Tag Archive for: Öskjuhlíð

Árbæjarsafn

Í „Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024“ er m.a. getið um tvo fornsteina í Öskjuhlíð er nú prýða innganginn að kirkju Árbæjar í Árbæjarsafni:

Öskjuhlíð

Kortið sýnir staðsetningu á meintri „hoftóft“.

„Um 15 m austan við núverandi Bústaðaveg þar sem nú er göngu- og hjólastígur, um 90 m suðaustur af gatnamótum Bústaðavegar og Litluhlíðar, var tóft sem merkt er inn á kort Bolla Thoroddsen.
Árið 1939 skrifaði Ólafur Friðriksson grein í Fálkann um fornleifar í Öskjuhlíð og segir þar frá tóftinni. „Austan við þar, sem vegurinn liggur nú yfir Öskjuhlíðina gengur dálítil kvos inn í hana, og hefur hún ef til vill gefið hlíðinni nafn. En þarna í kvosinni eru fornminjar sem ekki hefur verið tekið eftir, þó að þær séu þarna rétt hjá langfjölfarnasta þjóðvegi landsins, Hafnarfjarðarbraut. […] Veitti jeg eftirtekt, að austan við veginn, ofan við áðurnefnda kvos, var steinn sem unninn var af manna höndum.“ Virtist Ólafi í fyrstu að þetta væri steinkross en við nánari athugun hafði steinninn lögun sem Þórshamar.

Lárus Sigurbjörnsson

Lárus Sigurbjörnsson (22. maí 1903 – 5. ágúst 1974) var íslenskur rithöfundur, leikskáld og minjavörður. 
Lárus þýddi fjölda leikrita, m.a. Hrekkir Scapins (Les fourberies de Scapin) eftir Molière (meðþýðandi), Jóhann úlfstjarna (Johan Ulfstjerna) eftir Tor Hedberg og Jeppi á fjalli (Jeppe paa Bierget) og fleiri gamanleikrit eftir Ludvig Holberg. Auk þess skrifaði hann greinar og bækur um leiklist og leiklistarsögu Íslands.
Á árunum 1954 til 1968 var hann forstöðumaður Minjasafns Reykjavíkur og varð sá fyrsti til að gegna því embætti. Hann beitti sér fyrir stofnun Árbæjarsafns. Árbæjarsafn var fyrsta útisafnið á Íslandi og var opnað árið 1957.
Myndin er af Lárusi Sigurbjörnssyni og Sveini Þórðarsyni við gamla kistu fulla af munum. Enginn myndatexti en fyrirsögn greinar er „Árbæjarsafnið opnað í dag“. Þar segir m.a. „Mynd þessi var tekin þá er Sveinn Þórðarson bankagjaldkeri framkvstj. Reykvíkingafélagsins, til hægri og Lárus Sigurbjörnsson skoða ýmsa gripi, úr stórum kistli sem geymdur var í eldtraustum skáp.“

Þegar hann leit í kringum sig sá hann annan stein sem hann taldi líka tilhöggvinn, í laginu eins og stóll. Ólafur velti fyrir sér hverjir hefðu höggvið þessa steina og í hvaða tilgangi og taldi að þetta myndi vera fornt hof.“

Árið 1963 fjallaði Lárus Sigurbjörnsson um þessa sömu tóft í grein í Vísi. Þar segir hann frá því að Matthías Þórðarson þjóðminjavörður hafi talið líklegra að þetta væru rústir af gömlu seli frekar en hoftóft. „Í henni fundust tveir merkilegir steinar, annar greinilega tilhöggvinn sem sæti en hinn í lögun sem Þórshamar. Báðir þessir steinar eru nú komnir í Árbæjarsafn. Af rúst þessari sér ekki urmul lengur. Hún er gersamlega horfin, og var farið yfir það síðasta af henni með ýtu.“
Steinarnir tveir standa nú fyrir framan safnkirkjuna á Árbæjarsafni, þeir eru skráðir undir jörðina Árbæ og eru ekki taldir manngerðir.

Á ljósmynd sem fylgdi grein Ólafs af öðrum steininum er hægt að áætla að um sömu rúst sé að ræða og er merkt inn á kort frá 1933. Á myndinni er langt útihús sem stóð á Norðurmýrarbletti 33 (Litlu-Hlíð), sama húsið sést á ljósmynd HAP RVK. Á annarri ljósmynd; ÁBS, sem er tekin úr vestri í austur, má sjá að rafmagns- og símastaurar eru að norðan við veginn. Samkvæmt grein Ólafs fór vinur hans upp í einn staurinn til að sjá betur yfir og rissaði upp rústina. Var stærð hennar um 11 stikur á hvorn veg og telur Ólafur að um hof Ingólfs sé að ræða.

Árbæjarkirkja

Örnefnið Háfaleiti á milli Öskjuhlíðar og Minni-Öskjuhlíðar á korti frá 1933.

Á korti Björns Gunnlaugssonar frá 1850 sem sýnir mýrar í Reykjavík er merki á svipuðum stað eða norður af Leynimýri, býlið „Háfaleiti“ sem er líklega nafnið á þessum rústum.
Fyrir margt er þetta sérstakur staður, líklega hafa þetta verið í grunninn gömul útihús frá Reykjavík sem hugsanlega hefur verið búið í um 1850, Háfaleiti kemur ekki fram í manntölum. Háfaleiti svipar mikið til örnefnisins Háaleiti sem er þarna ekki langt frá.“

Þegar steinarnir í Árbæjarsafni eru skoðaðir er augljóst, þrátt fyrir allar fyrrum spekulagsjónir hinna fyrrum „sérfræðinga“, að þarna er um aðflutta náttúrumyndun að ræða.

Heimildir:
-Fornleifaskrá; Borgarhluti 3 – Hlíðar, Reykjavík 2024.
-Páll Líndal, Reykjavík: Sögustaðir við Sund, bindi 2 og 3.
-Ljósmyndasafn Reykjavíkur. KAN 001 145 4-1. Ljósmyndari Karl Christian Nielsen.
-Borgarsögusafn. Korta- og uppdráttasafn. Bolli Thoroddsen, [Rauðará – Öskjuhlíð – Vatnsmýri 1932–1933].

