Í „Fornleifaskrá Hafnarfjarðar árið 2021“ segir m.a. um Straum, Óttarsstaði og Lónakot:
„Straumur
Straumur.
Straumur var ein af svonefndum Hraunjörðum en það voru þær jarðir sem voru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum. Þessar jarðir voru í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1836-1839.10
Jónsbúð – túnakort 1919.
Jarðarinnar var fyrst getið í fógetareikningum frá 1547-1548 og þar sagði: „Item met Ström j legeko. xij for. Landskyldt iij vetter fiske. ij lege vj förenger smör dt. oc ij landskyldt iij vetter fiske dt. Thet er jc xxx fiske.“
Næst var jarðarinnar getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar segir að jarðardýrleikinn sé óviss, að jörðin var í konungseign og að ábúandi var Hans Ólafsson. Kúgildin voru þrjú og landskuldin var 75 álnir.
Jörðin átti selstöð sem hét Straumsel en þar voru hagar slæmir og vandræði af vatnsskorti þegar það voru þurrkar. Torfrista og stunga voru í skárra lagi og jörðin notaði skóg í almenningi til kolagerðar og eldiviðar.
Straumssel – selið.
Heimræði var allt árið í kring, lending góð og skip ábúendans réru eftir hentugleika. Lambhúsgerði var þá eyðihjáleiga á jörðinni sem hafði verið í eyði eins lengi og menn mundu og var ekki talið að þar yrði búið aftur vegna þess að bóndinn á Straumi gat ekki komið túninu þar í lag án þess að það kæmi niður á hans eigin túni.
Í Jarðatali Johnsens frá 1847 var jörðin sögð í bændaeign, dýrleikinn var 12 ½ , landskuldin 0.75, tvö kúgildi, einn ábúandi og var hann eigandi jarðarinnar.
Samkvæmt Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar voru landmerki fyrir jörðina Straum:
Steinhes – (Steinhús).
Landamerki milli Straums og Óttarsstaða byrja við sjó á Vatnaskersklöpp yfir miðjan Markhól og þaðan beint í Stóra-Nónhól í Gvendarbrunn frá Gvendarbrunni í Mjósundsvörðu, frá Mjósundsvörðu í Klofaklett suður og upp af Steinhúsi.
Markhella.
Á Klofaklett er klappað Ótta Str. og varða hlaðin hjá. Frá Klofakletti í Markastein, suður og upp af Eyjólfshól, á þennan Markastein er klappað Ótta Str. Frá þessum Markasteini sömu stefnu upp að Krýsuvíkurlandi.
Á hina hliðina milli Straums og Þorbjarnarstað byrja landamerkin við sjó á Pjetursbyrgi á neðsta hólmanum, og þaðan beint í svonefnda Tóu, úr Tóu beint í Vestari-Tobbukletta yfir miðjum Jónshöfða og í vörðu vestarlega á há-Hafurbjarnarholtinu og þaðan beina stefnu mitt á milli Stóra-Steins og Fjárskjólskletts í vörðu á há-Fremstahöfða og þaðan hina sömu beinu stefnu þar til að Krýsuvíkurland tekur við (Undirritað í Straumi 31. maí 1890)“.
Norðan við Straum stóðu tvær þurrabúðir, Þýskabúð og Jónsbúð.
Þýskabúð
Þýskabúð.
Þýskabúð var hjáleiga frá Straumi og dró nafn sitt af því að þýskir kaupmenn munu hafa reist kaupbúðir á tanganum við Straumsvík og verslað þar á 14. og 15. öld.
Engar minjar um þær búðir sjást þó á svæðinu í dag.
Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók viðtal við Pál Hannesson, þáverandi eiganda Þýskubúða árið 1993:
Þýskabúð.
„Þýskubúð: Síðasti ábúandi Þýskubúðar hét Guðmundur (Björgúlfsson); hann átti allan Straum. Húsið var byggt 1915? (1910?), síðar innréttað og lagfært.
Tjörvi nokkur Guðmundsson bjó í Þýskubúð 1911-1912 [Innskot í texta frá SÁM: Skv. Manntalsvef Þjóðskjalasafns bjó Guðmundur Tjörfi Guðmundsson í Þýskubúð miklu fyrr(m.t. 1890 og 1901; Leigandi í Straumi í mt. 1910). J.H.].
Áður en Tjörvi var þarna byggði Björn, kallaður „þýski“ (Þýski Björn), [hús þar sem Þjóðverjar versluðu á 14. og 15. öld].
