogum, sem nú heitir í Vogum, en Kvíguvogabjörg heita nú Vogastapi, Njarðvíkurstapi eða einungis Stapi. Hrollleifur í Heiðabæ kúgaði Eyvind til þess að hafa við sig landaskipti. Fluttist Hrollleifur þá suður í Kvíguvoga og bjó þar síðan, en Eyvindur bjó nokkra vetur í Heiðabæ og fór síðan suður á Rosmhvalanes til Bæjarskerja.
Sagnir eru og af fleiri landnámsmönnum er fengu af upprunalegu landi Ingólfs.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur son hans bjó að Vogi.
Molda-Gnúpur fór til Íslands fyrir víga sakir þeirra bræðra og nam land milli Kúðafljóts og Eyjarár, Álftaver allt; þar var þá vatn mikið og álftveiðar á.

Landnám

Landnám á Reykjanesskaga.

Molda-Gnúpur seldi mörgum mönnum af landnámi sínu, og gerðist þar fjölbyggt, áður jarðeldur rann þar ofan, en þá flýðu þeir vestur til Höfðabrekku og gerðu þar tjaldbúðir, er heitir á Tjaldavelli. En Vémundur, son Sigmundar kleykis, leyfði þeim eigi þar vist. Þá fóru þeir í Hrossagarð og gerðu þar skála og sátu þar um veturinn, og gerðist þar ófriður með þeim og vígafar. En um vorið eftir fóru þeir Molda-Gnúpur vestur í Grindavík og staðfestist þar; þeir höfðu fátt kvikfjár. Þeir voru þá fulltíða synir Molda-Gnúps, Björn og Gnúpur, Þorsteinn hrungnir og Þórður leggjaldi.
Björn dreymdi um nótt, að bergbúi kæmi að honum og bauð að gera félag við hann, en hann þóttist játa því. Eftir það kom hafur til geita hans, og tímgaðist þá svo skjótt fé hans, að hann varð skjótt vellauðugur; síðan var hann Hafur-Björn kallaður. Það sá ófreskir menn, að landvættir allar fylgdu Hafur-Birni til þings, en þeim Þorsteini og Þórði til veiða og fiskjar.

Skarðsbók

Skarðsbók Landnámu.

Hafur-Björn átti (Jórunni, stjúpdóttur Gnúps bróður síns). Þeirra son var Svertingur, er átti Húngerði, dóttur Þórodds Tungu-Oddssonar og Jófríðar Gunnarsdóttur, þeirra dóttir Þorbjörg móðir Sveinbjarnar, föður Bótólfs, föður Þórdísar, móður Helgu, móður Guðnýjar, móður Sturlusona. Gnúpur Molda-Gnúpsson átti Arnbjörgu Ráðormsdóttur, sem fyrr er ritað. Iðunn var dóttir Molda-Gnúps, er átti Þjóstar á Álftanesi. Þormóður var son þeirra.
Ásbjörn Össurarson, bróðurson Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar og Hvassahrauns. Álftanes allt, og bjó á Skúlastöðum.
Herjólfur hét maður Bárðarson, Herjólfssonar, frændi Ingólfs landnámamanns. Þeim Herjólfi gaf Ingólfur land á milli vogs og Reykjaness.

Sjá meira um landnám Ingólfs HÉR.

-Landnáma – Sturlubók.

Gufuskálar

Gufuskálar – uppdráttur ÓSÁ.

Ingólfur Arnarsson

Helgi Þorláksson, prófesor emeritus í sagnfræði við HÍ, svaraði spurningunni „Var Ingólfur Arnarsson til í alvörunni?“ á Vísindavefnum:

Helgi Þorláksson

Helgi Þorláksson.

„Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.
Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.

Ingólfur Arnarsson

Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.

Vestmannaeyjar

Í Landnámabók segir að írskir þrælar Hjörleifs Hróðmarssonar úr Dalsfirði í Noregi, fóstbróður Ingólfs Arnarssonar, hafi fyrstir sest að í Heimaey og Vestmannaeyjar kenndar við þá. Nafngreindir voru þeir: Dufþakur, Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór, Drafdritur og fleiri, alls tíu og bjuggust þeir fyrir í eyjunni um hríð, eða þar til Ingólfur kom og hefndi Hjörleifs fóstbróður síns sem þeir höfðu drepið. Ýmis örnefni í eyjunni eru enn við þá kennd svo sem Dufþekja og Halldórssandur.

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.
Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Skálafell

Skálafell austan Esju – tóft, sem aldrei hefur verið fornleifaskráð. Tóftarinnar er getið í Landnámu þegar Ingólfur er sagður hafa leitað Karla og fundið.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.
Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

Ingólfshöfði

Ingólfshöfði – MWL.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=7366
-Helgi Þorláksson prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ.

Ölfusá

Ölfusá. Ingólfsfjall fjær.
Selfoss er landnámsjörð Þóris Hersis Ásasonar en einnig er getið um vetursetu Ingólfs Arnarsonar 873-74 „undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá“.

Íslendingabók

Halldór Hermannsson (1931-2009) skrifaði í Skírni árið 1948 um „Ara Þorgilsson fróða“ og Íslendingabók:

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson (1068-1148). Ari var sonur Þorglis Gellissonar frá Helgafelli og sonarsonur Gellis Þorkelsonar, prests frá sama svæði. Báðir höfðu látist fyrir aldur fram og skilið eftir ungan Ara einn. Sjö ára gamall var Ari tekinn í Haukdælaættina, sem stjórnaði Íslandi á miðöldum á þjóðveldistímanum. Ættin er rakin til Ketilbjarnar Ketilssonar sem nam land í Mosfelli í Grímsnesi. Ættin var áberandi á tíundu til þrettándu öld sem höfðingjar á Sturlungaöld og sem þátttakendur í kristniboði um allt Ísland. Gissur Þorvaldsson, leiðtogi Haukdæla á þrettándu öld, var gerður að jarli yfir Íslandi af Noregskonungi.
Ari var nemandi kennarans Teits Ísleifssonar, sem var sonur Ísleifs Gissurarsonar,  fyrsta biskups Íslands. Eftir að Ari hafði lært klassíska menntun var hann vígður til prests á Stað á Snæfellsnesi, sem nú er þekktur sem Staðastaður.

