Færslur

Kristnitökuhraun

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 2000 fjallar Gísli Sigurðsson um “Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið“.

KristnitökuhraunVegna þess að Kristnisaga hefur eftir sendiboða að hraunið „mundi hlaupa á bæ Þórodds goða” töldu menn að hér væri sagt frá framrás Þurárhrauns eða Eldborgarhrauns, nokkru vestar, sem bæði runnu niður af hlíðinni ofan Ölfuss. En bæði þessi hraun eru eldri en 1000 ára og Kristnitökuhraunið er nú talið vera á öðrum slóðum.

“Á umliðnum öldum og þá ekki sízt nú á þúsund ára afmæli kristni á Íslandi hafa margsinnis verið rifjuð upp merkileg orðaskipti á Alþingi árið 1000 þegar tekizt var á um hvort heiðinn siður skyldi víkja fyrir hinum kristna. Í nýrri bók, Frumkristni og upphaf kirkju, segir Hjalti Hugason svo um stórmerki á þingtíma: „Í frásögn sinni af kristnitökunni heldur Ari fróði sigalfarið við störf manna á alþingi þetta sumar. Ýmsir þættir kristnitökusögunnar eins og hún er almennt þekkt nú á dögum koma því ekki fyrir í þessari elstu útgáfu hennar. Þar á meðal er sagnstefið um eldsumbrot í Ölfusi.
KristnitökuhraunÍ núverandi mynd kemur það fyrst fram í Kristnisögu frá 13. öld. Þar segir að þegar Gissur og Hjalti luku máli sínu á Lögbergi hafi svo mikill ótti gripið andstæðinga þeirra að þeir hafi ekki árætt að andmæla þeim. Sögðu kristnir menn og heiðnir því næst upp friði sín í milli. Má ætla að sú ógn, sem þannig var upp komin, hafi þó aðeins verið forsmekkur þess sem koma skyldi, en sagan heldur áfram: Þá kom maður hlaupandi, og sagði, aðjarðeldur var upp kominn í Ölfusi, og mundi hann hlaupa á bæ Þórodds goða. Þá tóku heiðnir menn til orðs: „Eigi er undur í að guðin reiðist tölum slíkum.” Þá mælti Snorri goði: „Um hvað reiddust guðin þá, er hér brann hraunið, er nú stöndum vér á”.

KristnitökuhraunBer tvímælalaust að skilja atvik þetta sem eitt af þeim stórmerkjum sem fylgdu kristnitökunni að sögn ýmissa miðaldarita og sýndu að kristnitakan fól í sér úrslitaátök illra og góðra afla tilverunnar.
Athyglisvert er að í þetta sinn er sú túlkun sett fram út frá sjónarhorni heiðinna manna. Hér er á ferðinni eina atvik kristnitökusögunnar sem mögulegt er að styðja ytri rökum, en Kristnitökuhraun á vestanverðri Hellisheiði rann einmitt um þetta leyti. Því kann hér að vera um forna sögn að ræða.”

Kristnitökuhraun

Hellisheiðarhraun.

Bókarhöfundurinn fer frjálslega með staðhætti þegar hann segir Kristnitökuhraun vera á vestanverðri Hellisheiði, að minnsta kosti teygir hann Hellisheiði lengra vestur á bóginn en gott og gilt getur talizt. Ég hygg að sú skilgreining hafi verið til lengi og ekki breytzt neitt nýlega, að Hellisheiði nái frá Kambabrún að austan að Hveradölum og Reykjafelli að vestanverðu. Hverahlíð sé í suðurmörkum heiðarinnar, en Skarðsmýrarfjöll að norðanverðu. Það er fyrst þegar komið er niður úr brekkunum við Hveradali og hálfa leið að vegamótunum suður í Þrengsli að komið er út á Svínahraunsbruna, sem fullvíst má nú telja að sé Kristnitökuhraunið. Þjóðvegurinn liggur síðan á þessu hrauni 10-12 km. Þetta er hluti þeirra hrauna sem tíðkast hefur að nefna Svínahraun, en jarðfræðingar nefna það Svínahraunsbruna. Með mælingum hefur verið staðfest að hraunið rann fyrir um 1000 árum.

Kristnitökuhraun

Svínahraun.

Ekkert annað hraun rann á þessum slóðum um svipað leyti svo það er nokkuð ljóst að sendiboðinn á Alþingi hefur verið að segja frá þessum jarðeldi. Það hefur hinsvegar verið nokkuð frjálslega með farið, en þjónað tilganginum, að gefa til kynna hættu á bæ Þórodds goða, hvort sem hann bjó á Hjalla eða Þóroddsstöðum. Enda þótt meginhluti hraunsins dreifðist til norðausturs frá eldstöðinni náði angi hans suður í Þrengslin. Hefur þá með góðum vilja mátt segja að hann stefndi suður í Ölfus og á bæ goðans.

Leiti

Gígurinn Leiti (á miðri mynd) austan Bláfjalla. Lambafellshnúkur fjær.

Gosið árið 1000 varð á vestara sprungusvæðinu, sem svo er nefnt, og liggur nokkurnveginn samhliða Bláfjöllum að austanverðu. Þar varð stórgos fyrir 4.600 árum í Leitinni, gíg sem er alveg upp við fjallshlíðina og hefur með tímanum fyllst af framburði úr hlíðinni. Leitarhraun rann bæði suður á bóginn, líklega allt til Ölfusárósa, einnig yfir stór flæmi til norðausturs og kvísl úr því rann undan hallanum til vesturs, nokkurnveginn nákvæmlega þar sem Suðurlandsvegurinn liggur, og allt niður í Elliðaárvog.
Sprungusvæðið austan við Bláfjöll hafði að líkindum ekki látið á sér bæra í 3.600 ár þegar upp kom jarðeldur árið 1000 í miðju hrauninu milli Bláfjalla og Lambafells. Þeim sem ekki eru með einstök fjöll og örnefni á hreinu skal bent á að vegamótin suður í Þrengsli eru við Lambafell og fellið þekkist af stóru sári vegna umfangsmikillar efnistöku sem varla fer framhjá vegfarendum.

Kristnitökuhraun

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Vestan og norðvestan við Lambafell urðu til tvær eldstöðvar, Nyrðri- og Syðri-Eldborg. Sú nyrðri sést tilsýndar af veginum í Svínahrauni og þangað liggur stórgrýttur og illfær vegarslóði, en til hvers skyldi hann hafa verið lagður í svo úfið hraun? Það sést þegar komið er nær eldstöðinni. Þar er svöðusár austan í henni eftir efnistöku, hreinn barbarismi og skaði sem ekki er hægt að bæta. Austur frá Nyrðri-Eldborg er á alllöngum kafla mikilfengleg hrauntröð; svo djúp að í henni eru ennþá fannir.

Hellisheiði

Hellisheiðargígar (1900 ára gamlir) – nú gjallhraukar vegna efnistöku. Myndin er frá 1982.

Milli Eldborganna tveggja eru á að giska 4 km. Syðri-Eldborg er aðeins um 2 km frá Leitinni; gosið úr henni kom eitthvað örlítið síðar, það sést á hraunstraumnum.
Kristnitökuhraunið, eða Svínahraunsbruni, sem nú er talið víst að sé úr þessum eldstöðvum, dreifðist undan hallanum norðaustur með Lambafelli og er gífurlega úfið og illt yfirferðar á köflum; samt vaxið þykkum grámosa sem tekur oft á sig gulan lit þegar hann vöknar. Til suðurs rann hraunið sáralítið nema kvísl sem rann fyrir hornið á Lambafelli, út í Þrengslin, yfir eldra hraun úr Hellisheiðareldstöðinni ofan Hveradala, og hefur þá lokað alfaraleið yfir heiðina um Þrengslin. En mest dreifðist hraunrennslið árið 1000 yfir Leitarhraunið til norðausturs, þó ekki nema 2-3 km austur og norðaustur af veginum í Svínahrauni.
Danski fræðimaðurinn Kristian Kálund ferðaðist um Ísland á árunum 1872-74 og gaf síðan út bók um íslenzka sögustaði, sem Haraldur Matthíasson hefur þýtt. Kálund nefnir frásögn Kristnisögu um jarðeld sem ógnaði Hjalla í Ölfusi. Hann segir þar að hraunið sem stefndi á bæ Þórodds goða hafi verið Þurárhraun, sem runnið hafi út úr þröngu gili og fram af brúninni talsvert austan við Hjalla. Þar hafi það dreift talsvert úr sér á flatlendinu.
Þarna fór Kálund villur vegar, enda hafði hann engar rannsóknir til að byggja á. Þurárhraun er úr eldstöðinni ofan við Hveradalabrekkur og rann í mjóum farvegi fram með Skálafelli að austanverðu og niður af hlíðinni eins og áður er lýst.

Kristnitökuhraun

Eldborg við Meitla.

Að sögn Jóns Jónssonar jarðfræðings hefur gosið fjórum sinnum í Hellisheiðareldstöðinni á nútíma, það er síðustu 10 þúsund árin. Hraunið sem þekur hlíðina í Kömbum er þaðan ættað; annað rann suðvestur með Stóra-Meitli og niður Hveradalabrekkuna, en Þurárhraun er yngst; þó miklu eldra en Kristnitökuhraun eða Svínahraunsbruni. Eins og víðar hafa veruleg spjöll verið unnin á Hellisheiðareldstöðinni vegna efnistöku. Gígarnir, eða það sem eftir sést af þeim, eru austan undir háum rauðamalar- og gjallkollum; hrauntraðir út frá þeim til austurs. Hár gjallkollur, sá þeirra sem næstur er þjóðveginum á Hellisheiði, er þó lítt skemmdur og þyrfti að friða hann.
KristnitökuhraunÞorvaldur Thoroddsen fór um þessar slóðir 1882 og minnist í ferðabók sinni á munnmæli um að Þurárhraun sé það hraun sem Kristnisaga getur um. Þorvaldur efast um að það standist og nefnir, að hafi Þóroddur goði búið að Hjalla sé líklegra að sagan eigi við annað nýlegra hraun, komið úr Meitli. Hér á Þorvaldur við hraunið sem runnið hefur fram af hlíðinni vestan við Hjalla og liggur Þrengslavegurinn á þessu hrauni í brekkunni upp á heiðina.
Ekki er alveg ljóst hvort sá mæti maður, Þóroddur goði, bjó á Hjalla eða á Þóroddsstöðum, lítið eitt vestar, og hvort sá bær sé þá nefndur eftir honum. Hafi hann búið þar og þetta hraun steypst fram af hlíðinni sumarið 1000 hefur það verið mjög áhrifamikil bending um reiði guðanna. En sú guða reiði hafði reyndar orðið löngu áður, og hverju reiddust guðin þá? Þetta hraun sem nefnt er Eldborgarhraun eftir eldstöðinni er miklu eldra en kristni á Íslandi; það er að vísu nútímahraun, en nokkur þúsund ára gamalt. Upptökin eru í Eldborg undir Meitlum, mikilfenglegum gíg sem hlaðið hefur upp háan gígbarm að vestanverðu. Hinsvegar er gígurinn opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu.

Þurárhraun

Þurárhraun – afurð Hellisheiðarhrauns.

Sæmileg jeppaslóð liggur frá Þrengslaveginum sunnan undir hlíð Litla-Meitils og allar götur að eldstöðinni. Hafa menn riðlast á torfærubílum alveg upp á gígbrún, en hlíðarnar eru að utanverðu vaxnar þykkum grámosa sem þolir ekki einu sinni umgang, hvað þá ruddaskap af þessu tagi. Ofan af gígbarmi Eldborgar undir Meitlum sést vel yfir þetta hraun og allt til Þorlákshafnar, en til norðausturs yfir eystra sprungusvæðið þar sem áður nefnd eldstöð ofan Hveradala er í beinni línu. Öskulag, sem kennt er við landnám, úr gosi sem átti sér stað liðlega einni öld fyrir kristnitöku, er bæði ofaná Þurárhrauni og Eldborgarhrauni. Þessvegna vita menn að hvorugt þeirra er Kristnitökuhraunið.
Kristnitökuhraun
Þorvaldur Thoroddsen fer villur vegar í lýsingu sinni; segir bæði hraunin „tiltölulega ný og hafa efalaust runnið síðan land byggðist, en sögur segja mjög sjaldan frá náttúruviðburðum, síst á þessum útkjálka.” Í gosannál eldfjallasögu sinnar gerir Þorvaldur ekki upp á milli þessara hrauna, en er þó fyrstur til að draga í efa munnmælin um að Þurárhraun sé Kristnitökuhraunið.
Í lýsingu sinni á jarðfræði Árnessýslu 1943 greinir Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur frá eldstöðvum á Hellisheiði og telur hann þar að bæði Þurárhraun og Eldborgarhraun geti átt við lýsingu Kristnisögu. Fram yfir 1960 héldu menn í þessa skoðun.

Heillisheiði

Heillisheiðarhraun (Þurárhraun) og Eldborgarhraun (Grímslækjarhraun).

Víðtækar rannsóknir fóru fram árin 1947-49 á jarðhitasvæðum í Hengli og Hveragerði og þá kannaði Trausti Einarsson jarðfræðingur meðal annars hraunin á Hellisheiði. Í skýrslu sinni frá 1951 segir hann: „Viðvíkjandi aldri Þurárhrauns, má geta þess, að Eldborgarhraun sunnan við Hjalla, sem er mjög gamalt, hefur verið þakið þykkum jarðvegi, er síðar fauk nær algerlega af því. Þurárhraun er hinsvegar mjög unglegt og yngst Hellisheiðarhraunanna, og eina hraunið, sem komið getur heim við frásögn Kristnisögu um eldgos árið 1000.” Þessi kenning fær enn stuðning frá Þorleifi Einarssyni jarðfræðingi 1960. Á sjötta tugnum hafði hann kannað jarðfræði Hellisheiðar og fjallaði hann um niðurstöðurnar í ritgerð sinni til fyrrihlutaprófs í jarðfræði við Kölnarháskóla og síðar einnig í Náttúrufræðingnum.
KristnitökuhraunNiðurstaða Þorleifs var svofelld: „Eldstöðvar þær sem best eiga við frásögn Kristnisögu, er eystri gossprungan á Hellisheiði. Hún er um 7 km á lengd frá rótum Stóra-Skarðsmýrarfjalls gegnum Lakahnúka allt suður til Eldborgar undir Meitlum, en Eldborg er reyndar stærsti gígur sprungunnar.”
Raunar segir Þorleifur einnig að Svínahraunsbruni hafi runnið út yfir hraunkvíslina, sem rann vestur af Hellisheiði framan við Hveradali, og sé því runnin eftir árið 1000.
Það virðist vera fyrst um og eftir 1977 að jarðfræðingar átta sig á því að hvorugt hraunanna sem flæddu fram af heiðarbrúninni niður í Ölfus séu Kristnitökuhraunið frá árinu 1000. Jón Jónsson jarðfræðingur birti grein í Náttúrufræðingnum 1977 og þar kemur fram að greining á aldri yngsta hraunsins á Hellisheiði reyndist vera um 1850 geislakolsár. Með öðrum orðum; hraunin, sem runnu niður í Ölfus og talin voru þau sem ógnuðu bæ goðans, voru búin að vera hluti af landslaginu þar í mörg hundruð ár áður en land byggðist.

Eldborgir

Eldborgir efst í Svínahrauni.

Í sömu grein kveðst Jón hafa fundið öskulagið sem kennt er við landnám í jarðvegi ofan á gosmölinni frá Eldborg undir Meitlum. Því sé ljóst að gosið sem Kristnisaga getur um, sé hvorki komið ofan af Hellisheiði né frá Eldborg undir Meitlum. Þar með er ljóst að böndin hafa borizt að Svínahraunsbruna á svæðinu vestan Hellisheiðar.

Grímslækjarhraun

Grímslækjarhraun – afurð Eldborgarhrauns.

Jón Jónsson skrifaði aðra grein í Náttúrufræðinginn 1979 og er fyrirsögn hennar „Kristnitökuhraunið”. Þar segir Jón frá því að landnámsöskulagið hafi fundizt í jarðvegi undir Svínahraunsbruna. Þar með sé ekkert því til fyrirstöðu, að fundið sé það hraun sem getið er um í Kristnisögu og hin fyrsta gosheimild í sögu þjóðarinnar sé því í meginatriðum rétt.
Kenning Jóns fékk mikilvægan stuðning í grein um Krýsuvíkurelda eftir Sigmund Einarsson jarðfræðing árið 1991. Í þeirri grein, sem birtist í tímaritinu Jökli, eru færð rök fyrir því að Eldborgir í Svínahraunsbruna séu hluti af eldstóðvakerfi Brennisteinsfjalla og að þar hafi staðið yfir goshrina á síðari hluta 10. aldar.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 01.07.2000, Hugmyndir og kenningar um Kristnitökuhraunið, Gísli Sigurðsson, bls. 10-12.

Eldborg

Eldborg í Kristnitökuhrauni.

Embla

Í Emblu, 1. tbl. 01.01.1946, er Ferðasaga Sigrúnar Gísladóttur frá Reykjavík í Selvog:

Emla“Þegar ég var telpa austur á Eyrarbakka, heyrði ég oft sjómenn tala um, að þeir ætluðu áð skreppa út í Vog, það er Selvog, rétt eins og við börnin skruppum milli liúsa. Hafði ég því á tilfinningunni, að þetta væri afar auðvelt.
Svo fluttist ég til Reykjavíkur, og árin liðu, en aldrei komst ég í Selvoginn. Áætlun var gerð þangað á ári hverju, því að í Voginn vildi ég komast, þar sem hann var nú líka eina sveitin á Suðurlandi, sem ég hafði ekki komið í. Mig langaði líka að sjá Strandarkirkju, þetta Htla, einfalda guðshús, sem á orðið fúlgur fjár fyrir trú manna á kraft þess, og Vogsósa, þar sem séra Eiríkur hinn fjölkunnugi sat.
Því var það í júní 1940, að ég fekk tvær stallsystur mínar til að skreppa með mér austur í Vog. Við fórum úr Reykjavík um hádegi á laugardag með bíl að Kleifarvatni, gengum upp Lönguhlíð og tókum stefnu þaðan á Herdísarvík. En hvernig er annars Langahlíð, þegar upp er komið, fjallið, sem dregið er með langri, beinni línu og sker sig því svo sterklega úr öðrum fjöllum Reykjaness, sem öll eru eintómar strýtur og hnúkar með skörðum á milli, séð úr Reykjavík? Það var nógu gaman að kynnast því.

Kerlingarskarðsvegur

Efst í norðanverðum Lönguhlíðum.

Þegar brúninni, sem við sjáum úr Reykjavík, sleppir, taka við mosaþembur, síðan talsverður gróður og víða yndisfagrir valllendisbollar með háfjallablómgresi. Fórum við því ekki óðslega að neinu. Veður var hið bezta, logn og sólskin. En nú fundum við, að þetta fjall er ekki einstakt í sjón, heldur líka í raun. Gróðurinn fer minnkandi, og nú tekur við hraun og aftur hraun, sem virðist alveg ógengt; svo stórgert er það. Eitt einkennir þennan stað sem fjall, að þaðan sér aðeins upp í himininn, og er því ekki hægt að átta sig á nokkrum hlut nema eftir korti og áttavita eða klukkunni og sólinni. Sjóndeildarhringurinn er ekkert nema hraun og þústir, hver annarri líkar. Frá norðurbrún, sem heitir Langahlíð, lækkar landið til austurs og hækkar svo aftur, svo að það er eins og maður sé niðri í skál. Við gengum upp á hæstu hraunstrýtuna og lituðumst um. Sáum við þá, að hraunið er lægst í miðju. Tókum við nú stóran krók á hala okkar til að leita að útgöngudyrum úr þessu völundarhúsi. Þegar við komum að þessari lægð, reyndist hún vera helluhraun, sem liggur, má segja, þvert yfir þessar ógöngur. Fréttum við síðar í Selvogi, að það er eina leiðin, sem fær er, þarna yfir. Þarna sáum við meira að segja slóða á hellunum á stöku stað eftir hesta, en þær eru nokkuð víða, þessar steinlögðu götur á Reykjanesfjallgarði. Þegar við komum að suðurbrún þessarar miklu hraunskálar, sáum við út á sjóinn, en fram undan hallar landinu, sem er hraunstraumur mikill, til suðurs. Er hraun það illt yfirferðar, — betra að vera vel skóaður í slíku gangfæri. Í þessum hraunstraumi sáum við einhvers konar dauf strik, sem reyndust vera gata. Var mikil hvíld að fylgja henni. Þessi gata, sem þarna liggur yfir hraunið, er sú elzta, sem við höfum séð á ferðum okkar.
EmblaÞessir gömlu götuslóðar tala sínu hljóða máli. Svipir horfinna kynslóða birtast og líða fram hjá. Sagan tekur á sig undarlega skýrar myndir. — Þarna hillir undir langa lest, langt niður frá. Þar er einhver stórbóndinn að fara með ullina, sem er þétt troðið í mislita hærupoka. — Niður hraunið að vestan kemur önnur. Á henni eru skreiðarbaggar svo stórir, að þá ber við loft. Eitthvað á nú að borða af þorskhausum á þessum bæ. — Þarna glittir í gyllta hnappa og skrautbúin reiðtygi. Danska valdið er að fara með fátækan bónda suður að Bessastöðum. Það á að dæma hann til fangelsisvistar á Brimarhólmi, af því að hann stal gamalli rollu til að seðja hungur barna sinna. — Sitthvað segja þessi gömlu spor. — Þarna kemur fólk á stangli — fótgangandi, hörmulega útleikið, með sár á fótum, þrútin augu og svartar tanngeiflur. Gömul kona er að þrotum komin; hún sezt við götuna og stynur mjög. — Þetta fólk er að koma frá eldunum, — Skaftáreldunum. Svona verka gömul spor kynslóðanna á vegfarandann, sem rekur þau.
Nú vorum við komnar niður á Selvogsheiði og höfðum gras undir fótum. Var þá ekki beðið boðanna að tylla sér og taka upp malinn. — Nú gerðust fæturnir viljugir, og var nú gengið rösklega. Ekki sáum við samt Selvog. Þarna eru götur, krossgötur. Við völdum þá, sem stefnir á Herdísarvík, fylgdum henni, þangað til hún hvarf í stórgerðan móa. Allt í einu stóðum við fram á svimhárri brún. Fyrir neðan okkur lá sjórinn og strandlengjan. Við sáum niður í Herdísarvík og bæinn, þar sem stórskáldið okkar, Einar Benediktsson, kvaddi þetta líf. Selvogur blasti við með hinu stóra, fallega Hlíðarvatni. Svo langt, sem augað eygði til hægri og vinstri, sáum við svartar hamrabrúnir. Hvernig áttum við, vængjalausar, að komast þarna niður? Við komum auga á þráðbeint strik, sem náði milli fjalls og fjöru. Það gat hvorki verið gjá né gata; það hlaut að vera girðing, sem lögð var alla leið upp á fjallsbrún, annars gagnslaus sem vörn fyrir fé. Ákveðið var að reyna þar niðurgöngu, sem reyndist líka sú eina þar um slóðir. Þar hefur vatn brotið skarð í fjallið og myndað skriðu endur fyrir löngu. Er þar einstigi niður. Þar sem nú var orðið kvöldsett og áætlað var að komast að Nesi um kvöldið, gátum við ekki komið að Herdísarvík án þess að taka á okkur stóran krók, þar sem girðingin liggur langt fyrir austan víkina. Var því haldið áfram. Nú voru greiðar götur til bæja. Þarna er fallegur gróður, blóm og birki, móti sólu, í skjóli fjallsins, mikil hvíld fyrir augað frá hraununum, sem við höfðum gengið allan daginn.
Stakkavík er vestasti bær í Selvogi. Komum við þar og fengum mjólk. Var fóikið þar hlýlegt og gott. Hlíðarvatn liggur alveg að Stakkavík að vestan, og var nú freistandi að fá bát yfir vatnið, sem sparaði okkur 2—3 klst. göngu. Bóndinn átti trillubát, sem synir hans voru að tjarga þá um morguninn. Var hann því ekki vel þurr að innan, en velkominn okkur, ef við vildum þiggja hann í slíku ástandi, sem við og gerðum. En botnóttar urðum við býsna vel.

