Færslur

Árið 2018 fór fram fornleifarannsókn vegna framkvæmda við bílaplan við Mosfellskirkju. Í framhaldinu var skrifuð skýrsla; “Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna“. Höfundur var Ragnheiður Traustadóttir.

Saga Mosfells

Mosfell

Í skýrslunni “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ”, sem var gefin út árið 2006 er rakin saga Mosfells og er bæjarstæðið skráð ásamt kirkjunni sem stóð þar. Þessi skýrsla var unnin upp úreldri skráningargögnum. Skipuleg skráning fornleifa í Mosfellsbæ hófst árið 1980 og var það fyrsta skráning sinnar tegundar á Íslandi. Í skýrslunni er að finna góðar lýsingar á fornleifum í sveitarfélaginu en hún er háð þeim takmörkunum að minjar voru ekki allar settar á kort og þær sem hafa ratað inn á vefsjá sveitarfélagsins eru oft ekki nákvæmt staðsettar enda voru mælingartæki á þeim tíma ekki jafn nákvæm og þau eru í dag. Lýsingar úr fornleifaskráningunni á bæjarstæðinu og kirkjunni er að finna í skýrslunni:

Magnús Grímsson segir í athugasemdum við Egilssögu: „Bærinn á Mosfelli stendr á 122 austr-hala hóls þess, sem kirkjan stendr á. Hóll þessi er hæstr að vestan, næst Merkrvallargili, og að sunnan, sem fram veit að Köldukvísl; þar er brekka framan í honum, há og allfögur tilsýndar.

Mosfell

Mosfell – Gamli preststaðurinn á uppgraftarsvæðinu.

Fellsmegin við hól þenna er landslag nokkru lægra. Hæstr er hóllinn þar, sem kirkjan nú stendrá honum, og þar norðan undir er lægðin milli hans og fjallsins mest, þar sem kirkjan stóð áður. Austr af hólnum er jafnaflíðandi, og þar er nú bærinn; ætla eg að hann hafi þar staðið síðanhann var fluttur af Hrísbrú, því engar rústir eru þær þar nærlendis, sem bendi á annað, enda eru og hér öskuhaugar miklir og fornir. Eru þeir hér, eins og á Hrísbrú, beint fram undan bæjardyrum og skammt frá þeim, svo stórir, eins og smáhólar. En að Minna-Mosfell sé laungu síðarbyggt, byggi eg meðal annars á því, að þar eru engir fornir öskuhaugar að sjá. En það bregzt sjaldan að þeir sé til, jafnvel grasi vaxnir hólar, á fornum stórbæjum á Íslandi, og eins við fornarbæjarrústir, optast nær beint framundan bænum. Gæti þeir opt verið til góðs leiðarvísis, ef uppskyldi grafa slíkar rústir, sem á mörgum stöðum væri án efa vel gjörandi. Eitt það, sem eg byggi áætlan mína um það er þegar sagt er, um bæjarflutninginn frá Hrísbrú að Mosfelli …“.

Sigurður Vigfússon segir svo um öskuhauga: „…enn á Mosfelli veit eg að það hefir prófazt viðhúsbyggingar og umrót; þar fannst mikil aska, bæði undir bænum og í kálgörðunum fram undan bænum“.

Mosfell
Í Lýsingu Mosfells- og Gufunessókna segir svo: „Mosfell (Stóra Mosfell) stendr á hæð lítilli, sunnan undir Mosfelli (Mosfellsfjalli), norðanvert í Mosfellsdal“ .

Seinna var bærinn fluttur: „Mosfell, prestssetrið, var sunnan í fellinu, en nú er bærinn fluttur suður yfir Köldukvísl á Víðinn, til að geta hitað húsin með hveravatni frá Norður Reykjum…“.

Mosfell

Bæjarhúsin skv. túnakortinu 1916 sett inn á uppgraftarsvæðið.

Á Túnakorti frá 1916 sést bærinn rétt austan við grafreitinn. Bæjarhúsin samanstanda af íbúðarhúsi úr timbri, eldhúsi úr torfi og skemmu úr torfi með timburþili. Þessi bæjarhús eru nú líklega að einhverju leyti horfin undir núverandi kirkju og kirkjugarð.

Nokkur orð um Mosfellsprestakall: Kirkja var fyrst reist að Hrísbrú þegar kristni var lögtekin á Íslandi. Sú kirkja var seinna flutt að Mosfelli. Getið er kirkna að Varmá, í Þerney, talað var um bænhús að Lágafelli fyrir 1700, kirkja var að Suður-Reykjum og var hún lögð niður 1765. Kirkjan að Varmá er með vissu niðurlögð fyrir 1600 (sbr. síðar). Með konungsbréfi 6/1 1774 var skipað að setja kirkju á Lágafelli og leggja þangað Mosfells- og Gufunessóknir, en það var afturkallað með kgbr. 7/6 1776. Viðey var lögð til Mosfells 1847. Árið 1880 er Brautarholtssókn lögð undir Mosfell. Með landshöfðingjabréfi 21/9 1886 eru Mosfells- og Gufunessóknir sameinaðar og ákveðið að reisa eina kirkju fyrir báðar að Lágafelli. Árið 1901 er Mosfellsprestakall lagt niður og Lágafells- og Viðeyjarsóknir lagðar undir Reykjavík en Brautarholtssókn til Reynivalla. Þetta kom þó aldrei til framkvæmda og 1927 er Mosfellsprestakall tekið upp á ný,óbreytt.

Í Egilssögu er getið um að kirkja sem reist var á Hrísbrú, er kristni var lögtekin, hafi verið flutt að Mosfelli.

Segir dr. Jón Þorkelsson að kirkjuflutningurinn hafi líklega verið á árunum 1130-1160. Segir Sigurður Vigfússon það eftir honum í grein sinni „Rannsókn í Borgarfirði 1884“.

Sama kemur fram í Prestatali og prófasta og er líklega einnig haft eftir Jóni Þorkelssyni. Nokkrar umræður urðu um staðsetningu hinnar fyrstu kirkju og bæjarins að Mosfelli. Vildu sumir meina að bæði kirkja og bær hafi verið flutt fráHrísbrú og að Mosfelli. Jafnframt hafi nafnið flust (þ.e. Hrísbrú hafi upphaflega heitið Mosfell). Helstutalsmenn þessarar kenningar voru Magnús Grímsson og Kålund.

Á annarri skoðun eru t.d. SigurðurVigfússon í grein sem hann birti í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1884-1885 og Sigurður Nordal íútgáfu sinni að Egilssögu 1933, þ. e. að einungis hafi verið að ræða um flutning kirkjunnar.Í Prestatali og prófasta eru taldir upp allir prestar á Mosfelli frá upphafi. Skafti Þórarinsson er fyrsti prestur þar, sem heimildir geta um. Hann var prestur að Mosfelli fyrir 1121 og til um 1143 en þá tekur næsti prestur við og þjónaði hann til um 1180. Kirkju er getið að Mosfelli í kirknaskrá Páls biskups frá um 1200 yfir kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi, sem presta vantaði að.
Af heimildum að dæma leggst kirkjan á Mosfelli niður snemma á miðöldum og er jörðin komin í eigu leikmanna á 15. öld.

Mosfell

Mosfell – framkvæmdarsvæðið.

