Tag Archive for: Ölfus

Bakkárholt

Í Andvara árið 1936 er birt „Lýsing Ölveshrepps 1703“ eftir Hálfdán Jónsson undir heitinu „Descriptio Ölveshrepps anno 1703„:
„Aultvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Álfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppaþing haldast.“

Ölfus

Ölfus.

Í „Fornleifaskráningu vegna skipulags í Ölfusi“ frá 2009, er getið um Bakkárkot. Einnig er getið um minjar tengdar þingstaðnum, s.s Gálgaklett, Þinglaut og Hestarétt:
„Bakkárholt eða Bakkarholt eins og það var stundum ritað, var eitt af höfuðbólunum í Ölfusi. Jörðin er landstór og árið 1840 var þar sagður reisulegur bær.

Bakkárholt

Bakkárholt.

Bakkárholt var lengi þingstaður þriggja hreppa; Ölfuss-, Selvogs- og Grímsneshrepps. Segja Sunnlenskar byggðir að þing hafi þar verið haldið til ársins 1885, en samkvæmt örnefnaskrá var þingstaður þar til ársins 1881 en þá var skólahús byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaðurinn fluttur þangað. Þing er ekki nefnt á jörðinni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þar sem jörðinni er lýst árið 1708. Jörðin var við alfaraveg sem lá frá Kotferju ferjustað, en farið var framhjá Kirkjuferju, Bakkarholti, Gljúfraholti, Krossi og á Torfeyri við Varmá. En eins og segir í Örnefnaskrá: ,,Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og ,,brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.“ Á jörðinni eru nokkrar minjar sem minna á þingið.

Bakkárholt

Bakkárholt – hestarétt.

Um nafn jarðarinnar segir í örnefnaskrá: ,,Nafnið er mjög eðlilegt ,,náttúrunafn“. Áin fellur þar á milli gróinna bakka og hefur að líkindum heitið Bakká. Holtið, sem bærinn stendur á, er við hana kennt, en áin síðar kennd við holtið, Bakkárholtsá.
Hestarétt: Sér enn fyrir hleðslum milli Norðurtúns og Aukatúns. Þar hafa þinggestir og þingmenn geymt geymt hestana sína eða rekið inn til að beizla þá.
Gálgaklettar: Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, er hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni. [Síðasta aftakan í Bakkárholti fór fram uppúr 1700].
Þinglaut: Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengri austur-vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. ,,Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar.“

Bakkárholt

Bakkárholt – Gálgaklettar.

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi; Áfangaskýrslu II“ frá árinu 2017 segir m.a. um þingstaðinn í Bakkárholti:
Þinglaut – tóft – þingstaður; 63°57.741N 21°08.403V. Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. „Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ Þinglaut er 110 m norðan við bæ 001 og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.

Bakkárholt

Bakkárholt – Þinglaut (Þingstaður).

Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.“

Bakkárholt
Í örnefnalýsingu Ögmundar Jóhannsonar fyrir Bakkárholt segir m.a.:
„Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppa þing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H. J. 1703). Þar má enn sjá Þinglaut, Hestarétt og Gálgaklett. Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.
Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.“

Bakkárholt

Bakkárholt – rétt.

Í framangreindri „Lýsingu Ölveshrepps frá 1703“ segir auk þess um Ölfus:
„Annar hreppsins endi er áfastur við Selvog og sundurgreinist á austanverðri Selvogsheiði og allt á sjávarbergið, þar Þrívörður heita, er að skiljast Þorlákshafnar og Ness í Selvogi lönd.
Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorlákvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórián vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítill fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Vestan Varmár liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis.

Búasteinn

Búasteinn.

Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sittnafn öðlazi af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesinnbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita.

Draugatjörn

Sæluhúsið undir Húsmúla.

Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita.

Engidalur

Engidalur – kort.

Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega.

Hengill

Í Hengli.

Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í einn saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vatnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur.

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall – AMC-kort.

Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.“

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703, Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.
-https://timarit.is/page/4319796?iabr=on#page/n59/mode/2up/search/hengill
-Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi, Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Edda Linn Rise, október 2009.
https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_1682.pdf
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-https://www.researchgate.net/profile/Ragnheidur-Gylfadottir/publication/329254548_Adalskraning_fornleifa_i_Olfusi_II/links/5bff1576a6fdcc1b8d49f55e/Adalskraning-fornleifa-i-Oelfusi-II.pdf

Hengill

Í Hengli.

Auðsholt

Í „Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi, Áfangaskýrslu II“ frá árinu 2017 segir m.a. um „Auðsholt, Sogarstein og Auðsholtshelli„:
„30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. “ JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.

Auðsholt

Auðsholt.

„…Auðsholt … standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs. Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa.

Auðsholt

Auðsholt – álfhóll.

Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið í hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.

Sorgarsteinn – þjóðsaga 63°57.013N 21°09.827V:

Ölfus

Sorgarsteinn.

„Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,“ segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli 020. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras. Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.“

Auðsholtshellir – hellir (fjárskýli) 63°56.991N 21°09.409V:

Ölfus

Auðsholtshellir.

„Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,“ segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum.
Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.“

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.

Auðsholt

Auðsholt.

Árnahellir

Í Dagblaðiðinu Vísi árið 2002 er fjallað um friðlýsingu „Árnahellis“ í Ölfusi.

„Árnahellir í Ölfusi friðlýstur:

Árnahellir

Í Árnahelli.

„Einstakar dropasteinsmyndanir á heimsvísu – segir Árni B. Stefánsson sem fann hellinn fyrir 17 árum. Umhverfisráðherra undirritaði í gær friðlýsingu Árnahellis í Leitarhrauni í Ölfusi. Árnahellir er annar hellir landsins sem er friðlýstur með sérstakri friðlýsingu. Árni B. Stefánsson augnlæknir fann hellinn 1985.
Hann er um 150 metra langur og liggur á 20 metra dýpi, breidd hans er um 10 metrar en lágt er til lofts. Það sem gerir hellinn merkan eru mikilfenglegar dropasteinsmyndanir í gólfi hans, allt að metri á hæð og um 7 cm í þvermál. Þétt hraunstrá eru úr lofti hellisins, mislöng, sum um 60 cm löng. Með friðlýsingu hellisins eru ferðir um hann takmarkaðar nema með leyfi Náttúruverndar ríkisins.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Hellinum var lokað með hlera árið 1995 til að takmarka aðgengi í hann vegna sérstöðu hans og viðkvæmra myndana. Þröngt er að komast í hann, þarf að fara niður bratta skriðu og niður um þröngt op í aðalhellinn. Þegar þangað kemur ber fyrir augu framandi veröld sem myndaðist fyrir um 4.600 árum og hefur fengið að vera að mestu ósnortin síðan. Leitarhraun, sem hellirinn er í, rennur í sjó fram í Ölfusi en er sama hraun og rennur niður Elliðaárdalinn í Reykjavík og þar í sjó fram.“

Árnahelli

FERLIRsfélagar framan við op Árnahellis.

Árni B. Stefánsson, sem segist hafa „fundið“ hellinn, sagði við undirritunina að hann hefði lengi haft áhuga fyrir því að finna hella. Hann sagðist hafa notað loftmyndir til að hjálpa sér við leitina og það hefði leitt hann að þessum helli árið 1985.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Árni sagði hellinn einstakan á heimsvísu, hann hefði notið þess að umgangur um hann hefði enginn verið og því hefðu myndanirnar í honum varðveist svo vel. Hann sagðist hafa haft hljótt um hann eftir fundinn en hann hefði spurst út og eftir að dropasteinn fannst í göngunum í hellinn og dropasteinar inni í honum hefðu verið farnir að láta á sjá hefði þurft að gripa til þess neyðarúrræðis að loka honum.“ -NH

Árnahellir

Árnahellir – friðlýsingarkort.

Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Einungis einvala hellaáhugafólk lagði á sig á þessum tíma að skoða hella sem  „Árnahelli“. Hellirinn hafði þá þegar verið þekktur af heimafólki í Ölfusi um langa tíð. Eitthvert þeirra gæti mögulega hafa brotið einn eða annan „dropastein“ af mörgum ferðum sínum inn í hellinn. Allt annað var væmnissíki ráðandi hellaáhugamanna í HERFÍ (Hellarannsóknarfélagi Íslands). Aðrir en hellaáhugaskoðunarfólk bjuggu ekki yfir búnaði á þeim tíma til að leggja út í sérstaka og nákvæma hellaskoðun. Ráðherrann hafði því verið blekktur til friðlýsingarinnar, líkt og gildir um svo margar aðrar slíkar, sem á eftir komu…

Auglýsing um friðlýsingu Árnahellis í Leitahrauni var dags. 25. júlí 2002.

Árnahellir

Í Árnahelli.

Í auglýsingunni segir m.a.: „Að tillögu [Umhverfisstofnunar] og Hellarannsóknafélags Ísland og með samþykki sveitarstjórnar Ölfus hefur umhverfisráðherra ákveðið að friðlýsa hraunhellinn Árnahelli í Leitahrauni sem náttúruvætti í samræmi við 2. tl., 53. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.

Markmið friðlýsingarinnar er að vernda hellinn og einstæðar jarðmyndanir sem í hellinum eru.
Hellirinn er í flokki örfárra hella á jörðinni sem skarta jafn glæsilegum og ósnortnum hraunmyndunum og er náttúrufyrirbæri á heimsvísu.
Umferð um hellinn er eingöngu heimil með sérstöku leyfi Náttúruverndar ríkisins eða þess sem hefur umsjón með náttúruvættinu í umboði stofnunarinnar.“

Heimild:
-Dagblaðið Vísir, 169. tbl. 26.07.2002, Árnahellir í Ölfusi friðlýstur – Einatkar dropasteinsmyndanir á heimsvísu, bls. 2.
arnahellir_591_2002.pdf (ust.is)

Árnahellir

Árnahellir – greinin.

Herdísarvík

Laugardaginn 15. júní 2013, kl 14:00, var afhjúpað minningarskilti um búsetu þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og Hlínar Johnson, síðustu ábúendur í Herdísarvík í Selvogi. Nemendafélagið Grimmhildur, félag HÍ-nemenda (e. mature students) á Hugvísindasviði við Háskóla Íslands, hafði með stuðningi hollvina Herdísarvíkur látið útbúa minningarskiltið.

Einar Ben-229

Sama dag, skömmu síðar, var og afhjúpað örnefna- og minjaskilti sem gönguhópurinn FERLIR hafði veg og vanda að – án þóknunar. Skiltastandurinn var hannaður hjá Martak í Grindavík að beiðni hópsins og myndflöturinn álprentaður hjá Stapaprenti í Keflavík. Á skiltinu er að finna margvíslegan fróðleik sem FERLIR hefur aflað á löngum tíma um staðhætti, tóftir sjóbúða og búskap á jörðinni, bæði með aðstoð örnefnalýsinga og staðbundnum leiðarlýsingum hinna elstu manna, s.s. Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Þórðar Sveinssonar úr Selvogi, er enn muna þá tíð er búskapur var í Herdísarvík. Auk þess veitti Ingólfur Árnason, barnabarn Hlínar góðar upplýsingar um svæðið.

Einar Benediktsson ánafnaði Háskóla Íslands jörðina Herdísarvík, sem í hans tíð var afskekkt. Með tilkomu Suðurstrandarvegar er Herdísarvík komin í alfaraleið. Við það opnast nýir möguleikar til að sinna verndun viðkvæmra sögu- og menningarminja sem þar eru. Uppbygging Herdísarvíkur getur orðið mikilvægt skref í átt til þess að minningu skáldsins sé haldið á lofti.

Á minningarskiltinu má m.a. lesa eftirfarandi: „Hér stendur síðasta heimili þjóðskáldsins Einars Benediktssonar og sómakonunnar Hlínar Johnson. Bæði voru þau sannir heimsborgarar sem fluttu til Herdísarvíkur, í lítið hús við sjóinn í afskektri sveit, þar sem útsærinn er á aðra hönd og klettahamrarnir á hina. Einar ánafnaði Háskóla Íslands jörðina með gjafarbréfi árið 1935.
Einar Benediktsson var fæddur 31. október 1864 að Elliðavatni, sonur hjónanna Benedikts Sveinssonar, sýslumanns og alþingismanns, og Katrínar Einarsdóttur frá Reynistöðum í Skagafirði. Einar nam við Lærða skólann og las síðan lög við Hafnarháskóla. Hann kvæntist Valgerði Zoëga (1881-1955) og varð þeim sex barna auðið. Þau skildu.
Einn þekktastur varð Einar Benediktsson fyrir skáldskap sinn en hann var einnig kunnur sem stórhuga frumkvöðull og lífskúnstner. Hann starfaði sem Hlin johnsson-229lögfræðingur og sýslumaður og var bæði fyrsti dagblaðsútgefandi og fasteignasali á Íslandi. Einar þótti örlátur og gjafmildur gleðinnar maður. Einar Benediktsson hefur verið kallaður „…einhver jötunefldasti andi sem fæðst hefur á Íslandi “ [Guðjón Friðriksson, 2000]. Síðustu átta árin dvaldi hann í Herdísarvík ásamt Hlín. Hér lést hann 12. janúar árið 1940.
Hlín Johnson (f. 16.11.1876, d. 15.10.1965) fæddist að Sandhaugum í Bárðardal. Hún giftist Ingólfi Jónssyni frá Jarlsstöðum í sömu sveit og varð þeim átta barna auðið. Þau skildu. Hlín þótti listagóð saumakona, sem saumaði bæði kven- og  karlmannsföt. Þau Einar og Hlín kynntust árið 1927 og fluttu til Herdísarvíkur í júlí 1932 og tók Hlín við bústjórninni. Hér í Herdísarvík var búskapur með kýr, sauðfé, hænsni og endur. Fiskur var veiddur úr tjörninni og seldur til erlendra sjómanna, ásamt lagnaðarís úr tjörninni sem geymdur var í sérstöku íshúsi [nú horfið] hér á staðnum. Lambakjöt og bleikja var reykt í reykofni og var frægt að gæðum, ekki síður en göróttur landinn sem Hlín bruggaði.
Halldór Laxness lýsti Hlín með þessum orðum: „…lík fornkonu, þolir ekki annað lögmál en sjálfrar sín, og þess vegna fer strandleingjan og fjallið og einveran og úthafið henni best“ [Björn Th. Björnsson]. Hlín bjó í Herdísarvík allt fram um 1960.
Höfundarverk Einars er æði mikið. Eftir hann liggja meðal annarra verka: Sögur og kvæði, Hafblik, Hrannir, Vogar og Hvammar, ásamt þýðingum, ritgerðum og fleiru. Margir íslenskir málshættir eiga rætur sínar í ljóðum Einars“.
Athöfnin var öllum opin. Erindi fluttu m.a. Halldór Blöndal, fyrrum alþingismaður, ráðherra og forseti Alþingis og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra. Komst þeim báðum vel að orði, bæði til minningar um Einar og Hlín sem og tengsl þeirra við Herdísarvíkina á síðustu æviárum skáldsins. Lét Illugi þau orð falla í kjölfar tölu sinnar „að hann væri enn ekki búinn að venjast því að tala sem ráðherra“, en að teknu tilliti til tölunnar lærist honum það vonandi aldrei – því talan var bæði einstaklega einlæg og efnisrík.

Hlin - herdisarvik

Jafnframt var á þessum degi afhjúpað örnefnaskilti í Herdísarvík.
Jóhann Davíðsson hélt „velkomst“ við sögu- og minjaskiltið og bauð síðan Guðrúnu Ásmundsdóttur, leikkonu að afhjúpa það. Að orðum hennar loknum var eins og við manninn mælt; tók þá svo til samstundis sólin að skína með tilheyrandi yl og hlýju.
Jóhann þakkaði sérstaklega Ómari Smára Ármannssyni fyrir hans framlag við gerð uppdráttarins. Sjá upptökuna HÉR.

Herdísarvík

Jóhann við athöfnina.

Í lok formlegrar afhjúpunar leiddi FERLIR stutta göngu um svæðið. Að henni lokinni var boðið upp á kaffihressing í húsi skáldsins og Hlínar.

Frá 1895 til 1927 bjó í Herdísarvík með fjölskyldu sinni Þórarinn Árnason, sonur Árna Gíslasonar stórbónda í Krýsuvík og fyrrum sýslumanns Skaftfellinga. Hafði Þórarinn gagnsamt bú og bjó við rausn að fornum hætti.

Herdísarvík

Ómar Smári Ármannsson við athöfnina.

Árið 1908 eignast Einar skáld Benediktsson Herdísarvík (ásamt Krýsuvík, sem hann átti þó með erlendum mönnum), en mun lítt hafa skipt sér af högum landseta sinna. Árið 1927 leigir hann jörðina Ólafi Þorvaldssyni, síðar kunnum fræðimanni og rithöfundi, sem þar bjó með sinni fjölskyldu fram til 1933 en leigumáli hans var ekki endurnýjaður eftir það. Hafði Ólafi búnast prýðisvel á jörðinni og hefði, að eigin sögn, feginn vfljað vera þar lengur.

Herdísarvík

Guðrún Ásmundsdóttir afhjúpaði minja- og örnefnakort FERLIRs við Herdísarvík.

Í júlímánuði 1932 fluttist eigandi jarðarinnar, Einar Benediktsson, þá viðurkennt höfuðskáld þjóðarinnar með litríkan afhafna- og umsvifaferil að baki, til Herdísarvíkur ásamt sambýliskonu sinni, Hlín Johnson. Hófst þá smíði nýs íbúðarhúss (járnvarins timburhúss) á jörðinni, norðarlega í túninu og allnokkurn spöl frá gamla bænum. Var húsið fullbúið snemma í septembermánuði það ár. Stendur það enn, nú uppgert, og hefur um allmörg ár verið notað sem sumarorlofshús háskólastarfsmanna. Meðan á byggingu hússins stóð höfðust Einar og Hlín við í gamla bænum ásamt fjölskyldu Ólafs, en fluttu síðan inn í húsið nýja jafnskjótt og það varð íbúðarhæft. Yfirsmiður hússins var Sigurður Halldórsson úr Reykjavík, en allt byggingarefni var flutt sjóleiðina frá Reykjavík að Herdísarvík á strandferðaskipinu Skaftfellingi, en síðan á opnum báti frá skipshlið í lendingarvör. Bjuggu þau Einar og Hlín síðan í húsi þessu þar til Einar andaðist 12. janúar 1940, sem fyrr er getið, þá farinn að heilsu og kröftum eins og kunnugt er, en Hlín síðan, mest ein en stundum með aðkeyptri hjálp, nokkuð á annan tug ára, þar til hún brá búi og byggð lagðist af í Herdísarvík.“

Heimild:
-Morgunblaðið 15. janúar 2000, bls. 34-35.

Herdísarvík

Herdísarvík – skilti nemendafélags Grimmhildar.

Hellulofinn

Í Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008 má m.a. lesa eftirfarandi:

Ölkelduháls

Á Ölkelduhálsi.

Í norðvestri liggur Hengilssvæðið nokkuð vestur fyrir Marardal. Þaðan í suður um Bolavelli, vestan Húsmúla. Suður fyrir Húsmúla í átt að Sleggjubeinsdal. Þá suður með StóraReykjafelli að vestanverðu og milli Stakahnjúks og Lakahnjúka. Áfram í suður um StóraMeitil, Eldborg og Litla-Meitil og að norðurhlíðum Krossfjalla. Þaðan til vesturs að Lönguhlíð. Sveigir síðan aftur til norðurs um Sanddalahlíð, Stóra-Sandfell og Lakakróka. Þá til austurs um Hverahlíð í átt að Kambabrún. Frá Kambabrún í suðaustur milli Hveragerðisbæjar og bæjarhúsanna í Vorsabæ. Um land jarðanna Sogns og Gljúfurs að Kaga í Ingólfsfjalli norðaustanverðu. Mörk sveitarfélaganna Ölfus og Grímsnes- og Grafningshrepps liggja um Kaga. Rannsóknarsvæðið fylgir sveitarfélagamörkunum til norðvesturs sunnan Stórahálsfjalls, um Efjumýri, Klóarfjall og á Tröllháls. Þá til vesturs norðan Ölkelduhálshnúks og loks í norðvestur að Hengli og í Marardal.
Svæðið tilheyrir þremur sveitarfélögum, Sveitarfélaginu Ölfusi, Hveragerðisbæ og Grímsnes- og Grafningshreppi. Landfræðilega er það tvískipt, Hellisheiðin og fjalllendið norðan og norðvestan við Hveragerði og láglendið þar sem Hveragerðisbær og bújarðirnar austur af Hveragerði liggja. Jörðin Reykir í Hveragerðisbæ er innan svæðisins. Stórir hlutar jarðarinnar Sogns og nyrsti hluti Gljúfurjarðarinnar í Sveitarfélaginu Ölfusi eru einnig innan svæðisins.

Marardalur (afrétt)

Marardalur

Marardalur.

Marardalur er vestan í Henglinum. Dalurinn hefur einnig verið nefndur Maradalur eða Marárdalur. Talið hefur verið að annað hvort væri nafnið skylt orðinu marflatur, þ.e. flatur eins og sjórinn, eða þá að átt sé við mar = hestur.
Réttir þessar voru í dal, er Marardalur heitir. Hann er vestan undir Henglinum, þar sem hann er hæstur. Dalur þessi er einkennilegur: hömrum girtur á alla vegu og aðeins eitt einstigi eða öllu heldur þröngt hlið inn í hann, sem fært er stórgripum. Í botni dalsins er slétt harðvellisgrund, algróin fíngerðum vallargróðri, á að giska 5-6 hektarar að stærð. Þarna er því að mestu leyti sjálfgerð girðing. Aðeins hefir þurft að hlaða upp í nokkur smáskörð, til að tryggt væri, að engin skepna slyppi út, sem inn var komin. Víða sér glöggt fyrir þessum hleðslum enn, þó að það hafi aldrei verið mikið mannvirki. Nokkrir hellar eru hingað og þangað í berginu umhverfis dalinn. Allir eru þeir nokkuð hátt uppi í hömrunum. Enginn þeirra er stór, en í flestum þeirra sjást einhver mannaverk: hleðslur, ártöl, fangamörk o.þ.h. Einn þessara hella er skammt frá götunni, sem liggur inn í dalinn. Hann var notaður fyrir skýli handa réttarmönnum. Fyrir framan hann hefir verið hlaðinn garður til skjóls. En líklega hefir hleðslan aldrei náð fast upp að berginu, enda hefir þess ekki þurft, því að þótt auðvelt sé fyrir menn að komast upp í hann, þá er hann svo hátt uppi, að nautin hafa ekki gert mönnum þar ónæði. Í dalnum hefir ekki verið tiltök að tjalda, þegar þar voru margir tugir nauta eða jafnvel hundruð, þegar flest var. Norðast í dalnum er lækur, ekki alllítill, og rennur hann suður eftir dalnum nokkurn spöl og hverfur svo niður smátt og smátt. Lækur þessi kemur út úr berginu, að mestu leyti í helli nyrst í dalnum austan megin. Í læknum er tært bergvatn, og þrýtur hann aldrei og frýs ekki, því að þetta er kaldavermsl.
Talið er að hætt hafi verið að hafa naut í Marardal laust fyrir 1860. Ásttæður þeirrar ákvörðunar eru ekki þekktar og ekki vitað um annan stað sem tók við af dalnum í þessum tilgangi.

Marardalur

Marardalur – fyrirhleðslur.

Fornleifarnar sem skráðar voru í Marardal eru þær sem nefndar eru í tilvitnunni hér að ofan, fyrirhleðslur þar sem skepnur gátu komist út úr dalnum og hellisskútar þar sem sjá mátti mannaverk. Í textanum er talað um helli skammt frá götu og fyrir framan hann hlaðinn garð til skjóls. Þessi hellir fannst ekki. Hellirinn er sagður vera austanmegin í Marardal, um 200 m norðan við einu verulega greiðfæru leiðina upp úr dalnum, austanmegin fyrir miðjum dal. Hellirinn fannst þá um 30 m frá merktri gönguleið og um 3 m uppi í hlíðinni.
Grasi gróin brekka upp í skútann og er þar troðinn sneiðingur. Hleðslan er gróin en hellisgólfið er bert. Skútinn sjálfur er um 12 m langur og 3 m djúpur þar sem mest er en hleðslan er 6 m löng og er fyrir norðurhlutanum.
Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (vörslugarður)

Marardalur

Marardalur – vörslugarður.

Marardalur er flatur dalur girtur hömrum á alla vegu. Aðeins er hægt að komast í dalinn með góðu móti á einum stað, austan megin í dalnum. Þar hafa nautin sem höfð voru á beit í dalnum verið rekin um. Á þessum stað eru leifar vörslugarðs. Hleðslan er einföld steinhleðsla. Eftir standa mest 4 – 5 steinaraðir í hleðslunni.
Annan vörslugarð er að finna í norðurenda Marardals, í skarði sem gönguleið liggur nú um. Hlaðið hefur verið fyrir skarðið og standa örfáir steinar eftir af þeirri hleðslu. Mjög bratt er upp í skarðið og litlar líkur á að nautgripir hafi komist þangað upp.
Í vesturhlíð Marardals er lítill helliskúti, um 4 m djúpur. rúmlega 1 m breiður og um 1 m hár. Gróið er framan og neðan við skútann. Steinum hefur verið hlaðið fyrir munnan og standa fjórir þar ennþá.
Í suðurenda Marardals er brekka upp af marflötum botni dalsins. Í brekkunni er stórgrýti og ekki auðvelt uppgöngu. Leifar grjóthleðslu eru milli grjóthnullunganna sem varnað hafa stórgripum að komast þessa leið úr dalnum. Hleðslan er samfelld á um 20 m kafla og liggur í sveigjum niður grasigróna hlíð niður í botn dalsins.

Marardalur (hellir/útilegumannaminjar)

Marardalur

Marardalur – hellisskúti.

Neðan við hellinn er aflíðandi móbergsklöpp. Auðvelt er að komast að hellinum. Hellirinn er um 3 m að dýpt, um 2 m á breidd þar sem hann er breiðastur og um 1,2 m á hæð þar sem hann er hæstur. Fyrir honum er hleðsla sem talsvert hefur hrunið úr og liggur grjótið framan við hellinn. Eftir standa einungis tvær steinaraðir.

Innstidalur (hellir/útilegumannaminjar)

Lýður Björnsson segir frá helli í Innstadal í ársriti Útivistar 1986. Segir hann hellsimunnan blasa við ef gengið er yfir Sleggjubeinsskarð frá skálanum innan við Kolviðarhól og í dalinn. Hellirinn er allhátt í klettunum rétt hjá stórum gufuhver. Leifar af hleðslu eru fyrir hellsimunnanum sem þó er nær alveg hruninn. Lýður fann talsvert af beinum undir hellum í hellinum. Hann dregur þá ályktun að líklegast sé um útilegumannahelli að ræða. Því til staðfestingar bendir hann m.a. á að klettarnir neðan hellismunnans séu verulega torfærir og ræður óvönum klettamönnum frá að freista uppgöngu nema þeir séu vel búnir og í fylgd með sæmilegum klifurmönnum.

Innstidalur

Innstidalur – skúti.

Í Lesbók Morgunblaðsins 29. janúar 1939 skrifaði Þórður Sigurðsson frá Tannastöðum grein um útilegumenn í Henglinum. Frásögnin hefur verið tengd við hellinn í Innstadal. Segir þar frá skipshöfn, 6 eða 7 mönnum, sem dvöldu í hellinum ásamt tveimur huldukonum eftir að hafa framið eitthvert níðingsverk sem ekki er þó vitað hvað var. Stálu þeir sauðfé Ölfusinga og Grafningsmanna sér til matar. Söfnuðu sveitamenn 50 til 60 manna liði og sátu fyrir hellismönnum eitt sinn er þeir komu úr ránsferð. Hellismenn flúðu en voru allir drepnir, ýmist vestan í Henglinum eða niður á Mosfellsheiði.
Í Innstadal er hellir upp í bergi. Mjög bratt er upp í hellinn og illkleift upp í hann. Sögur eru til um að útilegumenn hafi hafst við í hellinum um tíma. Sögur þessar eru frá 18. öld og jafnvel fyrr. Ólafur Briem lýsir hellinum í bók sinni Útilegumenn og auðar tóftir og hefur lýsinguna að hluta eftir frásögn Lýðs Björnssonar á hellinum. Hellirinn er tveggja til þriggja metra djúpur og manngengur að framanverðu. Breiddin er rúmlega tveir metrar. Hleðslur eru fyrir munnann beggja vegna dyra. Þykkar hellur sem kunna að vera úr hleðslunum eru á gólfi og undir þeim hafa fundist bein, mest af stórgripum. Í öðrum dyraveggnum er sögð vera hella sem rís upp á rönd og á henni rista sem líkist galdrastaf. Við vegg hellisins, innan við munnann, er ferstrend hola sem vatn stendur í. Ekki lítur út fyrir að hún hafi verið löguð af mönnum. Engar leifar af eldstæði eða ösku eru í hellinum. Ólafur telur að hellisbúar hafi soðið mat sinn í hvernum neðan við hellinn áður en þeir drógu hann upp til sín. Hellirinn var ekki skráður að þessu sinni.

Draugatjörn (sæluhús)

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhúsatóft.

Sæluhús var á leiðinni milli Ölfuss og Mosfellssveitar við Draugatjörn sunnan Húsmúla.
Varðveitt er heimild um þetta sæluhús frá 1703 í lýsingu Ölfushrepps eftir Hálfdan á Reykjum. Þegar líður fram á 19. öldina er sæluhúsið við Draugatjörn orðið hrörlegt auk þess sem reimt þótti í því svo að margir veigruðu sér við að gista þar. Sæluhúsið var flutt upp á Kolviðarhól árið 1844 eða 1845. Á svæðinu eru nú leifar eftir sæluhúsið, rétt og túngarður. Í nágrenninu eru vörður og þar markar einnig fyrir gömlum götum.
Tóftin er enn sýnileg austan Draugatjarnar á hrauntungu sem þrengir að Bolavöllum og nær norður undir Húsmúla… Þarna fundust merkar minjar við fornleifauppgröft 1958, járnvar af reku til að moka snjó, járnfleygur til að gera vök í tjarnarísinn, flatstein til að kveikja á eldspýtu og bóluglas undir brjóstbirtu, varðveitt í Byggðasafninu á Eyrarbakka.
Það mun hafa verið Skúli Helgason sem gróf í rústir sæluhússins árið 1958. Hann greinir frá uppgreftrinum í bók sinni Saga Kolvirðarhóls. Segir þar að haustið 1958 hafi verið grafið í rústirnar og tóftin hreinsuð. Voru þá liðin 114 ár frá því húsið hafiði verið í notkun. Auk þess sem áður er upptalið af því sem fannst við uppgröftin telur Skúli upp tvo bindinga úr blaði reku; járnfleyga ferkantaða, 9 cm langa; hnapp úr látúni, skreyttan fjögra blaða rós og brot úr brúnu leirkeri, með fagurlega gerðum upphleyptum rósum.

Draugatjörn

Draugatjörn – sæluhús.

Í bókinni Gráskinna hin meiri er frásögn, sem Skúli Skúlason ritstjóri skráði, um draugagang í sæluhúsinu. Segir þar af Grími bónda á Nesjavöllum í Grafningi. Grímurbjó á Nesjavöllum eftir aldamótin 1800. Hann var skytta góð og stundaði rjúpnaveiðar. Fyrir jólin var hann vanur að fara til Reykjavíkur til að selja rjúpur og draga ýmislegt smávegis að heimilinu fyrir hátíðarnar. Fór hann oftast einn í slíkar ferðir og gisti ekki á leiðinni. Í einni slíkri ferð var orðið áliðið þegar Grímur lagði af stað úr Reykjavík. Þegar upp á Hellisheiði kom lenti hann í aftaka veðri og varð því að gista í sæluhúsinu. Honum var þetta þvert um geð því aðbúnaður var slæmur í húsinu og svo var hitt að Grímur var myrkfælinn en reimt þótti í sæluhúsinu. Höfðu þrír menn orðið úti þar skammt frá nokkrum árum áður og sóttu þeir að mönnum sem leituðu þar húsa svo illfært þótti að gista þar nema þá margir saman. Grímur gekk frá hesti sínum og fór inn í húsið. Lokaði hann hurðinni og lagði trédrumb að henni. Hundur hans lagðist fram á lappir sér innan við hurðina. Grímur lagðist síðan í bálka í suðurenda kofans með byssu sína sér við hlið.Um síðir tókst honum að sofna en hrökk svo upp við mannamál sem heyrðist utan úr ofviðrinu. Hélt hann fyrst að þar væru komnir ferðamenn og varð félagsskapnum feginn. En þegar raddirnar færðust nær sæluhúsinu kannaðist Grímur við málróm þeirra. Heyrði hann að þar voru komnir mennirnir, sem höfðu orðið úti. Grímur hafði þekkt þá alla. Grímur þeif til byssu sinnar og tók fingrum um gikkinn. Var þá hurðinni hrundið upp svo að hundurinn sem við hana lá flaug vælandi í vegginn andspænis henni. Grímur sá engan koma inn úr dyrunum en áður en varði fannst honum samt sem fullt væri orðið af fólki í kofanum. Virtist Grími sem fólkið væri komið til að sækja gleðskap því mikið var talað og dátt hlegið. Grímur sá þó engan og fann ekkert. Eftir að hafa starað í myrkrið langa stund sá Grímur tvo lýsandi depla í einu kofahorninu, líkasta glóðarkögglum. Urðu þeir brátt sem mannsaugu sem færðust nær Grími og störðu á hann mjög illkvitnislega. Þegar augun voru komin að bjálkabrúninni hjá Grími hleypti hann af byssu sinn og miðaði á augun. Hvarf þá sýnin og var eins og kofinn tæmdist. Grímur reis á fætur og fór að dyrunum. Hurðin var óbrotin en hundurinn lá steinrotaður inn við vegg. Varð nú allt kyrrt um sinn en ekki gat Grímur sofnað. Eftir alllanga stund heyrði Grímur mannamál í fjarska sem fyrr og sama atburðarás endurtekur sig. Nú var Grími nóg boðið. Eftir að hafa aftur skotið af byssu sinni náði hann til hests síns í flýti og reið á brott. Hann komst við illan leik Tóft sæluhússins er uppá hól. Hún er 7,4 m á lengd og 6 m á breidd, op (dyr) snýr í suðvestur. Tóftin er úr torfi og grjóti og er grasi- og mosavaxin. Nokkuð hefur hrunið úr hleðslum inn í tóftina. Upp við tóftina, norðaustan við hana, er ógreinileg dæld nokkur sem hugsanlega er gerð af manna völdum, og gæti jafnvel verið leifar lítillrar byggingar, geymslu eða eitthvað þess háttar. Um 60 m vestan við sæluhúsið hefur legið vörðuð leið NV-SA og voru mældar upp sex vörður á þessari leið.

Draugatjörn (rétt)

Draugatjörn

Draugatjörn – rétt.

Um 140 m í NNV frá sæluhúsinu er grjóthlaðin rétt, utan í hraunhól. Mosi og skófir er á steinum í hleðslunum. Réttin er ferhyrnd, 21 m á lengd og 16 m á breidd. Í suðaustur horni réttarinnar er lítið hólf, 7 x 7 m. Op á rétt og hólfi snýr í norðvestur. Um 8 m langur veggur liggur frá NV-horni réttarinnar. Upp á hraunhólnum er grjóthlaðin varða, um 0,7 m á hæð, nokkuð hrunin. Varðan er nokkuð úr hinni vörðuðu leið sem liggur við sæluhúsið og því sú ályktun dregin að hún eigi fremur að leiða menn að réttinni.
Á milli sæluhússins og réttarinnar liggur um 60 m grjóthlaðið garðlag í N-S. Garðlagið er ógreinilegra en réttin en líklegt verður að teljast að þessar minjar tengist á einhvern hátt.
Annar grjóthlaðinn garður, um 430 á lengd liggur vestan og norðan með Draugatjörninni. Þessi garður er öllu greinilegri enda fer hæð hans upp í 1,2 m á hæð á köflum. Réttin og stóri garðurinn virðast yngri en sæluhúsið og því sett hér upp sem önnur minjaheild en auðvitað gætu ábúendur á Kolviðarhóli hafa viðhaldið réttinni og garðlögum í kring eftir að sæluhúsið leið undir lok.

Kolviðarhóll  (býli/sæluhús)

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Á 19. öld var gert átak í því að bæta samgöngur á Hellisheiði. Fyrsta skrefið var að flytja sæluhúsið úr Svínahrauni og upp á Kolviðarhól. Er talið að þetta hafi verið gert á árunum 1844-1845. Þessi flutningur var gerður til þess að menn ættu auðveldara með að finna sæluhúsið og þar með fækkaði slysum á mönnum. Spýtur voru nýttar úr gamla kofanum við mismikinn fögnuð manna því sumir trúðu því að þeim fylgdi eitthvað óhreint enda talið mjög reimt í gamla sæluhúsinu. Húsið var timburhús á hlöðnum sökkli. Í því mun hafa verið svefnpláss fyrir 24 menn og einnig var skjól fyrir 16 hesta. Þetta sæluhús á Kolviðarhóli var í notkun í um 30 ár.
Árið 1877 hófst bygging á nýju sæluhúsi á Kolviðarhóli. Nokkuð hafði verið kvartað yfir því að eldra húsið væri orðið lélegt. Ferðamenn töluðu um að slæmt væri að vera þar í vondum vetrarveðrum “því hríðargusurnar geyfi inn um gátt og rjáfur.” Hugmyndin með nýja húsinu var einnig að bæta þjónustuna við ferðamenn, þ.e. að reka gistiaðstöðu og greiðasölu og skyldi gestgjafi búa á staðnum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll 1907.

Húsið var að mestu fullgert um haustið 1877. Stærð þess var 10×11 álnir að utanmáli. Veggir voru tvíhlaðnir (utan og innan) úr höggnu grjóti, er lagt var í steinlím, sem þá var reyndar kalk. Á því var port um eina alin á hæð og gott ris. Herbergjaskipan var þannig: Fyrst var komið inn í rúmgóða forstofu, og úr henni lá stiginn upp á loftið. Þá voru 2 herbergi og eldhús með eldavél; ofn var í öðru herbergi. Uppi á lofti voru 2 herbergi, annað fyrir ferðamenn, en hitt notað fyrir geymslu. Húsið var að innan klætt timbri í hólf og gólf. Á því voru 6 gluggar, 4 á veggjum og 2 á lofti; voru þeir allir í 6 rúðu fagi. Mjög var til byggingarinnar vandað á allan hátt, eftir því sem föng voru á á þeirri tíð.
Búskapur var tekin upp á Kolviðarhóli jafnframt því sem þar var rekin gistiaðstaða og greiðasala. Skepnum fjölgaði og útihús voru reist. Um árabil var rekið myndarlegt bú á Kolviðarhóli. Jón nokkur Jónsson bjó á Kolviðarhóli á árunum 1883-1895. Hann hóf að rækta tún á Kolviðarhóli og girti með hlöðnum grjótgarði. Guðni Þorbergsson, tengdasonur Jóns, tók við búskapnum og bjó á Kolviðarhóli til ársins 1906. Guðni stóð í töluverðum framkvæmdum á staðnum, hann stækkaði og sléttaði túnin og viðhélt túngarðinum.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – sæluhús 1844.

Með betri vegum og hraðskreiðari farartækjum minnkaði þörfin á slíkri ferðaþjónustu á þessum stað. Veitingarekstur á Kolviðarhóli lognaðist út af fyrir 1950 og árið 1977 lét Reykjavíkurborg jafna húsin á Kolviðarhóli við jörðu. Bæjarstæði Kolviðarhóls stendur norðan Reykjafells, neðan við Hellisskarð. Leifar síðustu húsanna á Kolviðarhóli eru enn sýnilegar, nokkuð sérstakar að gerð en þar ægir ýmsu byggingarefni saman; torfi og grjóti, tilhöggnu hleðslugrjóti og steinsteypu. Veggir minna norðvestur-hólfsins eru steinsteyptir en einnig má finna steinsteypu milli gangsins og miðjuhólfsins í suðaustur-hlutanum. Efri hluti hússins (SA-hlutinn) er 22,5 m x 16 m að stærð og liggur NA-SV. Neðri hlutinn (NV-hlutinn) er um 19 m x 10 m og liggur NV-SA. Að öllum líkindum er sá hluti yngri viðbygging.
Um 4,5 m SA af húsarústunum er að finna leifar ferkantaðar byggingar, um 7 m x 7 m að stærð. Minjarnar eru mjög ógreinilegar en það mótar fyrir hlöðnu, tilhöggnu grjóti. Vegghæð er lítil, einungis um 10 cm. Spurning hvort hér séu ekki leifar sæluhússins frá 1844. Fast upp við þessar húsaleifar, suðvestan megin, eru tvær dældir sem hugsanlega eru leifar einhverra mannvirkja sem tengjast húsaleifunum. Þetta eru grunnar, grónar dældir um 10 cm á dýpt. Um 12,5 m SA af húsarústunum er illgreinanleg, gróin tóft, um 4,5 m x 3,5 m að stærð og liggur NV-SA. Þetta hefur verið einhvers konar kofi, kannski geymsla eða eitthvað þess háttar. Vegghæð er lítil, einungis um 20 cm. Um 19 m ANA frá þessari tóft er leifar steinsteyptrar byggingar. Veggir og þak hafa hrunið og því erfitt að gera sér grein fyrir lögun hússins, sérstaklega innra formi. Stærð hússins hefur verið um 6 m x 7 m og liggur NV-SA. Um 50 m suður af megin húsarústum er heimagrafreitur með steinsteyptum garði í kring. Garðurinn er um 5 m x 5 m að stærð og veggir um 30 cm að þykkt. Grafreitur þessi er 20. aldar mannvirki. Grjóthlaðinn túngarður liggur frá NV-hluta húsarústa, niður með götu og myndar þannig heimtröð að hluta. Svo liggur garðurinn utan um túnin. Engan garð var þó hægt að greina norðan megin, þ.e. austan við götuna. Garðurinn er í ágætu ástandi og vegghæð fer upp í 1,2 m á kafla. Þó er greinilegt að farið hefur verið í gegnum garðinn með einhverja lögn á suðaustur hlið.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll.

Útihúsin frá Kolviðarhóli liggja um 220 m NA frá bæjarstæðinu, norðan við bílveginn. Nyrðst er garðlag um 23 m á lengd sem liggur A-V. Garðurinn er grjóthlaðinn, um 1,3 m á hæð þar sem hann er hæstur og um 0,7 m á breidd. Mosi og skófir eru á steinum.
Austarlega á garðinum er lítil tóft utan í (norðan við) garðlaginu. Tóftin er um 4,5 m x 4,5 m að stærð, ferhyrnt með op í vestur. Hún er að mestu grjóthlaðin ogmosi og skófir á steinum. Vegghæð er mest um 0,4 m. Beint suður (um 40 m) af þessri tóft er önnur nokkuð stærri. Tóftin er um 14 m x 9,5 m að stærð og liggur NNV-SSA, op snýr í SSA. Hún er að mestu grjóthlaðin en nýlegt hrun má sjá úr veggjum. Um 30 m vestar er tveggja hólfa tóft. Tóftin er að mestu úr torfi og grjóti en nyðra hólfið er með steinsteypta innri veggi. Hún er um 7 m x 5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op snýr í SA.

Kolviðarhóll

Kolviðarhóll – tóftir.

Um 16 m sunnar er lítil tóft, um 4 m x 3,5 m að stærð og liggur NNA-SSV, op í SSV. Tóftin er úr torfi og grjóti með 30 cm breiða steinsteypta innri veggi.
Sunnan við Neðraskarð er Reykjafell. Norðan í því er Dauðidalur; í honum er fjárrétt. Réttin er norðvestan undir Hádegishnúki, austanmegin í þurrum gilskorningi sem hlykkjast niður úr Dauðadal. Réttin er hlaðin í brattri brekku neðantil í grjóthól, en neðan við réttina er dæld þar sem leysingavatn rennur. Grasi gróið er inni í réttinni og í kringum hana en rofmoldir eru um 30 m neðan við dældina og enn fjær eru mosaþembur. Einfaldar, fremur óvandaðar hleðslur byggðar ofan á náttúrulega sandsteinsdranga, og eru þær mest 6 umför. Réttin skiptist í tvö hólf sem bæði hafa op til vesturs. Réttin sést frá veginum að Kolviðarhóli.

Búasteinn (sögustaður)

Búasteinn

Búasteinn.

Búasteinn er um 500 m austnorðaustur af bæjarstæði Kolviðarhóls. Hér átti Kolviður frá Elliðavatni að hafa fallið ásamt 11 öðrum fyrir Búa frá Esjubergi. Segir frá þessum atburðum í Kjalnesinga sögu. Hér er um að ræða stóran stein, norðan megin í Hellisskarði, upp í hlíðinni. Engin eiginleg mannvirki er þarna finna með tilvísun í söguna. En um 20 m norðar eru leifar palls sem tengist skíðaiðkun á staðnum á 20. öld.

Hellurnar (sæluhús/vörður)

Hin forni vegur milli Ölfuss og Mosfellssveitar lá að Kambabrún, austan við Hurðarásinn, sjónhending á skarðið við norðaustur enda Reykjafells. Lá vegurinn þar niður af Hellisheiði um Hellisskarð, yfir Bolavelli, vestur með húsmúla, niður með norðurbrún Svínahrauns, hjá Lyklafelli og var þá komið í byggð hjá Elliðakoti (Helliskoti) og Vilborgarkoti (nú eyðijörð) í Mosfellssveit.

Hellukofinn

Hellukofinn.

Austur frá Reykjafelli eru Hellurnar, eru þær sléttar klappir, liggja yfir þær djúpar götur eftir hestafætur. Sanna göturnar að yfir þessar sléttu klappir hefur umferð verið allt frá fyrstu byggð hér á landi. Að þeirri framkvæmd stóð Gísli hreppstjóri Eyjólfsson á Vötnum í Ölvesi, d. 1866. En kofann reisti Þórður Erlendsson, síðast bóndi á Tannastöðum, d. 1872. Bygging þessi var með nokkuð sérstæðum hætti, enda unnin af manni, sem var orðlagður byggingamaður og snillingur í öllum handtökum. Kofinn er að innanverðu niður við gólf ferhyrndur og jafn á allar hliðar, 1,85 m. Á hvern veg og 2 m undir loft, mælt af miðju gólfi. Þegar veggir taka að hækka, hringmyndast hleðslan og gengur að mestu saman í þakinu, en því er lokað með geysistórri hraunhellu. Þakið er mosagróið mjög, og hafa vaxið upp úr því puntustrá á víð og dreif. Dyrnar eru 60 cm. Breiðar og 1 m á hæð. Þröskuldurinn er hár, því upp á hann að innanverðu eru 40 cm. Veggir eru svo þykkir, að kofinn er hringmyndaður séður að utan, og að norðanverðu er hann sem hraunhóll, enda hlaðinn allur úr fallegu hellugrjóti. Engin spýta er í byggingu þessari, og má hún heita einstæð í sinni röð. Kofinn var byggður á áratugnum 1830 -1840 og hefur nú staðið óhaggaður á aðra öld. Hann stendur á bungumyndaðri hraunklöpp, á hægri hönd, örskammt frá hinum forna vegi, þegar farið er suður, við fertugustu og fimmtu vörðu, talið austan að.
Hellukofinn og gamla þjóðleiðin yfir Hellisheiðina eru friðlýstar fornleifar. Þór Magnússon, þáverandi þjóðminjavörður, friðlýsti þessar minjar.
Gatan er víða sýnileg á heiðinni, bæði norðan núverandi þjóðvegar en einnig sunnan hans þegar austar dregur. Hún þverar þjóðveginn nærri þeim stað þar sem háspennulínur fara yfir hann. Þar sem rásin er greinanleg í klöppinni er hún víðast um 30 – 40 cm breið og 5 – 10 cm djúp. Sumsstaðar má sjá tvær og jafnvel þrjár samsíða rásir í klöppinni. Sunnanvert á miðri heiðinni var á árunum 1830 – 1840 byggður steinhlaðinn kofi til skjóls fyrir þá sem leið áttu um heiðina í vondum veðrum. Kofin fékk nafnið Hellukofinn. Vörður eru við götuna frá Hellukofanum og í austur. Þær fylgja götunni í fyrstu en víkja frá hinni sýnilegur rás til norðurs þegar austar dregur. Ástæður þessa munu vera þær að fyrir nokkrum áratugum voru vörður meðfram leiðinni enduhlaðnar og nýjum bætt við en svo virðist sem menn hafi ekki vitað hvar gamla gatan lá þegar austar dró.

Eiríksbrú (vegagerð)

Eiríksbrú

Eiríksbrú (Eiríksvegur).

Árið 1875 voru sett lög um vegi á alþingi. Landssjóður átti að sjá um og annast útgjöld af vegum sem lágu milli byggða og sýslna. Vegur var lagður um Svínahraun á árunum 1877 og 1888. Í reglugerð var sagt að að vegurinn skyldi vera 10 feta breiður (3,13 m), upphlaðinn og púkkaður með grjóti. Lestir áttu að geta mæst á veginum en hestvagnaumferð var ekki höfð í huga við hönnun hans. Eiríkur Ásmundsson frá Grjótá sá um vegagerðina. Hann tók einnig að sér að leggja veg um Kamba árið 1879.
Vegurinn um Kamba þótti of brattur og því lítið notaður. 15 árum síðar var lagður annar vegur um Kambana. Árið 1880 hélt Eiríkur áfram vegagerð og lagði þá veginn vestur yfir eystri hluta Hellisheiðar. Þessi vegur var um 4-5 km, beinn og vel gerður. Vegurinn var kenndur við hann og kallaður Eiríksbrú.
Samkvæmt heimildarmanni, Birni Pálssyni, má finna leifar hestaskjóls suðaustan undir þjóðvegi 1 og sunnan Eiríksbrúar og gömlu þjóðgötunnar. Hestaskjól þetta var notað þegar Eiríksbrú var gerð árið 1879. Vegurinn var víða upphlaðinn og púkkaður með grjóti, um 2-3 m breiður. Leifar hans eru sýnilegar á nokkurm stöðum á heiðinni og í Kömbum.
Grjóthlaðin tóft er um 50 m suðaustan undir núverandi þjóðvegi ofan við Hamarinn og er hér líklega um hestaskjólið eða aðhaldið sem Björn Pálsson nefnir. Það er byggt úr hraungrýti ofan á litlum hraunhól, um 19,8m x 9,3 m að stærð og liggur sem næst A-V. Inngangur hefur verið við vesturenda tóftarinnar. Mosavaxin að mestu að austanverðu en hleðslan er sýnileg að vestanverðu. Lyngvaxnir móar í kring.

Þjóðleið frá lokum 19. aldar

Hellisheiðarvegur

Hellisheiðarvegur.

Nýr vagnfær vegur var lagður niður Kamba árið 1894 og sama ár hófst lagning vegar fyrir Hellisheiðina. Þeirri vegagerð lauk árið 1895. Komst nú talsverður skriður á vegagerð, einkum á flutningabraut nr. 1, austur í Rangárvallasýslu. Fór og að gæta áhrifa landsverkfræðings, Sigurðar Thoroddsen. Hann hafði, að loknu námi í Kaupmannahöfn 1891, fengið ferðastyrk frá alþingi til þess að fara til Noregs og kynna sér vega- og brúargerðir, og dvaldist hann þar til vors 1893.
Við nýlagningu vegarins austur lét Sigurður færa veginn frá hinu bratta og óvagnfæra Hellisskarði, og sveigði veginn suður fyrir Reykjarfell um Hveradali. Hellisheiðarvegurinn, sem lagður var á þessum árum var, að undirstöðu til, að mestu, leyti, utan nokkurra styttri kafla, svo sem í Smiðjulaut, sá sami og var þjóðvegur allt fram til hausts 1972, er hraðbraut með bundnu slitlagi var tekin í notkun litlu norðar.
Sigurður mældi fyrir veginum upp Kamba og varð úr að miða við dráttargetu hesta, enda voru 18 „hárnálarbeygjur“ á þeirri löngu brekku og breyting mikil frá vegi Eiríks frá Grjótá. Þótti ýmsum sem vegur þessi væri undur mikið. Brautin frá Reykjavík og austur í Svínahraun hafði verið lögð á árunum 1886-1892, og vegurinn um Ölfusið að mestu lagður 1892, sem áður segir. Kambavegur var lagður 1894 og sama ár var byrjað á Hellisheiðarveginum og lokið við hann árið eftir. Árið 1895 var því kominn að kalla óslitinn vagnfær vegur úr Reykjavík austur yfir Ölfusárbrú. Vegurinn er hvergi sýnilegur í upprunalegri mynd enda notaður til 1972 og því marg endurbættur. Leifar vegar í þessari sömu legu má þó sjá, bæði uppi á heiðinni og eins austan við hana. Hlykkjóttar beygjur í Kömbunum sem eiga uppruna sinn í þessum vegi voru færðar inn á loftmynd.

Þrengslavegur

Þrengslasevegur

Þrengslavegur.

Þrengslavegur lá frá Neðri Hveradalabrekku suður með Gráuhnúkum að vestan, vestan Meitla og suður að Meitiltagli syðst í Litla-Meitli. Leiðin hefur verið greið og ekki hætt við að menn villtust á henni enda fylgir hún fjallshlíðunum.
Þrengslavegurinn gamli lá út af þjóðveginum neðan við Neðri-Hveradalabrekku og áfram suður með Gráuhnúkum að vestan. Er Þrengslahnúkur á vinstri hönd, þegar sú leið er farin austur í Ölfus. Skarðið milli Gráuhnúka og Lambafells heitir Þrengsli þar sem þar er þrengst.
Í desember árið 1921 varð Guðbjartur Gestsson frá Hamri á Múlanesi úti á þessari leið. Hans var leitað um veturinn og einnig sumarið eftir en fannst ekki. Sextán árum síðar fann Valdimar Jóhannsson líkamsleifar Guðbjarts ásamt smíðatólum hans og peningum við bjarg undir Gráhnúk. Vegurinn er sýnilegur á grónum grundum í nágrenni Þorlákshafnarsels og eins í kverkinni milli Svínahrauns og Gráuhnúka þar sem hann er troðin slóð í mosavöxnu hrauninu. Leiðin var rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni.

Lágaskarðsvegur (Sanddalaleið)

Lakastígur

Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur lá frá Hveradalaflöt um Lágaskarð og Sanddali til Þorlákshafnar og í Selvog. Annað afbrigði þessa vegar lá um Lakadal norðan Stóra-Sandfells. Leiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði allt þar til akvegur var gerður yfir heiðina.
Norður af Lambafellshrauni er Lambafell, sunnan við það er Stakihnúkur, er hann hjá Lágaskarði. Eftir skarðinu liggur Lága-skarðsvegur. Vestan við veginn er Stóri-Meitill, hjá honum er Meitilflöt.
Lágaskarðsvegur liggur austan við Stóradal, um Hellur og Lágaskarð, skarðið milli StóraSandfells og Stóra-Meitils. Það er sennilega sama leiðin sem Hálfdan Jónsson [1703] nefnir Sanddalaveg. Meðfram Lágaskarðsvegi. Þar sem hann liggur norður frá Hellum, er klettabrík eða „gangur“ sem kallast Lákastígur, nýlegt nafn. Svo virðist sem svokölluð Sanddalaleið hafi greinst frá Lágaskarðsvegi suðaustan við Lágaskarð og legið til suðausturs í átt að Hjalla.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd og skoðuð á korti. Hún er merkt inn á loftmyndina í samræmi við legu hennar á korti frá dönsku kortastofnunni sem gert var af dönskum landmælingamönnum á fyrstu áratugum 20. aldar. Leiðin var vandlega skoðuð af Birnu Lárusdóttur starfsmanni Fornleifastofnunar Íslands árið 2007 og grein gerð fyrir þeirri athugun í skýrslu um fornleifakönnun vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana við Litla-Meitil og Gráuhnúka. Í skýrslunni kemur fram að lítið sjáist til götunnar fyrr en norðan Lágaskarðs. Eftir að komið er fram hjá Þrengsla- og Lágaskarðshnúkum fundust merki um tvær leiðir að Lágaskarði. Önnur lá upp að rótum Stóra-Meitils að norðvestanverðu, um djúpan dal sem þar er. Þar vottar fyrir götuslóða og eins er greinilegur troðningur í malarbakka upp úr dal sem Birna telur sennilegast að sé syðsti hluti Stóradals. Hin leiðin lá austar. Slóð sést austan í malarhrygg sem liggur út frá Stóra-Meitli. Þessi slóði liggur beint að slóðinni í Hellunum svonefndu í Lágaskarði.
Leiðirnar sameinast í Lágaskraði. Þar er leiðin skýr og í skarðinu eru fimm vörður. Norðan við nyrstu vörðuna er rás í klapparhelluna sem bendir til að þarna hafi verið farið um í langan tíma. Slóðin er einföld, 10 – 15 cm breið og mest um 5 cm djúp. Slóðin er ekki samfelld en sést hér og þar á löngum kafla. Þar sem ekki eru rásir er leiðin engu að síður greinileg því þar er enginn mosi né annar gróður sem þó þekur hraunið allt í kring.
Leiðin er gott dæmi um veg sem væntanlega hefur verið notaður í nokkrar aldir. Hún er ekki uppbyggð eða rudd en hefur myndast við troðning hesta og manna. Leiðin er á kafla mótuð í klöpp. Slíkar götur sýna svo ekki verður um villst að um þær hafa hestar og menn farið um aldir og hafa því í mörgum tilfellum meira upplifunargildi en troðningar sem myndast hafa í grónu landi. Mikilvægt er að varðveita þá hluta leiðarinnar sem enn eru sýnilegir.
Leiðin Milli Hrauns og hlíðar lá um Hellisskarð, austur með Stóra-Skarðsmýrarfjalli að sunnanverðu, um Hengladali og áfram austur í Grafning.
Austur frá Hellunum er Orrustuhólshraun og Orrustuhóll. Hraunið er sunnan undir StóraSkarðsmýrarfjalli. Austur með fjallinu er vegurinn milli hrauns og hlíðar. Leiðin virðist hafa verið notuð fram á 20. öld. Vitað er er Hagavíkurmenn í Grafningi létu bílsenda vörur að Kolviðarhóli um 1940 og báru þær þaðan á sjálfum sér milli hrauns og hlíða til Hagavíkur sem mun vera um 17 km leið.
Leiðin var ekki skoðuð á vettvangi en rakin á loftmynd. Er færð inn á loftmyndina sem heil lína þó ekki sjáist allsstaðar marka fyrir henni á myndinni. Í skýrslu Fornleifastofnunar Íslands er leiðinni vel lýst. Þar segir að gatan sjáist enn nokkuð víða en yfirleitt ekki nema sem einfaldur stígur, nú kindatroðningur. Gatan virðist víðast hvar horfin undir yngri veg. Hún sést norðan við Skarðsmýri þar sem hún liggur yfir hálsa sem eru samfastir Litla-Skarðsmýrarfjalli. Hún er óglögg í mýrunum norðan Hengladalaár en sést glöggt í Svínahlíð austast í Fremstadal. Þaðn má svo rekja hana næstum alla leið á Brúnkollublett nyrðri.

Vörðuð leið

Hellisheiði

Hellisheiði – vörðuð leið.

Vörðuð leið liggur frá norðurhlíðum Skarðsmýrarfjalla, til suðausturs að þeim stað þar sem neyðarskýli stóð áður við þjóðveg 1. Þar kemur leiðin inn á hina fornu leið, Hellurnar, sem gengur yfir heiðina frá vestri til austurs. Vörðurnar, sem liggja með leiðinni, voru hlaðnar árið 1983 af skátum úr Reykjavík. Eftir að þjóðvegurinn var færður norðar á heiðinni um 1970 varð þetta gönguleið þvert yfir heiðina.
Leiðin er slóði sem markast hefur í mosavaxið hraunið undan fótum manna. Vörður eru með um 50 m millibili meðfram leiðinni. Þær eru flestar um 1,5 m í þvermál og um 1-1,5 m á hæð.

Skógarmannavegur (leið)

Hellisheiði

Hellisheiði – götur.

Skógarmannavegur, Skógargata eða Suðurferðagata sameinaðist leiðinni Milli hrauns og hlíðar í Fremstadal undir Svínahlíð. Lá þaðan um Smjörþýfi að Þurá.
Úr Hjallasókn austanverðri var fjölfarin leið á Hellisheiði. Heitir hún Suðurferðagata. Hún liggur milli Háaleita, hjá Hlíðarhorni, og þaðan austur á þjóðveginn rétt fyrir vestan loftið, hjá 40-km steininum. Ennfremur lá gata inn með Hverahlíðinni að Einbúa, og frá honum norður á þjóðveginn, austan við Láguhlíð.
Leiðin var farin þar til vagnfær leið var rudd af þjóðveginum fyrir neðan Kamba út í Hjallasókn. Það mun hafa verið upp úr 1910. Leiðin er víða sýnileg undir Hverahlíð norðan Skálafells og eins austan við fjallið. Um er að ræða u.þ.b. 30 cm rásir í grasigrónu landi. Rásirnar liggja víða nokkrar samsíða og eru sumsstaðar allt að 30 til 40 cm djúpar. Leiðinni var ekki fylgt á vettvangi en lega hennar skoðuð á loftmynd.

Orrustuhóll (rétt)

Orrustuhóll

Orrustuhóll – minjar.

Í bókinni Göngur og réttir er fjallað um réttir við Orustuhól. Þar segir að gömul munnmæli hermi að Mosfellssveitarmenn og Ölfusingar hafi haft sameiginlega rétt á Helluheiði eins og hún er kölluð. Þegar Mosfellingar vildu ekki lengur sækja réttir í land Ölfusinga kviknaði fyrst rígur en síðan fullur fjandskapur milli manna í sveitarfélögunum sem endaði með því að þeir börðust í réttunum. Heitir þar Orustuhóll og Orustuhólshraun frá þessum tímum og voru réttirnar kallaðar Orustuhólsréttir upp frá því. Í bókinni segir jafnframt að rústir réttanna sjáist ekki lengur enda hafi Hengladalaáin gegnum aldir borið sand og möl upp á bakka sína og þannig flýtt fyrir því að leifar af réttum þessum hyrfu í jörðu. Svo er þó að sjá sem réttirnar hafi verið sýnilegar árið 1878. Þórður Sigurðsson, sem ritar um Orustuhólsrétt í Göngur og réttir, segir í frásögn sinni frá því að það ár hafi honum verið sýndar rústir réttanna. Hafi þá séð vel fyrir þeim þó skröð væru komin í vegghleðslur. Bæði mátti greina almenning og dilka, suma allstóra. Almenningsdyr snéru í átt að Hengli.
Suðvestan við Orrustuhól er hraungjá. Þar er ætlað að meint rétt hafi verið. Í gjánni er grjóthrúga, 10,6m x 3,2m, liggur NNV-SSA. Líklega er þetta veggur sá sem talin er hafa myndað aðhald í gjánni en erfitt er, ef ekki ómögulegt, að segja um hvort mannaverk sé þar á, þetta gæti allt eins verið hrun.

Áveita

Áveita

Áveituskurður.

Í örnefnalýsingu Eiríks Einarssonar fyrir Hellisheiðina segir að um margra ára bil eða áratuga skeið, í kringum aldamótin 1900, hafi Hengladalaá verið veitt vestur í hraun um sláttinn til að koma í veg fyrir heyskaða af völdum flóða úr ánni. Stífla var gerð í ána sunnan við Smjörþýfi og Orustuhólshraun og henni veitt vestur á Hellisheiði. Brú var gerð yfir farveginn sem kölluð var Loft.
Um 480 m austur af Orustuhól eru áveituskurðir sem liggja austur í Hengladalaá. Hér er um 20. aldar mannvirki að ræða. Stóri skurðurinn sem er um 278 m á lengd, 12 m á breidd og 0,5m á dýpt er án vafa vélgrafinn. Einn skurður sem er 82m á lengd og 6m á breidd liggur norður úr þeim stóra. Annar minni skurður, 36m á lengd og 2m á breidd, liggur suður úr þeim stóra. Líklega eru þessi minni skurðir eldri og gætu verið handgrafnir.

Innbruni (byrgi)

Innbruni

Innbruni – byrgi.

Engar heimildir hafa fundist um þessi byrgi.
Milli Litla-Meitils og Sanddalahlíðar liggur hraunbreiða sem nefnist Innbruni. Í hrauninu, nær Sanddalahlíðinni eru tvö byrgi. Syðra byrgið er grjóthlaðið, 3m x 2,7m að stærð og liggur NV-SA með op í NV. Breidd veggja er um 0,8m. Um 38 m NV af fyrrnefndu byrgi er önnur álíka grjóthlaðin tóft. Hún er um 3m x 2,1m, skeifulaga með op í vestur.
Þessi staður verður að teljast undarleg staðsetning fyrir fjárskýli, smalakofa og þess háttar. Ekki er að finna stingandi strá né vatn við þennan stað. Mögulega gæti því veriðum einhvers konar skotbyrgi að ræða fyrir t.d. refaskyttur en nánari heimildir vantar til að skera úr um það.

Litli-Meitli (rétt/aðhald)

Litli-Meitill

Litli-Meitill – aðhald.

Eiríkur Einarsson skrifaði grein í 1. tbl. Farfuglsins árið 1975 sem hann nefndi Örnefni á afrétti Hjallasóknar í Ölfusi. Þar segir hann frá fjárrétt í svoköllðum Kvíum sem notuð var við vorsmalanir. Kvíar eru hvilft í hrauninu austan Meitilflatar sem er stór grasflöt suðaustan undir Syðra-Meitli sem væntanlega er sama fjall og Litli-Meitill.
Þór Vigfússon skrifar um Árnesþing vestanvert í Árbók Ferðafélags Íslands 2003. Þar talar hann um grjóthleðslurnar í Kvíum og að mannvirkið hafi verið notað til rúnings í vorsmalamennsku.
Vestan við hraunbreiðuna Innbruna, og austan við Litla-Meitil er stór náttúruleg skál eða sprunga með grasi grónum botni. Myndar afar hentugt aðhald og hefur verið góður áfangastaður. Suðvestan í sprungunni, utan í klettavegg er lítill, L-laga veggur sem myndar aðhald eða litla rétt. Veggurinn er 4,2m x 6 m með op í suður. Breidd veggja er um 1m. Mannvirkið er ekki fornlegt að sjá og hefur augljóslega verið viðhaldið á síðari tímum. Meira að segja má sjá að sums staðar hefur froðueinangrun verið sprautað á milli steinanna.
Um 82 m SSV er hringlaga eldstæði, úr einfaldri steinaröð sem Fornleifastofnun Íslands hefur skráð sem fornleifar. Hér er dregið í efa að eldstæðið sé það gamalt að það flokkist til fornleifa, enda megi sjá nýlega brenndar spýtur þar.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi.

Sagt er að frá fornu fari hafi jörðin Þorlákshöfn átt selstöðu á jörðinni Breiðabólstað sem á móti hafði skipsuppsátur í Þorlákshöfn í vertíðum. Ekki er ljóst hversu gamalt selið er en minnst er á það í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns sem tekin var saman í byrjun 18. aldar. Í Sögu Þorlákshafnar sem kom út 1988 er selinu lýst svo: Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd. Fyrir sunnan aðalhúsið er sérstakt hús, um 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.
Rústirnar voru friðlýstar af þáverandi þjóðminjaverði, Þór Magnússyni, 21. janúar 1976. Friðlýsingunni var þinglýst 16. júní árið eftir.
Vestan undir Votakletti, austan við akveg, eru friðlýstu fornleifarnar. Syðst er grjóthlaðinn veggur sem liggur utan í móbergskletti (austan í honum). Veggurinn er um 8,5m x 2,9 m að stærð, liggur N-S með op í suður, breidd veggja um 1,5 m. Eflaust er hér um einhvers konar aðhald fyrir skepnur að ræða.
Um 65 m NA af þessu aðhaldi eru megin-seltóftirnar. Þær liggja vestan undir Votakletti.
Um 570 m NNV af seltóftunum, við Hrafnaklett, er lítil steinhleðsla um 1,5 m x 1,4 m að stærð. Líklega er um vörðubrot að ræða, hlaðin úr sandsteini. Smá mosi er á steinum en hleðslan virðist yngri en seltóftirnar.

Ölkelduhálsrétt (rétt)

Ölkelduháls

Ölkelduháls – rétt.

Á skilti sem sett hefur verið upp við réttina eru upplýsingar um hana. Ölkelduhálsrétt var byggð vorið 1908 og var í notkun eitthvað fram yfir 1930. Hún mun hafa verið notuð til vorsmölunar. Þrisvar var smalað í réttina á hverju vori. Fyrst var geldfé smalað, þá var smalað til mörkunar og síðast til rúnings.
Ölkelduhálsrétt liggur vestarlega í lægð á milli Ölkelduhálss og Ölkelduhnúks, svolítið vestar en Ölkelduhnúk sleppir. Um 100 ma austan við réttina er stór leirhver og í honum ljósgrár bullandi leir. Akfær vegur liggur upp í skarðið milli Ölkelduháls og Ölkelduhnúks. Hann sveigir til suðurs þegar niður úr skarðinu kemur. Réttin er um 100 m sunnan og austan við veginn þar sem hann hlykkjast niður hlíðina. Á veginum í hlíðinni er hlið sem myndað er af tveimur járnstólpum. Réttin er um 100 m austur af hliðinu. Réttin stendur á grýttum bala sem hallar til vesturs. Gras og mosi er á milli steina. Hún er 25,8 m x 18,4 m að stærð og liggur NV-SA. Réttin skiptist í þrjú hólf. Eitt hólfanna er lang stærst. Minni hólfin eru byggð utan í stóra hólfið, annað við suðaustur horn stóra hólfsins en hitt norður af stóra hólfinu. Réttin er hlaðin úr grágrýtissteinum sem eru 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslan er að mestu hrunin og víðast standa aðeins 1 – 3 hleðsluraðir. Inni í minni hólfunum er gras og mosi en stóra hólfið er að mestu moldar eða leirflekkur. Veggir aðalhólfisns og austurhólfsins eru 40 – 80 cm háir en veggir norðurhólfsins nokkru lægri eða 10 – 30 cm. Ekki er opið milli hólfanna og engin sýnilegur inngangur er í litlu hólfin. Inngangur hefur verið í norðvestur-hlið stóra hólfsins.

Öxnalækjarsel (sel)

Öxnalækjarsel

Öxnalækjarsel.

Öxnalækjar-Seldalur liggur austan i Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum u-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla. Dalurinn er ofan við veginn á þessum kafla. Dalurinn, eða gilið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 50 m breiður. Neðarlega í honum liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.
Austur af Þjóðveginum niður Kamba, suðvestan svokallaðra Árhólma eru örnefnin Neðrasnið og Efrasnið. Þar mun hafa legið gata sem tengdist ferðum til Öxnalækjarsels og ferðum að Hengladalaá.

Öxnarlækjarsel

Öxnalækjarsel.

Dalurinn liggur í austur-vestur, tvær tóftir liggja utan í norðurhlíð dalsins og tvær í suðurhlíðinni. Nyrst og vestast er lítil tóft, um 5,3m x 4,7m að stærð, grasi gróin og mosavaxin. Tóftin liggur utan í mosavaxinni hraunbrún sem myndar eitt vegg mannvirkisins. Op í austur. Glittir í hleðslusteina i veggjum. Um 4m austar er önnur tóft, 7,4m x 5,6m að stærð. Hún liggur NA-SV með op á NV-langhlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin. Það glittir í stöku steina í veggjum. Vegghæð er um 50 cm. Um 27 m í NNA, hinum megin í þessum litla dal er þriðja tóftin og sú stærsta. Hún er 9,5 m x 6,5 m að stærð, liggur sem næst A-V, með inngangi á suðurhlið. Greina má þrjú hólf. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin.
Vestan við dalinn má greina götubút, um 58m á lengd sem liggur A-V og hefur vísast legið að selinu. Ekki er ólíklegt að finna megi fleiri vísbendingar um þessa götu.

