Tag Archive for: Ölfus

Vorsabæjarsel

Þegar FERLIR var á göngu um Gufudal ofan við Hveragerði sást á landakorti örnefnið Selgil fremst í austanverðum dalnum.

Reykjasel

Reykjasel/Gufudalssel – uppdráttur ÓSÁ.

Ekki var vitað um selstöðu þarna; hennar hefur hvorki verið getið í örnefnalýsingum né fornleifaskráningum af svæðinu. Að fenginni reynslu þar sem nánast má heita tryggt að leifar selstöðu kunni að finna þar slíkra örnefna er getið var ákveðið að skoða gilið og nágrenni þess. Selgilslækur rennur ofan úr gilinu, en skammt norðan þess rennur annar lækur, bergvatnslækur, ofan úr hlíðum Selfjalls. Selfjall þetta er einnig nefnt svo vegna selstöðu austan þess.
Frá Gufudal er fjallið nefnt Reykjafell (-fjall).
Við leit komu í ljós leifar af stekk skammt upp með norðanverðum Selgilslæk. Hann hefur verið hlaðinn úr smágrjóti úr lækjarfarveginum og er nú nánast jarðlægur öðrum en fráum augum fornleifaleitenda. Norðan við hann er augsýnilega gömul stutt gata upp á gróinn bakka. Uppi á bakkanum, á grasi grónum stalli, eru leifar selstöðunnar, hér nefnd Gufudalssel (Reykjasel). Um er að ræða nokkuð stóra tóft, tæplega 7 metra langa (660 cm) og um 480 cm breiða. Op er mót vestri. Vestan hennar eru tvær aðskyldar hringlaga tóftir og er sú syðri öllu greinilegri. Frá selstöðunni er ágætt útsýni yfir neðanvarðan framdalinn. Tært vatn er í læknum og hið ágætasta skjól undir grónum brekkunum, sem halla frá selinu upp með hlíðum Selfjalls (Reykjafells). Sauðalækur (Sauðaá) rennur um Gufudal.
Af ummerkjum að dæma ber selstað þessi merki um að hafa verið Reykjasel-2tiltölulega nálægt bæ. Stóra tóftin hefur að öllum líkindum verið baðstofa og hinar tvær aðskilið búr og aðskilið eldhús. Það er svolítið óvenjulegt af selstöðum á Reykjanesskaganum að dæma, en hún ber með sér að geta verið frá seinni hluta 18. aldar.
Af loftmynd að dæma virtust tóftir vera vestast við Varmá (Hengladalaá), við Nóngil undir Kvíum, sunnan Djúpagils. FERLIR hefur áður getið um forna reiðleið upp frá því um Kvíarnar, bratta hlíð, áleiðis upp á austanverða Hellisheiði þar sem hún liggur síðan til norðvesturs um gróninga að Fremstadal og síðan inn á Götu milli hrauna að Hellisskarði.

Vorsabæjarsel

Vorsabæjarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Þessi gata sést vel skáhallt í brattri hlíðinni. Ætlunin er að fylgja þessari götu fljótlega frá þeim stað er hún fer yfir vað á Hengladalaánni, upp Nóngil og á ská upp hlíðina Kvíahlíðina fyrrnefndu ofan Djúpadals.
Við skoðun á Nóngili kom í ljós leifar selstöðu; þrjú rými og stekkur til hliðar (austar). Um er að ræða dæmigerða selstöðu af eldri gerð, þ.e. óreglulega þyrpingu rýma; baðstofu, búrs og eldhúss með sér inngangi. Selstaðan, sem virðist gleymd, gæti hafa verið frá því á 17. eða 18. öld.
Björn Pálsson, fyrrum héraðsskjalavörður Árnesinga, sem er manna fróðastur um sögu og minjar á þessu svæði, sagðist aðspurður halda að selstaðan við Hengladalaánna hefði verið frá Völlum og selstaðan við Selgilið í framanverðum Gufudal hefði sennilega verið frá Reykjum af landamerkjum að dæma því Reykir hafi átt land austan við Sauðalækinn.
Með framangreindum selstöðum hefur FERLIR staðsett 265 selstöður á Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs. Líklegt má telja, að fenginni reynslu, að fleiri slíkar eigi eftir að opinberast í náinni framtíð (sjá t.d. HÉR).
Líklegt má telja að meiri fróðleikur um framangreindar selstöður og nálægar minjar muni koma til umfjöllunar hér í framtíðinni. Minjarnar voru færðar inn á sérstaka hnitaskrá. Í henni eru varslaðar allar minjar sem FERLIR hefur staðsett á Reykjanesskaganum síðustu áratugina.
Í Jarðabók ÁM og PV 1703 er getið um sel frá Reykjum; „Selstaða er nýtanleg í heimalandi, og kokkast allur matur þar á hveri, en ei á eldi„. Skammt ofan við selstöðuna eru hverir. Þá er getið um sel frá Vorsabæ; „Selstöðu á jörðin í landi því, sem eignað var áður Litlu-Reykjum, en lagðist til Ossabæjar, þá þeir lögðust í eyði, vide Stóru-Reyki supra, og í annað mál beit fyrir búsmala norður yfir á, í Árstaðafjall, sem að eignað er Stóru-Reykjum„. Fjallið ofan við selstöðuna heitir Ástaðafjall og áin umrædda er Hengladalaáin. Lýsingin á staðsetningu á selstöðu Vorsabæjar passar við staðhætti á umræddum stað.
Auk framangreind er getið um selstöður frá Krossi og Völlum, sem lýst verður síðar.

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Ölfus

Reykjasel.

 

Vogsósar

Á Vogsósum í Selvogi er merkilegur steinn í túninu.
Þótt steinninn láti ekki mikið yfir sér, er reyndar Eggert-551nánast jarðlægur og lækist jafnan fyrir slátturvélum, hefur Þórarinn Snorrason, bóndi gætt hans vandlega. Segja má að steinn þessi hafi verið minnisvarði um séra Eggert Sigfússon, síðasta prestsins á Vogsósum. Séra Eggert Sigfússon fæddist 22. júní 1840 og lést 12. október 1908, einmitt við þennan stein í túninu. Mun prestur hafa verið að koma úr messu í Krýsuvík þegar hann veiktist á leiðinni heim og dó þarna við steininn.
Í Tímanum 1988 er fjallað um séra Eggert. Fyrirsögnin er „Lómar og skúmar“, en Eggert „þótti  undarlegasti maður landsins um sína daga“. Í Vogsósum skildu menn ekki þankagang þessa óvenjulega manns, sem álasaði mönnum fyrir að hugsa ekki um annað en „gemlinga
og grút.“
„En það er gömul saga að snillingseðlið getur tekið á sig margvíslegar myndir og í stað þess að vera hampað sem afbragðsmönnum samtíðarinnar, kunna menn að lenda á einhvern hátt utan vegar og verða fyrst og fremst taldir til furðufugla. Þau urðu örlög þess manns sem hér mun greint frá – hins sérkennilega prests, Eggerts Sigfússonar í Vogsósum í Selvogi. Hann þótti með afbrigðum kynlegur, en þegar við lesum sumar þeirra sagna sem af honum gengu, læðist að okkur sá grunur að það sem haldið var flónska og sérviska, hafi verið á einhvern hátt afbragðslegs eðlis, að þarna hafi verið á ferðinni spekingur, sem samtímamönnum tókst aðeins ekki að botna í.
Á Eyrarbakka var Eggert fæddur hinn 22. júní 1840. Faðir hans, Sigfús „snikkafi“ Guðmundsson, var hagleiksmaður hinn mesti og alkunnur kirkjusmiður, greindur vel og vandaðasti maður í öllu dagfari.
Hann veitti snemma athygli gáfum og námslöngun sonarins og ákvað Fornagata-601að senda hann til mennta. Gekk Eggert inn í Latínuskólann nýja í Reykjavík 15 ára gamall og lauk prófi á tilskildum tíma og stúdentsprófi frá Prestaskólanum tveimur árum seinna.
Ekki lét hann þó vígjast að sinni, heldur fékkst við barnakennslu á ýmsum stöðum næstu sex árin, bæði norðanlands og sunnan. En þá hugsaði hann sér til næðisamara lífs og óskaði vígslu af Pétri biskupi Péturssyni og hana hlaut hann 29. ágúst 1869. Fyrst gerðist hann prestur hjá Húnvetningum að Hofi á Skagaströnd og gegndi þar í þrjú ár. Þá flutti hann að Klausturhólum í Grímsnesi og urðu þjónustuárin tólf á þeim stað. Loks árið 1884 tók hann svo við Selvogi og Krýsuvík, er í þá daga var sérstakt prestakall, og hafðist þar við til dauðadags. Bjó hann í Vogsósum í Selvogi og hefur ætíð verið kenndur við þann stað.
Þessum skrýtna presti var svo lýst að hann hefði verið með hæstu mönnum vexti, en ákaflega grannur og krangalegur. Höfuðið var mjög lítið og augun þar eftir smá, en sakleysislega skær og tindrandi. Bar og öllum saman um sem þekktu hann að hann hefði verið hrekklaus eins og dúfa og aldrei gert flugu mein. En hafði fastar skoðanir á ýmum málum og þá ekki síst sumum af kennisetningum kirkjunnar, en þær hafði hann að engu þegar honum bauð svo við að horfa og hann taldi annað skynsamlegra. „Þegar ég skíri barn, gef saman hjón eða jarða framliðna, dettur mér ekki annað í hug en að sleppa öllum bölvuðum bjánaskap úr handbókinni.

Eggert-602

Eða hvað er það annað en bjánaskapur, þetta, sem ætlast er til að lesið sé yfir brúðinni: „Með sótt skaltu börn þín fæða.“ Þarf að segja nokkurri heilvita konu það að hún muni verða eitthvað lasin um það leyti, sem hún elur barn? Og til hvers er þá að hryggja hana með því að minna hana á þetta á mesta hátíðisdegi ævinnar? Þér megið kalla þetta hvað sem þér viljið, en ég kalla það bjánaskap. Og hvað þýðir að segja næturgömlu barni að það sé getið í synd eða dauðum manni að hann eigi að verða að mold? En svona eru margar fyrirskipanir kirkjunnar og ég ansa þeim ekki.“
Þar sem Eggert sté ekki á bak hestum varð hann að fara allra sinna ferða um sóknir sínar fótgangandi, hvernig sem viðraði. Voru þá oft lækir á vegi hans illir yfirferðar, en hann hafði mikla óbeit á því að vökna. Lagði hann nú höfuðið í bleyti og dó ekki ráðalaus. Lét hann gera sér stóran skinnsokk, klofháan, en þó einungis á annan fótinn. Hafði honum reiknast svo til að einn skinnsokkur mundi nægja, eins og lækjum var háttað við vanalegar aðstæður í prestakallinu. Sté hann út í lækina með þeim fætinum er sokkurinn var á og teygði síðan hinn fótinn upp á bakkann hinum megin. Náði hann með tímanum slíkri leikni í þessari íþrótt að orð var á gert. Skildi hann skinnsokkinn aldrei eftir, þyrfti hann að bregða sér að heiman.
Vogsos-65Eftir að séra Eggert gerðist prestur í Vogsósum hófst mótlæti hans að marki. Hann var þar kominn meðal manna sem höfðu lítinn skilning á hinu sérstæða gáfnafari hans. En þetta mótlæti var skki síst runnið af þvf hve hann var hárnæmur á eðlisfar sóknarbarna sinna og hvers konar óheilindi, tilgerð og hroki var eitur í hans beinum. Þá menn er hann taldi sérstaklega búna slíkum eiginleikum nefndi hann aldrei annað en skúma, en þá aðra sem voru hjartahreinir og lítillátir kallaði hann lóma. Þessum tveimur manntegundum hélt hann vandlega aðgreindum og beitti tegundarheitum þeirra umsvifalaust í allra áheyrn og hvort sem mönnum þótt betur eða verr. Þetta hispursleysi aflaði honum lítilla vinsælda meðal skúmanna, en hann kippti sér ekki upp við það. „Mér er alveg sama hvað um mig er sagt lífs og liðinn,“ varð honum að orði. Ef ég gæti þess að stíga ekki á hestbak, þá dey ég ekki af því að detta af baki.

Vogsos-66

Þannig verð ég heldur ekki með réttu sakfelldur, ef ég gæti þess að gefa engan höggstað á mér með breytni minni.“
Fjölmörg bréf eru til með hendi séra Eggerts, sem sýna hve fyrirlitning hans á skúmunum stóð föstum rótum. Í einu bréfanna er þessi klausa: „Ég kom beint úr Þorlákshöfn í dag um sólarlag að Strönd. Sigurður var heima. Selvogshreppstjórinn var þar staddur og sagði mér að Þ… væri búinn að bera Gr… út í annað skipti. Hér er dæmi þess á hve háu stigi réttlætiskennd skúmanna stendur. Hvar sem maður er eða fer í veröldinni, þá held ég að naumast sjái í heiðan himininn fyrir þessum bölvuðum skúmum! Ég vildi óska að allar veraldarinnar manneskjur væru orðnar að lómum. Þá þyrfti maður ekki að eiga við annað eins „jastur“ og þetta. Takk fyrir síðast.“
Selvogur-559Í öðru bréfi til Jóns kaupmanns Árnasonar í Þorlákshöfn kemst séra Eggert svo að orði: „Hér kom skúmur og tilkynnti mér sem hreppsnefndarmanni að hann ætti barn í vonum. Þetta kalla ég þunnar trakteringar og þess vegna bið ég þig að láta mig hafa á meðfylgjandi 8 potta kút, svo ég geti hresst mig á þessum skúmalegu vandræðum!“
Eggert sá líka kvenfólk á meðal skúmanna og ein þeirra var frúin í Hlíð, en af henni er þessi frásögn í bréfi frá Eggert til sálmaskáldsins sr. Valdemars Briem: „Frúin í Hlíð!
Það er nú frú í lagi. Kötturinn í Vogsósum skrapp upp að Hlíð um daginn að fá sér kött, en veistu hvað frúin gerði? Hún tók köttinn og drekkti honum í Hlíðarvatni. Tarna er ljóta „frúin“.
Selvogur-558Svo alvarlega tók klerkurinn í Vogsósum þessa skiptingu á mönnum að hann skráði þá vandlega er á prestssetrið komu sem lóma eða skúma, sbr. eftirfarandi skrá, sem varðveist hefur: „Skúmar“ aðkomir að Vogsósum anno 1887: Janúar 25. febrúar 92, mars 4, apríl 6, maí 43, júní 62… .=232 Júlí 75, ágúst 5, sept. 91, október 65, nóvember 14, desember 1… =257. SKÚMAR ALLS: =489 „Lómar“ aðkomnir að Vogsósum anno 1887: Janúar 1, febrúar 1, mars 0, apríl 1, maí 0, júní 0 … =3 Júlí 3, ágúst 3, september 5, október 2, nóvember 0, desember 0… =13. LÓMAR ALLS: =16.
Greinilega hefur flokkur skúmanna því verið heldur betur öflugri að áliti Eggert en hinna blessuðu lóma.
Ekki er lengra frá dauða séra Eggerts en svo að enn í dag er nær efalaust til – að vísu mjög aldrað – Selvogur-560fólk sem man hann sem börn, en hann lést 1908. Hér hefur mest verið gert úr því sem sérkennilegast þótti við hann en minna drepið á ágæta eiginleika hans. Hann tók sannleika og einlægni fram yfir allt annað og predikari var hann ágætur, enda þótt ræður hans stæðu sjaldnast lengur en sjö til fimm mínútur. Þá var hjálpsemi hans við bágstadda við brugðið og vandaðri mann og skilríkari getur ekki. Svik fundust ekki í hans munni. Á sama hátt virti hann sér til fánýtis og trafala hverja þá fjármuni sem tóku til annars en brýnustu nauðþurftar og byðu fátækir menn honum greiðslu fyrir unnin embættisverk, hafnaði hann henni jafnan jafnan með einu viðkvæði: „Þú mátt ekki missa þetta. Ég á nóg.“
Á efri árum hans gekk sá spádómur um sóknir hans að heimsendir væri í nánd. Höfðu margir af því þungar áhyggjur og þar á meðal var ungur drengur sem bar sig illa. Reyndi prestur að hughreysta hann og mælti: „Nei, barnið gott, almættið hefur ekki neinn heimsendi í huga og þú þarft ekki að óttast hann í bráð. En komi heimsendir seinna, verða það mennirnir sem hrinda honum af stað.“ Hvort spegluðu þessi orð klerksins lífsreynslu hans eða sá hann svo miklu lengra en þeir menn sem festu sér ummælin í minni, vegna þess hve fjarstæðukennd þau þá virtust – fyrir rúmum 80 árum.
Það var hinn 12. október 1908 í gráu og hráslagalegu haustveðri að Vogsósapresturinn var að koma frá messu í Krýsuvík – gangandi að vanda. Hann var kominn að túngarði í Vogsósum, þegar vinnumaður á bænum sá hvar hann greip sér um hjartastað og féll niður. Hann kom að honum örendum, þar sem hann lá á grúfu í sölnuðu grasinu [við lítinn stein] og hélt dauðahaldi um lítinn böggul, sem vinnumaðurinn vissi að geymdi snjáða prestshempu hans. Þar með var lokið ævi síðasta prestsins sem sat í Vogsósum – og vafalaust hins undarlegasta þeirra allra um leið.“

Heimild:
-Tíminn, 14. maí 1988, bls. 11-13.

Vogsósar

Vogsósar.

Fornigarður

Í ritinu „Árnesingur VII“ árið 2006 er grein um Fornagarð í Selvogi eftir Bjarna F. Einarsson, „Garður er grannna sættir“. Tilvísun þessi er sótt í Jónsbók.
Fornigardur-559Greinin er tilefni rannsóknar, sem Bjarni gerði á garðinum árið 8. – 18. júlí 2003. Þrátt fyrir að véfengja megi niðurstöðu rannsóknarinnar í nokkrum megindráttum kemur í greininni fram ýmiss fróðleikur um þennan merka garð.
Ljóst var að nýr Suðurstrandarvegur myndi rjúfa „Forngarð“? skammt frá nýrri heimreið að Vogsósum. Hann var því rannsakaður þar sem vegurinn átti að fara í gegnum garðinn.
Bjarni segir „Fornagarð“ liggja á milli Vogsósa og Strandar í Selvogi.

Guðnabær

Guðnabær.

Nákvæmar er að segja að umræddur vörslugarður liggi milli Hlíðarvatns í landi Vogsósa austur fyrir Nes (að Snjóthúsi/Snjóhúsi) í Selvogi líkt og segir í lýsingu Brynjúlfs Jónssonar frá 1902. Snjóthús var þar sem nú er Nesviti (Selvogsviti). Að vísu eru hlutar vörslugarðsins misgamlir og garðinum hefur augsýnilega verið breytt í gegnum tíðina, m.a. til að verjast sandfoki, en megingarðurinn hefur varla náð í upphafi á milli síðarnefndu staðanna, enda ber hann þess öll ummerki.