Það sem fylgir húsinu er baðstofa 11×16 álnir með steinsteyptum kjallara: frambær 6×6 álnir, líka steyptur kjallari.
Tún 2 dagsláttur (heyfang 20 hestar?); matjurtagarður.
Tóft við Þýskubúð.
Fiskimið út af Straumi: Í beina línu á Helgafell og miðja fjörumölina við tangan hjá Bala, ca. miðja víkina. (Á Bala átti bústað Loftur Bj[arnason] í hvalnum).
Þær minjar sem sjást á yfirborði við Þýskubúð eru allar seinni tíma og eru í samhengi við steypta húsið (2367-122) sem enn stendur að hluta. Í kringum húsið er að finna ýmis garðlög og matjurtagarða, naust og útihús, sem og gerði og brunn. Túngarðurinn er frekar illa farinn en hann hefur einnig virkað sem varnargarður við sjóinn og er hann þar að mestu kaffærður í fjörugrýti.
Jónsbúð
Jónsbúð – tilgáta ÓSÁ.
Jónsbúð var tæpum 200m norðan við Þýskubúð, sunnan við Jónsbúðartjörn, sem hefur verið vatnsból Jónsbúðar, og Markhól (2367-159) sem er sprunginn hraunhóll sem virkaði sem náttúruleg landamörk Straums og Óttarsstaða. Minjarnar við Jónsbúð eru mjög heillegar en þær hafa alveg sloppið við seinni tíma rask.
Árið 1999 gerði Fornleifafræðistofan, undir stjórn Bjarna F. Einarssonar, þrjár prufuholur í bæjartóftir Jónsbúðar og var markmið rannsóknarinnar að freista þess að ná að aldursgreina tóftina og að sjá í hvað hólfin voru notuð. Ekki fundust nægileg gögn til aldursgreiningar en rannsóknin leiddi í ljós að vestur hólfið var fjós og þaðan var gengið inn í baðstofu en algengt var að nota hita frá skepnum til þess að verma híbýli.
Jónsbúð – túnakort 1919.
Á túnakorti frá 1919 var sagt að kálgarðar væru 180m2 og að tún Jónsbúðar væru holótt og slétt, þau stæðu á klettanefi við sjó, vestur frá Jónsbúð og voru 0,2 teigar.
Jónsbúðar var ekki getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns en vert er að minnast á að ekki var alltaf minnst á þurrabúðir jarða þó að enginn vafi sé á að þær hafi verið til staðar.
Í manntali frá 1910 var minnst á Jónsbúð sem þurrabúð í landi Straums og þar bjó hann Gunnar Jónsson, sjómaður, Sigríður Hannesdóttir kona hans og Sigríður dóttir þeirra. Þau munu hafa komið til Jónsbúðar frá Meðalholti í Flóa 1882.
Í bókinni „Forðum gengin spor“ var tekið viðtal við Jón Magnússon í Skuld í Hafnarfirði:
„Síðan færum við okkur inn að Straumsvík en þar voru tvö kot, Jónsbúð og Þýskubúð. Þar voru Jón í Jónsbúð og Gunnar í Þýskubúð. Þessi kot voru búin að vera um tíma í eyði áður en þessir menn komu þangað. Þeir voru orðnir fullorðnir þegar þeir komu að þessum kotum og ég man eftir þeim en ég kynntist þeim mjög lítið. Þeir voru með nokkar kindur.“
Jónsbúð – brunnur.
Í skýrslu sinni velti Bjarni því upp að Jón þessi í Jónsbúð gæti hafa verið síðasti íbúi Jónsbúðar en að búðin hafi greinilega ekki verið kennd við hann. Hann sagði einnig að líklegt væri að búðin hafi borið ýmiss nöfn í gegnum árin, stundum eftir ábúendum og stundum eitthvað annað, en dæmi um það eru vel þekkt. Hann sagði einnig að Jónsbúð hafi ekki verið lengi í eyði áður en Jón byggði upp kotið, en algengt var að kot og smábýli hafi verið í eyði í smá tíma á milli íbúa.
Jónsbúð – bæjarstæðið (BE).
Bæjarstæði Jónsbúðar er mjög heillegt og eru bæjarrústirnar vel greinanlegar sem og matjurtagarðurinn áfastur þeim. Rétt framan við bæjarrústirnar er vörslugarður en hann hefur verið til þess að beina búfénaðnum inn í fjósið. Fast NV við bæjarrústina er hjallur og túngarður umhverfis túnið. Útihús er áfast vestur hlið túngarðsins og er mögulega fjárhús sbr. viðtalið við Jón Magnússon.
