Tag Archive for: Loftsskúti

Loftsskúti
Gengið var upp frá Hvassahrauni og Rjúpnadals- og Geldingahraunin gaumgæfð. Ætlunin var að skoða skúta skammt sunnan Reykjanesbrautar, suðaustan við Hjallhóla, mögulegan Loftsskúta ofan við Virkishóla, kíkja niður í svonefndan Virkishólahelli, nýfundinn, og skoða svo hugsanlegan stað í Skógarnefi er leitt gæti til langþráðrar uppljóstrunar um Skógarnefsskútann, sem getið er um í örnefnaslýsingu fyrir Hvassahraun, og mikið hefur verið leitað að.
HvassahraunMeð í för voru Björn Hróarsson, Hellarannsóknarfélaginu, og Ásbjörn frá Garpar. Í leiðinni var m.a. kíkt á Skógarnefsgrenin og Urðarás sunnan við Hraunkrossstapa, en hann er einn stórbrotnasti brothringur landsins.
Fyrsti skútinn, sem skoðaður var, er sunnan í hól skammt sunnan við Reykjanesbrautina. Fyrirhleðslan er fallin. Skútinn er beint suður af réttinni, fyrsti hóll strax sunnan vegar, syðstur svonefndra Hjallhóla. Líklegt má telja að skútinn hafi verið notaður sem fjárskjól, en annar skúti, Hjallhólaskúti, er í hólunum milli gömlu og nýju Reykjanesbrautarinnar. Opið snýr til suðurs og mótar fyrir hleðslum við opið. Í þeim skúta er talið að geymdur hafi verið fiskur eða annað matarkyns því þar sáust til skamms tíma naglar eða krókar upp undir hellisloftinu (SG).
HvassahraunGrunur var um að Loftsskúti gæti verið vestan í hól, milli Smalaskála, Virkis- og Brennihóla, þ.e. sunnan við Virkið. Þar er skúti í jarðfalli. Greinilegt er að fé hefur notað skútann sem skjól. Hafði verið hlaðið fyrir skútann er sú hleðsla fallin og gróið yfir. Þyrfti að róta með skóflu í garðinum fyrir framan skútann til að sjá hvað þar leyndist. Varða er á hólnum. Skútinn er um 350m suður af Virkinu, 300m NA af Smalaskála og 600m NV af Brennihólum. Hann er grunnur, en gefur gott skjól fyrir SA áttinni.
Litið var ofan í Virkishólahelli. Hellirinn er í litlu jarðfalli suðvestan undir í hraunhól, u.þ.b. 200 metrum ofan (suðaustan) við Virkið. Ekki er vitað til þess að áður hafi verið farið niður í hellinn. Gatið liggur til norðurs úr opi mót suðri, en inn undir jarðfallinu að austanverðu er m.a. mosavaxinn kindarkjálki.
Björn liðaðist með ljós niður í hellinn, líklega sá fyrsti mannkyns, sem sögur fara af. Ekki er langt síðan einn FERLIRsfélaga ætlaði að kíkja í annan slíkan þarna skammt norðar, en mætti þá rebba innan við gættina.
Björn var hins vegar óragur. Þegar niður var komið blasti við sæmileg hraunbóla, en engin endagangur annar. Innst í bólunni voru nokkrar sauðatennur er bentu til þess að rebbi hafi gert sig þar heimakominn. Þarna hefur hann verið kóngur í hásölum um stund. Kjálkinn ofar í munnanum gæti staðfest það.
HvassahraunÞá var haldið til austurs upp Rjúpnadalahraunið, stundum nefnt Afstapahraunið eldra, og upp í Geldingahraunið með stefnu á Skógarnefið. Í rauninni er grunnurinn gamla Hrútagjárdyngjuhraunið, en inni á milli og til vængjanna má sjá móta fyrir minni hraunum, t.d. Dyngnahrauninu er kom út úr Dyngjurananum og Mávahlíðum ofan við Einihlíðar. Einn fallegasta hraunfoss þess má sjá í vestanverðum Einihlíðum ofan við Mosa. Þarna, í neðanverðu Skógarnefninu, hafði Ásbjörn komið auga á stað, sem gæti leitt til fundar Skógarnefsskúta.
Gengið var vestan við Hvassahraunssel og í gegnum selið. Vel mátti sjá á tóftunum við þessar aðstæður hversu kalsasamt hefði verið þarna að vetrarlagi, en selin voru að jafnaði ekki setin á þeim tíma. Ofan við selið eru tvær vörður við hraunsprungu. Gengið var í gegnum nýrra hraunhaft, sem virðist hafa komið úr litlu skammvænu gosi, vestan við Urðarás.
Skútinn er inn í sprungu austan í hól, rétt ofan við Skógargötuna og skammt vestan og innan landamerkja Hvassahrauns. Girðingin, sem talin hefur verið á mörkunum, er svolítið vestan markanna. Það virtist vera allnokkurt rými þarna inn í hólnum, eins og reft hafi verið yfir sprunguna en þakið fallið niður. Hellirinn er ofan við efsta krossstapann (Hraunkrossstapa). Ljós þurfti til að skoða hann. Björn fór bæði inn í hann að norðanverðu og einnig að vestanverðu, en engar mannvistarleifar var að sjá á þeim stöðum. Snjó hafði skafið yfir hliðarskúta, svo skoða þarf aðstæður betur í auðu. Þarna skammt norðvestar eru tvær vörður á litlum klapparhól; landamerki Hvassahrauns og Óttarsstaða.