„Einn merkasti maður, sem Ísland hefur alið, er Ari Þorgilsson. Ari fæddist, líklega á Helgafelli, árið 1067 (eða 1068) og lést árið 9. nóvember 1148. Hann var vel ættaður. Langafi hans var Þorkell Eyjólfsson og langamma Guðrún Ósvífursdóttir, sem fræg er af Laxdælu, og eins og eðlilegt er í litlu mannfélagi, var hann skyldur eða tengdur mörgum helztu ættum í landinu, og sjálfur hefur hann rakið ætt sína í beinan karllegg til goðborinna fornkonunga. Það er því vel sagt, að þekkingin ein á ævi og afrekum forfeðra hans hefði verið nóg til að gera hann að sagnfræðingi.
Ari fór frá Haukadal, þegar hann var rúmlega tvítugur, 1088 eða 1089. Í Kristnisögu er hann talinn meðal höfðingja, sem voru prestvígðir af Gissuri biskupi.
Tvö eru til rit frá þriðja áratug tólftu aldar, sem virðast skyld að uppruna. Svo stendur í Kristinna laga þætti Grágásar (Konungsbók, I, 1852, bls. 36): „Svá settu þeir Ketill byskup ok Þorlákr byskup at ráði Özurar erkibyskups ok Sæmundar ok margra kennimanna annarra kristinna laga þátt, sem nú var tínt ok upp sagt.“
Í greinargerð þeirri, sem Ari fróði skrifaði um Íslendingabók sína, segir hann: „Íslendingabók görða ek fyrst byskupum árum Þorláki ok Katli, ok sýndak bæði þeim ok Sæmundi presti. En með því at þeim líkaði svá at hafa eða þar viðr auka, þá skrifaða ek þessa of it sama far, fyr útan ættartölu ok konunga ævi, ok jókk því, es mér varð síðar kunnara, ok nú es gþrr sagt á þessi en á þeiri. En hvatki es missagt es í frœðum essum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynisk.“
Fyrsti kapítuli (Frá Íslands byggð) segir frá, hvenær Ísland byggðist og frá Ingólfi, hinum fyrsta landnámsmanni; frá gróðri landsins og Pöpum, sem voru þar fyrir, er Norðmenn komu þangað; ennfremur frá því, er Haraldur hárfagri lagði skatt á þá, sem fluttu til Íslands, og er sagt, að það væri upphaf landauranna, sem þeir urðu að gjalda, er síðar fóru milli landa.
Hin eldri gerð Íslendingabókar er því miður glötuð, og er það tilfinnanlegt tjón. Svo er þó almennt talið, að það sé sú bók, sem Snorri Sturluson lýsir í formálanum fyrir Heimskringlu. Það er nauðsynlegt að taka hér upp þá lýsingu til samanburðar.

Íslendingabók

Íslendingabók – formáli endurritunar.

Svo ritar Snorri: „Ari prestr hinn fróði Þorgilsson, Gellissonar, ritaði fyrstr manna hér á landi at norrœnu máli frœði, bæði forna ok nýja; ritaði hann mest í upphafi sinnar bókar um Íslands byggð ok lagasetning, síðan frá lögsögumönnum, hversu lengi hverr hafi sagt, ok hafði þat áratal fyrst til þess, er kristni kom á Ísland, en síðan allt til sinna daga.“
Íslendingabók, sem við höfum, er sannkallað meistaraverk og á ekki sinn líka í miðaldabókmenntum og þó lengra sé leitað niður á við. Hún fullnægir eiginlega vísindalegum kröfum nútímans til sagnaritunar. Heimildir hafði Ari engar skrifaðar, en í stað þess leitar hann til munnlegra frásagna þeirra manna, er samtíða voru viðburðunum eða höfðu sannar sögur af þeim frá eldri mönnum, og heimildarmenn sína nefnir hann alla.
Af formála Ara er það auðséð, að biskuparnir Ketill og Þorlákur hafa beðið hann að semja Íslendingabók. Þegar hann hafði lokið ritinu, sýndi hann það biskupunum og Sæmundi fróða; líkaði þeim það vel og vildu hafa það eins og það var (svá at hafa) að öðru en því, að þeir vildu auka nokkru við það og sleppa ættartölu (sjálfsagt hér safnheiti fyrir ættartölur) og konunga ævi. Það hefur þeim þótt standa fyrir utan tilgang ritsins.

Íslendingabók

Íslendingabók var fyrsta ritaða sagan um Ísland þar sem ítarlega er fjallað um kristnitöku, þróun réttarkerfisins og siðareglur Alþingis. Íslendingabók lýsir einnig byggðum á Grænlandi og Vínlandi og inniheldur ættartölur og sögur fyrstu landnemanna á Íslandi. Sagnfræðingar telja hana áreiðanlegustu frásögnina sem til er af sögu Íslendinga á fyrri árum.

Þess vegna reit Ari hina síðari Íslendingabók um hið sama efni, og bætti nokkru við, sem hann hafði fengið frekari upplýsingar um, og sleppti því, sem biskuparnir vildu láta sleppa. Þar sem hin fyrri bók er glötuð, er ómögulegt að vita, hverju biskuparnir vildu láta bæta við og hverju Ari bætti við frá eigin brjósti, ekki heldur neitt ákveðið um ættartölurnar né konunga ævi.
Það stendur líkt á með Íslendingabók, við getum ekki með fullri vissu tímasett ritun hennar nákvæmar en frá biskupstíð biskupanna, sem höfðu hvatt til þess, að hún var samin. Fyrri gerð hennar hafa menn þó almennt talið að væri frá miðjum þriðja áratug tólftu aldar, en seinni gerðina telja flestir ritaða eftir Alþing 1134. Sennilegt er þó, að Ari hafi skrifað fyrstu gerð Íslendingabókar milli þinga 1122-23.

Íslendingabók

Íslendingabók – Samkvæmt orðum Ara í upphafi hinnar varðveittu Íslendingabókar eru frá hans hendi tvær gerðir bókarinnar. Hin eldri var borin undir biskupa landsins, Ketil Þorsteinsson og Þorlák Runólfsson, og sjálfan Sæmund fróða. Þeir lögðu til breytingar, vildu fella brott ættartölur og konungaævi (hvað svo sem það nákvæmlega var) og kannski eitthvað fleira. Kvaðst Ari hafa skrifað seinni gerðina í samræmi við þessar athugasemdir.
Athyglisvert er að þegar miðaldamenn vitna í Ara fróða, svo sem Snorri Sturluson, virðast þeir alltaf vera að vísa til eldri gerðarinnar en ekki þeirrar yngri sem meir var að skapi biskupanna og Sæmundar. Hvernig stendur á því? Hefði ekki átt að vera búið að taka þá gerð úr umferð?
Íslendingabók eins og við þekkjum hana úr pappúrsuppskrift Jóns í Villingaholti er um margt einkennilegt rit. Mörgum fræðimönnum hefur þótt hún minna frekar á safn minnisgreina en heillegt rit. Fyrirsögnin á pappírsuppskriftinni „Schedæ Ara prests fróða’“ gefur strax tilefni til heilabrota. Hún getur ekki verið komin úr penna Ara sjálfs. Óljóst er hvað latínuorðið „schedæ“ hefur merkt í þessu samhengi, kannski minnisgreinar.

