Tag Archive for: Ölfus

Heiðarvegur

Gengið var frá Bláfjöllum í vesturátt. Eftir að hafa gengið tæpan kílómetra á helluhrauni og á jeppaslóð, var komið að hraunhól sem á var varða.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Sprunga er í hólnum með gras í botni og líklega gott skjól í henni. Að vestan er líkt og dyraop og er hægtað ganga á jafnsléttu inn í sprunguna. Punktur tekinn. Áfram var gengið í vesturátt í stefnu á Grindaskörð, á helluhrauni nokkuð grónu, með leirsléttum. Á vinstri hönd er eldborg og gróft hraun í kring, á hægri hönd er Strompahraunið og er um 300 metrar á milli hraunanna. Að gengnum 1.655 metrum (í beina loftlínu) var komið að tveimur vörðum sín á hvorum hólnum og er slakki á milli hólanna. Greinileg gata var á milli hólanna. Þegar horft var til baka sást á áframhaldandi vörðu í austurátt. Á leiðinni eftir jeppaslóðinni, var varðaða leiðin á vinstri hönd suður). Varða er einnig sjáanleg héðan í vestur átt og voru tekin hnit á hana. Næsta varða þar á eftir er að mestu hrunin en sést þó enn.

Heiðarvegur

Heiðarvegur.

Komið var að hraunbrún. Framundan er úfnara hraun, en mjög stutt er yfir það að hlíðum (Stórkonufells?). Í suður í átt að Litla-Kóngsfelli og var stæðileg varða í þá áttina. Hún gæti verið við vegamót. Önnur leiðin liggur þá suður með hraunbrúninni og suður fyrir Stórkonugjá við Litla-Kóngsfell og hin leiðin liggur áfram í stefnu yfir hraunhaftið.

Gengið var áfram í sömu stefnu yfir hraunhaftið, nokkra tugi metra og kom á Reykjaveginn við hlíðar Stórkonufells og síðan yfir nyrðri enda Stórkonugjár og er greinileg gata þar og nokkuð breið. (Reykjavegurinn stefnir vestur yfir og suður með Stórkonugjá í stefnu á veg í Kerlingaskarð). Síðan var gengið norðvestur með hlíðunum í átt að skarðinu norðan við Stórabolla.
Þegar komið er að þar sem farið er upp í skarðið norðan við Stórabolla er myndarleg varða þar, niður undir jafnsléttu og hálfhruninn varða er rétt þar neðar í stefnu á hraunbrún á hrauninu sem er sunnan við bollana. Þegar horft er úr brekkunni undir Stórabolla og vörðurnar bera hver í aðra, má sjá góðan veg með hraunbrúninni.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – varða.

Þegar komið var neðarlega í brekkurnar norðan skarðs og gengið eftir jeppaslóða, var fyrir varða í 336 m hæð. Punktur tekinn.
Neðst í brekkunum komu saman jeppaslóðinn og reiðvegur og eða fjárgata í 276 metra hæð. Þegar gengið var áfram með hlíðum undir Kristjánsdalahorni, sást greinileg gata upp og bak við smá hnjúk sem sker sig frá fjalllendinu. Þegar komið var norður fyrir hnjúkinn sást gatan greinilega þar sem hún skáskar brekkuna niður á jafnsléttu. Neðar eru vatnsstæði.
Aftur var farið upp að Bláfjöllum og gengið frá þeim í suður. Eftir að hafa gengið um 800 metra frá horninu, var komið að vörðu. Þaðan var gengið í norðvestur og eftir að hafa gengið um 500 metra sást hraunhóll og var steinn á toppi hans.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – vörður.

Hóllinn er holur að innan og er þar sæmilegur skúti og geta nokkrir menn haft þar skjól. Svo virðist sem brotið hafi verið úr munanum niður við jörð og er hægt að ganga inn líkt og um dyraop. Punktur tekinn. Skúti þessi er í beinni línu við næstu vörðu sem komið var að. Um 500 metrar eru frá skútanum að henni. Vestan við vörðuna er grasivaxin dæld og þegar horft er í norðvestur á næstu vörðu blasir við greinileg gata í grasinu, nokkra tugi metra. Þessi gata er ekki fjárgata, einn og hálfur til tveir metrar á breidd þar sem hún er breiðust.

Heiðavegur

Varða á Heiðarveginum.

Síðan var gengið að næstu vörðu sem blasti við. Eru um 220 metrar að henni. Hæð y.s.m. eru 515 m. Þegar nær var komið sást að vörðurnar eru tvær. Sú sem fyrr er komið að, er hálf hruninn en nokkrum metrum frá er stæðileg varða. Vörðurnar eiga líklega að bera hvor í aðra til að fá stefnu á næstu vörðu. (Eða að vísa á sprungna hraunhólinn með vörðunni sem sást í fyrri ferð í um 20-30 metra fjarlægð).
Ekki sást til næstu vörðu í norðvestur eða vesturátt en í vestur er varða sem áður hafði verið komið að og er um 1.600 metrar í hana. Enn styttra er að aðra vörðuna.

Heiðarvegur

Heiðarvegur – Geitafell fjær.

Hér er ágætis útsýni yfir landið frammundan, það fer lækkandi í norðvestur og vestur og er vegur ágætur um helluhraun.
Í vestur er nokkuð stór nafnlaus eldborg sem áður er getið með grófu hrauni umhverfis en hraunið úr henni nær ekki langt norður fyrir hana. Heiðarvegurinn liggur því norðan við eldborgina, um nokkurskonar hlið á milli úfinna hrauna.
Því miður var ekki hægt að skoða meira í bili en klára þarf að staðsetja vörður á 1.600 metra kafla og athuga hvort gatan greinist austan við Stórkonugjá. Þá er eftir að staðsetja vörður austur um heiðina niður Hrossahryggi eða um Guðrúnarbotna að Ólafsskarðsvegi.
Frábært veður í frábæru landslagi.

Heiðarvegur

Varða á Heiðarveginum – Geitafell framundan.

