Tag Archive for: Ölfus

Þorlákshöfn

Í Öfusi og Þorlákshöfn eru nokkur minnismerki.

Kolbeinn Grímsson (1927-2006)

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Kolbeinn Grímsson.

„1927-2006
Ertu að fá hann?“

Við Hlíðarvatn í Selvogi hafa menn löngum veitt silung á stöng. Einn af þessum veiðimönnum var Kolbeinn Grímsson. Hann veiddi gjarnan á flugu, sem hann hnýtti sjálfur og kallaði peacock, á veiðistað sem kallaður er Innranef við norðurströnd Hlíðarvatns.

Sagan segir að ef einhver var við veiðar á veiðistaðnum á Innranefi þá settist Kolbeinn á stein við ströndina og ávarpaði veiðimanninn: ,,Eru að fá’an?”
Þegar veiðimaðurinn gafst upp á veiðum á þessum stað hnýtti Kolbeinn fluguna peacock á tauminn og hóf veiðar og leið ekki á löngu þangað til fiskurinn tók.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Kolbeinn Grímsson.

Á þessum steini er nú skjöldur með nafni Kolbeins og áletruninni Ertu að fá hann?

Kolbeinn Grímsson lést árið 2006. Stefán Hjaltested lét gera minningarskjöld
um Kolbein. Skildinum var komið fyrir á Innranefi og snýr hann út að Urðarvík.

Þorlákshöfn – Egill Thorarensen (1897-1961)
Minnismerkið er í almenningsgarði við Egilsbraut. Á því er áletrun: „Egill Thorarensen 1897-1961. Hann breytti verstöðinni Þorlákshöfn í nútíma bæ.“

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Egill Thorarensen.

Minnisvarðinn er eftir Gunnstein Gíslason.

Annar minnisvarði um Egil er á Selfossi.

Strandarkirkja – Engill (Landsýn)

Strandarkirkja er kirkja við Engilvík á Suðurstrandavegi. Kirkjan var kirkja íbúa í Selvogi og bjó prestur í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907. Strandakirkja er þjóðfræg vegna áheita og helgisagna. Strandarkirkja stendur við skerjótta og hafnlausa Suðurstöndina. Þar hjá er viti. Í kirknatali Páls Jónssonar biskups í Skálholti sem er að stofni til frá um 1200 er kirkjan á Strönd nefnd. Sennilegt er að lending í víkinni hafi verið um Strandarsund sem er suður og austur af kirkjunni. Núverandi kirkja var reist 1888 og endurvígð eftir endurbætur 14. júlí 1968 og endurbætt frekar og endurvígð aftur 13. október 1996.

Helgisagnir um Strandarkirkju

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Elsta helgisögnin um Strandarkirkju er að Gissur hvíti hafi gert kirkju þar á 10. og 11. öld úr kirkjuvið sem Ólafur Tryggvason Noregskonungur sendi hann með frá Noregi. Önnur sögn er að Árni nokkur formaður hafi reist kirkjuna úr smíðavið sem hann kom með frá Noregi. Þriðja helgisögnin er um ungan bónda frá uppsveitum Árnessýslu sem fer til Noregs að sækja smíðavið í hús sín en lendir í sjávarháska og hafvillum og dimmviðri og veit ekki hvar skipið er. Hann ákveður í örvæntingu sinni að gefa allan smíðaviðinn til kirkjubyggingar á þeim stað þar sem hann næði landi heilu og höldnu. Þá sá hann ljósengil framundan stefni skipsins og verður sá engill stefnumið sem hann stýrir eftir. Hann lendir í sandvík milli sjávarklappa og þá hvarf engillinn. Skipsmenn sáu í birtingu morguninn eftir að þeir höfðu verið leiddir eftir bugðóttu lendingarsundi milli boðaskerja á úthafsbrimströnd. Var hin fyrsta Strandakirkja reist úr viðnum sem kom úr skipinu.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Landsýn.

Vorið 1950 var reistur minnisvarði um kraftaverkið í Engilsvík norðvestan við kirkjuna. Minnisvarðinn sem er standmynd á stalli sem sýnir hvítklædda konu sem heldur á skínandi krossmarki er eftir Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og nefnist Landsýn. Á fótstallinum er skilti. „Landsýn eftir Gunnfríði Jónsdóttur, afhjúpað 29. maí 1950. Sögnin um Egilsvík.

Í bæn þeir lyftu huga hátt
þá háðu stríð við Ægis mátt.
En himinn rétti arm í átt
þar ýtar sáu land.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Stakkavík.

Það skip úr dauðans djúpi rann
því Drottins engill lýsa vann.
Svo býður hann við boða þann
og báti stýrir hjá.“

Árið 1994 var vígt minnismerki um látna sjómenn.

Stakkavík
Á skilti grunns gamla Stakkavíkurhússins við Hlíðarvatn sendur: „Stakkavík í eyði 1943 – síðasti ábúandi; Kristmundur Þorláksson“.

Hlíð

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Hlíð.

Á skilti á tóftum gamla bæjarins hlíðar við Hlíðarvatn stendur: „Hlíð í eyði 1906 – síðasti ábúandi; Nikulás Erlendsson“.

Gísli Eiríksson
Á grágrýtissteini austan við Þorlákshafnarveg er skjöldur. Á hann er letrað: „Jólalundur – Takk fyrir að lýsa upp okkar tilveru. Til minningar um Gísla Eiríksson, f. 29.09.1963, d. 20.06.2023.“

María Bjarnadóttir

María Bjarnadóttir

Ölfus – minnismerki; María Bjarnadóttir.

Neðst á grunni Strandarkirkju er lítið skilti: „María Bjarnadóttir frá Herdísarvík, f. 17. júli 1881, d. 18. maí 1922. Var úti við Kolviðarhól“.

Fæstir taka eftir þessu litla minningarskilti. María varð úti 1922.
Skiltið er eins neðarlega og hægt er og þá í stíl við stétt konunnar!

Þegar forvitnast er um þessa konu má lesa litla frétt í Vísi frá því 31. maí 1922: „Bæjarfréttir – Konan, sem fanst örend hjá Kolviðarhól, hét María Bjarnadóttir, sunnan úr Selvogi; niðursetningur hjá Þórði Erlendssyni á Torfastöðum í Selvogi, en hættuð úr Herdísarvík“.

Skrúðgarður Þorlákshafnar

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Skrúðgarður.

Á grágrýtisbjargi í Skrúðgarði Þorlákshafnar er skilti. „Kvenfélag Þorlákshafnar. Kvenfélag Þorlákshafnar hóf frumkvöðlastarf við myndun skrúðgarðs í Þorlákshöfn árið 1974, sem ber vott um framsýni, vilja og dugnað. Sveitarfélagið Ölfus þakkar ómetanlegt starf í þágu samfélagsins. Gert af tilefni 50 ára afmælis Kvenfélags Þorlákshafnar 11. maí 2014“.

Kvenfélagið í Þorlákshöfn gerði garðinn.

Skjöldur á bekk:
Á bekk við minnismerkið er bekkur. Á honum er skjöldur: „Gjöf frá Kvenfélagi Þorlákshafnar til Sveitarfélagsins Ölfuss. Íbúar í Ölfusi, til hamingju með endurbættan skrúðgarð. Kvenfélag Þorlákshafnar 2006“.

Hlín landslagsarkitekt

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Hlín Sverrisdóttir.

Í Skrúðgarði Þorlákshafnar er grágrýtisbjarg. Á því er skilti: „Hlín Sverrisdóttir landslagsarkitekt endurhannaði skrúðgarð Þorlákshafnar. Hönnunarvinnan er gjöf til æskustöðva til minningar um foreldra hennar, Álfhildi Sveinbjörnsdóttur 1933-2014 og Sverrir Sigurjónsson 1934-2015. Þau höfðu alltaf einlægan áhuga á fegrun skrúðgarðsins og uppbyggingu Þorlákshafnar“.

Lífsfleyið
Minnismerki um horfna ástvini milli kirkjunnar í Þorlákshöfn og kirkjugarðsins. Þrír nafngreindir eru á skiltum við minnismerkið.

Á minnismerkinu er skilti: „Minningarreitur um drukknaða og horfna ástvini.

Minn ljúfi Jesú, lof sér þér
fyrir líkn og huggun þína,
þú, lífs og daða er lykla ber,
æ, lít á nauðsyn mína.

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Arnarbæli.

Mig burtför æ lát búast við,
mér blessun gef og sálarfrið,
er lífsins dagar dvína.

Sálmur nr. 447, höf. ókunnur“.

Arnarbæli – Arnarbæliskirkja

„Hér stóð Arnarbæliskirkja.

Kirkju er fyrst getið í Arnarbæli um 1200 en var lögð niður 1909“.

Þessi minnisvarði stendur í gamla kirkjugarðinum í Arnarbæli.

Ofan við kirkjugarðinn er upplýsingaskilti um Arnarbæli.

Heimild:
-https://eirikur.is/minnisvardar/sudurland/

Ölfus

Ölfus – minnismerki; Lífsfleyið.

Hnúkar

Gengið var um Hnúkana á Selvogsheiði. M.a. var ætlunin að skoða hellisskúta undir Austurhnúkum, skoða tóftir og mannvistarleifar í skúta við þær, ganga um Hnúkavatnsstæðið og síðan halda suður með Efstahnúk og í sveig að upphafsstað um Neðstahnúk.

Hnúkar

Hnúkar – sel.

Hnúkarnir eru eldborgir á háheiðinni og eru í Neslandi. Hnúkar skiptast í Austurhnúka og Vesturhnúka. Austurhnúkar eru þrír, Syðstihnúkur, Austastihnúkur og Vestastihnúkur. Vesturhnúkar eru líka þrír, Neðstihnúkur, Miðhnúkur og Efstihnúkur. Milli Vesturhnúka er bungumynduð hæð, Vatnsstæðishæð, sem er eldgígur, og ofan í hana er Vatnsstæðið, sem þornar sjaldan eða aldrei alveg. Víða er einnig vatn í gígunum. Brekkur fyrir innan Hnúkana í áttina að Geitafelli heita Norðurslakkar. Þeir eru milli heiðarinnar og Gjánna. Þessar brekkur voru slegnar frá kotunum. Um Gjárnar liggja gjár, sem það dregur nafn af. Þær liggja allar í sömu átt, frá Geitafelli. Austust og næst landamerkjum er Nesgjá. Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.

Hnúkar

Hnúkar.

Byrjað var á því að skoða skútann norðan við Hnúkana. Þá var gengið upp um miðja Hnúka austanverða og litið á tóftir, sem þar eru austan við holan hraunhól, sem er sléttur í botninn. Greinilegt er að einhvern tímann hefur grjót, sem í honum er, verð notað í einhverjum tilgangi. Enn sést móta fyrir hringhleðslu. Tóftin framan við munnann er greinilega gömul. Önnur tóft er norðaustan við hólinn. Þá sést vel móta fyrir stvískiptum hlöðnum stekk eða kví norðan við hólinn. Ekki er vitað til þess að minja þessara sé getið í örnefnalýsingum. Líklegt er að þarna hafi verið selstaða, hugsanlega frá Nesi eða einhverjum hjáleiganna á Nesi í Selvogi.

Hnúkar

Hnúkar – vatnsstæði.

Norðvestan við minjasvæðið er stór gróin hraunrás. Norðvestast í henni er vatnsstæðið. Vel gróið er í hvylftum og hraunbollum. Aðstaðan þarna hefur verið hin ágætasta á þeirra tíma mælikvarða.
Skammt sunnar er nokkurra mannhæða hátt hraundrýli, holt að innan, einstaklega formfagurt. Dýptin, niður á botn, virðist vera um fimm metrar. Ekki er gott að segja hvort þá taki við rás. Hraundríli eða hraunkatlar eru merkileg náttúrufyrirbæri sem líkjast einna helst gömlum strokkum. Nokkurs konar strompar sem hafa hleypt upp lofti/gastegundum þegar hraun rann um svæðið en um leið hefur hlaðist utan á þá og þeir stækkað. Í miðju þeirra er op sem nær niður í hraunhelluna.

Hnúkar

Lóa í Hnúkum.

Vestan undir Efstahnúk er hellir. Um rúmgóðan helli, um 40 metra að lengd og um 15 metra á breidd, er að ræða. Hann er sléttur í botninn, en innan við munnann virðast vera hleðslur. Hellirinn hefur myndast er stór hraunbóla hefur gliðnað.
Gengið var til baka til suðausturs með sunnanverðum Hnúkunum.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Hnúkar

Hraundríli í Hnúkum.