Það er sjálfsagt Ari, sem hefur sett yfirskriftina Incipit libellus Islandorum yfir rit sitt. Þetta hefur orðið til þess, að sumir ritskýrendur hafa haldið því fram, að hann hafi kallað fyrri gerðina liber (bók) en hina seinni libelhcs (bækling) af því að hún hafi verið svo miklu minni. Það er engin ástæða til að ætla, að svo hafi verið. Formáli hans sýnir, að hann hefur kallað báðar gerðirnar Íslendingabók og hefur sjálfsagt notað sama latneska nafnið um báðar, enda eru öll líkindi til, að á þeim hafi ekki verið svo ýkjamikill stærðarmunur. En það er annar latneskur titill, sem bók hans hafði í hinum fyrstu prentuðu útgáfum af henni. Það er Schedæ. Ástæðan til þess var sú, að báðar afskriftir síra Jóns í Villingaholti hafa yfirskriftina Schedæ Ara prests fróda, og við enda þeirra hefur hann skrifað þetta: „Þessar Schedæ Ara prestz fróda og frásögn er skriffud epter hans eigin handskrifft á bókfelle (ad menn meina) í Willingahollti aff Jóne preste Ellendssyne Anno Domini 1651 mánudaginn næstan epter Dominicam Jubilate. Jón Ellendsson p. Mpp.“
Það er nú talið víst, að handritið, sem skrifað var eftir, hafi ekki verið eiginhandarrit Ara; það hefur líklega verið skrifað um 1200. En hvaðan stafar þessi titill? Hann getur ekki verið frá Ara, því að ekki hefði hann kallað sig sjálfur „fróða“. Schedæ þýðir í raun og veru minnisgreinar, sem ennþá hafa ekki verið færðar inn í bók, eins og Isidor frá Sevillia skýrir orðið í sinni Etymologiæ, en það rit var þekkt á Íslandi snemma.
Í fornritum, sem varðveitzt hafa, er þess hvergi getið, að Ari hafi skrifað Landnámu, nema í eftirmálanum við Landnámu Hauksbókar. Þar ritar Haukur lögmaður svo: „Nú er yfir farit um landnám þau, er verit hafa á Íslandi, eptir því sem fróðir menn hafa skrifat, fyrst Ari prestr inn fróði Þorgilsson ok Kolskeggr inn vitri. En þessa bók ritaða [ek] Haukr Ellinzson eptir þeiri bók, sem ritat hafði herra Sturla lögmaðr, inn fróðasti maðr, ok eptir þeiri bók annarri, er ritat hafði Styrmir inn fróði, ok hafða ek þat ór hvárri, sem framar greindi, en mikill þori var þat, er þær sögðu eins báðar, ok því er þat ekki at undra, þó þessi Landnámabók sé lengri en nökkur önnur.“
Þeir, sem ritað hafa um Landnámu, hafa venjulega veitt ættvísinni þar mesta athygli. Það hafa víst verið til menn frá fyrstu byggð Íslands, sem hafa fengizt við að rekja ættir manna og leggja þær á minnið, og á endanum var svo mikið af því fært í letur. Það eru ekki ættartölurnar, sem gera Landnámu frumlega, heldur það, að ættirnar eru tengdar við staði. Grundvöllur hennar er staðfræðilegur, og í hlutarins eðli urðu nöfn og ættir landnámsmannanna óaðskiljanlegt frá staðfræðinni. Það er auðvelt fyrir menn, sem hafa gott minni, að muna ættartölur án þess að hafa ef til vill nokkurn tíma þekkt eða séð nokkurn mann af ættinni. Öðru máli gegnir um staði eða sveitir, sem menn hafa aldrei augum litið; það er ekki auðvelt að muna það í réttri röð eða gera sér grein fyrir útliti þeirra og takmörkum, og ef menn reyna að lýsa þessu munnlega eða skriflega, þá er hætt við, að mjög fipist fyrir þeim.

Haukadalur

Haukadalur undir Laugafelli – uppeldisstaður Ara.

Nú eru flestir á einu máli um það, að staðfræðin í Landnámu sé merkilega góð, svo að höfundinum skjátlist furðulega sjaldan, og þó eru sumir, sem álíta, að þessi frábæra staðfræðilega þekking eigi rót sína að rekja til upplýsinga frá ýmsum mönnum hvaðanæva af landinu, sem höfundurinn hafi náð í og síðan fært í eina heild.
Rit eins og Landnáma hlýtur þegar í upphafi að hafa verið áformað af einum manni, og enginn er líklegri til að hafa gert það en Ari fróði, eins og Haukur lögmaður segir.

Ari Þorgilsson

Afritanir landnámu að mati Sveinbjarnar Rafnssonar.

Nú vildi svo til, að einmitt um þær mundir, sem ætla má, að Ari hafi verið að safna efninu í Landnámu, fór fram staðfræðileg skipting landsins í kirkjusóknir. Þegar biskupsstóll hafði verið settur í Skálholti og tíundarlögin samþykkt af Alþingi 1096 eða 1097, varð að koma föstu skipulagi á biskupsdæmið. Biskup átti að ákveða takmörk kirkjusóknanna. Þetta varð ekki gert heima í Skálholti, biskup og aðstoðarmenn hans urðu að ferðast um landið til að koma þessu á. Það hefur verið mikið verk og erfitt, en þó fara engar sögur af því; það hefur sjálfsagt farið fram með friði og spekt, og því ekki þótt í frásögur færandi.

