Í Breiðdal er steyptur stólpi, sem komið hefur niður úr skarðinu. Hann mun einhvern tímann hafa staðið uppi á brúninni, en einhver séð sig knúinn til þess að spyrna við honum.
Gilið mun áður hafa heitið Markagil á Marraka eða Marrakagil á Undirhlíðum, en síðar er það nefnt Marrakagil í skjalinu frá 21. júní 1849 um Álftanesskóga. Það er það sama og annar staðar er nefnt Markrakagil (Melrakkaskarð, Vatnsskarð) eða Melrakkaskarð (Vatnsskarð, Markrakaskarð) í Undirhlíðum eins og það er nefnt sitt á hvað í “Merki á landi Garðakirkju….” frá 7. júní 1890 og sem staðfest er í landslögum nr. 13. frá 22. október 1912 um merki í landi Garðakirkju. Auk þess virðist þetta kennileiti hafa verið stafað Markragil, Marakki, Markragil o.s.frv. og á sumum stöðum staðsett á röngum stað. Í dag er þetta skarð eða gil aðeins nefnd Vatnsskarð. Eigandi Krýsuvíkur er samþykkur aðalmarki Garðakirkju og Krýsuvíkur í Vatnsskarði (Markrakagili, Melrakkaskarði), samkvæmt fyrrgreindu skjali frá 1890 og bréfi frá 14. apríl þ.á. (undirritaður tekur Vatnsskarð út fyrir sviga).
Námusvæði er í vestanverðum Undirhlíðum norðan Vatnsskarðs. Vestan þess, sunnan Krýsuvíkurvegar, er Hraunhóll, enn eitt jarðfræðifyrirbrigðið, sem skemmt hefur verið í gegnum tíðina. Úr honum rann Nýjahraun, síðar nefnt Kapelluhraun, um 1188. Gígurinn hefur verið eyðilagður sem og allt umhverfi hans, Hraunhóll, stundum nefndur Rauðhóll, var með fallegri gígum á Reykjanesi og í rauninni stolt svæðisins. En þegar ráðist er að stolti landsins er dregið úr verðmæti þess. Skammsýni, þegar landsgæði eru annars vegar, hefur því miður verið eitt af höfuðeinkennum Íslendinga, allt frá landnámi til vorra daga.
Með gengdarlausri eyðingu skóga kom landeyðingin, skjólið hvarf og landsmenn stóðu berrassaðir á berangri um aldir. Nú þegar ferðamennskan er að verða ein aðalatvinnugrein landsmanna standa þeir enn og aftur berrassaðir fyrir framan ferðamennina, með landið sundurkorið og með óafturkræfar námur á einum fallegustu og nærtækustu svæðunum. Þeir, sem fengið hafa að ráða ferðinni í þessum málum, eiga að verða verðlaunaðir með fálkaorðunni fyrir eindæma skammsýni í þessum efnum. Nóg um það í bili.
Haldið var suður með Sveifluhálsi, um Sandfellsklofa. Þessi leið var fyrrum farinn frá Kaldárseli til Krýsuvíkur, Undirhlíðavegur. Hún er sendin frá Vatnsskarði og upp fyrir Norðlingaháls, en þá taka við grónar brekkur og sléttur að Ketilsstíg. Svæðinu um Sandfellsklofa hefur nú verið spillt með efnistöku, auk þess sem vélhólafólk hefur sett för sín á landið.
Mikil og löng hrauntröð, sem nú er að mestu sandi orpin, liggur samhliða klofanum. Hún var elt upp í gígana, sem eru í brekkunni áður en beygt er upp að Hrútargjárdyngju. Vegurinn liggur um þá. Jarðföll taka við tröðinni, en í því efra er hægt að komast niður í Klofahelli.Hraunrennslið hefu nær eingöngu orðið úr syðstu gígunum. Stærð hraunsins nær ekki einum ferkílómetra, en raunveruleg stærð þess gæti verið mun meiri. Aldursákvörðun hefur verið gerð á gróðurleifum undir hrauninu (Jón Jónsson, 1983) og fékkst aldurinn 3010 +/-70 eða um 1060 ár f.Kr.
Nokkrir hellar ganga fáeina tugi metra inn frá miklum niðurföllum við suðurenda hrauntraðarinnar. Í þessum smáhellum hefur mikið hrunið, en þeir eru nafnlausir og hluti af Klofahelliskerfinu.
Inn frá litlu opi ofan við Djúpavatnsveginn. Inn frá því til norðausturs er Klofahellir. Fyrst er klöngrast niður þrönga rás, sem á stunum er á tveimur hæðum. Þar innanvið er mikil hvelfing með um fjögurra metra lofthæð og um átta metrar eru milli veggja. Aftur þrengist hellirinn nokkra vegalengd þar til komið er í “símaklefann”, en þar má rétta úr sér á ný. Inn frá símaklefanum eru um 10 m göng, en ákaflega þröng og ekki á færi allra að fara þar í gegn. Þar innan við stækkar hellirinn á ný, en endar svo í miklu hruni. Klofahellir er um 115 m langur.
Suðvestan við Klofahelli er enn einn hellir eða skúti. Heildarlengd er um 15 metrar. Í honum voru fjögur pör af skóm og fékk hellirinn því nafnið Skóhellir.
Sandfellið er auðvelt uppgöngu. Fallegt útsýni er af því yfir að Hraunhól, yfir Kapelluhraun og Óbrennisbrunahraun. Gengið var niður af fellinu að austanverðu og haldið yfir nokkuð slétt hraunið og sandsléttu að upphafsstað. Upp úr henni gægist ein og ein burnirót. Ósjálfrátt fara tvífætlingar að gaumgæfa hvar þeir stíga niður. Það, sem næst er, yfirsést – oftast.
Á leiðinni var gengið yfir tiltölulega litla hraunsprungu. Jarðvinnuvél hafði verið ekið af óskiljanlegri ástæðu yfir sprunguna og verið rótað með henni að hluta til yfir hana. Forvitnilegt skoðunarverkefni síðar.
Innst í Sandfellsklofa eru glögg merki þess hversu utanvegaakstur getur spillt annars fallegu landslagi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.
Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.