Herdísarvík

Eftirfarandi fróðleikur um „Herdísarvík í Selvogi“ birtist í Morgunblaðinu í janúar árið 2000.
Herdisarvik-22„Þéttbýlisbúar á Suð-Vesturhorni landsins þurfa ekki að leita ýkja langt til að komast í snertingu við stórbrotið landslag. Að sumarlagi leggja m.a. ýmsir leið sína suður í Reykjanesfólkvang, þar sem hið mikla land, er liggur undir Krýsuvík, laðar til gönguferða og skoðunar. Getur þá jafnframt legið beint við að halda síðan sem leið liggur austur með ströndinni, áleiðis í Selvog. Á þeirri leið er hið forna góðbýli Herdísarvík, sem nú hefur reyndar verið í eyði um áratuga skeið. Herdísarvík var vestasti bær í Selvogi, þ.e. Selvogshreppi hinum forna (sem nú hefur verið sameinaður stærra sveitarfélagi) og þar með vestasti bær í Árnessýslu við sjó fram. Langt er þó frá Herdísarvík að hinni gömlu meginbyggð í Selvogi, sem nú er að vísu farin í eyði að mestu leyti. Jörðin, sem er alllandmikil, er í eigu Háskóla Íslands. Þar er nú friðland samkvæmt ákvæðum náttúruverndarlaga og er gangandi mönnum heimil för um allt Herdísarvíkurland.
Herdisarvik-23Er skemmst frá því að segja, að þetta landsvæði er sérlega vel fallið til útiveru og lengri sem skemmri gönguferða á öllum árstíðum, enda snjólétt, þótt sums staðar geti reyndar verið seinfarið um hraunin, sem setja mjög svip sinn á landið. Umhverfið er afar svipmikið og tignarlegt: Hömrum girt fjallið í norðri gnæfir yfir öllu láglendi jarðarinnar og gefur oft skjól, þegar þannig viðrar, hrikaleg strandlengjan á hinn veg en í millum skiptast á hraun og skjólsælir bollar, víða viði vaxnir, og fagrar gróðurræmur, m.a. milli hrauns og fjallshlíðar. Í suðri er útsærinn, sem oft bylur óvægilega á ströndinni, þegar blæs af hafi, en óvíða gefur að líta stórbrotnara brim en á þessum slóðum. Frá þessari strandlengju, réttleiðis í suðurátt, er ekkert land að finna fyrr en sjálft Suðurheimskautslandið!

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Svipur landsins á þessum slóðum tekur mjög breytingum eftir veðri og birtu. Þegar sólar nýtur er hlýlegt í hrauninu, litir fjallsins eru þá mildir og heiðbirta yfir hafi og strönd, en óvíða verður landið dimmleitara á votum og sólarlausum dögum. Þó er það vissulega fagurt alla daga því að veðrabrigðin draga aðeins fram hina ólíku liti og mögn þess. Gróðurfar er um sumt sérstætt í Herdísarvík. Árið 1978 fannst í rótum Herdísarvíkurfjalls stör, sem áður var ekki vitað að væri á Íslandi. Hlaut hún heitið „vorstör“ á íslensku. Fannst hún á skjólgóðum stað innan um mjaðjurt, garðabrúðu, blákollu, jarðarberjalyng og stúfu.

Herisarvik-25

Vesturmörk Herdísarvíkur, sem jafnframt eru frá fornu fari sýslumörk Árnessýslu á þessum slóðum, liggja um svokallaðan Sýslustein, mikið og auðkennilegt bjarg skammt frá þjóðveginum, sem fer um land jarðarinnar. Ná mörkin allt frá Seljabótarnefi við sjó fram. Í Seljabótinni var fyrrum selstaða frá Herdísarvík (Herdísarvíkursel) og má enn sjá ummerki þeirra mannvirkja, er selinu heyrðu til. Frá Sýslusteini liggja mörkin til norðurs, yfir Lyngskjöld, sem er bunga í brún fjallsins, og allt norður að Kóngsfelli „sem er gömul, en ekki há, grámosavaxin eldborg, umhverfis aflangan, djúpan gíg, til hægri handar við þjóðveginn úr Selvogi til Hafnarfjarðar, góðan spöl fyrir austan Kerlingarskarð, nálægt veginum“ eins og segir í fornri landamerkjalýsingu, en þar er að sjálfsögðu vísað til hinnar gömlu þjóðleiðar Selvogsmanna yfir Grindaskörð til Hafnarfjarðar, þar sem þeir áttu löngum verslun sína. Að austanverðu eru mörk jarðarinnar frá sjó og norður í Mosaskarð austanvert en þaðan í áðurnefnt Kóngsfell.
Uppi á fjallinu er því land Herdisarvik-26Herdísarvíkur að lögun eins og mjög langur þríhyrningur. Fjallsrunan milli Lyngskjaldar og Mosaskarðs (sem er gamall og vel mosagróinn hraunfoss, er fallið hefur fram af brúninni) heitir einu nafni Herdísarvíkurfjall. Er það skriðurunnið neðan til en hömrum girt hið efra.
Um Herdísarvíkurland lá frá fornu fari leið milli Selvogs og Krýsuvíkur, en um hana fóru Sunnlendingar m.a. úr veri og í, en þeir sóttu um alda skeið sjó frá verstöðvum á sunnanverðum Reykjanesskaga. Enn má finna í hraunum Herdísarvíkur gamlar og vel troðnar götur frá fyrri tíð og er forvitnilegt að fylgja þeim. Gamla leiðin í Selvog lá ætíð yfir útfall Hlíðarvatns en ófært var norðan megin við vatnið. Það var ekki fyrr en um eða eftir heimstyrjaldarárin síðari að bílvegur var lagður vestan megin Kleifarvatns og síðan til Herdísarvíkur og áfram, norðan við Hlíðarvatn og austur yfir Selvogsheiði.

Herdisarvik-27

Fram að þeim tíma var Herdísarvík með afskekktustu býlum á Suð-Vesturlandi – og þótt víðar væri leitað – og aðdrættir allir örðugir. Verslun áttu Herdísarvíkurbændur fyrrum til Hafnarfjarðar eins og aðir Selvogsbúar og héldu þá yfir fjalllendið norður um Grindaskörð – ef þeir fóru þá ekki með klyfjahesta sína vestur um til Krýsuvíkur og þaðan yfir Sveifluháls, eftir Ketilstíg, áleiðis til Hafnarfjarðar. Úr Herdísarvík var að jafnaði farin ein kaupstaðarferð á ári hverju, með hesta, en menn sendir gangandi í kaupstað þess á milli vegna brýnna erinda.
Í Herdísarvík var löngum búið góðu búi, á forna vísu, meðan leitast var við að nýta til þrautar öll gögn og gæði jarðarinnar.

 

Herdisarvik-28

Á þessum slóðum, sunnan undir fjallinu, er með afbrigðum snjólétt, enda var Herdísarvík talin með bestu útigangsjörðum fyrir sauðfé. Þar mátti því hafa allstórt fjárbú, þótt samfelldir bithagar séu ekki miklir, en féð þurfti að vakta vel m.a. sökum þess að ella var því hætt við að týnast í hraungjótum, sem krökkt er af í landareigninni. Tún var að vísu lítið, með þunnum jarðvegi, og fóðraði vart meir en tvær kýr, en það kom lítt að sök vegna þess að sauðfé bóndans gekk úti mest allt árið, en fjörubeit er auk þess góð í Herdísarvík. Reki var allnokkur og gjarna vel nýttur til húsasmíða og annarra þarfa. Silungsveiði var lengi í Herdísarvíkurtjörn en hefur nú lagst af. Var sú veiði talin umtalsverð búbót á sínum tíma.
Útræði var mikið frá Herdísarvík, enda fengsæl fiskimið steinsnar frá landi að kalla má, og sóttu herdisarvik-29þangað margir tugir manna víða að, einkum frá Suðurlandi en einnig úr nágrenninu. Lágu útróðrarmennirnir við í verbúðum, meðan á vertíð stóð, eins og venja var. Eru enn sjáanlegar miklar minjar um sjávarútveg og ýmis önnur umsvif í Herdísarvík fyrr á tíð. Innsti hluti víkurinnar sjálfrar, er liggur að kambi þeim, sem er milli tjarnarinnar og sjávar, nefnist Bót, en austast í henni var Vörin, þar sem útróðraskipin voru fyrrum dregin á land. Milli vertíða voru þau geymd þar nærri, í svokallaðri Skiparétt, þar sem hlaðnir grjótveggir héldu að þeim. Fyrir ofan Vörina stóðu margar sjóbúðir og má enn sjá glöggar tóttir sumra þeirra. Vitað er um nöfn margra búðanna, svo sem Landeyingabúð, Fljótshlíðingabúð, Símonarbúð, Bjarnabúð, Gíslabúð og Halldórsbúð, en það efni þarfnast þó nánari athugunar. Nær Herdísarvíkurbænum voru síðan m.a. Ólabúð og Hryggjabúð og að síðustu Krýsuvíkurbúð heim undir bænum, en frá höfuðbólinu Krýsuvík voru löngum gerð út tvö skip í Herdísarvík – en þar að auki var verstöðin að Selatöngum í landi Krýsuvíkur (rétt við vesturmörk þeirrar jarðar).

herdisarvik-29

Afla þeim, sem á land barst í Vörinni, var skipt á Skiptivellinum rétt ofan hennar. Enn má sjá mikla garða, er hlaðnir hafa verið í hrauninu austan og norð-austan Gerðistúnsins, þar sem fiskur var fyrrum þurrkaður eftir að hafa áður legið í „kös“ sem kallað var. Má ætla að samanlagt séu garðarnir nokkrir kílómetrar að lengd. Í svonefndum Básum austan Vararinnar (og niður undan Gerðistúni) var einnig gömul lendingarvör, sem kallaðist Skökk. Róið var með fornu lagi frá Herdísarvík fram á þriðja tug þeirrar aldar, sem nýliðin er.
Ljóst er, að landið hið næsta Herdísarvíkurbæ hefur löngum legið undir ágangi sjávar, og fyrrum stóð mikill sjóvarnargarður, handhlaðinn úr stórgrýti, á kambinum milli Tjarnar og sjávar, en hann hrundi eftir að byggð var þar af lögð. Hefur sjór síðan valdið stórtjóni á túninu norðan Tjarnarinnar og virðist hafa komið fyrir lítið þótt vinnuvél ýtti upp nýjum garði fyrir fáum misserum; sá garður er nú einnig að hverfa. Að sumu leyti má rekja spjöllin til þess að landið sígur á þessum slóðum eins og víðar á Suð-Vesturlandi.

Herdisarvik-30

Gamli bærinn í Herdísarvík stóð við vesturenda Herdísarvíkurtjarnar. Var hann löngum vel húsaður, m.a. baðstofa stór og góð, alþiljuð, og vandað stofuhús – og valinn rekaviður úr fjörunni að sjálfsögðu notaður í allt tréverk. Hið næsta bænum voru síðan ýmis útihús, sum þeirra einnig vönduð timburhús. Bærinn stóð lágt og varð því stundum fyrir ágangi sjávar í aftakaveðrum af suðri með hásævi, þegar Tjörnina fyllti og sjór gekk einnig upp frá henni. Bærinn var rifinn að hluta til árið 1934, eftir að nýtt íbúðarhús hafði verið reist, en þó má enn greina ummerki hans, undir klöppinni Skyggni. Vatnshólmi nefnist lítill hólmi í Tjörninni fram undan gamla bæjarstæðinu. Þar var tekið allt vatn til daglegrar neyslu, en það bullar þar upp um tjarnarbotninn fast við hólmann.
Austan við Vörina, sem fyrr var nefnd, er svonefnt Gerðistún, með vönduðum steingarði, sem enn stendur að hluta til – en athyglisverðar Herdisarvik-34garðhleðslur má reyndar sjá víða í Herdísarvíkurlandi. Talið er, að þar í túninu hafi fyrrum verið um nokkurt skeið hjábýli frá Herdísarvík, svonefnt Herdísarvíkurgerði. Í Gerðistúni má sjá til margra fornra tótta, en lengst stóðu þar fjárhús tvö, er nefndust Langsum og Þversum, og eru ummerki þeirra enn glögg.
Árið 1976 friðaði þjóðminjavörður allar gamlar mannaminjar á jörðinni Herdísarvík, svo sem fiskigarða, verbúðir, tættur af íveruhúsum og útihúsum, þar á meðal seljarústir í Seljabót. Væri vissulega mjög þarft og verðugt verk að kanna ítarlega, mynda, kortleggja og skrá allar mannaminjar í Herdísarvík, áður en um seinan verður, því að gróið land þar liggur undir skemmdum, eins og fyrr segir, ásamt mörgum og merkum fornminjum. Mættu forsvarsmenn Háskóla Íslands, sem er eigandi jarðarinnar, sannarlega huga að því máli, í samlögum með Þjóðminjasafni.

Einar Ben-21

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti. Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn viljað vera þar lengur.
Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Herdisarvik-36Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.

Herdisarvik-38

Oft var þó sonur Hlínar, Jón Eldon (sem var hennar yngsta barn), þar með þeim Einari og síðan tímabundið með móður sinni. Mætti segja margar sögur af lífi þeirra þarna í einsemdinni, þótt ekki sé ráðrúm til þess hér, en staðfest er – og þarf engum að koma á óvart – að Hlín annaðist hinn aldna og þjóðfræga ástvin sinn mjög vel og af mikilli hlýju allt til hinstu stundar samvista þeirra og hlúði að honum með öllum tiltækum úrræðum. Eina utanför, til Kaupmannahafnar, fóru Einar og Hlín eftir að þau fluttu til Herdísarvíkur, og var það haustið 1934, en annars fór Einar lítið af þessu síðasta heimili sínu, enda var heilsu hans þegar farið að hnigna er hann flutti þangað og hrakaði henni síðan enn á næstu árum. Lítt orti Einar skáld eftir að til Herdísarvíkur var komið.