Árbæjarsafn

Árbæjarsafn – steinarnir tveir…

Reykjavíkurflugvöllur

Vorið 1919 kom Rolf Zimsen, flugmaður og frændi borgarstjórnans Knud Zimsens, til landsins til að kanna aðstæður fyrir samgöngur í lofti á Íslandi.

Reykjavíkurflugvölur

Vatnsmýrin, Seljamýri og nágrenni, milli Skildingarness og Öskjuhlíðar, árið 1903.

Rolf leizt bezt á Vatnsmýrina sem flugvallarstæði og bæjarstjórnin lagði til 92.300 m² af svonefndu Briemstúni. Samtímis var hið fyrsta af fjórum fyrirtækjum, sem hlutu nafnið „Flugfélag Íslands”, stofnað og fyrsta flugvélin kom til landsins í stórum kassa. Hann var fluttur að skýlinu, sem hafði verið reist í Vatnsmýrinni.

Reykjavíkurflugvölur

Avro 504K.

Klukkan var um það bil 17:00 þegar fyrsta íslenska flugvélin lyfti sér til flugs frá íslenskri grund í fyrsta sinn. Flugvélin, sem var eign Flugfélags Íslands og alveg ný, var af breskri gerð, Avro 504K, sem var tvívængja með 110 ha. Le Rhöne-mótor. Flugmaðurinn var kapteinn Cecil Faber. Völlurinn var í Vatnsmýrinni í Reykjavík.

Þetta var þann 3. september 1919. Er hægt að hugsa sér spennuna sem var í loftinu á þessum tíma, á þessari stundu? Flug á Íslandi var að hefjast!

Reykjavíkurflugvölur

Kort af Skildinganesi og Seljamýri árið 1933.

Eflaust hafa margir bæjarbúar séð þegar fyrsta flugvélin flaug yfir Reykjavík þetta síðdegi í byrjun september. Búið var að kynna það að vélin yrði til sýnis í skálanum á flugvellinum að kvöldi 3. sept. kl: 8, og átti þar að halda hátíð og væntanlega fljúga fyrsta flugið fyrir augum almennings.

Á forsíðu Vísis 3. sept. auglýsing:
Flugvélin er nú sett saman og verður sýnd í skálanum á flugvellinum kl. 8. Aðgöngumiðar seldir hjá Sigf. Eymundssyni, í Ísafold og við inngangana og kosta 50 aura. Harpa leikur væntanlega á lúðra á flugvellinum. Inngangar að veginum niður á völlinn eru af Laufásvegi fyrir utan Laufás og af Melunum beint niður af Loftskeytastöðinni – Flugfélagið.”

Reykjavíkurflugvöllur

Junkers f13. Fyrsta farþegaflugvél Flugfélags Íslands.

En hvað gerðist? Af hverju flaug Capt. Faber af stað á þessum tíma síðdegis? Var búið að undirbúa það flug? Almenningur virðist ekki hafa vitað af flugi á þessum tíma. Hátíðin átti að hefjast kl: 8 um kvöldið. Í frétt Morgunblaðsins daginn eftir, þ.e.a.s. 4. september er frétt þar sem m.a. segir:
Fyrsta flugið á Íslandi. Capt. Faber flaug tvisvar í gær.” Svo segir, ”En um kl. 5 í gær (3. sept.) gerðist óvæntur atburður suður á Flugvelli. Reynsluflugið var ákveðið þá strax, og án þess að nokkur vissi, ók Faber vélinni út á völl, settist við stýrið og renndi af stað. Vélin rann nokkra tugi faðma niður eftir túninu, eins og álft sem flýgur upp af vatni, og loks losnaði hún frá jörðu og smáhækkaði.

Reykjavíkurflugvöllur

Flugfélagið tók á leigu flugvélar frá Þýskalandi ásamt áhöfnum. Fyrsta flugvélin var af Junkers F.13 og bar einkennisstafina D-463. Fjórar Junkers vélar voru notaðar til farþegaflugs, póstflutninga og síldarleitar á Íslandi á árunum 1928 til 1931, þó aldrei nema tvær í einu, þrjár þeirra voru af gerðinni Junkers F.13 og ein af gerðinni Junkers W.33d. Vélarnar báru íslensk nöfn; Súlan, Veiðibjallan og Álftin.

Hljóðið frá mótornum heyrðist inn í bæinn og menn fóru að skima í kringum sig. Og allir, sem skimuðu, ráku augum í það sama: vélin leið áfram um loftið eins og risavaxinn fugl, stöðugri en nokkur vagn á rennsléttum vegi, sneri sér krappar beygjur og tyllti sér eftir dálitla stund aftur á grassvörðinn.”

Þennan sama dag stóð þetta í Bæjarfréttum Vísis:
Flugvélin er nú komin í það horf, að ekki vantar nema herslumuninn, að henni verði treyst til að hefja sig á loft. Eins og auglýst er hér í blaðinu verður hún sýnd almenningi í kveld kl. 8. Vel er mögulegt að fyrsta flugsýningin geti orðið annað kveld. Mótorinn hefur verið látinn fara af stað og reynst ágætlega.- Stendur af loftskrúfunni svo mikið hvassviðri að það fjúka höfuðföt af mönnum, er standa fyrir aftan vélina. Ættu menn, er vilja sjá þetta nýtískunnar furðuverk að nota nú tækifærið, því að við flugsýningarnar fá menn ekki að koma í flugskálann eða alveg að vélinni. Alþingismönnum og flugfélagsmönnum er boðið að skoða vélina kl. 7 ½.”

Reykjavíkurflugvöllur

Teikning Gústafs E. Pálssonar verkfræðings af flugvelli í Vatnsmýrinni frá árinu 1937.

Næsta ár tók vesturíslenzkur flugmaður, Frank Fredrickson, við starfinu. Fyrsta slys tengt flugi á landinu varð 27. júlí 1920, þegar hætt var við flugtak og vélin lenti á tveimur börnum, 10 ára stúlku, sem lézt, og bróður hennar fjögurra ára, sem slasaðist mikið. Rekstur vélarinnar gekk ekki og hún var seld úr landi árið eftir. Árið 1928 var nýtt félag stofnað (Alexander Jóhannesson). Það starfaði til 1931 en heimskreppan og fleiri áföll urðu því að falli. Næstu tvö árin notuðu hollenzkir veðurathugunarmenn völlinn, sem hafði verið sléttaður og lagaður töluvert. Skýlið og fleiri mannvirki voru seld, þegar þeir fóru, því að mikill skortur var á alls konar efniviði.