Næst er kirkja reist að Mosfelli á fyrri hluta 16. aldar, ef marka má heimildir, og er prests getið þar um 1536 .
Er nú kirkja samfellt að Mosfelli fram til ársins 1888 að hún er rifin og ný kirkja reist að Lágafelli.
Kirkja var vígð að Mosfelli 4. apríl 1965 og stendur sú kirkja enn.
Úttekt var gerð á Mosfellskirkju árið 1887 að skipan prófastsins í Görðum og er úttektarskjalið til enn. Segir í því, að kirkjan hafi verið 11 álnir og 11 þumlungar að lengd innan gafla, en það mun vera um 7metrar. Breiddin var 9 álnir og 12 þumlungar, innan veggja, en það er um 5,7 metrar. Kirkjan hefur því verið rétt tæpir 40 fermetrar.

Um staðsetningu kirkjunnar segir Magnús Grímsson: „Kirkjan stendr enn í dag á Mosfelli, en ekki er hún þar nú í sama stað og hún hefir fyrst verið sett á. Kirkjan stendr nú á háum hól fyrir vestan bæinn. Áðr hefir hún staðið norðanvert við hól þenna, eðr í norðrjaðri hans. Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústar innar fornu… Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin… Hafi bærinn á Mosfelli staðið þar, sem nú er hann, sem ekki er ólíklegt, þegar kirkjan var hingað flutt, þá hefir kirkjan verið sett viðlíka lángt frá bænum og öldúngis í sömu átt frá honum, eins og kirkja Gríms áðr á Hrísbrú, og er það ekki með öllu óeptirtektan vert… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkjugarðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir að lángt muni vera síðan… Vera má hið forna kirkju stæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún.“

Um staðsetningu kirkjunnar segir Kålund: „Nu står kirken – som sædvanligt midt i kirkegården – på enhøj, der falder temmelig brat af mod mosen, men tidligare har kirken og kirkegården, af hvilken endnulævninger ses, været lidt nordligere umiddelbart nord for den nuvær ende“.

Mosfell
Í Örnefnalýsingu Mosfells segir: „Stór hóll var þar sem kirkjan var, og heitir hann Kirkjuhóll“.
„Norðanvert við kirkjugarðinn, sem nú er á Mosfelli, sér enn til kirkjugarðsrústarinnar fornu; er hún auðséð að vestan, norðan og austanverðu, en að sunnanverðu hefir garðrinn gengið að eða inn í kirkjugarðinn, sem nú er, og sést því ekki til hans þar; ætla ég, að þessi kirkjugarðr hafi verið ferskeyttr, hérum-bil 18 eðr 20 faðmar á lengd austr og vestr, en 12 eðr 14 faðma breiðr norðr og suðr. Kirkjan sjálf hefir staðið austast í garðinum, og verðr ekkert ráðið í um stærð hennar, því rúst hennar er, eins og garðsins alls, og öllu fremr, gjörfallin og grasi vaxin. Í þessum garði sjást enn glögg merki til leiða, sem snúa í austr og vestr, sumstaðar í skipulegum röðum. Enginn steinn sést hér neinstaðar, nema einn eða tveir hleðslusteinar norðanvert í garðsrústinni. Gata vestr úr túninu á Mosfelli liggr nú sunnan til um garð þenna, norðan undir hinum nýja kirkju garði… Enga veit eg ástæðu til þess, hví kirkjan og kirkju garðurinn hafa hér verið færð úr stað, né heldr nær það hefir verið gjört. En rústin sýnir, að lángt muni vera síðan.Mjög eru og bæði leiði og gröptur forn orðinn í þeim kirkjugarði, sem nú er, og sá garðr mjög útgrafinn; er hann þó allstór (hérumbil 72 faðmar umhverfis í átthyrningsmynd). Vera má hið forna kirkjustæði ekki þótt fagrt, því það liggr heldr lágt, og miklu hrósar kirkjan sér betr uppi á hólnum þar sem nú er hún. Svolítr og út, sem hinn forni kirkjugarður hafi verið mjög útgrafinn orðinn, og má vera, að hann hafi verið fluttr af því, að þar hafi ekki orðið jarðsett lengr“.

Mosfell

Mosfell – fyrirhugað rannsóknarsvæði eftir að hafa verið raskað með stórtækum vinnuvélum.

Magnús ræðir nokkuð hvar bein Egils Skalla-Grímssonar hafi verið lögð niður eftir að þau voru tekin úr haugi hans. Munnmæli um að þau séu í kirkjugarðinum „sem nú er“ telur hann ósennileg. Síðar segir hann: „Þó er ekki svo vel, að munnmæli þessi sé öldúngis viss í, hvar helzt á hólnum leiði Egils muni vera, hvort heldr undir kirkjunni, sem nú er, eðr skammt suðr frá henni. Er þar og ekkert að sjá, sem á þetta bendi með vissu, hvorki í hinum forna kirkjugarði, né hinum nýja; því hin fornu leiði eru hvort öðru lík, en engir eru steinar neinstaðar ofanjarðar, sem neina upplýsing gefi“.

Í Mosfellskirkjugarði eru þrír legsteinar frá 17. öld, legsteinn Jarþrúðar Þórólfsdóttur, dáin 1606 og legsteinn bróður hennar Þorvarðar Þórólfssonar, auk legsteins Arnórs Jónssonar.

Þar er einnig legsteinn Magnúsar Grímssonar, dáinn 1860 (Morgunblaðið, 4. nóvember 1962, einnig er steinsins getið í Innansveitarkroniku Halldórs Laxness). Í sömu grein í Morgunblaðinu, og áðan var vitnað til, er einnig getið um, að á Mosfelli hafi fundist steinkola árið 1962. Ekki er sagt neitt frá kringumstæðum, nema að kolan hafi verið grafin úr jörðu.”

Þess má geta að framangreind framkvæmd, þ.e. að kalla á fornleifafræðinga eftir að fyrirhuguðu rannsóknarsvæði hefur verið raskað með stórtækum vinnuvélum, verður að telja lítt til eftirbreytni.

Heimild:
-Mosfell í Mosfellsdal – Framkvæmdir við bílaplan austan við kirkjuna; Ragnheiður Traustadóttir, 2018.

Mosfell

Egill Skalla-Grímsson

Kristian Kaalund eða Kristian Kålund, fullu nafni Peter Erasmus Kristian Kaalund (19. ágúst 1844 – 4. júlí 1919) var danskur textafræðingur, lengst af bókavörður við Árnasafn (Den Arnamagnæanske Samling) í Kaupmannahöfn.

Kristian kålund

P.E. Kristian Kålund.

Kristian Kaalund fæddist í Søllested á Lálandi. Foreldrar hans voru Caspar Ernst Kaalund (1806–1853), sóknarprestur í Søllested, og kona hans Anna Helene Riedewaldt (1817–1888).
Kaalund var 9 ára þegar hann missti föður sinn. Hann varð stúdent frá Herlúfshólmsskólanum 1863, fór svo í Háskólann í Kaupmannahöfn og tók meistarapróf í norrænni textafræði 1869, með ritgerðinni: „Familielivet paa Island i den første sagaperiode (indtil 1030)“, sem birtist í Árbókum Fornfræðafélagsins 1870. Haustið 1872 fór Kaalund til Íslands og dvaldist þar í tvö ár. Hann ferðaðist um mestan hluta landsins sumrin 1873 og 1874 til þess að kynna sér sögustaði fornritanna. Þessar rannsóknir, sem hann jók síðar með viðbótarefni úr prentuðum og óprentuðum ritum, birtust síðar í tveggja binda riti: Bidrag til en historisk-topografisk beskrivelse af Island, 1877–1882. Það er enn talið undirstöðurit um íslenskar fornleifar og ómissandi handbók fyrir þá sem lesa Íslendingasögurnar, vegna ítarlegra upplýsinga, sem hann fékk m.a. hjá staðkunnugu fólki. Ritið kom út í íslenskri þýðingu 1984–1986, undir heitinu Íslenskir sögustaðir 1–4.

