Færslur

Ratleikur

Ratleikur Hafnarfjarðar er nú, árið 2024, haldinn í 27. sinn.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Ratleikskortið 2024.

Leikurinn er, líkt og jafnan, bæði fjölbreyttur og skemmtilegur. Þemað að þessu sinni er þjóðsögur og ævintýri . Guðni Gíslason, ritstjóri Fjarðarfréttar og forstjóri Hönnunarhússins, lagði út leikinn. Lykillinn að leiknum, Ratleikskortin, liggja frammi, án endurgjalds, á eftirtöldum stöðum: Fjarðarkaupum, Bókasafni Hafnarfjarðar, Ráðhúsinu, Bensínstöðvum N1, Suðurbæjarlaug, Ásvallalaug, Sundhöll Hafnarfjarðar og víðar. Guðni lofar góðum verðlaunum þeim er verðskulda.
Ef einhver vill hins vegar koma athugasemdum á framfæri er rétt að sá/sú snúi sér til Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstýru í Hafnarfirði.

Hér má lesa fróðleiksþætti Ratleiksins í ár:

1. Skerseyri – sæskrímsli

Íslandskort

Hluti af Íslandskorti Guðbrands Þorlákssonar, biskups, 1590.

Á landakortum fyrri alda má oft á tíðum sjá, auk landa og örnefna, hinar ýmsu kynjaskepnur hafsins. Landakönnuðir og kortagerðamenn, sem vildu láta taka sig alvarlega, skráðu það eitt er þeir sjálfir sáu eða fengu staðfest eftir “áreiðanlegustu” heimildum. Af því að dæma ættu kynjaskepnurnar að hafa verið til á þeim tímum, þótt ekki hafi alltaf tekist fullkomlega að teikna þær af ítrustu nákvæmni, þ.e. hvað varðar lögun og lit.

Skerseyri

Skerseyri.

Stærðina höfðu menn þó jafnan á hreinu og voru ekkert að draga úr henni svo neinu næmi. Oftar en ekki brá skepnunum einungis fyrir stutta stund og yfirleitt við verstu aðstæður, s.s. í myrkri, brábrimi eða þegar einhver var í sjávarháska. Vitað er, ef tekið er mið af steingervingum, sem fundist hafa, að til voru forsögulegar skepnur, bæði í sjó og á landi, er voru ægilegri og með annað svipmót en nú þekkist og miklu mun stærri, lengri og hærri.

Skerseyri

Skerseyri – tóftir.

Margar frásagnir eru til af skrímslum hér á landi og enn eru að finnast kvikindi, sem talið hefur verið að ættu að vera útdauð fyrir löngu. Þannig eru til sögn um að fyrrum hafi hér fyrir neðan fundist 33 feta “útdauður” sæormur í líki áls. Rétt er að hafa vara á sér þegar gengið er um ströndina. Á Jónsmessunótt, sem er mjög sérstök og dulúðug, eru dæmi um að selir fari úr hami sínum og taka á sig mannsmynd.

2. Brúsastaðir – draugur

Brúsastaðir

Brúsastaðir – bátsnaust.

-Á Brúsastöðum við Malirnar standa tvö hús, gamli Brúsastaðabærinn nærri sjónum og ofar í landinu stendur nýbýlið Brúsastaðir 2.
Neðan gamla bæjarins ganga hraundrangar í sjó fram, sem sjórinn hefur brotið á síðustu áratugum. Nefnast þeir Stifnishólar og segir sagan að þar hafi verið kveðinn niður draugur um 1800. Ofan þeirra er hlaðinn garður og bátsnaust skammt vestar. Brúsastaðir voru eins og hvert annað hafnfirskt grasbýli með smá túnskika í kringum bæjarhúsin, litla matjurtargarða í gjótum og vatnsbrunn í nálægri hrauntjörn.

Stifnishólar

Stifnishólar.

Fólkið sem byggði þessi grasbýli lifði af því sem landið og sjórinn gaf, hafði fáeinar kindur og mjólkandi kú, reri til fiskjar og vann tilfallandi störf til sjós og lands.
Á heimasíðu Brúsastaðaættar er sagt að nafnið tengist fuglum af ætt Brúsa, þ.e. Himbrimum og Lómum. Þessi nafnahugmynd er nýleg en til er eldri og sennilegri skýring á nafninu.

Brúsastaðir

Brúsastaðir.

Í eina tíð stóðu margar verbúðir í landi Garðakirkju. Þegar einokunarverslunin lagðist af 1787 fjölgaði lausakaupmönnum og versluðu m.a. á Langeyri. Kaupmennirnir stóðu ekki lengi við en grasbýli tóku að byggjast þar sem kaupbúðir og verbúðir stóðu áður.
Getið er um Litlu-Langeyri í manntali 1801. Þetta kot var í eyði þegar Jón Oddsson kom þangað 1890 og tók að endurbyggja bæinn. Þegar hann var að grafa fyrir grunni hússins fann hann brot úr leirbrúsa og kallaði bæinn þar eftir Brúsastaði. Það má ímynda sér að leirbrúsinn hafi verið frá þeirri tíð er lausakaupmenn versluðu á Langeyri seint á 18. öld, þó skýringin geti verið önnur.

Stifnishólar

Stifnishólar og Brúsastaðir.

Oddur Jónsson og kona hans Sigríður Guðrún Eiríksdóttir sem komu frá Brynjudal í Hvalfirði tóku við Brúsastöðum af Jóni, en Eyjólfur Kristjánsson Welding og Ingveldur Jónsdóttir fluttu í Brúsastaðabæinn frá Hraunhvammi 1915. Það eru afkomendur þessara hjóna sem tilheyra Brúsastaðaættinni. Sonur þeirra Þórður Kristinn tók við búskapnum árið 1932 og eftir hans dag 1965 bjó Unnur dóttir Þórðar á Brúsastöðum ásamt Birni Kristófer Björnssyni eiginmanni sínum.

3. Víðistaðir – óbrynnishólmi – verndardísir

Víðistaðir

Víðistaði – minningarsteinn.

-Víðistaðir er óbrynnishólmi er myndaðist í Búrfellsgosinu fyrir rúmlega 5000 árum. Hólmann byggði mannfólk síðar á öldum. Þegar hraunið ofanvert rann ofan frá Búrfelli höfðust verndardísir við á svæðinu. Dísirnar voru afleifð huldufólks, sem hafði búið um sig í holtinu er þá fór undir hraun. Síðar, þegar mennirnir námu landið, varð huldufólkið komið upp á náðir mannanna og líkti eftir siðum þeirra, hafði kaupstaði á svipuðum slóðum og mennskt fólk, þing eins og Íslendingar fyrrum, og huldumenn þurftu í kaupstað á lestum eins og aðrir.
Oft hefur heyrzt strokkhljóð og búsáhaldaglamur í hólum og er eignað huldufólki. Þeir eru forsjálli og verklagnari en menn, og er hverjum hið mesta happ sem getur hegðað sér eftir háttum þeirra, til dæmis við heyþurrka, fiskróðra og þess háttar.

Víðistaðir

Víðistaðir – hvíldarstaður í skjóli hrauns.

Og eftir þeim heimildum sem við höfum um lifnaðarhætti huldufólks fyrr á öldum mætti ætla að það væri búið að taka bæði bifreiðar og flugtækni í þjónustu sína nú. En það er ekki það huldufólk sem við þekkjum úr þjóðsögunum.
Spurningin er hversu vel huldufólkinu líkar við reisn kristnilegrar kirkju í hraunjaðri Víðistaða?

4. Hellisgerði – huldufólk – hellir

Hellisgerði

Hellisgerði.

-Álfar í íslenskri þjóðtrú eru um margt sérstakir og er orðið notað um sérstakan flokk huldufólks. Íslenskir álfar búa jafnan í klettum eða steinum og iðka búskap sinn líkt og mennirnir en kjósa að vera látnir í friði. Í íslenskum þjóðsögum er mikið til af lýsingum af samskiptum álfa og manna. Háskalegt er þar jafnan að styggja álfa, til dæmis með því að raska bústað þeirra eða slá svokallaða álagabletti. Í Hellisgerði er Fjarðarhellir, fjárhellir álfanna. Gerðið tekur nafn sitt af hellinum.

Hellisgerði

Í Hellisgerði.

Í Hafnarfirði hefur í nokkur ár verið haldin álfahátíð í Hellisgerði á Jónsmessunni. Gerðið er vel þekkt búsvæði álfa og því líklegt að slíkar vættir verði varir gestanna þessa kynngimögnuðu nótt.
Þann 15. mars árið 1922 hélt Guðmundur Einarsson framsögu á fundi Málfundafélagsins Magna er hann nefndi “Getur félagið Magni haft áhrif á útlit Hafnarfjarðar?” Svaraði hann spurningunni játandi, m.a. með því að koma upp skemmti- og blómagarði sem yrði bænum til mikillar prýði. Í kjölfarið var stofnuð nefnd til að vinna áfram með tillöguna og komst hún að þeirri niðurstöðu að “Hellisgerði” á milli Reykjavíkurvegar og Kirkjuvegar væri kjörið fyrir garðinn. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti að láta félaginu í té hið umbeðna garðsvæði endurgjaldslaust sama ár.

Hellisgerði

Hellisgerði – Fjarðarhellir.

Sumarið 1923 var haldin þar Jónsmessuhátíð til að afla fjár til starfseminnar og við það tækifæri afhenti Magnús Jónsson bæjarfógeti Málfundafélaginu Magna Hellisgerði formlega.
Í skipulagskrá sem samin var fyrir garðinn kemur fram að tilgangur hans var fyrst og fremst þríþættur. Í fyrsta lagi að vera skemmtigarður þar sem bæjarbúar ættu kost á að njóta ánægju og hvíldar í tómstundum sínum.

Hellisgerði

Hjarta Hafnarfjarðar er í Hellisgerði.

Í öðru lagi að vekja áhuga bæjarbúa á blóma- og trjárækt og í þriðja lagi að geyma óraskaðar minjar um hið sérkennilega bæjarstæði Hafnarfjarðar.

Vorið 1924 hófst ræktun í Hellisgerði. var þá Ingvar Gunnarsson ráðinn starfsmaður þar og var hann forstöðumaður garðsins allt til dauðadags árið 1962.
Upphafleg stærð Hellisgerðis var um 400 m2 en árið 1960 samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar að láta Magna í té 6000 m2 land til viðbótar. Eftir að starfsemi Magna lagðist niður hefur umsjón og eftirlit Hellisgerðis verið á herðum garðyrkjustjóra Hafnarfjarðarbæjar.

Í tilefni af eitt hundrað ára afmæli Hellisgerðis á þessu ári hefur Hafnarfjarðarbær lagt í verulegar úrbætur á garðinum.

5. Hamarinn – huldukona

Hamarinn

Hamarinn.

-Hafnarfjörður er sannkallaður álfabær. Fram kom í úttekt sjáandans Erlu Stefánsdóttur, sem hún gerði fyrir Hafnarfjarðarbæ á tíunda áratug síðustu aldar, að í Hamrinum (Hamarkotshamri) sé merkilegasta og stærsta álfabyggðin í bænum. Ein elsta frásögnin af staðnum er um Gunnar Bjarnason, bónda í Hamarskoti, sem heyrði söng frá Hamrinum.

Sagan segir að eitt sinn er Gunnar var á gangi norðan- eða austanmegin í Hamrinum á vetrarkvöldi um jólaleytið hafi hann heyrt söng í honum.

Hamarinn

Hamarinn – þjóðsagnakenndur staður álfa og huldufólks.

Gekk hann þá á hljóðið og kom að opnum dyrum á Hamrinum, sem hann gekk inn um. “Kemur hann inn í mannahýbýli og stendur söngurinn þá sem hæst. Þá var það venja á landi hér, ef að gest bar að garði, meðan á húslestri stóð, þá gekk hann hljóðlega inn, yrti ekki á neinn og heilsaði ekki fyrr en að lestrinum loknum. Þessari venju fylgdi Gunnar. Sat hann hljóður meðan á söngnum stóð og hlustaði með gaumgæfni á lesturinn, sem á eftir fór. Er mælt, að hann hafi kannast við lögin og sálmana en eigi hugvekjuna eða predikunina. Eftir lesturinn var sunginn sálmur og að honum loknum gekk Gunnar úr jafnhljóðlega og þá er hann kom inn.” Þrátt fyrir margar tilraunir Gunnars varð hann aldrei aftur var við álfana í Hamrinum.
Ýmsir þekktir Hafnfirðingar hafa þó lýst sýnum þeirra af álfkonunni í Hamrinum.

6. Setberg – Galdraprestsþúfa – draugur

Galdraprestsþúfa

Galdraprestsþúfa.

-Lítill hóll er við norðurbrún gamla vegarins frá Setbergi upp að Urriðakotsvatni. Friðþjófur Einarsson á Setbergi sagði hólinn heita Galdraprestshóll. Í honum væri grafinn nafngreindur prestur, Einar, og væri til þjóðsaga um hann. Sá hefði komið undir eftir að sýn birtist föður hans, sem jafnframt var prestur úti á landi, í draumi og gat hann í framhaldi af því barn með ungri konu á altari kirkjunnar. Hertrukki var ekið utan í hólinn á stríðsárunum og valt hann við það sama. Ekki er getið um kirkju þarna, en gamall grafreitur er norðan við hólinn. Það hafi komið í ljós þegar verið var að slétta túnið snemma á 20. öldinni. Einar þessi mun hafa verið rammgöldróttur.