Lambabyrgi (fjárskjól)

Lambabyrgi

Lambabyrgi.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar eru leifar lambabyrgis á Hraunbrúninni, “norðaustan við Nikulásar-tóft.” 46 Lambabyrgi er byggt í ofanverðri hraunbrún sem er um 3 – 4 m há. Niður undan byrginu er grasi gróin brekka.
Tóftin er staðsett um 80 – 100 m suður af malarvegi sem liggur inn að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Hún er rúma 100 m SA við Nikulásartóft. Tóftin er 10 m x 6 m, liggur V-S. Vegghæð er um 1 m og inngangur í A-enda. Nokkrum trjáhríslum hefur verið plantað í mólendið neðan við hraunbrúnina. Hlaðið úr hraungrjóti sem er 10 – 50 cm í þvermál. Hleðslurnar standa vel.

Nikulásartóft (fjárskjól)

Nikulásartóft

Nikulásartóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Vorsabæjar er Nikulásartóft leifar af sauðahúsi Nikulásar Gíslasonar, bónda í Vorsabæ. Tóftin stendur upp á Hraunbrúninni en svo var brúnin á hrauninu vestan Vallarins kölluð.
Nikulás Gíslason var fæddur á Kröggólfsstöðum árið 1833. Hann giftist Ragnheiði Diðriksdóttur árið 1872. Þau bjuggu á Krossi frá 1874 til 1881 og í Vorsabæ 1883 til 1900. Nikulás dó 1. ágúst 1905.

Hofmannaflöt

Hofmannaflöt – tóft.

Nikulásartóft stendur ofan á hraunkanti, nærri brún hans, um 100 m suðvestan við malarvegi sem, liggur að hesthúsahverfi Hvergerðinga. Umhverfis tóftina er hraun vaxið mosa og lyngi. Furutrjám hefur verið plantað í nágrenni tóftarinnar. Tóftin er hlaðin úr hraungrýti. Inngangur hefur verið á SA-gafli. Vegghæð er um 60 cm. Botn tóftarinnar er grasi vaxin en veggir vaxnir mosa og lyngi.

Hofmannaflöt (fjárskýli)

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Hofmannaflöt slétt flöt sem var slegin en þar voru fjárhús í seinni tíð.
Hofmannaflöt er norðan við Hengladalaá skammt vestur þar af sem Grændalsá rennur í hana. Flötin er nokkuð stór, rennislétt og hallar svolítið til suðurs. Á henni miðri er ferhyrnd grjóthlaðin tóft sem minnir meira á gerði en fjárhús. Tóftin er 10,4 m x 8,8 m að stærð og snýr NA-SV. Ekki er mikið eftir af grjóthleðslunni. Inngangur er austan megin á suðvesturgafli. Í suðurenda tóftarinnar, til hliðar við innganginn er hrúga af steinum og gamall gaddavír.

Stekkatún (fjárskýli)

Stekkatún

Stekkatún – tóft.

Samkvæmt örnefnaskrá Reykjakots er Stekkatún grónar brekkur austan í litlu gili. Þar voru sauðahús frá Reykjakoti sem enn megi sjá leifar af. Til eru frásagnir um að á þessu svæði hafi verið býlið Grændalsvellir en það hafi verið komið í eyði árið 1703. Leifar Grændalsvalla hafa aldrei fundist en sú tilgáta hefur verið uppi að Stekkatún og Grændalsvellir séu sami staðurinn.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að Grændalsvellir hafi verið hjáleiga frá Reykjum. Þar hófst búskapur í lok 17. aldar en stóð aðeins í fjögur ár. Eftir að jörðin fór í eyði var hún notuð fyrir stekkatún frá Reykjakoti. Landskuld af hjáleigunni var Sunnan úr Dalfelli gengur rani sem liggur með fram Grændalsá í um 50 – 100 m fjarlægð frá ánni. Raninn mjókkar mikið í endann. Ofan á rananum er grasi vaxinn bali en bæði norðan og sunnan megin eru brattar brekkur út af rananum, um 5 – 10 m háar. Fremst á rananum þar sem hann er því sem næst láréttur eru þrjár tóftir. Engin þessara tófta né aðrar á svæðinu líkist bæjarhúsatóftum svo hafi bær einhvern tíma staðið á Stekkatúni þá eru rústir hans horfnar.

Stekkatún

Stekkatún – tóftir.

Löng og mjó tóft liggur fremst á rananum. Vesturendi hennar og hluti suðurhliðar er horfinn en við tekur snarbrött brekka. Tóftin er algerlega vaxin grasi. Brekkan er grasi vaxin svo ekki sér í rof og virðist því langt síðan brotnaði af tóftinni. Hún er 9,6m x 6,4m að stærð, liggur NA-SV, op í SV. Vegghæð er mest 40 cm. Um 1,7 m norðaustar er önnur tóft, ferhyrnt, 6,8 m x 5,1 m að stærð og liggur NA-SV. Engin inngangur er greinanlegur en greina má hvilt í miðju tóftarinnar. Hún er mjög grasi gróin.
Um 2 m NV er þriðja tóftin. Hún er 6,8 m x 6,8 m að stærð, nánast hringlaga. Enginn inngangur er greinanlegur. Tóftin virðist yngri en hinar tvær, t.d. er vegghæð hennar nokkuð meiri eða 1m og greina má steinahleðslu að innanverðu.

Vesturmúli

Vesturmúli – tóft.

Um 28,6 m í NA er fjórða tóftin, 13,6 m x 7,6 m að stærð og liggur NNA-SSV. Eitt hólf og með inngangur á SSV-hlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinhleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð um 0,8-1 m. Um 10,6 m SAA er fimmta tóftin. Hún er 11,4 m x 7,5 m að stærð, liggur sem næst N-S. Inngangur hefur verið vestan megin á langhlið. Tóftin er grasi gróin en greina má steinahleðslur í veggjum að innanverðu. Vegghæð 0,8-1 m.

Vesturmúli (fjárskýli)

Engar heimildir hafa fundist um þessar tóftir.
Undir Vesturmúla sem er vestan í Tindum eru tvær tóftir sem byggðar hafa verið inn í grasbrekkuna. Nyrðri tóftin er um 80 m suðaustur af Grændalsá en sú syðri um 300 m NNA af hesthúsahverfi Hvergerðinga. Um 340 m eru á milli tóftanna.
Tóft sem er norðar liggur í graslendi neðst í brekkufætinum undir múlanum. Hún er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurlanghliðina. Þar ofan á liggur reiðvegur. Tóftin er 11 x 7 m að utanmáli. Veggir hennar eru útflattir, um 3 – 4 m á breidd. Um 4 m breitt op snýr í vestsuðvestur. Um 340 m SSA er önnur tóft. Hún liggur líkt og hin í brekkufætinum og er grafin inn í brekkuna þannig að brekkan myndar austurhlið hennar. Tóftin er beint undir kletti sem er sá neðsti í þessari hlíð múlans. Rafmagnsgirðing liggur vestan við rústina, meðfram hlíðinni og alveg við tóftina. Tóftin er á kafi í grasi. Tóftinni er skipt í tvö hólf. Eitt aðalhólf en út frá því liggur langt og mjótt hólf til suðurs. Hún er um 12 m x 7,4 m að stærð og inngangur í suðurenda.

Reykjafjall (fjárskýli)

Reykjafjall

Reykjafjall – tóftir.

Undir vesturhlíð Reykjafjalls eru nokkrar tóftir útihúsa sem ekki virðast mjög gamlar. Engar beinar heimildir hafa fundist um þessar tóftir en þær tengjast örugglega búskap á svæðinu á 19. og jafnvel 20. öld. Nyrsta tóftin er í grasi gróinni brekku undir hlíðum Reykjafjalls, um 100 m fyrir ofan skólahús garðyrkjuskólans. Kringum tóftina eru timburraftar og bárujárn. Tóftin er 14,3 m x 5 m, liggur SV-NA og er með tvö hólf. Inngangur er á SV-skammhlið en einnig á langhlið. Hún er grasi gróin en hreinsað hefur verið utan af steinhleðslum að innanverðu. Nýleg klömbruhleðsla er í vesturenda tóftarinnar og virðist hún notuð við kennslu eða æfinga í hleðslutækni.

Stórkonugil (fjárskýli)

Stórkonugil

Stórkonugil – tóftir.

Neðst í fjallshlíðinni, við Stórkonugil, sem liggur upp frá húsum Náttúrulækningafélags Íslands eru þrjár tóftir. Syðsta tóftin (nr. 780) er á milli reiðstígs og göngustígs. Tvö afhýsi eða hólf eru byggð utan í þessa tóft. Tóftin er 11,7 m x 10,4 m að stærð og vegghæð um 1,4 m. Sérinngangur eru inn í öll hólfin, sem sagt tveir inngangar að SV og einn á NV-hlið.
Um 40m NV, vestan gilsins, stendur tvíhólfa tóft. Hún er 10,3 m x 7.9 m að stærð og vegghæð um 1 m. Göngustígur liggur við hana að austanverðu. Gengið er inn í bæði hólfin að suðvestanverðu. Syðri langveggurinn á syðra hólfinu er byggður úr tveimur stórum steinum, um 1 m í þvermál. Þriðja tóftin liggur um 10 m norðar og ofar í brekkunni. Hún er 11 m x 6,8 m og liggur NA-SV. Inngangur er á SV-hlið, vegghæð um 1m. Göngustígurinn liggur milli tóftanna. Ofan við þriðju tóftina og til hliðanna vaxa grenitré. Greinar þeirra eru vaxnar yfir veggi tóftarinnar. Allar eru tóftirnar hlaðnar úr grágrýti og grasi vaxnar þó vel sjáist í steinhleðslurnar.

Leið og minjar í kringum Stekkjarhól austan Hveragerðis

Stekkjarhóll

Stekkjarhóll – tóftir.

Eftirfarandi upplýsingar um Múlagötu eru fengnar úr gögnum frá Birni Pálssyni skjalaverði á Hérðasskjalasafni Árnesinga. Múlagata er forn leið sem fer af götunni milli Sogns og Reykja í Múla-kvos. Gatan er í austurjaðri Eystri-Múla, um 25-30 m frá merkjum. Gatan krækir fyrir suðurenda Eystri-Múla, aðeins til norðurs yfir Vallagil. Líklega hefur verið ein aðalgatan en einnig eru merki um aðra götu. Gatan er greinileg skömmu áður en komið er nyrst á Stekkjahól og þaðan að Miðhól en nyrst í honum er hún grópuð í móbergið. Liggur niður með vesturjaðri Miðhóls og hefur mætt, neðan hans, götu frá Klifinu til Torfeyrar.

Eystri-Múli

Eystri-Múli – fjárhústóft.

Í örnefnaskrá er einnig minnst á þessar götur en auk þess er minnst á stekk við Kross-Stekkatún og Grænutættur sem er þýfður mót vestan Kliflækjar. Leiðin er mælanleg frá veginum að Ölfusborgum, skammt norðan vegamóta hans og þjóðvegar nr. 1. Leiðin er austan við vegin að Ölfusborgum. Hún var mæld frá þessum stað og upp að götunni milli Sogns og Reykja. Nokkur hluti þeirrar leiðar, í átt að Sogni, var einnig mældur inn. Sú leið liggur meðfram nýlegum reiðstíg undir Mið-Múla og Eystri-Múla en hverfur undir reiðstíginn þegar kemur nær Sogni. Múlagata liggur að miklu leyti í votu graslendi og víða eru 3-4 samhliða rásir á henni. Á völlunum suður af Vallagili eru þústir sem hugsanleg gætu verið leifar mannvirkja.

Eystri-Múli (fjárskýli)

Sunnan Eystri-Múla er Vallagil og Krossstekkjatún. Í gilinu austanverðu er stekkjartóft. Vestan tóftarinnar er lækur en austan hennar klettur. Tóftin er ferhyrnd, hlaðin úr grjóti. Hún er 4,6m x 5,5m að stærð og liggur N-S. Gras hefur gróið yfir hana en þó sést víða í steina í hleðslunni sem er um 50 – 70 cm há. Dyr hafa verið í suðausturhorni. Garðlag (nr. 740) gengur norður úr tóftinni. Garðlagið er 4,2 m á lengd og 0,4m á breidd. Vegghæð um 20-40 cm. Það er einnig hlaðið úr grjóti og nú vaxið grasi.
Á þýfðum grasbala rétt suðaustan við Múlagötu þar sem hún liggur austan við suðurenda Eystri-Múla er tóft. Tóftin er 8,3 m x 5,7 m að stærð og liggur NA-SV. Hún er með tvö hólf og inngangur á suðurhlið. Tóftin er á kafi í grasi en þó sést móta ágætlega fyrir veggjum hennar og formi enda vegghæð mest um 0,6 m.

Sogn i Ölfusi (býli)

Sogn

Sogn – fornleifar.

Ekki er vitað hvenær Sogn byggðist en til eru heimildir um jörðin frá 1542. Þann 11. janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns kemur fram að árið 1708 var jarðardýrleiki Sogns tuttugu hundruð. Eigandi jarðarinnar var þá Andrés Finnbogason lögréttumaður en ábúandi Hávarður Þórðarson. Landskuld var 100 álnir og greiddist í gildum landaurum til landsdrottins. Leigukúgildi voru 5 og voru greidd í smjöri til Kröggólfsstaða þar sem eigandi jarðarinnar bjó. Búfénaður var nokkur þar á meðal 7 kýr, 30 ær, 26 sauðir og 28 lömb. Þá átti bóndi 4 hesta og eitt folald.
Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni.55 Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn.
Samkvæmt örnefnaskrá og Kristjáni Einarssyni starfsmanni á Réttargeðdeildinni á Sogni, sem ólst upp á Gljúfri, eru eftirfarandi minjar að finna á rannsóknarsvæðinu innan landamerkja Sogns: Stóri-Hellir er hellir fyrir ofan Hellisbrekku sem var notaður sem fjárhús og rétt. Gat tekið um 100 kindur í innrekstri. Litli-Hellir var lítill hellir undir stóru bjargi sem notaður var sem fjárhús. Á austurbakka Trippalækjar var kofi sem kallaður var Trippakofi.

Sogn

Sogn – Stóri-Hellir.

Hesthús stóðu á gilbarmi, norðvestur af Hesthúsflöt. Stekkatún er lítill hóll austan við götuna á syðri gilbarminum en þar eiga að vera leifar stekks. Stóri-Einbúi eða Einbúinn er klettahóll í Einbúamýri. Þar var gott skjól fyrir skepnur en þar bjó einnig huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er þessi frásögn: Einhverju sinni gekk maður frá Hjalla í Ölfusi upp að Gljúfri. Gekk hann hjá steini þeim enum háa er stendur fyrir vestan Sogn. Heyrir hann þá söng í steininum og er þar sunginn sálmur úr Grallaranum „Á guð alleina“. Heyrir hann sálminn sunginn til enda og eigi meira og fer hann þá leiðar sinnar. Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni.
Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 4 5 m í þvermál.
Um 33 m vestur af bæjarhólnum eru leifar hesthúss, um 5,8 m x 3,9 m að stærð og vegghæð um 1,3 m. Rústin snýr NV-SA með op í SA-horni, á langhlið. Hesthúsið hefur verið byggt inn í gilbarminn vestan við Trippalæk. Tóft þess sést enn. Hún er nokkurn vegin á móts við veg sem liggur niður að læknum frá heimreiðinni að húsi Réttargeðdeildarinnar. Veggirnir eru hlaðnir úr gjóti og má víða sjá steinsteypu á milli steinanna.
Um 68 m NNV af hesthússrústunum er lítil kofatóft, um 3,2 m x 2,5 m að stærð, liggur NV-SA, skeifulaga með op í SA. Líklega er hér um Trippakofann að ræða sem nefndur er í örnefnalýsingunni. Tóftin stendur á smá grasbala í gili sem Trippalækur fellur um. Kofinn stendur alveg við lækinn. Hún er grasi vaxin og lækurinn er farinn að naga svolítið af henni.
Um 95m ofar (NV) í brekkunni er leifar nýlegrar byggingar. Um er að ræða mosavaxna dæld með helðslu í kring úr vikursteini. Rústin er um 10,7 m x 5,3m að stærð og liggur ANA-VSV.

Sogn

Sogn – Litli-Hellir.

73,5 m SV af þessari byggingarrúst og um 95,5 m vestur af Trippakofanum er tóft upp í grasi gróinni brekku, vestan við Trippalæk. Lýsingin passar við ærhúsið. Mosa- og grasivaxin tóft. Greina má stalla meðfram veggjum sem líklega eru garðar. Veggir hafa verið úr torfi og grjóti og greina má vel um sex raðir hleðslusteina í veggjum. Tóftin er 11,2 m x 11,3 m að stærð og liggur NV-SA og vegghæð mest um 1,2 m. Tvö hólf eru á tóftinni með sitthvorum innganginum sem snúa báðir í SA. Ekki fundust leifar lamhúsanna sem getið er um í örnefnalýsingu að hafi átt að vera fyrir neðan þessa tóft.
Litli-Hellir er um 80 sunnan við þessa þyrpingu. Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4 m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli. Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð. Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.
Um 140m SV (í loftlínu), við enda múlans/fjallsins er tóft. Hér er, miðað við lýsingu, um stekk að ræða en gæti allt eins verið um skepnuhús ef horft er á lögun tóftarinnar. Hún er grasi gróin, á litlum hól norðan við lítinn læk. Vegur eða reiðstígur hefur verið lagður utan í hólinn. Tóftin er 11,4m x 10,8m að stærð, tvö hólf og inngangur á NA-hlið. Vegghæð um 1m. Svo virðist sem veðrast hafi af austurenda tóftarinnar.
Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn. Hann er um 70 m x 50 m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið.

Kot í landi Sogns (býli)

Sogn

Sogn – kot.

Bærinn Kot stóð undir fjallshlíðinni um 170 m vestan við bæjarhól Sogns. Þar bjó Eyjólfur Símonarson. Vitað er að bærinn var í byggð árið 1896. Þar má sjá leifar heyhlöðu. Í brekkunni, norðan við Kot stóðu ærhús en neðar, við brekkufótinn, voru lambhús.
Greinilegustu fornleifarnar er lítil tóft, 6,6m x 6,4m að stærð, eitt hólf og inngangur á SA-hlið. Tóftin er grasi gróin og mosavaxin en greina má enn hleðslugrjót í veggjum. Vegghæð er mest 0,8 m. Fast upp við tóftina, rétt fyrir ofan hana er ógreinileg, grasi gróin, þúst með smá hvilft í miðju. Hugsanlega náttúrulegt fyrirbæri. Engir steinar greinanlegir. Þústin er um 5,8 m x 5,2 m að stærð. Um 10 m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7 m x 9 m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.

Bakkárholtssel (sel)

Bakkárholtssel

Bakkárholtssel.

Samkvæmt örnefnaskrá fyrir Sogn er selstaða frá Bakkárholti, norðvestan við Sogna, í Seldal. Selstöðu höfðu ábúendur Bakkárholt í skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur þessi virðist vera fallin niður í byrjun 18. aldar vegna “vannota” ábúenda Bakkárholts.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns segir að jörðin Sogn eigi engjaítak í Bakkárholtslandi, austan og vestan við gamla farveg árinnar Varmár. Ekki er minnst á selstöðu Bakkarárholts í landi Sogns.
Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina. Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa. Syðri tóftin er 7,2 m x 5 m að stærð, liggur NV-SA, með einu hólfi og inngangi á NV-hlið. Við SA-horn tóftarinnar er lítil þúst, 3,6 m x 2 m að stærð, sem annað hvort er lítið útskot eða hólf.
Um 2-3m NV er önnur tóft. Tengt henni er hólf eða garður sem gengur í boga út frá suðurenda rústarinnar. Við norðurenda rústarinnar er bil milli garðisns og hennar og gæti þar hafa verið inngangur í hólfið. Inngangur hefur verið í rústina sjálfa í norðurendanum.

Sognsel (sel)

Sognsel

Sognsel.

Samkvæmt örnefnaskrá er gróið dalverpi, suðaustur af Selás og suður af ármótum Gljúfurár og Selár. Heitir dalverpið Sognsseldalur vestan Gljúfurár en Gljúfursseldalur að austanverðu. Sogn átti þarna selstöðu en einnig eru frásagnir til af því að heyjað hafi verið þar upp frá.
Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá flöt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin er 8,5 m x 4,1 m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2 m í NV er önnur tóft á litlum grasi vöxnum hól. Hún er 9,2 m x 7,3 m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8 m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6 m x 6 m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.
Milli bæjarins Gljúfar og selsins, nánar til tekið um 600 m SA af selinu, er lítil grjóthlaðin varða upp á móbergshæð. Hún er um 0,8 m á hæð. Greina má mosa og skófir á steinum. Ekki er gott að segja hvort varðan sé í tengslum við ferðir upp í selið en ekki er ólíklegt að hún tengist fremur ferðum ábúenda á Gljúfri upp á afréttinn.

Heimild:
-Fornleifaskráningu af „Hengli og umhverfi“ frá árinu 2008.

Hellisheiði

Gata um Helluna á Hellisheiði.

Ölfus

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla III“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Alviðru, Tannastaði, Laugarbakka, Fjall, Árbæ, Þórustaði, Hvoll, Kirkjuferju, Kotströnd, Gljúfur og Sogn, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:

Alviðra (býli)

Ölfus

Alviðra.

“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 389.
1847: 12 hdr, bændaeign.
1487: Árið 1487 selur Hálfdan Nikulásarson Guðmundi Einarssyni jörðina Alviðru í Ölfusi fyrir jörðina Egilsstaði í Flóa. DI VI, 589.
“Alviðra er austasti bær í Ölfusi, nær land að hreppamörkum, við land Torfastaða í Grafningi […] Landamerki: Norðan, úr Prestatanga við Sogið, bein lína í Hádegisholt, þaðan í Hádegisholtseggjar,
þaðan lína í Inghól. Sunnan: úr Miðmarkasteini á Hrútasteinatanga við Sogið, bein lína til fjalls, yfir Tannastaðadali í Inghólshæðir uppi á Ingólfsfjalli. Austan: Sogið.” Jörðin er sameiginleg eign Landverndar og Héraðsnefndar Árnesinga frá 1. febrúar 1973. Íbúðarhúsið er í útleigu en jörðin er ekki nýtt að öðru leyti.
1912: Tún 6.6 ha, þar af c.9/10 slétt. Garðar 1545 m2.

Ölfus

Alviðra.

“Bærinn stendur á sama stað og hefir staðið í manna minnum,” segir í örnefnaskrá. Bærinn í Alviðru er sýndur á túnakorti frá 1920, nánast í miðju túninu. Öll mannvirki sem eru sýnd á túnakortinu eru horfin.
Bæjarhóllinn er mikið raskaður vegna bygginga, samt er enn hægt að greina hluta hans á yfirborði til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs, heygarður var þar í brekku niður af holtinu sem bærinn er á. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún. Þau eru komin í órækt og ekki slegin síðustu ár. Fyrir sunnan núverandi útihús er kálgarður, þar er enn rabarbari að hluta. Fyrir austan hólinn er bakgarður núverandi íbúðarhúss. Þar er mikið af trjám. Bæjarhóllinn er um 40×30 m að stærð og snýr suðaustur-norðvestur. Núverandi íbúðarhús er í austurhluta bæjarhólsins. Fyrir sunnan bæinn var kál- og heygarður samkvæmt túnakorti. Vesturhluti bæjarhólsins er undir úthúsum sem byggð voru um miðja 20. öld. Fyrir sunnan útihúsin sést móta fyrir kanti en mikill gróður var á svæðinu þegar skrásetjari var á ferðinni og hann illgreinilegur. Kanturinn og fjarar svo út til norðurs. Þar er malarplan og núverandi heimreið að bænum. Kálgarðurinn er sunnan við kantinn og ekki sýndur á túnakortinu. Hann er 29×9 m að stærð, L-laga og veggirnir eru 2 m á breidd. Þeir mjókka upp og eru algrónir. Aðrar hliðar kálgarðsins eru horfnar. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð. Það glittir í 1-2 umför af grjóti í botninum. Ekki er langt síðan ræktun var hætt í kálgarðinum.

Inghóll (legstaður)

Ölfus

Inghóll.

Í mörkum á milli Hvamms og Alviðru er hóll sem Inghóll heitir, hár hóll, sérkennilegur, jafn vaxinn. Er af sumum talinn 200 faðmar að ummáli við rætur. Hann er í laginu sem uppmokaður haugur, ólíkur öllum hólum og hæðum sem eru á Ingólfsfjalli. Það er hlaðin grjótvarða á kolli hans. Hann er gerður að mestu úr klöppum og urðargrjóti og ekki líklegt, að menn hafi hlaðið hann upp nema að litlu leyti,» segir í örnefnalýsingu.
1641-42: “Kveðið ex tempore yfi r haug Ingólfs landnámsmanns, að skipun biskups Brynjólfs, meðan hinir aðrir þénarar hlóðu vörðu yfi r haugnum: Stóð af steindu smíði/staður fornmanns hlaðinn/hlóðu af herrans boði/heiðiteikn yfi r leiði;/haugur var hár og fagur/hrundin saman á grundu,/en draugur simmur og magur/drundi björgum undir.” Stefán Ólafsson: Kvæði I, Kaupmannahöfn 1885, s. 73.
1703: “Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámsmanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosa vaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvern hann lét mæla.” Halfdan Jónsson, Lýsing Ölfushrepps, SSÁ, 245.
Um 1750: “Udi Arness-Syssel imod Sydost paa Ingolfsfjeld ligger Ingolf den forste Landnamsmand begraven. Hans Hoj og Gravsted er hojt og stort, som klarligen kan sees af omrejsende Folk, so færdes om Olveset, eller og osterlig i Flooen.” Jón Ólafsson frá Grunnavík, Antiqvariske Annaler II, 185-86.
1821: “Ingholl eda Ingolfs Arnarsonar Haugur; kallast mikid stór griothóll sem stendur nockud vestar enn uppa midiu sokólludu Ingolfsfi alli; og er þess hærsti toppur. Vic: lógmadur E. Olafsson, hefr i hans R[ejse]besk[rivelse] sídara parti p:849 skrifad umm þessa Holls stærd. Líkur eru a því; eptir þvi sem su annars mistriggilega Ármans Saga ummgietur; ad Jngolfur Arnarson, sem bio a Reikium i Ólvesi; gamall og blindur þegar Armann kom ut hingad – hafi utvalid sér Legstad i þessum efsta toppi Jngolfsfi alls sem Sionar holi; hvadann hann gat yferlitid allt Olvesid og miklu fl eiri Hieród; umm Jngolf Singur Egiert i Mánamali – “nemur hatt vid Ský haugnuandi – … Sógusógn almuga umm Jngolf er su ad hann hafi latid þræla sina tvo sem nefndust Kagi og Kallbakur og þionustu Stulku sem nefndist Ýma bera giersemar sínar og fi armuni skómmu fyrir sitt andlat uppi Jnghól og grafa þær þar inni. – hafi sidann drepid óll þessi hiu so þau ecki giætu fra sagt ecki er ad óllu olíkleg sagann; þvi Órnefni ber Jngolfsfi all eptir þessumm Hiuumm, þarsem Jngolfur Hefdi att ad fyrirkoma þeim t d Jmu Skard, Kaga Gil og Kallbakur.“ FF I, 223-24.
1840: “Uppi á norðanverðu fjalli þessu er hóll, er kallast Inghóll, og er það almæli, að þar sé heygður Ingólfur landnámsmaður, er fjallið dregur nafn af. Hóllinn er ei mjög stór ummáls og ei merkilegur, ei heldur auðsén á honum mannaverk.” SSÁ, 195.

Ölfus

Inghóll.

1873: “Á miðri langri bungu háfjallsins er hóll, – sjáanlegur frá öllum hliðum fjallsins nema að norðan – alveg eins og fornmannshaugur að lögun og einnig stærð að því er virðist; tilsýndar er útlitslíking furðulega mikil; hóllinn nefnist Inghóll. Segir almenn sögn að þar sé heygður Ingólfur fyrsti landnámsmaður Íslands. Sögnin er allgömul, Þórðarbók – og eitthvað svipað virðist gefið í skyn í Hauksbók – bætir viðtexta Landnámu (45) um Ingólf: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá”, orðunum “þar sem sumir menn segja að hann sé heygður”; … Auðvelt er að komast á fjallið að norðan og að hólnum, og er talið að þá megi sjá, að hann er aðeins gerður af klöpp, grjóti og möl, og öll gerð hans sýnir að hann er náttúrusmíð.”
1898: “Inghóll, eða eiginlega Ingólfshóll, heitir hóll sá á Ingólfsfjalli, sem almennt hefir verið álitinn haugur Ingólfs. Á hann að hafa sagt fyrir að jarða sig þar … bað eg Kolbein bónda Guðmundsson í Hlíð í Grafningi, sem eg vissi að hafði skoðað hólinn, að láta mig fá lýsingu á honum, og gjörði hann það góðfúlsega. Svo segir í bréfi hans: “Hóllinn er sporöskjumyndaður, flatur að ofan og liggur í norður og suður. Hann er um 55 fet á lengd og 35 fet á breidd að ofan. Á hæð er hann um 40 fet. Alstaðar hallar því nær jafnt út af honum. Mannaverk verða engin séð á hólnum nema varða á suðurenda hans, og virðist mér undirstaðan mjög forn. Efnið í hólnum er mest smágrjót, mosavaxið, þó er norðan í honum stórgrýti nokkuð. Aðeins á litlum bletti uppá honum gengur járn nokkuð til muna í hann (um 1 ½ al. þar sem ég komst dýpst). Það var norðan til á honum miðjum, og þar var mosalaust. Hvergi gat ég séð merki þess, að grafið hefði verið í hann. – Inghóll liggur hér um bil á miðju Ingólfsfjalli, og enginn hóll honum líkur að lögun er þar nálægt. Í hólum umhverfi s hann er tómt blásið stórgrýti og klappir. Alt fyrir það er Inghóll auðsjáanlega verk náttúrunnar.” Nú hefir mér sjálfum auðnast að koma upp á fjallið og sjá hólinn. Heg eg mjög litlu við lýsingu Kolbeins að bæta. Það er víst að hóllinn er verk náttúrunnar. … En varðan á hólnum er mannaverk, sem ef til vill hefir í fyrstu átt að vera minnisvarði Ingólfs – öllu fremur en leiði hans? – Hún er ferskeitt, nál. 1 fðm. á hvern veg, en nú er hún ekki hærri en manni undir hönd. Auðséð er, að hún hefir hrunið ofan til og hrapað til norðurs, en lausagrjót er þó ekkert utan með henni.
Er því líkast að hún hafi fallið ofan í sjálfa sig, og hefir hún þá verið hol innan. Grjótið í henni er fremur stórt. Um vörðu þessa mun séra Stefán Ólafsson hafa kveðið vísuna: “Stóð af steindu smíði”, og hefir hann þá álitið hana leiði Ingólfs. Nú er hún landamerkjavarða.” Brynjúlfur Jónsson 1899, 14-15. Varða er rúmum 5,8 km norðaustan við bæ, á Ingólfsfjalli og 3,5 km norðan við Þórustaðanámu, nálægt norður enda fjallsins. Varðan er upp á Inghól og rafmagnsgirðing liggur meðfram hólnum austanverðum.
Útsýni er til allra átta. “Styrmir fróði, sem var uppi á 12. öld, segir, að sumir menn segi, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Brynjólfur biskup í Skálholti fór upp á Inghól með menn með sér. Þar með Stefán Ólafsson skáld í Vallanesi. Hann orti vísu uppi á hólnum, sem er svona:
Stóðu að steindu smíði,
staður fornmanns hlaðinn,
hlóðu að herrans boði
heiða teikn yfir leiði.
Haugur var hár og fagur
hrundin saman á grundu.
Draugur dimmur og magur
drundi í björgum undir.
Einar Arnórsson prófessor heldur því fram, að lærðir menn hafi , allt fram á 17. öld, trúað því, að Ingólfur hafi verið heygður í Inghól. Aldrei hefur annar staður verið nefndur legstaður hans. Er því allt, sem bendir til þess að þar hafi hann verið heygður. Því hafi veirðum annan stað að ræða, hefðu þær sagnir að sjálfsögðu getað geymzt, þar sem var um frægasta landnámsmann Íslands að ræða. Bendir því allt til þess, að Ingólfur hafi verið heygður í hólnum.” Einnig skráður í landi Hvamms. Hóllinn er líklega hæsti punkturinn á Ingólfsfjalli. Hann er að miklu leiti ógróinn og steinarnir í honum eru mjög stórir. Inn á milli steinanna vex gráleitur mosi. Varðan er 1,5×1,5 m að stærð og fremur hringlaga. Hún er 0,7 m á hæð og sjást 4-5 umför af grjóti. Varðan er ekki vandlega hlaðin og virðist grjótið vera að lagt þar að handahófi í hrúgu en ekki hlaðið upp. Steinarnir í vörðunni eru ekki mosagrónir og greinilegt er að eintthvað hefur verið bætt í hana á seinni tímum. Það þarf því ekki að vera að hún sé gömul.

Tannastaðir (býli)

Ölfus

Tannastaðir.

“Jarðardýrleiki x og so tíundast á fjórum tíundum.” JÁM II, 390. 1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74.
1520: „Andrés Andrésson selr Sæmundi Eiríkssyni jörðina Tannastaði í Ölvesi fyrir tiu hundruð i lausafé.“ DI VIII, 548.
“Landamerki: Úr Hrútasteinstanga við Sogið, til vesturs í Miðmarkastein, þaðan bein lína til fjalls yfir Tannastaðadali í Ingólfshæðir. Sogið og Ölfusá að austan. Vestan (sunnan): Úr Einbúa við Ölfusá bein lína um Grákollu upp í Sandhæð, uppi á Ingólfsfjalli. Þaðan í Alviðruland í Ingólfshæðum.” Ö-Tannastaðir, 1. Ekki er föst ábúð á Tannastöðum lengur og jörðin í eigu nokkurra aðila, íbúðarhúsið er leigt út og landið er nýtt til beitar að hluta.
1917: Tún 4.6 ha, allt slétt. Garðar 905 m2. “Kaldakinn. Snögglend brún, sunnan við Dimmutó og náði túnið ekki lengra 1836.” Ö-Tannastaðir, 2.

Ölfus

Tannastaðir 1930.

“Bærinn hefur staðið á sama stað og nú er,” segir í örnefnaskrá Tannastaða. Samkvæmt túnakorti frá 1920 var bærinn í miðju túninu og auk bæjarhúsanna var þar martjurtagarður og heyhlaða. Hluti af gamla bænum er enn varðveittur og enn er búið í íbúðarhúsinu. Enn eru uppistandandi sex hús. Syðsta húsið er skemma sem byggð var árið 1924. Við hliðina á skemmunni er íbúðarhús með tveimur burstum og var það byggt árið 1939. Norðan við íbúðarhúsið og sambyggt því er stór hlaða sem byggð var árið 1927. Nyrst eru svo fjós og annað geymsluhús. Fast sunnan við bæjarhúsin eru tóftir af eldri útihúsum og kálgarði sem eru 80 m frá þjóðveginum. Þétt austan við bæjartóftirnar og kálgarðana er braggi og geymsluhús, þar liggur heimreið til vesturs frá Biskupstungnabraut og beygir svo til norðurs í átt að bænum. Lítill olíutankur liggur nyrst í útihúsatóftunum, nálægt geymslunni.

Ártalssteinn (áletrun)

Ölfus

Letursteinn – 1893.

Í örnefnalýsingu segir: «Ártalssteinn. Stór steinn í túngarðinum ofan (vestan) Gerðisins. Á hann er letrað 3/10 1893. Mun vera með stærstu hleðslusteinum, sem sjást.” Steinninn er tæpum 130 m suðvestan við bæ og rúmlega 15 m austan við háspennulínu, sem liggur vestan við heimatúnið. Steininn er hluti af suðvesturhluta túngarðs.
Ártalssteinninn er í óræktuðu túni, sem hallar aflíðandi til austurs. Ártalssteinninn er 1 m á hæð og 2 m á lengd. Sjálfur steinninn er áberandi stærri en aðrir hleðslusteinar túngarðs á svæðinu. Áletrunin 3/10 1898 er meitluð fyrir miðju steinsins og er hún 0,3 m á hæð og 0,4 m á lengd. Hún ristir djúpt og sést vel úr fjarska. Að sögn Jóns H. Gíslasonar, heimildamanns, meitlaði bróðir Þórðar Sigurðssonar áletrunina á síðari hluta 19. aldar.

Réttarbjarg (rétt)

Ölfus

Réttarbjarg.

Í örnefnaskrá Tannastaða segir: «Réttarbjarg. Stór steinn í túngarðinum vestur af bænum, þar er fjárrétt. «Þar var áður hrútakofi Jóns Guðmundssonar.”” Rúmum 100 metrum vestan við bæ og upp við túngarð er fjárrétt. Skammt austan við réttina í túninu liggja rafmangslínur frá suðri til norðurs yfir túnið. Stór steinn er innan réttarinnar.
Á þessum slóðum er grasivaxið og óslegið tún sem liggur við rætur fjallsins. Réttin er 14×9,5 m að stærð og snýr norður-suður. Opið er til suðurs, í suðausturhorni. Hún er einföld og 12×7,5 m að innanmáli. Hleðsluhæð veggja er 1-1,2 m. Réttin er grjóthlaðin og það sjást 4-5 umför af steinum í veggjum hennar. Steinn með áletruninni 1888 er í suðvesturhorni réttarinnar, í henni innanverðri. Réttin er nokkuð vel varðveitt og stendur enn að mestu leyti. Smávegis hrun hefur fallið inn í réttina úr austurvegg, alveg við opið. Innan í réttinni er nú geymd gömul rakstrarvél. Vesturveggurinn, sá sem liggur upp í fjallshlíðina, gengur lengur til suðurs en hinir veggir og virðist vera hlaðinn upp í grjótskriðu. Túngarðurinn stendur svo 2 metrum vestar, hærra uppi en réttin og virðist því sem túngarðurinn sé tvöfaldur á þessu svæði.

Gvendarbrunnur (þjóðsaga/vatnsból)

Ölfus

Gvendarbrunnur.

“Gvendarbrunnur: Er lítil lækjarsytra, sem kemur upp við gamla veginn fyrir norðan Ytri-Hákon.
Munnmæli herma, að Guðmundur Arason góði hafi vígt þennan læk, þegar hann var á ferðum sínum,” segir í örnefnaskrá. Gvendarbrunnur er 400 m sunnan við Grænutóftir og tæpum 820 m sunnan við bæ. Lækurinn rennur undan brekkurótum Ingólfsfjalls, skammt vestan við Biskupstungnabraut. Lækurinn er kominn í vélgrafinn skurð vestan þjóðvegarins.
Skriða er í fjallinu, Gvendarbrunnur kemur upp undan henni. Lækurinn rennur til austurs, á milli stórra, stakstæðra bjarga í mýrlendi. Hann er 1 m á breidd og vatnslítill.

Laugarbakkar (býli)

Ölfus

Laugarbakkar.

“Annað býli af sömu jörðu [og Fjall]. Dýrleiki þess er kallað vi lxxx álnior og sotíundast.” JÁM II, 392.
1847: 10 hdr, bændaeign. JJ, 74. “Landamerki I: Gagnvart Tannastöðum úr þúfuá Einbúa, er stendur niður við Ölfusá, sem hann er hæstur, beina línu í stein sem nefnist Grákollur neðri, og beina línu á Ingólfsfjallsbrún; úr vörðunni beina línu í vörðu, sem er á melhrygg á miðju Ingólfsfjalli, sem er hornmark. II: Gagnvart Helli úr áðurnefndri vörðu á melhrygg, beina línu í vörðu, sem stendur á vesturgilklofningsbrún á Brennu[dals]gili; þaðan niður Brennidalsgil í vörðu á Fjallstóttum beina línu í Mígandaþúfu; úr Mígandaþúfu til Ölfusár.”
“Bærinn var færður norður á syðri bakka Laugalækjar um og eftir 1930. […] Bæjarhóll. Hóll í túninu fyrir sunnan bæinn. Þar stóðu lambhúsin, mjólkurkofinn og smiðjan,” segir í örnefnaskrá. Bæjarhóllinn er rúmum 350 m sunnan við núverandi bæjarstæði og 50-60 m vestan við Ölfusá. Lítill tangi eða nes skagar út í ánna fyrir austan bæjarhólinn og ekki hætta á að áin fl æði hér yfi r. Sandhóll er fast vestan við bæjarhólinn, á milli bæjarins og árinnar. Smá lægð er á milli hólanna. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru en traðir/leið 025 lá fast vestan við heimatúnið sem bendir til þess að stafnar hafi mögulega snúið til suðurs. Við plægingu hafa komið upp hellur, hleðslugrjót og fleiri mannvistarleifar. Slétt, ræktað tún er allt umhverfi s hólinn. Það er slegið og nýtt til beitar.
Bæjarhóllinn er 75×30 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er grasivaxinn, sléttur og þar eru ekki mannvirki að sjá á yfirborði. Bærinn sjálfur var á suðurhluta hólsins þegar túnakortið var gert árið 1920 og útihús á nyrðri hlutanum. Traðir 025 lágu að bænum að suðvestan en þær sjást ekki. Bæjarhóllinn er ekki reglulegur í laginu og helst líkist hann tölustafnum átta, tveir hólar með lágu hafti í miðjunni.
Uppi á hólunum eru lautir án þess að hægt sé að gera sér grein fyrir nákvæmu lagi mannvirkja. Hóllinn er 0,3-1 m á hæð, hæstur til vesturs og norðurs. Sléttun hefur raskað hólnum mikið og erfi tt að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegum hólum.

Fjall (býli)

Ölfus

Fjall.

„Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnst að tíðir hafi hjer verið fluttar. Jarðardýrleiki XXX hdr og svo tíundast fjórum tíunudm. (…) NB. Þessi jörð er afdeild í fjögur býli, sem eru sundurgreindir fjórir bæir. Þeir heita so: Fjall. Þetta býli stendur í aðalstæði jarðarinnar og heldur því forna nafninu. Dýrleiki þessa partsins er talinn og tíundaður 6 hdr.“ JÁM II, 391.
Landnáma: “Hann var hinn þriðja vetur undir Ingólfsfelli fyrir vestan Ölfusá.” ÍF, 45.
Þuríður Grímkelsdóttir “fæddist upp með þeim manni, er Sigurður múli hét; hann bjó undir Felli” Harðar saga, ÍF XIII, 4 sbr. 5 (Fjalli) og 35.
1397: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.“ DI IV,101. 1524: „selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni hálft Fjall“. DI IX, 258.
Erlingur Gíslason átti Fjall í Ölfusi, Þorsteinn yngri son hans bjó þar og átti Halldóru Pálsdóttur, Eyjólfssonar frá Hjalla og Ásdísar Pálsdóttur, systur Ögmundar biskups – Bsk II, 298.

Ölfus

Fjall – minjar.

1604: Eydís Helgadóttir, móðursystir Odds biskups, var í Fjalli 1604 og átti Jón Ásgrímsson er þar bjó fyrst en varð eftir það bryti í Skálholti – Bsk II, 661. Á öðrum stað er þó sagt að Jón Ásgrímsson hafi fyrst verið bryti í Skálholti en síðar verið ráðsmaður fyrir Fjalls búi – Bsk II, 675.
“Bærinn hefi r staðið fram á átjándu öld. Eftir að hann lagðist í eyði, lagðist landið til Hellis og Laugarbakka, svo að nú eru landamerki þeirra jarða um Fjallstún. Af JÁM sést að þá hefir heimajörðin Fjall verið komin í niðurlægingu, er jarðabókin var samin. Munu því mest hafa valdið skriðurennsli á túnið. Túnstæðið hefir upphafl ega verið uppgróin skriðubunga, mynduð af gili, sem þar er uppundan í fjallinu. Það heitir Branddalsgil, og hefir nafn af lítilli dalkvos er Branddalur heitir, sem þar er uppi í gilinu, en sjest ekki fyrr en að er komið. Branddalur er enn grasi vaxinn; annars er gilið, og hlíðin öll, nú eintóm skriða. Er líklegt að nafnið sé dregið af kolabröndum og að þar hafi verið kol brennd meðan fjallshlíðin var skógi vaxin … enn heldur [gilið] áfram að hækka bunguna smátt og smátt; enda er hún nú að miklu leyti grjóti þakin, nema austan til. Þar er grasflöt, sem enn heitir Fjallstún. Á henni eru rústir bæjarins. … Hefir hjer verið gott til heyafla og tún eigi alllítið meðan bungan var í friði fyrir skriðum.

Ölfus

Fjall – tóftir.

Líklegra er, að þær hafi valdið eyðileggingunni smátt og smátt heldur en allt í einu; en auðvitað er, að loksins hefir eitt skriðuhlaup riðið baggamuninn.” Brynjúlfur Jónsson. 1897, bls. 18-19.
„Fjallstún. Skriðurunnin hæð; leifar af túni bæjarins Fjalls. Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður,” segir í örnefnaskrá Laugarbakka. Í örnefnalýsingu Hellis og Fossness segir: „Austur merki Hellis eru við Fjall og segir í örnefnaskrá: “Landamerki: Að austanverðu er varða á Fjallstóftum.”
Varðan er horfin.
Brynjúlfur Jónsson, fræðimaður frá Minna-Núpi, kannaði rústirnar og ritaði um niðurstöður sínar í Árbók fornleifafélagsins 1897. Þar segir hann að á grasflöt þeirri, sem heitir Fjallstún, séu rústir bæjarins, og sjái allvel fyrir bæjarrústinni. Bærinn hafi snúið framhliðinni móti suðaustri. Þó virðist hún í fljótu áliti, þegar litið sé á rústina alla, að hún snúi á móti suðri. Það komi til að því, að byggingar hafi verið fram á hlaðinu, sem að austan til gangi lengst fram og myndist þar eins og lítil hólbrekka af gamalli hleðslu. Jafnframt segir Brynjúlfur: “Bæjartóftin snýr hliðinni fram, og er framhúsið nálægt 10 faðma langt frá norðaustri til suðvesturs. Dyr eru á framhliðinni vestan til miðri. Beint inn af þeim er inngangur í bakhús, er liggur samhliða hinu, og eru dyrnar á miðri framhlið þess. Það er rúmlega 3 faðma langt. Er sýnilegt að það hafi upp á síðkastið verið baðstofan en hitt framhýsi.” Við hvorn enda bæjartóftarinnar var sín hvor tóftin og snéru dyrum fram á hlaðið, og taldi hann það geta hafa verið skemma og smiðja.
Vegurinn hefur legið um hlaðið og hefur svo haldizt eftir að bærinn lagðist í eyði, og voru þar uppgrónar götur. En nú sagði hann veginn liggja bak við rústirnar. Brynjúlfur hafði sagnir af því, að bænhús hafi verið í Fjalli og hafði eftir Jóni bónda Árnasyni í Alviðru, sem var “fróður maður og vel að sér”. Taldi hann það hafa staðið frammi á hlaðinu fyrir framan veginn, en “hafi það verið austast og fremst, sem mér þykir liggja næst að ætla, þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Við báða enda bakhússins virðist Brynjúlfi vera autt svæði, sem svara myndi rými fyrir dálítið hús. Var þetta svæði innlokað að garði fyrir allri bakhlið bæjarins og myndaði þar “húsagarð”. Þar sem Fjall stóð forðum, eru nú vallgrónar rústir fast við þjóðveginn ofanverðan, og voru þær friðlýstar 1927. Hefur þeim þó verið raskað, þegar nýi vegurinn var lagður með fjallinu.” Brynjúlfur teiknaði minjarnar sem hann sá og birti aftast í Árbókinni.

Ölfus

Fjall – minjar.

Í bókinni Saga Selfoss er fjallað um Fjall. Þar segir: „Austurmörk Hellis eru um Fjallstóftir, sem síðar voru nefnd Fjallstún. Þar eru rústir eyðibýlisins Fjalls, alveg við þjóðveginn. […] Meðan stórbýli var í Fjalli fyrrum hefur þar verið gott undir bú og tún eigi alllítil. En skriðurennsli úr Brennudalsgili spillti túnum smám saman og síðast er líklegt, að eitt skriðuhlaup hafi riðið baggamuninn og gert túnið að grjóturð og brotið bæinn. Hann stóð þó fram á 18. öld. Þórður hinn fróði Sigurðsson, sem er fæddur á næsta bæ, Tannastöðum, árið 1864 , og bjó þar langa æfi, lýsti rústum bæjarins 1931: “Ein tóft sést ennþá greinilega fyrir neðan veginn, en uppi á hátúninu sá ég glöggt fyrir fimm húsatóftum, hverjum við aðra, þegar ég var unglingur, en nú eru þær allar komnar undir skriðu fyrir nokkru. Líka tók ég þá eftir niðursignu túngarðsbroti vestur við mýrarvikið, sem nær lengst upp að fjallinu.”” Minjarnar eru friðlýstar. Í skránni segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls.
Sbr. Árb. 1897: 18-19. […] . Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.” Friðlýsingarskilti er á bæjarhólnum en er mjög máð. Bæjarhóllinn sést ennþá en honum var raskað ennfrekar við vegagerð á 20. öld. Ekið er um hlað bæjarins eftir Biskupstungabraut og tóftin sem var „neðan“ vegarins þar undir að öllum líkindum. Vegurinn liggur þvert yfi r bæjarhólinn og vírgirðing þvert vestan hans.
Hægt er að greina hólinn sem allháa þúst í landinu en erfitt er að greina mismunandi byggingarþætti.
Skriður úr Brennudalsgili fara austan og vestan við gamla heimatúnið og nærri bænum. Bæjarhóllinn er greinilegur en tóftir hlaupnar í þúfur svo ekki hægt að greina nákvæmt lag þeirra.
Bæjarhóllinn er 63×28 m að stærð, 0,3-0,8 m á hæð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann er grasivaxinn og vegstæðið hefur raskað austastahluta hólsins. Eins og fyrr segir þá liggur núverandi þjóðvegur um bæjarhlaðið og minjum sem Brynjúlfur lýsir „fyrir neðan veginn“ eru horfnar.

Fjallskirkja (kirkja)
“Fjallstóftir. Gömul tóftarbrot austanvert í Fjallstúni, skammt fyrir ofan veginn. Þar hefur verið mikill bær í fornum stíl og búið málmsmiður. Þar var kirkja, og liggur vegurinn um kirkjugarðinn,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1706 segir: “Hjer segja menn kirkja muni að fornu verið hafa, en enginn minnist að tíðir hafi hjer verið fluttar.” Eina ritheimildin sem gæti bent til kirkju á Fjalli er máldagi Strandarkirkju í Selvogi frá 1397 en þar segir: “Kirkiann j Fjalli a tuær kluckur ad kirkiunni a Strond.” Í grein sinni um Fjall í Ölfusi í Árbók hins íslenska fornleifafélags árið 1897 segir Brynjúlfur Jónsson: “Sögn er, að bænahús hafi verið í Fjalli; svo sagði mjer Jón bóndi Árnason í Alviðru, fróður maður og vel að sjer. Hefi r þá bænahúsið án efa verið fram á hlaðinu, en hafi það verið austast og fremst, – sem mjer þykir liggja næst að ætla, – þá hefir annað hús verið vestar á hlaðinu.” Friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 (sem kvöð á landi Hellis) samkvæmt friðlýsingarskrá. Þar segir: “1. Leifar eyðibýlisins Fjalls, sunnan undir suðausturhorni Ingólfsfjalls. Sbr. Árb. 1897: 18-19.
”Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett, en líklega var hún á bæjarhólnum, austan við bæ. Brynjólfur gerði uppdrátt af minjum í Fjalli og birti í grein sinni árið 1897. Allt eins er líklegt að kirkjan hafi farið undir Biskupstungnabraut 35, skammt suðaustar en hnit var tekið. Þar voru minjar samkvæmt teikningunni. Kirkjan er rúmlega 50 m austan við bæ og um 75 m suðvestan við útihús.
Minjastaðurinn er í aflíðandi brekku. Sé horft til austurs er mýrlendi allsráðandi en til norðvesturs, við rætur Ingólfsfjalls, er yfirgefin malarnáma.
Ekki er vitað hvar kirkjan var staðsett. Af lýsingum ritheimilda að dæma þá hefur kirkjan að öllum líkindum staðið þar sem nú (2016) er Biskupstungnabraut. Ummerki kirkjunnar hafa líklega farið undir veginn við vegagerð á 20. öld. Þó er ekki loku fyrir það skotið að mannvistaleifar séu undir jörðu.

Saumakonuhellir (þjóðsaga)

Ölfus

Saumakonuhellir.

“Saumakonuhellir. Hellir í Fjallsklettum, ofan við þar sem Fjallslækur kemur upp. Sagt er, að kona sú, sem barnið ól hjá Sængurkonusteini, hafi hitt þar tvær stúlkur í hellinum, sem voru að sauma. Þær leyfðu henni ekki að koma í bæinn, en allt annað Fjallsfólk var við kirkju í Arnarbæli,” segir í örnefnalýsingu Laugarbakka. Saumakonuhellir var rúma 270 m norðaustan við bæ 001 og 100 m VNV við sumarbústað sem er við Biskupstungnabraut. Hellirinn er staðsettur í skriðunni, ofan við Fjallslæk. Í skýrslunni Fornleifaskráning í Áborg I segir; “Þetta er ekki hellir í þeim skilningi heldur meira skjól myndað úr þremur vel grónum klettu. Sá sem er í miðjunni er stærstu og hvílir á hinum. Nokkup stórt bjarg hjálpar til við skjólmyndunina og er beint á móti hinum. Vel gróin dæld er á milli.”
Fjallsklettar eru skriða, aðallega stór björg og steinar, sem féllu hér niður Ingólfsfjall. Sumir steinarnir eru 3-4 m á hæð. Skriðan er nokkuð gróin og þetta svæði er nýtt til beitar.
Eini staðurinn sem kemur til greina sem Saumakonuhellir er smá gjóta sem þrír, stórir steinar mynda. Gjótan er opin í báða enda og ekki hægt að fara þar inn með góðu. Þessi steinar eru nánast í miðju Fjallskletta, ofarlega. Skútinn er mest 2 m á hæð og 4×2 m að stærð.

Árbær (býli)
“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 393. „34 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: LXXX. Arbær. Kirkia ad Arbæ a .iiij. kyr. Jnnan sig kluckur .iiij. Mariuskriptter tuær. krossar .ij. kiertistika med kopar. paxspialld. Sacrarium. mvnnlaug. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xvij. aurar oc iij. Alnar.” DI IV, 92
1502: Stefán Skálholtsbiskup selur Þorvarði Erlendssyni lögmanni Árbæ. DI VII, 622-23.
1546: Erlendur lögmaður Þorvarðarson seldi Gizuri biskupi jarðir og þar á meðal Árbæ. DI XI, 479-480. “Landamerki. Ölfusá að sunnan. Vestan: úr Svörtubökkum við Ölfusá og til Ingólfsfjalls. Austan: úr Markakletti við Ölfusána og til Ingólfsfjalls. (Meiri upplýsingar gáfu heimildarmenn ekki).” Ö-Árbær, 1.
1917: ´Tun 8.3 ha, þar af c. 3/4 slétt. Garðar 2176 m2.

Þórustaðir (býli)

Ölfus

Þórustaðir – kort.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 394. „30 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1546: „Erlendr lögmadr Þorvarðsson gefr í vald Gizurar biskups jarðirnar Árbæ, Þórisstaði og Fossnes í Ölvisi, svo og rekann á Skeiði fyrir Hraunslandi. Af bréfi Gissurar til Erlends 6. desember 1547 kemur fram að um er að ræða Þórisstaði í Hjallasókn“ DI XI, 472. Það bendir til þess að þessi bær hafi þegar verið til þá.
“Landamerki: Úr Graflækjum (Giljum, Flugugili og Engjagili) við Ölfusá stutt fyrir austan ferjustaðinn á Kotferju. […] Úr þessum giljum bein lína í stórann múla austan við Þunnubrekkur. Þessi eru mörk á milli Hvols og Þórustaða, fleiri upplýsingar voru ekki fyrir hendi.” Ö-Þórustaðir, 1.
Þórustaðir skiptast a.m.k. tvö lögbýli í dag. Eitt er Garðyrkjustöðin Kjarr ásamt hrossarækt en á hinum hlutanum er rekið svínabú. Einnig er starfrækt kjúklingabú á syðsta hluta jarðarinnar.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 5/6 slétt. Garðar 1456 m2.
“Bærinn stóð í miðju túni og sneri þiljum til suðurs,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakorti frá 1920 var, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta.
Sé tekið mið af fyrirliggjandi gögnum var bærinn líklega vestan og norðvestur af núverandi íbúðarhúsi eða nánast á sama stað. Íbúðarhúsið er því á bæjarhólnum enn í dag. Bæjarhóllinn er mikið raskaður, á honum eru hús til suðurs, núverandi íbúðarhús til suðausturs og byggingar tilheyrandi svínabúi til suðvesturs og vesturs. Á milli mannvirkja á bæjarhólnum eru malbikuð plön, steyptir grunnar frá húsum sem hafa verið rifin og bakgarðar.
Engin ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög sjást á yfirborði. Algjört þekkingarrof hefur orðið á Þórustöðum enda langt um liðið síðan föst ábúð var hér. Áður en jörðin var nýtt undir svínarækt og skipt upp í minni einingar voru ábúendaskipti tíð og fólk stoppaði stutt við. Síðustu áratugi hafa ábúendur
verið bústjórar svínabúsins.

Hvoll (býli)

Ölfus

Hvoll.

“Jarðardýrleiki er xx og tíundast þó jörðin öngvum.” JÁM II, 396. 1847, 20 hdr. JJ, 74. „Gömul jörð, 20 hundruð að fornu mati. […] Hvolshjáleiga er nefnd í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1706.“ Sunnlenskar byggðir III, 393.
Ekki er til túnakort af heimatúninu.
“Bæjarhóll. Lítill, gróinn hóll. Þar stóð bærinn áður,” segir í örnefnalýsingu Hvols a. “[…]. Bæjarhóll var þar sem Hvoll I er núna. Honum var rutt þegar nýja íbúðarhúsið var byggt, fyrir um það bil 35 árum,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn var líklega fast vestan við íbúðarhús sem var reist árið 1963 á Hvoli þar sem bílastæði er nú (2016) og heimreið kemur að bænum. Ekki er til túnakort af jörðinni og þekkingarrof mikið. Það er því ekki hægt að staðsetja bæinn nánar en hér er gert. Einungis er hægt að geta þess að skv. herforingjaráðskorti frá 1908 lágu þjóðleiðir að bænum úr vestri og líklegt er að stafnar hafi snúið í þá átt. Á ljósmynd af bænum sem tekin er um 1980 og birt í Sunnlenskum byggðum III sést upphækkun fyrir norðan 20. aldar útihús. Þetta er suðvestan við íbúðarhúsið, ekki er ólíklegt að þetta sé uppmokstur vegna framkvæmda eða hluti af bæjarhólnum. Þessi hóll sést ekki lengur.
Á þessum slóðum er bílaplan, fjós og hestagerði núverandi íbúðarhúss jarðarinnar. Þessu til viðbótar er bakgarður umhverfi s húsið og greina má hávaxinn og ósamfelldan trjágróður á því svæði.
Samkvæmt Ólafi H. Einarssyni, heimildamanni, komu mannvistarleifar í ljós þegar bygging áföst íbúðarhúsinu var reist á fyrsta áratugi 21. aldar. Ekki er ólíklegt að það hafi verið hluti af bæjarhólnum.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins né hæð vegna jarðrasks.

Ámundarétt (rétt)

Ölfus

Ámundarétt.

“Ámundarétt. Stór klettur og hleðsla hjá skammt fyrir ofan veginn,” segir í örnefnaskrá. Ámundarétt er rúmum 1,6 km fyrir norðaustan bæ og rúmum 700 m suðaustan við stekk. Réttin er byggð upp við stakstætt bjarg, milli tveggja þjóðvega. Þjóðvegur sem gerður var 1908 er fast norðan við tóftina en vegur frá 20. öld er 20-30 m sunnar. Réttin sést lítið fyrr en að henni er komið. Í skýrslunni Skráning menningarminja í Ölfusi sem var gerð um 1980 segir: “Ámundarétt. Gömul hleðsla við stóran klett. Sagnir herma, að Ámundi þessi hafi verið veinn þar. Erlendur á Strönd í Selvogi hafi verið þar að verki.”
Réttin er í suðaustarlega, inn á milli kletta sem hafa fallið niður hlíðar Ingólfsfjalls. Ámundamúli er fast austan við réttina, á merkjum milli Hvols og Þórustaða. Brekkan er gróin.
Þjóðvegur er fast við réttina og raskar henni nokkuð. Kletturinn myndar suðurvegg réttarinnar, en að öðru leyti eru þeir grjóthlaðnir. Réttin er 21×14 m að stærð, einföld og snýr austur-vestur. Ekkert op sést inn í hana á yfirborði. Norðausturhluti hennar er raskaður, líklega vegna þjóðvegarins. Veggirnir eru gerðir úr stórum steinum og sést enn eitt umfar. Grjótið er tekið úr Klettabrekku. Veggirnir eru 0,2-0,3 m á hæð. Kletturinn er 3 m á hár og snarbrattur inni í réttinni, hann lækkar til suðurs.

Kögunarhóll/Knarrarhól (þjóðsaga/legstaður)

Ölfus

Kögunarhóll – Collingvood 1896.

Í bókinni Frásögur um fornaldarleifar frá 1821 segir: «… hier nærst ma teliast Knarar eda Kogunarholl, ad mestu allt umm kring grasivaxinn mikid stór holl sem stendur framann undir landsudurs horni a firrnefndu Jngolfs fi alli, inn i þennan hól er sagt ad Ingolfur hafi att ad lata Skip sitt.» Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu frá 1840 segir: «Í útsuður fyrir neðan fjallið stendur upphár, ávalur, graslaus hóll, aðeins laus við það, en nú nefnist Kögunarhóll, en að fornu var kallaður Knörhóll, og lætur alþýða sér um munn fara, að Ingólfur hafi þar í sett skip sitt.» Í bókinni Íslenskir sögustaðir frá 1873 segir: «keilu- eða toppmynduð hæð, Kögunarhóll, sem áður fyrr á að hafa heitið Knörrhóll, þar sem munnmæli segja, að Ingólfur hafi sett skip sitt.“
«Kögunarhóll. Strýtumyndaður hóll, sunnan vegar, lítið gróinn nema að vestan. Af hólnum er mjög gott útsýni til flestra átta. Sérstaklega hefur vel sézt til mannaferða um Ölfusið, eins og leiðir lágu, áður en gerðir vegir komu […] Þjóðsögur herma, að Ingólfs landnámsmanns sé heygður í hólnum og heiti hann Knarrarhóll. Engan hef ég heyrt bera sér það í munn sem lifandi örnefni.»
Kögunarhóll stendur suðvestan við Þjóðveg 1, ekki langt frá rótum Ingólfsfjalls og rúmum 940 m frá bæ. Hóllinn er áberandi og Þjóðvegur 1 liggur fast norðan hans. Hóllinn er stór og ekki mjög gróðursæll. Þar vex þó nokkurt gras en mikið er af berum malarsvæðum á honum, þá sérstaklega á toppi hólsins, þar sem gróðurþekja er mjög slitin.
Hóllinn er frekar hringlaga og mjög stór. Á toppi hans sést mjög vel til allra átta.

Hvolshjáleiga (býli)
“Hjáleiga hefur verið með jörðinni, en nú í auðn yfir 20 ár en bygðist þó fyrri ei lengur en um 10 ára tíma og var kölluð Hvolshiáleiga.” segir í örnefnalýsingu. Óvíst er hvar hjáleigan stóð og frekari þarf upplýsingar svo að hægt sé að staðsetja hana með innan við 50 m nákvæmni.

Kirkjuferja (býli)

Ölfus

Kirkjuferja.

“Jarðdýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum og hefur ei tíundast so lángt menn minnast” JÁM II 395. „42 hdr, bændaeign.“ JJ, 74.
1397: „LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur. nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione firir vppgiord a kirkiunni“. DI IV, 92.
1544: „skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara.“ DI XI, 295.
1545: segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450.
1569: „16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi.“ DI XV, 313.
“Landamerki: Úr Mókeldukjafti við Ölfusá lína til norðurs í Árnadys (sjá Auðsholt). Þaðan í hol norðan við Hvolsskyggni (Hvolsborg/[Ferjuborg?]). Þaðan lína til austurs í hornmark Hvols og Þórustaða. Þaðan lína til suðurs í Ölfusá, milli Kirkjuferju og Þórustaða. Þessi mörk eru ekki gildandi nú. Bræðrabýli hefur fengið drjúga landspildu af Hvolslandi.” Ö-Kirkjuferja, 1.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/4 slétt. Garðar 960 m2.
“Tvíbýli var lengi á Kirkjuferju […] Bærinn á Kirkjuferju hefur staðið á sama stað og hann er nú,” segir í örnefnalýsingu. Bærinn er einnig sýndur á túnakorti frá 1920, nyrst í túninu. Komið er að bænum úr austurátt, ekið er framhjá Kirkjuhól, þá hesthúsum og svo að gamla íbúðarhúsinu. Yngra íbúðarhús er um 80 m vestar. Samkvæmt Guðmundi Baldurssyni, heimildamanni, hefur bærinn og útihúsin alltaf verið á þessu svæði, og þá um leið á bæjarhólnum.
Gamla íbúðarhúsið er á miðjum bæjarhólnum, í smá halla. Það ber meira á kjallara þess sunnan til, þar er bakgarður hússins. Norðan við húsið er bílastæði.
Bæjarhóllinn er um 60×30 m að stærð og snýr austur – vestur. Íbúðarhúsið er byggt 1956, er með niðurgröfnum kjallara og er í beinni línu við Kirkjuhól 002. Hesthúsin eru á austurhluta
bæjarhólsins en ekki er ljóst hvernig afmörkunin er til norðurs og vesturs. Þar eru bílaplön og gróin tún. Mikið af hríslum er við hesthúsið og upphækkun á landi eins og á bæjarhólnum. Eldri bærinn var nærri
íbúðarhúsinu og snéri stöfnum til suðurs. Ekki er hægt að áætla hæð bæjarhólsins vegna jarðrasks en hann er 1-2 m á hæð að sunnan.

Kirkjuferjukirkja (kirkja)

Ölfus

Kirkjuferjukirkja.

1397: LXXXI. Kirkiuferia. Ad Kirkiuferiu fylger fylger kyr oc ein ær. Hun a jnnan sig krossa .ij. crucifi xum j hvsi med vnderstodumm. paxspialld. kluckur .ij. alltarizklædi oc dvkur.nportio Ecclesiæ vmm .x. är næstu .ijc. fellur nidr .ij. merkur af portione fi rir vppgiord a kirkiunni; DI IV, 92. 1544 skylldi [sr. Jón Bjarnason] suara halfkyrkiunni a Kyrkiuferiu þeim iiij kugilldum sem eg atti ad suara – DI XI, 295. [1545] segir Gissur biskup í minnisgrein að ráð sé fyrir gert að Arnór Eyjólfsson skuli taka 4 kúgildi “sem nu uoru radstafalaus og fylgt hafa kirkiuferiu enn ec skal sialfur j suari uid kirkiuna vm þau kugilldi.” DI XI, 450. 16.9.1569 selur Vigfús Jónsson með samþykki Ólafs bróður síns Skálholtsdómkirkju Kirkjuferju, og var kaupahlutinn 30 hdr að dýrleika en kirkjuhlutinn 10 hdr og fylgdu jörðinni 8 málnytukúgildi – DI XV, 313. “So segja menn hjer jafi að fornu kirkja verið; sjást enn nú merki kirkjugarðs, og er þar nú tóftarstæði eftir, sem kirkjan skyldi staðið hafa. Enginn minnist hjer hafi tíðir verið fl uttar,” segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Í örnefnaskrá segir: “Kirkjuhóll. Hóll austur á túninu, sunnan vegar. Álagablettu: Blettur við hólinn, sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó).” Kirkjuhóll er um 75 m norðaustan við bæ, austan við hesthús og gamla íbúðarhúsið. Hóllinn er sunnan megin við núverandi heimtröð sem liggur meðfram honum.
Svæðið er í mikilli notkun og áberandi ummerki eftir yfi rferð stórra vinnuvéla. Svæðið er afgirt og notað sem bithagi fyrir hesta. Fyrst var komið að Kirkjuferju árið 2004 í tengslum við skráningu á bænhúsum á Íslandi. Miklar breytingar hafa átt sér stað síðan, nú er Kirkjuhóll innan svæðis sem ekki er nýtt og þar er mikill gróður. Nýtt hús var byggt norðvestan við hesthúsið en raskaði ekki Kirkjuhól.
Það litla sem ennþá sést er líklega skemmt af umferð og gæti orsakað skrítið lag tóftarinnar. Það má sjá að eitthvað mannvirki var þarna er það er tiltölulega mikill ágangur svo erfitt reyndist að áætla skörp skil. Tóftin er 8×7 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Veggirnir eru 0,15 m á hæð og algrónir.

Álagablettur (álagablettur)

Ölfus

Kirkjuhóll.

“Álagablettur. Blettur við hólinn [Kirkjuhól], sem ekki mátti slá (sennilega tún huldufólksins, sem í hólnum bjó,” segir í örnefnalýsingu. Álagablettur er ekki við Kirkjuhóll að sögn Guðmundar Baldurssonar, heimildamanns, og það er villa í örnefnalýsingunni. Álagabletturinn er rúmum 90 m norðvestan við bæ og 50 m vestan við útihús. Þar er strýtumyndaður hóll og stuðlaberg syðst í honum. Ekki eru frekari sagnir tengdar þessum hól eða huldufólkinu sem í honum bjó. Hóllinn er 2-3 m á hæð og klettar syðst í honum. Þeir eru 2,5 m á hæð en aðrar hliðar eru grónar. Umhverfis hólinn er gróin brekka og hér og þar smá hólar og mishæðir. Vegslóði er fast norðaustan við hólinn.

Hjáleigutóft (býli)
“Hjáleigutóft. Tóftarbrot austan Kinnar,” segir í örnefnalýsingu. Hjáleigutóft var líklega nýtt frá Kirkjuferjuhjáleigu smbr. örnefnið. Tóftin var uppi á hæð, rúmum 260 m norðan við bæ. Þar er lítill hryggur og þar var Hjáleigutóft. Hólinn er nú beittur hestum og þar er tún. Þar er grasivaxið, óræktað svæði. Það er í aflíðandi halla til suðvesturs, niður holtið sem bæirnir eru á.
Engin ummerki um minjar sjást á yfi rborði.

Völukirkja/Kirkjuhóll (þjóðsaga/huldufólkssaga)

Ölfus

Völukirkja.