Það er brunnur í Jónsbúðartjörn norðan við bæjarrústirnar og lághlaðin brú að honum en vatnsstaða tjarnarinar stjórnast af sjávarföllum.
Óttarsstaðir
Óttarsstaðir efri.
Óttarsstaðir er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550.
Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Óttarsstaðir – túnakort 1919.
Elsta heimild um Óttarsstaði er frá 1379 í vitnisburði Kára Þorgilssonar og tveggja annara manna um máldaga og reka kirkjunnar í Viðey frá Koleinsskor og inn að Hraunnessvötnum í millum Hvassahrauns og Óttarsstaða. Þar segir: „Svo felldann vittnisburd bervm vier kare þorgilsson, jon oddzson oc olafur kodransson, at vier hofvm heyrt lesinn maldagann j videy advr en kirkiann brann, oc firnefndur olafur kodransson las hann sialfur, at kirkiann j videy ætti fiordv hvoria vætt vr hval hvar m land kæme fra kolbeinsskor oc in at hravnnes vottvm j millvm hvassaravns oc ottastada nema kæme æ kalfatiarnar reka þeim frateknvm j millvm markkeltz oc nyia garda. hier epter villivm vier sveria ef þvrfa þycker. anno domini Պ iijc. lxxix ar.“
Einnig er sagt frá Óttarsstöðum í bréfi frá 9. september 1447 en það var bréf um jarðaskipti Einars Þorleifssonar og Steinmóðar ábóta í Viðey fyrir hönd klaustursins. Einar mun hafa keypt jarðir í Húnaþingi og selt jarðir á Vatnsleysuströnd til Viðeyjarklausturs og 10/100 í Óttarsstöðum.
Óttarsstaðir eystri.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Óttarsstaða hafi verið óviss og að jörðin var í konungseign. Landskuldin var 500 álnir sem greiddist með sex vættum og tveimur fjórðungum fiska í kaupstað síðan leigan var hafin en áður greiddist hún til Bessastaða. Ábúandinn, Guðmundur Guðmundsson, lagði við til húsabóta. Kúgildi jarðarinnar voru þrjú og greiddust leigur í smjöri heim til Bessastaða eða með fiski í kaupstað, ábúandinn uppyngdi kúgildin sjálfur.
Óttarsstaðasel – tilgáta.
Útigangur var í betra lagi, ef ekki var um hörkuvetur að ræða, kvikfénaður var fimm kýr og einn hestur. Túnið gat fóðrað fimm kýr en hafði verið í órækt og var úr sér gengið. Heimilismenn voru átta og sóttu þeir sér skóg til kolagerðar og eldiviðar í almenning greiðslulaust. Lyngrif var nýtanlegt, aðallega til eldkveikju, lítil rekavon, sölvafjaran nægði heimilisfólki og hrognkelstekja í lónum var vel nýtt. Heimræði var á Óttarsstöðum árið um kring og var lendingin í meðallagi. Jörðin átti tvær selstöður, eina í almenningi og voru hagar þar góðir en gat orðið vatnslaust á þurrum sumrum, hina í Lónakotslandi á móts við uppsátrið sem Lónakotsmenn fengu að nota í landi Óttarsstaða. Búfénaður fórst oft í gjám í hrauninu, sérstaklega á veturna þegar snjór lá yfir hrauninu. Torfstunga var svo gott sem engin til heyja, þaks og húsa. Tvær hjáleigur voru á Óttarsstöðum, báðar ónafngreindar í Jarðabókinni. Önnur var um sextíu ára gömul þegar Jarðabókin var skrifuð en hin eldri en elstu menn mundu.
Óttarsstaðir eystri – meintur kirkjugarður fremst.
Í Jarðatali Johnsen frá 1847 fékk jörðin númerið 163, Óttarsstaðakot 164, og var jörðin í bændaeign, dýrleikinn var 20 ⅙, landskuldin 1,5, kúgildin 3 og ábúendur 1 eigandi að jörð og 1 leiguliði.
Á túnakorti af Óttarsstöðum og Óttarsstaðakoti frá 1917 var sagt að tún væru holótt og grýtt, þó að miklu slétt og sléttuð. Túnin voru samtals 5,4 teigar og kálgarðar voru samtals 2650m2.