Kjósarsýsla – Egill Skalla-Grímsson

Kålund

Rit Kålunds.

Kjósarsýsla hefur allt annað yfirbragð en Gullbringusýsla, og inn í hana liggur leiðin af Seltjarnarnesi. Þegar komið er yfir Elliðaár, blasir við mikill hluti Mosfellssveitar; eru þar einnig grýtt holt og ógrónir melar, en mestur hluti landsins er þó grösugur, sums staðar þýfðar mýrar eða engjadrög, en bæir með græn tún liggja dreift þar sem hærra er og þurrara, en smáfjöll og hæðir skipta bygðinni í daladrög og smábyggðir. Í fiskibyggðum er algengt, að bæir og hús standi saman í þyrpingum næstum eins og sveitaþorp í Danmörku, en upp til landsins er annar háttur á; aðeins hér og þar má sjá stóran bæ, þar sem landi hefur verið skipt og mynduð svokölluð hverfi eða þorp, heldur liggur hver bær venjulega út af fyrir sig mitt í landareign sinni.

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

En tvímælalaust er Mosfellsdalurinn, sem liggur nyrst, merkilegastur dalur í Mosfellssveit. Hann er þeirra stærstur og einnig merkilegur sögulega, því að þar dvaldist Egill Skalla-Grímsson síðustu æviár sín. Hann nær upp frá Leirvognum frá vestri til austurs. Norðan við hann er Mosfell, aflangt hvelft fjall, liggur í sömu stefnu og dalurinn, og hallast jafnt niður til austurs, nær í fremur lága heiði. Undir eða í suðurbrekku Mosfells eru þrír bæir, Hrísbrú, Mosfell og Minna-Mosfell. –

Mosfell

Mosfell.

Mosfell er myndarlegur bær, prestsetur og kirkjustaður, í miðið, Minna Mosfell. Á Mosfelli bjó að sögn Egils sögu höfðinginn Grímur Svertingsson, kvæntur Þórdísi stjúpdóttur Egils Skalla-Grímssonar og bróðurdóttur. Egill fluttist þangað eftir dauða konu sinnar, varð gamall maður og síðast með öllu blindur.
Sagan segir (297-98), að eitt sinn þegar Grímur var á Alþingi og Þórdís í seli sínu, skipaði Egill kveld eitt tveimur þrælum sínum að fylgja sér til laugar; þeir fengu honum hest. Menn sáu, að Egill tók með sér silfurkistur sínar, sem Aðalsteinn konungur hafði gefið honum, og fór ásamt þrælunum niður túnið og hvarf bak við hæð sem þar er. Næsta morgun sáu menn að Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan túnið (eiginlega; gerðið) og teymdi hestinn. Menn fylgdu honum heim; hann sagði að hann hefði drepið þrælana og falið kisturnar, en meira sagði hann engum. Margar ágiskanir komu síðar fram, segir sagan, hvar Egill hefði falið fé sitt. Austan við túnið á Mosfelli liggur gil mikið niður úr fjallinu; þar hafa fundist enskir peningar, er hljóp úr gilinu eftir mikla leysingu; því giska sumir á þann stað. Fyrir neðan túnið á Mosfelli eru stór og mjög djúp fen, og halda margir, að Egill hafi kastað þar í fé sínu. Sunnan við ána eru “laugar” og skammt frá djúpar jarðholur, og ætla sumir, að þar hafi Egill falið fé sitt, því oft hefur sést þar haugaeldur. Egill lést skömmu síðar og var fluttur niður í Tjaldarnes og orpinn haugur yfir hann. En þegar Grímur á Mosfelli var skírður, lét hann reisa þar kirkju (þ.e. á Mosfelli). Er sagt, að Þórdís hafi þá látið flytja bein Egils til kirkjunnar. Til þess bendir, “að síðan er kirkja var gerð á Mosfelli, en ofan tekin á Hrísbrú sú kirkja, er Grímur hafði gera látið, þá var þar grafinn kirkjugarður”, og þá fundust undir altarinu mjög stór mannabein, sem að sögn gamalla manna voru bein Egils. Bein Egils voru lögð niður í utanverðum kirkjugarðinum á Mosfelli. (Eg.s. 298-99). Meðal þeirra sem voru viðstaddir þegar þetta gerðist nefnir sagan Skafta prest Þórarinsson, en hann er telinn sá sem nefndur er lifandi árið 1143, og hafa menn því ætlað að kirkjan hafi verið flutt um miðja 12. öld.

Samkvæmt Gunnlaugs sögu (61) bjó höfðinginn Önundur nokkru síðar á Mosfelli, sem hafði goðorð “suður um nesin”, sonur hans var Hrafn, er fær að konu Helgu hinnar fögru í fjarveru sambiðils síns, Gunnlaugs ormstungu. Eftir að Gunnlaugur og Hrafn höfðu fellt hvor annan í hólmgöngu í Noregi, ríður Illugi, faðir Gunnlaugs með 30 menn til Mosfells. Önundur og synir hans komust í kirkju, en Illugi náði tveimur frændum hans og lét drepa anna, en fóthöggva hinn (Gunnlaugs saga 105).

Kýrgil

Kýrgil – uppdráttur ÓSÁ.

Sjá má á frásögn Egils sögu, að kirkja sú er Grímur reisti, hefur staðið við Hrísbrú, en hún hefur ekki getað verið sjálfstæð jörð, því sagan segir, að kirkjan hafi verið á Mosfelli, en segir sjálf síðar, að hún hafi verið að Hrísbrú. Í samræmi við þetta er það, að rétt við bæinn Hrísbrú nokkur skref til útnorðurs, er hóll, Kirkjuhóll, þar sem gamla kirkjan á að hafa staðið. En bærinn hlýtur næstum að hafa staðið þar sem kirkjan var upphaflega reist. Svo sem áður hefur verið tekið fram, má það heita föst reglu á íslenskum kirkjustöðum, að kirkjan er upphaflega sett annaðhvort gagnvart eða fast við bæjarhús, fyrirkomulag sem var mjög hagkvæmt, svo sem sjá má af tilvitnunni í Gunnlaugs sögu, að kirkjuna mátti nota sem nokkurn veginn öruggt hæli, ef óvinir sóttu að. Ekkert er það heldur sem mælir á mót, að bærinn á Mosfelli hafi upphaflega staðið þar sem Hrísbrú er nú, og þessi staður hefði vel getað þótt heppilegastur fyrir fyrsta ábúanda; hér er fjallshlíðin hæst og graslendið breiðast þaðan og fram að mýrinni, og miðað við þann mikla búrekstur sem einkenndi höfuðbólin í fornöld er ekkert óeðlilegt að hugsa sér, að túnið hafi náð langt austur á við og jafnvel yfir tún Mosfells og Minna-Mosfells. Bærinn hefur auðvitað ekki breytt um nafn, þó að hann væri fluttur, aftur á móti hlaut bærinn, sem byggður var úr Mosfells landi og reistur var annað hvort samstundis eða síðar á gamla bæjarstæðinu, að fá nýtt nafn, og það kann að hafa legið beint við, þar sem Hrísbrú var, því að bærinn hefur verið nefndur eftir vegi, sem var lagður hrísi, og kann að hafa verið þess ærinn þörf á leið yfir mýrina fyrir neðan bæinn.

Kýrgil

Tóft í Kýrgili.