Setberg

Tóftir gamla Setbergsbæjarins.

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar segir um hól þennan: “Frá vesturbæjarhorni lágu Setbergstraðir austur um túnið. Þar sem það var hæst, var farið framhjá Galdraprestsþúfu, en þúfa sú mun vera kapella, sem eitt sinn var hér á Setbergi. Eru ströng fyrirmæli um að hrófla ekki við þúfu þessari.”

Setberg

Galdraprestsþúfa við gamla Setbergsbæinn.

Til eru sögur um bænahús eða kapellu við Setbergsbæinn og á hún að hafa staðið þar sem nú er “Galdraprestaþúfa” skammt frá bæjarrústinni. Þar réð meðal annars ríkjum sr. Þorsteinn Björnsson, en eftir hann liggur kvæðasafnið “Noctes Setbergenes” eða Setbergsnætur sem varðveitt er í Árnasafninu. Kvæðasafn þetta orti hann meðal annars til að “stytta sér hið leiða líf” eins og hann orðaði það sjálfur.

Í örnefnaskráningu Svans Pálssonar fyrir Setbergsland segir m.a.:

Setberg

Galdraprestsþúfa.

“Í gegnum túnið á bak við bæinn lá Urriðakotsvegur, sem lá upp að Urriðakoti. Fast sunnan við Urriðakotsveginn í túninu er mjög stór þúfa, Galdraprestsþúfa, sem ekki má hreyfa. Þar á samkvæmt þjóðtrúnni að vera grafinn séra Þorsteinn Björnsson, sem dvaldist síðustu æviár sín á Setbergi og lést 1675. Um hann má lesa nánar í bókinni Frásagnir eftir Árna Óla, útgefandi Menningarsjóður 1955 bls. 100-117.”

7. Hvaleyri – Móðhola – draugur

Móðhola

Móðhola.

– Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri eftir Ólaf Guðmundsson og Gísla Sigurðsson, lögregluþjón í Hafnarfirði, er getið um Móðholu. Í lýsingunni er m.a. sagt frá Hvaleyrarsandi, norðvestan við núverandi golfvöll. “Utan við Hvaleyri heitir Jónasarlending. Sker er þar skammt undan landi sem heitir Hrútur. Vestan við Hvaleyrarsund heitir Þvottaklettur. Þar kemur tært vatn undan hrauninu og er það af sumum talið vera vatn úr Kaldá. Þar næst heitir svo Gjögrin er ná að Skarfakletti. Innan við Skarfaklett[a] er víkin, nefnd Sandvík og við Skarfakletta[a] heitir Móðhola, en Móðhóll klapparhryggurinn, sem holan er í.

Móðhola

Móðhola – vörðubrot.

Þar þótti reimt hér fyrrum, en andríkur prestur í Görðum kom að þessum reimleikum og ku hafa kveðið drauginn Móða niður. Þar er smáhellisskúti og utar, fast við merkin móti Straumi, er vík sem heitir Þórðarvík.”
Í annarri örnefnalýsingu segir að Móðhola sé lítið jarðfall skammt ofan við ströndina. Sá, sem þar fer niður, getur átt í erfiðleikum með að komast upp aftur. Kannski það hafi þess vegna verið hentugt til að kveða niður drauginn umdædda. Engar sagnir eru um að draugurinn hafi komist upp úr holunni eða hafi valdið fólkinu á Hvaleyri frekari vandræðum eftir niðursetninguna.
Ofan fjörunnar skammt norðar er hluti af leifum Fjarðarkletts GK 210.

8. Hvaleyrarvatn – nykur

Hvaleyrarvatn

Upplýsingaskilti við Hvaleyrarsel.

-Í Gráskinnu hinni meiri (Sigurður Nordal og Þórbergur Þórðarsona) er sagt, að nykur sé í Hvaleyrarvatni annað árið en hitt árið í Kasthúsatjörn á Álftarnesi. Var selstaða áður við Hvaleyrarvatn. Eitt sinn voru þar karl og kerling og gættu búpenings. Fór konan að sækja vatn og kom ekki aftur. Seinna fannst lík hennar mikið skaddað rekið upp úr vatninu og þótti líklegt að nykurinn hefði drekkt konunni. Hafa eldri menn oft heyrt skruðninga frá vatninu er ísa leysir og er það talið stafa af nykrinum.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Sagt er ennfremur að eitt sinn hafi fjögur börn verið að leik út á Álftarnesi og séð þar eitthvað sem líktist hesti. Fóru öll á bak nema eitt barnanna, en það sagðist ekki nenna. Hristi þá dýrið börnin af sér og stökk út í tjörnina. Þóttust menn vita að þetta hefði verið nykur.
Önnur sögn segir að nykurinn sé jafnan annað árið í Hvaleyrarvatni, en hitt í Urriðavatni. Fari hann millum vatnanna um undirgöng.
“Sunnan við Hvaleyrarvatn, undir Selhöfða eru tóftir tveggja selja. Austar eru tóftir, líklega sels frá Ási, niður undan skátaskálanum Skátalundi, en vestar, á grónum tanga, eru tóftir Hvaleyrarselsins.

Mosfellsbær

Nykur.

Þar lagðist selsbúskapur af eftir að smali frá Hvaleyri fann selsstúlku látna og illa leikna niður við vatnið. Talið var að nykur, sem átti að hafa haldið til í vatninu annað hvert ár, hafi ráðist á og banað stúlkunni. Nykurinn átti, skv. sögnum, að búa hitt árið í Urriðakotsvatni, en hann mun hafa drepist þar frostaveturinn mikla árið 1918. A.m.k. sást aldrei til hans eftir það.” Það er þó aldrei of varlega fari þegar Hvaleyrarvatn er annars vegar.

9. Borgarstandur – huldufólk

Kaldársel

Borgarstandur.

-Eftirfarandi sögn af huldukonu í Borgarstandi norðan Kaldársels er úr bókinni “Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur XII”, Reykjavík 1957, safnað af Guðna Jónssyni. Hér er hún verulega stytt, en söguna alla má lesa á ferlir.is.
“Í suðaustur frá Hafnarfirði er staður sá, sem heitir Kaldársel. Sigríður Jónsdóttir húsfreyja í Hafnarfirði, kona Helga Sigurðssonar, hefir sagt frá því, sem hér er ritað, um dvöl sína í Kaldárseli. er frásögn hennar á þessa leið:
“Ég er upp vaxinn á Setbergi við Hafnarfjörð. Þegar ég var 13 ára gömul, bjuggu hjón í Kaldárseli, er hétu Jón Jónsson og Sigríður Ásgrímsdóttir. Höfðu þau búið þar 2-3 ár. Eftir nýár 1873 var ég lánuð í Kaldársel húsfreyju til aðstoðar, og dvaldi ég þar til vors eða þangað til á venjulegum vinnuhjúaskildaga.

Kaldársel

Borgarstandur.

Þá er það eitt kvöld að loknum mjöltum, að húsfreyja gengur inn í búrið og verður litið á búrhilluna. Kemur hún auga á tveggja marka ask, mjallahvítan, er stendur tómur á búrhillunni, og þekkti hún þegar, að hann var eigi til á heimilinu. Kemur hún inn og segir: “Verði mér aldrei verra við, Sigga. Frammi á búrhillu stendur tómur askur, sem ég ekki kannast við”. Þá segi ég: “Ef þetta hefði komið fyrir hjá henni mömmu, þá veit ég, hvað hún hefði gert. Hún hefði látið mjólk í hann”.

Borgarstandur

Borgarstandur – fjárskýlistóft.

Húsfreyja lét að orðum mínum og hellti askinn fullan af mjólk. Næsta morgun var askurinn horfinn, en kvöldið eftir um mjaltatíma er askurinn kominn aftur og er þá tómur, og gekk þetta svo á hverju kvöldi, þar til vika var af sumri. Þá dreymir húsfreyju eina nótt, að kona kemur til hennar og segir: “Mikið á ég þér að þakka, og þinnar hjálpsemi og hjartagæzku skal ég lengi minnast. Maðurinn minn hefir legið sjúkur um langan tíma, og hefir þú haldið lífinu í honum með gjöfum þínum og litlu barni, sem við eigum. Vildi ég fegin sýna einhvern lit á að endugjalda þér það, sem þú hefir gjört fyrir mig og mína, en hagur minn leyfir ekki að launa þér þetta, eins og vera bæri. En þegar þú býrð um rúmið þitt, þá muntu finna nokkuð undir neðsta stykkinu, sem þú átt að eiga. Nú þarf ég eigi lengur að mér góðsemi þína”.

Kaldársel

Fjárborg á Borgarstandi.

Konan hvarf síðan burtu, og sá húsfreyja hana ganga norður í klettabyrgi nokkurt, sem er þar fast við túnið.

Jón og Sigríður höfðu ákveðið að flytja sig um vorið frá Kaldárseli og niður að Ási. Á krossmessudaginn komu foreldrar mínir bæði upp í Kaldársel til þess að hjálpa þeim með flutninginn. Mamma fer nú að taka fötin úr rúmi Sigríðar og tínir upp hverja spjör, þar til komið er niður á bálkinn. Þá verður henni litið nær höfðalaginu og kemur auga á svarta smátusku á stærð við hundseyra. Dregur hún það upp, og smástækkar það. Flettir hún því í sundur, og kemur þá innan í því stórt og fagurraut alklæðispils, sýnilega nýtt, og var það hinn bezti gripur. Voru á því þrjár leggingar grænar með eitthvað þumlungs millibili og kantabryddað með sama lit. Mamma réttir húsfreyju pilsið, en hún segir: “Æ, blessuð Vilborg, taktu það. Ég hefi ekkert við það að gera”.

Kaldársel

Kaldársel og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

Mamma svarar þá: “Ekki tek ég pilsið handa mér eða mínum. Þér er ætlað það, og ættir þú sjálf þes að njóta. En viljir þú það ekki, þá skal ég taka pilsið heim til mín og gera úr því föt handa Halldóru dóttur þinni. Hún á að fermast næsta vor”. Þegar hér var komið, kallar pabbi til þeirra og kveðst vera tilbúinn og vill fara að halda af stað. Bað þá húsfreyjan hann að doka við litla stund, fannst henni hún þurfa að kveðja nábúa sína, áður en hún flytti burt fyrir fullt og allt. Mun hafa hreyft sér hjá henni vinarþel og þakklátssemi við hina huldu grannkonu sína, þótt hún léti það lítt uppi.

Kaldársel

Kaldársel um 1932. Gamla selið sett inn á ljósmyndia.

Gekk nú Sigríður norður í byrgi það, sem fyrr um getur. Féll hún á kné frammi fyrir klettunum, en hvað hún sagði eða hugsaði, fæ ég eigi frá skýrt. Var þetta kveðja henna, þegar hún yfirgaf Kaldársel.”
Selfarir voru lengi tíðkaðar við Kaldá og voru hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri síðust til að hafa þar í seli. Selförum var hætt í Kaldárseli árið 1865 eða 1866.

10. Markasteinn – huldufólk

Markasteinn

Markasteinn – huldufólkssteinn á mörkum Urriðakots og Setbergs.

-Í örnefnalýsingu Svans Pálssonar fyrir hluta Setbergslands segir: “Suðaustan Kúadals er aflöng hæð frá norðaustri til suðvesturs, Þverhlíð. Á suðvesturenda Þverhlíðar er svokallað Háanef. Austur af Þverhlíð er Syðsta-Tjarnholt, öðru nafni Fremsta-Tjarnholt, en syðst á því er stór klettur með grasþúfu uppi á. Það er Markasteinn og er á mörkum Setbergs, Urriðakots og Garðakirkjulands. Í Markasteini átti að búa huldufólk og taldi amma mín, Sigurbjörg Jónsdóttir, sig einu sinni hafa heyrt þar strokkhljóð, þegar hún var unglingur.

Suðvesturhlíð Sandahlíðar, Kúadalshæðar og Þverhlíðar heitir einu nafni Setbergshlið. Hraunið þar suðvestur af heitir Gráhelluhraun og dregur nafn af stórum kletti í hrauninu, Gráhellu, sem reyndar er alls ekki hellulaga. Undir honum eru leifar fjárhúss frá Setbergi.

Gráhella

Gráhella.

Milli hraunsins, Lækjarbotnahrauns og Gráhelluhrauns, og hlíðanna, Svínholts og Setbergshlíðar, liggur Selvogsgata. Hún liggur frá Hafnarfirði, Selvogsgötu, austur í Selvog.
Lengi vel var girt umhverfis Markastein til að undirstrika friðhelgi hans með hliðsjón af framangreindri sögn.

Örskotsfjarlæð er á milli Markasteins og Gráhellu. Báðir staðirnir eru vel þess virði að skoða.

11. Óttarsstaðir – álfakirkja

Óttarsstaðir

Óttarsstaðir – álfakirkja; merki.

-Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: “Kattarhryggur var langur bali rétt suðaustur af Vesturbænum að Óttarsstöðum. Sunnan við Kattarhrygginn er klettur margsprunginn, er nefndist Stólpi eða Álfakirkja í lægð. Bjó jafnan huldufólk í þessum klettum. Mátti því ekki hreyfa þar við strái, ekki vera í leik eða hafa mikinn hávaða”.
Messað var í Álfakirkunni á Jónsmessunótt eftir miðjan júní. Frásagnir eru um mikla glaðværð og litaskrúð þegar samkoman stóð sem hæst.

