Færslur

Lambagjá

Farið var í hellana sunnan Þverhlíðar norðan Sléttuhlíðar, haldið í Náttaga norðan Kaldársels og þaðan austur yfir hraunið í Kaldárselsfjárhellana gegnt Smalaskála.

Fosshellir

Í Fosshelli.

Gengið var um Lambagjá, skoðuð hleðslan undir vatnsleiðsluna frá Kaldárbotnum. Farið var undir haftið í Lambagjá og upp í Áttatíumetrahellirinn, litið í hellana í norðanverðum Helgadal (Vatnshelli) og síðan gengið að Hundraðmetrahellinum og hann skoðaður. Ekki var farið í Rauðshelli að þessu sinni, en skammt frá honum er forn hlaðinn stekkur. Líklegt er að Rauðshellir hafi verið notaður sem aðhald eða jafnvel selstaða fyrrum. Hleðslur eru bæði fyrir opum hans og inni í honum. Vel gróið á milli opa. Kæmi ekki á óvart ef þar leyndust minjar undir. Gengið var í gegnum Fosshellirinn, en hann er einn sá allra fallegasti á svæðinu. Í bakaleiðinni var litið aftur í Rauðshelli og skoðuð bælin, sem þar eru og áletrun á norðanverðum barmi opsins. Þá var gamla Selvogsgatan gengin niður að Kershelli og Hvatshelli. Þeir hellar voru skoðaðir, auk þess sem gengið var um Setbergs-og Hamarkotssel og farið í gegnum Ketshelli áður en hringnum var lokað.
Gangan tók 2 ½ klst. Frábært veður.

Helgadalshellar

Rauðshellir.

Arngrímshellir

Á Reykjanesskaganum eru þekktir um 600 hellar og skjól. Líklega er rúmlega fjórðungur þeirra með einhverjum mannvistarleifum, enda náttúrulegir skútar og skjól jafnan verið notað undir fé eða annað frá upphafi byggðar hér á landi. Einnig má finna í hellum bæli, hleðslur og annað, sem telja má mannanna verk.

Húshellir

Í Húshelli.

Hellarannsóknarfélaginu er kunnugt um alla kunna hella og skjól á svæðinu. Einnig hvað í þeim er að finna. Mörg skjólanna hafa hins vegar aldrei verið skráð sem fornleifar þrátt fyrir skilgreiningu Þjóðminjalöganna, þar sem segir að “til fornleifa teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, svo sem byggðaleifar í hellum og skútum, staðir með þjóðsagnahefð og áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum.”
Skv. framangreindu mætti skipta hellum, skútum og skjólum á Reykjanesskaganum í tvo flokka, þ.e. a) án fornleifa og b) með fornleifum sbr. framangreint. Síðarnefnda flokkunum væri síðan hægt að skipta í tvo undirflokka; I) hella með titeknum mannvistarleifum, s.s. hleðslum, áletrunum, bælum o.fl. og II) þjóðsagnakennda hella.

Bjargarhellir

Bjargarhellir – hleðslur.

Undir síðarnefnda aðalflokkinn teljast u.þ.b. 100 fjárskjól á Reykjanesskaganum. Mörg þeirra hafa verið í notkun fram yfir aldamótin 1900. Má þar nefna Strandarhelli, Bjargarhelli, Gaphelli, Eimuból og Strandarselsból á Strandarheiði, Fjallsendahelli, Stekkshellir og Litlalandshelli í Ölfusi, Breiðabáshelli og Seljabótarhelli í Herdísarvíkurhrauni, Arngrímshelli (Gvendarhelli) og Krýsuvíkurhelli í Klofningum, fjárskjól í Bæjarfelli, Arnarfelli, við Vigdísarvelli og Ísólfsskála sem og í Katlahrauni, Fjárhella í Kálffelli, við Hvassahraun, Lónakot, Óttarsstaði, Straum og Þorbjarnarstaði í Hraunum, fjárskjól ofan við Ás og í Kaldárseli, Selgjá og Búrfellsgjá og þannig mætti lengi telja.