Fornigarður

Fornigarður sunnan Vogsósa.

Hinn eldri garður er nú hrofinn að hluta, enda var talsvert grjót tekið úr honum á milli Strandar og Torfabæjar og Þorkelsgerðis og Guðnabæjar þegar vegagerð fór fram á þjóðveginum á Strandarhæð um miðja síðustu öld (Þórarinn Snorrason og Þórður Bjarnason). Bjarni getur reyndar í umfjöllun sinni um breytt hlutverk garðsins á mismunandi tímum, bæði vegna umhverfisins sem og tengingu við fleiri en eitt lögbýli í sveitinni.
„Fornagarðs er trúlega fysrt getið í miðaldaheimildum og því býsna merkilegur, Árið 1927 voru allar „Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar“ friðlýstar í landi Vogsósa og Vindáss (Fornleifaskrá 1990).
Markmiðið með rannsókninni var að reyna að grafast fyrir um aldur garðsins og kanna byggingu hans..
Garðar hafa verið hlaðnir um allt land frá upphafi byggðar í landinu.
Gerð þeirra og hlutverk hefur verið með ýmsum hætti en eitt eiga þeir allir sameiginlegt og það er að allir eru þeir gerðir úr jarðefnum, þ.e.a.s. grjóti, torfi, mold og öðrum jarðvegi…“.
Vogsos-37Í Grágás og Jónsbók eru ákvæði um breidd og hæð löggarða og hvenær vinna við þá skyldi fara fram. Skyldu þeir vera fimm fet á þykkt niður við rót en þrjú fet efst. Hæðin átti að ná meðalmanni í öxl. Garða skyldi hlaða í fyrsta lagi á vorönn þegar mánuður var af sumri.
Árið 1776 kom tilskipun er fól m.a. í sér að girða skyldi tún með torf- eða grjótgarði verði því við komið.
Fornigardur-552„Almennt er talið að Fornagarðs sé fyrst getið í rekaskrá Strandarkirkju áruð 1275. Þar segir m.a.: „Sex vætter æ huert land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida með slijku sem rekur“ (Íslenskt fornbréfasafn 1893, bls. 124).
Garðsins er ekki getið aftur fyrr en í bréfi séra Jóns Vestmanns (1769-1859) til hinnar konunglegu dönsku nefndar til varðveislu fornminja í Danmörku. Er bréfið ritað þann 25. júní 1818. Í lýsingu Jóns segir svo um garðinn: „Máské mætti telia Meniar-Fornaldar; Sýnishorn af þeim stóra Vórdslu Gardi, úr Hlídar-Vatni, alt framm ad Strónd og einlægum Túngardi þadan, austur ad Snióthúsa Vórdu, fyrir óllum Túnum sveitarinnar/ sem óll skyldu þá hafa misfóst verid/ með læstu Hlídi að Lógbýli hvóriu;; – Eignad er verk þetta Erlendi Þorvardssyni sem Hér var Lógmadur sunnan og austan, frá 1520, til 1554; bió léngi sin efri ár ad Strónd í selvogi og Deidi þar 1576…
Fornigardur-552Þessum naudsynlegu Túna og Vórdslu Górdum verdur hér ei vidgaldid, vegna sandfoks, sem þegar hefur eydilagt, þetta, í Fyrndinni góda og prídilega Pláts, er þá nefndist Sæluvogur, að sógn Manna“ (Frásögum um fornaldaleifar 1817-1823 (1983) bls. 228).

Fornigarður

Fornigarður.

Næst er garðsins getið í Sýslu- og sóknarlýsingum árið 1840 og enn er það séra Jón Vestmann sem heldur á pennanum. Hljóðar lýsing hans svo: „Engar fornleifar er hér af neinu merkilegu, nema garðlag eftir stóran varnargarð frá tíð Erlends lögmanns Þorvarðssonar, sem liggur úr Hlíðarvatni og austur að Snjóthúsavörðu, fyrir ofan alla byggðina. Var þá hagalandið milli garðs og fjalla, en tún og engjar milli garðs og sjóar, allt sjálfvarið. Mælt er, að læst hlið hafi verið fyrir hverju lögbýli, og átti hvör heimabóndi að passa sitt hlið, að ei stæði opið, og þess vegna læst, að enginn gæti opnað hliðið óforvarandis. Þar um þessi vísa:
Fegurðin um fram annað
einna var þó mest,
vart mun verða sannað,
víða hafi sést
öll vera tún í einum reit,
garði varin miklum mjög
um meiri part af sveit
“ (Sýslu og sóknarlýsingar, Árnessýsla, bls. 226-227).
Vogsos-29Í Örnefnaskrá Vogsósa, sem var tekin saman á sjöunda áratug síðustu aldar,  virðist nafnið Fornigarður fyrst koma fram svo að vitað sé (Örnefnaskrá fyrir Vogsósa, ártal vantar).
Brynjúlfur Jónsson nefnir garðinn ekki þessu nafni í grein sinni um athuganir sínar í Gullbrungusýslu. Hann kallar hann einungis aðalgarðinn (Brynjúlfur Jónsson, Rannsókn í Gullbringusýslu og Árnessýslu sumarið 1902, Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1903, bls. 51-52). Kannski festist nafnið við garðinn þegar menn uppgötvuðu að hugsanlega hafi verið átt við þennan garð í rekaskrá Strandarkirkju árið 1275. áður virðast menn hafa kennt hann við Erlend Þorvarðsson lögmann á 16. öld eins fram kemur hér að ofan. Margt mun vera kennt við þann mann og sumt með þjóðsagnablæ.
Vogsos-30Sagt er í Örnefnaskrá að á garðinum sé hlið sem Gamlahlið heitir. Hafi þar verið eitt af hliðum Fornagarðs að lögbýlunum sbr. lýsingu séra Jóns Vestmanns hér að ofan…
Landið sem Fornigarður liggur um er að mestu leyti örfoka, sandorpið og lítt gróið. Víða sér í bera hraunhelluna. Sandurinn sem þarna liggur kemur trúlega aðallega frá ósum Ölfusár, enda má rekja þetta sandorpna og blásna land alla leið þangað. Þessi sandblástur hefur sennilega snemma orðið að vandamáli fyrir bændur í Vogsósum og byggðina þar hjá.
Einkennandi fyrir landslagið á svæðinu eru misháir hólar, lægðir og lautir með einstaka grónum þúfum þar sem kyrkingslegur gróður leynist á stöku stað. Landið er afar þurrt og djúpt virðist vera á grunnvatn. Eina ferskvatnið sem Vogsos-51finnst í nágrenninu er Hlíðarvatn og ósinn sem úr því rennur til sjávar.
Rannsóknin á Fornagarði fólst í að grafa tveggja metra breiðan skurð þvert á garðinn. Fyrir rannsókn stóð aðeins einföld, u.þ.b. 0.45 metra há og u.þ.b. 0.40 metra breið grjóthleðsla upp úr sandinum þars em vegurinn átti að fara yfir. Þessi hleðsla var áberandi illa hlaðin og engar líkur á því að hún væri hluti af fornum hleðslum sem gætu verið allt að 700 ára.
Einungis nánasta umhverfi garðsins var kannað. Engin mannvistarlög fundust, en nokkur gjóskulög sáust undir garðinum sem ástæða þótti til að kanna frekar. Var jarðfræðingur fenginn til að kanna gjóskuna sérstaklega og reyna að fá á hreint hvort grunur um að undir garðinum Vogsos-32mætti sjá H1 gjóskulagið (Hekla 1104) væri réttur.
Heildarhæð garðsins eftir uppgröft var 1.66 metrar. Þar af var 1.1. metrar vel hlaðinn eða hugsanlega úr upprunalega garðinum. Vantaði trúlega eitthvað á hæðina eins og hún hefur verið þegar garðurinn var og hét. Mesta breidd hans neðst var 0.96 metrar. Garðurinn mjókakði upp og var hann tæplega helmingi breiðari niðri en uppi við efri brún eldri hlutans.
Vogsos-33Gulhvítt gjóskulag, sem lá „in situ“ (á upprunalegum stað) undir garðinum reyndist að öllum líkindum vera gjóska úr Heklu frá árinu 1104 (Bryndís G. Róbertsdóttir, Skýrsla um fornleifarannsóknir sumarið 2003; Bjarni F. Einarsson).
Jarðvegssiðin undir garðinum bentu einnig til þess að uppblástur á staðnum hafi hafist einhvern tímann um 1120, eða fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226.
Vogsos-34Munnmæli og sagnir herma að upphaflega hafi Vogsósar staðið þar sem nú heitir Baðstofuhella austan við Ósinn. Nú stendur bærin hins vegar við útfall Óssins hjá Hlíðarvatni. Í upphafi hét bærinn Vogur eða Vágr (Landnámabók) og svo virðist hann heita árið 1275 þar sem Fornagarðs er fyrst getið [??]. Í máldaga Strandarkirkju árið 1367 er nafnið hins vegar Vogshús og aftur í máldaga sömu kirkju upp úr 1570 (Íslenskt fornbréfasafn III, bls. 212). Nú á dögum heitir bærinn Vogsósar. Hugsanlega eru Vogsos-35þessar nafnabreytingar eitthvað tengdar flutningi bæjarins þótt telja megi að breytingin hafi ekki orðið fyrr en eftir að bærinn var fluttur. Breytingin hefur þá væntanlega orðið eitthvern tímann á árabilinu 1275-1367.
Fornigarður gæti hafa verið byggður utan um hinn upprunalega túngarð Vogsósa (Vágs) og þann nýja eftir flutninginn og þannig umlukið bæði gömlu túnin og þau nýju. Túnin lifðu gamla bæinn og geta hafa verið nýtt löngu eftir að hann hafði verið fluttur. Garðurinn er býsna langt frá bæjarstæðunum og afar umfangsmikill miðað við þá túngarða sem við þekkjum í dag. Meginhlutverk hans hefur vafalaust verið að vernda tún Vogsósa fyrir ágangi sandsins.

Vogsósar

Vogsósar.

Sagnir um að Fornigarður hafi legið utan um alla byggðina í selvogi eru mögulegar ungar og til komnar löngu eftir að upprunalegi garðurinnn var gleymdur og Vogsóasr fluttir á núverndi stað. Bogadreginn garðurinn [yfir að Strönd] er líkur þeim túngörðum sem þekktir eru frá fyrstu öldum byggðar í landinu og bendir helst til þess að hafa legið utan um eitt býli.

Fornigarður

Fornigarður.

Þannig voru t.d. túngarðarnir utan um landnámsbýlin, ef þeir voru til staðar yfirleitt. Síðar breyttust þeir í lögun og færðust gjarnan nær eða fjær býlunum. Þegar viðbæturnar við Fornagarð voru komnar á það stig að þær tengdust öðrum túngörðum annarra býla við Selvoginn má tala um að um alla byggðina hafi verið einn garður.
Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir Heklugosið 1104 og fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226, hugsanlega einhvern tímann á bilinu 1120-1226.
Vogsos-37Um 1104, eða nokkru fyrr, verður sandfok all áberandi á svæðinu og hlýtur það að hafa skapað ákveðin vandamál fyrir bændur þar. Til að verja tún fyrir þessum vágesti hefur mikill garður verið hlaðinn utan um gömlu og nýju tún Vogsósa hvort sem það hefur verið gert fyrir flutninginn á bænum eða á eftir.
Nafnið Fornigarður er ekki ýkja gamalt og alls óvíst hvort garðurinn hafi haft nokkurt nafn í byrjun. [Þórarinn á Vogsósum, f: 1931, nefnir garðinn jafnan Gamlagarð]. Smám saman missir garðurinn þýðingu sína, kannski vegna þess að menn gáfust upp á vonlausri baráttunni við sandinn. Þó hefur honum verið haldið við í seinni tíð með miklu minni tilkostnaði en áður. Grjóti hefur verið hrúgað upp eftir þörfum, en ekki vandað til verksins enda ekki þörf á því.
Vogsos-37Rannsóknin leiddi í ljós að garðurinn er að mestu heill þar sem hann var skoðaður undir sandinum, þótt eitthvað kunni að vanta upp á efsta hluta hans.
Trúlega voru garðhleðslur eitt af stærstu verkum sem samfélag manna tók sér fyrir hendur á þjóðveldistímanum og lengi síðan. Um þær giltu strangar reglur sem kváðu á um skyldur manna og viðurlög ef þeim var ekki hlýtt. engar framkvæmdir voru jafn  viðamiklar, nema ef vera skyldi stærri kirkjubyggingar. Líkja má garðhleðslum þjóðveldistímans við vegagerð nútímans. Umfangið var líklega svipað og kostnaðurinn sömuleiðis“.
Þegar framangreind rannsókn á „Fornagarði“ er skoðuð vaknar a.m.k ein spurning; beindist rannsóknin virkilega að hinum eiginlega Fornagarði eða var bara

Ölfus

Selvogur – Minja- og örnefnaskilti (ÓSÁ).

um einhvern annan og yngri garð að ræða?
Þegar uppdrátturinn hér að framan er skoðaður má sjá að um nokkur garðlög er um að ræða á svæðinu millum Strandar og Vogsósa. Augljóst er að garðurinn liggur til norðurs austan Strandar þar sem austurgarðurinn frá Snjóthúsi/-um kemur að honum þvert ofan við gömlu byggðina í Selvogi (sjá meðfylgjandi uppdrátt ÓSÁ).
Í rannsókninni er gengið út frá því að Fornigarður liggi á milli Strandar og Vogsósa, en var það svo? Þegar garðlögin þarna á millum voru gengin daglangt komum í ljós miklar efasemdir um að svo kunni að hafa verið í upphafi.

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

Ofan við Stórhól sameinast tveir garðar (hnit:6350460-2141926); innri garður og ytri garður. Sá ytri er greinilega veigaminni (sá er kemur við sögu rannsóknarinnar). Sjá má þessa greinileg ummerki á klapparhæðum og holtum þar sem jafnan er einungis um eina steinaröð að ræða. Þessi garður liggur hins vegar alla leið yfir að Vogsósum og lá, þrátt fyrir strokleðrun (túnasléttun) ofan fjárhúsanna á Vogsósum II, alla leið niður að Imbukofahól og endar í Hlíðarvatni skammt neðar. Athyglisverðar minjar eru austan við þennan vörslugarð skammt ofan túnmörkin á Vogsósum; tvær fornar, nú grónar, fjárborgir með gerði umleikis. Annarri fjárborginni, þeirri syðri, hefur greinilega síðar verið umbreytt í stekk, en þó má enn sjá grjótleifar hinnar eldri fjárborgar umleikis.
Hinn grjótgarðurinn er augsýnilega veigameiri, bæði að breidd og hæð. Telja verður hann eldri en hinn efri af tveimur ástæðum; hann er nær hinni fyrstu byggð og meira er í hann lagt. Tilgangurinn fyrir tilurð hans virðist hafa verið annar en þess efri, þ.e. að halda búfé innan hans eða utan. Efri garðurinn virðist hins vegar einungis hafa verið varnargarður, bæði vegna breytinga á búsetu (bærinn Vágr er fluttur upp að ósum Hlíðarvatns móts við Nauthólma (Vaðhóll)) og breyttri þörf á að varsla svæðið fyrir búfé (kindum og kúm). Nýlegri álagshleðslan ofan á fornan garðinn hefur að öllum líkindum orðið til vegna varnaraðgerða sandfokinu á 13. öld og síðar.
Vogsos-39Þegar svæðið var skoðað af nákvæmni kom a.m.k. þrennt áður upplýst í ljós; 1. leifar af garði, sem hefur verið sértaklega mikill umleikis, eru til vestan við „upplýstan“ vörslufornagarð er framangreind rannsókn beindist af, 2) fornleifar, sem eru ofan við tún Vogsósa II, virðast hvergi skráðar (tvær grónar fjárborgir þar sem annarri (þeirri syðri) hefur á einhverjum tíma verið breytt í stekk), og 3) hvergi er getið leifa beitarhúsa (sauðahúsa) á ósamótum affalls Hlíðarvatns frá því um aldamótin 1900. Að sögn Þórarins Snorrasonar (f. 1931) bónda á Vogsósum hlóð afi hans þessi tilteknu hús skammt ofan þar sem nú heitir Baðstofuhella. Að sögn Þórarins er Baðstofuhellan hæsti beri klapparhóllinn undan strandlandinu austan ósa affallsins.
Þar hafði hann Vogsosar-37oftlega setið í sprungu í hólnum daglangt og dundað sér við að skjóta fugl. Hins vegar væri augljóst, þegar hugmyndir eru uppi um að landnámsbýlið Vágr hafi verið þar, að það gæti vel verið sennilegt því á hans stuttu æfi einungis hafi sjórinn þá og þegar brotið mikið land af strandlengjunni frá því sem áður var.
Lágur hóll er skammt austan fyrrnefndra beitarhúsatófta, nánast niður á ströndinni. Í honum virðast vera mannvistarleifar.
Hvað sem allri umfjöllun um Fornagarð líður virðast (ekki síst að teknu tilliti til sambærilegra garða annars staðar, t.d. í Húshólma og Óbrinnishólma (þar sem einungis er í fornleifaskráningu getið um „fjárborg“, en hvorki topphlaðnar leifar húss né forna garða) vera miklar líkur til þess að vestari garðurinn sé eldri en sá er grafið var í títtnefndri rannsókn.

Vogsos-40

Rannsóknin, sem slík, stendur vissulega undir sér með tilheyrandi óþarfa kostnaði fyrir Vegagerðina og með samþykki Fornleifa-verndar ríkisins (þar sem enginn hjá stofnunni virðist nokkru sinni hafa litið nauðsynlega rannsókn gangnrýnum augum).
Niðurstaðan skiptir hins vegar mestu máli; framangreind rannsókn var nauðsynleg vegna gildandi laga og krafna þar af lútandi og var í rauninni mikilvæg að teknu tilliti til aðstæðna þar sem kanna þurfti þá fornleif er vegagerðinni var ætlað að spilla. Ef einhver þekking og dugur (fjármagn og vilji) væri fyrir hendi hjá Fornleifavernd ríkisins myndi stofnunin láta framkvæma fornleifarannsókn á hinum eiginlega Fornagarði, þ.e. garðinum er nær frá Snjóthúsi að Stórhól, vestan fyrrnefnds vörslugarðs og sunnan núverandi Suðurstrandarvegar. Ef af verður mun það verða tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Sjá meira um Fornagarð/Gamlagarð/Langagarð HÉR.

Heimild:
-Bjarni F. Einarsson, „Garður er grannasættir“, Árnesingur VII 2006, bls.205-230.