Strandarkirkja

Sveinn Sigurðsson fjallaði um heimsókn í Selvog í Eimreiðinni árið 1948 undir fyrirsögninni „Heimsókn á helgan stað“.
Strandarkirkja-251„Helgisögnin um verndarengil sjómannanna, þann er birtist á ströndinni í Selvogi, er ævagömul. Enginn veit, hve gömul hún er. En eina dimma ofviðrisnótt á hafinu rak skip fyrir stormi og stórsjó upp að þessari strönd. Skipverjar vissu ekki, hvar þeir voru, en þeir treystu guði og báðu hann verndar, í skilyrðislausu trúnaðartrausti, eins og börn. Foringinn hét að láta reisa þar kirkju sem þá bæri að landi, ef þeir fengju að halda lífi. Og sjá! Framundan rofaði til, frá einhverri annarlegri og undursamlegri birtu. Þeir sáu land fyrir stafni. Og engill stóð á ströndu í ljómandi birtu þess bliks, sem af honum stafaði. Það blik vísaði sjómönnunum leiðina gegnum brim og boða — og þeir komust heilu og höldnu til lands. En á hólnum ofan við víkina, þar sem engillinn birtist, var síðan reist kirkjan til dýrðar honum, sem leitt hafði sjómennina hrjáðu og hröktu heila að landi — og í þakklætisskyni fyrir bænheyrsluna og verndina. En víkin, þar sem bjarta veran birtist, neðan Strandarkirkju, heitir síðan Engilsvík.
Strandarkirkja-552Eitthvað á þessa leið er helgisögnin um það, hvernig Strandarkirkja í Selvogi varð til. Um aldir hefur verið heitið á þessa kirkju, þegar hætta var á ferðum. Þau áheit voru og eru gerð af farmönnum og fiskimönnum, sem um höfin fara, og einnig af öðrum, sem á landi lifa og sjaldan eða aldrei koma á sjó. Menn og konur úr öllum stéttum heita á Strandarkirkju. Og mjög er sú trú útbreidd og almenn, að gott sé á hana að heita. Enda nema áheitin orðið mikilli upphæð á íslenzkan mælikvarða. Og nú er Strandarkirkjuhóllinn að verða fjölsóttur staður. Menn fara þangað pílagrímsferðir á öllum árstímum, en einkum þó á sumrin. Og þær ferðir munu aukast mjög, þegar vegurinn um Krýsuvík og Selvog er fullgerður.
Ég kom í Strandarkirkju 8. ágúst, á þessu sumri, í fyrsta sinn. Við vorum sjö í hóp — og veðrið var fagurt. Einn úr hópnum var fæddur á Vogsósum og hafði alizt þar upp bernskuárin, en farið ungur utan og ekki vitjað þessara bernskustöðva í hálfa öld — fyrr en nú. Ferðin varð honum því sannnefnd pílagrímsför — en okkur hinum einnig. Það varð ekki komizt hjá því, að Við yrðum þess vör, er við nálguðumst hólinn, þar sem kirkjan stendur hvít og látlaus — og einmanaleg, — að við vorum að koma á helgan stað. Og þegar inn í kirkjuna kom, varð þessi helgikennd enn ákveðnari. Strandarkirkja-553
Altaristaflan í Strandarkirkju er eftirmynd altaristöflunnar í Reykjavíkurdómkirkju, og stendur á henni ártalið 1865. Í horni töflunnar standa stafirnir S. G., en Sigurður Guðmundsson málari gerði myndina. Á silfurskjöld, sem festur er á umgerð myndarinnar, standa þessi orð á latínu: »Sit tibi nomen Jesu pectori infixum“, að því er bezt varð séð, e n letrið er ekki vel skýrt. Sé rétt lesið, myndu orðin út leggjast eitthvað á þessa leið: „Nafn Jesú sé greypt í brjóst þér “ eða „nafn Jesú sé þér fast í huga“. Er taflan falleg, þó að myndin sé ekki tiltakanlega vel máluð, enda ef til vill eitthvað máð af raka, sem gætir nokkuð í kirkjunni, svo sem bezt mátti sjá í gluggakistúm. Á kirkjulofti fundum við gamla hreppsnefndargerðabók frá árunum 1885—’89, með margskonar fróðleik, og ætti bók sú heima Þjóðskjalasafninu, og verður vafalaust þangað send úr kirkjunni áður en langt um líður. Þá höfðu og leiðin í kirkjugarðimim á hólnum, þar sem kirkjan stendur, sína sögu að segja, þó að leiðarvísar um þau væru alltof fáir.
Bílvegurinn í Selvog, um Ölfus og vestur Selvogsheiði, var greiðfær í sumar nema síðasti kaflinn, stuttur spölur, sem vafalaust verður fullgerður á þessu hausti. Frá endimörkum vegarins á Nesi er aðeins um tíu mínútna gangur að Strandarkirkju. Heim að Vogsósum er einnig bílfært svo að segja alla leið. Bærinn stendur við Hlíðarvatn og ósinn, sem skiptir sveitinni í tvennt. Vestan óssins og vatnsins, yzt í sveitinni, er hið forna stórbýli Herdísarvík, þar sem Einar skáld Benediktsson lifði síðustu ár ævi sinnar. Austan óssins og vatnsins stendur Vogsósabærinn og byggðin á Strönd og Nesi. Frá Vogsósum séð ber Strandarkirkju við hafsbrún í suðri. Þar stendur hún hvítmáluð og snotur til að sjá, en eyðisandar umhverfis, sem nú hafa verið græddir upp að nokkru fyrir fé úr hennar eigin sjóði, hinum langstærsta, sem til er í eigu nokkurrar einnar kirkju á landinu. Sjóður þessi nemur nú um 600 þúsund krónum. Svo er áheitunum fyrir að þakka.