Vogsósar

Vogsósar.

Þá vorum við komnar að Vogsósum. Þar er ljómandi fallegt, — valllendisflatir, þegar túninu sleppir. Vatnið framan við bæinn rennur þar til sjávar gegnum ósinn, sem bærinn dregur nafn af.
Nú var miðnætti. Engin hreyfing sást á bænum. Sjálfsagt allir menn í fasta svefni. Svartbakur, ritur og kríur mynduðu hvítar breiður niðri á fjörunum. Endur syntu letilega með unga sína á vatninu, sem var purpuralitað frá endurskini sólarlagsins. Við gengum niður að sjónum. Það var fjara. Skerin, vafin sjávargróðri, náðu langt út í sjó og mynduðu spegilslétt lón á milli sín. Þar var æðarfuglinn og ú-aði hálfólundarlega yfir þessu ónæði svona um hánóttina. Þá dró það ekki úr fegurðinni, að máninn, sem var kominn nokkuð hátt á loft, speglaðist í lónunum. Allt var kyrrt. Náttúran tók á sig náðir. Í svona andrúmslofti gleymist stund og staður. Maður samlagast náttúrunni, leggst endilangur á sjávarbakkann og teygar að sér ilminn úr jörðinni og seltuna frá sjónum, nýtur þess að vera til. Við gengum í rólegheitum gegnum byggðina. Að Nesi, sem er austasti bærinn, komum við á fimmta tímanum. Þar hugðumst við að fá leigða hesta hjá Guðmundi bónda upp að Hveragerði.
Urðum við nú að vekja upp, því að við þörfnuðumst hvíldar. Var okkur mjög vel tekið. Sofnuðum við fljótt og sváfum til kl. 9 um morguninn. Fórum við þá að fala hestana af Guðmundi, en það var ekki auðsótt mál, enda ástæða til. Þannig var ástatt, að sauðburður stóð yfir og því nýafstaðnar miklar smalamennskur, enda dreifðu ærnar sér um tún og hága með lömbin sín. Líka barst að mikill rekaviður vegna stríðsins, liestar því notaðir til liins ýtrasta við störfin. Samt var nú svo komið, að Guðmundur ætlaði að reiða okkur upp að Hrauni í Ölfusi.

Nes

Nes í Selvogi.

Á hlaðinu í Nesi voru kynstrin öll af rekaviði, sem staflað var upp í laupa. Hafði Guðmundur selt það allt til mæðiveikinefndar. Átti að senda bát eftir timbrinu í apríl-maí, en enginn hafði komið ennþá. Með þeim bát átti fólkið að fá nauðsynjar sínar úr kaupstaðnum. Var því víða orðið svo þröngt í búi, að til vandræða horfði. Skorti fólk marga hluti. Húsmóðirin í Nesi átti eitthvað eftir af hrísgrjónum, svo að hún gat gefið okkur mjólkurgraut, svo og kjöt og slátur. Kaffikorn átti hún líka. Garðamatur var að þrotum kominn, því að það varð að ganga á hann, þegar mjölmatinn vantaði.
Fórum við stallsystur nú að skoða okkur um í Voginum, heimsóttum við einu manneskjuna, sem við þekktum þar, Margréti að nafni. Þótti henni hart að geta ekki gefið okkur kaffi, því að það var þrotið, og ekki þýddi að leita á náðir nágrannanna, því að alls staðar var sama sagan. Margrét var að elda sér kjötsúpu úr síðasta útákastinu, sem hún átti, og, sem meira var, síðasta kjötbitanum, svo að hún sagðist bara ekkert hafa að borða, þangað til báturinn kæmi með vörurnar. Ekki var að tala um að komast á sjóinn. Einn bátur sjófær, en engir menn til að róa, því að allur tíminn fór í að bjarga lömbunum.

Strandarkirkja

Strandarkirkja.

Margrét fór með okkur út að Strandarkirkju og sýndi okkur hana. Er það ein snotrasta kirkja, sem ég hef komið í, mjög snyrtileg og vel við haldið. Einhver sérstök „stemning” er í þessari kirkju. Ef til vill er það ímyndun vegna þjóðsögunnar um hana, og hversu vel hún verður við áheitum. Mikill og sterkur garður er nú hlaðinn henni til varnar, og virðist þess ekki vanþörf, því að satt að segja er það furðulegt, að hún skuli ekki fyrir löngu vera komin í sjóinn, svo nærri honum sem hún stendur. Þessi varnargarður hefur líka varið landið frá eyðileggingu foksandsins, sem teygði sig inn eftir landinu og át upp gróðurinn, svo að þar, sem fyrir nokkrum árum sá ekki stingandi strá, eru nú gróðursælar valllendisflatir. Þegar við komum aftur heim að Nesi, færði Guðmundur okkur þau tíðindi, að hins langþráða báts væri nú loksins von upp úr hádegi þann sama dag. Var því alveg sjálfsagt að nota ferðina til Stokkseyrar, en þaðan var báturinn. Bæði var það fljótara og svo komumst við hjá því að níðast á veslings lúnu klárunum.
Eftir burtfarartíma bátsins frá Stokkseyri að dæma reiknaðist þeim í Selvogi svo til, að hann gæti farið þaðan um sex leytið e. h. þann dag. Með því móti átti okkur að heppnast að ná í síðustu áætlunarferð til Reykjavíkur.
Teitur Eyjólfsson, forstjóri Vinnuhælisins að Litla-Hrauni, hafði veg og vanda af þessari bátsferð. Þurftum við því að leita til hans með flutning á okkur. Teitur sló á glens, þegar við bárum u p p bónorðið, sagðist hreínt ekki vita, hvernig það færi, þar sem við værum þrjár ungar stúlkur. Skipshöfnin væri nefnilega þrír ungir piltar. Formaðurinn væri reyndar talinn einn sá öruggasti á Stokkseyri, Ingimundur á Strönd. Hann sagðist ekki vita, nema þeir slepptu allri stjórn á bátnum og keyrðu í strand, ef þeir hefðu slíkan ágætis farm um borð! Ég hugsaði í símann: Það sér á, að síminn er ekki sjónvarp!
Tafir urðu svo miklar við útskipun í Voginum, að klukkan var orðin 2 um nóttina, þegar lagt var af stað þaðan. Við stúlkurnar áttum auðvitað „kojuvakt”. Við héldum eldinum við í „kabyssunni” , fengum okkur kaffi, sem var þar á könnunni, og létum fara vel um okkur.
Nú vorum við komin upp undir Stokkseyri. Var þá ekki orðið það hátt í, að við gætum flotið inn fyrir. Urðum við því að doka við. Settist þá öll „skipshöfnin” að kaffidrykkju niðri í „lúkar”.
Var þar glatt á hjalla. Allt í einu tekur báturinn snarpan kipp. — Jú, við dinglum þar uppi á skeri. — Báturinn er kominn í strand! Það er yfirleitt ekki hlátursefni, þegar skip stranda á þessum slóð um, en í þetta sinn vakti það óskiptan hlátur skipshafnar og farþega vegna spár Teits forstjóra. Flóðið losaði um bátinn með hjálp vélarinnar, og allir björguðust vel í land. Til Reykjavíkur komumst við um hádegi á mánudag.”

Heimild:
-Embla, 1. tbl. 01.01.1946, Ferðasaga, Sigrún Gísladóttir, bls. 83-89.
Embla

Hafnarfjörður

Í Alþýðublaði Hafnarfjarðar, jólablaðinu árið 1957, fjallar Friðfinnur V. Stefánsson um “Guðlaugs þátt Gjáhúsa”.

Símtal
Friðfinnur V. Stefánsson“Það var kvöld eitt, ekki alls fyrir löngu, að til mín hringir blaðamaður og spyr, hvort ég sé fáanlegur til þess að skrifa smáþátt um minn gamla vin og kunningja, Guðlaug heitinn Gjáhúsa.
Ég tók þessu mjög illa. Taldi ég öll vandkvæði á því. Benti ég á, að frá því ég lauk prófi frá Flensborgarskóla 1911 hefði ég naumast snert penna. Hlutskipti mitt í lífinu hefði verið að handleika handbörukjálka, fisk, kola- og saltpoka, skóflur, hamra, múrskeiðar, beizlistauma og m. fl. Nei, það var svo fráleitt, að ætlast til þess að ég færi að skrifa minningaþátt. Það var jafn fráleitt og farið væri fram á það við mig, að ég reyndi að ná tíkinni margumtöluðu niður úr tunglinu. En blaðamaðurinn var ýtinn. Ég kvaddi hann samt snögglega og lagði símatólið á.
Síðar um kvöldið, þegar ég var háttaður, tókst mér ekki að sofna, hvernig sem ég reyndi. Ég var í huganum aftur og aftur kominn út í gamlan ævintýraheim. Við Guðlaugur vorum komnir á hestbak og þeystum um grænar grundir, fjöll og hálsa. Og þegar við áðum, sagði hann mér sögu eftir sögu af sinni alkunnu snilld. Þetta gekk langt fram á nótt. Loksins sofnaði ég. Daginn eftir, er hlé varð á störfum mínum, leitaði ég uppi blað og penna og byrjaði.

Inngangur

Guðlaugur

Það er orðin næsta algeng venja að tala um, að hún eða hann hafi sett svip sinn á bæinn. Ég ætla nú að fylgja þessari venju og segja, að hafi nokkur maður sett svip sinn á Vesturbæinn í Hafnarfirði, þá var það Guðlaugur heitinn Gjáhúsa.
Guðlaugur var að mörgu leyti merkilegur maður og á ýmsan hátt dálítið sérstæður persónuleiki, sem allir hlutu að taka eftir, sem einhver kynni höfðu af honum. Hann var bæði greindur og minnugur.
En það í fari hans, sem sérstaklega heillaði mann, var hve snarráður, úrræðagóður, ósérhlífinn og fylginn sér hann var. Þó er einn ótalinn eðlisþáttur hans. Hann verður ógleymanlegur öllum þeim, sem kynntust honum. Hann bjó yfír alveg óvenjulega frjórri frásagnargáfu – og gleði. Mun ég nú reyna að lofa lesendum að kynnast henni ofurlítið, með því að endursegja nokkrar sögur og minni atburði, er hann sagði mér.

Uppvaxtarár
Eggert PálssonGuðlaugur var fæddur 26. ágúst 1874 að Vindási í Hvolhreppi í Rangárvallasýslu. Ólst hann þar upp við kröpp kjör, eins og hlutskipti margra var í þá daga. Rétt fyrir fermingu, að mig minnir fastlega, missir hann föður sinn úr lungnabólgu og systkini sín þrjú úr barnaveiki, öll í sömu vikunni.
Ekki var þetta nú uppörvandi fyrir umkomulausan fermingardreng að leggja með þetta veganesi út í lífið. Þá var ekki margra kosta völ fyrir þá, sem enga áttu að. Einn og óstuddur varð hann að sjá sér farborða.
Fyrst var hann á bæjum í Fljótshlíðinni t. d. jarðskjálftaárið mikla 1896, þá rúmlega tvítugur að aldri. Hrundu þá bæjardyrnar á bæ þeim, er hann dvaldi á, svo að hann og annað heimilisfólk varð að skríða út um stafngluggann á baðstofunni. Aldrei gat Guðlaugur gleymt þessum atburði. — Þá var Guðlaugur einnig vinnumaður hjá síra Eggerti á Breiðabólsstað. Þann mann dáði Guðlaugur mikið.

Herdísarvík
HerdísarvíkBrátt tók Guðlaugur, eins og fleiri í þá daga, að fara suður til sjóróðra. Reri hann margar vertíðir, oftast í Grindavík. Kem ég betur að því síðar. Þá var alltaf farið um Selvog og Herdísarvík. í einni vertíðarferð kynntist Guðlaugur bóndanum í Herdísarvík, Þórarni Árnasyni, sýslumanns í Krýsuvík. Réðist Guðlaugur til hans og gerðist fjármaður hans, við mikinn og góðan orðstír. Hjá honum var hann í fimm ár. Þroskaðist hann þá mikið. Reyndi þarna oft á þrek hans í vondum veðrum við fjárgæzluna. í Herdísarvík var að mestu byggt á beit, bæði til fjöru og fjalls. Margan, kaldan vetrardaginn, þegar jarðbönn voru, stóð hann myrkranna á milli við ofanafmokstur til þess að féð næði að seðja mesta hungur sitt.
Síðar í þættinum mun ég víkja frekar að veru Guðlaugs, í Herdísarvík.

Ástin vaknar

Gjáarrétt

Gjáarrétt.

Guðlaugur varð, eins og aðrir fjármenn, að fara í útréttir. Haust nokkurt sendi Þórarinn bóndi hann í Gjáarrétt við Hafnarfjörð.
Sá Þórarinn mikið eftir því, að hafa sent Guðlaug í þessa ferð. Hann vildi fyrir hvern mun halda í Guðlaug. En í þessari ferð gisti Guðlaugur á Setbergi. Þar sá hann mjög gjörvulega og myndarlega stúlku, Sigurbjörgu Sigvaldadóttur, sem síðar varð ævilangur förunautur hans. Þegar Guðlaugur kom heim úr réttarferðinni, leið ekki á löngu áður en hann sagði upp vistinni. Hvarf hann frá Herdísarvík, þegar ráðningartími hans var á enda.
Flutti hann þá að Setbergi við Hafnarfjörð og gerðist vinnumaður um skeið hjá Halldóri Halldórssyni, sem síðar var kenndur við Bergen í Hafnarfirði.

Til Hafnarfjarðar

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1905.

Flestum lífverum er frelsisþráin meðfædd. Svo er um okkur mennina. Brátt tóku þau Guðlaugur og Sigurbjörg að búa sig undir að verða sjálfstæð. Árið 1905 eða 1906 fluttu þau hjón til Hafnarfjarðar.
Bjuggu þau fyrst á svonefndu Stakkstœði, þar sem Guðmundur á Hól, Eyjólfur frá Dröngum o. fl. bjuggu. Það lýsir Guðlaugi vel að undir eins á fyrsta ári byrjar hann á því að byggja hús þar við Vesturbraut, er hann síðar nefndi Gjáhús. Stendur það enn, sem kunnugt er. Þarna bjuggu þau hjónin alla tíð síðan, með mikilli prýði og myndarskap. Brátt fékk Guðlaugur gott orð á sig sem smiður.
Stundaði hann smíðar um margra ára skeið.

Djöflafélagið

Hafnarfjörður 1912

Hafnarfjörður 1912.

Um þessar mundir var lítið um félagssamtök í Hafnarfirði. Góðtemplarareglan var helzti félagsskapurinn. En um þetta leyti reyndu verkamenn í Hafnarfirði að stofna með sér félag. Guðlaugur tók þátt í því. Mig langar að segja frá smáatviki, sem henti Guðlaug. Lýsir það vel aldarandanum í þá daga. Það var kvöld eitt, að Guðlaugur var á leið heim. Hann hafði verið á verkamannafélagsfundi. Hittist svo á, að atvinnurekandi nokkur og einn af betri borgurum bæjarins stóð á tröppum húss síns. Ávarpaði hann Guðlaug heldur hvatskeytislega með þessum orðum: „Ert þú genginn í þetta Djöflafélag, Guðlaugur?”
„Ef þú átt við verkamannafélagið, þá er ég genginn í það,” svaraði Guðlaugur jafn snúðugt og hinn spurði. Hélt hann síðan áfram ferð sinni. — Guðlaugur vann hjá þessum manni. Næstu fjóra daga var hann ekki kvaddur til vinnu. En á fimmta degi var sent eftir honum og vinna tekin upp eins og ekkert hefði í skorizt. Svona var nú aldarandinn þá. Stingur þar mjög í stúf við öll elskulegheitin, sem atvinnurekendablöðin sýna launastéttunum nú og jafnvel hálaunastéttunum. En skylt finnst mér að taka fram, að fyrrnefndur atvinnurekandi og hans líkar voru ýmsum kostum búnir líka, þótt þeir væri kaldir og hrjúfir á stundum. Þeir áttu það til að lána fátækum mönnum bæði timbur og járn o. fl. til þess að þeir gætu byggt sér skýli yfir höfuðið, — og ábyrgðar- og rentulaust. Væntanleg vinna, ef heilsa og kraftar leyfðu, var eina tryggingin.

Vindmyllan

Vindmylla

Vindmylla.

Guðlaugur stundaði smíðar, eins og fyrr var sagt, í nokkur ár. Síðan breytti hann til og gerðist verkstjóri hjá Bookless Bros. Í þá daga var notuð vindmylla til þess að dæla sjó í þvottakerin. Skal nú sagt frá atburði, seni sýnir, að Guðlaugur var gæddur óvenjulegu hugrekki, snarræði og þreki, er í þessu tilfelli gekk ofdirfsku næst.
Guðlaugur var hvorki stór maður vexti né kraftalegur, en hann leyndi á sér. Þrekið og áræðið fór þó langt fram úr því, sem útlitið benti til. Það vissu þeir, sem með honum unnu. Andlitsdrættir Guðlaugs voru sterkir og fastmótaðir. Stundum fannst mér gæta nokkurs kulda í svipnum. Má vera, að harðrétti og óblíða unglingsáranna ætti þar nokkurn hlut að.
Það var einhverju sinni, að verið var að dæla sjó með vindmyllunni. Þá rauk hann skyndilega upp á norðan. Hvassviðrið jókst og myllan ærðist, ef svo mætti segja. Stórhætta var á að vængir myllunnar brotnuðu í spón, ef ekki tækist að stöðva hana. Nú voru góð róð dýr. Þarna voru margir karlmenn til staðar, en enginn treysti sér til þess að fara upp og freista þess að stöðva mylluna. Þá bar Guðlaug þarna að. Hann réðst þegar í stað til uppgöngu, en myllan stóð í turni á húsþakinu. Guðlaugur lét þrjá menn fylgja sér. Hann skipaði þeim að taka traustataki um taug, er bundin var í stél myllunnar. Áttu þeir að beina vængjum hennar undan vindi, ef ske kynni að hún hægði nokkuð á sér. Meðan þessu fór fram, tók Guðlaugur sér stöðu, hélt sér föstum með annarri hendi, en hina hafði hann lausa. Hugðist hann grípa með henni um einn vænginn, ef færi gæfist. Allt í einu rak fólkið, sem á horfði, upp skelfingaróp. Guðlaugur hafði gripið um vænginn. Við þetta missti hann fótanna, sveiflaðist nokkra stund í lausu lofti, en hvorugri hendinni sleppti hann. Það gerði gæfumuninn, — og vindmyllan stöðvaðist. Létti mjög yfir áhorfendum, þegar Guðlaugur hafði leyst þessa þrekraun af hendi.