Urðarás

Urðarás.

Skútinn er um 1 km fyrir ofan krossstapann, um 140m ofan við Skógargötuna og um 40m NA við línu sem dregin er milli Miðkrosstapa og Markhelluhóls (girðingu milli Hvassahrauns og Óttarsstaða).
Á bakaleiðinni var komið við í Skógarnefsgrenum. Grenin eru neðan við Skógarnefið, skammt ofan við efsta krosstapann. Grenjaskyttubyrgið er hlaðið um hraunskjól og grenin skammt frá. Tekinn var gps-punktur á byrgið.
Skammt norðvestan við grenin er merkilegt jarðfræðifyrirbæri; Urðarás. Um er að ræða svenefndan „brothring“. Hraunið hefur fallið niður á nokkrum kafla eftir að neðanjarðarhrauná, sennilegast úr Hrútagjárdyngju, hefur stíflast og glóandi hraunkvikan með þrýstingi sprengt sér leið upp með þeim afleiðingum að rásþakið hefur brotnað upp og síðan sigið niður aftur þegar glóandi hraunið flæddi undan. Sambærileg fyrirbæri má sjá á og við stærstu hella landsins, s.s. í Hallmundahrauni. Ólíklegt, enda var það ekki að sjá, að hraunkvikan hafi náð upp á yfirborðið, en hins vegar náðst að tæmast eftir öðrum leiðum eftir að þakið brast. Nokkurn veginn jafnslétt er neðan brothringssins, en svolítill halli ofan hans. Þessar aðstæður gætu skýrt það að ekkert hraun hafi komið upp úr annars djúpri rásinni. Eftir stendur stórbrotinn „brotadalur“ í miðju hrauni. Þetta eru algeng fyrirbæri á Hawai og víðar þar sem hraun renna í kvikugosum. Gaman er að eiga a.m.k. eitt slíkt á Reykjanesskagnum, og það eitt hið fallegasta á landinu.
SkógarnefErfitt er að finna Urðarás á færi, en hann er þess greinilegri úr loftið séður. Ekki er ólíklegt að ætla, enda hefur það sennilega aldrei verið gert, að skoða syðst í jarðfallinu hvort þar, neðst, kynnu að leynast göng á stórum helli, en ætla má, og önnur dæmi sýna slíkt, að í slíkum tilvikum er þetta gerist, er um mikið magn af glóandi hraunkviku í neðanjarðarrásum að ræða. Hún hefur komið niður frá eldstöðinni í Hrúatgjárdyngju, en neðan Urðaráss er tiltölulega slétt hraun. Þar hefur rennslið verið litið og því glóandi kvikan ekki náð að renna áfram að ráði. Afleiðingin, eða afurðin, var þetta merkilega jarðfyrirbæri.
Til fróðleiks er gaman að geta þess að þetta jarðfræðifyrirbæri hafði verið uppgötvað hér á landi löngu áður en erlendir vísindamenn uppgötvuðu merkilegheit þess. Þannig var að á vísindaráðstefnu erlendis á níunda áratugnum fjallaði vísindamaður um nýlega uppgötvun; brothringi á Hawai. Að fyrirlestri loknum stóð íslenskur vísindamaður upp og sagði þetta varla geta talist merkilegt því einn vísindamanna Íslands, Kristján Sæmundsson, hefði þá tveimur áratugum fyrr ritað um fyrirbærið í Sunnudagsblað Tímans. Þar lýsti hann brothringjum hér á landi. Hin nýlega uppgötvun teldist því til þeirra eldri á Íslandi.
Í rauninni er Hvassahraunið að meginefni til eitt hraun; Hrútagjárdyngjuhraun sem fyrr segir, en inn á milli koma lítil hraun, sem að framan greinir.
Lítið sást af rjúpu, en þegar að henni var komið var hún mjög gæf. Hins vegar sáust víða spor eftir hana í snjónum – og rebba.