“Völukirkja. Strýtumyndaður hóll, að hluta úr stuðlabergi, með fuglaþúfu á. Kunn úr þjóðsögum sem álfakirkja. Guðjón hafði þá sögn eftir Birni bóndi, samkvæmt heimildum móður hans, Ingigerðar, að kona frá Kirkjuferju var á leið til kirkju að Arnarbæli. Átti hún leið fram hjá Völukirkju. Settist hún þar niður til að fara í sokkana. Hún hafði gengið berfætt yfi r mýrina og Rauðukeldu. Heyrði hún þá sungið inni í Völukirkjunni. Sálmaversið nam hún, og var það ekki í sálmabók hinnar íslenzku þjóðkirkju. „Hjá Völukirkju gengu menn ávallt með mestu virðingu við huldufólkið.” (Halldóra Jónsdóttir),” segir í örnefnaskrá. Völukirkja er tæpum 1,5 km vestan við bæ, rétt austan við landamerki við Auðsholts. Þetta land tilheyrir í dag Kirkjuferjuhjáleigu.
Völukirkja er syðst í holtaröð sem er á merkjum Kirkjuferju og Auðsholts. Þarna raðast nokkur stuðlabergsholt frá norðri til suðurs, Völukirkja er syðst og minnst. Hóllinn er um 30×15 m að stærð, brattur og áberandi. Austurhlið holtsins er með stuðlabergi en til vesturs er hún lægri og grónari. Hóllinn er 3-5 m á hæð.

Móra (þjóðsaga/draugur)

Ölfus

Móruhóll.

“Móra (Móruhóll). Hóll austur í Móru. Þar var draugur, og sumir veiktust, sem voru þar á ferð í myrkri,” segir í örnefnalýsingu. Móra er um 980 m norðvestan við bæ og tæpum 400 m norðan við rétt. Hóllinn er í norðvesturhorni jarðarinnar, milli Ferjukots (nýbýli) og Kirkjuferjuhjáleigu. Umhverfis Móru er mýrlendi og óræktuð tún. Hóllinn er á víðfeðmu svæði og sést víða að.
Móra er 4×2 m að stærð og 1,5 m á hæð. Hólinn snýr svo að segja austur-vestur og er strýtulaga, svo og heildargróðurþekja mikil. Gróður er fremur lágvaxinn og á vissum stöðum glittir í mosagróið bjarg og klappir. Einnig eru smáir moldarflagsblettir sjáanlegir á víð og dreif á hólnum.

Gilsbakki (býli)

Ölfus

Gilsbakki.

“Þurrabúð, sem stóð austan við Rásina, suðaustur af núverandi Hjáleigu. Í byggð í skamman tíma eftir síðustu aldamót,” segir í örnefnalýsingu. Býlið stóð um 440 m norðan við bæ, austan við núverandi heimreið. Þar er nokkur dæld í landslaginu þar sem girðingin liggur samsíða þjóðveginum og mætir honum. Þarna er nú óræktað grasivaxið svæði sem hallar til austurs. Það er nokkuð blautt og deiglent undir.
Minjarnar eru mjög grónar og vex þar hátt og mikið gras. Þar sést óljós veggur sem liggur austur-vestur.
Hann er um 4 m langur og beygir til suðurs þar sem örlítill og óljós veggur er varðveittur. Veggurinn er um 0,4 m á hæð. Dæld er í landslaginu þar sem býlið hefur staðið.

Kirkjuferjuhjáleiga (býli)

Ölfus

Kirkjuferjuhjáleiga.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir, líklega um Kirkjuferjuhjáleigu sé tekið mið af lýsingum af staðsetningu: „Önnur hjáleiga efst menn að hjer hafi verið til forna: líkindi eru þar til fornar tóftaleifar og garða, og er ómögulegt að hjer eftir að byggjast kunni nema til meins heimajörðinni. Liggur þetta byggingarlag utangarðs og má ei byggjast ábúendanum án skaða.“ JÁM II; 396.
Hjáleiga frá Kirkjuferju. “Þessi jörð hefur yfirleitt verið jafnstór aðaljörðinni, Kirkjuferju, og eru landkostir jarðanna svipaðir.” SB III, 391.
1917: Tún 2.9 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 352 m2.
Bærinn er merktur í norðvesturhluta heimatúnsins á túnakorti frá 1920. Þar er einnig sýndur kálgarður fast sunnan við bæinn. Í Sunnlenskum byggðum III segir: “[b]ærinn stóð áður sunnan í holtinu, en var færður upp á holtið 1940.” Í örnefnaskrá segir: “Gamla-Hjáleiga. Sýnilegar leifar af gamla bænum, áður en byggðin var færð norður fyrir túnið.” Bær 001 er tæpum 120 m sunnan við yngra bæjarstæðið og tæpum 20 m vestan við akveg að Kirkjuferju. Bæjarhóllinn sést vel þegar ekið að Kirkjuferju, uppi í holtinu. Bærinn er á sama holti og Kirkjuferja, um 270 m eru á milli bæjanna.
Bæjarhóllinn er ofarlega á náttúrulegum hól sem er hluti af ósléttuðu túni. Landið er algróið og smáþýft.
Til norðurs og vesturs er sléttað tún og það nýtt til hrossabeitar. Bæjarhóllinn er 32×20 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er nær óraskaður ef frá er talinn norðvesturhlutinn, hann er sléttaður vegna túnagerðar.

Kotströnd (býli)

Ölfus

Kotströnd.

“Jarðdýrleiki er óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. „22 hdr, 1847.“ JJ, 75.
1917: Tún 3.8 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1221 m2.
Bærinn stóð í miðju heimatúninu, uppi á lágu holti sem þar er. Það er víðsýnt til allra átta. Stafnar bæjarins snéru til suðurs en ekki virðist hafa verið sambyggður kálgarður þar. Það er mikið rask á þessu svæði og erfi tt að greina bæjarhólinn á holtinu. Miklar breytingar hafa einnig átt sér stað í túninu og allt landlagið breytt frá því áður var.
Þar sem bærinn stóð eru steinsteypt útihús frá 20. öld til norðurs, malarplan til suðurs frá þeim og vegslóði.
Núverandi íbúðarhús er fast vestan við bæjarhólinn. Hluti 20. aldar útihúsanna eyðilagðist í jarðskjálfta 2008 og voru rifin.
Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins vegna allra þeirra framkvæmda sem þarna hafa verið á síðustu öld. Núverandi íbúðarhús er grafið inn í suðvesturhorn holtsins, líklega rétt utan við bæjarhólinn. Sagnir eru þó um að þar hafi komið upp mannvist. Ekki er vitað hvort að mannvistarlög komu upp þegar útihúsin norðan við bæinn voru byggð á 20. öld og um leið líklega á bæjarhólnum. Uppmokstur úr þeim framkvæmdum var settur í tjörn sem var austarlega í heimatúninu, fast sunnan við kirkjugarðinn. Það er að öllum líkindum búið að grafa stóran hluta bæjarhólsins í burtu og þá um leið mannvistarlög þrátt fyrir að þekkingin um þau hafi ekki varðveist. Fyrir sunnan bæjarhólinn er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Heimildamaðurinn var ekki viss hvar nákvæmlega á bæjarhólnum bærinn stóð, hann gæti hafa verið skammt austar en þar er mun minna jarðrask.

Kotstrandarkirkja (kirkja)

Ölfus

Kotstrandarkirkja.

“Kirkjutún, sléttur túnblettur sunnan undir kirkjugarðinum, sem nú er orðinn grafreitur,” segir í örefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: “Kirkjan var byggð sumarið 1909 og vígð 14. nóv. Um haustið. […] Yfi rsmiður var Samúel Jónsson frá Hunkubökkum á Síðu (faðir Guðjóns húsameistara). Kirkjuhúsið úr timbri, járnklætt, 85 m2 að fl atarmáli. […] Gtafreiturinn var tekinn í notkun um sama leyti og kirkjan. Nokkru síðar var hann afgirtur með grjótgarði. Efnis í þá girðingu var hægt að afla með vinnu sem kostaði þá ekki beina peninga. Grjótið var flutt á vögnum um 3 kmm leið og prýðilega byggt úr því. Sá garður stóð óhaggaður þar til kirkjugarðurinn var stækkaður. Efnis dugði þá aðeins á tvo vegu um kirkjugarðinn.” Kirkjan er um 120 m NNA við bæ, líklega rétt utan heimatúnsins. Hún er ekki sýnd á túnakorti frá 1920 sem bendir einna helst til þess að hún hafi verið utan þess. Kirkjan er reist 1909, þegar kirkjur á Arnarbæli og Reykjum voru lagðar niður, fyrir þann tíma var ekki kirkja á Kotströnd. Kirkjan er ennþá í notkun og tilheyrir Hveragerðisprestakalli.

Steinvararhús (býli)
“Bær var í túninu, kallað Steinvararhús. Kona að nafni Steinvör hafði búið þar,” segir í örnefnalýsingu.
“Steinvararhús er ekki lengur til. Búið er að slétta allt út. Sigmar man eftir húsinu; það var síðast haft fyrir fé,” segir í athugasemdum við örnefnalýsingu. Ekki er vitað hvar Steinvararhús var staðsett, ekki fannst heimildamaður fyrir jörðina nema að hluta. Þekkingin um staðsetninguna hvarf að öllum líkindum með Sigmari. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja býlið en það var innan heimatúnsins líkt og segir í örnefnaská.

Bali (býli)
“Upp með ánni var kallaður Bali. Þar var gamalt býli, og var þar tekinn mór,” segir í örnefnalýsingu. Í örnefnalýsingu Sigmars Sigurðssonar segir: „Bali: Þurrlendur, kúptur mýrarfláki; er norður við Gljúfursmörk.“ Í skýrslunni Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi segir að engin ummerki um býlið sjáist á yfi rborði. Hnitið í skýrslunni lendir hins vegar skammt sunnan við beitarhús 012 og það er nokkuð langt frá staðsetningu þess í örnefnaskrám. Bali var líklega vestan við mógrafir, þar er holt en engin mannvist sést þar. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja staðinn með betri nákvæmni en hann var rúmum 1,7 km norðan við bæ.
Þetta svæði er mýrlent, framræst og mjög gróið. Það er nýtt til hrossabeitar.

Klettar (þjóðsaga/huldufólksbústaður)
“Í klettunum (?) var sögð vera kirkja; þar mátti ekki hreyfa stein,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað í hvaða klettum þessi kirkja var. Líklega eru það þó klettarnir norðan við heimatúnið sem átt er við, innan nýbýlisins Mæri. Frekari heimildir þarf til þess að staðfesta það.
Að sögn Þorsteins Gunnarssonar, heimildamanns, var álagablettur í hlaðinu á Kotströnd. Hann er um 20 m sunnan við bæ og 30 m norðan við Kotstrandarbrunn. Álagabletturinn er fast við núverandi heimreið að bænum. Heimreiðin er malbikuð og skjólbelti er fast austan blettsins. Hóllinn er 7×5 m að stærð og snýr norðvestursuðaustur. Beinn bakki er til suðvesturs í hólnum, mögulega vegna vegagerðar þegar heimreiðin var malbikuð. Í hólnum glittir víða í grjót án þess að um greinileg umför sé að ræða. Hóllinn er 0,3-0,5 m á hæð og algróinn.

Gljúfur (býli)

Ölfus

Gljúfur.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 397. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
“Landamerki: Úr Sauðaklöpp, til austurs í Langanef. Þaðan til norðurs í Orustuhól, þaðan lína í Sandfell. Þaðan, til norðvesturs stefna í Efjumýrarvörðu (sjá Sogn), í miðgilið í Klyftartungum, síðan Gljúfurá og Gljúfursá móts við Sauðaklöpp.” Ö-Gljúfur, 1.
1917: Tún 5.9 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1584 m2.
Samkvæmt túnakorti frá 1920 og Stefáni Jónssyni, heimildamanni, var bær vestan við núverandi íbúðarhús, nánast í miðju heimatúninu. Nú er þar skemma, önnur útihús frá 20. öld og heimahagi.
Nýtt íbúðarhús var byggt árið 1964, um 40 m austan við bæjarhólinn, en eldra íbúðarhús sem byggt á fyrrihluta 20. aldar sést á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Það hús eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2000 en það var á vesturhluta bæjarhólsins. Bærinn á túnakortinu var undir útihúsunum, fast austan við staðsetningu eldra íbúðarhússins. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og kálgarður var þar framan við, niður holtið sem bærinn er á.
Tún í órækt er sunnan við hólinn, í vesturhluta hans eru tré sem áður voru í bakgarði íbúðarhússins sem var rifið. Til annarra átta eru grasivaxin ræktuð tún.
Bæjarhóllinn er 50×35 metrar að stærð og snýr í austur-vestur. Hann er 0,2-0,4 m á hæð og fjarar út til suðurs. Bæjarhóllinn er horfi n til norðurs, þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Ekki mótar fyrir upphækkun þar í landslaginu. Til vesturs sést bakki, um 0,2 metra hár. Þar var eldra íbúðarhúsið og sunnan megin við það hefur verið kálgarður til suðurs og austurs. Engin merki um tóftir sjást á honum og skemman hefur efl aust raskað honum þar sem hún
stendur. Það er greinilegt að mannvist er enn hér undir sverði, þrátt fyrir mikið jarðrask.

Gljúfurshellir (hellir/fjárhús)

Ölfus

Gljúfurhellir.

“Gljúfurshellir: (Hellirinn) Sandsteinshellir ofanvert (norðaustur) í Neðragilinu vestanverðu. Notaður lengi sem fjárhús,” segir í örnefnaskrá. “Gljúfurshellir er í lækjargili austan bæjar um 100 m neðan þjóðvegar. Nýleg fjárhús standa við læk nokkru ofan við hellinn.” segir í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi. Hellirinn er tæplega 550 m suðaustan við bæ og rúmlega 170 m vestan við nýleg fjárhús sem nefnd eru í Manngerðum hellum. Hellirinn sést ekki frá fjárhúsunum og ekki fyrr en komið er nær honum, hann er í gilinu norðanmegin.
Uppspretta er í gólfi nú innan við hellismunnann, en hún sést ekki lengur þar sem byggt hefur verið yfir hana. Hún rennur í lækinn sem er 3 metrum frá hellismunnanum. Litlir kindastígar liggja að hellinum beggja vegna við hann að norðan. Gilbotninn er grasigróinn, smáþýfður með villiblómum. Hellismunninn er tveim metrum ofan við lækinn.
Í bókinni Manngerðir hellar á Íslandi er hellinum lýst. Þar segir: «Hann er grafi nn í sandsteinsvöluberg, lárétt lagskipt með víxillaga linsum. Hellirinn er allur á breiddina sem er 10-11 m en dýpt hans inn í bergið er 6 m fyrir miðju en 5 m til endanna. Lofthæðin er 2,0-2,5 m. Muninn er jafnvíður hellinum sjálfum 10 x 2,5 m en honum hefur verið lokað með hlöðnum vegg sem á eru dyr fyrir miðju. Lítið uppsprettuauga er í gólfi nu innan við munnann og smáspræna rennur út um hann í aðallækinn. Leifar af jötum sjást með veggjum […] Hellirinn var hafður undir fé, en aflagður fyrir 20 árum. 70 ær voru við hellinn segir Gljúfursbóndi.» Litlu er við þessa lýsingu að bæta. Steypt hefur verið utan með hleðslunum og sést aðeins í þær fyrir ofan steypuna. «Örfáar unglegar áletranir eru á veggjum. Þar er m.a. hakakross.» segir einnig í Manngerðir Hellar á Íslandi. Áletranirnar eru mjög ógreinilegar en tveir hakakrossar eru enn sjáanlegir. Steypustyrktarjárn og bárujárn eru í hellismunnanum, ekki sést lengur móta fyrir jötum. Veggirnir eru mosavaxnir og gólfið er moldargólf með smásteinum. Hæð veggjar er fyrir dyrunum er 1,2 metrar en veggir hellisins eru aflíðandi.

Gljúfurseldalur (sel)

Ölfus

Gljúfursel.

“Suður frá [Stórkonugilsbotnum] er Sognseldalur og Gljúfurseldalur,” segir í örnefnalýsingu Hengils. Á heimasíðu Ferlis segir: „Í Seldalnum eiga skv. framangreindu að vera tvær selstöður í tvískiptum Seldal, annarsvegar í Gljúfurseldal og hins vegar í Sognsseldal, ofan Sogns. Sognasel er í gróinni tungu norðan áa er koma úr Sognabotnalæk og gili norðanvert í dalnum. Vel sést móta fyrir tóftum.
Gljúfursel er austan við ána í Seldal, þar í gróinni kvos. Vatnsstæði er í kvosinni og í henni rétt sést móta fyrir tóftum. Um er að ræða mjög gamalt sel frá Gljúfrum. […] Skv. lýsingu Björns átti selstaðan að hafa verið austanvert í dalnum. Einungis tók skamman tíma að fi nna tóftina. Hún hefur verið felld inn í gróinn bakka og sjá má móta fyrir rýmum vestan við hana. Kaldavermsl eru sunnan við tóftina, sem án efa hefur verið hin ágætasta uppspretta.“ Ekki er hægt að sjá tóftir í Gljúfurseldal, dalurinn er lítill og vel afmarkaður. Sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára Ármannssonar á heimasíðu Ferlis er einungis einn staður sem passar við lýsingar hans á staðnum. Selið var rúma 200 m norðaustan við Sognsel og rúmum 1,8 km norðan við bæ.
Austurhluti Gljúfurselsdals er gróinn og brattar brekkur afmarka þann hluta til austurs. Landið fer lækkandi til vesturs, að ánni, og rakt undirlendi er þar á kafla. Lækur rennur til vesturs, syðst í dalnum, og sameinast ánni. Selið var að öllum líkindum þar, á bakkanum sé tekið mið af lýsingum Ómars Smára. Ekki er hægt að greina mannvist á þessu svæði. Þegar skrásetjari var á ferðinni var mikill gróður þarna, allt að mittishár. Þarna eru þýfðir bakkar en ekki hæft að greina neina lögun eða tóftir í þeim.

Sogn (býli)

Ölfus

Sogn.

“Jarðdýrleiki xx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 398. 20 hdr. 1847. JJ, 75“.
1542: Þann 11.janúar 1542 var kveðinn upp dómur þriggja klerka og þriggja leikmanna um kæru Gissurar biskups Einarssonar í Skálholti á hendur Eyjólfi Jónssyni á Hjalla. Sakaði biskup Eyjólf m.a. um að hafa tekið sér fjögur kúgildi úr Sogni. DI X, 698 – 699.
Landamerki: Skráð eftir minni úr landamerkjabréfi , afriti úr embættisbókum sýslumanns, sem var í eigu foreldra minna, en látið af hendi þegar þau fóru frá Sogni (1935)… Gljúfurá… er markaá milli Sogns og Gljúfurs, austan Sognslands, allt þar til Gljúfurholtslands tekur við. Mörkin eru úr steini (merktum) efst við Haukamýragljúfur, þvert vestur í Stórumýri í “stefnu á Varghól” (svo í bréfi nu) í hlaðna vörðu (Markavörðu) vestur undir Múla (sjá Reykjatorfu). Nú er girðing á þessum mörkum… Frá áðurnefndri vörðu bein lína um Fögrubrekku (miðja) til norðurs í vörðu, sem er austan á Álút (hana hef ég ekki séð), þaðan í Efjumýrarvörðu. Þaðan á sveitarmörkum Grafnings og Ölfus stefna til suðausturs í Sandfell (Gljúfur), skammt ofan við Klyftartungur. Þar eru 3 gil og mörkin talin um miðgilið, sem rennur í Gljúfurá, svo er það hún og Gljúfursáin.” Ö-Sogn, 1.

Ölfus

Sogn – túnakort 1918.

Árið 1970 keypti Náttúrulækningafélag Íslands Sogn og stundaði þar garðyrkju. Í ágúst 1978 hófu Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann rekstur eftirmeðferðarheimilis í Sogni. Nú er rekin þar réttargeðdeild fyrir afbrotamenn. Nú er rekið fangelsi á jörðinni og hún nýtt til beitar.
1917: Heimatún 4.9. Fjárhústún 1.0 ha, alls 5.9 ha, allt slétt. Garðar 1250 m2.
“Bæjarnafninu Sogn hafa ýmsir velt fyrir sér og sett það í samband við norsku merkinguna Sogn (fjörður). Afi minn Ögmundur Ögmundsson bar það ævinlega fram Sodn eða Sotn. Í tilvitnun í handrit í Þjóðsögum Jóns Árnasonar III, bls. 48 er sagt að í handriti standi Soðn. Kannske er þarna á ferðinni eldri mynd af nafninu,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslunni Hengill og umhverfi eftir Kristinn Magnússon segir: “Bæjarhóllinn er um 50 m vestsuðvestan við hús Réttargeðdeildarinnar á Sogni. Þar sjást engar rústir en aðeins vottar fyrir hól í sléttuðu, grasi grónu túni. Hóllinn er um 45m í þvermál. […] Gamla bæjarstæðið á Sogni hefur verið sléttað. Enn stendur þó eftir áberandi hóll sem eflaust geymir leifar bygginga og mannvistarlaga frá þeim tíma er bærinn stóð á þessum stað..” Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920, suðvestarlega í heimatúninu. Hann er um 130 m vestan við núverandi byggingar á Sogni.
Bærinn brann en ekki er vitað hvenær, í kjölfarið var hann fl uttur. Stafnar eldri bæjarins snéru til suðurs og þaðan víðsýnt yfir Ölfusforir.
Sléttað var yfir bæjarhólinn en þar eru ekki byggingar á yfirborði. Hóllinn er sléttur, grasivaxinn og sést sem hæð í túninu. Hann er 50×30 m að stærð, 0,2-1 m
á hæð og snýr austur-vestur. Vírgirðing liggur yfir vesturhluta hans, meðfram Bæjargilinu.

Stóri-Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Stóri-Hellir.

“Stóri-Hellir: Hellisgjögur í bergið ofan Hellisbrekku, sunnarlega í fjallinu, var notaður sem fjárhús áður. Notaður sem rétt þegar ég þekki til. Tók 100 kindur í innrekstri,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Hellir er svo 98m suðsuðvestar. Fyrir framan þann helli er einnig hleðsla eða veggur sem er allt í allt um 6,7m á lengd og um 0,5m á hæð.

Ölfus

Stóri-Hellir.

Veggurinn hefur myndað einskonar aðhald og beint fénu inn í hellirinn sem bæði var nýttur sem fjárhús og rétt.” Hellirinn er um 300 m suðvestan við bæ og 100 m sunnan við Litla-helli 010. Hann er enn uppistandandi en ekki nýttur.
Hellirinn er í Hellisbrekku, þar á mörkum kletta og gróinnar brekku. Efst í brekkunni eru háir hamrar en gróin brekka neðan þeirra, niður að Hellismýri. Hellirinn er náttúrulegur og mesta lofthæð er 1,5 m. Hann er opin til austurs og þaðan er víðsýnt. Innst í hellinum eru tvö lítil gjögur, mögulega var hægt að skipta honum í fleiri hólf. Það eru þó ekki berghöld eða aðrar ristur í veggjum hellisins sem styðja þá tilgátu. Hleðslan fyrir framan hellinn sést enn, hún
er afar sigin. Hún er líkust öngli í laginu, og snýr norðaustur-suðvestur. Það er gróið yfir alla steina í veggnum. Réttin var opin til suðurs.

Litli-Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Litli-Hellir.

“Litli-Hellir: Lítið gjögur undir stóru bjargi, sem fallið hefur úr fjallinu. Þar voru í mínu minni, hlaðnir kampar og einhvern tíman notað sem fjárhús,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Fyrir framan hellisskútann eru grasi grónar hleðslur, um 0,4m á hæð. Þessi veggjastubbar eða hleðslur hafa myndað inngang inn í hellinn sem var nýttur sem fjárskýli.” Litli-hellir er tæpum 230 m vestan við bæ og um 80 m sunnan við Trippakofa.
Litli-hellir er í gróinni brekku, neðarlega. Allt umhverfis er gróið svæði sem nýtt er til beitar. Litli-hellir er lítill og þegar skásetjari var á ferðinni var mikið gras á svæðinu sem gerði minjarnar óskýrar. Hellirinn er um 0,8-1 m á hæð, skrásetjari komst ekki inn í hellinn. Tóftin er fyrir austan hellinn. Hún er 4×2 m að stærð og snýr austur-vestur. Tóftin er opin til austurs en hvergi sést glitta í grjót í veggjum.

Kot (býli)
“Kot: (upp í Kot, uppi í Kot) Þar var bær ( í byggð 1896). Mun hafa verið stutt í byggð og bjó þar Eyjólfur Símonarson. Þar stóð heyhlaða, sér enn fyrir,” segir í örnefnaskrá. Bæjarstæði Kots sést enn, á túnakorti frá 1920 er útihús á sama stað. Tóftir bæjarins voru því notaðar áfram eftir að hann féll úr ábúð. Kot var rúmum 210 m vestan við bæ og 50 m sunnan við Ærhús.
Gróið tún, fast austan við Hellisfjall. Svæðið er í halla til suðausturs, niður að Hellismýri. Kristinn Magnússon lýsir minjunum svohljóðandi: “Um 10m NA er grasi gróin dæld, líklega leifar byggingar, mikið sokkin. Hún er 9,7m x 9m að stærð með hvilft eða dýpri dæld í miðju. Mjög illgreinanlegt.” Bæjarstæðið er 14×14 m að stærð og 0,2 m á hæð. Tóftin er sigin og sést illa. Hún er skeifulaga og þúst er til suðvesturs, mögulega veggur. Tóftin er opin til suðausturs. Það er líklega tóft hlöðunnar sem enn sést hér. Þeir eru 0,2 m á hæð og algrónir. Til suðausturs sést kantur, mögulega hluti af bæjahúsunum.

Stóri-Einbúi (þjóðsaga/huldufólksbústaður)

Ölfus

Stóri-Einbúi.

“Stóri-Einbúi: (Einbúinn, afbæjamenn kölluðu Sognseinbúa). Klettahóll í Einbúamýri, klofinn í kollinn. Í honum var gott skjól fyrir búfé. Þar bjó huldufólk samkvæmt þjóðsögum. Jafnvel álfakirkja,” segir í örnefnaskrá. Í skýrslu Kristin Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Stóri-Einbúi er stór klettahóll sem stendur upp úr blautri mýri, Einbúamýri. Klettahóllinn er um 266m sunnan við stekkinn.” Stóri-Einbúi er um 720 SSV við bæ og rúmlega 160 m ASA við áfangastað. Hóllinn sker sig úr út úr landinu og er auðgreinanlegur úr mikilli fjarlægð úr öllum áttum.
Umhverfis Stóra-Einbúa er mýrlendi og þekur mýrastör og annar votlendisgróður stóran hluta af gróðurþekjunni.
Stóri-Einbúi er 60×40 m að stærð og snýr svo að segja austur-vestur. Hann er rúmlega 60 m hár. Einbúinn er grösugur til norðurs og suðurs, en gróðursnauður og erfi ður yfirfærðar til austurs og vesturs. Í skýrslu Kristin Magnússonar er Stóra-Einbúa lýst svo: “Hann er um 70m x 50m að stærð. Engar sýnilegar tóftir eru á hólnum en sögusagnir eru um að þar hafi huldufólk búið […]. Hann er stór og áberandi klettur sem rís upp úr flatlendinu í kring. Það er því ekki skrítið að frásagnir um Álfakirkju hafi tengst klettinum.»

Bakkárholtssel (sel)
“Sel: Þýft móbarð og melar norðvestan Sogna. Vatn frá því fellur í litlu gili í Selá í Seldalnum.
Þarna var selstaða frá Bakkárholti í Skiptum fyrir engjaland. Notkunarréttur fallinn niður vegna vannota Bakkárholts, 1703 (Jarðab. A.M.). Sér enn fyrir tóftum,” segir í örnefnalýsingu. Selið er rúman 1,7 km NNV við bæ og rúma 880 m vestan við Seldal. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Milli fjallsins Sogna og Reykjafjalls er dalur. Selrústir eru í þessum dal. Þær eru á grasivöxnum velli sem liggur undir Reykjafjalli og hallar til suðurs. Milli vallarins og Reykjafjalls er lítið gil sem liggur meðfram fjallinu en sveigir svo til austurs norðan Sogna í átt að Selgili og Gljúfurá. Í gilinu er lækur. Selrústirnar eru við gilbrúnina.”
Selið er á grónu svæði, skammt norðan við vírgirðingu sem afmarkar land Sogns. Mosi, gras og elfting er áberandi. Tvær tóftir eru á svæði sem er 18×16 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Í skýrslu Kristins segir: Tóftirnar eru tvær, vaxnar grasi og mosa.

Seldalur/ Sognsel (sel)
“Seldalur. Gróið dalverpi suðaustur af Selásnum, suður að ármótum Gljúfurár og Selár. Sognseldalur vestan Gljúfurár, Gljúfursseldalur austan. Þar var sel frá Sogni, sér enn tóftarbrot.
Stundum var heyjað þar, aldrei í mínu minni,” segir í örnefnalýsingu. Í skýrslu Kristins Magnússonar, Hengill og umhverfi segir: “Sel var í Gljúfursseldal sem er austan Gljúfurár. Rústir þessa sels eru á smá fl öt á tanga er liggur á milli Selár og Gljúfurár. Hugsanlegt er að flötin hafi verið heyjuð. Þrjár tóftir eru fyrir ofan flötina. Þær eru fornlegar að sjá, engar hleðslur eru sýnilegar en þó sést í stöku stein. Eru vaxnar grasi og mosa. Syðsta tóftin (nr. 786) er 8,5m x 4,1m að stærð, liggur NA-SV, með inngang á SV-hlið. Rúmum 2m í NV er önnur tóft á litlum grasivöxnum hól. Hún er 9,2mx7,3m að stærð og liggur NV-SA. Tvö hólf virðast vera á tóftinni og greina má inngang í annað hólfið, á SA-hlið. Tæpa 8m vestar er þriðja tóftin. Um er að ræða fremur ógreinilega þúst, 6mx6m að stærð. Hvilft er í miðju en ekki er hægt að greina inngang.” Selið er rúmum 880 m austan við sel og tæpum 1,7 km norðan við bæ. Selið er líkt og segir í örnefnalýsingu, vestan við Gljúfurá, þarna eru tær tóftir auk tveggja óljósari mannvirkja.
Rafmagnsgirðing á merkjum Sogns og Gljúfurs er 50 m austan við selið. Selið er á gróinni tungu, þarna er mosi, lyng og elfting áberandi. Landið lækkar til suðvesturs, að ánum. Mýrarvik, að Selá, er sunnan við tóftirnar. Svæðið er 50×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Gljúfurholt (býli)

“Jarðdýrleiki óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 404. 30 hdr. 1847. JJ, 75.
1522: Jörðin er nefnd í fjárskiptabréfi milli Hólmfríðar Erlendsdóttur og Eyjólfs Einarssonar, sonar hennar og systkina hans. DI IX, 87. “Mörk fyrir engjum Gljúfurholts voru mjög sérkennileg. Gömul árför í mörgum krókum á báða vegu. Austan gamall farvegur Gljúfurholtsár. Vestan gamall farvegur Varmár.” Ö-Gljúfurholt, 3.
1920: Tún 3.8 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1025 m2.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2020.

Ölfus

Gljúfursel.

Ölfus

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla II“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Auðsholt, Egilsstaði, Hala, Arnarbæli, Bakkárholt, Reyki, Kross, Saurbæ, Kröggólfsstaði og Hraun, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:

Auðsholt (býli)

Ölfus

Auðsholt.

30 hdr, 1708. JÁM II, 408. 42 2/3 hdr. 1844. JJ, 74. 1397: LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ DI IV, 92. 1708: Jarðdýrleiki xxx eftir munnmælum, en engi geldst hjer tíund af. Inn til næstliðinna 14 eður 12 ára var af þessari jörðu goldið til sveitarinnar það sem menn kölluðu jarðareyrir, að fátækir fengu 12 fiska. “ JÁM II, 408. „Gömul jörð og stór, 42 hundruð að fornu mati. Austast skiptast á mýrar og holt; þar var góð vetrarbeit og skjólsælt. Bærinn stendur á grónu holti. Vestast og norðan þess eru blautar engjar og grasgefnar sem Ölfusá flæðir yfir í stórflóðum. SB III, 388. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er nýtt til beitar og þar er alifuglabú.
1917: Tún 8 ha, þar af c. 1/3 slétt. Garðar 1824 m2.

„…Auðsholt … standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918 og stafnar snéru líklega til suðurs.

Ölfus

Auðholtsbyrgi.

Árið 2004 var fyrst komið að Auðsholti í tengslum við skráningu á kirkjum og bænhúsum á landinu. Auðsholti var lýst svohljóðandi þá: „Bæjarhóllinn er frekar háreistur hóll og er núverandi íbúðarhús ennþá þar og hefur fengið nokkra upplyftingu. Heimtröðin er nokkuð löng og komið að húsunum að vestan. Garður er í kringum húsið með sundlaug og nokkuð af trjám. Unnið hefur verið að endurbótum bæði á húsi og garði.“ Árið 2014 var aftur komið að Auðsholti vegna aðalskráningu minjastaða í sveitarfélaginu Ölfusi. Strax var ljóst að miklar breytingar höfðu átt sér stað á bæjarstæðinu. Íbúðarhúsið eyðilagðist í jarðskjálfta árið 2008 og var rifið árið 2009. Í gegnum tíðina hafði verið byggt við það nokkrum sinnum og húsið stækkað. Það var ókostur og húsið eyðilagðist, að hluta til vegna þessa. Nú er ekkert hús á bæjarhólnum fyrir utan 20. aldar hlöðu sem er í norðvesturhorni bæjahólsins. Öll önnur útihús hafa verið rifin en sundlaugin sést enn innan bakgarðsins. Fyrir sunnan bæinn var sambyggður kálgarður samkvæmt túnakorti frá 1918, sundlaugin er innan hans. Suðurhlið kálgarðsins sést ennþá, þar er 1-1,5 m hár og brattur kantur. Óljóst mótar fyrir hluta af austur- og vesturhliðinni í túni. Þær byggingar sem tilheyra kjúklingabúinu eru nýlegar.
Bærinn var á náttúrulegu holti, syðst á því. Þar eru ræktuð tún til allra átta.
Bæjarhóllinn sést ennþá enn er mikið raskaður. Hann er um 80 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Það er búið að grafa mikið hólinn og miklar framkvæmdir átt sér stað á honum. Elsti hluti íbúðarhússins var byggður 1926 en annað sambyggt íbúðarhús var byggt 1965. Húsið var að hluta mikið endurnýjað og sundlaug grafin í suðurhluta bæjahólsins með handafli og dráttarvél. Samkvæmt Runólfi Gíslasyni, heimildarmanni, varð hann í flestum tilfellum var við hleðslur og mannvist við framkvæmdir næst bænum. Nú (2015) er slétt, gróið svæði þar sem íbúðarhúsið var en bakgarðurinn sést ennþá. Það er erfitt að átta sig á hæð uppsafnaðra mannvistarlaga vegna rasksins en hann er 1,5 m á hæð syðst.

Auðsholtskirkja (kirkja)

Ölfus

Auðsholt – túnakort 1918.

Í máldaga kirkjunnar frá 1397 segir: „LXXXII. Audshollt. Heilog kirkia j Audzhollti a .ij. kyr. Hun a innann sig kross. alltarisklædi oc dvkur. kluckur .ij. paxspialld. portio Ecclesiæ vmm .ij. ar næstu .vij. aurar. forn tiund oll saman .ccc. fellur nidur .c. firir vppgiaurd kirkiunnar er Lytingur liet vppgiaura.“ Í örnefnalýsingu jarðarinnar segir: „Auðsholt er ein af stærri jörðum í Ölfusi. Þar var kirkja samkvæmt gömlum máldögum. Nú vita menn ekki hvar hún stóð. Ýmsar sterkar líkur benda til að hún hafi staðið á hól þar, sem nú stendur fjós og heyhlaða og eru til þess þessar orsakir. Þegar Grímur Hákonarson keypti Auðsholtið skömmu eftir 1930, lét hann byggja myndarleg peningshús í hól norðvestur af íbúðarhúsinu. Þar var djúpur jarðvegur og mikið flutt til af mold. Í moldinni sáust leifar af beinum. Þó varla svo greinilegum að sannað væri að það væru mannabein, enda lítið grannskoðað. Síðar þóttust skyggnir menn verða vara við „hreifing“ í fjósinu, þegar farið var að ganga þar um. Í Jarðab. A.M. er ekki minnst á kirkjuna, hún er þá gleymd.“ Ekki er vitað með vissu hvar kirkjan var staðsett. Samkvæmt Magnúsi Gíslasyni, heimildamanni, var þessum uppmokstri hent í Bæjarmýri skammt frá bænum og kallaðist hóllinn Beinahóll. Lengi sáust bein í hólnum en þau eru horfinn nú. Þetta voru einungis dýrabein, þarna var ekki neitt um stór bein. Fjósið var vestan við hlöðuna sem ennþá stendur en það var rifið eftir 2008.
Engin ummerki kirkjunnar sjást á yfirborði.

Miðhjáleiga (býli)

Ölfus

Miðhjáleiga.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Auðsholtshjáleiga heimari, bygð af heimalandi fyrir manna minni.“ „Mið hjáleiga: […] Smáhóll í túninu, mitt á milli bæjanna,“ segir í örnefnalýsingu. Miðhjáleiga er rúmum 110 m sunnan við bæ 001 og tæpum 170 m norðan við Auðsholtshjáleigu. Bæjarhóllinn sést ennþá þrátt fyrir að svæðið hafi margsinnis verið plægt og sléttað hér yfir. Við sléttun hefur komið upp mikið af grjóti, veggir og aðrar mannvistarleifar að sögn Runólfs Gíslasonar, heimildamanns.
Slétt, ræktað tún er umhverfis bæjarhólinn. Miðhjáleiga, Auðsholt og Auðsholtshjáleiga, eru á sama holtinu en mýrlent er til allra átta frá því. Bæirnir raðast í einfalda röð, N-S, eftir holtinu. Klettar eru uppi á holtinu og var Miðhjáleiga eflaust á einum slíkum, við vesturmörk holtsins, þar sem það lækkar niður í mýrina.
Bæjarhóllinn er 55 x 35 m að stærð, snýr norður-suður og er hæstur um 2 m. Hann fjarar út til allra átta og er það af völdum sléttunar. Bærinn er á miðjum bæjarhólnum.

Audsholt station (herminjar)

Ölfus

Camp Audsholt.

„Ærhúshólar: Hólar austan við Miðskák […] Breski herinn byggði þar byssustæði og skotgrafir á stríðsárunum, sér enn fyrir þeim mannvirkjum,“ segir í örnefnaskrá. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi eftir Guðmund Kristinsson segir: „Reist voru ein 20 topptjöld á árbakkanum við Ólafsstekk, fram af Auðsholtshjáleigu. Aðrar tjaldbúðir reistu þeir uppi á Auðsholtstúni, norðaustur frá bænum og timburskúr fyrir eldhús. Þangað fór einnig 40 manna kanadísk vélbyssusveit, […] nefndu þeir herbúðirnar Audsholt station. […] Áttu þeir að styðja Kanadamenn við varnir flugvallarins í Kaldaðarnesi og settu upp stórar loftvarnarbyssur syðst á hæðardraginu austur af Auðsholtsbænum. […] Uppi á hæðardraginu, skammt norðan við byssurnar, var steypt gluggalaust byrgi með steyptu lofti og hulið með mold og sniddu. Það var 14 m langt, tæpir 4 á vídd og með 2,25 metra lofthæð. Það var stjórnstöðin fyrir byssurnar. Dyr voru á norðurenda og tvær á hvorri hlið. Með vesturhliðinni var axlarhá skotgröf fram í vígi með þremur smáútskotum sunnan við byrgið. […] ekið var inn í kampinn af Arnarbælisvegi úr norðri framhjá varðmönnum í skýli. Þaðan lá vegur til suðurs, austan við Gónhól og byrgið og að loftvarnarbyssunum. Þegar ekið var suður herbúðarveginn, var fyrst komið að eldhúsinu vestan við veginn. Þar tóku við hlaðnir garðar beggja vegna vegarins. Fyrir ofan veginn voru skotgrafir og 1-2 braggar í brekkunni upp að Gónhól, þar sem vatnsgeymir var byggður. Fyrir neðan veginn voru einir tíu braggar og suður af þeim var stakur braggi offísera. Og niðri á láglendinu syðst var 5 metra djúpur brunnur, steyptur og dæluhús úr holsteini. Tveir braggar voru reistir austur við Tjaldhól, annar fyrir skotfæri en hinn fyrir verkfæri.
Þegar herinn fór frá Kaldaðarnesi haustið 1943, yfirgáfu hermennirnir kampinn í Auðsholti og tóku niður stóru loftvarnarbyssurnar. Settu þeir í staðinn upp langa, svarta símastaura til þess að villa um fyrir óvinaflugvélum.“ Herbúðirnar eru rúmum 150 m suðaustan við bæ, uppi á Ærhúshólum. Hluti af mannvirkjunum eru ennþá varðveitt en minjarnar hafa látið á sjá frá árinu 1998 þegar þeim var fyrst lýst.

Sorgarsteinn (þjóðsaga)

Ölfus

Sorgarsteinn.

„Sorgarsteinn: Blágrýtissteinn á Bæjarholtinu. Nafnið er þannig til komið að sögn er um að kona hafi alið barn sitt undir steininum og fannst þar dáin,“ segir í örnefnaskrá. Sorgarsteinn er rúma 450 m norðaustan við bæ og 350 m vestan við helli. Þetta er eini blágrýtissteinninn á þessum slóðum og hann sker sig vel úr umhverfinu.
Sorgarsteinn er innan beitarhólfs fyrir hross. Þar eru óræktuð tún og á einhverjum tímapunkti voru þau ræktuð. Steinninn er nyrst á Bæjarholtinu og þar norðar tekur mýrin Sakka við. Umhverfis Sorgarstein eru lægri klettar úr móbergi. Steinninn sjálfur en nánast ferkantaður, 1 – 2 m á hæð og umhverfis hann er gras.
Greinilegt er að hross híma gjarnan þarna við.

Auðsholtshellir (fjárskýli)

Ölfus

Auðsholtshellir.

„Auðsholtshellir: Hellir vestan í Skyggnisholti. Þar var hýst fé, sauðir,“ segir í örnefnaskrá.
Auðsholtshellir er um 650 m norðaustan við bæ og tæpa 300 m suðvestan við mógrafir. Hellirinn er náttúrulegur en hleðsla er framan við op hans.
Vesturhlíðar Skyggnisholts eru brattar og víða eru klettar. Neðri hluti þeirra eru grónar en klettar efst. Hellirinn er í einu klettabeltinu og brekkan nær upp að honum. Hellisopið er 7 m langt og 2,5 – 3 m á hæð. Hellirinn snýr norðvestur – suðaustur og lofthæðin er minnst 1 m. Hellirinn er nokkuð reglulegur og myndar snotra hvelfingu. Engin mannaverk sjást þar inni. Nýlegt eldstæði er innst í hellinum svo hann er eitthvað notaður til skemmtana. Hleðsla er framan við opið. Hún er 8 m að lengd, 0,5 m á hæð og 3 m á breidd. Það er bratt til vesturs frá henni, niður brekkuna. Hleðslan lokar hellinum ekki að ofan og líklega var hann alltaf opinn þar. Op inn í hellinn er í suðvesturhorni.

Brú (brú)

Ölfus

Brú við Stapakletta.

„Stapaklettar: (heimri og syðri). Tveir klettar, sem skaga út í Ölfusá […] Mannvirki eru á þeim frá hernámsárunum. Þessir klettar eru ranglega nefndir Laxaklettar,“ segir í örnefnaskrá. Brúin er rúmum 1 km suðaustan við bæ og tæpum 800 m vestan við mógrafir. Stapaklettar eru tveir og mannvirki eru á þeim báðum. Bát þarf til að komast á milli Stapaklettanna þrátt fyrir að stutt sé þar á milli, Ölfusá rennur þar í djúpum, straumhörðum ál. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi eftir Guðmund Kristinsson segir: „Bretar ákváðu að setja létta göngubrú fyrir benzínleiðslu á Ölfusá hjá Kaldaðarnesi. Skyldi hún liggja frá Stapaklettum fyrir austan Auðsholt í Ölfusi að vestanverðum flugvellinum í Kaldaðarnesi. En þar er Ölfusá um 800 metra breið. Þetta yrði því lengsta brúarmannvirki, sem gert hefði verið á landinu. Þetta var hengibrú á 20 stöplum, aðeins um 1,5 m breið, og var hvert brúarhaf um 40 metrar.

Ölfus

Brúin.

Stöplarnir voru gerðir af fjórum trjám, fet á kant, sem rekin voru niður í ána. Þau voru boltuð saman með krosstrjám og mynduðu undirstöður undir brúargólfin. Ofan á hvern stöpul voru reist há stauravirki með krosstrjám, sem báru uppi burðarstrengi brúarinnar, og á hana var sett tæplega meters hátt handrið. (…) Á árbakkanum var hlaðinn mannhæðarhár pallur úr grjóti og sementi fyrir olíubíla, þaðan sem benzíni skyldi dælt um brúarleiðsluna í geyma við flugvöllinn. Pallinn hlóð Sigurjón Steinþórsson, frá Króki, sem var snillingshleðslumaður, ásamt Guðbirni, syni sínum. […] Þannig þokaðist brúin lengra og lengra út í ána […] Sunnudaginn 25. október voru 10 brúarhöf sunnan megin brúarinnar fullgerð […] 11. nóvember […] gerði hvassann landsynning og illviðri […] Veðurofsinn stóð allan daginn en snérist á áttinni um hádegi. Þá gjöreyðilögðust stokkfestingar, svo að brúargólfin […] snérust og stórskemmdust.
[…] Um veturinn brotnaði þessi lengsta brú, sem smíðuð hafði verið á landinu, í spón.“ Brúin er rúman kílómetra suðaustan við bæ og fast sunnan við rétt.
Stapaklettar eru á norðurbakka Ölfusár og úti í ánni sjálfri, skammt frá landi. Umhverfis þá er sendinn árbakki og áin breiðir úr sér.
Klettarnir eru áberandi og sjást víða að.
Á syðri klettinum, sem er úti í ánni er steypt mannvirki en ekki reyndist unnað komast þangað. Þetta er brúarstöpull. Á heimri klettinum, sem er landfastur, er einnig brúarstöpull og fleiri steinsteypt mannvirki. Samtals eru þau um 30 x 1,5 m á stærð og liggja eftir endilöngum klettinum. Þarna var mögulega hús eða sambyggt rými. Olíupallurinn er 60 m norðar, við rétt 021. Hann sést vel í gegnum gróður og hleðslan að utan. Steinsteypa er á milli umfara. Pallurinn er 21 x 3 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hann mjókkar eftir því sem ofar dregur og er 2 m á hæð.

Auðsholtshjáleiga (býli)

Ölfus

Auðsholtshjáleiga.

„Sydri hjáleiga, önnur af sömu jörðu. Dýrleikinn áðurtalinn með heimajörðunni.“ JÁM II, 409. Hjáleiga frá Auðsholti. „Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín 1708 nefnir tvær hjáleigur frá Auðsholti: Auðsholtshjáleigu heimari, sem er löngu komin í eyði, og Syðri-hjáleigu. Hún er enn sérstök jörð og kallast Auðsholtshjáleiga.“ SB III, 389. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er í eigu ábúenda á Grænhól og nýtt samhliða henni. Íbúðarhúsið er nýtt sem heilsárshús.
1917: Tún 3 ha, þar af c. 8/9 slétt. Garðar 1105 m2.
„…Auðsholtshjáleiga (syðri hjáleiga) standa enn á sama stað…,“ segir í örnefnalýsingu. Bæjarhús Auðsholtshjáleigu eru sýnd á túnakorti frá 1918. Bærinn er á svipuðum stað og þá, var sunnarlega á holti. Ekki er vitað nákvæmlega hvar bæjarhúsin sem sýnd eru túnakortinu stóðu en líklega er hús byggt 1948 á svipuðum stað. Ekki er föst ábúð á jörðinni en hún er nytjuð frá Grænhól og í eigu ábúenda þar. Íbúðarhúsið er nýtt sem heilsárshús. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og kálgarður var þar í brekkunni fyrir neðan, allt niður að mýrlendi sem þar tekur við.
Mikið rask er á bæjarhólnum, aðallega vegna bygginga og gróðurs. Þar eru öll 20. aldar útihúsin ásamt tilheyrandi raski.
Íbúðarhúsið er í miðjum hólnum, útihús frá seinni hluta 20. aldar eru í norðurhlutanum og gróinn bakgarður til suðurs, þar sem kálgarðurinn var áður. Erfitt er að átta sig á náttúrulegri upphækkun og mannvistarlögum af þessum sökum. Bæjarhóllinn er um 50 x 30 m að stærð og snýr austur-vestur. Bærinn hefur líklega staðið á náttúrulegum hól. Fyrir austan húsið er malarplan og umhverfis byggingarnar eru ræktuð tún. Þegar komið er að bænum er ekið upp brekku sem mögulega er uppsöfnuð mannvistarlög að einhverju leyti.

Egilsstaðir (býli)

Ölfus

Egilsstaðir.

20 hdr. 1847. JJ, 74. „Jarðardýrleikinn áðurtalinnn í heimastaðnum Arnarbæli.“ JÁM II, 414. Hjáleiga frá Arnarbæli. „Gömul jörð, nátengd Arnarbælinu. Prestekkjujörðin. Að fornu mati 20 jarðhundruð. Landið allt gróið og grasgefið, mýrar og holt. Liggur undir flóðhættu frá Ölfusá, bærinn stendur á lágum hól. Hjábýli var í túninu, hér Egilsstaðahali, nefnt Hali.“ SB III, 381. Ekki er lengur föst ábúð á jörðinni, hún hefur verið í eyði nokkur ár. Jörðin er í eigu ábúenda á næstu jörð sem nýta hana til beitar.
1917: Tún 2.2 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 1026 m2.
„Egilsstaðir: Hafa staðið á sama stað: Tvíbýli var á Egilsstöðum og átti prestekkjan rétt á hálfri jörðinni þegar náðarárið var á enda,“ segir í örnefnaskrá. Egilsstaðir eru rúmum 650 m norðan við Arnarbæli. Bærinn er á náttúrulegum, stakstæðum hól og hefur alltaf staðið þar. Ástæðan er flóðahætta, Ölfusá hefur í gegnum tíðina flætt hér yfir en hóllinn stendur alltaf uppúr. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakkar, Kross, Ossabær, Yxnalækr, Þúfa, Vötn, Kröggólfsstaðir, Þurá, Þóroddsstaðir, Bakki, Hvammr, Árbær, Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði. Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum. í fyrra dag (8. þ. m.), var enn jarðskjálfti í Ölfusi, sem gerði nokkurt tjón á yztu bæjunum (Hlíðarbæjum). Timbrhús á Hlíðarenda skektist á grunni.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og sambyggður kálgarður var þar framan við. Traðir lágu þar þvert í gegnum hann. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er í eigu ábúenda á Ósgerði sem nýta hana til hrossabeitar. Öll hús á jörðinni eru í mikilli niðurníðslu.
Bæjarhóllinn er á tiltölulega sléttu landi. Á honum eru nokkur 20. aldar útihús ásamt íbúðarhúsinu.
Íbúðarhúsið er byggt 1925-1953 á miðjum bæjarhólum sem er frekar lágur og lítið áberandi. Hóllinn er mikið athafnasvæði og jarðrask þar mikið. Ekki er hægt að segja til um nákvæma stærð, hæð og legu bæjarhólsins, hann rennur saman við náttúrulega hólinn. Þarna eru mikið af byggingum, malarvegur liggur upp á hólinn úr suðri og þvert yfir hólinn að útihúsum til norðurs.

Hali (býli)

Ölfus

Hali.

Hjáleiga frá Egilsstöðum. „Hjábýli var í túninu, hét Egilsstaðahali, nefnt Hali. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín árið 1708 er talið að Hali hafi í byggð verið undir 40 ár. Í byggð fram undir síðustu aldamót [1900].“ SB III, 381.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Hjáleiga af Egilsstöðum, hefur bygð undir 40 ár.“ Í örnefnalýsingu Arnarbælis segir: „Hali (Egilsstaðahali): Eitt af kotunum í Arnabælistorfunni stóð suðvestur af Egilsstöðum, sér enn hól þar, sem bærinn var.“
Hali var fast sunnan við bæjarhól Egilsstaða en nákvæm staðsetning er á reiki. Býlið var á svipuðum slóðum og núverandi hesthús, fast vestan við heimreiðina að Egilsstöðum, áður en ekið er upp á hólinn. Á herforingjaráðskorti frá 1908 er Hali sýndur SSV við Egilsstaði, þar sem fyrrnefnt hesthús er núna. Sú staðsetning kemur einnig heim og saman við lýsingu í örnefnaskrá hér ofar. Hali var rúmum 20 m suðvestan við Egilsstaði og rúmum 630 m norðaustan við Arnarbæli. Að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, heimildamanns, voru lágir hólar nyrst í heimatúninu sem kenndir voru við Hala en þar voru ekki tóftir. Þessi hólar eru horfnir en mögulega voru þetta útihús frá hjáleigunni.
Ekki sér til minja né hóla þar sem Hali stóð. Bygging hesthússins sem og túnasléttun á eflaust stóran þátt í því. Hali var á mörkum holts og mýrlendis, fyrir suðvestan hesthúsið er mýrarsund sem náði allt að hólnum sem Arnarbæli og fleiri bæir eru á. Fyrir sunnan hesthúsið er smá hólmyndun en erfitt er að greina hvort að hún tengist því eða eldri mannvirkjum án frekari rannsókna. Túnið til suðurs frá hesthúsinu er óræktað og þar eru einnig fleiri lágir hólar á mörkum mýrlendis. Ekki sást til mannvistar í þeim. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja bæinn með enn meiri nákvæmni.
Engin ummerki Hala sjást á yfirborði.

Ósgerði (býli)

Ölfus

Ósgerði – túnakort 1918.

5 hdr. 1847, JJ, 74. „Úrskift býli úr heimastaðnum Arnarbæli, og er haldið almennielga sextándi partur jarðarinnar, skyldi þá heimastaðurinn allur vera 80 hdr, en þetta býli v hdr. Jarðdýrleiki var v og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM, 409. „Ósgerði er sérstök jörð og hefur verið það lengi. Hún var að fornu talin 1/17 hluti úr Arnarbælistorfunni. […] Ósgerði stóð austast á Arnarbælishólnum.“ Nú er búið í Ósgerði og jörðin nýtt til hrossabeitar.“ SB III, 387.
1917: Tún 1.3 ha, þar af c. 2/3 slétt. Garðar 336 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir að Ósgerði sé hjáleiga frá Arnarbæli. „Ósgerði: Bærinn stendur á sama stað, norðan Nethamra. (1/16. hluti úr Arnarbælinu, Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Ósgerði er um 230 m ANA við Arnarbæli og 100 m norðan við Nethamra, malarvegur liggur á milli þeirra. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemmdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, […] Stríta, Ósgerði. Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum. Í fyrra dag (8. þ. m.), var enn jarðskjálfti í Ölfusi, sem gerði nokkurt tjón á yztu bæjunum (Hlíðarbæjum).

Ölfus

Ósgerði.

Timburhús á Hlíðarenda skektist á grunni.“ Búið var að rífa öll mannvirki á jörðinni þegar Sunnlenskar byggðir III koma út árið 1983 en ljósmynd er þar af bænum. Þá var ekki búið að vera ábúð á jörðinni í tæp 20 ár, hún einungis nytjuð.
Árið 1997 var reistur sumarbústaður á bæjarhólnum og íbúðarhús fast norðvestan þess árið 2014 – 2015 samkvæmt Fasteignaskrá. Nú er föst ábúð á jörðinni og hrossarækt. Ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sést á túnakorti frá 1918 og bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1908 var staðsettur, líklega var hann á sama stað og fyrrnefndur sumarbústaður. Mikið rask er á bæjarhólnum, það er búið að byggja og rífa nokkur hús á 20. öld.
Mynd af 20. aldar bænum er í Sunnlenskum byggðum III eins og áður sagði. Þar sést að íbúðarhúsið var á svipuðum stað og sumarbústaður frá 1997, útihúsin voru þar skammt suðaustar, á hólbruninni. Þarna eru nú ræktuð tún nýtt til beitar, skjólbelti, malarvegir og fleiri mannvirki. Ekki sér til greinilegrar upphækkunar á yfirborði en mannvist er án efa enn undir sverði þrátt fyrir mikið rask. Kálgarður var suðvestan við bæinn, líklega í brekku sem þar er og sést hann á bæjarteikningunni og túnakorti.
Engin ummerki um bæjarhólinn sjást á yfirborði.

Arnarbæli (býli)

Ölfus

Arnarbæli – bæjarhóll.

80 hdr. JJ, 74. Getið í Harðar sögu: “Um fardagaskeið reið Grímkell goði heiman út í Ölfus um Hjalla, en utan um Arnarbæli ok upp eptir Flóa í Oddgeirsshóla …” ÍF XIII, 25. 6.10.1289: “Reið [Árni biskup Þorláksson] í Arnarbæli og var þar fögur veisla. Þar bjó herra Þorvarður [Þórarinsson d. 1296], Árna saga biskups, Sturl, 874. „Kirkjustaður og beneficium síðan í tíð Ögmundar biskups, eftir því sem munnmæli segja. Jarðardýrleiki segja menn áður hafa verið 80 með Ósgerði. Skyldi þá staðurinn sjálfur lxxv.“ JÁM, 410. 23.4.1509 er borinn vitnisburður um að kirkjan í Arnarbæli eigi fjórðung í hvalreka og viðreka á Skeiði, þ.e. frá Ölfusá og út til Þorlákshafnar – DI VIII, 277. [1524] selur Ögmundur biskup Snæbirni Gíslasyni Arnarbæli – DI IX, 258. [1545] hafði Arnór Eyjólfsson tekið út eitt kúgildi
Skálholtsstóls í Arnarbæli – DI XI, 450. 1547 byggir Gissur biskup Arnóri Eyjólfssyni “Schalholltzstadar jord. arnarbæli j auluesi … til äbylis. sua leingi sem ec a med at giora … skal hann giallda j landskylld af iordunni vppa huertt äar ij malnytu kugilldi – DI XI, 597. 1550: Arnór bóndi, sem þá bjó í Arnarbæli … Bsk II, 352. 1575: Kirkian ad Arnarbæle i Aulvese ä fiordung i Skeijde og firodung i Skierdingahölme. Kirkian Skal eiga Eigelsstade xxc. Jtem xviij. Staxeinge i Nauteijrum. Jtem iiij Staxeingi i Ösgeridings holma. Jtem vj kugillde. … Jtem ä kongur vc. i Arnarbæle. DI XV 643.
[Um 1600]: Síra Sigurður Oddsson, vel lærður maður, hélt Arnarbæli í Ölvesi og átti Brynhildi dóttur Ara Magnússonar [Sigurður var sonur sr. Odds Stefánssonar og Ingibjargar Eiríksdóttur Eyjólfssonar Einarssonar og Helgu Jónsdóttur biskups Arasonar] – Bsk II, 399, 640. [um 1670]: Katrín Kortsdóttir [systir Þorleifs] kvinna síra Jóns Daðasonar í Arnarbæli, Bsk II, 625, 639. 30.4.1675 seldi konungur Henrik Bjelke m.a. 5 hdr í Arnarbæli, en hann seldi strax aftur Árna Pálssyni – JJ, 444, JÁM XIII, 500.

Arnarbæli

Arnarbæli eftir jarðskjálfta 1896.

„Arnarbæli er ein af stærstu jörðum í Ölfusi, 60 jarðarhundruð. Arnarbæli og fylgijarðir standa á stórum hól, sem allur er gróin tún. […] Arnarbælinu fylgdu „kot“ sem presturinn hafði umráð yfir, leifar af fátækraframfæri kirkjunnar á liðnum öldum. Vitað er um nöfn á 11 kotum, þar af eru 6 komin í eyði fyrir síðustu aldamót: Bjálkhús (Búlkhús), Litli-Krókur, Kaldakinn, Garðshús, Sigurðarhús. Þessi kot eru komin í eyði fyrir 1703. Hóll stóð uppi á háhólnum, í byggð fram undir síðustu aldamót. Réttindi kotanna voru túnblettur á hólnum (1 ha.), slægjustykki í „flóðum“ (kúgæft hey) og „rimi“ í útjaðri.“ SB III, 382-383. Ekki er búið í Arnarbæli og öll hús þar hafa verið rifin. Íbúðarhúsið var brennt á seinnihluta 20. aldar. Jörðin er nytjuð.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 1/2 slétt. Garðar 1578 m2.
„Arnarbæli hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi gegnum aldirnar. Þar var snemma kirkja, […] Ýmsir þekktir menn úr sögunni bjuggu í Arnarbæli. Tumi Sighvatsson um 1200 og Þorvarður Þórarinsson 1289. Þar hefur hann skrifað Njálu, ef trúa má tilgátum Barða Guðmundss. Árið 1510 lætur Stefán Jónsson dæma jörðina, sem var í konungs eign, til handa dómkirkjunni í Skálholti, vegna vanskila bóndans við kirkjuna.

Arnarbæli

Arnarbæli 1907.

Prestsetur (Beneficum) verður hún 1580. […] Arnarbæli: (Staðurinn) hefur alltaf staðið á sama stað og nú,“ segir í örnefnaskrá. Í Fitjaannál segir: „En sá stóri hræðilegi skeði þann 20. Aprilis […] Í þeim jarðskjálfta hrundu niður í Ölfusi 24 lögbýli og að auki hjáleigur margar. En þessi bæir niðurhrundu gersamlega: Staðurinn Arnarbæli allur (nema kirkjan, hver þó mjög laskaðist) […]“. Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, Alviðra, Tannastaðir, Laugarbakkar, Kross, Ossabær, Yxnalækr, Þúfa, Vötn, Kröggólfsstaðir, Þurá, Þóroddsstaðir, Bakki, Hvammr, Árbær, Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Bærinn er syðst á stórum hól, Arnarbælishól, og hjáleigur og minni býli raðast þar umhverfis eins og kragi. Bærinn er á Ölfusárbökkum en þar er ekki flóðahætta sökum þess hve hátt uppi bæjarhóllinn er. Þar sem bærinn var er upphækkað plan, norðan við kirkjugarð 002. Undir hluta af þessu plani stóð bærinn og sést enn í hleðslur af skúr sem tengdist húsinu. Gyðríður Einarsdóttir, heimildarmaður, sagði að íbúðarhúsið sem var byggt 1897, hafi staðið svotil beint fyrir ofan kirkjuna en litlu vestar en kirkjugarðurinn er hóll sem hefur greinileg ummerki eftir byggingar og má finna þar steyptan sökkul, mikið af grjóti og steypubrotum. Þetta eru útihús, útihús og útihús. Þeim var öllum rutt út fyrir árið 2000. Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu er teikning af bænum frá 1890.
ArnarbæliÞar sést að breytingar verða á bæjarskipuninni, líklega í kjölfar jarðskjálfta árið 1896. Á ljósmynd sem tekin er af bænum árið 1907 sést að hvorki íbúðarhúsið og útihúsin eru á sama stað, þau voru færð til á bæjarhólnum. Eldra íbúðarhúsið var vestar og útihúsin voru norðar og norðaustar, þar sem yngra íbúðarhúsið var síðar reist.
Fyrir norðan bæjarhólinn er malarvegur, á sama stað og traðir. Til annarra átta er slétt, ræktað tún. Hlutar þess eru í órækt. Túnið er í aflíðandi halla til suðurs.
Bæjarhóllin er 90×40 m og snýr norðvestursuðaustur. Hann er 0,5-5 m á hæð og algróinn. Hann er lægstur til norðurs, upp brekkuna en hæstur til suðvesturs og suðausturs. Það er búið að slétta yfir svæðið og öll mannvirki horfinn.
Íbúðarhúsið var byggt 1897 og sést því bæði á bæjarteikningunni og túnakortinu. Íbúðarhúsið var uppi á „planinu“ sem þarna er. Á loftmynd sem tekin er um 1998-2000 sést eitt 20. aldar útihús vestarlega á bæjarhólnum. Kveikt var í íbúðarhúsinu í stað þess að rífa það og var það umdeilt á þeim tíma. Hér er greinilega mikil mannvist ennþá undir sverði.

Arnarbæliskirkja (kirkja)

Ölfus

Arnarbæliskirkja.

c. 1200: Kirknaskrá Páls. DI XII 8
c. 1200: Magnús bóndi þar, Páll bp á yfirreið, rigning; Jarteinabók 1200, Bsk I, 339 [gæti fullt eins átt við Arnarbæli undir Eyjafjöllum].
1382-91: XCIV. Arnarbæle. Kirkia j Arnarbæli j Avlfvesi er helgud hinum heilaga Nicholao. Þar er heimilisprestskylld oc diakns. Hun a .xvj. kyr. fiordung j Skeidi. fiordung j Skierdingarholmi. tiolld vmm kirkiu. messuklædi tvenn .iij. alltarisklædi .ij. kantarakapur. psalltara oc .ij. Bækur adrar. kaleik. kiertistikur .ij. sacrarium mvnnlaug. krossar .iij. Nichulasskriptt. merki. glodarkier. vattzkietill. Mariuskriptter .ij. kluckur .v. fonts vmmbuning .iiij. merkur vax. Reiknadist portio Ecclesiæ vmm .vj. är med[an] Erlingur sat .c. oc .xij. alnar a hveriu äre. DI IV, 97-98.
1397: Hun aa ad auk þess sem j maldaga herra Michels er skrifad .v. hross vc. er Biarni gaf kirkiunni i sitt Testamentum og þar j eitt hross. portio Ecclesiæ vmm .ij. är næstu medann Jon hefr bued .c. oc ix. Alnar Enn vmm .iij. är medann Arnvidur bio .ij. merkur aa hveriu äre. vmm næstu .v. ar fyrr er Sturli atti .xij. aurar aa hveriu are. gaf Jon kirkiunni gridungh; DI IV, 97-98.
11.2.1487: Jörðin Alviðra í Ölfusi er í Arnarbæliskirkjusókn. DI VI, 589 30.6.1501: [Dómur klerka og leikmanna dæmir] um jnstædu porcionem og mortuarium kirkiu hins heilaga nikolai biskups j … rnarbæli og um þann reikningskap annan fleira sem þa hafdi upp a fallith um kirkiuspell. tiunder og afgiolld. taulldum uær peninga uoxt j kirkiusokninni. nu um nalægan ärgang og reiknadizt upp a atian aura kirkiunnar pocio þetta arit. Jtem kuomu fyrir os þesser menn sem suo heita. kolbeirn biarnarson og bergsteirn oddzson og saugduzt hafa ut lukt og afhent kirkiunar peninga j arnarbæli epter odd oddzson. xxx. hundrada j kum og äum. natum og saudum. suo at j þessum. xxx. hundrada uoru ecki meir enn .iij. hestar. uoru til uitnis um þenna peninga lyktning gudbrandr sygurdson og gudmundr þorsteinsson og handfestu biskupinum at sueria hier epter fullan bokareid nær sem þurfa þiker. Jtem litu uær a kirkiu uidin þann sem nu er til og giordu uær hann fyrir cccc. Enn ef kirkian uæri sup upp giord sem henni somdi strafanarlaust þa leitz oss hun mundi verd. xv. hundrut. Jtem hafdi og fallit j plagunni. cccc. j mortuarium. Jtem reiknadiz porcio uppa summeran um .xxx. ära og vj. ar. tolf hundrut og. xx. og vi aurar betur. Enn jnstædan syndizt eingin suo sem stod og adur hafdi med kirkiunni golldit uerit. Jtem j reikningskap biskupsens j tiunder og sekter einfalldar. uoru reiknut .xx. hundrut og halfri maurk midr. Enn allur saman talin reikningskapur kirkiunar og biskupsen[s] upp a arnarbæli reiknadizt. xvi. hundrut og .lxxx.
hundrada og er þa þo oreiknut biskups afgiolld um .x. är. Og ad heilax anda nad til kalladri og suo proffudu og fyrir oss komnu dæmdum uær jordina arnarbæli j auluose alla at frateknum. v. hundrada parti kongsins j greindri jordu. fallna uera kirkiuni og biskupinum j reikningskap. og .xvic. meir en jordin er dyr til. med þeim skilmala at þeir sem eigendur uerda jardarenar leysi hana til sin med þrennum saulum hin fystu j næstum fardaugum komendum aunnr at mikaels messo. hin þridiu at audrum fardaugum. og skal gialldazt j kugillda uirdum peningum heima j arnarbæli jnnan greindz tima. Enn þat æfinlig eign kirkiunar og biskupsens sem eigi er leyst at siduztum saulum. og eignazt suo micid j jordo huort fyrir sig sem tala rennur til epter fiarmagni … DI VII, 567-69 [Þjsks Bps A, Fasc XI, 14, frumrit; AM Apogr. 2441 – AM: Af þessu Arnarbælisbrefi 1501 siest, ad Arnarbæli var þá allz ad dyrleika 80c. atti kongur þar i 5c enn bondinn 75c.]
1575: CLXXXIX. Arnarbæle. Kirkian ad Arnarbæle i Aulvese ä fiordung i Skeijde og firodung i Skierdingahölme. Kirkian Skal eiga Eigelsstade xxc. Jtem xviij. Staxeinge i Nauteijrum. Jtem iiij Staxeingi i Ösgeridings holma. Jtem vj kugillde. Jtem Jnnan kirkiu. ein messuklæde. ein klucka. ij koparpijpur. metaskäler einar. hialmsbrot. eirn silfur kaleikur. alltarisdukur. eirn Jarnkall. Jtem ä kongur vc. i Arnarbæle. Jtem fastagötz Lxxc. Lausagötz jc. hundrada. og xxxc. betur. Máld DI XV 643.
1708: Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: „Kirkjustaður og beneficium síðan í tíð Ögmundar biskups, eftir því sem munnmæli segja.“
16.2.1907: Strandarsókn í Selvogi lögð til Arnarbælis; (PP, 93) [lög].
17.7.1909: Arnarbælis- og Reykjasóknir sameinaðar og ákveðið að byggja eina kirkju á Kotströnd; (PP, 93) [stjórnarráðsbréf].
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í Arnarbæli er kirkju fyrst getið um 1200. Hún var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara, og var ætið í umsjá prestsins. […] Kirkja stóð þar til 1909 þegar sóknir Arnarbælis og Reykja voru sameinaðar og kirkja reist á Kotströnd. Enn sér fyrir kirkjustaði og grafreit en tímans tönn vinnur að því að útmá það og er lítið við því hamlað.“ „Þar var snemma kirkja, getið fyrst í máld. Páls biskups um 1200. […] Prestsetur (Beneficum) verður hún [Arnarbælisjörðin] 1580.
Kirkja í Arnarbæli var helguð heilögum Nikulási, dýrlingi sæfara. […] Kirkja er í Arnarbæli til 1909, að sameinaðar voru Arnarbælis og Reykjasókn og kirkja reist að Kotströnd. Síðasti prestur í Arnarbæli var Sr. Helgi Sveinsson, sem flutti þaðan í 1943 í Hveragerði. Þar með var sögu prestsetursins lokið,“ segir í örnefnalýsingu. Kirkjugarðurinn er merktur á túnakort frá 1918 og á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907. Kirkjan er 25 m sunnan við bæ, neðan við bæjarhólinn á „stalli“ þar. Tóft kirkjunnar er í miðjum kirkjugarðinum en hann er afgirtur með girðingu.
Kirkjugarðurinn er grasivaxinn og þar eru þrír járnkrossar. Minnismerki úr stuðlabergi er inni í tóftinni. Umhverfis kirkjugarðinn eru ræktuð tún og Ölfusá er skammt sunnar, árbakkinn er brattur og sandur að ánni. Tóftin er 9×6 m að stærð og snýr austur-vestur. Hún er útflött og greinilega verið sléttað úr henni ásamt leiðum innan kirkjugarðsins. Það ber lítið á tóftinni til norðurs en suðurveggurinn er 0,4 m á hæð og þar glittir í þrjá hornsteina. Engin dæld er inni í þústinni.