Hlauparinn

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Áður en bílar komu til sögunnar notaði yngra fólkið helzt reiðhjól til þess að ferðast á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar.
Dag nokkurn lagði einn snjall og kappsamur hjólreiðamaður, Ásgeir G. Stefánsson að nafni, á stað til Reykjavíkur. Er hann var kominn rétt upp fyrir bæinn, sér hann gangandi mann á undan sér. Hann þekkti manninn, sem var á leið til Reykjavíkur, kastar á hann kveðju, um leið og hann hjólar fram hjá honum. Heldur Ásgeir síðan áfram með sígandi hraða og horfir fram á veginn. Skömmu síðar verður hann þess var, að maðurinn, sem hann var nýbúinn að kveðja, er kominn á hæla honum og hleypur mjög léttilega. Ásgeir hjólaði alltaf greitt, og fylgdust þessir kappar að alla leið, til Reykjavíkur, þótt ótrúlegt megi virðast. Ekki var hlauparinn mæðnari en það, að þeir héldu uppi eðlilegum samræðum mikið af leiðinni. Nú skyldi margur ætla, að hér væri á ferðinni Olympíufari eða hlaupasnillingur, sem þjálfaður er eftir kerfisbundnum reglum. Nei, þarna var á ferðinni sonur dalanna og íslenzku heiðanna, þjálfaður af nauðsyn í sjálfu lífsstarfinu, smali, nýfluttur til Hafnarfjarðar, Guðlaugur frá Gjáhúsum.
Mér þykir rétt að skjóta því hérna inn í, úr því að ég fór að minnast á hjólreiðamenn, að fleiri voru snjallir og kappsfullir en Ásgeir, t. d. Guðmundur Hróbjartsson, Ólafur Davíðsson, Gunnlaugur Stefánsson og Þorbjörn Klemensson. Einu sinni lenti þeim Gunnlaugi og Þorbirni saman í geysiharðri keppni, og mátti varla milli sjá, hvor þeirra var á undan, þegar hetjurnar, móðar og másandi, náðu Hraunsholtsbeygjunni.
Guðmundur Hró og Ásgeir áttu það stundum til að skreppa austur yfir fjall á hjólum sínum seinni part laugardags, borða lax á Kolviðarhóli (þá voru allar rúður þar vel heilar) á austurleið, koma svo aftur heim til Hafnarfjarðar að sunnudagskveldi. Brást þó aldrei, að þeir voru mættir til vinnu í bítið á mánudagsmorgni. En þetta var nú útúrdúr. —

Nautið
Vindás
Nú bregðum við okkur, lesandi góður, austur á æskustöðvar Guðlaugs.
Það var einn dag um hásumarið í góðu veðri, að Guðlaugur fór fram á heiði til þess að huga að hestum. Þarna var vel grösugt en allstórir steinar á víð og dreif. Allt í einu tekur Guðlaugur eftir því, að heljarmikið naut stendur fyrir framan hann. Hefur það sennilega legið á bak við einn stóra steininn. Nautið rekur upp öskur mikið, tekur undir sig stökk og stefnir beint á Guðlaug. Drengurinn tekur til fótanna, stekkur að stærsta steininum þarna og kemst með naumindum upp á hann. Nautið skellir framfótunum upp á steininn og öskrar ógurlega. Drengurinn getur þó varizt og er hólpinn í bili. Nú var Guðlaugur staddur í ærnum vanda. Aleinn, svangur, hræddur og langt frá mannabyggðum. Við fætur hans stóð dauðinn í nautslíki. Nautið hafði nóg gras að bíta. Það gat því beðið endalaust eftir bráð sinni. En lesandi góður: Eftir nokkra stund var ungi drengurinn búinn að leysa þessa heljarþraut, sloppinn úr allri lífshættu og kominn heim á leið.
Hann hafði stungið hendi í vasa sinn, opnað vasahnífinn, stóð þarna allvígalegur á steininum og engdi nautið óspart, en það teygði fram hausinn og reyndi öskrandi að ná til drengsins. Leiftursnöggt brá litli drengurinn hnífi sínum og rak hann á kaf í annað auga dýrsins. Nautið rak upp feiknarlegt öskur, hentist af stað út í buskann, eins langt og augu drengsins eygðu.
Guðlaugur rölti heim á leið, glaður og hryggur. Góður drengur kennir í brjósti um sært dýr. En þetta var nauðvörn hans. Ekki þorði hann að segja neinum frá þessu, þegar heim kom.
Sumarið leið. í vetrarbyrjun var Guðlaugur sendur á bæ fram í sveit. Það var byrjað að skyggja, þegar hann kom að bænum. Hann sá glitta í ljóstýru í fjósinu. Gengur hann þá inn í fjósið og býður hressilega gott kvöld. Um leið tekur að hrikta í öllu og fjósið að skjálfa. Stórt naut, sem bundið var á utasta bás, slítur sig laust og ryðst út og er horfið á svipstundu.
Heimamaður kvað naut þetta hafa komið eineygt af fjalli um haustið. „Þetta er ekki einleikið. Það er engu líkara en það hafi brjálazt.” — Guðlaugur mælti fátt, en hugsaði: „Nautgreyið hefur þekkt rödd mína og ekki viljað eiga það á hættu að missa hitt augað líka.”

Blóðblettir

Heykuml

Heykuml – h.m.

Einn vetur, þegar Guðlaugur var á 14. ári, var honum falið að hirða fé á eigin ábyrgð, að öðru leyti en því, að móðir hans kom vikulega til þess að fylgjast með verkum sonar síns. Við fjárhúsið var heykuml. Stóð fjárhúsið nokkuð frá bænum. Svo bar við, að móðirin finnur að því við son sinn, að hann gangi ekki nógu vel um heyið. Segir hún töluverðan slæðing vera á gólfinu og heyið vera illa leyst. Guðlaugi sárnar þetta nokkuð og lofar að gera betur. Gefur hann enga skýringu á þessu og reynir ekki að afsaka sig.
Þegar móðir hans er farin, verður Guðlaugur sér úti um fjóra ljái, brýnir þá allvel. Stingur hann þeim síðan í stálið hér og hvar.
Guðlaugi gengur hálfilla að sofna um kveldið. Næsta morgun er hann snemma á fótum. Hann röltir til fjárhúsanna. Hann opnaði síðan heykumlið, dálítið óstyrkur. Nú var engan slæðing að finna. En þarna á gólfinu mátti sjá annað, sem vissulega kom honum ekki á óvart. Hér og hvar gat að líta blóðbletti.
Þennan sama dag og næstu daga, sást maður nokkur í sveitinni með reifaðar hendur. Ekki þurfti móðir Guðlaugs að vanda um við son sinn vegna slæmrar umgengni í hlöðunni eftir þetta.

Seilin
GrindavíkVið erum stödd um síðustu aldamót niður í fjöru í Grindavík.
Mikið er um að vera. Vel hefur fiskazt þennan dag. Mörg skip hafa orðið að seila. En um aldamótin síðustu var, sem kunnugt er, róið á opnum bátum. Þurfti þá að gæta ýtrustu varfærni við að ofhlaða ekki þessi litlu, opnu skip. Var þá það ráð tekið að seila, sem kallað var. Það var gert á eftirfarandi hátt: Nál úr hvalbeini, með flötum, þunnum oddi og víðu auga var stungið undir kjálkabarð fiskjarins og út um kjaftinn. Bandi var brugðið í augað og fiskarnir þræddir upp á bandið, einn af öðrum. Fiskurinn á bandinu var síðan látinn fljóta aftur með skipinu og dreginn til lands. Þessu má líkja við, þegar kringlur voru dregnar upp á band í gamla daga eða. perlur nú til dags. Þegar komið var með seilar að landi, var þeim stundum fest við steina í fjörunni. Stundum var líka haldið í þær.
Víkjum nú aftur að því, þar sem við stöndum í fjörunni. Guðlaugur er þar að vinna. Hann verður þess var, að ein seilin er að renna út með útsoginu og hverfa. Töluvert hafði brimað. Guðlaugur bregður eldsnöggt við, hleypur á eftir útsoginu, sækir seilina, — en verður of seinn. Kolblá holskeflan skellur yfir hann og han n hverfur um stund. En með einhverjum óskiljanlegum hraða tekst honum að komast í var við stóran, þangivaxinn stein. Greip hann traustataki í þangið. Hélt hann sér þar rígföstum.
Drykklanga stund var Guðlaugur í kafi, en aftur kom útsog, og upp stóð piltur, að vísu dálítið dasaður. Hélt hann um seilina og skilaði henni til lands. Jafnaði hann sig furðufljótt. Varð honum ekki meint af volkinu, en fékk dálítil aukalaun, og aðdáun allra hlaut hann að sjálfsögðu fyrir þetta einstæða afrek sitt.

Vaka við tafl á jólanótt

Fjárskjólshraun

Í Fjárskjóslhrauni.

Þetta gerðist á aðfangadag jóla, dimmt var í lofti, frost nokkurt og herti það, er á daginn leið. Guðlaugur hafði farið, að venju, í birtingu til fjárins. Hann hafði með sér skóflu, því að snjó hafði hlaðið niður. Hugðist hann létta fénu krafsturinn, með því að moka ofan af. Upp úr hádeginu tók að hvessa og hríða að nýju. Enn herti frostið og loks tók að skafa líka.
Lagði nú Guðlaugur alla áherzlu á að ná fénu saman í skjól. Ekki var það áhlaupaverk. Guðlaugur hafði þann háttinn á við fjárgeymsluna, að halda fénu í smáhópum, dreift um allt beitilandð. Í illviðrum reyndi hann að halda hverjum hópi í sínu skjóli. Vann hann nú dyggilega að því ásamt hundi sínum að koma fénu í afdrep, og gekk það vonum framar. Dagur tók að styttast og alltaf snjóaði meir og meir. Skall nú á iðulaus stórhríð og hörkugaddur. Þá var Guðlaugur staddur í svonefndu Fjárskjólshrauni, langt vestur af Herdísarvík. Þarna barðist Guðlaugur nú upp á líf og dauða í grenjandi stórhríðinni og hafði ekkert nema vindstöðuna að styðjast við. Hinn nístandi sviði í fótunum kvaldi hann mikið. Brátt dró úr sviðanum aftur, en ekki vissi það á gott, eins og síðar kom fram. Verður nú fljótt farið yfir sögu. Guðlaugur náði heim með guðshjálp. Gaddfreðinn, fannbarinn og kalinn á fótum komst hann heim til bæjar að lokum. Var honum vel fagnað, hresstur á volgri nýmjólk, og ekki var seppa heldur gleymt, sem líka var illa á sig kominn. Fötin voru rist utan af Guðlaugi, bali með vatni í settur við rúm hans og ísmolar settir í vatnið. Síðan var Guðlaugi hjálpað við að koma fótunum ofan í balann.
Þannig sat Guðlaugur alla jólalóttina — og langt fram á næsta morgun. — En húsbóndinn, Þórarinn Árnason, vakti með fjármanni sínum og stytti honum stundir með því að tefla við hann allan tímann. En vegna þessarar hörkumeðferðar hélt fjármaðurinn heilum fótum sínum.

Sókrates

Hlín Johnson

Guðlaugur var mikill og góður hestamaður. Sat hann hest sinn vel og bar áseta hans af. Margar ferðir fórum við Guðlaugur saman á hestum austur í Selvog. Fórum við þá oftast um Krýsuvík og Herdísarvík. Eitt sinn sem oftar gistum við í Herdísarvík hjá frú Hlín Johnson. Fengum við frábærar móttökur eins og alltaf áður. Það var á sunnudagsmorgni. Við vorum búin að drekka kaffi og vorum að rabba saman. Um þetta leyti var frú Hlín að koma sér upp fjárstofni í Herdísarvík. Talið barst því að fjárgeymslu. Sneri Hlín sér að Guðlaugi og sagði: „Það ber sannarlega vel í veiði, að þú ert hér staddur, Guðlaugur minn. Þú hefur mann a bezta og mesta þekkingu á öllu því, sem lýtur að sauðfjárækt á jörð eins og Herdísarvík. Blessaður, miðlaðu mér nú af þekkingu þinni og reynslu. Láttu mig nú heyra með nokkrum vel völdum orðum um allt hið mikilvægasta í sambandi við fjárbúskap, miðað við þær sérstöku aðstæður, sem hér eru fyrir hendi í Herdísarvík.” Guðlaugur brosti lítið eitt, dró alldjúpt andann, reisti höfuðið svolítið og hóf síðan mál sitt. Hann talaði í fullar 20 mínútur samfleytt. Kom hann víða við, en ekki ætla ég mér þá dul að endursegja efni ræðunnar. Ég mun heldur ekki gera tilraun til þess að lýsa því, hvernig Guðlaugi tókst. Þess í stað þykir mér rétt að lofa ykkur að heyra álit dómbærari manns. Held ég, að hann verði vart fundinn. Maður þessi hlustaði ásamt okkur Hlín á ræðu Guðlaugs. Þetta var skáldið og spekingurinn Einar Benediktsson.
Þegar Guðlaugur hafði lokið ræðu sinni, vorum við öll þögul nokkra stund, eins og oft vill verða, þegar men n upplifa eitthvað, sem sker sig úr um það venjulega. En allt í einu lyftir skáldið hendi sinni, leggur hana þéttingsfast á öxl Guðlaugs og segir hægt og skýrt: „Ég þakka þér, Sókrates.”
Hér lýkur svo Guðlaugs þætti Gjáhúsa.
Óska ég svo öllum gleðilegra jóla og góðs nýárs.” – Friðfinnur V. Stefánsson.

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, Friðfinnur V. Stefánsson; Guðlaugs þáttur Gjáhús, jólablað 1957, bls. 17-19.

Herdísarvík

Herdísarvík.

Úlfljótsvatn

Í Fréttarbréfi Ættfræðingsfélagsins fjallar Elva Brá Jensdóttir m.a, um “Hjátrú og kynlegi kvisti við Úlfljótsvatn;

Hjátrú og kynlegir kvistir
Nesjavellir“Frásagnir Kolbeins Guðmundssonar bónda á Úlfljótsvatni og barnabarn hans, Katrínar og Guðmundar Símon Dalaskáld, Samúel Súðadallur, Guðmundur kiði og fleiri litríkir karakterar koma við sögu þegar Kolbeinn Guðmundsson og börnin hans Katrín og Guðmundur rifja upp minningar sínar frá Úlfljótsvatni upp úr aldamótunum 1900.
Á Stofnun Árna Magnússonar (SÁM) eru varðveittar upptökur af frásögnum Kolbeins Guðmundssonar (1873-1967) og barna hans, Katrínar (1897-1982) og Guðmundar (1899-1987), en Kolbeinn var bóndi á Úlfljótsvatni kringum aldamótin 1900. Hallfreður Örn Eiríksson safnaði sögnunum á 7. og 8. áratugnum en þær gerast flestar á heimaslóðum þeirra,
Úlfljótsvatni, eða nágrenni.

Þurfti að flýta sér
ÚlfljótsvatnÞegar Guðmundur og Katrín voru börn tíðkaðist enn að förumenn eða flakkarar færu á milli bæja og segðu sögur eða færu með kvæði í skiptum fyrir mat og gistingu, ef væru þeir óvinnufærir. Sumir hverjir voru eftirminnilegir og skrautlegir en aðra var ekkert varið
í að hýsa. Guðmundur segir til dæmis frá Jóhannesi Jónssyni, sem þótti sérkennilegur að mörgu leyti, en eitt sinn þegar hann hafði gist á Nesjavöllum þurfti hann skyndilega að flýta sér í burtu. Kom svo í ljós að hann hafði gengið örna sinna í rúmið og búið svo kyrfilega um það.
Ögn þrifalegri var Samúel súðadallur, hressilegur karl, en hann stundaði sníkjuferðir í sveitinni, safnaði smjöri, ull og hverju sem var, og bað svo bændurna að flytja það heim til sín. Honum var þó ekki gefið um kjöt að gjöf, sagðist heldur vilja kindur og geta rekið þær heim svo það þyrfti ekki að flytja kjötið öðruvísi.
Hann þótti svo skemmtilegur að enginn amaðist við honum.

Kraftaskáldið
ÚlfljóstvatnSá sem var þó í mestum metum, af þeim sem þáðu gistingu á Úlfljótsvatni, var Símon Dalaskáld en hann gat snarað fram vísu um heimilisfólkið á staðnum og vakti mikla lukku. Hann var sagður kraftaskáld en þau eru sögð hafa ýtt undir þann orðróm sjálf, því almennt þótti vissara að halda þeim góðum svo ekki yrði til nein níðvísa um heimilisfólkið.
Margar frásagnir fjalla um álagabletti. Víða var blettur eða þúfa sem ekki mátti hreyfa við og má þar nefna toppinn á Hrútey, Litla-Hólma og Arnarhólma en Kolbeinn sagði slíka bletti hafa fyrirfundist á hverjum bæ. En álögin voru ekki einungis á þúfunum.
Katrín segir að áður fyrr hafi verið mun meiri silungur í vatninu, en tvær húsmæður rifust um veiðina, og önnur þeirra lagði það á að hluti silungsins í vatninu yrði að mýflugu. Skýringin á mýflugnamergðinni mun þá vera sú að hún sé silungur í álögum.

Áhrínsorð
Álögin gátu líka beinst að fólki. Guðmundur segir frá gamalli, bæklaðri konu sem hann hitti, en hún varð fyrir áhrínsorðum þegar hún var ársgömul. Móðir hennar reifst við vinnukonuna með miklu offorsi og óskaði vinnukonunni alls ills – að hún yrði að aumingja.
Meðan á þessu stóð hélt húsmóðirin á dóttur sinni í fanginu. Þegar hún svo setur litlu telpuna á gólfið er hún norðin máttlaus öðrum megin. Vinnukonan hafði þá beint áhrínsorðunum að barninu.
Afi Guðmundar var níu ára á þessum tíma enGuðmundur sagði hann hafa munað vel eftir þessum atburði. Konan, sem varð varanlega fötluð, kenndi móður sinni alfarið um hvernig komið væri fyrir sér. Guðmundur segir konuna þó hafa getað gert ýmislegt, þrátt fyrir fötlun sína, en hún gætti eldsins, eldaði jafnvel mat og baslaði við að prjóna.

Guðmundur kíði
ÚlfljóstvatnFlökkumennirnir sem komu að Úlfljótsvatni sögðu alls kyns sögur, en vinsælastar voru drauga- og huldusögur sem kemur ekki á óvart, sérstaklega þegar litið er til þess að margir óútskýranlegir atburðir gerðust á bænum. Ber þá helst að nefna draugaganginn sem kenndur hefur verið við Guðmund kiða, sem var fjármaður á Úlfljótsvatni fyrstu búskaparár Kolbeins og Geirlaugar. Hann skilaði sér ekki heim með féð eitt kvöldið og um nóttina dreymdi Geirlaugu að hún væri komin í beitarhúsin til hans og spyr hvort hann ætli ekki að koma heim en Guðmundur kiði svarar: Nei, ég ætla ekki að koma heim, því að ég rak féð niður að vatninu og út á vatnið og það fór töluvert af því í vatnið og ég ætla ekki að koma heim þess vegna.
Geirlaug segir þá að honum sé óhætt að koma heim fyrir því, fyrst hann hafi ekki farið í vatnið sjálfur þá sé allt í lagi en Guðmundur kiði svarar þá : „Nei, ég ætla að vera hérna fyrst um sinn.“
Draumur Geirlaugar var ekki lengri en Guðmundur kiði fannst þegar róið var eftir vatninu. Hann hafði farið ofan um ís og drukknað ásamt þrjátíu kindum en þegar hann fannst hélt hann um hornið á einni kindinni, sem hann hefur ætlað að bjarga. Marg oft hefur orðið vart við hann, sérstaklega við fjárhúsin og vatnið en þar á hann að halda til og alltaf sést þessi eina kind með honum.

Naglar í kross
ÚlfljóstvatnÍ viðtölunum við fjölskylduna frá Úlfljótsvatni er yfirleitt talað um að fólk hafi orðið vart við eitthvað en aldrei er sagt berum orðum að draugatrú hafi verið ríkjandi í sveitinni. Engin hræðsla virðist hafa verið við það sem ekki var hægt að útskýra og myrkfælni þekktist ekki hjá heimamönnum. Draugafrásagnir eru ofarlega á lista. Þó var þeim tekið af æðruleysi á þessum tíma eins og Guðmundur orðar það sjálfur: „Jaaa, það var nú ekki beint draugatrú [ … ] en það var nú samt [ … ] það var nú vart við svona hitt og þetta, það var til dæmis hjá okkur á Úlfljótsvatni sko, að það var eins og þetta væri bara umgengist bara eins og heimilisfólkið.“

Grafningur

Úlfljótsvatn fyrrum.

Guðmundur segir frá því þegar bóndinn frá Hagavík ásótti hann. Bóndi þessi hafði sagt að hann færi ekki sjálfráður frá jörðinni og ef hann færi, riði hann ekki klofvega. Þegar hann lést var hann jarðsettur á Úlfljótsvatni. Eitthvað hefur hann verið ósáttur við að þurfa að yfirgefa þennan heim því Guðmundur sá hann liggja hjá sér í rúminu og fékk ekki svefnfrið fyrir honum og kvartaði undan þessu á morgnana. Að lokum fór Kolbeinn, faðir hans, út að leiði karlsins, talaði yfir honum og rak nagla í kross, í hornin og miðjuna. Eftir það varð Guðmundur ekki var við hann.

Boli að láni
Nátengdar draugasögunum eru sögur af huldufólki. Guðmundur segir söguna af því þegar kýrnar á Bíldsfelli voru reknar norður með Sogi en boli á öðru ári var hafður með þeim. Um kvöldið fannst bolinn hvergi og getgátur voru uppi um að hann hann hefði farið í Sogið. Ári seinna, þegar kýrnar voru sóttar á sömu slóðir, var bolinn með þeim, en mun stærri en hann hefði átt að vera eftir þennan tíma. Fólkið þóttist vita að boli hefði verið hjá huldufólki sem hafi þurft á honum að halda.
Segja má að viðhorf fjölskyldunnar frá Úlfljótsvatni gagnvart draugum og huldufólki einkennist einna helst af virðingu fyrir því sem ekki er vitað hvað er. Það er látið liggja á milli hluta hvort einhver óútskýranlegur atburður sé draugur eða ekki, en yfirleitt er sagt að „einhver hafi orðið var við eitthvað“ sem má svo túlka á hvaða veg sem er.
Greinin er unnin upp úr lokaritgerð höfundar til BA-gráðu við Háskóla Íslands.”

Heimild:
-Fréttarbréf Ættfræðingsfélagsins; Hjátrú og kynlegir kvistir, Elva Brá Jensdóttir, 3. tbl. 01.09.2013, bls. 10-11.
Úlfljótsvatn.

Ölfus

Í Lingua Islandica – Íslensk tunga – Tímariti um íslenska og almenna málfræði árið 1963, skrifaði Baldur Jónsson grein um örnefnið “Ölfus”.

Islandica“ÖLFUS er sem kunnugt nafn á sveit í Árnessýslu, og mun það orð vera að öðru leyti óþekkt nema þá sem liður í samsettum nöfnum. Þetta einkennilega nafn, sem öldum saman hefir verið mönnum óskiljanlegt, verður aðalviðfangsefni þessarar ritgerðar.

En áður en farið verður að glíma við nafnið sjálft, er rétt að glöggva sig betur á því, hvað kallað er og kallað hefir verið Ölfus.

Þorvaldur Thoroddsen segir, að Ölfus takmarkist „að sunnan af sjó og Ölfusárósum, að vestan af Selvogsheiði, að norðan af fjallshlíðum Reykjanesfjallgarðs, að austan af Ölfusá, og nær nokkur hluti sveitarinnar upp með Ingólfsfjalli að austanverðu”.

Ölfus er m.ö.o. hið byggða undirlendi við Ölfusá að vestan (og norðan), og er fátítt, að með þessu nafni sé átt við annað en þetta nú á dögum. Þó kemur fyrir, að Ölfus er notað í merkingunni ‘Ölfushreppur’, en mestur hluti þess landsvæðis er fjöll og óbyggðir.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1936 er ritgerð eftir Steinþór Sigurðsson og Skúla Skúlason, er nefnist „Austur yfir fjall”. Þar segir á bls. 101: „Þeim, sem líta yfir Ölfusið, sem svo er kallað venjulega, þ. e. byggðina að svo miklu leyti, sem þeir sjá hana, finnst sveitin ekki stór. Þeir athuga fæstir, að þeir hafa verið í Ölfusinu nær helming leiðarinnar úr Reykjavík og til Kamba.” Síðan er lýst takmörkum Ölfussins, og er einnig þar átt við Ölfushrepp. En annars staðar í ritgerðinni er nafnið Ölfus notað um hið byggða undirlendi sérstaklega. Á bls. 100 er t. d. talað um „Grafningsfjöllin, sem lykja um Ölfusið að norðan”, og nokkru síðar er komizt svo að orði: „Nærlendinu, Ölfusinu sjálfu, verður ekki lýst hér, því að lýsing þess kemur í næsta kafla, og verður einnig miðuð við Kambabrún að mestu leyti. Því skal nú haldið áfram ferðinni niður í Ölfusið, um Kambana.”

