Tag Archive for: Ölfus

Herdísarvíkrugata

Við Herdísarvíkurgötu  á Deildarhálsi, hina fornu leið milli Herdísavíkur vestan Selvogs og Krýsuvíkur, er skilti Náttúruverndarstofnunar og Minjastofunar Íslands. Á skiltinu má lesa eftirfarandi:

Herdísaríkurgata

Herdísarvíkurgata – skilti.

„Herdísarvíkurgata liggur milli bæjanna Herdísarvíkur og Krýsuvíkur. Hún er að einhverju leiti vörðuð og sést á nokkrum stöðum að hún er grafin í hraunið eftir fætur manna og hesta sem notað hafa götun[a] í gegnum tíðina. Leiðin hlykkjast í gegnum hraun og meðfram hlíðum fjalla og á einstaka stað er hún rofin vegna nútíma vegaframkvæmda. Gamlar götur finnast víða og lágu þær á milli bæja, kirkjustaða, verbúða, verslunarstaða eða landshluta.
Mikilvægt er að ganga ofan í förunum til að viðhalda þeim svo ekki grói yfir þau. Þessar götur og vörður eru friðaðar fornleifar.“

Kortið á skiltinu er af Herforingjaráðskortinu frá 1910. Vegur frá Hafnarfirði til Krýsuvíkur var lagður 1937 að Kleifarvatni. Árið 1945 var hann kominn í Krýsuvík og hringtengingu frá Hafnarfirði að Herdísarvík og áfram austur var lokið árið 1949. Árin 1946 og ’47 var síðan lagður akfær vegur milli Ölfus og Grindavíkur. Sá vegur hefur að nokkru leyti legið í farvegi þess vegar er hinn nýi Suðurstandarvegur var opnaður árið 2012.

Herdísarvíkurgata

Herdísarvíkurgata 1910 – Herforingaráðskort.

Hellulofinn

Í Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008 má m.a. lesa eftirfarandi:

Ölkelduháls

Á Ölkelduhálsi.

Í norðvestri liggur Hengilssvæðið nokkuð vestur fyrir Marardal. Þaðan í suður um Bolavelli, vestan Húsmúla. Suður fyrir Húsmúla í átt að Sleggjubeinsdal. Þá suður með Stóra-Reykjafelli að vestanverðu og milli Stakahnjúks og Lakahnjúka.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Áfram í suður um Stóra-Meitil, Eldborg og Litla-Meitil og að norðurhlíðum Krossfjalla. Þaðan til vesturs að Lönguhlíð. Sveigir síðan aftur til norðurs um Sanddalahlíð, Stóra-Sandfell og Lakakróka. Þá til austurs um Hverahlíð í átt að Kambabrún. Frá Kambabrún í suðaustur milli Hveragerðisbæjar og bæjarhúsanna í Vorsabæ. Um land jarðanna Sogns og Gljúfurs að Kaga í Ingólfsfjalli norðaustanverðu. Mörk sveitarfélaganna Ölfus og Grímsnes- og Grafningshrepps liggja um Kaga. Rannsóknarsvæðið fylgir sveitarfélagamörkunum til norðvesturs sunnan Stórahálsfjalls, um Efjumýri, Klóarfjall og á Tröllháls. Þá til vesturs norðan Ölkelduhálshnúks og loks í norðvestur að Hengli og í Marardal.
Svæðið tilheyrir þremur sveitarfélögum, Sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi. Landfræðilega er það tvískipt, Hellisheiðin og fjalllendið norðan og norðvestan við Hveragerði og láglendið þar sem Hveragerðisbær og bújarðirnar austur af Hveragerði liggja. Jörðin Reykir í Hveragerðisbæ er innan svæðisins. Stórir hlutar jarðarinnar Sogns og nyrsti hluti Gljúfurjarðarinnar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru einnig innan svæðisins.

Marardalur (afrétt)

Marardalur

Marardalur.

Marardalur er vestan í Henglinum. Dalurinn hefur einnig verið nefndur Maradalur eða Marárdalur. Talið hefur verið að annað hvort væri nafnið skylt orðinu marflatur, þ.e. flatur eins og sjórinn, eða þá að átt sé við mar = hestur.

Marardalur

Marardalur.

Réttir þessar voru í dal, er Marardalur heitir. Hann er vestan undir Henglinum, þar sem hann er hæstur. Dalur þessi er einkennilegur: hömrum girtur á alla vegu og aðeins eitt einstigi eða öllu heldur þröngt hlið inn í hann, sem fært er stórgripum. Í botni dalsins er slétt harðvellisgrund, algróin fíngerðum vallargróðri, á að giska 5-6 hektarar að stærð. Þarna er því að mestu leyti sjálfgerð girðing. Aðeins hefir þurft að hlaða upp í nokkur smáskörð, til að tryggt væri, að engin skepna slyppi út, sem inn var komin. Víða sér glöggt fyrir þessum hleðslum enn, þó að það hafi aldrei verið mikið mannvirki. Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttarmönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði. Í dalnum hefir ekki verið tiltök að tjalda, þegar þar voru margir tugir nauta eða jafnvel hundruð, þegar flest var. Norðast í dalnum er lækur, ekki alllítill, og rennur hann suður eftir dalnum nokkurn spöl og hverfur svo niður smátt og smátt. Lækur þessi kemur út úr berginu, að mestu leyti í helli nyrst í dalnum austan megin. Í læknum er tært bergvatn, og þrýtur hann aldrei og frýs ekki, því að þetta er kaldavermsl.
Talið er að hætt hafi verið að hafa naut í Marardal laust fyrir 1860. Ásttæður þeirrar ákvörðunar eru ekki þekktar og ekki vitað um annan stað sem tók við af dalnum í þessum tilgangi.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Fornleifarnar sem skráðar voru í Marardal eru þær sem nefndar eru í tilvitnunni hér að ofan, fyrirhleðslur þar sem skepnur gátu komist út úr dalnum og hellisskútar þar sem sjá mátti mannaverk. Í textanum er talað um helli skammt frá götu og fyrir framan hann hlaðinn garð til skjóls. Þessi hellir fannst ekki. Hellirinn er sagður vera austanmegin í Marardal, um 200 m norðan við einu verulega greiðfæru leiðina upp úr dalnum, austanmegin fyrir miðjum dal. Hellirinn fannst þá um 30 m frá merktri gönguleið og um 3 m uppi í hlíðinni.

Hengill

Hengill – Marardalur.

Grasi gróin brekka er upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (vörslugarður)

Marardalur

Marardalur – vörslugarður.

Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.

Marardalur

Marardalur – skjól.

Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (hellir/útilegumannaminjar)

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Neðan við hellinn er aflíðandi móbergsklöpp. Auðvelt er að komast að hellinum. Hellirinn er um 3 m að dýpt, um 2 m á breidd þar sem hann er breiðastur og um 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur. Fyrir honum er hleðsla sem talsvert hefur hrunið úr og liggur grjótið framan við hellinn. Eftir standa einungis tvær steinaraðir.

Innstidalur (hellir/útilegumannaminjar)

Lýður Björnsson segir frá helli í Innstadal í ársriti Útivistar 1986. Segir hann hellsimunnan blasa við ef gengið er yfir Sleggjubeinsskarð frá skálanum innan við Kolviðarhól og í dalinn. Hellirinn er allhátt í klettunum rétt hjá stórum gufuhver. Leifar af hleðslu eru fyrir hellsimunnanum sem þó er nær alveg hruninn. Lýður fann talsvert af beinum undir hellum í hellinum. Hann dregur þá ályktun að líklegast sé um útilegumannahelli að ræða. Því til staðfestingar bendir hann m.a. á að klettarnir neðan hellismunnans séu verulega torfærir og ræður óvönum klettamönnum frá að freista uppgöngu nema þeir séu vel búnir og í fylgd með sæmilegum klifurmönnum.

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939 skrifaði Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum grein um útilegumenn í Henglinum. Frásögnin hefur verið tengd við hellinn í Innstadal. Segir þar frá skipshöfn, 6 eða 7 mönnum, sem dvöldu í hellinum ásamt tveimur huldukonum eftir að hafa framið eitthvert níðingsverk sem ekki er þó vitað hvað var. Stálu þeir sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna sér til matar. Söfnuðu sveitamenn 50 til 60 manna liði og sátu fyrir hellismönnum eitt sinn er þeir komu úr ránsferð. Hellismenn flúðu en voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði.
Í Innstadal er hellir upp í bergi. Mjög bratt er upp í hellinn og illkleift upp í hann. Sögur eru til um að útilegumenn hafi hafst við í hellinum um tíma. Sögur þessar eru frá 18. öld og jafnvel fyrr. Ólafur Briem lýsir hellinum í bók sinni Útilegumenn og auðar tóftir og hefur lýsinguna að hluta eftir frásögn Lýðs Björnssonar á hellinum. Hellirinn er tveggja til þriggja metra djúpur og manngengur að framanverðu. Breiddin er rúmlega tveir metrar. Hleðslur eru fyrir munnann beggja vegna dyra. Þykkar hellur sem kunna að vera úr hleðslunum eru á gólfi og undir þeim hafa fundist bein, mest af stórgripum. Í öðrum dyraveggnum er sögð vera hella sem rís upp á rönd og á henni rista sem líkist galdrastaf. Við vegg hellisins, innan við munnann, er ferstrend hola sem vatn stendur í. Ekki lítur út fyrir að hún hafi verið löguð af mönnum. Engar leifar af eldstæði eða ösku eru í hellinum. Ólafur telur að hellisbúar hafi soðið mat sinn í hvernum neðan við hellinn áður en þeir drógu hann upp til sín. Hellirinn var ekki skráður að þessu sinni.

Draugatjörn (sæluhús)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Sæluhús var á leiðinni milli Ölfuss og Mosfellssveitar við Draugatjörn sunnan Húsmúla.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhústóft.

Varðveitt er heimild um þetta sæluhús frá 1703 í lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum. Þegar líður fram á 19. öldina er sæluhúsið við Draugatjörn orðið hrörlegt auk þess sem reimt þótti í því svo að margir veigruðu sér við að gista þar. Sæluhúsið var flutt upp á Kolviðarhól árið 1844 eða 1845. Á svæðinu eru nú leifar eftir sæluhúsið, rétt og túngarður. Í nágrenninu eru vörður og þar markar einnig fyrir gömlum götum.
Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla… Þarna fundust merkar minjar við fornleifauppgröft 1958, járnvar af reku til að moka snjó, járnfleygur til að gera vök í tjarnarísinn, flatstein til að kveikja á eldspýtu og bóluglas undir brjóstbirtu, varðveitt í Byggðasafninu á Eyrarbakka.
Það mun hafa verið Skúli Helgason sem gróf í rústir sæluhússins árið 1958. Hann greinir frá uppgreftrinum í bók sinni Saga Kolvirðarhóls. Segir þar að haustið 1958 hafi verið grafið í rústirnar og tóftin hreinsuð. Voru þá liðin 114 ár frá því húsið hafiði verið í notkun. Auk þess sem áður er upptalið af því sem fannst við uppgröftin telur Skúli upp tvo bindinga úr blaði reku; járnfleyga ferkantaða, 9 cm langa; hnapp úr látúni, skreyttan fjögra blaða rós og brot úr brúnu leirkeri, með fagurlega gerðum upphleyptum rósum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhús.

Í bókinni Gráskinna hin meiri er frásögn, sem Skúli Skúlason ritstjóri skráði, um draugagang í sæluhúsinu. Segir þar af Grími bónda á Nesjavöllum í Grafningi. Grímurbjó á Nesjavöllum eftir aldamótin 1800. Hann var skytta góð og stundaði rjúpnaveiðar. Fyrir jólin var hann vanur að fara til Reykjavíkur til að selja rjúpur og draga ýmislegt smávegis að heimilinu fyrir hátíðarnar. Fór hann oftast einn í slíkar ferðir og gisti ekki á leiðinni. Í einni slíkri ferð var orðið áliðið þegar Grímur lagði af stað úr Reykjavík. Þegar upp á Hellisheiði kom lenti hann í aftaka veðri og varð því að gista í sæluhúsinu. Honum var þetta þvert um geð því aðbúnaður var slæmur í húsinu og svo var hitt að Grímur var myrkfælinn en reimt þótti í sæluhúsinu. Höfðu þrír menn orðið úti þar skammt frá nokkrum árum áður og sóttu þeir að mönnum sem leituðu þar húsa svo illfært þótti að gista þar nema þá margir saman. Grímur gekk frá hesti sínum og fór inn í húsið. Lokaði hann hurðinni og lagði trédrumb að henni. Hundur hans lagðist fram á lappir sér innan við hurðina. Grímur lagðist síðan í bálka í suðurenda kofans með byssu sína sér við hlið.Um síðir tókst honum að sofna en hrökk svo upp við mannamál sem heyrðist utan úr ofviðrinu. Hélt hann fyrst að þar væru komnir ferðamenn og varð félagsskapnum feginn. En þegar raddirnar færðust nær sæluhúsinu kannaðist Grímur við málróm þeirra. Heyrði hann að þar voru komnir mennirnir, sem höfðu orðið úti. Grímur hafði þekkt þá alla. Grímur þeif til byssu sinnar og tók fingrum um gikkinn. Var þá hurðinni hrundið upp svo að hundurinn sem við hana lá flaug vælandi í vegginn andspænis henni. Grímur sá engan koma inn úr dyrunum en áður en varði fannst honum samt sem fullt væri orðið af fólki í kofanum. Virtist Grími sem fólkið væri komið til að sækja gleðskap því mikið var talað og dátt hlegið. Grímur sá þó engan og fann ekkert.

Draugar

Draugaaugu.