Gullbringuhellir

Gullbringuhellir – bæli.

Undir fyrrnefnda undirflokkinn teljast t.d. hellar eins og Gíslhellir við Rauðamel, Gullbringuhellir, Húshellir, Skjólið í Strandarheiði, Oddshellir í Kálffelli, Útilegumannahellar og Brauðhellir í Eldvörpum, Hestshellir og Dátahellir í Arnarseturshrauni, Sæluhúsið undir Lat, Loftsskúti og Brugghellir ofan við Hvassahraun, Helluhellir og Smalahellir við Kleifarvatn og t.d. Áni undir Hlíðarfjalli. Annars er letur og áletranir í mjög fáum hellum á Reykjanesskaganum (borgar sig ekki að upplýsa hvar).
Einn stærsti og fallegasti manngerði niðurgangurinn í helli á svæðinu er í Skjólinu í Strandarheiði og í Þorsteinshelli norðan við Selgjá. Óvíst er í hvaða tilgangi Skjólið var notað, en við það er bæði stekkur, tóft og fjárskjól. Gólfið innanvert er slétt og á því miðju er eitt einasta bein – sem segir svo sem ekkert. Þorsteinshellir er hins vegar augljóst tvískipt fjárskjól.
Undir seinni undirflokkinn teljast t.d. Sængurkonuhellir í Herdísarvíkurhrauni, Draugshellir í Ölfusi, Draugahellir í Valahnúk, Dauðsmannskúti í Kóngsfelli, Litlihellir við Selfjall, Rauðshellir við Helgafell og Strandarhellir, Dúnknahellir við Hraunssand og Smíðahellir við Selatanga og Sængurkonuhellir í Illahrauni.

Arngrímshellir

Í Arngrímshelli.

Ljóst er að mannvistarleifar í hellum á Reykjanesskaganum hljóta að tengjast bæði fjárbúskap og ferðum manna á milli byggðalaga. Auk þess tengjast þeir athöfnum manna, s.s. veiðum, hvort sem um var að ræða rúpna-, refa- eða hreindýraveiðum. Minjar alls þessa má sjá í hellunum. Hellarnir og skjólin eru þess vegna tilvalin rannsóknarefni fyrir áhugasama fornleifa- og/eða þjóðfræðinga á höfðuborgarsvæðinu, sem ekki vilja fara of langt til efnisöflunar.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Minna má á að ekki er langt síðan að FERLIRsfélagar fundu niðurgang í Bjargarhelli. Um slíkan “gang” er getið í gömlum þjóðsögum og er þá jafnan átt við Strandarhelli, sem er þar skammt frá. Ekki er ólíklegt að ætla að einhverjir hafi ruglað hellunum saman, enda hvorutveggja fjárskjól. Annars væri fróðlegt fyrir einhvern fræðinginn að taka fyrir “nafnafrávikskenninguna” í tíma og rúmi. Eflaust gæti ýmisleg nýmæli komið út úr því. Margt óþarflegra hefur verið gert í fræðunum í gegnum tíðina. Með rannsókninni væri hægt að sameina hugmyndir og kenningar í ýmsum fræðigreinum.

Gíslhellir

Gíslhellir.

Rauðshellir

Árni Óla skrifaði í Lesbók Morgunblaðsins árið 1946 “Um hraun og hálsa”:

Árni Óla

Árni Óla.