Ölfus

Ölfus vestan Þingvallavatns (Ölfusvatns).

Þegar Hálfdan á Reykjum talar um kirkju að Úlfljótsvatni, bætir hann við innan sviga: „í þeim parti sveitarinnar, er Grafningur kallast” (bls. 59). Og síðar segir hann: „Í landnorður undan Ingólfsfelli og upp með Soginu eru mýrar, þar til byggðin í þeim kjálka sveitarinnar til tekur, er Grafningur kallast. En í vestur yfir Álftavatn og fyrir norðan Ingólfsfjall [svo hér] liggur vegur fram Grafningshálsinn og í Olvesið” (bls. 72). Eftir þessu að dæma er það hið byggða undirlendi við Ölfusá, sem Hálfdani er tamt að kalla Ölfus. Þó getur hann notað það nafn um allt landsvæðið, Ölfus og Grafning, en þá var einnig hægt að tala um Ölfushrepp til að taka af tvímæli.

Ölfus

Ölfus sunnan Þingvallavatns (Ölfusvatns).

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, II (Kaupmannahöfn 1918—1921), 376, er notað nafnið Aulves sveit um Grafning og Ölfus. Þegar lokið er jarðatali í Grafningi, er komizt svo að orði: »,Hjer endast Grafníngur, en byrjar sjálft Ölves” (bls. 389).

Af því, sem nú hefir verið rakið, mætti álykta, að Ölfus væri hið eldra nafn á Grafnings- og Ölfushreppum samanlögðum, en nafnið Grafningur síðar til komið til að auðkenna nyrðra hluta sveitarinnar.
Nú er vitað, að þessu hefir einmitt verið svo háttað. Ólafur Lárusson hefir sýnt fram á, að Grafningur varð ekki til sem byggðarnafn fyrr en um 1500 og getur ekki verið eldra en 1448. Það kemur fyrst fyrir í máldaga frá dögum Stefáns biskups Jónssonar (1491-1518). Ölfus hefir þá í fyrndinni náð yfir það svæði, sem nú deilist á tvær sveitir, Ölfus og Grafning. Allt það land, sem lá að Þingvallavatni (áður Ölfusvatni) að sunnan (og suðvestan), Soginu að vestan og framhaldi þess, Ölfusá, allt til sjávar, hefir verið í Ölfusi. Þetta verður auðvitað að hafa í huga, og það skiptir nokkru máli. En hinu má ekki gleyma, að Grafningur og Ölfus eru frá náttúrunnar hendi aðgreindar sveitir, og megin byggðarinnar er og hefir ávallt verið í Ölfusi. Nafnið Ölfus hlýtur því að hafa verið miklu oftar notað í sambandi við bæi og búendur í neðri byggðinni og þannig verið fastara tengt henni, þegar áður en efri byggðin fékk nafnið Grafningur. Og þetta hefir einmitt stuðlað að þeirri nafngift. Samkvæmt skýringu Olafs Lárussonar, sem er áreiðanlega rétt, hefir efri byggðin fengið nafn sitt af grafningi þeim eða skarði, sem nú heitir Grafningsháls, milli Bjarnarfells og Ingólfsfjalls, en um þennan grafning var alfaraleið á milli byggðarlaganna. Nafnið Grafningur gefur ranga hugmynd um landslag þeirrar sveitar, eins og Ólafur Lárusson tekur fram. Landslagsins vegna hefði því Grafnings-nafnið eins getað flust á neðri byggðina, en á því var engin hætta. Sú byggð hét Ölfus, skýrt afmörkuð á alla vegu, miklu mannfleiri og áhrifameiri en hin. Nafngiftin Grafningur er því runnin frá Ölfusingum. Þeir hafa talað um að fara „upp um Grafning” eða „upp í Grafning”, og síðan hefir nafnið flust á byggðina fyrir ofan, sem þeir fundu, að var í rauninni annað byggðarlag en sveitin þeirra sunnan fjalla, Ölfusið.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Áður en lengra er haldið, þykir rétt að fara einnig nokkrum orðum um nöfnin Ölfusá — Sog og Ölfusvatn — Þingvallavatn. Því hefir oft verið haldið fram, að vatnsfallið Sog -(Ölfusá hafi áður fyrr heitið einu nafni, því sem nú hefir fengið myndina Ölfusá. Sbr. lýsingu Kálunds: „Nord for Ölves, langs Sog og Thíngvoldsoens sydvestlige bred, ligger den såkaldte Gravning (Grafníngr), et afsides og lidet besögt bygdelag, hvis beboere báde i deres personlige optræden og huslige indretning viser sig kun lidet pávirkede af omverdenen. Fra Olves adskilles Gravningen ved Ingolvsfell og fjældstr0gene, der forbinder dette fjæld med
Hengilen og dertil h0rende fjældheder” (Uidrag, 1, 85). Fyrir því eru þó engar beinar heimildir; það hefir verið ráðið af mjög sterkum líkum, og hefir enginn mælt í móti, svo að ég viti. Enn fremur er líklegt, eins og Brynjúlfur frá Minna-Núpi og Einar Arnórsson taka fram, að Sog sé eigi að síður mjög gamalt örnefni, en hafi í öndverðu verið bundið við sjálfan ós Þingvallavatns (Ölfusvatns) eða efsta spotta árinnar að Úlfljótsvatni, sem nú er kallaður Efra-Sog.

Nafnið Sog hefi ég hvorki fundið í íslenskum fornritum né Íslenzku fornbréfasafni (ekki heldur Þingvallavatn). Um Ölfusá gegnir öðru máli. Það nafn kemur alloft fyrir í fornritum, en eftir notkun
þess að dæma verður ekki afdráttarlaust fullyrt, að það hafi tekið til alls vatnsfallsins, Sogs og Ölfusár. Eðlilegast er þó að skilja svo, þegar sagt er frá landnámi Ingólfs (í Sturlubók), að hann „nam land milli Olfus ár ok Hvalfiardar fyrer vtann Bryniudals aa milli ok Avxar ar ok aull Nes vt”.J ] Í sömu átt bendir það, þegar talað er um Ingólfsfell fyrir vestan Ölfusá — í Íslendingabók og Landnámabók.

Ölfus

Ölfus – sveitarfélagið.

Þingvallavatn hét Ölfusvatn að fornu. Þegar haft er í huga, að Ölfus náði þá allt að vatninu, er eðlilegast að hugsa sér, að það dragi nafn af sveitinni og áin, sem setti henni takmörk að austan, hafi þá einnig verið nefnd einu nafni Ölfusá allt frá Ölfusvatni til sjávar.

Ljóst er, að efri hluti vatnsfallsins kemur lítt við sögur, og hefir verið miklu minni þörf fyrir nafn á ánni ofan Hvítár en neðan. Af því leiðir, að nafnið Ölfusá hefir smám saman einskorðazt við neðra hluta árinnar eins og Ölfus við neðra hluta sveitarinnar. Sogið fær þá sitt sérstaka nafn sennilega um líkt leyti og Grafningur. Er þá rofið samhengið milli Ölfuss og Ölfusár annars vegar og hins vegar Ölfusvatns, sem fær enda nafnið Þingvallavaln. Auðvitað getur eins vel verið, að vatnið hafi skipt um nafn fyrst, en Grafningur og Sog komið á eftir. Röðin skiptir í rauninni ekki máli fyrir skýringu Ölfitss-nafnsins.

Örnefnin Grafningur, Sog (sem árheiti) og Þingvallavatn eru varla mjög misaldra, en Grafningur er hið eina þeirra, sem unnt er að tímasetja nokkuð nákvæmlega, þ. e. frá h. u. b. 1500. Elzta dæmi, sem ég hefi rekist á, um Þingvallafrjvatn er úr Diskupa-annálurn, Jóns Egilssonar, sem skráðir eru 1605: „þá riðu þeir úr Grafnínginum upp eptir Þíngvallavatne til saungs og tíða.”]; Á Íslandsuppdrætti Þórðar biskups Þorlákssonar 1668 eru nöfnin Þingvallavatn (Thingualla watn), Grajningur (Grafnvigur), Ölfusá (Ölvesa) og Ölfus (Ölves). Á uppdrætti hans 1670 eru sömu nöfn, nema Ölfus vantar, en þar er að auki nafnið Sog milli Úlfljótsvatns og Álftavatns, svo að ljóst er, að það er árheiti. Er þetta elzta heimild, sem ég hefi um það.

Ölfus

Í Ölfusi.

Með nánari rannsókn mætti eflaust komast nær aldri nafnanna Sog og Þingvallavatn, en eins og málið horfir við nú, virðast þau vera frá 15. eða 16. öld.

Líklegt er, að menn hafi snemma tekið að skapa sér hugmyndir um uppruna og frummerkingu nafnsins Ölfus. Elsta áþreifanlegt dæmi þess, sem ég þekki, er frá byrjun 16. aldar. Í bréfi frá 1509, sem til er í frumriti, kemur fyrir rithátturinn auluersaa.

Ljóst er, að orðið er sett í samband við mannsnafnið Ölver, og verður slíkt allalgengt í bréfum og skjölum eftir þetta.

Vafalaust er það þó enn eldra að skilja Ölfus sem eignarfall af mannsnafninu Ölvir (þ. e. Ölvis). Um 1400 er fyrst farið að rita -is og síðar -es í stað eldra -us, -os í nafninu Ölfus, og hygg ég, að sú breyting sé eingöngu hljóðfræðilegs eðlis, eins og síðar verður gerð grein fyrir. En þar með hefir líka Ölfus fengið sama eða nokkurn veginn sama framburð og ef. af Ölvir, og getur varla hj á því farið, að menn hafi þegar á 15. öld tekið að skýra fyrir sér Ölfuss-naínið í samræmi við það. I Landnámuhandritinu AM 107 fol. (Sturlubók), skrifuðu af Jóni Erlendssyni í Villingaholti, kemur t. d. fyrir rithátturinn Aulvisaar og á sömu blaðsíðu í útgáfunni Aulvir, -er (mannsnafnið), Aulvis dottur, Aulvisstadir. Handritið er að vísu frá 17. öld, en það er eftirrit skinnhandrits, sem líklegast hefir verið frá l5. öld.

Ölfusvegir

Ölfusvegir.

Reynt hefir verið að færa rök fyrir því, að nafnið Ölfus standi upprunalega í sambandi við mannsnafnið Ölvir. Þar sem rætt er um niðja Ölvis barnakarls í ritgerð Guðbrands Vigfússonar, „Um tímatal í Íslendingasögum í fornöld”, kemst höfundur svo að orði: „Ölfusið mun bera nafn sitt af þessari ætt; getr vel verið, að svo hafi heitið hérað á Ögðum, þaðan sem þeir voru.” Hér er bætt við í neðanmálsgrein: „Nafnið er óvanalega myndað (Ölves, líkt og Valdres), mun varla vera á Íslandi annað örnefni, sem er eins myndað. Eyríkr ölfus (ölfús?) hét maðr í Súrnadal (Sírudal) á Ogðum, nálægt Hvini.”

Í orðabók Guðbrands er engin skýring gefin á orðinu, en þar er það skrifað „Ölluss, n.” og talið vera bæði viðurnefni og „the name of a county in Icel., id. (mod. Olves), whence Olfusingar, m. pl. the men jrom O.”

Hér skal ekki farið mörgum orðum um hugmyndir Guðbrands Vigfússonar. Eftirtektarvert er, að í þessum stuttu tilvitnunum hefir hann skrifað orðið á fjóra mismunandi vegu, Ölfus(ið), Ölves, Ölfuss, Ölves (sbr. einnig Ölfusingar). Það sýnir, hve framandi það er honum. Samlíkingin Ölves: Valdres er gagnslaus, því að orðmyndin Ölves er tiltölulega ung, endingin -es yngri en 1400, eins og áður var getið. Auk þess hefir enginn vitað, hvernig nafnið Valdres er myndað. Þegar Magnus Olsen gerði tilraun til að skýra það 1912, vissi hann ekki til þess, að neitt hefði áður birzt um það efni á prenti.

Ölfus

Ölfusölkelda.

Eftir daga Guðbrands Vigfússonar hefir sú kenning skotið upp kollinum oftar en einu sinni, að Ölfus standi í sambandi við mannsnafnið Ölvir (eða Ölver), en enginn fræðimaður mun nú trúaður á það.

Í Lýsingu Ölveshrepps 1703, er áður var getið, segir Hálfdan á Reykjum í upphafi máls síns, að „Aulfvus eður Ölveshreppur” dragi nafn sitt af Álfi, „fyrsta landnámsmanni þess héraðs”.

Nokkru síðar segir höfundur (bls. 62): „Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum.” Þessu fylgir engin nánari útskýring, en örnefnið Alfsós hefir minnt Hálfdan á Ölfus, og er hugmyndin af því sprottin, án þess að hann hafi gert sér nánari grein fyrir myndun orðsins.

Ölfusvatn

Ölfusvatn – blótsteinn.

Nærri tveimur öldum síðar reyndi Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi að sýna fram á, að Ölfus væri Álf(s)ós. Brynjúlfur mun þó óháður Hálfdani á Reykjum og hefir ekki þekkt ritgerð hans, sem þá hafði ekki verið gefin út, enda segist hann ekki vita til þess, að neinn hafi reynt „að skýra nafnið Olfus, nema hvað Dr. Guðbrandur Vigfússon víkur að því nokkrum orðum í riti sínu: Um tímatal í Íslendingasögum”.

– Skal nú vikið nánara að skýringu Brynjúlfs frá Minna-Núpi. Hún er, ásamt athugasemdum Bjarnar M. Ólsens, rækilegasta tilraun, sem enn hefir verið gerð, til að skýra nafnið Ölfus.

Sagt er frá því í Landnámabók, að Álfur hinn egðski, sem stökk fyrir Haraldi konungi til Íslands af Ögðum, hafi komið skipi sínu í ós þann, er við hann sé kenndur og heiti Álfsós. Hyggur Brynjúlfur, að þar sé átt við Ölfusárós og nafnið Ölfus sé einmitt Álf(s)ós. Hann telur, að Álfsós sé hið upphaflega nafn á vatnsfalli því, sem nú heitir Sog og Ölfusá, og hið forna nafn á Þingvallavatni, Ölfusvatn, sé af því dregið, Álfsóssvatn. Sem sveitarnafn hyggur hann Ölfus þannig til orðið, að sveitin hafi verið kennd „við ósinn, sem rann með henni endilangri” og nefnd Álfsóss-sveit, -hérað, -hreppr eða þvílíku nafni, sem síðar hafi verið stytt, af því að „hver maður vissi hvað um var talað. Menn nenntu þá ekki heldur að hafa orðið lengra en þurfa þótti, nefndu svo sveitina blátt áfram „Ölfus”, og varð það að vana. En um leið fundu menn til þess, að viðfeldnast var, að hafa það nafn hvorugkyns, og gerðu menn það ósjálfrátt”.

Ölfus

Ölkelda á Ölkelduhálsi.

Nafnið Álfsós hefir m. ö. o. aðeins breyst sem liður í samsettu orði, annars ekki. Þess vegna verður að gera ráð fyrir því, að sveitarnafnið hafi upphaflega verið lengra en það er nú. Þetta virðist nokkuð langsótt.

En Brynjúlfur varð að gera ráð fyrir þessu til að skýra það, að nafnið Alfsós er varðveitt í Landnámabók ásamt nöfnunum Ölfusá og Ölfusvaln, en Ölfus kemur ekki fyrir þar nema í þessum samsetningum. Brynjúlfur reynir að gera sér grein fyrir því, hvernig Álfsóss gat breyst í Ölfus og rekur það mál. Hann segir þó, að hann vilji ekki fullyrða, að breytingasaga orðsins hafi verið þannig, og telur sig skorta þekkingu á fornmálinu til að geta fullyrt nokkuð um það. En hann telur „víst, að þeir, sem betur kunna, geti sannað það málfræðislega, að orðið Ölfus sje ummyndað úr orðinu Álfós ( = Álfsós)”.

Björn M. Olsen hljóp nú undir bagga með Brynjúlfi og belrumbætti „breytingasögu orðsins”. Hann er sammála Brynjúlfi „um það, að Ölfusið dragi nafn sitt af Álfsósi þeim, sem Landn. nefnir” og enn fremur „að elsta nafn sveitarinnar hafi verið Alj(s)ósssveit (eða Alj(s)óssherað, Alf(s)ósshreppr)”. Til samanburðar nefnir hann, að Heklufell > Hekla, Auðkúluslaðir > Auðkúla o. fl. Skýring Brynjúlfs fær bezt staðizt í þeim efnum, sem hann taldi sig sérstaklega skorta þekkingu á. Hlj óðsögulega séð er ekkert því til fyrirstöðu, að Olfus sé < *Alfös. En sú orðmynd kemur ekki fyrir. Í Landnámabók er höfð eignarfallssamsetning, Álfs ós, en þá mynd vildi Brynjúlfur helzt skýra svo, að seinni afritarar hafi bætt 5-inu inn í. Hér er, að minni hyggju, farið aftan að hlutunum. Eignarfallssamsetningin er einmitt það, sem við mátti búast, og sú staðreynd, að Álfsós kemur fyrir í Landnámabók (ásamt nöfnunum Olfusá og Olfusvatn), bendir eindregið til þess, að það nafn hafi ekkert breytzt, hvorki í Álfós né Ölfus.

Ölfus

Ölfusketill.

Það er alþekkt fyrirbrigði, að landslags- eða náttúrunafn verður byggðarnafn (sbr. Grafnings-nafn), og eru fjölmörg dæmi þess á Íslandi um nöfn á vogum, víkum, fjörðum, ósum o. s. frv., t. d. Selvogur, Kópavogur, Grindavík, Aðalvík, Hornafjörður, Borgarfjörður, Blönduós, Hofsós, svo að fáein séu nefnd af handahófi. Það hefði því ekki verið óeðlilegt, ef nafnið á Ölfusárósi hefði færzt yfir á byggðina við ósinn.

Til dæmis um slíka þróun á Norðurlöndum utan Íslands má nefna Aarhusur ekki notfært sér með því að gera ráð fyrir því, að ósinn hafi heitið Alfsós, því að nafnið er að finna í Landnámabók og gat að hans hyggju ekki breylzt í Olfus nema sem liður í samsettu orði. Gefur hann þó enga skýringu á, hverju það sætir. Þess vegna verður hann að grípa til þess úrræðis, að sveitin hafi heitið Alf(s)ósssveit eða þ. u. l. En óhætt er að fullyrða, að fyrir því eru litlar eða engar líkur, að Olfus sé orðið til sem brot úr slíkri samsetningu. Engum mun detta í hug að halda því fram, að áðurtalin byggðarnöfn séu orðin til með þvílíkum hætti, t. d. Selvogur eða Borgarfjörður. Ölfus hefir greinilega verið til sem sjálfstætt orð, þegar samsettu nöfnin, Ölfusá og Ölfusvaln, voru mynduð.

Fleiri athugasemdir mætti gera við skýringu Brynjúlfs, t. d. um kynferði orðsins. En það, sem nú hefir verið sagt, ætti að nægja til að sýna, að hún er vægast sagt mjög hæpin. Þessari skýringu hefir þó verið haldið fram síðar.

Skal nú horfið að framlagi Finns Jónssonar til þessa máls. Hann telur, að sú skýring sé „efalaust með öllu röng”, að Ölfus sé „afbakað” úr Alfsós. Hann sýnir helztu rithætti orðsins „í fornbókum og skj ölum” og segir síðan: „Elsta myndin er Ölfoss-, þ. e. Öl-foss, um það getur enginn vafi verið.” Telur hann, að nafnið sé „líklega dregið af fossi eða fossum í ánni og er nóg af þeim (í „Sogi”, er nú heitir svo, en áður hefur víst heitið „Ölfossá”), en „öl” hygg jeg sje s. s. al-, stofninn í allur”. Finnur hugði, að Ölfossvatn væri stytt úr Ölfossárvatn. „Svo færðist nafnið yfir á hjeraðið og varð úr því Ölfoss — Ölfos (með einu s) og svo Ölfus, og varð hvorugkyns, af því að upphaf orðsins var fallið í gleymsku. Þessi skýríng á þessu orði er eins hæg eða hægari en hin skýringin úr Álfsós.”

Ölfus

Ölfustaumar.

Páll Eggert Ólafson hugsar sér, að af nöfnunum Ölfus, Ölfusá, Ölfusvatn sé Ölfusá elzt, en Ölfus hafi molnað út úr samsetningu og orðið að byggðarnafni. Eg hefi áður minnzt á, hve sennilegt það er. Þá mun það vera hrein ágizkun, að Ölfusvatn sé Ölfossárvaln, og er ekki fjarska líklegt, að sú breyting hafi átt sér stað fyrir daga Ara fróða. Frá merkingarlegu sjónarmiði er varla hægt að hugsa sér meiri öfugmæli en kenna Ölfusá við fossa. Hún er sérstaklega lygn, eins og kunnugt er. Að vísu bendir allt til þess, að Sogið hafi einnig heitið Ölfusá í öndverðu, en eins og áður var sýnt, var árheitið að langmestu leyti bundið við vatnsfallið neðan Hvítár, og virðist því fráleitt, að það eigi rætur að rekja til fossa uppi í Sogi. — Gerum samt ráð fyrir því, að sú tilgáta sé rétt, að Ölfusá sé kennd við marga fossa. Hvernig er þá nafnið myndað? Finnur gerir enga grein fyrir því. Líklegast hefir hann hugsað sér, að áin hafi í fyrstu verið nefnd alfossa. Verður þá að gera ráð fyrir lýsingarorði, sem ella er ókunnugt, og fleiri afbrigðum.