Eftir að hafa starað í myrkrið langa stund sá Grímur tvo lýsandi depla í einu kofahorninu, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt sem mannsaugu sem færðust nær Grími og störðu á hann mjög illkvitnislega. Þegar augun voru komin að bjálkabrúninni hjá Grími hleypti hann af byssu sinn og miðaði á augun. Hvarf þá sýnin og var eins og kofinn tæmdist. Grímur reis á fætur og fór að dyrunum. Hurðin var óbrotin en hundurinn lá steinrotaður inn við vegg. Varð nú allt kyrrt um sinn en ekki gat Grímur sofnað. Eftir alllanga stund heyrði Grímur mannamál í fjarska sem fyrr og sama atburðarás endurtekur sig. Nú var Grími nóg boðið. Eftir að hafa aftur skotið af byssu sinni náði hann til hests síns í flýti og reið á brott. Hann komst við illan leik Tóft sæluhússins er uppá hól. Hún er 7,4 m á lengd og 6 m á breidd, op (dyr) snýr í suðvestur. Tóftin er úr torfi og grjóti og er grasi- og mosavaxin. Nokkuð hefur hrunið úr hleðslum inn í tóftina. Upp við tóftina, norðaustan við hana, er ógreinileg dæld nokkur sem hugsanlega er gerð af manna völdum, og gæti jafnvel verið leifar lítillrar byggingar, geymslu eða eitthvað þess háttar. Um 60 m vestan við sæluhúsið hefur legið vörðuð leið NV-SA og voru mældar upp sex vörður á þessari leið.

Draugatjörn (rétt)

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Um 140 m í NNV frá sæluhúsinu er grjóthlaðin rétt, utan í hraunhól. Mosi og skófir er á steinum í hleðslunum. Réttin er ferhyrnd, 21 m á lengd og 16 m á breidd. Í suðaustur horni réttarinnar er lítið hólf, 7 x 7 m. Op á rétt og hólfi snýr í norðvestur. Um 8 m langur veggur liggur frá NV-horni réttarinnar. Upp á hraunhólnum er grjóthlaðin varða, um 0,7 m á hæð, nokkuð hrunin. Varðan er nokkuð úr hinni vörðuðu leið sem liggur við sæluhúsið og því sú ályktun dregin að hún eigi fremur að leiða menn að réttinni.
Á milli sæluhússins og réttarinnar liggur um 60 m grjóthlaðið garðlag í N-S. Garðlagið er ógreinilegra en réttin en líklegt verður að teljast að þessar minjar tengist á einhvern hátt.
Annar grjóthlaðinn garður, um 430 á lengd liggur vestan og norðan með Draugatjörninni. Þessi garður er öllu greinilegri enda fer hæð hans upp í 1,2 m á hæð á köflum. Réttin og stóri garðurinn virðast yngri en sæluhúsið og því sett hér upp sem önnur minjaheild en auðvitað gætu ábúendur á Kolviðarhóli hafa viðhaldið réttinni og garðlögum í kring eftir að sæluhúsið leið undir lok.

Kolviðarhóll  (býli/sæluhús)

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á 19. öld var gert átak í því að bæta samgöngur á Hellisheiði. Fyrsta skrefið var að flytja sæluhúsið úr Svínahrauni og upp á Kolviðarhól. Er talið að þetta hafi verið gert á árunum 1844-1845. Þessi flutningur var gerður til þess að menn ættu auðveldara með að finna sæluhúsið og þar með fækkaði slysum á mönnum. Spýtur voru nýttar úr gamla kofanum við mismikinn fögnuð manna því sumir trúðu því að þeim fylgdi eitthvað óhreint enda talið mjög reimt í gamla sæluhúsinu. Húsið var timburhús á hlöðnum sökkli. Í því mun hafa verið svefnpláss fyrir 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta sæluhús á Kolviðarhóli var í notkun í um 30 ár.
Árið 1877 hófst bygging á nýju sæluhúsi á Kolviðarhóli. Nokkuð hafði verið kvartað yfir því að eldra húsið væri orðið lélegt. Ferðamenn töluðu um að slæmt væri að vera þar í vondum vetrarveðrum “því hríðargusurnar geyfi inn um gátt og rjáfur.” Hugmyndin með nýja húsinu var einnig að bæta þjónustuna við ferðamenn, þ.e. að reka gistiaðstöðu og greiðasölu og skyldi gestgjafi búa á staðnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Húsið var að mestu fullgert um haustið 1877. Stærð þess var 10×11 álnir að utanmáli. Veggir voru tvíhlaðnir (utan og innan) úr höggnu grjóti, er lagt var í steinlím, sem þá var reyndar kalk. Á því var port um eina alin á hæð og gott ris. Herbergjaskipan var þannig: Fyrst var komið inn í rúmgóða forstofu, og úr henni lá stiginn upp á loftið. Þá voru 2 herbergi og eldhús með eldavél; ofn var í öðru herbergi. Uppi á lofti voru 2 herbergi, annað fyrir ferðamenn, en hitt notað fyrir geymslu. Húsið var að innan klætt timbri í hólf og gólf. Á því voru 6 gluggar, 4 á veggjum og 2 á lofti; voru þeir allir í 6 rúðu fagi. Mjög var til byggingarinnar vandað á allan hátt, eftir því sem föng voru á á þeirri tíð.
Búskapur var tekin upp á Kolviðarhóli jafnframt því sem þar var rekin gistiaðstaða og greiðasala. Skepnum fjölgaði og útihús voru reist. Um árabil var rekið myndarlegt bú á Kolviðarhóli. Jón nokkur Jónsson bjó á Kolviðarhóli á árunum 1883-1895. Hann hóf að rækta tún á Kolviðarhóli og girti með hlöðnum grjótgarði. Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns, tók við búskapnum og bjó á Kolviðarhóli til ársins 1906. Guðni stóð í töluverðum framkvæmdum á staðnum, hann stækkaði og sléttaði túnin og viðhélt túngarðinum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhús 1844.

Með betri vegum og hraðskreiðari farartækjum minnkaði þörfin á slíkri ferðaþjónustu á þessum stað. Veitingarekstur á Kolviðarhóli lognaðist út af fyrir 1950 og árið 1977 lét Reykjavíkurborg jafna húsin á Kolviðarhóli við jörðu. Bæjarstæði Kolviðarhóls stendur norðan Reykjafells, neðan við Hellisskarð. Leifar síðustu húsanna á Kolviðarhóli eru enn sýnilegar, nokkuð sérstakar að gerð en þar ægir ýmsu byggingarefni saman; torfi og grjóti, tilhöggnu hleðslugrjóti og steinsteypu. Veggir minna norðvestur-hólfsins eru steinsteyptir en einnig má finna steinsteypu milli gangsins og miðjuhólfsins í suðaustur-hlutanum. Efri hluti hússins (SA-hlutinn) er 22,5 m x 16 m að stærð og liggur NA-SV. Neðri hlutinn (NV-hlutinn) er um 19 m x 10 m og liggur NV-SA. Að öllum líkindum er sá hluti yngri viðbygging.
Um 4,5 m SA af húsarústunum er að finna leifar ferkantaðar byggingar, um 7 m x 7 m að stærð. Minjarnar eru mjög ógreinilegar en það mótar fyrir hlöðnu, tilhöggnu grjóti. Vegghæð er lítil, einungis um 10 cm. Spurning hvort hér séu ekki leifar sæluhússins frá 1844.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1957.

Fast upp við þessar húsaleifar, suðvestan megin, eru tvær dældir sem hugsanlega eru leifar einhverra mannvirkja sem tengjast húsaleifunum. Þetta eru grunnar, grónar dældir um 10 cm á dýpt. Um 12,5 m SA af húsarústunum er illgreinanleg, gróin tóft, um 4,5 m x 3,5 m að stærð og liggur NV-SA. Þetta hefur verið einhvers konar kofi, kannski geymsla eða eitthvað þess háttar. Vegghæð er lítil, einungis um 20 cm. Um 19 m ANA frá þessari tóft er leifar steinsteyptrar byggingar. Veggir og þak hafa hrunið og því erfitt að gera sér grein fyrir lögun hússins, sérstaklega innra formi. Stærð hússins hefur verið um 6 m x 7 m og liggur NV-SA. Um 50 m suður af megin húsarústum er heimagrafreitur með steinsteyptum garði í kring. Garðurinn er um 5 m x 5 m að stærð og veggir um 30 cm að þykkt. Grafreitur þessi er 20. aldar mannvirki. Grjóthlaðinn túngarður liggur frá NV-hluta húsarústa, niður með götu og myndar þannig heimtröð að hluta. Svo liggur garðurinn utan um túnin. Engan garð var þó hægt að greina norðan megin, þ.e. austan við götuna. Garðurinn er í ágætu ástandi og vegghæð fer upp í 1,2 m á kafla. Þó er greinilegt að farið hefur verið í gegnum garðinn með einhverja lögn á suðaustur hlið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Útihúsin frá Kolviðarhóli liggja um 220 m NA frá bæjarstæðinu, norðan við bílveginn. Nyrðst er garðlag um 23 m á lengd sem liggur A-V. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1,3 m á hæð þar sem hann er hæstur og um 0,7 m á breidd. Mosi og skófir eru á steinum.
Austarlega á garðinum er lítil tóft utan í (norðan við) garðlaginu. Tóftin er um 4,5 m x 4,5 m að stærð, ferhyrnt með op í vestur. Hún er að mestu grjóthlaðin ogmosi og skófir á steinum. Vegghæð er mest um 0,4 m. Beint suður (um 40 m) af þessri tóft er önnur nokkuð stærri. Tóftin er um 14 m x 9,5 m að stærð og liggur NNV-SSA, op snýr í SSA. Hún er að mestu grjóthlaðin en nýlegt hrun má sjá úr veggjum. Um 30 m vestar er tveggja hólfa tóft. Tóftin er að mestu úr torfi og grjóti en nyðra hólfið er með steinsteypta innri veggi. Hún er um 7 m x 5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op snýr í SA.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

Um 16 m sunnar er lítil tóft, um 4 m x 3,5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op í SSV. Tóftin er úr torfi og grjóti með 30 cm breiða steinsteypta innri veggi.
Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell. Norðan í því er Dauðidalur; í honum er fjárrétt. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal. Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kringum hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við dældina og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Búasteinn (sögustaður)

Búasteinn

Búasteinn.

Búasteinn er um 500 m austnorðaustur af bæjarstæði Kolviðarhóls. Hér átti Kolviður frá Elliðavatni að hafa fallið ásamt 11 öðrum fyrir Búa frá Esjubergi. Segir frá þessum atburðum í Kjalnesinga sögu. Hér er um að ræða stóran stein, norðan megin í Hellisskarði, upp í hlíðinni. Engin eiginleg mannvirki er þarna finna með tilvísun í söguna. En um 20 m norðar eru leifar palls sem tengist skíðaiðkun á staðnum á 20. öld.

Hellurnar (sæluhús/vörður)

Hin forni vegur milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá að Kambabrún, austan við Hurðarásinn, sjónhending á skarðið við norðaustur enda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með húsmúla, niður með norðurbrún Svínahrauns, hjá Lyklafelli og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti (Helliskoti) og Vilborgarkoti (nú eyðijörð) í Mosfellssveit.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi. Að þeirri framkvæmd stóð Gísli hreppstjóri Eyjólfsson á Vötnum í Ölvesi, d. 1866. En kofann reisti Þórður Erlendsson, síðast bóndi á Tannastöðum, d. 1872. Bygging þessi var með nokkuð sérstæðum hætti, enda unnin af manni, sem var orðlagður byggingamaður og snillingur í öllum handtökum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Kofinn er að innanverðu niður við gólf ferhyrndur og jafn á allar hliðar, 1,85 m. Á hvern veg og 2 m undir loft, mælt af miðju gólfi. Þegar veggir taka að hækka, hringmyndast hleðslan og gengur að mestu saman í þakinu, en því er lokað með geysistórri hraunhellu. Þakið er mosagróið mjög, og hafa vaxið upp úr því puntustrá á víð og dreif. Dyrnar eru 60 cm. Breiðar og 1 m á hæð. Þröskuldurinn er hár, því upp á hann að innanverðu eru 40 cm. Veggir eru svo þykkir, að kofinn er hringmyndaður séður að utan, og að norðanverðu er hann sem hraunhóll, enda hlaðinn allur úr fallegu hellugrjóti. Engin spýta er í byggingu þessari, og má hún heita einstæð í sinni röð. Kofinn var byggður á áratugnum 1830 -1840 og hefur nú staðið óhaggaður á aðra öld. Hann stendur á bungumyndaðri hraunklöpp, á hægri hönd, örskammt frá hinum forna vegi, þegar farið er suður, við fertugustu og fimmtu vörðu, talið austan að.
Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti þessar minjar.
Gatan er víða sýnileg á heiðinni, bæði norðan núverandi þjóðvegar en einnig sunnan hans þegar austar dregur. Hún þverar þjóðveginn nærri þeim stað þar sem háspennulínur fara yfir hann. Þar sem rásin er greinanleg í klöppinni er hún víðast um 30 – 40 cm breið og 5 – 10 cm djúp. Sumsstaðar má sjá tvær og jafnvel þrjár samsíða rásir í klöppinni. Sunnanvert á miðri heiðinni var á árunum 1830 – 1840 byggður steinhlaðinn kofi til skjóls fyrir þá sem leið áttu um heiðina í vondum veðrum. Kofin fékk nafnið Hellukofinn. Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegur rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Eiríksbrú (vegagerð)

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur).

Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti.

Hellisheiði

Hellisheiðargata.

Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.
Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.
Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879. Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkurm stöðum á heiðinni og í Kömbum.
Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Þjóðleið frá lokum 19. aldar

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Nýr vagnfær vegur var lagður niður Kamba árið 1894 og sama ár hófst lagning vegar fyrir Hellisheiðina. Þeirri vegagerð lauk árið 1895. Komst nú talsverður skriður á vegagerð, einkum á flutningabraut nr. 1, austur í Rangárvallasýslu. Fór og að gæta áhrifa landsverkfræðings, Sigurðar Thoroddsen. Hann hafði, að loknu námi í Kaupmannahöfn 1891, fengið ferðastyrk frá alþingi til þess að fara til Noregs og kynna sér vega- og brúargerðir, og dvaldist hann þar til vors 1893.

Kambar

Gamli Kambavegurinn sem var lagður um 1895-1896.

Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjarfell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu, leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar.
Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð úr að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. Þótti ýmsum sem vegur þessi væri undur mikið. Brautin frá Reykjavík og austur í Svínahraun hafði verið lögð á árunum 1886-1892, og vegurinn um Ölfusið að mestu lagður 1892, sem áður segir. Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir. Árið 1895 var því kominn að kalla óslitinn vagnfær vegur úr Reykjavík austur yfir Ölfusárbrú. Vegurinn er hvergi sýnilegur í upprunalegri mynd enda notaður til 1972 og því marg endurbættur. Leifar vegar í þessari sömu legu má þó sjá, bæði uppi á heiðinni og eins austan við hana. Hlykkjóttar beygjur í Kömbunum sem eiga uppruna sinn í þessum vegi voru færðar inn á loftmynd.

Þrengslavegur

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegur lá frá Neðri Hveradalabrekku suður með Gráuhnúkum að vestan, vestan Meitla og suður að Meitiltagli syðst í Litla-Meitli. Leiðin hefur verið greið og ekki hætt við að menn villtust á henni enda fylgir hún fjallshlíðunum.

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegurinn gamli lá út af þjóðveginum neðan við Neðri-Hveradalabrekku og áfram suður með Gráuhnúkum að vestan. Er Þrengslahnúkur á vinstri hönd, þegar sú leið er farin austur í Ölfus. Skarðið milli Gráuhnúka og Lambafells heitir Þrengsli þar sem þar er þrengst.
Í desember árið 1921 varð Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi úti á þessari leið. Hans var leitað um veturinn og einnig sumarið eftir en fannst ekki. Sextán árum síðar fann Valdimar Jóhannsson líkamsleifar Guðbjarts ásamt smíðatólum hans og peningum við bjarg undir Gráhnúk. Vegurinn er sýnilegur á grónum grundum í nágrenni Þorlákshafnarsels og eins í kverkinni milli Svínahrauns og Gráuhnúka þar sem hann er troðin slóð í mosavöxnu hrauninu. Leiðin var rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni.

Lágaskarðsvegur (Sanddalaleið)

Lakastígur

Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur lá frá Hveradalaflöt um Lágaskarð og Sanddali til Þorlákshafnar og í Selvog. Annað afbrigði þessa vegar lá um Lakadal norðan Stóra-Sandfells. Leiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði allt þar til akvegur var gerður yfir heiðina.
Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágaskarði. Eftir skarðinu liggur Lága-skarðsvegur. Vestan við veginn er Stóri-Meitill, hjá honum er Meitilflöt.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Lágaskarðsvegur liggur austan við Stóradal, um Hellur og Lágaskarð, skarðið milli StóraSandfells og Stóra-Meitils. Það er sennilega sama leiðin sem Hálfdan Jónsson [1703] nefnir Sanddalaveg. Meðfram Lágaskarðsvegi. Þar sem hann liggur norður frá Hellum, er klettabrík eða „gangur“ sem kallast Lákastígur, nýlegt nafn. Svo virðist sem svokölluð Sanddalaleið hafi greinst frá Lágaskarðsvegi suðaustan við Lágaskarð og legið til suðausturs í átt að Hjalla.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd og skoðuð á korti. Hún er merkt inn á loftmyndina í samræmi við legu hennar á korti frá dönsku kortastofnunni sem gert var af dönskum landmælingamönnum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðin var vandlega skoðuð af Birnu Lárusdóttur starfsmanni Fornleifastofnunar Íslands árið 2007 og grein gerð fyrir þeirri athugun í skýrslu um fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana við Litla-Meitil og Gráuhnúka. Í skýrslunni kemur fram að lítið sjáist til götunnar fyrr en norðan Lágaskarðs. Eftir að komið er fram hjá Þrengsla- og Lágaskarðshnúkum fundust merki um tvær leiðir að Lágaskarði. Önnur lá upp að rótum Stóra-Meitils að norðvestanverðu, um djúpan dal sem þar er. Þar vottar fyrir götuslóða og eins er greinilegur troðningur í malarbakka upp úr dal sem Birna telur sennilegast að sé syðsti hluti Stóradals. Hin leiðin lá austar. Slóð sést austan í malarhrygg sem liggur út frá Stóra-Meitli. Þessi slóði liggur beint að slóðinni í Hellunum svonefndu í Lágaskarði.

Lágaskarðsvegur

Lágaskarðsvegur.

Leiðirnar sameinast í Lágaskraði. Þar er leiðin skýr og í skarðinu eru fimm vörður. Norðan við nyrstu vörðuna er rás í klapparhelluna sem bendir til að þarna hafi verið farið um í langan tíma. Slóðin er einföld, 10 – 15 cm breið og mest um 5 cm djúp. Slóðin er ekki samfelld en sést hér og þar á löngum kafla. Þar sem ekki eru rásir er leiðin engu að síður greinileg því þar er enginn mosi né annar gróður sem þó þekur hraunið allt í kring.
Leiðin er gott dæmi um veg sem væntanlega hefur verið notaður í nokkrar aldir. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna. Leiðin er á kafla mótuð í klöpp. Slíkar götur sýna svo ekki verður um villst að um þær hafa hestar og menn farið um aldir og hafa því í mörgum tilfellum meira upplifunargildi en troðningar sem myndast hafa í grónu landi. Mikilvægt er að varðveita þá hluta leiðarinnar sem enn eru sýnilegir.
Leiðin Milli Hrauns og hlíðar lá um Hellisskarð, austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli að sunnanverðu, um Hengladali og áfram austur í Grafning.
Austur frá Hellunum er Orrustuhólshraun og Orrustuhóll. Hraunið er sunnan undir StóraSkarðsmýrarfjalli. Austur með fjallinu er vegurinn milli hrauns og hlíðar. Leiðin virðist hafa verið notuð fram á 20. öld. Vitað er er Hagavíkurmenn í Grafningi létu bílsenda vörur að Kolviðarhóli um 1940 og báru þær þaðan á sjálfum sér milli hrauns og hlíða til Hagavíkur sem mun vera um 17 km leið.

Lágaskarðsvegur

Lágaskarðsvegur.

Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni. Í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands er leiðinni vel lýst. Þar segir að gatan sjáist enn nokkuð víða en yfirleitt ekki nema sem einfaldur stígur, nú kindatroðningur. Gatan virðist víðast hvar horfin undir yngri veg. Hún sést norðan við Skarðsmýri þar sem hún liggur yfir hálsa sem eru samfastir Litla-Skarðsmýrarfjalli. Hún er óglögg í mýrunum norðan Hengladalaár en sést glöggt í Svínahlíð austast í Fremstadal. Þaðn má svo rekja hana næstum alla leið á Brúnkollublett nyrðri.

Vörðuð leið

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, til suðausturs að þeim stað þar sem neyðarskýli stóð áður við þjóðveg 1. Þar kemur leiðin inn á hina fornu leið, Hellurnar, sem gengur yfir heiðina frá vestri til austurs. Vörðurnar, sem liggja með leiðinni, voru hlaðnar árið 1983 af skátum úr Reykjavík. Eftir að þjóðvegurinn var færður norðar á heiðinni um 1970 varð þetta gönguleið þvert yfir heiðina.
Leiðin er slóði sem markast hefur í mosavaxið hraunið undan fótum manna. Vörður eru með um 50 m millibili meðfram leiðinni. Þær eru flestar um 1,5 m í þvermál og um 1-1,5 m á hæð.

Skógarmannavegur (leið)

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910. Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar. Leiðinni var ekki fylgt á vettvangi en lega hennar skoðuð á loftmynd.

Orrustuhóll (rétt)

Orrustuhóll

Orrustuhóll – minjar.

Í bókinni Göngur og réttir er fjallað um réttir við Orustuhól. Þar segir að gömul munnmæli hermi að Mosfellssveitarmenn og Ölfusingar hafi haft sameiginlega rétt á Helluheiði eins og hún er kölluð. Þegar Mosfellingar vildu ekki lengur sækja réttir í land Ölfusinga kviknaði fyrst rígur en síðan fullur fjandskapur milli manna í sveitarfélögunum sem endaði með því að þeir börðust í réttunum. Heitir þar Orustuhóll og Orustuhólshraun frá þessum tímum og voru réttirnar kallaðar Orustuhólsréttir upp frá því. Í bókinni segir jafnframt að rústir réttanna sjáist ekki lengur enda hafi Hengladalaáin gegnum aldir borið sand og möl upp á bakka sína og þannig flýtt fyrir því að leifar af réttum þessum hyrfu í jörðu. Svo er þó að sjá sem réttirnar hafi verið sýnilegar árið 1878. Þórður Sigurðsson, sem ritar um Orustuhólsrétt í Göngur og réttir, segir í frásögn sinni frá því að það ár hafi honum verið sýndar rústir réttanna. Hafi þá séð vel fyrir þeim þó skröð væru komin í vegghleðslur. Bæði mátti greina almenning og dilka, suma allstóra. Almenningsdyr snéru í átt að Hengli.
Suðvestan við Orrustuhól er hraungjá. Þar er ætlað að meint rétt hafi verið. Í gjánni er grjóthrúga, 10,6m x 3,2m, liggur NNV-SSA. Líklega er þetta veggur sá sem talin er hafa myndað aðhald í gjánni en erfitt er, ef ekki ómögulegt, að segja um hvort mannaverk sé þar á, þetta gæti allt eins verið hrun.

Áveita

Áveita

Áveituskurður.

Í örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar fyrir Hellisheiðina segir að um margra ára bil eða áratuga skeið, í kringum aldamótin 1900, hafi Hengladalaá verið veitt vestur í hraun um sláttinn til að koma í veg fyrir heyskaða af völdum flóða úr ánni. Stífla var gerð í ána sunnan við Smjörþýfi og Orustuhólshraun og henni veitt vestur á Hellisheiði. Brú var gerð yfir farveginn sem kölluð var Loft.
Um 480 m austur af Orustuhól eru áveituskurðir sem liggja austur í Hengladalaá. Hér er um 20. aldar mannvirki að ræða. Stóri skurðurinn sem er um 278 m á lengd, 12 m á breidd og 0,5m á dýpt er án vafa vélgrafinn. Einn skurður sem er 82m á lengd og 6m á breidd liggur norður úr þeim stóra. Annar minni skurður, 36m á lengd og 2m á breidd, liggur suður úr þeim stóra. Líklega eru þessi minni skurðir eldri og gætu verið handgrafnir.

Innbruni (byrgi)

Innbruni

Innbruni – byrgi.

Engar heimildir hafa fundist um þessi byrgi.
Milli Litla-Meitils og Sanddalahlíðar liggur hraunbreiða sem nefnist Innbruni. Í hrauninu, nær Sanddalahlíðinni eru tvö byrgi. Syðra byrgið er grjóthlaðið, 3m x 2,7m að stærð og liggur NV-SA með op í NV. Breidd veggja er um 0,8m. Um 38 m NV af fyrrnefndu byrgi er önnur álíka grjóthlaðin tóft. Hún er um 3m x 2,1m, skeifulaga með op í vestur.
Þessi staður verður að teljast undarleg staðsetning fyrir fjárskýli, smalakofa og þess háttar. Ekki er að finna stingandi strá né vatn við þennan stað. Mögulega gæti því veriðum einhvers konar skotbyrgi að ræða fyrir t.d. refaskyttur en nánari heimildir vantar til að skera úr um það.

Litli-Meitli (rétt/aðhald)

Litli-Meitill

Litli-Meitill – aðhald.

Eiríkur Einarsson skrifaði grein í 1. tbl. Farfuglsins árið 1975 sem hann nefndi Örnefni á afrétti Hjallasóknar í Ölfusi. Þar segir hann frá fjárrétt í svoköllðum Kvíum sem notuð var við vorsmalanir. Kvíar eru hvilft í hrauninu austan Meitilflatar sem er stór grasflöt suðaustan undir Syðra-Meitli sem væntanlega er sama fjall og Litli-Meitill.

Eldborgir

Eldborgir – loftmynd.

Þór Vigfússon skrifar um Árnesþing vestanvert í Árbók Ferðafélags Íslands 2003. Þar talar hann um grjóthleðslurnar í Kvíum og að mannvirkið hafi verið notað til rúnings í vorsmalamennsku.
Vestan við hraunbreiðuna Innbruna, og austan við Litla-Meitil er stór náttúruleg skál eða sprunga með grasi grónum botni. Myndar afar hentugt aðhald og hefur verið góður áfangastaður. Suðvestan í sprungunni, utan í klettavegg er lítill, L-laga veggur sem myndar aðhald eða litla rétt. Veggurinn er 4,2m x 6 m með op í suður. Breidd veggja er um 1m. Mannvirkið er ekki fornlegt að sjá og hefur augljóslega verið viðhaldið á síðari tímum. Meira að segja má sjá að sums staðar hefur froðueinangrun verið sprautað á milli steinanna.
Um 82 m SSV er hringlaga eldstæði, úr einfaldri steinaröð sem Fornleifastofnun Íslands hefur skráð sem fornleifar. Hér er dregið í efa að eldstæðið sé það gamalt að það flokkist til fornleifa, enda megi sjá nýlega brenndar spýtur þar.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi.

