Færslur

Dyljáarsel

Þegar horft var inn í Eilífsdal til suðurs frá bænum mátti sjá brattar hlíðar á þrjá vegu. Vinstra megin bar Skálatindur við himinn, hægra megin Þóreyjartindur og Eilífstindur innst og efst. Hann trjónir efst á láréttu standbergi, líkt og að um Vestfjarðardal væri að ræða. Vinstra megin við Eilífstind er Geldfjárhlíð með háum fossum (heita Fossar). Gunnlaugsskarð er hægra megin við hann. Þessi kennileiti setja mestan svip á ofanverðan dalinn, auk mikilla gilja, sem minnst verður á síðar.

Eilífsdalur - loftmynd

Innst í Eilífsdal, undir Eilífstindi, er Eilífshaugur, fornmannagröf. Fremst í dalnum, vestan við bæinn, er Orrustuhóll. Ætlunin var að ganga frá hólnum inn í botn á Eilífsdal og huga að mannvistarleifum á leiðinni. Í örnefnalýsingum er t.d. sagt frá Meðalfellsseli framan við dalinn og Dyljáarseli inni í dalnum. Eilífsdalsáin (Dælisáin, rennur um miðjan dalinn og skiptir hún merkjum Meðalfells og Eilífsdals. Annarra mannvirkja er ekki getið á þessu svæði.
Áður en lagt var af stað lýsti Aðalsteinn, bóndi, aðstæðum fyrir FERLIR. Sagði hann t.d. hlaðinn stekk vera innst í dalnum. Hann vissi ekki til þess að seltóftir væru þarna. Þó hafi hann smalað dalinn margoft, en þá ekki verið að skima eftir öðru en fé. Hlíðarnar væru brattar og féð færi langleiðina upp undir brúnir. Það hefði því oft verið erfitt að rekja giljaðar hlíðarnar, upp og niður. Um Meðalfellsland handan við ána vissi hann lítið sem ekkert. Selmýrin væri hins vegar rétt handan við ána. Aðalsteinn, bóndi, bar erindið undir eiginkonu sína, Huldu, en hún hafði alist upp í Elífsdal. Hún sagðist ekki hafa séð Dyljáarsel, en skv. lýsingunni myndi það eiga að vera á gróðurrenningi milli tveggja stærstu giljanna vestan árinnar. Það ætti því að verða auðvelt að sjá það, ef það væri þá til.

