Færslur

Orkuverið Jörð

Íslenskir fjárbændur fara víðast hvar um landið gjörvallt. Þegar þeir smala á haustin er hugur og augu þeirra nær eingöngu á fénu – sjá ekkert annað – veita ekki öðru athygli.
ReykjanesvirkjunÞegar þeir hinir sömu eru spurðir um hvort ekki hafi einhverjar áhugaverðar minjar læðst inn í sjónarholin þeirra í leiðinni kviknar þó jafnan dauflega á perunni. “Jú, undir fjallsöxlinni sá ég einhverjar hleðslur, en veitti þeim ekki frekari athygli”. Þar gat þá, er betur var að gáð, leynst seltóft frá því fyrr á öldum.
Svo er og komið með aðra er jafnan einblína á eigin hagsmuni, t.d. Hitaveitu Suðurnesja. Hagsmunir hennar felast í virkjun jarðvarma og sölu vatns og rafmagns. Umhverfið hefur á stundum liðið fyrir hina blindu hagsmuni. Að vísu hefur fyrirtækið reynt að markaðssetja sig sem “vistvænt”, s.s. með slagorðinu “í sátt við umhverfið”, en það hefur ekki blekkt neinn með sæmilega vitund. Ganga má út frá a.m.k. tvennu sem nokkurn veginn vísu; nýting orkulinda er nauðsynleg, en jafnframt að líftími virkjanamannvirkja er takmarkaður.

Orkuverið jörð

Hver er þá sýn framkvæmdaraðila á virkjanasvæðin að líftímanum loknum? Verður hið dýrmæta ósnortna umhverfi landssvæðisins afturkræft – og þá í hve miklum mæli? Allflestir, utan þrengsta virkjanageirans, gera sér glögga grein fyrir að ósnortin náttúra landsins verður allra arðbærasta fjárfesting þess til lengri framtíðar litið. Samt sem áður hafa forstjórar HS jafnan lagst gegn hvers kyns friðun eða friðlýsingum á Reykjanesskaganum, sbr. bréf þeirra 2. júlí 2003.
Hitaveita Suðurnesja gefur út Fréttaveituna. Í því blaði hafa birst margur fróðleikurinn um Reykjanes og Reykjanesskagann.
Hér skal getið þess helsta varðandi uppruna og þróun Reykjanesvirkjunnar er hófst í maí 2006 eftir prufukeyrslu og ýmsar prófanir.

Orkuverið

Fyrri vélin fór í rekstur um miðjan maí og sú seinni í lok maí. Orkuverið er hannað með tilliti til þess að því sé almennt stjórnað með fjargæslu frá stjórnstöð í Svartsengi.
Reykjanesvirkjun er eingöngu raforkuver sem samanstendur af 2 x 50 MW tvístreymishverflum með sjókældum eimsvölum sem er nýjung á Íslandi og nota samtals allt að 2 x 2000 l/s, aðskilin dælukerfi (sem er álíka magn og meðalrennsli Elliðaánna). Þá eru sér kerfi fyrir hverja samstæðu það er forskiljur, rakaskiljur, sjólokar og hljóðdeyfar, gufulokar og gufuháfar, gufuholur og gufuveita, þéttivatnskerfi, sjó- og þéttivatnsfráveita, rafmagns- og stjórnkerfi, þessi kerfi eru öll aðskilin. Síðan er sameiginleg fráveita í lokuðum stokk til sjávar fyrir kælisjó, jarðsjó og þéttivatn en það mannvirki kallast bunustokkur.

Merki

Aðdragandi að arðbærri og raunverulegri nýtingu jarðhitans á Reykjanesi er orðinn mjög langur. Fyrsta rannsóknarholan var boruð árið 1956 og á árunum 1968 til 1969 voru boraðar sjö rannsóknarholur til viðbótar. Hola 8 var þeirra umfangsmest og eina sem var nýtt en hún varð 1.754 metra djúp og var aðal vinnsluhola svæðisins um árabil með heildarupptekt upp á tæplega 21 milljón tonna, en vegna skemmda var steypt í hana árið 1993.
Stöðvarhúss virkjunarinnar er mest áberandi hluti framkvæmdarinnar og er um 4.313 fermetrar að grunnfleti, kjallari er 2.291 fermetrar og önnur hæðin 1.088 fermetrar þannig að heildar flatarmál er 7.692 fermetrar og rúmmálið 65.268 rúmmetrar. Á annari hæð er aðstaða fyrir starfsmenn og einnig aðstaða til móttöku gesta og kynningar á fyrirtækinu og svæðinu. Aðveitustöð er með kjallara sem er 280 fermetrar og fyrsta hæðin er 1.280 fermetrar eða samtals 1.560 fermetrar og rúmmál 19.869 rúmmetrar. Skiljustöð er að flatarmáli 924 fermetrar og rúmmál um 8.579 rúmmetrar og tengivirki á Rauðamel er um 485 fermetrar og rúmmál 5.604 rúmmetrar. Heildarflatarmál allra bygginga sem tengjast framkvæmdinni er 12.705 fermetrar og rúmmál 110.769 rúmmetrar.
ReykjanesvitiGufuveitan þarf að anna flutningi frá holum sem í magni til er um 1.000 kíló á sekúndu og eru æðarnar um 5 kílómetrar að lengd og vídd þeirra er 350 til 450 millimetrar. Frárennslið í heild sinni samsvarar meðalrennsli Elliðaánna. Nú hafa verið boraðar 15 holur vegna virkjunarinnar sem samtals eru 33,4 kílómetrar að lengd.