Sagt er að frá fornu fari hafi jörðin Þorlákshöfn átt selstöðu á jörðinni Breiðabólstað sem á móti hafði skipsuppsátur í Þorlákshöfn í vertíðum. Ekki er ljóst hversu gamalt selið er en minnst er á það í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem tekin var saman í byrjun 18. aldar.

Þorlákshafnarsel

Í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli).

Í Sögu Þorlákshafnar sem kom út 1988 er selinu lýst svo: Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd. Fyrir sunnan aðalhúsið er sérstakt hús, um 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.
Rústirnar voru friðlýstar af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, 21. janúar 1976. Friðlýsingunni var þinglýst 16. júní árið eftir.
Vestan undir Votakletti, austan við akveg, eru friðlýstu fornleifarnar. Syðst er grjóthlaðinn veggur sem liggur utan í móbergskletti (austan í honum). Veggurinn er um 8,5m x 2,9 m að stærð, liggur N-S með op í suður, breidd veggja um 1,5 m. Eflaust er hér um einhvers konar aðhald fyrir skepnur að ræða.
Um 65 m NA af þessu aðhaldi eru megin-seltóftirnar. Þær liggja vestan undir Votakletti.
Um 570 m NNV af seltóftunum, við Hrafnaklett, er lítil steinhleðsla um 1,5 m x 1,4 m að stærð. Líklega er um vörðubrot að ræða, hlaðin úr sandsteini. Smá mosi er á steinum en hleðslan virðist yngri en seltóftirnar.

Ölkelduhálsrétt (rétt)

Ölkelduháls

Ölkelduháls – rétt.

Á skilti sem sett hefur verið upp við réttina eru upplýsingar um hana. Ölkelduhálsrétt var byggð vorið 1908 og var í notkun eitthvað fram yfir 1930. Hún mun hafa verið notuð til vorsmölunar.

Ölkelduháls

Rétt á Ölkelduhálsi.

Þrisvar var smalað í réttina á hverju vori. Fyrst var geldfé smalað, þá var smalað til mörkunar og síðast til rúnings.
Ölkelduhálsrétt liggur vestarlega í lægð á milli Ölkelduhálss og Ölkelduhnúks, svolítið vestar en Ölkelduhnúk sleppir. Um 100 ma austan við réttina er stór leirhver og í honum ljósgrár bullandi leir. Akfær vegur liggur upp í skarðið milli Ölkelduháls og Ölkelduhnúks. Hann sveigir til suðurs þegar niður úr skarðinu kemur. Réttin er um 100 m sunnan og austan við veginn þar sem hann hlykkjast niður hlíðina. Á veginum í hlíðinni er hlið sem myndað er af tveimur járnstólpum. Réttin er um 100 m austur af hliðinu. Réttin stendur á grýttum bala sem hallar til vesturs. Gras og mosi er á milli steina. Hún er 25,8 m x 18,4 m að stærð og liggur NV-SA. Réttin skiptist í þrjú hólf. Eitt hólfanna er lang stærst. Minni hólfin eru byggð utan í stóra hólfið, annað við suðaustur horn stóra hólfsins en hitt norður af stóra hólfinu. Réttin er hlaðin úr grágrýtissteinum sem eru 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslan er að mestu hrunin og víðast standa aðeins 1 – 3 hleðsluraðir. Inni í minni hólfunum er gras og mosi en stóra hólfið er að mestu moldar eða leirflekkur. Veggir aðalhólfisns og austurhólfsins eru 40 – 80 cm háir en veggir norðurhólfsins nokkru lægri eða 10 – 30 cm. Ekki er opið milli hólfanna og engin sýnilegur inngangur er í litlu hólfin. Inngangur hefur verið í norðvestur-hlið stóra hólfsins.

Öxnalækjarsel (sel)

Öxnalækjarsel

Öxnalækjarsel.

Öxnalækjar-Seldalur liggur austan i Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum u-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla. Dalurinn er ofan við veginn á þessum kafla. Dalurinn, eða gilið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 50 m breiður. Neðarlega í honum liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Austur af Þjóðveginum niður Kamba, suðvestan svokallaðra Árhólma eru örnefnin Neðrasnið og Efrasnið. Þar mun hafa legið gata sem tengdist ferðum til Öxnalækjarsels og ferðum að Hengladalaá.

Öxnarlækjarsel

Öxnalækjarsel.

Dalurinn liggur í austur-vestur, tvær tóftir liggja utan í norðurhlíð dalsins og tvær í suðurhlíðinni. Nyrst og vestast er lítil tóft, um 5,3m x 4,7m að stærð, grasi gróin og mosavaxin. Tóftin liggur utan í mosavaxinni hraunbrún sem myndar eitt vegg mannvirkisins. Op í austur. Glittir í hleðslusteina i veggjum. Um 4m austar er önnur tóft, 7,4m x 5,6m að stærð. Hún liggur NA-SV með op á NV-langhlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin. Það glittir í stöku steina í veggjum. Vegghæð er um 50 cm. Um 27 m í NNA, hinum megin í þessum litla dal er þriðja tóftin og sú stærsta. Hún er 9,5 m x 6,5 m að stærð, liggur sem næst A-V, með inngangi á suðurhlið. Greina má þrjú hólf. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin.
Vestan við dalinn má greina götubút, um 58m á lengd sem liggur A-V og hefur vísast legið að selinu. Ekki er ólíklegt að finna megi fleiri vísbendingar um þessa götu.

Lambabyrgi (fjárskjól)

Lambabyrgi

Lambabyrgi.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, “norðaustan við Nikulásar-tóft.” 46 Lambabyrgi er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka.
Tóftin er staðsett um 80 – 100 m suður af malarvegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Hún er rúma 100 m SA við Nikulásartóft. Tóftin er 10 m x 6 m, liggur V-S. Vegghæð er um 1 m og inngangur í A-enda. Nokkrum trjáhríslum hefur verið plantað í mólendið neðan við hraunbrúnina. Hlaðið úr hraungrjóti sem er 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslurnar standa vel.

Nikulásartóft (fjárskjól)

Nikulásartóft

Nikulásartóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt – tóft.

Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.

Hofmannaflöt (fjárskýli)

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Hofmannaflöt slétt flöt sem var slegin en þar voru fjárhús í seinni tíð.
Hofmannaflöt er norðan við Hengladalaá skammt vestur þar af sem Grændalsá rennur í hana. Flötin er nokkuð stór, rennislétt og hallar svolítið til suðurs. Á henni miðri er ferhyrnd grjóthlaðin tóft sem minnir meira á gerði en fjárhús. Tóftin er 10,4 m x 8,8 m að stærð og snýr NA-SV. Ekki er mikið eftir af grjóthleðslunni. Inngangur er austan megin á suðvesturgafli. Í suðurenda tóftarinnar, til hliðar við innganginn er hrúga af steinum og gamall gaddavír.

Stekkatún (fjárskýli)

Stekkatún

Stekkatún – tóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.

Stekkatún

Stekkatún – tóftir.

Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8 m x 5,1 m að stærð og liggur NA-SV. Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin.
Um 2 m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8 m x 6,8 m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu.

Vesturmúli

Vesturmúli – tóft.

Um 28,6 m í NA er fjórða tóftin, 13,6 m x 7,6 m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1 m. Um 10,6 m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4 m x 7,5 m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1 m.

Vesturmúli (fjárskýli)

Engar heimildir hafa fundist um þessar tóftir.
Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna.
Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12 m x 7,4 m að stærð og inngangur í suðurenda.

Reykjafjall (fjárskýli)

Reykjafjall

Reykjafjall – tóftir.

Undir vesturhlíð Reykjafjalls eru nokkrar tóftir útihúsa sem ekki virðast mjög gamlar. Engar beinar heimildir hafa fundist um þessar tóftir en þær tengjast örugglega búskap á svæðinu á 19. og jafnvel 20. öld. Nyrsta tóftin er í grasi gróinni brekku undir hlíðum Reykjafjalls, um 100 m fyrir ofan skólahús garðyrkjuskólans. Kringum tóftina eru timburraftar og bárujárn. Tóftin er 14,3 m x 5 m, liggur SV-NA og er með tvö hólf. Inngangur er á SV-skammhlið en einnig á langhlið. Hún er grasi gróin en hreinsað hefur verið utan af steinhleðslum að innanverðu. Nýleg klömbruhleðsla er í vesturenda tóftarinnar og virðist hún notuð við kennslu eða æfinga í hleðslutækni.

Stórkonugil (fjárskýli)

Stórkonugil

Stórkonugil – tóftir.

Neðst í fjallshlíðinni, við Stórkonugil, sem liggur upp frá húsum Náttúrulækningafélags Íslands eru þrjár tóftir. Syðsta tóftin (nr. 780) er á milli reiðstígs og göngustígs. Tvö afhýsi eða hólf eru byggð utan í þessa tóft. Tóftin er 11,7 m x 10,4 m að stærð og vegghæð um 1,4 m. Sérinngangur eru inn í öll hólfin, sem sagt tveir inngangar að SV og einn á NV-hlið.
Um 40m NV, vestan gilsins, stendur tvíhólfa tóft. Hún er 10,3 m x 7.9 m að stærð og vegghæð um 1 m. Göngustígur liggur við hana að austanverðu. Gengið er inn í bæði hólfin að suðvestanverðu. Syðri langveggurinn á syðra hólfinu er byggður úr tveimur stórum steinum, um 1 m í þvermál. Þriðja tóftin liggur um 10 m norðar og ofar í brekkunni. Hún er 11 m x 6,8 m og liggur NA-SV. Inngangur er á SV-hlið, vegghæð um 1m. Göngustígurinn liggur milli tóftanna. Ofan við þriðju tóftina og til hliðanna vaxa grenitré. Greinar þeirra eru vaxnar yfir veggi tóftarinnar. Allar eru tóftirnar hlaðnar úr grágrýti og grasi vaxnar þó vel sjáist í steinhleðslurnar.

Leið og minjar í kringum Stekkjarhól austan Hveragerðis

Stekkjarhóll

Stekkjarhóll – tóftir.

Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði á Hérðasskjalasafni Árnesinga. Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.

Eystri-Múli

Eystri-Múli – fjárhústóft.

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Leiðin er mælanleg frá veginum að Ölfusborgum, skammt norðan vegamóta hans og þjóðvegar nr. 1. Leiðin er austan við vegin að Ölfusborgum. Hún var mæld frá þessum stað og upp að götunni milli Sogns og Reykja. Nokkur hluti þeirrar leiðar, í átt að Sogni, var einnig mældur inn. Sú leið liggur meðfram nýlegum reiðstíg undir Mið-Múla og Eystri-Múla en hverfur undir reiðstíginn þegar kemur nær Sogni. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili eru þústir sem hugsanleg gætu verið leifar mannvirkja.

Eystri-Múli (fjárskýli)

Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Krossstekkjatún. Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag (nr. 740) gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.
Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3 m x 5,7 m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.

Sogn i Ölfusi (býli)

Sogn

Sogn – fornleifar.

Ekki er vitað hvenær Sogn byggðist en til eru heimildir um jörðin frá 1542. Þann 11. janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að árið 1708 var jarðardýrleiki Sogns tuttugu hundruð. Eigandi jarðarinnar var þá Andrés Finnbogason lögréttumaður en ábúandi Hávarður Þórðarson. Landskuld var 100 álnir og greiddist í gildum landaurum til landsdrottins. Leigukúgildi voru 5 og voru greidd í smjöri til Kröggólfsstaða þar sem eigandi jarðarinnar bjó. Búfénaður var nokkur þar á meðal 7 kýr, 30 ær, 26 sauðir og 28 lömb. Þá átti bóndi 4 hesta og eitt folald.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni.55 Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn.
Samkvæmt örnefnaskrá og Kristjáni Einarssyni starfsmanni á Réttargeðdeildinni á Sogni, sem ólst upp á Gljúfri, eru eftirfarandi minjar að finna á rannsóknarsvæðinu innan landamerkja Sogns: Stóri-Hellir er hellir fyrir ofan Hellisbrekku sem var notaður sem fjárhús og rétt. Gat tekið um 100 kindur í innrekstri. Litli-Hellir var lítill hellir undir stóru bjargi sem notaður var sem fjárhús. Á austurbakka Trippalækjar var kofi sem kallaður var Trippakofi.

Sogn

Sogn – Stóri-Hellir.

Hesthús stóðu á gilbarmi, norðvestur af Hesthúsflöt. Stekkatún er lítill hóll austan við götuna á syðri gilbarminum en þar eiga að vera leifar stekks. Stóri-Einbúi eða Einbúinn er klettahóll í Einbúamýri. Þar var gott skjól fyrir skepnur en þar bjó einnig huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þessi frásögn: Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölfusi upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinnar. Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni.
Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 4 5 m í þvermál.
Um 33 m vestur af bæjarhólnum eru leifar hesthúss, um 5,8 m x 3,9 m að stærð og vegghæð um 1,3 m. Rústin snýr NV-SA með op í SA-horni, á langhlið. Hesthúsið hefur verið byggt inn í gilbarminn vestan við Trippalæk. Tóft þess sést enn. Hún er nokkurn vegin á móts við veg sem liggur niður að læknum frá heimreiðinni að húsi Réttargeðdeildarinnar. Veggirnir eru hlaðnir úr gjóti og má víða sjá steinsteypu á milli steinanna.
Um 68 m NNV af hesthússrústunum er lítil kofatóft, um 3,2 m x 2,5 m að stærð, liggur NV-SA, skeifulaga með op í SA. Líklega er hér um Trippakofann að ræða sem nefndur er í örnefnalýsingunni. Tóftin stendur á smá grasbala í gili sem Trippalækur fellur um. Kofinn stendur alveg við lækinn. Hún er grasi vaxin og lækurinn er farinn að naga svolítið af henni.
Um 95m ofar (NV) í brekkunni er leifar nýlegrar byggingar. Um er að ræða mosavaxna dæld með helðslu í kring úr vikursteini. Rústin er um 10,7 m x 5,3m að stærð og liggur ANA-VSV.