Sigurðarhús (býli)
„Sigurdarhús. Þriðja hjáleiga í auðn yfir 20 ár. […] Túnið og engið að mestu brúka nú Nethamrar.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. „Sigurðarhús: Kot, stóð við Ullarklöpp. Ölfusá hefur brotið landið, svo að nú sést ekkert eftir af því (Í eyði yfir 20 ár. Túnið og engið nota Nethamrar. Jarðab. A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Sigurðarhús voru 150 m suðaustan við bæ 001 en öll ummerki um bæinn eru að öllum líkindum horfin vegna landbrots.
Slétt, grasivaxið tún er meðfram Ölfusárbökkum. Árbakkinn er aflíðandi, gróinn og 0,2-0,4 m á hæð.
Engin ummerki býlisins eru varðveitt á yfirborði.

Bjálkhús (býli)

Ölfus

Bjálkhús.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Búlkhús. Fimmta hjáleiga, hefur í auðn verið yfir 20 ár. […] Túnið hálft brúkar heimastaðurinn, en hálft túnið og allt engið brúkar hjáleigan Stöðlar.“ “Fyrir vestan staðinn, í túninu, hefur býli verið, nú fyrir nokkrum árum í eyði, er Búlkhús var kallað. Þar var farmur tekinn af því skipi og öðrum fleirum, er Ögmundur biskup lét til Noregs sækja timbur á.” Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu segir. „Sagnir herma að hafskip hafi silgt upp Ölfusá að Arnarbæli og bendir nafnið Bjálkhús (Búlkhús) til þess að farmur hafi verið borinn af skipi þar.“ Í örnefnalýsingu segir: „Bjálkhús: Grænn hóll í Bjálkhústúni, með laut í. (Búlkhús: í eyði yfir 20 ár, 1/2 notar Staðurinn, hitt og engið nota Stöðlar. Jarðab.A.M.),“ Bjálkhús eru 170 m VSV við bæ og 15 m VSV við traðir. Bjálkhús eru norðvestarlega í heimatúninu og sést bæjarhóllinn vel.
Allt umhverfis bæjarhólinn er slétt, ræktað tún. Það er slegið en hluti þess er komið órækt. Bærinn er uppi á hólbrúninni í aflíðandi halla til suðurs. Stafnar bæjarins snéru til suðurs, í átt að Ölfusá.
Bæjarhóllinn er 45×35 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Hóllinn er 0,3-0,5 m hæð, bratt er niður af honum sunnan við bæjartóftina. Á hólnum eru ennþá bæjartóftir, bæjarhúsin voru sunnar og hey-/kálgarður til norðurs.

Skottusteinn (þjóðsaga/draugur)
„Skottusteinn. Var í bakkanum vestast í Bjálkhústúni. Horfinn nú, grafinn í sand. Þar var Arnarbælisskotta sett niður,“ segir í örnefnalýsingu. Í bók Árna Björnssonar, Íslenskt vættatal segir: „Arnarbælisskotta. Jón Daðason var prestur í Ögurþingum og varð þar mannsbani. Eftir það varð hann prestur í Arnarbæli í Ölfusi 1642-1676, en Vestfirðingar sendu til hans kvendraug sem að endanum varð honum að bana. Skotta settist síðan að í Arnarbæli. Hún hafði prjónaskotthúfu á höfði og sat í koluskugga á vökunni, tafði fyrir og skemmdi verk manna. Ætla varð henni auðan fjósbás til að sofa í, ella gerði hún einhverja skömm af sér. Henni var að lokum komið fyrir seint á 18. öld við stein í Búlkhúsósi.“ Skottusteinn var um 200 m norðvestan við bæ og 40 m vestan við Bjálkhús.
Steinninn sést ekki lengur enda grafinn í Bjálkhúsósi ef sagan reynist rétt. Hann er skammt vestan við heimatúnið, við Ölfusá.
Vestan við heimatúnið er óræktað tún. Þar er mikill sandur sem víða kemur uppúr sverði og það er nýtt til hrossabeitar. Áður fyrr runnu hér fjölmargir lækir en það breyttist með framræslu.

Þingholt (þingstaður)

Ölfus

Þingholt.

Í grein Brynjúlfs Jónssonar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags árið 1905 segir: „Norður frá túni í Arnarbæli er lágt holt, er Þingholt heitir. Holtið er aflangt frá norðri til suðurs, og er það upplásið eftir endilangri miðjunni, en óblásið utan með. Þar eru á því margar tóftir, en flestar eru þær frá seinni tímum: það er fjárhústóft ein nýleg og margar stekkjartóftir, misgamlar að sjá. Aðeins ein tóft er þar verulega forn, og er hún svo sokkin og óglögg, að ekki er hægt að mæla hana. En allstór er hún að sjá og eigi ólíklegt til að vera forn búðartóft, þó að það verði nú ekki fullyrt, þar eð eigi sjást fleiri á hennar reki.
Þær geta nú verið eyðilagðar, hver veit hve margar, bæði verið blásnar burtu, og líka verið teknar upp í hinar nýrri tóftir. En þótt það geti verið, og þótt, meira að segja, engin ólíkindi séu á því þá vantar samt vissuna um það.“ Í friðlýsingarskrá segir: „Arnarbæli, Forn og mikil tóft á Þingholti, sem er norður frá bænum.” Tóftin á Þingholti var friðlýst af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927, sem kvöð á landi Arnarbælis.
Þar er nú einungis ein tóft rúman 1,1 km norðan við bæ og rúmum 500 m norðan við áveitu.
Á Þingholti er nú ræktað tún og öll mannvirki horfin fyrir utan hina meintu þingbúð. Tóftin er á grónu svæði rétt sunnan við túnið. Fallin vírgirðing er þar á milli. Ekkert friðlýsingarskilti er við tóftina.
Tóftin er á háum hól sem að mestu er uppsöfnuð mannvistarlög. Tóftin er 17×15 m að stærð, einföld og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er 0,3 m á hæð og tóftin er uppi á honum. Hún er opin til norðvesturs og er einföld. Veggirnir eru 0,3 m á hæð, 5-7 m á breidd og algrónir. Hvergi sér til hólfaskiptingar.

Garðhús (býli)
„Gardhús. Önnur hjáleiga, hefur í auð legið yfir 20 ár.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. „Garðhús: Austan í hólnum, sér enn fyrir. (Í auðn yfir 20 ár… Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað með vissu hvar þessi bær var, fyrir utan að hann var austan í Arnarbælishól.
Svæðið sem um ræðir er nokkuð stórt og allt eins líklegt að útihús frá Nýjabæ og Stöðla séu á sama stað. Einnig kemur til greina að bærinn sé innan sumarbústaðarlands í eigu Gyðríðar Einarsdóttur, heimildamanns, og fjölskyldu hennar. Sá bústaður er suðaustarlega í hólnum, fast við vegum rétt áður en komið er að bæ. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.

Holt (býli)

Ölfus

Holt.

„Holt: Þurrabúð, stóð á Bæjarholtinu,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Holt var þurrabúð sem stóð á holtinu norðan við Arnarbælishverfi. Sigurður Þorbjörnsson og Ingigerður Björnsdóttir bjuggu þar 1896-1903. Þá komu þangað Jón Jónsson og Signý Pálsdóttir og voru þar til 1903 -1935.“ Holt dregur nafn sitt af Bæjarholtinu og var þar nánast fyrir miðju. Bæjarholtið er stakstætt, lítið holt norðan við Arnarbælishól. Bærinn er á austurhluta holtsins en ekki er vitað hvort að eldri búseta var þarna þegar bærinn er byggður 1896.
Bæjarholt er tæplega 200×100 m að stærð og snýr norður-suður. Það er mýrlent allt umhverfis það nema til suðvesturs, þar er hryggur sem sameinast Arnarbælishól. Allt holtið er ræktað en túnið er í órækt og nýtt til hrossabeitar. Ekki sér til fleiri mannvirkja við bæjarhólinn eða á holtinu. Bæjarhóllinn er 28×20 m að stærð og snýr austurvestur. Hann er brattur til norðurs og bakkarnir þar eru fremur háir. Hann er 0,5-1 m á hæð og algróinn. Til suðurs lækkar hóllinn og fjarar út. Hvergi sér til mannvistar á yfirborði, fyrir utan nokkra útveggi íbúðarhússins sem var byggt um 1930. Hlutar af útveggjunum sjást enn, þeir eru 2,5 m á hæð og steinsteyptir. Bárujárn og annað rusl liggur „inni“ í húsinu en þakið er farið ásamt innri veggjum.

Kerlingagöng (þjóðsaga)
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: „Hjá Arnarbæli í Ölfusi heitir á einum stað Kerlingagöng […] [þangað] fóru konur sem ekki treystust til að fara krossför alla leið til Kaldaðarness […] [þaðan] mátti sjá Kaldaðarnes fyrir austan Ölfusá þar sem krossinn var sem mest helgi og trú var höfð á páfadómi. En því sóttu menn eftir að sjá krossinn að því var trúað að menn fengju af því lækningu meina sinna.“ Í örnefnaskrá segir: „Nafnsins er getið í þjóðsögum Jóns Árnasonar, II, bls. 56. Þekkir enginn nú. Gömul munnmæli herma að konur í Arnarbæli og Kaldaðarnesi hafi notað sama klappið og henst því á milli sín.“ Í tímaritinu Sögu frá 1970 segir: „Heldur litlar sagnir um dýrkun á krossinum helga í Kaldaðarnesi geymdust fram á 19. öld. Þó eru tvö örnefni tengd dýrkuninni, en það eru Kerlingagöng hjá Arnarbæli í Ölfusi og Kvennagönguhólar. Frá báðum stöðunum mátti sjá Kaldaðarnes, en það var trú manna, að það dygði til að fá bót meina sinna, og á þessa staði fóru konur, sem ekki treystust alla leið til Kaldaðarness. Virðist þarna um gamlar sagnir vera að ræða, því að Jón Halldórsson prófastur segir í Biskupsannálum sínum, að mönnum fyndist það duga sér til meinabótar og huggunar að komast þó ekki væri nema á Kambabrún.“ Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.

Grímshús (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 17108 segir: „Ellefta hjáleiga, hefur í auðn legið undir 20 ár. […] Tún og engi er ekkert, hafinn brúkast af staðnum.“ Í örnefnalýsingu segir: „Grímshús: Engar upplýsingar hvar hafi verið.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.

Nethamrar (býli)

Ölfus

Nethamrar.

„Fyrsta hjáleiga af Arnarbæli.“ JÁM II, 411. „Nethamrar eru á bakka Ölfusár, austur frá Arnarbæli. Áin hefur brotið af túninu á liðnum öldum.“ SB III, 385. „Nethmaratún: Austast, mill árinnar og vegarins.
Innanvið hektar að stærð. Ölfusá hefur brotið það mjög í manna minnum.“ Ö-Arnarbæli a, 2.
Ekki til túnakort en bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907.
„Nethamrar: Eitt „kotið“, syðst og austast í hólnum [svo],“ segir í örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Nethamrar eru á bakka Ölfusár, austur frá Arnarbæli. Áin hefur brotið af túninu á liðnum öldum.“ Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907, þá var bærinn í norðvesturhorni bæjarhúsanna, kálgarður til suðurs og aðar sambyggðar byggingar fyrir austan og vestan bæinn. Túngarður lá fast austan við bæinn. Stafnar snéru til suðurs að ánni. Engin mannvirki eru nú á bæjahólnum né ábúð jörðinni. Það er lítið sem ber bænum vitni á yfirborði. Í dag er þetta ríkisjörð líkt og Arnarbæli.
Slétt, ræktað tún nýtt til beitar. Traðir lágu fast norðan við bæinn, þar er nú malarvegur að Ósgerði og Arnarbæli.
Nethamrar voru um 250 m austan við Arnarbæli og 90 m sunnan við Ósgerði. Bæjarhóllinn er 34×28 m að stærð og snýr austur-vestur. Hann er sléttur, 0,2-0,3 m á hæð en hvergi sér móta fyri mannvist á yfirborði. Til norðausturs og austurs sést glitta í steypu, líklega úr útihúsum sem sjást á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Hér er búið að slétta mikið yfir bæjarhóllinn og taka jarðveg, það glittir í klöpp ofan á bæjarhólnum.

Hóll (býli)

Ölfus

Hóll.

„Hóll. Fjórða hjáleiga.“ JÁM II, 412. „Hóll stóð uppi á háhólnum, í byggð fram undir síðustu aldamót.“ SB III, 383. Ekki er föst ábúð á jörðinni né vitað hvar hún stóð nákvæmlega. Mastur sem er uppi á háhólnum er þó líklega byggt í bæjarhólinn. Ekki til túnakort né er hann sýndur á bæjateikningu danskra landmælingamanna 1907.
„Hóll: Kot, stóð upp á hólnum, þar, sem hann er hæstur, norðaustur af Arnarbæli og átti tún suðaustur í hólnum. (Í byggð, fóðrar 7 kýr. Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Árið 1926 byggðu þarna á holtinu Þórður Magnússon frá Ósgerði og Arnþrúður Hannesdóttir. Þau ræktuðu þarna blett í kringum hús sitt. Þennan blett nefndi Þórður Hól (…) nafnið er dregið af koti sem áður stóð á háhólnum norðan Arnarbælis.“ Ekki er vitað hvar nákvæmlega yngri bærinn stóð, líklega var það á svipuðum stað og eldri Hóllinn. Hóll var 70 m norðaustan við Arnarbæli og 30 m norðaustan við kálgarð. Mastur er uppi á háhólnum, líklega á sama stað og bærinn var. Ekki er vitað hvenær ábúð féll niður, áður en yngra býlið er byggt 1926. Í manntölum 1835-1870 er ábúð á jörðinni. Eftir það fer bærinn í eyði, líklega á millu 1870-1880.
Mikið rask er uppi á háhólnum. Þar er mastur ofan á litlu húsi og malarvegur að því. Mastrið og húsið eru á steyptum grunni. Allt umhverfis er ræktað tún, nýtt til hrossabeitar.
Bæjarhóllinn er 38 x 26 m að stærð og snýr austur-vestur. Stafnar bæjarins snéru líklega til suðurs, í átt að Ölfusá. Til suðausturs sést glitta í grjóthlaðinn kant, hann er 1 m á hæð og bogadreginn. Fyrir norðan mastrið er einnig hóll, líklega hluti af bæjarhólnum. Þar sjást ummerki um mannvist, járnrör og grjót standa þar upp úr hólnum. Tún Hóls tilheyrir nú sumarbústaðalandi Gyðríðar Einarsdóttur, heimildamanns, og fjölskyldu hennar. Vírgirðing liggur yfir austurhluta hólsins og þar er búið að planta miklu magni af trjám. Hvergi sjást ummerki um greinilegar tóftir á yfirborði.

Krókur/Stóri-Krókur (býli)

Ölfus

Krókur – túnakort 1918.

„Stóri-Krókur. Áttunda hjáleiga. […] Allan helming slægna töðunnar brúkar ábúandinn á Stöðlum fyrir þá landskuld sem þar segir, og voru strax sem Stöðlar bygðust þess tún þar lagin.“ JÁM II, 413. Ekki er föst ábúð á jörðinni, þar er nú sumarbústaður og trjárækt í heimatúninu.
1917: Tún 1.1 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 747 m2. „Krókstún: Vestan í hólnum, frá gömlu tröðunum og norður að veitu.“ Ö-Arnarbæli a, 3.
„Stóri-Krókur. Áttunda hjáleiga. […] Allan helming slægna töðunnar brúkar ábúandinn á Stöðlum fyrir þá landskuld sem þar segir, og voru strax sem Stöðlar bygðust þess tún þar lagin.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708.
„Krókur: Stendur enn á sama stað og áður (Stóri-Krókur í ábúð 1/2, hitt notað frá Stöðlum, fóðrar 9 kýr, Jarðab.A.M.),“ segir í örnefnaskrá. Krókur er um 150 m NNV við Arnarbæli og 50 m sunnan við Stöðla. Bærinn var uppi á hólnum, vestan við traðir sem lágu áfram að Stöðlum og Nýjabæ. Bærinn er sýndur á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918. Kálgarður var sambyggður bænum til vesturs og suðurs og útihús til norðurs og norðausturs. Kálgarður Stöðla var sambyggður útihúsunum að norðan. Öll bæjarhús hafa verið rifin og lítil ummerki um bæjarhól sjást á yfirborði. Þarna er nú sumarbústaður og gróinn bakgarður honum tengdur með tilheyrnandi jarðraski. Ekki er lengur ábúð á jörðinni. Samkvæmt túnakorti frá 1918 var bærinn efst í túninu til norðurs, nánast fyrir miðju. Túnið var allt fyrir sunnan bæinn og sést það einnig á bæjarteikningunni, afmarkarð með gaddavír að öllum líkundum.
Bakgarður sumarbústaðarins er gróinn. Þar er búið að planta miklu af trjám og gera sléttar grasflatir inn á milli.
Erfitt er að greina stærð bæjarhólsins á yfirborði.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Sjöunda hjáleiga, hefur í auðn verið síðan fardaga. […] Grasnautn alla brúkar áðurnefnd húskona á Stöðlum.“ „Litli-Krókur: Stóð hjá Stóra-Króki (Í eyði frá síðustu fardögum… Jarðab.A.M),“ segir í örnefnalýsingu.
Litli-Krókur er 30 m sunnan við bæ og rúmum 100 m NNV við Arnarbæli. Staðsetning býlisins er sýnd á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907, syðst í túni Króks. Umrætt svæði er í miðri skógrækt, miklu af trjám hefur verið plantað á merkjum við Arnarbæli með tilheyrandi jarðraski. Ekki er vitað hvernig stafnar bæjarins snéru, líklega til austurs eða vesturs sé tekið mið af lagi hólsins.
Bæjarhóllinn er á hólhrygg sem snýr NNV-SSA. Hóllinn er brattur til norðurs en fjarar út til annarra hliða. Bæjarhóllinn er um 18 m í þvermál og 0,2 m á hæð. Hliðar hans eru aflíðandi og grónar.
Erfitt er að greina nákvæma stærð bæjarhólsins á yfirborði.

Stöðlar (býli)

Ölfus

Stöðlar.

„Stöðlar. Sjötta hjáleiga. […] Húskona er í þessari hjáleigu. Hún hefur slægjur af eyðihjáleigunni LitlaKróki.“ JÁM II, 412. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Árið 1961 féllu jarðnot Stöðla til Króks.
Ríkissjóður á jörðina.“ SB III, 384. Ekki er búið á jörðinni, þar er sumarhús.
1917: Tún 1.3 ha, þar af c. 11/12 slétt. Garðar 720 m2.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Stöðlar. Sjötta hjáleiga. […] Húskona er í þessari hjáleigu.
Hún hefur slægjur af eyðihjáleigunni Litla-Króki.“ Í örnefnalýsingu segir: „Stöðlatún: Suðvestan í Hólnum, norðan vegarins vestur á engjar að gömlum tröðum, sem lágu frá Króki og niður að Bjálkhúsós. […] Stöðlar: (í Stöðlum) Stóðu áður norðan Króks, áfast við (í ábúð, fóðrast 9 kýr, Jarðab.A.M.).“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: „Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir
bæir: Stöðlar, Nýibær, […].“ Stöðlar eru sýndir á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907 og túnakorti frá 1918. Bærinn var uppi á háhólnum, milli Króks og Nýjabæjar. Stöðlar eru rúmum 200 m norðan við Arnarbæli og um 50 m norðan við Krók. Bærinn var austan við veginn sem lá upp að Nýjabæ, kálgarður var fyrir sunnan, suðvestan og norðvestan bæinn. Túnið var fyrir suðvestan bæinn og það var stækkað til vesturs á milli þess sem bæjarteikningin og túnakortið er gert.
Bæjarhóllinn er horfinn, þarna eru nú sléttar grasflatir, skógrækt og skjólbelti úr öspum og birki. Sumarbústaður er nú á vesturhluta bæjarhólsins og öll hús horfin. Miklar breytingar hefur átt sér stað frá því að ábúð var hætt á jörðinni 1961.
Bæjarhóllinn sést ekki né ummerki um uppsöfnuð mannvistarlög á yfirborði. Hvar nákvæmlega bærinn stóð er ekki vitað, líklega var það skammt austan eða norðaustan við sumarhús sem þarna er nú.
Umhverfis sumarhúsið er búið að planta trjám og gera grasflatir.

Nýibær (býli)

Ölfus

Nýibær.

„Níunda hjáleiga.“ JÁM II, 413. „Gömul fylgijörð frá Arnarbæli. Stóð nyrst á Arnarbælishólnum. Fór í eyði 1950. Króksbóndi fékk þá túnið.“ SB III, 386. Ekki er föst ábúð á jörðinni og hún innan sumarbústaðalands á Króki og Stöðlum.
1917: Tún 1.6 ha, þar af c. 9/10 slétt. Garðar 910 m2. „Nýjabæjartún: Norðurbrekkan á hólnum“ Ö-Arnarbæli a, 3.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Níunda hjáleiga.“ „Nýjibær: Stóð norðast í hólnum, sér fyrir bæjarstæði.
Nýlega kominn í eyði. Síðasti ábúandi, Björn Sigurðsson, bróðir heimildarmanns,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Gömul fylgijörð frá Arnarbæli. Stóð nyrst á Arnarbælishólnum. Fór í eyði 1960. Krókur fékk þá túnið.“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: Stöðlar, Nýibær, Egilsstaðir, […].“ Nýibær er 270 m norðan við Arnarbæli og 100 m NNA við Stöðla. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918 og á bæjarteikningu danskra landmælingamanna frá 1907. Kálgarður var sambyggður bæjahúsunum til suðurs og vesturs. Öll hús á jörðinni hafa verið rifin en þau sjást á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Túngarður lá að bænum til norðurs. Hóllinn er sléttur og bærinn var nyrst á honum. Þarna eru nú tún og skógrækt í tengslum við sumarbústaði sem þarna eru.
Bæjarhóllinn er 16×10 m að stærð, snýr norður-suður og er 0,5 m á hæð. Hóllinn er mikið raskaður, bæði vegna niðurrifs, sléttunar og skógræktar. Fyrir sunnan hólinn hefur mikið af trjám verið plantað, aðallega öspum og birki. Bæjarhóllinn er algróinn en uppi á norðurhluta hans er búið að stafla miklu af trjágreinum. Hóllinn skagar fram í brekkubrúnina og ennþá er líklega mannvist undir sverði. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs að öllum líkindum.

Kaldakinn (býli)

Ölfus

Kaldakinn.

„Kaldakinn: Smáhóll norðaustan í hólnum, syðst í Nýjabæjartúni. Þar stóð kot (í eyði síðustu árdaga, staðurinn notar túnið),“ segir í örnefnalýsingu. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Tíunda hjáleiga, bygð fyrir 2 árum. Nú í eyði síðan fardaga. […] Túnið er brúkað til slægna frá staðnum.“ Þegar Jarðabókin er gerð í ágúst en jörðin búin að vera í eyði um 2 mánuði. Ekki er vitað hvort að býlið byggðist upp aftur, hafi það eins verið í byggð í 6 ár er ekki mikilla minja að vænta. Ekki er vitað með vissu hvar Kaldakinn stóð, líklega var það á svipuðum stað og útihús. Kaldakinn var tæpum 60 m suðaustan við bæ og 15 m norðan við útihús. Kaldakinn var á brekkubrúninni, hóllinn lækkar til austurs frá bænum. Gróið tún í halla til austurs. Svæðið er innan sumarbústaðalóða og þar eru víða skjólbelti og grænar flatir. Túnið er ekki nýtt.
Tvær þústir komu til greina sem Kaldakinn.

Bakkárholt (býli)

Ölfus

Bakkárholt.

30 hdr. JÁM II, 405. 12 ½ hdr. 1847, JJ, 74. „Jarðdýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum. NB. Þessi jörð er afdeild í tvo sundurlausa bæi, og kallast annar þrír fjórðungar úr XX hdr. Sá beheldur jarðarnafninu og kallast Bakkárholt. Hinn parturinn, einn fjórðungur úr XXX hdr, er kallað Partur (ÁR507] […]“ JÁM II, 405. Bærinn stendur á holti og þar var túnið. Vestur af því eru blautar engjar nema bakkar Gljúfurholtsár. […] Mótak gott. Selstaða var í Sogni og beit í Gljúfri. Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ SB III, 378.
1917: Tún 5.5 ha, þar af c. 4/5 slétt. Garðar 1460 m2.
Bærinn á Bakkarholti stendur enn á samnefndu holti. Bærinn er sýndur, nánast í miðju heimatúninu á túnakorti frá 1918.
Íbúðarhús var byggt 1908 – 1910 á bæjarhólnum og núverandi íbúðarhús þar rétt norðar, árið 1944. Það hús er ónýtt og fór bærinn úr ábúð árið 2016 þegar síðasti ábúandi flutti burt. Útihús voru reist á 20. öld í suðurhluta bæjarhólsins en þau voru rifin í kjölfar jarðskjálfta árið 2008. Þau útihús sjást á loftmynd frá árunum 1998 – 2000. Þegar „stóra hlaðan“ var rifin komu í ljós minjar í gólfi hennar og eru þær ennþá varðveittar þar undir sverði. Þetta eru minjar líklega allt frá landnámstíma að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Bærinn snéri stöfnum til suðurs og útihúsin röðuðust til norðurs á túnakorti frá 1918.

Ölfus

Bakkárholt – túnakort.

Bærinn hefur alltaf staðið á þessum slóðum að sögn Margrétar.
Núverandi íbúðarhús var um 30 m norðvestan við úthús frá 20. öld sem reist voru í suðurhluta bæjarhólsins. Þar er slétt, grasivaxið svæði og þar norðar er „hóll“ sem er að stórum hluta uppsöfnuð mannvistarlög þrátt fyrir mikið rask. Allur bæjarhóllinn er mikið raskaður og þar er nú slétt, gróið svæði. Bæjarhóllinn er 60 x 40 m að stærð og snýr austur-vestur. Á túnakortinu eru bæjarhúsin til norðurs en svo hefur ekki alltaf verið sé tekið mið af stærð bæjarhólsins. Bærinn náði mögulega allt fram á brekkubrúnina fyrir sunnan 20. aldar útihúsin að sögn Margrétar. Ljósmynd af bænum er til í fórum Margrétar en erfitt er að sjá hvar húsið var nákvæmlega, mikið rask er sem fyrr segir á bæjarhólnum. Erfitt er að greina náttúrulega uppsöfnun mannvistarlaga á yfirborði en nóg er af þeim undir sverði.
Þegar hlaðan var rifin komu m.a. í ljós hlóðir og ummerki um langeld. Margrét Hallmundsdóttir, fornleifafræðingur, skoðaði þessar minjar árið 2009. Núverandi hóll sem sést á yfirborði er að mestu ummerki um mannvist tengd 20. aldar mannvirkjum. Víða má sjá timburleifar, járnarusl og tilfallandi brak. Bæjarhóllinn er 0,5-1 m á hæð, á köflum eru brattar brúnir þar. Alls svæðið er mjög gróið, aðallega gras og njóli.

Gálgaklettar (aftökustaður)

Ölfus

Gálgaklettar.

„Gálgaklettar. Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, en hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni,“ segir í örnefnalýsingu. Gálgakletta er getið í Lýsingu Ölfus frá 1703 sem birt er í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu. Þetta eru ekki hinir eiginlegu Gálgaklettar að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Þeir eru sunnar og skráðir undir númeri 032 hér í skránni. Þessir klettar fá að njóta vafans og taldir til fornleifa. Þetta er nyrsti hluti Bakkárholtskletta, um 190 m norðan við bæ og 30 m norðan við hestarétt.
Þetta er norðvesturendi Bakkárholtskletta, vestarlega í heimatúni bæjarins. Skoran sem lýst er í örnefnaskrá sést vel en ekki sér til neinna mannvirkja þarna.

Þinglaut (þingstaður)

Ölfus

Þinglaut.

„Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum [ÁR-525] og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús [sjá 039] stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. „Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“
Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.“ Þinglaut er 110 m norðan við bæ og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt 015, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.
Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.

Borgarkotsmelsrétt (rétt)

Ölfus

Borgarkotsrétt.

Tóft er í svokölluðum Borgarkotsmel, í vesturhluta hans. Þetta land tilheyrði Strýtu eftir að jörðinni var skipt upp. Tóftin er rúmum 30 m vestan við tóft og um 840 m suðaustan við bæ. Tóftin er vestan við hraunhól/hrygg og sést ekki fyrr en að henni er komið. Lag og staðsetning tóftarinnar bendir einna helst til þess að um heimarétt sé að ræða. Gróinn mói. Víða koma klapparhólar og hryggir upp úr sverði. Hóllinn er 2 – 3 m á hæð. Uppblásinn melur er þar á milli. Skammt vestan við tóftina er uppblásið svæði. Þetta svæði er nýtt til hrossabeitar.
Tóftin er 11,5 x 7 m að stærð og snýr norður-suður. Hún skiptist í þrjú hólf og aðrekstrargarður liggur að henni til suðurs.

Gálgaklettar (aftökustaður)
„Gálgaklettar. Stakir klettar nyrzt á Másteinsholti. Þar er nú fjárhús. Ég tel ólíklegra, að þar hafi sakamenn verið hengdir en í hinum Gálgaklettunum,“ segir í örnefnaskrá. Gálgaklettar eru tæpum 600 m suðvestan við bæ og 90 m vestan við tóftir. Þetta eru náttúrulegir klettar syðst á Másteinsholti. Þeir eru innan landsvæðis sem tilheyrir Grænhól í dag.
Fjárhúsin voru byggð um miðja 20. öld. Allt umhverfis þau, og klettana, er ræktað tún, nýtt til beitar.
Gálaklettar eru sunnarlega í klettahól. Þeir eru þrír talsins, sá vestasti hefur klofnað frá hinum tveimur. Hliðar klettanna eru víða beinar og lóðréttar. Þeir eru 1 – 2 m á hæð og gróður er neðst í þeim. Víða má ímynda sér að gálgi hafi verið.

Bakkárholtspartur (býli)

7,5 hdr. JJ, 75. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: Þessi jörð [Bakkárholt] er afdeild í tvo sundurlausa bæi, og kallast annar þrír fjórðungar úr 30 hdr. Sá beheldur jarðarnafninu og kallast Bakkárholt. Hinn parturinn, einn fjórðungur úr 30 hdr, er kallað Partur og stundum Bakkárholtspartur, vide infra.“ JÁM II, 405. „Sandhóll hét áður Bakkárholtspartur en Parturinn stóð í brekkunni austanvert í Bakkárholtinu, skammt norðaustur af Bakkárholtsbænum. Átti tún sitt norður af bænum. Engjastykki í mýrinni vestan holtanna. Beitiland var sameiginlegt en nú er búið að skipta því.
Árið 1935 keypti ábúandinn […] gamalt samkomuhús byggt 1909, sem stóð á hól norðan túns. Þangað flutti hann bæinn, byggði peningshús og ræktaði í kring. Síðan heitir býlið Sandhóll en samkomuhúsið hét það.“ SB III, 377. Ennþá er búið á jörðinni og er hún ein af síðustu jörðum í Ölfusi með sauðfjárbúskap.
Ekki til túnakort.
Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e.m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. —
Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: […] Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ „Bakkárholtspartur heitir nú Sandhóll – núverandi bóndi þar, […] keypti samkomuhús með því nafni og flutti bæinn og „Parturinn“ hefur nú fengið það nafn; […] Sandhóll. Hóll norðan Partstúns. Þar byggði Umf. Skarphéðinn samkomuhús, sem notað var til skólahalds og samkomu, þar til þinghús var byggt í Hveragerði 1931. Þá keypti Þorlákur Sveinsson, sem bjó í Bakkárholtsparti, húsið og flutti búsetu þangað; þá hvarf nafnið á Partinum,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sandhóll hér áður Bakkárholtspartur en Parturinn stóð í brekkunni austanvert í Bakkárholtinu, skammt norðaustur af Bakkárholtsbænum. Átti tún sitt norður af bænum.
Engjastykki var í mýrinni vestan holtanna. Beitiland var sameiginlegt en nú er búið að skipta því. Árið 1935 keypti ábúandinn, Þorlákur Sveinsson, gamalt samkomuhús byggt 1909, sem stóð á hól norðan túns. Þangað flutti hann bæinn, byggði peningshús og ræktaði í kring. Síðan heitir býlið Sandhóll en samkomuhúsið hér það.“ Öll hús sem stóðu þegar bærinn var fluttur 1931 eru horfin af bæjarhólnum.
Það eina sem ber bænum vitni er steypt haughús sem skagar fram til austurs úr brekkunni. Bærinn var þar vestar, uppi í brekkunni, að sögn Páls Auðar Þorlákssonar, heimildamanns. Bæjahóllinn er rúmum 330 m sunnan við Sandhól.
Bæjarhóllinn er í sléttu túni. Það er slegið og nýtt ennþá. Brekkan er aflíðandi, um 10 m há og bærinn var ofarlega í henni. Lagnaskurður úr Partslind 003 liggur fyrir vestan bæjarhólinn en ekki eru sagnir um mannvist hafi komið í ljós við gerð hans. Bæjarhóllinn er um 50 x 45 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er sléttur, 0,2-0,4 m á hæð og hliðar hans aflíðandi. Ekki sér til annarra mannvirkja þar. Bærinn var ofarlega í Bæjarholtinu, á halla til austurs. Þarna er smá „stallur“ í brekkunni og var bærinn þar. Haughúsið er í austurhluta bæjarhólsins, þar er slétt plata og er það grafið niður í bæjarhólinn. Platan er 10 x 7 m að stærð og snýr austur-vestur. Hægt er að kíkja þar inn, op sést til austurs. Ekki eru önnur mannvirki sjáanleg á hólnum eða ummerki um mannvist, gera má ráð fyrir að töluvert sé ennþá undir sverði. Stafnar bæjarins snéru til austurs að öllum líkindum.

Borgarkot (býli)

Ölfus

Borgarkot.

5 hdr, 1847. JJ, 75. Hjáleiga frá Bakkárholti. „Borgarkot, hjáleiga, bygð af heimalandi. Jarðardýrleiki áður talinn með heimajörunni og er því óviss. Eigandinn sami og heimajarðarinnar.“ JÁM II, 407.
„Ingólfshvoll. Hét áður Borgarkot en nafninu breytt árið 1931, 5 hundruð úr Bakkárholtstorfunni.“ SB III, 379. Ekki er föst ábúð á jörðinni. Þar er nú starfrækt fyrirtæki, Fákasel. Það sérhæfir sig í hestasýningum, þar er búð og veitingastaður. Einnig er hrossarækt og tamningastöð þarna.
Ekki til túnakort.
„…Borgarkot (heitir Ingólfshvoll frá 1931) austan árinnar; […] Lágt holt er austan gamla bæjarins.
Þar stendur nú íbúðarhúsið og peningshús. (Borgarkotsholt?),“ segir í örnefnalýsingu.
Borgarkot var rúmum 310 m ASA við Bakkárholt, austan við ánna á stakstæðu holti. Holtið er ekki mjög stórt en bærinn var á því miðju og til austurs. Á loftmynd sem tekin var skömmu fyrir 2000 sjást ennþá bæjarhús/útihús á gamla bæjarstæðinu en þau hafa nú verið rifin og mikið jarðrask er á bæjarhólnum. Bærinn var fluttur 130 m suðaustar árið 1963. Ekki er ljóst í hvaða átt stafnar bæjarins snéru. Það er ólíklegt að mikil mannvistarlög séu undir sverði á bæjarhólnum, þar sést í klappir. Holtið er 10 m hátt, 90 x 50 m að stærð og snýr NNV-SSA. Klettar eru efst á holtinu og mynda grónar þústir þar uppi á. Jarðvegurinn er þunnur þar. Umhverfis bæinn var sléttað tún sem nú er komið í órækt og nýtt sem beitarhólf fyrir hross.
Ekki er vitað hvar bærinn var nákvæmlega á holtinu, líklega hefur hann þó alltaf verið á sama stað, austan við útihúsið sem sést á loftmyndinni. Þar er mikið jarðrask, sérstaklega þar sem útihúsin voru vestan í holtinu. Þau voru mögulega niðurgrafin eða að öllum bæjarhólnum hefur verið rutt burtu. Uppi á holtinu er flatt svæði og það lítur út fyrir að uppblástur hafi verið að verki, raskið er slíkt. Það er ekki tilfellið, þetta er manngert rask. Bæjarhóllinn en nánast niðurgrafinn, það er „laut“ þarna og hvergi sér til uppsöfnunar mannvistarlaga. Það má sjá grjótdreif, steinsteypu norðan í holtinu, bars þangað með vinnuvélum. Ekki er hægt að áætla stærð bæjarhólsins af þessum sökum. Fyrir austan holtið er nokkuð djúp laut vegna jarðrasks og þar er einnig rusl úr 20. aldar byggingum.

Strýta (býli)

Ölfus

Strýta.

Hjáleiga frá Bakkárholti. 2,5 hdr. 1847. JJ, 75. „Önnur hjáleiga, bygð af heimalandi. Jarðardýrleiki áður talinn og tíundaður í heimajörðunni.“ JÁM II, 407. „Strýta var hjáleiga á Bakkárholtstorfu, jafnstór jörð og Grænhóll. Stóð syðst í Bakkárholtinu, stutt frá ánni. Landið þar um kring er blautt en jörðin notaði mest landið niður með ánni. Árið 1957 fékk Grænhóll öll jarðarafnot af Strýtu sem er eign ríkissjóðs. Byggingar eru engar á Strýtu.“ SM III, 380. Grænhóll notar enn jörðina og hún er nytjuð samhliða þeirri jörð.
Ekki til túnakort.
„Strýta. Gamalt býli á vestri árbakkanum, sunnan Bakkárholts,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Strýta var hjáleiga á Bakkárholtstorfu, jafnstór jörð og Grænhóll. Stóð syðst í Bakkárholtinu, stutt frá ánni. Árið 1957 fékk Grænhóll öll jarðarafnot af Strýtu sem er eign ríkissjóðs. Byggingar eru engar á Strýtu.“ Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: “ Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. […] Partr, Kotströnd, Gljúfrholt, Litli-Saurbær, Þórustaðir, Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði.“ Ekki er til túnakort af jörðinni en bærinn var rúmum 220 m sunnan við Bakkárholt og rúmum 210 m suðaustan við Grænhól. Þar sjást engin hús og sléttað hefur verið yfir bæjarhólinn. Ekki er ljóst hvernig stafnar bæjarins snéru eða hvar á bæjarhólum bærinn stóð.
Strýta tilheyrir Grænhól, heimatúnið er komið í órækt, er smáþýft og nýtt til hrossabeitar. Það liggur undir miklum ágangi af þeim sökum. Túnið er grasivaxið, í aflíðandi halla til suðurs. Bakkárholtsá rennur fast suðaustan við bæjarhólinn.
Bærinn var á náttúrulegum hól sem skagar til SSA, fram að Bakkárholtsá. Hóllinn er sléttaður og mikið raskaður. Hann er um 30 x 20 m að stærð og snýr norður-suður. Hann er 0,2 – 1,5 m á hæð, þýfður, grasivaxinn og víða glittir í hleðslugrjót. Bæjarhóllinn er greinilegastur til suðurs, þar er brún hans hæst og brött. Þar er hann jafnframt sléttur og mögulega var kálgarður þar. Hóllinn hækkar til norðurs, líkt og holtið og þar er mikið jarðrask.

Grænhóll (býli)

Ölfus

Grænhóll.

2 ½ hdr. 1847. JJ, 75. Hjáleiga frá Bakkárholti. „Þriðja hjáleiga í eyði, bygð í heimalandi fyrir vel 40 árum, varðaði bygðin inn til næstliðinna 4 ára. Dýrleikinn talinn í heimajörðunni ut supra.“ JÁM II, 407-408. „Áður hjáleiga á Bakkárholtstorfu, 2 ½ hundrað að fornu mati en hefur bætt sig eftir að landsnytjar af Strýtu voru lagðar við. Grænhóll notar suðvesturhluta Bakkárholtstorfunnar. Þar voru þurrlendir móar sem nú eru ræktaðir. Engjar góðar, lágu á bökkum Gljúfurholtsár.“ SB III, 380.
1917: Tún 6 ha, þar af c. 7/8 slétt. Garðar 1844 m2.
„Grænhóll. Býli suðvestur af Bakkárholti. Heitir eftir hólnum sem það stendur á,“ segir í örnefnalýsingu.
Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Áður hjáleiga á Bakkárholtstorfu, 2 ½ hundrað að fornu mati en hefur bætt sig eftir að landnytjar af Strýtu voru lagðar við. Grænhóll notar suðvesturhluta Bakkárholtstorfunnar.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í miðju heimatúninu. Núverandi íbúðarhús er það þriðja síðan bærinn brann árið 1936. Sá bær var nyrstur, þá var byggt hús rétt sunnar sem var rifið. Núverandi hús er syðst en engu að síður á bæjarhólnum að sögn Jónínu Guðmundsdóttur, heimildamanns. Húsin hafa smám saman færst til suðvesturs. Ekki er vitað í hvaða átt stafnar bæjarins snéru en mikið rask er á bæjarhólnum og hann sést ekki á yfirborði. Bærinn dregur nafn sitt af stakstæðum hól/holti og er hann ennþá á honum. Bærinn hefur alltaf verið á sama stað en húsin færst til á holtinu.
Þarna er mikið rask vegna bygginga og annarra framkvæmda. Yfir norðurhluta bæjarhólsins er malbikað plan og 20. aldar útihús sem nýtt eru sem hesthús. Í suðurhlutanum er núverandi íbúðarhús og bakgarður þess. Enginn ummerki um eldri húsin sjást. Planið er hæst í miðjunni en erfitt er að áætla hvort þar er vegna mannvistarlaga.
Engin ummerki bæjarhólsins sjást á yfirborði.

Vellir (býli)
Ölfus„Bærinn á Völlum stendur á litlum hól, sem sennilega hefur myndast af því að bærinn hefur verið byggður þar öld eftir öld.“ segir í örnefnalýsingu. Íbúðarhús – elsti hluti þess byggður 1906 – stendur enn á hólnum. Í suðurmörkum hans hafa verið byggð fjögur lítil sumarhús/svefnskálar. Uppi á hólnum er íbúðarhús vestast með hálfniðugröfnum kjallara en útihús eru sambyggð því að austanverðu, hlaða næst íbúðarhús og fjós austan við hana – þar austan við er hlað. Hólnum sjálfum og umhverfi hans hefur verið breytt mikið og eru þar nú aðkeyrslur og göngustígar, lystigarður að sunnan og vestan en athafnasvæði að austan og norðan.
Stór ávalur hóll, rúmlega 40 m frá austri til vesturs og um 30 m frá suðri til norðurs. Bærinn hefur verið byggður á lágri brún í landslaginu og er hóllinn því mun brattari að vestan og sunnan – þar rúmlega 2 m hár. Hlaðan sem er næst íbúðarhúsinu að austan brann að hluta 1955 og var þá handgrafinn kjallari undir núverandi hlöðu. Eldra fjós þar austan við – forveri þess sem nú er, snéri stafni til suðurs. Þegar grafið var fyrir súrheysgryfju norðan við íbúðarhúsið var komið niðurá hveraleir. Húsin eru nú í eigu Eldhesta.

Vallakirkja (kirkja)
20 hdr. 1706 og 1847. JJ, 75. Reykjakirkjujörð.
1382-91: Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. DI IV 96.
1575: Kirkian ä Reijkium i Olvese. ä land ad Vollum fijrer xxc. DI XV 643-644.
1708: “ Hjer hefur kirkja verið flutt frá Reykjum um 30 ára tíma, sjást enn merki til kirkjugarðs og leiða, einninn til kirkjutóftarinnar, hvar nú er ekkert hús.“ Hálfdan Jónsson segir í lýsingu sinni frá 1703: „Í þessari tölu er Reykjakirkju jörðu, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, bífalaði Álfi Gíslasyni títtnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.“
Jörðin var hluti af Reykjatorfu og átti hluta í óskiptu landi. Núverandi eignamörk ná aðeins yfir næsta nágrenni bæjarins, milli þjóðvegar 1 og gamla farvegar Varmár/Vorsabæjarlands.
1918: Tún 4,2 ha, 4/5 slétt. Garðar 984 m2. Túnið var að mestu náttúrulega slétt og sama gildir um valllendið austan við það, austur að núverandi farvegi Vallalækjar (sem áður rann um túnið). Þar er harðbali og hefur aldrei verið sléttað með vélum. Sunnan við túnið voru engjar, blautari eftir því sem sunnar dró og þar hefur verið ræst fram.
„Hjer hefur kirkja verið flutt frá Reykjum um 30 ára tíma, sjást enn merki til kirkjugarðs og leiða, einning til kirkjutóftarinnar, hvar nú er ekkert hús.“ segir í jarðabók Árna og Páls frá 1706. Hálfdan Jónsson segir í lýsingu sinni 1703: „Í þessari tölu er Reykjakirkju jörðu, Vellir, hvar Reykjakirkja stóð í þrjátíu ár og nú sjást enn glögg merki til tóttar, kirkjugarðs og leiða framliðinna manna. En að Völlum var kirkjan flutt þangað (eftir því sem sannorðir menn sagt hafa) að hver hafði upp komið innan kirkju á Reykjum, en biskupinn, herra Oddur Einarsson, bífalaði Álfi Gíslasyni títtnefnda kirkju til Reykja aftur að flytja, hvar hún hefur síðan staðið.“ Í örnefnalýsingu segir: “ Á hlaðinu framan (suðaustan) við bæinn stendur hjallur. Munnmæli herma að þar hafi staðið kirkja eða bænhús. […] Ég spurði sérstaklega um hvort nokkurn tíma hefði komið nokkuð fram, sem benti til þess að þar hefði verið grafreitur. Heim. vissi ekki til þess. En sú trú er enn við lýði að á þessum stað eigi alltaf að standa hús.“ Hjallurinn hafði norðvesturhorn þar sem nú er hliðstólpi um 4 m sunnan við suðausturhorn hlöðu sem er sambyggð íbúðarhúsi að austan. Kirkjugarðurinn náði innundir núverandi hlöðugrunn.
Nú er malarborið hlað að austan, stétt að vestan en lystigarður með trjáhríslum að sunnanverðu. Þegar hlaðan var undurbyggð eftir bruna 1956 var handgrafinn kjallari undir henni. Komu þá í ljós mannabein syðst í grunninum. Hjallurinn – sem staðið hefur á hinni fornu kirkjutóft – fauk en var endurbyggður á sama stað um 1960. Yngri hjallurinn snéri eins og framhlið húsanna en mjög þröngt hafði verið að komast á milli gamla hjallsins og bæjarhúsanna.

Vallasel (sel)

Ölfus

Vallasel.

„Vallasel: Grasflöt neðan við brekkuna, frá Lækjum og að borholunni,“ segir í örnefnalýsingu Reykjakots. Vallasel er um 60 m sunnan við fjárborg og 150 m norðaustan við brýr.
Selið er 2 m vestan við upplýsingaskilti neðan við Rjúpnabrekkur. Malarvegur að fyrrnefndri borholu er 2 – 4 m frá tóftinni og ferðamenn fara þar fram hjá við upphaf göngu inn Reykjadal. Selið er í stórhættu vegna staðsetningar skiltisins og ágangs sem því fylgir. Vallasel er á grasivöxnu svæði neðan við brekku. Svæðið er slétt en grjót kemur á stöku stað upp úr sverði. Seltóftirnar eru ógreinilegar, frekar er um rústahól með veggjabrotum en skýra tóft að ræða. Hóllinn er 30 x 12 m að stærð og snýr norður-suður. Framhlið selsins snéri til austurs, enn má sjá op og dyrastein um 2 m til austurs frá fyrrnefndu minjaskilti.

Reykir (býli)

Ölfus

Reykir.

1706. 67 2/3 hdr. Kirkjustaður. Skálholtskirkjujörð. JÁM II, 399. 1847. 27 hdr. JJ, 75. “Maðr bjó at Reykjum í Ölfusi, er Ingólfr hét ok var Arnarson. Setti hann fyrstr manna byggð á Íslandi. Þá var hann á gamals aldri ok sjónlauss. Þar beiddist Ármann gistingar [Ingólfr vísar Ármanni til landa uppi við Hrafnabjörg].” Ármanns saga, Íslendinga sögur II, 423.
“Eftir jól 1237 fór Snorri Sturluson vestur í Ölfus til Gissurar Þorvaldssonar. Hann fór síðan aftur af nesjum suður til Reykja og var með Gissuri um föstuna […] Gissur Þorvaldsson bjó að Reykjum í Ölfusi þau misseri er þeir önduðust Magnús biskup og Guðmundur biskup [1237]”, Sturlunga, 383, 388.
“1238, eftir Apavatnsför […] Gissur var hinn kátasti og reið um kveldið út til Reykja. voru þá sendir menn um Grímsnes og Ölfus eftir nautum og voru rekin til reykja og etin þar um helgina.” Sturlunga, 400 sbr. 406.
1382-91: Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. … Kirkia a .xv. kyr. þriggia stacka eingi er heita Kirkiuholmar .xxx. letorfs arliga j Saurbæarland. … Jtem .c. er Erlingur Jonsson lagdi til kirkiunnar firir fyrnd messuklæda epter skipan Herra Þorarins. Portio Ecclesiæ vmm .v. ar .v. aurar oc vc. medan sira Pall hefr bued. Jtem medann Sturli bio vmm .vj. ar .xij. aura a hvoriu are. DI ??
1397: Hun a ad auk þess er stendur j maldaga Herra Michels biskups kugilldi er sira Pall gaf .cc. voru .ij. hross. halftunnu tioru. hross .x. aura j vidi er Sturli gaf. … lagdi Sturli til kirkiunnar … firir halft þridia hundrad. fellur nidur af portione þeirri er reiknadist medann hann var .xix. hundrad oc .xviij. älner. portio Ecclesiæ vmm .iiij. är næstv medann Þo[r]steinn bio .cc. oc .xij. aurar oc .vj. fyri næstu .ccc. oc .xij. aurar. DI IV 96-97.
6.5.1446 voru 20 hdr í Reykjum meðal eigna Þorvarðar Loptssonar að honum látnum. DI IV, 679.

Ölfus

Reykir, Stanley 1789.

22.9.1540 er dæmt að Gissur biskup mætti heimta allan reikningsskap Skálholtsstól eftir Ögmund biskup og var jörðin Reykir í Ölvesi þar nefnd sérstaklega. DI X, 561.
1540 fyrirbýðir Gissur biskup öllum að byggja eða bæla jörðina Reyki í Ölfusi “Sakir þess ad kyrckiunnar radi hefur virdst sem reikir j Olvesi væri riettileg domkyrckiunnar Eign og ecki yfer þeigia meiga ad þessi jord drægist vndan heilagri Scalholltz kyrkiu.” DI X, 579 sbr. bréf Gissurar til Ögmundar biskups í byrjun árs 1541 þar sem hann biður Ögmund að leggja sitt til að Reykir drægist ekki undan dómkirkjunni “þui eg vil helst giarnan eiga allt gott vid ydvart folk mier ad vijtalausu.” DI X, 600.
1540 veitir Gissur biskup Oddi Gottskálkssyni alla jörðina Reyki til leigulausrar ábúðar “Suo skulu og fyrrgreindir reyker eiga skipstodu frij j þorlakshofn epter þui sem adur uar j tijd b[iskups] augmundar.”
DI X, 576 (sbr. “settest [Oddur] i bu med Þuride Einarsdottur oc bio med henne nockur aar aa Reykium i Olvese ogiptur. þangad til hann ætti son med henne. Petur ad nafne. sijdan tok hann hana til egta – DI XIII, 134. Á Reykjum þýddi Oddur Píningarsögu Bugenhagens 1545 en hún kom út 1558).
1541 er Eyjólfur Jónsson á Hjalla kærður fyrir að hafa markað undan kirkjumarki Reykjakirkju. DI X, 677-78.
1541 lögfestir Gissur biskup Skálholtskirkju Reyki í Ölfusi. DI X, 686.
11.1.1542 er Eyjólfur Jónsson á Hjalla dæmdur fyrir að hafa haldið fyrir kirkjunni á Reykjum 6 kúgildum. DI X, 698.
[1553-54] Kirckian a Reykium j Olvese heyrer til Skalhollttz med sijnum eignum. Þar med eru xij kugillde. Hun a þriggia Rasta einge. er heita Kirckiuholmar. xxx lietorfs arlega j Saurbæarland. DI XII, 662.

Ölfus

Reykir 1930, berklahæli…

1575: Kirkian ä Reijkium i Olvese. Ä land ad Vollum fijrer xxc. thriggia stacka einge. er heita Kirkiu hölmar. xxx lietorfs ärliga I Surbæiarland. Jtem vij kijr og v. ä saudar kugilldi og tuævetur kapall. DI XV 643-644.
1706 eru kirkjujörðin Vellir í óskiptu landi Reykja, og auk þess hjáleigurnar Reykjakot, Reykjahjáleiga og Kross, sem síðar urðu sjálfstæðar jarðir. Þá nefnir jarðabókin eyðihjáleigurnar Engjagarð, Grændalsvöll og Litlu-Reyki. Reykjahjáleiga var lögð undir búið 1931.
1918: Tún 5,4 ha, slétt. Garðar 1736 m2.
Hefðbundin búskapur hætti á Reykjum 1930 og árið 1931-1938 var rekið þar hressingarhæli fyrir berklasjúklinga. Árið 1939 tók Garðyrkjuskóli ríkisins við jörðinni, nú er Landbúnaðarháskóli Íslands með starfsstöð á jörðinni. Árið 1963 var Skógrækt ríkisins falið að girða og friða landið til skógræktar í samvinnu við Garðyrkjuskólann. 1918: Tún 5,4 ha, slétt. Garðar 1736 m2.
„Reykir hafa verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi, gegnum aldirnar. Þar sátu höfðingjar á Sturlungaöld. […] Síðar sátu þar merkisklerkar . […] Bærinn á Reykjum stóð þar sem nú stendur geymsluhús Garðyrkjuskólans. Bæjardyr til suðurs og kálgarður sunnan undir bænum vestanverðum. Austan bæjarins var kirkjugarðurinn, gengið var til kirkjunnar af hlaðinu frá vestri. […] Af hlaðinu lágu traðir til suðausturs, sér enn fyrir og götuna austur með fjallinu,“ segir í örnefnaskrá. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, fyrir miðju gamla heimatúnsins. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sumir telja að Reykir muni vera fyrsti bærinn í Ölfusi. Þar hafi fengið bólfestu Karli „Þræll“ Ingólfs Arnarsonar, sá er fór fyrir ásamt Vífli og leitaði öndvegissúlnanna.“ Öll ummerki bæjarhóls og bæjahúsa eru horfin af yfirborði vegna bygginga frá á 20. öld og annarra framkvæmda á svæðinu. Bærinn var nánast í miðju þess svæðis sem Landbúnaðarháskóli Íslands hefur til umráða.
Malbikaður vegur liggur að bæ 001 úr vestri og annar vegur liggur yfir bæjarhólinn til austurs. Nú er tvílyft, steinsteypt geymsluhús þar sem bærinn var áður og bílaplan til norðurs og suðurs. Húsið er notað sem geymsla og verkstæði en þarfnast viðhalds.
Kirkjugarður er 10 m austan við bæ en teikningar af bæjarhúsum á Reykjum er m.a. að finna í bókinni Íslandsleiðangur Stanleys 1789.
Malarvegur liggur milli kirkjugarðsins og geymsluhússins. Öllu svæðinu umhverfis geymsluhúsið hefur verið raskað. Malarborin bílastæði eru til norðurs og suðurs, vegur til austurs og gróðurhús til vesturs.
Lág hólmyndum sést sunnan við húsið en ekki er hægt að fullyrða að um ummerki bæjarhóls sé að ræða, jarðrask er of mikið.

Reykjakirkja (kirkja)

Ölfus

Reykir – kirkja.

Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Reykir eru og gamall kirkjustaður. Sú kirkja var helguð heiligum Laurentsíusi […] Kirkjan var flutt um skamman tíma að Völlum „vegna þess að hver kom upp í kikrjunni“ eins og segir í heimildum. Kirkjan á Reykjum fauk af grunni í ofviðri haustið 1908. Ekki byggð upp aftur. […] Grafreitur er sléttaður, sér enn fyrir kirkjustæðinu. Er vel girtur og í góðri hirðu.“
c. 1200: Páll bp Þar á yfirreið, munngát á móti honum; Jarteinabók 1200, Bsk I, 339.
c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 8.
1382-91: XCII. Reyker. Kirkia heilags Laurentij ad Reykium a land a Wollum firir .xxc. Þar skal vera heimilisprestur. Kirkia a .xv. kyr. þriggia stacka eingi er heita Kirkiuholmar .xxx. letorfs arliga j Saurbæar land. tvenn messuklædi oc hokul med pell .ij. alltarisklædi. annad med pell. kaleik. kiertistikur .iij. sacrarium mvnnlaug. glodarkier. krossar .ij. Mariuskriptt. Laurentiusskriptt oc tiolld vmm kor. fontklædi .xiij. bækur. kantarakapa. merki. glerglugg. Jtem .c. er Erlingur Jonsson lagdi til kirkiunnar firir fyrnd messuklæda epter skipan Herra Þorarins. Portio Ecclesiæ vmm .v. ar .v. aurar oc vc. medan sira Pall hefr bued. Jtem medann Sturli bio vmm .vj. ar .xij. aura a hvoriu are 1397: Hun a ad auk þess er stendur j maldaga Herra Michels biskups kugilldi er sira Pall gaf .cc. voru .ij. hross. halftunnu tioru. hross .x. aura j vidi er Sturli gaf. Jtem .c. er Halldora gaf oc .c. er Jon Gilsson gaf oc hestr er gafst eptir Jon Jvarsson. lagdi Sturli til kirkiunnar alltaraklædi oc dvk. hokul. paxspiolld .ij. oc pentan frammi firir kor. þetta allt saman firir halft þridia hundrad. fellur nidur af portione þeirri er reiknadist medann hann var .xix. hundrad oc .xviij. älner. portio Ecclesiæ vmm .iiij. är næstv medann Þo[r]steinn bio .cc. oc .xij. aurar oc .vj. ar fyri næstu .ccc. oc .xij. aurar. Jtem forn tyund er i maldaga Herra Michaels er skrifad .viijc. og .xvij. aurar. DI IV 96-97.
[1553-54]: Reyker j Olvese. Kirckian a Reykium j Olvese heyrer til Skalhollttz med sijnum eignum. Þar med eru xij kugillde. Hun a þriggia Rasta einge. er heita Kirckiuholmar. xxx lietorfs arlega j Saurbæarland. Þar liggia til x Bæer. og fellur nu: [vantar] kirkian sterck og nockud geingin. DI XII, 662.
1575: CXCI. Reyker. Kirkian ä Reijkium i Olvese. ä land ad Vollum fijrer xxc. thriggia stacka einge. er heita Kirkiu hölmar. xxx lietorfs ärliga i Saurbæiarland. Jtem vij kijr og v. ä saudar kugilldi og tuævetur kapall. Jtem i kirkiunne ij messuklæde. ein klucka. korbialla. silffur kaleikur. Jtem lijtill Jarnkall. ij koparpijpur. Jtem fastagötz Lxc. Lausagötz Lxxxxiiijc. DI XV 643-644.
f. 1700: Reykjakirkja var flutt að Völlum um 30 ára tíma; (PP, 93).
1706: Kirkjustaður. Skálholtskirkjujörð. JÁM II, 399.
21.7.1786: Skipað að Reykjakirkja skuli aftakast; (PP, 93) [konungsbréf].
21.5.1790: Fyrri skipun tekin aftur; (PP, 93) [konungsbréf].
Þar segir í SSÁ: „2ur að Reykjum, sem er annexíukirkja. Sóknarbæir þangað liggjandi 12.“
17.7.1909: Arnarbælis- og Reykjasóknir sameinaðar og ákveðið að byggja eina kirkju á Kotströnd; (PP, 93) [stjórnarráðsbréf].
„Austan bæjarins var kirkjugarðurinn, gengið var til kirkjunnar af hlaðinu frá vestri. Garðurinn var hlaðinn úr grjóti og torfi og vel gripheldur 1929. Sú girðing, sem nú er um garðinn, var gerð seinna og lögðu ýmsir, sem áttu þar ættingja í jörðu fé til, sér enn fyrir kirkjustæðinu og fáeinum leiðum,“ segir í örnefnalýsingu. Lág veggjabrot bera kirkjunni vitni sem og kirkjugarður þar umhverfis. Kirkjan er 10 m austan við bæ, innan þess svæðis sem Landbúnaðarháskóli Íslands er með starfsemi.
Fyrir vestan og sunnan kirkjugarðinn eru byggingar tengdar skólastarfsemi Landbúnaðarháskólans. Til norðurs er malarvegur og slétt grasflöt.
Kirkjugarðurinn er 24×20 m að stærð, snýr austur-vestur og afmarkast af torf- og grjóthlöðnum veggjum. Eins og segir hér ofar, er ekki um fornan vegg að ræða, hann var hlaðinn um miðja 20. öld á sama stað og eldri veggurinn að sögn Grétars J. Unnsteinssonar, heimildamanns. Veggurinn er algróinn innan kirkjugarðsins en að utan má sjá 3-4 umför af grjóthleðslu. Hann er 0,4-1 m á hæð. Gengið er inn í kirkjugarðinn að norðan en ekki vestan líkt og áður var. Kirkjutóftin er í miðjum kirkjugarðinum sem er grasivaxinn og sléttur. Ekki sér móta fyrir gröfum né minnismerkjum þar. Kirkjutóftin er 10×7 m að stærð og snýr austur-vestur. Veggirnir eru 0,2 m á hæð að utan, snyrtilegir og jafnir. Það bendir til þess að tóftin og nánasta umhverfi hafi verið snyrt, sléttað og lagfært á einhverjum tímapunkti. Mögulega var fyllt upp í tóftina, veggirnir eru það lágir. Ekki sér móta fyrir opi inn í kirkjuna en líklega var það á miðjum austurvegg.

Engjagarður (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 stendur: „Hjáleiga hefur hjer ein verið í engjatakmarki, nú í auðn í 20 ár og 6 ár, er kölluð var Engiagardur, og hyggja menn verið mun hafa þar, þá bygð var, landskuld lx álnir og kúgildi iii, er og víst að ei kann aftur að byggjast jörðinni að skaðlausu.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett nema að hún var í engjum samkvæmt Jarðabókinni.
Þetta býli hefur gjarnan verið sett í samhengi við örnefnin Innri- og Fremri Engjamúla, Húsmúla og Nóngiljalæki í Grændal án beinna tengsla. Í Grændal voru engjar og ekkert sem bendir til þess að örnefnin tengist þessu býli frekar en slætti. Lýsing á staðsetningu býlisins gæti allt eins átt við Engjahól. Ekki er hægt að staðsetja býlið án frekari heimilda.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir: „Önnur hjáleiga kölluð Grændalsvöllur, bygð í fyrstu innan 20 ára, varaði sú bygð 4 ár; síðan hefur hún í auðn legið og brúkast nú fyrir stekkatún frá Reykjakoti, kann ei aftur byggjast nema jörðinni til skaða.“ Í örnefnalýsingu Reykjakots eru leiddar líkur að því að Grændalsvöllur sé í Stekkatúni. Ekki er hægt að staðsetja Grændalsvöll án frekari heimilda né staðfesta að um sama stað og Stekkatún sé að ræða. Ekki er mikilla búsetjuminja að vænta eftir fjögurra ára búsetu en líklega var hjáleigan innan landsvæðis sem nýtt var frá Reykjakoti.

Reykjarétt (rétt)

Ölfus

Reykjarétt.

„Reykjarétt: Var í brekkunni upp undan Tumavelli, sér enn fyrir,“ segir í örnefnalýsingu. Reykjarétt er 230 m austan við bæ og 170 m suðaustan við fjárhús. Réttin er ofarlega í brekku, upp Reykjafjall. Þar er autt svæði á milli hárra greni- og furutrjáa sem plantað var á seinni hluta 20. aldar. Stórt grenitré vex í einu horni réttarinnar og hefur raskað henni að hluta. Réttin sést illa fyrr að henni er komið.
Réttin er í brekku í vesturhlíðum Reykjafjalls, nánast beint austan við bæ. Réttin er á náttúrulegum „stalli“ og hallar lítillega til vesturs. Allt umhverfis réttina eru há greni- og furutré og stór björg sem hrunið hafa niður fjallshlíðina. Réttin er 18 x 14 m að stærð, gróin og snýr norður-suður. Suðurhluti réttarinnar er raskaður, þar er 10-15 m hátt grenitré sem rutt hefur veggjum um koll. Reykjarétt er grjóthlaðin og skiptist í fimm hólf.

Selgil (sel)

Ölfus

Reykjasel.

„Selgil: Gróið gil, kemur ofan af fjalli, fyrir norðan Gufudal, rennur í Sauðá fyrir norðan Búra. Selmýri: Mýrarblettur fyrir norðan Selgil, nær að Sauðá.“ segir í örnefnalýsingu. Sennilega er þetta sami staður og getið er í lýsingu Ölfus frá 1703 eftir Hálfdan Jónsson. Þar segir:“ En til austurs frá Grænsdal taka til Klóarmelar, aldeilis graslausir. Plássið þar fyrir austan er selhagar frá Reykjum og það pláss kallað Reykjafjall, þó lágt liggi sem annar dalur. Þetta takmark er með grasi víða, so valllendi sem mýrum, gott til haglendis en undirlagt af snjóum á vetrartímanum […]“. Selið er tæpum 1,7 km norðan við bæ og 1 km norðan við Hrútastíg 019. Tóftir sjást þar á gróinni tungu, milli tveggja lækjardraga, beint vestan við Selgil og norðan við golfvölinn í Gufudal.
Selið er á gróinni tungu, sem hallar til vesturs frá Selgili. Þær eru innan afgirts beitarhólfs fyrir hross. Tóftirnar eru undir hólbarði og fornlegar að sjá. Þýfður mói er allt umhverfis þær.

Reykjakot (býli)

Ölfus

Reykjakot – túnakort 1918.

1706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 399. 1847, 20 hdr. JJ, 75. Fór í eyði 1967, en frá 1980 garðyrkjubýli á 3,3 ha og nefnist Reykjakot. Reykjakot II byggt 1947.
1918: Tún 8,2 ha, slétt. Garðar 1282 m2.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í norðvesturhorni heimatúnsins. Mikil skekkja er á túnakortinu, afstaða minjanna er rétt en fjarlægðir rangar. Núverandi ábúendur fluttu að Reykjakoti 1980 og reistu íbúðarhús sama ár, 20 m norðan við bæjarhólinn. Þá var gamli bærinn horfinn og búið að slétta yfir svæðið. Við byggingu íbúðarhússins var ekki komið niður á mannvistarlög en kjallari er undir húsinu. Að sögn Margrétar Magnúsdóttur, heimildamanns, þurfti að grafa djúpt niður til að komast á fast berg við bygginguna og mikil mold þar yfir. Mikið rask er innan gamla heimatúnsins og hefur verið lengi.
Skólasel Menntaskólans í Reykjavík var byggt milli 1930-1940 sunnan við bæinn og í tengslum við það voru reistir nokkrir sumarbústaðir, gróðurhús og önnur mannvirki sem nýtt voru af kennurum skólans. Á tímabili var hippakommúna í einum þessara bústaða. Reykjakot II var reist 1947, tæpum 250 m sunnan við bæ. Að sögn Margrétar, var gamli bærinn þar sem rólur eru nú í bakgarði þeirra. Til eru gamlar ljósmyndir af bænum.
Frá árinu 1980 hefur hundruðum trjáa verðið plantað í og við bæjarhólinn, aðallega greni, öspum og lerki. Þar er nú bakgarður, sunnan við núverandi íbúðarhús. Inn á milli trjánna eru sléttar grasflatir, rólur og fleiri leiktæki fyrir börn. Fast SSV við áætlaða staðsetningu bæjarhólsins er upphækkað, malbikað bílaplan og vegur.
Bæjarhóllinn og bæjarhúsin í Reykjakoti eru horfinn af yfirborði.

Reykjahjáleiga (býli)

Ölfus

Reykjahjáleiga.

706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 399. 1847. 10 hdr. JJ, 75. Lögð undir Reyki 1931 og fór í eyði 1938.
1918: Tún 3,8 ha, slétt. Garðar 728 m2. 1932: Tún 5 ha.
„[Bærinn í Reykjahjáleigu stóð] undir Neðra-Dekkinu, neðst á þurrlendinu. Bæjardyr sneru til suðvesturs og kálgarður var í bæjarskjólinu,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Reykjahjáleiga var 1/8 partur úr Reykjatorfunni. Bærinn stóð austast í túninu á Reykjum. Notaði mest landið suðaustur frá bænum. […] Átti sameiginlegt beitiland með öðrum jörðum í torfunni, einnig torfristu og mótak […] og ákveðið slægjuland í engjunum.“ Í Sunnlenskum byggðum III er jafnframt teikning af bæjarhúsunum. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, syðst í miðju túninu. Á gömlum loftmyndum frá 1946 og 1956 í eigu Héraðsskjalasafns Árnesinga má sjá óljós mannvirki á bæjarhólnum. Bæjarhúsin voru sléttuð út árið 1938 þegar síðasti ábúandi flutti þaðan. Að sögn Grétars J. Unnsteinssonar, heimildamanns, var grjót tekið úr bæjarhúsum og bæjarhólnum þegar gróðurhús Garðyrkjuskólans voru byggð, um miðja 20. öld. Reykjahjáleiga var rúmum 370 m suðaustan við Reyki. Reiðstígur er 10 m norðan við áætlaða staðsetningu bæjarhólsins og vírgirðing liggur eftir suðurhlutanum.
Bæjarhóllinn og öll bæjarhús eru horfin af yfirborði. Svæðið var sléttað og öllum mannvirkjum rutt niður barð sunnan kálgarðsins. Barðið kallast Neðra-Dekk og er náttúruleg brún. Slétt, grasivaxið tún er á svæðinu og reiðstígur. Ennþá má sjá grjót sunnan undir Neðra-Dekki en mikið af því var tekið þegar gróðurhúsin voru byggð. Útivistarsvæði er meðfram allri vesturhlíð Reykjafjalls og bæjarstæði Reykjahjáleigu er innan þess.
Þar sem bæjahóllinn var er nú óljós hólmyndun en ekkert er hægt að áætla um umfang mannvistarlaga. Mögulega er hólbungan tilkomin vegna sléttunar og niðurrifs á svæðinu. Suðurveggur kálgarðsins er ennþá varðveittur sem kantur í brún Neðra-Dekks. Kanturinn er 26 m langur, 1-1,5 m á hæð og er grjóthlaðinn. Þar má sjá 3-4 umför gjóthleðslu, inni á milli gróðurs.

Kross (býli)

Ölfus

Kross – túnakort 1918.