Óttarsstaðir

Álfakirkjan.

Nóttin er ein af mögnuðustu nóttum ársins og fylgja henni margar þjóðsögur. Kýr geta tekið upp á því að tala en hver sá sem verður vitni af því getur sturlast. Á Jónsmessunótt fara álfar og huldufólk á stjá og náttúran tekur hamförum. Allir Íslendingar hafa heyrt um lækningarmátt daggarinnar sem myndast á grösum Jónsmessunætur. Fjölmargir hafa þá venju að velta sér upp úr dögginni naktir og trúa því jafnvel að þá megi óska sér.

Óttarsstaðir

Álfakirkjan við Óttarsstaði.

Upphaflega var 24 júní heiðin sumarsólstöðuhátíð þar sem lengsta degi ársins var fagnað. Síðar ákvað Rómverskakirkjan að afmæli Jesú og Jóhannesar skírara skyldu vera haldin á fornum sólstöðuhátíðum og þar með varð 24. júní að fæðingarhátíð Jóhannesar skírara. Kirkjunnar menn áttuðu sig ekki á því að sumarsólstöður höfðu færst fram um þrjá daga, til 21. júní, og því ber Jónsmessu ekki upp á lengsta degi ársins. Ástæðan fyrir því að hátíðin heitir ekki Jóhannesarmessa eða Jóhannesarmessunótt er sú að Jóhannes er oft nefndur Jón eða Jóan í fornum ritum.
Norðan við Álfakirkjuna að Óttarsstöðum er, að sögn, forn kirkjugarður.

12. Lónakot – álfaborg

Lónakot

Lónakotsklettar.

-Búið var í Lónakoti framundir 1930, en eftir það var byggt myndarlegt sumarhús, sem er löngu fallið. Sæmundur Þórðarson keypt jörðina 1939 af Guðlaugi Engilbert Sveinssyni (1883-1955). Guðlaugur sem ætíð var nefndur Laugi Lóna, flutti þá búferlum frá kotinu inn í Hafnarfjörð. Guðlaugur tók við Lónakoti árið 1902, en þá hafði jörðin verið í eyði í tvö ár eftir að Hallgrímur Grímsson og seinni kona hans Rannveig Ólafsdóttir fluttu þaðan ásamt fjórum börnum sínum. Fimmta barnið höfðu þau misst úr skarlatsótt aldamótaárið 1900. Þeim var gert ókleift að búa í Lónakoti eftir að bæjarhúsin voru brennd í kjölfar farsóttarinnar sem kom upp á bænum.

Lónakot

Lónakotsklettar.

Þegar Guðlaugur tók við jörðinni hófst hann handa með að byggja nýjan bæ á Bæjarhólnum. Hann bjó í Lónakoti ásamt sambýliskonu sinni Guðríði Jónsdóttur og þeim fæddist dóttirin Jónína Björg 1904. Þegar Guðlaugur og Guðríður fluttu frá Lónakoti á þriðja áratug 20. aldar eins og svo margir aðrir Hraunamenn, héldu þau áfram að nýta jörðina fyrir búfénað sinn. Þau bjuggu þá í litlu bakhúsi við Krosseyrarveg.

Lónakot

Lónakot – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar gengin er gatan niður að Lónakoti frá Reykjanesbraut blasir við, er komið er framhjá Hádegisvörðu, stök háleit klettaborg; Lónakotsklettar.

Rétt austanvert við götuna er þúfnakargi og lítil fjárhústóft með hlöðnum einföldum garði umhverfis, Kotagarði. Þetta svæði nefnist Kofinn eða Dys í Koti og rétt austar er fjárgerði sem kallast Kotagerði. Þarna mun gamli Lónakotsbærinn hafa staðið áður en Landlæknir lét brenna kotið eftir að skarlatssótt kom upp. Tveimur árum síðar voru bæjarhúsin byggð upp á Bæjarhólnum, sem nú blasir við.
Dóttir Sæmundar, Sjöfn, man vel eftir því að hún og systir hennar, Guðrún, hafi séð til álfa við klettaborgina þegar þær dvöldu með föður sínum, Sæmundi, í Lónakoti.

13. Þorbjarnarstaðir – Himnaríki

Þorbjarnarstaðastekkur

Himnaríki.

-Búskapur lagðist af á Hraunabæjunum um 1930, en síðast var búið á Þorbjarnastöðum árið 1939. Þá höfðu bæði Gerði og Péturskot lagst af. Sverrir, kaupfélagsstjóri í Hafnarfirði, byggði síðan sumarbústað nálægt tóftunum. Hann er nú horfinn, en sjá má móta fyrir grunninum.
“Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki).

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – Þorbjarnarstaðastekkur/Himnaríki.

Ekkert spurðist til bóndans um hríð, en hesturinn skilaði sér fljótt heim. Sjálfur kom bóndi undir vökulok”. Í örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar fyrir Þorbjarnarstaði segir, að “hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum við Alfaraleiðina skammt vestar, en heimildarmenn sr. Bjarna segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu þar sem nú er Stekkurinn. Síðan er þarna kallað Himnaríki”.

14. Steinkirkja – fjárskjól

Álfakirkja

Álfakirkja – “Steinkirkja”. Fjárskjól fremst.

-Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði segir m.a.: “Þar suður og upp af (Bekkjaskúta/fjárskjól) er stakur klapparhóll, klofinn, kallaður “Steinkirkja”. Norðan í henni er upphlaðinn fjárskúti. Suðvestur af Steinkirkju eru hólar, sem Valklettar heita”.
Steinkirkja dregur ekki nafn sitt af engu. Hún er stakt sprungið hraunhveli í annars grónu Hrútagjárhrauninu norðan hraunlænu Eldra-Afstapahrauns. Í sprungunni er steinn er líkist predrikunarstól. Engar skráðar sagnir eru um tilvist álfa tengda kirkjunni en líklegt verður að telja að þær hafi verið til í munnmælum fyrrum líkt og frásagnir herma.
Fjárskjólið norðan undir hólnum er rúmgott með veglegri fyrirhleðslu.

15. Straumssel – huldumenn

Straumssel

Straumssel – Tilgáta ÓSÁ.

-Áður fyrr voru selsstörfin og smalamennskan órjúfanlegur hluti sumarvinnunnar frá fráfærum til sláttar. Enn í dag má sjá ummerki um rúmlega 400 selstöður á Reykjanesskagnum, en selfarir lögðust að mestu um 1870.
Selsstörfin héldust mikið til óbreytt um aldir. Alsiða var það fyrrum, einkum þar sem lítið var um haga nærri bæjum að hafa búsmala í seli á sumrum frá fráfærum og til tvímánaðar eða til þess er nálega 16 vikur voru af sumri.

Straumssel

Straumssel – uppdráttur ÓSÁ.

Í Selin var farið með allan ásauð og stundum kýrnar. Selin voru venjulega þrjú hús: selbaðstofa, búr og eldhús til hliðar eða frálaust. Þannig voru flest selin á Reykjanesskaganum, reyndar með breytingum frá einum tíma til annars. Stekkir og kvíar voru og til mjalta. Selmatseljan hafði nóg að starfa; að mjalta ærnar, setja mjólkina og hirða hana, búa í strokkinn og strokka hann, búa út smjörið, flóa mjólkina og gera úr henni skyr.
Bóndinn heima eða einhver annar á bænum hafði það starf á hendi, að flytja heim úr selinu annan eða þriðja hvern dag, eftir því sem á stóð. Heldur hefir vistin verið einmanaleg fyrir selmatseljuna, þótt mikið hefði hún að gera. Þrátt fyrir komu bóndans komst hjátrúin þar að, sem eðlilegt var á þeim tímum. Urðu til margar sögur þar sem selmatseljur komust í tæri við huldumenn og urðu þungaðar eftir þá; ólu þær svo börnin í seljunum, og veitti huldumaðurinn þeim þar alla aðstoð, svo að einskis varð vart; tók hann svo barnið með sér og ól það upp í álfheimum. En hann gat ekki gleymt ástmeynni úr selinu, og kom oftast einhvern tíma löngu síðar, þegar barn þeirra var orðið fullorðið og selmatseljan gift kona fyrir löngu, og birtist henni til þess að endurnýja fornar ástir. En þeir samfundir urðu báðum jafnan að bana.

16. Tobbuklettsrétt vestari – draugur

Tobburétt

Tobba.

Tobba, Þorbjörg, var yfirsetukona af tröllsættum við nátthaga í Grenigjám í landi Straums. Þegar skyggja tók síðla sumars átti draugur það til að áreita hana, án meinsemda í fyrstu. Draugur þessi fór víða og eru nálæg örnefni því til stafestingar, s.s. Draugadalir á Alfaraleiðinni, þar sem hann angraði ferðamenn, Draughóll og Draughólshraun. Síðarnefndu örnefnin urðu til eftir að Tobbu leiddist ásælni draugsa eina nóttina, sat fyrir honum norðaustan við klett þann er við hana er kenndur, og kom honum að óvörum. Eftir langvinn átök sá draugurinn sitt óvænna og flúði uppi í torfært hraunið ofanvert þarf þar sem hann hvarf inn í háan hól, en þar sem Tobba stóð móð eftir birtust fyrstu sólargeislar morgunskímunnar yfir Lönguhlíðum með þeim afleiðingum að hún varð að steini – þar sem hún er enn í dag.

Tobbuklettsrétt

Tobbuklettsrétt.

Nú nefnist nátthaginn Tobbuklettsrétt. Há varða, Tobbuklettsvarða, er á hól skammt norðar. Undir honum eru hleðslur; Tobbubæli.

Ari Gíslason segir í örnefnalýsingu: “Austur af Rauðamel, norður af Grenigjá, eru Tobbuklettar þrír klettar í röð í grasbrekku. Ofan við Grenigjár tekur svo við hraunssvæði sem heitir Draughólshraun og efst af því er svo stór hóll sem heitir Draughóll.”

Gísli Sigurðsson segir í lýsingu: “Úr Pétursbyrgi liggur landamerkjalínan á austurhlið Straums í svonefnda Tó, Tóhól eða Tóklett, sem er rétt vestan við Þorbjarnarstaðatún, og þaðan suður á Seljahraun. Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir.

Draughóll

Draughóll í Draughólshrauni.

Suðsuðaustur frá Mjósundum blasir við hóll í hrauninu, nefnist Draughóll. Kringum hann er úfið hraun og nefnist það Draughólshraun. Af Tókletti lá landamerkjalínan suður yfir Seljahraun í Tobbuklett vestari. Þar uppi á klettunum er Tobbuklettsvarða.”

Ofan við Selhraun (ofan Þorbjarnarstaða og vestan Þorbjarnarstaða-Rauðamels) eru engin örnefni, fyrr en kemur í Tobbukletta, Tobbuklett eystri og Tobbuklett vestri, en þar var Tobbuklettsvarða, og lá landamerkjalínan um hana. Tobbuklettaskarð var allbreið lægð milli klettanna. Hér var stígur (Straumsselsstígur vestari), sem lá allt til Krýsuvíkur, „jafnframt fjallreiðarvegur á kafla“, segir og í örnefnalýsingu.

Tobburétt

Tobbuklettsrétt vestari – uppdráttur ÓSÁ.

Í skrá G.S. segir, að „framan í Tobbukletti vestri hafi verið Tobbuklettsrétt. Það nafn þekkist nú ekki lengur, en þó sést enn fyrir réttum í Grenigjám litlu vestar, og ljóst er, að hægt hefir verið að reka að í breiðri sprungu, sem hlaðið hefir verið fyrir í, í Tobbukletti vestri“.  Tobbuklettsvarðan vestari hefur verið lagfærð og sést vel norðan Tobbuklettsréttar. Hleðslur réttarinnar eru enn vel greinilegar.

Klettarnir nafngreindu eiga að hafa verið þrír; og þeir eru það, ef vel er að gáð.
Í örnefnalýsingum hefur verið getið um Tobbukletta vestari og Tobbukletta austari. Austari Tobbuklettar eru fast við austri Straumsselsstíginn (Fornaselsstíg). Þar í kleppasprungu eru fyrirhleðslur og varða ofar.

17. Álfakirkja – álfar – Gerðisstígur

Álfakirkja

Álfakirkja við Gerðarstíg.

-Við Gerðisstíg vestan Brunans (Kapelluhrauns) eru klettaborg, millum Neðri-Hella og Vorréttarinnar. Dæmi eru um að smalar, sem staldrað hafa þar við á ferðum sínum hafi óvart glatað þar einhverju af eigum sínum. Þegar þeir hafi síðan uppgötvuðu missinn og snúið til baka hefur ekki brugðist að þeir hafi endurheimt munina. Hafa þeir vilja kenna um glettum álfanna er þarna hafast við í kringum Álfakirkjuna.
Gerðisstígurinn var ruddur þar sem hann liggur inn í Selhraunið og áfram með hraunkantinum áleiðis að Efri-Hellum.

Vorrétt

Vorréttin.