Orrustuhóll

Orrustuhóllinn er vestan bæjarins, áberandi afrúnaður bólstabergshóll, gróinn að mestu. Í 11. kafla Kjalnesingasögu segir að Esja vildi að “Búi haldi utan og viti hvað þar bíði hans, enda dæmdum skóggangsmanninum varla vært heima fyrir. Ólöf skyldi bíða hjá föður sínum Kolla í þrjú ár eftir honum. Á leiðinni norður í Hrútafjörð þaðan sem hann átti að sigla frétta þeir bræður Helgi og Vakur bróðursynir Þorgríms goða af ferð hans og ráðast gegn honum tólf saman. Búi verst þeim drengilega og byrjar á því að grýta fjóra þeirra til bana. Aðra tvo drepur hann og særir fleiri. Þá kemur þar Eilífur úr Eilífsdal og gengur í milli. Búi heldur utan og það gera þeir Vakur og Helgi einnig. Gerast þeir bræður handgengir Haraldi konungi hinum hárfagra. Segja þeir
Haraldi frá viðskiptum þeirra Búa og kallar konungur það níðungsverk að Búi skyldi brenna hofið”.
Talið hefur verið að bardaginn hafi farið fram á nefndum Orrustuhól. Engin ummerki þessa er þó að sjá á hólnum núna.
Skammt frá Orrustuhól er Engjahóll. Þar eiga að vera heygðir menn þeir, sem áttu að hafa fallið fyDyljáarselrir Búa á Orrustuhól.
Jörðin Eilífsdalur (Eileifsdalur) er næst vestan Meðalfells og nær land hennar yfir vesturhluta Eilífsdals á fjall upp og teygir sig yfir dalinn þar sem hann er lægstur og þar sem sjálfur bærinn stendur og upp á Múla sem er austan Sandfells. Samkvæmt landamerkjabréfi dags. 20. maí 1890 skilur Dælisá á milli jarðarinnar og Meðalfells upp Dalinn, svo Fossá upp á Fossabrún, þaðan eru merkin til há Esju, svo þaðan vestur á Gunnlaugsskarð, síðan norðvestur fjall á Þórnýjartind, svo ofan Sandhrygginn, sem liggur vestanvert niður frá Tindinum, úr honum neðanverðum beint niður í svonefndan Festarhrygg (sem skilur Miðdalslönd frá Eilífsdalslandi) að norðanverðu í dalnum.
Þá var gengið inn Eilífsdal að vestanverðu. Dalurinn er breiður, gróinn í botninn og einkar aðgengilegur til göngu, þrátt fyrir brattar hlíðar. Gróinn hóll yst (syðst) innan girðingar er einkar áhugaverður. Ekki er ólíklegt að þar kunni að leynast fornt bæjarstæði. Hóllinn er afrúnaður, en virðist samt ekki af náttúrulegum uppsprettum kominn.
Kví við Lambatanga í EilífsdalÆgifagurt útsýni var inn dalinn (sannkallað augnkonfekt), enda er hann með styttri Esjudölunum. Inngangan í botn tekur einungis 30-45 mín. FERLIR þurfti hins vegar að staldra við, skoða gögn, meta aðstæður, mæla vettvang og mynda sem og að spá á leiðinni. M.a. var staldrað við og umhverfið borið saman við meðfylgjandi gögn. Í örnefnalýsingu fyrir Eilífsdal segir m.a.: “Landamerki milli Eilífsdals og Meðalfells eru Dælisá. Upphaflega hét hún Eilífsdalsá og dalurinn, sem hún á upptök sín í og rennur eftir, Eilífsdalur. Hún hefur aðalupptök sín að austanverðu í dalbotninum hátt upp í fjalli, og heita þar Fossar, en áin Fossá. Skammt fyrir neðan upptökin fellur hún niður í hrikalegt gljúfur. Rétt vestan við, þar sem hún fellur niður, er allstór stallur með lítilsháttar gróðri. Heitir hann Geldfjárhlíð. Vestan við hana taka við afarháir þverhníptir klettar, sem eru fyrir botni dalsins. Vestan við þá er Gunnlaugsskarð. Austan til í þeim er skörp klettagnípa: Eilífstindur. Niður undan honum, nokkuð fyrir neðan kletta, er allhár hóll eða bali, sem nær niður undir láglendi: Eilífshóll. Munnmæli telja, að Eilífur sé heygður þar.
Önnur kví efst í Eilífsdal, MeðalfellsmeginFyrir neðan Gunnlaugsskarð eru upptök Þverár, (þar eru líka nefndir Fossar, Vestri-Fossar). Hún rennur í Fossá, neðan við Lambatungurnar, en svo heitir landið milli ánna. Eftir það er áin nefnd Dælisá. Norðan við Þverá, nokkuð ofarlega, er stórgrýtt urð: Þormóðsurð (þar höfðu tófur oft átt greni áður fyrr). Neðan við urðina er grasivaxin laut: Hestalág. Litlu neðar tekur við nokkuð stórt grasivaxið flatlendi, sem liggur norður eftir dalnum, nefnt Flatir. Norðan til í því er lækur, sem kemur hátt ofan úr fjalli. Þar sem hann fellur af háum klettum niður á láglendi, lítur út fyrir að séu húsarústir og heitir þar Dyljáarsel, en lækurinn Dyljáarselslækur. Þar litlu norðar er Hrafnagil hrikalega stórt, ofan frá Esjubrún niður að láglendi, en þaðan stór skriða niður að á….. ….Þá tekur við samfelld mýri. Næst við lækinn er hún nefnd Aur, austur að Engjahól, en hann er lítið móabarð, ofan til við mýrina, á móti Stekkjarlæknum. Munnmælin segja að þar séu heygðir menn þeir, sem áttu að hafa fallið fyrir Búa á Orrustuhól.”
Þarna er m.a. minnst á Dyljáarsel og skv. upplýsingum Eilífsdalsbónda ættu tóftirnar að verða nokkurn veginn um miðjan dalinn að vestanverðu – enda kom það á daginn. Þær birtust fremst á gróðurbrúninni ofan við ána. Tóftirnar eru greinilega mjög gamlar, en þó mótar enn fyrir hleðslu í veggjum miðrýmisins. Tvö rými eru augljós, en það þriðja, eldhúsið, hefur ef af líkum lætur, verið utan við þau. Tóftirnar eru mjög grónar og ekki augljósar, sbr. viðbrögð Eilífsdalsbónda. Þær gátu hins vegar ekki leynst fyrir árvökulu auga FERLIRsfólksins.

Eilífsdalur

Meðalfellssel II í Eilífsdal.