Í örnefnaskrá Óttarsstaða var gerð ítarleg lýsing á bæjarstæðinu:
Óttarsstaðir/Straumur – örnefni og minjar. Uppdráttur ÓSÁ.
„Löngum var tvíbýli á Óttarsstöðum. Voru býlin nefndi Efri-Óttarsstaðir eða Vesturbær og Neðri-Óttarsstaði eða Austurbær. [í dag eru bæirnir helst þekktir sem Óttarsstaðir-Vestri og Óttarsstaðir-Eystri]. Bæirnir stóðu á Bæjarhól, nokkuð vestarlega í túninu. Vesturbærinn stendur ennþá, en Austurbærinn var rifinn fyrir aldamót. Var þá byggt nýtt hús nokkru austar og neðar í túninu, en gömlu bæjartóftirnar notaðar fyrir fjós og hlöðu. Túnið á Óttarsstöðum var allstórt og var því deilt milli bæjanna í Vesturbæjartún og Austurbæjartún. Kringum öll túnin var hlaðinn tvístæður túngarður, feiknamannvirki.
[…] Rétt austur af húsinu, sem nú er á Neðri-Óttarsstöðum, var Eyðikotið [Óttarsstaðakot], þurrabúð frá Óttarsstöðum. Það fór í eyði fyrir 30-40 árum, en bærinn stendur enn og er notaður sem sumarbústaður.
Óttarsstaðir eystri – eldhús.
Niður við Óttarsstaðavörina var önnur hjáleiga eða þurrabúð, nefnd Kolbeinskot. Kot þetta fór í eyði rétt eftir aldamót. […] Vestur af Eyðikotinu var djúpt jarðfall, Eyðikotsker eða Kerið. Neðst í því var hlaðinn brunnur, og var vatnið jafnan tekið þar. Alltaf fylltist þetta af snjó á veturna. Hleðslan í brunninum sést enn. Frá Kerinu lá Brunnstígurinn heim til bæjar. Eyðikotinu tilheyrði sérstök vör, Eyðikotsvör, og lá svokölluð Sjávargata frá kotinu að henni.
[…] Skammt frá Eyðikotinu, til hægri handar, þegar vestur var farið, var hóll sem hét Litlakofahóll. Vestan í honum var kofi, sem kallaður var Litlikofi eða Tótukofi. Þórunn nokkur, systir konunnar á Óttarsstöðum, hafði kindur í þessum kofa. […] Rétt norður af Neðri Óttarsstöðum er lágur rani. Á endanum á honum er smátúnblettur með grjóthleðslu í kring. Er þetta nefnt Rúnugerði […] Rétt austur af Rúnugerði er nokkuð stór hóll, sem kallaður var Fiskhóll. Uppi á þeim hól hafa verið breiðir grjótgarðar, sem enn sést vel móta fyrir, og þar hefur verið þurrkaður fiskur í gamla daga. […] Lengra vestur í túninu og nær sjónum voru fjárhús. Nefndist það efra Torfhús, en það neðra Langbakkahús. Langbakkahús var rifið, svo að veggir einir stóðu eftir, en þeir fóru alveg í stórflóði, líklega 1957.
Rétt fyrir ofan sjávarkampinn var hlið á vesturtúngarðinum, nefnt Fjárhlið, því að féð rann þar í gegn. Rétt fyrir sunnan hliðið var feiknamikið fjárgerði. Þaðan lá götuslóði frá báðum bæjum. […]Smiðjubali var rétt austur af kálgarðinum á Efri-Óttarsstöðum. Þar á að hafa verið smiðja.
Brunnurinn á Efri-Óttarsstöðum var alveg í horninu á kálgarðinum, smáspöl frá bænum. Þangað lá gata, sem kölluð var Brunngata. Í gamla daga var þetta hlaðin steinstétt, en er nú gróin upp.
[…]Í túninu á Neðri-Óttarsstöðum, alveg við mörkin, var kofi, upphaflega smiðja, seinna hesthús. Rétt austur af tóftinni eru þúfur miklar, og töldu menn, að þar væru leiði.
Óttarsstaðir 1950.
Skúli Magnússon landfógeti sagði í Chorographica Islandica að á Óttarsstöðum ætluðu sumir að hafði verið bænhús og í Örnefnalýsingu sagði að „Rétt norðan við Álfakirkju eða Stólpa var talið að verið hafi Kapella. Óttarsstaðakapella. Jafnvel Kirkja og austan eru þúfur miklar, nefnast Kirkjugarður.“
Ekki finnast aðrar heimildir um kirkju eða kapellu á Óttarsstöðum og er frásögn Skúla sú eina sem til er.