Fornigarður

Fornigarður við Nes.

Hellukofinn

Gengið var upp Hellisskarð frá Kolviðarhóli, framhjá Búasteini og eftir gömlu þjóðleiðinni um Hellisheiði. Hellukofinn var skoðaður á heiðinni og þar sem gamla gatan fer undir Suðurlandsveg var haldið út af henni til suðurs og inn á gamla Suðurlandsveginn. Honum var fylgt langleiðina að Kömbum, inn á Skógarveginn er liggur þar sunnan við Urðarás, með Núpafjalli og áleiðis niður að Þurá undir Hnúkum. Veginum var fylgt að Urðarásartjörnum (sumir segja Hurðarásavötnum). Þar var beygt út af honum til vesturs, skoðaðar rústir og síðan haldið áfram vestur með norðurrótum Skálafells. Gengið var með Hverahlíð að Lakahnúkum, um Hveradali og með Reykjafelli að upphafsstað.

Kolviðarhóll

Garður við Kolviðarhól.

Ætlunin var m.a. að leita að hugsanlegum helli á heiðinni er hún kynni að draga nafn sitt af. Jón Jónsson, jarðfræðingur telur sennilegt að stór hellir hafi verið á Hellisheiði, en hraun runnið fyrir opið og lokað því. Orustuhólshraun rann af heiðinni niður með Skálafelli, niður Vatnsskarð og myndaði m.a. svonefnt Þurárhraun. Hellirinn ætti, að hans mati, að hafa verið á sunnanverðri heiðinni, sunnan núverandi Suðurlandsvegar. Þekkt er að hellar, sem lokast hafa, hafi opnast að nýju. Ætlunin var m.a. að gaumgæfa svæðið m.t.t. þessa.
Hellisskað er á vestanverðri Hellisheiði, kallað Öxnaskarð að fornu, nálægt Kolviðarhól. Í Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003 segir m.a.: Í Árnesþingi vestanverðu, eftir Þór Vigfússon, er fjallað um nafnið Hellisheiði með eftirfarandi orðum: „Ekki er vitað hví Hellisheiði heitir svo, enginn er hér hellirinn.“ Ennfremur segir í skýringargrein:
„Sigmundur Einarsson jarðfræðingur hefir getið sér þess til að Hellisheiði dragi nafn af Raufarhólshelli, en um Þrengsli og fram hjá hellinum kunni að hafa legið ein fjölfarnasta leiðin austur yfir fjall á fyrstu öld byggðar í landinu.
Gosið úr Eldborgum við Lambafell um árið 1000 teppti Þrengslin með Svínahraunsbruna og menn hafi því þurft að velja sér leiðir á nýjum forsendum. Við það kunni örnefnið Hellisheiði að hafa flust um set, norður á bóginn.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 2010.

Þessi skýring er alls ekki fráleit. Hugsanlegt er einnig að annar hellir hafi verið áður þar sem nú er Hellisheiði og Kristnitökuhraunið hafi runnið yfir hann*.
Sumir hafa talið að nafnið sé dregið af örnefninu Hellur, sem er austur af Stóra-Meitli þar sem miklar sléttar hellur eru og því dregið af kvenkynsorðinu ‘hella’. Nafn heiðarinnar hefði þá átt að vera ‘Helluheiði’ eða ‘Hellnaheiði’ en síðan breyst í Hellisheiði.“
Nú er breytt mynd á heiðinni; stórvirkjunarframkvæmdir í gangi með tilheyrandi mannvirkja- og vegagerð og háspennumastur liggja þvers og kurs um svæðið. Er þetta sýnin, sem vænta má á Brennisteinsfjalla- og Trölladyngjusvæðinu, einum fallegustu náttúruperlum landsins??? Getur verið að fólk með umhyggju fyrir náttúru og umhverfi hafi verið of upptekið af hálendinu, en gleymt því sem stendur því nær??? Virkjanir eru nauðsynlegar í nútíð og framtíð, en varla er til of mikils mælst að við þær verði jafnan gætt eins mikillar tillittsemi við landið og nokkurs er kostur. Fallegt virkjunarmannvirki í „ósnortinni“ náttúru þarf ekki að vera svo afleitt, en fylgimöstrin eru og verða hryllileg. Mun ein slík koma frá Reykjanesvirkjun á næstunni – langsum eftir Reykjanesskaganum. Þótt Reykjanesskaginn hafi hingað til verið eitt vanmetnasta útivistarsvæði landsins er ekki þar með sagt að hver sem er megi „vaða yfir það á skítugum skónum“.

Hellisskarð

Varða efst í Hellisskarði.

Hellisheiðasvæðið er verðmæti, hvort sem litið er til jarðhitans eða mögulegrar ferðamennsku, sem er einn hraðvaxnasta atvinnugrein hér á landi og gefur af sér meiri gjaldeyristekjur en flestar aðrar, að undanskildum fiskvinnslu og stóriðju.

Ljóst er að aðstandendur Hellisheiðarvirkjunarinnar ætla sér að vanda sig og raska ekki meiru en nauðsynlegt er. Hins vegar virðist vera óþarfi að krukka í fleiri gíga til efnisöflunar þegar hægt er að komast að því að eyðileggja einungis fáa.
Í lýsingu Ölfushrepps frá 1703 er nafnið skrifað Hellirsheiði sem bendir til þess að orðið hellir sé þar að baki, en ekki hellur þær sem nefndar eru í lýsingunni. Samt er það svo að ruglingur getur verið í örnefnum hvort um er að ræða hellu eða helli.
Niðurstaðan er sú að langlíklegast er að orðið hellir sé í örnefninu Hellisheiði en álitamál hvort það er Raufarhólshellir eða einhver annar hellir sem nú er týndur.
Heiðin hefur öldum saman verið mjög fjölfarin. Hin forna leið, sem kölluð hefur verið Gamli vegurinn, lá á öðrum stað en nú er farið. Að austan lá hún upp Kamba, yfir Hurðarás og þaðan sjónhendingu á Hellisskarð fyrir ofan Kolviðarhól. Síðan lá leiðin niður af heiðinni um Hellisskarð, þaðan um Bolavelli vestur með Húsmúla, um norðanvert Svínahraun hjá Lyklafelli og var oft komið í byggð hjá Elliðakoti í Mosfellssveit. Leiðin liggur um klappir vestan til á heiðinni og er gatan þar víða mörkuð allt að 20 sm djúp í stálhart hraungrjótið. Þessi leið var öll vörðuð og standa margar vörðurnar vel enn í dag.

Hellisskarð

Hellisskarð – gata.

Þekkt er Biskupsvarða sem stóð á klapparhól vestarlega á heiðinni. Vörðunnar er getið í heimild frá 1703 og mun hún hafa verið ævaforn og mikið mannvirki, krosshlaðin svo að hafa mætti skjól við hana í öllum áttum. Hún stóð fram á 19. öld. Nálægt 1830 var byggður sæluhúskofi á sömu klöppinni og var grjótið úr Biskupsvörðu notað í hann. Kofinn stendur enn, nefndur Hellukofi enda eingöngu byggður úr hellum. Hann er borghlaðinn, 1,85 m á hvern veg og 2 m á hæð. Er fullri vegghæð er náð dregst hleðslan saman og myndar þakið en efst er stór hella sem lokar opinu. Kofinn tók 4-5 menn.

Gangan hófst neðan við Kolviðarhól. Kolviðarhóll er 4-5 m hár, gróinn, melhóll við norðurenda á lágum rana eða ási sem gengur norður úr Reykjafelli, beint neðan (vestan) við Hellisskarð. Vestan og norðan við bæjarstæðið eru sléttar grasi grónar grundir að Húsmúla og Svínahrauni, en að austan er mosagróið hraun. Almenn sögn segir, að í Kolviðarhól sé heygður Kolfinnur, sem nefndur er í Kjalnesinga sögu.

Hellisskarð

Gemgið um Hellisskarð.

Bú var fyrst reist á Kolviðarhóli 1883. „[Vorið 1883] sezt líka að á Kolviðarhóli Jón bóndi frá Stærribæ í Grímsnesi. Byggði hann sér bæ framan í hólnum.“ Bærinn hefur staðið framan í hólnum, suðvestantil.

Nýtt hús á Kolviðarhóli var fullgjört 1878. Húsinu er lýst þannig: Tvö herbergi niðri og annað með ofni, ennfremur eldhús með suðuvél. Uppi tvö herbergi, annað til geymslu, en hitt fyrir ferðamenn.“ Ekki er vitað hvar þetta hús stóð m.v. fyrra sæluhúsið frá 1844, en þegar búskapur hófst á Kolviðarhóli 1883 var búið í þessu húsi og stóð það lengi eftir. Þorvaldur Thoroddsen lýsir húsinu í Ferðabók sinni og frétt birtist um bygginguna í Þjóðólfi 1878: „Sæluhúsið á Kolviðarhóli, sem að mestu var fullgjört í fyrra haust, hefir nú fengið þá aðgjörð, sem þurfa þótti, hefir það verið notað í sumar og fólk haft þar byggð. Húsið er 10-11 álnir á breidd og lengd með samsvarandi hæð, úr límdum steini byggt og allsterkt, í því er og skorsteinn og herbergi til íbúðar, en meiri hluti hússins er ætlaður ferðamönnum. . .. Hið eldra sæluhús er notað fyrir hesthús …“
Ekkert vatnsból er sýnilegt en hefur væntanlega verið í brunni.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – bæjarhóllinn 2008.

Undirstöður síðustu húsanna á Kolviðarhóli sjást enn vel og hafa sumar verið steyptar en aðrar eru úr tilhöggnum sandsteini, sem víða má finna í Reykjafelli beint ofan við hólinn. Steinarnir eru allstórir, margir um 60x30x30 sm. Sumstaðar er steypt á þessar hleðslur. Framan í nyrðri hluta hólsins (norðan við bæjarstæðið) hefur verið hlaðinn pallur úr hraungrýti og er hann mjög heillegur að sunnanverðu og að vestan en norðurhornið er hálfhrunið. Sunnan við hólinn er lítill heimagrafreitur með steyptum veggjum. Hleðslugrjót og steypuleifar eru á nokkrum stöðum á og utan í hólnum, einkanlega norðantil en ekkert af því svo mikið að talist geti húsaleifar. Upphlaðinn vegur, sennilega frá því snemma á öldinni – mögulega gerður með handverkfærum – liggur upp á hólinn að norðan úr vestri.

Hellisheiði

Hellisheiði – forna leiðin um helluna.

Guðni Þorgergsson fór að búa á Kolviðarhóli 1895. Stækkaði hann túniðs. Grjóthlaðinn garður er um túnið á Kolviðarhóli, alls 753 m langur með hliði á norðurhlið sem veit að Hellisskarði.
Garðurinn er sennilega hlaðinn í tveimur áföngum, annarsvegar er U-laga garður, mjög jafn og fallega hlaðinn suðvestan við bæjarhólinn á sléttri grundinni og er þar gróið upp á garðinn að innan og horn fagurlega sveigð, og gæti þetta verið sá hlutinn sem Jón hlóð. Hinn áfanginn hefur hafist í brekkurótunum beint suður af bæjarstæðinu og liggur svo upp á hjallann og svo norður fyrir hólinn við rætur hans og er hvasst horn að norðaustan, og gæti þetta verið tilkomið seinna og verið stækkun Guðna en ekki er þó óhugsandi að þessu hafi verið öfugt farið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Árið 1910 voru tvö hús á Hólnum, timburhús og steinhús, þar að auki næg búpeningshús. Einu útihúsaleifarnar sem nú sjást er steypuhrúgald austan í norðanverðum hólnum.
Neðan við Kolviðarhól, „á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur Sælhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hvort allt þessa tíma Ölves innbyggjarar hafa upp haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innivistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli.“, segir í lýsingu af því 1793.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsið.

„Skömmu áður en komið er að fjallinu, sést lítill kofi, hlaðinn úr hraungrjóti, en hefur verið með torfþaki. Hann var ætlaður þeim, sem ferðast þarna á vetrardegi, og kallaðist sæluhús. Margir hafa dáið í þessum kofa, því oft hafa þeir ekki fundið hann fyrr en þeir voru örmagna af hungri og kulda. Kofi þessi var illa ræmdur fyrir draugagang, og mynduðust meðal manna hinar fáránlegustu sögur um kofa þennan. Ýmsar sagnir eru um menn sem hafa tekist á við drauga í kofa þessum, t.d. um Grím á Nesjavöllum en hann var á ferð þar um 1820 og kljáðist við afturgöngur þriggja manna sem höfðu orðið þar úti nokkrum árum áður. Þar kemur fram að bálki hafi verið í suðurenda kofans. Árið 1845 var kofinn í Svínahrauni fluttur upp á Kolviðarhól.“

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1939.

Sæluhúsið á Kolviðarhóli var að öllu leyti tréhús, en stóð í álnar hárri grjóttóft til beggja hliða og fyrir apturgafli. Það var því „nær 9 álna langt og 4 álna breitt, í þremur stafgólfum og portbyggt; þak, gaflar og hliðar tvöfalt niður fyrir bita; lopt er í öllu húsinu og hurð fyrir og stigi til uppgaungu; glergluggar uppi og niðri og járnrimlar fyrir rúðum niðri; gólfið af tvílögðu hellugrjóti. Á framgafli er hurð, sem gengur út og verður ekki tekin af hjörum, með loku fyrir sem skjóta má frá og fyrir bæði að innan og utan. Í húsi þessu hafa verið í einu 24 menn á loptinu en 16 hestar niðri.“ Ekki er vitað hvar á hólnum þetta hús stóð þó líklegt megi telja að það hafi verið á sama stað og bærinn seinna.

Reykjafellsrétt

Reykjafellsrétt í Dauðadal.

Um 200 m norðvestan við Kolviðarhól, um 30 m vestan við veginn inn í Sleggjubeinsdali er stór grjóthlaðin tóft. Veggirnir eru grjóthlaðnir í gegn, mest 7 umför en mold eða torfi hefur verið hrúgað utan með að neðan og nær mest um 0,7 m upp á grjóthleðsluna. Torfleifar eru einnig ofan á syðri langveggnum. Bárujárnsleifar og fúnir húsaviðir eru inni í tóftinni en þó er sáralítið eftir af þekjunni. Í gólfinu sér í steypu sem líklega er leifar afa garða. Dyr á báðum göflum. Örugglega fjárhús.
„Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell, norðan í því er Dauðidalur, í honum er fjárrétt.“ segir í örnefnalýsingu. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal.

Hellisheiði

Hellisheiði – vörður.

Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kring um hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við í dældinni og enn fjær eru mosaþembur.
Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Gengið var á skarðið. Enn má sjá móta fyrir „Eiríksvegi“ Eríks Ásmundssonar frá Grjóta er lagður var yfir heiðina um 1880.
Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvörn stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans til vísar.“ „Um það bil í miðri heiðarbrekkunni til vinstri, nokkuð hundruð fet uppi er stór teningslaga steinn; þetta er Búasteinn.

Búasteinn

Búasteinn.

Er hann settur í samband við frásögn Kjalnesinga sögu, þar sem Búi, þegar hann kom niður og Öxnaskarði og sá fyrirsát Kolfinns, reið að stórum steini, sem stóð undir skarðinu, „svo mikill sem hamar, mátti þá framan at eins at honum ganga“, og varði sig þar.“ Búasteinn er stór þverhníptur sandsteinsklettur og er aðeins gengt upp á hann að ofan (austan). Talsvert rof er í kringum steininn af vatnsflaumi en einnig af mannaferð.
„Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi.“ segir í örnefnalýsingu. Allt frá því að komið er upp úr Hellisskarði er hálfbert helluhraun austur að miðri heiðinni eða þangað til að fer að halla austur í Ölfus. Á þessari leið, sem merkt er með vörðum má víða rekja rás í helluna sem myndast hefur af umferð járnaðra hesta.
Helluhraun. Rásin sést fyrst og fremst þar sem hraunið er slétt og ógróið en á milli er mosagróður og grjóthröngl.

Hellukofinn

Hellukofinn.

„[Hellisheiðar] vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er, þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu.“ „Þegar komið er upp á heiðina [úr Hellisskarði], verður fyrir samfelld hraunbreiða, og er aðeins eitt einstigi yfir hana. Hraunið er að mestu flatar og sléttar hellur, en grjót og melar hér og hvar … Svo mætti virðast, sem einstigi þetta væri höggvið af manna höndum í hraunstorkuna, því þar er svo beint og reglulegt. Víða mælist það allt að 1/2 feti, og má af því marka, hve geysigamall þessi vegur er og fjölfarinn.“
Rásin er misgreinileg, yfirleitt um 0,4 m breið (á bilinu 0,25-0,45 m) og víðast 0,05-0,1 m djúp en mest 0,26 m. Samfellda kafla má rekja lengst um 50 metra en yfirleitt mun styttra en á milli liggur leiðin sumstaðr um djúpar rásir þar sem grjóri hefur verið rutt úr veginum en víðar gufar slóðin alveg upp á milli klappasvæðanna og helsur ekki alltaf áfram í beinu framhaldi af því sem sleppti.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Á nokkrum stöðum má greina að slóðin er tvö- eða jafnvel þreföld. Sumstaðar sést engin rás þar sem þó er klöpp og annarsstaðar sést rásin aðeins sem örlítil dæld sem ekki verður greind nema af því að litamunur er þannig að bergið er ljósara í rásinni en í kring. Rásin sést mjög skýrt um 100 m sunnan við vörðuröðina, skammt vestan við neyðarskýli slysavarnarfélagsins við þjóðveg 1, en þar skammt vestan við hefur ráisin verið skemmd þar sem rafmagnsmastur hefur verið byggt á klöppinni en auk þess hefur hringvegurinn verið lagður yfir klöppina. Rekja má rásina um 200 m til austurs, sunnan við hringveginn, eða u.þ.b. jafnlangt og vörðurnar ná en þar austan við fer að halla undan fæti auk þess sem þar er minna um berar hraunklappir en meira um mosaþembur.

Hellukofinn

Í Hellukofanum.

Árið 1703 segir í lýsingu að „á Hellirsheiði eru yfir 100 vörður; er sá fjallvegur helst tíðkaður á vetrum. Vegir hafa legið yfir Hellisheiði frá ómunatíð. Gata lá upp Kamba, yfir Hurðará og í stefnu á Gíga ofan við Hellisskarð. Í klöppum á þeirri leið eru víða djúpar götur, gengnar á liðnum öldum. Síðar var lagður upphlaðinn vegur, kenndur við Eirík í Grjóta, sömu leið. Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðast hvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum. Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður.