Hlidarvatn-221Silungsveiði var mikil í Hlíðarvatni áður fyrr — og fuglalíf- varp var þar í hólma til skamms tíma, og sagði okkur bóndinn á Vogsósum, að fyrir ári síðan hefðu í hólmanum verið mörg æðarhreiður. En í vor, þegar gætt var í hólmann, sást þar ekki einn einasti fugl á lífi. Afklipptir vængir, fuglshausar og -lappir lágu þar á víð og dreif. Hefur minkur grandað fuglinum og lagt varpið í auðn. Sömu söguna er allsstaðar að heyra af þeim vágesti, þar sem hann hefur náð að setjast að villtur og auka kyn sitt.
„Þórir haustmyrkur nam Selvog og Krýsuvík, en Heggur, sonur hans, bjó að Vogi“, segir í Landnámu. Ýmsar ósamhljóða sagnir eru til um það, hvenær kirkja var fyrst sett á Strönd. Ein sögnin er sú, að Gizur hvíti hafi fyrstur reist þar kirkju, samkvæmt heiti, er hann vann í sjávarháska um að gera þar kirkju sem hann næði landi heill á húfi. önnur sögn er, að kirkjan á Strönd hafi fyrst verið reist í tíð Árna biskups Þorlákssonar (Staða-Árna, 1269—1298), og vegna áheita skipbrotsmanna, sem náðu landi í Selvogi að tilvísan hvítklædds manns, er stóð á ströndu og benti þeim réttu leiðina í land. Segja sumar sagnir, að formaður skipbrotsmanna hafi verið Árni biskup Þorláksson sjálfur. Sagan er ekki líkleg, því á dögum Staða-Árna átti Erlendur lögmaður sterki Ólafsson Strönd, ásamt fleiri jörðum í Selvogi, og er ósennilegt að þeir hafi átt nokkra samvinnu um að reisa þar kirkju, þar sem þeir voru andstæðingar miklir í staðamálum. Enda er til vitnisburður Þorbjarnar Högnasonar, út gefinn á Strönd 13. maí 1367, fyrir því, að kirkja muni hafa verið sett þar fyrir löngu. Segist Þorbjörn fyrir 60 vetrum og áður oft hafa lesið og heyrt lesinn máldaga Strandarkirkju, sem hafi þá verið orðin svo rík, að hún átti 30 hundraða í heimalandi og „alla veiði i fuglbergi“, o. fl. Vel má vera, að upphaf Strandarkirkju sé að rekja alla leið til papa, þó að ekki verði nú færðar sönnur á þá tilgátu.
Selvogur-551Jörðin Strönd var í fjórar aldir, eða frá 1300 og fram um 1700, eitt af höfuðbólum sömu höfðingjaættarinnar. Var það ætt Erlends lögmanns sterka, en hann andaðist árið 1312, og er að líkindum grafinn á Strönd. Einn afkomenda hans og þeirra aðsópsmestur var Erlendur, lögmaður sunnan og austan, Þorvarðarson. Hann varð lögmaður 1521, rak stórbú á Strönd, bjó þar sjálfur öðru hvoru, lézt þar árið 1575 og er grafinn í Strandarkirkjugarði. Byggð var fjölmenn í Selvogi um margar aldir. Á árunum 1677—1680 eru þar 42 búendur, en eftir 1700 tekur heldur að fækka fólki þar. Séra Eiríkur á Vogsósum, hinn fjölkunnugi, Magnússon, var þar prestur frá 1667—1716, og hafa sögurnar um hann gert garðinn frægan. Um annan Vogsósaklerk, sem uppi var löngu síðar, séra Eggert Vigfússon (1840—1908), eru og ýmsar sögur, þó 30 ekki væri hann fjölkunnugur talinn sem séra Eiríkur, fyrirrennari hans.
Fyrstu skjalfestu sannanirnar fyrir því, að mjög snemma á öldinni hafi verið tekið að heita á Strandarkirkju, eru í Vilchinsmáldaga frá 1397. Þar er tekið fram, að Halla Jónsdóttir hafi gefið kirkjunni „tvö hundruð og fimm aura fyrir skreiðartíund, sérdeilis fyrir heitfiska, svo margir sem þeir verða“. Elzta lýsing á kirkjunni, sem nú er til, er frá dögum Odds biskups Einarssonar, eftir að Grímur Einarsson hafði látið byggja hana upp árið 1624. Árið 1696 leggst jörðin Strönd í eyði, en kirkjan stóð ein eftir á sandinum. Árið 1703 skipar Jón biskup Vídalín að byggja upp kirkjuna, sem orðin sé þá hrörleg mjög. Frá vísitazíuferð Jóns biskups Árnasonar til Strandarkirkju, 15. júní 1736, er til lýsing hans á kirkjunni, þá nýlega endurbyggðri. Sjálfur verður Jón biskup eigandi jarðarinnar Strönd um þessar mundir. En með gjafabréfi ekkju hans frá 15. júlí 1749 er Strönd gerð að ævinlegu „beneficio“ Selvogsprestum til uppeldis.
Strandarkirkja-555Oft hafa verið gerðar tilraunir til að fá kirkjuna flutta frá Strönd, en allar hafa þær tilraunir mistekizt. Um miðja 18. öld verður séra Einar Jónsson prestur í Selvogsþingum. Vill hann láta flytja kirkjuna og ritar um það bréf Pingel amtmanni og Ólafi biskupi Gíslasyni. Í bréfinu, sem er sent með vilja og vitund Illuga prófasts Jónssonar, lýsir séra Einar því, hversu óheppilegt sé að hafa kirkjuna þar sem hún stendur, á eyðisandi og langt frá bæjum. Féllust ráðamenn algerlega á tillögu Einars um að láta flytja kirkjuna, og skipaði biskup svo fyrir, að verkið skyldi hafið vorið 1752. En hér fór öðruvísi en ætlað var. Séra Einar flosnaði upp frá prestsskap, biskup lifði stutt eftir að hann hafði fyrirskipað kirkjuflutninginn, Illugi prófastur Jónsson, sem mælt hafði eindregið með flutningunum við biskup, lézt skömmu síðar — og Pingel amtmaður missti embættið vegna vanskila 8. maí 1752. Allir þeir, sem að því unnu að fá kirkjuna flutta, urðu þannig í vitund almennings fyrir refsivendi máttarvaldanna, en kirkjan stóð sem áður óhagganleg á Strandarsandi. Aftur átti að flytja kirkjuna að boði Finns biskups sumarið 1756, en úr framkvæmdum varð aldrei neitt. Aftur á móti var gert við kirkjuna, þar sem hun stóð, bæði 1758 og aftur 1763. Þannig var haldið áfram að halda kirkjunni við á sama staðnum, því sóknarmenn vildu ekki hlýðnast skipunum valdamanna um að færa hana úr stað. Stóð sama kirkjan á Strönd, með mörgum umbótum, í 113 ár, frá 1735 og til 1848, að séra Þorsteinn Jónsson lét rífa hana og reisa timburkirkju í staðinn.