“Fyrir sunnan og austan Hafnarfjörð oru nokkrir dolerításar með stefnu frá norðvestri til suðausturs og dalir á milli. Í grjótinu í ásum þessum er mikið af „olivirí”, gulum krystöllum, og heldu útlendingar lengi vel, að hjer væri um sjerstaka tegund af grjóti að ræða, og kendu hana við Hafnarfjörð og kölluðu „Havnefjordit”.
Vestasti ásinn nær frá Hvaleyri og hamrinum við Hafnarfjörð fram á móts við Undirhlíðar. Aðskilur hann Hafnarfjarðarhraun og Kapelluhraun. Um uppruna nafnsins Kappelluhraun er svo sagt: Yfir Kapelluhraun er vegur svo vel lagður, að hann má skeiðríða. (Var það áður en bílvegurinn kom). En enginn veit af hverjum eða hvenær hann hefir verið lagður. Nálægt í miðju þessu hrauni er upphlaðin grjóthrúga rjett við veginn, sem fólk kallar Kapellu og segir, að þar sjeu dysjaðir þeir menn frá Bessastöðum, sem drepnir voru í hefnd eftir Jón biskup Arason 1551. En ólíklegt er að það muni satt vera.
Skammt fyrir sunnan Hafnarfjörð er Ásfjall og er það hæsti hnúkurinn á þessum ásum. Fyrir sunnan það heitir hraunið Brunahraun eða Bruni. Þar er vegur til Kaldársels og var kallaður Stórhöfðavegur.

Selvogsgata

Selvogsgata undir Setbergshlíð.

Næsti ásinn er nefndur Setbergshlíð, og sá þriðji Vífilstaðahlíð, en Vífilstaðaháls er austur frá Vífilstöðum frá suðri til norðurs og þá Arnarnesháls. Frá Setbergi og fram undir Kaldársel gengur daldrag, sem gjarna mætti kalla Kaldárdal, því sennilega hefir Kaldá runnið um hann áður en hraunflóðið kom, sem fallið hefir um dalinn niður að Hafnarfirði og þaðan fram á Álftanes og er fyrst kallað Gráhelluhraun og suður að Kaldárseli meðfram vesturbrún hraunsins. Er hraunið víða úfið og brotið, hefir sporðreist og hlaðist upp á sumum stöðum, en sums staðar með djúpum skvompum og skorum.
Heiðin að sunnan heitir vestast Sljettahlíð. Er hún kjarri vaxin og graslendisræma milli hennar og hraunsins. Þarna hafa Hafnfirðingar reist sumarbústaðahverfi, og eru þar nú milli 20 og 30 snotrir sumarbústaðir í röð undir hlíðinni. Er þarna viðkunnanlegt og verður með tímanum mjög fagurt, því að hver maður er að rækta hlíðina upp frá sínum bústað og gróðursetja þar blóm og trje.

Selvogsgata

Selvogsgata vestan Setbergshlíðar.

Milli Setbergshlíðar og Vífilstaða hlíðar er annar dalur, og eftir honum hefir runnið önnur kvísl af Hafnarfjarðarhrauni og dreifir úr sjer á sljettunni fyrir vestan Vífilstaði. Liggja traðir úr Vífilstaðahlaði þar þvert yfir hraunið, og víða meðfram þeim eru bekkir fyrir sjúklinga hælisins. Er hraunið þarna gróið og kjarri vaxið og eru þar margir yndisfagrir staðir, sem sjúklingar munu áreiðanlega lengi minnast af hlýum huga, því að þessir staðir hafa sjálfsagt veitt þeim hugfró og unað í mótlæti þeirra.

Selvogsgata

Selvogsgata – örnefni.