1706. Hjáleiga frá Reykjum. JÁM II, 401-402. 1847. 10 hdr. JJ, 75. „Mörkin á milli Kross og Valla [ÁR-516] eru um gamalt árfar (Sennilega eftir Varmá).“ Ö-Reykjatorfa, 2
1918: Tún 3,4 ha, 2/3 slétt. Garðar 874 m2.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Kross er gömul hjáleiga frá Reykjum, 10 hdr jörð og 1/8 partur úr Reykjatorfu. Bærinn stendur á mótum mýrar og engja, suðaustast í landi Reykjatorfu. Á sameinginlegt beitiland, mótak og torfristu með öðrum jörðum torfunnar.“ „Bærinn í Krossi stendur suðaustan undir Krossklettum. […] Bærinn stóð áður þar, sem fjósið og heyhlaðan er nú, en íbúðarhúsið er austast,“ segir í örnefnalýsingu. Hlaðan og fjósið voru norðvestan við bæjarhólinn að sögn Eyrúnar Þorláksdóttur, heimildamanns. Frá 1918 er búið að flytja bæjarstæðið á Krossi tvisvar sinnum. Fyrst var bærinn fluttur 1955, þá var íbúðarhús byggt um 60 norðar. Það íbúðarhús eyðilagðist í jarðskjálfta 2008. Þriðja íbúðarhúsið var byggt á Móholti syðst í jörðinni um 2010, rúmum 320 m suðaustar. Elstu bæjarhúsunum var rutt út 1954, fljótlega eftir að Eyrún fluttist þangað. Sléttað var yfir svæðið og ræktað tún er þar nú. Búskap var hætt á Krossi 2002-2003 en nýbýlið Lind var byggt 2008, á miðri jörðinni. Engin búskapur er á jörðinni né er hún nýtt að stórum hluta.
Bæjarhóllinn er horfinn. Þar eru nú gróin tún til allra átta nema norðurs, þar er íbúðarhúsið frá 1955 og garður umhverfis það. Malarvegur að íbúðarhúsinu liggur þvert yfir hólinn. Túnið er í órækt og þar mikið gras og bleyta til vesturs.
Öll ummerki bæjarhólsins eru horfin af yfirborði. Stafnar bæjarhúsanna snéru til suðvesturs en hvergi sér til uppsöfnunar mannvistarlaga.

Krossselsflöt (sel)

Ölfus

Krosssel.

„Krossselsflöt: Slétt grasflöt neðan (austan) Nóngilja,“ segir í örnefnalýsingu Reykjakots. Krosssel er tæpum 200 m VSV við tóft og rúmum 550 m suðvestan við Vallasel. Selið er á graslendi í aflíðandi halla til suðurs og austurs. Svæðið er slétt og lækir renna úr báðum Nóngiljum rúmum 50 m sunnan við selið. Selið er á sléttu graslendi austan við Nóngilsbrekku. Til austurs frá Krossselsflöt er rofbakki og hrauntunga, á milli selsins og Djúpagils. Á svæði sem er 30 x 13 m að stærð og snýr austur-vestur eru tvær tóftir, báðar tilheyrðu þær selinu.

Saurbær (býli)

26 hdr 1847. JJ, 75. „Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum.“ JÁM II, 416. „26 hundruð að fornu mati. Á land upp á fjall, allt að afréttarmörkum, sæmilega gróið, góð sumarbeit. Neðar er gamalt gróið hraun „heiði“, skjólsælt með grónum lautum. Bærinn stendur í hraunbrúninni.“ SB III, 352. Stóri-Saurbær er ekki í fastri ábúð. Búið er að stofna fjögur lögbýli, á jörðinni, Litla-Saurbæ, Hreiður, Vindás og Víðigerði.
Ekki er föst ábúð á Stóra-Saurbæ. Árið 1979 var bærinn fluttur tæplega 50 til NNV, af bæjarhólnum. Þar er íbúðarhús er byggt sama ár. Eldra íbúðarhúsið var byggt 1933 og var fast VSV við 20. aldar útihús sem eru á miðjum bæjarhólnum. Það hefur verið rifið en þar sést hólmyndun, líklega hluti af bæjarhólnum. Hluti af útihúsinum voru einnig rifin. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, sunnarlega í heimatúninu. Ekki fékkst heimildamaður fyrir jörðina og ekki er vitað með vissu hvar bærinn sem sýndur er á túnakortinu var á bæjarhólnum. Líklega var íbúðarhúsið frá 1933 byggt í miðjan hólinn eða vesturhlutann.
Bæjarhóllinn er grasivaxinn og njóli vex í vesturhluta hans. Íbúðarhús byggt 1933 var vestast á bæjarröndinni og það sést enn á loftmynd frá um 2000. Líklega var það rifið í kjölfar jarðskjálftans 2000 eða 2008. Allt umhverfis bæjarhólinn eru gróin tún, bæði ræktuð og óræktuð. Bæjarhóllinn er um 60 x 30 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Bærinn raðaðist eftir hólnum endilöngum og stafnar snéru til suðurs. Bæjarhóllinn er algróinn en mikið jarðrask er til norðurs og austurs. Þar eru 20. aldar útihús og malarplan. Þar sjást engin ummerki um mannvist á yfirborði. Bærinn er byggður á hraunbrún, mýri er til suðurs frá honum. Vesturhluti bæjarhólsins sést ennþá en þar er jafnramt jarðrask. Hóllinn er 0,3 – 0,5 m á hæð og skagar fram í mýrina.

Seldalur (sel)

Ölfus

Saurbæjarsel.

„Seldalur: Gróin laut í Hrauninu. Þar sér enn fyrir tóftum. Selið var frá Saurbæ,“ segir í örnefnaskrá. Í dalnum var einnig sel frá Öxnalæk. Í örnefnalýsingu þess bæjar segir: „Rétt fyrir innan Skyggni hefur verið sel frá Öxnalæk, í Öxnalækjarlandi. Ögmundur man eftir að hafa séð þarna grjóttóft, þegar hann var barn. Líklega má sjá tóftina enn. Selið er í Öxnalækjar-Seldal.“ Í skýrslu Fornleifaverndar ríkisins, nú Minjastofnunar Íslands, Hengill og umhverfi segir: „Öxnalækjar-Seldalur liggur austan í Hellisheiðinni. Dalurinn er rétt ofan við þjóðveginn þar sem hann liggur ofan af heiðinni og niður að Hveragerði. Vegurinn liggur í fyrstu til norðurs en síðan er á honum U-beygja og stefnir hann eftir það til suðurs á kafla.“ Selið er 3,6 km norðvestan við bæ, þjóðvegur 1 er um 200 m austar. Hér eru tvö sel, annað sunnan í dalnum og hitt norðan í honum. Hér er fremur um gróið vik en dal að ræða sem liggur austurvestur.
Dalurinn, eða vikið, er vaxið grasi og lyngi. Hann er um 35 – 50 m breiður og austarlega liggur grasivaxinn hraunhryggur þvert fyrir dalinn. Sunnan megin í dalnum eru tvær stakar tóftir og aðrar tvær norðan megin.

Saurbæjarhjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: „Saurbæjarhjáleiga hefur hjer verið í túninu, bygð fyrir innan 30 ára tíma, hefur í auðn legið undir eður yfir 20 ár.“ Ekki er vitað hvar hjáleigan var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.

Litli-Saurbær (býli)

Ölfus

Litli-Saurbær, túnakort 1918.

„Um 1850 er fjórði hluti úr Saurbænum gerður að sérstakri jörð og hlaut þá þetta nafn. Árið 1907 fær hann annan fjórða úr jörðinni og er því nú hálf Saurbæjarjörðin. Bærinn stendur á hraunbrúninni […].“ SB III, 351. Ekki er föst ábúð á jörðinni, hún er á söluskrá og hluti hennar er kominn undir sveitarfélagið Hveragerði. Jörðin féll úr ábúð eftir að jarðeignafélagið Lífsval hætti starfsemi milli 2008-2012 eða svo.
1917:
„Um 1850 er fjórði úr Saurbænum gerður að sérstakri jörð og hlaut hann þá þetta nafn. Árið 1907 fær hann annan fjórða úr jörðinni og er því nú hálf Saurbæjarjörðin. Bærinn stendur á hraunbrúninni.“ segir í Sunnlenskum byggðum III. Í tímaritinu Fjallkonan frá árinu 1896 segir: „Að kveldi hins 5. þ. m. kl. 10 ½ e. m. kom enn jarðskjálfti mikill, og fellu þá algerlega um 30 býli í Ölfusi og um 60 bæir aðrir skemdust meira og minna. — Prestssetrið Arnarbæli er algerlega hrunið og kirkjan þar skektist á grunninum. Auk þess eru algerlega hrundir þessir bæir: […] Litli-Saurbær og Þórustaðir.

Hellir, Kirkjuferjuhjáleiga, Stríta, Ósgerði (býli)
Skemdir urðu meiri og minni út að Hjallahverfi, enn þar kvað minna að jarðskjálftanum.“ Íbúðarhús var byggt árið 1938 en árið 1962 varð þarna mikill bruni. Í Sunnlenskum byggðum III segir að nýtt íbúðarhús hafi verið reist síðar (en húsið byggt 1938) en ekki er vitað hvort það er að hluta sama húsið né hvaða ár það var byggt. Nú er eitt íbúðarhús á Litla-Saurbæ og það er nokkurra áratuga gamalt og er hér líklega um sama hús að ræða.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Sá bær var líklega á svipuðum stað og núverandi íbúðarhús en ekki fékkst heimildamaður fyrir jörðina og það þarfnast staðfestingar. Bærinn var þó líklega á þessum slóðum, flest útihúsin sem þar sjást núna eru byggð á árunum 1950 – 1960. Ábúð á þessum stað hófst ekki fyrr en um 1850 og því lítilla ummerkja um búsetu að vænta undir sverði. Hvergi sér til uppsafnaðra mannvistarlaga á yfirborði, líklega vegna jarðrasks.
Umhverfis núverandi bæjarstæði eru 20. aldar útihús, íbúðarhús og malarplan. Til allra átta frá bæjarstæðinu eru grasivaxin tún sem komin eru að hluta í órækt.
Engin ummerki bæjarhóls sjást á yfirborði.

Þúfa (býli)

Ölfus

Þúfa.

1708. „Jarðdýrleiki er x og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 417. 1847. 10 hdr. JJ, 75. „Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn […]
Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin […] Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“ Ö-Kröggólfsstaðatorfan.
1918: Tún 5.6 ha, 2/3 slétt. Garðar 1485 m2.
„Bærinn á Þúfu er norðaustur af Kröggólfsstöðum. Hann hefur staðið á sama stað. Heimvegi hefur verið breytt, færður sunnar,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918, í suðausturhorni heimatúnsins. Þúfutjörn er vestan við bæinn og var innan heimatúnsins. Gamli bærinn stóð í „sundi“ á milli núverandi íbúðarhúss, byggt 1955, og fjóssins sem var byggt á 20. öld. Stafnar bæjarins snéru til suðurs og kálgarður var framan við bæinn að sögn Sigurðar Ragnarssonar, heimildamanns. Sundið er 5 m breitt og öll ummerki bæjarins sem og bæjarhólsins eru horfin. Íbúðarhúsið frá 1955 er byggt í suðurhluta bæjarhólsins og fjósið í austurhlutann. Að sögn Sigurðar sléttaði hann út hól norðan og vestan við íbúðarhúsið og gerði malbikað bílaplan. Að hans sögn var eingöngu mold í hólnum. Við jarðrask í kálgarðinum kom fannst hestasteinn úr stuðlabergi, líklega úr landi Auðsholts. Bæjarstæðið er á náttúrulegri, lágri brún sem lækkar til suðurs og afmarkast heimatúnið af henni.
Engin ummerki bæjarins né bæjarhóls sjást á yfirborði.

Þúfuhjáleiga (býli)

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 segir: „Bygð fyrir 8 árum. Varaði bygðin til næstliðins hausts, þá dó fólkið sem þar var, nema kona ein, og hefur síðan í auðn legið.“ Ekki er vitað með vissu hvar Þúfuhjáleiga var staðsett, byggðin varði í tæp 8 ár og því ekki mikilla ummerkja að vænta. Samkvæmt Sigurði Ragnarssyni, heimildamanni, er örnefnið Hjáleiguengi þekkt og líklega nýtt til sláttar frá Þúfuhjáleigu. Hann hafði einnig heyrt að Þúfuhjáleiga hafi verið sunnan við bæ, utan heimatúnsins. Nánari heimildir þarf til þess að staðsetja minjastaðinn.

Kröggólfsstaðir (býli)

Ölfus

Kröggólfsstaðir.

1708. „Jarðardýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum […]“ JÁM II, 418. 1847. 32 hdr. JJ, 75.
„Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn… Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin…Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“
1918: Tún 5.1 ha, 2/5 slétt. Garðar 1752 m2.
„Kröggólfsstaðir: Bærinn á Kröggólfsstöðum hefur staðið á sama stað svo lengi sem elstu menn muna. […] Þjóðsaga sem ég hef heyrt hér í Ölfusi hermir. Þegar Karl þræll Ingólfs stauk frá honum af því að hann neitaði að byggja útsker það, sem guðirnir settu Ingólf á, (Landnáma) Hann fannst þar sem eru Reykir í Ölfusi. Hann bjó þar síðar. Þegar hann fór huldu höfði átti hann í mestu kröggum. Þá fæddi „kona hans“ son, sem þau nefna Kröggólf. Hann byggði Kröggólfsstaði.“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918. Íbúðarhúsið á Kröggólfsstöðum er byggt 1961, í suðurhluta bæjarhólsins. Að sögn Moniku S. Pálsdóttur, heimildamanns, var annað íbúðarhús norðan þess, rúmur 1 metri var á milli þeirra. Það hús var byggt á fyrri hluta 20. aldar en var rifið í minni Moniku. Núverandi íbúðarhús snýr austur-vestur en eldra húsið snéri norðaustur-suðvestur og var á miðjum bæjarhólnum. Að sögn Moniku koma alltaf upp hleðslusteinar og ummerki um búsetu við jarðrask í kringum íbúðarhúsið.
Bærinn á Kröggólfsstöðum er á lágu holti, allt umhverfis það eru grasivaxin tún. Bærinn er nánast á miðju holtinu. Núverandi íbúðarhús er í suðurhluta bæjarhólsins, bakgarður er sunnan og suðvestan þess.
Til austurs er malarplan og liggur malarvegur þar að bænum. Vírgirðing liggur þvert yfir norðurhluta hólsins.
Mikið rask hefur orðið á bæjarhólnum, ekki síst vegna byggingaframkvæmda á síðustu öld. Það hafa tvö íbúðarhús verið byggð í hólinn á 20. öld, malarplan er yfir norðurhlutanum og vegur þvert yfir hann.
Auk þess hafa flest útihús frá 20. öld verið byggð nærri hólnum og nartað af hliðum hans. Enn má greina norður- og norðausturhluta bæjarhólsins á 21 x 10 m stóru svæði. Þar er grasivaxið, slétt tún nýtt til beitar. Greinilegt er að sléttað hefur verið yfir bæjarhólinn sem er ávöl hólbunga, um 0,4 m þar sem hún er hæst. Erfitt er að greina uppsöfnuð mannvistarlög frá náttúrulegu holtinu en víða glittir í staka hleðslusteina og beina bakka. Dæld, 7 x 5 m að stærð, sést til norðurs á hólnum.

Vatnastekkur (stekkur)

Ölfus

Vatnstekkur.

„Vatnastekkur: Gamall stekkur á Vatnabrekkum, síðar var þar sauðahús, sér enn fyrir,“ segir í örnefnaskrá. Vatnastekkur er 900 m norðvestan við bæ 001 og tæpum 600 m norðvestan við Vötn. Stekkurinn er fast austan við landamerki Núpa ÁR-527 og þar er vírgirðing á merkjum. Að sögn Aldísar Pálsdóttur, heimildamanns, voru sauðahúsin notuð langt fram á 20. öld. Grasivaxið, slétt tún er allt umhverfis tóftina. Túnið er nýtt til hrossabeitar og er ekki slegið. Tóftin er 23 x 10 m að stærð, snýr norður-suður og skiptist í tvö hólf.

Gvendarbrunnur (þjóðsaga)
„Gvendarbrunnur: Uppspretta suður af Vatnabrekkum, sennilega hefur Guðmundur góði vígt hana,“ segir í örnefnalýsingu. Gvendarbrunnur er rúma 700 m norðvestan við bæ og 200 m austan við Vatnastekk. Hraunbrúnin er 3-4 m há og algróin. Vatn seytlar undan henni á nokkrum stöðum og myndar litla tjörn
sem sameinast Vatnatjörn.
Undan gróinni hraunbrún sprettur vatn upp á nokkrum stöðum og myndar læk sem rennur í Vatnatjörn nokkru sunnar. Stærsta uppsprettan rennur í miðjan lækinn og steypt rör er þar. Minni uppsprettur eru þar víða og svæðið undir hraunbrúninni er mýrlent. Fyrir vestan lækinn er búið að raða steinum ofan á steinsteypt rör og líklega er uppspretta þar líka. Hver þeirra er Gvendarbrunnur er ekki vitað.

Kröggólfsstaðahjáleiga (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: Kröggólfsstaðahjáleiga. Dýrleikinn talinn með heimajörðinni.“ Ekki er vitað hvar Kröggólfsstaðahjáleiga var staðsett og frekari heimildir þarf til þess að staðsetja hana.

Vötn (býli)

Ölfus

Vötn.

1708. „Jarðdýrleiki óviss, því jörðin tíundast öngvum.“ JÁM II, 419. 1847. 32 hdr. JJ. 75.
„Kröggólfsstaðatorfan. Jarðirnar í henni eru: Kröggólfsstaðir, Þúfa og Vötn […] Hver jörð hafði sitt deilt tún og engi, en beitiland var óskipt. Hlutur Kröggólfsstaða var bestur, enda mun hún hafa verið talin aðaljörðin […] Landamerki: Úr steini við Farkeldupytt (Arnarb.), merktum, bein lína í annan stein í Ósnefi. Stefna til suðvesturs milli Arnarb. og Kröggólfsst. Þaðan bein lína (milli Núpa og Krst.) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, þaðan áfram sama lína í afrétt (í Skarsmýrarfjalli). Þaðan lína í Kýrgilshnúk, suðaustan í Hengli. Þaðan lína í Raufarberg vestan við Árstaðafjall (Heim. notaði það nafn). Mörk milli Saurb. og Krst. var Heim. ekki kunnugt.“ Ö-Kröggólfsstaðatorfan.
1918: Tún 5.1 ha, 2/3 slétt. Garðar 1440 m2.
„Vötn: Bærinn Vötnum stendur í hraunjaðrinum, norður frá Kröggólfsstöðum. Núverandi íbúðarhús stendur skammt suðaustur af gamla bænum. Heimreið til suðausturs á svipuðum stað og nú,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1918 og stóð við norðausturhorn Vatnatjarnar. Í örnefnalýsingunni er talað um íbúðarhús, byggt 1944, sem er horfið.
Núverandi íbúðarhús er byggt 1974, um 100 m austar. Um miðja 20. öld voru byggð steinsteypt útihús í bæjarhólinn sem röskuðu honum mikið og hann horfinn af yfirborði.
Stafnar bæjarins snéru líklega til austurs.
Gamli bærinn er til á myndum í eigu Aldísar Eyjólfsdóttur, heimildamanns. Bæjarhóllinn var við norðausturbrún hraunjaðarsins, við Vatnatjörn. Um 30 m voru frá bænum að tjörninni sem afmakaði vesturhlið heimatúnsins. Að sögn Aldísar var kálgarður suðvestan við bæinn, allt að vatninu. Mikið rask hefur átt sér stað á bæjarhólnum og nánasta umhverfi. Íbúðarhúsið frá 1944 var líklega byggt fast suðaustan við hólinn. Öll ummerki þess eru horfin. Um miðja 20. öld voru einnig byggð steinsteypt útihús sem röskuðu öllum bæjarhólnum. Öll þessi mannvirki frá 20. öld hafa verið rifin en sjást að hluta á ljósmynd í Sunnlenskum byggðum III. Nú, 2014, er búið að hlaða gerði úr efni þessara mannvirkja, á bæjarhólnum. Gerðið er 50 x 20 m að stærð og snýr NNV-SSA. Veggir þess eru 1,5 – 2 m háir, 3 m breiðir og grasivaxnir. Innan þess er m.a. búvélar og rusl. Til norðausturs frá gerðinu er malarplan. Til suðvesturs, allt að tjörninni sést víða grjót úr mannvirkjum, líklega eftir sléttun og niðurrif.

Hraun (býli)

Ölfus

Hraun.

1708. „Jarðadýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 430. 1847. 20 hdr. Bændaeign. JJ,76. „Landamerki eru, samkvæmt bréfi: Framan frá sjó í vörðu fyrir ofan Leirar og um fjórar vörður í stefnu á Skóghlíð (svo er skráð þar, en annars er miðað við Skóghlíðargafl), merktar M hjá þeim, upp að Tíðagötu. Hana austur þar til varða: sézt á hrauninu fyrir framan veginn og önnur í Eiríksstekkatúni, í krossmark í klöpp í Ferðamannahól, allt í sömu línu, ósinn sem liggur milli Lágaengja og Grímslækjarengja.“ Ö-Hraun, 1.
1918: Tún 3.9 ha, 9/10 slétt. Garðar 1144 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar
kalla Leitahraun. […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru: Hraun, síðar Vesturbær, Lágar, síðar Austurbær, Hraunshóll, Hof, Slapp og Hraunshjáleiga,“ segir í örnefnalýsingu. Bæjarhóll Hrauns er mikið rakskaður sökum byggingaframkvæmda.

Eldri bæjarhús voru fast norðaustan við tvö hús sem byggð voru 1924 og 1945-56, þ.e. Hraun I og Hraun II. Þau hús eru í útleigu og yngri íbúðarhús beggja bæjanna voru byggð 130-200 m til austurs eftir 1970. Samtals eru því fjögur íbúðarhús nú á Hrauni. Fast austan við eldra íbúðarhúsið Hraun I er malbikað bílaplan. Það er yfir bæjarhólnum og er í halla til suðurs, niður af honum…

Ölfus

Hraun fyrrum.

Íbúðarhúsin frá 1924 og 1945 standa hlið við hlið, suðvestan við bæjarhólinn. Norðan við eystra húsið er skemma og súrheysturn, byggð í bæjarhólinn. Til suðvesturs frá húsinu eru tré og rotþró.
Suðvesturshluti bæjarhólsins sést að hluta. Þar má greina upphækkun, 22 x 8 m að stærð, 0,6 m á hæð og snýr hún norðaustur-suðvestur. Upphækkunin fjarar út til suðurs, líkt og fyrrnefnt bílapalan. Stafnar bæjarins snéru til suðvesturs og sambyggður kálgarður var þar framan við smkv. túnakorti frá 1918.

Hof (býli)

Ölfus

Hof.

„Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru. […] Hof […] Hof var austan túnsins, fjær læknum en Lágar, þar sem nú er hlaðinn túngarður,“ segir í örefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í byggð frá 1858-1873. Not féllu þá til Hrauns.“ Hof er rúma 100 m NNA við bæ og 40 m austan við þúst. Ekki var löng ábúð á býlinu og lítilla uppsafnaðra mannvistarlaga að vænta.
Malarvegur að Hrauni er 20 um til austurs og suðausturs frá áætlaðri staðsetningu Hofs. Þar sem Hof stóð er grasblettur meðfram afgirtu túni nýttu til hrossabeitar. Túngarður afmarkar það tún ásamt vírgirðingu.
Hof var austan við túnið. Ekki er um eiginlegan bæjarhól né bæjarstæði að ræða. Á svæði sem er 15×10 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur eru tvær þústir. Við austurhorn túngarðisins er grasivaxin upphækkun 7×7 m að stærð og 0,5 m á hæð. Mögulega er hún tengd búsetunni á Hofi. Önnur þúst, 4×4 m að stærð og 0,4 m á hæð, er 4 m norðaustar. Hvergi sér til hleðslugrjóts eða annarra ummerkja sem gefa stærð bæjarins, áttahorf og lag hans til kynna.

Slapp (býli)

Ölfus

Slapp.

„Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […]
Slapp […] Slapp [stóð] að bæjarbaki,“ segir í örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Í byggð frá því fyrir 1700 og til 1842. Þá féllu not til Hrauns.“ Slapp var innan heimatúns Lága eins og það er afmarkað á túnakorti frá 1918. Slapp er tæpum 200 m norðvestan við bæ og 130 m norðvestan við Hof, undir gróinni hraunbrún. Blaut tjörn er 100 m sunnan við bæjarhólinn. Á örnefnauppdrætti Ingólfs Einarssonar er Slapp sýnd mun nær bæ, þar sem þúst er. Það er ekki rétt að sögn Hrafnkels Karlssonar,
heimildamanns.
Bæjarhóllinn er í grasivöxnu, óræktuðu túni. Náttúrulegir hólar og lægðir eru í túninu. Þar vex mikið af njóla.
Bæjarhóllinn er 20 x 10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er 1-1,5 m á hæð, algróinn og sléttur. Stafnar bæjarins hafa líklega snúið til suðvesturs. Óljóst mótar fyrir dældum ofan á hólnum ekki er hægt að segja til um nákvæmt lag bæjarins né stærð hans.

Hraunssel (sel)

Ölfus

Hraunssel.

„Selstöðu hefur jörðin keypt í Hjallalandi, vide Hjalla supra.“ segir í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708. Um 1980 var heimildum um helstu menningarleifar í Ölfusi safnað saman að frumkvæði Ölfushrepps. Skýrslan var ekki útgefin en Hrafnkell Karlsson, heimildamaður, átti handrit sem var afritað. Þar segir í kafla 3.2 um sel: „22. Hraunssel. Það stóð vestan Lönguhlíðarhorns, í hraunjaðrinum fyrir ofan Selstíg. Þar sjást rústir nokkrar.“ Hraunssel er í landi Hjalla. Það er 3,8 km norðvestan við bæ og 2,5 km norðvestan við vörðu.
Selið er við svokallaðan Selsstíg sem er gömul leið sem liggur milli hraunbrúnar og gróinnar brekku á þessum slóðum, þar er 10-15 m breitt gróðurlendi. Allt selið er mjög gróið, hleðslur signar og óskýrar á köflum. Úfið, mosa- og lyngivaxið hraun er vestan við selið. Til austurs er há brekka. Selið er á grasivöxnu svæði milli hraunsins og brekkunnar.
Selið samanstendur af tveimur tóftum og helli á svæði sem er 20×14 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Dys Lénharðs fógeta (legstaður)

Ölfus

Dys Lénharðs.

Á heimasíðu Ferlis segir: „Í öldinni okkar árið 1502 segir m.a. um dráp Lénharðs fógeta: „Torfi Jónsson, sýslumaður í Klofa á Landi, hefur látið drepa Lénharð, fógeta á Bessastöðum. Fór Torfi að fógetanum, er hann var staddur á bæ í Ölfusi, rauf á honum húsin og felldi hann. […] Lénharður var staddur að Hrauni í Ölfusi, er Torfi kom með menn sína, og bjóst um í húsum inni, þegar hann var ófriðarins var. […] Stefán biskup í Skálholti hefur lagt bann við, að fógeti fái kirkjuleg, […]“. Lénharður var sagður hafa verið dysjaður að Hrauni. Hóllinn, eða dysin, er greinilega manngerður. Hlaðið er með hólnum og hefur áin skolað steinum úr henni. Regluleg hleðsla er vestan við hólinn. Líklegt er að þarna hafi verið t.d. leiðarmerki yfir Ölfusá, en vaðið er þarna nokkuð ofar í ánni. Ólafur sagðist hafa verið á ferð þarna einhverju sinni og þá fundið mannabein er stóð út úr hólnum. […] Munnmæli hafa verið um að þarna hefði Lénharður fógeti verið dysjaður, en hann teldi allt eins víst að þarna hefði fornmaður látið verpa yfir sig.“ Dysin er rúma 1,7 km suðaustan við bæ og 1,5 m km suðaustan við fjárhús. Dysin, eða hóllinn, er á tanga sem skagar til austurs út í Ölfusá. Tanginn er vaxinn lyngi, mosa og víðtrjám. Dysin er 10×7 m að stærð og snýr austur-vestur. Hún er hæst 2,2 m til austurs og vestur- og suðurhliðar brattar. Dysin er algróin nema til vesturs, þar sést glitta í grjót. Ekki var unnt að greina hvort að um hleðslu sé að ræða sökum gróðurs. Dysin er þó líklega náttúruleg.

Lágar (býli)

Ölfus

Lágar – túnakort 1918.

1708. „Lágar, hjáleiga bygð fyrir manna minni. Dýrleikinn áðurtalin í heimajörðinni.“ JÁM II, 431.
„Forn hjáleiga frá Hrauni. Í byggð til 1950. Síðan nytjuð frá Hrauni.“ SB III, 322.
1918: Tún 2,6 ha, 4/5 slétt. Garðar 420 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Lágar, síðar Austurbær […] Lágar [stóðu] austan við Hraun,“ segir í örnefnalýsingu. Síðasti bærinn í Lágum var rifinn árið 2012 og var líklega á bæjarhólnum. Lágar eru 40 m norðan við Hraun og 50 m SSA við þúst. Á túnakorti Lága frá 1918 er sambyggður kálgarður sunnan við bæjarhúsin. Stafnar bæjarins snéru jafnframt í þá átt. Síðasta húsið í Lágum var á hægri hönd þegar ekið er yfir brú að eldri íbúðarhúsunum í Hrauni. Sá vegur liggur fast upp við bæjarstæðið til austurs. Þar er nú steinsteyptur grunnur en húsið er ennþá uppstandandi á loftmynd frá 1999.
Mikið rask hefur átt sér stað á bæjarstæði Lága. Íbúðarhús og útihús voru byggð á 20. öld, líklega í bæjarstæðið. Þau hús hafa verið rifin og sléttað yfir svæðið.
Lítið sést til ummerkja um bæinn í Lágum. Þar sem bæjarhúsin voru er malarplan, fast suðaustan við steinsteyptan grunn útihúsa sem byggð voru á 20. öld. Mölin er á 20 x 8 m stóru svæði og snýr norðaustur-suðvestur. Malarpalnið er slétt en steypuleifar sjást víða. Óljóst mótar fyrir uppsöfnuðum mannvistarlögum fyrir norðaustan malarplanið. Þar er 0,5 m aflíðandi brekka í átt að fyrrnefndum malarvegi. Bærinn var upp á náttúrulegum klapparhól og sést víða í grjót.

Hraunshjáleiga (býli)

Ölfus

Hraunshjáleiga.

1708: „Sudur Hjáleiga, fjórða hjáleiga af heimajörðunni, bygð fyrir manna minni. Varaði bygðin þar til næstu fardaga. Síðan hefur verið þar fyrirvinnulaus kona, og er til vonar að hún viki þaðan á næstkomandi hausti.“ JÁM II, 432. 1847. 5 hdr. JJ, 76. „Forn hjáleiga frá Hrauni. Nefnd Suðurhjáleiga í Jarðabókinni 1706. Hjáleigan var 5 jarðarhundruð að fornu mati. Árið 1906 féllu not hennar til Lága“
Sunnlenskar byggðir III, 332.
1918: Tún 1.5 ha, 9/10 slétt. Garðar 868 m2.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Hraunshjáleiga, sem oftar var nefnd Hjáleiga […] Hjáleigan er suður frá Hrauni, vestan lækjarins […] Hóll og Hjáleigan voru byggð fram yfir 1900,“ segir í örnefnalýsingu.
Hraunshjáleiga er um 220 m sunnan við Hraun. Hesthús var byggð á 20. öld í bæjarstæðið og eru þau enn í notkun. Á túnakorti frá 1918, sést að kálgarður var sambyggður bæjarhúsunum til suðurs. Stafnar bæjarhúsanna snéru jafnframt í þá átt. Á túnakortinu eru sýndar traðir fast vestan við bæinn, þetta er framhald traða sem skráðar voru með Hrauni.
Engin ummerki bæjarstæðisins sjást á yfirborði.

Hraunshóll/Hóll (býli)

Ölfus

Hraunshóll.

1708. „Hooll, önnur hjáleiga, bygð fyrir manna minni. Jarðardýrleikinn talinn í heimajörðinni“. JÁM II, 431. 1847. 5 hdr. JJ, 76. „Forn hjáleiga frá Hrauni. Var 5 jarðarhundruð að fornu mati. Árið 1905 féllu not hennar að jöfnu til Hrauns og Ytri-Grímslækjar.“ SB III, 332.
„Bærinn Hraun stendur á jaðri klappahrauns, sem þekur Ölfusið utanvert, og jarðfræðingar kalla Leitahraun […] Hraun var áður nokkrir bæir og kallaðist Hraunshverfi og Hraunsbæir. Þeir voru […] Hraunshóll […] Hraunshóll, sem oft var nefndur aðeins Hóll, er austan lækjarins, sunnan vegarins […] Hóll og Hjáleigan voru byggð fram yfir 1900,“ segir í örnefnalýsingu. Hraunshóll er 60 m norðaustan við Hraun, austan bæjarlækjarins. Bæjarhóllinn er á tanga sem skagar til suðurs fram í bæjarlækinn, á milli tveggja uppsprettna. Bærinn var syðst á tanganum.
Bæjarhóllinn er á grasivöxnum tanga, um 5 m háum. Svæðið hefur verið ræktað án þess að sléttað hafi verið þar yfir. Brú yfir lækinn er um 10 m VSV við bæjarstæðið. Hóllinn sem bærinn var er 4 m hár og hlíðarnar brattar til suðurs, vesturs og austurs, niður í bæjarlækinn. Bæjarhóllinn sjálfur er 10 x 10 m að stærð, 0,4 m á hæð og sléttur að ofan. Stafnar bæjarins hafa líklega snúið til norðurs. Á bæjarhólnum er veggjabrot, líklega hluti af austurvegg. Hann er 6 m langur, 1,5 m breiður og 0,4 m á hæð. Veggurinn er algróinn og hvergi glittir í grjót.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Ölfus

Hraun – örnefnakort.

Þóroddsstaðir

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla III“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Núpa, Eystri-Þurá, Ytri-Þurá, Þóroddsstaði, Riftún, Bakka, Hjalla, Læk, Bjarnastaði, Þorgrímsstaði, Krók og Gerðakot, og nokkra merka staði í ofanverðu Ölfusi:

Núpar (býli)

Ölfus

Núpar.

“Jarðardýrleiki xxx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 420. 30 hdr. 1847. JJ, 75. Landnáma: „Álfur hinn egski stökk fyrir Haraldi konungi af Ögðum úr Noregi; hann fór til Íslands og kom skipi sínu í ós þann, er við hann er kenndur og Álfsóss heitir; hann nam lönd öll fyrir utan Varmá og bjó að Gnúpum.“ ÍF I, 390.1397: „XCI. Gnwpar. Kirkia ad Gnupumm hins heilaga Þollaks a .xc. j heimalandi. viij. ær. rodukross oc annann til. kluckur .ij. oc er onnur brotin. kiertistikur .ij. alltaraklædi oc bryk. dvk. paxspialld eitt. portio Ecclesiæ vmm .iiij. ar .ix. aurar oc .iiij. alnar. Hefur Gudrydur oc Þorallr bondi hennar lated vppgiora ad ollu kirkiuna a fyrr greindum ärum. Hun a syna portionem vmm .vij. ar næstu halfur atiandi eyrer medann Þormodur hefr bved. Þar fylger Andres lykneski vmm þat framm sem adr er j maldagahennar oc alltarisdvkur.“ DI IV, 95-96.1575: „CXC. Nupar. Hälfkirkian ä Nupum ä xc. i heimalande.“ DI XV, 643. “Landamerki: Austan: Úr Fífuhólma í Álftarósi (Ósnefi ) í Vatnastekk, þaðan lína í Bleiksmýrarklett, síðan sama stefna norður í afrétt. Sunnan: Þorleifslækur. Vestan: Úr Strút um Þúfuhraun og í mitt Vatnsskarð og sömu stefnu í afrétt.” Ö-Núpur, 1. “Núpar er önnur af tveimur jörðum í Ölfusi sem nefndar eru í Landnámu. Það er allstór jörð, 18 hundruð að fornu mati, óskipt.” Sunnlenskar byggðir III, 345.1917: Tún 2.9 ha (Austurpartur) & 6.2 ha (Vesturpartur) alls 9.1 ha, allt slétt. Garðar 930 m2. (Austurpartur) & 1448 m2. (Vesturpartur) alls 2378 m2.

“Tvíbýli var lengi á Núpum og var skipting á túni og engjum mjög sérkennileg. Austurbær var 1/3 af jörðinni og var engjum skipt í þrennt og notaði Austurbær aldrei sama blettinn nema eitt ár í senn. Austurbæjarbóndi komst ekki á tún sitt, nemafara yfir tún Vesturbæjarbónda…,” segir í örnefnalýsingu.

Ölfus

Núpar.

Í Sunnlenskum byggðum II segir að á Núpum hafi verið tvíbýli a.m.k. frá 1729 er manntal ver tekið í Ölfushreppi. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Á Núpum eru nú þrjú býli en að sögn Hauks Gunnlaugssonar, heimildamanns, var tvíbýli hér eins langt og menn muna. Bæirnir voru sambyggðir, á bæjarhólnum og eru þar enn Núpar I og II eru á bæjarhólnum og einungis nokkrir metrar eru á milli húsanna. Húsin snúa norðaustur-suðvestur, meðfram hlíðinni og neðan við húsin þ.e. til suðausturs er brattur bakki. Húsin eru á brún þessa bakka. Á síðustu árum hefur mikil skógrækt verið í suðurhluta bæjahólsins. Allt svæðið fyrir sunnan húsið er innan bakgarða húsanna en til norðurs er malarplan.Ekki sést mikið til bæjarhóls þar sem húsin eru. Þau eru byggð 1910 og 1971 en ekki er búið í Vesturbænum lengur. Bæjarhóllinn var 50×30 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Ekki er hægt áætla hæð hans á vettvangi vegna rasks. Malarvegur- og plan eru til vesturs en húsin eru á miðjum hólnum. Allt umhverfi s bæinn eru ræktuð tún.

Kirkja (kirkja)

Ölfus

Núpakirkja – tilgáta (ÓSÁ).

1397: XCI. Gnwpar. Kirkia ad Gnupumm hins heilaga Þollaks a .xc. j heimalandi. viij. ær. rodukross oc annann til. kluckur .ij. oc er onnur brotin. kiertistikur .ij. alltaraklædi oc bryk. dvk. paxspialld eitt. portio Ecclesiæ vmm .iiij. ar .ix. aurar oc .iiij. alnar. Hefur Gudrydur oc Þorallr bondi hennar lated vppgiora ad ollu kirkiuna a fyrr greindum ärum. Hun a syna portionem vmm .vij. ar næstu halfur atiandi eyrer medann Þormodur hefr bved. Þar fylger Andres lykneski vmm þat framm sem adr er j maldagahennar oc alltarisdvkur. DI IV, 95-96.1575: CXC. Nupar. Hälfkirkian ä Nupum ä xc. i heimalande. DI XV, 643. Í Jarðbók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1709 segir: “Munnmæli eru, að hjer hafi til forna kirkja verið, en engin sjást þess viss merki og eru því gátur einar.” “Kirkjufl öt: Smáfl öt suðaustur af Grjóttungu. Nafnið gæti bent til að þar hafi kirkjan verið, þó er það ólíklegt, því kirkjur stóðu oftast við bæina,” segir í örnefnalýsingu. Ekki er vitað hvar kirkjan á Núpum var staðsett með vissu, hvergi hafa komið upp mannabein í námunda við bæinn svo vitað sé. Hugmyndir eru uppi um að útihús sé kirkjan, það verður að teljast afar ólíklegt fjarlægð frá bæ er það mikil. Frekari heimildir þarf til þess að staðsetja kirkjuna með innan við 50 m skekkju. Engin ummerki um kirkjuna sjást á yfirborði.

Núpasel I (sel)

Ölfus

Núpasel I.

Forn selstaða er um 870 m norðan við rétt 028 og rúma 2,2 km norðvestan við bæ, uppi á Núpafjalli. Á heimasíðu Ferlis segir: “Skv. heimildum Gunlaugs: „Ef stefnan er tekin á Skálafell og gengið u.þ.b. 400 metra? frá stígnum er komið að tættum – seli. Það er vel gróið og nánast horfið í jörðina. Tjörnin, Hurðarásvötn, er norðan við selið, en það á að vera um 200-300 m frá henni. Þarna hafa verið dýr á sumrin, enda skammt í vatn og hagar góðir.”
Selið er fast austan við Þurárhraun, á grónu svæði milli þess og Núpafjalls að austan.Þurárhraun er mosavaxið en nokkuð úfi ð. Tóftirnar eru hlaðnar undir austurbrún hraunsins en umhverfi s þær er gróinn mói. Þar er gras, lyng og mosi áberandi.Selið er á svæði sem er 55×12 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Þar eru sex tóftir í þyrpingu. Tunga gengur til norðausturs ú15hrauninu, selið er þar undir. Í lýsingu þessari er hverri tóft gefi n bókstafur til aðgreiningar. Tóft A er norðvestust og einna best varðveitt. Hún er 7×5 m að stærð, einföld og snýr norðaustur-suðvestur. Tóftin er hlaðin upp að hraunbrúninni til suðvesturs og er grjóthlaðin. Tóftin er opin til norðvesturs og er rétt eða nátthagi. Veggirnir eru 0,2-1 m á hæð, hæstir að innan. Hrun er í opi og mikið hefur jafnframt hrunið úr veggjum. Það eru 1-8 umför af steinum í veggjunum.

Núpasel II (sel)

Ölfus

Núpasel II.

“Seldalur: Gróin dæld upp frá Núpastíg. Þar lá gata. Stundum var slegið og flutt á klökkum niður Núpastíg,” segir í örnefnalýsingu. Tóft er tæpum 1,2 km norðvestan við bæ og 690 m suðaustan við rétt í Seldal. Selið er fast austan við Þurárhraun, í grónu viki norðvestast í dalnum. Seldalur er mosavaxinn og gróinn. Þurárhraun afmarkar hann til vesturs en Núpafjall til austurs, Mosi og gras er áberandi þar. Ein tóft sést í selstöðunni, líklega voru þær fleiri. Hún er í viki á milli tveggja hrauntungna og sést illa fyrr en að henni er komið. Tóftin er 7×5 m að stærð, einföld og snýr norðvestur-suðaustur. Hún er grjóthlaðin en gróið er yfir veggi, aðallega mosi. Mikið hrun er í veggjum. Tóftin er opin til suðausturs. Það má greina 1-3 umför af grjóti í veggjum sem eru 0,3-0,2 m á hæð. Tóftin er óskýr engu að síður. Jarðfastur klettur er hluti af suðurvegg, hann er 1,5 m á hæð. Þar við er grjóthrun og ekki útilokað að annað hólf eða skúti hafi verið þar. Ekki sjást fleiri mannvirki á svæðinu en tvær dældir eru fyrir suðvestan klettinn. Þar voru mögulega tóftir en ekki sjást hleðslur þar.

Camp Cameron (herminjar)

Ölfus

“Vorið 1941 sendu Bretar aftur herlið fram á Núpafjall. Gerðu þeir bílfæra braut, kílómetra langa, suður af Hellisheiðarvegi […]. Þaðan lá brautin vestan undir klettabelti um einstigi og á sveig niður í dalverpið norður af Hurðarásvötnum. Þar reistu þeir tjaldbúðir og eitthvað af bröggum fyrir veturinn […]. Þegar Bandaríkjamenn tóku við vörnum Suðurlands vorið 1942, yfirtóku þeir stöðvarnar á fjallinu af Bretum. Við Hurðarásvötn voru reistir einir 15 braggar. Þar var sett upp öflug dísilstöð og kampurinn raflýstur, en neyzluvatn sótt á tankbíl úr Hveragerði,” segir í Styrjaldarárin á Suðurlandi e. Guðmund Kristinsson. Camp Cameroner í hálfgrónu dalverpi ofarlega á norðausturhluta Núpsfjalli. Landið er smáhæðótt og er mosi mikill í sverði, þó stendur smágrýti og annað grjót sums staðar upp úr mosanum. Herminjar eru innan svæðis sem er 440×270 m að stærð og snýr nálega austur-vestur. Í bókinni Styrjaldarárin á Suðurlandi er teikning birt af braggahverfi nu, byggður á þeim minjum sem sáust á yfi rborði árið 1998. Teikningin er ekki í réttum hlutföllum, en sýnir ágætlega þær minjar sem sjáanlegar eru þegar komið er á vettvang. Grunnar rafstöðvarinnar er auðgreinanlegur, 16×8 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Grunnurinn er steyptur til norðurs, en moldarborinn til suðurs. Talsvert er um rusl í og við grunninn, s.s. af bárujárni og glerbrotum.

Eystri-Þurá (býli)

Ölfus

Eystri-Þurá 1982.

“Jarðardýrleiki er óviss, því jörðin tíundast öngvum.” JÁM II, 421. 30 hdr. 1847. “Öll Eystri-Þurá var 30 hundraða jörð… tvíbýlið þegar komið á árið 1801 en þá eru jarðirnar nefndar Þóroddsá. Jarðabókin 1708 talar hins vegar um Eystri-Þurá og Ytri-Þurá.” Sunnlenskar byggðir III, 343.1917: Tún 2.3 ha, 5/6 slétt (Frambær) & 2.9 ha, 2/3 slétt ( Norðurbær) alls 5.2 ha. Garðar 1218 m2. (Frambær) & 776 m2. (Norðurbær), alls 1994 m2.
Tvíbýli var á Eystri-Þurá, frá upphafi 19. aldar til loka þeirra 21. Bæirnir voru aðskildir í Frambæ og Norðurbæ og voru gerð sér túnakort fyrir sitt hvora bæina. Hér er verið að skrá Norðurbæinn. Óljóst vottar fyrir bæjarstæði Norðurbæjar, um 10 m norðan við bæ og rúmlega 220 m austan við Þorlákshafnarveg. Bærinn er merktur á syðstu mörkum túnsins, fyrir miðju, á túnakorti frá 1920. Skv. túnakortinu eru útihús innan heimatúns Norðurbæjar. Bæjarhóllinn er raskaður vegna trjáræktunar, og munu rætur þeirra ljóslega raska minjastaðnum í nánustu framtíð. Þó mótar ágætlega fyrir bæjarhólnum. Á ljósmynd í fórum Ara Eggertssonar, heimildarmanns, frá 1980 sést Norðurbær vel og snéru stafnar mót norðvestri.Bærinn var holti, þar sem nú er trjárækt. Suðvestan við hóllinn er heimreið að núverandi íbúðarhúsi á Eystri-Þurá og til suðausturs er bakgarður núverandi íbúðarhúss jarðarinnar; að öðru leyti eru tún umhverfis hóllinn. Bæjarhóllinn er 30×25 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Bæjarhóllinn er á greinilegur og er meiri gróska þar en annars staðar; bendir það til mannvistar undir sverði. Að sögn Ara Eggertssonar, heimildamanns, var bærinn rifinn skömmu eftir aldamótin 2000 og byggingarefni hans endurnýtt í tilfallandi byggingagerð.
Samkæmt túnakorti frá 1920 var Frambærinn um 10 m fyrir sunnan Norðurbæ, norðvestast í túninu. Á túnakorti er merktur bær, peningahús og kálgarður á bæjarhólnum en öll ummerki um mannvirki eru horfin af yfirborði. Núverandi íbúðarhús er byggt ofan í miðjan bæjarhólinn, báðir bæirnir voru á honum en ekki sambyggðir þegar túnakortið var gert. Ekki er víst að þeir hafi nokkurn tíma verið sambyggðir. Við lagfæringar á húsinu árin 2000-2008 kom m.a. í ljós hlóðaeldhús sem var rifið, fast norðan við húsið. Ekki var komið niður á aðrar mannvistarleifar. Kálgarðurinn var fyrir sunnan bæinn, í aflíðandi brekku. Stafnar bæjarins snéru líklega til norðurs eða suðurs. Bærinn var á náttúrulegu holti, Þurá rennur fast vestan þess. Núverandi heimreið kemur að bæjarhólnum úr norðvestri. Til annarra átta eru tún. Bæjarhóllinn er um 40×30 m og snýr austur-vestur. Ekki er hægt að segja til um hæð hans á yfirborði, hann er mikið raskaður. Búið er að byggja hús á honum miðjum og gera bakgarð umhverfis húsið. Malarplan er á hólnum sjálfum og stafnar bæjarins sneru til SSA. Til austurs sést ennþá kantur eða hlaðinn veggur. Hann er 0,3-0,8 m á hæð og liggur til austurs og sveigir síðan til suðvesturs. Mögulega er þetta hluti af kálgarðsvegg. Fyrir sunnan núverandi íbúðarhús, á mörkum bakgarðsins og bílaplans sést hluti af hlaðinni stétt sem tilheyrði gamla bænum.

Grænavik (býli)

Ölfus

Grænavik.

Í Sunnlenskum byggðum segir: «Grænavik var annar bær, austur við hraunið, í byggð um aldamót.» Í örnefnalýsingu segir: «Nokkru ofar, austur af bæjunum, er annað vik lítið og heitir Grænavik. Þar var áður fyrr tómthúskot, síðar sauðahús frá Norðurbæ og síðast fjarrétt.» Grænavik er rúmum 380 m austan við bæ og rúmum 250 m austan við Dimmuhól. Eftir að bærinn fór í eyði voru hér fjárhús. Minjarnar eru á grónum hraunhól og sjást víða að. Hóllinn er við vesturhlið Þurárhrauns og er mun umfangsmeiri en aðrir hólar á þessu svæði.Til norðvesturs er ræktað tún sem komið er í órækt. Til vesturs er vélgrafi nn skurður, vírgirðing er þar við. Gömul malarnáma er hér fast til austurs, við nátthaga. Hóllinn er 40×25 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Á honum er tóft, þústir og dældir sem í lýsingu þessari frá bókstaf til aðgreiningar. Tóft A er á suðurhluta hólsins, í tungu sem gengur til suðvesturs. Hún er 16×8 m að stærð, snýr norður-suður og er einföld. Veggirnir eru 3 m á breidd, grjóthlaðnir að utan en líklega torfhlaðnir að innan. Op er á miðri suðurhlið.

Hraunrétt (rétt)
“Um miðja vegu milli Vatnsskarðs og þjóðvegarins er fjárrétt austan undir lágri brún í hrauninu. Hún heitir Hraunrétt,” segir í örnefnaskrá. Hraunrétt er 840 m norðaustan við bæ. Hraunið er 1-1,5 m á hæð, réttin er í lágu viki austan við brúnina. Hraunið til austurs hefur verið sléttað og því raskað að hluta. Mosavaxið hraun er vestan við réttina, rétt suðaustan við Vatnsskarð. Hraunið klofnar hér og myndar græna eyju, réttin er vestarlega í því. Mosi og gras er áberandi. Réttin er 15×8 m að stærð og snýr norður-suður, Hún skiptist í tvö hólf, er grjóthlaðin og er mikið röskuð. Suðausturhluti hennar var líklega sléttaður og möl tekin þaðan.

Selás (sel)
Selás er fast vestan við Þurárhraun, uppi á heiðinni. “Í hraunbrúninni rétt fyrir austan Selás eru ógreinilegar rústir, sem gætu verið selsrústir. Við Selás voru setin lömb, meðan fært var frá,” segir í örnefnalýsingu. Selás er áberandi þegar komið er upp á heiðina. Hraunbrúnin er há austan við ásinn, hann er gróinn með moldarflögum. Selið er um 2,3 km norðan við bæ og rúmum 310 m suðaustan við vörðu. Selið er suðaustan við Selás, í gróinni lægð á milli tveggja hrauneggja. Selið er í hraunbrúninni en sést ekki fyrr en að því er komið. Selið er á svæði sem er 60×8 m að stærð og snýr norður-suður. Á milli eggjanna er grasivaxin lág, þar er selið.

Ytri-Þurá (býli)

Ölfus

Ytri-Þurá.

“Jarðdýrleiki xx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 421. 20 hdr. 1847. JJ, 75. “10 hundruð að fornu mati. Jörðin á land til fjalls.”1917: Tún 2 ha, 4/5 slétt. Garðar 936 m2.
“Niður frá fjallinu er mýrlendi nema þar sem bærinn stóð, vestan Þurárinnar,” segir í Sunnlenskum byggðum III. Bærinn er sýndur í norðvesturhluta heimatúns á túnakorti frá 1920. Bæjarhóllinn sést vel þegar ekið er að Eystri-Þurá. Núverandi íbúðarhús jarðarinnar (b. 1997) er um 50 austan við bæjarhóllinn. Ekki er engur heilsársbúseta á jörðinni, en ábúendur dvelja þar stóra hluta af árinu. Bæjarhóllinn er mikið raskaður vegna byggingu frístundahúss (b. 1936), um 10 m sunnan við bæjarhóllinn. Jafnframt er búið að stinga trjágróðri meðfram norðurhlið bæjarhólsins og munu rætur þeirra ljóslega raska minjastaðnum í nánustu framtíð. Því til viðbótar liggur vírgirðing svo að segja norðvestur-suðaustur þvert í gegnum miðjan bæjarhóllinn. Bæjarhóllinn er á grösugu svæði og til suðurs er frístundahús. Þegar því sleppur tekur við sléttað tún, en inn á milli má sjá óræktuð svæði. Bæjarhóllinn er 40×20 m að stærð og snýr NNA-SSV.

Þóroddsstaðir (býli)

Ölfus

Þóroddsstaðir.

“Jarðdýrleiki xv og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 423. 16 hdr. Bændaeign. 1847. JJ, 75.1546: „Erlendr lögmadr Þorvarðsson gefr í vald Gizurar biskups jarðirnar Árbæ, Þórisstaði og Fossnes í Ölvisi, svo og rekann á Skeiði fyrir Hraunslandi.“ Af bréfi Gissurar til Erlends 6. desember 1547 kemur fram að um er að ræða Þórisstaði í Hjallasókn.“ DI XI, 472.“Sennilega landnámsjörð, kennd við Þórodd goða, föður skafta á Hjalla. 15 hundraða jörð að fornu mati.” Sunnlenskar byggðir III, 342.1917: Tún 1.9 ha, 2/3 slétt (Vesturpartur) & 1.8 ha, 3/4 slétt (Austurpartur), alls 3.7 ha. Garðar 1051 m2. (Vesturpartur) & 814 m2. alls 1865 m2.
“Bærinn stendur á grasbrekku. Landið þar fyrir neðan var blautt,” segir í örnefnaskrá. Tvíbýli var á Þóroddstöðum og voru bæirnir hlið við hlið, á sama bæjarhól. Þetta voru Austur- og Vesturbær. Þeir eru sýndir á túnakortum frá 1920. Um 5 m voru á milli bæjanna að sögn Tómasar Jónssonar, heimildamanns. Bærinn var fluttur um 50 m til vesturs árið 1936 og nú er búið að skipta báðum jörðunum í nokkur minni lögbýli. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Á bæjarhólnum er malarplan, núverandi vegur að bænum liggur þvert þarna yfir. Fyrir norðan bæjarhólinn eru útihús frá miðri 20. öld, á hólnum sjálfum eru ekki byggingar. Norðausturhluti bæjarhólsins er undir fyllingu, svæðið var jafnað út á síðustu öld, bæði sléttað yfir og fyllt meðfram hólnum. Mikið jarðrask er á þessu svæði.

Hvanngil (býli)
Hvanngil, nýbýli, var um 50 m suðaustan við bæjarhól Þóroddsstaða, útihús eru einnig fast þar til vesturs. Húsin á bæjarhólnum voru rifin og öllu rutt út. Jafnframt var komið með fyllingu og svæðið til austurs jafnað út. Á bæjarhólunum sjást ekki uppsöfnuð mannvistarlög og erfitt að áætla stærð hans. Hann var a.m.k. 60×30 m að stærð.

Torfakot (býli)

Ölfus

Þóroddsstaðir – túnakort 1918.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir: «Skálholt og Torfakot hafa heitið tvær hjáleigur bygðar í heimalandi (í manna minni) á Þórustöðum, og varaði bygðin á hverugri lengi, þó skemur á Torfakoti. Í auðn hafa þær verið eflaust 14 eður 15 ár.” Í Sunnlenskum byggðum segir: “Í gömlum heimildum er talað um Torfatættur. Sáust leifar þeirra þegar Egill Steindórsson byggði þar bæ, sem nefndur var Litlibær. Þar var hann frá 1885 til 1905 ásamt konu sinni, Guðrúnu Magnúsdóttur. Munu hafa haft litla grasnyt. Torfatættur munu eru það sama og Jarðabókin 1708 nefnir Torfakot…”. Torfakot er um 340 m suðvestan við bæ, á landamerkjum við Riftún. Búið er að slétta svæðið í tún. Engin ummerki um Torfakot sjást á yfirborði.

Skálholt (býli)
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: «Skálholt og Torfakot hafa heitið tvær hjáleigur bygðar í heimalandi (í manna minni) á Þórustöðum, og varaði bygðin á hvorugri lengi, þó skemur á Torfakoti. Í auðn hafa þær verið eflaust 14 eður 15 ár.» Ekki er vitað hvar Skálholt var staðsett, frekari heimildir þarf til þess.

Kirkja (kirkja)
Ómar Smári Ármannsson telur að kirkja hafi verið nyrst í heimatúni Austurbæjar. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Skammt frá eru kirkjuleifar og grafreitur frá árinu 1000, án þess þó að nokkur hafi veitt því athygli.“ Á loftmyndum frá því um 2000 sést móta fyrir hring í túninu rúmum 120 m norðan við bæ. Ekkert útihús er sýnt á túnakorti né eru til þekktar heimildir um bænhús, kirkju eða mannbeinafundi á jörðinni. Á loftmyndinni er hringurinn um 20 m í þvermál en hann sést ekki lengur á yfirborði. Öspum hefur verið plantað í tvöfalda röð umhverfis svæðið en innan þeirra er ræktað tún. Heimildamenn muna ekki eftir mannvirkjum þarna.

Hellir (fjárskýli)

Ölfus

Hellir.

[…] stóð sauðahús og vestan við það hellisskúti sem heitir Hellir, notaður sem fjárrétt,” segir í örnefnalýsingu. Hellirinn er um 230 m vestan við bæ og 20 m norðvestan við sauðahús. Stór, stakstæð björg og klettar mynda náttúrulegt vik og undir þeim er hellirinn til norðurs og minna gjögur þar suðaustar. Hellirinn er nánast í bakgarði nýbýlisins Þóroddsstaða. Trjárækt er suðaustan við hellinn en annars sléttar flatir. Hellirinn er 3×3 m að stærð og opinn til suðurs, Hann er náttúrulegur og hvergi sér til mannvistar. Hellirinn er 1 m á hæð og afmarkast sem fyrr af stakstæðum björgum og klettum. Hellirinn er norðvestast í vikinu en gjögrið er skammt suðaustar. Gjögrið er mun minna, 0,5 m á hæð og 2 m á lengd. Líklega var hlaðið hér fyrir eða timbur notað.

Riftún (býli)

Ölfus

Riftún.

Partur úr heimajörðinni, bygt fyrir 30 árum, innan 40 eður yfi r. Jarðdýrleiki v og so tíundast fjórum tíundum í næstliðin 7 ár. Áður var það kölluð hjáleiga, og var þá dýrleikinn talinn í heimajörðinni sjálfum Þórustöðum, og hún þá kölluð xx öll” JÁM II, 423. “Eigi heldur þessarar jarðar getur stólsjarðabókin, en seld er hún, sem eyðistólsjörð (1798), með hér greindum dýrleika og lsk., fyrir 67 rd. Hreppstjórinn telur hana 10 h. dýrleika.” JJ, 76.1917: Tún 2.3 ha, 8/9 slétt. Garðar 1760 m2.
“Bærinn stóð áður í miðri brekkunni. Árið 1942 byggir Kristján Teitsson íbúðarhús í gamla túnjaðrinum niður við veginn – ásamt peningshúsum,” segir í Sunnlenskum byggðum.

Ölfus

Riftún.

Nokkuð áberandi bæjarhóll er um 120 m VNV við Riftún 2 (b. 1965) og tæpum 230 m vestan við Þorlákshafnarveg. Bærinn er taðsettur fyrir miðju heimatúns eins og það er afarkað á túnakorti frá 1920 og er kálgarður sambyggður bæjarhúsinu til norðurs og austurs. Skv. túnakortinu snéru stafnar bæjarins til suðurs. Bæjarhóllinn er í grasríku og smáþýfðu landi. Búið er að slétta túnið og hefur það ljóslega raskað hólnum að stórum hluta. Bæjarhóllinn er 22×20 m að stærð og snýr svo að segja norðaustur-suðvestur. Hóllinn er mikið raskaður vegna túnasléttunar og er mesta hæð bæjarhólsins 0,3 m. Þar er gróður áberandi grænni samanborið við umhverfi ð í kring og hávaxnari, og bendir það til mannvistar undir sverði. Bæjarhóllinn er á kafi í grasi og ekki sér móta hólfum eða dældum á því. Hér og þar glittir þó í stæðilegt grjót sem líklega eru leifar veggjar. Grjóthrúga er um 90 m austan við bæjarhóllinn sem vísast til eru hleðslusteinar frá bænum og hefur þeim verið hrúgað þar þegar túnið var sléttað.

Strokkhellir (fjárskýli)

Ölfus

Strokkshellir.

“Í mörkum upp við klettana er lítill skúti sem heitir Strokkhellir, af því að kona nokkur faldi þar strokkinn sinn,” segir í örnefnalýsingu Riftúns. Strokkhellir er rúmum 230 m suðvestan við bæ og um 170 m NNV við Markastein. Hellirinn er vestan við landamerki Hjalla eins og þau eru í dag. Hellirinn er einnan skógræktar svæðis, sumarbústaður er þarna sunnar og hlaðin rétt. Hellirinn er undir hömrum, neðarlega í brekku. Hann er 3×3 m að innanmáli og stór stakstæður steinn lokar honum að hluta. Hann er opin til suðausturs. Hleðslubrot er ofan á honum. Það sést eitt umfar af steinum þar ofan á lofthæðin inni í hellinum er 1,5 m. Ekki er að sjá önnur mannaverk.

Bakki (býli)

Ölfus

Bakki túnakort 1918.

“Jarðardýrleiki er óviss, því engin geldst hjer tíund af.” JÁM II, 424. 1382-91: Mádagi Hjallakirkju. DI IV: 97 1400: Mádagi Hjallakirkju. DI IV: 243-244. 1575: Máldagi Hjallakirkju. DI XV: 642-643.“Bakki er hluti af Hjallatorfu, með sameiginlegum landamerkjum út á við, og sameiginlegu beitilandi á miklu leyti. Landamerki Hjallatorfunnar eru: að austan, milli Bakka og Riftúns úr Sigmundarvaði á Þorleifslæk í Markastein, merktan X, ofan við alfaraveg. Þaðan í Torfu í Litlahvammi efst. Þaðan, milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða, í vörðu hæst á Skálafelli beint í vörðu austan á Reykjafelli. Þaðan í Lambafell – móti Ölfus – afréttarlandi. Úr Lambafelli í vestasta hornið á Lönguhlíð og þaðan í Skógarhlíðargafl. Milli Hjallatorfu og Hrauns: Tíðagötu í Sólarstein. Milli Hjallatorfu og Grímslækja: Sólarsteinn í Klapparhól, merktan X, í Lækjarbotnalæk, í tjörn, í Grímslækjarós í Lambeyraós, segir landamerkjabréf.” Ö-Bakki.
1917: Tún 2.3 ha, 5/6 slétt (Austurbær) & 2.4 ha, 5/6 slétt (Vesturbær), alls 4.7 ha. Garðar 750 m2. (Austurbær) & 896 m2. (Vesturbær), alls 1646 m2.
Í örnefnaskrá Bakka segir: «Bakki stendur á lágu holti niðri við mýrina, engjarnar.» Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1920 af austurbæ og vesturbæ Bakka og sést að hann hefur verið sambyggður. Á bæjarhólnum voru heygarður, heyhlaða og peningshús. Stafnar snéru til suður eða norðurs. Staðsetning Bakka er einnig merkt inn á örnefnuppdrátt Ingólfs Einarssonar frá 1968 sem er lauslega teiknaður upp eftir loftmynd. Ekki eru til neinar upplýsingar um gömlu bæjarhúsin en þau hafa líklega verið rifin áður en ný íbúðarhús voru byggð á svæðinu; árið 1931 á vesturbænum og árið 1947 á austurbænum. Nýju íbúðarhúsin voru ekki sambyggð líkt og hafði verið áður eins og sést á mynd í ritinu Sunnlenskar byggðir III. Bæjarhúsin á Bakka hafa nú verið rifin og engin íbúðarhús standa nú á bæjarhólnum. Nýleg útihús standa vestan við bæjarhólinn. Þó er enn búið á jörðinni á Bakka, á nýbýli sem kallast Bakkatjörn og er rúmum 520 m vestan við bæ. Þar er íbúðarhús og tvö nýleg útihús.Svæðið er grasi vaxið og mikil hvönn vex á svæðinu. Malarfl ákar sjást innan gróðurþekjunnar þar sem bæjarhúsin stóðu og lítil brekka er sunnan við bæjarstæðið sem liggur niður að myrinni. Tvö nýleg útihús eru í vesturjaðri hans. Vísir af bæjarhól sést á svæðinu og er hann 34×25 m að stærð og snýr VSV-ANA. Bæjarhólinn hefur að öllum líkindum verið ruddur niður og sléttaður enda sést lítil uppsöfnun mannvistarlaga. Hann er flatur að ofan og sést í möl þar annað hús Bakka hefur staðið.

Gapi (fjárskýli)

Ölfus

Gapi.

“Gapi heitir hellisskúti í snös fram úr hlíðinni skammt fyrir utan Riftúnsmörk. Þar sér fyrir gamalli hleðslu,” segir í örnefnalýsingu. Gapi er rúmum 1 km norðan við bæ. Hellirinn er efst í Bakkabrekku sem er til suðurs, niður Neðrafjall. Þegar skrásetjari var á ferðinni var snjór inni í hellinum en hluti af hleðslu sást engu að síður austast í hellinum. Sé tekið mið af staðsetningu er um fjárskýli að ræða. Bakkabrekka brött og klettabelti eru efst í henni. Víða eru grjótskriður og stök björg. Inn á milli eru gróin svæði. Hellirinn er efst í brekku, klettar eru til austurs og vesturs frá honum. Hellirinn er um 8×6 m að stærð og hvelfi ng hans bogadregin. Opið er um 6 m hátt og lítið skjól er inni í hellinum. Það mótar fyrir hleðslu austast í opinu en snjór var yfir stórum hluta hennar. Hleðslan er um 6 m löng, 2 m á breidd 0,2 m á hæð og óskýr. Það glitti í eitt umfar af grjóti þar sem snjór lá ekki yfir.

Hjalli (býli)

Ölfus

Hjalli.

“Jarðardýrleiki lx og so tíundast fjórum tíundum.” JÁM II, 425. 1000-1030: „[Þorgils Örrabeinsstjúpr, Þóroddr bóndi á Hjalla og Bjarni bóndi hinn spaki deyja] Váru þeir allir jarðaðir at þeiri kirkju, er Skapti lét gera fyrir utan lækinn, en síðan váru færð bein þeira í þann stað, er nú stendr kirkjan, því at kapti hét at gera kirkju, þá er Þóra [Steinsdóttir k.h.] braut fót sinn, þá er hon var at léreptum sínum.“ Flóamannasaga, ÍF XIII, 325-326. c.
1200: Kirknaskrá Páls. DI XII: 8.1382-91: „XCIII. Hialle. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Hialla j Olvesi a landid a Backa. xij. kyr. iij. hundradz hross. vidreka j Kiefl avijk. biargfesti edur hvd. lykakrak. kaleik. alltaraklædi .ij. kantarakäpur .ij. dvkar med liereptt. merki .iiij. kluckur. ein messuklædi ad ollu. sacrarium mvvnlaug .ij. krossa. glerglugg. glodarkier. Graduale per Anni circulum. Mariuskriptt. Olafsskriptt. vattzkietill. paxspialld. fonts vmbuningur med skyrnarsä. Þar skal vera heimilis prestskylld. kross yfer alltari med vnderstodum. tialld vmm kor. dvk yfer Olafs lykneski. messuklædi. ny bryk yfer alltari. tuær kiertistikur med kopar.“
1397: „Hun a ad auk þess sem skrifad er j maldaga herra Michæls .ij. kyr. glodarkier. elldbera. messuklædi ad ollu. alltarisklædi .iij. med dvkum. lagdi þetta til Nichulas bondi allt saman .vjc. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xiijc. oc x. aurar.“ DI IV: 97.
1400: „Maldage Hialla kirkiu. Suo mikid gotz kirkiunnar ä Hialla og stadarens. Jn primis J fi rstu einn gradall vondur og annar alfær. ottusaunguabok. salltare. vondan kirial. einn kalekur. ij messuklæde. iij klukkur. iij tinfot. ein skaptpanna. einn pottur. xix kyr. xxx asaudar. Jtem a Hiallakirkia landed [ä] Backa frä Sandvade sionhendijng j klettinn fyrer austan backa j huerholmunum. Og þadan j þufuna fyrer austan hellrana og so j austanversann hest. Hier med a Hialle landed vestur j lækiarbotnalæk og j gard þann sem liggur firir utan borgarstigenn j goturnar under fi alled og fi alled alltt gagnvartt a motz vid skog hlijdarenda enn ytra. alla longuhlijd j sanddale. rædur þa merkium gata su er þar liggur. a þa Hialle enn nordara partt. reykiafell og laka med. Somuleides a Hialle hws og skipstodu frij j Thorlakshofn. enn þeir sem j Thorlakshofn bua eiga stodhrossa beit j Melsmyre. So og a Hialla kirkia reka og fiorufar a Keflavijk ä motz vid nes. datum m. cccc.“ DI IV: 243-244 [AM 66A 8vo, bl. 5a-b, skr. 1612].

Ölfus

Hjalli 1898.

1549: „Anno m vc xl. ix so miked afhendte Eyolfur Jonsson syne sijnum Pale Eyolfssyne med kirkiunne. vij kyr. ij asaudar kugillde. ij naut tuævetur. messuklæde. kalek. kluckur. ij. Máld DI XI 740 [AM 66A 8vo, bl. 5b, skr. 1612]1575: CLXXXVIII. Kirkian ä Hialla i Olvese. ä landid ad Backa. vidreka i Kiefl avijk. Biargfeste edur hud og fi orufar skipslaudu i Thorlakshofn. enn their sem i Thorlakshofn bua. eiga stödhrossabeit 82i Melsmelamijre. Jtem viij kijr og äsaudarkugillde. thar eru ij naut ij vetur. Jtem Jnnann kirkiu. ein messuklædi og laus haukull thar til. iij Skrædur vondar. Jtem kaleikur. ij kluckur vænar og ein körbialla. glödarkier vondtt. Jtem eirn Davijdz psalltare gamall.“ DI XV: 642-643.

Ölfus

Hjalli 1957.

“Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfi ng undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi, 1. Landamerki Hjallatorfunnar eru: að austan, milli Bakka og Riftúns úr Sigmundarvaði á Þorleifslæk í Markastein, merktan X, ofan við alfaraveg. Þaðan í Torfu í Litlahvammi efst. Þaðan, milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða, í vörðu hæst á Skálafelli beint í vörðu austan á Reykjafelli. Þaðan í Lambafell – móti Ölfus – afréttarlandi. Úr Lambafelli í vestasta hornið á Lönguhlíð og þaðan í Skógarhlíðargafl . Milli Hjallatorfu og Hrauns: Tíðagötu í Sólarstein. Milli Hjallatorfu og Grímslækja: Sólarsteinn í Klapparhól, merktan X, í Lækjarbotnalæk, í tjörn, í Grímslækjarós í Lambeyraós, segjir landamerkjabréf.” Ö-Bakki, 11917: Tún 6.6 ha, 9/10 slétt. Garðar 3442 m2.