Sogn

Sogn – Litli-Hellir.

73,5 m SV af þessari byggingarrúst og um 95,5 m vestur af Trippakofanum er tóft upp í grasi gróinni brekku, vestan við Trippalæk. Lýsingin passar við ærhúsið. Mosa- og grasivaxin tóft. Greina má stalla meðfram veggjum sem líklega eru garðar. Veggir hafa verið úr torfi og grjóti og greina má vel um sex raðir hleðslusteina í veggjum. Tóftin er 11,2 m x 11,3 m að stærð og liggur NV-SA og vegghæð mest um 1,2 m. Tvö hólf eru á tóftinni með sitthvorum innganginum sem snúa báðir í SA. Ekki fundust leifar lamhúsanna sem getið er um í örnefnalýsingu að hafi átt að vera fyrir neðan þessa tóft.
Litli-Hellir er um 80 sunnan við þessa þyrpingu. Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4 m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli. Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð. Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.
Um 140m SV (í loftlínu), við enda múlans/fjallsins er tóft. Hér er, miðað við lýsingu, um stekk að ræða en gæti allt eins verið um skepnuhús ef horft er á lögun tóftarinnar. Hún er grasi gróin, á litlum hól norðan við lítinn læk. Vegur eða reiðstígur hefur verið lagður utan í hólinn. Tóftin er 11,4m x 10,8m að stærð, tvö hólf og inngangur á NA-hlið. Vegghæð um 1m. Svo virðist sem veðrast hafi af austurenda tóftarinnar.
Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn. Hann er um 70 m x 50 m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið.

Kot í landi Sogns (býli)

Sogn

Sogn – kot.

Bærinn Kot stóð undir fjallshlíðinni um 170 m vestan við bæjarhól Sogns. Þar bjó Eyjólfur Símonarson. Vitað er að bærinn var í byggð árið 1896. Þar má sjá leifar heyhlöðu. Í brekkunni, norðan við Kot stóðu ærhús en neðar, við brekkufótinn, voru lambhús.
Greinilegustu fornleifarnar er lítil tóft, 6,6m x 6,4m að stærð, eitt hólf og inngangur á SA-hlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin en greina má enn hleðslugrjót í veggjum. Vegghæð er mest 0,8 m. Fast upp við tóftina, rétt fyrir ofan hana er ógreinileg, grasi gróin, þúst með smá hvilft í miðju. Hugsanlega náttúrulegt fyrirbæri. Engir steinar greinanlegir. Þústin er um 5,8 m x 5,2 m að stærð. Um 10 m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7 m x 9 m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.

Bakkárholtssel (sel)

Bakkárholtssel

Bakkárholtssel.

Samkvæmt örnefnaskrá fyrir Sogn er selstaða frá Bakkárholti, norðvestan við Sogna, í Seldal. Selstöðu höfðu ábúendur Bakkárholt í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur þessi virðist vera fallin niður í byrjun 18. aldar vegna “vannota” ábúenda Bakkárholts.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að jörðin Sogn eigi engjaítak í Bakkárholtslandi, austan og vestan við gamla farveg árinnar Varmár. Ekki er minnst á selstöðu Bakkarárholts í landi Sogns.
Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina. Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa. Syðri tóftin er 7,2 m x 5 m að stærð, liggur NV-SA, með einu hólfi og inngangi á NV-hlið. Við SA-horn tóftarinnar er lítil þúst, 3,6 m x 2 m að stærð, sem annað hvort er lítið útskot eða hólf.
Um 2-3m NV er önnur tóft. Tengt henni er hólf eða garður sem gengur í boga út frá suðurenda rústarinnar. Við norðurenda rústarinnar er bil milli garðisns og hennar og gæti þar hafa verið inngangur í hólfið. Inngangur hefur verið í rústina sjálfa í norðurendanum.

Sognsel (sel)

Sognsel

Sognsel.

Samkvæmt örnefnaskrá er gróið dalverpi, suðaustur af Selás og suður af ármótum Gljúfurár og Selár. Heitir dalverpið Sognsseldalur vestan Gljúfurár en Gljúfursseldalur að austanverðu. Sogn átti þarna selstöðu en einnig eru frásagnir til af því að heyjað hafi verið þar upp frá.
Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá flöt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin er 8,5 m x 4,1 m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2 m í NV er önnur tóft á litlum grasi vöxnum hól. Hún er 9,2 m x 7,3 m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8 m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6 m x 6 m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.
Milli bæjarins Gljúfar og selsins, nánar til tekið um 600 m SA af selinu, er lítil grjóthlaðin varða upp á móbergshæð. Hún er um 0,8 m á hæð. Greina má mosa og skófir á steinum. Ekki er gott að segja hvort varðan sé í tengslum við ferðir upp í selið en ekki er ólíklegt að hún tengist fremur ferðum ábúenda á Gljúfri upp á afréttinn.

Heimild:
-Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Herdísarvík

Laugardaginn 15. júní 2013, kl 14:00, var afhjúpað minningarskilti um búsetu þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi. Nemendafélagið Grimmhildur, félag HÍ-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hafði með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið.

Einar Ben-229

Einar Benediktsson (1864 – 1940).

Sama dag, skömmu síðar, var og afhjúpað örnefna- og minjaskilti sem gönguhópurinn FERLIR hafði veg og vanda að – án þóknunar. Skiltastandurinn var hannaður hjá Martak í Grindavík að beiðni hópsins og myndflöturinn álprentaður hjá Stapaprenti í Keflavík. Á skiltinu er að finna margvíslegan fróðleik sem FERLIR hefur aflað á löngum tíma um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni, bæði með aðstoð örnefnalýsinga og staðbundnum leiðarlýsingum hinna elstu manna, s.s. Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Þórðar Sveinssonar úr Selvogi, er enn muna þá tíð er búskapur var í Herdísarvík. Auk þess veitti Ingólfur Árnason, barnabarn Hlínar góðar upplýsingar um svæðið.

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Við það opnast nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti.

Hlin johnsson-229

Hlín Johnsson (1876-1965).

Á minningarskiltinu má m.a. lesa eftirfarandi: „Hér stendur síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sómakonunnar Hlínar Johnson. Bæði voru þau sannir heimsborgarar sem fluttu til Herdísarvíkur, í lítið hús við sjóinn í afskektri sveit, þar sem útsærinn er á aðra hönd og klettahamrarnir á hina. Einar ánafnaði Háskóla Íslands jörðina með gjafarbréfi árið 1935.
Einar Benediktsson var fæddur 31. október 1864 að Elliðavatni, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns, og Katrínar Einarsdóttur frá Reynistöðum í Skagafirði. Einar nam við Lærða skólann og las síðan lög við Hafnarháskóla. Hann kvæntist Valgerði Zoëga (1881-1955) og varð þeim sex barna auðið. Þau skildu.
Einn þekktastur varð Einar Benediktsson fyrir skáldskap sinn en hann var einnig kunnur sem stórhuga frumkvöðull og lífskúnstner. Hann starfaði sem lögfræðingur og sýslumaður og var bæði fyrsti dagblaðsútgefandi og fasteignasali á Íslandi. Einar þótti örlátur og gjafmildur gleðinnar maður. Einar Benediktsson hefur verið kallaður „…einhver jötunefldasti andi sem fæðst hefur á Íslandi “ [Guðjón Friðriksson, 2000]. Síðustu átta árin dvaldi hann í Herdísarvík ásamt Hlín. Hér lést hann 12. janúar árið 1940.

Sandhaugar

Sandhaugar.

Hlín Johnson (f. 16.11.1876, d. 15.10.1965) fæddist að Sandhaugum í Bárðardal. Hún giftist Ingólfi Jónssyni frá Jarlsstöðum í sömu sveit og varð þeim átta barna auðið. Þau skildu. Hlín þótti listagóð saumakona, sem saumaði bæði kven- og  karlmannsföt. Þau Einar og Hlín kynntust árið 1927 og fluttu til Herdísarvíkur í júlí 1932 og tók Hlín við bústjórninni. Hér í Herdísarvík var búskapur með kýr, sauðfé, hænsni og endur. Fiskur var veiddur úr tjörninni og seldur til erlendra sjómanna, ásamt lagnaðarís úr tjörninni sem geymdur var í sérstöku íshúsi [nú horfið] hér á staðnum. Lambakjöt og bleikja var reykt í reykofni og var frægt að gæðum, ekki síður en göróttur landinn sem Hlín bruggaði.

Halldór Laxness

Halldór Laxness (1902 – 1998).

Halldór Laxness lýsti Hlín með þessum orðum: „…lík fornkonu, þolir ekki annað lögmál en sjálfrar sín, og þess vegna fer strandleingjan og fjallið og einveran og úthafið henni best“ [Björn Th. Björnsson]. Hlín bjó í Herdísarvík allt fram um 1960.
Höfundarverk Einars er æði mikið. Eftir hann liggja meðal annarra verka: Sögur og kvæði, Hafblik, Hrannir, Vogar og Hvammar, ásamt þýðingum, ritgerðum og fleiru. Margir íslenskir málshættir eiga rætur sínar í ljóðum Einars“.
Athöfnin var öllum opin. Erindi fluttu m.a. Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Komst þeim báðum vel að orði, bæði til minningar um Einar og Hlín sem og tengsl þeirra við Herdísarvíkina á síðustu æviárum skáldsins. Lét Illugi þau orð falla í kjölfar tölu sinnar „að hann væri enn ekki búinn að venjast því að tala sem ráðherra“, en að teknu tilliti til tölunnar lærist honum það vonandi aldrei – því talan var bæði einstaklega einlæg og efnisrík.

 

Hlin - herdisarvik

Afkomendur Hlínar í Herdísarvík.

Jafnframt var á þessum degi afhjúpað örnefnaskilti í Herdísarvík.
Jóhann Davíðsson hélt „velkomst“ við sögu- og minjaskiltið og bauð síðan Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu að afhjúpa það. Að orðum hennar loknum var eins og við manninn mælt; tók þá svo til samstundis sólin að skína með tilheyrandi yl og hlýju.
Jóhann þakkaði sérstaklega Ómari Smára Ármannssyni fyrir hans framlag við gerð uppdráttarins. Sjá upptökuna HÉR.

Herdísarvík

Jóhann við athöfnina.

Í lok formlegrar afhjúpunar leiddi FERLIR stutta göngu um svæðið. Að henni lokinni var boðið upp á kaffihressing í húsi skáldsins og Hlínar.

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson, rólegur stjórnandi athafnarinnar, við athöfnina.

Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn vfljað vera þar lengur.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs við Herdísarvík.

Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, sem fyrr er getið, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – skilti nemendafélags Grimmhildar.

Raufarhólshellir
Ætlunin var að fara inn í Raufarhólshelli í Þrengslum, en alls mun hellirinn vera um 1360 metrar að lengd, en meginlínan er um 900 m og dýptin um 32 m. Sú saga hefur fylgt Raufarhólshelli að í honum hafi verið komið krukku með jarðneskum leifum síðustu manna úr útdauðum indíánaþjóðflokki við Magellansund.
RaufarhólshellirOpið inn í hellinn er bæði aðgengilegt og stórt. Eftir að inn er komið má sjá hvar loftið hefur fallið á nokkrum stöðum á leiðinni inn. Þetta er einn fjölfarnasti hraunhellir á Íslandi. Auk þess er hann lengstur hraunhellanna utan Hallmundarhrauns. Hellirinn sveigir undir þjóðveginn til suðvesturs og upp í rennslisstefnuna. Þar sem vegurinn liggur yfir Raufarhólshelli er hætta á ferðum. Þakið yfir hellinum, sem í upphafi var um 10 m á þykkt, er nú aðeins um 3-4 metrar. Búið er að hreinsa úr hellinum allar fagrar hraunmyndanir, dropsteina og hraunstrá og nú má sjá þar leifar af kyndlum, kertavax, filmuhylki, niðursuðudósir, plastpokar og fleira er nútímafólk gæti hugsanlega haft gaman að því að skoða við aðstæður, sem þarna eru.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Innst í hellinum er fallegur hraunfoss, eða hann hefur a.m.k. einhvern tímann verið fallegur. Fyrir ofan fossinn má komast inn lítil þröng göng og skríða nokkra metra áfram inn í skemmtilega kúlu þar sem nokkrir menn komast fyrir. Gamlar sagnir greina frá dropsteinum í hellinum. Margir þeirra voru um hálfur meter á hæð. Enginn dropsteinn er nú eftir í Raufarhólshelli og lýsir það vel umgegni um hella, sem aðgengilegir eru hverjum og einum.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Raufarhólshellir er mjög hruninn og því erfiður yfirferðar nema innst þar sem lítið hefur hrunið úr hellisloftinu. Ís er einnig fremst í hellinum og því oft hált á grjótinu og erfitt að komast þar um. Þá er ekki síst nauðsynlegt að hafa góða fyrirhyggju á bæði ljósabúnaði, sem nota á, og þeim er hægt er grípa til ef hann bregst því myrkrið er mikið um langan veg.Þessi ferð var hins vegar farin til að kanna hvort framangreind sögn gæti átt við rök að styðjast. Sagan segir að þegar Magellan sigldi um heimsins höf og í hringferð um jarðskorpuna, hafi hann komið sem nú er Magellansund. Þá bjó þar þjóðflokkur indíána er var að deyja út. Sótt geisaði og voru einungis þrír af ættflokknum eftir. Var svo um mælt og handsalað að jarðneskar leifar índíánanna yrðu settar í krukku að þeim brenndum og henni komið fyrir á friðsælasta stað, sem til væri á jörðinni. Indíánarnir dóu og staðið var við samningana.