Eftir það hættu allar tilraunir til að Strandarkirkja-556láta flytja kirkjuna, enda höfðu þær jafnan mistekizt. Með flestum menningarþjóðum mundi fornfrægt guðshús sem Strandarkirkja vera undir stöðugri gæzlu kirkjuvarðar og kirkjunni haldið sem bezt við, en þess þó jafnframt gætt að varðveita sem bezt gömul einkenni hennar. Hvergi er önnur eins vernd um þjóðfræga staði og sagnríka sem í Englandi. Slíkir staðir eru í opinberri gæzlu, og allt er gert til að friða um þá og varðveita frá glötun. Í Westminster Abbey eru verðir þann tíma, sem kirkjan er opin almenningi, en það er venjulega frá kl. 10—6 daglega. Þessi fræga kirkja, full af sögulegum minjum, er talin upp runnin frá aldamótunum 500—600 e. Kr. Helgisögn er til um það, að sjálfur Pétur postuli hafi vígt hina fyrstu kirkju þarna á Tempsároakkanum, þar sem Westminster Abbey nú stendur. St. Páls dómkirkjan í London er opin almenningi daglega, en leiðsögu veita verðir, ef óskað er. Sagan segir, að Díönuhof hafi verið á staðnum löngu áður en kristnin kom til sögunnar. En snemma a 7. öld lætur Aðalbert konungur í Kent reisa þarna guðsbús, og til þeirra tíma er rakinn uppruni kirkjunnar. Í báðum þessum kirkjum eru varðveittar leifar margra beztu sona þjóðarinnar og minningar um þá.
Kirkjugarðurinn umhverfis Strandarkirkju geymir leifar margra merkismanna, svo sem Erlends lögmanns og Eiríks prests hins fróða, sem einna vinsælastur mun, úr þjóðsögum, allra íslenzkra kunnáttumanna fyrr og síðar. Litlar eða engar upplýsingar eru nú til um legstaði merkra manna í garðinum. Kirkjan sjálf er að vísu snotur, bæði innan og utan, en henni mætti halda betur við. Gluggakistur eru votar af sagga, og málningu þyrfti að endurnýja. Ýmislegt mætti gera til að auka prýði kirkjunnar og umhverfis hennar. Einnig þyrfti að koma fyrir í kirkjudyrum áheitaskríni, hvar í menn gætu lagt skerfi sína án þess að þurfa að leita uppi hlutaðeigandi kirkjuyfirvöld. Því áheitin á Strandarkirkju munu halda áfram. Þau hafa jafnvel aukizt undanfarinar – Margra alda reynsla kynslóðanna fyrir því, að áheitin verði til gæfu og óskir og þrár þeirra uppfyllist, sem á náðir hins helga verndarengile kirkjunnar á Strönd leita, hefur látið eftir sig glögg merki. Frásagnirnar um tákn þau og stórmerki, sem tengd eru Strandarkirkju og áheitunum á hana, myndu fylla margra binda bók, ef saman væru komnar í eina heild. Og þó yrði alltaf margfalt meira eftir, sem engar sagnir eru um og enginn kynni frá að greina. Strandarkirkja er fyrir löngu orðin í vitund íslenzkrar alþýðu helgur jarðteiknastaður, þar sem dásamlegir hlutir gerast. Því á að sýna henni alla þá lotningu og ræktarsemi, sem henni ber. Látum hana njóta þess friðar og þeirrar fegurðar, sem í mannanna valdi stendur að veita og með öðru getur stuðlað að því, að vitranir geti gerzt og hlið himinsins megi opnast yfir vorri ófullkomnu jörð.
Strandarkirkja-557En til þess að friðað verði áfram um Strandarkirkju, ekki síður en verið hefur allan þann tíma, sem hún hefur staðið einmana á afskekktri strönd, er nauðsynlegt að hafa um hana alla þá gæzlu, er firri hana átroðningi og skemmdum. Vegurinn um Krýsuvík og Selvog er nú langt kominn. Gert er jafnvel ráð fyrir, að honum verði lokið á þessu ári. Enginn vafi er á því, að mikið af þeirri gífurlegu umferð, sem nú er um Hellisheiði, færist þá yfir á þenna veg. Að minnsta kosti verður svo yfir vetrartímann.
Þá verður fjölsótt að Strandarkirkju og fullrar gæzlu og leiðsagnar þörf á þeim fjÖlsótta stað. Og einhverntíma kemur að því, að vegleg ný kirkja verði reist á hólnum, í stað þeirrar litlu og lágu, sem nú er þar. Það verður þegar Ísland er orðið þess megnugt að eiga sér háreist musteri. Hingað til hafa landsmenn verið of fátækir af jarðneskum auði til að reisa slík sýnileg tákn um lotningu sína og þökk til hins æðsta. En að koma til Strandarkirkju er að lifa upp í anda kvöl kynslóðanna og leit þeirra að líkn og náð. Það er sem maður skynji umkomuleysi þeirra, en jafnframt vonarneistann, sem lýsti í myrkrinu og hefur bjargað lífi þjóðarinnar til þessa dags.
Að koma til Strandarkirkju er að sjá sögu lands og þjóðar í leiftursýn líðandi stundar. – Sveinn Sigurðsson“