Landnáma

Landnáma. Landnámabók eða Landnáma er elsta heimild um landnám Íslands, byggð á Íslendingabók Ara Þorgilssonar. Hún hefur að geyma upptalningu landnámsmanna Íslands. Hún telur einnig upp ættir landnámsmanna, 3000 eiginnöfn og 1400 örnefni. Hún er upprunalega talin hafa verið rituð á fyrri hluta 12. aldar en það eintak er glatað. Til eru fimm endurskrifanir á henni:
Sturlubók; endurskrifuð á 17. öld af Jóni Erlendssyni upp úr aldagömlum skinnhandritum eftir Sturlu Þórðarson sem brunnu í brunanum í Kaupmannahöfn árið 1728.
Hauksbók; skrifuð af Hauki Erlendssyni um 1299 en einungis eru til 18 blöð af henni sjálfri en Jón Erlendsson gerði eftirrit sem er fullkomlega varðveitt.
Melabók; talin vera rituð um 1272 af Snorra Markússyni lögmanni á Melum.
Skarðsárbók; pappírshandrit frá fyrri hluta 17. aldar skrifað af Birni Jónssyni á Skarðsá.
Þórðarbók; einnig 17. aldar pappírshandrit skrifað af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal.

Nú lítur út fyrir, eins og áður hefur verið tekið fram, að Ari hafi verið handgenginn Gissuri biskupi, og því liggur nærri að ætla, að hann hafi tekið þátt í þessu
verki, og að þaðan stafi hin mikla staðfræðilega þekking, sem Landnáma ber svo ljóst vitni um. Ari hefur líklega ferðazt um þrjá fjórðunga landsins, en af einhverjum ástæðum ekki um Austfirðingafjórðung og því notið þar aðstoðar Kolskeggs Ásbjarnarsonar.
Það er næsta ótrúlegt, að Gissur biskup og aðstoðarmenn hans hafi lagt alla sóknaskiptinguna og allt, sem henni var samfara, á minnið. Þeir hljóta að hafa fært það að meira eða minna leyti í letur. Sama má segja um Ara, ef hann var þar með í för. Hann hefur ritað minnisgreinar um allt það, sem hann sá og heyrði á ferðum sínum. Síðan hefur hann fært það allt til bókar, og þannig hefur Landnáma orðið til. Hvenær hann lauk við hana, er ekki auðið að segja með vissu, en líklegt er, að hann hafi verið að safna fróðleik svo lengi sem honum entist aldur.
Annars lítur út fyrir, að Landnáma hafi verið lítið þekkt á tólftu öld, enda fengust menn þá mest við að rita helgar þýðingar og konunga sögur. Um aldamótin 1200 fara menn að veita meiri athygli íslenzkum fræðum, og má vera, að það sé því að þakka, að þá tók Styrmir fróði Landnámu Ara til meðferðar og gerði hana kunna, og svo byrja menn fyrir alvöru að rita íslendingasögur.

Ingólfur Arnarsson

Stytta af Ingólfi Arnarssyni, fyrsta norræna landnámsmanninum, á Arnarhóli í Reykjavík.

Engin þjóð á slíka heimild um uppruna sinn eins og Íslendingar þar sem er Landnámabók. Því miður er Frum-Landnáma ekki lengur til, og næsta gerð hennar, Styrmisbók, er líka glötuð að öðru en því, að hún hefur verið tekin upp í Sturlubók, Hauksbók og Melabók. í öllum þessum gerðum hafa ættartölurnar verið stórum auknar, en staðfræðinni hefur líklega verið tiltölulega lítið breytt.
Við höfum beðið mikið tjón við það, að svo mikið af fornritum okkar hefur glatazt eða einungis varðveitzt í brotum. Ég held, að einna tilfinnanlegasta tjónið hefði verið, ef Islendingabók hefði týnzt með öllu. Þar skall þó hurð nærri hælum. Brynjólfur biskup fann á 17. öld skinnhandrit af henni, líklega frá því um 1200, og lét síra Jón í Villingaholti gera tvær afskriftir af því; síðan hvarf gamla handritið og hefur aldrei komið aftur í leitirnar. Ef Íslendingabók hefði ekki þannig verið bjargað, hefðum við haft næsta óljósar hugmyndir um Ara; við hefðum þekkt hann bara af formála Snorra og tilvitnunum til hans hér og hvar í ritum.

Staðarstaður

Staðarstaður á Snæfellsnesi.

Til allrar hamingju höfum við Íslendingabók hina síðari, og hún gefur okkur skýra mynd af höfundinum og vinnubrögðum hans — þessum gáfaða, hógværa og vandvirka fræðimanni, sem gerir sitt ítrasta til að leita sannleikans, svo að hann geti sagt sem sannast og réttast frá. Þannig varð hann faðir íslenzkrar sagnaritunar og lagði grundvöllinn að íslenzkum bókmenntum. Á þeim grundvelli var gott að byggja, því að hann var traustur. Þetta getum við aldrei nógsamlega þakkað Ara fróða.“

Heimild:
-Skírnir, 1. tbl. 01.01.1948, Ari Þorgilsson fróði – Halldór Hermannsson, bls. 5-29.

Ari Þorgilsson

Ari Þorgilsson prestur – minnisvarði í kirkjugarðinum á Staðarstað á Snæfellsnesi.

Hvaleyri

Ofan við Hvaleyri í Hafnarfirði er varða. Ofan hennar er skilti. Á því eru upplýsingar um tilvist vörðunnar sem og söguna að baki henni:

Flókavarða

Hvaleyri – Flókavarða; minnismerki.

„Um Flóka Vilgerðarson má lesa í Landámsbók. Samkvæmt henni var Flóki norskur víkingur sem ætlaði sér fyrstur mann að setjast á Íslandi um 870. Hann lagði af stað snemma sumars frá mörkum Hörðalands og Rogalands í Noregi, stað sem var kallaður Flókavarði, síðar Ryvarden, til að leita óbyggðs lands vestur í hafi sem sæfarendur vissu af en höfðu lítið kannað. Flóki hafði með sér þrjá hrafna til að vísa sér leið, en áttavitar þekktust þá ekki á Norðurlöndum. Honum tókst með aðstoð hrafnanna að finna landið og fékk þannig nafnið Hrafna-Flóki. Hann kom fyrst að Suðausturlandi, sigldi vestur með ströndinni, fyrir Reykjanes, þvert yfir Faxaflóa, fyrir Snæfellsnes og nam loks staðar norðan Breiðafjarðar í Vatnsfirði á sunnanverðum Vestfjörðum.

Flókavarða

Flókavarða – skilti.