Dalurinn þarna fram af er svipaður hinum, nema hvað hraunið er öllu stórbrotnara og þegar vestur úr dalnum kemur og það nálgast upptök sín verður það æ hrikalegra og þó fegurra, með mörgum gjám og kötlum. Er víða mikill gróður þarna innan um hinar furðulegustu klettaborgir. Fyrir mynni dalsins er lágt fell, sem Smalafell nefnist. Af því er góð útsýn yfir hraunið og lægðina þar fyrir sunnan, þar sem mikið landsig hefir orðið einhvern tíma.
Rjett fyrir vestan Smalafell liggur gamli vegurinn frá Hafnarfirði til Selvogs. Heitir hann Grindaskarðavegur. Göturnar eru nú horfnar og gleymdar, þótt þetta væri áður alfaraleið, en vegurinn segir þó til sín. Hafa verið sett ýmis merki við hann, svo sem smávörður, trjestaurar, eða járnhælar. sem reknir hafa verið niður með stuttu millibili. Og svo hefir á löngum köflum verið raðað steini við stein meðfram götunni. Kemur þessi langa steinaröð, hjer í óbygðum, ókunnugum einkennilega fyrir sjónir, því að hún líkist mest gangstjett. Liggur hún þvert suður yfir jarðfallið með stefnu á eldgíg nokkurn fyrir austan Valafell. Er þetta víst eina færa leiðin með hesta þarna þvert yfir, til þess að komast fram hjá tveimur hrikalegum gjám, sem eru sinn hvoru megin við jarðfallið.

Kaldá

Kaldá.

Þegar komið er upp undir hlíðarnar að sunnan beygir vegurinn vestur að Kaldárseli. Einu sinni var bygð í Kaldárseli. Bjó þar seinast einsetumaður og dó þar, svo að engin vissi fyr en nokkuð seinna að einhverja menn bar þar að garði. Eftir það fór kotið í eyði. En fyrir nokkrum árum reistu skátar þarna skála og höfðu þar bækistöð sína. Í fyrra var skálinn stækkaður um helming, og í sumar hafa Hafnfirðingar haft þar barnaheimili með 27 börnum. Er viðkunnanlegt þarna og hafa börnin unað sjer vel, enda frjálst um svo fjarri mannabygð og í návist fjallanáttúrunnar.

Helgafell

Helgafell – móbergsfjall.

Yfir Kaldárseli gnæfir Helgafell. Það er nokkuð hátt og illt uppgöngu nema að austan. Af því er ágætt útsýni yfir hraunin og gosstöðvarnar þar um kring.
Undir Helgafelli eru Kaldárbotnar í kvos nokkurri. Eru þar margar uppsprettur og mynda fyrst dálítið lón. Þangað sækir Hafnarfjarðarbær vatn sitt, og er sú vatnsleiðsla eldri en vatnsveita Reykjavíkur. Stíflugarður hefir verið hlaðinn fyrir lónið og frá honum liggur opinn timburstokkur norður yfir sljetta hraunið og Gullkistugjá, fyrir norðan Kaldársel. Hefir orðið að hlaða geisimikinn og háan steinvegg þvert yfir gjána undir stokkinn. Þar skamt frá er svo vatnið tekið í pípur og leitt til Hafnarfjarðar. En það er nú orðið viðsjárvert að hafa þennan langa opna stokk, og uppspretturnar ógirtar.

Vatnsveitan

Vatnsveitan yfir Lambagjá.

Stokkurinn er víða farinn að gefa sig og lekur drjúgum. Er einkennilegt að sjá það efst, að vatnið, sem niður lekur rennur í þveröfuga átt við rennslið í stokknum, og sameinast Kaldá. Rennur hún svo niður hjá Kaldárseli og þar í hálfhring, eins og hún sje að villast, en steypir sjer svo á kaf niður í hraunið og sjest ekki meir. Jörðin gleypir hana með öllu. Hefir mörgum þótt þetta furðulegt, og hefir þjóðtrúin spunnið út af því hinar furðulegustu sögur. Getur Eggert Ólafsson þess í ferðabók sinni, að menn haldi að Kaldá renni neðanjarðar alla leið vestur á Reykjanestá og þar til hafs, en af straumi hennar myndist Reykjanesröst. Getur hann þess einnig, að í samræmi við þessa tilgátu manna sje farvegur hennar þannig sýndur á hinu nýasta Íslandskorti, sem gert var á konungs kostnað.

