Húshólmi

Þegar einhver er spurður: “Hvað er menning?”, verður viðkomanda annaðhvort svarafátt eða svarið verður svo víðfemt að inniheldið verðu um allt og ekkert.
Mikilvæg menningarverðmæti voru fyrir skammsýni lögð undir hús í miðborg ReykjavíkurMenning hefur stundum verið skilgreind sem “samsafn hegðunarmynstra sem fyrirfinnast í ákveðnum samfélögum, og gildishlaðinna tákna sem gefa hegðuninni ákveðna merkingu eða tilgang. Margar mismunandi skilgreiningar eru til á menningu. Mannfræðingar nota hugtakið til að vísa til þeirrar viðleitni mannsins að skipa lífsreynslu sinni í flokka eða mynstur, og að tjá hana á skipulegan máta. Menning hefur einnig verið skilgreind sem „lífsmynstur heilla samfélaga“. Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, hefur einnig lagt til að menning sé skilgreind sem: „… samsafn þeirra trúarlegu, efnislegu, vitrænu og tilfinningalegu þátta sem einkenna hvert samfélag eða samfélagshóp. Listir og bókmenntir teljast til menningar, en einnig lífsstíll, sambúðarform, mannleg gildi, hefðir og skoðanir.” Í skilgreiningunni liggur að menning grundvallast á orðinu minning.
Stundum er talað um handverksmenningu, þ.e. hvernig verkin voru unnin áður fyrr. Bókmenning lýtur sama lögmálinu. Það er og eðli goðsagna að hugsa til hins forsögulega og leita skýringa á uppruna heimsins og upphafi sögunnar. Allir menningarheimar eiga sér goðsögulegan uppruna og vestræn menning á sinn uppruna ekki síst í hinum auðuga og fjölbreytta goðsagnaheimi Forn-Grikkja.
Stoðhola í tóft í HúshólmaÍslensk sendiráð á erlendri grundu kynna gjarnan Ísland og íslenska menningu sem mikilvægan þátt í starfsemi. Jafnan er boðið upp á spennandi möguleika á því að koma íslenskri menningu á framfæri. Á hverju ári eru íslenskar kvikmyndir teknar til sýningar í Norræna húsinu og einnig er þar góð aðstaða til fyrirlestra og tónleikahalds. Einnig er náið samstarf með öðrum norrænum aðalræðisskrifstofum að sameiginlegum verkefnum á sviði lista- og menningarmála. Sjaldnast er menningin kynnt í formi minja eða áþreifanlegrar arfleifðar, en þess frekar í hlóði (söng og spili) og mynd (kvikmynd). Getur ástæðan verið sú að ímyndunarhönnuðir vilji gefa aðra mynd af “menningunni” en hún raunverulega er? Skammast þjóðin sig fyrir “fátæklegheitin” í samanburði við “íburðinn” erlendis?
Hér heima er málum öðruvísi háttað. Haldnar eru sýningar á bókmenntaarfinum í Þjóðmenningarhúsinu, upphafi landsnáms í kjallara hótels í miðborginni og Þjóðminjasafnið gefur gestum kost á að líta menningarverðmætin augum.
Skoðum dæmi um klysjukenndan áhuga landans út á við: “Íslendingar hafa haldið fram þeirri skoðun að nýta beri í miklu ríkara mæli þann styrk sem Norðurlöndin búa yfir og felst í mannauði, sameiginlegum menningararfi og gildismati, svo og öflugu mennta-, vísinda- og nýsköpunarkerfi. Margt bendir til þess að Norðurlönd hafi hingað til vannýtt þessa auðlind til að hasla sér völl á alþjóðlegum vettvangi.