Neðri-hellir er rúmgóður skúti með hleðslum fyrir í grónu jarðfalli. Í sjónlínu til austurs ber Vorréttin við kantinn á Kapelluhrauni. Þetta er vel hlaðin rétt. Gott skjól eru í hraunskútum innan hennar.
Efri-hellar eru enn ofan við hraunkantinn. Allir þessir staðir eru verðugir skoðunar. Hrauntungurnar ofar eru allsstórt gróið hraunssvæði enn ofar, umlukið nýja hrauninu (Kapelluhrauni/Brunanum/Nýjahrauni).
Skammt sunnan við Álfakirkjuna er Rauðamelsréttin í langri og breiðri hraunsprungu. Hleðslur eru bæði við hana og í gróinni sprungunni.

18. Valahnúkar – tröll

Valahnúkar

Tröllin á Valahnúkum.

-Steinrunnin tröll trjóna efst á Valahnúkum. Þau sáust langt að og reyna heldur ekki að leynast.
Annars eru tröll fallega ljót, hvert með sitt sérkenni. Þau eru afar misjöfn í útlit, sum stórskorin, önnur með horn og vígtennur, stór eyru og nef en lítil augu. Vörtur finnst þeim vera mesta prýði og oft virðast þau grimm á svip, en það segir bara hálfa söguna því flest eru þau gæðablóð og trygglindir náttúruvættir. Tröllin eru bæði stór og sterk, í sumum þjóðsögum er sagt að þau séu líka heimsk, gráðug og oft svolítið grimm en í öðrum sögum eru þau góð og launa vel fyrir ef að eitthvað gott er gert fyrir þau. Tröll ferðast yfirleitt um á nóttunni og þá einkum að vetrarlegi.

Helgafell

Tröllin á Valahnúk. Helgafell fjær.

Tröllin búa í hömrum og klettum upp í fjöllum eða í hellum. Sum tröll mega ekki vera úti í dagsljósi og verða að steini þegar sólin kemur upp, þau heita nátttröll. Tröllin á Valahnúkum eru ágætt dæmi um tröll, sem hafa dagað uppi þegar þau voru of sein fyrir á heimleið þegar þau höfðu sótt sér hval við Hvaleyri – sólin kom upp yfir Bláfjöllum og þau urðu að steini þar sem þau voru stödd þá stundina.

19. Víghóll – saga

Víghóll

Varða á Víghól í Garðabæ – Húsfell fjær.

-Ekki er vitað hvaðan nafnið Víghóll er komið, en ef menn vilja leika sér svolítið með nafngiftir á svæðinu gætu sumar þeirra hafa tengst veru útilegumanna og sakamanna í hraununum. Þeir hafa áreiðanlega gætt þess vel að ekki væri hægt að koma þeim að óvörum. Hafi það hins vegar gerst gætu þeir hafa flúið á Víghól til að standa betur að vígi er að var sótt. Einhverjir þeirra gætu hafa verið vegnir þar. Hafi einhverjir yfirvaldsins menn einnig verið drepnir við þá atlögu gæti hefndarþorsti hafa blossað upp í sigurvegurunum og þeir ákveðið að hengja hina handteknu þegar í stað í hæsta gálga á svæðinu. Gálgaklettar sjást vel sunnar í hrauninu, séð frá Víghól.

20. Gálgaklettar – aftökustaður

Gálgaklettar

Gálgaklettar við Selvogsgötu.

-Við Selvogsgötuna austan Helgafells má finna Gálgakletta sem svipar mjög til klettanna á Stafnesi.
Á svæðinu eru fjölbreytt hraun, gróin svæði og klettabelti. Klettarnir sjást vel ef Selvogsgötunni er fylgt til austurs þegar komið er yfir ásinn austan Mylgludala (austan Valahnúka (Valabóls)). Í Setbergsannál á 15. öld segir m.a. að “12 þjófar [voru] í einu teknir syðra í helli þar sem nefnt er Húsfell. Hafi yfirvaldið, í stað þess að drösla þjófunum til byggða, ákveðið að hengja á í Gálgaklettum í Húsafellsbruna.” Líklegra má telja að nefndur hellir hafi verið Rauðshellir í Helgadal, vestan Húsfells.

21. Dauðadalir – útilegumenn

Dauðadalir

Dauðadalir – jarðfall.

Dauðadalir hafa löngum haft yfir sér dulúð, án þess að nokkrar skráðar heimildir séu beinlínis til um þá. Þó hallast margir að því að útilegumennirnir, sem handsamaðir voru við Húsfell á 15. öld hafi um skeið haldið til í dölunum. Hér er að finna hin ágætustu skjól, en hvergi er sýnilegum mannvistarleifum til að dreifa, nema ef vera skyldi í Rauðshelli í Helgadal. Aðrar gætu mögulega verið þaktar mosa, líkt og víða eru dæmi um. Þá skortir hér vatn, að því er virðist við fyrstu sýn. Hins vegar, ef betur er að gáð, má vel merkja forna lækjarfarvegi neðan vestanverða Markraka, auk vatnsbólsins ofan Kaldárhnúka í Helgadal.

Dauðadalir

Hellir í Dauðadölum. Helgafell fjær.

Sagan gæti mjög líklega tengst annarri slíkti. Ólafur Briem skrifaði í Andvara árið 1959 um “Útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallgarði”. Þar getur hann m.a. um útilegumenn við Selsvelli undir Sveifluhálsi í byrjun 18. aldar:
“Selsvellir og Hverinn eini. Vestan við Núpshlíðarháls miðjan er víðáttumikið graslendi, sem heitir Selsvellir. Þar voru áður sel frá Grindavík, og sjást þar enn nokkrar seltóttir. Norðan við Selsvelli nær hraunið á kafla alveg upp að hálsinum. Þar er Hverinn eini úti í hrauninu. Hann er í botninum á kringlóttri skál, sem er alþakin hraunbjörgum, og koma gufur alls staðar upp á milli steinanna, en vatn er þar ekkert.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Nú er hverinn ekki heitari en svo, að hægt er að koma alveg að honum án allra óþæginda og gufan úr honum sést ekki nema skamman spöl. En til skamms tíma hefur hann verið miklu heitari.
Fyrir sunnan Selsvelli og við Hverinn eina var athvarf þriggja útileguþjófa vorið 1703. Í alþingisbókinni það ár er skýrt frá dóminum yfir þeim, og talið upp það, sem þeir höfðu stolið og brotið af sér. Þeir eru þar nefndir útileguþjófar, en ekki nánar sagt frá útilegu þeirra. En saga þeirra er greinilegast rakin í Vallaannál, sem ritaður er af séra Eyjólfi Jónssyni á Völlum í Svarfaðardal.

22. Markraki – tröll

Markraki

Markraki.

-Þeir fáu sem lagt hafa leið sína um Markraka undir Löngulíð hafa veitt athygli “vörðu” á móbergshrygg. Í dag er varðan sú landamerkjavarða millum landa Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Svo var nú ekki fyrrum.
Þessi varða er merkilegt fyrirbæri. Sagan segir að tröllskessa í Kistufelli (sumir segja í Hvyrfli) hafi fyrir alllöngu lagt af stað við sólsetur áleiðis að Hvaleyri þar sem frést hafði af hvalreka. Systrum hennar ofan við Bolla og í Kerlingarhnúk hefðu og borist boðin. Þær héldu hiklaust niður að Hvaleyri.

Brennisteinsfjöll

Kistufell og Kistufellsgígur.

Tröllskessan í Kistufelli átti lengri leið fyrir höndum. Hún þurfti að fara niður háheiðina ofan Lönguhlíðar með stefnu á Kerlingargil. Í myrkri og þoku villtist hún af leið og kom fram á brún hlíðarinnar þar sem nú heitir Mígandagróf. Nafnið er ekki komið af engu, en skal ekki fjölyrt meira um það hér. Nú er þar í og ofan við pollinn ein hin mesta litskrúð, sem þekkist á gjörvöllum Reykjanesskaganum, ef frá eru skildir hverirnir.

Kerlingargil

Horft niður Kerlingargil.

Um nóttina rofaði til. Tröllskessan hélt þá sem leið lá áleiðis niður Kerlingargilið og hugðist halda niður að Hvaleyri. Á leið sinni niður gilið heyrði hún í næturkyrrðinni hvar lóan og spóin sungu hinn yndælasta og ljúfasta samsöng í hlíðinni. Staldraði tröllskessan því við um stund neðan við gilið til að hlusta á dásemd næturinnar. Á meðan marði hún jurtir og málaði í hrifningu listaverk á nálæga steina, sem enn má sjá í hlíðinni.
Þegar söngnum lauk var langt liðið á nóttina.

Markraki

Markraki – landamerkjavarða.

Þegar skessan var kominn niður á Markraka sá hún fram á að henni myndi ekki endast tími til að fara alla leið niður að Hvaleyri og til baka áður en nóttin varð að degi. Raðaði hún steinum í kringum sig og hlóð síðan úr nokkrum þeirra vörðu á hryggnum til marks um vilja hennar áður en hún hélt örg til baka upp Kerlingargilið og heim. Á leiðinni um Lönguhlíð að Kerlingargili kastaði hún nokkrum stórum steinum frá sér. Eru steinar þessir jafnan nefndir Kerlingarsteinar.

23. Gullkistugjá – saga

Gullkistugjá

Gullkistugjá – jarðfall.

-Gullkistugjá er löng sprungurein sem fer m.a. í gegnum suðausturhluta Helgafells og suður um hraunið. Séra Friðrik Friðriksson stofnandi sumarbúða KFUM og K í Kaldárseli gaf sprungureininni nafnið Gullkistugjá. Manngerð brú er þvert yfir miðja gjána. Í þjóðsögum eru sagnir um faldar gullkistur í gjám og sprungum. Jafnan, þegar fólk hefur reynt að ná þeim upp, á þá nálægur bær líkast því að stæði í ljósum logum svo hræðsla greip um sig meðal viðkomandi og hætt var við verkið.
Ásbjörn Özurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar, er í Landnámu sagður hafa búið á Skúlastöðum. Han nam land milli Hraunsholtslækjar og Hvassahrauns og Álftanes allt.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Munnmæli munu vera um að Skúlastaðir hafi verið þar sem Skúlatúnshraun sé, norðan við Lönguhlíðarhorn, sbr. umfjöllun í ritinu Garðabær – byggð milli hrauns og hlíða.
Árni Helgason minnist á Skúlastaði og menjar þeirra í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 (bls. 211). Hafi Skúlastaðir staðið þar sem munnmæli segja, eru líkur fyrir því að Almenningsskógalandið og Garðaland hafi verið hluti af landnámsjörð Ásbjörns heitins. Ekki er vitað til þess að fornleifarannsókn hafi farið fram í Skúlatúni.
Hins vegar bendir flest til þess að nefndir Skúlastaðir hafi í fornöld verið í Helgadal. Þar eru órannsakaðar húsaminjar.

24. Stóri Skógarhvammur – tröll

Stórkonusteinar

Stórkonusteinar.

-Stórkonusteinar nefnast nokkur móbergsbjörg í Lönguhlíðakróki, heldur nær Kerlingarskarði en Kerlingargili (sem er utan við Lönguhlíðarhornið). Samkvæmt gamalli munnmælasögu velti tröllskessa í Stórkonugjá björgunum niður af Lönguhlíðarfjalli þegar eftirreiðarmenn reyndu að fanga hana.
Stórihvammur eða Lönguhlíðarhvammur austan Lönguhlíðarhorns var mjög grösugur í eina tíð og gott beitiland, en sandburður úr hlíðunum hefur spillt undirlendinu. Þó má enn sjá gróin valllendi milli hrauns og hlíða. Hraunið úr Bollunum kom frá gígunum ofan Skarðanna. Stóribolli er þar einn formfegursti gígur landsins og enn nær óraskaður.

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

Ofan hvammsins eru tvö gil og upp af því vestara áberandi móbergsklettur, sem nefnist Stórahvamms-Stapi. Beggja vegna að ofanverðu eru háir móbergsveggir. Kerlingagilið er ágæt gönguleið og greiðfær upp á Lönguhlíðar og áfram inn í Brennisteinsfjöll. Um gilið fóru smalamenn fyrrum.
Sagan segir að tröllskessa í Kerlingarhnúk hafi farið að heimta hvalreka á Hvaleyri ásamt systur sinni. Skiptin drógust vegna deilna um réttindi til hlutanna. Systirin hélt heim áleið um kvöldið ásamt fjölskyldu sinni, en skessan í Kerlingarhnúk ákvað að dvelja daginn eftir hjá vinkonu sinni í Hvaleyrarhamri. Eins og alkunna er dagaði fjölskyldan fyrrnefnda uppi á Valahnúkum þegar sólin birtist þeim ofan við Grindarskörðin snemmmorguns.

Hvaleyri

Hvaleyri.

Tröllskessan úr Kerlingarhnúk og vinkona hennar í Hamrinum tóku upp á ýmsu sér til gamans er hrekkti mennska menn á Hvaleyri. Varð svo mikið ónæði af skessunum að ábúendur ákváðu að fara gegn þeim. Söfnuðu þeir liði við sólsetur og kveiktu elda á Hamrinum. Heimaskessan kærði sig kollótta, en vinkona hennar vissi ekki hvaðan á hana stóð veðrið. Ákvað hún að flýja ónæðið og halda heim á leið. Þegar tröllskessan var komin upp að Hvaleyrarvatni og áfram á Stórhöfða varð henni litið aftur. Sá hún þá háværan flokk manna með kyndla fylgja henni þétt eftir. Hélt hún þá för sinni áfram upp Stórahvammsgil ofan við Stórahvamm (hét áður Stórkonuhvammsgil) í Undirhlíðum og alla leið upp á Lönguhlíðar um Stórkonugjá ofan við þar sem nú heitir Stórihvammur eða Lönguhlíðahvammur (-krókur).