Herdisarvik-38

Í dagstofu hússins stóð bókasafn skáldsins, á annað þúsund bindi, einkum fáséð rit um fornklassísk efni, sum gömul og dýrmæt, mörg á latínu og grísku, þar á meðal eitt vögguprent, þýsk þýðing á Gesta Romanorum, prentað í Augsburg 1489, einhver elsta prentuð bók, sem til er á Íslandi. Þessu merka bókasafni, ásamt jörðinni sjálfri, ánafnaði Einar Háskóla Íslands með gjafabréfi árið 1935 og var safnið flutt í örugga geymslu í Háskólanum árið 1950.
Hlín Johnson hafði allnokkurt fjárbú í Herdísarvík, einkum þó eftir lát skáldjöfursins.
Svört ær í eigu hennar varð frægust íslenskra sauðkinda á síðari tímum. Hún gekk árum saman Herdisarvik-40sjálfala í Herdísarvíkurfjalli, uns boð kom frá yfirvöldum um að hún skyldi aflífuð eins og gert hafði verið við annað fé Hlínar og reyndar fjárstofninn allan í þeim landshluta, sökum sauðfjárveikivarna. Örðuglega gekk að handsama Surtlu og á árinu 1952 gerðu fjárskiptayfirvöld út marga leiðangra vopnaðra manna til að fella hana, og fé var einnig heitið til höfuðs henni. Surtla var kæn og fótfrá og varðist í fjallinu vikum saman áður en hún var loks lögð þar að velli. Mátti heita að öll þjóðin fylgdist af miklum áhuga með þessari baráttu, í dagblöðum og útvarpsfréttum, og átti ærin víst samúð flestra.“

Heimild:
-Morgunblaðið, laugardaginn 15. janúar, 2000. Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Höfði