Í Jarðabókinni 1703 er ekki minnst á selstöðu. Það bendir til þess að selið hafi þá verið aflagt, enda benda ummerki til þess. Eilífsdalur var þá í eign Hlíðarendabónda svo útgerð þaðan hefur án efa verið stýrt annars staðar frá. Leifar selstöðunnar í dalnum gætu því verið fornar, enda bendir lögun rýmanna til þess.
Eilífsdalur er þriðji stærsti dalur Esju. Í hömrum innst í dalnum er að finna eina erfiðustu ísklifurleið á Íslandi, Þilið, en lagt hefur verið til að hamrarnir taki nafnið Eilífshamar. Eilífsdalur er mjög vinsælt ísklifurvæði. Dalurinn hentar mjög vel til skíðagöngu en snjóa leysir oft seint á vorin og reyndar stundum ekki fyrr en í júní. Þegar horft er á lóðrétt standbergið lárétt er ekki að undra að þangað sæki áskorunarofurhugar. Fyrir venjulegan göngumann væri það afrek að fara um Gunnlaugsskarð, svo brött er hlíðin. Víst er að leiðin er ekki fyrir lofthrædda.

Dyljáarsel

Dyljáarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Innst í dalnum, upp og innan við Þverá, er hlaðið gerði, líklega kvíaból. Annað svipað átti eftir að koma í ljós í austanverðum dalnum. Millum þeirra er Eilífshóll eða Eilífshaugur (“allhár hóll eða bali, sem nær niður undir láglendi”). Frá balanum er fagurt útsýni út dalinn. Sá, sem á rananum hefur dvalið, hefur haft útsýni yfir allan dalinn – og rúmlega það. Staðsetninginn er hin ákjósanlegasta grafstæði fyrir mann, sem unni landi sínu.
Austan í dalnum er Þormóðsurðin fyrrnefnda. Ofan hennar er hlaðið brygi refaskyttu, enda átti þar að hafa verið greni fyrrum. Byrgið er umleikis stórra steina, sem hlaðið hefur verið ofan á. Sæti er í byrginu og hið ágætasta útsýni til suðvesturs niður að Lambatanga.
Skammt neðar og norðar er varða. Skammt frá henni er annað hlaðið kvíaból. Líklega eru kvíabólin tengd örnefninu Lambatangi, sem þarna er. Enn ofar eru leifar af vörðu. Hún gæti gefið vísbendingu hvar grenið var að finna í dalnum.
Haldið var niður Eilífsdal að austanverðu. Rifjuð var upp örnefnalýsing fyrir Meðalfell. “Á móti Eilífsdal, austan við Dælisá, er allstórt sund, sem Eilísdalssund heitir. Við norðvestur horn þess í bugðunni, sem þar er á Dælisá, er topplagaður malarhóll hár, sem heitir Sandhóll. Sunnan við Holtin og Sundin er allstór mýri, sem heitir Selmýri. Framan við hana er Selið á valllendisbala, sem þar er.

Meðalfellsel II

Meðalfellssel II – uppdráttur ÓSÁ.

Selið er næstum beint niður undan upptökum Drápskriðulækjarins. Þarna fyrir framan hækkar landið nokkuð. Tekur nú við önnur allstór mýri, sem nær neðan frá árbakka og upp undir brekkur, hún heitir Háamýri fyrir framan Sel.”
Ljóst var að ganga þurfti niður að Selmýri, framst í dalnum austanverðum. Á leiðinni var svæðið skoðað mjög vel, en það var ekki fyrr en komið var að grónum hólarana syðst í Selmýrinni að komið var að tóftum, Meðalfellssel I, þeim syðsta. Þar mótaði fyrir hleðslum, en rými voru ekki greinanleg. Stekkur virðist hafa verið norðvestan undir hólnum, rétt ofan við mýrina. Lækur, Drápuskriðulækur, virðist hafa breytt um farveg og rennur nú svolítið norðar. Ljóst er að selstígurinn hefur verið bæði langur frá bænum og blautlegur hið næsta selinu. Í Jarðabókinni 1703 segir m.a. um selstöðu frá Meðalfelli: “Selstaða í heimalandi og er þar mótak nóg til eldingar.” Jafnframt er þess sérstaklega getið að selvegur væri erfiður yfir torfærar keldur. Þar sem staðið var á selstæðinu virtist augljóst að staðsetning selsins var byggð á tveimur ástæðum; annars vegar að gefa til kynna yfirráð yfir landinu á ystu mörkum og hins vegar til að nýta valllendið neðanvert. Í Jarðabókinni er þess einnig getið að Hurðarbak hafi haft selstöðu með Meðalfelli.
Í norðaustur frá selinu virtust augljósar tóftir sels; aflíðandi gróinn hóll ofan mýrinnar, Meðalfellssel II. Þegar að var komið reyndist vera um hólmyndun að ræða. Af þúfnamyndun og sléttun að dæma á hólnum var augljósar steinaraðir er mynduðu stekk. Sunnan við hann mótaði fyrir þremur  fremur óljósum tóftum.
Til að taka af allan vafa um að aðrar selminjar kynnu að vera nálægt Drápuskriðulæk eða nágrenni var svæðið kannað af nákvæmni. Engar aðrar minjar fundust.
Að sögn Aðalsteins Grímssonar, bónda í Eilífsdal, hefur hann búið þar í tæp 40 ár. Hann benti á tóftir Eilífsdalskots skammt norðaustan bæjarins, en þar eru nú sumarhúsalóðir. Kotsins er ekki getið í Jarðabókinni 1703.
Skammt norðaustar eru Valshamrar, tveir bergstandar. Þeir hafa verið vinsæl bergklifursvæði.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Eilífsdal.
-Örnefnalýsing fyrir Meðalfell.
-Loftmyndir.