Heimild:
-Eimreiðin, 54. árg. 1948, 3-4. hefti, bls. 252-258.

Strandarkirkja

Klukka Strandarkirkju.

Sýslusteinn

Gengið var frá Sýslusteini í Seljabót, um 20 mínútna gang eftir greiðfærri götu í gegnum Herdísarvíkurhraun, niður með sýslugirðingunni. Hún er á mörkum Gullbringusýslu og Árnessýslu í línu úr Seljabót um Sýslustein og áfram upp að Kóngsfelli. Í örnefnalýsingu fyrir Herdísarvík segir m.a.: „Á Seljabót eru landa- og sýslumörk. Landamörk milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur og sýslumörk milli Gullbringusýslu og Árnessýslu. Seljabótarnef er þessi staður nefndur. Þarna má sjá selrústir gamlar…“

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel.

Í Bótinni var gamla réttin skoðuð og síðan gengið upp í Herdísarvíkursel, sem liggur undir hraunkantinum u.þ.b. 5 mínútum ofan við ströndina í austnorðaustur. Selið er þrjú hús og lambastekkur framar. Hreyfing var á logninu, en þegar komið var undir hraunkantinn varð hreyfingin að engu.
Í örnefnalýsingunni segir að „Gamlivegur er götuslóði, er liggur upp á Seljabót, upp undir austurhorn Geitahlíðar.“ Gamlavegi var fylgt upp hraunið að upphafsstað.

Herdísarvík

Herdísarvíkurvegir – uppdráttur ÓSÁ.

Þá var gengið upp Selstíg ofan við Hlíðarvatn. Haldið var upp í Selbrekkur, en þar má enn sjá tóttir Stakkavíkurselsins.

Til að nota góða veðrið var ákveðið að halda áfram upp Stakkavíkurveginn, yfir Dýjabrekkur, að Vestur-Ásum og að Hvalskarði þar sem hann og Selvogsgatan koma saman. Þá var haldið niður Stakkavíkurveginn til baka og komið við í tóftum fjárhúss í Stakkavíkurhrauni skammt fyrir neðan þjóðveginn.
Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Gapi

Gengið var á Strandarhæð ofan við Selvog að Gaphelli. Heimildir herma að hann hafi rúmað sex tugi fjár. Framan við hann er Gapstekkur. Þaðan var haldið að Strandarhelli austan í hæðinni.

Ólafarsel

Ólafarsel.

Í hellinum, sem er vel rúmur að innanmáli, var haldið fé á öldum fyrrum. Sunnar er Bjargarhellir.
Þá var gengið mót Vörðufelli. Á fellinu er gamla lögrétt Selvogsbúa, Vörðurétt eða Selvogsrétt. Hún er fallega hlaðin, almenningur austast, innan dráttur og dilkar um kring. Notkun hennar var hætt árið 1924. Syðst á fellinu er Markavarða og undan henni klöpp með áklöppuðu krossmarki.

Vörðufell

Vörðufell – LM/krossmark?

Í örnefnaskrá Ölfushrepps er sagt að þar eigi að vera stafurinn M, en um krossmarkið eru greinilegar gamlar sprungur beggja vegna. Efsti hluti steinsins hefur brotnað frá. Krossinn er greinilega áklappaður. Á fellinu eru einnig urmull smávarða, en sagt er að smalar hefðu hlaðið vörðurnar og áttu þær að uppskera fundvísi að launum. Víðsýnt er af fellinu þótt það sé ekki hátt.
Suðaustan við Vörðufell er sel. Það er, skv. gömlum heimildum, Ólafarsel. Tóttirnar er mjög vel greinilegar. Stekkur er austan við tóftirnar. Enn austar eru tóftir Eimubóls og hellar. Hlaðið er fyrir op þeirra. Í einu jarðfallinu eru greinilegar gamlar tóttir tveggja húsa, sennilega eldri en selstóttirnar ofan þeirra. Hægt er að ganga í gegnum og á milli hellanna.

Vindássel

Vindássel í Strandarheiði.

Vestar eru tóftir Vindássels. Norðar er Hellholt. Efst á því er fallegur hellir, stór og mikill. Utan í holtinu eru margir aðrir hellar. Vestan við holtið, suðaustan Svörtubjarga, eru greinilegar tóttir tveggja selja eða heiðarbæjar. Utan í hól eru a.m.k. þrjú fjárhús og annað langhús að auki. Ekki eru til heimildir um sel eða bæ þennan, en líklegt má telja að þarna hafi verið selstaða frá Strönd eða Strandarbæjunum (Strandarsel/Staðarsel).

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Útsýni vestur með Svörtubjörgum og áfram með Herdísarvíkurhlíðum er ægifagurt. Í hæðinni suðvestan undan selinu eru fallegir hellar og ofan á Svörtubjörgum trjónir Eiríksvarða, reist af Eiríki, presti og galdramanni, í Vogsósum árið 1710. Hann lést árið 1716. Á meðan hún stendur á Selvogi að vera óhætt fyrir ránsmönnum. Varðan er fjórar steinaraðir, fallega hlaðin og stendur reisuleg fremst á björgunum.

Girðingarrétt

Girðingarrétt.

Sunnan við selið er hellir með miklum hleðslum. Ofan við opið er hlaðin stekkur. Austan hans má sjá móta fyrir tóft undir hraunhól. Suðaustar í heiðinni er Girðingarréttin, öðru nafni Selvogsréttin eldri eða Gamlarétt.
Á bakaleiðinni sást til refa við leik á Selvogsheiðinni. Heiðin lætur ekki mikið yfir sér, en í henni má finna fjölmargar minjar, sem áhugavert er að halda til haga.
Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Girdingarrett-1

FERLIRsfélagar í Girðingarrétt með Þórarni Snorrasyni.

Krýsuvíkurhellir

Gengið var frá Sýslusteini að Herdísarvíkurseli og þaðan í Seljabót. Síðan var gengið vestur með ströndinni. Um er að ræða magnaða leið.

Krýsuvíkurbjarg

Krýsuvíkurbjarg.

Fjölbreytilegt ber fyrir augu, hvort sem um er að ræða stórbrotið útsýni eða merkileg náttúrfyrirbæri. Leitað var að Skyggnisþúfu. Hún fannst nokkurn veginn miðja vegu á milli Seljabótar og Keflavíkur. Á henni er varða og í vörðunni er hólf sem skilaboð á milli bæja voru látin í. Skammt vestan hennar er stórbrotinn djúpur svelgur ofan í jörðina og sér út á hafið í gegnum stórt gat á honum. Nokkru vestan var gengið ofan í Keflavík eftir stíg. Þar er gróið undir bjarginu, en framar eru lábarðir steinar. Af þeim, horft til austurs með berginu, er hár og fallegur gatklettur út í sjó – stórbrotið útsýni.

Keflavík

Keflavík í Krýsuvík – einnig nefnd Kirkjufjara. Þangað áttu kirkjur norðan Reykjanesskaga rekaítök fyrrum.