Gagnvirk sýning í Reykjanesvirkjun

Orkuverið

Sýningin hefur nú verið sett upp í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunnar. Sem slík er hún bæði innsýn í nýtingu jarðvarmans en jafnframt algjör sjónhverfing hins gagnstæða. Hönnun og hugmyndafræði sýningarinnar gengur út frá stóra hvelli og upphafi sólkerfisins allt aftur til okkar tíma.  Farið er meðal annars  í gegnum uppfinningar sem breytt hafa lífi okkar til þess vegar sem það er í dag en það ætti að vera okkur öllum ljóst hversu mikilvægur þáttur orkan er í lífi okkar. Fjallað verður um mismunandi orkunýtingu á jörðinni og hvaða möguleika við höfum á orkunýtingu bæði hér heima á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Nokkur sýnishorn eru á staðnum en segja má að jarðvarmavirkjunin sjálf sé eitt það stærsta. Sýningin er að nokkrum hluta gagnvirk og geta gestir því tekið virkan þátt í henni.
Sýningin hefur síðan verið hönnuð af Janvs International í London og Ara Trausta Guðmundssyni sem sá um að semja texta sýningarinnar. Á spjöldum og gagnvirkum skjám er að finna ógrynni upplýsinga um orku, plánetur og himingeiminn. Nokkur gagnvirk tæki er að finna á sýningunni þar á meðal jarðskjálftahermir þar sem sýningargestir geta upplifað raunverulega jarðskjálfta á mismunandi richterskala. [Reyndar var eftirhermurinn ekki mjög nákvæmur er betur var að gáð. Tekið var dæmi frá jarðskjálftunum 17. júní árið 2000. Þá riðu tveir jarðskjálftar um Reykjanesskagann; annars vegar Suðurlandsskjálftinn svonefndi, og hins vegar Kleifarvatnsskjálftinn. Í a.m.k. 3 ár rifust sérfræðingar um hvort um hafi verið að ræða einn eða tvo skjálfta. FERLIR vissi betur því hann var staddur á Sveifluhálsi þegar skjálftarnir tveir riðu yfir.

Heimildir m.a.:
-www.hs.is

Í orkuverinu

Orkuverið Jörð

Eftirfarandi upplýsingar birtust í Fréttablaðinu árið 2009 undir fyrirsögninni “Sólkerfi á Reykjanesi”.
orka-3“Unnið er að því hörðum höndum að setja upp pláneturatleik um Reykjanesið í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð. „Stöplarnir fyrir pláneturnar eru komnir upp, en það á eftir að setja pláneturnar á þá,“ segir Róbert Kjartansson, sýningarstjóri Orkuversins Jarðar, í tengslum við svokallaðan pláneturatleik sem verið er að setja upp. Eftirlíkingu af plánetunum verður dreift um Reykjanes. Sólin er staðsett fyrir utan stöðvarhús Reykjanesvirkjunar og verða aðrar plánetur í hlutfallslega réttri fjarlægð frá sólinni. „Hægt verður að keyra á milli plánetanna en hugmyndin er sú að stilla reikistjörnunum upp svo að hægt verði að fylgja þeim inn í Reykjanesbæ.
Ég geri ráð fyrir orka-10því að þær verði allar komnar upp í sumar.“ Ratleikurinn er settur upp í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð sem er í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar. „Sýningin fjallar um orku. Það má segja að henni sé skipt upp í fjóra hluta og er byrjað á kenningunni um Miklahvell. Þá er farið yfir í reikistjörnurnar í sólkerfinu og þeim öllum stillt upp í réttum stærðarhlutföllum. Næsti hluti er saga mannsins og orkunnar saman, allt frá því að við virkjum eldinn og fram á okkar daga. Svo er það orkunotkunin í heiminum. Þar er farið yfir það hvaðan við fáum orkuna, hvort sem það er úr jarðefnaeldsneyti, fallvötnum eða jarðvarma. Síðasti hluti sýningarinnar er virkjunin sjálf og orkuframleiðslan,“ útskýrir Róbert.
Þegar Róbert er spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að orka-4ráðast í þetta verkefni segir hann að í rauninni hafi tækifærið bankað upp á. „Það komu hingað tveir herramenn, þeir Simon Hill frá Bretlandi og Björn Björnsson frá List og sögu, með þá hugmynd að setja upp þessa sýningu og þá var miðað við orkutengda ferðaþjónustu. Hugmyndin var að setja upp þessa sýningu við hliðina á orkuverinu sjálfu,“ segir Róbert og bætir við að hægt sé að sjá inn í orkuverið frá sýningunni því einn veggur þess sé gerður úr gleri.