Vörður

Vörður á Hellisheiði.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, þar sem lækjargil er í fjallinu og allstór hvammur við fjallsræturnar og dæld í fjallið að ofan, beina leið yfir hraunið að neyðarskýli LHS við þjóðveg 1, en þar endar leiðin enda eru þar „gatnamót“ við vörðurnar á Hellisheiðarleið. Vegpóstur vísar á leiðina undir Skarðsmýrarfjöllum.
Vörðurnar eru með 50-60 m millibili, breiðar og lágar, 1,5-2 m í þvermál en fæstar hærri en 1,5 m. Þær eru ekki vel hlaðnar þó mikið grjót sé í þeim og eru margar hrundar að hluta til. Tæplega eru þetta gamlar vörður og gætu staðið í sambandi við starfsemi Slysavarnarfélagsins.
„Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágskarði. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.“ segir í örnefnalýsingu. „[Á Breiðabólstað] hefst Lágaskarðsvegur. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð.“

Lakastígur

Lakastígur.

Leiðin liggur frá Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er gert ráð fyrir. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.
Um grasi grónar hlíðar og slétt helluhraun, mosagróið, mjög greiðfær leið.
Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul.
„Ofarlega í Kömbum er Biskupslaut. Sagt er að Hallgrímur biskup hafi áð í lautinni og í gamni nefnt lautina þessu nafni.“

Orrustuhóll

Orrustuhóll.

Í lýsingu 1703 segir að „fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.“ segir Hálfdan Jónsson í lýsingu sinni. „Austan undir hrauninu er Orustuholl.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Gömul sögn segir, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.“ segir í örnefnalýsingu. Kolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingu Hálfdanar: „Réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.“ Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Gjáin er gróin í botnin en hrunið hefur ofaní hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
„Eftir bardagann í Orusturhólsréttum áttu Ölfusingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfusingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali] Var riðið fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.“ Réttin fannst ekki og gæti verið farin í ána sem brýtur mikið af bökkunum. Smjörþýfi er um 1,5×0,5 km stór þúfnamói, mjög grösugur og greinilega gott beitiland. Suðaustan við tekur við lyngmói.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Af lýsingunni að dæma hefur réttin átt að vera norðan til á Smjörþýfi nálægt ánni og reiðgötunum sem liggja nálægt henni inn í Hengladali og eru mjög skýrar. Farvegur eftir leysingavatn er einnig undir brekkurótunum austanmegin norðantil á Smjörþýfi og gæti þar hafa verið réttarstæði sem síðan hefur horfið.
„Á stórri klöpp vestarlega á heiðinni var stór varða sem hét Biskupsvarða. Nálægt 1830 var byggður borghlaðinn kofi, um 2 m í þvermál að innan á sömu klöppinni. Hann stendur ennþá og er nefndur Hellukofi, enda byggður úr hraunhellum eingöngu, veggir og þak.“ segir í örnefnalýsingu. Kofinn er um 70 m norður af hinni vörðuðu Hellisheiðarleið, um 1,3 km vestan við neyðarskýli LHS við þjóðveg 1.
Kofinn stendur framarlega á klapparbrún og er hann sjálfur á upphækkun á klöppinni. Kofinn sést allsstaðar af heiðinni. Í kringum hann sést hvar hleðslugrjót hefur verið rifið upp. Húsið gerði Þórður Erlendsson, þá bóndi á Völlum, síðar Tannastöðum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Biskupsvarða var stór og hlaðin í kross með 4 arma, þá var skjól í kverkunum. Hún var mjög gömul og hrunin í rúst. Hún stóð á klöpp hægra megin við veginn, þegar suður var farið (til Faxaflóa). Kofinn var byggður úr sama grjótinu, og að öllum líkindum á sömu klöppinni. Heimild fyrir þessu er Skúli Helgason, eftir Kolbeini Guðmundssyni bónda á Úlfljótsvatni, en hann hafði það eftir gömlum mönnum og langminnugum.“ Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr). „Á þeim stað sem hétu Syðri-Þrívörður var laust eftir 1820 byggður sæluhúskofi, borghlaðinn úr grjóti og þéttur með mosa. Kofi sá stendur enn óhaggaður eftir rúm 150 ár. Lítið skjól er þar nú því að þétting öll er fokin í burtu.“ SB III, 282. Kofinn er ferhyrndur að innan, 2×2 m og 1,85 m undir þak, um 20 umför af 7-15 sm þykkum hraunhellum. Suðausturhorn þaksins er aðeins farið að síga inn en annars standa hleðslurnar mjög vel. Dyr eru á norðurhlið, austantil. Veggir eru um 0,8 m þykkir við dyraop, þar er þröskuldur, 2 umför af hraunhellum. Talsverður mosi og skófir eru á kofanum. Inni í kofanum er hart moldargólf, að mestu slétt. Ekkert friðlýsingarmerki er á staðnum.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

„Vestur Ölkelduháls liggja hreppamörki milli Ölfushrepps og Grafnings. Þar er Brúnkollublettur nyrðri á mörkum hreppanna, áningarstaður ferðamanna, sem fóru leiðina milli Hrauns og hlíða.“ segir í örnefnalýsingu. Brúnkollublettur er allstór (um 200×200 m) þýfður grasblettur með grónum götupöldrum sem liggja SV-NA, fast norðan við vatnskilin þar sem hálsinn er lægstur og breiðastur, sunnan undir lágum melhól með grösugum suðurhlíðum. Um 100 m austan við nýjan línuveg sem liggur yfir hálsinn. Nafnið gæti einnig hafa náð yfir grasteyginga í austurhlíðum Hengilsins, um 400 m vestan við þennan móa og er nafnið oftast merkt þar á kortum. „Þýfður grasblettur í breiðri kvos. Þar er mjög skjólgott, a.m.k. í norðanátt.“
Þrívörður vestari/nyrðri heita þar sem neyðarskýli LHS við þjóðveg 1 er nú (neyðarskýlið er reyndar horfið, en sökkullinn stendur enn eftir).
Aðrar Þrívörður eystri voru við gamla veginn í Kömbunum.
Haldið var yfir Suðurlandsveg og yfir á gamla veginn, sem fyrrum var nýr.
Sá, sem fylgir gömlu götunni yfir Hellisheiði, gerir sér grein fyrir nafngiftinni. Gatan er á sléttri hellu svo til alla leiðina, sem er bæði óvenjulegt á svo langri leið og þærgilegt þar sem heiðarveg er að ræða.

Smiðjulaut

Smiðjulaut – Smiðjutóft.

Nýr vegur var lagður um Hellisheiði 1894-95: „Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður [Thoroddsen landsverkfræðingur] færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjafell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá hinn sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar. / Sigurður mældi fyrir veginum upp kamba og varð nú að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 hárnálarbeygjur á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. .. . Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir.“

Skógargata

Skógargatan.

Skógargötunni var fylgt áleiðis til suðurs. Rifjuð var upp sagan af manni einum úr austursýslunni, sem fyrir löngu síðan lagði af stað að heiman og ætlaði til sjóróðra suður með Faxaflóa. … Þetta var um vetur, sennilega í febrúar. Var maðurinn fótgangandi og einn á ferð. Segir eigi af ferðum hans, fyrr en hann kemur á Hellisheiði. Var það að hallandi degi. Veður var kalt og fjúkandi, svo að hann treystist naumlega til að rata rétta leið og allt af gerðist hríðin svartari, eftir því sem lengra leið á daginn. Var þá eigi akvegur kominn yfir heiðina og vörður meðfram veginum mjög af skornum skammti. Loks tekur maðurinn þá ákvörðun að leita sér skjóls þar á heiðinni og helzt með því að grafa sig í fönn, áður en hann færi mikið afvega. Fer hann nú að skygnast um eftir stað, er nota megi í þessu augnamiði, og eftir nokkra leit finnur hann sér fylgsni nokkurt eða skúta og borar sér þar inn. Þá er hann hefir skriðið skammt, finnur hann, að fylgsninu hallar niður á við, og því lengra sem hann kemst, verður ætíð ljósara fyrir augum hans, og getur hann vel greint það, er fyrir augun bar.

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur) á Hellisheiði.

Loks kemur hann þar niður á flatlendi, grasi gróið. Var þar fagurt um að litast og hlýtt og bjart, eins og sumar væri. Gengur hann þar um völlu víða og fagra og kemur að vatni einu eða tjörn. Þar á bökkum vatnsins kemur hann auga á stóra lóuhópa, er lágu þar dauðar eða sofandi, og hafði hver þeirra grænt blað í nefinu. Þegar hann hefir virt þetta allt fyrir sér, sezt hann niður og tekur sér hvíld eftir gönguna. Tekur hann síðan nestismal sinn og matast, sem honum líkaði, og að því búnu fær hann sér vænan svaladrykk úr tjörninni. Býst hann nú um þar á hentugum stað að taka á sig náðir. Leggst han nú fyrir til svefns og hagræðir sér eftir föngum og bagaði eigi kuldi. Sofnaði hann þegar og svaf vært um nóttina, og var líðan hans svo góð sem vænta mátti. Næsta morgun vaknar hann hress og glaður eftir næturhvíldina. Fær hann sér nú morgunverð, áður gangan sé hafin, og á eftir góðan svaladrykk úr tjörninni. Lágu lóurnar kyrrar eins og kvöldið áður. Þegar þessu er lokið og hann er ferðbúinn, fer hann að leita upp á yfirborð jarðarinnar. Er eigi annars getið en að honum hafi gengið griðlega útgangan. En þegar út var komið, var hríðinni af lett og komið viðunanlegt veður. Er hann nú glaður yfir því, að svo vel greiddist úr með náttstað kvöldið áður, svo illa sem á horfðist. Setur hann nú nákvæmlega á sig ýmis kennimerki, svo að honum mætti takast að finna staðinn, þegar vora taki og hann haldi heimleiðis að liðinni vertíðinni.

Hveragerði

Hellisheiði – Snjóþyngsli á Hellisheiði, líklega á fjórða áratug síðustu aldar. Oft var Hellisheiði lokuð frá nóvember fram í maí vegna ófærðar. Snjór var mokaður í fyrsta skipti á Hellisheiði vorið 1927, með handskóflum, en ruðningur með stórtækari vinnuvélum hófst ekki fyrr en á árum síðari heimsstyrjaldar.

Þegar hann þykist hafa fest þetta í minni sér svo glögglega, að eigi geti skeikað, leggur hann af stað og heldur ferðinni áfram, eins og leið liggur, og ber nú ekkert sögulegt við. Komst hann þangað, er hann hafði ætlað að róa um vertíðina, og gekk það allt skaplega. … Leið nú vertíðina til enda, og að henni lokinni býst hann að halda heimleiðis, … þegar hann kemur á Hellisheiði, ætlar hann að koma við í hinum einkennilega stað, þar sem hann hafði náttstað haft veturinn áður. Gætir hann nú nákvæmlega að merkjum þeim, er hann hafði sett sér að muna. En hvernig sem hann leitaði og gekk aftur og fram, var honum ómögulegt að finna staðinn, og var sem einhver hula legðist þar yfir. Vera má, að þessi maður hafi ferðazt þessa leið oftar, en staðinn fann hann aldrei síðan, og er því líkast, að hann hafi verið numinn í einhverja huliðsheima, þegar honum lá mest á og tvísýnt var, hvort hann fengi lífi haldið næturlangt sakir illviðris og kulda.

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur um 1900.

Margrét útilegumaður hafðist við í Nesjalaugum eða Ölfusvatnslaugum, en síðan í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á Hellisheiði og stal þar af ferðamönnum.
„Þegar nokkuð var liðið fram á næsta vor, tók Margrét að gá til veðurs og líta í kringum sig á nýjan leik. Hljóp hún loks aftur að heiman og hélt þá enn í vesturátt. … Hún lagði nú leið sína vestur yfir Ölfus og vestur á Hellisheiði og hafðist þar við í ýmsum stöðum nálægt þjóðveginum á suðuferðaleið manna. var hún þar á slangri um sumarið, og stóð mörgum ógn af henni. Oft greip hún plögg ferðamanna, er þeir voru í tjaldstöðum, einkum þegar þoka var og dimmviðri, og svo gerðist Margrét stórtæk um afla, að hún kippti skreiðarböggum á bak sér og hljóp í burtu með. Tóku menn þá að ferðast margir saman í hóp, og hafði Margrét sig þá minna í frammi. En bæri svo við, að menn færu einir síns liðs eða svo fáir saman, að hún treysti sér til við þá, máttu þeir eiga vísa von á fundi hennar, og hlaut hún þá alla jafnan að ráð sköpum og skiptum þeirra í milli. … [Guðmundur Bjarnason á Gljúfri í Ölfusi fór í grasaferð þetta sumar og unglingspiltur með honum] Fara þeir sem leið liggur og ætla í Hverahlíð.

Hurðarásvötn

Hurðarásvötn.

En er þeir koma upp á Kambabrún eða í Hurðarásvötn, fór veður að þykkna og gerði kalsa slyddu, svo að háfjöll urðu gráhvít … héldu þeir … áfram ferðinni og allt suður fyrir Reykjafell. Gerir þá sólskin og lokgn og hið bezta veður. Halda þeir nú áfram, unz þeir koma niður í Svínahraun, en þangað vr förinni heitið. Finna þeir þar nægtir fjallagrasa um daginn, svo að fullar klyfjar voru á reiðingshestinum og þó nokkuð um fram, er þeir bundu við söðla sína. Var þá nálægt miðjum aftni, er þeir höfðu lokið við að búa upp á hesta sína og bjuggust til heimferðar. / Er þeir Guðmundur og fylgdarmaður hans voru ferðbúnir, vildu þeir taka sér matarbita, áður en þeir legðu af stað, því að ekki höfðu þeir gefið sér tíma til þess fyrr um daginn. Fór Guðmundur og náði í malpoka þeirra og bjóst til að setja sig niður, meðan hann mataðist, og hélt á malnum í hendinni. Veit hann þá ekki fyrr til en þrifið er í malnum heldur sterklega. Guðmundur víkst við skjótt og sér, að þar er þá komin Margrét sú hin nafnkunna og vill kippa af honum malnum. En hann lá ekki á lausu, því að Guðmundur var vel fær að afli. Sviptast þau nú um stund og hnykkja malnum á víxl, svo að hvorugt vinnur neitt á.

Engidalur

Engidalur – hleðslur fyrir skúta.

Gekk á þessu um hríð, en ekki er getið orða þeirra. Loksins sleppti Guðmundur malnum og réðst á Margréti. Hún sleppti þá líka og tók á móti, og það ekki með mjúkum meyjarhöndum. Áttust þau við um stund, og sparði hvorugt af, unz Guðmundi vili það til, að hann steytti fót sinn við steini. Hrasaði hann áfram og fell við, en Margrét á hann ofan. Guðmundur brauzt þá um, sem hann mátti, en svo var Margrét sterk, að hann gat með engu móti velt henni af sér, og fékk hún jafnharðan hlaðið honum. Loks tók Guðmundur að mæðast og sá nú sitt óvænna. Hét hann þá á fylgdarmenn sinn að veita sér lið. En pilturinn var svo hræddur, að hann þorði hvergi nærri að koma. Leizt honum eigi ráðlegt að hlutast til leiks þeirra, þar sem húsbóndi hans, tveggja manna makinn, lá undir, en Margrét, fjallaflagðið, gein yfir honum, svo grimmileg sem hún var. Duldist piltinum það eigi, að svo ólíklega hafði farið, að Guðmundur hafði beðið lægra hlut í viðskiptum þeirra Margrétar, þótt mikilmenni væri og harðfengur í meira lagi.

Engidalur

Tóftir útilegumanna í Engidal.

Guðmundur þóttist nú illa kominn, en vildi þó ógjarna griða biðja. Varð hér skjót úrræði að hafa, því að Margrét gerði sig líklega til að sýna honum í tvo heimana. Verður það þá fangaráð Guðmundar, að hann dregur hana af sér og bítur á háls henni fyrir neðan hökuna, allt það er tennur tóku. Vildi hún þá sem skjótast losna úr slíkum faðmlögum, en þess var enginn kostur. Lagði Guðmundur fast að hálsi hennar, og eigi létti hann fyrr en hann hafði bitið í sundur á henni barkann, og varð það hennar bani. Eftir það velti hann Margréti af sér og staulaðist á fætur, dasaður mjög eftir allar þessar aðfarir, en þó óskemmdur að mestu. Þeir félagar drógu síðan Margréti burt þaðan og huldu hræ hennar í hraunskúta nokkrum eða klettagjögri og báru á það grjót og mosa. Eftir það fóru þeir til hesta sinna og stigu á bak og héldu heimleiðis. Guðmundur bauð nú fylgdarmanni sínum mestan varnað á því að segja nokkrum frá atburði þeim, er gerðist í ferð þeirra, því það gæti kostað líf þeirra beggja, ef uppvíst yrði. Hét hann þagmælsku sinni fullkominni …

Engidalur

Tóft útilegumanna í Engidal.

Ferðamenn hættu nú alveg að verða varir við Margréti, eins og við var að búast, og var talið víst, að hún myndi farin heim til sín austur í Flóa. En þegar lengra leið frá og það varð kunnugt, að hún hafði ekki komið heim til sín, kom sá kvittur upp, að Guðmundur á Gljúfri myndi hafa séð fyrir henni … / Það var annaðhvort á síðari árum síra Jóns prests Matthíassonar í Arnarbæli eða á fyrri árum síra Guðmundar Einarssonar þar, að Gísli [Jónsson á Sogni í Ölfusi] fann leifar af mannsbeinum suður í Svíanhrauni, sem höfðu verið hulin grjóti og mosa. Gísli fór þegar er heim kom á fund prests og sagði honum til beinanna og vildi láta sækja þau og jarðsetja í Reykjakirkju. En prestur kvað slíkt engu gegna og hæddist að þessum fundi Gísla, sagði vera mundu hrossbein, sem slátrað hafði verið og eitrað síðan fyrir refi … Talið var, að bein þau, er Gísli fann, mundu hafa verið bein Fjalla-Margrétar.“ Guðmundur banamaður Margrétar var fæddur 1765 en bjó á Gljúfri í Ölfusi 1805-1815 og hefur útlegð Margrétar þá verið á því tímabili. Guðmundur dó 3.5.1848. Önnur sögn er til um viðureign Guðmundar við útilegukonu en það á að hafa verið í Ólafsskarði og með öðrum atburðum.

Núpastígur

Núpastígur.

