Eftirfarandi upplýsingar birtust í Fréttablaðinu árið 2009 undir fyrirsögninni “Sólkerfi á Reykjanesi”.
“Unnið er að því hörðum höndum að setja upp pláneturatleik um Reykjanesið í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð. „Stöplarnir fyrir pláneturnar eru komnir upp, en það á eftir að setja pláneturnar á þá,“ segir Róbert Kjartansson, sýningarstjóri Orkuversins Jarðar, í tengslum við svokallaðan pláneturatleik sem verið er að setja upp. Eftirlíkingu af plánetunum verður dreift um Reykjanes. Sólin er staðsett fyrir utan stöðvarhús Reykjanesvirkjunar og verða aðrar plánetur í hlutfallslega réttri fjarlægð frá sólinni. „Hægt verður að keyra á milli plánetanna en hugmyndin er sú að stilla reikistjörnunum upp svo að hægt verði að fylgja þeim inn í Reykjanesbæ.
Ég geri ráð fyrir því að þær verði allar komnar upp í sumar.“ Ratleikurinn er settur upp í tengslum við sýninguna Orkuverið Jörð sem er í stöðvarhúsi Reykjanesvirkjunar. „Sýningin fjallar um orku. Það má segja að henni sé skipt upp í fjóra hluta og er byrjað á kenningunni um Miklahvell. Þá er farið yfir í reikistjörnurnar í sólkerfinu og þeim öllum stillt upp í réttum stærðarhlutföllum. Næsti hluti er saga mannsins og orkunnar saman, allt frá því að við virkjum eldinn og fram á okkar daga. Svo er það orkunotkunin í heiminum. Þar er farið yfir það hvaðan við fáum orkuna, hvort sem það er úr jarðefnaeldsneyti, fallvötnum eða jarðvarma. Síðasti hluti sýningarinnar er virkjunin sjálf og orkuframleiðslan,“ útskýrir Róbert.
Þegar Róbert er spurður hvers vegna ákveðið hafi verið að ráðast í þetta verkefni segir hann að í rauninni hafi tækifærið bankað upp á. „Það komu hingað tveir herramenn, þeir Simon Hill frá Bretlandi og Björn Björnsson frá List og sögu, með þá hugmynd að setja upp þessa sýningu og þá var miðað við orkutengda ferðaþjónustu. Hugmyndin var að setja upp þessa sýningu við hliðina á orkuverinu sjálfu,“ segir Róbert og bætir við að hægt sé að sjá inn í orkuverið frá sýningunni því einn veggur þess sé gerður úr gleri.
Orka er líf
Inngangur sýningarinnar leiðir okkur í gegnum kenninguna um upphaf alheimsins með Miklahvell. Fyrir um 13,7 milljörðum ára var alheimurinn ekki stærri en greipaldin en sprakk svo út á ógnarhraða; slíkum ógnarhraða að ljósið sem fer með um 300.000 km hraða á sekúndu, ferðast ekki eina blýantslengd á þeim tíma. Ljósið fer 7 ½ hring um jörðina á einni sekúndu.
Þegar við höfum hafið ferð okkar með látum í Miklahvell leiðir Albert Einstein okkur inn í sýninguna. En hann var einn af þeim frumkvöðlum sem kom okkur í skilning um lögmál alheimsins. Vitanlega stóð hann á herðum risanna eins og Newton orðaði það sjálfur; Pýþagóras lagði fram kúlulaga jörð og reikistjörnur sem ferðuðust í hringi umhverfis mikinn eld. Aristóteles teiknaði upp heimsmynd með jörðina í miðju alheimsins og Aristarkos staðsetti allar sýnilegar reikistjörnur í réttri röð í sólkerfinu.
Kópernikus setti sólina miðju í staðinn fyrir jörðina („himnarnir snúast ekki, við gerum það“) og Johannes Kepler nýtti sér stærðfræðina og reiknaði út að kenningarnar áttu samleið með útreikningum.
Galileo Galilei horfði í gegnum sinn stjörnukíki og sannaði með sínum eigin augum. Newton setti fram þyngdarlögmálið sem heldur öllu saman og lagði stærðfræðilegan grunn með bók sinni Principia. Einstein setti fram afstæðiskenninguna, útvíkkun alheimsins, svartholin, hvítholin og raðaði öllu saman. Georges Lemaître steig fram og alheimurinn fæddist og síðan kom Hubbel og sá hann allan á einni nóttu.
Eftir að gestir hafa farið í gegnum sköpun alheimsins liggur leiðin inn í fyrsta hluta safnsins í gegnum vetrarbrautina okkar og inn í sólkerfið sem við tilheyrum. Sýningin skiptist í 4 hluta og eru þeir aðgreindir með veggjum sem líkja eftir hverfilblöðum:
Sólkerfið okkar
Stjörnufræðingar hafa varpað því fram að jörðin sé eins og eitt sandkorn á öllum ströndum jarðar í samræmi við stærð alheimsins. Þannig að smæð okkar sólkerfis er gríðarleg í samanburði við þær kenningar sem leiða líkur að því að 100.000 – 200.000 milljón sólir séu í vetrarbraut okkar (Milky Way). Gagnvirkur skjár leiðir gesti í gegnum allar reikistjörnurnar í okkar sólkerfi og sérstök líkön sýna hverja plánetu fyrir sig. Þú getur kynnst því hversu heitt er á Merkúr og hvað Júpiter hefur mörg tungl og allt þar á milli.
Maðurinn og orkan
Hvernig maðurinn hefur virkjað orkuna sér til framdráttar er kjarninn í þessum sýningarhluta. Hér getur að líta hvernig tækniþróunin er alltaf að verða hraðari og hraðari eftir því sem tíminn líður.
Gagnvirkur skjár gefur gestum tækifæri á að kynna sér helstu uppgötvanir ásamt því að sérstakur sýningargripur sýnir hvernig orkan breytist úr einu formi yfir í annað; snigill Arkimedesar breytir hreyfiorku mannsins í fallorku, þaðan í vindorku sem loks hellir upp á.
Mismunandi orkugjafar
Í þessum hluta safnsins kynnast sýningargestir mismunandi orkugjöfum og því hvernig maðurinn nýtir sér orkuna til að knýja daglegt líf. Sólarorka, vindorka, kjarnorka, vetni, etanól, jarðefnaeldsneyti (kol, olía, gas). Nánast öll staðbundinn orka á Íslandi kemur frá umhverfis-vænum orkugjöfum (vatnsfallsvirkjunum eða jarðvarmavirkjunum).
Því er öðruvísi farið í flestum öðrum löndum þessa heims. T.d. kemur yfir 90% af allri raforkuframleiðslu bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku.
Virkjun jarðvarma á Íslandi
Í síðasta hluta sýningarinnar er greint frá því á hvern hátt HS Orka virkjar jarðvarma á Reykjanesi. Glerveggur gefur gestum tækifæri á að sjá inn í vélasal virkjunarinnar þar sem tveir gufuhverflar framleiða hvor um sig 50 megavött af rafafli. Sú orka nægir til að knýja Reykjavíkurborg á góðum sumardegi. Hver hverfill um sig kostar 3 milljarða og eru það dýrustu og afkastamestu sýningargripirnir. Jarðskjálftahermi er að finna í þessum sýningarhluta.
Allir, sem leið eiga út á Reykjanes, ættu að koma við í Orkuverinu Jörð með það fyrir augum að skoða og fræðast um það sem sýningin hefur upp á að bjóða.
Heimild:
-Fréttablaðið 10. júní 2009, bls. 26.
-www.hsorka.is/kynningarefni.