Gils Guðmundsson ritstjóri hefur tekið saman mikið verk um þjóðskáldið og að hafnamanninn Einar Benediktsson, og nefnist bók hans „Væringinn mikli – ævi og örlög Einars Benediktssonar„.
Margt hefur verið skrifað um þennan stórbrotna og fjölhæfa jöfur orða og athafna, sem oft var langt á undan samtíð sinni. Hér er því víða leitað fanga til að fá sem fyllsta mynd af þeim Islendingi sem var stærri í sniðum en flestir samtíðarmenn hans. Væringinn mikli var skáld og framkvæmdamaður, draumóramaður og ofurhugi, og Gils rekur sögu hans ítarlega frá bernsku til æviloka. Þar ríkti aldrei lognkyrrð. Nokkrir kaflar úr bókinni fara hér á eftir.
einar ben ungur„… Þetta ár og hið næsta keyrði um þverbak hjá Benedikt Sveinssyni. Þegar hér var komið sögu var hann einatt á ferð og flugi og staðnæmdist vart heima hjá sér stundinni lengur. Eirðarleysi, drykkjuskapur og önnur óregla einkenndi allt hans framferði. Hann fór hvað eftir annað til útlanda, ýmist út af málaferlum sínum eða í sambandi við ýmis stórvirki, sem hann hafði á prjónunum. Meðal þeirra má nefna öflun fjár til að hefja blaðaútgáfu og prentsmiðjurekstur, draumsýnir um stórfelld verslunarviðskipti við Norðmenn og miklar samgöngubætur á sjó, kostaðar af norsku fé. Þegar heim kom, lagði hann upp í langa leiðangra innanlands til að safna liði og fjárstyrk til stuðnings áformum sínum og baráttumálum. Og þess á milli sat hann langtímum saman í Reykjavík. Allar voru þessar hugdettur og fyrirætlanir meiri eða minni skýjaborgir, með lítil tengsl við raunveruleikann. Meðan þessu fór fram mátti húsfreyja Benedikts hins vegar sitja með börn sín ung að Elliðavatni, við þröngan fjárhag og búskap í algerri upplausn. Eins og fyrr segir mun hún á sínum tíma hafa verið algerlega mótfallin því að flytja úr höfuðstaðnum og taka að sér búsforráð í sveit. Fara af því sögur, að hún hafi alla tíð verið óánægð á Elliðavatni. Kom þar margt til, erfíðleikar í samskiptum við vinnufólk, þröngur efnahagur er á leið, en þó öðru fremur hátterni húsbóndans. Loks kom þar, að þolinmæði Katrinar var með öllu þrotin. Vorið 1*72, eftir 13 ára hjónaband, flytur hún frá Elliðavatni til Reykjavíkur, og krefst jafnframt skilnaðar.
Einar Benediktsson um sextugt. Þá mun Benedikt hafa verið lagður af stað í enn eina utanferðina. Katrín Einarsdóttir var nú þritug og komin langt á leið að síðasta barni þeirra hjóna. Leitaði hún fyrst skjóls hjá Þorbjörgu ljósmóður mágkonu sinni, systur Benedikts. Þar ól hún sveinbarn í júlímánuði, og hlaut það nafnið Ólafur Sveinar Haukur. Ekki varð dvöl Katrínar löng hjá Þorbjörgu. Munu þær mágkonur ekki alls kostar hafa átt skap saman þegar til lengdar lét. Settist Katrín að í næsta húsi, Litla Holti, og bjó þar í nokkur ár. Að Elliðavatni kom hún aldrei eftir þetta.
einar ben ungur IIÍ skilnaðarmáli þeirra hjóna leitaði prestur sátta, svo sem lög gerðu ráð fyrir. En í stað þess að málið færi síðan fyrir sáttanefnd var haldinn sáttafundur hjá Hilmari Finsen stiftamtmanni. Fór hann fram 14. desember 1872, og var þar ákvörðun tekin um skilnað Katrínar og Benedikts að borði og sæng og svofellt samkomulag gert milli þeirra: Sátt var reynd milli þeirra hjóna til framhalds hjónabandssambúðar en árángurslaust og bæði óskuðu hjónabandssambúð slitið. Með tilliti til fjárskipta með þeim tjáðust þau vera ásátt um meðfylgjandi skilmála; að maðurinn taki við búi þeirra með öllum skuldum, sem á því hvíla, og að maðurinn skuldbindur sig tií að borga henni 15 ríkisdali mánaðarlega frá 1. október þessa árs, að borga fyrsta dag hvers mánaðar um separations tímann, samt um sama tíma að leggja henni kýrfóður af heyi árlega hér á staðnum. Af sameiginlegum börnum hjónanna verða tvö hin elstu hjá manninum, hin tvö hjá konunni. Þegar þessir atburðir gerðust, var Einar Benediktsson á áttunda aldursári. Steingrímur J. Þorsteinsson segir: Það lætur að líkum, að uppeldisáhrif þau, sem Einar Benediktsson bjó við á Elliðavatni fyrsta áratug ævi sinnar, hafa engan veginn verið eins og best yrði á kosið, Vegna heimilisóreiðunnar átti Einar meiri mök en ella hefði orðið við vinnufólkið, misjafnt eins og gengur, og hlýddi mjög á tal þess og sögur, sem voru ekki allar fallnar til barnafræðslu. Sagði Einar eitt sinn á elliárum sínum, er honum varð tilrætt um orðbragð þessara fóstra sinna. „Heldurðu .að þetta hafi haft góð áhrif á mig? Eg, sem var allur eitt skilningarvit!“ Um eitt af hjúum föður síns á Elliðavatni orti Einar fyrstu vísuna sem til er eftir hann. Þá hefur hann að líkindum verið átta ára gamall. Jósep hét einn vinnumanna Benedikts, hinn mesti matmaður. Um hann kvað Einar: Jósep er og hundur hans hungraðir að vana, seggur þessi sunnan lands segist kominn að bana.
ellidavatn-991Síðasta vetur Katrínar á Elliðavatni var Jón Ólafsson skáld og ritstjóri þar til heimilis. Var hann þá nýkominn úr vist sinni í Noregi, en þangað hafði hann flúið vegna málaferlanna út af Íslendingabrag. Nú var Benedikt efst í huga að koma upp prentsmiðju á Elliðavatni og stofna blað. Skyldi Jón vera ritstjóri eða meðritstjóri við blaðið. Jafnframt var Jóni falið að veita börnum þeirra Benedikts og Katrínar tilsögn. Varð hann fyrsti kennari Einars, og samkvæmt kirkjubókum var Einar orðinn læs um jólaleytið 1871, þá sjö ára gamall.
Árið eftir að Katrín hvarf að heiman, kom Benedikt Einari fyrir hjá Grími Thomsen á Bessastöðum og Jakobínu konu hans. Dvaldist hann þar árlangt, enda mun heimilið á Elliðavatni þá hafa verið í algerri upplausn. í húsvitjunarbók Garðaprestakalls er talinn að Bessastöðum 1873 „Einar Benediktsson, tökupiltur, 9 ára, búinn“ (þ.e. að læra kverið)., Á Bessastöðum var Einari haldið strangt til vinnu, og hefur honum brugðið við eftir sjálfræðið á Elliðavatni. Einar þótti rumlatur, og fann vinnufólk á Bessastöðum að því við hann. Þá orti Einar: Vont er fólkið við mig hér, að vilja ekki lofa mér að lúra dálítið lengur. Fara skal á fætur samt, forlaganna þiggja skammt eins og duginn drengur. Grímur bóndi og skáld var strangur húsbóndi og hirtingasamur. Eftir Bessastaðadvölina lá Einari hlýrra orð til frú Jakobínu en Gríms. Öðrum þræði hafa þau hjón komið fram við Einar fremur sem fósturson en tökubarn, létu hann jafnan matast með gestum er þá bar að garði, svo og þegar boð voru haldin. Virti Einar það við Grím æ síðan.
… Nú hófst námsferill Einars Benediktssonar. Undir skóla lærði hann einkum hjá séra Guttormi Vigfússyni á Svalbarði í Þistilfírði, síðar presti á Stöð í Stöðvarfirði, ágætum latínumanni. Einar var heilsuveill í æsku, og á Svalbarði veiktist hann hastarléga og lá vetrarlangt og fram á surnar. Upp frá því var hann aldrei heilsuhraustur. Bæði var hann veill fyrir brjósti og gekk með sullaveiki, sem hann losnaði að líkindum aldrei við til fulls. Á efri árum nefndi Einar þessi veikindi sín við Svein Benediktsson framkvæmdastjóra.
einar ben á sextugsaldriSveinn segir: Einar ræddi nokkrum sinnum um sullaveiki, sem hann hefði sýkst af á bernskuskeiði á Elliðavatni. Kenndi hann um sóðaskap vinnufólksins eftir að foreldrar hans skildu. Sagði hann að hundar hefðu verið látnir sleikja askana, eins og þá mun ekki hafa verið óalgengt hér á landi. Af þessum sökum hafði hann sýkst af sullaveiki og liðið miklar þjáningar og átt við langvarandi vanheilsu að stríða af hennar völdum. Man ég að hann sagði, að hann gengi enn með steingerða sulli. Vorið 1878 var Einar fermdur í Húsavíkurkirkju. Við það tækifæri er honum gefinn þessi vitnisburður í prestþjónustubók: „Les, kann og skilur ágætlega og hegðar sér dável.“
Ýmsar sögur eru til, sem lýsa samúð Einars og hjálpsemi við fátækt fólk og minni háttar, bæði frá æsku hans og fullorðinsárum. Eftirminnileg er sagan sem Jakobína Jósíasdóttir segir frá fermingu Einars: Síðustu dagana fyrir fermingu dvaldist Einar um kyrrt á Húsavík, þar sem hann hafði verið til spurninga. Dreng einn úr Vilpu, koti sunnarlega í þorpinu, vantaði fermingarföt, enda var fólk hans bláfátækt. Einar átti spariföt og hafði auk þess fengið ný föt fyrir ferminguna. Hafði hann fermingarfötin með sér, en sparifötin voru heima á Héðinshöfða. Einar bauð drengnum að lána honum spariföt sín til fermingarinnar, og skyldi sýslumannsfólkið færa honum þau, er það kæmi til kirkju á fermingardaginn. En það var stundum seint fyrir, og svo fór í þetta sinn. Þverneitar Einar þá að ganga til kirkju, meðan faðir sinn sé ókominn, og ber ekki öðru við. Var nú ekki um annað að ræða en bíða, þar sem sýslumannssonurinn átti í hlut. Stóð Einar heima við prestssetrið hjá drengnum úr Vilpu, þangað til sást til ferða Héðinshöfðafólks með fötin. Einar varð æfur við föður sinn fyrir seinlætið.
Þrátt fyrir veikindi Einars í æsku, var hann fjörmikill og gerðist snemma einráður og áræðinn. Sýnir það atburður sá sem nú skal frá sagt. Haustið 1879 sendir Benedikt Einar son sinn fjórtán ára gamlan með áríðandi bréf til Akureyrar. Hafði ekki verið á annað minnst en Einar kæmi austur aftur að loknu erindi og læsi heima næsta vetur undir skóla. Á Akureyri hitti Einar nokkra pilta, sem voru á förum suður til náms og biðu strandferðaskipsins Diönu.
einar ben um sextugtEinar grípur nú áköf löngun til að slást í hópinn, en til þess sér hann engin ráð, síst fjárhagsleg. Þá vill svo til að hann mætir á götu á Akureyri Tryggva Gunnarssyni, góðkunningja fóður síns. Ber hann þegar upp vandkvæði sín við Tryggva, og kveður fjárskort hamla því að hann komist suður í skólann. Tryggvi kveðst geta bætt eitthvað úr þessu og lánar Einari ríflega fyrir farinu suður. Hefur Einar nú enga vafninga, skrifar föður sínum, siglir suður með piltum, fer til Þorbjargar föðursystur sinnar, gengur undir inntökupróf, stenst það með prýði og sest þegar í fyrsta bekk Latínuskólans. Skömmu síðar skrifar Benedikt Tryggva Gunnarssyni, og er í senn undrandi og stoltur yfir uppátæki sonar síns. Þakkar hann Tryggva lánið til „Einsa litla“ og segir síðan: Víst var um það, að ég hafði eigi ætlað honum að fara í skólann í þetta sinn, mest vegna þess að ég treysti ekki heilsu hans, en hann lá í allan fyrri vetur og fram á sumar. En nú hefur drengurinn ráðist í þetta, og þú getur því nærri, að ég er þér þakklátur fyrir hjálpina – að hverju sem hún verður honum.
Á fyrstu árum hinnar nýju aldar fór efnahagur Einars Benediktssonar verulega batnandi. Enda þótt Benedikt faðir hans hefði oft verið í peningaþröng og mesta basli, kom í ljós við skipti eftir hann látinn að eignir dánarbúsins voru töluverðar. Komu til skipta samtals rúmar 37 þúsund krónur eða 9300 krónur í hlut hvers hinna fjögurra erfingja. Einar erfði nokkrar jarðir eftir föður sinn, Elliðavatn, Korpúlfsstaði o.fl. Jafnframt“ fór hann nú að sækjast eftir að kaupa jarðir, fyrst aðallega vegna veiðiréttinda, en hann hafði löngum hinn mesta ahuga fyrir veiðiskap. En brátt tóku jarðakaupin ekki síður að beinast að öflun vatnsréttinda með virkjanir í huga, sem síðar verður frá greint.
einar ben-112Á þessum árum aflaði Einar tekna með margvíslegum hætti. Málflutningsstörfin við Landsyfirréttinn voru að vísu ekki mjög ábatasöm, en lögfræðileg og viðskiptaleg ráðgjöf ýmiss konar gaf drjúgt af sér og fasteignaviðskiptin voru veruleg tekjulind. Um skeið runnu og til Einars umtalsverðir fjármunir frá Marconifélaginu í Lundúnum fyrir ýmsan erindrekstur í þess þágu. Sagði Einar frá því síðar, að árstekjur sínar á þessu skeiði hefðu komist upp í 25 þúsund krónur, en það voru þreföld eða fjórföld embættismannslaun. Eitt árið kærði hann útsvar sitt til hækkunar, þar eð hann leit svo á að of lágt útsvar rýrði álit sitt sem fjármálamanns! Til er skemmtileg frásögn af fasteignaviðskiptum Einars. Ber hún það með sér að hann var bæði framsýnn og ráðhollur, þegar ungur og vaskur athafnamaður átti í hlut. Thor Jensen segir þessa sögu í minningabók sinni. Hann hafði árið 1901 stofnað verslun í Reykjavík í gamla biskipshúsinu við Pósthússtræti. Húsið var á besta stað í bænum, en engan veginn nógu stórt og hentugt fyrir nýtísku verslun. – Thor Jensen segir: Einar Benediktsson var á þessum árum málafærslumaður í Reykjavík. Við höfðum kynnst á ferðalögum og fallið sérlega vel á með okkur. Var gaman að ræða við hann um framfaramál og framtíð íslands. Einar kom nú til mín og bauð mér til kaups gamla pósthúsið, sem var eign dánarbús Óla Finsens póstmeistara, en Einar annaðist sölu á eignum þess. Sagði Einar, að ,jafn stórhuga maður þyrfti meira olnbogarúm handa fyrirtæki sínu“. Féllst ég á þetta og keypti gamla pósthúsið af honum fyrir 15 þúsund krónur. Þetta var mjög hentugt, þar eð það var næsta hús fyrir. sunnan verslun mína, og því fylgdi mikil og góð lóð. Á heimleið úr utanfór sumarið 1903 hitti Einar Eggert Claessen, sem var á heimleið að nýloknu lögfræðiprófi. Leist Einari vel á hinn unga mann og tókst með þeim vinátta sem entist ævilangt. Bað Einar Claessen nú að taka við málflutningsstörfum sínum við Landsyfírréttinn og réðst það með þeim. Gegndi Einar þeim ekki eftir þetta, þótt hann segði starfinu fyrst lausu árið eftir.
Störf Einars höfðu verið ákaflega erilsöm um sinn og reynt mjög á hann, enda heilsan aldrei sterk. Hann þráði ekki hvað síst að fá betra næði til að gefa sig sem mest að skáldskap sínum. Hann vildi komast í fast og ekki of annasamt embætti, þar sem hann gæti skapað sér og vaxandi fjölskyldu framtíðarheimili.
valgerdur kona einarsHaustið 1904 losnaði sýslumannsembættið í Rangárvallasýslu, það hið sama og Einar hafði sótt um en ekki hlotið tíu árum áður. Ákvað Einar að sækja, þótt ósýnt væri um árangur, þar eð hann átti lítilli stjórnarhylli að fagna. Hannes Hafstein, skáldbróðir Einars, var nú orðinn ráðherra og fór með veitingavaldið. Gekk Einar á fund ráðherra. – Valgerður Benediktsson segir: Einar dáðist alla tíð mjög mikið að Hannesi Hafstein bæði sem skáldi og glæsimenni, en vegna mismunandi stjórnmálaskoðana var kunningsskapur þeirra mjög kulnaður um þessar mundir. Hannes tók umsókn Einars fálega í fyrstu og lét í ljós við hann það hugboð sitt, að nú mundi Einar fyrir alvöru ætla að fara að gefa sig að stjórnmálum, er hann væri orðinn sýslumaður, og komast á þing og vinna á móti sér. Einar svaraði því til, að hann mundi að vísu alltaf láta í ljós skoðanir sínar á þjóðmálum, er honum þætti ástæður til, en til þingsetu hugsaði hann ekki. Lét Hannes sér þetta vel líka og veitti Einari sýsluna.
Þjóðsagnapersóna, Skúli Skúlason, síðar ritstjóri, prestssonur í Odda á Rangárvöllum, var 14 ára unglingur þegar Einar kom austur. Hann hefur skrifað skemmtilegar minningar frá þessum tíma. Birfust þær í Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 1964. Þar segir: Einar var orðinn að þjóðsagnapersónu áður en hann kom í héraðið og það álit færðist í aukana þessi fáu ár er hann var þar og enn meir eftir það. Og ég tel efamál, hvort nokkur þjóðsagnapersóna hafi verið eins umrædd í sýslunni.
Allir könnuðust við nafnið. Þetta er skáld og hafði gefið út sögur og kvæði og þýtt „Pétur Gaut“ og selt hvert eintak á hundrað krónur! Hann hafði ort magnað draugakvæði um síra Odd í Miklabæ, en margir héldu því fram, að mest af kveðskap hans væri „hálfgert hnoð, sem enginn skildi“. Og svo hafði hann gefið út blað og stofnað stjórnmálaflokk. Hvernig átti svona maður að geta verið sýslumaður? Og ofan á allt þetta var nýi sýslumaðurinn „þjóðhættulegur braskari“, sem á skömmum tíma mundi setja sýsluna á hausinn og alla Rangæinga á rassinn nema þá, sem voru á honum áður. En hugkvæmur var hann, mannskrattinn. Hann hafði selt jarð skjálfta. Hver veit nema hann gæti selt Heklugos líka? Og þá hlypi kannski á snærið fyrir Rapgæingum. Skeggræðendunum kom saman um, að andvirðið ætti að renna í sýslusjóð og notast til brúargerðar í sýslunni… Það var mikið glæsimenni, sem komið var í sýslumannsembættið. Ég hugsa, að aldrei hafi Einar Benediktsson verið fríðari sýnum en um þær mundir og glæsilegri í allri framkomu. Ég man að hann var í sútuðum leðurjakka þegar hann kom fyrst að Odda, en slíka flík hafði ég aldrei séð á nokkrum manni nema Hvítárvallabaróninum. Og eigi síður var konan hans, Valgerður, glæsileg. Hún var svo tignarleg, að þjóðsagan var búin að segja manni að Einar hefði látið gera faldbúning handa henni og farið með hana til London og „sýnt hana þar fyrir peninga“. Það væri gaman að vita, hvort þetta var fyrirboði fegurðarsamkeppna nútímans?
hlin johnsonSamskipa Einari utan um haustið var Guðmundur Hlíðdal, síðar póst- og símamálastjóri. Hann hafði um vorið komið heim til Islands að loknu prófi í rafmagnsverkfræði í Þýskalandi. Um sumarið hafði hann birt í landvarnarblaðinu Ingólfi grein, sem hann nefndi Notkun fossanna. Þar galt hann mönnum varhug við að selja útlendingum fossa fyrir smánarverð og án allra skilyrða, en hvatti til að leigja eða jafnvel selja þeim fossa, ef upp úr því sprytti iðnaður, sem orðið gæti okkur til hagnaðar. Þyrfti að búa svo um hnúta í samningum, að landeigendur hlytu sæmilegan hagnað af, er til framkvæmda kæmi, en full umráð fossanna á ný, yrðu þeir ekki virkjaðir innan hóflegs tíma.
Einari hafði getist vel að grein þessari og haft samband við höfundinn eftir birtingu hennar. Kynntust þeir nú nánar á ferðinni utan og fór vel á með þeim. Einar stóð stutt við í Edinborg, þar sem hann kom fjölskyldu sinni fyrir, en hélt til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann Guðmund Hlíðdal og fékk hann til að koma með sér til Kristianiu í því skyni að takast á hendur vatnsorkumælingar fyrir fossafélög, sem þar skyldi stofna. Þangað fóru þeir nú saman. Löngu síðar lýsti Guðmundur Hlíðdal dvölinni í Noregi þessa haustdaga. Segir hann svo frá, að mörg kvöld hafi þeir félagar setið í dýrlegum veislum norskra fjáraflamanna og lögfræðinga, þar sem Einar naut sín ákaflega vel og var miðdepill hvers samkvæmis. Hann var alger bindindismaður þennan tíma í Kristianiu, að sögn Guðmundar, enda þótt allt flyti í hinum dýrustu vínum. Milli veisluhaldanna voru fundir haldnir með þessum fésýslumönnum þar sem Einar lýsti fossafli Íslands fyrir þeim og beitti óspart einstæðum frásagnatöfrum sínum. Flest var stórt í sniðum í frásögn hans, en óhjákvæmilegt var að viðurkenna, að margt væri enn lítt rannsakað, svo sem fallhæð fossa. Með orðfimi reyndi Einar að forðast fullyrðingar, svo sem að nefna nákvæmar tölur, en dró þó hvergi úr.
hlin johnson IIHlín kemur til sögu í febrúarmánuði 1927 kom nýr gestur á heimili Einars Benediktssonar og Valgerðar konu hans að Þrúðvangi í Reykjavík og drakk kaffisopa með þeim hjónum. Gesturinn var kona, Hlín Johnson að nafni. Þannig stóð á gestkomunni að konan hafði hitt Val, elsta son skáldsins, á samkomu í Reykjavík. Hlín var ættuð frá Sandhaugum í Bárðardal, og hafði faðir hennar, Jón Eldon Erlendsson frá Garði í Kelduhverfi, verið skrifari Benedikts Sveinssonar á Héðinshöfða um tveggja ára skeið, þega Einar var um fermingaraldur. Bar hann æ síðan hlýjan hug til þessa skrifara föður síns.
Valur sagði nú föður sínum frá því, að hann hefði hitt þessa þingeysku konu, og kynni hún mörg ljóð hans utan að og væri ákafur aðdáandi þeirra. Bað Einar þá son sinn að koma kveðju til dóttur Jóns Eldons, og bjóða henni að heimsækja sig í Þrúðvang.
Hlín Johnson stóð á fimmtugu þegar hún fékk boðin um að ganga inn fyrir dyr Einars Benediktssonar. Hún hafði aðeins einu sinni séð hann áður, þá innan við fermingu, en kvaðst aldrei hafa getað gleymt honum. Hann var þá með föður sínum á þjóðmálafundi á Ljósavatni, ungur og fríður.
herd-221Í viðtali við Matthías Johannessen komst Hlín svo að orði: Ást mín á honum hefur haldist frá því ég heyrði fyrsta ljóðið eftir hann, tólf ára gömul, íslandsljóð. Það birtist í einhverju blaðinu, líklega Sunnanfara, sem var sendur norður eins og hver annar pappír. Og þegar fóstri minn las ljóðið, stökk ég á fætur og hrópaði: „Svona hefur enginn kveðið áður!“ En ég var skömmuð fyrir að þykjast hafa vit á skáldskap, og það var reynt að þagga niður í mér og líklega hefur það tekist, en ég sagði satt! Og nú hefur Hlín Johnson fengið boð um það, að koma á fund skáldsins. Hún segir: Eg fór upp í Þrúðvang, og um leið og augu okkar mættust, var eins og við hefðum þekkst alla ævi. Ekki fer það á milli mála, að næstu árin eftir skilnaðinn við Valgerði voru Einari erfið á marga lund. Jónas Jónsson fer svofelldum orðum um skáldið á þessu tímabili: Þegar fokið var í flest skjól um fjárafla tók hann sér til hressingar að neyta áfengis meira en góðu hófi gegndi. Var hann þá um stund heimilislaus og án nokkurs verulegs stuðnings frá frændum og vinum. Gátu höfuðstaðarbúar stundum séð þá sorgarsjón að höfuðskáld þjóðarinnar, sem auk þess hafði um langt skeið verið mest glæsimenni á landinu, við hlið Hannesar Hafsteins, ráfaði einmana um götur bæjarins, fátæklega búinn og undir áhrifum áfengis.
Á þessum tímum einsemdar og erfiðleika kynnist Einar lífsreyndri og viljasterkri konu, sem hafði dáðst að honum og unnað ljóðum hans allt frá ungum aldri. Hann fann þar athvarf og skjól.
En hverjar voru tilfinningar konunnar, sem nú fyrst tók að umgangast draumaprinsinn, og sá með opnum augum jafnt veikar sem sterkar hliðar hans? Einar var nú orðinn 63 ára, stoltur maður en bitur og kominn sár og móður af vígvelli lífsins. Varð hún ekki fyrir vonbrigðum? Matthías Johannessen spyr Hlín Johnson hálfníræða um samband þeirra Einars:
— Þetta var ást, Hlín.
— Sú eina ást, sem ég hef þekkt, og miklu meira en það… Fyrir það er ég þakklát alla tíð.
— En hvernig er hægt að elska mann gegnum kvæði?
— Það er ósköp einfalt. Maður elskar sálina, sem birtist í ljóðunum. Og svo þegar ég kynntist henni, varð ég ekki fyrir vonbrigðum, þvert á móti, því sjálfur var hann jafnvel stærri en verk hans. Að vísu átti hann það til að vera ruddalegur og nota stór orð, ef hann bragðaði vín eða talaði um pólitík, en það kom mér ekki við, því ég var ekki pólitísk.“