Gilið sem sagan minnist á, þar sem Egill kynni að hafa falið fé sitt, er vafalaust Kýrgil, sem svo er nefnt; það liggur austan túns á Minna-Mosfelli; þar nær efst ofan úr fjalli niður í rætur og er alldjúpt, og rennur lítill lækur eftir botni þess. Auk þess eru tvö önnur gil, en miklu minni, í fjallinu milli Hrísbrúar og Mosfells.
Margir hafa velt fyrir sér hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og auðvitað er það vafamál. Giskað hefur verið á (Magnús Grímsson prestur á Mosfelli hefur skrifað ritgerð; “Athugasemdir við Egils sögu Skallagrímssonar”, er hún í Safni til sögu Íslands II. Er stuðst við frásögn hans í lýsingunni hér á staðháttum í Mosfellsdalnum), að Egill hafi fyrst farið venjulega leið til laugar og þegar hann á heimleið hafi komið að “jarðholnum” við ána, hafi hann kastað kistunum þar niður og ef til vill múta þrælunum til að þegja og síðan haldið ferð áfram, þar til hann kom að Köldukvísl, en síðan farið upp eftir árbakkanum, milli hennar og mýrarinnar blautu, sem fyrr er nefnd, þar til niðurinn í Kýrgilinu heyrist; þar er um það bil niður af Minna-Mosfelli mikill og djúpur forarpyttur, er nefnist Þrælapyttur, og segja munnmæli, að þar hafi þrælarnir fundist – en ekki er það nefnt í sögunni. Hafi Egill drepið þrælana þarna, hefur hann auðveldlega getað komist þaðan að gilinu – er þá gert ráð fyrir, að vatn hafi verið í því – og síðan upp með því.
Sjá meira um Kýrgil og Þrælapytt HÉR.
Jón Ólafsson frá Grunnavík segir svo frá í stuttri íslenski ritgerð um fornminjar fundnar víðs vegar á Íslandi utan hauga” (Addit, 44 fol.), að Erlendur bróðir hans – sýslumaður í Ísafjarðarsýslu – hefði sagt honum, að um 1725 þegar hann var á unga aldri var í þjónustu skólameistara í Skálholti, hefðu eitt sinn nokkru af földu fé Egils skolað fram í vatnavöxtum; hefðu um 3 peningar fundist, hefði hann séð einn þeirra og hefði hann verið á stærð sem tískildingur (“tískildingr heill vorra tíma”); á honum hefði verið ógreinileg áletrun ef til vill ANSLAFR eða eitthvað þess háttar. Magnús Grímsson greinir frá munnmælum um, að fátækur bóndi eigi að hafa fundið fé Egils í Kýrgili, leynt fundinum, en allt að einu orðið auðugur maður.

Hrísbrúarsel

Hrísbrúarsel ofan við Selás.

Ekki er ljóst, hvar selið hefur verið þar sem Þórdís dvaldist, meðan Egill kom áformi sínu fram. Norðan við Mosfell er dálítið hæðardrag, sem heitir Selás, og telja flestir að þar sé staðurinn. Nú eru selfarir sjaldgæfar á Íslandi, til þeirra þarf mikinn mannafla, en áhöfn sjaldan svo stór, að slíkt borgi sig. Mosfell er þó einn þeirra bæja, þar sem það hefur jafnan verið stundað, en á síðari tímum hefur seljalandið verið í hallanum í Mosfellsheiði niður í Mosfellsdalinn, þar sem heita Gullbringur.

Egill Skalla-Grímsson

Höfuðkúpa Egils Skalla-Grímssonar?

Örnefnið Tjaldanes þekkist nú ekki, en lítill oddi, Víðiroddi (eftir nafni slétturnar Víðir), er þar sem árnar tvær renna saman, um 7-800 faðma suðvestan við Hrísbrú; liggur þarna yfir alfaraleið meðfram Köldukvísl, en einmitt oddinn á á vera áfangastaður sá sem nafnið Tjaldanes bendir á, og orð sögunnar “ofan í Tjaldanes” eiga vel við staðinn; í oddanum er lítil hæð, sem gæti verið leifar af haug. Staðurinn er fallegur, og ef Egill hefur verið jarðsettur þar, hefur sannarlega verið vel valið.”

Í “Skráning fornleifa í Mosfellsbæ” 2006 segir m.a. um Hrísbrú:
“Í Örnefnalýsingu Hrísbrúar getur um stæði kirkjunnar, sem þar var talin hafa verið: „Vestur af bæ er stór hóll, sem heitir Kirkjuhóll. Hann er norðvestur frá bæ; þar stóð kirkjan áður fyrr, og kirkjugarður var hér ofan við tröðina“ (Ari Gíslason). Svo segir Magnús Grímsson: „Þess er þegar getið, að þegar kristni var í lög leidd á Íslandi var Grímr að Mosfelli skírðr, og lét þar kirkju gjöra. En sú kirkja stóð á Hrísbrú. Er eptir því alllíklegt, að bær Gríms, sem þá var hinn eini undir fellinu, hafi staðið þar, sem Hrísbrú er nú, og skal þar um tala síðar betr. Grímr hefir byggt sína kirkju eptir árið 1000, líklega stuttu eptir, en hún stóð á sama stað þángað til í tíð Skapta prests Þór-arinssonar, eðr þángað til um miðja tólftu öld. Þessi Skapti prestr Þórarinsson er að ætlan manna sá, sem talinn er meðal nokkurra presta, kynborinna íslenzkra, er uppi voru árið 1143. Og í formálanum fyrir Egils sögu (Rvík 1856, vi bls.) byggir Jón Þorkelsson á því þá ætlan sína, að kirkjuflutningurinn hafi farið fram einhvern tíma á árunum 1130-1160. Hefir því kirkjan staðið á Hrísbrú hérumbil … 150 ár“ (bls. 255). Talsverðar vangaveltur eru um hvar hinn fyrsti bær að Mosfelli hafi staðið. Kålund álítur að hann hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkjan á eftir (Kålund, bls. 50). Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig en kemst að annarri niður-stöðu en Kålund. Álítur hann frásögn Egils sögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta. Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Álítur Sigurður að kirkjan á Hrísbrú hafi verið flutt að Mosfelli á árabilinu 1130-1160 (Sigurður Vigfússon, bls. 62-74). Í útgáfu sinni að Egils sögu telur Sigurður Nordal líklegast að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum (Egils saga, bls. 298 n.m.).

Hrísbrú

Uppgröftur á Hrísbrú.

Sunnan við Köldukvísl er hluti af stykki því, sem nefnt er Víðir og er í eigu Hrísbrúar. Neðsti oddinn á Víðinum nefnist Tjaldanes en á nesi því var Egill Skalla-Grímsson heygður (Ari Gíslason). Haugurinn liggur fast við ána (Köldukvísl) að sunnanverðu, um 100 m frá oddanum, þar sem Suðurá og Kaldakvísl mætast. Um 50 m neðan (N) þjóðvegarins upp Mosfellsdal. Haugurinn er um 7,70 m langur í vestur og um 5 m í norður. Hann er á árbakkanum og sýnilegt er að áin hefur brotið talsvert af honum. Auðsætt er, að haugurinn hefur einhvern tíma náð talsvert lengra í norður, eða alveg að farveg árinnar nú. Upphafleg stærð hans hefur mjög líklega verið um 7,70 m í norður og vestur, sem jafnframt hefur verið þvermál hans í báðar áttir. Enn sést greinilega að haugur þessi, sem svo er kallaður, hefur verið hringlaga. Sker hann sig vel frá umhverfinu og sést nokkuð langt að, sjái maður oddann á annað borð. Haugurinn er hæstur um miðjuna um 0,5 m, en er aflíðandi í suður. Norðan miðju er hann mikið skemmdur, örugglega af vatnagangi árinnar, sem framhjá rennur. Fáeinar þúfnamyndanir eru utan á haugnum. Til að sjá er haugurinn eins og lág bunga eða upphækkun fremst á bakka Köldukvíslar. Nú er girðing yfir hann endilangan frá austri til vesturs. Land það, sem hann stendur á er nú notað til hestabeitar og er allt afgirt. Haugurinn er líkastur því, sem um náttúrumyndun sé að ræða, en skal þó ekkert fullyrt í þeim efnum. Engar hleðslur eru heldur sjáanlegar þar. Um 14 m sunnan við hauginn eru undirstöður stálgrindahúss eða bragga. Vestan við haug þennan er smáþýfi, um 20-50 m, og eilítið grænna. Líklega er þetta svona frá náttúrunnar hendi, e.t.v. getur lítil tóft eða tóftir leynst þarna þótt ótrúlegt sé (Ágúst Ó. Georgsson). Í Víðisoddanum er sagt að verið hafi áningarstaður ferðamanna fyrr á tímum.”