Kaldárbotnar

Kaldárbotnar – stífla.

Brynjúlfur Jónsson á Minna-Núpi segir, að það sje almælt, að á fyrri öldum hafi á sú runnið úr Þingvallavatni, er Kaldá er nefnd, eitthvert hið mesta vatnsfall á Íslandi. Hún á að hafa runnið norðan við Hengil og ofan þar sem nú eru Fóelluvötn og svo suður með hlíðum og í sjó á Reykjanesi. Sje sagt að hún komi upp í Reykjanesröst og að Kaldá hjá Helgafelli sjé úr henni. Er það haft til sannindamerkis, að hinir svonefndu Vesturvellir ofan frá Hengli til Litlafells, Fóelluvötn og þaðan niður undir Hólm líkist gömlum árfarvegi. En svo þurfti að fá skýringu á því, hvernig á því stóð, að þetta mikla vatnsfall skyldi hverfa, og eru um það ýmsar sögur. Ein er sú, að karl nokkur, sem var kraftaskáld, misti í hana tvo sonu sína, og kvað hana því niður. Önnur sögn, og öllu vísindalegri er sú, að Kaldá hafi horfið eitt sinn er suðurfjöll brunnu, svo einn var eldur ofan úr Hengli og út í sjó á Reykjanesi og hafi þá jörðin gengið upp fyrir sunnan Elliðavatn.

Helgadalur

Helgadalur.

Skammt fyrir austan Kaldársel er Helgadalur, djúp hvos með dálítilli tjörn. Er þráðbeint hamrabelti að norðan en grösugar hlíðar á tvo vegu. Er þarna tilvalinn og skemtilegur áfangastaður fyrir þá, sem kanna vildu fjallaslóðir þar um kring. Þaðan má fara t.d. Grindaskarðaveg upp undir fjöllin og síðan austur á við milli hrauns og hlíða um svonefnda Kristjánsdali.
Þar er ekkert vatn, en mjög grösugt. Þar voru áður geymdir hestar lestamanna þeirra, er sóttu brennistein í Brennisteinsfjöll, og var þá bygður kofi þar. Er svo haldið austur með yfir hraunfossana, og niður með Vífilfelli á Suðurlandsbraut.

Brennisteinsfjöll

Kistufellsgígur.

Þá er og skemmtilegt að fara Grindaskarðaveg, yfir Heiðina há. Það er geisimikil elddyngja, lík í lögun og Skjaldbreiður, og um 700 metrar á hæð. Útsýn er þar víð og fögur í góðu veðri, sjer yfir alt Suðurlandsundirlendið að Eyjafjöllum, inn til jökla og vestur á Snæfellsnes. Vegurinn suður af liggur niður í Selvog, og er þar á brúninni fyrst komið að vörðu þeirri, er hinn alkunni galdramaður, síra Eiríkur í Vogsósum hlóð á sínum tíma.
Frá Kaldárseli er hæfileg gönguför upp í Brennisteinsfjöll. Er það aflangur fjallahryggur uppi á Lönguhlíð. Í austurhlíð þeirra eru óteljandi gígar og standa mjög þjett, og frá þeim hafa hraunfossar steypst niður hlíðina. Breiða hraunin síðan úr sjer yfir mikla sljettu, sem er þar á milli og Bláfjalla og Heiðarinnar há, en sljettu þessari hallar suður að brúnum fyrir ofan Stakkavík í Selvogi og Herdísarvík, og halda menn að hraunfossarnir sem steypst hafa þar fram af hengifluginu, sjeu komnir úr gígunum í Brennisteinsfjöllum. Mundi það hafa verið hrikaleg sjón, ef einhver hefði verið til að horfa á, er glóandi hraunið kastaðist í stórum fossum fram af bjargabrún.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – náma.