Orka er líf
orka-5Inngangur sýningarinnar leiðir okkur í gegnum kenninguna um upphaf alheimsins með Miklahvell. Fyrir um 13,7 milljörðum ára var alheimurinn ekki stærri en greipaldin en sprakk svo út á ógnarhraða; slíkum ógnarhraða að ljósið sem fer með um 300.000 km hraða á sekúndu, ferðast ekki eina blýantslengd á þeim tíma. Ljósið fer 7 ½ hring um jörðina á einni sekúndu.
Þegar við höfum hafið ferð okkar með látum í Miklahvell leiðir Albert Einstein okkur inn í sýninguna. En hann var einn af þeim frumkvöðlum sem kom okkur í skilning um lögmál alheimsins. Vitanlega stóð hann á herðum risanna eins og Newton orðaði það sjálfur; Pýþagóras lagði fram kúlulaga jörð og reikistjörnur sem ferðuðust í hringi umhverfis mikinn eld. Aristóteles teiknaði upp heimsmynd með jörðina í miðju alheimsins og Aristarkos staðsetti allar sýnilegar reikistjörnur í réttri röð í sólkerfinu.
Kópernikus setti sólina miðju í staðinn fyrir jörðina („himnarnir snúast ekki, við orka-6gerum það“) og Johannes Kepler nýtti sér stærðfræðina og reiknaði út að kenningarnar áttu samleið með útreikningum.
Galileo Galilei horfði í gegnum sinn stjörnukíki og sannaði með sínum eigin augum. Newton setti fram þyngdarlögmálið sem heldur öllu saman og lagði stærðfræðilegan grunn með bók sinni Principia. Einstein setti fram afstæðiskenninguna, útvíkkun alheimsins, svartholin, hvítholin og raðaði öllu saman. Georges Lemaître steig fram og alheimurinn fæddist og síðan kom Hubbel og sá hann allan á einni nóttu.
Eftir að gestir hafa farið í gegnum sköpun alheimsins liggur leiðin inn í fyrsta hluta safnsins í gegnum vetrarbrautina okkar og inn í sólkerfið sem við tilheyrum. Sýningin skiptist í 4 hluta og eru þeir aðgreindir með veggjum sem líkja eftir hverfilblöðum:

Sólkerfið okkar
orka-7Stjörnufræðingar hafa varpað því fram að jörðin sé eins og eitt sandkorn á öllum ströndum jarðar í samræmi við stærð alheimsins. Þannig að smæð okkar sólkerfis er gríðarleg í samanburði við þær kenningar sem leiða líkur að því að 100.000 – 200.000 milljón sólir séu í vetrarbraut okkar (Milky Way). Gagnvirkur skjár leiðir gesti í gegnum allar reikistjörnurnar í okkar sólkerfi og sérstök líkön sýna hverja plánetu fyrir sig. Þú getur kynnst því hversu heitt er á Merkúr og hvað Júpiter hefur mörg tungl og allt þar á milli.

Maðurinn og orkan
orka-8Hvernig maðurinn hefur virkjað orkuna sér til framdráttar er kjarninn í þessum sýningarhluta. Hér getur að líta hvernig tækniþróunin er alltaf að verða hraðari og hraðari eftir því sem tíminn líður.
Gagnvirkur skjár gefur gestum tækifæri á að kynna sér helstu uppgötvanir ásamt því að sérstakur sýningargripur sýnir hvernig orkan breytist úr einu formi yfir í annað; snigill Arkimedesar breytir hreyfiorku mannsins í fallorku, þaðan í vindorku sem loks hellir upp á.

Mismunandi orkugjafar
Í þessum hluta safnsins kynnast sýningargestir mismunandi orkugjöfum og því hvernig maðurinn nýtir sér orkuna til að knýja daglegt líf. Sólarorka, vindorka, kjarnorka, vetni, etanól, jarðefnaeldsneyti (kol, olía, gas). Nánast öll staðbundinn orka á Íslandi kemur frá umhverfis-vænum orkugjöfum (vatnsfallsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum).
Því er öðruvísi farið í flestum öðrum löndum þessa heims. T.d. kemur yfir 90% af allri raforkuframleiðslu bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.

Virkjun jarðvarma á Íslandi
orka-9Í síðasta hluta sýningarinnar er greint frá því á hvern hátt HS Orka virkjar jarðvarma á Reykjanesi. Glerveggur gefur gestum tækifæri á að sjá inn í vélasal virkjunarinnar þar sem tveir gufuhverflar framleiða hvor um sig 50 megavött af rafafli. Sú orka nægir til að knýja Reykjavíkurborg á góðum sumardegi. Hver hverfill um sig kostar 3 milljarða og eru það dýrustu og afkastamestu sýningargripirnir. Jarðskjálftahermi er að finna í þessum sýningarhluta.

Allir, sem leið eiga út á Reykjanes, ættu að koma við í Orkuverinu Jörð með það fyrir augum að skoða og fræðast um það sem sýningin hefur upp á að bjóða.

Heimild:
-Fréttablaðið 10. júní 2009, bls. 26.
-www.hsorka.is/kynningarefni.

Reykjanesvirkjun

Í Reykjanesvirkjun.