“Eins og venjulega stendur bærinn dálítið hærra en umhverfið, austan við bæ er kirkjan, en lítill lækur fyrir vestan.” «Hjalli stendur nokkuð frá fjallshlíðinni, á hæð nokkurri, örlítið hærra en hinir bæirnir,» segir í örnefnaskrá. Bærinn stendur nálægt núverandi akvegi, norðan og vestan meginn við kirkju og kirkjugarð. Árið 1928 var byggt hús á bæjarhólnum, en útihúsin eru yngri, sennilega frá 1940-1950 eða þar um bil. Gryfja er undir öllum útihúsum, bæjarhólnum var öllum rutt til og honum breytt. Hóllinn var jafnaður út, brattar brekkur lágu upp að þáverandi húsi sem einnig voru jafnaðar út. Þær sjást vel á ljósmynd sem varðveitt er í Sarpi og tekin er 1898. Þegar grafið var fyrir bílskúrnum á 9. áratug síðustu aldar fannst mikið af beinum, þá talið gamal mok úr kirkjugarðinum. Ekkert af því voru hauskúpur en timburkirkja var þarna áður en núvernaid kirkja var reist. Að sögn Finnboga Vikar, heimildamanns, var oft grafið í eldri grafnir en þegar núverandi kirkja var byggð var kirkjugarðurinn stækkaður. Þegar grafið var fyrir leiðslu á milli íbúðarhússins og og bílskúrs var komið niður á stóra steina og kvarnastein sem er í garðinum. Gamli bærinn snéri framhliðum til suðurs. Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á þessu svæði að þar verður tæplega neitt fundið af bæjarhólnum.

Hjallakirkja (kirkja)

Ölfus

Hjallakirkja 1927.

“Hjallakirkja stendur austan við bæinn. Kring um hana er kirkjugarður,” segir örnefnaskrá. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Líklegt má teljast að elsti kirkjugarðurinn [í Ölfusi] sé Hjalli. Slíkur höfðingi sem Skafti Þóroddsson var hefur fljótt látið kirkju gera. Fyrsta skráða heimildin um Hjallakirkju er frá 1200 … Kirkjan á Hjalla var Ólafskirkja. Hún var bændakirkja allt til 1928. Þá var kirkjuhúsið byggt upp og söfnuðurinn tók við henni. Kirkjan var gerð úr steinsteypu, 300 m3 með gotneskum gluggum. Teikningu gerði Þorleifur Eyjólfsson frá Grímslæk. Yfirsmiður var Kristinn Vigfússon á Selfossi. Í kirkjunni er raflýsing og rafhitun. Grafreitur er við kirkjuna, girtum hlöðnum veggjum prýðilegum.”
1000-1030: „[Þorgils Örrabeinsstjúpr, Þóroddr bóndi á Hjalla og Bjarni bóndi hinn spaki deyja] Váru þeir allir jarðaðir at þeiri kirkju, er Skapti lét gera fyrir utan lækinn, en síðan váru færð bein þeira í þann stað, er nú stendr kirkjan, því at Skapti hét at gera kirkju, þá er Þóra [Steinsdóttir k.h.] braut fót sinn, þá er hon var at léreptum sínum.“ Flóamannasaga, ÍF XIII, 325-326. c. 1200: Kirknaskrá Páls. DI XII: 8.1382-91: „XCIII. Hialle. Kirkia hins heilaga Olafs kongs ad Hialla j Olvesi a landid a Backa. xij. kyr. iij. hundradz hross. vidreka j Kiefl avijk. biargfesti edur hvd. lykakrak. kaleik. alltaraklædi .ij. kantarakäpur .ij. dvkar med liereptt. merki .iiij. kluckur. ein messuklædi ad ollu. sacrarium mvvnlaug .ij. krossa. glerglugg. glodarkier. Graduale per Anni circulum. Mariuskriptt. Olafsskriptt. vattzkietill. 83paxspialld. fonts vmbuningur med skyrnarsä. Þar skal vera heimilis prestskylld. kross yfer alltari med vnderstodum. tialld vmm kor. dvk yfer Olafs lykneski. messuklædi. ny bryk yfer alltari. tuær kiertistikur med kopar.“

Ölfus

Hjallakirkja.

1397: „Hun a ad auk þess sem skrifad er j maldaga herra Michæls .ij. kyr. glodarkier. elldbera. messuklædi ad ollu. alltarisklædi .iij. med dvkum. lagdi þetta til Nichulas bondi allt saman .vjc. portio Ecclesiæ vmm næstu .x. är .xiijc. oc x. aurar.“ DI IV: 97.
1400: „Maldage Hialla kirkiu. Suo mikid gotz kirkiunnar ä Hialla og stadarens. Jn primis J fi rstu einn gradall vondur og annar alfær. ottusaunguabok. salltare. vondan kirial. einn kalekur. ij messuklæde. iij klukkur. iij tinfot. ein skaptpanna. einn pottur. xix kyr. xxx asaudar. Jtem a Hiallakirkia landed [ä] Backa frä Sandvade sionhendijng j klettinn fyrer austan backa j huerholmunum. Og þadan j þufuna fyrer austan hellrana og so j austanversann hest. Hier med a Hialle landed vestur j lækiarbotnalæk og j gard þann sem liggur fi rir utan borgarstigenn j goturnar under fi alled og fi alled alltt gagnvartt a motz vid skog hlijdarenda enn ytra. alla longuhlijd j sanddale. rædur þa merkium gata su er þar liggur. a þa Hialle enn nordara partt. reykiafell og laka med. Somuleides a Hialle hws og skipstodu frij j Thorlakshofn. enn þeir sem j Thorlakshofn bua eiga stodhrossa beit j Melsmyre. So og a Hialla kirkia reka og fi orufar a Keflavijk ä motz vid nes. datum m. cccc.“ DI IV: 243-244 [AM 66A 8vo, bl. 5a-b, skr. 1612].
1549: „Anno m vc xl. ix so miked afhendte Eyolfur Jonsson syne sijnum Pale Eyolfssyne med kirkiunne. vij kyr. ij asaudar kugillde. ij naut tuævetur. messuklæde. kalek. kluckur. ij. Máld DI XI 740 [AM 66A 8vo, bl. 5b, skr. 1612].
1575: CLXXXVIII. Kirkian ä Hialla i Olvese. ä landid ad Backa. vidreka i Kiefl avijk. Biargfeste edur hud og fi orufar skipslaudu i Thorlakshofn. enn their sem i Thorlakshofn bua. eiga stödhrossabeit i Melsmelamijre. Jtem viij kijr og äsaudarkugillde. thar eru ij naut ij vetur. Jtem Jnnann kirkiu. ein messuklædi og laus haukull thar til. iij Skrædur vondar. Jtem kaleikur. ij kluckur vænar og ein körbialla. glödarkier vondtt. Jtem eirn Davijdz psalltare gamall.“ DI XV: 642-643. Núverandi kirkja er reist um 1930, á undan henni var tiburkirkja á sama stað. Krikjugarðurinn var stækkaður við endubygginguna en ekki er vitað til hvaða átta. Kirkjugarðsveggurinn er hlaðinn að utan en að innan sést hann ekki.Þegar ekið er til norðurs að bæ, blasir kirkjan við á miðju bæjarhlaðinu. Kirkjan og kirkjugarðurinn sjást enn. Líklega er ekki ýkja langt síðan kirkjugarðsveggurinn var hlaðinn eða lagfræður. Fjölmörg leiði eru í kirkjugarðinum sem enn er í notkun.

Hjallarétt (rétt)

Ölfus

Hjallarétt.

“Vestan við Bakkarás, upp við hlíðina, er fjárrétt sem heitir Hjallarétt. Þar var réttað vor og haust,” segir í örnefnalýsingu. Um 1980 var heimildum um helstu menningarleifar hreppsins afnað saman að frumkvæði Ölfushrepps. Þar segir: „Hjallarétt er austan Hjalla og hefur verið aðal sundurdráttarrétt fyrir Hjallasókn.” Bakkarétt er rúmum 670 m norðaustan við bæ og um 470 m norðan við Móakot. Réttin er hlaðin upp við kletta og inn á milli stakstæða steina og er mikið skemmd. Bakkarás hefur brotið sér leið í gegnum réttina og skemmt eitt hólfið og almenninginn. Réttin er við landamerki Hjalla og Bakka.Réttin er hlaðin vestan Bakkarásar, stór björg hafa hrunið hér niður og notuð sem hluti af veggjum. Umhverfis réttina eru malarskriður en tún eru til suðurs. Réttin er 35×30 m að stærð, snýr norðaustur-suðvestur og skiptist í fimm hólf. Ekki er itað hversu margir dilkar voru í réttinni. Hún er mikið röskuð og af þeim sökum er lýsingin brotakennd. Ekki er vitað hversu margir bæir notuðu réttina en gera má ráð fyrir að flestar jarðirnar í Hjallahvefi hafi gert það samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum. Réttin er grjóthlaðin og stakstæð björg eru víða hluti af veggjum. Sum þeirra eru 2-3 m á hæð. Til austurs er hólf 1. Það er 11×8 m að innanmáli og snýr norður-suður. Það er opið til vesturs, inn í almenninginn (sjá hólf 5) og annað op er til austurs, út úr hólfi nu. Veggirnir eru 0,2-1,2 m á hæð og má greina 4-5 umför í veggjum. Stórt bjarg afmarkar norðurhlið hólfsins að mestu. Annar stein er í norðvesturhorni, uppi á honum er jafnframt hleðsla. Hólf 2 er NNV við hólf 1 og er mikið skemmt. Það er 6,5×4 m að innanmáli og snýr norður-suður. Gólfið er 1 m hærra en í hinum hólfunum. Bakkarás rennur í votviðrum í gegnum hólfið og raskar því mikið. Veggirnir eru 0,3-1,5 m á hæð og eru hlaðnir upp á steinum og inn á milli þeirra.

Bolasteinn (þjóðsaga/rétt)
Í örnefnaskrá Hjallahverfi ssegir: «Á grænni flöt vestan við [Bolasteins]rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina.» Bolasteinn er rúmum 2,6 km suðvestan við bæ og Tíðgata lá fast sunnan hans. Bolasteinn er á grónu svæði neðan (sunnan) við Neðrafjall, á milli brekkna og sumarhúsa sem þar eru. Bolasteinn sést enn og grjóthlaðin fjárrétt er sambyggð honum til austurs.Fyrir sunnan steininn eru a.m.k. fjórar sumarhúsalóðir og mikil trjárækt á þeim fl estum. Gróið svæði er við steininn og innan í réttinni.Bolasteinn sést vel. Hann er um 4×3,5 m að stærð, snýr norðvestur-suðaustur og hliðar hans um 4 m á hæð. Þær eru brattar og erfitt að komast upp á steininn. Fyrir austan steininn er grjóthlaðin rétt. Hún er um 9×5 m að stærð og er einföld. Veggirnir eru grjóthlaðnir, 0,2-0,4 m á hæð og það má greina 13 umför af grjóthleðslu í þeim. Í norðvesturhorni er jarðfastur steinn hluti af veggjum, hann er mun minni en Bolasteinn. Austurhluti réttarinnar er einna best varðveittur. Réttin er opin til suðurs, við Bolastein.

Selbrekkur (sel)

Ölfus

Hjallasel.

Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Í brúninni vestur af Bröttubrekku, og nokkru lægri, eru Selbrekkur, algrónar.» Selið er tæpa 2,5 km norðvestan við bæ og tæpa 1,3 km norðan við beitarhús. Það er uppi á svokölluðu Efrafjalli. Selið er í gróinni kvos, sunnan undir lágri brekku. Ekkert vatn eða hellir er hér nærri og ljóst að vatnsskortur hlýtur af hafa haft áhrif á starfsemi á staðnum. Svæðið næst minjunum er gróið grasi og mosa. Víða eru klapparhólar og rof, utan við gróna svæðið. Selið sést ekki fyrr en komið er í kvosina. Svæðið er 30×20 m að stærð og snýr austur-vestur. Þrjár tóftir og eitt garðlag eru þar og fá þau bókstaf til aðgreiningar í lýsingu þessari.

Lækjarborg (sel/stekkur)

Ölfus

Lækjarborg.

Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: « Vestan við Selbrekkur verður rani eða múli sem heitir Rjúpnamúli. Niður frá honum heita Lækjarmóar. Þar eru rústir sels eða stekks, og heitir Lækjarborg.» Lækjarborg er uppi á Hjallafjalli, 1,7 km vestan við bæ og 740 m norðan við Sólstígsvörðu. Tóftin er á lágum grónum hól með útsýni til allra átta, innan skógræktarsvæðis á Hjallafjalli. Engum trjám hefur verið plantað í 10-15 m fjarlægð frá tóftinni. Hóllinn er að mestu gróinn en umhverfis hann er melur og rof í gróðurþekjunni. Þar vex að mestu mosi, lyng og gras.Hóllinn er grasi gróinn og ólíkur öðrum hólum í kring. Hann er 24×24 m að stærð. Líkast til hefur þetta verið stekkur en vera kann að eldri minjar sels leynist undir sverði á svæðinu líkt og heimildir bera vitni um. Hóllinn er ólíkur öðrum hólum í kring vegna mikillar grænku.

Fjallsendaborg (fjárskýli)

Ölfus

Fjallsendaborg.

Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Aðeins vestan við hann [Skjólgarð] er Fjallsendaborg, gömul fjárborg.» Tóft er við vesturenda á Hjallafjalls, tæpum 3 km vestan við bæ og tæpum 760 m norðvestan við Steinkustíg.Tóftin er byggð upp við klettahól að sunnan. Trjám hefur verið plantað um 5 m vestan og sunnan við tóftina. Tóftin er 15×13 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er nánast hringlaga og byggð upp við klett að sunnan. Hún er mjög gróin og ekki sést í neitt grjót þó ætla megi að hún sé grjóthlaðin. Veggir eru 0,8-1,2 m að hæð, afl íðandi og mjög breiðir, allt að 4 m. Innanmál tóftarinnar er 5.5 x 5.5 m. Líklega var op á suðvesturhlið en þar er veggurinn mun lægri. Veggir eru hæstir til suðurs, upp við klettahólinn.

Lækur (býli)

Ölfus

Lækur í dag.

“Lækur, fimta hjáleiga, bygð fyrir manna minni.” JÁM II, 427. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðjuhverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi , 1. Landamerki Hjallatorfunnar eru: að austan, milli Bakka og Riftúns úr Sigmundarvaði á Þorleifslæk í Markastein, merktan X, ofan við alfaraveg. Þaðan í Torfu í Litlahvammi efst. Þaðan, milli Hjallatorfu og Þóroddsstaða, í vörðu hæst á Skálafelli beint í vörðu austan á Reykjafelli. Þaðan í Lambafell – móti Ölfus – afréttarlandi. Úr Lambafelli í vestasta hornið á Lönguhlíð og þaðan í Skógarhlíðargafl. Milli Hjallatorfu og Hrauns: Tíðagötu í Sólarstein. Milli Hjallatorfu og Grímslækja: Sólarsteinn í Klapparhól, merktan X, í Lækjarbotnalæk, í tjörn, í Grímslækjarós í Lambeyraós, segjir landamerkjabréf.” Ö-Bakki, 1.
1917: Tún 2.6 ha, 5/6 slétt. Garðar 752 m2.

Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Lækur er vestan Bæjarlækjar, vestur frá Hjalla. Gamla gatan lá úr Hjallavaðli suðurfyrir Lækjartún, en þar skiptist í Norðurtún norðan bæjar og Framtún sunnan bæjar. Nú liggur vegurinn yfir Framtúnið.» Í Jaðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: «Lækur, fimta hjáleiga, bygð fyrir manna minni.» Bærinn er merktur inn á túnakort frá 1920, við austurjaðar heimatúnsins. Heygarður er merktur norðan við bæ, á bæjarhólnum.

Ölfus

Lækur um 1900.

Samkvæmt Hirti Jónssyni og móður hans Sigurhönnu Gunnarsdóttur, stóð gamli burstabærinn nokkru norðan við núverandi íbúðarhús. Þar er malarhlað, austan við gömul hesthús sem enn standa, norðan við núverandi íbúðarhús. Sögusagnir frá svæðinu herma að Hjalli og kirkjan þar hafi eitt sinn staðið vestan við lækinn sem rennur á milli bæjanna (Læks og Hjalla) en hafi snemma á öldum verið fært austur yfir bæjarlæk, þar sem hún stendur nú. Sigurhanna og Hjörtur eru þess fullviss að þetta elsta bæjarstæði Hjalla og gamla bæjarstæði Lækjar hafi verið á sama stað enda sé bæjarstæðið krökkt af minjum og hvergi sé hægt að grafa án þess að rekast á minjar. Hjörtur og Sigurhanna hafa í fórum sér ljósmynd þar sem bæjarhúsin, kálgarður og brunnur sjást vel. Ljósmyndin var tekin af bæjarhúsunum og íbúum þeirra um aldamótin 1900. Malarplan er norðan við íbúðarhúsið og einnig nokkuð nýleg útihús. Bæði Hjörtur og Sigurhanna muna vel eftir burstabænum. Fjórar burstir voru á bænum, í röð á bæjarhólum frá vestri – austurs, og snéru til suðurs. Vestast var hlaða, í miðjunni var baðstofan, svo betri stofan og austast var fjósið. Vestustu burstirnar þrjár voru rifnar árin 1965-70 en fjósið fékk hinsvegar að standa lengi og var rifið í kringum árið 2008. Torf- og grjóthleðslur voru á milli burstanna og voru tröppur upp hleðslurnar á milli hlöðunnar og baðstofunnar svo hægt var að ganga þar yfir. Stór bæjarhóll sást lengi aftan við bæjarhúsin en hann var einnig sléttaður út á árunum 1965-70. Hjörtur var ekki á staðnum þegar húsin voru rifi n og man því ekki eftir hvort einhverjar byggingaleifar hafi komið upp við það. Í dag sjást lítil sem engin ummerki um bæjarhólinn en má ætla að mikið sé um minjar undir malarplaninu þar sem bærinn stóð, þó svo að yngstu minjunum hafi líklega verið raskað mikið þegar hóllinn var sléttaður út. Samkvæmt túnakortinu frá 1920 hefur
bæjarhóllinn verið 50×45 m og snúið norður-suður.

Bjarnastaðir (býli)

Ölfus

Bjarnastaðir.

“Bjarnastaðir, sjötta hjáleiga, bygð fyrir manna minni.” JÁM, 428. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er jalli í miðju hverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi , 1.
1917: Tún 3.8 ha, allt slétt. Garðar 1191 m2. “Bjarnastaðatún er kring um bæinn, austur að Þorgrímsstaðatúni, vestur að Svartamóa, ofan lækjartúns.” Ö-Hjallastaðahverfi.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Bjarnastaðir eru uppi við Hjallafjall þar sem það er hæst, norður frá læk.» Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920, fyrir miðju heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Núverandi íbúðarhús er skammt suðvestan við bæjarhólinn en núverandi útihús eru á miðjum bæjarhólnum og ná yfir hann allan. Lítið sem ekkert sést af honum á yfirborði. Gróin tún, nýtt til beitar eru allt umhverfis bæjarhólinn. Á honum sjálfum eru útihús og malarplan. Bæjarhóllinn sést ekki á yfirborði, núverandi íbúðarhús er í suðausturhorni hólsins en yfir norðurhlutanum eru útihús og malarplan til vesturs. Hvegi sést upphækkun á yfirborði. Bæjarhúsin á túnakorti eru um 35 m að lengd og 10 m á breidd sem gæti gefið hugmyndir um stærð bæjarhólsins við upphaf 20. aldar.

Þorgrímsstaðir (býli)

Ölfus

Þorgrímsstaðir.

“Þorgrímsstader, hjáleiga af heimajörðinni, bygð fyrir manna minni. Jarðdýrleiki kallaður x…“ JÁM, 426. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfi nu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi , 1.
1917: Tún 2.2 ha, 5/6 slétt. Garðar 876 m2. “Túnið var allt í kring um bæinn og skiptist í Heimatún, kring um bæinn, austur að Þorgrímsstaðagili… Túnið austan gilsins nær austur að Króksrás og heitir Kinn.” Ö-Hjallahverfi.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Þorgrímsstaðir stóðu austur frá Bjarnastöðum, fyrir botni Bæjarlækjar. […] Nú eru allar byggingar afmáðar á Þorgrímsstöðum». Þorgrímsstaðir eru nefndir í Jarðabók Árna og Páls frá 1708 og þar er bærinn sagður hjáleiga frá Hjalla sem byggð var fyrir manna minni. Þorgrímsstaðir eru staðsettir rúmum 220 m norðaustan við Bjarnastaði og tæpum 180 m vestan við Krók. Þar er aflangur bæjarhóll í túninu þar sem Þorgrímsstaðir stóðu. Svæðið hefur að mestu verið sléttað í tún. Norðaustan við bæinn er grýtt lækjargil, um 4-5 m djúpt. Allar minjar á bæjarhólnum hafa verið rifnar niður og hann sléttaður og má ætla að yngstu minjarnar séu að mestu leiti horfnar. Hóllinn sem sést í túninu er 34×28 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hóllinn er mun greinilegri neðar í túninu en fjarar út ofar. Hann er ekki mjög hár, aðeins um 0,5 m á hæð. Miðað við að búið var á bænum að minnsta kosti í 3. aldir, líklega lengur, má ætla að enn leynist óraskaðar minjar í túninu. Stafnar bæjarhúsanna hafa líklega snúið til suðausturs.

Biskupaleiði (örnefni)

Ölfus

Biskupaleiði.

Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Þar í brekkurótunum, austan og ofan bæjarins er húslaga steinn sem heitir Álfakirkja. Neðan við hana eru þrjár þúfur sem heita Biskupaleiði. Þar hvíla huldufólksbiskupar. Aldrei má slá Biskupaleiðin né slétta þau út.» Biskupaleiði eru 4 m sunnan við Álfakirkju og rúmum 45 m norðaustan við bæ. Þýfð og grasi vaxin brekka í rótum fjallsins. Svæðið er allt fremur þýft en þó sjást enn þrjár stærri þúfur en aðrar, beint sunnan við Álfakirkju. Þúfurnar eru á svæði sem er 2×2 m að stærð. Þær liggja í röð frá austri til vesturs, þúfan í miðjunni er stærst þeirra. Þúfurnar eru um 0,6-1 m í þvermál og um 0,5 m á hæð.

Krókur (býli)

Krókur

Krókur.

“Krókur, önnur hjáleiga, nú í eyði síðan í næstliðnum fardögum, bygð fyrir manna minni.” JÁM, 427. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…» Ö-Hjallahverfi , 1.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Krókur, líka nefndur Hjalla-Krókur er norðaustur frá Hjalla og nær hlíðinni.» Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir um Krók: «Krókur, önnur hjáleiga, nú í eyði síðan í næstliðum fardögum, bygð fyrir manna minni.» Í Sunnlenskum Byggðum III segir: « Ein af Hjallajörðunum, 5 hundruð að fornu mati og því um tólfti hluti Hjallatorfunnar. Bærinn stendur undir brekkunni, austan lækjarins. Jörðin notar norðurhluta landsins.» Samkvæmt túnakorti Króks frá 1920, var gamli bærinn staðsettur við miðjan vesturjaðar gamla heimatúnsins. Jón Ögmundsson, bóndi á Hjallakrók, man eftir húsum frá gamla bænum sem hafði þá verið í eyði í einhvern tíma, líklega frá því að nýtt íbúðarhús var byggt 100 m norðaustar á bæjarstæðinu, árið 1946. Jón sagði húsin hafa verið hrörleg þegar hann keypti landið og að þau hafi öll staðið á ama blettinum, bæjar- og útihús. Ábúð á Króki var stopul á seinni árum en samkvæmt jarðarbókinni var bærinn í eyði árið 1708. Ekki er vitað hvenær jörðin byggist aftur upp. Ábúð hefur þó haldist frá 1892-1975. Á og við bæjarhólinn eru nú gróðurhús og gámar, vestan við heimreiðina þar sem hún beygir til norðurs í átt að núverandi íbúðarhúsi. Ræktuð tún í kring en smávegis trjáreitur norðan við. Lítil hólmyndun sést á svæðinu, aðallega til suðausturs. Bærinn stóð norðan við gróðurhús þar sem nú eru geymd ýmis tæki og plöntur. Skjólgarður úr trjám hefur verið plantað í kringum svæðið. Hóllinn hefur líklega verið sléttaður út á einhverjum tímapunkti eftir að hætt var að búa á svæðinu en þó má ætla að einhverjar leifar leynist undir sverði. Stafnar bæjarhúsanna hafa líklega snúið til suðurs.

Gerðakot (býli)

Gerðakot

Gerðakot?

“Gerðakot, fjórða hjáleiga, bygð fyrir manna minni.” JÁM, 427. “Bæirnir í Hjallahverfi standa í hvirfing undir hlíðinni og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu… Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa…” Ö-Hjallahverfi, 1.
Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: «Gerðakot er sunnan þjóðvegarins og austan lækjarins. Gerðakotstún er allt í kring um bæinn.» Í Jarðabók Árna Magússonar og Páls Vídalíns segir: «Gerðakot, fjórða hjáleigan, bygð fyrir manna minni.» Samkvæmt túnakorti frá 1920 stóð bærinn nánast í miðju heimatúninu. Bærinn hefur staðið þar sem íbúðarhús stendur ennþá í dag. Á bæjarstæðinu standa fjögur steypt hús og er malarheimreið nánast í kringum þau. Ekki sjást nein ummerki um bæjarhól á svæðinu en þó mun hafa verið búið þar stöðugt um aldir. Líklega hefur gamli bæjarhóllinn verið sléttaður út þegar íbúðarhúsið var byggt á árunum 1925-1958. Ætla má að einhverjar mannvistarleifar liggi enn óraskaðar undir sverði, þó svo að stór hluti yngri minja sé horfinn. Stafnar bæjarhúsanna hafa líklega snúið til suðausturs.

Vegur (leið)

Sýsluvegurinn

Vegurinn ofan Þurár.

Gamla þjóðleiðin/Sýsluvegurinn er sýnd á herforingjaráðskorti nr. 37 frá 1908. Hún lá til suðvesturs, sveigði til vesturs við heimatún Vorsabæjar og lá áfram að myllu í landi Núpa. Leiðin lá áfram til vesturs, meðfram Núpafjalli, sunnan og norðan við Þverárbæina. Þaðan lá leiðin sunnan við heimatún Þóroddsstaða og Riftúns og lá að Hjalla og áfram að. Leiðarinnar er getið í örnefnalýsingum nokkurra jarða. „Mói, nú ræktaður, norður frá Vatnatúni. Þar mættust heimagötur og gamla þjóðleiðin,“ segir í örnefnaskrá Kröggólfsstaða. Í örnefnaskrá Hjallahverfis segir: “Gamla gatan lá meðfram Móakotstúni frá Krókströðum vestur að Hjallatúni […] Gamla gatan lá úr Hjallavaðli suður fyrir Lækjartún …”. Seinna segir í sömu örnefnaskrá: „Með Bakka eru talin nöfn í Bakkabrekkum, út að Hjallarás, nema gatan út með fjallinu, en af efri bæjum sóknarinnar var hún nefnd Hjallagötur.” “Krossgötur: Mói, nú ræktaður, norður frá Vatnatúni. Þar mættust heimagötur og gamla þjóðleiðin,” segir í örnefnalýsingu Kröggólfsstaða.

Sýsluvegur

Sýsluvegurinn.

Í bréfi Björns Pálssonar og birt er í viðauka 5 við skýrslu FS187-001172 segir: “Sýsluvegurinn gamli: hann er vel sýnilegur af Stekkjartúninu sunnan fjárhúsanna þar og norður undir Öxnalækjarveg. Þá er bútur hans enn til milli rafl ínunnar og Þjóðvegar 1 um 50 m vestan við veginn sem gerður var niður í Ölfus upp úr 1930. […] Sýsluvegurinn gamli: kom neðan úr Ölfusi, um Gránulág (ekki Grænulág sem er ritvilla í tilvitnuðum fornleifaskrám) og upp á Kirkjubrún vestanverða. Hann er ekki nefndur í fornleifaskráningunum né örnefnaskrám en er að stofni forn þjóðleið og var síðan ruddur vagn- og bílfær og notaður fram yfir 1930.” Vegurinn sést m.a. vel í landi Öxnalækjar, Kröggólfsstaða, Vatna og Þúfu.Leiðin var skoðuð og rakin á nokkurum stöðum. Leiðin er horfi n í landi Hjalla og Bakka. Í landi Núpa og Þurár sést leiðin vel. Þar er hún rudd vagnleið, 3 m breið, slétt í botninn og er um 0,2 m djúp. Í landi Núpa eru upphlaðnir kaflar, yfir gil og hlaðnar brýr eru yfir mýrar í landi Þverár. Í landi Kröggólfsstaða, Vatna og Þúfu er hægt að rekja veginn á rúmlega 720 m löngum kafl a. Hann er ruddur, vagnfær, 3 m á breidd og 0,2 m djúpur. Vegurinn er sléttur í botninn og lítið gróinn. Vegurinn sést einnig vel í landi Öxnalækjar, rúmum 90 m austan við Þorlákshafnarveg. Þar liggur vegurinn þvert í gegnum fyrirhugað áhrifasvæði vegna tilfærslu á Suðurlandsvegi, hann er nánast í miðju þess svæðis. Vegurinn er upphlaðinn, yfir gróna lág og sést vel. Hann er tæplega 80 m að lengd, 3 m á breidd og 0,3m á hæð. Norðurhluti vegarins, skammt sunnan við Öxnalækjarveg, er lítið annað lág í grónum mel og sést illa.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla III, Fornleifastofnun Íslands, Reykjavík 2017.

Ölfus

Hjalli – örnefnakort.

Selvogsheiði

Í „Aðalskráningu fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I“ má m.a. lesa eftirfarandi um bæi, s.s. Efri- og Ytri-Grímslæk, Breiðbólstað, Vindheima, Litlaland, Hlíðarenda, Nes, Bjarnastaði, Þorkelsstaði, Eimu, Strönd, Vogsósa, Hlíð og Stakkavík, og nokkra merka staði í Selvogi og neðanverðu Ölfusi ofan Þorlákshafnar:

Efri-Grímslækur (býli)

Efri-Grímslækur

Efri-Grímslækur – túnakort 1918.

1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytrieða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið.
1917: Tún 3.5 ha, 3/4 slétt. Garðar 1002 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman“. Ö-Grímslækir, 1.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Þar stendur að bærinn, heyhlaða og fl. tilheyri bæjarhúsunum. Kálgarður var sambyggður bæjarhúsunum til suðurs. „Efri-Grímslækur heitir eystri bærinn,“ segir í örnefnalýsingu. Fyrst var komið að Efri-Grímslæk árið 2004 í tengslum við kirkju- og bænhúsaskráningu. Bærinn er sunnan við malarveg sem liggur áfram að Ytri-Grímslæk og Hrauni. Núverandi hús snúa eins og gamli bærinn og eru byggð í bæjarhólinn. Yngri húsin eru byggð á sama stað og íbúðarhúsið er ekki með kjallara. Stafnar eldri bæjarins snéru til suðurs.
Núverandi hús eru komin til ára sinna og ekki víst að mikið jarðrask hafi orðið við byggingu þeirra. Íbúðarhúsið er byggt 1927-1952.
Bæjarhóllinn er rúmum 220 m sunnan við malarveginn. Hóllinn er fremur lágur, að framan er mikil hleðsla sem er að hluta farin og síga og falla. Þessi hleðsla stóð fyrir framan eldri bæjarhúsin sem núna eru horfin. Gunnar Konráðsson, heimildamaður, á ljósmynd og málverk af eldri bænum. Bæjarhóllinn er 43×24 m að stærð og snýr austur-vestur. Ekki er hægt að áætla hæð hans sökum bygginga sem þar eru.

Ytri-Grímslækur (býli)

Ytri Þurá

Ytri-Þurá.

1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ, 76.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1708: „Ein jörð að fornu. En fyrir manna minni sundurdeild í tvo bæi […] Kallast annað býlið Efre Grimslækur, en annað Sudre Grimslækur. Dýrleiki á báðum saman er x, v hver partur.“ JÁM II, 428. Ekki er vitað hvort Ytrieða Efri-Grímslækur er upphaflega býlið. Ekki er föst ábúð á jörðinni heldur er hún nýtt til hrossabeitar.
1917: Tún 3.4 ha, 6/7 slétt. Garðar 1514 m2. „Grímslækir eru tveir, Efri-Grímslækur og Ytri-Grímslækur. Túnin liggja saman“ Ö-Grímslækir, 1.
Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Þar stendur að bærinn og hlaðan tilheyri bæjarhúsunum. Stafnar bæjarins snéru til suðausturs. Sambyggður kálgarður var suðaustan við þau. Fyrst var komið að Ytri-Grímslæk árið 2004 í tengslum við kirkju- og bænhúsaskráningu.“Ytri-Grímslækur er vestar í samliggjandi túni,“ segir í örnefnalýsingu. Ekki er föst ábúð á jörðinni. Hún er í eigu ábúaenda á Litlalandi frá árinu 2005 og nýtt til hrossabeitar. Einnig er búið að byggja tvenn nýbýli og sumarbústaði í vestur- og norðvesturhluta jarðarinnar. Búið er að rífa öll hús á jörðinni fyrir utan eina skemmu. Í Sunnlenskum byggðum III sjást bæði skemman og bæjarhús sem voru byggð á 20. öld. Þau sjást einnig á loftmynd frá árinu 1999 og notast er við í þessari skráningu. Bæjarhúsin sem sýnd eru á túnakortinu voru fast norðaustan við íbúðarhús byggt árið 1925.

Breiðabólsstaður (býli)

Breiðabólstaður

Breiðabólstaður.

1847: Bændaeign. 40 hdr. með Vindheimum ÁR-545. JJ, 76
1397: Getið í Vilchinsmáldaga. DI IV, 98-99.
1523: Getið í kirkjureikningum. DI IX, 158-159.
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1551: Getið í kaupbréfi. DI XII, 307
1561: Getið í tylftardómi. DI XIII, 622-623
1575: Getið í Gíslamáldaga. DI XV, 642.
1708: „Jarðdýrleiki xl og so tíundast fjórum tíundum.“ JÁM II, 439.
„Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III.
1917: Tún 5 ha, 9/10 slétt. Garðar 1050 m2.
„Breiðabólsstaður var oftar nefndur Breiðabólsstaðir, eða stytt í Breiða […] Bærinn stóð í túninu ofan við Bæjarlæk, þar sem á honum er hornrétt beygja frá suðvestri til suðausturs. Nú eru öll verksummerki afmáð á þeim stað, allt bæjarstæðið sléttað út.“
Bæjarhóllinn var skráður árið 2004 í tengslum við verkefnið bænhús á Íslandi. Bæjarhóllinn er nánast í beinni línu við eystri gafl á stóru húsi sem líklega var heimavist meðan skóli var rekin á jörðinni. Rúmir 200 m eru á milli hússins og bæjarhólsins. Bærinn sjálfur, var fluttur árið 1954, og er rúmum 350 m sunnan við bæjarhólinn.
Bæjarhóllinn er í ræktuðu túni sem notað er undir hrossabeit. Eric Guðmundsson man hvar bærinn stóð og ljósmynd er til af honum.
Bæjarhóllinn er enn varðveittur en sléttað hefur verið yfir hann og öllum húsum rutt út. Stafnar bæjarins snéru til suðurs. Bærinn fór í eyði 1928 en jörðin nýtt áfram frá Vindheimum ÁR-545. Bæjarhúsin voru jöfnuð við jörðu árið 1955 eða 1956.

Breiðabólstakirkja (kirkja)

Breiðabólstaður

Breiðabólstaður – örnefnakort.

„1397: XCV. A Breidabolstad. Mariukirkia oc hins heilaga Olafs kongs a Breidabolstad j Olfusi a .xc. j heimalandi. iij. kluckur. rodukross. ein kiertistika med kopar. glodarkier. paxspialld. kirkiann aa eina kv. portio Ecclesiæ vmm .viij. ar oc .xx. tiu hundrad oc mork. Hun a vmm þat framm sem herra Michels maldagi vottar .iij. kyr er Andres gaf. Jnnan kirkiu. bryk yfer alltari. Laurentius lykneski. paxspialld steintt. portio Ecclesiæ vmm vj. ar næstu medan Jon hefr bued halfur fimtandi eyrer oc .xij. aurar af jordunni heima þar. fiellu nidur .xij. aurar er hann liet hlada veggi vmm kirkiuna oc gaf til alltarisklædi med liereptt. forn tiund adr vmm .iiij. ar hundrad oc .xij. Alnar,“ DI IV.
„8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Breiðabólstaðarkirkju sem var “af fallin med aullu” og lofaði hann að “giora upp breidabolstadar kirkiu” –“ DI IX.
„1575: CLXXXVI. Breidabolstadur. Hälfkirkian ä Breidabölstad i Olvese. ä xc. i heimalande. Jordin xLc.“ DI XV. „Kirkja var þar samkvæmt gömlum heimildum.“ segir í Sunnlenskum byggðum III. Ekki er vitað hvar kirkjan var en líklega var hún nærri bæ 001. Ekki er vitað hvenær hún féll úr notkun.
Engin ummerki kirkjunnar sjást á yfirborði.

Breiðabólsstaðarsel II (sel)

Breiðabólstasel

Breiðabólstaðasel II – uppdráttur ÓSÁ.

Ómar Smári Ármannsson fjallar um þessar minjar á heimasíðu Ferlis. Þar segir: „Þegar FERLIR var á ferð um Krossfjöll var m.a. gengið fram á áður óþekktar – og þar með óskráðar selsminjar – ofan Krossfjalla. Minjarnar eru miklar og greinilegar; sjö rými og stekkur. […].“ Selið er ekki þekkt úr rituðum heimildum og er því nafnlaust. Hér er stuðist við nafngjöf Ómars Smára og selið nefnt Breiðabólsstaðarsel II. Það er 3,8 km norðvestan við bæ 001 og 1,7 km NNA við Breiðabólsstaðarsel. Selið er undir norðurhlífðum Krossfjalla. Allt umhverfis selið er mosavaxið hraun. Meðfram norðurenda Krossfjalla er mjótt undirlendi og er selið þar, byggt upp við fjallshlíðarnar. Á svæði sem er 100×40 m að stærð og snýr norðursuður eru sjö tóftir. Ástand þeirra allra er svipað, veggirnir útflattir og tóftirnar grónar.

Ingjaldsborg (fjárskýli)

Ingjaldsborg

Ingjaldsborg.

„Um 3 – 4 hundruð metrum vestar [en Bræðraborg] á brúninni er mikil rústaþyrping, og vel gróið kringum þær. Þar eru rústir af nokkrum hringhlöðnum fjárborgum og einu sauðahúsi. Steindór Egilsson byggði það 1912. Þetta heitir Ingjaldsborg,“ segir í örnefnalýsingu.
Ingjaldsborg er tæpum 200 m vestar en Bræðraborg og rúmlega 850 m suðvestan við bæ. Þar eru ummerki um þrjár fjárborgir og eitt fjárhús sem líklega er yngra. Bygging þess raskaði fjárborgunum og grjót án efa borið úr þeim við byggingu þess.
Ingjaldsborg er á grasivöxnu svæði. Allt umhverfis er heiði með mosa, lyngi og þúfum. Víða eru moldarflög og hraungrýti.
Á svæði sem er 32×23 og snýr austur-vestur eru fjórar tóftir og garðlag. Var hverju þeirra gefin bókstafur til aðgreiningar í lýsingu þessari. Fjárborg A er austast. Hún er hrunin og einungis mótar fyrir útveggjum hennar. Grjóthrúga er inni í fjárborginni, líklega frá því að fjárhúsið var gert. Fjárborgin er 7 m í þvermál og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,3-0,4 m á hæð og sést 1 umfar grjóthleðslu.

Breiðabólsstaðarsel I (sel)

Breiðabólstaðasel

Breiðabólstaðasel.

„Inn af Löngudölum eru aðrir, grösugir dalir sem heita Kvíadalir. Eru klettabríkur milli þeirra. Mesta bríkin heitir Kvíadalaberg, nokkurra metra hátt standberg, sem horfir mót austri. Austan undan því eru allgreinilegar rústir. Þar stóð Breiðabólsstaðarsel. Tætturnar eru: 1) Tvö hús sambyggð, úti á grundinni, utanmál 6 m. lengd og 13 m. breidd, beggja húsanna. 2) Eitt hús upp við bergið, utanmál þess: 6 m. breidd og 5 m. lengd. 3) Lítið hús rétt við hlið hins, um 2 m. sinnum 2 m. að utanmáli,“ segir í örnefnalýsingu. Þetta er falleg selstaða og allt svæðið umhverfis.
Selið er í grösugum dal, undir klettabergi. Þar vex gras, lyng og mosi. Selið er á svæði sem er 15×15 m að stærð.

Breiðabólsstaðarborg (fjárskýli)

Breiðabólstaðaborg

Breiðabólstaðaborg.

„Litlu austar [en Steingríms gamla-stekkatún] er hár stórgrýtishóll, með rúst. Hann heitir Breiðabólsstaðarborg, oft Breiðaborg,“ segir í örnefnalýsingu. Breiðabólsstaðarborg er tæpum 1 km ANA við bæ og 700 m norðaustan við Stekkjatún. Fjárborgin er áberandi þegar ekið er eftir Hlíðardalsvegi. Víðsýnt er frá fjárborginni til allra átta. Gróið hraun er allt umhverfis hólinn sem fjárborgin er á. Þar vex mosi, gras og lyng. Klettar koma víða uppúr sverði.

Fjárborgin er efst á grónum hraunhól. Klettar eru á hólnum og er fjárborgin hlaðin á milli þeirra. Klettarnir eru suðvestan, suðaustan og norðaustan við tóftina. Fjárborgin er sunnarlega á hólnum og er ferhyrningslaga. Hún er 8×8 m að stærð, einföld og grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,2-0,5 m á hæð og 1 umfar af stóru grjóti sést í þeim. Til norðurs frá fjárborginni, uppi á hólnum er grasivaxið svæði og hleðsla þar á brúninni. Mögulega eru þetta ummerki um aðrekstrargarð eða annað
hólf. Hleðslan samanstendur af einföldri steinaröð.

Þorlákshafnarsel (sel)

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel undir Votabergi – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1708 segir um Breiðabólsstað í Ölfusi: „Skipsuppsátur á jörðin í Þorlákshöfn fyrir selstöðu í heimalandi.“
Í 1. bindi sögu Þorlákshafnar eftir Skúla Helgason segir: „Frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi… Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi, sem er skammt fyrir norðan þjóðveginn um Þrengslin, sem svo eru kölluð sunnan Hellisheiðar… Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við lítinn hamraskúta kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi.“ Á myndasíðum sömu bókar framan við miðju er uppdráttur af selinu sem Kristján Eldjárn hefur gert þann 28.09.1963 og sömuleiðis ljósmynd af Skúla Helgasyni þar sem hann stendur og virðir fyrir sér rústirnar. Þær eru friðlýstar eins og frá segir í Friðlýsingarskrá: „Breiðabólsstaður. Rústir Þorlákshafnarsels undir Votabergi á Hellisheiði.
Skjal undirritað af ÞM 20.01.1976. Þinglýst 16.06.1977.“ Tóftirnar eru enn mjög greinilegar, um 300 m norður af Þrengslavegi en um 100 m suður af Votabergi, sem er lóðrétt hamrastál sem liggur frá norðri til suðurs vestan í Meitilstagli, sem gengur frá fjallinu Litla-Meitli til suðurs. Selið er um 13 km norður af Þorlákshöfn. Það hefur einnig verið nefnt Hafnarsel, t.d. á örnefnakorti Ingólfs Einarssonar frá 1969. Tóftirnar eru vestan undir stöku bjargi sem er suðvestan Votabergs. Um 20 m vestan tóftanna er ágætlega gróið hraun en grösugar grundir eru undir berginu og þar vestar, sunnan undir fjallinu.

Vindheimar (býli)

Vindheimar

Vindheimar og Breiðabólstaður – loftmynd.

1847:“…Vindheima getur engin jarðabók, og er jörð þessi því að líkindum nýbýli frá Breiðabólsstað.“ Bændaeign, 40 hdr með Breiðabólsstað. JJ, 76.
1708: „Vindheimur og Skrida voru hjer hjáleigunöfn. Þær bygðust báðar fyrst í voru minni, þar sem aldrei hafði
bygð verið. Varaði bygðin hjer um 10 eður 12 ár, hafa nú í auðn verið 19 ár eður skemur,“ JÁM II, 440.
1917: Tún 4.8 ha, 7/8 slétt. Garðar 886 m2.
„Vindheimar stóðu um 200 m ofar í brekkunni.
Einnig þar er mest allt útsléttað, nema íbúðarhús, sem byggt var 1930, aðeins neðan við bæjarstæðið, niðri við lækinn. Það er nú kennarabústaður Hlíðardalsskólans, og er nefnt Vindheimar, eins og áður,“ segir í örnefnaskrá. Bæjarstæði Vindheima er komið úr notkun og standa þar engin hús lengur. Milli bæjarstæðanna á Breiðabólstað og Vindheima eru um 125-130 m. Vindheimar eru austan við Breiðabólstað.
Bæjarhóllinn er tiltölulega flatur og er notaður undir hrossabeit.

Litlaland (býli)

Litlaland

Litlaland.

1847: Bændaeign, 10 hdr. JJ, 76
1542: Getið í kaupbréfi. DI XI, 146
1708: „Jarðardýrleiki x og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM II, 441.
1917: Tún 3.7 ha, 9/10 slétt. Garðar 782 m2.
„Litlaland stendur í grunnum hvammi eða dal, undir sömu hlíð og eystri Hlíðarbæirnir. En þar er hlíðin lág, nema á litlum kafla fyrir austan túnið. Þessi staðarákvörðun er miðuð við þann stað sem bærinn hefur staðið frá fornu fari. En nú, 1968, er bærinn staðsettur austur í Ás, miðsvæðis, þó eldra bæjarstæði og tún sé greinilegt. […] en Fjósabrunnur var austan við fjósið, austasta húsið í bæjarröðinni,“ segir í örnefnalýsingu. Eldra bæjarstæði Litlalands er tæpum 700 m vestan við núverandi íbúðarhús. Gamla heimatúnið er óraskað að mestu en var ræktað upp á einhverjum tímapunkti. Sléttað hefur verið yfir bæjahólinn og öllum húsum þar rutt út. Á túnakorti frá 1920 sést að stafnar bæjarins snéru til suðurs og sambyggður kálgarður var þar.
Bæjarhóllinn er því sem næst í miðju gamla heimatúninu. Það er grasivaxið og fremur slétt. Það er ekki slegið heldur nýtt til hrossabeitar. Túnið er í aflíðandi halla til suðurs, niður frá fyrrnefndri hlíð. Bæjarhóllinn er 32×25 m að stærð, 0,5 m á hæð og snýr austur-vestur. Hann er grasivaxinn og sléttað hefur verið yfir hann. Hlíðar hólsins eru aflíðandi en víða eru þýfðir og beinir bakkar án þess að hægt sé að segja til um lögun eða gerð bæjarhúsanna. Hér og þar sjást stöku hleðslusteinar í gegnum grasið. Greinilegt er að ennþá eru töluverð mannvistarlög undir sverði.

Litlalandssel (sel)

Litlalandssel

Litlalandssel.

„upp á fjallinu, ofan Lyngbrekkna og Grislingahlíðar, er hraun austur frá Búrfelli. Það heitir Litlalandshraun. Í því austarlega er Litlalandssel, í stefnu frá Búrfelli á Kerlingarberg,“ segir í örnefnalýsingu. Í BA ritgerð Ómars Smára Ármannssonar segir: „Það er utan í hól þar sem heiðina tekur að halla verulega til suðurs. Tóftin er norðvestan í hólnum og við hlið hennar er stekkur. Hóllinn sjálfur er holur innan og er hægt að ganga í gegnum hann. Hann hefur líkast til verið hluti af selbúskapnum. Selið sker sig nokkuð úr umhverfinu því meira gróið er í kringum hólinn er annars staðar á svæðinu. Selið er mjög gróið. Þó má sjá móta fyrir rýmum. Veggir eru um 60 cm að hæð. Fallin varða er á hraunhól ofan (norðvestan) við selið.“ Litlalandssel er 2 km norðvestan við bæ og 1,7 km norðvestan við nátthaga. Þar eru þrjár greinilegar tóftir, tvær þústir, hellir og varða. Flestar minjarnar eru signar, grónar og óskýrar.
Selið er í mosa- og lyngivöxnu hrauni. Víða eru klettar, lágir hólar og moldarflög. Selið er á svæði sem er 90×40 m að stærð og snýr austur-vestur. Þar eru þrjár tóftir, tvær þústir, varða og hellir.

Draugshellir (þjóðsaga)

Draugshellir

Við Draugshelli.

„Rétt ofan við Vörðuás, við markagirðinguna milli Breiðabólsstaðar og Litlalands, er lítill hóll og í honum lítill hellir, sem heitir Draugshellir. Um hann er skráð saga í Þjóðsögu Jóns Árnasonar, útg. 1955, um pilt sem lézt þar fyrir 200 árum. Hann var jarðsettur að Hjallakirkju, en þoldi ekki í jörðu, gekk því aftur, settist að í hellinum og gerði ferðamönnum glettingar,“ segir í örnefnaskrá Breiðabólsstaðar. Á heimasíðu Ferlirs segir: „Hellirinn var lokaður fyrir allnokkru síðan (sennilega um 1960) til að varna fé inngöngu. […] Heimamaðurinn fylgdi þátttakendum á vettvang. Benti hann á stað í túninu, vestan hólsins, og sagði hann gömul landamerki hafa legið úr vörðu sunnar í Leitarhrauni með línu í klofa í hlíðinni norðaustan við bæinn. […] Hafist var handa við mokstur. […] Eftir að hafa grafið mannhæðardjúpa holu og rúmlega það, opnaðist hellirinn, Hreinsað var frá opinu og við blasti hinn fallegasti fjárhellir. […] því til hliðar við innganginn, í moldinni virðist votta fyrir hleðslum.“ Draugahellir er 1,1 km austan við bæ.
Draugshellir er sem fyrr segir á mörkum Breiðabólstaðar og Litlalands. Núverandi mörk eru spölkorn austar en áður var og er vírgirðing þar. Gróið, óræktað tún í halla til suðurs er umhverfis hellinn. Skjólbelti er 4 m vestar og birkitré við austurenda hellisopsins.
Hellisopið sést ennþá enda einungis um 10 ár síðan það var opnað aftur. Ekki er hægt að fara inn í hellinn né sjá þar inn, opið er það lítið. Það er 3×1 m að stærð og moldarhrun er allt þar umhverfis. Lofthæðin inni í hellinum virðist vera um 1 m, séð ofan frá.

Litlalandshellir (fjárskýli)

Litlalandshellir

Litlalandshellir.

Í norðvesturhorni heimatúnsins er hellir og liggur túngarður upp að honum. Hleðsla er framan við hellinn, lokar honum og hann var nýttur sem útihús. Hellirinn er 130 m norðvestan við bæ og 13 m norðvestan við útihús. Hellirinn er ofarlega í hlíðinni en er ekki áberandi sökum hleðslunnar sem er grasivaxin og fellur inn í túnið. Grasivaxin brekka er til suðausturs frá hellinum. Neðan hennar er gamla heimatúnið en klettar fyrir ofan.
Hellirinn er náttúrulegur og engin mannvirki inni í honum né ummerki um að t.d. berghöld hafi verið klöppuð þar. Lofthæðin inni í hellinum er mest 2 m. Hleðslan lokar öllu opi hellisins. Hún er 11×2 m að stærð og snýr norður-suður. Hún er 0,5-1,1 m á hæð og grjóthlaðin. Hleðslan er hæst innan í hellinum og lítið gróin. Að utan er hún algróin. Mest má sjá 4 umför af grjóti innan í hellinum. Op inn í hellinn er í suðurenda.

Hlíðarendi (býli)

Hlíðarendi

Hlíðarendi.

„Jarðardýrleiki xx og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM II, 441. „Landamerki eru bókfærð þannig: þrívörður við sjó í Markhól, merki L.M., í Fálkaklett. Við Litlaland; Austur miðjan Sand frá sjó til heiðar, í vörðu, sem er klappaður kross í klöppina undir vörðunni, úr henni í þrívörður. Þaðan í Fuglastapaþúfu, í Nátthagaöxl, í vörðu sem stendur við Stórugjá. Þaðan í Eiturhól – Fjallið eina. Ath. Þrívörður við sjó eru ekki nærri Hlíðarendalandi og Fjallið eina er utan takmarka Ölfuss.“ Ö-Hlíðarendi, 1. Jörðin fór í eyði árið 2001 þegar síðasti ábúandi, Ólafur H. Þórðarson lést. Hluti heimatúnsins er nýttur fyrir hrossabeit í dag (2011) en túnin virðast ekki vera nytjuð að öðru leyti.
1917: Tún 7 ha, 7/8 slétt. Garðar 943 m2.

Hlíðarendi

Hlíðarendi 1898.

„Bærinn stendur undir Hlíðarendafjalli, í hvammi milli Ytra-Buganefs að austan og Áss að vestan,“ segir í örnefnaskrá.
Á túnakorti frá 1918 sést að bærinn stóð nyrst í túninu, fast norðan við læk sem rennur um það. Tveir matjurtagarðar voru sunnan við bæ, annar þeirra fast sunnan við íbúðarhúsið og hinn fast austan við þann fyrrnefnda. Þeir eru skráðir með bæjarhólnum. Í bókinni Ísland Howells er ljósmynd af bænum frá því skömmu fyrir aldamótin 1900. Á myndinni er sést bærinn sem virðist vera með grjóthlaðna veggi og fjórar burstir. Stafnar húsanna virðast ýmist vera úr timbri eða forskalaðir. Bárujárn er á þökum. Á myndinni sjást einnig tveir grjóthlaðnir kálgarðar (þeir sömu og á túnakorti) og hellulagður stígur sem liggur yfir Bæjarlækinn, á milli kálgarðanna og að bæ. Traðir eru á milli kálgarðanna og á ljósmyndinni er fjöldi hesta í tröðunum. Jörðin fór í eyði árið 2001 þegar síðasti ábúandi, Ólafur H. Þórðarson lést. Hluti heimatúnsins er nýttur fyrir hrossabeit í dag (2011) en túnin virðast ekki vera nytjuð að öðru leyti eða aðrir hlutar jarðarinnar.
Fast norðan og austan [núverandi] hússins er malarplan, liggur vegur að planinu og bænum úr suðri og heldur áfram til NNV að nýju húsi við lækjaruppsprettu og byggt var í tengslum við vatnsverksmiðjuna sem risin er á jörðinni. Austan við planið er gróið yfir byggingaleifar húsa sem stóðu á hólnum á síðari hluta 20. aldar.

Fjallsendahellir (fjárskýli)

Fjallsendahelir

Í Fjallsendahelli.

„Vestan í Fjallsenda er Fjallsendahellir. Hann er hraunhellir. Inn úr opi hans eru tvennar dyr. Til hægri er sjálfur hellirinn, 1 m. til 1,7 m. hár og um 2 m. víður, gólfið er allséttt. Hlaðinn garður lokar honum fyrir fé um 10 m. fyrir innan dyr. Til vinstri er niður að fara í annan hellir, sem er að mestu hruninn, svo myndast hefur jarðfall um 4-5 m. djúpt og 8-10 m. í þvermál. Það heitir Gjögur. Úr því er skammt í hellisbotn,“ segir í örnefnaskrá. Hellirinn er um 2,5 km vestan við bæ.
Hellirinn er í hraunmóa vestan í Fjallsenda. Stutt er upp í hellinn og framan við hann til vesturs er grasi gróið jarðfall, 2-3 m djúpt, um 5×10 m að innanmáli og snýr norðaustur-suðvestur. Hrunið hefur úr gólfi hellisins við innganginn og ekki er hægt að komast inn í fjárskýlið til að skoða það nánar. Hlaðni garðurinn sést ekki frá innganginum því hellirinn liggur í svolítinn sveig frá suðvestri til ANA. Hellirinn virðist vera um 1,5 m á hæð og um 2 m á breidd. Gólfið er slétt en hallar lítillega til suðvesturs. Hellirinn sem er vinstra megin (norðvestan) við fjárskýlið er gríðarstór en þakið á honum er hrunið ofan í hann. Afhellir liggur úr þeim helli til norðurs.

Hlíðarendahellir (fjárskjól)

Ölfus

Hlíðarendahellir.

„Yst undir Hellisbergi er Hellir, eða Hlíðarendahellir, ágætt fjárból. Hellirinn er sjávarhellir frá lokum ísaldar. Hefur um 40 m. langur veggur verið hlaðinn
upp með slútandi berginu. Kumltótt er þar neðan við Hellirinn,“ segir í örnefnaskrá. Hleðsla framan við hellinn og heytóft er um 1,8 km suðvestan við bæ
og um 790 m austan við Fjallsendahelli.
Undir slútandi berginu er mikill stórgrýtishaugur sem hefur hrunið úr bergveggnum og er gróinn. Haugurinn er um 5 m á hæð og ofan á honum er hlaðinn veggur sem myndar skjól með bergveggnum. Heytóftin er svo fast suðaustan við hauginn, neðan við hann.
Minjarnar eru á svæði sem er um 30×40 m að stærð og snýr norðaustur-suðvestur. Í lýsingunni hér á eftir verður hverri fornleif gefinn bókstafur til aðgreiningar.

Ölfus

Hlíðarendahellir – heytóft.

Hleðsla A er um 40 m löng og liggur eftir bergveggnum frá norðaustri til suðvesturs. Mesta hæð veggja innanmáls er um 1,5 m. Mest sjást 5 umför í hleðslum en þær eru víða fallnar inn í hellinn. Op er inn í fjárskýlið um 15 m suðvestan við norðausturenda. Mesta breidd skýlisins
innanmáls er um 3 m. Ekki sjást merki þess að hólfaskipting hafi verið innan þess. Heytóft B er um 20 m suðaustan við hleðslu A. Hún er grjóthlaðin og einföld. Tóftin er um 4×4 m að stærð og er op á henni í austurhorni. Tóftin virðist vera niðurgrafin, mesta hæð veggja er um 1 m og sjást 4 umför af hleðslu. Mikið af grjóti er hrunið inn í hana. Frá austurhorni tóftar liggur 15 m löng grjótröð C til norðurs upp í miðjar hlíðar stórgrýtishaugsins. Tilgangur hennar er óljós en ef til vill hefur verið hægt að ganga eftir henni upp í fjárskýlið til þess að forðast stórgrýtið sem er í brekkunni.

Fjárborg (Djúpudalaborg) (fjárskýli)

Djúpudalaborg

Djúpudalaborg.

„Fjárborg gömul er í Djúpadalshrauni, um miðja vegu milli þjóðvegarins og Djúpadals. Hún er borghlaðin, þ.e. hringlaga og veggirnir hallast lítilsháttar inn, um 3,5 til 4 m. á hæð, og um 5 m. í þvermál að innan. Dyr eru móti suðri, um 1 m. á hæð og geta tvær kindur gengið samhliða um þær. Veggirnir eru á annan metir á þykkt. Árið 1921 var hún alveg heil, en nú, 1967, er dálítið hrunið úr veggjunum á tveim stöðum, beggja vegna dyranna, aðallega að utan,“ segir í örnefnaskrá. Fjárborgin er um 3,7 km suðvestan við bæ.
Fárborgin er í fremur úfnu en grónu hrauni, skammt austan við malarnámu. Borgin er grjóthlaðin og stendur enn að langmestu leyti. Hún er um 9 m í þvermál og um 3 m á hæð. Þykkt veggja er um 2 m. Víða hefur hrunið úr utanverðri hleðslunni; sitt hvorum megin við dyrnar inn í tóftina og til norðausturs og norðvesturs en veggirnir eru heillegir að innan. Mest sjást 18 umför af hleðslu í veggjum og er flatt, fremur þunnt hellugrjót í hleðslum. Dyr eru inn í borgina úr suðri en þær eru 1,2 m á hæð og um 0,5 m á breidd. Ekki er sýnileg hólfaskipting innan borgarinnar en inn í hana hefur hrunið dálítið af grjóti.

Hlíðarendasel (sel)

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

„Á miðri leið frá Búrfelli inn að Geitafelli er Hlíðarendasel, í stefnu af Búrfelli á Hrútagil,“ segir í örnefnaskrá. Hlíðarendasel er um 2,8 km norðvestan við bæ. Stikuð leið liggur frá Búrfelli að selinu og áfram að Geitafelli og sameinast Ólafsskarðsvegi norðaustan við það. Selið er í kvos á milli þriggja allhárra krosssprunginna hraunhóla í mosa- og lyngivöxnum hraunmóa. Fjórar tóftir eru á svæði sem er um 35×31 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur.

Nes (býli)

Nes

1847: Bændaeign, 16 hdr. JJ, 76. 1313: Fyrst getið í máldaga, DI II, 378. 1379: Getið í Vilchinsmáldaga, DI IV, bls. 99. 1491-1518 í máldaga segir: „Kirkian j nese j Selvoge a Snothus viijc. ….kirkian nidri og hefur suo leingi verid.“ DI VII, bls. 48. 1508: Getið í kaupmálabréfi, þá metin á 60 hdr. DI VIII, bls. 230. 1525: Aftur getið í kaupmálabréfi: „Nes j selvogi lxxx c og þar til .xl. kugillda…“ DI IX, bls. 288. 1706: „Jarðdýrleiki lx og so tíundast fjórum sinnum.“ JÁM II, 444. 1961: Í eyði, sbr. Sunnlenskar byggðir III, bls. 487.
Túnakort 1920: Tún 9,7 ha., allt slétt. Matjurtagarðar 2794 m2. „Lýngrif til eldiviðar sem á Snjóthúsum. Þángtak til eldiviðar brúkast og, og er mjög af skorti. Rekavon er góð, en hvalrekann eigna menn Strandarkirkju. Sölvafjara misjöfn eftir því sem fært er. Fjörugös bjargleg heimamönnum. Heimræði árið um kring, en sæta þarf sjáfarfalli þá lenda skal. Engjar öngvar. Túninu grandar sandfjúk að ofan, en sjór að framan…Torfrista og stúnga verri en ill sem áður segir um Snjóthús, og er að þessu mikið mein bæði húsum og heyjum.“ JÁM II, bls. 445.

Nes

Nes um 1915 – sama mynd og að ofan.

Í Sunnlenskum byggðum segir: „Jörðin Nes er mjög landmikil en þurrlend. Efri hluti jarðarinnar er algróinn heiðargróðri en nær sjónum var fyrr á árum mikill uppblástur og sandfok; á síðari árum hefur það gróið allmikið. Fjörubeit hefur verið talin góð. Beitilandið er ógirt en stór hluti jarðarinnar liggur vel við trjáreka.“ Sunnlenskar byggðir III, 487.
„Bærinn stóð á Bæjarhól neðan við mitt tún. Þegar tvíbýli var í Nesi, voru bæirnir nefndir Austurnes og Vesturnes,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum segir um Austur-Nes: „Þar bjuggu Jón Jasonarson og Vilborg Gunnarsdóttir, bústýra, frá 1887-1919, síðan í eyði. Árið 1922 var fasteignamat ekki skráð.“ Jörðin fór í eyði árið 1961. Bærinn í Nesi stóð austarlega í túni og er bæjarhóllinn nú 40-50 m upp eða norður frá sjó. Austur- og Vesturnes hafa staðið á einum og sama bæjarhól. Í Sunnlenskum byggðum er mynd af gamla bænum í Nesi ásamt þinghúsi, sem stóð austan eða suðaustan við bæinn.
Í Nesi er stórt tún sem er ágætlega slétt, nú í órækt að hluta en slegið að hluta, norðan og norðvestan við bæinn. Tún virðist víða sandborið undir sverði.
Bæjarhóllinn er mjög stór, allt að 70 x 50 m og snýr austur-vestur en dregst heldur saman í vesturátt. Hæstur er hann vestast og þar eru miklar bæjarrústir en lækkar til austurs þar sem kirkja og kirkjugarður 002 hafa verið. Þar eru nú steinsteyptir veggir, leifar fjárhúsa og hlöðu sem voru með braggalagi. Sunnan og vestan undir bæjarrústunum hafa verið kálgarðar.
Samkvæmt risskorti sem fylgir með örnefnalýsingu var brunnurinn undir þaki og enn er reft yfir grjóthleðsluna kringum brunninn. Vatn er í honum en ekki ljóst hvað hann er djúpur. Innangengt hefur verið í brunnhúsið að sunnanverðu og þar liggja 2-3 grjótþrep niður að vatnsborðinu.
Veggir eru hlaðnir umhverfis nema að sunnanverðu og ná upp í allt að rúma 2 m upp fyrir vatnsborðið.
Brunnhúsið er ílangt og snýr norður-suður. Það er um 2 x 1 m að innanmáli. Reft hefur verið yfir með gömlum spýtum, plötur lagðar yfir og torf.

Neskirkja (kirkja)

Neskirkjugarður

Neskirkjugarður – v.m. við húsið.

„Fyrrum mun hafa verið kirkja í Nesi og staðið, þar sem nú er braggabygging, notuð síðast sem heygeymsla.
Legsteinar komu upp, þegar grafið var fyrir þessu húsi, og munu þeir vera þarna á hlaðinu,“ segir í örnefnalýsingu. Kirkju í Nesi er getið í ýmsum fornum máldögum en hún var aflögð árið 1706. NES Í SELVOGI (Á) -Maríu, Magnúsi jarli, Þorláki og Katerinu (STRANDARÞING) – ALKIRKJA. [1313]: forn maldage Mariu kirkia j Nese og hins helga magnvs jarls: og ins sæla Thorlaks biskups og hinnar helgv Katerynv meyiar er [Finnr] Biarnason liet giora. a xx hvndrvd j heima lande.og tiolld vmm kirkiv. smelltann kross og annann steindann. Alltarisklædi iij. kluckur iiij. og fimta brotna. kertastikur ij. og glodarker. elldbera. lysikolv. og Alltaris mvnnlavg. skiov. og stavckvl. og handklæde tuo. og peturs skrift. ij. kyr. a og kirkia. þar skal oc syngia messv hvern dag helgan. og annann huorn ottv song. Messa skal midvikudag oc favstudag j langafostv og so alla jmbrvdaga. fiogra marka leiga skal greida presti. og senda jafnann mann j mote honvm a vetvrinn. Tijvnd liggur þar til af heima monnvm og af Biarnastyodum. og halfer lysitollar. lofadur groptur heima monnum j Nesi og fatækum monnvm. lofadar erv þar allar heimilis tijder. Sijdan gafu þau finnr og þora mariuskrifer badar. Helga gaf altarisduk glitadann. og kross steindann. þetta gafst til sijdan Halfdän kom. asavdarkugilldi. Halfdan liet bæta brotnv klucku og keipte til kalek er stendur xj avra. Jarngerdur gaf til ravtt Alltaraklædi af silki. sotdrift yfer Peturs likneski. Jtem gafv þav Halfdan og Valgerdur og Jarngerdur kross er stendur yfer kordyrvm med tueim likneskivm. Jtem gaf Jarngerdur Refvil nyiann atta alna langann; Máld DI II 378 [Þessi hluti máld eflaust eldri, Þó pq 1269]. [um árs. sjá MML SAGA III, s. 473]

Neskirkjugarður

Neskirkjugarður.

[Erlendr sterki er talinn hafa búið í Nesi og dó 1312. Járngerður, var Þórðardóttir Böðvarssonar og var kona Erlends en Valgerður var dóttir þeirra og hefur Halfdan sennilega verið maður hennar. Finnur var sonur Bjarnar Hamra-Finnsonar, en Þóra hét systir Bjarna og var hún kona Þormóðs í Gufunesi. Það er óvíst að það sé sama Þóra og nefnd er í máld. Sú gæti eins verið systir eða kona Finns. Finnur Bjarnarson var af sömu kynslóð og Árni biskup Þorláksson (ÁSB, 4). JÞ stingur upp á því að Helga gæti verið systir Árna bps og að hún hafi verið kona Finns en þess er ekki getið í ÁSB. en á móti því mælir Eggert Briem sem bendir á að þau hjón hefðu þá verið að öðrum og þriðja – DI II 863].
1397: XCVI. Nes. Mariukirkia j Nesi j Selvogi. oc Magnus Eyiajarls. Thorlaks biskups oc Katerine a .xxc. j heimalandi. iij. kyr oc .vj. ær. tiolld vmm frammkirkiu med dvkumm. smelltann kross oc annann kross storann yfer dyrum med Mariulykneski oc Jons postula oc tuo rodukrossa. Mariuskriptter .ij. Pieturs lykneski. kluckur .v. ij. alltaraklædi med pell oc þridia med silki. messuserkur. hofudlyn. tvo brykarklædi. þridia firir Mariu med pell oc annad med fornt liereptt. vattzkietill. stockull. kirkiu läs stortt. kiertistikur .ij. kaleikur er vegur .xij. aura. sotdriptt yfer Pietursskriptt. paxspialld. sacrarium mvnnlaug. lysikola. læstan kirkiustol. corporalis hvs silkisaumad. glodarkier. glergluggar .iij. austann a kirkiunni. glitadur alltaradvukur .ij. handklædi. Þar skal syngia hvern helgann dag midvikudaga oc fostudaga vmm langafostv oc ymbrudaga. lvka .iiij. merkur presti oc sækia hann iafnann med hesti fra weturnottum til sumars oc reida hann heim apttur. lofadur gropttur heimamonnum oc fatækum monnum j Nesi. tyund liggur þar til heimamanna oc af Biarnastodum. Hun aa j syna portionem sydann Arni heitinn kom þar oc atti jordina oc bunad aa .xxc. oc .cc. Erlingur Jonsson [sagdi] ad kirkian j Nesi skylldi eiga .vjc. j þwfulandi þar til sem hann leisti vr .ij. kugilldi .cc. vadmala .ijc. j vide. enn .xij. alnar fyrer .c. j leiguburd þar til sem leist er vr jordunni.; Máld DI IV 99.

Neskirkjugarður

Neskirkjugarður – afstöðumynd.

[1491-1518]: Byskups stephans maldagi. Kirkian j nese j Selvoge a Snothus viijc. eirn kalek. iij kluckur. þar liggur til eirn Bær ad halfv. og fellur nv half mork. kirkian nidri og hefur suo leingi verid. Máld DI VII, 48 [AM 263 fol, bl. 55]. 8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Neskirkju sem “war komin ad nidurfalli” og lofaði “Erlindur at lata innstædu til neskirkiu” – DI
IX, 159.
23.6.1547 kvittar Erlend Þorvarðsson lögmann “af þui misferli sem hann hefur matt brotligur vm werda. i uidskiptum þeiRa pals eyiolfssonaR i kirkiunne i nesi i seluogi.” DI XI, 558.
1575: CLXXXV. Nes. Kirkian i Nese i Selvoge ä xxc. i heimalande. Jtem var i kirkiunne ein messuklæde. eitt vondtt glödarkier. iij koparpijpur. Jtem iij kluckur. kross lijtill. Máld DI XV 642.
{1598: hálfkirkja; AM 263 fol. bl. 53, 55}
1702: Jón Jónsson bónd í Nesi [d. 1702] “Byggði hér skemmu úr kirkjutóftarrústinni frá forntíð og var að bón hans grafinn í skemmunni.” SSÁ, 228 nm.
eftir 1706: Kirkja lögð niður; (PP, 95) Kirkja og kirkjugarðar hafa verið fast austan við bæ, á austurhluta bæjarhóls.
Grösugur bæjarhóll með miklum byggingaleifum, steypu, timbri og bárujárni. Bæjarhóllinn er hæstur vestast en tekur að lækka talsvert á þessum stað.
Engin ummerki sjást um kirkjugarðinn á yfirborði en þó er minnismerki til vitnis um hann. Það er afgirtur reitur, um 2,5 m á kant og tvöföld vírgirðing utan um hann. Innan girðingar er steinkantur og möl á bletti innan hans og liggja þar þrír legsteinar, væntanlega þeir sem komu upp þegar grafið var fyrir stóra útihúsinu sem enn sjást leifar af fast austan við þennan stað. Syðst er lítill steinn með íhöggnu krossmarki, þá ílangur steinn sem einnig er með krossmarki og hring um það. Þriðji steinninn er mjög mosavaxinn. Að öðru leyti sjást engin merki um kirkjugarðinn, hvorki leiði né kirkjurúst. Gríðarlegt rask hefur verið austast á hólnum, austan við minnismerkið vegna umræddrar byggingar. Þó er rétt að taka fram að suðaustasti og lægsti hluti hólsins er með mjög reglulegri brún þar sem örlar á grjóti á nokkrum stöðum. Ekki er útilokað að þar sé brún kirkjugarðsins.