Stórkonugjá

Stórkonugjá og nágrenni – kort frá 1903.

Þarna gætu örnefni hafa færst til í tímans rás. Eftirmenn fylgdu þétt á eftir skessunni. Þegar þeir voru komnir í Stórahvamm (sumir segja hann heita Stjórahvamm) bað fyrirliðinn þá nema staðar, enda tröllskessan var þá kominn upp á efstu brúnir ofan gjárinnar. Það var líka vel af ráðið því nú tók tröllskessan til við að kasta í þá stórum steinum, hverjum á fætur öðrum. Fylgdarmenn forðuðu sér út úr seilingu og mun það hafa orðið þeim til lífs. Biðu þeir af sér húmið. Skömmu fyrir birtingu hvarf tröllskessan í átt að Kerlingarhnúk og linnti þá látunum.
Til marks um atburðinn forðum má enn sjá nefna Stórkonusteina undir Stórkonugili og er Stórahvamms-Stapi þeirra stærstur. Lækur rennur niður í Lönguhlíðarkrók frá Kerlingarskarði vestanverðu. Heitir hann Stórkonulækur.

25. Leirdalir (Slysadalur) – sögn um slysfarir

Slysadalur

Slysadalur.

-Slysadalir eru sagðir hafa heitið Leirdalir, en þeir eru reyndar skammt suðaustar þar sem er Leirdalstjörn. Eftir að útlendur ferðamaður kom frá Krýsuvík um Slysadali með þrjá til reiðar á 19. öldinni og hafði farið um Hvammahraun og niður Fagradal að vetrarlagi (hin leiðin var um Helluna þarna vestan af, í austanverðum hlíðum Sveifluhálsins ofan við Kleifarvatn, en það mun hafa verið óvegur fyrrum og ekki fyrir hesta). Þegar ferðamaðurinn kom niður í Leirdali voru vilpur í dalnum og voru þær ísi lagðar. Fór svo að maðurinn missti tvo hesta sinna niður um ísinn, en mannskaði varð ekki.
Enn má sjá grónar stórar þúfur í Slysadal, en það ku vera dysjar hestanna tveggja.

26. Landamerkjavarða – þjóðsaga

Fremstihöfði

Fremstihöfði.

-Þjóðsögur hafa jafnan tengst vörðum. Má þar m.a. nefna þjóðsöguna er kveður á um að sá eða þeir sem færa til landamerkjavörður og hlaða aðrar til að villa um fyrir fólki eigi á hættu að þurfa að burðast með grjót það sem eftir er – að þeim látnum. Þjóðsögurnar voru þannig oftlega kennisögur, nokkurs konar dæmisögur, um það hvernig væri best að haga sér í lifanda lífi.

Fremstohöfði

Fremstihöfði – landamerkjavarða.

Hér er hinn ríki sagnaþáttur notaður til að vara við og stemma stigu við röskun landamerkja, líkt og einstök „tiltekt“ trúarbragðasögunnar urðu síðar í handleiðslu landans til að auka líkur á „réttum“ gjörðum hans í hinu jarðneska lífi – og yfirvaldið hafði velþóknun á. Framangreint er ekki af ástæðulausu. Einstakir bændur voru fyrrum grunaðir um að útfæra landamerki jarða sinna eftir því sem aðstæður sköpuðust, hvort sem var vegna þekkingaleysis eða af gefnu tilefni, s.s. við ábúendaskipti.

27. Húshellir – hreindýraveiðimenn

Húshellir

Húshellir – op.

-Norðan Hrútargjárdyngju er Húshellir. Inngangur hans er í vestanverðri fallinnar hraunbólu. Þegar inn er komið blasir við geymur og eru gangar í tvær áttir. Á miðju gólfinu er hlaðið hús, ca. 2×2 metrar í ummál. Bein eru í einum gangnanna, þeim er liggur í suður. Ekki er vitað af hverju beinin kunna að vera. Ekki er heldur vitað hvers vegna húsið var hlaðið í hellinum. Þarna gætu hreindýraveiðimenn hafa haft aðstöðu um tíma, eða einhverjir aðrir, einhverra hluta vegna. Húsið er sennilega hlaðið til að halda hita á þeim er þar gistu svo og forðast vatn er lekur úr loftum eftir rigningar. Botn hússins hefur verið fóðraður með mosa.

Húshellir

Húshellir – op.

Í stórvirkinu “Íslenskir hellar” segir Björn Hróarsson svo frá Húshelli: “Björn Finnsson og Hörður Þór Sigurðsson fundu Húshelli sumarið 1988. Hellismunninn er um tveir metrar á breidd og eins og hálfs meters hár. Innan við munnann skiptist hellirinn í tvær meginrásir og eina þrengri. Þegar komið er rétt inn fyrir hellismunnann blasir við töluverð hvelfing með sléttu gólfi. Á miðju gólfinu er sérkennilegt byrgi, hlaðið úr hraungrjóti. Hleðslan er falleg og sýnilega gömul.
Steinunum er haganlega hlaðið á þrjá vegu og veit opna hliðin mót munnanum.

Húshellir

Í Húshelli.

Moldarjarðvegur hefur sytrað niður um hellisþakið og myndað þunnt lag á gólfi hellisins framan við byrgið. Inni í byrginu er einnig mold en þar sem hún virðist vera þykkari en fyrir utan gæti verið skán undir. Steinarnir sem notaðir hafa verið í hleðsluna eru feiknastórir og þyrfti ákveðna og einarða menn til að gera sér það að leik að hlaða byrgið. Margt bendir til þess að hleðslan sé gömul. Fæstir hlaða stórum steinum að gamni sínu og hefur byrgð því líklega þjónað einhverjum tilgangi, til dæmis svefnkró, og gærur og dúkur strengdur yfir til að verjast regni úr hellisþakinu. Nokkuð drýpur úr loftinu og hefur vatnið borið með sér fínan leir eða mold eins og áður var getið.

Húshellir

Í Húshelli.

Ofan á veggjum byrgisins hafa hlaðist upp tveggja til fimm sentimetra háar strýtur. Veggirnir eru um 1,5 metrar á hæð. Stafnveggurinn er um 1,2 metrar á lengd en hliðarnar tæpir tveir metrar. Breidd veggjanna er að jafnaði um 40 cm. Neðstu steinarnir og þeir stærstu eru hið minnsta 300 kíló.
Til hliðar við byrgið og litlu innar eru beinaleifar, bæði sauðfjár- og stórgripabein. Beinin liggja á víð og dreif en einnig hefur hnútum verið stungið inn á milli steinanna að innanverðu í byrginu og rennir það stoðum undir þá eknningu að einhver hafi hafst við í hellinum, líklega í skamman tíma þó.

Húshellir

Dýrabein í Húshelli.

Hleðslan í Húshelli er ráðgáta. Hverjir hlóðu þetta, hvenær og af hverju? Í gömlum sögnum segir af útilegumönnum á Selsvöllum á 18. öld. Útilegumennirnir héldu til við Vellina, nálægt Hvernum eina, en herjuðu á Vatnsleysuströnd, meðal annars stálu þeir frá bóndanum í Flekkuvík. Eftir að þeir höfðu flutt sig “norður með fjöllunum, í helli sem þar er,” áreittu þeir og rændu ferðalanga. Yfirvaldið safnaði liði, handtók mennina og færði til Bessastaða þar sem dæmt var í máli þeirra. Hvort húshleðslumennirnir voru þarna komnir veit nú auðvitað enginn. Ef til vill hafa hreindýra- eða rúpnaveiðimenn haft þarna afdrep í veiðiskap sínum en síðustu hreindýrin á þessu svæði voru drepin á fyrstu árum tuttugustu aldar. Þekktir eru nokkrir veiðimenn frá þessum tíma er höfuðust við í athvörfum á þessum slóðum. Um þá hafa spunnist þjóðsögur, sem fæstar hafa þó ratað á pappír.

Slóð Ratleiks Hafnarfjarðar er https://ratleikur.fjardarfrettir.is/.

Ratleikur Hafnarfjarðar 2024-kot

Ratleikur Hafnarfjarðar 2024- kort.

Ratleikur Hafnarfjarðar

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar í ár, þann 25. í röðinni, eru fornar þjóðleiðir, gamlar götur og stígar.
Guðni Gíslason hjá Fjarðarfréttum (Hönnunarhúsinu) leggur leikinn. Þátttakendur geta nálgast frítt ratleikskort í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar við Strandgötu, á bensínafgreiðslustöðvum N1, í Fjarðarkaupum og sundlaugum bæjarins.

1. Garða(Kirkju)vegur (norðan Hjallabrautar)

Hjallabraut

Gamlar götur vestan Hjallabrautar.

Hafnfirðingar og Garðbæingar í Hraunum sóttu kirkju að Görðum á Garðaholti allt fram til þess að Fríkirkjan í Hafnarfirði (vígð 14. desember 1913) og þjóðkirkjan (vígð 20. desember 1914) voru byggðar. Allar götur þangað til gengu kirkjugestir eftir Kirkjuveginum ofan Akurgerðis, fram og til baka, að og frá Garðakirkju. Veginum var síðar breytt norðan Víðistaða, upphlaðinn af Sigurgeiri Gíslasyni og vinnuflokki hans til flutninga milli bæjarins og fiskvinnslunnar á Langeyri. Út frá honum voru ótal fiskreitir og hjallar.

Sigurgeir Gíslason

Sigurgeir Gíslason.

Sigurgeir átti blett við Víðistaðatún, s.a.s. fast við Kirkjuveginn. Vegurinn sá lá upp frá miðbæ Hafnarfjarðar sunnan Akurgerðis, upp með Víðistöðum og áfram yfir hraunið að Görðum. Í dag sjést vegurinn enn ofan Akurgerðis (Byggðasafnið), auk þess sem mótar fyrir honum á Víðistaðatúninu að vestanverðu Skátaheimilinu. Í Norðurbænum er vegurinn kominn undir byggðina.
Sigurgeir var vegavinnuverkstjóri við flestar vegaframkvæmdir inn og út frá Hafnarfirði í byrjun 20. aldar, s.s. Suðurnesjaveginn til Njarðvíkna, Grindavíkurveginn, Hafnarfjarðarveginn til Reykjavíkur og Járnbrautarveginn í gegnum Hafnarfjarðarhraun.

2. Engidalsstígur (norðan Fjarðakaups)

Garðahverfi

Engidalsvegur aftan Fjarðarkaupa.

Enn má sjá nokkurra metra kafla af Engidalsstígnum, uns hann hverfur undir hugsunarlausa framkvæmdargleði nútímamannsins. Þarna lá gamla leiðin suðurúr frá gatnamótunum í Engidal. Hraunkanturinn er þarna skammt norðar, en austar er m.a. tóft sauðakofa og síðan rétt og fleiri mannvirki skammt inni í hrauninu ofan við kantinn. Hraunsholtshellir, Arneshellir, er við Hraunsholt. Á milli Hafnarfjarðarvegarins og réttarinnar liggur Hraunsholtsselsstígur í gegnum hraunið, að Hádegishól, þar sem Hraunsholtsselið var fyrrum sunnan undir honum. Selsminjarnar hafa, því miður, verið í auðn lagðar vegna framkvæmda – eitt þriggja þekktra selja af u.þ.b. 400 slíkum á Reykjanesskaganum.
Skammt sunnan við Engidalsstíginn gamla er listaverkið Jötnar eftir Grím Marinó frá árinu 2000.

3. Hagakotsstígur (á móts við Járnbrautarveginn)

Hagakotsstígur

Hagakotsstígur.

Hagakotsstígur lá frá Hofstöðum að selstöðu bæjarins við Urriðavatn. Nafnið er dregið af Hagakoti, sem var hjáleiga frá Hofstöðum og stóð skammt norðan við Hraunsholtslæk (Hagakotslæk), ofan við Hagakotsvað. Stígurinn sést enn mjög vel í gegnum Hafnarfjarðarhraunið frá hlaðinni tóft á hól sunnan lækjarins við vaðið að mislægum gatnamótum er liggja nú að Kaupstaðahverfinu. Þar hverfur hann undir nútímaframkvæmdir.

Járnbrautarvegur

Járnbrautarvegurinn.

Járnbrautarvegurinn (Atvinnubótavegurinn) í Hafnarfjarðarhrauni var stórframkvæmd í lok fyrri heimsstyrjaldar. Hann liggur hann yfir Hafnarfjarðarhraun (nú Garðahraun) sem er hluti Búrfellshrauns.
Atvinnubótavegurinn var lagður frostaveturinn mikla 1918. Þá strituðu verkamenn í miklum frosthörkum við að ryðja og hlaða upp veg gegnum hraunið með handaflinu einu saman. Engu að síður voru þeir starfinu fegnir. Þetta var eina vinnan sem í boði var á erfiðum tímum og löngu fyrir tíma atvinnuleysisbóta og viðlíka úrræða af hálfu hins opinbera. Vonir stóðu til að leggja varanlega járnbraut millum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur…

4. Útnesjaleið á Alfaraleið (kapellan)

Kapella

Alfaraleiðin við kapelluna.