Matthías Þórðarson hefir einnig lagt orð í belg um uppruna nafnsins Ölfus,en það er mjög í sama anda og fyrrnefndar skýringar. Nafnið Ölfusá er að hans hyggju elzt í fjölskyldunni, allt frá dögum Ingólfs Arnarsonar, er hann dvaldist undir Ingólfsfelli, en Ölfus telur hann hafa losnað úr samsetningu, t. d. Ölfoss(ár)hérað eða Ölfosssveit. Skýringu Finns Jónssonar hafnar hann ekki algerlega, en virðist telja líklegra, að Ölfusá sé aðeins kennd við einn foss, er hafi heitið Ölfoss. Hann játar, að óvíst sé, við hvaða foss sé átt, en telur, að komið geti til mála, að strengur sá í Ölfusá, sem nú heitir Selfoss, hafi áður heitið Ölfoss, enda hafi nafnið Ölfusá (Ölfossá) ætíð haldizt á þessum hluta árinnar, en farið af hinum efra (Soginu). Hann telur m. a. s. nöfnin Ölfoss og Selfoss „allmikið lík” og dettur í hug, að „hið síðara sé sprottið af misskilningi og afbökun á hinu fyrra. Nýgert öl er skolljóst að lit (sbr. nafnið hvítöl) og hefur jökulliturinn á vatninu í fossinum ráðið nafngjöfinni í fyrstu, er ölgerð var stunduð, en selurinn síðar, er menn tóku að verða hans mjög varir við fossinn, þegar hann var að elta þar laxinn”. Loks viðurkennir Matthías, að Ölfusvatn (Olfossvatn) sé helzti langt frá þessum fossi til að hljóta nafn sitt af honum, en það muni þá hafa verið kennt við ána og nefnt Ólfossárvatn í upphafi. — Skýringin hefir sem sé ýmsa sams konar annmarka og hinar fyrri, og verður að grípa til harðla ósennilegra ágizkana til að koma henni í höfn.

Ein skýringin — ef skýringu má kalla — er sú, að Ölfus merki ‘fjallver’, þ. e. víst ‘fjallaskjól’. Fyrri liður orðsins er þá talinn alp-, að því er virðist, og hugsað til Alpafjalla í því sambandi. Síðari liðurinn á að vera -ver, sbr. bæjarnafnið Hringver. — Skýringin er öll í miðaldastíl og hrein lokleysa.

Auk beinna skýringartilrauna hafa verið settar fram hugmyndir og tilgátur, sem vert er að gefa gaum.

Í orðabók Larssons er eitt dæmi um nafnið Ölfus. Það er úr AM 645 4to, stendur í þgf. og er skrifað avlfose.” Í orðabókinni er gert ráð fyrir nefnifallsmyndinni aolfóss, og í skránni aftan við orðasafnið sést, að Larsson hefir talið orðið vera samsett aolf-óss og flokkar það (ásamt óss) undir karlkennda a-stofna (bls. 423). Þetta er auðvitað tilgáta Larssons. Hann gat ekki haft neina heimild fyrir því, að orðið hafi verið karlkyns eða haft -ss í nf., og um lengd síðara sérhljóðsins (o) hefir hann einnig orðið að geta sér til. Orðmyndin “aolfóss” er því búin til í lok 19. aldar, en kemur ekki fyrir í elztu handritum. Enginn þeirra, sem reynt hafa að skýra nafnið, síðan bók Larssons kom út (1891), virðist hafa veitt hugmynd hans athygli.

Hér á eftir verður nú gerð ein tilraun enn til að varpa ljósi á uppruna nafnsins Ölfus.

Með því að athuga samsett örnefni má fá vitneskju um afstæðan aldur þeirra. Þetta ber að hafa í huga við skýringu orðsins Ölfus. Af merkingarlegum ástæðum er einnig nauðsynlegt að hafa hliðsjón af samsettu nöfnunum Ölfusá og Ölfusvatn. Af þeim eru svo mynduð önnur samsett nöfn, t. d. Ölfusárós, Ölfusvatnsfjöll, Ölfusvatnsá. Rétt er og að hafa í huga orðið Ölfusingur, sem er greinilega leitt af nafninu Ölfus.

Ölfus

Ölfus – áletranir á steini…

Það getur varla verið neitt vafamál, að Oljus er elzt þessara nafna; prentuð í Lögrjettu, 23. okt. 1918, síðan endurprentuð í frumútgáfu Nýals, 2. hefti, 1920.

Hér má nefna eitt dæmi til viðbótar. Í Hervarar sögu er sagt, að Starkaðr Aludrengr bjó við Álufossa. Þetta nafn vildi Birger Nerman lesa Alufossa og taldi það sama orð og Qljossa = Qljusá (Birger Nerman, „Alvastra”, Namn och bygd,l (1913—14), 98).
Sbr. Hans Kuhn, „Upphaf íslenzkra örnefna og bæjanafna”, Samtíð og saga, safnrit háskólafyrirlestra, V (Reykjavík 1951), 183—197; sami, „Vestfirzk örnefni”, Árbók Hins íslenzka fornleifajélags, 1949—50, 5—40, a. m. k. er eðlilegast að gera ráð fyrir því. Bendir allt til þess, að það sé mjög gamalt örnefni. Samsetningarnar Ölfusvatn og Ölfusá koma báðar fyrir í elztu ritum (Íslendingabók og Landnámabók) og verður ekki betur séð en Ölfus sé þá orðið óskiljanlegt orð.
Ef það hefir verið gegnsætt og auðskilið öllum í fyrstu, verður að ætla því nokkra áratugi a. m. k. til að breytast svo, að það verði öllum mönnum framandi. — Olíklegt er, að það hafi verið óþekktrar merkingar, er það varð örnefni á Íslandi. En ef svo hefir verið, kemur varla annað til greina en það sé fornt örnefni, sem flutzt hafi með landnemum. — Loks er hugsanlegt, að nafnið hafi í upphafi skilizt af sumum, en ekki öllum, en slíkar aðstæður voru tæpast fyrir hendi nema á landnámsöld. — Eg mun því hafa fyrir satt, að Ölfus sé eitt af elztu örnefnum á Íslandi, nokkurn veginn jafnaldri byggðarinnar í landinu.

Næstelzta handrit, sem varðveitir nafnið Ölfus, svo að mér sé kunnugt, er ÁM 310 4to, eitt af aðalhandritum Ólafs sögu Tryggvasonar eftir Odd munk Snorrason. Það er talið ritað af Norðmanni á síðara hluta 13. aldar eftir íslenzku forriti. Í þessu handriti er ritað hia Olvus vatni (bls. 128 í útg. Finns) og er í Olfosi (bls. 162). Eru þá talin dæmi, er ég þekki úr handritum, sem víst má telja eldri en 1300.

Orðið Ölfus kemur fyrir í Íslendingabók og Landnámabók, sem auðvitað eru eldri en AM 645 4to. En öll handrit þeirra eru yngri en 1300, og er því ekkert á þau að treysta í þessum efnum. Handrit Íslendingabókar {AM 113a og 113b fol.) eru m. a. s. frá miðri 17. öld, eins og kunnugt er, en um þau gegnir nokkuð sérstöku máli. Talið er, að þau séu eftirrit mjög gamals skinnhandrits, jafnvel frá því um eða fyrir 1200.

Ölfus

Í ofanverðu Ölfusi…

Finnur Jónsson sagði í skýringu sinni á orðinu Ölfus, að elzta mynd þess væri „Ölfoss-, þ. e. Öl-foss, um það getur enginn vafi verið í handritum frá 14. öld fram til 17. aldar virðist mér oftast skrifað au, en o er einnig algengt, ýmist ómerkt eða með merkjum, þverstriki eða lykkju yfir eða undir, o. fl. Eftir að sú hefð hefir einu sinni komizt á að skrifa au eða o í þessu orði, er henni gjarnan haldið áfram.

Í Þorsteins sögu Víkingssonar (1. kap. I er þessi frásögn: Grímr var inn mesti berserkr. Hann átti Alvöru, systur Álfs hins gamla. Hann réð fyrir því ríki, er liggr í milli á tveggja. Þær tóku nafn af honum, ok var kölluð elfr hvártveggi. Var sú kölluð Gautelfr, er fyrir sunnan var við land Gauta konungs ok skildi við Gautland. En sú var kölluð Raumelfr, er fyrir norðan var ok kennd var við Raum konung. Ríki þat var kallat Raumaríki. Þat váru kallaðir Álfheimar, er Álfr konungr réð fyrir, en þat fólk er allt álfakyns, er af honum er komit.

Í 10. kap. Sögubrots af fornkonungum er einnig sagt, að af Álfi gamla „tóku nöfn þær tvær meginár, er elfr heitir hvártveggi síðan”. Og áþekkar eða hliðstæðar frásagnir eru víða til í fornaldarsögum.

Það er ekki laust við, að þessar sagnir í öllum sínum ófullkomleik renni nokkurri stoð undir skýringuna á Álfheimar og Álfarheimr og þá um leið orðmyndina alfös. Þær sýna, að snemma á öldum var í hugum manna náið samband milli orðanna Alfr og elfr. Hér virðist vera um gamla og rótgróna hefð að ræða, svo oft er á þetta minnzt í fornaldarsögum. — Og það má mikið vera, ef hér er ekki komin skýringin á nafninu Álfsós í Landnámabók. Gæti það ekki verið til orðið sem eldgömul tilraun til að skýra fyrir sér orðmyndina alfðs n.? Álfsós er hvergi nefndur í fornritum nema í Landnámabók.

Ölfus

Í Ölfusborgum.

Hálfdan á Reykjum eykur við frásögn hennar, er hann segir, að Álfr hinn egðski hafi komið „skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun”. Hálfdan hefir þekkt einhverjar sagnir um það, að þarna væri Álfsós Landnámu, ef hér er þá ekki um eigin ályktun að ræða, en það virðist mér allt eins sennilegt. Í Jarðabók Arna Magnússonar og Páls Vídalíns er óssins tvívegis getið. Í fyrra skiptið er talað um silungsveiðivon í Álfsós, er sumir nefni Alflarós, og því nafni einu er svo ósinn nefndur skömmu síðar (bls. 420). Gæti verið, að Álftarós hafi verið algengara nafnið, en Hálfdan á Reykjum viljað halda hinu fram. Þessi hluti Jarðabókar er skrifaður á Reykjum í Ölfusi 9. ág. 1708, ári eftir lát Hálfdanar. Nú munu þessi örnefni týnd.

Þessar hugleiðingar fæða af sér nýjar spurningar. Hvað líður nú Álfi landnámsmanni, er Landnáma telur Alfsós við kenndan? Sannleikurinn er sá, að sögnin um hann er mjög tortryggileg og ekkert líklegra en hún sé sprottin af örnefninu. Eru slíkar örnefnasögur kunnari á íslandi en frá þurfi að segja — og reyndar víðar. — Álfr er sagður barnlaus, föðurnafn er óþekkt og framætt öll, en viðurnefnið bendir til Agða, og þaðan er hann sagður hafa stokkið fyrir Haraldi konungi hárfagra. Hann er tengdur þannig við Ölfusinga, að Þorgrímr Grímólfsson, föðurfaðir Þórodds goða, er sagður vera bróðursonur Álfs og á að hafa komið út með honum til Íslands og tekið arf eftir hann. Ef sagan af Álfi er tilbúningur, hefir hann fengið viðurnefni, af því að föðurnafni var ekki til að dreifa, og nefndur hinn egðski, af því að Þorgrímr hefir verið talinn frá Ogðum. Á öðrum stað í Landnámu er maður nefndur Grímólfr af Ögðum, en hann er talinn vera sami maður og Grímólfr, faðir Þorgríms, eða m.ö.o. bróðirÁlfs.”

Ef Álfr hinn egðski er nú dæmdur úr leik og gert er ráð fyrir því, að nafnið Olfus sé ættað frá Suðaustur-Noregi eða Vestur-Svíþjóð, má þá ekki vænta þess, að Landnámabók greini frá innfiytjendum þaðan? Þess eru víst dæmi, en ekki í Árnessþingi. Mér hefir ekki tekizt að finna neitt í Landnámabók, er sérstaklega styðji skýringu mína á uppruna Ó//«sí-nafnsins. Ekki má þó Ieggja mikið upp úr því; svo tæmandi og traust heimild er Landnámabók ekki. „Landnámabækur veita litla fræðslu um uppruna landnámsmanna í Árnessþingi né heldur, hvar þeir dvöldust eða áttu heimkynni síðast, áður en þeir fóru til Íslands,” segir Einar Arnórsson.

Einhverjum kann að þykja það langsótt, að Ölfusá hafi haft frummerkinguna ‘áróssá’. Það er þó ekki fráleitara en nafnið Aaroselven í Noregi (Rygh, Norske Gaardnavne, V (1909), 346). Annars geri ég ekki ráð fyrir, að Ölfusá hafi nokkurn tímann merkt ‘áróssá’. Ég hugsa mér, að Ölfus hafi verið orðið óskiljanlegt nafn, þegar heitið Ölfusá varð til.”

Annars verður að telja svolítið sérstakt í framangreindu samhengi að fornt örnefni skuli vitna um tiltekna heild fyrrum, sem nú virðist orðin samhverf…

Heimild:
-Lingua Islandica – Íslensk tunga – Baldur Jónsson, Tímarit um íslenska og almenna málfræði, 4. árg., Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Félags íslenskra fræða, Reykjavík 1963, bls. 7-53.

Ölfus

Ferlirsfélagar við leitir að fronleifum í Ölfusi.

Herdísarvík

Laugardaginn 15. júní 2013, kl 14:00, var afhjúpað minningarskilti um búsetu þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi. Nemendafélagið Grimmhildur, félag HÍ-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hafði með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið.

Einar Ben-229

Sama dag, skömmu síðar, var og afhjúpað örnefna- og minjaskilti sem gönguhópurinn FERLIR hafði veg og vanda að – án þóknunar. Skiltastandurinn var hannaður hjá Martak í Grindavík að beiðni hópsins og myndflöturinn álprentaður hjá Stapaprenti í Keflavík. Á skiltinu er að finna margvíslegan fróðleik sem FERLIR hefur aflað á löngum tíma um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni, bæði með aðstoð örnefnalýsinga og staðbundnum leiðarlýsingum hinna elstu manna, s.s. Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Þórðar Sveinssonar úr Selvogi, er enn muna þá tíð er búskapur var í Herdísarvík. Auk þess veitti Ingólfur Árnason, barnabarn Hlínar góðar upplýsingar um svæðið.

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Við það opnast nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti.

Á minningarskiltinu má m.a. lesa eftirfarandi: “Hér stendur síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sómakonunnar Hlínar Johnson. Bæði voru þau sannir heimsborgarar sem fluttu til Herdísarvíkur, í lítið hús við sjóinn í afskektri sveit, þar sem útsærinn er á aðra hönd og klettahamrarnir á hina. Einar ánafnaði Háskóla Íslands jörðina með gjafarbréfi árið 1935.
Einar Benediktsson var fæddur 31. október 1864 að Elliðavatni, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns, og Katrínar Einarsdóttur frá Reynistöðum í Skagafirði. Einar nam við Lærða skólann og las síðan lög við Hafnarháskóla. Hann kvæntist Valgerði Zoëga (1881-1955) og varð þeim sex barna auðið. Þau skildu.
Einn þekktastur varð Einar Benediktsson fyrir skáldskap sinn en hann var einnig kunnur sem stórhuga frumkvöðull og lífskúnstner. Hann starfaði sem Hlin johnsson-229lögfræðingur og sýslumaður og var bæði fyrsti dagblaðsútgefandi og fasteignasali á Íslandi. Einar þótti örlátur og gjafmildur gleðinnar maður. Einar Benediktsson hefur verið kallaður “…einhver jötunefldasti andi sem fæðst hefur á Íslandi ” [Guðjón Friðriksson, 2000]. Síðustu átta árin dvaldi hann í Herdísarvík ásamt Hlín. Hér lést hann 12. janúar árið 1940.
Hlín Johnson (f. 16.11.1876, d. 15.10.1965) fæddist að Sandhaugum í Bárðardal. Hún giftist Ingólfi Jónssyni frá Jarlsstöðum í sömu sveit og varð þeim átta barna auðið. Þau skildu. Hlín þótti listagóð saumakona, sem saumaði bæði kven- og  karlmannsföt. Þau Einar og Hlín kynntust árið 1927 og fluttu til Herdísarvíkur í júlí 1932 og tók Hlín við bústjórninni. Hér í Herdísarvík var búskapur með kýr, sauðfé, hænsni og endur. Fiskur var veiddur úr tjörninni og seldur til erlendra sjómanna, ásamt lagnaðarís úr tjörninni sem geymdur var í sérstöku íshúsi [nú horfið] hér á staðnum. Lambakjöt og bleikja var reykt í reykofni og var frægt að gæðum, ekki síður en göróttur landinn sem Hlín bruggaði.
Halldór Laxness lýsti Hlín með þessum orðum: “…lík fornkonu, þolir ekki annað lögmál en sjálfrar sín, og þess vegna fer strandleingjan og fjallið og einveran og úthafið henni best” [Björn Th. Björnsson]. Hlín bjó í Herdísarvík allt fram um 1960.
Höfundarverk Einars er æði mikið. Eftir hann liggja meðal annarra verka: Sögur og kvæði, Hafblik, Hrannir, Vogar og Hvammar, ásamt þýðingum, ritgerðum og fleiru. Margir íslenskir málshættir eiga rætur sínar í ljóðum Einars”.
Athöfnin var öllum opin. Erindi fluttu m.a. Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Komst þeim báðum vel að orði, bæði til minningar um Einar og Hlín sem og tengsl þeirra við Herdísarvíkina á síðustu æviárum skáldsins. Lét Illugi þau orð falla í kjölfar tölu sinnar “að hann væri enn ekki búinn að venjast því að tala sem ráðherra”, en að teknu tilliti til tölunnar lærist honum það vonandi aldrei – því talan var bæði einstaklega einlæg og efnisrík.

Hlin - herdisarvik

Jafnframt var á þessum degi afhjúpað örnefnaskilti í Herdísarvík.
Jóhann Davíðsson hélt “velkomst” við sögu- og minjaskiltið og bauð síðan Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu að afhjúpa það. Að orðum hennar loknum var eins og við manninn mælt; tók þá svo til samstundis sólin að skína með tilheyrandi yl og hlýju.
Jóhann þakkaði sérstaklega Ómari Smára Ármannssyni fyrir hans framlag við gerð uppdráttarins. Sjá upptökuna HÉR.

Herdísarvík

Jóhann við athöfnina.

Í lok formlegrar afhjúpunar leiddi FERLIR stutta göngu um svæðið. Að henni lokinni var boðið upp á kaffihressing í húsi skáldsins og Hlínar.

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson við athöfnina.

Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn vfljað vera þar lengur.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs við Herdísarvík.

Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, sem fyrr er getið, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.”

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – skilti nemendafélags Grimmhildar.

Strandarkirkja

Í bók Lofts Guðmundssonar “Á förnum vegi – rætt við samferðamenn” frá árinu 1966 er m.a. fjallað um Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara og styttuna “Landsýn”, sem nú stendur framan við Strandarkirkju í Selvogi:

Gunnfríður Jónsdóttir

Gunnfríður Jónsdóttir.

“Þrjár kirkjur eru kunnustar á hér á landi; tvær á biskupsstólunum fornu, sú þriðja í hálfeyddri byggð á suðurströndinni, við lága vík fyrir opnu hafi. Sú vík á sér fegurst nafn staða hérlendis, sú kirkja dýrlegasta frægð hérlendra guðshúsa – Strandarkirkja við Engilsvík í Selvogi.
Á hól við kirkjuna stendur höggmynd af konu með kross í hendi og horfir yfir víkina. Yfirlætislaust en þróttmikið og hugnæmt listaverk, sem á heima á þessum stað. Fjarri sé mér að reyna að geta þess til hvaða hugsun höfundurinn, Gunnfríður Jónsdóttir, leggi í þetta verk sitt. En þegar ég hef staðið þarna á hólnum og virt fyrir mér konuna með krossinn, finnst mér ósjálfrátt að hún bjóði öllum byrginn í hljóðri ró – briminu, veðrunum, auðninni og einmanaleikanum. En fyrst og fremst hef ég furðað mig á því, að það skuli ekki koma manni neitt á óvart að sjá grásteinskonuna með krossinn standa þarna, heldur sætta sig ósjálfrátt við þá tilfinningu, að hún hafi staðið þarna marga áratugi, kannski öldum saman. Nafnið, sem listakonan hefur valið myndinni, “Landsýn”, styrkir þá tilfinningu. Hún er sammrunnin umhverfinu og sögu þess. Og mér kemur því ekki á óvart svar Gunnfríðar, þegar ég spyr hana um tildrögin að því að hún gerði myndina og að myndin stendur þarna.

Landsýn

Landsýn

-Ég sá fyrst kirkjuna við hafið ofan af Selvogsheiði, og einmanaleiki hennar hafði á mig djúplæg áhrif. Næstu þrjár vikurnar ásótti mig stöðugt þessi sýn – einmanaleiki kirkujunnar við hafið. En hugmyndin að myndinni vaknaði ekki með mér fyrr en nokkru seinna – það var þessi þrúgandi einmanaleiki, sem mér hafði birst ofan af heiðinni, sem lá á mér eins og mara. Svo var það í nóvembermánuði, 1940. Systir mín hafði kroppið upp að Álafossi og ég var alein heima. Þegar hún kom aftur, sagði ég henni að ég hefði verið að vinna að lítilli frummynd á meðan hún var í burtu, sem stæði að einhverju leyti í tengslum við Strandarkirkju. “Jæja, ekkert er það!”, varð systur minni að orði, og svo var ekki frekar á það minnst um hríð.

Landsýn

Landsýn – skjöldur á styttunni.

Ég lauk við frummyndina, sem var tólf sentímetrar á hæð, setti hana undir eldavélina og sat svo við að sauma fram yfir nýár. Þegar kom fram í miðjan janúar, dró ég myndina fram undan eldavélinni og gerði aðra eftir henni, mun stærri. Og enn leið ár, þangað til ég tók rögg á mig og stækkaði hana enn, eins og hún er nú. Sú mynd var á sýningunni í skálanum 1943. Ekki hafði ég þá ákveðið henni neinn framtíðarstað, en einhvernveginn fannst mér að hún ætti að standa á ströndu úti við hafið; helst einhvers staðar á Suðurnesjum og ekki langt frá Strandarkirkju, því sagan um Engilsvík hafði verið mér í huga, þegar myndin varð til.
-Hvað skar svo úr um það, að myndin yrði höggvin í granít og valinn staður, þar sem hún stendur ný?

Síldarstúlkur

Síldarstúlkur – mynd Gunnfríðar.

-Það yrði oflangt mál að segja þá sögu alla. Er þar naut ég meðal annars skilnings og áhuga Guðmundar bónda í Nesi í Selvogi, þess fjölgáfaða mannkostamanns. Og Strandarkirkja leysir vanda sinn; þó að ýmsir erfiðleikar yrðu á framkvæmdum, rættist úr öllu og stundum á óvæntan hátt. Myndin var höggvin í granít í Noregi, og gekk allt samkvæmt áætlun – þangað til granítmyndin var komin hingað á hafnarbakkann og ég hélt að nú væri öllum hindrunum rutt úr vegi. Ekki aldeilis – það kom á daginn, að ekki hafði verið gert ráð fyrir slíkum innflutningi við samningu tollskrárinnar og nú lá myndin í fullt misseri á hafnarbakkanum og enginn þóttist kunna ráð eða eiga með að fella nokkrun úrskurð í því sambandi. Loks spurði ég viðkomandi valdhafa, hvort það væri þá ætlun þeirra að taka myndina eignarnámi. Þá loks mátti Strandarkirkja sín betur en ákvæðin, sem ekki höfðu verið sett í tollskrána.