1703: „Fyrir austan Valhnúk er strax Gnúpahnúkur, með miklum hömrum, nær allt að Gnúpastíg, hvor eð liggur fyrir ofan Gnúpatún upp á fjallið, brattur yfirferðar, og samtengist við almenningsveginn á sunnanverðri Hellirsheiði, þar Hurðarásvötn heita.“
„Núpastígur: Gömul gata, sem lá á ská upp fjallið af Hjallhól. Þar var farið með heyband ofan af fjallinu. Ein kona fór þar niður ríðandi í söðli og þótti það með tíðindum.“
1703: „Upp á [Hverahlíð] er hátt fell, mjög blásið, þó án hamra, er Skálafell nefnist, með vatnsstæði. Á þessu felli var skáli Ingólfs Arnarssonar, fyrsta landnámamanns, hvar af þetta fell hefur sitt nafn dregið, sem Landnáma á víkur.“ 1840: „.. . sunnanvert á [Hellisheiði] er Skálafell – dregur það nafn af skála Ingólfs, sem mælt er þar hafi staðið, þó ekki sjáist menjar hans. svo hér verði greint .. .“

„Í litlum hvammi rétt ofan við Skíðaskálann eru Hverar þeir sem dalirnir eru við kenndir. Móts við þá er allstór grasflöt sem nær að Lakahnúkum. Hún heitir Hveradalaflöt. Þar áðu ferðamenn hestum sínum áður en þeir lögðu á Hellisheiði, og er þeir komu af heiðinni.“ Þjóðvegur 1 liggur þvert yfir Hveradalaflöt, sem er slétt grasflöt sem nær frá skíðaskálanum í Hveradölum norðan við veginn og að hnúkunum sunnan við hann. Flötin er allt að 500 m löng frá norðri til suðurs en innan við 200 m á breidd.
Slétt grasflöt milli hálfgróinna hlíða heiðarinnar að austan og hrauntagla að vestan. Mosi í grasrótinni og grasið ekki þétt.

Hveradalir

Hveradalir.

Fyrir utan þjóðveginn hafa hús verið byggð á flötinni, fyrir utan skíðaskálann og mannvirki í kringum hann, eru sunnan við veginn skátaskáli og allstór braggi og aðkeyrslur að þessum byggingum. Allt að fjórðungur flatarinnar er því horfin undir mannvirki. Á Hveradalaflöt hefur sennilega ekki verið reglulegur áningarstaður fyrr en þjóðvegurinn var lagður sunnan við Reykjafell yfir flötina 1894. Fyrir þann tíma hafa varla margir átt þar leið um nema þá helst þeir sem fóru Lágaskarðsveg.

Vörðuhóll heitir í Vestur-Hálsum, austan við Hrossabotna sem er dalverpi sunnan í Stóra-Sandfelli. Sunnan við Vörðuhól eru Vegarbrekkur og er þetta á Sanddalaleið.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://visindavefur.hi.is/
-http://www.bokasafn.is/
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/
-Árbók Ferðafélags Íslands árið 2003.
-Árnessýsla. Sýslu- og sóknalýsingar (1979), bls. 238.
-Reykjavíkurpóstur 1847/8, bls.115; Sunnanpóstur III, 95; Ný tíðindi 1851, 9-10; Ingólfur I, 75-76.
-Þorvaldur Thoroddsen, Ferðabók I, 125; Þjóðólfur 25.9.1878, 106.
-Þjóðólfur XXVI, 134-135; XXVII, 27-28; XXVIII, 56, 129-130; XXX, 32.
-Þjóðólfur 25.9.1878, bls. 106.
-Ísafold VI (1879), 128.
-Stjórnartíðindi 1876, 86.
-Skrá um friðlýstar fornleifar, 77.
-Eiríkur Einarsson: Örnefni og minjar í Hjallasókn, 1976 (hdr); SB III, 280-282.
-Áningarstaðir á lestamannaleiðum, 148; Magnús Grímsson.
-Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi, Landnám Ingólfs 2 (1985), 88.
-Þórður Ö. Jóhannesson: Nokkur örnefni varðandi landnýtingu og þjóðtrú í Ölfusi, 12.4.1976 (hdr); SB III, 282.Íslenskir sagnaþættir XII, 9-12.
-Íslenskir sagnaþættir III, 6-7.
-Íslenskir sagnaþættir III, 7-13.
-Blanda VI, 187-89.
-E.J. Stardal: „Mosfellsheiði og nágrenni.“ ÁFÍ 1985, 137.
-Farfuglinn 19(1), (1975), 14.
-Lýður Björnsson: „Á slóðum Fjalla-Eyvindar eldri og Margrétar Símonardóttur.“ Útivist 12 (1986), 12-13; ÍA II, 247, 512, IV, 119-120; AÍ VII, 349, 403-405.
-Útilegumenn og auðar tóftir, 146-50; Þórður Sigurðsson, Tannastöðum: „Útilegumenn í Henglinum og endalok þeirra.“ Lesbók Mbl. 1939, bls. 30-31.
-Kort Ingólfs Einarssonar 1969.
-Gráskinna hin meiri I, 239-243.
-Jón Pálsson: Austantórur II, 134.
–Örnefnaskrá Núpa, Þórður Ö. Jóhannsson skráði 1968, Örnefnastofnun.

Hellisheiði

Hellisheiðarvegur.

Grændalsvellir

Stekkatún hafa verið víða fyrrum. Nafngiftin gefur vísbendingu um horfna búskaparhætti þegar fráfærur voru enn stundaðar.
Stekkatun-1Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots við Hveragerði er Stekkatún eitt grónar brekkur austan í litlu gili vestan við Græn[a]dalsá. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var 40 álnir en leigukúgildi ekkert. Í Jarðabókinni segir að ekki sé hægt að taka upp búskap á jörðinni að nýju nema jörðinni til skaða (Árni Magnússon og Páll Vídalín: Jarðabók II, 401).
Stekkatun-2Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.
Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8m x 5,1m að stærð og liggur NA-SV.

Stekkatun-3

Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin. Um 2m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8m x 6,8m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu. Um 28,6m í NA er fjórða tóftin, 13,6m x 7,6m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1m. Um 10,6m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4m x 7,5m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1m. Tóftirnar tvær í brekkunni eru tengdar saman með garðlagi. Garðlagið er 12m á lengd og um 3m á breidd. Vegghæð um 10-30cm. Er vaxin grasi en þó sér í grjót. Á garðlaginu er viknilbeygja.
Umhverfið sem tóftirnar standa í er mjög fallegt. Þarna er, sem fyrr sagði, grasi gróin rani meðfram Grændalsá þaðan sem útsýni er yfir árnar, Grændalsá og Hengladalaá, vellina sunnan ánna og upp á Hellisheiðina til suðvesturs. Tóftirnar mynda skemmtilega rústaþyrpingu. Ekki er ljóst til hvers þær voru nýttar en eflaust er hér um útihúsatóftir að ræða. Rannsóknir á staðnum myndu geta gefið betri vísbendingar um notkunina. Rústirnar eru vel grónar og ekki í neinni hættu. Stuttur gangur er að þeim og því möguleikar á að kynna þær fyrir almenningi.

Heimild:
-Hengill og umhverfi – fornleifaskráning. Kristinn Magnússon 2008.

Grensdalur

Grensdalur – Stekkatún.

Herdísarvík

Fornar götur eru merkileg fyrirbæri.
Þegar þær eru gengnar nú til dags (2012) má vel greina Fornagata-554áætlaðan aldur þeirra og notkun. Þannig er a.m.k. háttað með göturnar í Selvogi. Í byggðinni sjálfri voru tvær götur; kirkjugatan lá með gömlu bæjunum frá austri til vesturs, að Strandarkirkju og vegurinn lá ofan Fornagarðs, efri endimörk byggðarinnar. Upp frá honum lá Útvogsgatan upp á Strandarhæð þar sem hún mætti Fornugötu (Fornugötum) þvert á hana og Selvogsgötu (Suðurferðagötu), sem var í raun framhald hennar upp heiðina og fjallgarðinn áleiðis til Hafnarfjarðar.
Fornugata lá á millum Ölfuss og Herdísarvíkur í gegnum Vogsósa. Hún, líkt og hinar göturnar, sést enn nokkuð glögglega. FERLIR fylgdi Fornugötu nýlega frá fyrrnefndum gatnamótum á Strandarhæð til vesturs, áleiðis að Vogsósum, en áður hafði götunni verið fylgt til austurs áleiðis að Hlíðarenda.
Fornagata-555Fornagata liggur til vesturs/austurs norðan gamla þjóðvegarins á Hæðinni, nokkuð innan við Skálavörðu. Auðvelt er að rekja hana um grasi gróið sléttlendi áleiðis að Vogsósum uns hún þverar gamla þjóðveginn. Þar liggur hún í beygu niður með háu barði og kemur síðan glögglega í ljós að nýju skammt neðar. Síðan fylgir hún nokkurn veginn suðurmörkum gróins lands Vogsósa, allt niður á Vallabarmi og yfir Vaðið á affalli Hlíðarvatns. Eftir það hverfur hún í síbreytilegar sandöldur Víðisands allt þangað til komið er að vörðu á austanverðum hraunsmörkum Hellunnar. Frá henni skýrist gatan smám saman und hún verður allgreinileg. Á köflum verður gatan allt að 10 cm djúpt mörkuð í hraunhelluna. Hún greinist á tveimur stöðum spölkorn, en verður fljótlega að einni á ný. Þá greinist gatan á ný og nú varanlega. Líklega er nafnið „Fornugötur“ sprottið af því? Stundum hefur gatan á þessum kafla verið nefnd Hellugata vegna framangreindrar staðsetningarinnar.
Fornagata-556Annar leggurinn leggst til vinstri, upp á hærri brúnir nær ströndinni. Þar verður gatan jafn greinilegt í hraunhelluna sem fyrr, allt til syðst að austari Brunabrúninni framundan. Að vísu liggur hún sunnan við sandlág síðasta kaflann, en sést síðan mjög vel þar sem hún liggur inn á úfið apalhraunið áleiðis að Mölvík og Mölvíkurtjörn. Áframhald þeirrar leiðar verður lýst hér á eftir.
Svo segir í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík: „Ofanvert við sjávarkampinn, sem liggur frá Draugagjám austur að Skothellu, er austast Víðisandur, og liggur vestasti hluti hans undir Stakkavík. Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða.  Reyndar eru þeir tveir; liggur annar neðar.  Alfaravegurinn neðri liggur um klappirnar því nær niður við sjó, og eru markaðar götur í klappirnar allt vestur að Draugagjám, þar hverfa þær undir brunahraun.  Svo segja Selvogsingar, að götur þessar stefni í sjó fram í Draugagjár og liggi upp á Alboga.“
Fornagata-557Í örnefnalýsingu fyrir Stakkavík segir ennfremur: „Þá voru hraundrangar þar austur af, síðan tók við vík allbreið, kölluð Mölvík, með Mölvikurkampi. Austast í henni voru klappir, og [var] þar kallað Varir eða Mölvikurvarir.  Í Breiðabás og á Mölvík var rekasvæði ágætt.Ofanvert við kampinn var Mölvíkurtjörn, en vestur úr henni eða lægðinni, sem hún liggur í, er sæmilega bílfær vegur, Mölvíkurstígur upp á alfaraveginn uppi á brunanum. Búðarrúst er austur af Tjörninni, Mölvíkurbúð, frá þeim tímum, er útræði var úr Mölvíkurvörum;  þar er og Mölvíkurfiskabyrgi. Þar upp af framan í brunanum eru svo Grenshólar. Austan Mölvíkur taka við Draugagjártangar, sker og drangur fram í sjó, og austur af þeim taka svo við Draugagjár, og eru þar klappir og klettar.  Á einum stað liggur milli klettanna gjá;  þar svarrar sjórinn fast.
Fornagata-558Á Draugagjárlóninu er steinn mikill, Skarfaklettur. Austarlega í Draugagjám er klöpp, þangi vaxin og öðrum sjávargróðri. Í eina tíð lá Steinbogi út á klöppina, og þá leið fór féð til beitar. En á flæði hraktist það af klöppinni í ker, sem þar liggur inn af, og drapst þar.  Þar af var kerið kallað Drápsker. Fyrir þessa sök var steinboginn brotinn.“
Hinn leggurinn liggur til norðvesturs upp með Brunabrúninni fyrrnefndu uns komið er að vörðu skammt austan hennar. Þaðan liggur þessi forna leið inn á Brunann eftir seinni tíma vagnvegi, líklega frá því á fyrri hluta 20. aldar, allt að Brunabrúninni vestari ofan við Breiðabás á mörkum Stakkavíkur og Herdísavíkur.
Fornagata-559Á kafla (á sléttu helluhrauni ofan Mölvíkurtjörn) má sjá ummerki eftir fornu hestagötuna; „efri leiðina“ leið í gegnum Brunann. Vagnvegurinn virðist augsýnilega hafa verið brotinn ofan í gömlu götuna eftir að neðri gatan var orðin ófær vegna umbrots sjávar. Á stuttum kafla skammt austur þar sem vagnvegurinn kemur niður af Brunanum að austanverðu má slá leifar vegagerðar, líklega tilraun til hins fyrsta akvegar handan hraunbrúnarinnar, en hætt virðist hafa verið þá vegagerð því engin ummerki önnur er um hana þar að finna. Tófugreni er við austurbrún þessarar vegagerðarummerkja.
Nú skal aftur horfið niður á neðri Fornugötu. Þegar komið er inn á Brunann hverfur gatan vegna þess að Ægir hefur etið hana upp til agna á a.m.k. 200 metra kafla. Handan þess, ofan við Drauga (klettadranga er skaga út í sjóinn) kemur gatan aftur í ljós og hægt er að rekja hana að Mölvíkurtjörn.
Fornagata-560Það er mikilfenglegt að ganga um neðanvert apalhraunið vestan vestari Brunabrúnarinnar þar sem berja má augum hina víðfeðmu fiskigarða og fjölmörgu fiskibyrgja austan sjóðbúðanna austan Herdísarvíkur sem og fjárhúsanna „Langsum“ og Þversum“ í Austurtúninu sem og þær sjálfar millum þeirra og heimatúnsins.
Sérstaka athygli vakti á göngunni hversu lyng á það til að vaxa í gömlum götum, hvort sem um var að ræða hesta- eða vagngötu. Allt um kring var grænn eða grá mosinn alsber, en í gatan var jafnan lyngvaxinn svo til enda á millum.
Eins og fyrr segir er sérstök upplifun að ganga þessa tiltölulegu stuttu, en misgömlu, götukafla frá fyrri tíð og fá þannig að sjá þróun vegagerðarinnar, sem virðist hafa verið nánast óbreytt um 1000 ára skeið, uns þörfin hafi allt í einu orðið önnur með tilkomu vagnsins og síðar sjálfrennireiðarinnar – en það er nú önnur saga.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Stakkavík.

Fornagata

Fornagata.

Draugshellir

Samþykki jarðeigenda hafði fengist til að opna Draugshellinn í Litlalandslandi í Ölfusi. Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. Þá tapaðist vitneskjan um opið. Draugasaga er kennd við hellinn og hann því vel þjóðsagnarkenndur. Um Draugshelli er skráð saga í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki við í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar.

Draugshellir

Bóndinn á Litlalandi við hellisopið.

Nú var ætlunin að reyna að finna opið og þar með hellinn. Þátttakendur mættu með stunguskólfur við Litlaland í birtingu. Byrjað var á því að bera saman gögn og munnmæli og bera hvorutveggja saman við landshætti
Í örnefnalýsingu fyrir Litlaland frá 17. nóv. 1968 eftir Eirík Einarsson, segir m.a.: „Sunnan undir honum (Litlalandsáss) er Draugshellir, lítill hraunhellir í mörkum Litlalands og Breiðabólsstaðar…“.
Í annarri örnefnaskrá fyrir Litlaland í Ölfusi segir m.a. um Draugshelli:
„Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir.”
Þegar framangreind möguleg misvísun var borin undir heimamann kom í ljós að Litlalandsháls er múlinn eða ásinn ofan við hól þann, sem Draugshellir átti að vera við. Syðst í ásnum eru Rifjabrekkur. Allt virtist því koma heim og saman við fyrirliggjandi lýsingar.

Draugshellir

Grafið í Draugshelli.

Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hon gömlu landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðnorðaustan við bæinn. Vel mátti greina hin gömlu gróðurmörk því eldri girðing virðist hafa verið í línunni, skammt vestan núverandi girðingar. Þá benti hann á að fyrir ári síðan hafi op opnast í túninu á tilgreindum stað og vatn lekið þar niður. Hafi bóndinn fyllt upp í það með tveimur dráttarvélaskólfum.
Gróið hafði yfir það. Staðurinn var vestan við tilnefndan hól á landamörkunum, sem fyrr segir.
Hafist var handa við mokstur. Þátttakendur unnu kappsamlega og ekki leið á löngu að sjá mátti niður um opið. Skurður var stækkaður og lengdur og grafið var með stefnu á miðju jarðar. Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn. Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir, litlu minni en t.d. Bjargarhellir eða Strandarhellir. Einn þátttakenda skreið inn og skoðaði sig um. Mikil mold hefur runnið niður í hellinn á löngum tíma, en svona til að undirstrika að mannvistarleifar væri að finna í honum, skein ljósið á bein á moldinni í miðjum hellinum. Það var látið óhreift.

Draugshellir

Opið.

Ljóst er að mikil vinna verður að hreinsa moldina úr hellinum. Grafið var spölkorn áfram niður framan við opið, en ljóst er að þar er enn talsvert niður á fast. Hér getur því orðið um þarft verkefni fyrir vinnuskólabörn í Ölfushreppi að vinna á sumri komanda. Þá þurfa fornleifafræðingar að líta þarna við og skoða fyrirbærið, því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.
Draugshellir er fundinn. FERLIRsfélagar voru ánægðir með ágætt dagsverk. Samráð verður haft við landeigandann um frágang við hellisopið.
Þjóðsagan er um Björn Jónsson í Haga. „Eitt sumar sem ofar ferðaðist Björn um lestatímann til skreiðarkaupa suður í Garð. Venjulegur áfangastaður ferðamann var þá eins og enn viðgengst á svokölluðum Rifjabrekkum millum Breiðabólstaðar og Litlalands í Ölvesi. Þótti mörgum illt þar að vera vegna draugs þess er oft gjörði ferðamönnum er á brekkunum lágu usla og ónáðir og hélt sig í helli þeim er síðan er við hann kenndur og kallaður Draugshellir. Reif hann og tætti sundur tjöld og fans fyrir sumum, en fældi hesta og jafnvel drap fyrir sumum. En ekki er þess getið að hann réðist á menn, en marga dreymdi þar illa í tjöldum sínum, en enginn var sá er vogaði að leggjast í hellirinn þótt tjaldlaus væri. Björn var við annan mann; voru þeir tjaldlausir, taka nú af hestum og bera saman farangur nærri hellinum draugsins. Þetta var að áliðnum degi. Regn var mikið. Förunautur Björns spyr þá hvursu hann hugði þeim um umbúnað, kvað það eitt tiltækilegt að þeir gjörðu sér skýli í farangrinum til að sofa í. Björn kvað þá í hellinum mundu taka á sig náðir. Förunautur hans var þess allófús, en kvaðst þó hans forsjá hlíta mundu. „Bessaleyfi hér á híbýlum,“ segir Björn. Ganga þeri síðan í hellirinn, búast þar um, tóku að snæða og lögðust til svefns. Var nú allt kyrrt. Lagsmaður hans sofnar skjótt, Björn vakir og verður var við er draugsi kom inn og litast um eins og hann undrist dirfsku komumanna er leyfðu sér að taka á sig náðir í hans híbýlum leyfislaust, en var annars óvanur að mæta þar gestum. Draugurinn ræðst síðan að förunaut hans og ætlar að kyrkja hann.