Heimild:
-Morgunblaðið 16. desember 1990, bls. 20-21.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Þórarinn Snorrason
Gengið var frá Hlíð við Hlíðarvatn, að Vogsósum, Fornagarði fylgt upp túnið og síðan haldið áfram eftir Kirkjugötunni að Strönd í Selvogi.
Skoðaðar voru tóftirnar í Hlíð, sem mun hafa verið landnámsbær Þóris haustmyrkurs. Reyndar er talið að rústir þær hafi verið á tanga eða hólma, sem er út í vatninu fram undan bænum; Hjalltangi eða Hjallhólmi er hann nefndur. Þar á bærinn að hafa staðið upphaflega. Eftir að hækkaði í vatninu hafa möguleikar á að skoða þær farið minnkandi.

Borgirnar þrjár

Borgirnar þrjár ofan Vogsósa.

Konráð Bjarnason úr Selvogi segir í Lesbók MBL 17. des. 1991 að hann telji að sonur hans, Böðmóður, hafi fengið hinn víðáttumikla eystri hluta landnáms föðurs síns og orðið fyrsti bóndinn í Nesi. Heggur, annar sonur Þóris, er sagður hafa búið í Vogi, sem getið er til að hafi verið Vogsósar.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan Malarinnar eru rústirnar, en þar segja fróðir menn og konur, að bærinn hafi staðið, eftir færslu úr Hjalltanga. Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð. Frá rústunum liggur Hlíðargata austur og inn með fjallinu, framhjá fjárborginni og tóftunum undir Borgarskarði, Hlíðarborg og Hlíðarseli áleiðis upp á Suðurferðaveg (Selvogsgötu).
Gengið var suður með austanverðu Hlíðarvatni, um Réttartanga og síðan beygt upp á gróna hraunhóla þar austur af, vestan þjóðvegarins. Á þeim eru Borgirnar þrjár, eða Vogsósaborgir eins og þær hafa einnig verið nefndar. Borgir þessar eru nokkuð heillegar. Ekki er vitað hver hlóð þær, en eflaust hafa þær átt að skýla fé svo sem meginhlutverk fjárborganna var. Ekki er ólíklegt að þær hafi verið frá fleiri en einu koti, sem voru þarna skammt frá. Skammt austar, austan þjóðvegarins eru tóftir Vogsósasels.

Hlíð

Hlíðarkot – tóftir.

Frá Borgunum er ágætt útsýni yfir Hlíðarvatn, hólmana, Víðisand sunnar og Alnboga, vestan fráfallsins úr vatninu. Þar lá gamla þjóðleiðin frá Strönd yfir ósana og áfram áleiðis að Herdísarvík. Jörðin þar fór í eyði árið 1957 eftir að Hlín flutti burt 17 árum eftir andlát Einars Benediktssonar.

Gengið var að enda Fornagarðs (Strandargarðs) neðan við túnið á Vogsósum og honum fylgt áleiðis upp túnið. Vogsósar var stórbýli og prestsetur á fyrri tíð. Þar bjó galdrapresturinn Eiríkur Magnússon á ofanverðri sautjándu öld og fram á þá átjándu. Margar sögur eru til af Eiríki og göldrum hans. Aldrei notaði hann galdur sinn til ills en gerði mönnum glettur og aðallega ef á hann var leitað að fyrra bragði.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Árið 1840 segir að Vogsósaland sé “allt að framan gjörspillt af sandágangi, verr en Austurvogurinn, því að sönnu fýkur hann af austur- og landnyrðingsáttum eins á þetta land og Austurvoginn. En þar að auki líka því meir af útnorðri og til með af vestri, sem það er nær Víðasandi. Þegar ósinn er undir ís, fær túnið á Vogsósum óbætanleg áföll af sandi í vestanstormum, t.d. næstliðinn vetur.”
Árið 1847 voru Strönd og Vindás komnar í eyði og eru taldar með Vogsósum sem eru beneficium og liggja Hlíð og Stakkavík og 3 ½ hdr í Þorkelsgerði undir kirkjuna. “Prestsetrinu fylgja 2 ásauðar kúgildi og 1 veiði- og heyflutníngsbátur. Tún er lítið mjög og hætt við sandfoki, og utantúns slægjum eins, en landkostir eru góðir og útibeit góð. Jarðarhlynnindi eru hér að auki talin, þó mínkandi fari; sela- og silúngsveiði og sölvatak, sem líka gengur af sér, einkum af sandfoki, en höfuðkosturinn er trjáreki. Selvogs kirkja á ítak í Krýsuvíkur fuglbergi.

Vogsósar

Vogsósar – kirkjugatan að Strönd.

Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa og umlukið þar bæ er nefndur er Vogshús, enda er hann nefndur svo í fornbréfum. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra.”
Þess má geta að suðaustan við túnið á Vogsósum eru óþekktar rústir, fast austan við Fornagarð.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Frá Vogsósum er ágætt útsýni upp að Svörtubjörgum. Á þeim er Eiríksvarðan. En “þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir svco langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1 faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er svo hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon … dó 1716 … og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.”
Margar sögur eru til af Eiríki, presti á Vogsósum. Eftir að Eiríkur var orðinn prestur í Selvogi komst það orð á að hann væri göldróttur. Kallaði þá Skálholtsbiskup hann á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann að gera grein fyrir því hvort hann kynni eitthvað úr þeirri bók. Eiríkur fletti upp bókinni og sagði; “Hér þekki ég ekki einn staf”! Og sór fyrir það. Síðar sagði hann að þetta þýddi ekki að hann þekkti engan staf í bókinni heldur að hann þekkti alla stafi bókarinnar nema einn.

Fornigarður

Fornigarður.

Fornigarðs er getið í heimildum. Segir m.a. að “Vogósatúngarður var girtur aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: „Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…“ (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér.“
Stefnan var tekin suður yfir heimatúnið, að Kirkjugötunni, sem liggur yfir að Strönd. “Kirkjugatan lá frá Hlíð suður með vatninu um Vondavik að Vogósum og áfram suður að Strandarkirkju.“ Hún sést enn vel þar sem hún liggur um sandinn, enda ávallt mikið farin þangað til fyrir tiltölulega stuttu síðan.

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd í Selvogi – einnig nefndur „Staður“.

Selvogur er vestasta byggð í Árnessýslu og var lengst af fremur afskekkt og einangrað byggðarlag. Rafmagn kom ekki í sveitina fyrr en eftir 1970 og vegamál hafa verið í ólestri fram undir þetta. Á fyrri tíð voru í Selvogi margar jarðir og víða stórbúskapur og gjöful fiskimið undan landi. Síðast var gert út á vetrarvertíð úr Selvogi árið 1950 og eftir það hafa bændur lifað eingöngu af landbúnaði og einkum sauðfjárbúskap því mjólk var ekki sótt á bæi í Selvogi til að flytja í mjólkurbú. Í byrjun tuttugustu aldar eru um 20 býli í Selvogi en nú mun búskapur lítill í sveitinni.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

Sagan segir frá sjómönnum sem fyrir langa löngu villtust í hafi og hétu því að byggja kirkju þar sem að þeir kæmu að landi ef þeir lifðu af. Eftir áheitið leiddi engill þá heila á húfi að landi í Engilsvík og þeir byggðu kirkju að Strönd. Kirkjan sem nú stendur að Strönd var reist seint á nítjándu öld og endurbyggð árið 1967. Í henni er gömul altaristafla frá 1865 og kaleikur kirkjunnar er merkilegur en hann er forn gefinn kirkjunni af Ívari Hólm lögmanni og hirðstjóra sem sat á Strönd en einnig á Bessastöðum. Kaleikur þessi er eini gullkaleikurinn sem til er hér á landi og því mikil gersemi. Síðasti prestur sem bjó í Selvogi var séra Eggert Stefánsson merkur maður en hann þjónaði Strandarkirkju á árunum 1884 til æviloka 1908. Þá var prestakallið lagt niður sem sérstakt prestakall.

Vogsós

Vogsósaborgir.

Helgi og átrúnaður á Strandarkirkju virðist hafa komið upp mjög snemma eins og sagan af áheiti skipshafnarinnar sýnir og væntanlega fylgt henni alla tíð. Öldum saman hefur verið heitið á kirkjuna í lífsnauð og hvers kyns öðrum erfiðleikum. T.d. munu norskir sjómenn snemma hafa heitið á kirkjuna og eignaðist hún skógarhögg í Noregi. Í gegnum aldirnar hefur kirkjunni því safnast mikill auður, bæði dýrmætir gripir og peningar. Hluta af því hefur verið varið til endurbóta á kirkjunum en einnig hefur þetta fé verið lánað til kirkjubygginga víða um land.

Þórarinn Snorrason

Þórarinn Snorrason og Ómar spá og spekulera um fyrirhugaðn uppdrátt af Selvogi.

Stórbýli var á Strönd og á staðurinn sér mikla sögu frá fornu fari þótt þar sé ekki lengur búið og vafalítið eitt af elstu býlum sveitarinnar. Fram yfir aldamótin sextán hundruð voru 7 eða 8 býli á Strönd en hverfa úr byggð á 17. öld og árið 1696 fer höfuðbólið sjálft í eyði. Því olli uppblástur og sandfok sem gerði jörðina óbyggilega, sem fyrr sagði.
Eftir að Strönd fór í eyði var um það rætt að flytja kirkjuna en fólkið var á móti því þar sem það taldi hættu á að við það glataði kirkjan mætti sínum og helgi. Hún stendur því enn á sama stað og í upphafi.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn
-http://www.utivist.is

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.

Nessel

Gengið var um Djúpudalahraun að Djúpudalaborg, þaðan upp í Nessel og áfram upp á Kvennagönguhól. Þá var haldið upp á Hellisþúfu og skoðaður Hellisþúfuhellir. Loks var gengið niður hæðina að vestanverðu, að klöppinni Fótalaus og staðnæmst við Imphólaréttina.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg í Selvogi.

Austurmörkin á Nesi lágu frá Þrívörðum við sjó, um Djúpudali og þaðan í Kálfahvamm í Geitfelli (Fálkaklett). Djúpudalaborgin er skammt frá mörkunum, vandlega hlaðin. Hana hefur átt að topphlaða, enda ber hún þess merki. Þessi fjárborg hefur að öllum líkindum þótt mikið og merkilegt mannvirki á sínum tíma, enda virðast menn hafa reynt að líka eftir henni annars staðar á landinu (sjá Þorbjarnastaðaborg).
NesDjúpudalir horfa mót suðri og eru mikil gróðurvin við efri brún sandflákana ofan við ströndina vestan Þorlákshafnar. Geldingahnappur, brönugrös, hvönn, bláklukka og fleiri villt blóm vaxa þar í hraunskjólunum. Bláberjalyngið er áberandi sem og kjarr og einir.
Allt land þarna fyrir vestan tilheyrði Nesi í Selvogi. Þar var, skv. jarðabók ÁM 1703, „jarðdýrleiki lx og so tíundast fjórum sinnum.“ Árið1397 var Mariukirkja í Nesi “…lofadur gropttur heimamönnum oc fátækum monnum. Árið 1508 hafði Þorvarður Erlendsson lögmaður til kaups við Kristínu Gottskálksdóttur Nes í Selvogi fyrir 60 hdr.

Nes

Jóhann Davíðsson með legstein úr Nesskirkjugarði.

Árið 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til neskirkiu.” Í desember 1525 lagði Erlendur Þorvarðsson Strönd og Nes í Selvogi “med þeim jordum sem þar til liggia” til kaups við Þórunni Stulladóttur og skyldi Þórunn vera helmingakona og hafa Nes fyrir 80 hdr og 40 kúgildi “nema hun villdi sialf helldur hafa jardernar Hlidarenda, Breidabolstad og Littllaland. allar fyrir lxxxxc.” 1595 er Grími Einarssyni dæmt Nes, 60 hdr, í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur föðurömmu sína. Búa í Nesi 2 Jónar, 2 Árnar, 2 Ormar, Hallur, Hróbjartur, Hafliði, Þorgeir, Einar, Sveinn og Gísli sbr. Sveitarbrag Jóns Jónssonar í Nesi.“

Nes

FERLIRsfélagar í Nesi.