Vestan Keflavíkur eru leyfarnar af gamla Krýsuvíkurbjarginu, en hraun hefur síðan runnið allt um kring og út í sjó. Sjá má gömlu hamrana standa tígurlega upp úr á smá kafla. Á þeim eru svonefndir Geldingasteinar, mosavaxnir gulbrúnir steinar, en grasi gróið í kringum þá. Liggur rekagata vestur með ströndinni frá þeim, neðan gamla bergsins, sem nýtt hraun hefur runnið fram af og framlengt ströndina sunnan þeirra.

Krýsuvíkurhellir

Krýsuvíkurhellir.

Gengið var ofan gömlu hamrana, yfir mosahraun og var þá komið að helli er gæti verið hinn týndi Krýsuvíkurhellir. Snjór var framan við opið og var að sjá hleðslur ofan þess. Tekinn var punktur og verður hellirinn skoðaður betur við tækifæri. Neðan hellisins er nýja bergið og liggur gömul gata efst á því. Honum var fylgt til vesturs og opnaðist þá stórkostlega sýn vestur Krýsvíkurbjargið, hátt og tignarlegt. Fram af því steyptist Eystri-lækur og hefur hann varla í annan tíma sést jafn vel og núna. Frábært myndefni – með hæstu fossum á landinu.

Eystri-Bergsendi

Horft vestur yfir krýsuvíkurbjarg frá Eystri-Bergsenda.

Þegar komið var út á Bergsenda var strikið tekið að Sundvörðunni ofan við bjargbrúnina skammt vestar, síðan upp í fjárhellir í Litlahrauni og loks komið við í réttinni og fjárhústóttinni ofan hans áður en haldið var að Krýsuvíkurrétt undir Eldborgum.
Þessi gönguleið er ein sú stórbrotnasta, sem hægt er að fara á Reykjanesi og ættu sem flestir að nýta sér það tækifæri í góðu veðri.

Keflavík

Keflavík.

Þorlákshafnarsel

Eftir að hafa hitt elsta íbúa Þorlákshafnar, heiðursmanninn og einn fróðasta leiðsögumann þar ums lóðir, Garðar, var ekki beðið boðanna heldur haldið að Arnarhreiðri og litið niður í jarðfallið. Arnarhreiðrið, einnig nefnt Arnarker, er staðsett í Leitarhrauni. Á undanförnum árum hefur Hellarannsóknarfélag Íslands bætt mjög aðgengi að hellinum. Skilti við veginn bendir á hellinn, stikur liggja að hellinum og stigi liggur ofan í hann. Rásin er um 490 m löng.

Fjallsendahelir

Í Fjallsendahelli.

Gengið var yfir móan yfir að að Fjallsendahelli þar sem fjárhellirinn var skoðaður. Hellirinn er vestan í Fjallsenda. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m til 1,7 m hár og um 2 m víður, gólfið er allslétt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4 – 5 m djúpt og 8 – 10 m í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn. Fjallshellir er tvískiptur. Að ofan var, skv. heimildum, komið fyrir heyforða því um tíma var fé vistað í hellinum.

Hlíðarendahellir

Hlíðarendahellir.

Gengið var með Hlíðarenda að Hlíðarendahelli, stundum nefndur Hellir, og hann skoðaður. Hellirinn er yst undir Hellisbergi, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m langur veggur verið hlaðinn upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellinn. Frá Hellinum er örskammt vestur í Hellisnef, en þar endar Bergið.

Þá var haldið Djúpudali. Markhólar eru hraunhólar í mörkum Hlíðarenda og Selvogs, talsverðan spöl fyrir ofan (norðan) þjóðveginn. Suður frá þeim heitir hraunið Djúpadalshraun. Í því sunnarlega er dalur eða lægð, og hólaþyrping kringum hann. Dalurinn heitir Djúpidalur, lítill en grösugur. Í og ofan við dalinn er fjölbreytilegur gróður og leiðbeindi einn þátttakanda hópnum um plöntubreiðuna, nefndi einstakar plöntur með nafni og útskýrði notagildi þeirra.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítils háttar inn, um 3,5 til 4 m á hæð, og um 5 m í þvermál að innan skv. lýsingu í örnefnaskrá fyrir Hlíðarenda. Dyr eru móti suðri, um 1 m á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan meter á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan. Djúpudalaborgin er með fallegri mannvirkjum á Reykjanesskaganum.
Veðrið var frábært, logn, sól og um 20° hiti.

Hafnasel

Hafnasel – vatnsstæði.

Loks var þegið handlagað kaffi hjá Garðari, sem upplýsti nánar um þróun byggðar og uppbyggingu Þorlákshafnar.
Á heimleiðinni var komið við í Þorlákshafnarseli (Hafnarseli) undir Votabergi.

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.

Fornigarður

Gamall slóði. Gamli vegur eða Selsgata, var genginn frá Fjárskjólshrauni niður í Herdísarvíkursel suður undan Herdísarvíkurhrauni ofan við Seljabót.

Herdísavíkursel

Í Herdísarvíkurseli.

Leiðin er mjög falleg í gegnum hraunið og vel greinileg. Selið, sem kúrir undir hraunkantinum mót suðri, hefur verið stórt og eru margar tóttir því tengdu, sem og vatnsstæði vestan við þær. Skoðaðar voru gamlar hlaðnar refagildrur á klöppunum austan Seljabótar og einnig rúningsréttin í sjálfri bótinni.
Þá var hraunsleiðin gengin til baka og haldið að Fornagarði austan Vogsósa, en garðurinn, sem getið er um í heimildum frá árinu 1275, náði frá Hlíðarvatni að Nesi í Selvogi. Um hefur verið að ræða mikið mannvirki í þá daga. Hann var því 7 km langur. Að sjálfsögðu hét hann ekki Fornigarður í upphafi, heldur Strandargarður, en eftir því sem aldirnar færðust yfir hann gerði nafnið það líka.
Lognið var á smáhreyfingu, en hlýtt.