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Ösku þeirra var komið fyrir í krukku og einhverjir tóku að sér að efna loforðið og fylgja efndunum eftir. Þeir tóku sig upp og fóru með krukkuna til friðsællar eyju í norðurhöfum. Þar var krukkunni komið fyrir í stórum og löngum helli eftir hátíðlega athöfn. Áletrun var skilin eftir því til vitnis. Nafni eyjarinnar var haldið leyndri af skiljanlegum ástæðum.
Þegar komið er u.þ.b. 300 metra inn í Raufarhólshelli er skilti á veggnum. Erfitt er að koma auga á það á bak við stóran stein eftir bugðu á göngunum. Á þessu skilti er sagt frá atvikinu…. Krukkan stendur þar hjá ef vel er að gáð. Þetta er eina indíánaathöfnin af þessum toga hér á landi sem vitað er um.

Heimild m.a.:
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson 1990.

Raufarhólshellir

Raufarhólshellir.

Nesviti

Við veitingaaðstöðuna að Götu í Selvogi er skilti er ber yfirskriftina „Vitaleiðin„. Á því má lesa eftirfarandi:

Þorlákshafnarviti (Hafnarnesviti)

Þorlákshafnarviti (Hafnarnesviti).

„Göngu- og hjólaleið ásamt akstursleið; þrír vitar, fjölbreytileg sjávarsíða, þrjú þorp – ýmiskonar afþreying, saga, matur og gisting.
Vitaleiðin er um 45 km leið sem nær frá Selvogi í vestri að Knarrarósvita við Stokkseyri í austri. Nafngiftin er dregin af vitunum sem marka leiðina þ.e. Selvogsvita, Hafnarnesvita [Þorlákshafnarvita] og Knarrarnesvita.
Vitaleiðin býður upp á þá skemmtilegu fjölbreytni að ferðalangar geta ekið hana, gengið meðfram strandlengjunni eða jafnvel hjólað. Á Vitaleiðinni heimsækir þú þrjú þorp við sjávarsíðuna, Þorlákshöfn, Eyrarbakka og Stokkseyri, sem hvert hefur sína sérstöðu og sögu. Vitaleiðim býður upp á fjölbreytta ferðamöguleika sem hægt er að njóta á einum eða fleiri dögum.“

Vitaleiðin - skilti

Vitaleiðin – skilti.

Gígahnúkur

Neðan við Gígahnúk á Hellisheiði er umferðarmerki á staur, „Þjónustumerki fyrir upplýsingar og áhugaverða staði„.

Hellisheiði

Hellisheiði – virkjunarsvæði.

Frá merkinu liggur brattur göngustígur upp á svonefndan Gígahnúk. Þegar upp er komið blasa við tvö skilti. Milli skiltanna er steyptur stöðull fyrir GPS-mælistöð.
Þegar skiltin efst á Gígahnúk eru skoðuð kemur í ljós að bæði hafa þau að geyma sömu upplýsingarnar. Það vestara er öllu greinilegra; tvö kort af Hellisheiðarvirkjunarsvæðinu, annað með örnefnum og borholum og leiðslum. Gangan upp á Gígahnúk er ekki fyrirhafnarinnar virði.
Merkilegra er þó að berja augum allt jarðraskið á og umhverfis hnúkinn að vestanverðu. Þarna hefur verið efnistaka, en frágangurinn getur ekki talist til fyrirmyndar.

Gígahnúkur

Gígahnúkur – skilti.

Hveradalir

Um tíma, á árunum 1927 til 1934, komu Anders Christian Carl Julius Höyer og kona hans, Eriku Höyer, sér fyrir í nýbýli við hverasvæðið í Hveradölum undir vestanverðri Hellisheiði og ræktuðu þar m.a. blóm og aðrar jurtir. Nánast engar leifar eru eftir af býlinu og athafnasvæði þeirra hjóna. Skíðaskálinn í dalnum var síðar byggður þar skammt vestar.

Höyer

Höyershjónin í Hveradölum. Erika Höyer (1900-1982) var húsfreyja í Hveradölum og síðar við Gunnuhver á Reykjanesi. Hún var gift Anders Christian Carl Julius Høyer (1885-1959) og vann ásamt manni sínum að garðyrkju og blómarækt í Hveradölum og síðan að því að herða hveraleir við jarðhita. Endurminningar hennar hafa komið út á íslensku og dönsku.
Erika fæddist í Kúrlandi. Hún flutti á fermingaraldri til Rússlands og að loknu fyrra stríði til Þýskalands. Síðan bjó hún mörg ár sem einyrki á heiðum Íslands. Í seinna stríði urðu Erika og maður hennar innlyksa í Danmörku. Árni Óla þýddi endurminningar hennar á íslensku og komu þær út árið 1942 undir nafninu Anna Iwanowna.

Í Degi árið 1955 mátti lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ræktaði blóm í Hveradölum – Landnám í Hveradölum og Reykjanesi„:
„Þau byggðu sér bæ við heitar laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bilfarm af fallegum blómum op þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar.“

Í Reykvíkingi árið 1928 segir um „Gróðrastöðina í Hveradölum„:
„Þeir, sem farið hafa um Hellisheiði síðastliðið ár, munu flestir hafa tekið eftir nýbýlinu á heiðinni.
Sú var tíðin að engin bygð var á Hellisheiði, frá því er farið var frá Lækjarbotnum og þar til komið var austur yfir fjall.
Má nærri geta að gangandi mönnum á vetrardag hefur þótt leiðin löng þá. Svo var bygt að Kolviðarhóli, með styrk af opinberu fé. En nú er Kolviðarhóll að verða að sumardvalastað Reykvíkinga, og sennilega verður bráðum reist þar hótel, og allir hafa fyrir löngu gleymt að Kolviðarhóll sé nýbýli.
En svo er þetta nýja nýbýli. Það er í Hveradölum.
Það er Dani einn, Höyer að nafni, er dvalið hefur hér nokkur ár, sem reist hefur þar býli, og mun hann hafa fengið landið að erfðafestu hjá landsstjórninni.
Flutti hann þangað 21. ágúst í fyrra, og hafa þau búið um tvö ein, hann, og kona hans, sem er rússnesk.

Höyer

Höyer undir húsvegg í Hveradölum.

Nýlega var Höyer í kaupstað. Sagði hann að þeim hefði liðið vel þarna í vetur. Hann hefur reist býlið þarna til þess að nota jarðhitann og er búinn að koma sér upp 22 vermireitum. Sagðist hann hafa sáð kartöflum 15. apríl í vor, og að fyrstu hreðkurnar væru að verða fullproska hjá sér.
Hveradalir eru í 300 metra hæð yfir sjávarflöt, og spyr Reykvíkvíkingur Höyer, hvort garðaávextir hans muni ekki, svona hátt yfir sjó, vaxa þeim mun hægar, eftir að hann er búinn að planta peim undir bert loft, sem þeir uxu hraðar meðan þeir voru í vermireitum hans. En hann er ekki hræddur um það. Í haust ætlar hann að byggja gróðrarhús en það er sama — þar sem hverahiti er — og að breyta jafnstóru svæði af landinu í hitabelti, þar sem rækta má suðræn aldini allan ársins hring.

Hveradalir

Hveradalir – bær Höyershjóna.

Gróðrarmoldin er ágæt þarna í Hveradölum, segir Höyer, og það er hægt að nota hveravatnið til annars en að hita vermireiti — það er ágætt í kaffi.
Vonandi verður fólkið í Gróðrarstöðinni í Hveradölum heppið í sumar með garðaávexti sína, því allir nýbýlingar og landnemar þurfa að hafa hepnina með sér.“

Í Litla-Bergþóri árið 2012 er m.a. fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans„:
„Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk.

Höyer

Anders C. Höyer (1885-1959).

En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Hótel ÍslandEftir að Höyershjónin hurfu úr Hveradölum kom Sveinn Steindórsson frá Hveragerði þar upp baðhúsi, eða árið 1938, sem hann rak um skamman tíma, uns hann lést sex árum síðar þegar Hótel Ísland brann til kaldra kola, sbr: „Aðfararnótt 3. febrúar 1944 kom upp eldur í geymslulofti hótelsins sem breiddist hratt út. Hótelið brann til kaldra kola á tveimur tímum og lést ungur maður í brunanum, Sveinn Steindórsson úr Hveragerði“.

Sjá meira um Höyer HÉR.

Heimildir:
-Dagur, 14. tbl. 16.03.1955, Ræktaði blóm í Hveradölum, bls. 5.
-Reykvíkingur, 4. tb. 06.06.1928, Gróðrastöðin í Hveradölum, bls. 127-128.
-Litli-Bergþór, 2. tbl. 01.12.2012, Hveradala Höyer og kona hans, bls. 20-21.
-https://afangar.com/byggdasaga/hotel-island/

Hveradalir

Hveradalir – Bæjarstæði Höyershjóna.

Grímslækur

FERLIRsfélagar ákváðu einn góðan sumardagsmorgun að leita að og skoða Borgarhólsborgina á Efri-Grímslæk í Ölfusi, tvíræðan Hjallhólinn þar neðan við og örnefnið Krossmóa á millum bæjarins og Ytri-Grímslækjar. Þá var ætlunin að skoða Þúfustekk í Krögghólsstaðartorfunni suðaustan Krögghólsstaðarstekks (-borgar) sem og að lokum Breiðabólstaðaborgina.

Ölfus

Aðalskráning fornleifa í Ölfusi I – 2015; forsíða.

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrslu I“ frá árinu 2015 má m.a. lesa eftirfarandi um Efri-Grímslæk:
„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið.
1917: Tún 3.5 ha, 3/4 slétt. Garðar 1002 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Um Hjallhól segir; „þjóðsaga/hjallur

Hjallhóll

Hjallhóll.

„Í Miðtúni efst, uppi við veginn út að Hrauni, er allstór hóll sem heitir Hjallshóll eða Hjallhóll að sögn heimamanna, en Guðjón á Ytri-Grímslæk kallar hann Hjallhól. Á hólnum er hjallsrúst. Þar var leikvangur barna í eina tíð. Í Hjallshól bjó huldufólk áður,“ segir í örnefnalýsingu. Hjallhóll er 150 m norðvestan við bæ. Hjallhóll er fast austan við malarveg að Ytri-Grímslæk og Hrauni. Við norðausturhorn hólsins er braggi. Grasivaxin tún eru til allra átta nema vesturs, þar er malarvegur. Hólar eru víða í túninu.

Hjallhóll

Hjallhóll.

Hjallhóll er gróinn hraunhóll, 31×25 m í þvermál, 34 m á hæð og snýr austur-vestur. Lítill hellir er norðaustan til í hólnum. Hjallurinn er horfinn en hann var úr timbri að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns. Garðlag liggur þvert yfir vesturhluta hólsins og annað hleðslubrot eftir suðurhliðinni. Samtals afmarka þau svæði sem er 20×10 m að stærð og snýr norður-suður. Garðlag liggur norður-suður yfir vesturhluta hólsins. Það er 20 m á lengd, 0,2 m á hæð og grjóthlaðið. Það má greina 1 umfar af grjóthleðslu í garðlaginu en líklega var það hlaðið undir vírgirðingu. Garðlag B er 5 m austan við garðlag A.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárhústóft.

Suðaustan við Hjallhól er fjárhústóft, tæpa 140 m norðvestan við bæ 20 m suðaustan við Hjallhól. „Hún er rétt utan heimatúnsins eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1920. Tóftin er líklega ekki forn en höfð hér með vegna forns byggingarlags. Miðað við stærð og gerð tóftarinnar er hér um fjárhús að ræða. Timbri og fleira rusli hefur verið safnað suðaustan við tóftina.
Fjárhúsin eru innan grasivaxins túns með grónum hraunhólum og klettum víða.
Tóftin er ofan á grónum hraunhól en klettar eru norðan og sunnan í hólnum. Fjárhúsin eru 7×6 m að stærð, einföld og snúa norðvestur-suðaustur. Timburdyr eru suðaustan í tóftinni og standa þær enn. Þakið er fallið inn í tóftina og rusl þar yfir í norðurhluta. Veggirnir eru hlaðnir, 1-1,3 m á hæð. Ekki sést glitta í skýr umför heldur glittir víða í grjót. Ofan á veggjunum er bárujárn, fiskinet, plast og timbur.“

Grímslækur

Borgarhólsborg.

Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: „Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjárborgin telst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.“

Grímslækur

Grímslækur – tóftir Ytri-Grímslækjar.

Ekkert íbúðarhús er að Ytri-Grímsstöðum, einungis tóftir þess og útihúsa. Tekið var hús á ábúanda Efri-Grímslækjar, Gunnari Gunnarssyni, syni Gunnars Konráðssonar og barnabarni Konráðs Einarssonar, fyrrum bónda á sameiginlegri jörðinni. Gunnar tók mjög vinsamlega á móti aðkomandi. Eftir stutt spjall benti hann þeim á Borgarhólinn, skammt ofan við gatnamótin að bænum, áberandi hóll með hárri fuglaþúfu. Sagði hann Hjallhól vera neðan vegar, enda mætti enn sjá leifar hjallsins á hólnum.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Þegar nánar var að gáð kom í ljós að fornleifaskráendur höfðu skráð og merkt Hjallhól sem Borgarhól, lýst honum sem slíkum en bæði lýst hjallhólsminjunum og fjárborgarminjunum á sama staðnum. Þarna hafði greinilega eitthvað misfarist í úrvinnsluskrifmeðförum.