Nes er austasta býli í Selvogi. Landamerki Ness að austanverðu, móti Þorlákshöfn og Hlíðarenda í Ölfusi eru þannig: Þrívörður, þrjár vörður á berginu milli Ness og Þorlákshafnar, þaðan í Dimmadalsklöpp á miðjum sandinum, og munu þar byrja mörkin móti Hlíðarendalandi; þaðan í Markhól í Djúpadalshrauni fyrir vestan Hlíðarendsfjallsenda, þaðan í Fálkaklett syðst í Geitafelli. Milli Ness og Bjarnastaða eru mörkin: Selós milli Selaskers og Stórhólms er fremsta mark, þaðan í Markasker, þaðan í garðsenda á kampinum milli túna Ness og Bjarnastaða, og þaðan í Unhól efst í túngarði, þaðan í Stóra-Hástein í Selvogsheiði fyrir neðan Hnúka, þaðan í Eystri-Kálfahvammsöxl í Geitafelli.

Selvogur

Selvogur – kort.

Neshverfi eða Nestorfa var sameiginlegt heiti á Nesi og hjáleigum þar. Einnig var hverfið nefnt Austurvogur eða Austurvogshverfi.“ Árið 1840 segir m.a. að “á öllum þessum bæjum [Nes og 11 hjáleigur] liggja túnin saman, og er hverfi þetta kallað Austurvogur. Fyrir framan túnin er sjávarkampurinn, snýr á móti hafútsuðri. Allar þessar jarðir eru undirorpnar grófum sandágangi, so tún verða þá kolsvört eftir hvört austan- land- og útnorðan stórviðri. Af þessari orsök hafa þær stórum spillst og spillast árlega nokkuð.” Bærinn að Nesi stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes.“

Nes

Nes – legsteinn í kirkjugarði við Nes.

Heimild er um kirkju, Maríukirkju, í Nesi, sem fyrr segir. “Glergluggar .iij. austann a kirkiunni. glitadur alltaradvukur .ij. handklædi.” Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla. Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu.“ FERLIR fann ekki fyrir löngu einn af þessum legsteinum, en aðrir höfðu verið fluttir á minjasafnið á Selfossi. Þessi eini legsteinn, er talinn hafa verið á leiði barns er dó úr svarta dauða og grafið var í kirkjugarðinum að Nesi, væntanlega með þeim síðustu er þar voru grafnir. Steinninn er enn við Nes og fær vonandi að vera þar um ókomna tíð.

Hellishæðahellir

Merkismenn við Hellishæðahelli.

Erlendur sterki er talinn hafa búið í Nesi og dó 1312. Járngerður, var Þórðardóttir Böðvarssonar og var kona Erlends, en Valgerður var dóttir þeirra og hefur Halfdan sennilega verið maður hennar. Finnur var sonur Bjarnar Hamra-Finnsonar, en Þóra hét systir Bjarna og var hún kona Þormóðs í Gufunesi. Það er óvíst að það sé sama Þóra og nefnd er í máld.
Erlingur Jonsson [sagdi] ad kirkian j Nesi skylldi eiga .vjc. j þwfulandi þar til sem hann leisti vr .ij. kugilldi .cc. vadmala .ijc. j vide. enn .xij. alnar fyrer .c. j leiguburd þar til sem leist er vr jordunni.
Í júlí 1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til Neskirkiu.” Kirkjan lögð niður í Nesi 1706.

Nessel

Nessel – skúti.

Gengið var inn fyrir girðingu og að litlum hraunhól þar. Hóllinn reyndist holur að innan með sandi í botni. Hann hefur áreiðanlega orðið einhverju gott skjól. Selið er skammt ofar. Megintóftin er í jarðfalli, sem líklega hefur verið reft yfir, en er nú fallið. Tóftir við selið benda til þess að það sé mjög gamalt. Í heimildum segir að „spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól (að vestan) eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu. Nessel er merkt norðan þjóðvegarins, en þar er samnefndur sumarbústaður.

Gengið var á fótinn, upp á Kvennagönguhól. Honum tengist þjóðsaga. „Suður frá þjóðveginum liggja suðurslakkar, allt að Kvennagönguhól, sem er grasi gróinn hraunhóll.”

Hellholt

Hellholt – uppdráttur ÓSÁ.

Jafnframt segir að “Kvenna-Gaungu-Hólar á Selvogs-Heidi í Árness Sýsslu þángad géngu í Papiskri Óld, aldradar og veikar Kvennpersónur úr Selvogi, til ad festa sión á Krossmarki þvi, sem upp var Fest á Kaldadar-Ness-Kyrkiu, og þókti sér batna ef séd féngu; Hólarner eru 2, skaparans, enn ei Manna verk.” Um nafnið Kvennagönguhóll er ýmsar sagnir, sem Gísli Sigurðsson tilfærir í sinni skrá, og kannast Eyþór við þær allar: 1. Í kaþólskri trú var kross einn mikill í landi Kaldaðarness. Konur í Selvogi gengu þá oft á hól þennan, horfú til krossins og gerðu bænir sína. 2. Mikið útrlði var í Selvogi. Þar gerði oft þau veður, að ekki var lendandi. Var þá hleypt austur í Þorlákshöfn. Tækist lendingin vel, var veifa dregin á stöng. Fóru konur úr Selvognum á Kvennagönguhól að sjá, hvort veifa væri á lofti og menn þeirra lentir heilu og höldnu. 3. Í fyrndinni bjó tröllkona í hólnum. Hún reri nökkva sínum úr Keflavík undir bjargi. Aflann bar hún heim og gerði að honum á Kvennagönguhólaflöt. Ekki hefur annað heyrzt, en hún hafi verið Selvogsingum góður nágranni.“

Hellishæðahellir

Hellishæðahellir.

Haldið var enn á fótinn með Hnúkana á hægri hönd. Smám saman lagðist Selvogsheiðin yfir hægri vænginn, en framundan er slétt afgirt tún efst á hæðinni. Þar á er gróinn hraunhóll; Hellisþúfa. “Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó. Ekkert vatn er þarna að hafa, það var sótt í belgjum í Flæðitjarnirnar niðri á Öldunum. Þetta var fyrir minni Eyþórs, en hann heyrði þetta sagt.“
Nú hallaði til vesturs. Gengið var að klöppinni Fótalaus ofan þjóðvegarins, skammt ofan við hrjálegan sumarbústað. Í örnefnalýsingu segir að „mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í [Stóra-Hásteini]. Þar við hann er klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns.“

Strandarhæð

Strandarhæð – Strandarborg.

Skammt neðar (suðvestar) er Imphólarétt. „Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin.“ Að sögn Þórðar Sveinssonar frá Bjargi í Selvogi er Imphólarétt 8-900 metrum suðsuðaustan litla Hásteins.
Önnur rétt er undir litla Hásteini. Þjóðvegurinn liggur í gegnum hana miðja, svo sem algengt er um fornminjar hér á landi. Kosturinn við það er að fólk þarf ekki að stíga út úr bílunum til að virða mannvirkið fyrir sér. Á móti kemur að sárafáir, sem aka um þjóðveginn, og í gegnum réttina, hafa hugmynd um að þarna hafi verið rétt með öllu sem réttum tilheyrir með réttu.
Útlit og stærð réttarinnar sést enn vel og hleðslur marka lögun hennar. Að sögn Þórðar var þessi rétt hlaðin af Þórðarkotsmönnum eftir 1950. Hún var notuð fyrir rúning og flutning á fé með bílum.
Leitað verður nánari upplýsinga, bæði um réttina undir Hásteinum og Imphólarétt, sem enn á eftir að skoða.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 11 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn

Imphólarétt

Imphólarétt.

Selvogur

Jökull Jakobsson segist svo frá Selvogi í Fálkanum í nóvembermánuði 1964:
„Dálítil þyrping húsa stendur þarna á yztu strönd, þar sem Atlantshafið beljar ár og síð. Hins vegar eru gróðurlitlir melar, holt og heiðaflákar, sandar og hraun unz landið að lokum rífur sig upp úr flatneskjunni og rís upp í fjallshlíð, þar eru útbrunnir gígar og fornar eldstöðvar, sums staðar hefur hraunelfurinn fossað niður hlíðina og storknað og minnir á vatnsfall, sem óvænt og skyndilega umbreytist i höggmynd.
Herdísarvík - uppdrátturÞjóðvegurinn hlykkjast um sandflæmi og nakin holt, yfirlætislaus og mjósleginn að sjá ofan af hlíðarbrúninni eins og Drottinn allsherjar hafi fyrir vangá misst þráðarspotta ofan í steypuna, meðan hún var að kólna. Eldurinn hefur mótað þetta land og loftið ekki látið sitt eftir liggja, hér gnauða lotulangir vindar úr norðri. Fjórða höfuðskepnan hefur í fullu tré við hinar, sjálft Atlantshafið sverfur ströndina látlaust og eilíflega, oft getur að líta brimrótið líkast hækkandi brekkum svo langt sem augað eygir, brimgnýrinn öskrar í eyru svo ekki heyrist mannsins mál, oft rísa einstakir strókar upp með skerjunum eins og tröllaukinn geysir hafi gengið af göflunum. Og hér var þó útræði fram eftir öllum öldum. Það fer fjarska lítið fyrir þessum fáu húsum sem kúra þarna yzt á ströndinni í fullkomnu trássi við höfuðskepnurnar, einhvern veginn finnst aðkomumanninum, að hér sé þeirra leikvangur en ekki manna.
Við erum stödd í Selvogi.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.
Hér má m.a sjá Fornagarð umlykja neðanverða byggðina.

Hér hefur verið byggð allt frá því norskir skattsvikarar tyggðu þetta land ásamt írskum þrælum, og því fer fjarri, að hér í Selvogi hafi þeir orðið að láta sér nægja að hokra, sem sem ekki tókst að ryðja lönd í breiðum dölum. Hér byggðu lögmenn og hirðstjórar fyrr á öldum og áttu þó völ á nafntoguðum höfuðbólum og kostaríkum héruðum sunnanlands og austan. í Selvogi hafði alþýða manna einnig nóg að bíta og brenna, þótt harðnaði í ári og kotbændur flosnuðu upp annars staðar ellegar bjuggu við sult og seyru, þegar harðindi og drepsóttir steðjuðu að.
— í Selvogi var alltaf hægt að lifa kóngalífi, sagði mér síðasti bóndinn í Herdísarvík, og þar er enn hægt að lifa kóngalífi, bætir hann við. Þó hefur Selvogur orðið að hlita þeim örlögum, sem dunið hafa á öðrum breiðari byggðum þessa lands undanfarna áratugi: fólki hefur fækkað svo nemur við landauðn og að sama skapi er kreppt að þeim, sem eftir eru. Selvogur hefur löngum verið talinn afskekkt sveit, en þó er þess að gæta, að fyrrum lá hún í þjóðbraut. Bændur af öllu Suðurlandi fóru skreiðarferðir í kaupstaðina suður með sjó, og þá lá leiðin um Selvog.

Hlíðarendi

Hlíðarendi 1898.

Á Hlíðarenda í Ölfusi var löggiltur áfangastaður, og þaðan var talin dagleið að næsta áfangastað, Bleiksmýri í Krýsuvík. Og eftir að hinn sögufrægi og umdeildi Krýsuvíkurvegur varð að veruleika, þarf ekki að kvarta undan einangrun í Selvogi, hvort sem farið er austur eða vestur, er ekki nema þriggja stundarfjórðunga akstur til höfuðstaðarins og eru þó ýmis kauptún nær: Hafnarfjörður, Selfoss, Þorlákshöfn, nú er jafnvel hægt að aka sem leið liggur í Grindavík meðfram ströndinni. Hér ættu því ekki að ríkja nein vandkvæði um aðdrætti. Þó hefur fólki fækað svo í hreppnum, að nú eru ekki eftir nema 40 manns og ungur þingmaður Árnessýslu hefur gert að tillögu sinni að sameina hreppinn Ölfushreppi.

Herfísarvík

Herdísarvík – jarðýtur tengja saman veggerðina frá Selfossi til Hafnarfjarðar 1948.