Draugshellir

Draugshellir.

Björn stóð þá upp, hratt draugnum frá og tók manninn í fang sér og bar hann út og lagði hann niður undir farangur þeirra, vakti hann því næst og bað hann gæta hesta þeirra, kvað drauginn hafa fælt þá í burtu, „en ég mun,“ segir hann, „fara að hitta betur húsbóndann fyrst hann gat ekki setið á sér við oss með eljarglettingar sínar.“
Björn fer að hitta aftur drauginn, spyr hann hvurnig á honum standi og því hann hafðist við hér við í helli þessum. Draugur svarar: „Sagt get ég þér sögu mína. Ég var ungur maður og þótti heldur ódæll. Ég átti heima austur í Fljótshlíð; var ég sendur suður í Njarðvíkur í skreiðarferð og sýktist á heimleiðinni og lagðist fyrir í helli þessum og dó á þriðja degi og fundu menn mig hér nokkru síðar. Var ég fluttur að Hjallakirkju og grafinn þar, en ég þoldi ekki í jörðu og gekk aftur og vitjaði hellis míns. Hefi ég síðan hér verið og gjört ferðamönnum ýmsar óspektir um átta ár.“ Björn spyr hvursu lengi hann ætli framvegis hér að verða. Draugur svarar: „Tuttugu ár og mun ég jafnan fara versnandi.“. „Fyrst þú fórst að gjöra mér glettingar skal ég vísa þér á bug héðan,“ segir Björn. „Hellir er í Hengilshömrum, þangað stefni ég þér. Skaltu þaðan aldrei út fara né nokkurn mein gjöra.“ Draugnum brá svo við að hann hljóp í skyndi út og tók á rás upp á fjall. Hefur síðan aldrei orðið vart við reimleik á Rifjabrekkum.“

Frábært veður.

Heimild m.a.:
-Þjóðsögur Jóns Árnasonar, III. bindi, bls. 592-593.

Draugshellir

Í Draugshelli.

Selvogsgata

„Þetta var æði”. Svona hljómaði ein lýsingin á ferðinni að henni lokinni.

Selvogsgata

Gengið var inn á Selvogsgötu við Bláfjallaveg, en beygt út af henni til austurs skömmu síðar. Ætlunin var að feta Grindarskarðsgötuna upp að Stórabolla og síðan áfram áleiðis til suðurs. Venjan er að ganga Selvogsgötuna upp Kerlingarskarð og síðan áfram hana með Draugahlíðum, niður með Austurásum og síðan niður Hlíðarskarð. Þetta var ekki ferð um hefðbundna leið. Þetta var ferð um gömlu Selvogsgötuna eða Suðurfararleiðina eins og Selvogsbúar nefndur hana, en hún er liggur austar en Selvogsgata sú (stundum nefnd Hlíðarvegur, en var vetrarvegur (KB)) er kemur upp úr Kerlingarskarði og liggur niður með Draugahlíðum, að Hlíðarskarði.
Þegar komið var að jeppaslóðinni neðst í Grindarskörðum sást hvar hann liggur á gömlu götunni að hluta. Þegar komið var u.þ.b. þriðjung upp hlíðina beygði gamla gatan til hægri og síðan í hlykki upp hana. Auðvelt var að fylgja henni í hlíðinni því hún var mjög greinileg á köflum. Auðsýnt var að um hestagötu var að ræða. Gatan liggur að vörðu á hraunöxl svo til í miðri hlíðinni og síðan liðast hún áfram upp hana. Gatan hverfur þar sem vatn hefur lekið niður hlíðina og rutt með sér möl og grjóti, en kemur síðan í ljós í næst efstu brekkunni undir Stórabolla. Skammt neðar er varða. Þar liggur hún á ská upp hana og hefur greinilega verið lögið til. Efst við rætur Stórabolla er skarð í klöppina þar sem gatan liggur í gegn. Við skarðið er varða. Gangan upp í skarðið var auðveld, tók u.þ.b. 35 mín. í stað 50 mín. upp Kerlingarskarðið. Þaðan liggur gatan með gígnum að austanverðu og beygir með honum að sunnanverðu. Þar liggur hún til vesturs um gróna velli. Leifar gamallar girðingar er sunnan við Stórabolla. Hún liggur til vesturs og hefur verið hlaðið undir hana á kafla. Skömmu síðar var komið að gatnamótum.
Selvogsgata Vörðuð leið lá til suðausturs að Stórkonugjá og önnur til suðurs. Eystri gatan er að öllum líkindum Heiðarvegurinn er liggur þaðan um Heiðina há og yfir á Ólafsskarðsveg. Vestari götunni var fylgt yfir slétt helluhraunið áleiðis að Litla-Kóngsfelli.
Veður hafði hangið þurrt þangað til komið var suður fyrir Stórabolla. Þá léku litlir regndropar sér að því að falla ofurvarlega lóðrétt til jarðar. Golan virtist hafa gufað upp. Stillilogn og bráðfallegt veður. Miðbolli og Kóngsfellið böðuðu sig í heiðskírunni og dulrænum bjarma sló á Draugahlíðarnar. Spóavellingur fyllti loftið. Kistufellið vildi greinilega ekki láta sitt eftir liggja til að gera þennan dag ógleymanlegan. Hvítur snjókollurinn reis hæst upp úr nágrannahlíðunum, eins og hann vildi að eftir honum væri tekið. Svona eiga háir tindar að haga sér.

Hlíðarborg

Komið var að hárri vörðu. Við hana voru greinileg gatnamót. Gata lá við hana frá Selvogsgötunni og áleiðis yfir á Heiðarveginn.
Grindarskarðsgatan hélt áfram frá henni til suðurs. Hún var æ meir áberandi. Kastað hafði verið úr götunni á köflum – greinilega hesta- og lestargata. Hún lá niður með Litla-Kóngsfelli. Suðvestan við fellið, þar sem suðurgígur þess opnast, var komið að mótum þriggja gatna. Þrjár vörður voru við þau. Ein gatan lá áleiðis til norðvesturs að Selvogsgötu þar sem hún liggur efst við Draugahlíðar, önnur lá til suðausturs og sú þriðja til suðurs. Síðastnefnda gatan var greinilega framhalda af þeirri, sem fylgt hafði verið ofan frá Grindarskörðum. Hún var mjög áberandi og greinilega mikið notuð fyrrum. Kastað hafði verið upp úr götunni svo djúp för höfðu myndast. Tekið hafði verið úr hraunhöftum og gatan greinilega gerð eins greiðfært og unnt var. Henni var fylgt niður með hraunkanti sunnan Litla-Kóngsfells. Komið var að talsvert miklu gili í hlíðinni á vinstri hönd, sem vatn hafði mótað. Lækjarfarvegurinn var nú þurr, en einhvern tímann hefur verið þarna mikill lækur er streymt hafði niður með austanverðu apalhrauni, sem þarna er á hægri hönd. Loks hefur vatnið staðnæmst í krika og væntanlega myndað þar talsverða tjörn. Moldarbotn benti til þess að þarna hafi verið allnokkurt vatn fyrir ekki svo löngu síðan. Á kortum heitir þarna Stóri-Leirdalur. Gatan lá niður með lækjarfarveginum.
Nokkru neðan við gilið skiptist hún í tvennt. Stígur lá til vesturs í gengum apalhraunið þar sem það var mjóst og yfir á Selvogsgötuna (Hlíðarveg) þar sem hún krækir fyrir nef hrauns er runnið hefur úr Draugahlíðargígnum skammt þar fyrir ofan.
Varða er við hraunið þar sem stígurinn kemur út úr því. Hestagatan lá hins vegar áfram niður með hraunkantinum, fyrir hraunrana og síðan skiptist hún í tvennt; annars vegar liggur hún vestur og niður með Hvalhnúk og Austurásum og hins vegar áfram um Hvalskarð, í fallegum sneiðingi niður Litla-Leirdal, niður í Hlíðardal, um Strandardal, framhjá Kökuhól og áfram áleiðis niður í Selvog.
Fyrrnefnda gatan kom inn á Selvogsgötuna (Hlíðarveg – vetrarveginn) efst við vestanverða Austurása. Tvær vörður eru þar sem göturnar koma saman. Þaðan í frá liggur Selvogsgatan niður heiðina, áleiðis niður að Hlíðarskarði, vel vörðuð. Svo er að sjá sem Selvogsgata, eins og hún er vörðuð í dag, sé önnur og nær Draugahlíðum en sú, sem sýnd er á gömlum uppdráttum. Sú mynd, sem þeir sýna, fellur betur að þeirri götu, sem lýst er hér að framan. Áður en komið er niður brekkuna vestan Austurása liggur gata þar til vesturs. Þrjár vörður eru þar við og ein þeirra fallin. Þarna gæti verið um að ræða Stakkavíkurselstíginn er liggur væntanlega út með Vesturásum sunnanverðum og síðan til suðurs að Selsstíg ofan við Höfða norðvestan við Hlíðarvatn.
Í stað þess að fylgja Selvogsgötunni (Hlíðarvegi) áleiðis niður að Hlíðarskarði var gömlu hestagötunni fylgt niður Hvalskarð og áfram niður í Strandardal. Lítið er um vörður á þeirri leið, en hins vegar liggur gatan nokkuð vel við landslaginu. T.d. er um gróna velli er að fara í Litla-Leirdal. Suðvestur af Hvalskarði er Hvalhnúkur, mjór og allhár. Ólafur Þorvaldsson segir þjóðsöguna kveða á um að tröllkona norðan af fjalli hafi farið til fanga í Selvog og komið þar á hvalfjöru og haft þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með, en til hennar sást og hún elt. Varð henni allerfið undankoman, og náðist hún í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnúkurinn þar suður af Hvalhnúkur. Undir hraunklettum vestan við götuna er komið er niður í Strandardal er Stínurétt. Slóði liggur upp í Strandardal, en gatan er liggur niður úr dalnum skammt vestan hans. Þar liggur hann áfram áleiðis niður að Strandarheiði, en girt hefur verið þvert fyrir hann.
Í fyrri FERLIRsferðum, þar sem gatan var rakin neðan frá Selvogi og áleiðis upp að dalnum, sést hún vel þar sem hún liggur upp heiðina. Við hana á einum stað er tóft, sem ekki er vitað hvaða tilgangi hefur þjónað.
Gengið var til vesturs með girðingunni þegar niður úr dalnum var komið. Valgarðsborg er innan girðingar svo hún var ekki “heimsótt” að þessu sinni. Hlíðarborg er hinsvegar “réttu megin” girðingar svo hún var barin augum. Frá borginni liggur gata. Við hana eru litlar gamlar vörður, sumar fallnar. Gatan sést vel af og til þars em hún liggur til vesturs niður heiðina, áleiðis að Hlíð. Henni var fylgt, m.a. framhjá hellinum Ána. Talsverðar hleðslur eru umhverfis opið. Einnig eru hleðslur sunnan við opið og norðan. Ekki er vitað annað en að hlaðið var um opið til þess að varna því að fé leitaði skjóls niður í hellinum.
Gatan liggur áleiðis að borginni undir Borgarskörðum, svonefnd Hlíðargata skv. örnefnalýsingu. Hún hefur verið vegleg Ániá sínum tíma. Bæði hún og Hlíðarborgin eru hlaðnar vestan undir hraunkletta í heiðinni. Neðan borgarinnar undir Borgarskörðum eru tóftir tveggja húsa utan í klettum, sennilega beitarhúsa frá Hlíð.
Gangan endaði síðan við einn bæjarhól bæjarins að Hlíð. Eldri tóftir eru norðan við þjóðveginn sem og á tanga sunnan við veiðihús SVFH, en útihús eru vestar með vatninu og hafa þau sennilega tilheyrt bænum, sem var við núverandi veiðihús. Í örnefnalýsingu segir að Hlíð hafi verið fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Gamli bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn.
Þessi ganga var á Jónsmessunni. Þjóðtrúin kveður á um um ýmsa dytti henni samfara. Án þess að ætla að fjalla í löngum texta um álfa og huldufólks, ekki sést á nefndu kvöldi, er rétt að geta þess, að sá sem ekki trúði á álfa og huldufólk áður en hann lagði af stað í þessa ferð, gerir það núna. Borgarskörð draga ekki nafn sitt af fjárborginni undir Skörðunum heldur háum og virðulegum klettastandi skammt ofan við skörðin. Hann sést vel þegar gengið er að skörðunum ofan frá, en gæta þarf þess vel að fylgja kennileitum því annars…
SelvogsgataÍ lýsingu einni um þennan áfanga Selvogsgötunnar kemur eftirfarandi m.a. fram til frekari glöggvunar:
Selvogsgatan er gömul leið á milli Hafnarfjarðar og Selvogs og hefur líklega verið farin frá því að menn settust að í Selvogi. Þetta er skemmtileg leið um áhugavert landsvæði og hollt er að leiða hugann að þeim aðstæðum sem forfeður okkar þurftu að takast á við til þess að draga björg í bú.
Áfram er haldið um skýra götu sem hófar hestanna hafa markað í tímans rás. Framundan eru Lönguhlíðar og Grindaskörð. Stóribolli og fleiri bollar blasa við en þeir hafa verið notaðir sem mið af sjó. Þegar í Grindaskörð kemur er gott að líta til baka og horfa yfir leiðina sem lögð hefur verið að baki og sjá hvað gatan er mörkuð í mosann og klöppina.
Frá Grindaskörðum er stefnt að litlu fjalli með stórt nafn, Kóngsfell, en það mun bera nafn af fjallkóngi þeirra í Selvogi. Þarna greinist leiðin og kallast vestari leiðin Hlíðarvegur sem skiptist síðar í Stakkavíkurveg. Haldið verður austustu leiðina sem er hin eiginlega Selvogsgata eftir greinilegum götum um Grafning og Stóra-Leirdal þar sem menn áðu ávallt þegar þeir áttu þarna leið um og fengu sér nesti og kannski smá brjóstbirtu. Síðan verður gengið upp í Hvalskarð eftir Hvalskarðsbrekkum með Urðarfelli að Hlíðarvatni. Tröllkona ein nappaði sér hval í Selvogi en til ferða hennar sást. Hún var elt og náðist þarna í skarðinu. Af fjallinu fyrir ofan Hlíðarvatn er fagurt útsýni. Þaðan sér yfir þessa afskekktu byggð Selvoginn, til Strandarkirkju og vitans. En það sem fangar augað er djúpblátt og óravítt hafið (Úr leiðarlýsingu Útivistar).
Við leiðarlýsinguna er rétt að bæta við ferðum námumanna í Brennisteinsfjöllum. Þeir munu hafa farið um Grindarskörðin með hestalestir sínar. Leiðir liggja frá námunum, bæði ofan við Draugahlíðar og neðan.
Sjá MYNDIR.

Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.