Í „Fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Nauthólsvík og Nauthólsvíkurveg“ frá árinu 2019 má lesa eftirfarandi um Reykjavíkurflugvöll:

Reykjavíkurflugvöllur

Á Vatnsmýrarhól hafa verið útihús frá Skildinganesi sem hætt var að nota um 1930, öðru húsinu var síðan raskað við gerð flugbrautanna. Á hólnum var þriggja bursta rúst en henni var raskað þegar fyrsti flugturnninn var byggður þar um 1940 og hóllinn þá nefndur Flugstjórnarhóll. Enn má greina hleðslur í hólnum frá eldra húsinu.
Á korti frá 1933 varpað yfir loftmynd frá 2012. Greinilega má sjá tvær rústir útihúsa, önnur þriggja bursta á hólnum og hin einar burstar rétt suðvestan við hólinn.
Þarna var töluverður búskapur um 1930. Þá var Vatnsmýrinni skipt upp í Vatnsmýrarbletti en Skildingnesmegin var einnig búið á litlum skikum. Búskapur þessi lagðist af þegar flugvöllurinn var gerður. Öll íbúðarhúsin við Reykjavíkurveg og Hörpugötu sem lentu inni á flugvallarsvæðinu, eða um 25 hús, þurftu að hverfa.

„Flugsaga Íslands hófst miðvikudaginn 3. september árið 1919 kl. 17.00 þegar fyrsta íslenska flugvélin lyfti sér til flugs frá íslenskri grund. Flugvélin, sem var í eigu Flugfélags Íslands, var af breskri gerð og var flugmaðurinn kapteinn Cecil Faber. Völlurinn var í Vatnsmýrinni í Reykjavík. [Flugvélin var Avro 504K.]
Flugfélag Íslands var stofnað í Reykjavík í mars 1919. Eitt fyrsta mál á dagskrá hins nýstofnaða félags var að finna heppilegan stað fyrir starfsemina. Félagið sendi bæjarstjórninni í Reykjavík eftirfarandi bréf þann 4. júní 1919:
„Flugfélag Íslands er stofnað til þess að undirbúa og koma á flugsamgöngum hér á landi, svo fljótt sem ástæður leyfa. Eitt hið fyrsta sem þarf að útbúa, eru tryggir og góðir lendingastaðir fyrir flugvélarnar og er auðsætt að ein helsta flughöfnin verður að vera hér í Reykjavík. Til hennar útheimtist svæði sem sléttast og grasi vaxið, með gott svigrúm til allra hliða, og liggi hún þó sem næst bænum.
Í samráði við Rolf Zimsen liðsforingja, flugmann úr danska hernum, sem nú er hér staddur, höfum vér athugað staði hér nærlendis, sem komið gætu til greina. Urðum vér ásáttir um, að heppilegast og kostnaðarminnst verði að útbúa góða flughöfn á túnblettum þeim er liggja í Vatnsmýrinni suðvestanverðri, því að á þeim er landrými gott og svigrúm nægilegt í kring, þar eð hvorki eru þar hæðir svo háar, né byggingar eða símar svo nærri, að flugið heftist.

Reykjavíkurflugvöllur

Kort sem sýnir erfðafestulönd og byggðina sem hvarf undir flugvöllinn.

Vér leyfum oss því hér með að óska þess að háttvirt bæjarstjórn útvegi Flugfélaginu til kaups svæði til flugvallar á þessum stað, helst eigi minna en 400×500 metra að stærð, eða tryggi félaginu á annan hátt sem varanlegust afnot af þessu svæði með sem aðgengilegustum kjörum.“
Málinu var vísað til fasteignanefndar og fjárhagsnefndar bæjarins. Fasteignanefnd Reykjavíkur taldi „… helst tiltækilegt að taka til þessara afnota hæfilegan hluta af erfðafestulandi E. Briem í Vatnsmýrinni eins og stjórn félagsins hefur farið fram á, og leigja það flugfélaginu …“
Bæjarstjórn Reykjavíkur samþykkti síðan þann 26. júní 1919 ákvörðun fasteignanefndar og tók um 92.300 fermetra af túni Eggerts Briem til að nota semlendingarstað fyrir flugvélar.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni – herforingjaráðskort.

Eggert fékk 15 aura fyrir hvern fermetra. Samkvæmt lýsingu í Morgunblaðinu þá var inngangur að flugvellinum af miðjum þeim vegi sem lá yfir Vatnsmýrina þvera frá Briemsfjósinu við Laufásveg og yfir að Loftskeytastöðinni. En menn spurðu sig í blöðunum hvernig þeir færu að því að lenda á flugvél í Vatnsmýrinni þar sem í hugum manna var hún eitt forarfen. Í einu blaðanna segir: „En þeir sem nú þessa dagana hafa komið út á flugvöll, falla hreint í stafi. Svona stórar og skrúðgrænar grasflesjur héldu þeir ekkiað þarna væru til. Síðustu árin, eftir því sem skurðum hefir fjölgað, þá hafa þessi tún þornað og eru nú skráþurr, eins og önnur tún …Væri haldin hér þjóðhátíð, þá væri ómögulegt að hugsa sér fegurri stað í nánd við bæinn en flugvöllinn.“
Rekstur Flugfélags Íslands stóð ekki undir sér og var flugvélin seld úr landi árið 1921.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur og nágrenni – AMS kort.

Árið 1928 var stofnað í Reykjavík nýtt flugfélag en þó með sama nafni og hið fyrra. Bækistöð þess var í Vatnagörðum þar sem félagið notaðist einkum við sjóflugvélar. Félagið leigði þýska sjóflugvél af Junkers-gerð og tók hún 5 farþega og var notuð til farþega-, póst-, sjúkra- og síldarleitarflugs. Vélin var skírð Súlan og ári síðar bættist Veiðibjallan við. Rekstur félagsins stóð til ársins 1931 en varð þá að hætta sökum fjárskorts. Árið 1930 var flugvöllurinn í Vatnsmýrinni orðinn lélegur, en á árunum 1932 og 1933 notuðu hollenskir flugmenn, sem voru hér við veðurathuganir, völlinn. Nokkru áður en þeir komu höfðu verið gerðar endurbætur á landinu, það sléttað og brýr settar á skurði. Þá var einnig reist flugskýli sem var síðar selt til niðurrifs eftir að rannsóknum hollensku flugmannanna lauk. Árið 1937 heppnaðist einnig fyrsta tilraun til svifflugs hér á landi og var það í Vatnsmýrinni.