Útnesjaleiðin lá frá Hafnarfirði (Innnesjum) út á Suðurnes (Útnes). Frá Hraunabæjunum nefndist gatan Alfaraleið að Kúagerði, þá Almenningsvegur ofan Vatnsleysustrandar og Stapagata frá Vogum til Njarðvíkur. Gatan sést í grónu Hellnahrauninu vestan golfvallarins á Hvaleyri um Leyni. Þar fór hún upp á Brunann (Nýjahraun/Kapelluhraun), en öllu því hraunssvæði hefur nú verið spillt, utan lítils hóls, sem endurgerð kapellutóft stendur nú á. Vestan við hana sést bútur af götunni þar sem hún á að hraunbrúninni við Gerði. Þar sést hvar Útnesjaleiðin og Alfaraleiðin koma saman.

Alfaraleið

Útnesjaleiðin (Alfaraleiðin) – Stóravarða við leiðina; einnig landamerki Lambhaga og Hvaleyrar neðan Leynis.

Alfaraleiðin er elsta kunna samgönguleiðin milli Útnesja og Innnesja á Reykjanesskaganum. Um hana fóru allir fólks- og vöruflutningar fyrr á öldum. Vermenn sem fóru um norðanverðan skagann fylgdu þessari götu á ferðum sínum í og úr verinu. Bændur og kaupmenn, ferðamenn og vinnuhjú fylgdu þessum fjölfarna götuslóða allt þar til Gamlivegur, fyrsti vagnfæri Suðurnesjavegurinn var lagður um 1900. Þá lagðist Alfaraleiðin af. Allflestar aðgengilegar vörður voru rifnar niður af vegagerðarmönnum og leiðin gleymdist smám saman. Hluti leiðarinnar hefur orðið nútímanum að bráð, farið  undir golfvöll, lent undir Reykjanesbrautinni á stöku stað og horfið að hluta þegar mikil efnistaka átti sér stað í Kapelluhrauni á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar. Víða er þessi leið að gróa upp og hverfa en þó getur glöggt fólk auðveldlega fetað sig enn eftir Alfaraleiðinni með því að leggja sig örlítið fram og fylgja þeim kennileitum, sem enn eftir standa.

5. Selvogsgata (Setbergssel)

Setbergssel

Setbergssel við Selvogsgötu – nátthagi.

Sunnan Selvogsgötu suðaustan Fjárhúshlíðar eru tvö sel, Setbergssel og Hamarskotssel. Varða ofan og milli hraunrásar er á mörkum jarðanna. Vestan við austara opið sést móta fyrir hlaðinni kví í skjóli fyrir austanáttinni. [Þessi kví mun hafa tilheyrt Hamarsskotsselinu]. Ofar eru tóttir Setbergssels. Bæði hefur jarðsig verið notað svo og tóttir, sem þarna eru, s.s. hlaðið gerði. Í hraunrásinni er Setbergsselsfjárhellir (Selshellir) að norðanverðu (hlaðinn garður er þvert fyrir hellinn) og Hamarskotsselsfjárhellir að sunnanverðu. Geitur voru hafðar í helli þessum á fyrri hluta 20. aldar, en selið lagðist af í lok 19. aldar.

Fjárhús

Fjárhús.

Uppi í Setbergshlíðinni, ofan við stóra vandaða vörðu á Fjárhúshlíð, má enn sjá háar hleðslur af gömlu fjárhúsi, sem byggt voru þar árið 1904 þegar Setbergsbóndi flutti fé sitt úr Setbergsselinu. Gott útsýni er til selsins frá vörðunni.
Tveir aðrir hellar eru í hraunrás austan og ofan seljanna; Kershellir og Hvatshellir. Selvogsgatan liggur ofan við jarðfallið, sem myndar opið. Þar er hlaðin varða.

6. Selvogsgata (Helgadalur)

Helgadalur

Helgadalur – tóftir.

Selvogsgata liggur þvert yfir Helgadal. Vestan götunnar er gróinn Helgadalur með vatni í undir háum hamravegg og að austan er hraunsvæði Búrfellshrauns. Í því eru nokkrir hellar, s.s. Rauðshellir, Hundraðmetrahellir og Fosshellir. Allir eru í sömu hraunrásinni, sem lokast á millum. Í grónu jarðfalli við op fyrstnefna hellsins eru miklar hleðslur, bæði neðar og ofar. Þar eru og undir jarðveginum hleðslur einhverra fornra skjóla. Skammt norðar jarðfallsins er hlaðinn stekkur.
Nyrst í austanverðum Helgadal eru tóftir, annað hvort fornbæjar eða, sem er öllu líklegra, fornar selstöðu, sem lítt hafa verið rannsakaðar.

7. Kaldárselsvegur (vestan Borgarstands)

Kaldárselsvegur

Kaldárselsvegur.

Kaldárselsstígur var fyrst sem selstígur frá Görðum um Setberg (Selvogsgatan) þar sem hún lá af götunni til vesturs ofan misgengis austan Klifsholts að Kaldárseli, en síðar sem frá Hafnarfirði upp á Öldur og þaðan inn með vestanverðri Sléttuhlíð að Borgarstandi og þaðan að selinu. Gatan er enn vel greinileg vestan og norðan Borgarstands þar sem hún er grópuð í hraunhelluna.
Á Borgarstandi voru fyrrum tvær topphlaðnar fjárborgir, en önnur þeirra var endurnýtt (sú austari) af handverksmönnum er unnu að gerð vatnsleiðslunnar frá Kaldárbotnum til Hafnarjarðar árið 1919.
Leifar af undirhleðslu vatnsstokksins úr Kaldárbotnum, þar sem vatninu var fleytt yfir þverhleðslu Lambagjár og áfram yfir í Gjáahraunið þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum ofan Hafnarfjarðar.

8. Kúastígur (sunnan Kaldársels)

Kúastígur

Kúastígur frá Kaldárseli.

Kúastígur liggur frá Kaldárseli með stefnu á Kúadal, inn á Undirhlíðaleið vestan Undirhlíða og inn í Kúadal þar sem beit var fyrir kýr. Slíkir staðir eru fáir í nágrenni við selið. Reyndar voru kýrnar fáar og einungis í stuttan tíma, þ.e. á meðan búið var í selinu undir það síðasta.

Kúastígur

Kúastígur að Kúadal.

Vitað er að séra Markús Magnússon á Görðum lét byggja selstöðuna í Kaldárseli upp auk þess sem hann lét hlaða fyrir nálæg fjárskjól, hlaða fjárborgir o.fl. árið 1800 með það fyrir augum að viðhafa þar fjárhald allt árið um kring.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli er að hjónin Jón Hjartarson og Þórunn Sigurðardóttir á Hvaleyri höfðu þar í seli. Jón keypti Hvaleyrina 1842. Hann mun hafa verið ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið Hvaleyri. Jón flutti síðan með fjölskyldu sína að Ási. Við brottförina lagðist búskapur niður í Kaldárseli í nokkur ár.
Árið 1867 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir brottför Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. Þetta ár telur húsvitjunarbókin þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili og hefur þá bæst við vinnukona. Árið 1883 er Þorsteinn orðinn einn í Kaldárseli. Hann dó þar þremur árum seinna.

Kaldársel

Kaldársel – nú og fyrrum.

Þegar Þorsteinn fellur frá eru í Kaldárseli nokkrar byggingar og önnur mannvirki. Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.

Kaldárssel

Kaldárssel – ljósm: Daniel Bruun um 1880.

Árin 1906 til 1908 var enn gerð tilraun til búsetu í Kaldárseli. Kristmundur Þorláksson frá Stakkavík í Selvogi fékk það til afnota og hélt hann þar afskekktri útigangshjörð sinni til haga og gjafar. Beitahúsavegur Kristmundar var langur þar sem hann var búsettur í Hafnarfirði og árferði óvenjuslæmt. Hann ætlaði að hlaða hús norðvestan við Kaldársel, en mýs lögðust á féð um veturinn svo fjárhaldi þar varð sjálfhætt.
Jón Guðmundsson, bóndi á Setbergi, keypti síðan Kaldársel með það fyrir augum að hafa þarf athvarf fyrir smala og aðstöðu fyrir ferðamenn á ferðum þeirra um upplandið, en húsunum var lítt við haldið svo þau grotnuðu smám saman niður.
Hafnarfjarðarbær keypti Kaldársel 1912 og árið 1925 byggði K.F.U.M. hús í Kaldárseli, nánast ofan í seltóftunum.

9. Undirhlíðaleið (Litli-Skógarhvammur)

Litli-Skógarhvammur

Litli-Skógarhvammur.

Undirhlíðaleið liggur, eins og nafnið bendir til, með vestanverðum Undirhlíðum frá Kaldárseli, í Sandfellsklofa og áfram til suðurs vestan við Sveifluháls að Ketilsstíg. Í Undirhlíðum hefur verið plantað í skógarreiti.
Kúadalur og Litli-Skógarhvammur í Undirhlíðum tilheyrðu beitilandi Garðakirkju og leiguliða kirkjunnar um aldir, en landið komst í eigu Hafnarfjarðarkaupstaðar 1912. Birkið og víðitrén áttu í vök að verjast þegar Ingvar Gunnarsson kennari plantaði fyrstu barrtrjánum ofarlega í Litla-Skógarhvammi 1930. Þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar tók við Undirhlíðareitnum var fyrsta verkið að girða lundinn. Kúadalsgirðingin var fjarlægð 2005 og Útivistarskógur í Undirhlíðum opnaður í ágúst 2006 í tilefni 60 ára afmælis Skógræktarfélags Hafnarfjarðar.

10. Undirhlíðaleið (Stóri-Skógarhvammur)

Stóri-Skógarhvammur

Stóri-Skógarhvammur.

Stóri-Skógarhvammur er eitt best varðveitta leyndarmál hafnfirskrar skógræktarsögu. Þangað liggur enginn akfær vegur, einungis slóði, sem ætlunin er að betrumbæta. Hvammurinn er í norðanverðum Undirhlíðum milli Bláfjallavegar og Krýsuvíkurvegar og var áður vinsæll áningastaður þeirra sem fóru Undirhlíðaleið, gömlu þjóðleiðina milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur.
Auðvelt er að komast í Stóra-Skógarhvamm með því leggja bílnum á afleggjara af Kýsuvíkurvegi norðan við Vatnsskarð eða við aflagða malarnámu í Undirhlíðum við Bláfjallaveg. Þar eru stikur sem vísa á Undirhlíðaleið. Leiðin að Stóra-Skógarhvammi er tæplega 2 km löng, hvora leiðina sem farið verður.

Undirhlíðaleið

Undirhlíðaleið.

Eins og nafnið gefur til kynna var Stóri-Skógarhvammur vaxinn gömlum birki- og víðiskógi þegar Skógræktarfélag Hafnarfjarðar fékk svæðið til umsjónar og ræktunar 1958. Byrjað var á að girða 56 ha. spildu af sumarið 1958 en árið eftir hófst plöntun trjágróðurs af fullum krafti.
Samið var við Hafnarfjarðarbæ um að piltar í Vinnuskólanum í Krýsuvík önnuðust ræktunarstarfið undir stjórn Hauks Helgasonar forstöðumanns vinnuskólans. Þegar vinnuskólinn í Krýsuvík var lagður niður haustið 1964 var formlegu ræktunarstarfi lokið í Stóra-Skógarhvammi. Skógurinn hefur fengið að aðlagast landsháttum undanfarna fjóra áratugi og hefur nánast verið sjálfbær þennan tíma.

11. Dalaleið (um Leirdal við Leirdalshöfða)

Leirdalur

Slysadalir / Leirdalur  til norðurs- Helgafell fjær.

Dalaleið liggur frá Kaldárseli um Kýrskarð í Undirhlíðum, suður fyrir Gvendarselshæð og um og eftir Bakhlíðum að Leirdalshöfða. Leiðin liggur um Leirdal (Slysadal), yfir Leirdalsháls, um Kjóadali sunnan Háuhnúka, inn með utanverðum Breiðdalshnúk með stefnu á Vatnshlíðarhorn og um Blesaflatir að Kleifarvatni vestan Lambhagatjarnar. Vatnsborði Kleifarvatns er fylgt undir Hellum og farið yfir móbergsklettana Ytri- og Innri Stapa í áttina að Vesturengjum austan Seltúns í Krýsuvík.

Slysadalur

Slysadalur til suðurs – Breiðdalur og Vatnshlíð framundan.

Þegar vatnsyfirborð Kleifarvatns var hátt, sem gerist af og til, þurftu ferðalangar að „fara Helluna“, þ.e. að feta móbergshallan ofan við bergið norðan Ytri-Stapa. Það gat verið varasamt vegna sleipu á kafla og reyndist stundum þörf á að fara hann á sokkaleistunum. Enn má sjá þar rás í hallanum. Við Seltún var brennisteinsnámusvæði fyrrum, auk boranatilrauna, bæði eftir heitu vatni og jarðgufu. Seltún dregur nafn sitt af fyrrum seli frá Krýsuvík. Selshúsin voru jöfnuð við jörðu í byrjun sjöunda áratugs tuttugustu aldar þegar til stóð að reka þar kúabú, en enn ná sjá leifar gerðis og stekks austast í túninu (austan vegarins), sem hross Hafnfirðnga hafa smám saman verið að jarðlægja.
Í nútíma ferðalýsingum er Dalaleið sögð liggja upp úr Fagradal, um ofanverða Vatnshlíð austan Kleifarvatns, um Hvammahraun og Austurengjar að Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík. Sú leið var farin af rjúpnaveiðimönnum fyrrum, enda jafnan veiðivænt í hlíðunum og með hraunkantinum efra.