Ýmislegt er gert í því skyni að viðhalda jafnvægi í byggð landsins og stuðla að því að fólki þyki hag sínum betur borgið í heimasveit en á mölinni. Því þótti Selvogsbændum skjóta skökku við, þegar kaupfélagsstjórinn á Selfossi neitaði að sækja til þeirra mjólk, nema þeir hefðu minnst 70 kýr mjólkandi í fjósi. Taldi hann ekki borga sig að sækja mjólkina svo langan veg að öðrum kosti. Þó lét hann sækja mjólk á bæ, sem ekki er nema 14 kílómetra frá Selvogi, og fór því fjarri, að þar væru 70 kýr í fjósi. En Selvogsbændur neyddust til að bjarga sér sjálfir, þeir reyndu á tímabili að koma þar upp mjólkurbúi sjálfir, en reyndust of fáliðaðir. Nú byggist búskapur þeirra nær eingöngu á sauðfjárrækt, enda eru skilyrði til þess ákjósanleg og raunar óvíða á landinu betri. Ólafur Þorvaldsson bjó síðastur bænda í Herdísarvík, sat jörðina frá 1927 til 1933, en varð þá að standa upp fyrir eigandanum. Einari skáldi Benediktssyni.
Herdísarvík— í Herdísarvík var gott að búa, sagði Ólafur mér, það er frábær útbeitarjörð, ég hika ekki við að segja langbezta beitarjörðin á Suðurlandi. Það er ekki nóg með, að það sé allt þetta land, heldur fjaran líka, og þarna er engin flæðihætta. Að öðrum kosti hefði jörðin verið óbyggjanleg. Þá hefði þurft að parraka féð. Þarna voru slægjur engar, nema túnið, raunar voru þau tvö, eystra túnið gróið upp af sjófangi. Og útræði var í Herdísarvík allt frá fyrstu tíð og allar götur fram til 1922. Þar voru sjómenn í veri og þótti slíkt hagræði, að jafnvel Landeyingar sóttu þangað til sjóróðra. Árni sýslumaður Gíslason átti jafnan tvö skip í Herdísarvík, og var verstöð hans kölluð Krýsuvíkurbúð. En Árni sat í Krýsuvík, og þar er hann grafinn í að [baki] kirkju, raunar sá eini í kirkjugarðinum sem hvílir undir steini. Önnur leiði eru þar gróin og nafnlaus.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Í Herdísarvík er fremur veðursælt nema í norðanátt og þá getur orðið landbrim. Nú er Herdísarvík í eyði og þögnin geymir gömlu bæjarrústirnar við veginn, enginn dyttar lengur að grjótgarðinum, enda er hann víða hruninn og túnið í órækt. Þar stendur enn uppi baðstofa í gömlum stíl og önnur hús úr torfi, fjós, hlaða og fjárhús. Athygli vegfarandans beinist þó fyrst að einlyftu timburhúsi, sem stendur þar í túninu og horfir til sjávar, nú er búið að negla hlera fyrir alla glugga og dyrnar eru harðlæstar. Viðirnir í húsinu eru sorfnir vindum og veðri. Í þessu húsi bjó skáldið Einar Benediktsson síðustu æviár sín.
Maðurinn, sem þeytzt hafði milli heimsborganna, ort suður í Afríku drápur á íslenzku, selt norðurljósin og fossana, efnt til stórvirkjana og gullgraftrar, búið í glæstum salakynnum og umgengizt höfðingja og baróna, látið að sér kveða í landsmálum og stórpólitík og tekið þátt í kóngsveizlum, þessi maður hreiðraði um sig hér í litlu húsi fjarri mannabyggð, en aðra hönd var beljandi hafið og á hina eyðileg fjöll og firnindi.

Einar Benediktsson

Einar Benediktsson.

Þá var hann kominn að fótum fram þegar hann settist hér að, Elli kerling hafði komið honum á kné. Hugur hans, sem forðum hafði flogið um ómælisgeim í ljóðum og ræðu, var nú tekið svo að förla, að hann þekkti ekki lengur suma vini sína nema endrum og eins. Hlín Johnson tók að sér hið aldna skáld og hlúði að honum, þegar skáldið og heimurinn höfðu skilið að skiptum. Hér í Herdísarvík veitti hún gömlum manni aðhlynningu. Það sagði mér kunnugur maður, að stundum hefði mátt sjá Einar Benediktsson staulast út úr húsinu á góðviðrisdegi og ganga fram á tún. Þar settist hann niður og tók upp úr vasa sínum blað og blýant, páraði á blaðið örfá orð og tók sér svo langa hvíld. Síðan skrifaði hann kannski eitt orð í viðbót, og enn varð langt hlé: Úr þessu urðu aldrei annað en hálfkveðnar vísur, vísnabrot, ef til vill hálf hending. Síðan reis skáldið upp af túninu, hægt og seinlega og staulaðist til bæjar . . .
En hafið beljaði við ströndina eftir sem áður. Einar Benediktsson dó árið 1940 og arfleiddi Háskólann að hinu mikla bókasafni sínu og svo jörðinni Herdísarvík. Ef til vill verður þar hressingarheimili fyrir prófessora, þegar fram líða stundir. Tæplega verður fitjað þar upp á búskap að nýju.
StrandarkirkjaÞótt byggð dragist saman í Selvogi, hækkar vegur Strandakirkju með hverju ári. Enginn veit með vissu, hvenær fyrst var tekið að heita á Strandakirkju en hitt er víst, að alla tíð hefur hún þótt bregðast vel við áheitum. Sagnir herma, að hún hafi upprunalega verið byggð fyrir áheit. Íslenzkir farmenn á heimleið úr Noregi á skipi hlöðnu húsaviði villtust i hafi og fengu réttu stóra. Hrakti þá lengi og voru vistir þrotnar, en leki kominn að skipinu, og fengu þeir ekki lengur varizt áföllum. Þá gerði formaðurinn það heit, að þeir skyldu byggja kirkju úr farviðnum, ef þeim auðnaðist að ná landi. Og leið nú ekki á löngu, áður en þeir fengu landkenning af Selvogi, en þar var foráttubrim með allri ströndinni. Þá sjá þeir veru alskínandi bera yfir brimgarðinn og sigldu þangað. Þar var sund og sjólaust að kalla, og lentu þeir skipi sínu heilu og höldnu. Formaðurinn og hásetar hans létu ekki sitja við orðin tóm, heldur reistu kirkju á staðnum, en víkina kölluðu þeir Engilsvík, og heitir hún svo enn í dag.
Rekamark Strandakirkju er A eða Á og hafa því ýmsir leitt að því getum, að formaðurinn hafi heitið Árni og sumir jafnvel haldið því fram, að hér hafi verið á ferð Árni biskup Þorláksson, Staða Árni. En allt er á huldu um menn þessa og þjóðsagan ein til frásagnar.
Hins vegar eSelvogurr heitið á Strandakirkju enn í dag, ef mikið liggur við, enda er þessi fátæklega kirkja á eyðilegri strönd orðin ein auðugasta kirkja landsins. Á hún nú á fjórðu milljón króna í sjóði, og er það fé notað til kirkjubygginga víðsvegar um land. í Strandakirkju eru ýmsir góðir gripir, kaleikur úr pápísku og messuhökull ævaforn. Þar er altaristafla máluð af Sigurði málara. Strandakirkja var annexía frá Vogósum. Þar sátu nafnkunnir klerkar á öllum öldum, en þekktastur var þó séra Eiríkur, galdrameistarinn mikli og eru af honum miklar sögur. Séra Eiríkur beitti þó aldrei galdrakunnáttu sinni til illverka, en ýmsar glettur gerði hann þó pörupiltum og þjófum. Flestir munu kannast við söguna af piltunum, sem tóku hesta prestsins ófrjálsri hendi, en festust á baki þeirra, og tóku klárarnir sprettinn heim í hlað á Vogósum. Síðastur  klerka í Vogósum var séri Eggert Sigfússon. Hann lifði alla ævi ókvæntur og barnlaus og þótti sérvitur og smáskrítinn. Til dæmis kom hann aldrei á hestbak í ein 40 ár.

Eggert Sigfússon

Eggert Sigfússon á Fongötu vestan Vogsósa.

Á síðustu æviárum sínum flakkaði hann nokkuð um Árnessýslu og kom þá meðal annars að Kiðabergi í Grímsnesi. Þáði hann þar næturgreiða og kvaddi húsfreyju með þessum orðum um morguninn:
Skyrinu og grautnum skelf ég af,-
Brauðinu fæ ég brjótsviða af.
Lundabagginn of feitur.
Blóðmörinn of magur,
Svið vitið þér að ég vil ekki.
Og matarlaus má ég fara.
Séra Eggert fór jafnan fótgangandi, því ekki fékkst hann á hestbak eins og áður er getið. Nálægt Kiðabergi er lækur einn, og eru tvö skref yfir lækinn. Séra Eggert hafði einni skinnsokk sem hann braut saman og geymdi undir barðí við lækinn, fór hann í sokkinn þegar hann þurfti yfir, en skildi síðan sokkinn eftir þangað til næst hann þyrfti á að halda.
Eins og áður er getið, þótti Selvogur kostahérað mikið, enda bjuggu þar hirðstjórar og lögmenn og efldust til fjár og valda. Þar var gnótt sjávarfangs og annarra hlunninda eins og berlega kemur fram í vísu sem Vogsósaprestur einn orti fyrr á öldum þegar hann kvaddi héraðið sárum söknuði:
Sakna ég úr Selvogi
sauða minna og ánna,
silungs bæði og selveiði,
en sárast allra trjánna.
SelvogurEn ægilegur skaðvaldur átti eftir að eyða byggð í Selvogi, svo nærri stappaði, að hún lognaðist út af. Það var sandfok og uppblástur, sem fylgdi í kjölfar þess. Víðáttumikil graslendi urðu uppblástrinum að bráð, svo að til landauðnar horfði. Höfuðbólið Strönd lagðist í eyði og býli flest í kringum það, sumar hjáleigur þess tórðu þó. Nú er að mestu búið að hefta þetta gífurlega sandfok, en aldir munu renna, áður en jörðin er gróin sára sinna.
Annar óvinur var sífellt nálægur, sem þó um leið var lífgjafi byggðarinnar. Úr Selvogi var sjórinn sóttur af kappi, og til dæmis um það má nefna, að kringum 1770 gengu 50 skip úr Selvogi og Herdísarvík. Síðasta og mesta sjóslysið í Selvogi varð fyrir rúmri öld. Þá fórst Bjarni Pétursson bóndi í Nesi skammt undan lendingu ásamt hásetum sínum, þrettán að tölu. Í Þjóðólfi segir frá þessu slysi. Þar segir, að róið hafi verið í bezta veðri þann 19. marz og hafði verið setið stutta stund. Þá sjá þeir, er næstir voru landi, að blæjur eru dregnar upp til að vara róendur við því, að nú væri tekið að brima. Héldu menn nú að landi sem óðast. Allir í Vesturvognum náðu landi slysalaust, en úr Austurvognum engir. Hreppstjórinn kom fyrstur að sundi Austurvogsmanna, en sá sundið ófært og beið, ef hann sæi lag.

Selvogur

Mb. Vörður í fjörunni austan Nesvita í Selvogi.

Í sömu andrá kom Bjarni frá Nesi og stefndi á sundið, hreppstjórinn varaði hann við og fleiri á skipi hans. Bregzt hverjum á banadegi, því Bjarni lagði óhikað á sundið, en allt í einu reis ógurlegur sjór, er hraut allt skipið í spón og kastaðist marga faðma fram yfir það. Er aðrir á sjó sáu, hvernig komið var, sneru þeir frá og náðu landi í Þorlákshöfn, því veður var stillt og tóku þegar lendingu slysalaust, því engin mannleg hjálp var spöruð af þeim, er þar voru fyrir. Þá voru þar komin tólf skip af Stokkseyri og tvö af Eyrarbakka.
Hér verður þetta látið nægja sem dæmi þess, að sjósókn úr Selvogi var enginn barnaleikur, og varð þó minna um slys í þeirri verstöð en víða annars staðar á landinu. Hins vegar eru það ekki einvörðungu Selvogsmenn, sem hafa átt undir högg ægis að sækja á þessum slóðum. Aðkomin fiskiskip hafa oft strandað þarna, útlend jafnt sem innlend, togarar og flutningaskip,
því ströndin er hættuleg, og þarf ekki að spyrja um örlög þeirra skipa sem steyta á skeri undan Selvogi.
SelvogurOftast hefur þó giftusamlega tekizt um björgun áhafna, en einnig hafa orðið þar raunasögur.
Hér verður staðar numið og ekki sagt fleira frá þessu litla, en söguríka héraði við yzta haf. Þar sem áður bjuggu hirðstjórar og lögmenn á nafnfrægum höfuðbólum, eru nú aðeins eftir örfáir bændur og þrátt fyrir síma, véltækni, vegasamband og styrkjakerfi þykir örvænt um, að byggð haldist þar lengi enn. Þó skal engu u m það spáð hér, hver veit nema í náinni framtíð eflist Selvogur að nýju.
Jökull Jakobsson.“

Heimild:

-Fálkinn – Sakna ég úr Selvogi – Jökull Jakobsson – 44. tbl. 16. nóvember 1964, bls. 18-21 og 34-35.

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

Mosaskarðshellir

Fyrir ofan bæinn Herdísarvík er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás rétt ofan við fjörumörk austan Herdísarvíkur og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 2 km. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á hraunbrúninni ofan Breiðabásarkamps er Hellir eða Fjárhellir, þar leitaði fé sér skjóls oft og tíðum.“

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Þegar FERLIR hafði verið að leita að efra opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Vitað er um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í halla og einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu. Í ljós koma að hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra niður í hann, en best er að taka með stiga eða festa klifurlínu ef áhugi er á að komast upp aftur. Þegar fyrst var farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar sléttur steinn var tekinn og grafið með honum niður í brunann á gólfinu kom í ljós fyllt gjallhola syðst í henni. Eftir að gjallhaugnum var síðan mokað frá með hraunhellunni kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var niður, inn og upp aftur. Í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, glerjaðir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Rásin, rúmlega mannhæðar há, lá í vinstri boga niður á við uns hún endaði þar sem loft og gólf runnu saman í eitt. Þarna virtist enginn maður áður virtist hafa stigið niður fæti. Þetta var því um að ræða eiginlega „landnámsferð“. Hins vegar hafði lítill fugl einhvern veginn og einhvern tímann náð að komast þangað inn, en ekki út aftur. Morkin beinagrindin litla sagði sína sögu – sem og sögu svo margra annarra dýra, sem endað hafa líf sitt í dimmum skjólum, sbr. hreindýrskálfinn í Kúluhattshelli, kindina í Leiðarenda og refinn í Rebba. Þegar „landnámsmaðurinn“ leit litlu beinagrindina þarna augum í myrkri hraunrásinni varð honum að orði:

Hraun rann og fugl fann,
langa flóttaleið í myrkri.
Leiðina leyndu seinna rann,
maðurinn, sem fann hann.