Fátæklegar selleifar á Reykjanesskaga - fulltrúi verkmenningar í 1000 ár

Íslendingar leggja því áherslu á að nýta sem best innri og ytri styrk Norðurlanda til að efla samkeppnisstöðu á sviði menningar, mennta og vísinda. Lykilorðin eru annars vegar samlegð (synergi) og hins vegar hnattræn útrás. Með öflugra rannsóknarsamstarfi þarf að samþætta og samræma þekkingarauðinn í löndunum, en jafnframt stefna að útbreiðslu norrænna menningar-, mennta- og vísindaafurða.” Hér er öllu grautað saman; menningu, vísindum, útrás og nýsköpun – ágætt dæmi um ómeðvitaða arfleifð.
Menningarmál hafa jafnan verið ofarlega á baugi í byggðum landsins og bera menningarstefnur sveitarfélaga þess glöggt merki. Menningarstefnur eru staðfesting og viðurkenning á mikilvægi og gildi menningarlífs í sérhverju sveitarfélagi og markmið hennar er að skapa sem best skilyrði fyrir varðveislu, ræktun og miðlun sameiginlegs svæðisbundins menningararfs. Ennfremur er það gjarnan markmið að tryggja eftir föngum að “allir geti notið menningarlífs og að búa í haginn fyrir skapandi, lifandi listasemi og stuðla að sem almennastri þátttöku íbúa á því sviði.”
ÞorsteinshellirEn hvað er menning?
“Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs er menning „þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf.“ Íslensk orðsifjabók bætir því við að menning sé „þroski hugar og handa; … það að manna einhvern … þróun, efling, siðmenning“. Orðabók Menningarsjóðs segir líka að menning sé „sameiginlegur arfur (venjulega skapaður af mörgum kynslóðum) … rótgróinn háttur, siður“. Hin Íslenska alfræðiorðabók Arnar og Örlygs segir að menning sé „sú heild þekkingar, siðferðis, trúar og tákna sem er undirstaða mannlegs samfélags“.
Hér má greina að minnsta kosti tvær ólíkar merkingar sem lagðar eru í hugtakið „menningu“ í almennri notkun. Í fyrsta lagi mætti nefna hugmyndina um siðmenningu. Í öðru lagi kæmi svo hugmyndin um menningu sem rótgróinn sið, sameiginlegan arf. Síðari hugmyndin er oft tengd hugtakinu þjóðmenning, að hver þjóð eigi sérstaka menningu, [líkt og sveitarfélög landsins].
Prestsvarðan - er hún einskis virði í menningarsögulegu tilliti?„Menning“ er einnig lykilhugtak ýmissa fræðigreina, ekki síst mannfræðinnar. Í því sem hér fer á eftir er sett fram mjög einfölduð mynd af hefðbundnum hugmyndum mannfræðinnar um menninguna.
Mannfræðin hefur lengi litið svo á að mannkynið sé eitt og það búi yfir sameiginlegum eiginleikum. Við blasir þó að það hefur búið sér mjög fjölbreytilega lifnaðarhætti. Eitt af helstu verkefnum mannfræðinnar að lýsa og skýra þennan fjölbreytileika og það hvernig hann er mögulegur.
Mannfræðingar hafa lengi haft þá skoðun að fjölbreytileikinn byggi ekki á líkamlegum mun manna eins og sjáist af því að fólk fylgi þeim siðum sem það lærir. Barn sem á ættir að rekja til Íslands en er ættleitt og elst upp hjá japönskum foreldrum, lærir japönsku eins og hvert annað barn þar í landi. Klassískar hugmyndir mannfræðinga um menningu ganga út á það að hún sé afl sem mótar einstaklinginn, hugsun hans og hegðun, og að þannig megi líta á að sá fjölbreytileiki í lifnaðarháttum sem mannkyn hefur búið sér sé menningarlegur.