Vatnsfjörður var mikið gósenland fyrir veiðimenn. Þar var mikið af fugli, fiski og sel sem reyndist Flóka og förunautum hans auðtekin bráð. En Flóki hafði líka með sér búpening sem dó úr hungri næsta vetur, því að komumennirnir höfðu ekki áttað sig á því að á þessum sumarfagra stað þurfti að afla heyja til að halda búpeningi lifandi yfir veturinn. Vonsvikinn ákvað Flóki því um vorið að snúa aftur heim. Áður en hann lagði af stað gekk hann upp á hátt fjall fyrir norðan Vatnsfjörð, sá þar fjörð fullan af hafísum og gaf landinu nafnið Ísland sem það hefur borið síðan.

Flókavarða

Flókavarða – texti á skilti.

Á heimleiðinni varð Flóki fyrir óhappi. Á sunnanverðum Faxaflóa slitnaði bátur aftan úr skipinu en í honum var einn af förunautum Flóka sem hét Herjólfur. Flóki vildi ekki skilja hann eftir og hélt til lands. Hann kom í Hafnarfjörð og fann þar hval rekinn á eyri út frá firðinum og gaf eyrinni nafnið Hvaleyri. Þar fann hann Herjólf sem hafði tekið land annars staðar, á stað sem var síðan kallaður Herjólfshöfn. Ekki er núna ljóst hvar sá staður hefur verið.

Hér á Hvaleyri hafa íbúar í Sveio í Noregi nú reist vörðu (varða) til minningar um Flóka og komu hans í Hafnarfjörð og fært Hafnfirðingum að gjöf. Varðan er nákvæm eftirmynd af samskonar minnismerki sem þeir hafa áður reist í Ryvarden í Noregi, staðnum þar sem Flóki lagði af stað í landnámsleiðangur sinn. Þótt sá leiðangur mistækist varð hann þó til að gefa Íslandi það nafn sem það hefur borðið síðan.“

Hvaleyri

Hvaleyri – gamli bærinn ofan Hvaleyri frá 1772. Settur inn í nútímamynd. Flókavarðan fremst.

Víkingaskip

Í upphafi tveggja uppskrifaðra rita úr Landnámabók má lesa eftirfarandi texta um upphaf búsetu manna hér á landi:

Hauksbók

Landnáma

Landnáma.

Alldar fars bók þeiri er Beda prestr heilagr gerdi er getid eylandz þess er Thile heiter (ok) a bókum er sagt at liGi .vj. dægra sigling nordr fra Bretlandi. Þar sagdi hann ei koma dag a vetr ok ei nott a sumar þa er dagr (er) lengztr. Til þess  ætla vitrir menn þat haft at Island se Thile kallat at þat er vida a landinu at sól skinn vm netr þa er dagr er lengs. enn þat er vida vm daga at sol ser ei þa er nott er lengs. En Beda prestr andadist dccxxxv. arum epter holldgan vors herra Iesu Ghristi at þui er ritad er meir en c ara fyR Island bygdizt af Nordmonnum. En adr Island bygdizt af Nordmonnum voru þar þeir menn er Nordmenn kalla Papa. Þeir voru menn kristnir ok hyGia menn at þeir muni verit hafa vestan vm haf þvi at funduzt eptir þeim bækr irskar ok biollur ok baglar ok en fleiri luter þeir at þat matti skilia at þeir voru Vestmenn.  þat fanzt i Papey avstr ok i Papyli. er ok þers getid á bókum Enskum at i þann tíma var farit millim landana.

Sturlubók
Alldarfars bók þeirre er Beda prestr heilagr gerdi er getid eylanndz þess er Tili heiter ok sa bokum er sagt at ligi vj. dægra sigling i nordr fra Bretlanndi. þar sagde hann eigi koma dag aa. wetr ok ei nott aa sumar þa er dagr er sem leingstr. Til þess atla vitrir menn þat haft at Island sie Thile kallat at þat er vida sa landinu er sól skin vmm nætr þa er dagr er sem lengztr en þat er vida vmm daga er sól ser ei þa er nott er sem lengzt. En Beda prestr andadizt DCC.XXXV. arumm eptter hollgan Drottins vors at þvi er ritad er og meiR en hundrati ara fyR en Island bygdizt af Nordmonnumm. En adr Island bygdizt af Noregi voru þar þeir menn er Nordmenn kalla papa þeir voru menn Kristner og hyggia menn at þeir hafe verit vestan vm haf þvi at funduzt epter þeim bækr IRskar biollur ok baglar ok en fleire hlutir þeir er þat matte skilia at þeir voru Vestmenn. Enn er ok þess getit aa bókum Enskum at i þan tima var farit milli landana.

Melabók
Í Melabók er ekki að finna framangreindan texta.

Hauksbók

Hauksbók.

 

Landnáma

Á Vísindavef HÍ má lesa eftirfarandi skrif Sverris Jakobssonar um aldur Landnámu:

Sverrir Jakobsson

Sverrir Jakobsson.

Landnámu má nota bæði sem frásögn og sem leif. Hún er leif um það að Íslendingar voru byrjaðir að skrifa um landnámið á 12. öld. Hún sýnir okkur einnig hvernig þeir skrifuðu um það og hvað þeim fannst mikilvægt að segja frá í sambandi við það. Þá er varðveislusaga Landnámu til vitnis um áframhaldandi áhuga Íslendinga á landnámi á síðari öldum, þegar hinar og þessar gerðir Landnámu urðu til.
Sem frásögn er hún ekki eins áreiðanleg heimild, því að hún lýsir atburðum sem gerðust um 200 árum áður en Landnáma var fyrst fest á blað. Ef miðað er við varðveittar gerðir Landnámu getur munurinn numið allt að 400 árum. Margt í þeirri Landnámu sem við þekkjum er endursögn úr Íslendingasögum, en svokölluð frum-Landnáma er líklega eldri en elstu Íslendingasögur. Fræðimenn eru ekki sammála um heimildargildi frásagnarinnar af landnáminu, hvort hún sé safn goðsagna eða rétt í meginatriðum. Fáum dettur þó í hug að trúa öllu því sem sagt er frá í Landnámu.

Landnáma

Landnáma.

Ekki er ólíklegt að Landnáma hafi verið notuð sem heimild þegar á 12. öld þegar norskir konungasagnaritarar segja frá fundi Íslands í verkunum Historia de antiquitate regum Norwagiensium og Historia Norwegiæ, sem samin voru á latínu. Þó verður ekki sannað með vissu að þeir hafi stuðst við skrifaða Landnámugerð. Á 13. öld vitum við um Landnámugerð eftir Styrmi Kárason (d. 1245), príor í Viðey, sem nú er glötuð. Elstu gerðir ritsins sem enn eru varðveittar eru fyrst ritaðar um 1300. Ein er eftir Sturlu lögmann Þórðarson (1214-1284), önnur eftir Hauk lögmann Erlendsson (d. 1334) og sú þriðja eftir Snorra lögmann Markússon (d. 1313) eða einhvern náskyldan honum.