Örninn

Þessi Waco-flugvél var keypt frá Bandaríkjunum haustið 2009. Hún er af nákvæmlega sömu tegund og ÖRNINN, fyrsta flugvél Flugfélags Akureyrar, sem smíðuð var 1937 og kom til landsins 1937, þá á flotum. Vélin var oftast kölluð Örninn, eða Akureyrarflugvélin. Eftir að aðalstöðvar Flugfélags Akureyrar voru fluttar frá Akureyri til Reykjavíkur, og nafninu breytt í Flugfélag Íslands, fékk félagið aðra vél sem var nánast sömu tegundar og Örninn.

Um svipað leyti og Flugfélag Akureyrar var stofnað, árið 1937, var mikið rætt um að gera varanlegan flugvöll í Reykjavík og var gildi góðs flugvallar jafnað við mikilvægi Reykjavíkurhafnar. Nokkrir staðir sem komu til greina voru athugaðir. Það voru Kringlumýrin, hraunið fyrir sunnan Hafnarfjörð, Bessastaðanesið, Sandskeiðið, flatirnar austan Rauðhóla, við Ártún og að endingu Vatnsmýrin í Reykjavík. Flugmálafélag Íslands, sem var stofnað árið 1936 í þeim tilgangi að ryðja flugi braut, barðist einkum fyrir gerð nothæfs flugvallar í Vatnsmýrinni. Samkvæmt greinargerð voru teiknaðar fjórar brautir sem ætlaðar voru til lendingar og burtfarar flugvéla og var stefna þeirra eftir helstu vindáttum í Reykjavík. Einnig var lega þeirra ákveðin að nokkru leyti eftir byggingum sem þegar voru á svæðinu umhverfis flugvöllinn.

Reykjavíkurflugvöllur

Horft í suður yfir bæjarstæði Nauthóls og braggabyggðina við Nauthólsvík 1946. Á bæjarstæðinu hafa verið reist fjarskiptamastur.

Þegar umræður um varanlegan flugvöll stóðu sem hæst var búið að tengja saman þrjár landspildur í mýrinni með tveimur brúm og myndaðist þannig austur-vestur flugbraut. Brautin var þó talsvert blaut og beindu menn þá sjónum sínum að landinu suður með og vestur af Öskjuhlíð, sem var þurrara. Það sem stóð í vegi fyrir að þar yrði sett niður flugbraut var að til stóð að þar yrði íþróttaleikvangur bæjarins. Fékkst þá leyfi til að setja niður tilraunaflugbraut vestan við þar sem gamli flugturninn stendur nú. Þar var gerður vísir að flugbraut sem var notuð um skamma hríð.

Reykjavík

Hermaður á verði í Aðalstræti.

Reykjavík var hernumin þann 10. maí 1940 af bresku herliði. Breski herinn hóf að gera herflugvöll við Reykjavík í fyrri hluta október árið 1940. Þeir fundu flugvellinum stað á svipuðum slóðum vestan Öskjuhlíðar og flugvelli Reykjavíkur var ætlaður staður.
Flugbrautirnar sneru að mestu eins þó að stærðir þeirra væru aðrar. Þegar ríkisstjórn Íslands varð ljóst að Bretum var alvara með gerð flugvallar á þessum stað ákvað hún að taka landið eignarnámi. Þann 16. nóvember 1940 voru gefin út bráðabirgðalög „… sem heimiluðu ríkisstjórninni að taka eignarnámi allt það land við Skerjafjörð sem þurfti undir flugvöllinn og greiða með því götu framkvæmdarinnar.“

Reykjavíkurflugvöllur

Niðurrif íbúðarhúsa á Skildinganesi [Skerjafirði] hófst um miðjan júlí 1941. Á þessari loftmynd frá 10. júní 1941 sést að svæðinu næst flugbrautunum hefurverið umturnað. gerð N/S-brautarinnar er komin lengst á veg en við norðurenda hennar má þó enn greina gömlu flugbrautirnar á túnunum í Vatnsmýri. Þrjár trébrýr (ljós hvít strik) liggja yfir skurði til þess að skapa nægilega brautarlengd og hjá þeim stendur flugskýri. Byggðin á Skildingarnesi (sést aðeisn að hluta) er enn þá óskert en NV/SA-brautin, sem er í byggingu, teygir sig að henni. Við Nauthólsvík er risið braggahverfi. – Landmælingar Íslands

Vinna við gerð vallarins hófst í fyrri hluta október 1940 og var fram haldið næsta vor. Fjöldi Íslendinga vann við flugvallargerðina, auk hermanna. Byrjað var á miðjunni á þeim stað þar sem Íslendingar höfðu byrjað að gera flugvöll. Fyrst var „… grafin burt mold og aur og fyllt síðan upp með grjóti sem sótt var í Öskjuhlíðina. Ofan á þetta var jafnað rauðamöl sem tekin var úr Rauðhólunum austan Reykjavíkur … Síðan var rauðamölin völtuð og ofan á hana kom þykkt lag steinsteypu og ekkert til sparað … Steypt voru breið svæði í beinum línum ýmist norður/suður eða austur/vestur.“
Á meðan á vinnunni stóð gengu einar tíu til tólf steypuhrærivélar á vellinum frá fimm á morgnana til tíu á kvöldin. Unnið var á tvískiptum vöktum fram til 1. september 1941, en þá var vaktavinnu hætt og unnið frá hálf sjö á morgnana til sex á kvöldin. Þá hafði flugvélum og mannvirkjum á vellinum fjölgað og var þá enn hert á eftirliti með vellinum og öllu því sem þar var.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1944.