Austurbúð (sjóbúð)
„Tvær sjóbúðir munu hafa verið í hlaðinu í Austurnesi, Austurbúð og Vesturbúð, en það var fyrir minni Eyþórs [Þórðarsonar],“ segir í örnefnalýsingu Ness. Nú er ekki ljóst hvar þessar sjóbúðir hafa verið en er sennilegt að það hafi verið skammt sunnan eða austan við bæjarhól.
Grasi gróið svæði. Ekki sést til stakra tófta þar sem bæjarhól sleppir og raunar ekki hægt að útiloka að búðirnar hafi staðið á sjálfum hólnum.

Nesbrunnur (brunnur)

Nesbrunnur

Nessbrunnur.

„Nesbrunnur eða Austurnesbrunnur er í Suðurtúni, beint suður af tröðunum. Hann er til enn, alltaf fullur af vatni,“ segir í örnefnaskrá. Nesbrunnur er í túni 20-30 m beint suður af bæjarhól.
Grösugt tún. Holsteinshús var byggt yfir brunninn, væntanlega á síðari hluta 20. aldar, og er nú hálfhrunið. Þórður Sveinsson minnist þess að brunnurinn hafi verið ákaflega djúpur.

Nessjóbúð (sjóbúð)

Nes

Nes – sjóbúð.

„Upp af vörinni eða vestar voru þrjár sjóbúðir. Sést líklega fyrir þeim enn….“ segir í örnefnalýsingu. Á bls. 1 í sömu lýsingu segir: „Síðustu sjóbúðir í Nesi voru niðri á kampinum, og sér fyrir þeim enn,“ og er líklega átt við sama stað. Hleðslur sem væntanlega eru leifar af þessum búðum eru beint upp og vestur af vörinni og rúma 40 m suðvestur af bæjarhól. Á risskorti sem fylgir með örnefnalýsingu eru merktar sjóbúðir og fjárhús á þessum stað og líklegt að þær hafi verið sambyggðar, jafnvel að sum hús hafi verið notuð bæði sem sjóbúðir og fjárhús.

Nes

Nes – sjóbúð.

Fremst á sjávarkampi sem er grasi vafin. 6-10 m eru frá tóftaleifunum fram að bakka en þaðan lækkar land skarpt niður í fjöruna sem er grýtt.
Minjar á þessum stað eru ákaflega brotakenndar, sennilega vegna þess að brotnað hefur framan af stærstum hluta tóftanna og eftir er einungis bakveggur á mörgum, sambyggðum húsum. Ekki er óhugsandi að framhluta minjanna hafi verið rutt út. Alls ná mannvirkjaleifarnar yfir svæði sem er um 25 x 5 m stórt og snýr austur-vestur. Gera má ráð fyrir að dyr búðanna hafi snúið að sjónum, til suðurs, en nú er erfitt að segja til um hve margar þær hafa verið eða hversu stórar. Leifarnar sem sjást eru þykkur bakveggur sem er nokkuð beinn og gróinn að norðanverðu en á suðurhliðinni sjást glompur og lægðir sem væntanlega eru leifar af norðurenda hólfa sem hafa verið í rústalengjunni. Af því sem nú sést má ætla að lengjan hafi skipst upp í að minnsta kosti 4 hólf. Austasti parturinn tekur yfir um 6 m af heildarlengd tóftarinnar og er heillegasti parturinn af henni. Hann er alls 4-5 m þykkur. Í honum miðjum er líkt og skora eða göng frá norðri til suðurs, vel hlaðin og steypt í bland. Hæð er allt að 1,8 m ef staðið er inni í skorunni. Norðan við þetta hólf eru leifar af hólfi sem hefur verið breiðara, allt að 4 m að innanmáli. Þá koma óljósar leifar tveggja hólfa norðan við miðja tóft. Í því nyrsta er mikið grjót en annars er tóftin að mestu leyti veg grasi gróin. Að lokum má geta þess að óljós hleðslubútur er um 15 m suðvestur af vesturenda tóftarinnar.

Nesborgir (fjárskýli)

Nesborgir

Nesborgir í Selvogi.

„Vestar á kampinum voru Nesborgir, þrjár fjárborgir. Vestasta borgin fór í flóðinu mikla 25. febr. 1925, og nú eru allar farnar, hinar fóru í síðasta flóði,“ segir í örnefnalýsingu.
Þrátt fyrir yfirlýsingar í örnefnaskrár er enn töluvert eftir af tveimur fjárborgum á kampinum um 200 m vestur af bæjarhól. Engin merki sjást hins vegar um þriðju borgina. Grösugur sjávarkampur, allt að 2 m hár bakki niður í fjöru.
Veglegar leifar af tveimur fjárborgum en ljóst að sjór étur sífellt af þeim. Borg sem hér er nefnd A er austar. Ætla má að um helmingur hennar sé farinn, þ.e. hruninn en útflött grjótdreif er á kampinum í framhaldi af veggjunum sem enn standa. Innanmál borgarinnar hefur verið um 11 m en veggjaþykkt þess hluta sem uppi stendur er á bilinu 2-3 m og þvermál að utanverðu því allt að 18 m. Hleðslan er með stalli að utanverðu sem er um 80 cm hár en annars er hleðslan, ef staðið er inni í borginni, allt að 2 m há. Hugsanlega hefur stallurinn átt að gera hleðsluna traustari en hún er úr fremur ávölu fjörugrjóti og því hætt við hruni. Hleðslur sem eftir eru standa vel þótt skarð sé í á einum stað.

Snjóhús/Snjóthús/Snjólfshús (býli)

Snjóthús

Snjóthús.

Í máldaga kirkjunnar í Nesi 1491-1518 segir:“Kirkian j nese j Sevoge a Snothus viijc….“ Í örnefnalýsingu segir: „Austast á kampinum var bær, sem hét Snjóhús. Bær þessi var kominn í eyði löngu fyrir minni Eyþórs. Þegar hann man eftir, voru öll hús fallin, en kálgarðar voru í tóftunum, kallaðir Halldórsgarðar.“ Talin meðal eyðihjáleiga í Neshverfi 1840 í sóknarlýsingu. Í neðanmálsgrein í Jarðabók Johnsen er vísað í Jarðabók Árna og Páls um dýrleika Snjóthúsa en jafnramt segir um bæinn: „…sem þegar 1803 hlýtur að hafa verið í eyði.“ Eini staðurinn sem virðist koma til greina sem Snjóhús er um 150 m vestan við Selvogsvita núverandi og um 700 m austur af bæjarhólnum í Nesi en þar sést þústarhóll.
Á sjávarkampi. Grjót gengur yfir hólinn og allt um kring. Engar leifar sjást af túnstæði í kring heldur er jarðvegur nánast enginn, berar klappir og flög. Lítill hóll en greinilegur og grænni en umhverfið. Hann er alls um 20 m í þvermál, óreglulegur og hallar dálítið mót vestri, mest um 1,5 m hár en víðast hvar er hann þó lægri. Smástallur gengur út úr hólnum til austurs, um 15 x 8 m stór frá norðri til suðurs, flatur og lægri en hóllinn, gæti veri kálgarður. Norðurbrúnin á honum er upphlaðin með fjörugrjóti sem og kanturinn á hólnum í framhaldi til norðurs og norðvesturs. Annar hugsanlegur stallur gæti hafa verið vestan til í hólnum. Þetta eru líkast til kálgarðarnir, Halldórsgarðar, sem hafa verið í notkun löngu eftir að byggðin lagðist af.

Selvogsviti/Nesviti (viti)

Nesviti

Nesviti – leifar gamla vitans, sá nýi fjær.

„Selvogsviti var reistur fyrst framarlega á klöppunum, en síðar færður ofar, þangað sem hann stendur nú. Eldri vitinn var stálgrindarviti, en nýi vitinn er steyptur,“ segir í örnefnalýsingu. Á heimasíðu sveitarfélagsins Ölfuss segir: „Selvogsviti var byggður árið 1919 og endurbyggður árið 1931. Ljóshæð yfir sjó er 20 m. Árið 1919 var 15 metra há járngrind reist á Selvogstanga. Á hana var látið 3,3 metra hátt ljóshús og 200°díoptrísk1000 mm linsa og gas-ljóstæki. Inn á milli hornstoða grindarinnar var komið fyrir steinsteyptri gashylkjageymslu en efst undir svölum var skýli utan um stiga upp í ljóshúsið. Vitinn var sömu gerðar og Stokksnesviti sem reistur var árið 1922. En eftir aðeins rúm 10 ár var vitinn orðinn svo ryðbrunninn að nauðsynlegt reyndist að byggja nýjan vita.

Nes

Nesviti/Selvogsviti gamli.

Árið 1930 var byggður 15,8 m hár vitaturn úr steinsteypu. Ári síðar voru sett á hann ljóshús, linsa og gasljóstæki járngrindarvitans og hinn nýi Selvogsviti tekinn í notkun. Árið 1987 voru veggir ljóshúss endurnýjaðir. Vitinn var raflýstur ári síðar og settur á hann radarsvari.“ Nú er ljós látið loga á vitanum af öryggisástæðum en radíósendir efst á honum er þó það sem mestu máli skiptir nú orðið.“ Enn sjást leifar af gamla vitanum á klöppum sem ganga fram í sjó um 100 m suður af núverandi vita. Hann á enn örfá á eftir til að teljast lagalega séð til fornleifa (þar sem miðað er við minjar 100 ára og eldri) en leifarnar eru þó sérstæðar og merkilegar.
Gróðurlausar, ósléttar hraunklappir. Á klöppunum sést steypt plata, 20-30 cm þykk, ofan á grjóthnullungum. Hún er illa farin og töluvert brotið af. Mikið er af grjóti í steypunni en platan er alls um 3 x 2,5 m stór frá austri til vesturs. Við hana eru steyptir stöplar, þrír að austan, tveir að vestan og járnfleygur í þeim stöplum fjórum sem næstir eru hornunum sem líklegt er að horn stálgrindavitans hafi verið boltuð í.

Kirkjugarður (legstaður)

Nes

Nes – legsteinn.

Samkvæmt Þórði Sveinssyni fundust mögulegar leifar af dys vestan við Kvennagönguhól á árunum fyrir 1940.
Fornagata lá um á þessum slóðum. Á staðnum fundust mannabein og hnappar, líklega úr kopar. Á heimasíðu FERLIS er eftirfarandi haft eftir Þórði: „Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.“ Ekki var farið á staðinn sumarið 2013, enda ekki vitað nákvæmlega hvar þetta var. Þetta er þó væntanlega uppi á háheiðinni, suðaustan við Hnúka og sunnan við veginn um heiðina sem nú er nýaflagður eftir að hinn nýi Suðurstrandarvegur var tekinn í notkun.
Miklar sandöldur eru á þessum slóðum og sumstaðar lyngbörð, land almennt lítið gróið.

Nessel (sel)

Nessel

Nessel.

„Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurlökkum),“ segir í örnefnaskrá. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1706 segir um sel frá Nesi (og er líklega átt við sama stað): „Selstaða vatnslaus sem áður segir um Snjóthús.“ Ef farið er eftir Krýsuvíkurvegi um 1,7 km til suðvesturs frá pípuhliðinu á mörkum Ölfuss- og Selvogshrepps og þá beygt vinkilrétt til suðausturs og farið um 180 m út af veginum, er komið að Nesseli.
Umhverfis er vel gróið hraun, mikill mosa og lyngivöxtur. Svæðið umhverfis selið er býsna grösugt. Hraunstrýtur eða klappir standa víða upp úr gróðrinum. Á þessu svæði eru fimm tóftir.

Nesselstekkur (stekkur)

Nesselsstekkur

Nesselsstekkur – uppdráttur.

Um 240 m suðaustur frá Nesseli 032 er jarðvegstorfa með tóftum á. Umhverfis jarðvegstorfuna er hálfgróið hraun þar sem hraunstrýtur stingast upp úr sverði eða sandi. Jarðvegstorfan er um 25 x 15 m stór og snýr norður-suður. Hún og rís 1 -1,5 m úr umhverfinu. Ógreinileg tóft er á miðri torfunni og önnur í norðvesturhorni. Tóftin í miðjunni er tæpir 8 X 4 m að stærð og snýr norður-suður. Tóftin er tvískipt og er nyrðra hólfið alveg opið til norðurs og er töluvert stærra en syðra hólfið. Mikil sina og mosi er í tóftunum. Syðri tóftin er harla stekkjarleg og ekki er ósennilegt að þessar tóftir standi í sambandi við Nessel því fjarlægðin frá bæ, Nesi, eru rúmir 8 km. Hugsanlega gæti verið um stekk frá Nesseli að ræða.

Hellisþúfa (býli)

Hellisþúfa

Hellisþúfa.

„Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó,“ segir í örnefnalýsingu. Í ritinu Frjálsri þjóð þann 9. janúar 1960 segir frá Gísla búmanni sem helst var þekktur fyrir að reisa bæi sína fjarri alfaraleiðum. Meðal annars byggði hann fyrstur bæ austan í Hestfjalli í Grímsnesi sem við hann var kenndur og nefndist Gíslastaðir. Áður en hann kom þangað reisti hann bæ við Hellisþúfu, en áður hafði hann búið austur í Skaftafellssýslu. Þetta mun hafa verið 1847 eftir því sem næst verður komist en 1849 flytur Gísli austur í Grímsnes svo að ekki hefur búsetan verið langvinn.

Hellisþúfa

Hellisþúfa – uppdráttur.

Orðrétt segir: Á dálitlum hnjótum á Selvogsheiði, mitt í gráu hrauni, var látið staðar numið. Þar var skýlum hrófað upp og hafizt handa um búskap. Og það var ekkert fámenni, sem ætlaði sér að lifa af stráunum, sem uxu þarna innan um hraungrýtið. Gísli búmann hafði þegar á fyrsta ári níu manns í heimili. Þetta undarlega nýbýli var ýmist nefnt Hellisþúfa eða Heiði.“ Hellirinn sjálfur er raunar ekki í Hellisþúfunni heldur í litlum hól sem er fast suðaustan undir henni. Hellisopið er lágt og lítið áberandi, snýr móti vestri eða norðvestri. Framan við það er greinilega rústahóll, væntanlega leifar af bæ Gísla búmanns. Hóllinn er bungumyndaður og greinilegur og verða að teljast býsna miklar leifar eftir svo skamma búsetu, en hún varði aðeins í um 2 ár ef marka má frásögnina sem vitnað var til hér að framan.
Sennilega hefur hellirinn verið hafður fyrir skepnur eða jafnvel sem geymsla.
Samkvæmt handriti Konráðs Bjarnasonar var Hellisþúfa vinsæll áningarstaður.

Fótalaus (áletrun)

Fótalaus

Fótalaus – „LM“.

„Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í [Stóra-Hásteini]. Þar við hann er klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns,“ segir í örnefnalýsingu. Hásteinar eru skammt norðan við gamla þjóðveginn, um 4 km NNA af bæjarhól. Sunnan í Hásteinum er gamall og hrörlegur sumarbústaður sem hægt er að aka upp að.
Há hæð, að mestu gróin, með áberandi, jarðföstum klettum í toppi. Áletrunin fannst ekki í fyrstu tilraun. Varða er hinsvegar á merkjum, á klöpp eða lágum klettahól sem er eiginlega klofinn í tvennt austan við hæsta Hásteininn. Hún er ekki mikil um sig, 4-5 umför af hleðslum sem ná um 1,5 m hæð að klettinum meðtöldum. Steinarnir eru býsna mosavaxnir. Girðingarstaur stendur upp úr vörðubrotinu og hleðsluleifar undan girðingu, sem hefur þá verið á merkjum milli bæjanna tveggja, sjást í framhaldinu til suðurs. Ferlirsmönnum hefur tekist að finna áletrunina.
Á heimasíðu þeirra segir: „Haldið var í Selvog.
Staðnæmst var við Bjarnastaðasel. Einn FERLIRsfélaga hafði greinilega unnið heimavinnuna sína og rætt við heimamenn. Hann gekk rakleiðis að klöppinni Fótalaus suðaustan selsins og benti á stafina „LM“, sem klappaðir voru þar. Upp úr klöppinni stendur landamerkjahornstaur bæjanna Ness og Bjarnastaða. Áletrunarinnar er getið í gömlum heimildum, en erfiðlega
hefur gengið að finna hana þangað til nú.“

Nesstekkur (stekkur)

Nesstekkur

Nesstekkur.

„Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða… Við Nesstekk er Nesstekkatún.“ Á heimasíðu Ferlirs er sagt frá tóft sem gæti verið Nesstekkur: „Ekki er óvarlegt að ætla að Nesstekkur geti verið tvískipt tóft norðan í Fornugötu, örskammt vestan við gatnamótin. Sú tóft hefur ekki verið skýrð og hennar virðist ekki vera getið í örnefnaskrám. Ef þetta er Nesstekkur er hann í Neslandi, svo til alveg við mörkin.“ Tóft sem virðist koma heim og saman við þessa lýsingu er um 2,4 km NNA af Nesi, 200-300 m vestan við gamlan vegarslóða sem Þórður Sveinsson kallar Sandkallaveg, enda farinn af þeim köllum sem sóttu sand í námur. Sá vegur liggur til suðurs frá gamla veginum um Selvog sem nú er nýaflagður.
Sandfylltir hraunhólar og móabörð. Gömul gróðurbunga, nú sandalda með þunnri lyngslæðu, er fast austan við. Falleg og heilleg grjóthlaðin tóft en hún er heldur ankannaleg þarna í auðninni þar sem varla er stingandi strá. Réttin er ferköntuð og snýr norður-suður, er um 19 x 5,5 m stór. Hún er hlaðin úr hraungrýti og standa veggir sæmilega, suðurgafl þó best, allt að 4-5 umförum og er um 0,6 m hár. Rekið hefur verið inn að norðaustan og þar er aðrekstargarður til austurs í framhaldi af norðurgafli tóftar, allt að 7-8 m langur. Tóftin er hálffull af sandi en norðan við miðbik hennar skín í berar hraunklappir í botni.

Geitafellsrétt (rétt)

Geitafellsrétt

Geitafellsrétt.

„Austur af Hnúkum er komið á svæði, sem einu nafni er kallað Gjárnar eða Á Gjánum. Þetta svæði er milli Hnúka og Geitafells. Um það liggja gjár, sem það dregur nafn sitt af. Þær liggja allar í sömu ár, frá Geitafelli… Vestar og nær Geitafelli er Réttargjá. Við hana var áður fyrr rétt, Geitafellsrétt, austur undir Geitafelli. Það var fyrrum aðalrétt Selvogsmanna og Ölfusinga.“ Geitafellsrétt er rúma 11,5 km norðaustan við bæ og rúma 800 m suðvestan við tóft. Á heimasíðu FERLIRS segir: „Geitafellsrétt (Selsvallarétt) er undir Réttargjá þar sem hún rís hæst. Um er að ræða nokkra dilka og almenning. Veggirnir standa nokkuð heillegir. Þegar Geitafellsrétt var aflögð um aldamótin 1900…“.
Umhverfis réttina er grasivaxið svæði. Til vesturs rís hamraveggur gjárinnar. Mosavaxið hraun er til austurs. Réttin er 34×20 m að stærð, snýr norðursuður og er í aflíðandi halla til austurs. Hún skiptist í fimm hólf og aðrekstrargarð. Réttin er sem fyrr segir hlaðin upp við vesturvegg Réttargjár og er grjóthlaðin. Veggirnir eru 0,5-1,2 m á hæð og má sjá 3-5 umför grjóthleðslu í þeim.

Páls Hjáleiga (býli)
„Pals Hialeiga, fimta hjáleiga, so kölluð af þeim, er nú býr á, hefur oft skift um nöfn eftir ábúendum,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Pálshjáleiga hefur verið.

Ormshjáleiga (býli)
„Orms Hialeiga, sjötta hjáleiga, kend við þá er í búa,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Ormshjáleiga hefur verið.

Stéttarkot (býli)
„Stiettarkot, sjöunda hjáleiga,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Stéttarkot hefur verið.

Brinkahús (býli)
„Brinkahús, áttunda hjáleiga, so kölluð eftir þeim er á býr. Bygð innan xl ára og hefur skift nöfnum eftir því sem ábúendur hafa skifst,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Brinkahús hafa verið.

Borgarkot (býli)

Nes

Nes og nágrenni – örnefni (ÓSÁ).

„Borgarkot, níunda hjáleiga, bygð fyrst innan xx ára, þar sem aldrei hafði fyrri býli verið,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Borgarkot hefur verið. Þó er ekki ósennilegt og það hafi verið á sömu slóðum og Borgarhóll, jafnvel sami hóll – þá beint vestan við Bartakot.

Sporakot (býli)
„Sporakot, tíunda hjáleiga afgömul,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Sporakot hefur verið.

Jóns hjáleiga (býli)
„Jóns Hialeiga, þriðja býli af fyrrnefndum xiii og xl álnum, hefur oft skift um nöfn og kend verið oftast við ábúendur, annars hefur hún verið að fornu kölluð Hellukot, og þriðja nafni Krokur,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar hjáleigan stóð.

Marcusarkot (býli)
„Marcusarkot var fyrir þrettán árum bygt, hjáleiga af Snjóthúsum, varaði bygðin ekki fult ár og mun síðan aldrei byggjast,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Ætla má að hjáleigan hafi staðið nokkur hundruð metrum austan við tún í Nesi, einhversstaðar í námunda við Snjóthús. Nú sjást engin ummerki þar í kring og ekki er vitað hvar hjáleigan hefur staðið.

Árnahjáleiga (býli)
„Afbýlismaður í afdeildum bæ, sem kallaður var Arnahialeiga og telst xiii og xl álnir af heimajörðinni,“ segir í Jarðabók Árna og Páls 1706. Nú er ekki vitað hvar Árnahjáleiga hefur staðið.

Vörðubakka (býli)
„Fyrir ofan vita [Selvogsvita] voru áður Vörðubakkar. Þar voru gömul tún, sem höfðu blásið upp; var þar áður fyrr býli. Bakkar þessir eru nú horfnir,“ segir í örnefnalýsingu. Bakkarnir hafa væntanlega verið norður af vita.
Þar er lítt gróið, sandfyllt hraun. Engar leifar sem telja mætti af býli fundust á þessum slóðum. Hugsanlega gæti verið átt við sjálf Snjóthúsin eða jafnvel Markúsarkot.

Rétt (aðhald)

Fornagata

Rétt við Fornugötu.

Rúst af gamalli rétt er austan undir Strandarhæð, um 130 m norðan við gamla þjóðveginn um Selvog. Þetta er um 2,8 km NNA af bænum í Nesi. Rústin er hlaðin á töluvert uppgrónu hrauni, norðvestan við stórt, hringlaga og algróið jarðfall sem í sjálfu sér hefði verið ágætt aðhald. Norðvestan við réttina eru greinilega leifar af gamalli götu sem var rakin í átt að Strandarhæð. Það mun vera Fornagata.
Grjóthlaðin, einföld rétt sem er næstum því perulaga. Hún er 14 x 10 m stór en mjókkar til norðurs og er um 7 m breið nyrst. Þar ganga hleðslur út frá báðum hornunum, annars vegar um 5 m til norðvesturs og hins vegar um 10 m til norðausturs. Báðar hleðslurnar ná að götunni fornu sem sést vel á þessum stað, er um 2 m breið með moldarbotni. Ekki er að sjá að hlaðið hafi verið meðfram götunni þótt þar sé grjót á stangli. Hleðslur í réttinni eru að mestu fallnar, mest sjást 2-3 umför grjóts í vesturhliðinni og er hún um 0,3 m há. Hugsanlegt er að hlaðið hafi verið hólf sunnan við réttina, á barmi jarðfallsins en þar er allt gróið og of óljóst til að hægt sé að fullyrða um það. Ofan í jarðfallinu, sem er slétt og vel grasi gróið, eru miklar dældir á tveimur stöðum og ekki óhugsandi að þær séu mannaverk.
Ekki er þekkt nafn á þessari rétt.

Salthóll (býli)
Salthóll er talinn meðal eyðihjáleiga í Neshverfi í sóknarlýsingu 1840. Nú er ekki vitað hvar hjáleigan hefur verið.

Imphólarétt (rétt)

Imphólarétt

Imphólarétt.

„Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin,“ segir í örnefnalýsingu. Rétt sem nú er þekkt sem Imphólarétt er ennþá til. Hugsanlega hefur eitthvað skolast til við gerð örnefnaskrár eða nafnið hefur flust eða verið endurnýtt á öðrum stað. Réttin er um 360 m sunnan við rétt sem nýaflagður þjóðvegur í Selvog liggur í gegnum og um 3,8 km norðaustur af Nesi. Hálfgróið hraun, mjög sandfyllt á köflum. Sléttar og sæmilega grónar lágar eru norðvestan og vestan við; um þær liggur gamall bílvegur sem nú er ógreinilegur og yfirgróinn á þessum slóðum.
Greinileg rétt, hlaðin norðvestan undir aflöngum hraunhrygg í smáhalla. Hlaðið er úr stóreflis hraungrýti og sést víðast hvar bara ein steinaröð. Engin gróska er í veggjum og lítur út fyrir að réttin hafi ekki verið lengi í notkun.
Réttin er um 19 x 8 m stór og snýr norðaustur-suðvestur en mjókkar til norðausturs. Lítið er hlaðið austanmegin og hefur hryggurinn þar þjónað sem aðhald – aðeins sjást stöku steinar á stangli. Op er nyrst að vestanverunni. Þeim megin vottar fyrir görðum, líklega aðrekstrargörðum, bæði nyrst og vestast og er hvor um sig 8-10 m langur. Þessir garðar gætu líka hugsanlega verið leifar af öðru hólfi. Hleðslur ná mest um 0,5 m hæð og er ekkert hrun að ráði utan eða innan veggja, því ekki að sjá að hleðslur hafi verið háar. Ekki er vitað hvenær þessi rétt var í notkun en hún gæti hugsanlega verið rúningsrétt eða jafnvel stekkur.

Refagildra (gildra)

Nes

Refagildra.

Hleðsla, sem virðist við fyrstu sýn vera varða, er um 2,4 km norðaustur af Nesi, milli gamla og nýja vegarins um Selvog. Hún er vestan við slóða sem Þórður Sveinsson kallar „Sandkallaveg“, en hann var lagður frá gamla þjóðveginum sem nú er nýaflagður og til suðurs, út á sandfyllt hraun.
Grýttir hraunhólar og sandöldur. Hleðslan sést ágætlega að úr fjarska þótt ekki standi hún hátt. Sæmileg hleðsla, líkt og varða, næstum ferköntuð í grunninn, um 1 m á kant og 0,8-0,9 m á hæð og virðist ekki hafa verið mikið hærri en það. Þegar betur er að gáð sést grilla í stokk undir vörðunni og því er líklegt að hér sé komin refagildra. Hann er opin mót norðvestri, er um 0,8 m langur, 30-40 ám á kant.

Fornagata (leið)

Fornagata

Fornagata á Strandarhæð.

„Ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi,“ segir í örnefnalýsingu. Svo virðist sem nafnið á götunni hafi færst yfir á klöppina eða öllu heldur sprunguna, sem kölluð er Götugjá. Fornagata sjálf liggur nokkurn veginn frá austri til vesturs og sést til dæmis norðan við þjóðveginn um Selvog, sem nú er nýaflagður eftir að hinn nýi Suðurstrandarvegur kom til sögunnar og var rakin á nokkrum kafla. Gatan liggur um hálfgróið hraun.
Gatan er mjög áberandi fast norðan við réttarrúst, þar allt að 2 m breið og auðveldlega hægt að rekja hana góðan spöl bæði til austurs og vesturs. Réttin áðurnefnda liggur á barmi gróins jarðfalls og ef hún er rakin 20-30 m til vesturs liggur hún þar á barmi annars jarðfalls. Þar er gatan raunar líkari ruddum vegi á kafla, allt að 2 m breið og vottar fyrir hleðslum við hana. Vestar hefur hún hefur væntanlega tengst götum sem áður hafa verið skráðar þar og eru kallaðar Alfaraleið. Til austurs mun gatan hafa legið neðan eða sunnan við Hellisþúfu, hjá Kvennagönguhól og svo væntanlega hjá Ferðamannshól, en um hann segir í örnefnalýsingu: „Rétt hjá Kvennagönguhól er Ferðamannshóll, sem er niðri í sandgræðslu-girðingunni. Þar er uppblásið. Gamli ferðamannavegurinn lá með hólnum og sást austur af, er komið var að honum.“

Selsvellir (sel)

Selsvellir

Sel við Selsvelli sunnan Geitafells.

Tóftin á Selsvöllum er 12,7 km norðaustan við bæ og rúma m norðaustan við Geitafellsrétt. Örnefnið Seljavellir er þekkt sunnan við Geitafell og má leiða líkur að þetta séu tóftir selsins eða tengist henni.
Á heimasíður FERLIRS segir: „Þegar komið var upp á Selsvelli var svæðið leitað mjög vel m.t.t. hugsanlegra mannvistarleifa. […] Heimildir eru um að Selsvellir hafi verið slægjuland frá Nesi, en líklegt má telja að Nes eða Strönd hafi haft þar tímabundið í seli eins og minjar þessar benda til.“
Leið liggur fast vestan við tóftina, á milli hennar og hamraveggs Réttargjár. Grasivaxið svæði vestan við hraunhól. Allt umhverfis er gróið hraun. Tóftin er hlaðin vestan undir stórum hraunkletti sem afmarkar alla austurhliðina. Hún er í aflíðandi til halla til vesturs, niður frá hólnum. Tóftin er 9×4 m að stærð, grjóthlaðin og snýr norður-suður. Hún skiptist í fimm hólf.

Hjáleður (býli)
1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ, 77.
Túnakort Leðurs um 1920 [ártal vantar]: Tún 1,3 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 421 ha.
gömul bygging sem stendur enn tóft mörk túns og garða skv. túnakorti.

Stóra-Leður (býli)

Stóra-Leður

Stóra-Leður.

Dýrleika hjáleigunnar er ekki getið í Jarðatali Johnsens frá 1847. „Austast í Hátúni var Stóra-Leður. Þar sjást enn tóftir, upp við túngarðinn,“ segir í örnefnalýsingu Ness. Í Sunnlenskum byggðum III, segir: „Stóra-Leður (Hjáleður). Þar bjuggu Jón Jónsson og Ragnheiður Þorbjörnsdóttir, bústýra, 1875-1919. Ásmundur Guðnason og Margrét Vigfúsdóttir, bústýra, 1919-1934. Síðan í eyði.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Bæjarhóllinn sem og tóftir bæjarhúsanna eru óröskuð innan heimatúns Ness, í austurhorni þess. Allt umhverfis Stóra-Leður eru slétt, grasivaxin tún. Bæjarhóllinn er innan gamla heimatúns Ness sem er slétt og grasivaxið. Þar fer land hækkandi til norðurs, frá fjörunni. Bæjarhóllinn á hólrima og sker sig vel úr nánasta umhverfi.
Bæjarhóllinn er 30×24 m að stærð, 1,6 m á hæð og snýr norður-suður. Tóftir bæjarhúsanna eru á hólnum og ekki sér til annarra mannvistarleifa utan þeirra.
Mögulegt er að hóllinn hafi verið stærri en eldri hlutar horfið vegna túnasléttunar. Bæjartóftin er 30×20 m að stærð og snýr norður-suður. Samtals eru 11 hólf í bæjartóftunum.

Litla-Leður (býli)

Litla-Leður

Litla-Leður.

„Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Það var við hliðið, þar sem var farið austur að vita. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út,“ segir í örnefnalýsingu Ness. Í Sunnlenskum byggðum III, segir: „Litla-Leður (Hjáleður). Þar bjuggu síðast Filippus Guðmundsson og Guðrún Friðriksdóttir bústýra, 1888-1904. Síðan í eyði. Árið 1922 er fasteignamat ekki skráð.“
Litla-Leður er 150 m sunnan við StóraLeður, austarlega innan gamla heimatúns Ness. Rúmum 30 m austan við bæjarstæðið er túngarður. Ennþá mótar fyrir uppsöfnuðum mannvistarlögum á bæjarstæðinu þrátt fyrir túnasléttun. Fyrir vestan bæjarstæðið er greinileg laut í túninu. Bæjarstæðið er í sléttu, grasivöxnu túni, beint austan við bæjarhól Ness.
Mikið rask sökum túnasléttunar hefur átt sér stað á bæjarstæðinu. Þó mótar enn fyrir þúst og veggjabrotum.
„Í Austurtúni neðst var hjáleigan Litla-Leður. Það var við hliðið, þar sem var farið austur að vita. Tóftir Litla-Leðurs hafa nú verið sléttaðar út,“ segir í örnefnalýsingu Ness.
Í Sunnlenskum byggðum III, segir: „Litla-Leður (Hjáleður). Þar bjuggu síðast Filippus Guðmundsson og Guðrún Friðriksdóttir bústýra, 1888-1904. Síðan í eyði. Árið 1922 er fasteignamat ekki skráð.“

Erta (býli)

Erta

Erta.

1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ, 77. 1840: Hjáleiga frá Nesi. SSÁ, bls. 104 „Þar bjuggu Gísli G. Scheving og Valgerður Scheving 1889-1906. Sigurður Jónsson og Guðrún Þórðardóttir 1906-1929. Síðan í eyði.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
Túnakort 1920: Tún 0,9 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 1290 m2.
„Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot [ÁR-553] var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum.“segir í örnefnalýsingu Ness ÁR-549. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Þar bjuggu Gísli G. Scheving og Valgerður Scheving 1889-1906. Sigurður Jónsson og Guðrún Þórðardóttir 1906-1929.
Síðan í eyði.“ Erta er sýnd á túnakorti frá 1920. Bæjarhóll Ertu er ennþá greinilegur en bæjartóftirnar eru horfnar.
Erta er innan gamla heimatúns Ness.
Bæjarhóllinn er í sléttu, grasivöxnu túni sem nýtt er til sláttar. Í því eru víða rústahólar, bæði frá Nesi og öðrum hjáleigum þess.

Bartakot (býli)

Bartakot

Bartakot.

1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ,77.
1706: „Bartha Hialeiga, annað býli af fyrrnefndum xiii og xl álnum, og er hún kend við nafn ábúanda; áður til forna var hún kölluð Móakot og þriðja nafn i Þriote.“ JÁM II, 446. 1840: Hjáleiga frá Nesi. 1918: Bartakot I fór í eyði. Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
1922: Bartakot II fór í eyði. Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
Túnakort 1920: Tún 2,5 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 760 m2.
„Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur: Neðst var Bartakot í miðju túni, og Erta var ofar og austar, rétt vestan við traðirnar. Þessi kot hafa bæði verið sléttuð út. Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum.“ segir í örnefnalýsingu Ness. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Þar bjuggu Ásmundur Guðnason og Margrét Vigfúsdóttir, bústýra, 1887-1918. Síðan í eyði.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Bæjarhóll Bartakots er varðveittur en allar tóftir eru horfnar. Bartakot er innan gamla heimatúns Ness. Á fyrrihluta 20. aldar var tvíbýli í Bartakoti og gekk annar bærinn undir nafninu Bartakot II.
Bæjarhóllinn er í sléttu, grasivöxnu túni sem nýtt er til sláttar.
Bæjarhóllinn er 16×10 m að stærð og snýr norðvestur-suðaustur. Hann er hæstur til norðvesturs, 1 m á hæð, en fjarar út til annarra átta. Hvergi sést móta fyrir veggjabrotum, hólfum eða öðrum mannvistarleifum á yfirborði sökum túnasléttunar. Ekki er vitað neitt um stefnu eða lögun bæjarhúsanna.

Þórðarkot (býli)

Þórðarkot

Þórðakot – túnakort 1918.

1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Nesi. JJ, 77. 1840: Hjáleiga frá Nesi, nýbýli sem var tekið upp 1830 skv. sóknarlýsingu. SSÁ, 218 og 221. 1962: í eyði, sbr. Sunnlenskar byggðir III, bls. 488.
Túnakort um 1920 [ártal vantar]:Tún 0,9 ha, allt slétt. Matjurtagarðar 922 m2.
„Í Vesturtúni voru þrjár hjáleigur […] Þórðarkot var norðvestur af Ertu, vestur undir mörkum. Það er nokkurn vegin uppistandandi enn,“ segir í örnefnalýsingu Ness ÁR-549. Í Sunnlenskum byggðum III stendur: „Þar bjuggu Guðlaugur Hannesson og Guðrún Guðmundsdóttir 1895-1911. Guðmundur V. Halldórsson og Helga Erlendsdóttir, bústýra, 1911-1962. Síðan í eyði. […] Öll hús eru ónýt.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Öll ummerki Þórðarkots eru horfin. Þar er sumarhús, á stöplum, sem ber sama nafn. Sólpallur er umhverfis bústaðinn og greinilegt að jarðvegi var mokað upp meðfram honum. Ekki er vitað hvort að bæjarhúsunum var rutt út áður en bústaðurinn var byggður eða hvort að þær eru ennþá varðveittar að hluta undir sólpallinum. Mögulegt er að ennþá finnst mannvist undir sverði.
Bæjarstæðið er ofarlega í heimatúni Ness. Heimatúnið er í halla til suðurs og var bæjarstæðið á hólbarði. Slétt, grasivaxið tún er til allra átta.
Engin ummerki bæjarstæðisins sjást á yfirborði.

Bjarnastaðir (býli)

Bjarnastaðir

Bjarnastaðir í Selvogi.

1847: Bændaeign, 10 hdr. JJ, 77. 1313: Bjarnastaða er getið í máldaga kirkjunnar í Nesi: Tijvnd liggur þar til af heima monnvm og af Biarnastodum. og halfer lysitollar.“ DI II, 378. 1397: Getið í máldaga Ness: „tyund liggur þar til heimamanna oc af Biarnastodum.“ DI IV, 99. 1501: Bæjarins er getið í jarðaskiptabréfi sem ritað er á Möðruvöllum 18. september. Þar er jörðin látin í skiptum ásamt fleiri jörðum á svæðinu og metin á 40 hdr. DI VII, bls. 583. 1508: Getið í kaupmálabréfi, metin á 40 hdr. DI VIII, bls. 230. 1510: Jarðarinnar getið í dómi um eignaskipti. DI VIII, bls. 322. 1706: „Jarðardýrleiki xl og so tíundast enn nú.“ JÁM, 449. 1960: Íbúðarhúsið á Bjarnastöðum brennur, fluttist þá ábúandinn í íbúðarhúsið í Guðnabæ.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 489.
Túnakort 1920: Tún 7,7 ha, þar af 4/5 sléttir. Matjurtagarðar 1485 m2. „Lýngrif og þángskurður brúkast til eldiviðar og er hvorutveggja af skorti. Selveiði má hjer ekki nafn gefa, þótt nokkrum sinnum hafi ábúendur slysað sel með nótum, einn eður öngvan á ári, öðruhverju eður skjaldnar. Rekavon er lítil…Sölvafjara gagnvæn heimamanna brúkun…Heimræði ár um kríng og lendíng í betra lagi af þessari sveit. Túnið fordjarfar sandur að ofan, en sjávargángur og veður að framan. Engjar eru öngvar…“ JÁM II, 450 Jörðin Bjarnastaðir er nokkuð landmikil, þurrlend, en að mestu algróin. Fjörubeit er mjög góð, beitiland er ógirt. Útræði var fyrr á árum.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 489.
„Bærinn stóð á allbreiðum hól neðanvert við mitt tún,“ segir í örnefnaskrá Bjarnastaða. Í Sunnlenskum Byggðum III segir: „Jörðin Bjarnastaðir er nokkuð landmikil, þurrlend, en að mestu algóin. […] Íbúðarhúsið á Bjarnastöðum brann 1960, fluttist þá ábúandinn í íbúðarhúsið í Guðnabæ. […] Árið 1962 kaupið Teitur Eyjólfsson jörðina og er hún ábúendalaus síðan,“. Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Síðustu ummerki torfbæjarins á Bjarnastöðum sjást ennþá á bæjarhólnum og honum lítið verið raskað. Yngri útihús, byggð á 20. öld, eru öll norðaustan og vestan við bæjarhólinn. Bærinn er 50-60 m frá nýlegum sjóvarnargarði, sunnarlega innan gamla heimatúnsins.
Bæjarhóllinn er í sléttu túni, nærri fjöruborði. Túnið er grasivaxið og rústahólar eru hér og þar ásamt 20. aldar mannvirkjum.
Bæjarhóllinn er 52×38 m að stærð, 2,6 m á hæð og snýr NNV-SSA. Á honum eru tóftir bæjarhúsanna.

Guðnabær (býli)

Guðnabær

Guðnabær.

Guðnabær er talinn hjáleiga Bjarnastaða í sóknarlýsingu 1840 en var skv. henni var bærinn nýbýli, upptekið 1826. Í JJ segir í neðanmálsgrein: „Prestur nefnir og Guðnabæ sem hjáleigu, en þar eð býla tölunni þannig að eigi ber heim við hreppstjóra, er Guðnabær hér ótalinn.“ „Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komið í eyði,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Íbúðarhúsið í Guðnabæ var byggt 1949 úr holsteini.“ Það hús er ekki byggt á bæjarhólnum heldur austan hans, handan við traðir. Guðnabær virðist hafa farið í eyði 1962 þegar jörðin er seld.
Bæjarhóll Guðnabæjar er í sléttu, grasivöxnu túni. Þar umhverfis er nokkuð af hólum, líklega mest rústahólar.
Bæjarhóll Guðnabæjar er 32×28 m að stærð og snýr norður-suður og er nánast í miðju svæðisins. Á honum eru varðveittar rústir bæjarins.

Klöpp (býli)

Selvogur

Klöpp.

Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, stóð hún ofan garðs,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Klöpp. Býlið hét áður Útrek en árið 1916 breytti nýi ábúandinn nafni býlisins í Klöpp. Fór í eyði 1951 og er hvorki getið í fasteignamati 1922 né 1977.“
Bæjarhóllinn og bæjarhúsin í Klöpp eru varðveitt tæpum 400 m norðan við bæ og rúmum 100 m norðan við Guðnabæ. Minjarnar samanstanda af bæjarhól, bæjarhúsum, þremur stakstæðum útihúsum, kálgarði, hleðslu og mögulegum brunni. Bærinn er norðan við túngarð.
Slétt, grasivaxið tún er allt umhverfis Klöpp. Túnið er nýtt til hrossa- og sauðfjárbeitar. Í því eru lágir, náttúrulegir hólar og stakir hraunklettar.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín segir: “ Hjáleigur hafa hjer verið þrjár, sem grasnautn höfðu; tvær af þeim hafa í auðn verið ix ár eður lengur, ekki var þeim tveimur nafn gefið nema af heitnum ábúendum, menn vita akki hverjir kostir á þeim voru.“ Hér er önnur nafnlausa hjáleigan skráð en ekki er lengur hægt að staðsetja hana enda engar þekktar upplýsingar um hvar hún var.
Heimildir: JÁM II, 451.

Bjarnastaðaból (sel)

Bjarnastaðasel

Bjarnastaðaból – uppdráttur ÓSÁ.

„Norður eða norðvestur af klöppinni Fótalaus í Neslandi er Bjarnastaðaból eða -sel. Uppi í heiðinni voru sel eða ból frá flestum bæjum,“ segir í örnefnalýsingu Bjarnastaða. Í Jarðabók Árna og Páls frá 1706 segir: „Selstaða lángt í frá og vatnslaus sem áður segir um Nes og Snjóthús.“ Annarsstaðar í sömu bók segir um bæinn Götu: „Selstöðu brúkar jörðin í sama stað sem Bjarnastaðamenn, og hefur það verið tollfrí og átölulaust það lengst menn minnast.“ Tóftir Bjarnastaðabóls eru rúma 800 m ASA af Þorkelsgerðisbóli og um 800 m norðaustur af Hásteinum, en það eru áberandi klettar í heiðinni skammt ofan við ónýtan sumarbústað, þann eina á stóru svæði.
Fremur kennileitasnauð heiði þar sem skiptast á grjóthólar og grónar lægðir. Heiðin smáhækkar upp til norðurs. Selið er sunnan við tvískiptan grjóthól sem rís ekki hátt og er ekki mjög áberandi fyrr en að er komið.
Miklar rústir eru á Bjarnastaðabóli.

Beggakot/Beggjakot (býli)

Beggjakot

Beggjakot.

1847: Dýrleika ekki getið. Hjáleiga frá Bjarnastöðum. JJ,77.
1840: Hjáleiga frá Bjarnastöðum. SSÁ, 218
Túnakort 1920: Tún 1,7 ha, þar af 1/4 slétt. Matjurtagarðar 612 m2.
Í Sýslu- og sóknarlýsingum Árnessýslu frá 1840 er Beggakot talin hjáleiga frá Bjarnastöðum. Í Jarðabók Johnsen frá 1847 er dýrleika ekki getið. Í Sunnlenskum byggðum III stendur: „Ábúendur: Stefán Valdason og Kristín Ólafsdóttir, bústýra, 1897-1909. Guðmundur Filipusson og Jóhanna Pétursdóttir 1909-1955. Síðan er jörðin ábúendalaus,“ Í örnefnalýsingu Bjarnastaða segir: „Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æsuhól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Beggakot er 230 m norðan við Bjarnastaði, um 50 m austan við landamerkin við Götu. Þar er gaddavírsgirðing. Bæjarhúsin eru ennþá á bæjarhólnum og útihús í heimatúninu. Stafnar bæjarins snéru til suðurs, í átt að sjó.
Bæjarhóllinn er í grasivöxnu og sléttu túni. Víða eru hólar, bæði náttúrulegir og uppsöfnuð mannvistarlög. Þeir eru skráðir hér undir öðrum númerum og í landi Bjarnastaða. Minjar í heimatúni Beggakots eru skráðar undir býlinu en aðrar minjar falla undir Bjarnastaði og eru þar skráðir.
Bæjarhóllinn er 34×28 m að stærð, 2 m á hæð og snýr austurvestur. Þar eru ennþá rústir síðasta bæjarins í Beggakoti.

Gata (býli)

Gata

Gata.

1847: Bændaeign, 5 hdr. JJ,77. 1501: Götu er getið í jarðaskiptabréfi sem ritað er á Möðruvöllum 18. september. Þar er jörðin látin í skiptum ásamt fleiri jörðum á svæðinu og metin á 10 hdr. DI VII, bls. 583.
1510: Jarðarinnar getið í dómi um eignaskipti. DI VIII, bls. 322. 1561: Getið í tylftardómi ásamt Eymu í Selvogi. DI XIII, bls. 623. 1570: Getið í skiptabréfi eftir Pál lögmann Vigfússon, metin á 10 hdr. DI XV, bls. 408.
1706: „Jarðdýrleiki x.“ JÁM, 451. 1840: metin á 5 hdr.
Túnakort 1920: Tún 3,5 ha, þar af 1/4 slétt. Matjurtagarðar 978 m2. „Jörðin Stóra-Gata er fremur landlítil, gróin að mestu, fjörubeit góð, beitiland ógirt.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 491.

Stóra-Gata (býli)
„Tveir bæir voru í götu, Stóra-Gata og Litla-Gata. Stóra-Gata stóð neðarlega í túni, u.þ.b, mitt á milli landamerkja.,“ segir í örnefnaskrá. Mynd er af hluta gamals torfbæjar í Stóru-Götu í Sunnlenskum byggðum III. Þar sjást tvær burstir og grjóthlaðnir kampar. Um Stóru-Götu segir í sömu bók: „Íbúðarhúsið á Stóru-Götu er ónýtt og flutti fjölskyldan að Litlu-Götu árið 1959 er Runólfur flutti þaðan og keypti hús hans.“ Bærinn er sýndur á túnakorti frá 1920. Bæjarhóllinn er óraskaður með öllu sem og tóftir síðustu bæjarhúsanna. Bæjarhóllinn er um 50 m norðan við sjóvarnargarð, ekki langt frá fjörunni. Stafnar bæjarins snéru til suðurs í átt að sjó. Slétt, grasivaxið tún er allt umhverfis bæjarhólinn.

Þorkelsgerði (býli)

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

1847: 16 hdr., kirkjueign.
1521: Jarðarinnar getið í upptalningu á erfðagóssi Vigfúsar Erlendssonar. DI VIII, bls. 798 og 805. 1532:
Lesið stefnubréf og dómur yfir Páli Vigfússyni og leyfð lausn á jörðunum Þorkelsgerði, Vindási og Kirkjuvogi.
DI IX, bls. 622-623. 1521: Jörðin látin upp í skuld ásamt Vindási í Selvogi og fleiri jörðum. DI X, bls. 60.
1706: Ein jörð en sundurdeildir fjórir bæir, sem nú eru kallaðir Austurbær, tíundast fyrir xii c. Midbær, tíundast fyrir viii c. Vesturpartur, tíundast fyrir v c. Torfabær, tíundast fyrir v c. Jarðardýrleiki á allri jörðinni er xxx og so tíundast jörðin öll fjórum tíundum.“ JÁM II, 452.
Túnakort 1920: Þorkelsgerði (austurbær): Tún 3,5 ha, allt slétt. Nátthagi 0,3 ha, þar af slétt ca 1/3. Matjurtagarðar 1770 m2. Þorkelsgerði (vesturbær): Tún 1,3 ha, alslétt, tún í Melbúð alslétt, stærð 1,2 ha. Nátthagi 0,3 ha. Matjurtagarðar 717 m2. „Lýngrif til eldiviðar er mjög að þrotum komið, en Þángtekja mjög af skorti, því margbýlið uppetur það einum kynni að nægja ríflega. Selveiði má ekki telja, þó slysast hafi selur í nót sem sagt er um Bjarnastaði. Rekavon lítil…Sölvafjara gagnvæn heimamanna brúkun og stundum betri…Skelfisksfjara næg heimamanna brúkun til beitu fyrir þyskling, brúkast annars ekki nema ýsugengd sje. Sjaldan taka hjer aðrir beitu og af líðan, en ekki rjetti það menn vita. Heimræði ár um kríng og lendíng í besta lagi í þessari sveit, en þó sund lagnsókt og þarf að sæta sjáfarföllum. Engjatak á jörðin í Arnarbælislandi í Ölvesi, þar sem heita Nautaeyrar…Hjer í mót á staðurinn skipsstöðu fyrir Þorkelsgerði, vide Arnarbæli. Túnin fordjarfar sandságángur að ofan, en sjáfargángur að framan….Engjar öngvar nema fyrtalið ítak…Viðureldi af sauð tindgast illa ut supra. Stúngulaust og ristulaust utan túngarða sem fyr segir. Vatnsból ekki nema fjöruvatn.“ JÁM II, 454 „Jörðin er nokkuð landmikil, þurrlend, gróin að mestu, fjörubeit sæmileg, beitiland ógirt að mestu. Útræði var áður fyrr. Áður stóð bærinn neðar í túninu, en 1942 var hann fluttur af þáverandi ábúanda ofar í túnið, þar sem hann er nú.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 492.

Þorkelsgerði

Þorkelsgerði.

„Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús…Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar,“ segir í örnefnalýsingu. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir að jörðin sé deild í fjóra bæi: Austurbæ, Miðbæ og Vesturpart og að auki Torfabæ, sem er undir sérstöku númeri í skrá þessari. Ekki er vitað annað en Þorkelsgerðisbæirnir þrír (utan kannski Vesturpartur) hafi staðið á einum og sama bæjarhól og eru hér skráðir undir sama númeri. Bæjarstæðið er enn óspillt um 50 m neðan eða sunnan við íbúðarhúsið í Þorkelsgerði I. Í Sunnlenskum byggðum segir: „Áður stóð bærinn neðar í túninu, en 1942 var hann fluttur af þáverandi ábúanda ofar í túnið, þar sem hann er nú.“
Bæjarhóllinn er neðst í túni en 60-80 m ofan við sjávarkampinn. Mikið er af uppsöfnuðu rusli kringum bæjarleifarnar. Stór og mikill bæjarhóll. Á austurhluta hans eru miklar leifar af húsum frá því um miðbik 20. aldar. Alls er hóllinn um 80 x 40 m stór og snýr austur-vestur. Hann er mest allt að 2-3 m hár.

Rollubúð (verbúð)
„Upp af lendingunni voru verbúðir. Næst vörinni var Rollubúð, sem var frá Austurbænum í Þorkelsgerði,“ segir í örnefnalýsingu. Rollubúð mun hafa verið rúma 200 m suðaustur af Þorkelsgerði, á sjávarkampinum eða því sem næst. Nú er ekki vitað um nákvæma staðsetningu Rollubúðar en væntanlega hefur hún verið tiltölulega skammt frá vörinni. Hár sjávarkampur sem er ekkert nema grjót. Utan í honum landmegin sjást víða för eftir jarðýtu og sýnilegt að ýtt hefur verið upp grjóti til að mynda hærri kamp og varna því að sjór gangi á land. Mikið grjót er uppi á kampinum og engin heilleg mannvirki en þó má ímynda sér að smáleifar sjáist austast í Þorkelsgerðislandi. Á þeim stað er kampurinn grónari og e.t.v. minna raskaður en í kring. Efst á honum sjást reglulegar steinaraðir sem mynda hólf, um 6 x 3 m frá austri til vesturs. Einkum eru gaflar greinilegir, eins og sokknar grjóthleðslur. Hér gæti verið komið mannvirki en þó erfitt að fullvissa sig um að það sé af Rollubúð.

Sólheimar (býli)

Sólheimar

Sólheimar.

„Fyrir ofan Moldu var Tómthús, sem nefnt var Sólheimar. Það er austur undir Götumörkum og átti að fylgja Austurbænum í Þorkelsgerði. Sólheimar standa að mestu enn,“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Sólheimar voru byggðir af Brynjólfi Guðnasyni 1932, sem bjó með móður sinni, Margréti Brynjólfsdóttur, til 1939.“ Virðist hafa farið í eyði 1953. Sólheimar eru 100 sunnan við Bjarg. Tómas Sigurpálsson, heimildamaður og ábúandi í Götu, talaði um að Sólheimar hefðu verið notaðir sem samkomuhús. Grasivaxið tún með lágum hólum er allt umhverfis Sólheima. Svæðið tilheyrir Þorkelsgerði en er nýtt frá Götu.

Bjarg (býli)

Bjarg

Bjarg.

„Ofar og austar [en Sólheimar] er Bjarg, sem var þurrabúð frá Þorkelsgerði. Það hús var byggt upp í sumar (1980),“ segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III stendur: „Bjarg var byggt 1932 af Sveini Halldórssyni, sem bjó með konu sinni, Guðbjörgu Þórðardóttur, þar til 1957.
Fasteignamat 1976 ekkert.“
Bjarg er 60 m suðvestan við Katlabyrgi. Það er nýtt sem heilsárshús og umhverfis það er lítið afgirt tún, líklega nýtt að eiganda hússins. Mynd er af bænum í Sunnlenskum byggðum III. Slétt, grasivaxið tún er allt umhverfis Bjarg.

Þorkelsgerðisból (sel)

Þorkelsgerðisból

Þorkelsgerðisból.

„Austan við Strandhæð [Strandarhæð?] eru mikla lægðir, kallaðar Djúpudalir, og tilheyra Útvogi. Norðaustur af þeim er Þorkelsgerðisból eða -sel,“ segir í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis. Þorkelsgerðisból er um 1,3 km norður af gamla þjóðveginum um Selvog, hér um bil 1 km austur af Vörðufelli og um 800 m VNV af Bjarnastaðabóli. Þetta er rúma 5 km norðaustur af bæjarhól í Þorkelsgerði. Seltóftirnar eru vestan í grónum grjóthól og þeim hallar dálítið mót norðvestri. Umhverfis er heiði með valllendisblettum, lyngmóum og víða rofabörðum.
Miklar tóftir sjást á bólinu, á svæði sem er alls um 30 x 15 m stórt og snýr norður-suður. Þar er rústahóll með fjögurra hólfa, íbjúgri rústalengju.

Gapi (fjárskýli)

Gapi

Gapi.

Í sóknarlýsingu frá 1840 segir: „Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: „Gapi, tekur 60 kindur““. Í örnefnalýsingu er talað um sama helli: „Við ferðamannaveginn sem lá vestur yfir Víðasand og til Herdísarvíkur, er hellir, sem heitir Gapi og var fjárhellir. Við Gapa er Gapastekkur. Þar var rekið að haust og vor úr Útvogi.“ Rétt sem kemur heim og saman við lýsinguna á Gapastekk er um 400 m suðvestur af Strandarhelli og um 2,6 km norðaustur af bæjarhól. Iðagrænn blettur fast við stakan klett eða hraungang. Í honum er hellisskúti sem opnast innundir hraunhelluna. Falleg rétt, hlaðin framan við hellisskúta. Hellirinn opnast mót suðri og er opið býsna hátt og greinilegt, allt að 1,8 m hátt upp á efri brún hellisþaks. Hellirinn er ekki djúpur, vart meira en skúti. Ein hella hefur verið reist upp á rönd vestarlega í opinu og yfir því sjást leifar af hleðslu, austan við miðju. Réttin er sunnan við munnann, einföld og iðagrænt innan hennar, hleðslur standa þokkalega, allt að 3-4 umför af grjóti, hæð allt að 0,5 m. Hlaðið er upp á hellisþakið austanvert og líka aðeins upp á það að vestanverðu. Réttin er um 15 x 11 m stór og snýr austur-vestur. Rekið hefur verið inn að sunnan vestarlega. Þar er aðrekstrargarður sem virðist fornlegri en réttin, liggur í sveig til suður og suðvesturs frá opinu og er hátt í 20 m langur.

Suðurferðavegur (leið)

Suðurferðavegur

Suðurferðavegur.

Á korti Ómars Smára Ármannssonar er merktur „Suðurferðavegur“ frá heimreiðinni að Þorkelsgerði og til NNA, framhjá Útvogsvörðu. Innan sviga stendur: „Selvogsgata.“ Þetta er að líkindum sama leið og lýst er í grein Ólafs Þorvaldssonar í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1943-48 sem einum anga af leiðinni milli Selvogs og Hafnarfjarðar, Grindaskarðavegi. Hann lá samkvæmt því til norðurs í framhaldi af heimreiðinni að Þorkelsgerði, framhjá Útvogsvörðu og þaðan áfram til norðurs. Ekki fæst betur séð en þessi gata hafi líka verið kölluð Útvogsgata, þá sennilega sá hluti hennar sem næst liggur byggðinni í Selvogi. Um hana segir í örnefnalýsingu: „Útvogsgata lá frá túngarðshliði í Þorkelsgerði, upp Dalhóla og upp hjá Skála [Skáli er varða, sem er rétt vestan við mörkin og því í Strandarlandi.“

Suðurferðavegur

Suðurferðavegur.

Fyrsta spölinn af leiðinni, þ.e. næst Þorkelsgerði, nú er akvegur upp á milli tveggja sumarbústaða sem eru norðan og norðaustan við veitingastaðinn T-Bæ. Ekki sjást götuleifar á þeim kafla sem skoðaður var á vettvangi. Samkvæmt korti af leiðinni sem Ólafur Þorvaldsson birtir í grein sinni lá leiðin hér um bil beint til norðurs frá Þorkelsgerði, upp skarð sem er vestan megin við Svörtubjörg og áfram til norðurs og síðar norðvesturs. Þetta mun hafa verið austasti angi leiðarinnar, sú sem lá í Selvog en leiðir skiptust uppi á fjallinu. Miðleiðin lá til Stakkavíkur og Herdísarvíkur [skráð í landi Stakkavíkur, sjá Ár-561:006] en sú þriðja til Brennisteinsfjalla, suður með Draugahlíð [hefur ekki verið skráð]. Ef loftmynd er skoðuð vandlega örlar á slóða 300-400 m vestan við afleggjarann sem liggur niður frá gamla þjóðvegi (þeim sem er nýaflagður með tilkomu Suðurstrandarvegar) og niður í Selvog. Að öðru leyti er vísað í lýsingu Ólafs Þorvaldssonar á leiðinni. Sömuleiðis er til handrit sem lýsir leiðinni vel eftir Konráð Bjarnason og nefnist „Kaupstaðarleið Selvogsmanna“.

Bjargarhellir (fjárskýli)

Bjargarhellir

Bjargarhellir – hleðslur.

Fjárhellir er tæpa 500 m suðvestur af Strandarhelli, 60-80 m norðan við vörðu. Þetta er væntanlega Bjargarhellir sem er getið í sóknarlýsingu 1840: „Í Selvogsheiði eru 3 hellrar: Bjargarhellir, [rúmar 200 fjár]…“.
Niðurfall í hraunið og opnast glufa undir hraunhelluna til norðurs og vesturs. Hellisopið er rýmst og hæst til norðurs eða norðvesturs en annars lágt til lofts.
Jarðfallið sjálft er um 10 x 6 m stórt og snýr norður-suður. Iðagrænt er ofan í því, aflíðandi brekka niður að hellisopinu. Að vestan er jarðfallið markað af hraunhellum en fornleg hleðsla virðist vera að austanverðu ofan á hraunklöppinni, 1-2 m breið, 0,3-0,4 m há, algróin og sigin. Einnig gæti hafa verið hlaðið að ofan á brún hellisþaksins vestan við jarðfallið, þar er mikið, hálfgróið lausagrjót. Smájarðföll eru suður af þessu og gætu jafnvel hafa verið notuð sem inn- eða útgönguleiðir. Aðeins var gægst inn í hellinn og virðist sem hleðsla gæti hafa skipt honum í tvennt sunnan við aðalinnganginn. Annar hellir sem opnast undir hraunhellu er 20-30 norðar, opið um 7 m langt og snýr mót norðri. Varða er á hellisþakinu en engar hleðslur sýnilegar.

Eima (býli)

Eima

Eima.

1847: Dýrleiki kemur ekki fram.
1501: 18.9. selur Grímur Pálsson Þorvarði Erlendssyni lögmanni Eimu 10 hdr, DI VII, 583 sbr. DI VIII, 322.
1561: 1.7.er dæmt að landskuldir þær sem gjaldast eftir Breiðabólstað, Götu og Eymu skuli Jón Marteinsson svara Þórólfi Eyjólfssyni. DI XIII, 622-23. 1596: Árið 1596 er Solveigu Jónsdóttur dæmd Eima, 10 hdr, í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur móður sína. AÍ III, 68. 1677-80: Búa 2 Jónar í Eimu Sveitarbragur Jóns Jónssonar í Nesi, SSÁ, 229.
1706: Jarðardýrleiki er X álnir og svo tíundast. Eigandi er prestekkjan Salvör Einarsdóttir á Háholti í Eystra Hrepp.“ JÁM II, 455. 1840 er Eima, tvíbýlisjörð talin meðal eyðibýla í ytra parti Austurvogar og á að hafa farið í eyði eftir 1750. SSA, 221. 1902: „Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa. Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra. Dálítið er nú þar farið að gróa upp aftur.“ Brynjúlfur Jónsson 1903, 51.
1927: Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Eimu og Eimuhjáleigu friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927. Fornleifaskrá, 78.
1706: „Landskuld er nú 1x álnir, hefur áður verið stundum lægst xl álnir, stundum undir hundrað eður yfir, eftir því se, landsdrotni og ábúendum hefur um samið, og þeir hafa komið kaupi sínu so sem jörðin hefur spilst og batnað. Landskuld betalast ýmist í fisi, vætt fyrir xx álnir, eður í peningum uppá landsvísu. Leigukúgildi er nú i, hefur fyrir 12 árum verið hálft þriðja, en því fækkað eð ekki byðist ella. Leigur betalast í fiski heima á jörðinni. JÁM II, 455.
„Nokkuð landmikil jörð, þurrlend, efri hlutinn gróinn en nær sjónum uppblásinn og gróðurlítill. Eyðijörð nytjuð frá Þorkelsgerði I,“ segir í Sunnlenskum byggðum III, bls. 493. „Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Eima liggur undir Austurbæinn í Þorkelsgerði,“ segir í örnefnalýsingu. Í friðlýsingarskrá segir: „Þorkelsgerði. Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Eimu og Eimuhjáleigu,“ Þinglýst 1927. Bæjarhóll Eimu er ennþá varðveittur en allar rústir horfnar. Bæjarhóllinn er merktur með litlu skilti sem á stendur: „Eyma í eyði 1814.
Eiríkur Jónsson síðasti ábúandi.“ Rúmir 30 m eru í sjóvarnargarð til suðurs frá bæjarhólnum. Einnig er sandfláki aðeins 10 m fyrir sunnan hólinn. Fornigarður er 30 m til norðurs frá bæjarhólnum. Slétt, grasivaxið tún er umhverfis bæjarhólinn.

Eimuhjáleiga (býli)

Eimuhjáleiga

Eimuhjáleiga.

Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1706 stendur: „Eimu hjáleiga, gamalt býli, ætla menn að hafi varðað nær 1 eður 1x ár, en þó öðruhvorju fallið í auðn lengur eður skemur í bili. Eyðilagðist til fullt í næstu fardögum. “ Í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis stendur: „Eimu fylgdi Eimuhjáleiga. Tóftir hennar lentu undir veginum út að kirkjunni [Strandakirkju].“ Í friðlýsingarskrá segir: „Þorkelsgerði. Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Eimu og Eimuhjáleigu.“ Þinglýst 1927. Eimuhjáleiga er tæpa 80 m NNV við bæ, utan Fornagarðs.
Ummerki bæjarstæðisins eru horfin af yfirboði en lítið skilti merkir staðsetninguna. Á því stendur einungis „Eymuhjáleiga“. Líkt og segir í örnefnalýsingu lentu tóftirnar undir vegi og restin sléttuð út. Það má greina aflíðandi til brekku til vesturs frá fyrrnefndum vegi en ekki er með vissu hægt að segja að hún tilheyri Eimuhjáleigu. Grasivaxið hólbarð er fast sunnan við fyrrnefndan veg sem er malbikaður. Annar vegslóði liggur til suðvesturs, meðfram áætluðu bæjarstæði. Annars eru grasblettir og grýttir sandflákar allt um kring. Engin ummerki Eimuhjáleigu sjást á yfirboði.

Strandarhellir (fjárskýli)

Strandarhellir

Í Strandarhelli.

Í sóknarlýsingu frá 1840 segir: „Í Selvogsheiði eru 3 hellar: a. Strandarhellir, rúmar 200 fjár…“ Í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis segir: „Í Strandarhæð, sem nú er í Eimulandi, er Strandarhellir. Það var góður fjárhellir, tók um 200 fjár.“ Strandarhellir er norðarlega í Strandarhæð. Hann er rúmlega 1 km norðaustur af gatnamótunum þar sem gamli þjóðvegurinn og vegurinn suður að byggðinni í Selvog mætast. Þetta er um 3 km norðaustur af Eimu og rúma 3 km norðaustur af Strönd. Stórt jarðfall í hraunhæð og opnast skútar úr því til norðurs og suðurs. Auk þess er smærra jarðfall með hellisskútum fast norðan við og að auki hleðsla vestan og sunnan við hellana.
Alls er svæðið tæplega 50 x 50 m stórt. Stóra jarðfallið, sem er sunnar, er alls um 17 x 15 m stórt og snýr austur-vestur. Það er algróið og iðagrænt í botni og vel djúpt, allt að 4-5 m sé staðið niðri á botninum. Í raun er aðeins ein leið vel fær niður í það, að sunnanverðu, og það í sjálfu sér vel fjárhelt. Sennilega hefur verið hlaðið fyrir uppi á brúninni að norðvestanverðu á um 15-20 m löngum kafla – þar sést mikið af grónu grjóti utan í barminum en allt gróið og ekkert lag á.

Strandarhellir

Strandarhellir – uppdráttur ÓSÁ.

Hvorugur hellanna er manngengur, enda virðist mikið efni hafa safnast fyrir inni í þeim, sauðatað. Sá syðri er varla nema smáskúti en sá nyrðri bæði djúpur og dimmur. Ekki var skreiðst langt inn í hann og ekkert vasaljós með í för en tveir angar úr hellinum teygja sig sýnilega býsna langt í norður. Ekki grillti í hleðslur en skv. uppdrætti sem Ómar Smári Ármannsson hefur gert af Strandarhelli eru dálitlar fyrirhleðslur á tveimur eða þremur stöðum innarlega í hellinum. Framan við hellisopið er jarðvegur sem hefur safnast upp að því, nú gróinn bálkur sem lokar fyrir opið að hluta. Í honum sést víða grjót og má vel vera að hlaðið hafi verið fyrir opið að mestu leyti. Norðan við jarðfallið stóra og hellana tvo er annað jarðfall, mun minna (á að giska 10 x 5 m frá austri til vesturs) og ganga smáskútar innundir hraunhelluna frá því bæði til austurs og vesturs. Sá vestari er stærri, líklega um 20 x 5 m stór, manngengur, en hinn varla nema smáhola. Engar hleðslur sjást á þessum stað. Að lokum er hlaðið um svæði vestur og suður af hellunum. Hleðslan myndar ekki óslitið gerði heldur á upptök sín í miðju hrauni um 20 m VNV af jarðfallinu stóra. Þaðan má rekja hana um 40 m til suðvesturs en þar beygir hún í suðausturátt, er slitrótt á kafla en þó hægt að rekja hana um 35 m til viðbótar og er þá komið tæpa 30 metra beint suður fyrir jarðfallið. Ætla má að héðan hafi verið hlaðið til norðurs, þ.e. ef girða hefði átt af svæði við hellana, en það er ekki greinilegt þótt algróinn grjóthryggur sé raunar á því svæði – en hann virðist náttúrverk og má vera að aldrei hafi verið lokið við hleðsluna. Hlaðið er úr hraungrýti og hleðslan nær allsstaðar hrunin en ógróin, mest um 0,2 m há. Líklegasta ástæða fyrir hleðslu á þessum stað og norðar við hólinn er sú að staðið hafi til að rækta upp túnskika með áburði úr hellunum. Ekki virðist mikill árangur hafa náðst, a.m.k. ekki ef marka má núverandi gróðurfar en lítill jarðvegur er innan beggja garða, stutt í rof og hraunklappir.

Ólafarsel (sel)

Ólafarsel

Ólafarsel.

„Austan og sunnan við [Vörðu]fellið er Vörðufellshraun, smáblettur, sem runnið hefur frá fellinu. Það er ekki vel uppgróið. Í því er hiti og rýkur úr hólnum. Framan í hrauninu (þ.e. sunnan í) er Ólafarsel, er enn sér fyrir. Það tilheyrði líklega Eimu, er alveg við mörk Eimu og Strandar,“ segir í örnefnalýsingu Þorkelsgerðis. Ólafarsel er um 1,2 km norðnorðaustur af Strandarhæð en suðaustan undir Vörðufelli. Það er um 4,3 km norðaustur af Eimu. Fallegur staður og líklega skjólgóður, gróin kvos með valllendi og grjóthólum, opin mót suðri. Skáhallt ofan við tóft A er aflöng laut sem sennilega hefði verið gott að reka fé inn í. Tvær snyrtilegar tóftir sjást á þessum stað á svæði sem er tæplega 40 x 10 m stórt og snýr austur-vestur. Sýnilegar minjar eru einfaldar í sniðum og engin augljós merki sjást um endurbyggingar eða langa notkun. Engin grænka er í tóftaveggjum.

Torfabær (býli)

Torfabær

Torfabær.