Dyljáarsel

Í Dyljárseli.

 

Orrustuhóll
Haldið var að Orrustuhól.
Orrustuhóll er í Orrustuhólshrauni sunnan við Litla-Skarðsmýrarfjall. Í lýsingu frá árinu 1703 segir að “fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orrustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn, þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.” Önnur lýsing segir að “austan undir hrauninu er Orrustuhóll. Gömul sögn kveður á um, að á þessum slóðum hafi verið sundurdráttarrétt. Áttu réttarmenn að hafa orðið missáttir og barist á hólnum. Engin mannvirki sjást þar nú.”
OrrustuhóllKolbeinn Guðmundsson telur sig hafa fundið þessar gömlu réttir eftir lýsingunni frá 1703. Hann segir “réttirnar hafa verið fast við hólinn suðvestanverðan. Hefir þar verið að miklu leyti sjálfgert aðhald. Hóllinn annars vegar og hraunbrúnin hins vegar. Hvort tveggja snarbratt, svo að lítið hefir þurft að hlaða. Réttunum hefir verið skipt í tvennt. Vestari hlutinn talsvert minni. Dilkar hafa ekki verið eins og nú tíðkast í réttum. Aðaldyr snúa í austur, og hafa þær verið um 2 faðmar að vídd.”
Suðvestan við Orrustuhól er alldjúp gjá með bröttum veggjum sem liggur í sveig frá austri til suðvesturs. Hún er um 15-20 m breið og alls um 70 m löng og hækkar botninn mjög til vesturs og dregst gjáin þar saman. Austurendinn opnast út á gróið hraunið sunnan og austan við hólinn en að vestan er yngra og úfnara hraun sem gjáin er í. Þar sem gjárbotninn verður ósléttur vestantil og fer að hækka mikið hefur verið hlaðið steinum fyrir og eru þeir mjög mosagrónir. Tveir stórir steinar í botninum gætu verið komnir þangað af sjálfum sér en sunnan við þá er greinileg hleðsla, um 1,5 m löng og um 3 umför. Engin önnur mannvirki eru greinileg á þessum stað en gjáin hefur verið mjög gott aðhald af náttúrunnar hendi og hefur þó þurft að hlaða fyrir austurendann en þar sjást engar hleðslur. Gjáin er gróin í botnin, en hrunið hefur ofan í hana, nú síðast allmikið bjarg í jarðskjálfta í júní 1998.
OrrustuhóllÍ annarri lýsingu segir að “eftir bardagann í Orrusturhólsréttum áttu Ölfussingar og Mosfellssveitarmenn að hafa skilið félag sitt um fjallleitir, og fluttu þá Ölfussingar réttir sínar austur á heiðina, austur fyrir Hengladalaá. [Árið 1878 var fé rekið inn í Hengladali]. Í seinni tíma skrifum þetta ár segir að “þegar riðið var fram Smjörþýfi og fram með Hengladalaánni, og sýndi þá gamall maður, er í förinni var, okkur yngri rekstarmönnunum þessar réttir. Sást þá vel fyrir þeim, bæði almenning og dilkum, þótt djúp skörð væru hrunin í veggi. Sumir dilkanna voru allstórir, gerði ekkert, almenningsdyr sneru á Hengil. Sennilega hefir Ölfusingum þótt afundið að hafa lögréttir sínar uppi á fjalli, og voru því réttirnar færðar undir Ingólfsfjall að Hvammi þegar fyrir 1700.”
Smjörþýfi er þúfótt og grösugt sléttlendi. Hengladalsáin hefur fyrrum runnið um lægri hraunbreiðu að austanverðu eftir að Orrustuhólshraunið rann og hindraði framgang árinnar. Áirn virðist hafa runnið vítt og breitt um hraunið uns hún hafði fyllt það og sléttað sæmilega vel af framburði sínum úr grenndarhlíðunum Skarðsmýrarfjalla. Ofar og austar er Ölkelduhálsrétt þeirra Grafningsmanna.
Eftir árummyndunina standa hrauneyjar og er ein þeirra, norðarlega í þýfinu, sýnum stærst. Horfir “op” hennar að Henglinum. Minni “eyjar” eru sunnar og austar. Við leit þversum í Smjörþýfi, en um hana liggur forn leið, sem enn markar fyrir, fannst ekki fyrrnefnd rétt. Ólíklegt má telja að sýnilegir hlaðnir veggir fyrir u.þ.b. 130 árum hafi horfið með öllu. Telja má nokkuð líklegt að áin hafi á þeim tíma haldið sig nokkurn veginn á þeim stað, sem hún rennur nú, næst hrauninu, enda verið stýrt af mannavöldum um allnokkurt skeið. Sjá má svonefnd “ísstopp” á tveimur stöðum í ánn, hið efra mun stærra, enda gert með nútímalegri tækni. Fyrirbæri þetta eru stíflur í ánni. Var hún “leidd” úr farvegi sínum að hraunkanti Orrustuhólshrauns þar sem hún hvarf undir það. Kom vatnið síðan upp í ræktarlandinu austur undir Kömbunum, enda var tilgangurinn með framkvæmdinni að auka grasvöxt þar. Þurfti að endurtaka stíflugerðina árlega, enda ruddi áin sig jafnan að vorlagi.