Urðarás

Urðarás.

Loftsskúti
Í leit að Grænhólshelli og Loftskúta í síðustu ferð um Óttarsstaða-, Lónakots- og Hvassahraunsland fundust hvorugir með vissu þrátt fyrir að beggja er getið í örnefnalýsingum. Hins vegar voru bæði Sjónahólsshellir og Grendalaskúta (Grændalahellir) barðir augum, en þeirra er einnig getið í lýsingunum, auk þess sem hægt var að ganga að þeim nokkurn veginn á vísum stað.
LoftskútiNú var haldið með áhöld; sög, skóflu, kúbein og ljósker, upp í Virkishóla, ofan Reykjanesbrautar. Ætlunin var að staðsetja Loftsskúta m.v. fyrirliggjandi lýsingu. Þrír staðir komu til greina með hliðsjón af fyrri ferðum um svæðið. Til að komast að þeim þurfti meðfylgjandi verkfæri. Við skoðunina fannst nokkuð stór hellir, hér nefndur Virkishólahellir. Í honum voru mannvistarleifar.

Í örnefnalýsingu um skútana tvo segir m.a.:
„Grænhólsskúti er suðaustur af Grænhól, stundum nefndur Stóri-Grænhóll“.
Þá segir um Loftsskúta: „Milli Smalaskála og Brennhóla er smáskúti rétt ofan við Virkið sem heitir Loftsskúti.“ „…Virkishólar eru þrír. Virkishóllinn vestasti er stærstur. Mið-Virkishóll er minnstur, og þar austur af er Virkishóllinn austasti. Milli þeirra er hringlaga jarðfall í hraunið, tveggja metra djúpt og þrettán metra vítt. Þetta er Virkið… Þar suður og upp af er hólaþyrping, Brennihólar. Loftsskúti er fjárbyrgi milli Smalaskála og Brennhóla…“