Heimild:
-Íslenskir Sögustaðir Bidrag til en historisk-topografisk Beskrivelse af Island – 1877), P.E. Kristian Kålund, Sunnlendingafjórðungur I, Bókaútgáfan Örn og Örlygur Hf, 1984, bls. 31-37.
-Skráning fornleifa í Mosfellsbæ, Þjóðminjasafnið 2006.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Mosfell

Í Mosfellingi árið 2006 er fjallað um “Kirkjuna á Hrísbrú”. Ekki er úr vegi, að því tilefni, að fjalla svolítið um einn þekktasta íbúann þar sem og spurninguni hvað varð um silfursjóð hans á gamals aldri.

Kirkjan á Hrísbrú

Hrísbrú

Mosfellsdalur – Hrísbrú fremst.

“Undanfarin ár hefur staðið yfir fornleifauppgröftur að Hrísbrú í Mosfellsdal. Rannsóknin hefur leitt margt merkilegt í ljós m.a. um kirkju á Hrísbrú. Hrísbrú er ein af fimm jörðum í Mosfellsbæ þar sem heimildir eru fyrir að kirkja hafi staðið. Á tveimur jörðum stendur kirkja enn þann dag í dag, á Lágafelli og á Mosfelli. Hinar jarðirnar eru Suður-Reykir og Varmá.
Í Egilssögu segir að kirkja sem reist var á Hrísbrú er kristni var lögtekin hafi verið flutt að Mosfelli.
Í gegnum tíðina hafa verið nokkrar vangaveltur um hvar fyrsti bærinn á Mosfelli stóð. Kristian Kålund segir í verki sínu Bidrag til en historisktopografi sk Beskrivelse af Island, sem gefin var út 1877 að hann álíti að bærinn hafi upphaflega staðið á Hrísbrú ásamt kirkjunni. Síðan hafi bærinn verið fluttur að Mosfelli og kirkja á eftir. Sigurður Vigfússon ræðir þetta mál einnig í Árbók hins íslenska fornleifafélags 1884-1885, en kemst að annarri niðurstöðu en Kålund. Álítur hann, frásögn Egilssögu um kirkju á Hrísbrú, sem seinna var flutt að Mosfelli, rétta.
Um bæjarflutning og þar með nafnbreytingu var ekki að ræða. Í útgáfu sinni að Egils sögu (Rvk. 1933) telur Sigurður Nordal líklegast, að kirkjan hafi fyrst verið byggð fjarri bænum að Mosfelli, en seinna verið flutt að bænum og hjáleigan Hrísbrú byggð á gamla kirkjustaðnum.
Menn hafa leitt að því líkur að kirkja hafi staðið á Hrísbrú í um 150 ár. Hún var reist er kristni var lögtekin, þ.e. í kringum árið 1000.
Hrísbrú
Kirkja var hins vegar risin á Mosfelli í tíð Skapta prests Þórarinssonar sem uppi var um miðja 12. öld og því hafa menn ályktað sem svo að þá hafi verið búið að flytja kirkjuna frá Hrísbrú. Talsvert hefur verið skrifað um staðsetningu hinnar fornu Hrísbrúarkirkju. Um þetta segir Magnús Grímsson í Safni til sögu Íslands og íslenzkra bók mennta að fornu og nýju, sem gefin var út í Kaupmannahöfn og Reykjavík árið 1886: „Það er varla von, að nein viss merki sjáist nú Hrísbrúarkirkju, eptir hérumbil 700 ára tíma. En þó eru þar nokkur vegsummerki enn, sem styðja söguna. Skammt útnorðr frá bænum á Hrísbrú, norðan til við götu þá, er vestr liggur um túnið, er hólvera ein, hvorki há né mikil um sig. Það er nú kallaðr Kirkjuhóll. Stendur nú fjárhús við götuna, landsunnan megin í hóljaðri þessum. Þegar menn athuga hól þenna lítr svo út, sem umhverfis hann að vestan, norðan og austan, sé þúfnakerfi nokkuð, frábrugðið öðrum þúfum þar í nánd. Þetta þúfnakerfi á að vera leifar kirkjugarðsins (því kirkjan á að hafa staðið á hólnum) og er það alllíkt fornum garðarústum. Innan í miðju þúfnakerfi þessu á kirkjan sjálf að hafa staðið, og þar er varla efunarmál, að þar hafi til forna eitthvert hús verið. Eigi er hægt að ætla neitt á um stærð rústar þessarar …
Tveir steinar sáust uppi á hólnum, sokknir í jörð að mestu; voru þeir teknir upp haustið 1857, og líta út fyrir að hafa verið undirstöðusteinar, óvandaðir og óhöggnir, en ekki alllitlir; má vera að þeir hafi verið í kirkjunni. Við upptekníng steina þessara sýndist svo, sem moldin í hólnum væri lausari og mýkri,(?) en í túninu fyrir utan hólinn. Það mun því efalaust, að kirkja Gríms Svertíngssonar hafi hér staðið. Annarsstaðar getr hún varla hafa verið á Hrísbrú, enda bendir og nafnið, Kirkjuhóll, á að svo hafi verið. Hefir þar og verið kirkjustæði allfagrt, en ekki mjög hátt.“
Á árunum upp úr 1980 fór fram fornleifaskráning í Mosfellsbæ á vegum Þjóðminjasafns Íslands. Þar er sagt frá einni sporöskjulaga rúst og tveimur ferhyrningslaga tóftum á Kirkjuhóli. Allar eru tóftirnar þó ógreinilegar. Um það segir skrásetjari: „Almennt má segja um Kirkjuhól, að hann er mjög rústalegur að sjá. Mjög erfitt er samt að koma öllu heim og saman. Er hólkollurinn allþýfður og eflaust má sjá það út úr þessu, sem menn langar helst til.“
Nú er sem sagt fengin niðurstaða í málinu. Þær fornleifarannsóknir sem stundaðar hafa verið á Hrísbrú undir stjórn Jesse Byock á undanförnum árum hafa leitt í ljós að kirkja var reist á Hrísbrú í frumkristni og að hún stóð á Kirkjuhóli.” – Kristinn Magnússon, fornleifafræðingur.