Orrustuhóll

Stífla neðan við Orrustuhól.

Ekki er óraunhæft að ætla að menn hafi álitið framangreinda hrauneyju, en reiðgatan leggur framhjá henni, hafa verið nefnda fjárrétt, enda virðist hún vera slík úr fjarlægð. Ef grannt er skoðað er ekki að sjá að grjótið hafi verið hreygt þar af mannavöldum, þó gæti þar virst að óathuguðu máli bæði rétt og dilkar.
Sumir töldu að Hengladalaáin hafi, að hluta til eftir þessar aðfarir, komið upp í Kaldárbotnum og birst sem Kaldá stutta vegarlengd, áður en hún hvarf undir hraunið að nýju.
Aðhaldið, eða réttin við Orrustuhól, var skoðað. Svo skemmtilega vill til að austan nefndrar hrauntraðar þar sem réttin á að hafa verið, er upplýsingaskilti, vegfarendum til fróðleiks og ekki síst til staðfestingar um að þeir séu á réttum stað. Á því stendur m.a.:
“Gömul sögn segir að hér við Orrustuhól hafi verið gömul sundurdráttarrétt. Nafnið á að hafa verið dregið að því að eitt sinn hafi slegið í brýnu milli réttarmanna Ölfussunga og Suðurnesjamanna, og hafi þeir barist á hólnum. Hálfdán Jónsson greinir frá þessu í lýsingu Ölfusshrepps 1703.”
Víða á landinu eru til sagnir eins og þessi um deildu milli héraðsmanna sem áttu eða samliggjandi afréttarlönd. Þó að hægt sé að draga afréttarmörk með afgerandi hætti á korti hafa slíkar línur jaft litla þýðingu þegar kom að smölun á haustin og þurftu nágrannabyggðir að hafa samstarf um göngur og réttir svo að allt fé kæmist til skila. Slíkt samstarf var yfirleitt í föstum skorðum, en gat vitanlega leitt til deilna. Til dæmis var fjallmönnum mikið kappsmál að koma með sem flest fé til rétta. Kom þá fyrir að skærur yrðu milli leitarflokka þegar farið var út fyrir leitarmörkin til að ná í fé til að bæta í safnið.
Frábært veður.

Orrustuhraun

Rétt undir Orrustuhrauni.

Bakkárholt

Í Andvara árið 1936 er birt “Lýsing Ölveshrepps 1703” eftir Hálfdán Jónsson undir heitinu “Descriptio Ölveshrepps anno 1703“:
“Aultvus eður Ölveshreppur hefur sitt nafn dregið af Álfi, fyrsta landnámamanni þess héraðs. Hreppur þessi liggur í Sunnlendingafjórðungi og Árnessýslu, fyrir vestan Ölvesá, nálægasta sveit að austanverðu við þann fjallgarð, er aðgreinir Árnessýslu og Kjalarnesþing. Þingstaður héraðsins er að Bakkarholti. Þangað sækja Grímsness og Selvogs innbyggjarar, þá þriggja hreppaþing haldast.”

Ölfus

Ölfus.