Herdísarvíkursel

Herdísarvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Breiðabás

Farið var að Breiðabás austan við Herdísarvík og leitað hellisops, sem Einar skáld Benediktsson hafði fyrrum lýst á þeim slóðum. Sagði hann í lýsingu sinni af hellinum að hann hefði náð úr Breiðasbás upp í mitt Mosaskarð, en þangað er vel á annan kílómeter. Vitað er um menn, sem villst höfðu inni í hellinum, en hann mun vera margarma og erfitt að rata inni í honum. Um er að ræða afhelli innan af hinum eiginlega Breiðabáshelli, stórum fjárhelli, sem lengi var notaður frá Herdísarvík.

Fornugata

Fornugata.

Í viðtali Jóhanns Davíðssonar við Eggert Kristmundsson frá Stakkavík árið 2004 kom eftirfarandi fram um Breiðabáshelli: „Í Breiðabás var mikill sölvareki. Svo komum við að þessum stóra helli. Mig langaði til að fara inn í þennan tigna hellir. Gísli var í opinu í stóra hellinum og ég fór inn hellirinn, langaði að sjá hve hann næði langt þegar ég var kominn inn. Ég var ekki með ljós. Þegar ég var kominn langt inn, komu þrengsli, ég fór yfir þau, þá kom hellir til vinstri og annar lítill til hægri. Þá sá ég að ég var orðinn snarvilltur, ætlaði að finna leiðina til baka, en fann ekki, sá gat og gat skriðið þar upp, mjög þröngt. Ef ég hefði haft vasaljós hefði ég getað haldið áfram að skoða þetta betur. En þarna var bara svarta myrkur.

Breiðabás

Í Breiðabás

Þarna getur verið voðalegur hellir og stækkað er innar var komið. Þótt svona þrengsli væru þegar að var komið gæti verið víður hellir innar. Það veit enginn. Hægt væri að skoða þetta með góðum ljósum. Sárt að sjá að hellirinn er nú kominn í kampinn því þetta var góður hellir. Hann tók þrjú til fjögur hundruð fjár. Hann var meira en manngengur, en þegar inn var komið fór hann að þrengjast…, það komu svona göng…skosnur sitt á hvað.. þegar ég fór yfir þrengsin komu þar hellirar.. Það kom einhver smá skíma og þar fór ég upp, annars hefði ég orðið innlyksa.
Gísli var náttúrulega til frásagnar að ég fór inn í hann. Það hefði verið hægt að leita með ljósi því vasalljós voru komin þá – og kerti, en það var svo mikill dragsúgur í hessum hellirum.

Sjá einnig viðtal og ferð með bróður Eggert í Stakkavík, Þorkeli Kristmundssyni.

Breiðabás

Í Breiðabás.

Ofan við opið á Breiðabáshelli, sem nú er komið undir háan sjávarkampinn, sést í fjárgötuna niður að opinu. FERLIRsfélögum í félagi við Hellarannsóknarfélagsmenn hafa komist undir hraunið þar sem yfirborðsrásir liggja þvers og kurs innundir, en ekki hefur enn tekist að finna leiðina að hinni löngu rás, ef frásögnin um hana er þá sönn. Vonir eru bundnar við það að eitthvert þungavinnutækið við lagningu Suðurstrandarvegar muni óvart dumpa niður í rásina þegar þar að kemur.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Þrátt fyrir nokkra leit að þessu sinni komust leiðangursmenn ekki lengra en inn undir hraunið á nokkrum stöðum – en hvergi niður í rásina.

Þá var haldið í kaffi til Þórarins Snorrasonar á Vogsósum. Þórarinn sýndi FERLIRsfélögum Fornagarð, sem var vörslugarður ofan við Selvog. Fornigarður (hét áður Strandargarður) lá frá Hlíðarvatni yfir að Nesi, um 5 km leið. Garðurinn var reistur fyrir árið 1200 og sést hann enn vel þrátt fyrir að sandurinn, sem hafði nær lagt byggðina í aun, hafi fokið vel að honum á köflum. Bæði sést móta fyrir garðinum á Vogsósatúninu sem og á heiðinni ofan þess. Ætlunin er að ganga síðar eftir garðinum frá Vogsósum að Nesi (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Þórarinn vísaði á gömlu Vogsósagötuna frá Ósum að Háahrauni. Um er að ræða tvær götur, gömlu og nýju götuna, að sögn Þórarins. Báðar eru þær klappaðar í helluhraunið og sést gatan mjög vel svo til alla leiðina.

Hellugata

Hellugata (Fornagata) vestan Vogsósa.

Þarna hefur verið mikil umferð áður en gatan lokaðist af Háahrauni er það rann um árið 1320. Víða eru 10-15 cm djúp för langar leiðir í klöppina.Gatan, sem stundum hefur verið nefnd Hellisvörðugata (hún er vörðuð á sléttri hraunhellu er nefnd er Hellan) er tvískipt, sem fyrr segir, sú nýrri er nær sjónum, og kemur aftur fram vestan hraunsins uns hrauntunga fer yfir hana að nýju. Hún greinist varla þegar kemur að túnunum austan Herdísarvíkur, en gamli vegurinn í gegnum hraunið, á milli löngu fiskigarðanna, gæti hafa komið á hana. Skammt vestan Mölvíkurtjarnar greinist gatan, annars vegar að Mölvík (rekagata) og hins vegar áleiðis í spor núverandi þjóðvegar.
Þá lýsti Þórarinn Stakkavíkurhelli og er ætlunin að skoða hann síðar. Hann er vestan og uppi í Nátthagaskarði (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Frábært veður – Ferðin tók 2 klst og 22 mín.

Herdísarvíkurtjörn

Herdísarvíkurtjörn.

 

Djúpudalaborg

Ekið var að Strandarkirkju með viðkomu við dysjar Herdísar og Krýsu neðst í Kerlingadal. Við Strandarkirkju tók Kristófer kirkjuvörður vel á móti ferðalöngum. Leiddi hann þá í allan sannleika um kirkjuna, uppruna hennar og sögu.

Strandarkirkja

FERLIRsfélagar við Strandarkirkju.