Í fornleifaskráningunni er „Borgarhóli“ lýst með eftirfarandi hætti: „Borgarhóll/tóft/hjallur: „Ofan vegarins út að Hrauni, vestan við heimvegarhliðið, er allstór hóll sem heitir Borgarhóll.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhólsborg.

Á honum er rúst (hjalls),“ segir í örnefnalýsingu. Borgarhóll er tæpa 240 m norðvestan við bæ og 80 m norðan við Hjallhól. Hóllinn er stór og víðsýnt ofan af honum. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var byggður timburkofi á Borgarhól af breska hernum meðan á hernámi þeirra stóð hérlendis á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Húsið stóð þar í einhver ár en fauk síðan og engin ummerki þess sjáanleg. Um 10 m austan hólsins er malarvegur að Hrauni.
Slétt, grasivaxið tún er til allra átta frá Borgarhól. Gaddavírsgirðing liggur eftir vesturhlið hólsins.

Grímslækur

Grímslækur – borgin á Borgarhól.

Þá segir: „Borgarhóll er stór hraunhóll, gróinn að hluta. Hann er 20-30 m í þvermál og 2-2,5 m á hæð. Í auðausturenda hólsins er grjóthlaðin tóft á milli tveggja kletta. Tóftin er 8×8 m að stærð og skiptist í tvö hólf. Hólf 1 er sunnar. Það er 7×4 m að innanmáli og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð og sést 1 umfar af grjóthleðslu í þeim. Klettur afmarkar suðurhlið hólfsins. Hólfið var líklega opið til vesturs en þar afmarkast tóftin öll af þýfðum bakka. Hólf 2 er norðar. Það er 7×3 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð og einungis 1 umfar af grjóthleðslu í veggjum. Hólfið var líklega opið til vesturs og grjót borið úr veggjum, þeir eru það lágir.“

Grímslækur

Grímslækur – fjárrétt.

Falleg lítil fjárrétt er skammt norðan við Hjallhól. Í fornleifaskráningunni segir: „Gerði/rétt: „Tæpum 200 m norðan við bæ og rúmlega 30 m vestan við Kishól er fjárrétt. Hún er líklega einungis nokkurra áratuga gömul en höfð í þessari skrá sökum forns byggingarlags. Réttin er 30 m austan við malarveg að bænum.
Óræktað, gróið tún með hraunhólum og stökum klettum er norðan við réttina. Gaddavírsgirðing liggur til norðvesturs og austurs frá réttinni. Girðingin afmarkar slétt, grasivaxið tún sunnan við réttina.
Réttin er 16×11 m að stærð, einföld og snýr norðaustur-suðvestur. Réttin er grjóthlaðin og veggirnir standa enn.
Þeir eru 2-3 m á breidd, 0,5-1,3 m á hæð og sést glitta í 3-6 umför grjóthleðslu í þeim. Op inn í réttina er í norðvesturhorni og liggur gaddavírsgirðing frá því til tveggja átta líkt og lýst er hér ofar. Timburgrind er í opinu til varnar búfénaði. Inni í réttinni og ofan á veggjum er rusl, m.a. timbur, járn og girðingarefni.“

Um Ytri-Grímslæk segir í heimildum:

Grímslækur

Grímslækur – „minnismerki“ um fyrrum heitavatnsæðina að Þorlákshöfn ofan svæðis.

„1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytri-eða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið. Ekki er föst ábúð á jörðinni heldur er hún nýtt til hrossabeitar.
1917: Tún 3.4 ha, 6/7 slétt. Garðar 1514 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur.
Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.“

Á milli bæjanna Efri- og Ytri-Grímsstaðir er merkilegt örnefni: „Krossmói/heimild/nátthagi. Í kaupbréfi jarðarinnar Hrauns frá 1551 segir:: „svo og skildi herra Ellendur fra ij stags eingi j Lanbeyrvm og þad eingi sem krosinum á Grimslæck til heyrir.“ „Í mörkum milli bæjanna (Efri- og Ytri-Grímslækjar, niður við mýrina, er stórþýfður mói, vel hálfur frá Efri-Grímslæk. Móinn heitir Krossmói. Þar myndi krossinn helgi, sem nefndur er í Íslenzku Fornbréfasafni, er mér tjáð, staðið hafa.“ segir í örnefnalýsingu.

Grímslækur

Grímslækur – Krossmói.

Krossmói er 80 m norðan við bæ, rétt sunnan við landamerki Efri-Grímslækjar. Þar er grasivaxin, lág hraunbrún og mýrlent austan hennar. Ekki er vitað hvar krossinn stóð. Að sögn Gunnars Konráðssonar, heimildamanns, var þarna nátthagi fyrir kýr en engin tóft.“

Í örnefnalýsingu um Grímslæki segir m.a.: „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman. Efri-Grímslækur heitir eystri bærinn. Heimildarmenn: Konráð Einarsson, f. 21/11 1898 á Efri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Guðjón Eyjólfsson, f. 21/1 1898 á Ytri-Grímslæk. Hefur verið þar síðan. Systkini Konráðs, Ólafur, Kristinn og Sigurbjörg, sem öll ólust þar upp. Forfeður þeirra Grímslækjar manna hafa verið þar í marga ættliði. – 26. ágúst 1968; Eiríkur Einarsson.“

Kröggólfsstaðir

Þúfustekkur.

Í örnefnalýsingu fyrir Kröggólfsstaðatorfu segir m.a.: „Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn, auk þess voru hjáleigur á Kröggólfsst. og Þúfu (jarðab. Á.M). Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin. Nú mun vera búið að skipta beitilandi, en þau uppskipti eru utan við þessa skrá. Heimildarmenn eru: Eggert Engilbertsson í Hveragerði fyrir Kröggólfsstaði og sameiginlegt beitiland. Hann er fæddur á Kröggólfsstöðum 27. júlí 1904, og átti heima þar til 1929. Faðir hans og afi bjuggu og á Kröggólfsstöðum. Sá ættleggur mun hafa búið þar hátt í 200 ár.“

Kröggólfsstaðastekkur er gróinn hóll með leifum af stekk, fast sunnan við þjóðveginn norðaustur af Krossgötum. Skammt suðvestar er svo Þúfustekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.

Þúfustekkur

Þúfustekkur – uppdráttur ÓSÁ.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrslu II“ frá árini 2017 segir m.a.:
„Þúfustekkur/tóft/stekkur; „Þúfustekkur: Hóll austur af Krst. stekk. Þar var gamall stekkur, síðar sauðahús, aflagt vegna þess að bráðapest var þar mögnuð.“ segir í örnefnalýsingu. Þúfustekkur er tæpa 1,2 km norðan við Þúfu og 180 m austan við Kröggólfsstaðastekk. Tóftin er 2 m vestan við vírgirðingu á merkjum Þúfu og Kröggólfsstaða en var áður í sameiginlegu beitarlandi.
Gróið hraun og mói. Víða kemur grjót í gegnum svörð. Móinn er þýfður og flatur. Hér og þar eru lágir hraunhólar, tóftin er á einum slíkum.
Tóftin er 21 x 7 m að stærð, snýr NNV-SSA og skiptist í tvö hólf eða byggingarstig. Beitarhúsið er sunnar og stekkurinn er norðar. Lýsingin hefst til suðurs í hólfi 1 sem er beitarhúsið. Það er 11 x 3 m að innanmáli og snýr NNV-SSA. Veggirnir eru grjóthlaðnir, 0,5 – 0,8 m á hæð, 2 m breiðir og má sjá 2-3 umför af grjóthleðslu í þeim. Víða er tekið að hrynja úr veggjunum að innan og gróið yfir hleðslurnar.

Breiðabólastaður

Breiðabólstaðaborg.

Um Breiðabólsstað í framangreindri fornleifaskráningu segir:
„1847: Bændaeign. 40 hdr. með Vindheimum ÁR-545. JJ, 76
1397: Getið í Vilchinsmáldaga. DI IV, 98-99.
1523: Getið í kirkjureikningum. DI IX, 158-159.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1561: Getið í tylftardómi. DI XIII, 622-623
1575: Getið í Gíslamáldaga. DI XV, 642.
1708: „Jarðdýrleiki xl og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 439.
„Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III.
1917: Tún 5 ha, 9/10 slétt. Garðar 1050 m2.“

 Breiðabólstaðaborg

Breiðabólstaðaborg.

Í skráningunni segir um Breiðabólsstaðarborg: „tóft/fjárskýli:
Litlu austar [en Steingríms gamla-stekkatún] er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft Breiðaborg,“ segir í örnefnalýsingu. Breiðabólsstaðarborg er tæpum 1 km ANA við bæ og 700 m norðaustan við Stekkjatún. Fjárborgin er áberandi þegar ekið er eftir Hlíðardalsvegi. Víðsýnt er frá fjárborginni til allra átta.
Gróið hraun er allt umhverfis hólinn sem fjárborgin er á. Þar vex mosi, gras og lyng. Klettar koma víða uppúr sverði.

Grímslækur

Grímslækur – Borgarhóll.

Fjárborgin er efst á grónum hraunhól. Klettar eru á hólnum og er fjárborgin hlaðin á milli þeirra. Klettarnir eru suðvestan, suðaustan og norðaustan við tóftina. Fjárborgin er sunnarlega á hólnum og er ferhyrningslaga. Hún er 8×8 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,2-0,5 m á hæð og 1 umfar af stóru grjóti sést í þeim. Það er tekið úr hólnum sjálfum og er ekki verið hentugt í hleðslur. Vesturveggurinn er best varðveittur og þar eru 2-3 umför af grjóti. Op er í norðvesturhorni en hrunið er fyrir það að mestu. Til norðurs frá fjárborginni, uppi á hólnum er grasivaxið svæði og hleðsla þar á brúninni. Mögulega eru þetta ummerki um aðrekstrargarð eða annað hólf. Hleðslan samanstendur af einföldri steinaröð.“

Með framangreindri skoðun kom glögglega í ljós að ekki fara alltaf saman „hljóð og mynd“ þegar fornleifaskráningar og örnefnalýsingar eru annars vegar…

Heimildir m.a.:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Reykjaavík 2015.
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi – Áfangaskýrsla II, 2017.
-Örnefnalýsing fyrir Efra- og Ytri Grímslæk í Ölfusi.
-Örnefnalýsing fyrir Kröggólfsstaði í Ölfusi.
-Örnefnaskrá fyrir Breiðabólstað í Ölfusi.

Grímslækur

Grímslækur – fjáborgin á Borgarhól – uppdráttur ÓSÁ.

Hengill

Í Hveradölum undir Hellisheiði er göngubrú um hluta hverasvæðisins. Við brúna eru sex upplýsingaskilti. Á þeim má lesa eftirfarandi fróðleik:

Háhitasvæðið í Hveradölum

Hveradalir

Sprungusveimar Reykjanesskagans.

Hveradalir eru grasigrónar hvilftir í suðvestanverðu Stóra-Reykjafelli, í sunnanverðum Henglinum. Stóra-Reykjafell er forn gígur sem myndaðist í gufusprengigosi á íslöld og eru hliðar hans myndaðar úr móbergstúffi. Miðja þess forna sprengigígs nefnist Stóridalur. Hverasvæðið í Hveradölum tilheyrir hverasvæðinu á Hellisheiði, sem er eitt af fjölmörgum háhitasvæðum Hengilssvæðisins.
Eldstöðvakerfi Hengilsins liggur austast í röð fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Gosbeltin raða sér á skýrt afmarkaðar sprungureinar sem liggja skástígar eftir skagagnum endilöngum. Gosbelti Reykjanesskagans er eitt af virkustu eldvirknisvæðum landsins. Eldstöðvakerfi Hengilsins er nokkuð frábrugðið hinum kerfunum þar sem það er eina megineldstöðin á skaganum, með tilheyrandi kvikuhólfi og súrri gosvirkni.

Hengill

Hengill.

Hengillinn er virk megineldstöð og liggur sprungurein eldstöðvakerfisins frá Selvogi á Reykjanesi í suðvestri og um 50 til 60 km leið norðaustur fyrir Þingvallavatn. Eldstöðvarkerfið er um 5 til 10 km breitt. Breiðast er það um Þingvallavatn en mjókkar til suðvesturs.
Eldstöðvakerfið nær yfir um 100 km2 og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins að finna á svæðinu. Eldstöðvarkerfið samanstendur af þremur megineldstöðvum; Hveragerði – Grændalur sem er elsta kerfið (300.000-700.000 ára gamalt); Hrómundartindur (sem er yngri en 115.000 ára) og Hengillinn sem er enn virkur í dag.
Vitað er um þrjú eldgos á nútíma (síðastliðin 10.000 ár) sem tilheyra virkri eldstöð Hengilsins, en þar gaus síðast fyrir um 2000 árum.

Borholur

Hengill

Hengill – borhola.

Árið 1986 var boruð 50 m djúp hola við hliðina á Skíðaskálanum í Hveradölum. Tilgangur borunarinnar var að kanna hvirt nýta mætti jarðhita á svæðinu til upphitunar. Önnur 100 m djúp hola var síðan boruð árið 1993 og er það sú hola sem hér má sjá sunnan megin við stíginn. Í dag er heita vatnið nýtt til upphitunar á Skíðaskálanum.
Lónið sem göngustígurinn liggur yfir er mangert en þar safnast saman heitt vatn sem er afrennsli frá hverasvæðinu. Útfellingarnar sem sjást í vatninu myndast þegar uppleyst steinefni, einkum kísill, falla út þegar hveravatnið kemur upp á yfirborð jarðar og kólnar.