Landnáma

Landnáma.

Áhugi á landnáminu lifði áfram á Íslandi. Um 1600 styðst Arngrímur Jónsson lærði (1568-1648) við Landnámu í ritum sínum um Íslandssögu, sem hann samdi á latínu fyrir erlendan markað. Þá skrifuðu Björn Jónsson á Skarðsá (1574-1655) og Þórður Jónsson í Hítardal (1609-1670) upp Landnámu og eru handrit þeirra mikilvæg heimild um samband ólíkra gerða ritsins.
Landnáma var fyrst prentuð í Skálholti 1688 og stóð Þórður biskup Þorláksson (1636-1697) fyrir því. Á 20. öld gerðu Finnur Jónsson (1858-1934), prófessor í Kaupmannahöfn, og Jakob Benediktsson (1907-1999), forstöðumaður Orðabókar Háskólans, vísindalegar útgáfur af öllum handritum sögunnar sem síðan er stuðst við. Þá gaf Jakob út Landnámu á vegum Hins íslenska fornritafélags 1968 (Íslenzk fornrit I. Íslendingabók, Landnámabók) og má nota þá útgáfu til að kynna sér ritið og álitamál tengd því nánar en frá er sagt hér.

Landnáma

Landnáma.

Að lokum má nefna að þegar haldið var upp á 1000 ára afmæli Íslands árið 1874 var ártalið reiknað með hliðsjón af Landnámu. Íslendingabók Ara fróða segir hins vegar ekki að fundur Íslands hafi orðið árið 874. Landnáma er því enn talin grundvallarheimild um hvenær halda skuli upp á afmæli Íslandsbyggðar.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=837

Landnáma

Landnáma.

Landnáma

„Í aldarfarsbók þeirri, er Beda prestur heilagur gerði, er getið eylands þess er Thile heitir og á bókum er sagt, að liggi sex dægra sigling í norður frá Bretlandi; þar sagði hann eigi koma dag á vetur og eigi nótt á sumar, þá er dagur er sem lengstur. Til þess ætla vitrir menn það haft, að Ísland sé Thile kallað, að það er víða á landinu, er sól skín um nætur, þá er dagur er sem lengstur, en það er víða um daga, er sól sér eigi, þá er nótt er sem lengst. En Beda prestur andaðist sjö hundruð þrjátigi og fimm árum eftir holdgan dróttins vors, að því er ritað er, og meir en hundraði ára fyrr en Ísland byggðist af Norðmönnum.

Landnám En áður Ísland byggðist af Noregi, voru þar þeir menn, er Norðmenn kalla papa; þeir voru menn kristnir, og hyggja menn, að þeir hafi verið vestan um haf, því að fundust eftir þeim bækur írskar, bjöllur og baglar og enn fleiri hlutir, þeir er það mátti skilja, að þeir voru Vestmenn. Enn er og þess getið á bókum enskum, að í þann tíma var farið milli landanna.

Þá er Ísland fannst og byggðist af Noregi, var Adríánus páfi í Róma; þá var Haraldur hárfagri konungur yfir Noregi.

Svo segja vitrir menn, að úr Noregi frá Staði sé sjö dægra sigling í vestur til Horns á Íslandi austanverðu, en frá Snæfellsnesi, þar er skemmst er, er fjögurra dægra haf í vestur til Grænlands. En svo er sagt, ef siglt er úr Björgyn rétt í vestur til Hvarfsins á Grænlandi, að þá mun siglt vera tylft fyrir sunnan Ísland. Frá Reykjanesi á sunnanverðu Íslandi er fimm dægra haf til Jölduhlaups á Írlandi (í suður; en frá Langanesi á norðanverðu Íslandi er) fjögurra dægra haf norður til Svalbarða í hafsbotn.

Svo er sagt, að menn skyldu fara úr Noregi til Færeyja; nefna sumir til Naddodd víking; en þá rak vestur í haf og fundu þar land mikið. Þeir gengu upp í Austfjörðum á fjall eitt hátt og sáust um víða, ef þeir sæju reyki eða nokkur líkindi til þess, að landið væri byggt, og sáu þeir það ekki.

Landnám

Þeir fóru aftur um haustið til Færeyja; og er þeir sigldu af landinu, féll snær mikill á fjöll, og fyrir það kölluðu þeir landið Snæland. Þeir lofuðu mjög landið.

Þar heitir nú Reyðarfjall í Austfjörðum, er þeir höfðu að komið. Svo sagði Sæmundur prestur hinn fróði.

Landnám

Maður hét Garðar Svavarsson, sænskur að ætt; hann fór að leita Snælands að tilvísan móður sinnar framsýnnar. Hann kom að landi fyrir austan Horn hið eystra; þar var þá höfn. Garðar sigldi umhverfis landið og vissi, að það var eyland. Hann var um veturinn norður í Húsavík á Skjálfanda og gerði þar hús.

Um vorið, er hann var búinn til hafs, sleit frá

honum mann á báti, er hét Náttfari, og þræl og ambátt. Hann byggði þar síðan, er heitir Náttfaravík.
Garðar fór þá til Noregs og lofaði mjög landið. Hann var faðir Una, föður Hróars Tungugoða. Eftir það var landið kallað Garðarshólmur, og var þá skógur milli fjalls og fjöru.

Flóki Vilgerðarson hét maður; hann var víkingur mikill; hann fór að leita Garðarshólms og sigldi þar úr er heitir Flókavarði; þar mætist Hörðaland og Rogaland. Hann fór fyrst til Hjaltlands og lá þar í Flókavogi; þar týndist Geirhildur dóttir hans í Geirhildarvatni. Með Flóka var á skipi bóndi sá, er Þórólfur hét, annar Herjólfur. Faxi hét suðureyskur maður, er þar var á skipi.

Landnám

Flóki hafði hrafna þrjá með sér í haf, og er hann lét lausan hinn fyrsta, fló sá aftur um stafn; annar fló í loft upp og aftur til skips; hinn þriðji fló fram um stafn í þá átt, sem þeir fundu landið. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið.

En er þeir sigldu vestur um Reykjanes og upp lauk firðinum, svo að þeir sáu Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: „Þetta mun vera mikið land, er vér höfum fundið; hér eru vatnföll stór“. Síðan er það kallaður Faxaóss.