Loftskúti

Skammt ofan við Virkið milli Virkishóla eru grónir bollar. Í einum þeirra voru tvö göt utan í lágum gónum bakka. Ofan við hann var gat niður í jörðina undir birkihríslufléttu.
Byrjað var á að beita söginni á birkilurkana sem lágu yfir lítið op í litlu jarðfalli á yfirborði hraunsins. Í ljós kom tiltöllega grunnur skúti, líkari grenjaopi.
Þá var gripið til skóflunnar utan í lágum bakka á grasi grónu svæði örskammt ofar. Rofjarðvegur hafði fokið utan í bakkann og gróður; lyng og hrís, vaxið þar yfir lítið op niður í jörðina. Þar reyndist einnig vera um að ræða grunnan skúta, einna líkastan greni.
Örskammt vestar var enn eitt opið, þakið gróðri. Svo virtist sem þarna gæti verið enn eitt opið á sama „greninu“. Eftir að stungið hafði verið frá því kom í ljós vænlegur gangur. Luktin var tekin og henni beint hvatvíst inn undir hraunbakkann. Og sko, þarna virtist glytta í eitthvað skammt framundan. Lagst var á magann og rýnt – hvatvíst. —— Ekki var að sjá hvor varð meira hissa – skoðarinn eða skollinn. Sá fyrrnefndi hentist til baka, út undir bert loft (og dró djúpt andann), en luktin var eftir. Ennþá forvitnari og óundirbúnari skollinn hvarf inn undir hraunið. Skoðarinn teygði sig varfærnislega, og hálf óttarsleginn, eftir luktinni. Hann þurfti nauðsynlega á luktinni að halda því meira var enn óskoðað. Á öllu gat hann á von – en varla þessu – og þó. Þetta var áreiðanlega ekki Loftsskútinn – þetta var skollaskútinn. Og hana nú…
Gengið var áleiðis upp í Brennihóla. Því miður var gps-tækið ekki með í för að þessu sinni, en í u.þ.b. 283 metra fjarlægð ofan við Virkishólana kom í ljós op í litlu grónu jarðfalli. Þegar það var skoðað betur vitraðist vitringunum að stór steinn hafði fallið fyrir opið á stórum helli. Opið sneri mót suðri. Hægt var að komast niður í hann utan og austan við steininn, en þar fyrir innan voru greinilegar mannvistarleifar.
LoftskútiAð steininum fjarlægðum, sem ætti að vera auðvelt með kúbeini eða litlum járnkarli, er greinilega hægt að komast mætti niður undir hraunið og síðan þar enn lengra niður. Þarna virtist vera rúmgóður skúti. Ekki var farið niður að þessu sinni af varfærnisástæðum, en það verður gert fljótlega og hellirinn þá skoðaður betur.
Gengið var upp í Brennihæðir og þaðan til norðvesturs að skjóli, sem fundist hafði í fyrri ferðinni, undir háum hraunbakka í nokkuð stóru og grónu jarðfalli. Þar fyrir vestan er stórt jarðfall og greinilegur umgangur af ummerkjum í mosanum að dæma. Myndarleg varða er þar vestan við á hraunhólnum með Keili í bakgrunni. Varðan hefur andlitsmynd með augnsvip þegar horft er á hana úr austri.
Loks var kúbeinið handleikið og krækt með því í stóran stein, sem fallið hafi niður úr lofti skútans og lokað innganginum að mestu. Steinninn var laus og auðvelt að handleika hann til hliðar. Við það fóru tveir aðrir steinar af stað, en eftir að hafa forfært annan þeirra var leiðin greið. Inni var mold í gólfi og hið ákjósanlegasta fjárskjól fyri u.þ.b. 50 fjórfættar, þ.e. 200 fætur svo framarlega sem allar hafi verið eðlilegar (er að reyna að teygja svolítið á textanum svo rými verði fyrir fleiri myndir).
Í sunnanverðum skútanum, sem var lágur fyrir mann, en rýmilegur fyrir rollur, var gólfið flórað. Þarna hafði mannshöndin komið nærri og því líklegt að skútinn hafi verið notaður sem fjárskjól fyrrum. Ekki er þó kunnugt um heimildir um slíkt, sem og um svo margt annað, sem uppgötvað hefur verið á hraunsvæðum Reykjanesskagans.
Skammt norðan við skútann, í sama jarðfalli, er rúmgóður skúti. Þar hefur gólfið verið lagfært.
LoftskútiAnnars er fróðlegt að hlusta á lærða fræðinga fjalla um hitt og þetta, sem augljóst getur talist og jafnan hefur verið getið um í skráðum heimildum eða verið aflað eftir tiltölulega auðveldum leiðum, en enn fróðlegra væri að fá allar þær mannvitsbrekkur til að nota bókavitneskjuna á vettvangi þar sem skynvitin koma auk þess að mestu gagni. Fræðasamfélagið hefur yfirleitt, en þó ekki án undantekninga, litið niður á áhugafólk um ákveðin viðfangsefni; hvorki viljað viðurkenna rök þess né aðferðir. Áhugafólkið hefur hins vegar ekki eytt tíma sínum í að gagnrýna fræðasamfélagið – það hefur verið of upptekið af hinum spennandi daglegu viðfangsefnum sínum. Ef hins vegar þessir aðilar myndu sameinast um að nýta þekkingu, áhuga, færni og hæfileika hvers um sig á sem bestan og áhrifaríkastan hátt er ekki ólíklegt að ætla að út úr því gæti komið hin ágætasta niðurstaða er túlka mætti sem „árangur af hinu ánægjulegasta stefnumóti“.
Í rauninni er full ástæða fyrir fræðimenn/vísindamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, að brjóta odd af oflæti sínu og áræða að feta nýjar slóðir þar sem hliðsjón er haft af fyrirliggjandi vitneskju, með eða án forskriftar, áhuga, náttúrugáfum sem og eðlilegu mati á aðstæðum að teknu tilliti til breyttra breytinga í gegnum tíðina. Vitað er að skv. þróunarfræðum þurfa hlutirnir alltaf að heita eitthverjum fínum og nýbreyttum nöfnum, en er ekki kominn tími til að láta þá bara heita sínum eðlilegu náttúrunöfnum? (Nú hefur skapast nægilegt rými fyrir nauðsynlegar myndir – þakka þolinmæðina).
Ljóskerið kom að gagni í öllum tilvikum. Með því upplýstist að sumar grunsemdir gátu ekki átt við rök að styðjast, en varpaði ljósi á aðrar, sem gaumgæfa þarf betur síðar.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólar