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Óttarsstaðir þar á meðal.
Óttarsstaðir hafa að mestu sloppið við allar nútíma framkvæmdir og þar er að finna nánast ósnert menningarlandslag. Vegna þessa er svæðið frekar vinsælt útivistarsvæði í dag.
Lónakot
Lónakot – túnakort 1917.
Lónakot er jörð í hinum svonefndu Hraunum í landi Hafnarfjarðar. Þær jarðir sem eru innan staðarmarka Hafnarfjarðar suðvestur af kaupstaðnum voru nefndar áður einu nafni Hraunjarðir. Þetta voru jarðirnar Stóri Lambhagi, Þorbjarnarstaðir, Straumur, Óttarsstaðir, Lónakot og Svínakot. Jörðin Hvassahraun var ein af Hraunjörðunum en hún var í Vatnsleysuhreppi. Þessar jarðir voru allar í eigu Viðeyjarklausturs og urðu því konungsjarðir með siðaskiptunum 1550. Konungsjarðirnar voru síðan seldar á árunum 1837-1839.
Elsta heimildin um Lónakot er í fógetareikningum frá 1547-1548 en þar sagði: „Item met Lonakot en legeko. landskyld iij vetter fiske oc ij lege en vet fiske dt. oc ij landskyldt iij vether fiske dt. thet er jc lxxx fiske.“ Lónakot kom fram í öllum fógetareikningum frá 1547 til 1553.
Lónakot – bærinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 var sagt að jarðardýrleiki Lónakots sé óviss, því jörðin tíundaðist engum, og jörðin var í konungseign. Landskuldin var xl álnir sem voru borgaðar með átta tunnum af kolum heim til Bessastaða allt til þess að Andres Ívarsson varð umboðsmaður á Bessastöðum, þá kvartaði ábúandinn, Sigurður Oddleifsson, um að skógurinn í almenninginum væri svo foreyddur að hann treysti sér ekki að safna kolviði til landskuldargjaldsins. Eftir það var landskuldin greidd með tveim vættum fiska í kaupstað. Kvikfénaður var tvær kýr, tvær kvígur mylkar, ein tvívetra, hin þrívetra, tólf ær, fimm sauðir veturgamlir, sjö lömb, einn hestur og eitt hross. Túnin gátu fóðrað þrjár kýr og heimilismenn voru fimm. Jörðin átti selstöðu í eigin landi, Lónakotssel, og voru hagar þar góðir en stórt mein af vatnsskorti þegar það var þurrkur. Jörðin notaði rifhrís til kolagerðar og eldiviðar og jafnvel til að fóðra nautgripi um vetur, torfrista og stunga var í lakasta lagi og varla nýtanleg, lyngrif var nokkurt og var notað til eldiviðar og stundum til að fóðra sauðfé í heyskorti. Fjörugrastekja var nægileg heimilismönnum, rekavon var lítil, sölvafjaran hjálpleg, hrognkelsfjaran gagnleg en skelfiskfjara naumleg og erfiðissöm til beitu. Ekki var heimræði á Lónakoti því engin almenninleg lending var á jörðinni og hafði ábúandinn skipsuppsátur á Óttarsstöðum.
Lónakot – minjar.
Í Jarðatali J. Johnsen frá 1847 fékk Lónakot númerið 162 og var í bændaeign. Dýrleiki jarðarinnar var 10, landskuld var 0,4, kúgildið 1 og ábúendur einn eigandi.
Á túnakorti af Lónakoti frá 1917 töldust túnin vera 0,9 teigar (sléttir) og kálgarðarnir voru 500 m2. Þar kom einnig fram að sjór og sandur gekk yfir lágan tún-/varnargarðinn á stórflóðum.
Lónakot.