Heimleið

Heimleið – stytta Gunnfríðar.

-En þá var komið fram á haust. Myndin hafði legið í kössum á hafnarbakkanum frá því í maí um vorið, og ég mátti ekki til þess hugsa, að hún lægi þar enn vetrarlangt. Hafði ég því samband við Selvogsbændur; vissi að mestu önnum þeirra var lokið í bili, en enginn þar hafði hins vegar tíma til neins þegar voraði. Ég spurði þá því hvort þeir vildu ekki vera mér hjálplegir við að koma myndinni upp, ef hún yrði flutt þangað suður eftir. Þeir tóku vel í það. Mér tókst að fá ágætan kranabílstjóra til að flytja myndina suður í Selvoginn – Sigurjón hét hann, prýðilegasti drengur – en við komum þangað ekki fyrr en klukkan sjö um kvöldið, og þá var eftir að taka myndina úr kössunum og koma henni á stallann, og það varð að gera strax, svo að kranabíllinn gæti haldið suður aftur.

Nema hvað myndin var komin upp klukkan níu og mátti ekki heldur tæpara standa, því að þá var komið myrkur. Þeir kunnu að taka til hendinni í þann tíð, Selvogsbændur. Sjálf var ég svo þarna í fimm daga og gekk frá þrepunum – við tíndum hellur í fjörunni og fluttum að í hestvagni og ýmsu var að sinna. Bændurnir reyndust mér einstaklega hjálplegir, boðnir og búnir til alls. Loks var settur hjúpur yfir myndina og hún látin bíða þess að hún yrði afhjúpuð að vori. Sú athöfn fór fram á annan í hvítasunnu, 1950, fjölsótt og var hin ánægjulegasta.

Landnámskonan

Landnámskonan eftir Gunnfríði Jónsdóttur frá 1955. Verkið er staðsett í Hljómskálagarðinum.
Landnámskonan er síðasta stóra verkið sem Gunnfríður mótaði árið 1955. Það er að mörgu leyti mjög lýsandi verk fyrir listakonuna. Forfeður, formæður og almennt kvenskörungar íslenskra sagna voru henni hugleiknar. Verkið vísar til landnámskvenna í víðtækari merkingu og þá ekki síst til kvenna í heimi listanna, þar á meðal Gunnfríðar sjálfrar, fyrstu konunnar sem vann höggmyndir á Íslandi. Landnámskonan stendur bein og hnarreist og horfir fram fyrir sig.
Gunnfríður Jónsdóttir (1889–1968) var fyrsta konan sem fékkst við höggmyndalist á Íslandi. Listsköpun hennar var íhaldssöm og klassísk myndlist henni efst í huga.

Gunnfríður sýnir mér grein í hinu kunna tímariti “Scandinavian Review”, 1958, þar sem segir frá Strandarkirkju og “Landsýn”, og fylgir ágæt mynd þaðan, en höfundur fer miklum viðurkenningarorðum um listaverkið. Það leynir sér ekki að Gunnfríði þykir vænt um “Landsýn”. Hún hefur gert tvær aðrar stórar myndir í áþekkum stíl, “Landnámskonu” og “Biskup”, sem enn bíða þess að þeim verði valdir viðeigandi staðir. Loks eru það “Síldarstúlkurnar” – það listaverk væri vel til þess fallið að prýða umhverfið í einhverjum síldarbænum. Núverandi borgarstjóri lét era af þeim afsteypu í bronsi og gaf Stokkhólmsborg. Ein höggmynd eftir Gunnfríði stendur í Tjarnargarðinum, “Á heimleið”, stúlka, sem tyllt hefur sér niður til að varpa mæðinni, og starir fram undan sér eins og hún eigi enn langt heim. Loks hefur Gunnfríður gert “höfuð” af ýmsum nafnkunnum mönnum og konum og þótt vel takast”.

Heimild:
-Á förnum vegi – Loftur Guðmundsson – rætt við samferðamenn, Ægisútgáfan, Reykjavík 1966 – “Frá Sæunnarstöðum í Selvoginn – rætt við Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara, – Landsýn, bls. 214-217.

Strandarkirkja

Kirkjan á Strönd.

 

Ásdís Dögg

Ásdís Dögg Ómarsdóttir jarðfræðingur, gönguleiðsögumaður og einn eigenda Asgard ehf. og starfsmaður Fjallakofans hefur smekk fyrir ævintýrum. Hún elskar náttúruna og dýrkar Ísland. Hún deilir hér með okkur gönguleið vikunnar í Innstadal.

Innstidalur“Það tekur um 20 mínútur að keyra frá Rauðavatni í Reykjavík að Hellisheiðarvirkjun. Eftir að beygt hefur verið út af þjóðvegi 1, er ekið er framhjá stöðvarhúsinu beint af augum í átt að Henglinum. Ef maður fylgir veginum þangað sem leyfilegt er að aka, endar maður á nokkuð veglegu bílastæði í Sleggjubeinsdal sem markar upphaf göngunnar.

Leiðin er vel merkt með skiltum og stikum, í okkar tilfelli gulum stikum með bláum toppi.

Í upphafi er á brattann að sækja áleiðis að Slekkjubeinsskarði, en stígurinn er glæsilegur og virkilega gaman að ganga eftir honum.

Hækkunin er um 150 m og á meðan gengið er upp í móti öskrar blásandi borholan við bílastæðið á mann. Það er engu líkara en myrkrahöfðinginn hafi fengið aðgang að yfirborði jarðar og skammi okkur öll sem eitt af lífs og sálar kröftum. Sem betur fer nýtist þessi kraftur okkur vel í formi hitaveitu og orkuframleiðslu. Það er ekki hægt annað en að vera þakklátur fyrir alla þessa hreinu orku sem við eigum, og fríska loftið sem maður andar að sér á leiðinni minnir mann á það.

Innstidalur

Innstidalur.

Þegar hækkuninni er að mestu lokið lækkum við okkur ofan í breiðan grasivaxinn dal, og göngum um 1 km eftir sléttu. Þar sem þunnt lag af snjó þakti grasið á þessu kalda þriðjudagssíðdegi, var virkilega notalegt að ganga á grasinu. Nánast eins og að ganga á skýi eða stífu trampólíni. Það var erfitt að valhoppa ekki. Og kannski gerðist það óvart nokkrum sinnum. Þögnin í dalnum var ærandi, þegar öskrandi borholan var komin í hæfilega fjarlægð. Og það var gaman að sjá í snjónum spor eftir alls konar fugla og ref. Öll dýrin á sléttunni eru tæplega vinir þegar veturinn skellur á. Þá lifa bara þau hæfustu af.

Þegar komið er í Innstadal, greinist leiðin og hægt er að ganga alla leið í Hveragerði og jafnvel yfir á Úlfljóstvatn. Einnig er hægt að ganga á Vörðuskeggja, hæsta tind Hengils (803 m.y.s.).

Mikill jarðhiti er í Innstadal; mikið er um hveri, gíga og heitt vatn í dalnum. Og einn mesti gufuhver landsins er í Innstadal. Stefnan var m.a. tekin á gilið er hýsir hverinn, en áður var huga beint að bæði jarðfræðinni og fyrrum útilegumannahelli innst í Innstadal.

Hengill er eitt svipmestu fjöllum í grennd við Reykjavík. Hengill telst til stapafjalla en er mjög sprunginn og hagaður.  Hengill er aðallega úr móbergi en grágrýtishrúður er uppi á honum.

Innstidalur

Lækur í Innstadal.

Ef við eltum leiðina upp á Vörðuskeggja (svartar stikur), framhjá litlum skála, Lindarbæ, skammt neðan við Hveragilið, þá er hægt að baða sig í heitum læk, sem eru frábært verðlaun fyrir um það bil 4 km göngu. Og endurnæra sig fyrir gönguna til baka.

Þar sem myrkrið var að skella á og ískaldur vindur farinn að læsa sig í kinnarnar, var látið nægja í þetta sinn að skoða sig um í Innstadal, stökkva uppá nokkra hóla og njóta útsýnisins sem var glæsilegt þrátt fyrir þungbúinn himinn. Svo var haldið til baka svipaða leið eftir heita hressingu. Það er vissulega kominn nóvember, en enn hefur ekki snjóað í Reykjavík, svo val á skóbúnaði litaðist af íslenskri bjartsýni og sól í hjarta. Slapp til en var ekki sá ákjósanlegasti.

Á leiðinni eru óbrúaðir lækir, sem hægt er að stikla yfir á steinum. Fara þarf varlega þegar frystir, því þá eru steinar í lækjum þaktir ís. Og að sjálfsögðu þarf alltaf að huga að veðurspá þegar lagt er af stað í leiðangur að vetrarlagi, og snúa við ef manni lýst ekki á blikuna. Áfangastaðurinn bíður alltaf eftir manni.

Njótið útivistarinnar.”

Heimild:
-https://www.mbl.is/ferdalog/frettir/2020/11/06/gonguleid_vikunnar_innstidalur/

Innstidalur

Áð í Innstadal.

Hellulofinn

Í Fornleifaskráningu af “Hengli og umhverfi” frá árinu 2008 má m.a. lesa eftirfarandi:

Ölkelduháls

Á Ölkelduhálsi.

Í norðvestri liggur Hengilssvæðið nokkuð vestur fyrir Marardal. Þaðan í suður um Bolavelli, vestan Húsmúla. Suður fyrir Húsmúla í átt að Sleggjubeinsdal. Þá suður með StóraReykjafelli að vestanverðu og milli Stakahnjúks og Lakahnjúka. Áfram í suður um StóraMeitil, Eldborg og Litla-Meitil og að norðurhlíðum Krossfjalla. Þaðan til vesturs að Lönguhlíð. Sveigir síðan aftur til norðurs um Sanddalahlíð, Stóra-Sandfell og Lakakróka. Þá til austurs um Hverahlíð í átt að Kambabrún. Frá Kambabrún í suðaustur milli Hveragerðisbæjar og bæjarhúsanna í Vorsabæ. Um land jarðanna Sogns og Gljúfurs að Kaga í Ingólfsfjalli norðaustanverðu. Mörk sveitarfélaganna Ölfus og Grímsnes- og Grafningshrepps liggja um Kaga. Rannsóknarsvæðið fylgir sveitarfélagamörkunum til norðvesturs sunnan Stórahálsfjalls, um Efjumýri, Klóarfjall og á Tröllháls. Þá til vesturs norðan Ölkelduhálshnúks og loks í norðvestur að Hengli og í Marardal.
Svæðið tilheyrir þremur sveitarfélögum, Sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi. Landfræðilega er það tvískipt, Hellisheiðin og fjalllendið norðan og norðvestan við Hveragerði og láglendið þar sem Hveragerðisbær og bújarðirnar austur af Hveragerði liggja. Jörðin Reykir í Hveragerðisbæ er innan svæðisins. Stórir hlutar jarðarinnar Sogns og nyrsti hluti Gljúfurjarðarinnar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru einnig innan svæðisins.

Marardalur (afrétt)

Marardalur

Marardalur.

Marardalur er vestan í Henglinum. Dalurinn hefur einnig verið nefndur Maradalur eða Marárdalur. Talið hefur verið að annað hvort væri nafnið skylt orðinu marflatur, þ.e. flatur eins og sjórinn, eða þá að átt sé við mar = hestur.
Réttir þessar voru í dal, er Marardalur heitir. Hann er vestan undir Henglinum, þar sem hann er hæstur. Dalur þessi er einkennilegur: hömrum girtur á alla vegu og aðeins eitt einstigi eða öllu heldur þröngt hlið inn í hann, sem fært er stórgripum. Í botni dalsins er slétt harðvellisgrund, algróin fíngerðum vallargróðri, á að giska 5-6 hektarar að stærð. Þarna er því að mestu leyti sjálfgerð girðing. Aðeins hefir þurft að hlaða upp í nokkur smáskörð, til að tryggt væri, að engin skepna slyppi út, sem inn var komin. Víða sér glöggt fyrir þessum hleðslum enn, þó að það hafi aldrei verið mikið mannvirki. Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttarmönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði. Í dalnum hefir ekki verið tiltök að tjalda, þegar þar voru margir tugir nauta eða jafnvel hundruð, þegar flest var. Norðast í dalnum er lækur, ekki alllítill, og rennur hann suður eftir dalnum nokkurn spöl og hverfur svo niður smátt og smátt. Lækur þessi kemur út úr berginu, að mestu leyti í helli nyrst í dalnum austan megin. Í læknum er tært bergvatn, og þrýtur hann aldrei og frýs ekki, því að þetta er kaldavermsl.
Talið er að hætt hafi verið að hafa naut í Marardal laust fyrir 1860. Ásttæður þeirrar ákvörðunar eru ekki þekktar og ekki vitað um annan stað sem tók við af dalnum í þessum tilgangi.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Fornleifarnar sem skráðar voru í Marardal eru þær sem nefndar eru í tilvitnunni hér að ofan, fyrirhleðslur þar sem skepnur gátu komist út úr dalnum og hellisskútar þar sem sjá mátti mannaverk. Í textanum er talað um helli skammt frá götu og fyrir framan hann hlaðinn garð til skjóls. Þessi hellir fannst ekki. Hellirinn er sagður vera austanmegin í Marardal, um 200 m norðan við einu verulega greiðfæru leiðina upp úr dalnum, austanmegin fyrir miðjum dal. Hellirinn fannst þá um 30 m frá merktri gönguleið og um 3 m uppi í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (vörslugarður)

Marardalur

Marardalur – vörslugarður.

Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (hellir/útilegumannaminjar)

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Neðan við hellinn er aflíðandi móbergsklöpp. Auðvelt er að komast að hellinum. Hellirinn er um 3 m að dýpt, um 2 m á breidd þar sem hann er breiðastur og um 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur. Fyrir honum er hleðsla sem talsvert hefur hrunið úr og liggur grjótið framan við hellinn. Eftir standa einungis tvær steinaraðir.

Innstidalur (hellir/útilegumannaminjar)

Lýður Björnsson segir frá helli í Innstadal í ársriti Útivistar 1986. Segir hann hellsimunnan blasa við ef gengið er yfir Sleggjubeinsskarð frá skálanum innan við Kolviðarhól og í dalinn. Hellirinn er allhátt í klettunum rétt hjá stórum gufuhver. Leifar af hleðslu eru fyrir hellsimunnanum sem þó er nær alveg hruninn. Lýður fann talsvert af beinum undir hellum í hellinum. Hann dregur þá ályktun að líklegast sé um útilegumannahelli að ræða. Því til staðfestingar bendir hann m.a. á að klettarnir neðan hellismunnans séu verulega torfærir og ræður óvönum klettamönnum frá að freista uppgöngu nema þeir séu vel búnir og í fylgd með sæmilegum klifurmönnum.

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939 skrifaði Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum grein um útilegumenn í Henglinum. Frásögnin hefur verið tengd við hellinn í Innstadal. Segir þar frá skipshöfn, 6 eða 7 mönnum, sem dvöldu í hellinum ásamt tveimur huldukonum eftir að hafa framið eitthvert níðingsverk sem ekki er þó vitað hvað var. Stálu þeir sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna sér til matar. Söfnuðu sveitamenn 50 til 60 manna liði og sátu fyrir hellismönnum eitt sinn er þeir komu úr ránsferð. Hellismenn flúðu en voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði.
Í Innstadal er hellir upp í bergi. Mjög bratt er upp í hellinn og illkleift upp í hann. Sögur eru til um að útilegumenn hafi hafst við í hellinum um tíma. Sögur þessar eru frá 18. öld og jafnvel fyrr. Ólafur Briem lýsir hellinum í bók sinni Útilegumenn og auðar tóftir og hefur lýsinguna að hluta eftir frásögn Lýðs Björnssonar á hellinum. Hellirinn er tveggja til þriggja metra djúpur og manngengur að framanverðu. Breiddin er rúmlega tveir metrar. Hleðslur eru fyrir munnann beggja vegna dyra. Þykkar hellur sem kunna að vera úr hleðslunum eru á gólfi og undir þeim hafa fundist bein, mest af stórgripum. Í öðrum dyraveggnum er sögð vera hella sem rís upp á rönd og á henni rista sem líkist galdrastaf. Við vegg hellisins, innan við munnann, er ferstrend hola sem vatn stendur í. Ekki lítur út fyrir að hún hafi verið löguð af mönnum. Engar leifar af eldstæði eða ösku eru í hellinum. Ólafur telur að hellisbúar hafi soðið mat sinn í hvernum neðan við hellinn áður en þeir drógu hann upp til sín. Hellirinn var ekki skráður að þessu sinni.

Draugatjörn (sæluhús)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Sæluhús var á leiðinni milli Ölfuss og Mosfellssveitar við Draugatjörn sunnan Húsmúla.
Varðveitt er heimild um þetta sæluhús frá 1703 í lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum. Þegar líður fram á 19. öldina er sæluhúsið við Draugatjörn orðið hrörlegt auk þess sem reimt þótti í því svo að margir veigruðu sér við að gista þar. Sæluhúsið var flutt upp á Kolviðarhól árið 1844 eða 1845. Á svæðinu eru nú leifar eftir sæluhúsið, rétt og túngarður. Í nágrenninu eru vörður og þar markar einnig fyrir gömlum götum.
Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla… Þarna fundust merkar minjar við fornleifauppgröft 1958, járnvar af reku til að moka snjó, járnfleygur til að gera vök í tjarnarísinn, flatstein til að kveikja á eldspýtu og bóluglas undir brjóstbirtu, varðveitt í Byggðasafninu á Eyrarbakka.
Það mun hafa verið Skúli Helgason sem gróf í rústir sæluhússins árið 1958. Hann greinir frá uppgreftrinum í bók sinni Saga Kolvirðarhóls. Segir þar að haustið 1958 hafi verið grafið í rústirnar og tóftin hreinsuð. Voru þá liðin 114 ár frá því húsið hafiði verið í notkun. Auk þess sem áður er upptalið af því sem fannst við uppgröftin telur Skúli upp tvo bindinga úr blaði reku; járnfleyga ferkantaða, 9 cm langa; hnapp úr látúni, skreyttan fjögra blaða rós og brot úr brúnu leirkeri, með fagurlega gerðum upphleyptum rósum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhús.

Í bókinni Gráskinna hin meiri er frásögn, sem Skúli Skúlason ritstjóri skráði, um draugagang í sæluhúsinu. Segir þar af Grími bónda á Nesjavöllum í Grafningi. Grímurbjó á Nesjavöllum eftir aldamótin 1800. Hann var skytta góð og stundaði rjúpnaveiðar. Fyrir jólin var hann vanur að fara til Reykjavíkur til að selja rjúpur og draga ýmislegt smávegis að heimilinu fyrir hátíðarnar. Fór hann oftast einn í slíkar ferðir og gisti ekki á leiðinni. Í einni slíkri ferð var orðið áliðið þegar Grímur lagði af stað úr Reykjavík. Þegar upp á Hellisheiði kom lenti hann í aftaka veðri og varð því að gista í sæluhúsinu. Honum var þetta þvert um geð því aðbúnaður var slæmur í húsinu og svo var hitt að Grímur var myrkfælinn en reimt þótti í sæluhúsinu. Höfðu þrír menn orðið úti þar skammt frá nokkrum árum áður og sóttu þeir að mönnum sem leituðu þar húsa svo illfært þótti að gista þar nema þá margir saman. Grímur gekk frá hesti sínum og fór inn í húsið. Lokaði hann hurðinni og lagði trédrumb að henni. Hundur hans lagðist fram á lappir sér innan við hurðina. Grímur lagðist síðan í bálka í suðurenda kofans með byssu sína sér við hlið.Um síðir tókst honum að sofna en hrökk svo upp við mannamál sem heyrðist utan úr ofviðrinu. Hélt hann fyrst að þar væru komnir ferðamenn og varð félagsskapnum feginn. En þegar raddirnar færðust nær sæluhúsinu kannaðist Grímur við málróm þeirra. Heyrði hann að þar voru komnir mennirnir, sem höfðu orðið úti. Grímur hafði þekkt þá alla. Grímur þeif til byssu sinnar og tók fingrum um gikkinn. Var þá hurðinni hrundið upp svo að hundurinn sem við hana lá flaug vælandi í vegginn andspænis henni. Grímur sá engan koma inn úr dyrunum en áður en varði fannst honum samt sem fullt væri orðið af fólki í kofanum. Virtist Grími sem fólkið væri komið til að sækja gleðskap því mikið var talað og dátt hlegið. Grímur sá þó engan og fann ekkert. Eftir að hafa starað í myrkrið langa stund sá Grímur tvo lýsandi depla í einu kofahorninu, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt sem mannsaugu sem færðust nær Grími og störðu á hann mjög illkvitnislega. Þegar augun voru komin að bjálkabrúninni hjá Grími hleypti hann af byssu sinn og miðaði á augun. Hvarf þá sýnin og var eins og kofinn tæmdist. Grímur reis á fætur og fór að dyrunum. Hurðin var óbrotin en hundurinn lá steinrotaður inn við vegg. Varð nú allt kyrrt um sinn en ekki gat Grímur sofnað. Eftir alllanga stund heyrði Grímur mannamál í fjarska sem fyrr og sama atburðarás endurtekur sig. Nú var Grími nóg boðið. Eftir að hafa aftur skotið af byssu sinni náði hann til hests síns í flýti og reið á brott. Hann komst við illan leik Tóft sæluhússins er uppá hól. Hún er 7,4 m á lengd og 6 m á breidd, op (dyr) snýr í suðvestur. Tóftin er úr torfi og grjóti og er grasi- og mosavaxin. Nokkuð hefur hrunið úr hleðslum inn í tóftina. Upp við tóftina, norðaustan við hana, er ógreinileg dæld nokkur sem hugsanlega er gerð af manna völdum, og gæti jafnvel verið leifar lítillrar byggingar, geymslu eða eitthvað þess háttar. Um 60 m vestan við sæluhúsið hefur legið vörðuð leið NV-SA og voru mældar upp sex vörður á þessari leið.