Upp úr hrauninu í austurhlíð Brennisteinsfjalla, koma gufur sums staðar og litlir brennisteinsblettir eru utan í rönd þess. Á því hafa menn þóst vita að þarna væri brennisteinsnámur og hafa svo gefið fjöllunum nafn af því.
Sumarið 1851 ferðaðist Jón Hjaltalín landlæknir nokkuð hjer um land til að rannsaka brennisteinsnámur, þar á meðal námurnar í Krýsuvík. Frjetti hann þá um þessar námur uppi í Brennisteinsfjöllum, og fór að spyrjast fyrir um það hvar þau væri, en svörin voru mjög sitt á hvað, sagði einn þetta annar hitt. Var það ekki fyr en að áliðnu sumri, að hann fann mann úr Selvogi, sem kvaðst þekkja fjöll þessi. Bauðst hann til að fylgja Jóni þangað, og lögðu þeir á stað í það ferðalag skömmu fyrir veturnætur. Fann Jón þarna fjórar námur og leist mjög vel á 3 þeirra. Þær eru í Krýsuvíkurlandi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Sjö árum seinna (1858) keypti Englendingur nokkur, J.W. Busby að nafni þessar námur og Krýsuvíkurnámurnar fyrir milligöngu dr. Jóns Hjaltalíns. Eftir kaupbrjefinu máttu Englendingar taka allan brennistein í Herdísarvíkur og Krýsuvíkur landareignum svo og allar málmtegundir, er þar kynni að finnast, og ýmis önnur rjettindi voru þeim áskilin. Seljendur voru þeir síra Sig. B. Sivertsen á Útskálum og Sveinn Eiríksson í Krýsuvík og var söluverðið 1400 dalir.
Var nú stofnað námuhlutafjelag í Englandi og hafið brennisteinsnám. En fjelagið tapaði og gengu hlutabrjefin kaupum og sölum, og óvíst hvar þau eru nú niður komin.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

En í Brennisteinsfjöllum má enn sjá verksummerki eftir brennisteinsnámið. Á dálítilli grasflöt við læk eru rústir húsanna, sem Englendingar reistu og skammt þar fyrir sunnan eru námurnar. Hefir ekki verið neinn hægðarleikur að vinna þær, því að þær eru undir hrauninu. Hafa Englendingar brotið þar stórar skvompur í hraunið, urðu að brjóta um tveggja mannhæða þykkt blágrýtishraunið til þess að komast að brennisteininum, því að hann hefir sest í glufur og hraunholur niður undir jörð. Hitinn í gufuholunum þarna er talinn vera 26—78 gráður. Hefir gufan soðið og etið hraunið í sundur allavega og umbreytt því, svo að þar hafa myndast krystallar og marglitir steinar, sem gaman er að eiga.
Leiðin frá Kaldárseli upp í Brennisteinsfjöll liggur um Kerlingarskarð, sem er rjett fyrir sunnan Grindaskarðaveginn. Eru þar á brúninni margir gígar og úr þeim hafa komið hraunin fyrir neðan Langahlíð. Einn af stærstu gígunum á þessum slóðum er Kistufell. Er af því víð og mikil útsýn. Gígurinn er mikill um sig og um 70 metra á dýpt. Vestan við Kistufell er viðsjált hraun. Eru þar sums staðar hringlaga gígop, þverhnýpt niður og svo djúp, að jökull er í botni þeirra.

Gullkistugjá

Gullkistugjá.