Fram kom að skyggt fólk hafi komist að því að kirkjan hafi upphaflega verið byggð úr timbri er Gissur hvíti flutti til landsins frá Noregi skömmu eftir að kristni var lögtekin hér á landi. Kom hann á leið sinni við í Vestmannaeyjum og reisti þar kirkju, þá sömu og endurbyggð var þar fyrir skömmu, en lenti í hafvillum utan við Selvog. Komst hann þar í land ásamt áhöfn eftir að hafa heitið því að þar skyldi reist kirkju er og ef hann næði landi. Hann og áhöfn hans björguðust og reistu ofan við sjávarkambinn litla áheitakirkju er snéri stafni til hafs. Bekkir voru annars vegar í henni og altari innst.
Núverandi Strandarkirkja er frá árinu 1888 og hefur verið vel við haldið. Í henni má m.a. finna sakramentisbikar frá 1262 og altarisbikar frá um 1340. Þá gripi sýndi Kristófer auk margra fleiri.

Nes

FERLIRsfélagar við Nes í Selvogi. Standa á fæti gamla Nesvitans.

Gengið var að Nesi frá Bjarnastöðum og Guðnabæ, skoðaðar fjárborgir, sjóbúðir, brunnhús, gamli kirkjugarðurinn og rústir gamla bæjarins í Nesi. Kristófer lýsti gamla vörsugarðinum er náði frá Nesi ofan Selvogs að Vogsósum, en hann mun vera eitt allra elstu mannvirkja, sem enn eru sýnileg hér landi. Þá var haldið að Hellisþúfu og hellirinn, sem búið var í um tíma, skoðaður, gengið um Djúpadalshraun og skoðuð Djúpadalsborgin.

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

Smiðjulaut

Útgefnar fornleifaskráningar geta oft, við nánari athugun þeirra sem vel þekkja til, reynst meira en lítið skondnar – einkum vegna þess hversu takmarkaðar þær eru. Við birtingu þeirra eru jafnan tilgreindar stofnanir samfélagsins, sem eiga að hafa eftirlit með slíkum skráningum, en virðast allt of oft taka þær bara góðar og gildar – athugasemda-laust.
SmidjulautTökum eitt lítið dæmi frá árinu 2007 – Smiðjulautina við gamla akveg Suðurlandsvegar (Hellisheiðar-vegar) neðst á vestanverðri Hellisheiðinni. Byrjum á tilfallandi heimildum:
„Hitt er miklu kunnara og eigi eins furðulegt og þó bending
um gífurlega breytingu á gróðurfari og landkostum, að Smiðjulaut er nefnd á Hellisheiði. Er hér að vísu um að ræða minjar járngerðar og vitni um þann tíma, er hér var land viði vaxið, meir en nú þykir sumum trúlegt, er lítur yfir öræfin kringum Reykjavik, austur og suður. Í sömu átt bendir nafnið Kolviðarhóll og á þetta saman, þótt síðar hafi um Kolviðarhól myndazt léleg þjóðsaga. Hér eru nefnd aðeins tvö dæmi. Annað af því, að það er nokkuð einstætt og fáum kunnugt, hitt af því, að það er mörgum kunnug, en líklega skilið af fáum.“
Framangreind heimild er vægast sagt einstaklega takmörkuð.
Tökum aðra heimild: „
Það er því margs að minnast frá vegavinnuárunum og væri það efni í langa ritgerð. Ég smidjulaut-233tel, aö vinnuflokkar Jóns Ingvarssonar hafi á þessum árum unnið allmörg stórvirki i vegagerð þeirra tlma, þótt nú sé það gleymt. Ég minnist þó með nokkru stolti strits míns, og um 40 félaga minna, við að endurbæta Hellisheiðarveginn frá
Smiðjulaut og austur undir Hryggjarholt árin 1923 og 1924 (en Tómas Petersen var þar yfirverkstjóri).“ Hér er um að ræða raunhæfa lýsingu á vegagerð Suðurlandsvegar (Hellisheiðarvegar) eftir að bifreiðin kom til sögunnar.
Vitnum aftur í framangreinda fornleifaskráningu: „Vert er að geta þess að nú virðist hætta steðja að gamla Hellisheiðarveginum (Ár-721:061) í Smiðjulaut, en frá honum var greint í skýrslu árið 2006. Smiðjulaut og virðast þær liggja fast utan í gamla veginum á 2-300 m löngum kafla. Rétt er að ítreka að vegarspotti þessi er hluti af gamla þjóðveginum sem lagður var á árunum 1894-1895 og er friðaður skv. þjóðminjalögum. Hann hefur mikið varðveislu- og kynningargildi, enda hluti af merkilegri samgöngusögu á Hellisheiði og líklega hvergi jafn sýnilegur og einmitt á þessum stað.“
smidjulaut-233Í framangreindri skráningu er einungis getið um veginn, sem er jú framför frá því sem áður var. Fornra þjóðleiða var jafnan ekki getið í fornleifaskráningum til skamms tíma. Hvergi í tilnefndri skráningu er getið um tóftir gömlu smiðjunnar í Smiðjulaut, sem hún dregur þó nafn sitt af. Ekki heldur frárennslu-skurðunum umhverfis tjaldstæðin, sem þar voru. Mjög svipað gildir um selsörnefnin um land allt. Nánast alls staðar, sem þeirra er getið, má finna fornar selstöður þótt einungis fárra þeirra hafi verið getið í heimildum. Reynsla FERLIRs er sú, eftir að hafa skoðað fyrrum selstöður á Reykjanesskaganum, í fyrrum landnámi Ingólfs, að einungis þriðjungi þeirra hefur verið getið í skriflegum heimildum, þriðjungur þeirra lifir í skráðum örnefnum og þriðjungur þeirra finnst við markvissa leit að teknu tilliti til landskosta.
Afsökunin varðandi framangreinda fornleifaskráningu kann að vera fólgin í því að minjarnar verða ekki fornleifar, skv. gildandi minjalögum, fyrr en eftir áratug.
Niðurstaðan er þessi; við þurfum að vanda okkur við þau verkefni, sem okkur eru falin hverju sinni. Framtíðin er í húfi..
Sjá skráninguna
http://www.instarch.is/pdf/uppgraftarskyrslur/FS351-07061%20Hellishei%C3%B0i.pdf

Heimildir:
-Samvinnan, 24. árg. 1930, 1.bl. bls. 32.
-Íslendingaþættir Tímans, 2. ágúst 1975, bls. 4.
-Fornleifaskráning 2007.
http://www.instarch.is/pdf/uppgraftarskyrslur/FS351-07061%20Hellishei%C3%B0i.pdf

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.