Draugatjörn (rétt)

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Um 140 m í NNV frá sæluhúsinu er grjóthlaðin rétt, utan í hraunhól. Mosi og skófir er á steinum í hleðslunum. Réttin er ferhyrnd, 21 m á lengd og 16 m á breidd. Í suðaustur horni réttarinnar er lítið hólf, 7 x 7 m. Op á rétt og hólfi snýr í norðvestur. Um 8 m langur veggur liggur frá NV-horni réttarinnar. Upp á hraunhólnum er grjóthlaðin varða, um 0,7 m á hæð, nokkuð hrunin. Varðan er nokkuð úr hinni vörðuðu leið sem liggur við sæluhúsið og því sú ályktun dregin að hún eigi fremur að leiða menn að réttinni.
Á milli sæluhússins og réttarinnar liggur um 60 m grjóthlaðið garðlag í N-S. Garðlagið er ógreinilegra en réttin en líklegt verður að teljast að þessar minjar tengist á einhvern hátt.
Annar grjóthlaðinn garður, um 430 á lengd liggur vestan og norðan með Draugatjörninni. Þessi garður er öllu greinilegri enda fer hæð hans upp í 1,2 m á hæð á köflum. Réttin og stóri garðurinn virðast yngri en sæluhúsið og því sett hér upp sem önnur minjaheild en auðvitað gætu ábúendur á Kolviðarhóli hafa viðhaldið réttinni og garðlögum í kring eftir að sæluhúsið leið undir lok.

Kolviðarhóll  (býli/sæluhús)

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á 19. öld var gert átak í því að bæta samgöngur á Hellisheiði. Fyrsta skrefið var að flytja sæluhúsið úr Svínahrauni og upp á Kolviðarhól. Er talið að þetta hafi verið gert á árunum 1844-1845. Þessi flutningur var gerður til þess að menn ættu auðveldara með að finna sæluhúsið og þar með fækkaði slysum á mönnum. Spýtur voru nýttar úr gamla kofanum við mismikinn fögnuð manna því sumir trúðu því að þeim fylgdi eitthvað óhreint enda talið mjög reimt í gamla sæluhúsinu. Húsið var timburhús á hlöðnum sökkli. Í því mun hafa verið svefnpláss fyrir 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta sæluhús á Kolviðarhóli var í notkun í um 30 ár.
Árið 1877 hófst bygging á nýju sæluhúsi á Kolviðarhóli. Nokkuð hafði verið kvartað yfir því að eldra húsið væri orðið lélegt. Ferðamenn töluðu um að slæmt væri að vera þar í vondum vetrarveðrum “því hríðargusurnar geyfi inn um gátt og rjáfur.” Hugmyndin með nýja húsinu var einnig að bæta þjónustuna við ferðamenn, þ.e. að reka gistiaðstöðu og greiðasölu og skyldi gestgjafi búa á staðnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Húsið var að mestu fullgert um haustið 1877. Stærð þess var 10×11 álnir að utanmáli. Veggir voru tvíhlaðnir (utan og innan) úr höggnu grjóti, er lagt var í steinlím, sem þá var reyndar kalk. Á því var port um eina alin á hæð og gott ris. Herbergjaskipan var þannig: Fyrst var komið inn í rúmgóða forstofu, og úr henni lá stiginn upp á loftið. Þá voru 2 herbergi og eldhús með eldavél; ofn var í öðru herbergi. Uppi á lofti voru 2 herbergi, annað fyrir ferðamenn, en hitt notað fyrir geymslu. Húsið var að innan klætt timbri í hólf og gólf. Á því voru 6 gluggar, 4 á veggjum og 2 á lofti; voru þeir allir í 6 rúðu fagi. Mjög var til byggingarinnar vandað á allan hátt, eftir því sem föng voru á á þeirri tíð.
Búskapur var tekin upp á Kolviðarhóli jafnframt því sem þar var rekin gistiaðstaða og greiðasala. Skepnum fjölgaði og útihús voru reist. Um árabil var rekið myndarlegt bú á Kolviðarhóli. Jón nokkur Jónsson bjó á Kolviðarhóli á árunum 1883-1895. Hann hóf að rækta tún á Kolviðarhóli og girti með hlöðnum grjótgarði. Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns, tók við búskapnum og bjó á Kolviðarhóli til ársins 1906. Guðni stóð í töluverðum framkvæmdum á staðnum, hann stækkaði og sléttaði túnin og viðhélt túngarðinum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhús 1844.

Með betri vegum og hraðskreiðari farartækjum minnkaði þörfin á slíkri ferðaþjónustu á þessum stað. Veitingarekstur á Kolviðarhóli lognaðist út af fyrir 1950 og árið 1977 lét Reykjavíkurborg jafna húsin á Kolviðarhóli við jörðu. Bæjarstæði Kolviðarhóls stendur norðan Reykjafells, neðan við Hellisskarð. Leifar síðustu húsanna á Kolviðarhóli eru enn sýnilegar, nokkuð sérstakar að gerð en þar ægir ýmsu byggingarefni saman; torfi og grjóti, tilhöggnu hleðslugrjóti og steinsteypu. Veggir minna norðvestur-hólfsins eru steinsteyptir en einnig má finna steinsteypu milli gangsins og miðjuhólfsins í suðaustur-hlutanum. Efri hluti hússins (SA-hlutinn) er 22,5 m x 16 m að stærð og liggur NA-SV. Neðri hlutinn (NV-hlutinn) er um 19 m x 10 m og liggur NV-SA. Að öllum líkindum er sá hluti yngri viðbygging.
Um 4,5 m SA af húsarústunum er að finna leifar ferkantaðar byggingar, um 7 m x 7 m að stærð. Minjarnar eru mjög ógreinilegar en það mótar fyrir hlöðnu, tilhöggnu grjóti. Vegghæð er lítil, einungis um 10 cm. Spurning hvort hér séu ekki leifar sæluhússins frá 1844. Fast upp við þessar húsaleifar, suðvestan megin, eru tvær dældir sem hugsanlega eru leifar einhverra mannvirkja sem tengjast húsaleifunum. Þetta eru grunnar, grónar dældir um 10 cm á dýpt. Um 12,5 m SA af húsarústunum er illgreinanleg, gróin tóft, um 4,5 m x 3,5 m að stærð og liggur NV-SA. Þetta hefur verið einhvers konar kofi, kannski geymsla eða eitthvað þess háttar. Vegghæð er lítil, einungis um 20 cm. Um 19 m ANA frá þessari tóft er leifar steinsteyptrar byggingar. Veggir og þak hafa hrunið og því erfitt að gera sér grein fyrir lögun hússins, sérstaklega innra formi. Stærð hússins hefur verið um 6 m x 7 m og liggur NV-SA. Um 50 m suður af megin húsarústum er heimagrafreitur með steinsteyptum garði í kring. Garðurinn er um 5 m x 5 m að stærð og veggir um 30 cm að þykkt. Grafreitur þessi er 20. aldar mannvirki. Grjóthlaðinn túngarður liggur frá NV-hluta húsarústa, niður með götu og myndar þannig heimtröð að hluta. Svo liggur garðurinn utan um túnin. Engan garð var þó hægt að greina norðan megin, þ.e. austan við götuna. Garðurinn er í ágætu ástandi og vegghæð fer upp í 1,2 m á kafla. Þó er greinilegt að farið hefur verið í gegnum garðinn með einhverja lögn á suðaustur hlið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Útihúsin frá Kolviðarhóli liggja um 220 m NA frá bæjarstæðinu, norðan við bílveginn. Nyrðst er garðlag um 23 m á lengd sem liggur A-V. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1,3 m á hæð þar sem hann er hæstur og um 0,7 m á breidd. Mosi og skófir eru á steinum.
Austarlega á garðinum er lítil tóft utan í (norðan við) garðlaginu. Tóftin er um 4,5 m x 4,5 m að stærð, ferhyrnt með op í vestur. Hún er að mestu grjóthlaðin ogmosi og skófir á steinum. Vegghæð er mest um 0,4 m. Beint suður (um 40 m) af þessri tóft er önnur nokkuð stærri. Tóftin er um 14 m x 9,5 m að stærð og liggur NNV-SSA, op snýr í SSA. Hún er að mestu grjóthlaðin en nýlegt hrun má sjá úr veggjum. Um 30 m vestar er tveggja hólfa tóft. Tóftin er að mestu úr torfi og grjóti en nyðra hólfið er með steinsteypta innri veggi. Hún er um 7 m x 5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op snýr í SA.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

Um 16 m sunnar er lítil tóft, um 4 m x 3,5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op í SSV. Tóftin er úr torfi og grjóti með 30 cm breiða steinsteypta innri veggi.
Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell. Norðan í því er Dauðidalur; í honum er fjárrétt. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal. Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kringum hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við dældina og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Búasteinn (sögustaður)

Búasteinn

Búasteinn.

Búasteinn er um 500 m austnorðaustur af bæjarstæði Kolviðarhóls. Hér átti Kolviður frá Elliðavatni að hafa fallið ásamt 11 öðrum fyrir Búa frá Esjubergi. Segir frá þessum atburðum í Kjalnesinga sögu. Hér er um að ræða stóran stein, norðan megin í Hellisskarði, upp í hlíðinni. Engin eiginleg mannvirki er þarna finna með tilvísun í söguna. En um 20 m norðar eru leifar palls sem tengist skíðaiðkun á staðnum á 20. öld.

Hellurnar (sæluhús/vörður)

Hin forni vegur milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá að Kambabrún, austan við Hurðarásinn, sjónhending á skarðið við norðaustur enda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með húsmúla, niður með norðurbrún Svínahrauns, hjá Lyklafelli og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti (Helliskoti) og Vilborgarkoti (nú eyðijörð) í Mosfellssveit.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi. Að þeirri framkvæmd stóð Gísli hreppstjóri Eyjólfsson á Vötnum í Ölvesi, d. 1866. En kofann reisti Þórður Erlendsson, síðast bóndi á Tannastöðum, d. 1872. Bygging þessi var með nokkuð sérstæðum hætti, enda unnin af manni, sem var orðlagður byggingamaður og snillingur í öllum handtökum. Kofinn er að innanverðu niður við gólf ferhyrndur og jafn á allar hliðar, 1,85 m. Á hvern veg og 2 m undir loft, mælt af miðju gólfi. Þegar veggir taka að hækka, hringmyndast hleðslan og gengur að mestu saman í þakinu, en því er lokað með geysistórri hraunhellu. Þakið er mosagróið mjög, og hafa vaxið upp úr því puntustrá á víð og dreif. Dyrnar eru 60 cm. Breiðar og 1 m á hæð. Þröskuldurinn er hár, því upp á hann að innanverðu eru 40 cm. Veggir eru svo þykkir, að kofinn er hringmyndaður séður að utan, og að norðanverðu er hann sem hraunhóll, enda hlaðinn allur úr fallegu hellugrjóti. Engin spýta er í byggingu þessari, og má hún heita einstæð í sinni röð. Kofinn var byggður á áratugnum 1830 -1840 og hefur nú staðið óhaggaður á aðra öld. Hann stendur á bungumyndaðri hraunklöpp, á hægri hönd, örskammt frá hinum forna vegi, þegar farið er suður, við fertugustu og fimmtu vörðu, talið austan að.
Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti þessar minjar.
Gatan er víða sýnileg á heiðinni, bæði norðan núverandi þjóðvegar en einnig sunnan hans þegar austar dregur. Hún þverar þjóðveginn nærri þeim stað þar sem háspennulínur fara yfir hann. Þar sem rásin er greinanleg í klöppinni er hún víðast um 30 – 40 cm breið og 5 – 10 cm djúp. Sumsstaðar má sjá tvær og jafnvel þrjár samsíða rásir í klöppinni. Sunnanvert á miðri heiðinni var á árunum 1830 – 1840 byggður steinhlaðinn kofi til skjóls fyrir þá sem leið áttu um heiðina í vondum veðrum. Kofin fékk nafnið Hellukofinn. Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegur rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Eiríksbrú (vegagerð)

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur).

Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.
Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.
Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879. Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkurm stöðum á heiðinni og í Kömbum.
Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Þjóðleið frá lokum 19. aldar

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Nýr vagnfær vegur var lagður niður Kamba árið 1894 og sama ár hófst lagning vegar fyrir Hellisheiðina. Þeirri vegagerð lauk árið 1895. Komst nú talsverður skriður á vegagerð, einkum á flutningabraut nr. 1, austur í Rangárvallasýslu. Fór og að gæta áhrifa landsverkfræðings, Sigurðar Thoroddsen. Hann hafði, að loknu námi í Kaupmannahöfn 1891, fengið ferðastyrk frá alþingi til þess að fara til Noregs og kynna sér vega- og brúargerðir, og dvaldist hann þar til vors 1893.
Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjarfell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu, leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar.
Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð úr að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. Þótti ýmsum sem vegur þessi væri undur mikið. Brautin frá Reykjavík og austur í Svínahraun hafði verið lögð á árunum 1886-1892, og vegurinn um Ölfusið að mestu lagður 1892, sem áður segir. Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir. Árið 1895 var því kominn að kalla óslitinn vagnfær vegur úr Reykjavík austur yfir Ölfusárbrú. Vegurinn er hvergi sýnilegur í upprunalegri mynd enda notaður til 1972 og því marg endurbættur. Leifar vegar í þessari sömu legu má þó sjá, bæði uppi á heiðinni og eins austan við hana. Hlykkjóttar beygjur í Kömbunum sem eiga uppruna sinn í þessum vegi voru færðar inn á loftmynd.

Þrengslavegur

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegur lá frá Neðri Hveradalabrekku suður með Gráuhnúkum að vestan, vestan Meitla og suður að Meitiltagli syðst í Litla-Meitli. Leiðin hefur verið greið og ekki hætt við að menn villtust á henni enda fylgir hún fjallshlíðunum.
Þrengslavegurinn gamli lá út af þjóðveginum neðan við Neðri-Hveradalabrekku og áfram suður með Gráuhnúkum að vestan. Er Þrengslahnúkur á vinstri hönd, þegar sú leið er farin austur í Ölfus. Skarðið milli Gráuhnúka og Lambafells heitir Þrengsli þar sem þar er þrengst.
Í desember árið 1921 varð Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi úti á þessari leið. Hans var leitað um veturinn og einnig sumarið eftir en fannst ekki. Sextán árum síðar fann Valdimar Jóhannsson líkamsleifar Guðbjarts ásamt smíðatólum hans og peningum við bjarg undir Gráhnúk. Vegurinn er sýnilegur á grónum grundum í nágrenni Þorlákshafnarsels og eins í kverkinni milli Svínahrauns og Gráuhnúka þar sem hann er troðin slóð í mosavöxnu hrauninu. Leiðin var rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni.

Lágaskarðsvegur (Sanddalaleið)

Lakastígur

Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur lá frá Hveradalaflöt um Lágaskarð og Sanddali til Þorlákshafnar og í Selvog. Annað afbrigði þessa vegar lá um Lakadal norðan Stóra-Sandfells. Leiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði allt þar til akvegur var gerður yfir heiðina.
Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágaskarði. Eftir skarðinu liggur Lága-skarðsvegur. Vestan við veginn er Stóri-Meitill, hjá honum er Meitilflöt.
Lágaskarðsvegur liggur austan við Stóradal, um Hellur og Lágaskarð, skarðið milli StóraSandfells og Stóra-Meitils. Það er sennilega sama leiðin sem Hálfdan Jónsson [1703] nefnir Sanddalaveg. Meðfram Lágaskarðsvegi. Þar sem hann liggur norður frá Hellum, er klettabrík eða „gangur“ sem kallast Lákastígur, nýlegt nafn. Svo virðist sem svokölluð Sanddalaleið hafi greinst frá Lágaskarðsvegi suðaustan við Lágaskarð og legið til suðausturs í átt að Hjalla.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd og skoðuð á korti. Hún er merkt inn á loftmyndina í samræmi við legu hennar á korti frá dönsku kortastofnunni sem gert var af dönskum landmælingamönnum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðin var vandlega skoðuð af Birnu Lárusdóttur starfsmanni Fornleifastofnunar Íslands árið 2007 og grein gerð fyrir þeirri athugun í skýrslu um fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana við Litla-Meitil og Gráuhnúka. Í skýrslunni kemur fram að lítið sjáist til götunnar fyrr en norðan Lágaskarðs. Eftir að komið er fram hjá Þrengsla- og Lágaskarðshnúkum fundust merki um tvær leiðir að Lágaskarði. Önnur lá upp að rótum Stóra-Meitils að norðvestanverðu, um djúpan dal sem þar er. Þar vottar fyrir götuslóða og eins er greinilegur troðningur í malarbakka upp úr dal sem Birna telur sennilegast að sé syðsti hluti Stóradals. Hin leiðin lá austar. Slóð sést austan í malarhrygg sem liggur út frá Stóra-Meitli. Þessi slóði liggur beint að slóðinni í Hellunum svonefndu í Lágaskarði.
Leiðirnar sameinast í Lágaskraði. Þar er leiðin skýr og í skarðinu eru fimm vörður. Norðan við nyrstu vörðuna er rás í klapparhelluna sem bendir til að þarna hafi verið farið um í langan tíma. Slóðin er einföld, 10 – 15 cm breið og mest um 5 cm djúp. Slóðin er ekki samfelld en sést hér og þar á löngum kafla. Þar sem ekki eru rásir er leiðin engu að síður greinileg því þar er enginn mosi né annar gróður sem þó þekur hraunið allt í kring.
Leiðin er gott dæmi um veg sem væntanlega hefur verið notaður í nokkrar aldir. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna. Leiðin er á kafla mótuð í klöpp. Slíkar götur sýna svo ekki verður um villst að um þær hafa hestar og menn farið um aldir og hafa því í mörgum tilfellum meira upplifunargildi en troðningar sem myndast hafa í grónu landi. Mikilvægt er að varðveita þá hluta leiðarinnar sem enn eru sýnilegir.
Leiðin Milli Hrauns og hlíðar lá um Hellisskarð, austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli að sunnanverðu, um Hengladali og áfram austur í Grafning.
Austur frá Hellunum er Orrustuhólshraun og Orrustuhóll. Hraunið er sunnan undir StóraSkarðsmýrarfjalli. Austur með fjallinu er vegurinn milli hrauns og hlíðar. Leiðin virðist hafa verið notuð fram á 20. öld. Vitað er er Hagavíkurmenn í Grafningi létu bílsenda vörur að Kolviðarhóli um 1940 og báru þær þaðan á sjálfum sér milli hrauns og hlíða til Hagavíkur sem mun vera um 17 km leið.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni. Í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands er leiðinni vel lýst. Þar segir að gatan sjáist enn nokkuð víða en yfirleitt ekki nema sem einfaldur stígur, nú kindatroðningur. Gatan virðist víðast hvar horfin undir yngri veg. Hún sést norðan við Skarðsmýri þar sem hún liggur yfir hálsa sem eru samfastir Litla-Skarðsmýrarfjalli. Hún er óglögg í mýrunum norðan Hengladalaár en sést glöggt í Svínahlíð austast í Fremstadal. Þaðn má svo rekja hana næstum alla leið á Brúnkollublett nyrðri.

Vörðuð leið

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, til suðausturs að þeim stað þar sem neyðarskýli stóð áður við þjóðveg 1. Þar kemur leiðin inn á hina fornu leið, Hellurnar, sem gengur yfir heiðina frá vestri til austurs. Vörðurnar, sem liggja með leiðinni, voru hlaðnar árið 1983 af skátum úr Reykjavík. Eftir að þjóðvegurinn var færður norðar á heiðinni um 1970 varð þetta gönguleið þvert yfir heiðina.
Leiðin er slóði sem markast hefur í mosavaxið hraunið undan fótum manna. Vörður eru með um 50 m millibili meðfram leiðinni. Þær eru flestar um 1,5 m í þvermál og um 1-1,5 m á hæð.

Skógarmannavegur (leið)

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910. Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar. Leiðinni var ekki fylgt á vettvangi en lega hennar skoðuð á loftmynd.

Orrustuhóll (rétt)

Orrustuhóll

Orrustuhóll – minjar.

Í bókinni Göngur og réttir er fjallað um réttir við Orustuhól. Þar segir að gömul munnmæli hermi að Mosfellssveitarmenn og Ölfusingar hafi haft sameiginlega rétt á Helluheiði eins og hún er kölluð. Þegar Mosfellingar vildu ekki lengur sækja réttir í land Ölfusinga kviknaði fyrst rígur en síðan fullur fjandskapur milli manna í sveitarfélögunum sem endaði með því að þeir börðust í réttunum. Heitir þar Orustuhóll og Orustuhólshraun frá þessum tímum og voru réttirnar kallaðar Orustuhólsréttir upp frá því. Í bókinni segir jafnframt að rústir réttanna sjáist ekki lengur enda hafi Hengladalaáin gegnum aldir borið sand og möl upp á bakka sína og þannig flýtt fyrir því að leifar af réttum þessum hyrfu í jörðu. Svo er þó að sjá sem réttirnar hafi verið sýnilegar árið 1878. Þórður Sigurðsson, sem ritar um Orustuhólsrétt í Göngur og réttir, segir í frásögn sinni frá því að það ár hafi honum verið sýndar rústir réttanna. Hafi þá séð vel fyrir þeim þó skröð væru komin í vegghleðslur. Bæði mátti greina almenning og dilka, suma allstóra. Almenningsdyr snéru í átt að Hengli.
Suðvestan við Orrustuhól er hraungjá. Þar er ætlað að meint rétt hafi verið. Í gjánni er grjóthrúga, 10,6m x 3,2m, liggur NNV-SSA. Líklega er þetta veggur sá sem talin er hafa myndað aðhald í gjánni en erfitt er, ef ekki ómögulegt, að segja um hvort mannaverk sé þar á, þetta gæti allt eins verið hrun.

Áveita

Áveita

Áveituskurður.

Í örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar fyrir Hellisheiðina segir að um margra ára bil eða áratuga skeið, í kringum aldamótin 1900, hafi Hengladalaá verið veitt vestur í hraun um sláttinn til að koma í veg fyrir heyskaða af völdum flóða úr ánni. Stífla var gerð í ána sunnan við Smjörþýfi og Orustuhólshraun og henni veitt vestur á Hellisheiði. Brú var gerð yfir farveginn sem kölluð var Loft.
Um 480 m austur af Orustuhól eru áveituskurðir sem liggja austur í Hengladalaá. Hér er um 20. aldar mannvirki að ræða. Stóri skurðurinn sem er um 278 m á lengd, 12 m á breidd og 0,5m á dýpt er án vafa vélgrafinn. Einn skurður sem er 82m á lengd og 6m á breidd liggur norður úr þeim stóra. Annar minni skurður, 36m á lengd og 2m á breidd, liggur suður úr þeim stóra. Líklega eru þessi minni skurðir eldri og gætu verið handgrafnir.