Landnám

Þeir Flóki sigldu vestur yfir Breiðafjörð og tóku þar land, sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. Þá var fjörðurinn fullur af veiðiskap, og gáðu þeir eigi fyrir veiðum að fá heyjanna, og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Vor var heldur kalt. Þá gekk

 Flóki upp á fjall eitt hátt og sá norður yfir fjöllin fjörð fullan af hafísum; því kölluðu þeir landið Ísland, sem það hefir síðan heitið.

Þeir Flóki ætluðu brutt um sumarið og urðu búnir litlu fyrir vetur. Þeim beit eigi fyrir Reykjanes, og sleit frá þeim bátinn og þar á Herjólf; hann tók þar sem nú heitir Herjólfshöfn. Flóki var um veturinn í Borgarfirði, og fundu þeir Herjólf. Þeir sigldu um sumarið eftir til Noregs.

Og er menn spurðu af landinu, þá lét Flóki illa yfir, en Herjólfur sagði kost og löst af landinu, en Þórólfur kvað drjúpa smjör af hverju strái á landinu, því er þeir höfðu fundið; því var hann kallaður Þórólfur smjör.

Landnám

Björnólfur hét maður, en annar Hróaldur; þeir voru synir Hrómundar Gripssonar; þeir fóru af Þelamörk fyrir víga sakir og staðfestust í Dalsfirði á Fjölum. Sonur Björnólfs var Örn, faðir þeirra Ingólfs og Helgu, en Hróalds son var Hróðmar, faðir Leifs.
Þeir Ingólfur og Leifur fóstbræður fóru í hernað með sonum Atla jarls hins mjóva af Gaulum, þeim Hásteini og Hersteini og Hólmsteini. Með þeim fóru öll skipti vel, og er þeir komu heim, mæltu þeir til samfara með sér annað sumar.

En um veturinn gerðu þeir fóstbræður veislu sonum jarlsins. Að þeirri veislu strengdi Hólmsteinn heit, að hann skyldi eiga Helgu Arnardóttur eða öngva konu ella. Um þessa heitstrenging fannst mönnum fátt, en Leifur roðnaði á að sjá, og varð fátt um með þeim Hólmsteini, er þeir skildu þar að boðinu.

Þá fóru þeir Leifur í hernað. En um veturinn eftir fór Hersteinn að þeim Leifi og vildi drepa þá, en þeir fengu njósn af för hans og gerðu mót honum. Varð þá enn orusta mikil, og féll þar Hersteinn. Eftir það dreif að þeim fóstbræðrum vinir þeirra úr Firðafylki. Voru þá menn sendir á fund Atla jarls og Hásteins að bjóða sættir, og sættust þeir að því, að þeir Leifur guldu eignir sínar þeim feðgum.

Landnám

En þeir fóstbræður bjuggu skip mikið, er þeir áttu, og fóru að leita lands þess, er Hrafna-Flóki hafði fundið og þá var Ísland kallað. Þeir fundu landið og voru í Austfjörðum í Álftafirði hinum syðra. Þeim virðist landið betra suður en norður. Þeir voru einn vetur á landinu og fóru þá aftur til Noregs.

Eftir það varði Ingólfur fé þeirra til Íslandsferðar, en Leifur fór í hernað í vesturvíking. Hann herjaði á Írland og fann þar jarðhús mikið. Þar gekk hann í, og var myrkt, þar til er lýsti af sverði því, er maður hélt á. Leifur drap þann mann og tók sverðið og mikið fé af honum; síðan var hann kallaður Hjörleifur.

Hjörleifur herjaði víða um Írland og fékk þar mikið fé; þar tók hann þræla tíu, er svo hétu: Dufþakur og Geirröður, Skjaldbjörn, Halldór og Drafdittur; eigi eru nefndir fleiri. En eftir það fór Hjörleifur til Noregs og fann þar Ingólf fóstbróður sinn. Hann hafði áður fengið Helgu Arnardóttur, systur Ingólfs.

Þenna vetur fékk Ingólfur að blóti miklu og leitaði sér heilla um forlög sín, en Hjörleifur vildi aldri blóta. Fréttin vísaði Ingólfi til Íslands.

Landnám

Eftir það bjó sitt skip hvor þeirra mága til Íslandsferðar; hafði Hjörleifur herfang sitt á skipi, en Ingólfur félagsfé þeirra, og lögðu til hafs, er þeir voru búnir.

Sumar það, er þeir Ingólfur fóru til að byggja Ísland, hafði Haraldur hárfagri verið tólf ár konungur að Noregi; þá var liðið frá upphafi þessa heims sex þúsundir vetra og sjö tigir og þrír vetur, en frá holdgan dróttins átta hundruð (ára) og sjö tigir og fjögur ár.

Þeir höfðu samflot, þar til er þeir sá Ísland; þá skildi með þeim.

Þá er Ingólfur sá Ísland, skaut hann fyrir borð öndugissúlum sínum til heilla; hann mælti svo fyrir, að hann skyldi þar byggja, er súlurnar kæmi á land.

Ingólfur tók þar land er nú heitir Ingólfshöfði, en Hjörleif rak vestur fyrir land, og fékk hann vatnfátt. Hjörleifur tók land við Hjörleifshöfða, og var þar þá fjörður, og horfði botninn inn að höfðanum. Hjörleifur lét þar gera skála tvo, og er önnur tóftin átján faðma, en önnur nítján. Hjörleifur sat þar um veturinn.

Vífill og Karli hétu þrælar Ingólfs. Þá sendi hann vestur með sjó að leita öndvegissúlna sinna. En er þeir komu til Hjörleifshöfða, fundu þeir Hjörleif dauðan. Þá fóru þeir aftur og sögðu Ingólfi þau tíðendi; hann lét illa yfir drápi þeirra Hjörleifs.

Eftir það fór Ingólfur vestur til Hjörleifshöfða, og er hann sá Hjörleif dauðan.

Landnám

Ingólfur gekk þá upp á höfðann og sá eyjar liggja í útsuður til hafs; kom honum það í hug, að þeir mundu þangað hlaupið hafa, því að báturinn var horfinn; fóru þeir að leita þrælanna og fundu þá þar sem Eið heitir í eyjunum. Voru þeir þá að mat, er þeir Ingólfur komu að þeim. Þeir urðu felmtsfullir, og hljóp sinn veg hver. Ingólfur drap þá alla. Þar heitir Dufþaksskor, er hann lést. Fleiri hljópu þeir fyrir berg, þar sem við þá er kennt síðan. Vestmannaeyjar heita þar síðan, er þrælarnir voru drepnir, því að þeir voru Vestmenn.