Flugvöllurinn var formlega opnaður þann 4. júní 1941. Þá var haldin stutt athöfn til að fagna því að flugbraut nr. 1 var tilbúin til notkunar. Öllum verkamönnum og hermönnum á flugvellinum var boðið að vera við athöfnina þar sem Major General H.O. Curtis, yfirforingi breska setuliðsins, hélt stutta tölu. Hann þakkaði íslensku verkamönnunum og gaf þeim eins dags kaup sem viðurkenningu fyrir dugnað og góða samvinnu. Að athöfninni lokinni gengu allir til vinnu sinnar.
Auk flugvallarins reis á stríðsárunum fjöldinn allur af mannvirkjum á svæðinu. Stór hluti þeirra er nú (2019) horfinn en þó má enn finna leifar mannvirkja eins og stjórnbyrgi, skotgrafir, loftvarnarbyrgi, varnarveggi fyrir eldsneytistanka, neðanjarðarvatnstanka, bryggjur, vegi, fjölda gólfa og grunna undan bröggum og öðrum byggingum, akstursbrautir fyrir flugvélar o.s.frv.

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1943.

Þá risu á flugvallarsvæðinu um 500 braggar og var braggabyggðin einna þéttust vestan í Öskjuhlíðinni og út með Fossvoginum. Nokkrir braggar standa enn vestan við rætur Öskjuhlíðar og einn við gamla flugturninn. Einnig hefur hluti af flutningsbúðum eða Transit Camp verið endurgerður í Nauthólsvík í nýrri mynd (2018). Á stríðsárunum hýstu búðirnar flugmenn og aðra sem áttu leið um Reykjavíkurflugvöll, en eftir stríð var þar starfrækt flughótel á vegum flugmálastjórnar um margra ára skeið. Þá eru öll stærstu flugskýlin, sem nú standa á Reykjavíkurflugvelli, frá tíma setuliðsins. Nú (2019) hefur nær allt lauslegt frá stríðsárunum verið fjarlægt af rannsóknarsvæðinu eða orðið ryði að bráð. Á það einnig við um gaddavírsgirðingar og sandpokavígi.

Nauthólsvík

Þessi húsvoru upphaflega hluti af stærri herskálaþyrpingu sem reist var af breska flughernum í Nauthólsvík veturinn 1944-1945 til að hýsa „Transit camp“ eða gistibúðir flugáhafna og farþega flughersins. Bretar nefndu gistibúðirnar Hótel Winston. Gistirými var í bröggum sem tengdir voru saman með yfirbyggðum gangi en í öðrum húsum voru eldhús, veitingasalur, setustofur o.fl. Eftir að flugmálastjórn tók við rekstri flugvallarins 1946 var rekið þarna flughótel á vegum hennar. 

Íslendingar tóku formlega við Reykjavíkurflugvelli þann 6. júní 1946. Þann dag tók Flugmálastjórn Íslands við rekstri og viðhaldi flugvallarins. Við breytingar á skipulagi Flugmálastjórnar Íslands tóku Flugstoðir ohf. við rekstri og viðhaldi flugvallarins. Árið 2010 sameinuðust Flugstoðir og Keflavíkurflugvöllur ohf. í Isavia sem tók við starfsemi beggja fyrirtækja. Ummerki frá hernámsárunum afmást jafnt og þétt og í dag (2019) eru flugvélastæði, flugskýli, nokkrir braggar og gamli flugturninn við flugvöllinn ásamt minjum í Öskjuhlíð einn helsti vitnisburður um hernámsárin í Reykjavík. Reykjavíkurflugvöllur er miðstöð innanlandsflugs á Íslandi og einn af fjórum alþjóðlegum flugvöllum landsins.“

Heimildir:
-Nauthólsvík og Nauthólsvíkurvegur; Fornleifaskrá og húsakönnun, Reykjavík 2019, bls. 15-21.
-https://is.nat.is/reykjavikurflugvollur/
-https://www.flugsafn.is/is/flugsagan/flug-i-100-ar

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkurflugvöllur 1942.

Öskjuhlíð

Í „Byggðakönnun; fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð“ frá árinu 2013 má lesa eftirfarandi um Víkursel:

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð – á kafi í gróðri.

„Vestan í Öskjuhlíðinni er merkilegur staður sem nefnist Víkursel. Nafngiftin bendir til seljabúsakapar þar. Helgi M. Sigurðsson sagnfræðingur rannsakaði sögu selsins og ritaði eftirfarandi:
Elsta ritaða heimild um seljabúskap Reykjavíkurbænda er eignaskrá, öðru nafni máldagi, frá 1379. Er selið þar sagt vera í Víkurholti, sem gæti verið eldra nafn á Öskjuhlíð en einnig eru getgátur um að það hafið verið Skólavörðuholt. Staðsetning selsins framan af er þannig óljós. Selin gætu raunar hafa verið fleiri en eitt og vísast hafa þau verið flutt til í aldanna rás.

Í máldögum frá 1397 og 1505 er ekki getið um selið. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir er mjög fáorðir um búskaparefni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, „fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband.“ Kona hans var Þórey Narfadóttir bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði. En hann hefur í raun ekki á miklu að byggja í því efni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru Öskjuhlíð sunnan- og vestanverð. Athyglisvert er að hér er talað um „gamla Víkursel.“ Það styður þá ályktun að löng hefð hafi verið fyrir selinu á þessum stað.

Víkursel

Víkursel – stekkur.

Skýrasta lýsingin á staðsetningu Víkursels er frá upphafi 19. aldar, um það leyti sem það var lagt niður. Kona að nafni Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar í Hlíðarhúsum, var síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 var hún beðin að gefa vitnisburð um landamerki milli Reykjavíkur og Skildinganess og sagði þá meðal annars: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð…“ Þessi vitnisburður færir okkur talsvert áleiðis.

Víkursel

Víkursel.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur skráði í fornleifaskrá Reykjavíkur Víkursel, en hann taldi fornleifarnar vera ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr um hvort um sel væri að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu að þetta sé Víkursel eru umhverfisaðstæður, það er að segja lækurinn og beitilandið sem hefur verið gott þarna í kring, auk þess sem stekkur er ekki fjarri. Í dag (2013) er selið hulið barrtrjám sem þarf að fjarlægja.“

Sjá meira um Víkusel HÉR.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun – Reykjavík 2013, bls. 6-7.

Víkursel

Víkursel – fjárborg.

