Selin á Reykjanesskaganum, mannvirki þeim tengdum og leiðir að þeim teljast til fornleifa.
Á heimasíðu Fornleifastofnunar Íslands á Netinu er m.a. fjallað um fornleifar. Þar segir að “fornleifar séu efnislegar minjar genginna kynslóða. Sjálfar kynslóðirnar hverfa ein af annarri og hugsanir þeirra að mestu leyti með þeim. Fornleifarnar voru hluti af veruleika forfeðranna sem mikilvæg mannvirki, kennileiti eða staðir og þær skiptu þá miklu máli. Gátu þær meira að segja verið þeim lífsnauðsynlegar. Án þessara fornleifa væri sagan harla óáþreifanleg og jafnvel álitamál hvort við værum sjálfstæð þjóð yfirleitt. Er hægt að byggja land og halda uppi menningu án beinna tengsla við söguna?
Íslendingar eru stoltir af sögu sinni. Áþreifanlegar leifar þessarar sögu eru fornleifarnar. Þess vegna eigum við að gera þeim hátt undir höfði, varðveita þær og vernda.
Landslagið er mikilvægur hluti af veruleika manneskjunnar og einn þeirra þátta sem skapa hana. Skilgreiningin á því að vera Vestfirðingur er t. d. að hluta til fólgin í því landslagi sem einkennir Vestfirðina og Vestfirðingar kalla heimaslóðir. Í þessu landslagi eru fornleifarnar mikilvægur þáttur með sínum formum og sögnum og þær eru gjarnan úr sömu efnum og landið sjálft. Það er því mikilvægt að standa vörð um fornleifar landsins, vegna þess að þær útskýra að sumu leyti skilgreiningar okkar á sjálfum okkur.
Á bak við allar fornleifar liggur ákveðin hugmyndafræði og segja má að oftast sé það hin ríkjandi hugmyndafræði samfélagsins hverju sinni. Hús átti að byggja á ákveðinn hátt, úr ákveðnum efnum og á ákveðnum stöðum. Þessir þættir stýrðust af hugmyndafræðinni og var ekki sjálfgefið að ætíð hafi verið byggt á sem bestan máta, bestu efnin notuð eða besta staðsetningin valin. Inn í myndina komu hefðir og hugmyndir sem voru afrakstur aldalangrar aðlögunar og reynslu. Reynslan var sótt í umhverfið og hugarfylgsni mannanna svo sem trúarlegar hugmyndir og jafnvel hindurvitni ýmiskonar. Allt þetta er falið í fornleifunum.
Eins er dreifing fornleifa í landslaginu ekki afleiðing tilviljana, heldur lágu þar að baki ákveðnar reglur og venjur samfélagsins. Því eru fornleifar einnig vitnisburður um þessa hluti”.
Ef við tökum sem dæmi fornleifar eins og beitarhús, þar sem kindur voru hafðar yfir veturinn og þeim beitt á landið (kjarrið eða sinuna), þá eru beitarhúsin leifar ákveðinna búskaparhátta sem eru löngu horfnir. Þessum húsum var gjarnan komið fyrir nálægt landamerkjum á milli bæja svo að kindurnar gætu skroppið yfir til nágrannans og náð þar í eina og eina tuggu svona rétt til að létta bónda sínum byrðina. Því eru beitarhús jafnframt nokkurskonar vitnisburður um tilfinningu manna gagnvart lögunum og kannski eilítið gagnvart hvor öðrum. Jófríðarstaðir áttu t.d. beitarhús í Húshöfða við norðanvert Hvaleyrarvatn, mjög fjarri Jófríðarstaðarlandi. Tóftin er enn vel greinanleg sunnan í Höfðanum. Önnur beitarhústóft er í Hólmshrauni austan við Hólmsborgina.
Í Ísafold árið 1883 er fjallað um umhirðu búfjár og þar eru nefndir ´einhölukofar´ en slíkir kofar tóku við af fjárborgunum „ þ.e. mjó hús með einni jötu langsetis öðrum hliðarveggnum.“ Seinna voru svo byggð ´tvístæðuhús´, sem voru með jötum til beggja hliða, og loks ´garðahúsin´ eins og við þekkjum þau. Þetta er ágætt að hafa í huga þegar skoðaðar eru tóftir þó svo að vísast séu fáar svona einhölukofatóftir til því menn hafa líklega notað grjótið í nýrri byggingar. Þessi hús þurfa auðvitað ekki að vera gömul, út af fyrir sig, því fjárhús voru yfirleitt ekki byggð fyrr en á 18. öldinni”.
Hin mörgu hlöðnu fjárskjól á Reykjanesi virðast hafa verið “milligerð”, þ.e. skjól þangað til sérstök hús voru byggð yfir féð. Hlaðið var fyrir skúta eða hraunbólu og þannig myndað betra skjól fyrir veðrum og vindum.
Sjá má dæmi þessa víða á Reykjanesi, bæði í og við selin sem og víðar. Þannig eru hlaðin fjárskjól bæði vestan við Óttarstaði og Lónkot (hafa ekki verið skráð fyrr en nú), ofan við Hvassahraun, í Katlahrauni (skjól frá Vigdísarvöllum (hlaðið um 1910 af fólki frá Vigdísarvöllum) ), í Ögmundarhraunsgígum sunnan Vigdísarvalla, Efri-hellar og Neðri hellar við Gerðisstíg, Kolbeinshæðaskjól, Straumssel Efri-hellar, Straumssels Neðri-hellar, Óttarstaðafjárskjólin (Sigurðarskúti, Sveinsskúti, Norðurskúti, Tóhólaskúti og Rauðhólsskúti) og við Lónakotssel, auk fjárskjóla í Álfakirkju og í Kálfelli.
Fyrsta vinnuregla minjavörslunnar er að allar fornleifar beri að varðveita, enda er það tekið fram í lögum. Ef fornleifar glatast eru þær horfnar að eilífu. Þær er ekki hægt að laga eða endurgera. Þær eru horfnar veruleikanum og þær eru horfnar vísindunum.
Þéttbýlissvæði eru mörg hver að vaxa út um landið og sú þróun mun vonandi halda áfram í náinni framtíð. Margar fornleifar verða á veginum, sumar jafnvel alveg óþekktar í dag. Þó að svæði kunni að vera skráð einu sinni og jafnvel tvisvar, er það aldrei trygging fyrir því að ekkert meira kunni að leynast undir yfirborðinu.
Því er mikilvægt að fara nákvæmlega yfir þau svæði sem raska á til að minnka hættuna á óvæntum uppákomum fornleifa eins og framast er unnt. Slíkar uppákomur eru yfirleitt dýrar og tímafrekar. Það getur verið þarft að minnast þess að oft finnast skemmtilegustu fornleifarnar við óvæntustu aðstæðurnar.
Saga okkar er að hluta til skráð í umhverfi okkar, umhverfi sem við höfum skapað smátt og smátt í aldanna rás. Sjálf skilgreinum við okkur sem einstaklinga í gegnum umhverfið og þjóðin sem slík skilgreinir sig út frá þessu umhverfi og það sem þar kann að leynast. Við berum öll ábyrgð á sögu okkar og menningu og þar eru fornleifarnar engin undantekning. – ÓSÁ