Í “Fornleifaskráningu vegna skipulags í Ölfusi” frá 2009, er getið um Bakkárkot. Einnig er getið um minjar tengdar þingstaðnum, s.s Gálgaklett, Þinglaut og Hestarétt:
“Bakkárholt eða Bakkarholt eins og það var stundum ritað, var eitt af höfuðbólunum í Ölfusi. Jörðin er landstór og árið 1840 var þar sagður reisulegur bær.
Bakkárholt
Bakkárholt var lengi þingstaður þriggja hreppa; Ölfuss-, Selvogs- og Grímsneshrepps. Segja Sunnlenskar byggðir að þing hafi þar verið haldið til ársins 1885, en samkvæmt örnefnaskrá var þingstaður þar til ársins 1881 en þá var skólahús byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaðurinn fluttur þangað. Þing er ekki nefnt á jörðinni í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns þar sem jörðinni er lýst árið 1708. Jörðin var við alfaraveg sem lá frá Kotferju ferjustað, en farið var framhjá Kirkjuferju, Bakkarholti, Gljúfraholti, Krossi og á Torfeyri við Varmá. En eins og segir í Örnefnaskrá: ,,Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og ,,brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.“ Á jörðinni eru nokkrar minjar sem minna á þingið.
Um nafn jarðarinnar segir í örnefnaskrá: ,,Nafnið er mjög eðlilegt ,,náttúrunafn“. Áin fellur þar á milli gróinna bakka og hefur að líkindum heitið Bakká. Holtið, sem bærinn stendur á, er við hana kennt, en áin síðar kennd við holtið, Bakkárholtsá.
BakkárholtHestarétt: Sér enn fyrir hleðslum milli Norðurtúns og Aukatúns. Þar hafa þinggestir og þingmenn geymt geymt hestana sína eða rekið inn til að beizla þá.
Gálgaklettar: Klettur hefur klofnað frá bergi holtsins og sigið frá, svo að skora er á milli. Yfir þá skoru hefur gálgatréð verið sett, er hengja þurfti. Heimildarmenn báru Þórð á Tannastöðum fyrir. Klettarnir eru norðaustur af Hestaréttinni. [Síðasta aftakan í Bakkárholti fór fram uppúr 1700].
Þinglaut: Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengri austur-vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. ,,Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.“ Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar.”

BakkárholtÍ “Aðalskráningu fornleifa í Ölfusi; Áfangaskýrslu II” frá árinu 2017 segir m.a. um þingstaðinn í Bakkárholti:
Þinglaut – tóft – þingstaður; 63°57.741N 21°08.403V. Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppaþing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H.J. 1703). Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og “brýr” yfir mýrasund í nágrenni. Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá. […] Þinglaut. Lægð í Hátúni, sporöskjulöguð, lengir austur – vestur. Mótar fyrir sætum. Til vesturs er smáhóll, gömul hústóft, mikil aska í jörðu, sögðu heimildarmenn. “Þar hafa þingmenn heitað ölið sitt, þegar kalt næddi um holtið.” Lautin mældist ca. 12 sinnum 15 metrar,” segir í örnefnalýsingu. Í Sunnlenskum byggðum III segir: „Á Bakkárholti var áður þriggja hreppa þing og þingstaður Ölfusinga til 1885.” Þinglaut er 110 m norðan við bæ 001 og tæpum 80 m suðaustan við hestarétt, uppi á háholtinu. Þetta tún var kallað Norðurtún.
Bakkárholt
Í Þinglaut er tóft sem talin er vera lögrétta að sögn Margrétar Gunnarsdóttur, heimildamanns. Raflína er 50 m vestan við tóftina.
Slétt, ræktað tún. Það er slegið sem og Þinglautin framan af. Hún hefur ekki verið slegin í einhver ár núna. Tóftin sést einna best sem óslétt svæði í túninu.
Tóftin er 19,5 x 15 m að stærð og snýr austur-vestur. Þinglautin er „inni“ í tóftinni. Tóftin er einföld og allir veggir signir og útflattir. Það er einna helst lautin sem sýnir umfagið og leguna best. Veggirnir eru 0,1 – 0,3 m á hæð, hæstir að vestan. Þeir eru algrónir enda búið að slétta hér yfir. Tóftin var slegin á dráttarvélum án teljandi vandræða. Nú er einungis austurhlutinn sleginn enda lægstur. Ekkert op sést á yfirborði inni í tóftina. Lautin er slétt að innan og veggirnir aflíðandi þar niður. Þeir eru mun hærri að innan en utan. Suðvesturhluti tóftarinnar er umfangsmeiri en hinir, mögulega eru þar ummerki um fleiri byggingarstig eða túnasléttun var meiri til norðurs. Ekki sér til palla eða annars inni í lautinni. Hún er mögulega niðurgrafin, ytri veggir sjást lítið sem ekkert.”