Í örnefnaskrá Lónakots, sem Gísli Sigurðsson skráði, var sagt að Lónakot hafi verið í eyði síðan um 1930. Í skránni er einnig ítarleg lýsing á bæjarstæðinu og svæðinu í kring: „Lónakotsbærinn stóð á Bæjarhólnum, sem var sprunginn klettur, því sem næst í miðju Lónakotstúni, sem skiptist í Austurtún, Norðurtún og Vesturtún, öðru nafni Seltún. Túnið lá innan Lónakotstúngarðs, en hann skiptist aftur á móti í suðurtúngarð með suðurtúngarðshliði, en þessi hluti túngarðsins lá um nyrztu hólma og granda Lónakotsvatnagarða, sem eru hólmar og lón í suðsuðaustur frá bænum, með fersku vatni jafnarðarlegast. Austurtúngarður lá á austurkanti túnsins frá einu lónanna um Krumfót, sem er klapparhóll, er einnig nefnist Vökhóll og Sönghóll. […] Sunnanvert við Krumfót var syðra túngarðshliðið, en norðan Krumfótar var nyrðra túngarðshliðið. Garðurinn lá frá Krumfæti út að Norðurfjárhúsi, en frá því lá norðurtúngarðurinn eða sjóvarnargarðurinn á sjávarbakkanum, vestur eftir með norðurtúngarðshliði, sem var vestarlega á garðinum og þar rétt hjá tóft, Hliðsbyrgið.
Lónakot – Norðurfjárhúsið.
Á vesturkant túnsins var vesturtúngarður eða Seltúnsgarður. […] Suðurtjörnin lá aftur á móti sunnan við Bæjarhólinn og þar í brunnurinn, en frá bænum lá Brunnstígurinn niður á Brunnstéttina, sem lá út í tjörnina að brunninum, sem var niðurgrafinn í mjúkan leirbotninn.
Í Vatnagarðahelli.
Lónakotsvatnagarðar, hólmarnir og lónin suðsuðaustur frá Lónakoti, voru einnig nefndir Vatnagarðar eingöngu, Lónin, Lónakotslón, Hólmarnir, Lónakotshólmar, og syðst í Vatnagörðum er Vatnagarðahelli eða Vatnagarðafjárskjól, sem eiginlega liggur í landi Óttarsstaða, og nokkrar tjarnanna.
Þegar haldið var suður út af suðurtúngarðshliði, var þar við Lónakotsselsstíginn, sem seinna varð Lónakotsvegur, alldjúp gjóta, sem nú er fyllt með grjóti, Yrðlingabyrgi. Þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga. Byrgið er um 30 metra frá túngarðshliðinu. Suður frá því er svo Lónakotsréttin. Austur þar frá, á vinstri hönd við Lónakotsstíginn, er þúfnakargi með fjárhúskofa og kallast hér Kotið, einnig Dys í Koti.
Lónakot – Dys í Koti.
Austar þar var Kotagerði, fjárgerði. Allt lá þetta vestan hólma Vatnagarðanna. Sagnir voru um, að upphaflega hafi Lónakotsbærinn staðið þarna. Umhverfis þennan þúfnakarga var Kotagarðurinn, hlaðinn, einfaldur grjótgarður. Nokkru lengra upp í hrauninu var Hádegishæð, eyktarmark frá Lónakoti.“
Árið 1966 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að nýta sér forkaupsrétt á öllum lóðum og fasteignum í Hafnarfirði vestan Krýsuvíkurvegar og var jörðin Lónakot þar á meðal.
Flestar þær fornleifar sem skráðar voru á jörð Lónakots tengjast bænum og landbúnaði með einum eða öðrum hætti. Helst ber að nefna bæjarrústirnar sjálfar sem eru mjög heillegar. Í bæjarrústunum eru sjö hólf, þar af er nyrsta hólfið niðurgrafin hlaða og næst syðsta að öllum líkindum eldhús eða baðstofa, þar er að finna leifar af steyptum reykháf.
Lónakot – brunnur.
Túnið við Lónakot hefur fengið að kenna á ágangi sjávar og liggur fjöldinn allur sjóbörðum steinum yfir því og varnargarðurinn er horfinn að miklu leyti. Útihúsin eru þó nokkuð heilleg og er þar kannski helst að nefna Norðurfjárhúsið, sem er í norður enda túnsins, og Yrðlingabyrgið, sem er u.þ.b. 100m SV við bæjarrústirnar en þar ól Hallgrímur Grímsson, bóndi í Lónakoti um aldamótin 1900, upp tófuyrðlinga fyrir feldinn.“
FERLIR saknar minja og heimilda í skráningunni, annarra en getið er um í tilvitnuðum og sumum hverjum gölluðum eldri skýrslum Byggðasafns Hafnarfjarðar um fornleifar í Hafnarfirði.
Heimild:
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar V; Straumur, Óttarsstaðir og Lónakot, 2021; – Fornleifaskra-Hafnarfjardar-V-Straumur-Ottarsstadir-og-Lonakot-2021.pdf (byggdasafnid.is)
Vatnagarðahellir.