Í Mosfellingi árið 2005 er fjallað um fornleifauppgröftinn að Hrísbrú:
Hrísbrú
“Margir hafa velt vöngum um afdrif beina Egils.
Egilssaga fjallar um þetta og víðar hefur það verið gert. Halldór Laxness stúderaði sögu Mosfellsdals á sínum tíma og færði í frásögn með sínum hætti í Innansveitarkróniku: „Kirkja hafði að öndverðu verið reist undir Mosfelli á þeim stað sem síðar hefur heitið Hrísbrú, og stóð þar uns skriða hljóp á túnið á 12tu öld; var þá flutt á hól einn leingra inn með fjallinu, Mosfellsstað sem nú heitir. Hrísbrú varð leigukot í Mosfellstúni vestan skriðunnar. Þegar kirkjan var flutt fundust, að því er skrifað er, mannabein undir altarisstað í Hrísbrúarkirkju hinni fornu; voru þau miklu meiri en annarra manna bein og fluttu Mosdælir þau til Mosfells ásamt með kirkjunni og þóttust gamlir menn kenna þar bein Egils Skallagrímssonar.“

Eins og flestir vita hefur staðið yfir á Hrísbrú í Mosfellsdal stórmerkur fornleifauppgröftur undanfarin sumur. Uppgreftrinum hefur verið stjórnað af fornleifafræðingnum Jesse Byock. Jesse er prófessor í norrænum fræðum við Kaliforníuháskóla og kom til íslands í fyrsta skipti fyrir um það bil 30 árum. Þess má geta að á síðasta ári veitti Alþingi honum íslenskan ríkisborgararétt.
Mosfellingur náði tali af Jesse á Brúarlandi þar sem fornleifafræðingarnir hafa haft aðsetur undanfarin sumur.

Hvenær hófst þú störf við uppgröftin á Hrísbrú?
Hrísbrú
„Árið 1995 gerði ég forkönnun að Mosfelli og á fleiri stöðum í Dalnum. Það var svo árið 2001 sem starfið hófst að fullum krafti á Hrísbrú með aðkomu og stuðningi Mosfellsbæjar að verkefninu”.
Ert þú ánægður með þann árangur sem hefur náðst fram að þessu?
„Það er óhætt að segja að hann sé framar björtustu vonum. Síðastliðiðið sumar fannst kirkja sem að öllu líkindum er reist skömmu eftir Kristnitöku árið 1000. Um er að ræða stafkirkju, einstaka að því leyti að varðveist hafa betur en áður hefur sést stólpar og grunntré hússins, ásamt hleðslum. Þessi fundur er verulegur hvalreki fyrir byggingarsögu íslands, enda kemur í ljós að frágangur og vinnubrögð við byggingu benda til séríslenskra úrlausna við bygginguna sem ekki þekkjast á Norðurlöndum frá sama tímabili. Það er því Ijóst að fundur stafkirkjunnar er stórmerkur. Þá er ljóst að kirkjan hefur verið staðsett á stað sem fyrir kristnitöku hefur verið notaður við greftranir eða brennu látinna, því þar hefur fundist eina brunagröfin sem fundist hefur á Íslandi. Niðurstöður rannsókna sýna með óyggjandi hætti að maður hefur verið brendur á Hulduhól, skipslöguðum hóli sem liggur skammt frá kirkjugarðinum. Það er ekki ólíklegt að einn af fyrstu höfðingjum Mosfellsbæjar hafi verið brendur þarna.
Í garðinum kringum kirkjuna hefur fundist fjöldi beinagrinda. Frá því uppgröftur hófst höfum við fundið 22 beinagrindur sem m.a. hafa gefið okkur margvíslegar vísbendingar um lifnaðarhætti fólksins, það er t.d. um: næringu, sjúkdóma, ofbeldi og hvar fólkið er fætt, enda beinist rannsóknin ekki síst að lífsskilyrðum og siðum fyrir og eftir Kristnitöku.
Með því að beita hátæknilegum mælingum á ísótópum, sem er ný greiningartækni í fornleifafræði, er hægt að mæla í beinum og tönnum hlutfall næringar á fyrstu æviárum einstaklinga. Niðurstaða hefur leitt í ljós að sjávarnitjar voru greinilega mikil uppistaða í fæðu á þessum tíma í kringum 1000. Við höfum einnig getað rakið sjúkdóma eins og berkla og krabbamein frá þessum tíma og við höfum séð merki mikils ofbeldis. Þar vegur þyngst fundur okkar í fyrrasumar af hauskúpu sem bar greinileg einkenni þess að hafa orðið fyrir þungu höggi eggvopns. Enn fremur hefur verið rannsakað hvort einstaklingar eru fæddir hérlendis eða erlendis. Niðurstaðan er sú að að svo virðist sem að allir þeir sem bera bein sín í kirkjugarðinum á Hrísbrú hafi verið fæddir hérlendis.
Með samvinnu fjölda vísindamanna úr margvíslegum fræðigreinum, svo sem almennri líffræði, frjókornafræði, réttarlæknisfræði, sagnfræði, fornleifafræði, jarð- og landafræði hefur verið leitað eftir upplýsingum svo hægt sé að draga heildarmynd af búsetuskilyrðum frá þessum tíma, en það er meginmarkmið rannsóknarinnar.
Rannsóknir síðastliðinna fimm ára eru líka farnar að skila verulegum árangri, sem styrkir þekkingu manna á smáatriðum og heildarmynd af lífi á íslandi á landnámsöld. í sumum tilfellum er um að ræða þekkingu sem ekki hefur komið fram áður.“

Eigum við eftir að finna silfur Egils?
Hrísbrú„Það er eðlilegt að spurningar sem tengjast Agli Skallagrímssyni og Egilssögu komi upp. Vísindamenn vilja gjarnan víkja sér undan óyggjandi svörum um slíkt, en samsvörun fundar á kirkju og kirkjugarði við stóra kafla í Egilssögu eru sláandi, því er ekki að neita. Nú í sumar var farið undir kirkjugólfið og þar finnst gröf, en kistan hafði verið fjarlægð, enda finnast leifar hennar. Sá sem í gröfinni hefur legið hefur greinilega verið stór og mikill eins og fram kemur í öllum lýsingum, enda gröfin sú stærsta af þeim sem við höfum fundið á Hrísbrú.“

Fundur skálans hefur vafalaust verið skemmtilegur endir á vinnu sumarsins?
„Það var ánægjulegt að finna þetta og án vafa er þessi viðbótarfundur til að styrkja þá skoðun mína að hér sé um einn merkasta fornleifafund seinni tíma að ræða, þegar horft er til þessa tímabils, ekki bara eftir íslenskum mælikvarða heldur einnig þegar horft er til heiminum. Það dæmi ég alla vega af viðbrögðum kollega minna víða úr heiminum. Þetta gerðist þannig að við vorum að fara að ganga frá eftir vinnu sumarsins þegar þessi bygging kom í Ijós. Ljóst er að hún hefur varðveist svo vel vegna skriðunnar sem féll á hana. Það hefur verið ótrúlegt að finna þetta allt og sjá á einum stað og ég tel það einstakt.“

Koma fleiri en fornleifafræðingar að þessum rannsóknum?
„Að þessum rannsóknum hefur hópur vísindamanna komið frá fjölda landa og má til gamans geta þess að nú eru þegar fjórir af þeim að gera doktorsritgerð vegna þessa verkefnis við Háskólann í Kaliforníu. Þessi hópur hefur verið afar samstilltur og frábært að vinna með. Af þessu leiðir að um er að ræða margþættar rannsóknir svo hægt sé að ná þeim árangri að varpa ljósi á líf og lifnaðarhætti á landnámsöld, á mörkum kristni og heiðni og rannsóknin skipar sér þar með í hóp með stærri fornleifauppgröftum.”

Í Ólafíu, riti Fornleifafræðingafélags Íslands árið 2007, er fjallað um “Valdamiðstöðina í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli”:

Niðurstöður:

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.