Óteljandi gjár og hellar eru í hraununum á öllu þessu svæði, er nú hefir verið lýst, alt frá sjó og upp á Heiðina há. Kann jeg ekki nöfn á þeim, enda yrði það of löng upptalning, eigi heldur allar gjár skírðar, nje allir hellar fundnir enn.
Þegar Árni prófastur Helgason var í Görðum á Álftanesi samdi hann sóknarlýsingu og segir í henni: „Gjár eru víða í þessum hraunum, sumar bæði langar og djúpar. Merkilegastar þekki jeg tvær, sem liggja samsíða frá austri til vesturs fyrir ofan Setbergshlíð, og er ei lengra á milli en svo sem 100 faðmar, að jeg ætla. Í vatn sjer niður í þeim og er langt niður að því; sums staðar eru þetta fremur sprungur en gjár og sums staðar vottar ekki fyrir þeim. — Svokallaðir Norðurhellar eru hjá Vífilstaðahlíð og Kjötshellir í Setbergshlíð. Rauðshellir er skamt fyrir norðan Helgafell. Í honum eru pallar sjálfgerðir er bæði má sitja á og smjúga undir, og ná þeir yfir þveran hellirinn. Margir hafa grafið nöfn sín í bergið í Rauðshelli, sem þangað hafa komið. Sum staðar er hvað skrifað ofan í annað.”

Valaból

Valaból – Músarhellir.

Eins hellis enn verður hjer að geta, ekki vegna þess að hann sje stór nje merkilegur frá náttúrunnar hendi, heldur vegna þess að Farfuglar hafa gert hann að bústað sínum. Hellir þessi er uppi í kletti nokkrum austan undir Valahnúk. Hann er rjett manngengur þar sem hann er hæstur. Þeir hafa sett fyrir hann hurð og komið fyrir tveimur gluggum, og síðan gert þar fjalagólf. Geta 8—10 menn sofið þarna á gólfinu í svefnpokum, og mun oft svo gestkvæmt þarna, bæði sumar og vetur. Umhverfis er afgirtur dálítill blettur, klettakvosir og brekka sem hefir verið ræktuð. Hafa þeir sáð þarna blómum og gróðursett trjáplöntur, og gert staðinn einkennilega fallegan og aðlaðandi. Verður þó betra seinna, því að alt er þetta svo að segja í byrjun. En alt, sem þarna hefir verið gert, lýsir smekkvísi og ást á náttúrunni, en hún er aðalsmerki allra farfugla.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 28. tbl. 01.09.1946, Um hraun og hálsa – Árni Óla, bls. 349-353.

Valahnúkar

Valahnúkar – tröll.

Rauðshellir

Gengið var um Lambagjá frá Kaldárseli með viðkomu í Níutíumetrahellir ofan við enda gjárinnar.

Helgadalur

Helgadalur – tóft.

Síðan var haldið yfir í Vatnshelli, sem er við gömlu Selvogsgötuna þar sem hún liggur niður í Helgadal. Á leiðinni var gegnið fram á þrastarungakríli, sem fallið hafði úr hreiðri sínu, en móðirin fylgdist gaumgæfilega með öllu. Forn tóft í Helgadal var barin augum. Rauðshellir var skoðaður, en hans er getið í kirkjuannálum allt frá því á 17. öld, auk þess sem litið var inn í Hundraðmetrahellinn. Rauðshellir er stundum nefndir Pólverjahellir. Nafnið er tilkomið frá drengjum úr Pólunum í Reykjavík er voru við dvöl í Kaldárseli. Friðrik Friðriksson stofnaði knattspyrnufélagið Val þar sem þessir drengir voru aðaluppistaðan. Þá stofnaði hann ungmennafélagið Hvöt, sem hafði aðstöðu í Hvatshelli í Þverhlíð.

Helgadalur

Helgadalur – Vatnshellir.

Þá var gengið í gegnum Fosshelli þar sem hinn fallegi flór var skoðaður, upp í Valaból og áð í Músarhelli. Maríustakkur vex þar utan við sem og einstaka holurt á stangli. Annars er svæðið orðið mjög vel gróið og trén hafa dafnað vel í sumar.
Haldið var upp á Valahnúka (201 m.y.s.), heilsað upp á tröllinn og og hrafninn, sem á sér laup í austanverðum vestasta hnúknum. Hann sést vel þar sem gengið er yfir í Valabók um hálsinn frá Helgafelli. Frá tröllunum var gengið yfir malarslétt helluhraunið niður í Gvendarselsgíga, upp á Kaldárbotna syðri og með vatnsverndargirðingunni niður að Kaldá.