Grindarskörð

Brennisteinsfjöll
Gengið var upp með suðurjaðri Hvammahrauns (Hvannahrauns) frá Gullbringu austan Kleifarvatns með stefnu á Vörufell (534 m.ys.). Ætlunin var að skoða hina formfögru gíga Vörufellsborga og halda síðan upp að Eldborg (570 m.y.s.) í Brennisteinsfjöllum, drottningu glepragíganna á Reykjanesskaganum. Miklar hrauntraðir, margir gígar og væntanlega allnokkur forvitnileg jarðop vörðu leiðina, en glöddu augað.
Orkufyrirtæki hafa haft ágirnd á Brennisteinsfjöllum. Ekki síst þess vegna var ákveðið að gaumgæfa það með hliðsjón af öðrum mögulegum verðmætum – og jafnvel meiri – til lengri tíma litið. Göngusvæðið er allt innan umdæmis Grindavíkur.
Hraunið norðan Gullbringu heitir Hvammahraun og er sagt kennt við hvammana sem eru í kring þar sem það fellur niður sunnanverða Vatnshlíð og út í vatnið. Þessi hraunstraumur er annar af meginstraumum sem hafa komið hafa úr mikilli gígaröð í Brennisteinsfjallaeldstöðinni til vesturs. Hluti hraunstraumsins rann til norðurs, m.a. niður í Fagradal. Hinn straumurinn féll niður í Herdísarvík, til suðausturs. Hins vegar, ef grannt er skoðað,má sjá fleira en eitt hraun í Hvömmunum. Þegar gengið var niður frá Eldborg má sjá stóran gíg. Úr honum hefur komið þunnfljótandi hraunkvika og runnið niður hlíðarnar. Það helluhraun hefur greinilega fallið niður syðst í Vatnshlíðinni og er undir hrauni því sem jafnan er nefnt Hvammahraun. Það er því eldra. Hvammahraunið hefur hins vegar komið úr gígunum vestan við Kistufell.
Gengið var upp með Gullbringu með hraunkantinum, inn á gömlu þjóðleiðina ofan hrauns (Dalaleiðin), upp gróinn sneiðing í brekkunni norðan Gullbringu og áfram upp með Brúnunum. Þar er stórt jarðfall, alveg við götuna. Niðri í því er Gullbringuhellir. Hann hefur m.a. verið notaður sem skjól því í hellinum er hlaðið undir bæli undir vegg. Ofar er annað op á hellinum. Rásin er sú sama. Þar í rás er rúmgóður hellir, a.m.k. 150 m langur.
Haldið var áfram upp með hraunjaðrinum, upp undir svonefndar Bringur, sem sumir hafa viljað meina að heiti Gullbringa. Nafnið sé komið af því að á kvöldin þegar sólin er að setjast á bak við Miðdegisnúk á Sveifluhálsi slái gullleitum bjarma á hlíðina alla. Það vita reyndar þeir sem séð hafa. Hinir, sem verið hafa á Bringunum þegar morgunsólin kemur upp sjá hins vegar gylltum bjarma slá á Gullbringu (þá neðri).
Beygt var til hægri upp úr hvömmunum og stefnan tekin á Vörðufell. Haldið var yfir í hrauntröð mikla er kemur úr eldborg norðvestan Vörðufells. Þá var gengið á hina breiðu og reglulega formuðu eldborg norðan Vörðufells. Kvikan úr henni hefur að mestu unnið niður í Herdísarvíkurhraun við Lyngskjöld.
Norðan eldborganna er Eldborg í Brennisteinsfjöllum. Hún er fremur lítil, en stendur hátt. Þegar staðið er uppi á henni má sjá svo til um allan Reykjanesskagann. Sást vel yfir að Hvirfli, Grindarskarðshnjúkum og Syðstubollum í norðri, Æsubúðum í suðri og yfir Sveifluhálsinn, Núpshlíðarhálsinn, Keilir, Fagradalsfjall, Þórðafell og Súlur í vestri. Gígaröðin liggur til NA norðan hennar og SV sunnan hennar. Áður en komið var að Eldborginni sást rjúpa þjóta hjá – og hvítur refur í loftköstum á eftir. Hann var svo upptekinn við veiðarnar að honum yfirsást mannfólkið.
Vestan Eldborgar er enn ein eldborgin, sem fyrr sagði. Þar er stærsti gígurinn og sá þeirra sem framleitt hefur mesta þunnfljótandi kvikuna er rann að mestur til vesturs, niður hlíðarnar.
Að þessu sinni var ekki gengið um Kistufell og niður í Brennisteinsnámurnar, enda gert ráð fyrir að um það svæði verði gengið í annarri ferð n.k. vor þegar skimað verður eftir „götunum djúpu“ norðvestan Kistufells (fundust í einni FERLIRsferðinni, ca. 10-15 m djúp).
Tiltölulega fáir þekkja til Brennisteinsfjalla en þau eru í næsta nágrenni við höfuðborgina, í Reykjanesfólkvangi sem er náttúruperla við bæjardyr borgarinnar. Þar eiga Grindvíkingar og aðrir íbúar höfuðborgarsvæðisins og næsta nágrennis athvarf til að stunda útivist og njóta náttúrunnar á svæði, sem nýtur verndar.
Orkustofnun hefur skoðað Brennisteinsfjöll m.t.t. háhitaöflunar. Í umsögn stofnunarinnar segir að „Brennisteinsfjallasvæðið er fremur lítið og afmarkað“ með hliðsjón af því. Á vefsíðu stofnunarinnar segir m.a. um svæðið:
„Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð, en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti.
Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir. Megingerð jarðlaga er móberg, og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.“ Með umfjölluninni fylgja yfirlitsmyndir, sem sýna alls ekki þá miklu náttúrufegurð er svæðið hefur að geyma.
Brennisteinsfjöll eru eina sprungureinin og háhitasvæðið sem enn er að mestu er ósnortið – öllum hinum hefur verið raskað að meira eða minna leyti vegna jarðhitanýtingar.
Náttúruperlur eins og sú sem hér er rædd eru gríðarlegar auðlindir í sjálfu sér, ósnortnar og kynngimagnaðar. Verndargildi þeirra er hátt sem þýðir á máli hagfræðinnar að þær eigi vafalaust eftir að margfaldast að verði eftir því sem tímar líða. En um leið má búast við ásókn þeirra sem vilja nýta sér jarðvarmann á þessum svæðum og virkja. Þegar hefur verið sótt um leyfi fyrir rannsóknaboranir í Kerlingarfjöllum og í Reykjanesfólkvangi, m.a. í Brennisteinsfjöllum. Augljóst er að virkjanir á þessum stöðum munu hafa mikil og óafturkræf náttúruspjöll í för með sér.
Forsætisráðherra hefur haldið því fram að ríkisstjórnin hafi enga stefnu í uppbyggingu álvera. Á sama tíma geysast menn áfram og leggja til að reist verði ný álver og þau eldri stækkuð, allt með fullum stuðningi stjórnvalda. Sama stefnuleysi ríkir í virkjanamálum. Stjórnvöld hafa gefið raforkufyrirtækjum lausan tauminn með því að innleiða samkeppni á raforkumarkaði en hafa ekki enn lokið við gerð rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Í raun má efast um að stjórnvöld ætli sér yfir höfuð nokkuð með þeirri vinnu sem hefur farið í gerð rammaáætlunarinnar. Í fyrsta áfanga hennar, er ekki einu sinni fjallað um Kerlingarfjöll sem virkjunarkost.
Til eru stjórnmálasamtök er telja að dýrmæt náttúrusvæði, eins og Brennisteinsfjöll, eigi að vernda. Það er engin þörf á því að ráðast að þessum perlum. Þvert á móti er mikilvægt að hlúa að þeim með því að samþykkja að gerð verði um þau verndaráætlun. Þannig yrði vernd þeirra tryggð og séð til þess að unnt væri að njóta þeirra um ókomna tíð.
Guðrún Hallgrímsdóttir segir Brennisteinsfjöll vera öræfi Reykvíkinga. Reyndar má segja að fjallasvæðið allt sé í rauninni ómetanleg verðmæti allra landsmanna.
Á Reykjanesskaganum má enn rekja stórkostlega jarðsögu, líklega sögu sem á engan sinn líka og hefur á síðustu 5000 árum mótað landsslag þéttbýlisins á suðvesturhorninu.
Áhrifavaldar í mótun skagans eru fjögur eldstöðvakerfi sem liggja á gosbeltinu eftir endilöngum skaganum og hefur gosið í þeim öllum á sögulegum tíma. Þau eru Reykjaneskerfið þar sem gaus fyrir um 1500 – 1800 árum og svo aftur í Reykjaneseldum árin 1211 – 1240, Trölladyngjukerfið en þar gaus fyrir 2000 árum og síðan aftur í Krýsuvíkureldum 1151-1180, Brennisteinsfjallakerfið sem var virkt fyrir 2000 árum og aftur í Reykjaneseldum og að lokum það stærsta Hengilskerfið sem var í essinu sínu fyrst fyrir um 5000 árum og svo aftur fyrir 2000 árum.
Þegar stórhuga menn mæltu fyrir stofnun Reykjavíkurfólksvangs um miðjan áttunda áratug síðustu aldar bentu þeir á að á fáum stöðum á landinu væri að finna fjölbreyttari eldgosmyndanir og hvergi í Evrópu væri að finna sambærileg jarðfræðifyrirbæri í návist þéttbýlis. Þarna mætti finna flest það sem sóst væri eftir inn á Miðhálendinu, öræfakyrrð og óröskuð víðerni.
Eftir stofnun fólksvangsins var ítrekuð nauðsyn þess að huga að framtíðarskipulagi varðandi landnotkun. Það skipulag hefur ekki litið dagsins ljós en nú 30 árum síðar er búið að ráðstafa þremur af þessum fjórum eldstöðvakerfum og háhitasvæðum til fjölnýttrar orkuvinnslu þ.e. að framleitt er rafmagn, hitaveituvatn, grunnvatn og iðnargufa. Byggðar hafa verið verksmiðjur, jarðböð og orkuver. Nýtingu háhitasvæða fylgja vegalagnir og efnisnámur, borholur, borplön, raflínur og vatns- og gufuleiðslur. Þeir sem fara um Hengilsvæðið og Hellisheiði, út á Reykjanes eða ganga um Svartsengi og meðfram Eldvörpum sjá hvernig borholum hefur verið dritað um allt. Vegir liggja þvers og kruss. Aðeins Brennisteinsfjöll ein eru eftir ósnortin.
Óþarfi er að bíða eftir áætlun um landnýtingu, en hins vegar er nauðsynlegt að bjarga Brennisteinsfjöllum. Þau heita eftir brennisteinsnámum á háhitasvæði á afskekktu landsvæði suður af Lönguhlíð þar sem merkar minjar er að finna um sambúð lands og þjóðar en er þó með öllu ósnortið af nútímanum. Svæðið er töfrandi náttúruparadís þar sem gefur að líta ýmsar gerðir gíga, stuðlaberg, hrauntraðir og tjarnir.
Orkuyfirvöld hafa nú þegar óskað eftir því að hefja rannsóknir í Brennisteinsfjöllum. Gegn því hefur Náttúrufræðistofnun lagst enda fylgja slíkum rannsóknum vegir, borholur og borplön. Þar með væri búið að eyðileggja öll háhitasvæðin á Reykjanesi.
Verði komið í veg fyrir veitingu leyfis til rannsókna í Brennisteinsfjöllum kæmi til greina að friðlýsa hluta Reykjanesfólksvangs sem fyrsta skref í stofnun rekbelta – heimsminjasvæðis sem næði áfram austur eftir gosbeltinu til Vatnajökuls og þaðan norður í Axarfjörð eins og Sigrún Helgadóttir hefur stungið upp á.
Full ástæða er til að ígrunda það alvarlega að friðlýsa Brennisteinsfjöllin sem ósnortið víðerni – og það fyrr en seinna.
Umhverfisstofnun vekur athygli á að í bréfi, dagsettu 26. nóvember 2003, er rektor Háskóla Íslands hafði farið þess á leit við umhverfisráðherra að auglýsingu um friðland í Herdísarvík verði breytt á þann veg að mögulegt verði að rannsaka og nýta jarðhita sem er að finna í Brennisteinsfjöllum. Umhverfisráðuneytið óskaði eftir afstöðu Umhverfisstofnunar til málsins með bréfi dagsettu 20. janúar sl. Álit stofnunarinnar var eftirfarandi:
„Í Brennisteinsfjöllum er jarðfræðileg fjölbreytni mikil, þar er að finna merkar og nánast ósnortnar eldgosaminjar, jarðskjálftasprungur, misgengi og háhita. Brennisteinsfjöll, og raunar allt Herdísarvíkurfriðland, eru hluti af stærra svæði sem fjallað er um í tillögu Umhverfisstofnunar um náttúruverndaráætlun, þ.e. Brennisteinsfjöll-Herdísarvík, en lagt er til að svæðið allt verði friðlýst sem náttúruvætti eða friðland.
Við val á tillögum sem fjallað er um í þingsályktunartillögu um þetta efni var svæðum meðal annars forgangsraðað með tilliti til jarðfræðilegra minja með einkunnagjöf. Þar fékk svæðið Brennisteinsfjöll-Herdísarvík næsthæstu einkunn og á eftir Geysi, en Reykjanes- Eldvörp- Hafnarberg og Grændalur fengu þriðju hæstu einkunnina. Þegar vinnuhópur umhverfisráðuneytis var að störfum lág fyrir að umhverfisráðuneyti hafði með bréfi dags 13. júní 2003, til iðnaðarráðuneytis, lagst gegn því að veitt yrði rannsókna- og nýtingarleyfi í Brennisteinsfjöllum. Í þingsályktunartillögunni var einungis fjallað um Geysi og Reykjanes- Eldvörp- Hafnarberg en ekki þótti ástæða til að fjalla um Brennisteinsfjöll- Herdísarvík að sinni, þar sem ekki voru áform uppi um nýtingu þessa svæðis.“ Nú er hins vegar raunin önnur, en rökin um verndun svæðisins eru enn þau sömu.
Á 130. löggjafarþinginu lagði Ásta R. Jóhannesdóttir fram eftirfarandi fyrirspurn fyrir iðnaðarráðherra: „Hvernig hefur verið brugðist við umsóknum Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um leyfi til rannsókna í Brennisteinsfjöllum?“
Svar iðnaðarráðherra var eftrifarandi: „Á miðju ári 2000 barst iðnaðarráðuneyti erindi frá Hitaveitu Suðurnesja þar sem farið var fram á rannsóknarleyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum. Á sama tíma barst ráðuneytinu sams konar erindi frá Orkuveitu Reykjavíkur. Í báðum tilvikum óskuðu umsækjendur eftir rannsóknarleyfi með fyrirheit um nýtingarleyfi.
Þetta var í fyrsta sinn sem tveir aðilar sóttu um rannsóknarleyfi á sem næst sama tíma frá því lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, voru sett. Í þeim lögum er ekki kveðið á um það að ekki megi veita tveimur hæfum aðilum rannsóknarleyfi á sama svæði og á sama tíma. Ráðuneytið hefur litið svo á að túlka beri lög nr. 57/1998 svo að heimilt sé að veita fleiri en einum aðila rannsóknarleyfi á sama svæðinu.

Ráðuneytið telur að í slíkum tilvikum þurfi sérstaklega að tryggja að þær framkvæmdir eða rannsóknir sem leyfishafar hyggjast fara í séu ekki ósamrýmanlegar. Hins vegar verður að telja afar ólíklegt að tveir aðilar skuli samtímis standa að dýrum rannsóknum á sama jarðhitasvæðinu án þess að hafa fengið fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Eðli málsins samkvæmt er ekki unnt að veita fleiri en einum aðila fyrirheit um forgang til nýtingar á sama svæði. Þar sem lög nr. 57/1998 mæla ekki fyrir um hvernig gert skuli upp á milli umsækjenda taldi ráðuneytið ekki unnt að veita öðrum umsækjandanna fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi. Var því beiðni um fyrirheit um forgang til nýtingar fyrir Hitaveitu Suðurnesja annars vegar og Orkuveitu Reykjavíkur hins vegar hafnað í júní 2002. Ráðuneytið benti hins vegar umsækjendum á þann möguleika að þeir sameinuðust um rannsóknir á svæðinu og fengju tilskilin leyfi til þess ásamt fyrirheiti um forgang að nýtingu.
Í lok janúar 2003 sóttu fyrrgreind fyrirtæki sameiginlega um leyfi til að rannsaka umfang, magn og afkastagetu jarðhitasvæða í Brennisteinsfjöllum. Þar var farið fram á að fyrirtækjunum verði sameiginlega veitt nýtingarleyfi á svæðinu ef árangur rannsókna reynist jákvæður. Í apríl 2003 var óskað eftir umsögnum Orkustofnunar, umhverfisráðuneytis og viðkomandi sveitarfélaga um umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi í samræmi við ákvæði laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Orkustofnun og sveitarfélögin tóku jákvætt í að rannsóknarleyfi yrði veitt, en umhverfisráðuneyti taldi að ekki ætti að svo komnu máli að veita Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur rannsóknarleyfi og fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi.
Á fundi með umhverfisráðuneyti 26. águst 2003 var farið yfir forsendur fyrir áliti ráðuneytisins, en árið 2000 hafði ráðuneytið ekki lagst gegn því að rannsóknarleyfi yrði veitt, þó með ströngum skilyrðum.
Á fundinum kom fram að undirstofnanir ráðuneytisins hefðu gert nokkrar athugasemdir um að upplýsingar vantaði, m.a. hvað varðaði aðkomuvegi að svæðinu, staðsetningu borplana, og auk þess kom ósk um að beðið yrði eftir niðurstöðum rammaáætlunar. Á fundi með orkufyrirtækjunum í september 2003 var ákveðið að freista þess að afla þeirra gagna og upplýsinga sem talið hafði verið að á skorti í umsókn fyrirtækjanna um rannsóknarleyfi. Þá voru niðurstöður rammaáætlunar kynntar í lok nóvember 2003 þar sem fram kom að virkjun í Brennisteinsfjöllum telst í þeim flokki virkjana er næst minnst umhverfisáhrif hafa.
Þegar framangreind viðbótargögn berast iðnaðarráðuneyti mun umsagnaraðilum lögum samkvæmt kynnt þau gögn og þeim gefið tækifæri á að tjá sig um þau. Komi ekki fram verulegar efnislegar og rökstuddar athugasemdir mun iðnaðarráðuneytið í framhaldi af því gefa út leyfi til jarðhitarannsókna í Brennisteinsfjöllum.“
Í þingræðu 7. des. 2005 fjallaði Kolbrún halldórsdóttir m.a. um Brennisteinsfjöll:
„Ef við værum skynsöm mundum við nú setja reiknimeistara yfir það að reikna ólíka hagsmuni, annars vegar af því að vernda Brennisteinsfjöll og hins vegar að hleypa orkufyrirtækjunum þar að til að ná í jarðvarmann til að selja raforkuna ódýrt til stóriðju. Hvorir hagsmunirnir ætli kæmu betur út? Í mínum huga er ekki nokkur vafi, langtímahagsmunirnir af náttúruverndinni yrðu miklu meiri. Ég er sannfærð um það af því að reikniaðferðirnar sem umhverfissinnaðir hagfræðingar hafa þróað í þeim efnum hafa sýnt okkur fram á að ef dæmin eru reiknuð til enda þar sem náttúruverndarsvæði eru eða verndarsvæði sem hafa mikla verndarhagsmuni eru þau svo þung á vogarskálunum þegar til langs tíma er litið.
Ef þau eru reiknuð inn í heildarverðmætamatið eða hagsmunamatið allt verður útkoman sú að á endanum borgi það sig beinlínis í beinhörðum peningum fyrir okkur að vernda slíkt svæði. (Gripið fram í: Hefurðu …?) Varðandi Brennisteinsfjöll hefur þetta ekki verið reiknað svo að ég viti en gerðir hafa verið útreikningar og skrifuð um þetta háskólaverkefni, bæði hér á landi og reyndar í háskólum erlendis. Ég minnist þess að í háskólum í Skotlandi hafa háskólastúdentar reiknað út svæði á þessum nótum hér á Íslandi. Það þarf oft að fara út fyrir landsteinana til að fólk átti sig á því hve mikil verðmæti eru í húfi. Þessi aðferð sem kölluð er „skilyrt verðmætamat“ hefur verið reynd á ákveðnum svæðum á Íslandi og það hefur ævinlega komið í ljós að verndargildi svæðanna sem hafa verið reiknuð er gríðarlega hátt. Stjórnvöld hafa þó verið ófáanleg til að meta þá hagsmuni og taka þá inn í lokaákvarðanatöku um endanlega nýtingu á svæðinu. Þá er ég að tala um að náttúruvernd sé líka nýting. Það er auðvitað það sem þessi stjórnvöld verða að fara að opna augu sín fyrir. Með því að vernda náttúruna ósnortna erum við að nýta hana til yndisauka og yndisaukinn hefur á reiknistokki þeirra hagfræðinga sem ég var að tala um ákveðið verðgildi.“
Enn ein rökin fyrir því að hinkra og hætta þessu óðagoti, láta ekki eftir orkufrekjunni í orkufyrirtækjunum vegna þess að það liggur ekki lífið á, er að hér er fjöldi virkjunarkosta, í vatnsaflinu jafnvel, fullrannsakaður og ónýttur. Hv. þm. Mörður Árnason fór yfir það áðan og það skiptir verulegu máli að við tökum þetta upp á arma okkar á þeim nótum að við horfum heildstætt á málin.
Í Brennisteinsfjöllum er sérstætt háhitasvæði, nánast ósnortið og með afar hátt verndargildi. Svæðið er hið eina fjögurra eldfjallakerfa á Reykjanesi, sem ekki hefur verið spillt með borunum, vegagerð og línulögnum. Í Brennisteinsfjöllum eru merkar gosminjar frá sögulegum tíma, umhverfið er stórbrotið með gígum, eldhraunum og hellum, og þar má rekja opnar jarðskjálftasprungur og misgengi. Eldvirkt svæði nær alveg frá sjó norður fyrir Sandskeið. Dýrmætt er að hafa aðgang að öræfakyrrð og svo fjölbreyttu landslagi í aðeins 20 km fjarlægð frá þéttbýlinu á suðvesturhorni landsins. Að Brennisteinsfjöllum steðjar nú hætta þar sem mikill þrýstingur er á stjórnvöld um að veita rannsóknarleyfi þeim aðilum er telja svæðið fýsilegt til orkunýtingar. Skorað hefur verið á stjórnvöld að friðlýsa Brennisteinsfjöll, varðveita þau sem ósnortið víðerni og tengja þau friðlandinu í Herdísarvík eins og lagt er til í Náttúruverndaráætlun.
Þegar staðið var ofan við Bringurnar norðanverðar og horft yfir Hvammana og Vatnshlíðina mátti vel ímynda sér þá ógnarkrafta sem þarna hafa verið að verki er hraunið rann, fyllti dalinn og stöðvaðist úti í Kleifarvatni austanverðu. Undir er eldra helluhraun, sem sést vel þar sem það rann niður hlíðna sunnanverða.
Hellir ofarlega í brúnum var skoðaður. Hann var í þröngri rás, en fallegar myndanir voru í honum. Vel mátti sjá hvar Dalaleiðin liggur yfir hraunið þar sem það er mjóst, inn í óbrennishólma að sunnanverðu. Breið kindagata liggur umhverfis hraunið. Líklegt má telja að gangandi fólk hafi farið beint af augum eftir stígnum þvert yfir hraunið til suðurs frá vestanverðum hraunkantinum í Vatnshlíðinni, en ríðandi fólk farið eftir hinni miklu og áberandi götu í hrauninu undir Vatnshlíðinni og síðan krækt með hraunkantinum að Gullbringu. Gatan þar er áberandi enn þann dag í dag. Við Gullbringu skiptist gatan enn á ný, annars vegar í sneiðing upp hlíðina austan við fjallið og áfram um Kálfadali, og hins vegar í gróna sneiðingnum til vesturs norðan fjallsins og síðan yfir að Hvömmum sunnan Kleifarvatns.
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín. (16. km).