Öskjuhlíð

Þrír letursteinar með áletruninni „Landamerki 1839“ afmörkuðu jörðina Skildingarnes frá Víkurbænum í Reykjavík.
Öskjuhlid-223Í grein í Morgunblaðinu 17. apríl 2005 er umfjöllun um byggðina undir yfirskriftinni „Skildinganes-kauptún“. Þar segir m.a.: „Sunnan í Skildinganeshólum stóð veglegt steinhús, þar átti heima frú sem hét Margrét. Börnum stóð stuggur af frúnni og kölluðu krakkarnir hana Hóla-Möngu. Þegar Margrét, sem alltaf var prúðbúinn utandyra, sást fara með strætó niður í bæ, áræddu krakkarnir að leika sér sunnanmegin í hólunum. Þar efst var steinn sem í var grafið LANDAMERKI 1839.“
Í Morgunblaðinu 9. ágúst 1994 sagði Magnús Sigurðsson í umfjöllun um Skerjafjörð – sjálfstæða byggð með sérstæðu yfirbragði: „Um Skildinganeshóla lágu áður mörk milli jarðarinnar Skildinganess og Reykjavíkur og þar var m. a. landamerkjasteinn frá 1839, sem nú er varðveittur í Árbæjarsafni.“
Í Fornleifaskráningu fyrir vestanvert Öskjuhlíðarsvæðið frá árinu 2006 segir m.a.: „Nokkur saga er tengd landamerkja-steininum. Skildinganes var um miðbik 16. aldar orðin sjálfstæð jörð, engu að síður voru landamerki hennar og Reykjavíkur ekki skýrt afmörkuð fyrr en árið 1787. Þá hafði Reykjavík fengið kaupstaðarréttindi og var land jarðarinnar ákvarðað í tengslum við það. Voru þá mörk Skildinganess og Reykjavíkur dregin frá Lambhól við Skerjafjörð, upp í Skildinganeshóla við Suðurgötu (Hjónagarða), þaðan austur í vörðu við Öskjuhlíð og að lokum í Fossvog við Hangahamar að austan, við Nauthólsvík. Fljótlega var reynt að hnekkja þessari niðurstöðu og spannst af því mikil deila sem leystist ekki fyrr en með sáttagerð árið 1839. Var hún í flestu samhljóða útmælingunni frá 1787. Til að taka af öll tvímæli var landamerkjalínan vörðuð þremur steinum, einum við Lambhól, öðrum í Skildinganesi og þeim þriðja í Öskjuhlíð. Á alla steinanna var höggvið orðið „Landmerke“ og ártalið 1839.
Oskjuhlið-223Lýsing: Steinninn er jarðföst klöpp með áletruninni “Landamerke 1839”, klappaðri á eina hliðina. Ofan á hann er merkt X. Hann er um 1,5 m á lengd og 1 m á hæð.
Á vísindavef HÍ er fjallað um örnefnið Ökjuhlíð: „Öskjuhlíð getur verið gamalt nafn. Hún hefur vafalaust tilheyrt landnámsbænum Vík (Reykjarvík) frá upphafi. Nafnið Víkurholt, sem nefnt er í máldaga Víkur frá 1379 gæti átt við Skólavörðuholt en þó fremur Öskjuhlíð, þar sem segir: „Víkurholt með skóg og selstöðu“.
Elín Þórðardóttir hét síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 gaf hún vitnisburð um landamerki Reykjavíkur og Skildinganess, meðal annars með þessum orðum: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð“. Nafnið hefur stundum verið stytt því að í áreiðargerð vegna landamerkja, þar sem farið er eftir landamerkjum jarða til upprifjunar eða staðfestingar, frá 1787 er talað um „Trevarder paa Hlidin“. Jónas Hallgrímsson nefnir Öskjuhlíð í dagbók sinni frá 1840.

Landamerkjasteinn 1839

Að minnsta kosti frá því um miðja 19. öld bar hæðin einnig nafnið Eskihlíð. Á korti frá 1850 er nafnið Öskjuhlíð aðalnafnið en Eskihlíð smáletrað. Býlið Eskihlíð (síðar við Miklatorg) var þó ekki stofnað fyrr en 1891.
Eski (eskigras) hefur fundist í hlíðinni en líklegra er að nöfnin Öskjuhlíð/Eskihlíð séu dregin af líkingu við öskjur, sem höfðu kúpt lok og voru notaðar meðal annars til að geyma í lín (einkum höfuðbúnað kvenna). Orðin askja, eski og eskja merkja hið sama, oft notað í fleirtölu, trafaöskjur = trafeskjur. Eski er upphaflega trjátegundin askur, en síðan haft um ílát úr þeim viði. Tvímyndir nafnsins kunna því að hafa þekkst frá fornu fari: Eskihlíð og Öskjuhlíð, samanber Eskiholt (Eskjuholt) og Öskjuholt á Mýrum.

letursteinn-222

Í Alþýðublaðinu 1963 var rætt við Lárus Sigurbjörnsson, forstöðumann Skjala- og minjasafns Reykjavíkurborgar. Í viðtalinu kom eftirfarandi m.a. fram:  „Þá sagði hann okkur frá öðrum merkilegum steini, sem nú stendur í heygarðinum fyrir norðan Árbæ. Er það landamerkjasteinn Reykjavíkur og Skildinganess. Var þessi steinn settur 1839 eftir miklar landamerkjadeilur. Voru tveir aðrir settir, annar í Eskihlíð og hinn á Lambholt. Sá sem er í Árbæ var á Skildinganesshólnum. Lárus hefur leitað að hinum steinunum, en ekki fundið. Sá, sem var á Skildinganesshólnum hafði verið bylt, líklega á stríðsárunum. Á honum stendur „Landamerki 1839″.“
Skv. nýjustu upplýsingum (2011) mun landamerkjasteinninn frá Skildinganesi hafa verið fluttur aftur á Skildingarneshóla fyrir 1994 sbr. Fornleifaskrá Bjarna F. Einarssonar. Þegar FERLIR kíkti á staðinn nýlega (2012) lá steinninn þar efst á hólnum, ekki á hvolfi sem fyrrum, en hallaði þó letrinu „undir flatt“.