Gengið var til suðurs frá Reykjanesbrautinni austan við Hvassahraun að svonefndum Virkishólum. Ætlunin var að skoða Virkið, sem þar er á milli hólanna. Virkishólarnir þrír eru áberandi skammt sunnan við veginn.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Skv. upplýsingum Kristján Sæmundssonar, jarðfræðings, myndast hólar sem Virkishólar þannig að glóandi kvikan safnast saman á einum stað og nær ekki að renna frá. Massi hraunsins þenst út vegna hitans og gúlpar og sprengir af sér harnaða hraunskorpuna.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Djúp sprunga er í efsta hólnum. Greinilegur gróinn stígur lá frá Hvassahrauni áleiðis upp að hólunun. Liggur stígurinn í reglulega lagað, nokkuð djúp og gróið jarðfall; Virkið. Það var notað til að hleypa til í um fengitímann. Fyrirhleðslur eru í norðanverðu jarðfallinu þar sem farið er ofan í það og skúti norðarlega. Vel gróið er í kringum Virkið sem og inni á milli og utan í hólunum. Ekki er útilokað að Virkið hafi einnig verið notað sem nátthagi því greinlega hefur verið beitt þarna um nokkurn tíma.
Skammt austan við Virkishólana eru aðrir hraunhólar í hólóttu helluhraunnu. Suðvesturundir einum þeirra (varða ofan við) er jarðfall. Í því er hlaðið fyrir skúta, Lofstkúta. Þarna munu Hvasshraunsmenn hafa m.a. geymt rjúpur o.fl. þegar þeir voru við veiðar í hrauninu.
Gangan tók 53 mín. Blanka logn og sól.

Loftsskúti

Í Loftsskúta.

Öskjuholtsskjól

Gengið var frá Reykjanesbraut upp að Virkishólum og Grænudölum þar sem Loftskúti var skoðaður.

Loftsskúti

Loftsskúti.

Virkishólarnir sjást vel frá Reykjanesbrautinni skammt ofan við og norðan nýju gatnamótanna að Hvassahrauni. Þeir standa þrír saman og eru áberandi klettahólar með djúpum sprungum þvert og endilangt. Á milli þeirra er jarðfall með fyrirhleðslum, sem nefnist Virkið og var notað til þess að hleypa til í um fengitímann. Virkið er vel gróið og við norðurenda þess, þar sem gengið er niður í jarðfallið, eru hleðslur með brún þess.

Virkishólar

Virkið í Virkishólum.

Austur af Virkishólum eru Grænudalir, sem sumar heimildir kalla Grendali. Dalirnir eru djúpir kjarr- og grasbollar í klettásum, en slíkt landslag er einkennandi fyrir Hvassahraunslandið. Á einum hraunhólnum er varða, sem heitir Grænadalsvarða og við þennan hól sunnanverðan er fjárskjól með hleðslum, sem heitir Grænudalahellir eða Loftskúti. Op þess snýr í suðurátt. Sumir segja að menn frá Hvassahrauni hafi geymt rjúpur sínar í skútanum er þeir voru við veiðar uppi í hrauninu að vetrarlagi.

Hvassahraun

Smalaskáli.

Loks var gengið til vesturs norðan línuvegarins að svonefndum Bláberjakletti. Þetta er fallegur strýtumyndaður klapparhóll, en í kringum hann eru gras- og lynglautir, sem eiga að hafa gefið af sér ófá bláberin. Hóllinn er klofinn eftir endilöngu í skeifu og hægt að ganga í gegnum klofann. Að sunnanverðu er hóllinn bogadreginn og bak hans nokkuð slétt.
Ofar er Smalaskáli með fallegu fjárskjóli og sunnan hans er Öskjuholt, einnig með fallegu fjárskjóli.
Gengið var norður að Virkishólum og að upphafsstað. Hraunið þarna er mjög auðvelt yfirverðar, nokkuð slétt þótt mishæðótt sé með fallegum jarðföllum og vel gróið.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Fjárskjól

Fjárskjól í Öskjuholti.