Innbruni (byrgi)

Innbruni

Innbruni – byrgi.

Engar heimildir hafa fundist um þessi byrgi.
Milli Litla-Meitils og Sanddalahlíðar liggur hraunbreiða sem nefnist Innbruni. Í hrauninu, nær Sanddalahlíðinni eru tvö byrgi. Syðra byrgið er grjóthlaðið, 3m x 2,7m að stærð og liggur NV-SA með op í NV. Breidd veggja er um 0,8m. Um 38 m NV af fyrrnefndu byrgi er önnur álíka grjóthlaðin tóft. Hún er um 3m x 2,1m, skeifulaga með op í vestur.
Þessi staður verður að teljast undarleg staðsetning fyrir fjárskýli, smalakofa og þess háttar. Ekki er að finna stingandi strá né vatn við þennan stað. Mögulega gæti því veriðum einhvers konar skotbyrgi að ræða fyrir t.d. refaskyttur en nánari heimildir vantar til að skera úr um það.

Litli-Meitli (rétt/aðhald)

Litli-Meitill

Litli-Meitill – aðhald.

Eiríkur Einarsson skrifaði grein í 1. tbl. Farfuglsins árið 1975 sem hann nefndi Örnefni á afrétti Hjallasóknar í Ölfusi. Þar segir hann frá fjárrétt í svoköllðum Kvíum sem notuð var við vorsmalanir. Kvíar eru hvilft í hrauninu austan Meitilflatar sem er stór grasflöt suðaustan undir Syðra-Meitli sem væntanlega er sama fjall og Litli-Meitill.
Þór Vigfússon skrifar um Árnesþing vestanvert í Árbók Ferðafélags Íslands 2003. Þar talar hann um grjóthleðslurnar í Kvíum og að mannvirkið hafi verið notað til rúnings í vorsmalamennsku.
Vestan við hraunbreiðuna Innbruna, og austan við Litla-Meitil er stór náttúruleg skál eða sprunga með grasi grónum botni. Myndar afar hentugt aðhald og hefur verið góður áfangastaður. Suðvestan í sprungunni, utan í klettavegg er lítill, L-laga veggur sem myndar aðhald eða litla rétt. Veggurinn er 4,2m x 6 m með op í suður. Breidd veggja er um 1m. Mannvirkið er ekki fornlegt að sjá og hefur augljóslega verið viðhaldið á síðari tímum. Meira að segja má sjá að sums staðar hefur froðueinangrun verið sprautað á milli steinanna.
Um 82 m SSV er hringlaga eldstæði, úr einfaldri steinaröð sem Fornleifastofnun Íslands hefur skráð sem fornleifar. Hér er dregið í efa að eldstæðið sé það gamalt að það flokkist til fornleifa, enda megi sjá nýlega brenndar spýtur þar.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi.

Sagt er að frá fornu fari hafi jörðin Þorlákshöfn átt selstöðu á jörðinni Breiðabólstað sem á móti hafði skipsuppsátur í Þorlákshöfn í vertíðum. Ekki er ljóst hversu gamalt selið er en minnst er á það í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem tekin var saman í byrjun 18. aldar. Í Sögu Þorlákshafnar sem kom út 1988 er selinu lýst svo: Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd. Fyrir sunnan aðalhúsið er sérstakt hús, um 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.
Rústirnar voru friðlýstar af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, 21. janúar 1976. Friðlýsingunni var þinglýst 16. júní árið eftir.
Vestan undir Votakletti, austan við akveg, eru friðlýstu fornleifarnar. Syðst er grjóthlaðinn veggur sem liggur utan í móbergskletti (austan í honum). Veggurinn er um 8,5m x 2,9 m að stærð, liggur N-S með op í suður, breidd veggja um 1,5 m. Eflaust er hér um einhvers konar aðhald fyrir skepnur að ræða.
Um 65 m NA af þessu aðhaldi eru megin-seltóftirnar. Þær liggja vestan undir Votakletti.
Um 570 m NNV af seltóftunum, við Hrafnaklett, er lítil steinhleðsla um 1,5 m x 1,4 m að stærð. Líklega er um vörðubrot að ræða, hlaðin úr sandsteini. Smá mosi er á steinum en hleðslan virðist yngri en seltóftirnar.

Ölkelduhálsrétt (rétt)

Ölkelduháls

Ölkelduháls – rétt.

Á skilti sem sett hefur verið upp við réttina eru upplýsingar um hana. Ölkelduhálsrétt var byggð vorið 1908 og var í notkun eitthvað fram yfir 1930. Hún mun hafa verið notuð til vorsmölunar. Þrisvar var smalað í réttina á hverju vori. Fyrst var geldfé smalað, þá var smalað til mörkunar og síðast til rúnings.
Ölkelduhálsrétt liggur vestarlega í lægð á milli Ölkelduhálss og Ölkelduhnúks, svolítið vestar en Ölkelduhnúk sleppir. Um 100 ma austan við réttina er stór leirhver og í honum ljósgrár bullandi leir. Akfær vegur liggur upp í skarðið milli Ölkelduháls og Ölkelduhnúks. Hann sveigir til suðurs þegar niður úr skarðinu kemur. Réttin er um 100 m sunnan og austan við veginn þar sem hann hlykkjast niður hlíðina. Á veginum í hlíðinni er hlið sem myndað er af tveimur járnstólpum. Réttin er um 100 m austur af hliðinu. Réttin stendur á grýttum bala sem hallar til vesturs. Gras og mosi er á milli steina. Hún er 25,8 m x 18,4 m að stærð og liggur NV-SA. Réttin skiptist í þrjú hólf. Eitt hólfanna er lang stærst. Minni hólfin eru byggð utan í stóra hólfið, annað við suðaustur horn stóra hólfsins en hitt norður af stóra hólfinu. Réttin er hlaðin úr grágrýtissteinum sem eru 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslan er að mestu hrunin og víðast standa aðeins 1 – 3 hleðsluraðir. Inni í minni hólfunum er gras og mosi en stóra hólfið er að mestu moldar eða leirflekkur. Veggir aðalhólfisns og austurhólfsins eru 40 – 80 cm háir en veggir norðurhólfsins nokkru lægri eða 10 – 30 cm. Ekki er opið milli hólfanna og engin sýnilegur inngangur er í litlu hólfin. Inngangur hefur verið í norðvestur-hlið stóra hólfsins.

Öxnalækjarsel (sel)

Öxnalækjarsel

Öxnalækjarsel.

Öxnalækjar-Seldalur liggur austan i Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum u-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla. Dalurinn er ofan við veginn á þessum kafla. Dalurinn, eða gilið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 50 m breiður. Neðarlega í honum liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Austur af Þjóðveginum niður Kamba, suðvestan svokallaðra Árhólma eru örnefnin Neðrasnið og Efrasnið. Þar mun hafa legið gata sem tengdist ferðum til Öxnalækjarsels og ferðum að Hengladalaá.

Öxnarlækjarsel

Öxnalækjarsel.

Dalurinn liggur í austur-vestur, tvær tóftir liggja utan í norðurhlíð dalsins og tvær í suðurhlíðinni. Nyrst og vestast er lítil tóft, um 5,3m x 4,7m að stærð, grasi gróin og mosavaxin. Tóftin liggur utan í mosavaxinni hraunbrún sem myndar eitt vegg mannvirkisins. Op í austur. Glittir í hleðslusteina i veggjum. Um 4m austar er önnur tóft, 7,4m x 5,6m að stærð. Hún liggur NA-SV með op á NV-langhlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin. Það glittir í stöku steina í veggjum. Vegghæð er um 50 cm. Um 27 m í NNA, hinum megin í þessum litla dal er þriðja tóftin og sú stærsta. Hún er 9,5 m x 6,5 m að stærð, liggur sem næst A-V, með inngangi á suðurhlið. Greina má þrjú hólf. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin.
Vestan við dalinn má greina götubút, um 58m á lengd sem liggur A-V og hefur vísast legið að selinu. Ekki er ólíklegt að finna megi fleiri vísbendingar um þessa götu.

Lambabyrgi (fjárskjól)

Lambabyrgi

Lambabyrgi.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, “norðaustan við Nikulásar-tóft.” 46 Lambabyrgi er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka.
Tóftin er staðsett um 80 – 100 m suður af malarvegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Hún er rúma 100 m SA við Nikulásartóft. Tóftin er 10 m x 6 m, liggur V-S. Vegghæð er um 1 m og inngangur í A-enda. Nokkrum trjáhríslum hefur verið plantað í mólendið neðan við hraunbrúnina. Hlaðið úr hraungrjóti sem er 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslurnar standa vel.

Nikulásartóft (fjárskjól)

Nikulásartóft

Nikulásartóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt – tóft.

Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.

Hofmannaflöt (fjárskýli)

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Hofmannaflöt slétt flöt sem var slegin en þar voru fjárhús í seinni tíð.
Hofmannaflöt er norðan við Hengladalaá skammt vestur þar af sem Grændalsá rennur í hana. Flötin er nokkuð stór, rennislétt og hallar svolítið til suðurs. Á henni miðri er ferhyrnd grjóthlaðin tóft sem minnir meira á gerði en fjárhús. Tóftin er 10,4 m x 8,8 m að stærð og snýr NA-SV. Ekki er mikið eftir af grjóthleðslunni. Inngangur er austan megin á suðvesturgafli. Í suðurenda tóftarinnar, til hliðar við innganginn er hrúga af steinum og gamall gaddavír.

Stekkatún (fjárskýli)

Stekkatún

Stekkatún – tóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.

Stekkatún

Stekkatún – tóftir.

Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8 m x 5,1 m að stærð og liggur NA-SV. Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin.
Um 2 m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8 m x 6,8 m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu.

Vesturmúli

Vesturmúli – tóft.

Um 28,6 m í NA er fjórða tóftin, 13,6 m x 7,6 m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1 m. Um 10,6 m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4 m x 7,5 m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1 m.

Vesturmúli (fjárskýli)

Engar heimildir hafa fundist um þessar tóftir.
Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna.
Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12 m x 7,4 m að stærð og inngangur í suðurenda.

Reykjafjall (fjárskýli)

Reykjafjall

Reykjafjall – tóftir.

Undir vesturhlíð Reykjafjalls eru nokkrar tóftir útihúsa sem ekki virðast mjög gamlar. Engar beinar heimildir hafa fundist um þessar tóftir en þær tengjast örugglega búskap á svæðinu á 19. og jafnvel 20. öld. Nyrsta tóftin er í grasi gróinni brekku undir hlíðum Reykjafjalls, um 100 m fyrir ofan skólahús garðyrkjuskólans. Kringum tóftina eru timburraftar og bárujárn. Tóftin er 14,3 m x 5 m, liggur SV-NA og er með tvö hólf. Inngangur er á SV-skammhlið en einnig á langhlið. Hún er grasi gróin en hreinsað hefur verið utan af steinhleðslum að innanverðu. Nýleg klömbruhleðsla er í vesturenda tóftarinnar og virðist hún notuð við kennslu eða æfinga í hleðslutækni.

Stórkonugil (fjárskýli)

Stórkonugil

Stórkonugil – tóftir.

Neðst í fjallshlíðinni, við Stórkonugil, sem liggur upp frá húsum Náttúrulækningafélags Íslands eru þrjár tóftir. Syðsta tóftin (nr. 780) er á milli reiðstígs og göngustígs. Tvö afhýsi eða hólf eru byggð utan í þessa tóft. Tóftin er 11,7 m x 10,4 m að stærð og vegghæð um 1,4 m. Sérinngangur eru inn í öll hólfin, sem sagt tveir inngangar að SV og einn á NV-hlið.
Um 40m NV, vestan gilsins, stendur tvíhólfa tóft. Hún er 10,3 m x 7.9 m að stærð og vegghæð um 1 m. Göngustígur liggur við hana að austanverðu. Gengið er inn í bæði hólfin að suðvestanverðu. Syðri langveggurinn á syðra hólfinu er byggður úr tveimur stórum steinum, um 1 m í þvermál. Þriðja tóftin liggur um 10 m norðar og ofar í brekkunni. Hún er 11 m x 6,8 m og liggur NA-SV. Inngangur er á SV-hlið, vegghæð um 1m. Göngustígurinn liggur milli tóftanna. Ofan við þriðju tóftina og til hliðanna vaxa grenitré. Greinar þeirra eru vaxnar yfir veggi tóftarinnar. Allar eru tóftirnar hlaðnar úr grágrýti og grasi vaxnar þó vel sjáist í steinhleðslurnar.

Leið og minjar í kringum Stekkjarhól austan Hveragerðis

Stekkjarhóll

Stekkjarhóll – tóftir.

Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði á Hérðasskjalasafni Árnesinga. Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.

Eystri-Múli

Eystri-Múli – fjárhústóft.

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Leiðin er mælanleg frá veginum að Ölfusborgum, skammt norðan vegamóta hans og þjóðvegar nr. 1. Leiðin er austan við vegin að Ölfusborgum. Hún var mæld frá þessum stað og upp að götunni milli Sogns og Reykja. Nokkur hluti þeirrar leiðar, í átt að Sogni, var einnig mældur inn. Sú leið liggur meðfram nýlegum reiðstíg undir Mið-Múla og Eystri-Múla en hverfur undir reiðstíginn þegar kemur nær Sogni. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili eru þústir sem hugsanleg gætu verið leifar mannvirkja.

Eystri-Múli (fjárskýli)

Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Krossstekkjatún. Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag (nr. 740) gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.
Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3 m x 5,7 m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.

Sogn i Ölfusi (býli)

Sogn

Sogn – fornleifar.

Ekki er vitað hvenær Sogn byggðist en til eru heimildir um jörðin frá 1542. Þann 11. janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að árið 1708 var jarðardýrleiki Sogns tuttugu hundruð. Eigandi jarðarinnar var þá Andrés Finnbogason lögréttumaður en ábúandi Hávarður Þórðarson. Landskuld var 100 álnir og greiddist í gildum landaurum til landsdrottins. Leigukúgildi voru 5 og voru greidd í smjöri til Kröggólfsstaða þar sem eigandi jarðarinnar bjó. Búfénaður var nokkur þar á meðal 7 kýr, 30 ær, 26 sauðir og 28 lömb. Þá átti bóndi 4 hesta og eitt folald.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni.55 Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn.
Samkvæmt örnefnaskrá og Kristjáni Einarssyni starfsmanni á Réttargeðdeildinni á Sogni, sem ólst upp á Gljúfri, eru eftirfarandi minjar að finna á rannsóknarsvæðinu innan landamerkja Sogns: Stóri-Hellir er hellir fyrir ofan Hellisbrekku sem var notaður sem fjárhús og rétt. Gat tekið um 100 kindur í innrekstri. Litli-Hellir var lítill hellir undir stóru bjargi sem notaður var sem fjárhús. Á austurbakka Trippalækjar var kofi sem kallaður var Trippakofi.

Sogn

Sogn – Stóri-Hellir.

Hesthús stóðu á gilbarmi, norðvestur af Hesthúsflöt. Stekkatún er lítill hóll austan við götuna á syðri gilbarminum en þar eiga að vera leifar stekks. Stóri-Einbúi eða Einbúinn er klettahóll í Einbúamýri. Þar var gott skjól fyrir skepnur en þar bjó einnig huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þessi frásögn: Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölfusi upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinnar. Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni.
Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 4 5 m í þvermál.
Um 33 m vestur af bæjarhólnum eru leifar hesthúss, um 5,8 m x 3,9 m að stærð og vegghæð um 1,3 m. Rústin snýr NV-SA með op í SA-horni, á langhlið. Hesthúsið hefur verið byggt inn í gilbarminn vestan við Trippalæk. Tóft þess sést enn. Hún er nokkurn vegin á móts við veg sem liggur niður að læknum frá heimreiðinni að húsi Réttargeðdeildarinnar. Veggirnir eru hlaðnir úr gjóti og má víða sjá steinsteypu á milli steinanna.
Um 68 m NNV af hesthússrústunum er lítil kofatóft, um 3,2 m x 2,5 m að stærð, liggur NV-SA, skeifulaga með op í SA. Líklega er hér um Trippakofann að ræða sem nefndur er í örnefnalýsingunni. Tóftin stendur á smá grasbala í gili sem Trippalækur fellur um. Kofinn stendur alveg við lækinn. Hún er grasi vaxin og lækurinn er farinn að naga svolítið af henni.
Um 95m ofar (NV) í brekkunni er leifar nýlegrar byggingar. Um er að ræða mosavaxna dæld með helðslu í kring úr vikursteini. Rústin er um 10,7 m x 5,3m að stærð og liggur ANA-VSV.

Sogn

Sogn – Litli-Hellir.

73,5 m SV af þessari byggingarrúst og um 95,5 m vestur af Trippakofanum er tóft upp í grasi gróinni brekku, vestan við Trippalæk. Lýsingin passar við ærhúsið. Mosa- og grasivaxin tóft. Greina má stalla meðfram veggjum sem líklega eru garðar. Veggir hafa verið úr torfi og grjóti og greina má vel um sex raðir hleðslusteina í veggjum. Tóftin er 11,2 m x 11,3 m að stærð og liggur NV-SA og vegghæð mest um 1,2 m. Tvö hólf eru á tóftinni með sitthvorum innganginum sem snúa báðir í SA. Ekki fundust leifar lamhúsanna sem getið er um í örnefnalýsingu að hafi átt að vera fyrir neðan þessa tóft.
Litli-Hellir er um 80 sunnan við þessa þyrpingu. Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4 m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli. Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð. Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.
Um 140m SV (í loftlínu), við enda múlans/fjallsins er tóft. Hér er, miðað við lýsingu, um stekk að ræða en gæti allt eins verið um skepnuhús ef horft er á lögun tóftarinnar. Hún er grasi gróin, á litlum hól norðan við lítinn læk. Vegur eða reiðstígur hefur verið lagður utan í hólinn. Tóftin er 11,4m x 10,8m að stærð, tvö hólf og inngangur á NA-hlið. Vegghæð um 1m. Svo virðist sem veðrast hafi af austurenda tóftarinnar.
Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn. Hann er um 70 m x 50 m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið.

Kot í landi Sogns (býli)

Sogn

Sogn – kot.

Bærinn Kot stóð undir fjallshlíðinni um 170 m vestan við bæjarhól Sogns. Þar bjó Eyjólfur Símonarson. Vitað er að bærinn var í byggð árið 1896. Þar má sjá leifar heyhlöðu. Í brekkunni, norðan við Kot stóðu ærhús en neðar, við brekkufótinn, voru lambhús.
Greinilegustu fornleifarnar er lítil tóft, 6,6m x 6,4m að stærð, eitt hólf og inngangur á SA-hlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin en greina má enn hleðslugrjót í veggjum. Vegghæð er mest 0,8 m. Fast upp við tóftina, rétt fyrir ofan hana er ógreinileg, grasi gróin, þúst með smá hvilft í miðju. Hugsanlega náttúrulegt fyrirbæri. Engir steinar greinanlegir. Þústin er um 5,8 m x 5,2 m að stærð. Um 10 m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7 m x 9 m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.

Bakkárholtssel (sel)

Bakkárholtssel

Bakkárholtssel.

Samkvæmt örnefnaskrá fyrir Sogn er selstaða frá Bakkárholti, norðvestan við Sogna, í Seldal. Selstöðu höfðu ábúendur Bakkárholt í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur þessi virðist vera fallin niður í byrjun 18. aldar vegna “vannota” ábúenda Bakkárholts.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að jörðin Sogn eigi engjaítak í Bakkárholtslandi, austan og vestan við gamla farveg árinnar Varmár. Ekki er minnst á selstöðu Bakkarárholts í landi Sogns.
Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina. Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa. Syðri tóftin er 7,2 m x 5 m að stærð, liggur NV-SA, með einu hólfi og inngangi á NV-hlið. Við SA-horn tóftarinnar er lítil þúst, 3,6 m x 2 m að stærð, sem annað hvort er lítið útskot eða hólf.
Um 2-3m NV er önnur tóft. Tengt henni er hólf eða garður sem gengur í boga út frá suðurenda rústarinnar. Við norðurenda rústarinnar er bil milli garðisns og hennar og gæti þar hafa verið inngangur í hólfið. Inngangur hefur verið í rústina sjálfa í norðurendanum.

Sognsel (sel)

Sognsel

Sognsel.

Samkvæmt örnefnaskrá er gróið dalverpi, suðaustur af Selás og suður af ármótum Gljúfurár og Selár. Heitir dalverpið Sognsseldalur vestan Gljúfurár en Gljúfursseldalur að austanverðu. Sogn átti þarna selstöðu en einnig eru frásagnir til af því að heyjað hafi verið þar upp frá.
Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá flöt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin er 8,5 m x 4,1 m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2 m í NV er önnur tóft á litlum grasi vöxnum hól. Hún er 9,2 m x 7,3 m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8 m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6 m x 6 m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.
Milli bæjarins Gljúfar og selsins, nánar til tekið um 600 m SA af selinu, er lítil grjóthlaðin varða upp á móbergshæð. Hún er um 0,8 m á hæð. Greina má mosa og skófir á steinum. Ekki er gott að segja hvort varðan sé í tengslum við ferðir upp í selið en ekki er ólíklegt að hún tengist fremur ferðum ábúenda á Gljúfri upp á afréttinn.

Heimild:
-Fornleifaskráningu af “Hengli og umhverfi” frá árinu 2008.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

C-47

Að kvöldi 5. ágúst 1945 heyrðist flugvélargnýr í Selvogi.

Nes

Nes – C-47 á túninu á Nesi í Selvogi.

Stuttu síðar heyrðist í flugvél yfir Reykjavík. Áhöfnin augljóslega fann ekki flugvellina og var að hringsóla yfir Reykjanesskaga í tvo klukkutíma í mikilli þoku. Um miðnætti sá áhöfnin bæinn Nes í Selvogi og ákvað að lenda á túninu en hafði ekki nema um 50 til 70 metra. Lendingin gekk vel en vélin rakst á heysátu og skar túnið, stöðvaðist svo við girðingu hlaðna úr grjóti. Hjólabúnaður og neðrihluti skrokksins skemmdist talsvert og var vélin dæmd ónýt.
Vélin, C-47 Skytrain, var í herflutningum frá Base Valley í Wales til Reykjavíkur.

Áhöfnin: Hagen, Adam G. flugstjóri og 12 manna áhöfn og farþegar sluppu.

Heimild:
-Styrjaldarárin á suðurlandi, Guðmundur Kristinsson, Friðþór Eydal, USAAF aircraft loss record.
-https://stridsminjar.is/is/flugatvikum-radhadh-eftir-arum/flugatvik-1945/482-c-47-skytrain-selvogur-nes-5-agust-1945

Nes

Nes í Selvogi – loftmynd.