Hafa ber í huga að þetta var ort í myrkri.

Mosaskardshellir

Í Mosaskarðshelli (BH).

Bjargarhellir

Gengið var um Strandarhæð ofan við Selvog. Á hæðinni eru nokkrir skútar og smáhellar, auk ýmissa mannvistaleifa. Má þar m.a. nefna Gapa, Strandarhelli og Bjargarhelli.
Selvogsheiði er mikil hraundyngja, sem byggst hefur upp snemma á nútíma. Hraunin hafa breiðst út til allra hliða. Dyngjan er hallalítil og hraunin hafa verið þunnfljótandi, enda er flatamál dyngjunnar um 50 ferkílómetrar.

Gapi-21

Gapi.

Út úr dyngjunni hafa miklar hraunár runnið neðanjarðar og komið upp úr hrauntjörnum, sem nefnast Hellishæð, Vörðufell og Strandarhæð. Á þessa þrjá gíga lítur Jón Jónsson sem aukagíga frá Selvogsheiði, en ekki sem sjálfstæð eldvörp. Telur Jón líklegt að stórir og miklir hellar liggi frá Selvogsheiði og niður að þessum þrem eldvörpum.
Í örnefnaslýsingu fyrir bæi í Selvogi segir m.a. 1840 að “í Selvogsheiði eru 3 hellrar: … Gapi, tekur 60 kindur …” Fjárskjólið tilheyrði Þorkelsgerði. Fyrir framan það er hlaðinn stekkur; Gapastekkur. Mold er í botni fjárhellisins og bein á stangli. Nafnið er sennilega tilkomið vegna þess að opið gapir á móti þeim, sem það nálgast úr suðri, í átt frá Selvogi. Í örnefnaslýsingunni er einnig kveðið á um Gapstekk: „Við ferðamannaveginn sem lá vestur yfir Víðasand og til Herdísarvíkur, er hellir, sem heitir Gapi og var fjárhellir. Við Gapa er Gapastekkur. Þar var rekið að haust og vor úr Útvogi.“

Bjargarhellir

Innan við op Bjargarhellis.

Haldið var til austurs inn á hæðina, að Strandarhelli. Í sömu heimild frá 1840 er kveðið á um fjárskýli í hellinum. Þar segir að Strandarhellir, sem nú er í Eimulandi, hafi verið rúmgóður… Það var góður fjárhellir, tók um 200 fjár.“ Hellirnn er í stóru grónu jarðfalli. Inni í fjárskjólinu eru fyrirhleðslur. Sagnir eru og um göng úr hellinum upp í Hlíðarendahelli undir Hellisbjörgum, en engin slík hafa fundist þrátt fyrir talsverða leit.
Nafngiftin Strandarhellir kemur víða við í rituðum heimildum og yfirleitt er talað um hann í lotningu eins og þar fari einn af stærstu hraunhellum landsins.

Bjargarhellir

Í Bjargarhelli.

Bjargarhellir er sunnan Strandarhellis. Í örnefnalýsingunni frá 1840 segir að Bjargarhellir rúmi 200 fjár…” Fjárskjólið tilheyrði Nesi, austast í Selvogi, miðað við örnefnalýsinguna, en á milli þess og t.d. Nessels undir Hnúkum er allnokkur vegalengd og skera t.d. lönd Eimu, Þorkelsgerðis og Bjarnastaða það svæði.
Jón Vestmann (1769-1959), prestur í Selvogi á árunum 811-1942, nefnir Bjargarhelli er hann svarar spurningum Hins íslenska bókmenntafélags um hella í Selvogsþingi. Jón segir Bjargarhelli álíka stóran og Strandarhelli, sem Jón segir taka 200 fjár.

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Engar fornleifar frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafa komið í ljós í Selvogi. Erfitt er að spá um upphaf byggðar í Selvogi vegna hinna miklu landspjalla sem þar hafa orðið síðustu aldir. Þar virðast hafa verið tvö hverfi, í kringum Nes og Strönd, og þéttbýli mikið, svo að tún flestra eða allra jarðanna lágu saman. Í kringum Hlíðarvatn og í Herdísarvík eru svo stakar meðaljarðir sem sennilega hafa byggst ívið seinna en býli í Strandar- og Neshverfum.

Hlíðardalur

Tóft Erlends í Hlíðardal.

Á 11. öld reistu efnaðri bændur og höfðingjar kirkjur og bænhús á jörðum sínum, t.d. á Nesi og Strönd. Aðeins er vitað um eitt bænhús, í Herdísarvík, en líklegt má telja að þau hafi verið víðar. Kirkjurnar sem vitað er um eru á öllum dýrustu jörðunum og eru einnig með nokkuð jöfnu millibili en miðað við fjölda býla eru tiltölulega fáar kirkjur í kringum. Í kringum 1000 bjuggu höfðingjar á Hjalla, Þóroddur goði og sonur hans Skapti lögsögumaður, sem samkvæmt Ara fróða var mesti áhrifamaður á Íslandi í byrjun 11. aldar. Þess hefur verið getið til að undir lok 13. aldar hafi Nes í Selvogi orðið bústaður höfðingja. Maður að nafni Finnur Bjarnason byggði þar nýja kirkju á seinni hluta 13. aldar og var hann af höfðingjaættum: Eftir hann bjó í Nesi Erlendur sterki Ólafsson (d. 1312), faðir Hauks lögmanns og bókagerðarmanns. Það að Erlendur hafi valið sér Nes til bústaðar hefur verið tekið til marks um aukið mikilvægi sjávarútvegs frá því um 1300 – að höfðingjar hafi þá kosið frekar að búa við sjávarsíðuna til að geta auðgast á sjávarfangi en í miðju fjölbyggðra landbúnaðarhéraða. Næsta lítið er vitað um byggð í Selvogi á síðmiðöldum.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Margra jarða í Ölfusi er hvergi getið í skjölum fyrr en í jarðabókum 17. aldar og er það óvenjulegt. Skýringin gæti legið í því að mjög margar af jörðunum í Ölfusi, einkum um austanverða sveitina, hafi snemma komist undir Skálholtskirkju – mögulega þegar á 12. eða 13. öld, en jarðabækur stólsins frá miðöldum hafa ekki varðveist. 16. öldin var einskonar blómaskeið Selvogs. Þá bjuggu þar stórhöfðingjar áratugum saman, einkum í Selvogi, og mjög mikið fer fyrir útgerð Skálholtsbiskupa frá Þorlákshöfn, Selvogi og Herdísarvík í skjölum frá þessum tíma. Byggð í Selvogi fór hinsvegar mjög hnignandi í kjölfar 17. aldar. Þar eyddist land vegna sandfoks, tún Strandar og nærliggjandi jarða voru smátt og smátt beinlínis kaffærð í sandi og var öll byggð eydd í Strandarhverfi um 1750.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.
Hér má m.a sjá Fornagarð umlykja neðanverða byggðina.

Í Jarðabók Árna og Páls sem tekin var saman á árunum 1706 og 1708 á þessu svæði er víða getið um hjáleigur og afbýli sem höfðu byggst á seinni hluta 17. aldar. Margar fóru fljótlega í eyði aftur í harðindunum um 1700 eða í kjölfar Stórubólu 1707 en önnur héldust í byggð. Engar heimildir eru til sem gefa ástæðu til að ætla að fyrir utan byggðaeyðingu í Selvogi hafi orðið neinar verulegar breytingar í skipulagi byggðar í Ölfusi eða Selvogi fyrr en á þessari [20.] öld.

Heimildir m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra/fornleifaskra_eima.htm
-Hraunhellar á Íslandi – Björn Hróarsson.

Strandarhaed-30

Rebbi

Gengið frá námusvæði norðaustan Herdísarvíkur, við gömlu sauðfjárveikigirðinguna neðan Herdísarvíkrfjalls, upp eftir hrauninu, upp Mosaskarð með viðkomu í nýlega fundnum helli niður í gasuppstreymsirás þar sem lítil fuglsbeinagrind sagði ævisögu hans síðustu dagana fyrir alllöngu síðan, upp skarðið og um hellasvæðið ofan Stakkavíkurfjalls, áfram yfir djúpt mosahraun ofan Nátthagaskarðs, sem runnið hefur úr Draugahlíðagígnum, og yfir í Stakkavíkursel. Stakkavíkurselsstígur og Selstígur voru gengnir til baka niður af fjallsbrúnunum með viðkomu í Svelti og Píni.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli.

Fyrir ofan bæinn er Herdísarvíkurfjall (329 m y.s.), hömrum girt á kafla, en annars staðar hafa hraunfossar fallið fram af því og alla leið til sjávar. Sagt er að hraunið neðan skarðsins, austan Herdísarvíkur, geymi m.a. Breiðabáshelli, sem ná á úr Breiðabás og alla leið upp í mitt Mosaskarð, ca. 1-2 km.
Þegar FERLIR hafði verið að leita að opi Breiðabáshellis í Mosaskarði uppgötvaðist gat í gasrás í miðju skarðinu. Var jafnvel um tíma talið að þar væri nú opið loksins komið. Ekki er vitað um marga hraunhella á Íslandi sem myndast í miklum halla, en einn slíkur er þessi í Mosaskarðinu.

Mosaskarðshellir

Í Mosaskarðshelli fyrsta sinni.

Það þætti ekki gott til frásagnar í dag, en FERLIRsfélaginn, sem að þessu sinni fetaði sig niður í hraunrásaropið og las jarðveginn að þarna kynni að leynast rás í lítilli hvylft. Tók hann flata steinhellu og byrjaði að grafa. Í ljós komu nægilega rúm göng er gætu leyft óljósa inngöngu. Skreið félaginn á maganum niður á við stutta stund, en síðan opnuðust göngin framundan. Eftir að hafa skriðið upp úr þrengslunum komu í ljós fagurlituð bogadregin göng er enduðu eftir skamman veg. Þótti honum athyglisvert að inni í þessum lokuðu göngum leyndist beinagrind af fugli.
Þegar út var komið rann upp fyrir félaganum sú staðreynd að hann hefði aldrei átt að fara niður og inn í göngin án aðstoðar; hvað  hefði t.d. gerst ef hann hefði lokast þarna inni??!!

Stakkavíkuselsstígur

Stakkavíkurselsstígur.

Hellirinn sjálfur er stuttur, nokkrir tugir metra, en hraunrásin sjálf er mjög falleg og lögun hennar einstök. Hægt er að klifra ofan í hann, en best er að taka með stiga eða klifurlínu. Fyrst þegar farið var niður virtist þetta einungis vera rúmgóð rás, en þegar grafið var í holu syðst í henni og gjallhaug mokað frá með hraunhellu kom í ljós framhald á rásinni. Skriðið var inn og í ljós kom þessi fallega bogadregna hraunrás. Veggirnir eru nokkuð sléttir, fjólubláir að lit, og gólfið slétt. Þarna hafði enginn maður áður stigið fæti. Hins vegar hafði lítill fugl komist þangað inn, en ekki komist út aftur. Beinagrindin sagði sína sögu.

Ofan við skarið er Brúnahellir og síðan tekur hver hellirnn við af öðrum austan við skarðið.

Rebbi

Beinagrind af rebba innan við op Rebba.

Má þar nefna Rebba, Stakkavíkurhelli – Annar í aðventu og Nátthaga.
Kíkt var inn í Rebba, en til þess að skoða þann helli að einhverju ráði þarf góðan tíma. Nátthagi er langur og rúmgóður með fallegum hraunmyndunum, en einnig þarf að gefa honum góðan tíma ef skoða á hann allan.
Mikið mosahraun er ofan og austan við Nátthaga. Það er mjög erfitt yfirferðar, en með smá útsjónarsemi og tiltekin stefnumið er gefa til kynna stystu leið yfir það getur gangan tekið u.þ.b. 40 mínútur.

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli.

Þá er komið inn á Stakkavíkurselstíg. Honum var fylgt spölkorn til norðurs, en síðan vikið út af honum neðan við Stakkavíkursel. Það var skoðað og síðan haldið áfram og beygt austan hraunrandar áleiðis niður að Stakkavíkurfjalli. Þar neðst í hrauninu eru hellarnir Sveltir og Pínir. Um er að ræða jarðföll í hrauninu, sem nefnd voru svo þar sem kindur vildu rata þangað niður, en urðu til þar því þær komust ekki upp aftur.

Mosaskarð

Mosaskarð ofan Herdísarvíkur.

Gengið var vestur ofan við brún fjallsins. Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir að „Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu”. Gengið var yfir á Selstíginn og honum fylgt niður á þjóðveginn.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavíkursel

Stakkavíkursel.