Heimildir:
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1012796/
-Bjarni F. Einarsson, Fornleifaskrá Reykjavíkur, 1995.
-http://www.arbaejarsafn.is/Portaldata/12/Resources/skjol/skyrslur/skyrsla_130.pdf
-http://www.mbl.is/greinasafn/grein/149422/
-Anna Lísa Guðmundsdóttir, Fornleifaskráning lóðar Háskóla Reykjavíkur, Öskjuhlíð – Nauthóll, 2006.
-http://visindavefur.hi.is/svar.asp?id=5169
-http://skerjafjordur.blog.is/blog/skerjafjordur/entry/101846/
-Alþýðublaðið 30. júní 1963, bls. 16.
-Helgi M. Sigurðsson og Yngvi Þór Loftsson, Öskjuhlíð, náttúra og saga. Reykjavík 1993, bls. 7-24.
-Íslenskt fornbréfasafn III, bls 340.
-Íslenskt fornbréfasafn XV, bls. 258.
-Ólafur Lárusson, Byggð og saga. Reykjavík 1946, bls. 106.
-Jónas Hallgrímsson, Ritverk II (1989), bls. 364.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – landamerki.

Öskjuhlíð

Í Morgunblaðinu árið 1997 er fjallað um „Öskjuhlíð – margþætta útivistarperlu„:

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð og nágrenni – örnefni.

Öskjuhlíðin er ein meginprýði Reykjavíkur, en samt mun staðreynd að tvö orð munu öðrum fremur koma upp í huga margra er nafnið ber á góma: Perlan og ólifnaður. Það er mikil einföldun, því Öskjuhlíðin er ein glæsilegasta útivistarperla höfuðborgarbúa, auk þess að vera lifandi og nærtæk kennslustofa í jarðfræði, fuglafræði og grasafræði íyrir fólk á öllum aldri. Guðmundur Guðjónsson fletti upp á ýmsum staðreyndum um Öskjuhlíðina.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

„Ímynd Öskjuhlíðarinnar hefur farið batnandi hin síðustu ár og má segja að ekki hafi veitt af, en margt hefur verið gert til að laða fremur fólk að í stað þess að fæla frá sem orðsporið gerði um skeið.
Ef litið er fram hjá Perlunni, er það skógurinn sem við mönnum blasir í Öskjuhlíð og gefur henni þann sterka svip sem raun ber vitni. Það er og skógurinn sem laðar að borgarbúa til útivistar, auk þess að þar er afar skjólsælt í sólaráttinni úr norðri.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Skógurinn er síðari tími fyrirbæri, en Öskjuhlíðin sjálf á sér allmiklu lengri sögu, en í rúnum hennar er rist fjölbreytt jarðsaga seinni hluta ísaldar á Íslandi. Þannig var Öskjuhlíðin eyja fyrir 10.000 árum er sjávarstaða var hærri en hún er í dag. Sæbarðir og slípaðir hnullungar og jökulurð sem liggur eins og baugur á þykkum fingri í 43 metra hæð yfir sjó er til vitnis um þær umbyltingar og breytingar sem orðið hafa á landinu í aldanna rás.
Bergrunnur Öskjuhlíðar er hið svokallaða Reykjavíkurgrágrýti sem er hraun sem rann úr eldstöðvum á Mosfellsheiði á síðari hluta ísaldar. Síðar meir sótti kuldinn í sig veðrið og jöklar huldu landið á nýjan leik og er þeir hopuðu með hlýnandi veðri skapaðist Öskjuhlíðin í þeirri mynd sem þekkt er í dag.

Jökulrispur

Jökulrispur.

Jökulskrapaðar grágrýtisklappir víða á svæðinu segja þessa sögu og annað kennileiti er til marks um nýjar breytingar með hlýnandi veðri. Þá hopaði jökullinn og elti. Mynduðust þá Fossvogsbakkarnir við norðanverðan Fossvog, en í þeim eru steingerðar leifar skelja, kuðunga og fleiri sjávardýra er þá voru uppi. Yfirleitt lifa sömu tegundir enn í dag þannig að ástandið til lands og sjávar á þessum tíma hefur verið líkt og nú. Álitamál er hins vegar hvort að þessi lög hafi orðið til á síðasta hlýskeiði ísaldar eða í lok síðasta jökulskeiðs sem hófst fyrir 70.000 til 120.000 árum og lauk fyrir um 10.000 árum. Land reis þegar jökullinn gaf eftir og þá færðust fjörumörkin heldur betur upp á við eins og frá var greint hér áðan.
Það hefði verið fróðlegt yfir Reykjavíkursvæðið að líta á þessum tímum. Þá voru Öskjuhlíð og Háaleyti eyjar og topparnir á Laugarási og Rauðarárholti sker! Á næstu þúsund árum lækkaði sjór hins vegar á ný og núverandi fjörumörk náðust. Við erum ekki að tala um langan tíma í jarðsögulegum skilningi þó mannsaldrarnir séu óteljandi og því er óhætt að segja að mikið hafi gengið á.

Tré, plöntur og fuglar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð 1946.

Á fimmta áratugnum fór að vakna til vitundar með þjóðinni nauðsyn á opnum svæðum, útivistarsvæðum, þar sem menn gætu unað, enda færðist mjög í aukana nokkuð sem áður var framandi með mönnum hér norður í höfum, þ.e.a.s. frístundir.
Heiðmerkursvæðið var friðað árið 1948 og menn létu ekki þar við sitja, heldur litu í kring um sig eftir fleiri valkostum. Ræktunarsaga Öskjuhlíðar hófst um þetta leyti og árið 1950 fór Einar G.E. Sæmundsson, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, með tilbúinn áburð og mokaði honum á melkoll einn ofarlega í Öskjuhlíðinni. Árangurinn lofaði góðu og í kjölfarið var farið að sá grasfræi og gera hinar og þessar athuganir á svæðinu. 1951 kom fyrsta ákvörðunin um ræktun trjáa og þá í norður- og vesturhlíðum Öskjuhlíðar. Fleira var og í farvatninu, m.a. göngustígagerð og verndun svæðisins. Frá upphafi hefur Hitaveita Reykjavíkur staðið straum af kostnaði við ræktunina, en Skógræktarfélag Reykjavíkur haft umsjón með henni.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Hundruð þúsunda trjáa hafa verið gróðursett í Öskjuhlíð sem er að stórum hluta skógi vafin. Skilyrði virðast góð, enda reyndust hæstu plöntur við mælingu árið 1991 vera yfir 9 metrar. Var það sitkagreini, en bergfurur voru þá um 5 metrar og aspir um 7 metra háar. Auk þess er birki algengt og í góðri grósku. Alltaf eru að finnast nýjar plöntur í Öskjuhlíð, svona ein og ein, en árið 1993 höfðu fundist 135 tegundir háplantna sem er um þriðjungur íslensku flórunnar.