Rauðshellir

Rauðshellir.

Ferlir

Þegar fjallað er um Reykjanesskagann á vefmiðlum, s.s. á vefsíðu Reykjaness á https://www.visitreykjanes.is er verulegur skortur á raunhæfri umfjöllun um Skagann. Einungis lögð áhersla á fallegar myndir, sem segja fátt um allar dásemdirnar.

Reykjanes

Frá Reykjanesi.

Þá er verulega hallað á umfjöllun um svæðið á https://reykjanesgeopark.is/. Báðar síðurnar er dæmigerðar fyrir sjálfstýringar til friðþægingar hagsmunaaðila, en segja lítið um allt hið merkilegasta er svæðið í heild býður upp á – allt það ósagða, sem mestu máli skiptir.
Og þegar fjallað er um Reykjanesskagann í fjölmiðlum er jafnan getið um Reykjanes en ekki Skagann, sem rétt er – https://ferlir.is/reykjanes-og-reykjanesskagi/
Einu áreiðanlegu heimildirnar um yfirlit sögu og minjar á Reykjanesskaganum er að finna á www.ferlir.is.

Rauðshellir

Í Rauðshelli í Helgadal.

Helgadalur

Búrfell upp af Hafnarfirði er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Gígurinn er aðeins einn og rís 180 m y.s., hlaðinn úr gjalli og hraunkleprum. Hraunið frá honum nefnist einu nafni Búrfellshraun en einstakir hlutar þess hafa sérnöfn;

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

•Smyrlabúðarhraun
•Gráhelluhraun
•Lækjarbotnahraun
•Urriðakotshraun
•Hafnarfjarðarhraun
•Garðahraun
•Gálgahraun

Þrjár stórar hrauntungur hafa runnið frá Búrfelli til sjávar.
1. Sú stærsta fór niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog.
2. Önnur tunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði.
3. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum.

Helgadalur

Í Helgadalshellum.

Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir nú. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á Búrfellshrauni.

Sprungur og misgengi setja svip sinn á landslagið við Búrfell. Þeirra mest er Hjallamisgengið sem nær allt frá Elliðavatni að Kaldá. Við Búrfell eru einnig mikil misgengi og saman myndar þetta misgengja- og sprungukerfi sigdal með stefnu NA-SV sem teygir sig frá Krýsuvík og upp í Úlfarsfell.

Hraunið er talið um 24 km2 að flatarmáli en um þriðjungur þess er hulinn yngri hraunum. Rúmmálið er um 0,5 km3. Það er um 8000 ára og með elstu hraunum sem vitað er um á Heiðmerkursvæðinu.

Hrauntjarnir og -traðir mynduðust í hrauninu meðan á gosi stóð. Þær stærstu nefnast Búrfellsgjá og Selgjá. Þessar gjár eru af allt öðrum toga en gjárnar sem þverskera hraunið í grennd við Hjallamisgengið. Hrauntjarnir mynduðust t.d. í Kringlótturgjá og í Gjánum við Kaldársel, en hraunið, Helgadalshraun / Kaldárhraun, rann úr þeim, bæði neðanjarðar er mynduðu hraunrásir er síðan urðu að hellum líkt og sjá má í Helgadal. Stærstu hrauntraðirnar, auk Búrfellsgjár og Selgjár, eru Lambagjá og Vesturgjá.

Margir hraunhellar, auk hellanna í Helgadal, eru í Búrfellshrauni. Lengstur er Selgjárhellir (Skátahellir) yfir 200 m langur, en þekktastir eru Maríuhellar við veginn upp í Heiðmörk.

Hér má sjá MYNDIR úr Helgadalshellunum.

Helgadalur

Helgadalshellar – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items