Landslag frá heiðni til kristni Fornleifarannsóknir í Mosfellsdal hafa leitt í ljós verulegar sannanir á því að umtalsverð byggð hefur verið þar frá landnámsöld fram yfir kristnitöku, og áfram allt fram á 12. öld. Með rannsóknarniðurstöðunum er að myndast vel skrásett mynd af flókinni sambúð og samskiptum heiðinna manna og kristinna á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Á Hrísbrú hafa fornleifafræði og fornar ritheimildir hjálpast að við að sýna fram á mikilvægi staðbundinna minja, sem og rannsóknir á áþreifanlegum minjum í nánum tengslum við ritaðar miðaldaheimildir.
Mikilvægur þáttur í rannsóknunum á Hrísbrú hefur falist í því að skoða og skilja hvernig greftrunarsiðir og trúarbrögð hafa blandast við kristnitöku.

Uppi hafa verið margar tilgátur í víkingaaldarfræðum um hætti, menningarleg gildi og trúarhegðun Norðurlandabúa á þeim tíma þegar skipt var frá heiðnum sið til kristni. Margt bendir til þess að breyting hafi átt sér stað frá heiðni til kristni á sérstökum helgistöðum en lítið er um skýrar fornleifafræðilegar sannanir þessu til staðfestingar. Niðurstöður okkar á Mosfelli gætu skipt máli í tengslum við þessa alþjóðlegu umræðu.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Nálægð heiðinnar líkbrennslu á Hulduhól við kristna kirkju og kirkjugarð á Kirkjuhól sýnir einstaklega heillega mynd af trúarlegum greftrunarstað og veitir okkur tækifæri til að skoða hvernig eitt ákveðið samfélag á víkingaöld kristnaðist. Sú staðreynd að kirkjan á Kirkjuhóli hafi verið byggð svo nálægt hinni heiðnu hæð á Hulduhóli segir okkur margt um félagslega og menningarlega hætti á þessum tíma og það er afar sjaldgæft í dag að finna minjastað með tveimur jafnvel varðveittum grafhaugum. Rannsóknarniðurstöðurnar benda til þess að heiðið og kristið samfélag hafi búið hlið við hlið á tímum kristnitökunnar.
Fornleifarnar á Mosfelli/Hrísbrú eru sérstaklega mikilvægar í sambandi við túlkun á Íslandssögunni vegna þess að fyrir rannsóknina höfðu aðeins verið til ritaðar heimildir um fólkið sem þar bjó.
Grímur Svertingsson er gott dæmi um þetta. Hann bjó þar við kristnitöku og var lögsögumaður á árunum strax eftir hana. Grímur var giftur Þórdísi, dóttur voldugs höfðingja frá Borg í Borgarfirði, og var einn af áhrifamestu mönnum á Íslandi á þeim tíma. Margir sagnfræðingar hafa lengi haldið því fram, og byggt það á rituðum heimildum, að margir voldugir höfðingjar á Íslandi, og þar á meðal Grímur, hafi tekið kristni til þess að halda völdum. Vegna þessa hafi margir höfðingjar reist kirkjur á jörðum sínum um árið 1000 til þess að fá vígða jörð á landareign sinni. En eru einhverjar sannanir fyrir þessu?
HrísbrúNiðurstöður fornleifarannsókna á Hrísbrú benda til þess að á landnámsöld hafi staðurinn verið bústaður höfðingja og staðsetning hans áhrifamikil í samfélagi og menningu íbúa Mosfellsdals.
Egils saga segir frá því að Grímur Svertingsson hafi reist sér eigin kirkju og kirkjugarð að Hrísbrú í kjölfar kristnitökunnar. Áþreifanlegar fornleifar sem fundist hafa í rannsóknunum styðja þetta. Með byggingu kirkjunnar eftir kristnitöku staðfestu Mosfellingar, sú fjölskylda sem mestu réði á þeim tíma í dalnum, eignarhald sitt á landinu, sjálfsmynd sína og stöðu. Steinar og grafir að Hrísbrú sýna fram á miðpunkt í menningarlegu og raunverulegu landslagi á meðan áþreifanlegar minjar úr gröfunum veita okkur upplýsingar um heilsu og lifnaðarhætti, auk þess að staðfesta ofbeldi í samfélagi íbúanna á Mosfelli/Hrísbrú. Þessar áþreifanlegu minjar eru vitnisburður um tilraun voldugrar höfðingjaættar til þess að koma sér vel fyrir í breyttu trúarlegu og félagslegu umhverfi fyrstu tvö hundruð ár landnáms á Íslandi. Rannsóknir okkar benda til þess að landsvæðið hafi verið notað í trúarlegum tilgangi og til greftrunar bæði fyrir og eftir kristnitöku; bæði heiðnir og kristnir hafi viljað hafa forfeður sína nálægt sér.”

Í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 1884 skrifar Sigurður Vigfússon um “Rannsókn í Borgarfirði 1884”. Þar fjallar hann m.a. um Mosfell:

Hrísbrú“Þriðjudaginn, 2. sept., fór eg af stað úr Reykjavík, síðara hluta dags, og upp að Mosfelli, var þar um nóttina. Hér kemr stax til Egils s. Skallagrímssonar, og síðan til landnáms pórðar Skeggja. Þetta þurfti eg að athuga betr. Grímr Svertingsson bjó að Mosfelli víst mestallan siðara hluta 10. aldar, og fram yfir 1000. Hann var ættstór maðr og göfugr og lögsögumaðr um hríð ; hann átti Þórdísi Þórólfsdóttur Skallagrímssonar; þegar Egill seldi af höndum bú að borg, fór hann suðr til Mosfells til pórdisar bróðurdóttur sinnar og var þar i elli sinni og andaðist þar, og hér fal Egill fé og koma hér fram í sögunni ýmsar staðlegar lýsingar.

Hrísbrú

Hrísbrú – fornleifauppgröftur.

Síra Magnús heitinn Grímsson, sem var prestr á Mosfelli, hefir skrifað ritgerð um þetta efni, „Athugasemdir við Egils sögu” í Safni til sögu Íslands, Kaupmh. 1861, II. bl. 251—76. Ritgerð þessi er mikið fróðleg og skemmtilega skrifuð, og vel lýst mörgu landslagi á Mosfelli og þar í kring; þarf eg því ekki svo mjög að tala um það. Síra Magnús heldr, að bœrinn Mosfell hafi í fyrstu staðið þar sem Hrísbrú nú er, sem er lítilfjörlegt kot, skamt fyrir utan túnið á Mosfelli, og að Grímr Svertingsson hafi búið þar; hann ímyndar sér, að bœrinn hafi verið fluttr — líklega einhvern tíma fyrir miðja 12. öld — frá Hrísbrú og þangað sem hann nú stendr, og hafi þá nafnið flutzt á þenna nýja bœ, enn nafnið Hrísbrú verið gefið þeim stað, þar sem hið forna Mosfell stóð; meðal annars um þetta bls. 255 og 260—261. Allar þessar getgátur byggir höfundurinn einkannlega á því, sem stendr í Egils s. Reykjavíkr útg. um flutning á kirkju þeirri, er Grímr Svertingsson lét byggja að Mosfelli, eða sem stóð þar sem síðar hét á Hrísbrú, og flutt var síðar heim að bœnum. Eg get nú ekki vel fallizt á alt þetta.
Mosfell hefir snemma bygzt, sem eðlilegt er, því að uppi í Mosfellsdalnum hefir verið mjög byggilegt. Landn. segir, bls. 53 : „Fiðr enn auðgi Halldórsson, Högnasonar, fór úr Stafangri til Íslands; hann átti Þórvöru dóttur Þorbjarnar frá Mosfelli Hraðasonar; hann nam land” o.s.frv. Það má ætla, að bœrinn Mosfell hafi verið bygðr ekki miklu eftir 1000, þar sem landnámsmaðr átti dóttur Þorbjarnar, sem þar er fyrst getið, enn ekki sést það, hvort hann hefir fyrst bygt þar, svo að Mosfell getr verið enn eldra. Grímr Svertingsson að Mosfelli er oft nefndr, fyrst í Íslendingabók, og oft í Landnámu og Egils s. og ávalt er hann kallaðr „Grímr at Mosfelli”, þegar nefnt er, hvar hann hafi búið; Landn. mundi vissulega geta um það, hefði Mosfellsbœrinn fyrst staðið úti á Hrísbrú og það í hálfa þriðju öld, og síðan verið fluttr þangað, sem hann nú er.