Bakkárholt
Í örnefnalýsingu Ögmundar Jóhannsonar fyrir Bakkárholt segir m.a.:
“Bakkárholt hefur verið eitt af höfuðbólum í Ölfusi. Í Bakkárholti var um langt skeið þingstaður, ekki aðeins fyrir Ölfushrepp, heldur voru þar haldin þriggja hreppa þing: Ölfuss (ásamt Grafningi), Selvogs og Grímsness (H. J. 1703). Þar má enn sjá Þinglaut, Hestarétt og Gálgaklett. Þingstaðurinn valinn þannig, að vel sást til mannaferða, og greinilegt, að þar hefur legið þjóðbraut um garða, traðir í túni og „brýr“ yfir mýrasund í nágrenni.
Þingstaður var í Bakkárholti til 1881, að skólahús er byggt á Kröggólfsstöðum og þingstaður fluttur þangað þá. Þinghús stóð á hlaðinu sunnan gamla bæjarins, en rifið þá.”

Í framangreindri “Lýsingu Ölveshrepps frá 1703” segir auk þess um Ölfus:
“Annar hreppsins endi er áfastur við Selvog og sundurgreinist á austanverðri Selvogsheiði og allt á sjávarbergið, þar Þrívörður heita, er að skiljast Þorlákshafnar og Ness í Selvogi lönd.
Þorlákshöfn hefur sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslega vígslu. Þar heitir og enn nú að framan verðu við bæinn Þorlákvör, Þorlákssker, og Þorlákshóll þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá Kyndilmessu og í fjórián vikur þar eftir (hvar um Alþingissamþykkt hljóðar, dateruð 1700) yfir fjörutíu skip, stór og smá. Mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti. En Árnessýslu innbyggjarar eru eignarmenn flestallra annara þar til sjós gangandi. Utan vertíðar er í þessari veiðistöðu mjög lítill fiskiafli, en á sumum árum alls enginn. Skipastöður með frí fyrir eitt skip hafa þessar jarðir í Þorlákshöfn: Breiðibólstaður fyrir selstöðu, Hjalli fyrir hrossabeit, Arnarbæli fyrir engi.

Ölfus

Ölfus umhverfis Ölfusá.

Landnáma greinir, að Álfur (hvar af eg meina allt héraðið dragi sitt nafn og fyrrum er á vikið) hafi numið land í Ölvesi, kom skipi sínu inn Ölvesár mynni, upp eftir Þorleifslæk, í Álfsós, og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu nær því við Þurrárhraun.

Hellulofinn

Hellukofinn á Hellisheiði – byggður upp úr Biskupsvörðu.

Vestan Varmár liggur almennings vegur yfir fjallgarðinn á Suðurnes og í Kjalarnesþing, fyrst upp á Kamba áðurnefnda, síðan vestur yfir Hellisheiði, hver að austanverðu hefur mikla mosa, með mjög litlu grasi, allt þar til Þrívörður heita og heiðin sjálf meinast mið vera, en hennar vestri partur er víða með sléttum hellum af hraungrjóti, án gatna, nema þær hestanna járn hafa gjört og auðsjáanlegt er þeim athuga. Þessar sléttu hellur ná allt vestur að Biskupsvörðu. Fleiri vörður eru og við veginn hlaðnar til leiðarvísis.

Búasteinn

Búasteinn.

Upp í hnúknum fyrir norðan fyrrnefnt Hellisskarð er sá stóri steinn einstakur, er Búasteinn kallast, við hvern stein varðist Búi Esjufóstri, sem saga hans tilvísar. Sama saga nefnir Hellisskarð Öxnaskarð, og mun þá hafa sittnafn öðlazi af nautarekstrum Ölves innbyggara vestur yfir heiðina. — Á norðanverðum Hvannavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið, stendur sælhús (ei langt frá veginum) so kallað, hverju allt til þessa tíma Ölvesinnbyggjarar hafa uppi haldið vegfarandi fólki harla nauðsynleg á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli. Fyrir sunnan Húsmúlann, er liggur í útsuður undan Hengilsfjallinu, en fyrir norðan Hellisskarð, liggja Sleggjubeinsdalir. Þar er náttstaður vesturleitarmanna úr Ölvesi, þá afréttinn á haustin leita.

Draugatjörn

Sæluhúsið undir Húsmúla.