Heimildir m.a.:
-Guðrún Hallgrímsdóttir.
-Svandís Svavarsdóttir.
-Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson 2001.
-Umhverfisstofnun.
-Kolbrún Halldórsdóttir
-Alþingi.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Selvogsheiði

Ætlunin var að ganga um Selvogsgötu frá Strandamannahliði neðan Strandardals, efst í Selvogsheiði, um Vörðufellsmóa og Stóraflag niður að gatnamótum Fornugötu og Útvogsgötu ofan Skálavörðu vestan Strandarhæðar. Ólafur Þorvaldsson lýsir leiðinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1943-1948, 49. árgangi.
Selvogsgata-552„Leiðin milli Hafnarfjarðar og Selvogshrepps í Árnessýslu gekk venjulega undir nafninu Grindaskarða- eða Kerlingarskarðsvegur. Leið þessi mun vera jafngömul fyrstu byggð í Selvogi, enda aðallega af Selvogsmönnum farin, þar eð lega hreppsins er þannig, að fáir aðrir áttu þar leið um. Að vísu gat það hent, að Selvogsmenn færu um Krýsuvík, varla þó nema lausríðandi, og þá annaðhvort af því, að snjór var svo mikill á fjallinu, að ófært var talið, eða þeir áttu sérstakt erindi við Krýsvíkinga. Þessari aðalleið Selvogsmanna, Grindaskarðaleið, skal nú lýst hér, eftir því sem föng eru á, svo og getið þeirra örnefna, sem nálægt henni eru, og nokkurra fleiri, þótt fjær liggi. Legg ég svo upp frá Hafnarfirði.“
Selvogsgata-553Hér er hlaupið yfir lýsingu leiðarinnar frá Hafnarfirði að Strandardal ofan Selvogsheiðar því einungis er ætlunin að feta götuna þaðan niður og áleiðis að Skálavörðu á Strandarhæð þar hún mætir Útvogsgötu. Þar eru suðurmörk Selvogsheiðar (Þórður Bjarnason frá Bjargi í Selvogi). Gatnamótin eru skammt norðan Skálavörðu, þar sem Fornugötur mæta fyrrnefndu götunum. Skal því drepið niður í lýsingu Ólafs þar sem hann er að koma niður í strandardal.
„Litlu austar, þegar brekkunum sleppir, eða þær lækka svo, að útsýn opnast til norðausturs, blasir við í þeirri átt allstórt fell, Urðarfell. Norðaustur af því eru grasbrekkur og lautir, Fornutorfur, var þar oft slegið frá Hlíð og Vogsósum allmikið af finnungi.
Nokkru austan Þorvaldsháls er komið í Litla-Leirdal. Þaðan er smáspölur þar til talið er, að komið sé ofan af fjallinu. Þá er komið ofan í Katlabrekkur, og er þá Hlíðarfjall til vesturs, en Svörtubjörg til austurs. Þar uppi er Eiríksvarða, og á Eiríkur á Vogsósum að hafa hlaðið hana til verndar Selvogi fyrir sjóránsmönnum, svo sem Tyrkjum.“
Selvogsgata-554Hér er Ólafur kominn að Strandarmannahliði á fjárgirðingunni undir fjöllunum, efst í heiðinni. Þaðan er ætlunin að ganga að þessu sinni og fylgja þá Selvogsgötunni, eins og fyrr segir, um Vörðufellsmóa og Stóraflag þar sem gæta þarf vel að því að fara ekki út úr götunni sökum landeyðingar.

„Kippkorn vestur með Hlíðarfjalli skagar smáháls fram úr fjallinu, Sjónarháls. Af honum er stutt heim að Hlíð, sem nú er í eyði og hefur verið um 40 ár. Hlíð er við austurenda Hlíðarvatns, og er þar dágóð silungsveiði. Rið ágætt á svonefndri Bunu. Beljar þar vatn undan fjallinu, en hæfilega stór möl í botni sem hrygningarstaður.
Selvogsgata-563Að Hlíð bjó Þórir haustmyrkur, sá er nam Selvog og Krýsuvík, sem fyrr segir.
Vogsósar standa á sléttum völlum sunnar með vatninu. Úr Katlabrekkum sér til Selvogsbyggðar, nema útbæjanna, Stakkavíkur og Herdísarvíkur. Liggur nú leiðin til suðurs eða suðausturs, niður vestur- og suðvesturdrög Selvogsheiðar. Þegar nokkuð niður í heiðina kemur, er farið í gegnum svonefnd Rof. Litlu neðar er farið vestan undir smáhraunhæð, sem Vörðufell heitir. Við Vörðufell stóð nokkuð fram yfir síðustu aldamót lögrétt Selvogsmanna, Vörðufellsrétt. Nú eru réttir þeirra norðaustur af Svörtubjörgum.

Selvogsgata-555

Ég get ekki gengið fram hjá að drepa á eins konar helgisögn í sambandi við Vörðufell, og er átrúnaður þessi, eða hvað sem menn vilja kalla það, efalaust runninn frá Eiríki á Vogsósum, en sögnin er í fám orðum þessi: Selvogsheiði er, sem kallað er á smalamáli, mjög leitótt, og tefst því oft fyrir mönnum að finna gripi, sem að er leitað, þoka gerir leitina stundum erfiða. Ef leitarmann ber nú að Vörðufelli, þá skal hann ganga á fellið, leggja þar einn stein í vörðu eða undirstöðu að annarri, ef þær sem fyrir eru, eru nógu háar orðnar, og mun hann þá bráðlega finna það, sem eftir er leitað. Ekki get ég af eigin reynslu sagt neitt um áhrif þessara verka, en það get ég sagt, að Vörðufell er að ofan alþakið vörðum, stærri og smærri, og jafnvel er þessu eitthvað haldið við enn, eftir því sem greinagóður maður hefur tjáð mér nýlega. Ekki hefur mér tekizt að fá nógu áreiðanlegar sagnir um það, hvað liggi hér til grundvallar, hvaða fórn hér sé verið að færa fellinu eða hverjum; en talið er vafalaust, að ummæli Eiríks á Vogsósum, þess spaka manns, liggi hér á bak við og séu enn í góðu gildi.“

Selvogsgata-556

Hér sleppir Ólafur tóftum selstöðu í heiðinni, en Selvogsgatan liggur niður með þeim að austannverðu. Þetta eru grónar tóftir, en þó sést móta fyrir í þeim þremur rýmum. Suðaustan við tóftirnar er grafinn brunnur og skammt vestsuðvestan við hann má sjá mosagrónar hleðslur stekks. Ekki hefur verið hægt að tengja þessar minjar við neina heimild um sel í heiðinni, en telja má líklegt að það hafi verið frá einhverri hjáleigu Strandar því þær voru nokkrar og enn sést móta fyrir ofan og austan við kirkjuna í Selvogi. Strandarselið er hins vegar upp undir Svörtubjörgum og hefur bæði verið þar um langan tíma og ríkmannlegt. Þetta sel við Selvogsgötuna virðist hafa verið þarna í tiltölulega skamman tíma, sennilega seint á 18. eða byrjun 19. aldar (eftir að jarðabók ÁM var rituð).
Í dag (2012) gæti óvönum þótt erfitt að fylgja götunni þar sem vatn hefur á þessum kafla heiðarinnar grafið hana í sundur auk þess sem gróðureyðingin er þar umtalsverð. Vanir menn ættu hins vegar ekki að eiga í erfiðleikum að fylgja götunni þrátt fyrir þetta.
Selvogsgata-557„Nokkru suðaustur frá Vörðufelli er Strandarhæð. Suðvestur í henni er stór hellir, Strandarhellir. Framan til er hann hár og falleg boghvelfing yfir, en sandur er í botni, og getur þar verið inni fé, svo að hundruðum skiptir, án þrengsla. Suður af hellinum eru sléttar grasdældir, Dalalágar.“
Skv. upplýsingum Þórðar Bjarnasonar heita Vellir austan Skálavörðu. Norðaustar er Strandarhæð. Efst í henni er hóll og gerði norðvestanundir honum. Þar var ætlunin að rækta upp gerði um aldarmótin 1900, en ekkert varð af því.
„Þegar hér er komið, er steinsnar til bæja í Selvogi, og þá venjulega komið að túnhliði, ýmist frá Bjarnastöðum eða Nesi, eftir því sem hverjum hentar, eða þá að utustu bæjum í hverfinu, Þorkelsgerði eða Torfabæ [Útvogsgata].
Á vetrum, þegar Selvogsmenn fóru gangandi vestur yfir fjall, styttu þeir sér oft leið með því að fara Hlíðarskarð í Hlíðarfjalli, vestur með Langhólum í Austur-Ásum, á veginn sunnan undir Hvalhnjúk, Stakkavíkurveginn.
Er nú lýst leiðum Selvogsmanna til Hafnarfjarðar.

Eftirmáli

Selvogsgata-558

Á Grindaskarðaleið var það, að fundum mínum og Selvogsmanna bar fyrst saman, og eru margir þeirra funda, þótt oftast væru stuttir, mér að mörgu leyti minnistæðir. Tildrög voru sem hér segir: Kringum síðustu aldamót var ég oft á ferð um fjöllin vestan Grindaskarða. Kom það þá nokkrum sinnum fyrir, að ég reið fram á eða mætti einum eða fleiri mönnum, sem voru með hesta undir klyfjum, stundum bar mig þar að, sem þeir voru að æja, — voru að hvíla sig og hesta sína. Þetta voru Selvogsmenn. Það gátu ekki aðrir verið, svo fremi að það væru ekki útilegumenn, en ég mun þá hafa verið hættur að trúa á tilveru þeirra, og var því ótti minn við þá alveg horfinn. Þó komu mér ósjálfrátt í hug sagnir um útilegumenn, þegar ég komst fyrst í kynni við Selvogsmenn þarna í fjöllunum. Ekki var það samt af því, að þeir væru svo ógnarlegir, nei, síður en svo, þeir voru bara eins og fólk er flest.

Selvogsgata-559

Það, sem mér fannst einkennilegast við þessa menn og ferðalög þeirra, var víst aðallega það, að þeir voru þarna á ferð, þar sem mjög lítil von var mannaferða, og voru ýmist að koma ofan af fjöllunum eða fara til fjalla. Oft fylgdist ég með þeim nokkurn spöl eða staldraði við hjá þeim, þegar þeir voru í áningarstað. Þjóðlegir voru þeir og viðræðugóðir. Engir voru þeir yfirborðsmenn — en voru það sem þeir sýndust og oftast vel það. Ég var forvitinn og spurði margs, spurði um daginn og veginn, spurði hvernig væri hinum megin við fjöllin, hvernig sveitin þeirra liti út, um það langaði mig eitthvað að vita, því að ég vissi þá, að ég var fjórði maður frá Jóni Halldórssyni lögréttumanni að Nesi í Selvogi og Rannveigu Filippusdóttur, fyrri konu Bjarna riddara, sem fæddur var að Nesi 6. apríl 1763. Og ég spurði og spurði, og þeir svöruðu víst oft betur en spurt var. Eitt var það, sem ég tók eftir í farangri þessara manna, sem var öðruvísi en ég hafði séð hjá öðrum ferðamönnum. Það voru reiðingarnir á hestunum. Þetta voru ekki torfreiðingar, heldur voru þeir gerðir af rótum eða flækjum. Þeir voru léttir og lausir við mold og leir.

Selvogsgata-560

Og ég spurði enn. „Já, þetta eru melreiðingar, lagsmaður,“ var svarið. Stundum sá ég þá flytja í kaupstað ýmsa einkennilega hluti, sem stundum voru ofan á milli bagga eða í böggum. Þetta voru ýmsir munir úr skipum, sem strandað höfðu í Selvogi. Mér fannst skrítið að sjá þessa muni, sem tilheyrt höfðu útlendum skipum, vera nú bundna með ullarböggum sveitamanna, því að þá leit ég á Selvogsmenn sem eingöngu sveitamenn, en skýringin á öllu þessu var sú, að þeirra sveit lá bæði til sjávar og lands og Selvogsmenn voru og eru „synir landvers og skers.“ Ég komst líka að því, að bændur í Selvogi áttu allmargt fé og margir fjölda sauða og fallega, og það þótti mér nú ekki alveg ónýtt. Allt fannst mér þetta vera líkt einhverju ævintýri, og á sveit þeirra leit ég í huganum sem ævintýraland, og ekki grunaði mig þá, að ég ætti eftir að eiga heima í þessari sveit, en vel gæti ég trúað, að ég hafi einhvern tíma óskað þess, þó að ég muni það ekki nú.

Selvogsgata-561

Það má nú ef til vill segja, að þessi saga komi ekki við lýsingu þeirra fornu slóða, sem aðallega eru hér skráðar, ef verða mætti til þess að forða því, að þær féllu alveg í gleymsku og týndust og enginn vissi síðar meir, hverjir hefðu þær aðallega notað. Ég gat ekki skilið svo við þetta efni, að ég minntist ekki lítillega þeirra manna, sem markað hafa þennan veg, og þeirra litlu og afskekktu sveitar, Selvogsins.
Oft hljóta Selvogsmenn að hafa farið þessa leið með hesta sína, því að fáir fóru þar um aðrir en þeir. Sanna það bezt hinar djúpt mótuðu götur í hart grjótið á þessum fornu slóðum. Nú hefur þessi aldna leið Selvogsmanna lokið sínu ætlunarverki, og mun nú fá að „gróa yfir götur“, þar sem svo hagar landi, en langt verður þar til „hölknin gróa“ svo á leið þessari, að eigi sjáist merki mikillar umferðar.

Selvogsgata-564

Nú eru flestir þessir Selvogsmenn, sem ég fyrst kynntist, gengnir veg allrar veraldar. Nokkrir afkomendur þeirra lifa þar enn. Fáir hafa flutzt inn í sveitina. Fyrir 250 árum voru um 200 manns í Selvogi, — en nú munu vera þar um 60 manns, svo mjög hefur þessi sveit gengið saman, og er það af ýmsum orsökum, sem ekki verða raktar hér. Kynni mín af Selvogsmönnum á síðari árum hafa verið góð og engri rýrð kastað á þá eða sveit þeirra, frá því að ég fyrst átti samleið með þeim í fjöllunum, fyrir 40—50 árum. Hér brestur bæði rúm og getu til að lýsa Selvogshreppi, svo að gagn eða gaman væri að. Þó vil ég aðeins drepa á tvennt, sem þessi fámenna og afskekkta sveit hefur átt og á, sem enginn getur frá henni tekið, og það er Strandarkirkja og minningin um Eirík Magnússon, prest að Vogsósum, sem vígðist að Strönd árið 1667 og þjónaði þar í 39 ár. 

Fornagata-551

Kirkjan hefur svo að öldum skiptir staðið ein húsa á hinu forna höfuðbóli, Strönd, sem sandur og uppblástur eyddu ásamt fleiri jörðum í Selvogi. Munnmæli herma, að þegar Erlendur lögmaður Þorvarðarson bjó að Strönd á fyrri hluta og fram yfir miðja 16. öld og allt var þar með blóma, hafi það eitt sinn borið við, er smalamaður Erlends kom heim, að hann hafi stungið spjóti sínu niður, og komið sandur upp á því. Segir þá smalamaður: „Hér mun uppblástur verða.“ Hjó Erlendur hann þá banahögg og kvað hann ekki skyldi spá fleiri hrakspám. Spá smalamannsins hefur illu heilli rætzt. Strandarkirkja er löngu þjóðkunn fyrir það, hve vel hún „verður við“, þegar fólk leitar til hennar með áheit í ýmsum áhugamálum sínum.

 

Fornagata-552

Um Eirík á Vogsósum skal ekki fjölyrt hér. Sagnir af honum og kunnáttu hans er víða að finna og flestar í þjóðsagnastíl og hafa því víða flogið. Sennilegast er, að Selvogsmenn hafi á sínum tíma litið til Eiríks á Vogsósum með ótta og lotningu fyrir orð hans og athafnir, og er mér ekki grunlaust um, að eitthvað eimi eftir enn af trú á verk hans og ummæli, sem honum eru eignuð, svo sem um vörðurnar á Vörðufelli, sem áður er á minnzt, og segi ég ekki þetta Selvogsmönnum til lítilsvirðingar.“
Göngunni lauk, sem fyrr sagði á Strandarhæð þaðan sem Fornugötunni efri var síðan fylgt til vesturs inn í Vogsósaland. Fyrrum hefur verið myndarleg varða við gatnamótin, en nú er hún einungis svipur hjá sjón. Fornagatan efri er vel greinileg. Áður hafði FERLIR fylgt götunni til austurs áleiðis að Hlíðarenda í Ölfusi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Sjá MYNDIR.

Heimild:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, Ólafur Þorvaldsson, 49. árg. 1943-1948, bls. 96-107.

Selvogsgata

Genginn Grindaskarðsvegurinn.