1847: Bændaeign, dýrleika ekki getið. JJ, 77.
1706: Í Jarðabók Árna og Páls er Torfabær talinn hluti Þorkelsgerðis. Alls var Þorkelsgerði metið á 30 hdr en: „Torfabær tíundast fyrir v.“ JÁM II, 452. Auk þess segir í sömu bók, bls. 455: „Hjáleigur tvær byggði hjer Torfi heitinn Ellendsson, þá er hann flutti bústað sinn af Stafnesi eður fám árum síðar, þær setti hann utangarðs af óskiftu landi, en hjelt sjálfur hús þar sem Torfabær heitir síðan; ekki var hjáleigunum nafn gefið.“ Af þessu að dæma hefur Torfabær ekki byggst fyrr en í tíð Torfa Erlendssonar, líkast til milli 1630 og 1640. 1821: „Sýslumadur Tofi, bygdi hér Bæ, sem kéndur er vid Nafn Hans; má þar enn siá mikil vegs ummmerki ad verid hafi stórbýli. Hann tilskickadi: ad hvór, sem ná vildi Tali vid sig, skyldi bera 3 steina ad Bæ sínum. þetta kalla Menn TORFALOG.“ FF, 2281840: 7 hdr. að auki hjáleigan Melborg. SSÁ, 218.
Túnakort 1920: Tún 2,1 ha, allt slétt. Nátthagar 0,6 ha, þar af 3/4 slétt. Matjurtagarðar 1114 m2 „Jörðin er fremur landlítil, gróin að mestu, fjörubeit sæmile, beitiland ógirt að mestu.“ Sunnlenskar byggðir III, bls. 495.
Í Frásögum um fornaldarleifar segir: „Sonur Hanns [Erlends Þorvarðarsonar], Sýslumadur Torfi, bygdi hér Bæ, sem kéndur er vid Nafn Hans; má þar enn siá mikil vegs ummmerki ad verid hafi stórbýli – Hann tilskickadi: ad hvór, sem ná vildi Tali vid sig, skyldi bera 3 Steina ad Bæ sínum. Þetta kalla Menn TORFALÖG. sídan hafa komu Menn innleidt þá veniu t.d. ad slá 1 brínu, reka 1 hitu, leggia 3 steina í vegg, vefa 1t a 3 skaptvóf. etc. og segia þá goldin Torfalógin…“ „Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu,“segir í örnefnalýsingu. Nú stendur nýbyggt íbúðarhús á bæjarhól Torfabæjar. Þetta er vestasta húsið sem stendur uppi í Austurvogi, hér um bil beint niður af veitingahúsinu T-Bæ.
Bærinn stendur ofarnlega í hæðóttu túni sem er bitið af hrossum. Húsið, sem er nýlegt íbúðarhús, stendur á náttúrulegum hæðarhrygg sem snýr hér um bil austur-vestur og er að nokkru leyti grafið inn í hann. Þetta er bárujárnsklætt hús á timburklæddum, steinsteyptum sökkli. Ekki er afgerandi hólmyndun undir húsinu.

Markasteinn (áletrun)

Markasteinn

Markasteinn.

Merkjasteinn með áletrun er í fjörunni milli Torfabæjar og Eimu. Hann er 2 m suður og niður af hornstaur núverandi girðingar milli bæjanna og 170-180 m suðvestur af bæjarhól. Um hann segir í örnefnalýsingu: „Landamerki Þorkelsgerðis og Eimu voru þannig: úr fremsta Markaskeri í merktan stein (M) á kampinum við Torfabæjarsjógarðshliðið (til hægri þegar horft er til sjávar við hliðstaur).“ Stórgrýtt fjara. Höggvið hefur verið M í fremur lítinn stein sem er 30-40 cm í þvermál. Stafurinn er grunnur en greinilegur, um 8 cm hár. Þetta er 2,5-3 m vestur af enda sjóvarnargarðs Eyþórs Þórðarsonar.

Útvogsréttir (rétt)

Útvogsrétt

Útvogsrétt.

Í örnefnalýsingu segir: „Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ. Þessar réttir eru enn notaðar. Réttin var flutt þangað eftir flóðið mikla 1925.“ Réttirnar teljast strangt til tekið ekki til fornleifa, enda hafa þær ekki náð 100 ára aldri.
Mannvirki á staðnum eru óljós. Þess má geta að í Mosakrók, sem virðist hafa verið á sömu slóðum getur örnefnalýsing um gamlar rústir, hugsanlegt býli. Mannvirkið sem hér er lýst er í krika utan við Forngarð. Hrossabeit er nú á þessum stað. Allar hleðsluleifar eru mjög óljósar og úr lagi gengnar.

Vogsósar (býli)

Vogsósar

Vogsósar – uppdráttur ÓSÁ.

„Nú og um langan aldur hafa Vogósar, bærinn, staðið í Vogósatúni,“ segir í örnefnalýsingu. Bærinn í Vogsósum I er á gamla bæjarstæðinu, vestast í miðju túni og um 340 m NV af Vogsósum II. Búið er í húsinu þótt það sé að hluta orðið ansi laslegt.
Sléttað tún og slegið er alveg upp að bænum að norðan og sunnan. Heimkeyrslan að bæ liggur úr suðri og malarhlað er að framanverðunni. Fjárhús og hlaða úr bárujárni eru fast austan við íbúðarhúsið. Bæjarhúsin standa á sama stað og eldri bær stóð áður. Íbúðarhúsið er austar en fjós og hlaða voru sambyggð því að vestanverðu. Þakið fauk af fjósi og hlöðu nýverið þannig að aðeins veggirnir standa eftir. Íbúðarhúsið var reist í tveimur áföngum, vesturhlutinn 1924 en sá eystri, sem snýr framhlið í suður, á 7. áratug 20. aldar. Austan íbúðarhúss er sund, um 1,5 m breitt en þá tekur við hrörleg skemma með steyptum veggjum og járnþaki. Grjóthleðslur eru meðfram útveggjum í sundinu. Austan við skemmuna stóð lambhús en nú sjást aðeins leifar af grjóthlöðnum útveggjum þess. Þegar Snorri Þórarinsson (f. 1957) var ungur var það haft fyrir hænur en hann man líka eftir að húsið væri kallað Smiðjukofi. Aftan eða norðan við leifar lambhússins er nú járnklædd skemma en þar voru áður hlaða og hesthús, hvorutveggja sambyggt lambhúsinu. Norðaustast allra húsa á bæjarstæðinu er síðan járnklædd skemma. Alls er húsalengja þessi um 30-40 m löng frá austri til vesturs. Lítill sem enginn hóll sést undir húsunum ef staðið er við þau að sunnanverðu en aftan eða norðan við er dálítill hóll, allt að 1,5 m hár, 30 m langur og 8-10 m breiður og telur Snorri Þórarinsson að í honum hafi verið heygarður aftan við íbúðarhúsið og gamla fjósið. Snorri gróf fremur grunnt dren meðfram austanverðu íbúðarhúsinu fyrir nokkrum árum og varð ekki var við mannvistarleifar. Hins vegar gróf hann brunn frammi á hlaði nýlega. Þar kom hann niður á stóra hellu á 1,1-1,2 m dýpi og gólflag, allt að 10 cm þykkt. Áður hafði hann grafið fyrir vatnsleiðslu öllu vestar og komið niður á ruslalag með fiskbeinum á um 1 m dýpi.

Bænhúshóll (bænhús)

Vogsósar

Vogsósar – Bænhúsahóll fremst.

„Í framtúninu er Bænhúshóll, sem einnig er kallaður Lambhúshóll…,“ segir í örnefnaskrá. Bænhúshóll er í túni um 40 m SSA af bæ 001 og liggur heimreiðin, áður traðir, í austurjaðri hans. Ekki er getið um bænhús í Vogsósum í máldögum eða öðrum gömlum heimildum svo vitað sé. Hóllinn er sleginn og túnið í kringum hann sömuleiðis. Stakstæður hóll og áberandi, næstum flatur að ofan og allt að 2-3 m hár. Hóllinn er nálægt 20 m í þvermál en þó heldur ílangur NV-SA. Lágur hóll gengur út frá honum til suðurs og sömuleiðis gengur smárani frá honum til austurs sem mótar fyrir handan við heimreiðina. Ekki hafa staðið byggingar þar í minni Þórarins Snorrasonar (f. 1931). Hóllinn gæti verið náttúrulegur að stofni til en þó er lag hans og útlit þannig að þar eru greinilega upphlaðnar mannvistarleifar.

Eiríksvarða (varða)

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Í sóknarlýsingu frá 1840 segir frá Eiríksvörðu: „Þó Eiríksvarða sé ekki frá forntíð, er það samt ekki ómerkilegt, að hún skuli enn nú standa óröskuð eftir so langa tíð. Hún er einhlaðin á mjög hárri fjallsbrún; 1 fet er fyrir framan hana að skörpustu brúninni. Hún er 1n faðmur að neðan, lík einhlöðnum steingarðsparti. Er so hvör steinn lagður yfir annan. Flatir og ílangir eru þeir; allir snúa endar þeirra til beggja hliða. Allir eru þeir smáir sem lítilfjörlegir utanveggs hleðslusteinar. Hún er smáaðdregin frá báðum endum, ávöl að ofan og á hæð meðalmanni neðanvert á síðu, snýr austur og vestur til endanna, en flöt við norðan og sunnan átt. Þessi Eiríkur Magnússon dó 1716 og skyldu menn setja, að hann hefði vörðuna hlaðið 6 árum fyrir afgang sinn, þá er hún búin að standa í 123 ár.“ Kristian Kaalund minnist á vörðuna í riti sem kom út 1873: „Hátt uppi á brattri fjallsbrún er haglega gerð varða („Eiríksvarða“) til minningar um séra Eirík Magnússon (galdramann), sem var þar eitt sinn prestur.“ Vörðunnar er getið í Þjóðsögum Jóns Árnasonar: „Eiríkur prestur hlóð vörðu þá sem við hann er kennd og kölluð Eiríksvarða; hún stendur fyrir ofan Hlíð á Hellisheiði. Sagði Eiríkur að ei mundi Selvogur verða rændur á meðan varða sú stæði óröskuð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Selvogsafrétt segir: „Sagt er, að Eiríkur prestur á Vogsósum (1677-1716) hafi hlaðið hana til varnar gegn Tyrkjum. Eitt fet er frá Eiríksvörðu fram á brún. Sagt er, að sá, sem hreyfi vörðuna, eigi að fara fram af Björgunum.“ Varðan er fremst á hæsta punkti Bjarganna, 3,6 km austur af rústum Hlíðar í beinni loftlínu. Varla er hægt að samþykkja að hún standi á Hellisheiði en orðalagið verður hér látið liggja milli hluta. Björgin tróna fremst sunnan í lágu fjalli sem er fremur aflíðandi bæði að austan og vestan en snarbratt að sunnanverðu.Varðan stendur mjög framarlega og er innan við 1 m fram á snarbratta klettabrún. Hún er óvenjuleg að gerð, eins og einföld vegghleðsla, um 2 m löng, sem liggur frá austri til vesturs. Mest er hún um 1,5 m há í miðjunni en yfirlínan er bogadregin þannig að varðan er hæst í miðju en lækkar út til endanna. Stórt grjót er í grunninum en smækkar eftir því sem ofar dregur. Hún er ágætlega hlaðin en ekki loku fyrir það skotið að hún hafi eitthvað verið endurbætt í seinni tíð. Hugsanlegt er að hún hafi verið notuð sem mið frá sjó og það sé ástæðan fyrir því hversu breið hún er – þannig hefur borið meira á henni úr fjarska. Reyndar segir í örnefnalýsingu fyrir Selvogsafrétt að vestari endi Bjarganna sé mið af sjó en varðan er á Björgunum miðjum. Að lokum má geta þess að lýsingin frá 19. öld kemur ekki vel heim og saman við útlit vörðunnar nú, þ.e. steinarnir eru ekki flatir og ílangir. Erfitt er að leggja mat á hvort sú lýsing hefur verið gerð eftir minni eða hversu nákvæm hún hefur verið.

Fornigarður (vörslugarður)

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi – ofan Ness.

„Túnið var girt Vogósatúngarði aðeins á suðurhlið, en að austan Fornagarði, garði sem getið er í máldaganum frá 1275 á þennan hátt: „Sex vætter aa huertt fyrer garde enn fiorar utan gardz…“ (DI, II,124). Er því þarna að sjá eitthvert elzta mannvirki á landi hér…,“ segir í örnefnalýsingu. Fornigarður liggur til suðausturs frá Vogsósum í átt að Selvogi. Hann sést fyrst um 550 m SA af Vogsósum I (001) en tæpa 200 m SA af Vogsósum II. Næst Vogsósum II liggur garðurinn um tún og hefur sennilega verið raskað að einhverju leyti. Þar er girðing ofan á honum. Þar sem túnum sleppir tekur landgræðslugirðing við og þar er sandfyllt hraun, nú með mikilli lúpínu.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi – vestan Strandar.

Næst Vogsósum er garðurinn fremur ógreinilegur en líkist helst grjótundirstöðum sem stundum sjást undir girðingum – og það liggur einmitt ein slík á honum í túninu. Grjót gægist upp úr sverði og undir girðingunni má sumsstaðar greina hrygg og gefur hann til kynna að garðurinn sé óraskaður undir sverði og væntanlega þykku lagi af sandi. Svona heldur garðurinn áfram um 200 m til suðurs en þá tekur landgræðslugirðingin við með sandfylltu hrauni og lúpínu svo langt sem augað eygir. Þar er garðurinn vel greinilegur og var rakinn á vettvangi tæplega 1 km til suðurs. Hvarvetna hefur mikill sandur fokið upp að honum beggja vegna svo aðeins stendur efsta steinaröðin upp úr. Á nokkrum stöðum hverfur garðurinn í lúpínubreiður en er þó víðast hvar hægt að sjá hann ágætlega. Bjarni F. Einarsson gróf nýverið í garðinn skammt ofan við Stórhól. Niðurstöður hans verða hér reifaðar í stuttu máli: „Undir einum steini, ofarlega í garðinum, fannst plast….Bendir það eindregið til þess að menn hafi verið að endurhlaða eða gera við Fornagarð allt fram á 20. öld. Nokkru neðar mátti sjá greinileg skil í hleðslutækninni. Við tók mun betur hlaðinn tvöfaldur garður. Varð grjótið stæra eftir því sem neðar dró. Neðst voru í vissum tilfellum steinar meira en manntak. Heildarhæð garðsins, eins og hann leit út nú [eftir uppgröft], var 1,66 metrar…Þar af var 1,1 metrar vel hlaðinn eða hugsanlega úr upprunalegum garði…Mesta breidd hans neðst var 0,96 metrar, en yfirleitt var hún 0,80 metrar…Garðurinn mjókkaði mjög upp á við…Var hann tæplega helmingi breiðari niðri en uppi við efri brún eldri hlutans. Garðurinn hefur verið hlaðinn þannig að grjótið hefur ekki legið mjög þétt, heldur nokkuð gisið og loftað á milli.“ Um niðurstöður gjóskulagagreiningar segir Bjarni: Gulhvítt gjóskulag, sem lá „in situ“ (á upprunalegum stað) undir garðinum reyndist að öllum líkindum vera gjóska úr Heklu frá árinum 1104. Jarðvegssniðin undir garðinum bentu einnig til þess að uppblástur á staðnum hafi hafist einhvern tímann um 1120, eða fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226…..Fornigarður er byggður einhvern tímann eftir Heklugosið 1104 og fyrir gosið mikla í sjónum úti fyrir Reykjanesi 1226, hugsanlega einhvern tímann á bilinu 1120 – 1226.“ Skammt suðaustan við Stórhól liggur garðlag niður frá Fornagarði í vinkil, fyrst til vesturs en svo beint í norður.

Borgirnar þrjár/Vogsósaborgir (fjárskýli)

Vogsósaborgir

Vogsósaborgir – Borgirnar þrjár.

Þrjár tóftir af fjárborgum eru rúmum 150 m vestan við þjóðveginn um Selvog, 1,1 km norðaustur af Vogsósum. Tóftirnar eru á og utan í smáhrygg í nokkuð vel grónu helluhraun. Nokkur grænka er kringum rústirnar og grösugar lægðir víða í kring.
Tóftirnar ná yfir svæði sem er alls um 25 x 25 m stórt. Allar eru þær mjög greinilegar og sennilega ekki mjög gamlar, a.m.k. ekki yngsta byggingarstigið. Nyrsta borgin, A, er á norðurenda hryggjarins. Hún er hringlaga og mikið hraungrýti sést í veggjum, bæði innan- og utanverðum. Sennilega hefur op verið í vestur. Innanmál borgarinnar er um 3 x 3 m en að utan er hún rúmir 7 m í þvermál. Veggir standa nokkuð vel og eru allt að 1 m háir. Rúmum 10 m SSA af A er önnur fjárborg, B. Hún er næstum alveg eins og sú fyrstnefnda en veggir standa þó ívið betur og eru allt að 1,2 m háir. Að utanverðu er hún um 6,5 m í þvermál en að innan um 4 m. Dyr eru greinilegar og snúa í suðvestur. Stór hella er skammt frá opinu og gæti hafa verið yfir dyrunum. Þriðja borgin, C, er um 6 m austur af B og stendur heldur neðar, á stalli utan í hryggnum og í smáhalla mót austri. Hún er rúmir 6 m í þvermál að utan og 3-4 m að innanverðu, veggjahæð mest um 0,8 m. Dyr hafa snúið í suður. Ekki er vitað hvenær fjárborgirnar voru í notkun en þær virðast ekki fornlegar og er helst að giska á að þær hafi verið í notkun á 19. öld. Reið- eða fjárgötur liggja N-S austan við holtið.

Vörðufellsrétt (rétt)

Vörðurfellsrétt

Vörðufellsrétt.

Gamla skilaréttin fyrir Selvog er uppi á Vörðufelli sem er lágt fell í Selvogsheiðinni 3,8 km austur frá Vogsósum. Samkvæmt örnefnalýsingu Þorkelsgerðis var hún ýmist kölluð Selvogsrétt eða Vörðufellsrétt. Lítið og lágt fell, ágætlega flatt og gróið að ofanverðu.
Réttin er norðarlega á vesturbrún fellsins. Þetta er stór og mikil réttarrúst sem er alls um 75 x 50 m stór frá norðri til suðurs og að auki liggur aðrekstrargarður frá henni til norðausturs. Réttin sjálf skiptist í stórt gerði, almenning og dilka. Gerðið myndar nyrðri helming réttarinnar. Það er næstum óaðfinnanlega hringlaga og ekki ólíklegt að lagt hafi verið út fyrir hringnum áður en hleðsla hófst. Alls er gerðið um 45 m í þvermál og hefur verið rekið inn í það að norðaustan. Vestan við opið liggur áðurnefndur aðrekstrargarður út frá opinu og um 50 m til norðausturs. Er því ljóst að rekið hefur verið upp á fjallið að austan eða norðaustan. Op er á hringlaga gerðinu til suðurs, inn í almenning sem er um 17 m í þvermál, næstum hringlaga en ekki jafn reglulegur og gerðið. Út frá almenningnum liggja síðan dilkar í hálfhring, alls 8 eða 9 talsins. Töluvert hefur verið lagt í hleðslu réttarinnar, mikið grjót er í veggjum og víða mjög stórt. Þeir eru að miklu leyti hrundir en standa þó á stöku stað allt að 5-6 umför af hleðslum og er veggurinn mest hátt í 1 m hár. Ekki er víst að allir dilkarnir hafi verið hlaðnir í einu, í það minnsta teygir ytra byrði tveggja eða þriggja hinna vestustu sig utar en þeirra sem austar eru. Hugsanlega hafa þeir verið byggðir síðar ellegar stækkaðir. Þórarinn Snorrason telur að réttinni hafi verið valinn staður uppi á fellinu því þar var nóg af hleðslugrjóti. Að öðru leyti hafi staðsetningin ekki verið sérlega heppileg og ekki alltaf auðvelt að reka féð upp hlíðarnar. Þessi rétt var í notkun framundir 1920. Þá hafði fyrir fáum árum verið reist girðing frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell, m.a. til að hafa betri stjórn á búfénaði en fram að þeim tíma voru menn að missa fé inn um öll fjöll á haustin. Ný rétt var hlaðin við girðinguna og féll þá réttin á Vörðufelli fljótlega úr notkun. Réttin sem er enn í notkun austan við Hlíðarvatn var síðan reist 1953.

Vindássel (sel)

Vindásel

Vindásssel – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftir eru í Selvogsheiði hátt í 300 m NA af Vörðufellsrétt. Sennilega er þetta Vindássel en þess er getið í gamalli landamerkjalýsingu: „Að austanverðu eru landamerki milli Strandarlands og Eymu þessi: Við sjó ræður markhella: Þaðan bein lína í vörðu, vestanvert við Eymuhjáleigu. Þaðan bein lína í Eymuvörðu. Þaðan bein lína í vörðuna á Vörðufelli, og þar er í mörkum hella, sem höggvið er á M. Þaðan liggja mörkin norðar yfir Eymuból, austan til við Vindássel, og á Gapa í Hellholt. Þaðan bein lína í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli.“ Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir um selstöðu Vindáss: „Selstaða á heiðinni vatnslaus sem annarstaðar.“ Heiðalandslag, þýfðir móar en hraun er undir.
Tóftirnar eru tvær, á svæði sem er um 30 x 10 m stórt N-S.

Eymuból (sel)

Eimuból

Eimuból – uppdráttur ÓSÁ.

Eymubóls er getið í gamalli landamerkjalýsingu: „Að austanverðu eru landamerki milli Strandarlands og Eymu þessi: Við sjó ræður markhella: M. Þaðan bein lína í vörðu, vestanvert við Eymuhjáleigu. Þaðan bein lína í Eymuvörðu. Þaðan bein lína í vörðuna á Vörðufelli, og þar er í mörkum hella, sem höggvið er á M. Þaðan liggja mörkin norðar yfir Eymuból, austan til við Vindássel, og á Gapa í Hellholt. Þaðan bein lína í Kálfahvamm, vestan í Geitafelli.“ Eymuból er um 100 m austur af Vindásseli og liggur markalínan milli Strandar og Eymu um það. Heiðalandslag, þýfðir móar en hraun er undir.
Gaman er að koma í Eymuból, enda frekar óvenjulegur minjastaður. Um er að ræða jarðfall í hraunrás og opnast skútar inn í jarðfallið bæði til norðurs og suðurs. Alls er jarðfallið sjálft um 13 x 11 m stórt frá norðri til suðurs, hér um bil hringlaga og hefur verið hlaðið með brúnum þess á alla kanta. Hleðslurnar eru hálfgrónar en vel sést í grjót í þeim. Sennilega hefur verið gengið niður í jarðfallið austanmegin en þar er bratti minnstur vegna jarðvegstorfu sem liggur niður brúnina. Botninn er vel gróinn og frá honum rúmir 2 m upp á jafnsléttu. Ekki sjást hleðslur fyrir hellismunnunum eða inni í hellunum en þeir eru báðir manngengir. Sá nyrðri er töluvert stærri en sá syðri. Uppi á jarðfallsbrúninni að austan er rústahóll, nálægt 10 m í þvermál og sjást í honum ógreinilegar dældir.

Strönd (býli)

Strandarkirkja

Minnismerki um Strönd.

1238: “Gissur lét um sumarið taka upp bú Dufguss Þorleifssonar í Selvogi á Strönd og ræna þar öllu fénu en lið allt var óbirgt eftir og sáu bændur fyrir því.” Sturl, 406. [um 1275] Strendur eiga halfann hualriett til mots vid hiallamenn. huar sem rekur: Sex vætter aa huertt land fyrer garde enn fiorar utan gardz og skal reida med slijku sem rekur: fyrer utan vog eiga strendur þria hlute motz vid herdijsarvijk. j. hual: Enn j herdijsar vijkur fiorum eiga strendur tuo hlute huals huar sem rekur: fra mijgande Grof og til bergs enda eiga strendur allan reka ad helminge vid stadenn j krijsevijk: Sa er maaldage aa herdijsarvijkur fiorum ad stadur j skala hollte a halfann vidreka. allan annann enn auxar talgu vid j millum Selstada oc hellis firer austann riett til marks vid strandar land. Stadur j skalhollte oc herdijsarvijk eigu iiij vætter huals og skal vega enu fiordu med Brioske og Beine: enn þridiung i ollum ef meire kiemur. enn strandarmenn tuo hlute. Skalhollt oc krijsevijk aa halfann allann reka under fuglberge vid strandar land. millum wogs oc hellis aa strendur land iiij vætter enn ef meire er þa aa skalhollt oc krijsevijk j ollum hual. [125] Enn firer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung I hual ef meire er enn iiij vætter. enn ecke ellegar. DI II, 124-25. 13.5.1367: kirkiann a Strond j Selvogi a xxxc. j heima jordu. landid ad Vägshvsum. hvalreka vid stadinn j Skalahollti oc kirkiuna j Krysuvijk fra Migandi grof oc austr ad Osskerium. vidreka fra Migandi grof oc til Bergsenda. alla veidi j fuglbergi .xv. kyr. gradung. hesta .ij. iiij. ær oc .xx. oc rvtur. DI III, 212. 1397: Kirkiann a .xij. kyr. vxa þrevetrann oc einn hest. …Jtem gaf Jvar bondi kirkiunni a Strond .vjc. og Halla Jonsdotter gaf .vc. ijc. oc .v. aura firir skreidar tiund. sierdeilis firir heitfiska so marger sem þeir verda. DI IV 100-101. [1446] gefur Þorvarður Loptsson Strandarkirkju 1 hdr í testamenti sitt og skipar fátækan mann til bús síns þar, þann sem Margrét kona hans vill taka svo lengi sem hún lifir – DI IV, 675-76. 3.9.1508 hafði Þorvarður Erlendsson lögmaður til kaups við Kristínu Gottskálksdóttur Strönd í Selvogi fyrir 100 hdr. – DI VIII, 230. 8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Strandarkirkju sem var “mioc hraurnandi Swo hun þurfti botar wid” og lofaði Erlendur að “bæta at Strandarkirkiu” – DI IX, 159.

Strönd

Strönd – upplýsingaskilti við Strönd í Selvogi.

15.12.1525 lagði Erlendur Þorvarðsson Strönd og Nes í Selvogi “med þeim jordum sem þar til liggia” til kaups við Þórunni Stulladóttur og skyldi Þórunn vera helmingakona og hafa Nes fyrir 80 hdr og 40 kúgildi “nema hun villdi sialf helldur hafa jardernar hlidarenda. breidabolstad og littllaland. allar fyrir lxxxxc.” – DI IX, 288.
[1560] kveðst Jón Marteinsson ekki hafa “mejre peninga frijda medteked vegna austrond i Selvoge en vjc.” DI XIII, 556. 1575: Kirkian ä Strond i Selvoge. ä xxxc. heima Jordu. Landid ad Vogshusum. hualreka vid stadinn i Skälholltj og kirkiuna i Krijsuvijk. frä Miganda grof og austur ad Ässkerium. vidreka frä Migandagrof og til bergs enda. alla veida i Fuglberge. DI XV 641-642. 1596 er Solveigu Jónsdóttur dæmd 15 hdr í Strönd og Grími Einarssyni 45 í Strönd í arf eftir Guðbjörgu Erlendsdóttur móður Solveigar og föðurömmu Gríms – AÍ III, 68. “… eftir lát Erlends Þorvarðssonar (1576) og Guðbjargar dóttur hans (1594) mun jafnan hafa verið fleiri en einn ábúandi á Strönd. Á árunum 1677-1680 voru 7 ábúendur á Strönd [Sveitarbragur Jóns Jónssonar bónda í Nesi, SSÁ, 229-230], en um þær mundir var uppblástur farinn að eyða mjög landinu. Laust fyrir aldamótin 1700 var heimajörðin komin í eyði en búið á fornri hjáleigu frá Strönd, Sigurðarhúsum. Árið 1762 var engin ábúð á hjáleigum Strandar og allt komið í eyði.” JHA Strandarkirkja, 25. 1840: 1749 er hún (þessi jörð) með öllum sínum afbýlum öldungis eyðilögð af sandfoki, og þó þá fyrir nokkrum árum.” SSÁ, 216 . “Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Strönd og Vindási, með hjáleigum” voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927 – Fornleifaskrá, 78.

Strönd

Strönd – hestasteinn.

Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar frá 1902 segir: “Mest hefir sandurinn borist austur yfir ósinn er hann var lagður með ís, hefir svo borist austur og upp í heiðina fyrir suðaustan Vogsósa. … Þá er sandgeirinn var kominn upp í heiðina, fór hann breikkandi suður og austur á við, og eyðilagði smám saman jarðirnar: Strönd, Vindás og Eimu með afbýlum þeirra. Dálítið er nú þar farið að gróa upp aftur. Á Strönd gerir þó enn ýmist að gróa eða blása upp.” Brynjúlfur Jónsson 1903, 51.
„Nú síðan heimajörðin er affallin, eru þær grasnautnarleifar, sem hún brúkaði, deildar á millum eigenda þeirra, sem nú hafa í staðinn þeirra afföllnu heimajarðar reist á fætur forna hjáleigu sem nú er í lögbýlatölu komin [Sigurðarhús].“ JÁM II, 458 “Afrjett hefur jörðin haft og brúkað undir Hengli so sem aðrir hjer í sveit ut supra. Munnmæli eru að jörðin hafi skógarítak átt fyrir sunnan fjall fyrir innan almenninga, þar sem enn í dag eru kallaðar Strandartorfur, þar er nú skógur eyddur og lítið hrís eftir; rök vita menn ekki hjer til nema munnmæli…Eggver hefur jörðin átt í vatnshólma þeim, sem heitir Strandarey og liggur í stöðuvatni því, er heitir Hlíðarvatn, það fer mjög til þurðar, hefur og aldrei dúntekja verið. Hvannatekju, sem í eynni var, má ekki nafn gefa.“ JÁM II, 460 [Nú er Strandarey horfin, komin á kaf eftir að hækkaði í vatninu.]
„Strandarhóll er rétt norðan við kirkjugarðinn. Þar stóð bærinn Strönd,“ segir í örnefnalýsingu. Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessýslu 1902 segir: „Svo er að sjá af rústabungum, að á Strönd hafi upp á síðkastið verið tveir bæir; Efribær og Fremri bær. Kirkjugarðurinn og kirkjan stóð fyrir framan hlað Frambæjarins. Þó var þar sund á milli, og er sagt að þar hafi verið uppsprettulind, kölluð Sælubuna.“ Bæjarhóllinn er norðan við Strandarkirkju og hafa kirkja og bær staðið alveg á sömu torfunni. Áberandi gróska er í hólnum sé miðað við hálfuppgróið sandflæmið umhverfis.
Sé allt talið saman, kirkju- og bæjarhóll, er stærðin um 90 x 70 metrar frá norðri til suðurs. Mjög greinileg upphleðsla byggingarefna er norðan við kirkjuna, grænn og ávalur hóll en ekki sjást greinilegar bæjarrústir. Honum hefur verið raskað allnokkuð, sennilega mest þegar klósettaðstaða var grafin inn í hólinn vestanverðan. Vitað er að þá var grafið gegnum mikinn öskuhaug. Árið 1950 var sett höggmynd á hólinn, Landsýn e. Gunnfríði Jónsdóttur myndhöggvara. Fánastöng er ofan á miðjum hólnum og einnig er þar minnisvarði með nöfnum nokkurra valinkunnra ábúenda. Þar skammt austar er lítil eftirmynd af torfbæ sem hefur verið lítillega grafin niður í hólinn.

Strandarkirkja (kirkjugarður/kirkja)

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1884.

Eggver hefur jörðin átt í vatnshólma þeim, sem heitir Strandarey og liggur í stöðuvatni því, er heitir Hlíðarvatn, það fer mjög til þurðar, hefur og aldrei dúntekja verið. Hvannatekju, sem í eynni STRÖND Í SELVOGI (Á) -Maríu, Tómasi. c. 1200: Kirknaskrá Páls, DI XII 9 var, má ekki nafn gefa. JÁM II, 460 [Nú er Strandarey horfin, komin á kaf eftir að hækkaði í vatninu.]
1519: Á þeim dögum var Strandakirkja öll með blýi þakin og yfir dregin; staðurinn sjálfur mikinn part úr timbri byggður. Þótti þá varla slíkt höfuðból og Strönd var. Setbergsannáll IA IV, 55. (gæti verið ruglað saman við kirkjubyggingu 1624).
8.7.1523 hafði Erlendur Þorvarðsson lögmaður fengið Skálholtskirkju Hof á Kjalarnesi í reikningsskap ýmissa kirkna, þ.á.m. Strandarkirkju sem var „mioc hraurnandi Swo hun þurfti botar wid“ og lofaði Erlendur að „bæta at Strandarkirkiu.“ DI IX, 159.
27.9.1563: Sóknarkirkja lögð niður í Krýsuvík „een læge til Strandar kirkiu j Selvoge til kirckiu soknar sæde Krysevijk og þad kot þar hia er. Suo og gylde til Strandar kirckiu bæde tolla og tijunder og alla adra rentu suo sem adrer almenningzbæer skyllduger eru sijnum soknarkirckium ad veita“ þó skyldi þar lítið húskorn Guðs vegna eftir standa DI XIV 158-159.
1624: Kirkjan nýsmíðuð: fimm bitar á lopti að auk stafnbitanna, kórinn alþiljaður, lasinn predikunarstóll; öll óþiljuð undir bitana, bæði í kórnum og framkirkjunni, einninn fyrir altarinu, utan bjórþilið. Þar fyrir utan blýþak
ofan yfir bjórþilið, og ofan á öllum kórnum er sagt sé blýleingja hvorumegin og ein ofan yfir mænirnum, líka svo á framkirkjunni. Vísitasía Odds Einarssonar – tekið eftir JHA Strandarkirkja, 27. sbr. Blanda I, 322.
1700: Á þessu ári og fyrirfarandi árum eyddust og í eyði lögðust þessir kirkjustaðir í Skálholtsstipti: Strönd í Selvogi af sandi … Kirkjurnar standa enn nú og í þeim heilög þjónustugjörð fram flutt. – Setbergsannáll IA IV, 162.

Strandarkirkja

Strandarkirkja um 1900.

1700: [kirkja komin að falli og fyrirskipar Jón bp Vídalín að endurbyggja hana] JHA Strandarkirkja, 27 1736: [Hin nýja kirkja er byggð var 1735 er] mestan part úr nýjum og sterkum viðum, svo hún er nú bæði að veggjum væn og vel standandi; að því leyti betur á sig komin en hún hefir nokkurn tíma áður verið, að svo er um hana búið að utanverðu, að sandurinn geingur ekki inn í hana; hennar grundvöllur hefir og so verið hækkaður, að hún verst langtum betur en áður fyrir sandinum að utanverðu. Vísitasía Jóns Árnasonar, eftir JHA Strandarkirkja, 27-28.
1751: [kirkjan stæðileg að veggjum, en súð og grind víða fúin] Húsið stendur hér á eyðisandi, svo hér er mikið bágt að fremja guðsþjónustugerð í stormum og stórviðrum; er því mikið nauðsynlegt, hún sé flutt í annan og hentugri stað. Vísitasía Ólafs Gíslasonar, eftir JHA Strandarkirkja, 13.7.1751: [Kirkjan] stendur fjarlægt bæjum á eyðisandi undir einu timburþaki, hver sandur, sem í stórviðrum fýkur að kirkjunni af öllum áttum, aungvu minna foreyðir og fordjarfar bik kirkjunnar, viði og veggi en vatns ágangur, því að það fer dagvaxandi, sérdeilis á vetrartíma í snjófjúkum, að sanfannirnar leggjast upp á veggina því nær miðja. Bréf sr. Einars Jónssonar sóknarprests í Selvogsþingum til Pingel amtmanns og ólafs biskups, eftir JHA Strandarkirkja, 28 [prestur fékk leyfi til að flytja kirkjuna að Vogsósum, en af því varð ekki – JHA Strandarkirkja, 29-30].
1758, gert að kirkjunni.
1763, gert að kirkjunni.

Strandarkirkja

Strandarkirkja 1930.

1848: Ný kirkja byggð á Strönd.
1888: Ný kirkja byggð á Strönd.
16.2.1907: Strandarsókn í Selvogi lögð til Arnarbælis; (PP,93) [lög].

1968: Strandarkirkja endurbyggð: „Strandarkirkja stendur á Kirkjuhólum, eða í kirkjugarðinum,“ segir í örnefnalýsingu. Í grein Brynjúlfs Jónssonar frá 1902 segir: „Kirkjugarðurinn og kirkjan stóð fyrir framan hlað Frambæjarins.“ Kirkjan stendur á dálitlum hól beint sunnan við bæjarhólinn. Kirkjan er í h.u.b. miðjum kirkjugarðinum. Í kringum garðinn er hlaðinn garður sem hefur án efa verið endurbyggður oft.
Bílastæði er sunnan við kirkjuna en tröppur upp að henni úr vestri.
Kirkjugarðurinn er alls rúmlega 40 x 30 m stór frá austri til vesturs. Hann hlýtur að hafa verið sléttaður, í það minnsta sést lítið sem ekkert móta fyrir gömlum leiðum. Engin tré eru í garðinum. Elstu legsteinarnir sem sjást eru vestan og norðan til við kirkjuna, alveg upp við hana. Vitað er að garðurinn hefur verið stækkaður í það minnsta einu sinni á 20. öld, þá til norðurs. Kirkjan sjálf er timburkirkja með hlöðnum grunni. Svolítil upphækkun sést við
suðurlanghlið kirkjunnar. Sennilega er það gróinn sandskafl, en Þórarinn Snorrason man eftir því að sandur safnaðist gjarnan á þeim stað. Er ekki ólíklegt að sandfok hafi mjög sett svip sinn á mótun bæði kirkju- og
bæjarhóls.

Strandarsel (sel)

Strandarsel

Strandarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Strandarsel, sem skv. Þórarni Snorrasyni er einnig kallað Staðarsel, er um 100 m sunnan við austurenda Svörtubjarga. Rústirnar eru 6,3 km norðaustur af Strandarkirkju og 1,5 km beint norður af Eymubóli. Undir Björgunum eru fallegir og áberandi sléttir vellir sem skera sig úr í heiðinni. Ekkert rennandi vatn er á svæðinu.
Í Strandarseli eru a.m.k. 6 tóftir á svæði sem er alls rúmlega 50 x 40 m stórt frá norðri til suðurs.

Krókur (býli)

Krókur

Krókur.

Krókur er nefndur í Jarðabók Árna og Páls 1706: „Krokur, eytt fyrir tuttugu árum.“ „Þá er Víghóll og Krókshóll þarna norður af [Kirkjuhólum], en Krókur var hjáleiga frá Strönd,“ segir í örnefnalýsingu. Í ritgerð Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessþingi 1902 segir: „Af hjáleigum eru nefndar: Krókur norður á túninu, þar er enn dálítil roftorfa, Sigurðarhús litlu austar og Stórhóll fyrir norðan tún.“ Í Sveitarbrag frá 1677-80, sem birtist í sóknalýsingu Selvogsþings, er nefndur Erlendur smiður í Króki: „…enn er annar flóki, hann Erlendur smiður í Króki.“ Krókur er rúma 300 m norður af bæjarhól, norðan við hól sem er merktur með litlu skilti sem „Bakrangur“. Hann er nyrstur þeirra rústahóla sem eru í kringum Strandarkirkju.
Nokkuð gróið hraun þar sem töluvert er af lúpínu. Enn sést þó í ógróið hraunið á nokkrum stöðum. Hóllinn er vel gróinn og áberandi og ekki ólíklegt að í honum séu uppsafnaðar mannvistarleifar. Hann er alls um 35 x 20 m stór og snýr h.u.b. NA-SV. Á hólnum er lítill torfbær sem á stendur „Krókur, í eyði 1686.“ Uppi á hólnum sjást dálitlar veggjahleðslur, sennilega tvö veggjarbrot sem mynda L, annað um 2 m langt en hitt um 3 metrar. Aðeins er um eitt umfar af hleðslum að ræða.

Sigurðarhús (býli)

Sigurðarhús

Sigurðarhús.

Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Sigurdarhús. Dýrleiki þessa býlis, sem nú er lögbýli kallað í staðinn fyrir Strönd, er xxi C og xv álnir…“
„Sigurðarhóll var austur af kirkjunni, en þar stóðu Sigurðarhús, hjáleigan, og austar Sigurðarhúshjáleiguhóll,“ segir í örnefnalýsingu. “
Í grein Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessýslu 1902 segir: „Af hjáleigum eru nefndar: Krókur norður á túninu, þar er enn dálítil roftorfa, Sigurðarhús litlu austar og Stórhóll fyrir norðan tún.“ Rústahóll er um 120 m austan við bæjarhól, norðan við veginn sem liggur að Strandarkirkju.
Stór og vel gróinn hóll, alls um 40 x 15 m stór frá norðri til suðurs. Á honum er lítil eftirlíking af torfbæ og stendur þar á: „Sigurðarhús, í eyði 1735.“ Ekki sjást leifar af tóft eða hleðslum á hólnum en hann er nokkuð
ósléttur.

Lambhús (býli)
Rústahóll er um 270 m austur af bæjarhól, ofan eða norðan við veginn sem liggur að Strandarkirkju. Væntanlega eru þetta Lambhús en um þau segir í Jarðabók Árna og Páls 1706: “ [Siguðarhús] tíundast í fjóra staði, að meðreiknuðu forna afbýlinu Lambhúsum, sem heita skuli v c.“ Ábúandi á Lambhúsum 1706 var Marin Egilsdóttir, ekkja. Hóllinn sést vel, enda grasi vaxinn. Gras er slegið þar fyrir framan. Engin merki sjást um hleðslur á hólnum en hann er alls um 40 x 40 m stór og allt að 2 m hár. Sennlega er hann að einhverju leyti myndaður úr upphlöðnu byggingarefni og ösku. Sunnan í hólnum er búið að koma fyrir lítilli eftirlíkingu af torfbæ sem á stendur „Lambhús, í eyði 1729.“

Móhús (býli)
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 er getið um hjáleigu frá Strönd: „Móhús, eytt fyrir manna minni.“ Nú er ekki vitað hvar Móhús voru.

Bakrangur (býli)
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 er getið um hjáleigu frá Strönd: „Bakrangur, eytt fyrir 10 árum.“ Nú er ekki vitað hvar Bakrangur stóð. Þó er einn rústahólanna norðan við Strandarkirkju nú merktur með eftirlíkingu af torfbæ sem á stendur „Bakrangur“. Ekki er vitað hvað er til í því en þó mögulegt að um sama stað sé að ræða.

Bæjarbúð (verbúð)
Í Jarðabók Árna og Páls 1708 segir: „Bæjarbúð hefur hjer [á Strönd] verið vermanna búð meðan lendíngin ekki var fordjörfuð; hún kom fyrst í tíð biskupsins meistara Brynjólfs, hvort að gjöf eður kaupi honum til eignar vita
menn ekki. Hitt er víst að Sr. Torfi heitinn í Gaulverjabæ, eftir það að hann erfði meistara Brynjólf, ljet brúka þessa búð og gjörði að sínum kosti…“ Ekki er nú vitað hvar Bæjarbúð var.

Stórhóll (býli)
„Miðhóll er þar, sem nú er suðurhlið. Þá er Stórhóll. Hjáleigur frá Strönd eiga að hafa verið þar sem hólarnir eru nú,“ segir í örnefnaskrá. 1902: „Af hjáleigum eru nefndar: Krókur norður á túninu, þar er enn dálítil roftorfa, Sigurðarhús litlu austar og Stórhóll fyrir norðan tún,“ segir í grein Brynjúlf Jónssonar um fornleifar í Gullbringu- og Árnessýslu. Stórhóll er áberandi klapparhóll um 600 m norður af bæjarhól. Ekki er nú ljóst hvar landamerki Vogsósa og Strandar voru en hér er gert ráð fyrir að hóllinn hafi verið í landi Strandar.
Hóllinn sjálfur er náttúrulegur og ekki sjást neinar rústir við hann. Þar eru hins vegar töluverðar leifar af garðlögum. Ekki er óhugsandi að rústir séu komnar á kaf í sand en þó var svæðið umhverfis hólinn gengið nokkuð rækilega.

Vindás (býli)

Vindás

Vindás.

Vindás stóð um 380 m suðaustan við bæjarhól. Bæjarstæðið er fast niður við sjóvarnargarðinn, um 50 m sunnan við veginn að Strandarkirkju. Vindáss er getið í fornbréfi um 1275: „Enn firer austann wog til vindass aa stadur j skaalhollte oc krijsevijk halfan tolftung i hual ef meire er enn iiij vætter. enn ecke ellegar.“ DI II, 124-25. 1677-80: Búa Jón og Hróbjartur í Vindási – Sveitarbragur Jóns Jónssonar í Nesi, SSÁ, 229. Gamlar húsarústir og aðrar fornleifar á eyðibýlunum Strönd og Vindási, með hjáleigum voru friðlýstar af Matthíasi Þórðarsyni 5.5.1927. Fornleifaskrá, 78.
1840 er Vindás, tvíbýlisjörð, talin meðal eyðibýla í ytra parti Austurvogar og á að hafa farið í eyði milli 1700 og 1750 – SSÁ, 221.
Beggja megin við hólinn liggja vegarslóðar upp á sjóvarnargarðinn. Sendið, hálfgróið landsvæði liggur frá hólnum og upp að vegi. Áberandi rústahóll og sést hann vel frá vegi. Hugsanlega hefur suðurhlið hans eitthvað verið raskað þegar sjóvarnargarðurinn var byggður. Hóllinn er alls tælega 35 x 20 m frá austri til vesturs og hátt í 2 m hár. Á honum er lítil eftirlíking af torfbæ sem á stendur: „Vindás, fór í eyði 1762“. Uppi á hólnum vottar fyrir hleðslum, líkt og gerði sem er tæpir 20 m í þvermál. Hleðslur eru algrónar og ná varla nema 30-40 cm hæð. Sennilega eru þetta leifar af kálgarði, en Þórarinn Snorrason (f. 1931) man eftir kálgarði í Vindási á sínum yngri árum. Lítil þúst er austan megin við hólinn, hugsanlega rústaleifar. Nokkrum metrum vestan við hólinn sést þráðbein steinaröð sem liggur SV-NA, sennilega undirstaða undan girðingu.

Vindáshjáleiga (býli)

Vindáshjáleiga

Vindáshjáleiga.

Rústahóll er um 430 m austan við bæjarhól og um 100 m norðan við veginn sem liggur að Strandarkirkju.
Sendið land en vaxið töluverðu melgresi og mosa. Norðan við er hraun og meiri lúpína. Hóllinn er nokkurn veginn hringlaga og um 20 m í þvermál, iðagrænn og mosavaxinn. Búið er að setja eftirlíkingu af torfbæ á suðurenda hólsins. Á honum stendur: „Vindáshjáleiga, í eyði 1772.“

Hlíð (býli)

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Jarðardýrleiki xx að sögn manna, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 463.
Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lyngrif til eldiviðar bjarglegt. Silúngsveiðivon er góð og hefur oft að merkilegu gagni verið. Eggver í vatnshólmum hefur að nokkru gagni verið, en fer mjög til þurðar. Sölvafjöru og grasafjöruítak á jörðin fyrir Vogshúsalandi sem áður segir, vide Vogshús. Túnunum grandar fjallsskriður og landbrot, sem Hlíðarvatn gjörir að neðan. Engjar, sem áður voru litlar með vatninu, hefur sama vatn eyðilagt.“ JÁM II, 464.
„Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú um 60 ára skeið. Þar eru nú rústir einar. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Rústirnar af Hlíð eru við NA-horn Hlíðarvatns, 2,2 km norður af Vogsósum I. Bærinn fór í eyði árið 1906.
Slétt grund sem nær allt frá vatnsborðinu og upp að fjallsrótum. Þjóðvegurinn liggur um túnið um 70 m norðan við bæjarrústirnar. Enn er nokkur rækt í túninu. Það er ekki slegið, ógirt og sækja kindur í það. Veiðihús stendur á vesturenda bæjarrústanna og hefur sennilega raskað þeim að litlum hluta en miklar rústir eru á hólnum austan við húsið. Hefur bæjarröðin legið frá austri til vesturs og bærinn snúið með framhlið í suður. Alls er rústin um 35 x 20 m stór en að auki liggur garðlag frá suðurhlið hennar. Þá er bæjarhóllinn sjálfur sem rústin er á heldur stærri en hún, allt að 50 m langur A-V og 30-40 m breiður.

Kirkjuhóll (bænhús)
„Auk Bæjarhóls eru í túninu Kirkjuhóll eða Bænhúshóll, en þar á hafa staðið bænhús í katólskri tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er ekki vitað hvar Bænhúshóll var. Yfirleitt voru kirkjur og bænhús í næsta nágrenni við bæjarhóla og með hliðsjón af því er helst að giska á ávalan hól í túni fast austan við bæjarhól. Óslegið tún. Hóllinn er sporöskjulaga og nokkuð ávalur en ekkert rústalag á honum, 15-20 m í þvermál. Enginn annar hóll virðist líklegri.

Borgaskörð (fjárskýli)

Hlíðarborg

Borg undir Borgarskörðum.

„Borgaskörð voru skörð í Hlíðarfjall austarlega. Á einum stað milli þeirra var Háhamar,“ segir í örnefnalýsingu. Undir skörðunum er tóft sem skörðin gætu hafa dregið nafn sitt af, um 130 m austur af stekk. Hlíðarborg og Valgarðsborg eru sunnar.
Lyngmói, sumsstaðar með hraunnibbum og – hólum. Hlíðargata liggur áfram til austurs fast sunnan við tóftina. Tóftin er í háum og gróskumiklum valllendishól sem er nokkuð áberandi og sést vel að. Hún er lítið uppbyggð en að mestu leyti grafin niður í hólinn. Hann sjálfur er nokkuð hringmyndaður en hólfið er aftur næstum ferkantað. Mögulegt er að byggingin hafi upphaflega verið fjárborg en síðan verið endurbyggð sem fjárhús. Að innan er tóftin rúmir 3 x 2 m frá norðri til suðurs og mikið grjót í innanverðum veggjum. Hóllinn er á hinn bóginn allt að 10 m í þvermál að ofanverðu en breiðari ef miðað væri við hólræturnar. Hann er sennilega manngerður að einhverju leyti, a.m.k. sést lausagrjót í honum utanverðum á nokkrum stöðum. Að mestu hlýtur hann þó að vera náttúrulegur, enda gnæfir stór klettur upp úr honum fast við tóftina að austan og sunnan. Að innanverðu vottar aðeins fyrir stöllum eða bálkum upp við veggina og gætu það mögulega verið jötur. Heillegasta veggjarhleðslan er að vestanverðu og sjást þar 4 umför.

Hlíðarvegur (leið)

Hlíðarvegur

Hlíðarvegur.

Gata, sumsstaðar nefnd Hlíðarvegur, lá upp Hlíðarskarð, sem er í fjallinu norðaustur af bæjarstæðinu í Hlíð.
Sagt er frá leiðinni í örnefnalýsingu Selvogsafréttar: „Upp úr Hlíðarskarði liggur Hlíðarskarðsstígur og er kallaður Hlíðarvegur, göngumannavegur er kemur upp á fjallið. Þetta er þó enginn vegur, aðeins vörður á vegleysu… Göngumannavegur var upp með Hlíðarbæ og með honum vörður, sem standa enn, en þeim er ekki haldið við lengur. Vörðurnar byrja í Hlíðarskarði, liggja inn Langhóla, inn með VestriHvalhnúk, þar til komið er að norðurhorninu. Þá er brunablettur og sléttarhellur og vörður á þeim alla leið í Kerlingarskarð. Stakkavíkurvegur og Hlíðarvegur eru samhliða nokkuð og koma saman við Selvogsveginn við girðingarhlið, þegar komið er fram hjá Litla-Kóngsfelli.“ Ennfremur segir: „Neðanvert við Ásana, við vörðuveginn, sameinast Hlíðarvegur Stakkavíkurvegi.“
Skarðið er bratt og grýtt. Þegar skarðinu sleppti lá gatan áfram, hér um bil beint í norður en sveigði síðan meira í vestur og sameinaðist Stakkavíkurvegi langt uppi á fjalli. Ekki var farið upp Hlíðarskarð með hesta og var gatan af þeim sökum oft nefnd Gönguleið skv. Þórarni Snorrasyni. Hún var vörðuð þegar komið var upp á fjallið.
Eiginleg gata sést ekki í sjálfu skarðinu en á loftmynd virðist votta fyrir götu uppi á fjallsbrúninni.

Hlíðarborg (fjárskýli)

Hlíðarborg

Hlíðarborg

Hlíðarborg er fjárborg úti í hrauninu 1,7 km austan bæjarhóls 001. Hún er um 150 m norðan við girðingu sem liggur frá skilaréttinni við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell.
Borgin er byggð vestan í hraunhól, sem er klofinn eftir endilöngu, og þjónar hraunið sem austurveggur. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Borgin sjálf er nokkurn veginn hringlaga, alls um 13 x 14-15 m að stærð. Veggir eru allir hrundir og mikið grjót í þeim, einna minnst þó að norðanverðu og þar er hleðslan best gróin. Ekki sjást dyr á borginni. Mannvirkið er mjög óvenjulegt að því leyti að tóft, sennilega af fjárhúsi, er inni í borginni og fyllir út í hana að mestu, alls um 6 x 5 m stór frá NA-SV. Sennilega er hún yngri en borgin og heldur meiri gróska er í veggjum hennar en borgarinnar. Hleðsla er fyrir húsdyrum, um 3 umför af stórum og þykkum hellum og er það að heita má eina heillega hleðslan í tóftinni. Hlaðið hefur verið frá norðausturhluta hústóftarinnar að klettinum sem er austar og er hleðslan um 3-4 m löng. Hvorki sést garði né jötur í fjárhúsinu og ekki hlaða heldur. Hleðsluhæð er mest á bilinu 0,5-0,7 m.

Hlíðarsel (sel)

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Tóftir eru tæpa 300 m suður af Hlíðarborg, á allgrösugum bletti vestan í klettahól. Sennilega eru þær nálægt mörkum móti Vogsósum en þau liggja úr Nefjavörðu austur í Hellholt. Umhverfis er hálfgróið hraun og sumstaðar valllendisblettir. Milli Hlíðarborgar og umræddra tófta liggur girðing allt frá skilarétt við Hlíðarvatn og austur fyrir Urðarfell. Tóftirnar eru a.m.k. þrjár og ná yfir svæði sem er rúmlega 30 x 30 m stórt.
„…suður frá [Selvogs]réttunum eru Selbrekkur. Þar á að hafa verið sel frá Hlíð eða Hlíðarsel; ber þó ekki öllum saman,“ segir í örnefnalýsingu. Í annarri lýsingu segir: „Selbrekkur. Á þeim stað könnuðust þeir [heimildamenn í Stakkavík] við Stekkjardældir.“ Engar dældir eru suður frá Selvogsréttum en hins vegar eru grösugar brekkur og dældir um 300 m austur af þeim og hlýtur að vera átt við þann stað. Þetta er rétt tæpan 1 km SA af bæjarhól. Vel grónar og fallegar valllendisbrekkur og -dældir mót vestri og gróin grund þar niður af.
Eina tóftin sem þekkt er á þessum slóðum er sú sem Þórarinn Snorrason í Vogsósum nefnir Vogsósastekk. Þess má geta að Ómar Smári Ármannsson hefur kallað aðrar tóftir Hlíðarsel. Sú túlkun er ekki útilokuð þótt tóftirnar teljist of langt í burtu til að passa við lýsingu örnefnaskrár.
ATHS: Ómar Smári gerði eftirfarandi athugasemd við framangreinda skráningu: „Þetta er ekki rétt tilvitnun. Hlíðarsel og Valgarðsborg eru sitthvað. Þið getið ekki um Hlíðarselið, sem slíkt. Selið er í landið Hlíðar. Sendi myndir, uppdrátt og staðsetningu Hlíðarsels sunnan Hlíðarborgar. Óska eftir leiðréttingu….“.

Áni (fjárskýli)

Áni

Áni – fjárskjól.

Fjárhellir er úti í hrauni, hér um bil 350 m SA af tóft undir Borgarskörðum og um 1 km austur af bæjarhól. Hann er um miðja vegu milli Hlíðarfjalls og girðingar sem liggur frá Hlíðarvatni og austur fyrir Urðarfell. Hálfbert hraun. Hellisopið snýr mót norðaustri. Það er einfaldlega skúti, fyrst nánast beint niður og svo innundir hraunhelluna til suðvesturs. Laglega hefur verið hlaðið um munnann á allar hliðar en þó er hægt að komast að honum úr austri. Hleðslan er úr hraungrýti og myndar hólf sem er hér um bil ferkantað og um 4,5 x 3 m að stærð SV-NA. Hleðslan er hæst að suðvestan, allt að tæpur 1 metri. Lítil varða er á hleðslunni að suðvestan og að auki liggur einföld hleðsla um 3 m til suðvesturs frá hólfinu. Ekki var farið niður í hellinn en hann sýnist manngengur.

Stakkavík (býli)
Stakkavík„Jarðardýrleiki x að sögn, en engin geldst hjer tíund af.“ JÁM II, 464.
Ekki til túnakort. Í Jarðabók Árna og Páls 1706 segir: „Lýngrif brúkast til eldiviðar bjarglegt. Rifhrís og til eldiviðar brúkast og peningi til bjargar í heyskorti….Eggver í Hlíðarvatnshólnum má ekki telja…Rekavon í besta lagi af þessari sveit þá inná voginn líður, og fylgir hún kirkjunni og proprietariis. Sölvafjara bjargvæn heimamönnum og so fjörugrös. Heimræði má hjer valla telja, því bærinn liggur lángt frá sjó, þó hefur það fyrir fám árum reynt verið, og til gagns komið sumar og vetur. Túnin brýtur Hlíðarvatn. Engi litlu betur, en um Hlíð segir. Torfrista og stúnga so sem lökust er hún í þessari sveit, nema miður se fyrir grjótum.“ JÁM II, 465-66.
„Stakkavík hefur um aldabil verið í eigu Strandarkirkju; er nú í eyði. Stakkavíkurhúsið stendur á tanga er liggur fram í Hlíðarvatn,“ segir í örnefnalýsingu. Nú er gamalt veiðihús í niðurníðslu rétt vestan við síðasta bæjarstæðið í Stakkavík.
Bærinn stóð á túnræmu sem afmarkast af túngarði í norðri og nokkuð bröttum hraunkambi í suðri. Þar fyrir neðan er Hlíðarvatn. Túnið er óslétt og töluvert af hrauni stendur upp úr. Trúlega hefur þetta ekki þótt gott tún.

Stakkavík

Stakkavík – uppdráttur ÓSÁ.

Stakkavíkurbærinn stóð fremst á hraunkambinum norðan megin við Hlíðarvatn. Um 50 m norðar er túngarður sem liggur austur-vestur. Húsin voru þrjú, íbúðarhús, heyhlaða og skemma sambyggt því. Alls er bæjarstæðið um 16 x 16 m stórt. Húsið sem var framar á hraunkambinum hefur verið steypt, 8×7 m á stærð og veggirnir um 25 cm þykkir. Veggirnir hafa fallið út á við nema vesturveggurinn sem hefur hrunið inn í grunninn. Í grunninum má sjá leifar af eldavél og ef til vill sést þar einnig í steyptan skorstein. Grunnurinn á húsinu er mosa og grasi gróinn. Vestan megin við húsið hefur verið steyptur pallur/stétt um 2×2 m og um 0,5 m há. Virðist hún hafa verið í sömu hæð og gólfflötur hússins og ef til vill var inngangurinn í húsið þar. Ætla má að húsið hafi verið hvítmálað þar sem leifar af málningunni sjást á steypunni. Við húsið er lítil hella og á henni platti sem á stendur. ,,Stakkavík í eyði 1943. síðasti ábúandi Kristmundur Þorláksson“. Norðan við húsið er eitthvað sem virðist vera upphlaðin tóft, ferningslaga, um 5×5 m á stærð. Trúlega eru þetta leifar af skemmunni. Hún er nánast algróin og svo virðist sem fyllt hafi verið upp í hana. Á stöku stað sést í hleðslurnar að utanverðu. Heyhlaðan er 9×7 m á stærð. Veggirnir eru um 1 m á hæð og 1 m á breidd. Allir eru þeir vel hlaðnir nema suðurveggurinn sem ekki sést og ef til vill hefur verið op þar. Veggirnir eru mosa og grasi grónir og þá sérstaklega að utanverðu. Tóftin er algróin að innaN og engar leifar af milliveggjum eru sjáanlegir. Leifar af norðurvegg íbúðahússins eru inn í tóftinni. Mikil gróska er í bæjarstæðinu en ekki teljandi bæjarhóll, enda ekki víst að nokkur mannvirki hafi staðið þarna fyrr en eftir miðja 19. öld.

Alfaraleið/Fornagata (leið)

Fornagata

Fornagata (Hellugatan).

„Milli sjávar og Hlíðarvatns, þar vestur af, liggur klapparhraun mikið og slétt, kallast Hellur. Um Hellur liggja gamlar reiðgötur, enda var þarna um hinn gamla alfaraveg að ræða… Gata þessi er ekki eins glögg og hin neðri, en aftur á móti er hún vörðuð Helluvörðum allt austur á Víðisand,“ segir í örnefnalýsingu Stakkavíkur. Til er önnur lýsing sem segir frá ýmsum leiðum í nágrenni við Selvog. Þar er þessi leið kölluð Alfaraleið. Hún lá frá Vogsósum, yfir Ósinn á Vogsósavaði og síðan um Víðisand. Þar sem honum sleppir var farið um Hellur svonefndar og var þá hægt að fara bæði efri og neðri leið, og var sú neðri talin eldri, enda sennilega torfær í seinni tíð. Hún hverfur nánast í hraun skammt austan við Mölvík en sú efri stefnir meira í norðaustur, fyrst yfir fremur slétt hraun en svo um troðning yfir yngra hraun sem stundum er kallað Bruninn.
Þá taka við Mölvíkurklappir, beint upp af Mölvík en vestan við þær er komið yfir í Herdísarvíkurland. Sá hluti leiðarinnar sem var skráður á vettvangi er vestan við Víðasand, Hellurnar svonefndu og einnig Mölvíkurklappir. Í Hellunum sjást bæði merki um efri og neðri leiðina.
Leiðin liggur um fremur slétt helluhraun. Bílfær vegur liggur niður til suðurs rúmlega 1 km vestur af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er nálægt sjávarkampinum eru Hellurnar á vinstri hönd og sjást götur í þeim fast við veginn, í stefnu á tvö vörðubrot. Þetta er efri leiðin. Hún er fremur óljós í fyrstu en sést þó sem stígur í helluhrauninu. Þegar nær dregur vörðunum verður hún skýrari en verður aftur óljós á kafla á milli þeirra en fjarlægð milli varða er um 120 m. Annars er hægt að rekja þennan stíg um 400 m til VNV. Má ætla að það hafi þurft talsverða umferð járnaðra hesta til að slíta hrauninu svo mjög, enda lítur gatan helst út fyrir að hafa verið meitluð í hraunið með verkfærum, víðast um 30 cm breið og allt að 5-7 cm djúp. Um 400 m VNV af upptökum verður gatan ógreinileg en aftur sést stígur í grónu landi uppundir Brunanum og virðist hafa legið meðfram honum til norðurs, vestan við upphlaðinn vegarspotta. Skammt norðar sveigir svo gatan nánast beint í vestur, um troðning gegnum Brunann sem hlýtur að hafa verið ruddur því hraunið er annars úfið mjög.

Hellugata

Helllugata (Fornagata).

Troðningur þessi er 2-3 m breiður, gróinn í botni en nokkuð hlykkjóttur. Bruninn er sennilega um 400 m breiður en þar sem honum sleppir tekur aftur við eldra helluhraun, Mölvíkurklappir. Þar sést aftur gata í hrauninu og er hún mjög greinileg á 30-40 m kafla en fjarar út heldur vestar en um miðjar klappir. Er þá komið út undir merki móti Herdísarvík. Þar tekur aftur við yngra hraun og úfnara og sést þar troðningur í átt að Herdísarvíkurbænum. Þá er komið að neðri leiðinni um Hellur. Hún sést um 150 m suðvestan við vestari vörðuna á efri leiðinni og þaðan má rekja hana rúma 500 m til vesturs, ofan í kvos sem liggur A-V ofan við sjávarkamp. Þessi gata er víðast hvar dýpri og greinilegri en efri leiðin og allt að 10-15 cm djúp þar sem mest er.
Í kvosinni er mikið af rekavið og rusli sem sjór hefur borið á land. Þar sem henni sleppir er gatan orðin ógreinileg en þó má sjá grunnan stíg sem liggur áfram til vesturs nokkurn spöl, uns komið er að úfnu hrauni sem er ekki greiðfært nema varkárum göngumönnum og sennilega alveg ófært hrossum. Þá hefur götunum um Hellur verið lýst. Leiðir voru ekki raktar á vettvangi á Víðasandi. Þess má geta að póstvegurinn í átt að Strönd hefur væntanlega fylgt þessari leið, þá hinni efri, en ekki sáust þó vörður við hana nema þær tvær sem áður var getið og eru suðvestan við Hlíðarvatn.
Póstvegurinn lá þó ekki yfir Ósinn á Vogsósavaði heldur Eysteinsvaði sem er töluvert neðar. Þess má geta að þegar komið hefur verið yfir Brunann á austurleið virðist slóð hafa legið áfram beint í austur, heim að Stakkavík.

Bæjarhólmi (bústaður)
„Á þessu vatnsviki (?), sem nú er Gamlatúnið eru þrír hólmar, Hólmarnir. Fyrst er Hólminn syðsti, sem einnig kallast Bæjarhólmi, því þar stóð Stakkavíkurbærinn gamli í eina tíð,“ segir í örnefnalýsingu. Í svörum við spurningum Örnefnastofnunar er eftirfarandi haft eftir Eggerti Kristmundssyni: „Faðir móður minnar, Láru Sch. Gísladóttir, bjó lengst af sínum búskap í Selvogi, síðast allmörg ár í Stakkavík. Síðan bjó móðir mín ásamt manni sínum, Kristmundi Þorlákssyni, í Stakkavík í 28 ár, flutti þaðan 1942. Hún telur, að það muni vera 160-170 ár, síðan gamla túnið fór undir vatn. Í grein Brynjúlfs Jónssonar um fornleifar í Árnessþingi 1902 segir: „Selvogur hefur, eins og kunnugt er, orðið fyrir miklum sandágangi, bæði að austan og vestan. Að vestan hefir sandurinn borizt með útsynningum utan af Víðasandi, austur yfir Ósinn. Og um leið hefir hann grynt ósinn og við það hækkað vatnið í Hlíðarvatni, svo það hefir brotið burt gamla túnið í Stakkavík, sem var fyrir neðan brekkuna. Stóð bærinn þar fram yfir 1850. Nú er rúst hans lítill hólmi.“ Nokkrir hólmar eru úti í vatninu sunnan við bæ og mun Bæjarhólmi vera einn þeirra þótt ekki hafi hann verið staðsettur nákvæmlega á vettvangi. Ekki var farið út í neinn hólmanna en frá landi séð virðist enginn þeirra líklegri en annar fyrir bæjarstæði, þ.e. alls engar rústir sjást eða áberandi rústahólar. Allir hólmarnir eru vel grónir.

Fjárborgin (fjárskýli)

Stakkavík

Stakkavíkurborg

„Þegar kom upp á Háahraun, var þar fyrst fyrir neðan þjóðveginn Fjárborgin..,“ segir í örnefnalýsingu.
„Fjárborgin stendur enn,“ segir í svörum við spurningum Örnefnstofnunar. Fjárborgin er um 330 m norður af bæjarstæði og um 150 m vestan frá vegi sem liggur frá þjóðveginum niður að nýrra veiðihúsinu sem heitir Stakkavík. Hraunið er mjög mikið gróið nosa, lyngi og kjarri. Það er þó töluvert úfið. Fjárborgin stendur upp á smá hæð og er nokkuð greinileg frá veginum. Fjárborgin er 11 m í þvermál og nánast hringlaga. Veggir hennar eru um 1,5 m á breidd en vegghæðin um 1,7 m og mest 8 umför af hleðslum. Hún er mjög vel hlaðin og lítið farin að hrynja. Steinarnir í hleðslunni eru miðlungsstórir og svolítið mosagrónir. Hleðslan er mjög falleg og heilleg. Hlaðið gerði er við borgina að sunnan og vestanverðu, alls um 40 x 30 m stórt frá austri til vesturs. Veggjabreiddin er mest um 1,2 m og hæðin um 1,1 m. Veggurinn er vel hlaðinn og ekki mikið farinn að hrynja. Hann er mosavaxinn og steinarnir eru miðlungsstórir í hleðslunni. Svæðið innan í er grasi gróið og nokkuð þýft. Borið var á túnið og það slegið samkvæmt Eggerti Kristmundssyni. Fjárborgin var hlaðin langt fyrir hans minni en hugsanlega er gerðið yngra.

Stakkavíkursel yngra (sel)

Stakkavíkursel

Stakkavíkrusel yngra- uppdráttur ÓSÁ.

Í Jarðabók Árna og Páls segir frá selstöðu frá Stakkavík: „Selstöðu á jörðin yfrið erfiða, so valla er hestum fært á fjöll upp, þarf og vatn til að flytja, nema votviðri gangi því meiri, og er hún fyrir þessara ókosta sakir í margt ár ekki brúkuð.“ „Selstígur heitir upp á fjallinu; liggur hann í Stakkavíkursel, sem er þar norðar á fjallinu,“ segir í örnefnalýsingu. Selrústir eru uppi á fjallinu, um 300 m austan við Stakkavíkurveg og um 2,4 km NNA af bæjarhól. Farið er upp á fjallið eftir Selskarðsstíg eða Stakkavíkurvegi sem er austan við hraunfossinn beint upp af Stakkavíkurtúni. Þegar komið er upp á fjallið er haldið í norður og eftir um 15-20 mínútna gang sést stór varða í norðaustri. Tóftirnar eru 60-70 m suðvestan við hana. Þýfð kvos milli hraunhóla. Ekkert vatnsból er sjáanlegt í nágrenninu. Alls er rústasvæðið um 20 x 16 m stórt frá norðri til suðurs.
Á miðju svæðinu er lítill hellir í hraunhól og tóftir bæði norðan, norðaustan og vestan við hann. Ekki sjást hleðslur inni í honum en hellisgólfið er grýtt.
Ómar Smári Ármannsson hefur skoðað þessar selrústir og nefnir þær Stakkavíkursel yngra. Samkvæmt honum eru aðrar selrústir suðvestar.

Stakkavíkursel eldra (sel)

Stakkavíkursel

Í Stakkavíkurseli eldra.

Samkvæmt Ómari Smára Ármannssyni eru seltóftir við Stakkavíkurveg, rúma 300 m vestsuðvestur af Stakkavíkurseli yngra. Ekki var farið á staðinn á vettvangi. Í BA-ritgerð Ómars um selstöður á Reykjanesskaga segir: „Þegar komið var áleiðis upp í selið frá Brekkunum sást í fallegan gamlan stekk utan í þeim og tóftir skammt neðar, rétt við Stakkavíkurselsstíginn. Tóftirnar eru nær grónar og að mestu jarðlægar. Stekkurinn sést þó vel í hlíðinni. Sel þetta verður nefnt Stakkavíkurselið eldra.“ Nánari lýsing eða uppdráttur er ekki til af tóftunum og ekki ljóst hvað þær eru margar eða hvernig þær líta út.

Heimild:
-Aðalskráning fornleifa í sveitarfélaginu Ölfusi – Áfangaskýrsla I, Fornleifastofnun Íslands 2015.

Ölfus

Selvogur – örnefni (ÓSÁ).