Þeir Ingólfur höfðu með sér konur þeirra, er myrtir höfðu verið; fóru þeir þá aftur til Hjörleifshöfða; var Ingólfur þar vetur annan. En um sumarið eftir fór hann vestur með sjó. Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.

Þau missari fundu þeir Vífill og Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fyrir neðan heiði.

Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.“

Getur verið að þá og þegar hafi fólk staðið á ströndinni þar sem Reykjanesskaginn er nú og horft forvitnum augum á skip Ingólfs þar sem því var siglt skammt utan við á leið hans til Reykjavíkur?

Heimild m.a.:
-http://anamnese.online.fr/islensk/textesis3.html

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi.

Skarðsbók

Í sögugerð Landnámu (Um íslenska sagnaritun á 12. og 13. öld – Sagnfræðistofnun Háskola Íslands 2001) fjallar Sveinbjörn Rafnsson m.a. um „Landnámu„.

Húshólmi

Garður í Húshólma.

Hann telur að „varðveisla ritverks þurfi að vera ljós þeim sem það ætlar að nota“. Landnáma, grundvallarrit íslenskrar landnámsbókar, er hins vegar alls ekki augljós. Talið er að Melabók, sé elst skráðra heimilda um landnám hér á landi. Þetta verk hafi upphaflega verið verk Snorra lögmanns Markússonar á Melum (d. 1313), unnið um 1272. Í raunini segir þetta ekkert til um hvot eldri heimildir hafi þá verið til um hið fyrsta landnám. Þau rit kuna hins vegar, og að öllum líkindum og mög sennilega að vera fyrir löngu með öllu glötuð.
Sturlubók hafi komið þar á eftir, endurritun skinnhandrit frá 14. öld, en brann 1728. Það mun hafa verið skrifað upp á 17. öld af Jóni Erlendssyni. Upphaflega hafi verkið verið verk Sturlu Þórðarsonar, lögmanns og sagnaritara (d. 1284), unnið um og eftir 1270.
Hauksbók er skinnhandrit með hendi Hauks Erlendssonar lögmanns (d. 1334), skrifað var eftir 1299. Nú er það einungis varðveitt í 18 blöðum.
Skarðsbók er pappírshandrit frá 17. öld (fyrir 1636), skrifað af Birni Jónssyni á Skarðsá. Þórðarbók er og pappírshandrit frá 17., öld skrifað af Þórði Jónssyni prófasti.
Svo er að sjá sem Melabók, varðveitt í fáum blaðsíðum, sé elst, rituð um 1100. Í henni er þó ekki getið um fyrstu landnámsmennina, enda landnámið sem slíkt ekki aðalatriðið.
Í Sturlubók er kveðið á um Ingólf Björnólfsson, sem hinn fyrsta landnámsmann, en ekki minnst á Leif Hróðmarsson, síðar nefndan Hjör-Leif, fósturbróðir Ingólfs, Hróðmarsson, hvers sem faðirinn hét reynar Hróðmundur Gripsson og var hinn mesti forngarpur. Sumir töldu þáa að saga hans hafi verið lygisögu líkast.
Talið er að Melabók sé elst hinna eftirrituðu Landnámu, þá Sturlubók og loks Hauksbók, endurrituð. Ljóst er að röðin þarf ekki að vera slík. Í milli koma Styrmisbík og Þórðarbók.
Í rauninni skipir innihald þessara fornu bóka lítt máli, enda frumútgáfan merkilegust.
Skv. hinum rituðu heimildum kom Ingólfur til landsins um 874. Hann hafði vetursetu hér ásamt fóstbróður sínum, Leifi (Hjörleifi svonefndum eftir að hann nam sverðið eftirmynnilega úr jarðhýsinu í Skotalndi), en fór utan. Þá kom hann aftur, hélt til á Austfjörðum, en fór „suður með vesturströndinni“. Hann staðnæmdist við Ingólfshöfa og hafði vetursetu við Ingólfsfjall (Fjall). Hann mun því hafa komið til Reykjavíkur, skv. umsögn Karls og Vífils, á árum 1877 til 879.

Skálholt

Skálholt fyrrum.

Sagan er skrifuð um 350 árum eftir að atburðirnir gerðust. Er líklegt að fólk hafi munað einstaka atburði eftir svo langan tíma? Gætum við, í dag, með sæmilegri sanngirni, skrifað um atburði er gerðust að 350 árum þeim loknum?. Skv. nútímanum ættu bæði Brynjólfur biskup Sveinsson og Ragnheiður dóttir hans að liggja okkur algjörlega ljóslifandi fyrir hugskotssjónum. Hversu áreiðanlegt yrðu slík skrif? Gísli Sigurðsson segir að ummhverfi okkar sé að mörglu leyti ólíkt og var forðum. Munnleg geymd hafi fyrrum verið mun ríkari í samfélagsmyndinni sem og með mönnum fyrrum. Líklegra sé að sagnir hafi varðveist mun betur með fólki hér áður fyrr en nú gerist. Þar hafi verið um að ræða hluta af hinni ríku sagnahef landsmanna.
Í rauninni má álykta að að Melabók hafi alls ekki verið hina elsta Landsnámsbók. Sögur og sagir voru skráðar á bókfell löngu áður en menn settust að hér á landi. Egyptar skráðu sína sögu á leirtöflur og síðan pappírus. Rómverjar skráðu sína sögu á pappírus sem og Grikkir löngu fyrrum. Af ritun hinna fyrstu Land-námsbókar má með góðu móti álykta að að síðari tíma afritanir hafi jafnan dregið dám að þeirra tíðaranda.
Líklegt má telja að hin fyrsta og „upprunalega“ Landnáma hafi fyrir löngu glatast, líkt og dæmi eru um, en eftirritanir jafnan dregið dám af tilefni og tilgangi hverju sinni. Þannig hafi Sturlubók og síðan Sturlubók, sem og öðrum eftirkomandi, verið ætlað ætlað sem og sýnir.að staðfesta þáverandi fyrirkomulag. Manninum hefur æ og yfirleitt verið mikilvægt að sýna fram á það sem markverðast er á hverjum tíma. Sagan segir svo frá.
Ef haft er í huga að Veruleikinn sé ekki til má segja sem svo að jafnan hafi hver og einn séð tilveruna með eigin „gleraugum“ á þeim tíma er þurfa þótti.

Landnáma

Landnáma.