12. Stórhöfðastígur (varða)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Stórhöfðastígur liggur frá Ási um Hádegisskarð og Dalinn (Ásflatir), sniðhallt yfir Bleiksteinsháls, út á Selhraunið að Stórhöfða, upp með honum að vestanverðu uns hann beygir yfir Hellnahraunið yngra og Brunann í átt að Snókalöndum. Þar fer hann yfir Krýsuvíkurveginn og síðan suður hraunið upp að Fjallgjá, fylgir misgengi að Fjallinu eina, upp með því að austanverðu að austurjaðri Hrútagjárdyngju og með upprisuvegg hennar að Undirhlíðaleið.
Skammt vestan Stórhöfðastígs á móts við vesturhorn Stórhöfða er heillegt hlaðið fjárskjól og gerði í hraunkrika. Gegnt Stórhöfða hefur stígurinn verið lagaður í gegnum hraunið, sem nú hefur verið úr lagi færður á stórum kafla vegna skammsýnnar efnistöku.

13. Hrauntungustígur (varða)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur við Krýsuvíkurveg – vegvísir.

Hrauntungustígur liggur frá Ási um Hádegisskarð með Hamranesi og suður yfir Háabruna að Hrauntungum í Almenningi. Þaðan liggur leiðin milli Gjásels og Fornasels, hjá Hafurbjarnarholti upp í hæsta hluta Almennings að Sauðabrekkum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Farið er yfir Sauðabrekkugjá um Mosa vestan við Fjallið eina með stefnu á Hrútargjárdyngju, samhliða henni að Hrúthólma og upp með austanverðu Hrútfelli að Ketilsstíg.
Hrauntungustígur frá Hádegisskarði með Hamranesi og yfir fyrrum fiskhjallahraunið (Hellnahraun) er horfin undir byggð og aðrar framkvæmdir. Varða ein er á Brunahraunbrúninni vestan Krýsuvíkurvegar. Stígurinn sést vel frá veginum að henni, en síðan tekur við eyðilagt hrauntökusvæði í boði Skógræktar ríkisins. Ef stikum er fylgt í gegnum svæðið má finna stíginn þar sem hann kemur inn í Hrauntungur og síðan upp úr þeim norðvestan við skógræktina í Brunntorfum. Á þeirri leið er m.a. Hrauntunguskjólið, sem nýtt hefur verið til kolagerðar í tungunum.

14. Hrauntungustígur (Brunntorfur)

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Hrauntungustíg má auðveldlega rekja í gegnum Hrauntungur upp í Brunntorfur. Eftir að komið er úr Hrauntungum (þar sem m.a. má líta Hrauntunguskjólið augum) liggur gatan um Brunntorfur (Brundtorfur). Þar hefur nú verið komið upp miklum skógi af hálfu úthlutaðra spilduáhugagræðara. Á Brunabrúninni má sjá steinhlaðna “skýjaborg”; Þorbjarnarstaðafjárborgina. Fjárborgin var hlaðin af börnum hjónanna á Þorbjarnarstöðum, Þorkels Árnasonar frá Guðnabæ í Selvogi og Ingveldar Jónsdóttur, dóttur Jóns Guðmundssonar, bónda á Setbergi um aldramótin 1900. Systkinin, sem voru 11, hafa eflaust setið yfir fé í Torfunum og ætlað sér að byggja þar topphlaðna borg líkt og þau þekktu frá Djúpudölum í Selvogi. Miðveggurinn í henni var ætlaðu að halda undir þakið, þegar að því kæmi, en líklega hefur þeim verið bannað að halda verkinu áfram því hlutfallslega hefði tilgangurinn ekki helgað meðalið – til þess var ummál borgarinnar allt of mikið.

Þorbjarnastaðaborg

Þorbjarnastaðaborg.

Ofan Brunntorfa liggur Hrauntungustígur upp að Fornaseli og síðan áfram upp í Almenning, áleiðis að Fjallsgrensvörðunni, um Sauðabrekkur og áfram á Ketilsstíg.

15. Stórhöfðastígur (ofan Brunntorfa)

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur – gerði.

Stórhöfðastígur um Brunntorfur liggur um gróið Hellnahraunið. Þar er hlaðið gerði í krika. Skammt norðan þess er varða er vísar leiðina inn í Snókalönd, sem eru óbrinnishólmar í Brunanum. Eftir að komið er á stíginn sunnan Krýsuvíkurvegar liggur hann um tiltölulega slétt Hrútagjárdyngjuhraunið. Í því ofanverðu, áður en komið er að Fremstahöfða, má víða sjá stíginn mótaðan í hraunklöppina eftir umferð manna og dýra um aldir.

16. Gerðisstígur (ofan Gerðis)

Gerðisstígur

Gerðisstígur.

Gerðisstígur liggur frá Gerði í Hraunum, upp með vesturbrún Brunans (Kapelluhrauns) og í gegnum Selhraun (þar sem hún hefur verið rudd í gegnum hraunið) í áttina að Neðri- og Efri-Hellum (fjárhellum). Stígurinn er varðaður að hluta. Hann liggur að malarnámum þar sem áður var Þorbjarnarstaðarauðamelur í áttina að Neðri-Hellum. Norðan námunnar má sjá fjárskjól með hleðslum í stuttum hraunrásum. Þaðan liggur stígurinn upp með Vorréttinni undir brunanum að Efri-Hellum, sem eru gróin fjárskjól með hleðslum í hraunrás undir háum hraundrang. Frá fjárskjólinu liggur leiðin upp að Kolbeinshæð þar sem fjárskjólið Kolbeinshæðarfjárskjól hvílir og áfram um Laufhöfðahraun að Gjáseli og áleiðis upp á Hrauntungustíg.
Gerðisstíg hefur nú verið spillt að hluta með óskiljanlegum moldartipp sunnan kvartmílubrautarinnar.

17. Alfaraleið (í Draugadölum)

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Alfaraleiðinni er fylgt til vestur frá Þorbjarnarstöðum. Hún er mjög greinileg á þessum slóðum. Þegar lengra er komið verður gatan krókóttari þar sem hún þræðir um skorninga á milli hraunhóla og – hvela. Þessi kafli nefnist Draugadalir og vestar eru Þrengslin. Á móts við miðja Draugadali er áberandi varða á vinstri hönd, hlaðin í atvinnubótavinnu snemma á 20. öld líkt og nokkrar aðrar sambærilegar við leiðina. Þegar komið er vestur úr Þrengslum ber þriðju vörðuna við himinn. Þar við eru gatnamót Rauðamelsstígs (Óttarsstaðaselsstígs/Skógargötu).
Framundan er Gvendarbrunnshæð. Slóðanum er fylgt, þar sem hann liggur um þrjá metra frá hæðinni, þar til komið er að sléttri grasi gróinni klöpp með holu í miðjunni. Þetta er Gvendarbrunnur sem aldrei þrýtur. Brunnurinn er á mörkum tveggja jarða, því um hann miðjan eru landamerki milli Óttarsstaða og Straums. Gott skjól er í nálægu fjárskjóli, Óttarsstaðahelli.
Reimsamt þótti í Draugadölum. Þótti sumum sem þeir heyrðu þungan andardrátt fyrir aftan sig á göngunni í gegnum dalina, einkum eftir að skyggja tók.

Alfaraleið

Alfaraleiðin um Draugadali.

Ekki er minnst á Alfaraleiðina í örnefnaslýsingu fyrir Þorbjarnastaði, sem verður að þykja sérstakt því leiðin liggur um land jarðarinnar, örsutt ofan túngarðs, og hefur án efa haft mikil áhrif á líf fólksins þar. Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum er hins vegar getið um Alfaraleið. „Þá liggur hér vestur um hraunið Alfaraleiðin í miklum djúpum lægðum, sem nefnast Draugadalir. Hér mun og vera staður, sem nefnist Himnaríki. Tilefnið er það, að bóndi nokkur í Hraunum ætlaði að fara á Rauð sínum til himnaríkis – eftir viku drykkju. Hann lagði upp undir rökkur með nesti og nýja skó (en kvaðst ekki þurfa sokka, því að nóg væri af þeim í himnaríki). Hesturinn skilaði sér fljótt heim, og sjálfur kom bóndi undir vökulok. Í skrá G.S. segir, að hnakkurinn og beizlið hafi fundizt vestarlega í Draugadölum, en aðrir segja, að þetta hafi legið í Stekkatúninu [ofan Þorbjarnastaða]. Síðan er þarna kallað Himnaríki.“

18. Rauðamelsstígur (gatnamót við Alfaraleið)

Óttarsstaðasel

Rauðamelsstígur.

Rauðamelsstígur liggur frá Óttarsstöðum upp í Óttarsstaðasel og síðan áfram upp Almenning inn á Hrauntungustíg efst í Almenningi. Stóri-Rauðamelur var fyrrum áberandi í landslaginu þar sem nú er niðurgrafin grjótnáma norðan Alfaraleiðar. Skammt norðan hans er Litli-Rauðamelur, sem í örnefnalýsingum er sagður horfinn. Því fer fjarri. Um er að ræða fagurfræðilegan afrúnaðan rauðamelshól í umluktu hraunlendi. Ofan Meitla sést vel heim til selsins. Skammt neðar er Meitlaskjól (fjárskjól).
Stígurinn var einnig nefndur Óttarsstaðaselstígur. Út frá honum liggur Skógargatan til suðurs. Við gatnamótin eru tvær nánast jarðlægar vörður.

19. Lónakotsselsstígur (gatnamót Alfaraleiðar)

Lónakotsselsstígur liggur frá Lónakoti upp í Lónakotssel undir Skorási. Á ásnum er varða, sem sést víða að.

Alfaraleið

Alfaraleiðin við gatnamót Lónakotsselsstígs.

Alfaraleiðin er skýrt mörkuð í hraunið og stefnt er á krókóttar hrauntraðir, sem eru minni í sniðum en Draugadalir. Þegar komið er út úr þeim blasa Löngubrekkur við á hægri hönd, grasi og kjarri vaxnar brekkur sem eru syðst í allmikilli hraunhæð, Smalaskálahæð. Brekkurnar eru áberandi í landslaginu og mynda hraunvegg. Efst í suðurhluta hæðarinnar er löng og mikil sprunga, Löngubrekkugjá einnig nefnd Hrafnagjá því þar verpur hrafninn jafnan á vorin. Þegar komið er vestur fyrir þessa hæð liggur hliðarleið til norðurs í áttina að Kristrúnarborg eða Óttarsstaðaborg sem blasir við á hægri hönd. Þetta er falleg fjárborg sem Kristrún Sveinsdóttir húsfreyja á Óttarsstöðum hlóð ásamt vinnumanni sínum um 1865-70. Ástæðan fyrir hinni miklu Löngubrekkugjá skýrist þegar gengið er fram á djúpt jarðfall vestast í hæðinn, sem nefnist Smalaskálaker. Á botni þess er gjallhaugur þar sem myndlistarmaðurinn Hreinn Friðfinnsson, félagi í SÚM hópnum svonefnda, reisti lítið hús árið 1974, sem nú er horfið. Húsið kallaðist Slunkaríki og tengist Sóloni sem bjó á Ísafirði snemma á 20. öld. Hann var sérkennilegur fyrir margra hluta sakir, en einkum vegna þess að hann byggði hús á röngunni. Sólon lét bárujárnið snúa inn og veggfóðrið út eins Þorbergur Þórðarson lýsir vel í bók sinni Íslenskum aðli. Nú hefur verið komið fyrir grind af húsinu á gjallhaugnum til minningar um listaverkið sem þar var.

20. Straumsselsstígur vestari (vestan Draughólshrauns)

Straumsselsstígur vestari liggur upp frá Straumi, nokkru vestan við hlaðinn túngarð Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina, upp með vestanverðu Draughólshrauni að vörðu á þverleið milli Straumssels og Óttarsstaðasels. Þaðan sést vel til beggja seljanna.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur vestari.

Þegar þverleiðinni er fylgt til austurs er komið að Straumsseli. Í Straumsseli eru bæði leifar selsins sem og bæjar skógarvarðarins í Almenningum.
Guðmundur Guðmundsson hafði keypt Straumsjörðina af Páli Árnasyni sem hafði keypt hana 1839 af konungssjóði. Guðmundur var gerður að skógarverði í Almenningi og settist þá að í Straumsseli. Þetta mun hafa verið um 1847. Hjá honum var faðir hans Guðmundur Bjarnason, oft nefndur Krýsuvíkur-Gvendur. Hann andaðist aldraður maður í Lambhaga vorið 1848, en Guðmundur skógarvörður andaðist fimm árum síðar í selinu, nánar tiltekið 1853. Föst búseta var í Straumsseli í ein 40 ár með hléum, enda vatnsstæði lélegt og erfið búsetuskilyrði. Meðal ábúenda í selinu voru hjónin Kolfinna Jónsdóttir og Sigurður Halldórsson sem bjuggu þar á tímabilinu 1853-1863. Eftir það fluttu þau í Hafnarfjörð og bjuggu í Kolfinnubæ sem stóð þar sem nú er Strandgata nr. 41. Farnaðist þeim vel í selinu þótt kjörin væru kröpp.
Talið er að síðast hafi verið búið í Straumsseli 1890-1895. Guðmundur lét reisa myndarlegt bæjarhús í Straumsseli sem stóð fram undir aldamótin 1900 en þá mun það hafa brunnið. Selið fór eftir það í eyði en bæjartóftirnar eru all myndarlegar.