Í vestur og útnorður frá sælhúsi og með Húsmúlanum liggja miklir grasvellir, nefndir Norðurvellir, og strekkja sig út allt suður undir Svínahraun, nær því undir Bolavelli, en endast þó þar Uxabrekkur heita. Inn með Hengilsfjallinu liggur dalur og fyrir norðan Húsmúlann, er Engidalur kallast. Úr honum rennur lítil á vestur eftir Norðurvöllunum, fyrir norðan Bolavelli en austan Lyklafell, og fellur síðan í Fóelluvötn. Ei alllangt frá Engidal eru almennar nautaréttir Ölvesinga og Kjalarnesþingsmanna, er árlega haldast þann þriðja dag Oktobris mánaðar, ef ei er helgur, annars næsta dag fyrir. Þessi fjallgarður brúkast almennilega fyrir nauta og hrossa afrétt. Skammt fyrir sunnan réttirnar, við Engidalsá, standa tveir klettar, sinn hvoru megin árinnar, og nefnist bilið á milli þeirra Þjófahlaup — er þó ei sannferðugt, hvar fyrir so kallast. Í austur frá Engidal, upp á Henglinum, stendur þúfa, er enn nú nefnist Strendurþúfa, þangað eiga Strendurmenn í Selvogi með frí lambarekstra árlega.

Hengill

Í Hengli.

Úr Hengladölum renna margir smálækir, þar til í einn saman koma, og so fram eftir dölunum vestur undir Hellisheiðarhraunið.

Orrustuhóll

Réttin við Orrustuhól.

Fyrir austan Skarðsmýrarfjöllin er kallaður Orustuhóll og þó fyrir vestan ána, er úr Hengladölum fram rennur. Þar undir hrauninu sjást enn í dag glögg merki til fjárrétta, er menn heyrt hafa brúkað hafi í fyrri tíð Ölves innbyggjarar og Suðurnesjamenn þá saman og til afréttarins hvorutveggja rekið höfðu, og hafi á milli þessara óeining komið, hvar af Orustuhóll mun nafn sitt draga.

Ölfus

Inghóll á Ingólfsfjalli.

Þessu næst er að geta Ingólfsfells. Það liggur til norðurs og suðurs í hreppnum, ei alllangt frá því vatnsfalli, er Sog nefnist og fyrir austan fjallið rennur. Þetta fjall hefur hamra og eggjar allt um kring, háfar og miklar að sínum þremur köntum, að vestan, sunnan og austan, en að norðanverðu er það með stórskörðum og giljum. Það er mjög graslítið, svo upp á því, fyrir ofan hamrana, sem neðan. Þar fjallið er hæst, þó nokkuð norðar en á því miðju, er haugur Ingólfs Arnarsonar, fyrsta landnámamanns, mældur við jarðveginn tvö hundruð faðmar í kring, nú graslaus með stórum hellum og mel, sums staðar mosavaxinn. Haugurinn sést á allar síður á fjallinu, nema að norðan. Magister Brynjólfur Sveinsson reið þangað eitt sinn norðan á fjallið að skoða hauginn, hvorn hann lét þá mæla. — Örnefni þessi eru á Ingólfsfelli svo kölluð: Kagi, Kagagil, Leirdalur, Dagmálagil, Hólstaðagil, Tannastaðadalir, Alviðrueggjar, Djúpidalur etc.

Sýslusteinn

Sýslusteinn suðaustan Lyklafells.

Þessi eru haldin sýslumót milli Árnessýslu og Kjalarnesþings, fyrst er Vilborgarkelda, er liggur á Mosfellsheiði, fyrir vestan Heiðarbæ. Þaðan ræður Laufdælingastígur í vestur liggjandi eftir heiðinni allt í nyrðri Lyklafellsenda. Síðan í þann einstaka stein, er stendur við Hellisheiðarveginn á melnum fyrir sunnan Lyklafell, er kallast Sýslusteinn. Þaðan í það stóra bjarg, er liggur við veginn í Ólafsskarði. Síðan sjónhending í Hvítskeggshvamm, fyrir sunnan Geitahlíð, milli Herdísarvíkur og Krýsuvíkur.”

Heimildir:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1936, Lýsing Ölveshrepps 1703, Hálfdán Jónsson, bls. 57-78.
-https://timarit.is/page/4319796?iabr=on#page/n59/mode/2up/search/hengill
-Fornleifaskráning vegna skipulags í Ölfusi, Margrét Hrönn Hallmundsdóttir, Edda Linn Rise, október 2009.
https://skyrslur.minjastofnun.is/Verkefni_1682.pdf
-Aðalskráning fornleifa í Ölfusi: Áfangaskýrsla II, Ragnheiður Gló Gylfadóttir, Orri Vésteinsson og Stefán Ólafsson, Fornleifastofnun Íslands ses, Reykjavík 2017.
-https://www.researchgate.net/profile/Ragnheidur-Gylfadottir/publication/329254548_Adalskraning_fornleifa_i_Olfusi_II/links/5bff1576a6fdcc1b8d49f55e/Adalskraning-fornleifa-i-Oelfusi-II.pdf

Hengill

Í Hengli.