Mosfell

Mosfell – Kýrgil fjær.

Öllum handritum ber saman um, að við þenna kirkjuflutning á Mosfelli hafi verið staddr Skafti prestr Þórarinsson, og öllum ber þeim líka saman um, að kirkjan, sem var ofan tekin, hafi verið sú kirkja, er Grímr Svertingsson lét byggja; þar af er þá ljóst, að kirkja Gríms hefir þá enn staðið, og hefir hún þá orðið um 150 ára gömul. Það má finna mörg dæmi þess, hvað hús stóðu ákaflega lengi bæði í fornöld og á miðöldunum. Þetta er og eðlilegt, þvíað annaðhvort bygðu menn af rekaviði, sem endist svo lengi, eins og kunnugt er, eða menn gátu valið viðinn í Noregi, þ.e. sóttu hann þangað ; þá voru ekki mjög sparaðir skógarnir ; menn bygðu og sterkt, þegar menn vildu vanda eitthvert hús. Það sýna þær leifar, sem bæði eg og aðrir hafa séð, og eins má sýna viðargœðin.

Kýrgil

Tóft ofan við Kýrgil.

Eg hefi verið nokkuð langorðr um þetta efni, því að mér þótti þess þurfa sögunnar vegna, og mætti þó fleira tilfœra; enn eg skal vera því stuttorðari um, hvar Egill hafi fólgið fé sitt, og lofa einum sem öðrum að hafa sínar ímyndanir, getgátur og munnmælasögur. Þær geta verið mikið góðar, þar sem þær eiga heima, enn eg er þeirrar meiningar, að ekki verði á þeim bygt, þegar um rannsókn er að rœða. Höfundar Egils s. vita sjálfir einu sinni ekki, hvar Egill muni hafa fólgið féð, og vóru þeir þó nær því enn vér; enn þess er ekki von, því að Egill sagði það engum manni.
Sá, sem ritað hefir það handrit, sem liggr til grundvallar fyrir Kh.útg.=Rv.útg., getr til á þremr stöðum bls. 228. Eg skal geta þess hér, að hvorki Hrappseyjarútg. né handr. geta neitt um það, þegar Egill ætlaði að sá silfrinu að lögbergi; þau sleppa alveg þeim kafla ; eg verð að taka hér þenna stað einungis til þess að sýna, hvað öllu er hér rétt lýst, og sem sýnir hvað ritari sðgunnar hefir verið kunnugr, bls. 227—8: „Þat var eitt kveld, er menn bjuggust til rekkna at Mosfelli, at Egill kallaði til sín þræla tvá, er Grímr átti. Hann bað þá taka sér hest. „Vil ek fara til laugar, ok skulu þér fara með mér”, segir hann. Ok er Egill var búinn, gekk hann út ok hafði með sér silfrkistur sínar. Hann steig á hest.
Fóru þeir síðan ofan eptir túninu, ok fyrir brekku þá, er þar verðr,er menn sá síðast. En um morguninn, er menn risu upp, þá sjá þeir, at Egill hvarflaði á holtinu fyrir austan garð, ok leiddi eptir sér hestinn. Fara þeir þá til hans og fluttu hann heim. En hvártki komu aptr síðan þrælarnir né kisturnar, ok eru þar margar getur at, hvar Egill hafi fólgið fé sitt.”

Skv. framansögðu hafa margir ætlað, með allskyns margflóknum ályktunum að Egill hafi falið silfur sitt í nágrenninu og drepið þrælana tvo, en fáir virðast hins vegar gera ráð fyrir þeim möguleika, sem eðlilegri má telja; að þrælarnir (yngri og betur á sig komnir) hafi áttað sig á aðstæðum, stolið silfrinu, hrakið gamla manninn frá með svo niðurlægjandi hætti að hann hafi ekki viljað viðurkenna mistök sín, og þeir síðan látið sig hverfa með allt heila klabbið, bæði fjársjóðinn og farskjótana. A.m.k. virðist enginn hafa haft rænu á að leita, hvorki farskjótana þriggja og þrælanna í framhaldinu. Nýlega teknar grafir eða önnur ummerki í og með Mosfelli hefðu án efa vakið alveg sérstaka athygli á þeim tíma – ekki síst í ljósi þessa merka atburðar; (ályktun ritstjóra FERLIRs). Hvers vegna fór ekki fram rannsókn í framhaldinu, eða a.m.k. athugun, á atburðinum. Gallinn við frásagnar”sérfræðinga” seinni tíma er að þeir voru svo meðvirkir sagnaskýringunum fyrrum að þeir sáu ekki til sólar. Meðaumkunin var öll Egils. Hér virðist vera um eitt merkilegasta óleysta sakamál Íslandssögunnar að ræða.

Hrísbrú

Ólafur Magnússon, bóndi á Hrísbrú.

Merkisbóndinn Ólafur Magnússon og Finnbjörg, eiginkona hans, bjuggu á Hrísbrú. Ólafur barðist hatramlega gegn niðurrifi kirkjunnar að Mosfelli, eins og fyrr er getið, en varð að lúta í lægra haldi fyrir yfirvöldum árið 1888. Hann tók gömlu klukkuna úr kirkjunni til varðveislu og var hún geymd á Hrísbrú í meira en mannsaldur eða þangað til henni var komið fyrir í Mosfellskirkju sem vígð var árið 1965.
Eyjólfur Guðmundsson frá Hvoli lýsir Hrísbrúarhjónunum þannig í endurminningum sínum: „Hvergi í Mosfellsdal hafði ég meira gaman af að koma en að Hrísbrú. Hjónin þar hétu Ólafur og Finnbjörg, kona roskin. Fyrst í stað voru þau nokkuð gróf og forneskjuleg, en glöð og gestrisin, þegar marka mátti. Það var ánægjulegt að bíða þar, meðan Finnbjörg hitaði ketilinn, og hlusta á Ólaf gamla. Var þá jafnan tilfyndnast það sem húsmóðirin lagði til málanna. Ekki var orðræðan hefluð né blíð, heldur oft stóryrt og krydduð velvöldum fornyrðum, stundum klúr.”
Ólafur og Finnbjörg voru hluti af aðalsögupersónum í bók Halldórs Laxness, Innansveitarkróniku.
Myndin af Ólafi er líklega tekin í kaupstaðaferð í Reykjavík kringum aldamótin 1900. Ekki er vitað til að mynd hafi varðveist af Finnbjörgu.

Heimild:
-Mosfellingur, Kirkjan á Hrísbrú, 12. tbl. 08.09.2006, Kristinn Magnússon, bls. 10.
-Mosfellingur, 10. tbl. 19.08.2005, Fornleifauppgröfturinn að Hrísbrú, bls. 12-13.
-Ólafía; rit Fornleifafræðingafélags Íslands, 2. árg. 01.05.2007, Valdamiðstöð í Mosfellssdal – Rannsóknir á fornleifum frá tímum víkinga að Hrísbrú að Mosfelli, bls. 84-105.
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 01.01.1884, Rannsókn í Borgarfirði 1884, Sigurður Vigfússon, Mosfell, bls. 62-74.
-http://www.hermos.is/forsida/frettir/frett/2017/09/25/Olafur-Magnusson-1831-1915-fra-Hrisbru/

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur – skáli.