21. Skógargata (gatnamót við Rauðamelsstíg/Óttarsstaðaselsstíg)

Óttarsstaðaselsstígur

Óttarsstaðaselsstígur neðan gatnamóta Skógargötu.

Á Rauðamelsstíg (Óttarsstaðaselsstíg) neðan Meitla eru tvær fallnar vörður. Þær eru á gatnamótum Skógargötunnar er liggur vel vörðuð upp í Skógarnef að Bögguklettum. Þaðan liggur leiðin um hraunið að Lambafellsklofa. Norðaustan hans skiptist leiðin; annars vegar upp að norðanverðum Dyngjurana, utan við Fíflvallafjall að Hrúthólma þar sem hún sameinast Hrauntungustíg, og hins vegar til suðurs austan Eldborgar að Trölladyngju og áfram um Selsvelli og Hraunsel vestan við Núpshlíðarháls niður á Krýsuvíkurleið milli Grindavíkur og Krýsuvíkur norðan Skála-Mælifells.
Merkið er nokkru norðan við gatnamótin.

22. Straumsselsstígur eystri (gatnamót Gjáselsstígs/Fornaselsstígs)

Straumsselsstígur eystri liggur upp frá Straumi sunnan garðs Þorbjarnarstaða, yfir Alfaraleiðina og upp gróna kvos vestan Þorbjarnarstaðastekks (Stekksins), til austurs norðan Draughólshrauns um Flárnar ofan Katla. Neðan og norðan við Katlana greinist gatan; annars vegar heldur hún stefnu í átt að Laufhöfða (Laufhöfðavarða) þar sem hún stefnir á Gjásel og síðan áfram upp í Fornasel, og hins vegar stefnir gatan í átt að Kötlunum og upp með þeim í Straumssel.

Straumsselsstígur

Straumselsstígur eystri -(Gjáselsstígur/Fornaselsstígur) ofan Tobburéttar vestari.

Upp frá Straumsseli liggur leiðin um Straumsselshellnastíg (framhjá Neðri- og Efri-Straumsselshellum) upp að Gömlu-þúfu í áttina að Sauðabrekkugjá þar sem stígurinn sameinast Hrauntungustíg við Fjallgrensvörðuna skammt norðan gjárinnar. Straumselsstígurinn eystri er í fari selstígsins að Fornaseli (ofar) og Gjáseli (neðar). Hvorutveggja voru sel frá Þorbjarnarstöðum. Á stígnum skammt ofan við Tobburéttar austari (sem er fast vestan við hann) má sjá hvernig mikil umferð í gegnum aldirnar hefur sett mark sitt á hraunhelluna.

23. Hrauntungustígur (Fjallgrensvarða)

Fjallgrensvarða

Fjallgrensvarða. Girðingarstaur á landamerkjunum sést í fjarlægð.

Norðan við Litlu-Sauðabrekku og Sauðabrekkugíga er áberandi landamerkjavarða við Hrauntungustíg á mörkum Straumslands og Óttarsstaðalands, sem nefnist Fjallgrensvarða og skiptir hinum mosavöxnu Fjallgrensbölum á milli jarðanna, en þar voru áður grösugir hagar. Ofan vörðunnar tekur við nokkuð sléttir mosar á helluhrauni. Grenin eru merkt með dæmigerðum steinum á þrem­ur stöðum og hlaðin skotbyrgi grenjaskyttnanna eru þar skammt frá.
Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Straum segir m.a.: „Austur frá Gömluþúfu er lægð, sem nær allt austur að Hafurbjarnarholti. Þar er að finna Stórholt og á því Stórhóll. Þar er einnig að finna Stórholtsgreni og þar skammt frá Skotbyrgið. Hér suður af er Fjárskjólsklettur með sitt Fjárskjól. Þá er Fjallgrenshæð og þar í kring Fjallgrensbalar og Fjallgrensgjá og Fjallgren. Fjallgrenið er í austur frá Gömluþúfu, á að gizka. Þá kemur nokkuð slétt helluhraun, en suður af því kemur svo Sauðabrekkugjá, sem heitir Fjallgrensgjá austar.“
Hrauntungustígur virðist rangt stikaður á þessum slóðum.

24. Grásteinsgata (í Urriðakotshrauni)

Grásteinn

Grásteinn við Grásteinsgötu.

Grásteinsgata lá frá Hraunsholtstúni til austurs með norðanverðu Flatahrauni í Garðabæ. Stígnum er fylgt framhjá Stekkjartúnsrétt (neðri) og inn í Garðahraun (Hafnarfjarðarhraun), framhjá Miðaftanshól og yfir núverandi Reykjanesbraut, en stígurinn er nú undir brautinni á kafla, upp með Dyngjuhól (landamerki Urriðakots og Vífilsstaða), inn á Moldargötur og áfram eftir Grásteinsstíg yfir Urriðakotshraun framhjá Grásteini að Kolanefi og þaðan á stíg upp með hlíðinni í Selgjá. Í gjánni voru 11 selstöður frá Garðabæjunum og sjást þar enn leifar þeirra.
Hluti gjárinnar, að vestanverðu, hefur nú verið friðlýstur.

25. Dauðadalastígur (ofan Helgafells)

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Á kortum er Dauðadalastígur sýndur koma frá austanverðu Helgafelli, inn í elsta Húsfellsbrunann frá því um 950 e.Kr. og síðan um eldri hraun er kom frá Grindaskörðum (1100 – 4000 ára). Síðan liggur hann um Tvíbollahraunið, niður á Hellnahraunið frá sama tíma um Dauðadali og eftir þeim til suðurs uns hann beygir upp með suðvestanverðum Markraka og fylgir honum síðan utanverðum áleiðis upp á Selvogsgötu. Eflaust hafa hellaopin í Dauðadölum litla athygli vakið fyrrum, enda voru ljóslausir ferðalangar ekki að gera sér sérstakan útúrdúr til að kíkja niður í slík „ómerkilegheit“ í þá daga. Nú sækjast ferðalangar einkum í litadýrð þessara hella (Dauðadalahella, Flóka o.fl.). Stígurinn kemur inn á Selvogsgötuna þar sem hún greinist annars vegar í leiðina að Kerlingaskarði og hins vegar í svo til beina stefnu að Grindaskörðum.

Dauðadalastígur

Dauðadalastígur.

Þegar gengið er um þetta hraunsvæði má, sem fyrr er lýst, sjá nokkur hraunskeið, s.s. hraun úr Grindaskörðum (1100-4000 ára gamalt, enda vel gróið líkt og sjá má í Grindarskörðunum sjálfum), Tvíbollahraunið (frá því um 950) og Hellnahraunið (rúmlega 2000 ára gamalt). Austar er Húsfellsbruni (frá svipuðum tíma og Tvíbollahraunið (950). Inni á millum er grágrýtismyndanir kaplatóarhæða (rúmlega 7000 ára gamlar). Efst, í bókstaflegri merkingu, trjóna Helgafells- og Húsfellsmóbergsmyndanirnar í norðvestri (eldri en 11000 ára). Í heildina er á svæðinu um að ræða einstaka jarðsögu (þ.e. ef fólk kann á annað borð að lesa úr henni). Ekki má horfa framhjá hinum stórkostlegu hraunreipsmyndunum í horfnum árfarvegi vestan Dauðadala.
Gatan var einkum notuð af rjúpnaveiðimönnum. Efst í Kristjánsdölum, skammt frá Selvogsgötunni, eru tóftir eftir hús þeirra.

26. Selvogsgata (Kaplatór)

Selvogsgata

Selvogsgata – rudd á kafla gegnt Kaplatór. Húsfell fjær.

Selvogsgata er þjóðleið milli Hafnarfjarðar og Selvogs í Ölfusi, um dagleið þegar hún er farin í einum áfanga. Ferðalangar fyrri alda hafa bæði mótað og sett spor sín á götuna sem liðast eins og farvegur í gegnum Þríhnúkahraun, framhjá Strandartorfum og Kaplatór eftir varðaðri leiðinni um Hellur, upp í Grindarskörð (sem og Kerlingarskarð inn á Hlíðarveg) og áfram niður í Selvog um Hlíðardal og Strandadal.
Strandartorfur og Kaplatór voru kærkomnir áfangastaðir við götuna, enda báðir skjólgóðir og beitarvænir. Hlaðin varða trjónir yfir Kaplatór.
Miðkafli Selvogsgötunnar er vel varðaður og ruddur um úfnar hraunspildur á köflum. Þessi hluti götunnar, frá Grindarskörðum niður í Hafnarfjörð, notaður til flutnings á brennisteini úr námum í Brennisteinsfjöllum um skeið á seinni hluta 19. aldar.

27. Kerlingaskarðsvegur/Selvogsgata (gatnamót við Bláfjallaveg)

Selvogsgata

Selvogsgata um Grindarskörð og  Kerlingarskarðsvegur um Kerlingarskarð.

Selvogsgatan (Suðurferðavegur eins og heimamenn í Selvogi nefndu leiðina) lá á millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Gatan er enn vel greinileg þar sem hún liggur upp frá Strönd í Selvogi, upp Selvogsheiði um Strandar- og Hlíðardal, yfir Hvalskarð og áfram að Grindaskörðum austanvert við Konungsfell (síðar Kóngsfell) þar sem undirlendið að Hafnarfirði blasti við.
Fyrir neðan Grindaskörð, við bílastæði neðan sæluhúss, sem þar er, eru gatnamót. Ferðafélög og leiðsögumenn síðustu áratuga hafa gjarnan frá þeim stað fetað aðra götu, sem brennisteinsmenn notuðu á leið sinni upp í Námuhvamm í Brennisteinsfjöllum í lok 19. aldar og Hlín Johnson lét síðar áframleggja niður að Hlíð við Hlíðarvatn, þ.e. upp Kerlingarskarð. Ofan þess hefur síðan vörðum frá því um miðja síðustu öld verið fylgt niður að Hlíðarskarði – og leiðin síðan jafnan verið kynnt sem hina einu sanna “Selvogsgata”.

Selvogsgata

Grindaskarðavegur.

Í rauninni er um þrjár götur að velja og er “túrhestagatan” nýjust. “Túrhestagatan” er seinni tíma “gata”, beinvörðuð. Um var að ræða vetrarsýsluveg Selvogsmanna í þann mund er fyrri tíma þjóðleiðir voru að leggjast af (um 1940). Vörður við leiðina hafa síðan verið endurhlaðnar og virðist leiðin þess vegna við fyrstu sýn vera “sú eina” millum Selvogs og Hafnarfjarðar. Raunin er hins vegar önnur.
Tvær vörðuleifar eru enn á þessum hluta Selvogsgötunnar ofan gatnamótanna, en annars er yfir slétt mosavaxið helluhraun að fara áleiðis upp í Grindaskörð. Leiðin sú er nokkuð eðlileg, bæði með hliðsjón af lestarferðum; áningarstöðum og vatnsöflun. Undir Grindarskörðum er öllu jafnan ágætt vatnsstæði. Við það mótar enn fyrir jarðlægum tóftum.
Gatan upp Grindarskörðin er augljós þar sem hún liggur í sneiðingum. Vörðubrot eru á stefnumiðum. Þrátt fyrir það þarf að lesa hlíðina vel, nú tæplega 80 árum eftir að síðasta lestarferðin var farin þessa leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar. Bæði hefur vatn fært jarðveginn til á köflum og gróðureyðingin sett svip sinn á leiðina. Með góðri athygli má þó sjá hvernig lestarstjórarnir hafa leitt stóð sín ákveðið og óhikað upp sneiðingana, allt upp á efstu brún á hálsinum. Þar er varða og augljóst hvar gatan hefur legið vestan hennar.

Grindarskörð

Grindarskörð og Kerlingaskarð.

Frá brúninni liggur gatan á ská niður hálsinn (Grindarskörðin) og þaðan svo til beint að augum. Tvær vörður eru áberandi framundan. Fyrri varðan vitnar um gatnamót; annars vegar Selvogsgötu og hins vegar Heiðarvegar niður er liggur niður að Hrauni í Ölfusi.
Ofan Litla-Kóngsfells er varða og flöt uppsett hraunhella. Hvorutveggja eru merki um ofanverð gatnamót Selvogsgötu og Hlíðarvegar. Skammt vestar er vatnsstæði. Sunnan Hvalsskarðs þverast göturnar af Stakkavíkurselsstíg, sem liggur sem leið liggur niður að Stakkavík um Selstíg. Vestan við Hvalhnjúk taka við Vestur-Ásar.
Neðarlega í Ásunum eru austan vegar grasbrekkur allstórar, og heita þær Dýjabrekkur. Litlu neðar eru Selbrekkur. Þar hefur, þegar það tíðkaðist almennt, verið haft í seli frá Stakkavík. Úr Selbrekkum er stutt fram á fjallsbrúnina. Þegar á brúnina kemur, hýrnar svipur útsýnisins og breytist allnokkuð. Af henni blasir við undirlendið allt sem og hafið svo langt sem augað eygir til suðurs.

Sjá meira um ratleikinn HÉR.

Selvogsgata

Selvogsgatan að morgni dags.