Eru þetta einskisnýtar menningarminjar?Þá hafa mannfræðingar lengi álitið svo að í heiminum séu margar ólíkar menningar, að við getum talað um íslenska menningu, danska menningu og svo framvegis. Þó að hverri menningu megi skipta niður í ákveðna þætti – trúarbrögð, goðsagnir og vígslusiði, svo einhverjir séu nefndir – fléttist þessir þættir í hverju tilviki saman og myndi ákveðna heild. Þannig kennir klassískur skilningur mannfræðinnar að einstakur þáttur tiltekinnar menningar verði ekki skilinn í einangrun heldur verði að skoða hann í samhengi við alla aðra þætti hennar. Samkvæmt þessu er hver menning heildstæð eining.
Ef menningin er heildstæð, er hún líka afmörkuð. Við getum þannig talað um íslenska menningu og enska menningu og dregið skýr mörk milli þeirra. Það fólk sem tilheyrir hverri menningu, tilheyrir henni allt á sama hátt. Íslensk menning er menning íslensku þjóðarinnar en ekki bara einhvers hluta hennar. Hugmyndin er líka sú að menning hafi ákveðinn stöðugleika. Íslensk menning er „íslensk menning“ hvort sem talað er um landnámstímann eða nútímann, og þarna á milli er eitthvert sögulegt samhengi, einhver stöðuguleiki.
Dæmi um afskiptar menningarminjar á ReykjanesskagaÞetta er þá hin klassíska hugmynd mannfræðinnar um menninguna: Hver menning er sjálfstætt kerfi sem endurnýjar sjálft sig. Þessi hugmynd um menningu hefur verið tekin til gagngerrar endurskoðunar undanfarna áratugi. Nú telja flestir að menning sé afsprengi valdatengsla og drottnunar, að menning sé ákveðið form valds og drottnunar, hún sé miðill þar sem vald er bæði skapað og spornað við því.
Sem dæmi um þetta má benda á hvernig vísað var í þætti úr íslenskri menningu og sögu til rökstuðnings fyrir uppsetningu gagnagrunns á heilbrigðissviði: Víkingaarfleiðina og sagnirnar. Einnig má benda á hvernig andstæðingar gagnagrunnins notuðu hliðstæð menningarleg rök gegn gagnagrunninum: Afsal sjálfstæðisins 1262 og „sölu landsins“ 1949. Menning er þess vegna ekki hlutur til fyrir utan og ofan okkur, heldur er hún hluti af hinu daglega lífi, með allri sinni baráttu og striti.”
Í raun, ef vel er að gáð, fela sérhver mannanna verk í sér afurð menningar er krefst ákveðinnar varðveislu og virðingar þeirra er á eftir koma. Hversu vel hún hefur varðveist á ekki að skipta neinu máli.
Þegar menningarsögulegar minjar á Reykjanesskaganum eru skoðaðar, hvort sem um er að ræða á einstaka stað eða sem heild, blasir vanræksla hvarvetna við. Svo er að sjá sem fulltrúar minjavörslunnar hafi MJÖG litlar áhyggjur af þessum fornleifum, enda hafði einn þeirra það á orði í einni kennslustundinni í HÍ að “engar merkilegar fornleifar væri að finna á svæðinu”. Þá var hann að miða við Glaumbæ í Skagafirði, Víðimýri og aðra slíkar er endurreistar hafa verið í “sómasamlegri mynd”. Það segir nokkuð um gildismat viðkomandi. Fátækleg, óhreyfð, en áþreifanleg arfleifð, jafnvel jarðlæg, er auðvitað engu að síður merkileg en uppgerð fornleif. Þessum skilningi “sérfræðinganna” þarf að breyta.  Ef það tekst verður Reykjanesskaginn eitt merkilegasta minjasvæði landsins. Alþingismenn (fjárveitingavaldið) er mjög svo upptekið, líkt og var í lok 19. aldar, að dýrð Íslendingasagnanna og endurreisn þeirra, en huglægni þeirra kemur samt sem áður aldrei til með að geta staðfest eitt eða neitt á vettvangi fornleifanna. Þess vegna eru minjarnar sjálfar svo mikilvægar, þ.e. myndbreyting þess sem var í raun, bæði frá einum tíma til annars svo og raunverulegum aðstæðum fólksins er þar bjó – og dó. Þær, hversu lítilmótlegar sem þær eru, hver og ein, ber að virða til eins langrar framtíðar og mögulegt er.

Heimildir m.a.:
-wikipedia.org
-visindavefur.is

Lokinu hefur enn ekki verið lyft af menningarverðmætum Reykjanesskagans