Brandugla

Brandugla.

Mikið fuglalíf þrífst einnig í hlíðinni, bæði í skóginum og á annars konar búsvæðum sem þar er einnig að finna. Hátt í 100 tegundir fugla hafa sést í Öskjuhlíð og um tugur verið árvissir varpfuglar. Sumir varpstofnarnir eru mjög stórir, s.s. stofnar skógarþrastar og auðnutitlings. Þannig voru um 120 þrastarpör er skarinn var talinn af kunnáttumönnum sumarið 1992. Þá voru auðnutitlingspör um 60 talsins. Sama sumar voru talin vera 5 stokkandarpör verpandi, tvö tjaldspör, þrjú sandlóupör, þrjú heiðlóupör, sjö til tíu stelkspör, tíu til fimmtán hrossagaukspör, fimmtán til tuttugu þúfutitlingspör og tvö til fimm starapör, auk þrasta og auðnutitlinga sem áður er getið um. Þá hefur hrafn oft verpt eða reynt varp. Hann er þó ekki árviss varpfugl.
Auk varpfugla má sjá margt skrítið og skemmtilegt. Þannig vita trúlega fáir að allt að 3-4 branduglur veiða mýs í Öskjuhlíð á vetrum, einkum í skóginum vestan í hlíðinni og algengt er að sjá kanínur á flækingi. Uppruni þeirra mun sá að gæludýraeigendur missa áhugann eða sjá aumur á dýrunum í prísundinni og gefa þeim frelsi með það að leiðarljósi að betra sé að lifa skemur í frelsi en lengi í prísund.

Minjar

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð.

Auk skóglendis með tilheyrandi fuglalífi og tækifæri til náttúruskoðunar á mjög víðu sviði er að finna á þessum slóðum margskonar minjar, ekki síst frá dögum síðari heimsstyrjaldarinnar. Má þar nefna skotgrafir, víghreiður og fleira sem átti að skjóta þýska hernum skelk í bringu ef hann vogaði sér að renna hýru augu hingað norður. Á þennan hátt mætti lengi halda áfram, því það er í raun ótæmandi að nefna hvað hægt er að skoða í Öskjuhlíð. Það er því ekki að undra þótt þeim fjölgi mjög frá ári til árs sem eyða æ fleiri auðnustundum í og við Öskjuhlíð.“

Í Morgunblaðinu árið 2013 er fjallað um „Stríðsminjar á hverju strái“:

Öskjuhlíðin er ævintýraland;  menningarsaga frá merkum tímum, skotbyrgi og niðurgrafin stjórnstöð. Hlíðin er vinsælt útivistarsvæði.

„Í Reykjavík eru sérstæðar söguslóðir inni í miðri borg. Stundum þarf nefnilega ekki að leggja land undir fót eða heimsækja staði þar sem hin opinbera saga hefur gerst eða er uppfærð á safni svo hverfa megi inn í nánast aðra og framandi veröld. Og það er gott innlegg í græna framtíð að labba um fallega staði í næsta nágrenni við sig og hverfa aftur til fortíðar og forvitnilegra sagna.

Til að verjast Þjóðverjum

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – skotbyrgi.

Þeir sem fara um Bústaðaveginn veita líklega ekki mikla athygli tveimur steyptum skotbyrgjum skammt fyrir vestan Veðurstofuna. En þarna blasa þau við og eru um 100 metra frá vegarbrún. Eru að hálfu niðurgrafin en undir steyptu skyggni er allstór rauf, þar sem byssumenn búnir til bardaga höfðu gott útsýni út yfir Fossvog og Skerjafjörð.
Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940. Herliðið með þúsundum dáta tók brátt til óspilltra mála við framkvæmdir, meðal annars við flugvallargerð í Vatnsmýri. Völlurinn var tekinn í notkun sumarið 1941 og hafði mikla þýðingu fyrir breska herliðið. Hlutverk þess var fyrst og síðast að verjast Þjóðverjum og í því efni var flugvöllur nauðsyn. Þó sást á stríðsárunum aðeins tvisvar til þýskra flugvéla frá Reykjavík. Eigi að síður þótti allur varinn góður. Því voru reist skotbyrgi víða um Öskjuhlíð og raunar víðar um bæinn.

Flóð brennandi eldsneytis

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – veggur til varnar olíuleka.

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir ofan Keiluhöllina er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Borgin er átta metrar á hvern kant og inn í byrgið er gengt um yfirbyggðar töppur sem eru hvorar á sínum gafli. Og þar inni ætlaði yfirstjórn herliðs Breta að hafast við ef kæmi til stórfelldrar árásar á flugvöllinn. Svo fór ekki, en rammgert byrgið stendur þó enn. Betra er þó að fara með gát smokri fólk sér þar niður og þá er nauðsynlegt að hafa vasaljós.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – neyðarstjórnstöð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstímum, sem enn stendur í Öskjuhlíðinni, er grjótveggur sem er vestarlega í hlíðinni, út undir Nauthólsvík. Hann var reistur árið 1944, er nokkuð á annað hundrað metrar á lengd og tveir til þrír metrar á hæð. Er úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Virkið þurfti líka að vera traust, að baki því voru þrír stórir eldsneytisgeymar og áttu veggir þessir að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á takana. Þeir voru teknir niður fyrir margt löngu, en veggurinn stendur enn falinn inni í þykku skógarrjóðri. Væri vel þess virði að við hann yrði komið upp merkingum eða söguskilti sem og við aðrar stríðsminjar í Öskjuhlíð.“

Heimildir:
-Morgunblaðið 01.06.1997, Öskjuhlíð – margþætt útivistarperla, bls. 6B-7B.
-Morgunblaðið 25.04.2013, Stríðsminjar á hverju strái, bls. 9.

Öskjuhlíð

Öskjuhlíð – upplýsingaskilti.