Hvað er háhitasvæði
Um 20 háhitasvæði er að finna á Íslandi og eru þau öll staðsett á og við virk gos- og rekbelti landsins.
HengillHáhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfa og eru skilgreind þar sem hiti jarðhitavökva er yfir 200°C á 1000 m dýpi. Til þess að jarðhitavökvinn nái þessu hitastigi þá þarf hitagjafa sem er annað hvort grunnstætt kvikuhólf eða kvikuinnskot þar sem hiti kvikunnar hetur verið allt að 1000-1200°C.
Við upphitun grunnvatnsins breytist eðlilþyngd þess. Gastegundir sem losna úr heitri kvikunni blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs sem eðlislétt súrt jarðhitavatn eða gufa. Dæmi um þessi gös eru brennisteinsvetni (H2S) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxið (SO2) og koltvísýringur (CO2),
HengillÁ leið sinni til yfirborðsins þá sýður þessi heiti og súri jarðhitavökvi jarðlögin sem hann fer í gegnum. Við það vera efnaskipti milli vatnsins og bergsins og steindir leysast upp. Í heitu jarðhitavatni er því mikið magn uppleystra efna, svo sem kísill, kalk, brennsiteinn og fleiri efni.
Á hverasvæðinu í Hveradölum koma bæði fryir gufuhverir og leirhverir. Um svæðið rennur lækur og er grunnvatnsborð háhitasvæðisins því nokkuð hátt, en þó breytilegt.
Hæð vatnsyfirborðs í lóninu sveiflast með grunnvatnsstöðu svæðisins. Stundum er hér lón og stundum er allt skrjáfaþurrt á öðrum dögum.
Grunnvatnsstaða jarðhitasvæðsins ræðst af úrkomu og leysingum en háhitavatnið sem kemur upp undir Hengli á uppruna sinn í Langjökli þaðan sem það rennur sem grunnvatn í Þingvallavatn og þaðan undir Hengilinn.

Garðyrkjubúið í Hveradölum

Hveradalir

Hveradalir – hús Höyers.

Undir fótum þínum stóð eitt sinn gróðurhús sem nýtti jarðvarma. Sú bygging var partur af garðyrkjubýli sem byrjað var að byggja hér í Hveradölum árið 1927 af hjónunum Anders C. Höyer frá Danmörku og Ericu Hartmann frá Lettlandi. Árinu eftir að Anders hjálpaði við byggingu fyrsta garðyrkjubýlisins á Íslandi þar sem treyst var á ylrækt, en það býli var Blómvangur í Mosfellsbæ.
Íslenskir bændur höfðu nýtt náttúrulega heitan jarðveg til að rækta kartöflur og annað grænmeti í langan tíma áður en garðyrkja í gróðurhúsum sem nýtti jarðvarma varð til á fyrri hluta 20. aldar, svo þetta var kærkomin nýjung sem auðveldaði ræktun til muna.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir af húsi Höyers.

Anders sem var áhugasamur blaðamaður um garðyrkju var nýkominn til Íslands þegar hann fékk leyfi til að setjast að í Hveradölum ásamt konu sinni sem flutt hafði til íslands frá lettlandi um sumarið. Þau fluttu hingað upp á heiðina um haustið og bjuggu í tjaldi þar til þau höfðu byggt bæinn sinn sem upphitaður var með jarðvarma. Þau gifta sig svo á bænum í viðuvist sendiherra Dana, þann 27. október 1927. Lífið hefur ekki verið auðvelt, að minnsta ekki til að byrja með en hjonin eru fljót að koma sér upp húsaskjóli og geta í framhaldi af því þróað áfram uppbyggingu og tryggt þannig lífsviðurværi sitt.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir Höyers.

Í gróðurhúsum ræktuðu þau fyrst um sinn begóníur en fara síðan að rækta rósir í blómapottum eftir að þau stækka gróðurhúsið árið 1929. Þau veiða líka rjúpur og brugga heimagert öl úr íslenskum jurtum sem þau selja vegfarendum ásamt því að bjóða upp á leirböð. Þau selja einnig vörur sínar á torgum í reykjavík.
Árið 1934 byggir Skíðafélag Reykjavíkur skála við hlið þeirra í Hveradölum og hefur þar greiðasölu. Nálægðin við skálann þrýstir á að þau flytja burt og koma sér upp heimili við Gunnuhver á Reykjanesi, þar sem þau reyna áfram að reka svipaða starfsemi og í Hveradölum, áður en þau flytja til Danmerkur 1937. Reynslan úr Hveradölum virðist hafa verið hjónum góð, því Erica á að hafa sagt þegar hún leit yfir líf sitt: „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Húsin stóðu hér undir hlíðinni norðanmegin við stíginn þar sem enn sjást tóftir.

Tegundir hvera á háhitasvæðum

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Helstu yfirborðeinkenni háhitasvæða eru margbreytilegir gufu- og leirhverir. Víða má sjá ummyndað berg á yfirborði þessara svæða og er liatdýrð oft mikil vegna hverasalta. Á einstaka háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há, má sjá goshveri sem þeyta vatns- og gufustrókum upp úr jörðu með reglulegu millibili.
Stóri hverinn sem er hér norðan megin viðð göngustíginn er leirhver. leirhverir myndast þar sem bergið hefur brotnað niður vegna efnaveðrunar frá súrri jarðgufu. Til að slík fyrirbæri myndist þarf að vera hæfilega mikið yfirborðsvatn eða þéttivatn í gufunni. Leirinn samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi og ræðst þykkt hans af framboði yfirborðvatns.
Hér má sjá jarðhitagufu og

Hverasvæði

Hverasvæði.

gös streyma upp til yfirborðsins. grunnvatnið hitnar og súr vökvinn leyrir upp bergið sem umbreytist í leir. leirinn sýður og vellur, þeytist upp á brúnir hversins og myndar gráleita kápu. Grár litur leirsins stafar yfirleitt af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS).
Á svæðinu má jafnframt finna gufuhveri en þeir myndast þar sem grunnvatn jarðhitakerfis er það fdjúpt að einungis gufa eða gas nær upp til yfirborðs. Hiti í slíkum gufuhverum getur farið yfir 100°C við yfirborð. Vatnsgufan sem kemur upp á háhitasvæðum inniheldur líka kolsýru, vetni og brennisteinsvetni.
Vatnshverir og laugar eru algengari á háhitasvæðum, en það má finna þá hér þar sem gufan hefur blandast yfirborðsvatni.

Fyrsta hveragufubaðið
Vísir þann 27. október 1938:

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

„Lækningakraftur hveragufunnar og hveraleirsins. Býr ísland yfir ónotuðum heilsubrunnum? – Gufuböðin við skíðaskálann í Hveradölum og dvöl manna í Hveragerði…“
„Þeir, sem hafa átt leið austur yfir Hellisheiði hafa efalaust veitt því eftirtekt, að rétt oafn við rústirnar af húsi Höyers í Hveradölum hefir risið upp lítill og snotur kofi. Yfir hann og alt um kring leggur eiminn frá brennisteinshvernum, en rör liggja úr hvernum sjálfum og inn í húsið og út um það að nýju, en þetta mun vera fyrsta baðhús á íslandi, þar sem eingöngu er notast við hveragufu til að orna mönnum og baða þá. Þetta er nýjung, sem verðskuldar full athygli, ekki síst fyrir Reykvíkinga, sem búa í nágrenninu og geta auðveldlega orðið baðanna aðnjótandi, og þá einkum skíðagarpar vorir, sem þarna iðka íþróttina mikinn hluta vetrar.“ (…)

Hveradalir

Hveradalir – tóftir baðhússins.

„Þegar inn í húsið kemur verður fyrst fyrir búningsherbergi, og er þar bekkjum fyrir komið, þannig að menn geta legið þar og fengið nudd sér til heilsubótar og hressingar, hvort sem um íþróttamenn eða sjúklinga er að ræða,…“ (…)
„Innar af baðherberginu er gangur, sem liggur inn í baðklefann og er þar komið fyrir köldu steypibaði, en það er annar þáttur gufubaðsins og engu ónauðsynlegri til þess að baðsins verði notið til fulls, Innst í húsinu er svo baðklefinn sjálfur. Hann er ekki stór, en nógu til þess að nokkrir menn geta tekið bað í einu.

Hveradalir

Hveradalir – hverinn fyrir hús Höyers og baðhúsið.

Liggja rörin frá hvernum í gegnum hann og á þeim er handfang, þannig að hægt er með einu handtaki að hleypa frá gufunni eða loka fyrir hana að fullu eða tempra hana eftir vild. Sveinn Steindórsson frá Ásum í Hveragerði hefir reist baðskála þennan og gengið haganlega frá öllum útbúnaði hans eins og að framan greinir.“ (…)
„Ef það sýnir sig að dvöl við jarðhitasvæðin er jafn heilnæm, og talið er af ýmsum, fást með reynslunni öll önnur skilyrði til frekari athafna, og mætti þá vel svo fara að Ísland yrði hressingarstaður erlendra manna, sem færði þeim flesta meina bót, og væri þá auðveldara um öll vik eftir en áður.“

Uppleyst efni í jarðhitavökva

Hveradalir

Hveradalir – hver.

Við hringrás vatns í jarðhitakerfum vera efnaskipti milli bergs og vatns þegar heitur jarðhitavökvinn leikur um bergið. Þetta ferli leiðir til þess að mikið magn uppleystra efna berst til yfirborðs með heitum vökvanum. Þegar vatnið kemur upp til yfirborðs þá kólnar það og þrýstingur lækkar. Við það mettast vatnið af efnum sem þá falla út úr vatninu.
Við uppstreymi jarðhitavökvans og gufunnar verður ummyndun á yfirborði, fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við þessa ummyndun leysast sumar frumeindir og gler úr berginu upp.

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

Aðrar steintegundir endurkristallast og mynda svokallaðar ummyndunarsteindir, sem eru í jafnvægi við þær aðstæður sem ríkja við yfirborð. þannig myndast nýjar steindir við yfirborð háhitasvæða, aðallega leirsteindir, sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir.

Litadýrð háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – hveraauga.

Leir á háhitasvæðum getur birst í ýmsum litaafbrigðum. Áberandi og einjennandi er gulur litur brennisteins (S), rauður litur steindarinnar hematíts (ferríoxiðs, Fe2O3) og dökkgrár litur leirs, sem virðist yfirleitt stafa af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS). Gifs (kalsíumsúlfat, CaSo4) er auðgreinanlegur og myndar hvítmatta kristalla. Gifs getur haft önnur litbrigði svo sem rauðlitað sökum járns eða jafnvel grænleitt vegna kopars, en það er sjaldgæft.

Lífríki háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Á háhitasvæðum má finna blómlegt líf þrátt fyrir að aðstæður kunni að virðast fjandsamlegar. Í hverum lifa örverur sem hafa aðlagast háum hita. Stundum má jafnvel sjá þær með berum augum, til dæmis sem hvíta þræði eða þykkar og litríkar þekjur. Örveruþekjur myndast gjarnan í affalli frá hverum og við jaðra þeirra. Þær eru oft grænar eða appelsínugular vegna þörunga, blágrænna baktería og annarra örvera sem búa yfir leitarefnum er binda sólarljós.
Í súrum og bullandi leirhverum finnast fábreytt samfélög og mjög hitakærra baktería og arkea. Þær nýta gjarnan jarðhitagasið og geta til dæmis fengið orku úr vetni eða brennisteinssamböndum og bundið koltvísýring í lífræn efni.

Hveradalir

Hveradalir – skiltin.

Fosshellir

Farið var að Sandfelli við Þrengslaveg og síðan haldið sem leið lá vestur yfir Þúfnavelli austan Geitafells, yfir Ólafsskarðsveg og vestur með fellinu norðanverðu.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ekki var látið staðar numið fyrr en komið var að rótum vesturhorns fellsins. Þaðan sást vel suður yfir Kálfahvamm og Selvelli fyrir neðan.

Í suðvestur, ofan við Réttargjá sást í stórt jarðfall. Þegar þangað var komið sáust rásir liggja inn til beggja enda. Rásin til suðurs var fremur stutt og lokast með hruni, en rásin til norðurs, mót Heiðinni há, var lengri og opnari. Fyrir innan er mikil hraunrás með háum bálkum beggja vegna. Mikil hrauná hefur runnið þarna niður og mátti sjá einstaklega fallegar hraunmyndanir á börmum hennar. Á einum stað hangir u.þ.b. 30 sentimetra langt hraunstrá niður úr loftinu. Allnokkurt hrun er úr loftinu niður í rásina, en víða mátti sjá fallegar hraunmyndanir og tauma liggja niður með veggjum.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Ganga þurfti uppi á hægri bálknum inn með rásinni fyrir neðan, en innst inni í þessum 80 metra langa helli er hann heill og rúmgóður. Hátt er til lofts þar sem fyrir er mjór og hár hraunfoss. Hann kemur úr úr veggnum í allnokkurri hæð og hefur storknað utan í veggnum á leið sinni niður. Ofarlega á veggjunum neðan við fossinn eru mjög fallegar hraunmyndanir. Erfitt er að mynda fossinn nema með mjög góðum ljósabúnaði.
Þótt Fosshellir sé ekki langur er full ástæða til að gera sér ferð til að skoða hann. Hellirinn er bæði aðgengilegur og auðfundinn, og ekki skemmir hið fallega umhverfi á heiðinni fyrir.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Fosshellir

Fossinn í Fosshelli.