Eftirfarandi er hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980. Skrifin eru í framhaldi af skoðun hans á hlaðinni refagildru á Norðausturlandi er þótti merkileg, ekki síst fyrir það að einungis var þá vitað um mjög fáar aðrar slíkar hér á landi, þ.á.m. við Selatanga og Grindavík. Skrifin eru einkar áhugaverð þegar haft er í huga að nú, aldarfjórðungi síðar, eru 102 slíkar þekktar á Reykjanesskaganum einum, landssvæði sem jafnan hefur þótt lítt áhugavert í augum fornleifafræðinga.
Refagildra á Reykjanesskaga.
„Víða um landið eru örnefni, sem hafa að fyrra lið orðið gildra. Þannig eru fjölmörg Gildruholt, Gildruklettar og Gildrumelar og getur sumsstaðar að líta á þessum stöðum steinhrúgur, sem líkjast stundum föllnum vörðum, en sums staðar sést á þeim nokkur lögun. Þetta eru refagildrurnar, sem tíðast hafa verið hlaðnar á klöpp eða þar sem jarðvegur var svo þéttur, að refirnir gátu ekki grafið sig út úr þeim.
Sennilegt er, að grjótgildrur þessar hafi verið algengasta veiðitækið á refi hérlendis áður en byssur urðu algengar. Dýrabogar hafa þó þekkst lengi, enda er minnst á boga í kvæðinu um Hrafnahrekkinn og notaði veiðimaðurinn hann samhliða gildrunni, en trúlega hafa þeir fyrst orðið algengir á síðustu öld.
Refagildra við Hraun. Sigurður Gíslason ásamt Sesselju Guðmundsdóttur.
Erlendis voru stærri veiðidýr, svo sem hreindýr, úlfar og birnir veidd í fallgryfjur, en eiginlegar fallgryfjur eru vart þekktar hérlendis. Thedór Gunnlaugsson lýsir þó í bók sinni Á refaslóðum, fallgryfjum sem gerðar hafi verið í snjó fyrrum, en ekki getur hann þess, hve veiðnar þær hafi verið, enda hefur hann aðeins heyrt um þessa veiðiaðferð. Heimild er þó um, að í Hornafirði hafi gryfjur verið hlaðnar úr grjóti með lóðréttum veggjum eða jafnvel svolítið inn yfir sig. Dýpt þeirra var nokkur, eða svo mikil að öruggt væri að dýrin gætu ekki stokkið eða klifrað upp úr gryfjunum. Á gryfjubotninum var agninu dreift.
Til eru lýsingar af grjótgildrum þar sem hvatt er til að bændur útbúi þær til refaveiða. Elsta og jafnframt gleggsta lýsing þeirra er í Atla, riti Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal, fyrst pr. Í Hrappsey 1780. Þar segir, að dýrabogar leggist nú mjög af, en bóndi veitir Atla þarna nákvæma fyrirsögn um, hversu hann skuli útbúa gildrur sínar. Er lýsingin í rauninni nákvæmlega hin sama og hér mun brátt skýrt frá, en gert er ráð fyrir að hellan, sem lokar munnanum, sé krossbundin eða með gati, til að hún hlaupi niður í réttri andrá.
Staðarberg – refagildra.
Í Lærdómslistafélagsritunum, XII b. 1792, er grein um refaveiðar eftir Þórð Þorkelsson. Hann nefnir grjótgildrurnar en lýsir þeim ekki, þar sem þeim sé lýst í Atla og efast hann jafnvel um gagnsemi þeirra. Víða í 19. aldar ritum eru greinar og leiðbeiningar um refaveiðar og má t.d. nefna grein í Reykjavíkurpóstinum 1848 þar sem segir, að slíkar grjótgildrur hafi verið víða tíðkaðar fyrrum en nær enginn beri nú við að nota þær. Þar segir einni, að dýrabogar séu nú orðnir sjaldséðir, og hafi hina gömlu veiðiaðferðir vafalaust þokað fyrir skotveiðinni á þessum tíma.
Theodór Gunnlaugsson, hin þekkta refaskytta, segist í fyrrnefndri bók sinni stundum hafa
Refagildra við Nes.
hlaðið grjótgildrur við greni til að veiða yrðlinga í eftir að fullorðnu dýrin höfðu verið unnin og mun hann sennilegast vera síðastur manna til að nota þær hérlendis.
Vafalaust hafa ýmsir orðið til að taka upp notkun grjótgildra eftir hvatningu Björn Halldórssonar í Atla. Atli var prentaður þrívegis og fyrstu prentuninni að minnsta kosti dreift ókeypis og hafa því margir kynnst því riti á 18. og 19. öld. En það lætur að líkum að veiðiaðferðin hefur verið seinleg og gildrurnar ekki alltaf fengsælar og hefur t.d. skotveiði úr skothúsum verið margfalt stórvirkari, enda mjög tíðkuð á síðustu [19.] öld að minnsta kosti.
Grjótgildrur eru þekktar á Grænlandi og hefur svo verið talið, að þær væri frá tímum Grænlendinga hinna fornu, en þær hafa einnig verið notaðar þar í seinni tíð af bændum landsins. Er mér næst að ætla, að Grænlendingar hafi lært notkun þeirra af norrænum mönnum ámiðöldum, en dæmi eru um, að þeir hafi tekið upp áhöld og vinnuaðferðir norrænna manna. Sá ég líka gildru á Grænlandi 1977 í grennd við forna rúst í Qordlortoq-dal, og virtist hún helst vera frá byggð norrænna manna, en einnig voru þar í notkun nýjar refagildrur af nokkuð annarri gerð.
Refagildra við Kánabyrgi.
Sigurður Breiðfjörð lýsir grænlenskum gildrum í bók sinni frá Grænlandi, sem kom út 1836, en einkennilegt er, að hann virðist ekki þekkja notkun slíkra gildra á Íslandi og hvetur bændur hér til að setja slíkar skollagildrur, eins og hann nefnir þær, í landareignum sínum.
Ég hef ekki gert gangskör að því að kanna útbreiðslu þessara gildra, en viðbúið er að langflestra þeirra sé getið í örnefnaskrám einstakra jarða, sem vaðveittar eru í Örnefnastofnun Þjóðminjasafnsins. Árið 1964 var send út spurningaskrá frá Þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins þar sem spurt var aukalega um slíkar refagildrur og hvað menn kynnu að segja um notkun þeirra. Bárust svör allvíða að af landinu og reydust 20 heimildarmenn þekkja gildrur eða leifar þeirra eða þá örnefni, sem ótvírætt benda til að gildrur hafi verið á þeim stöðum, þótt þeirra sæjust stundum engar leifar nú. Eru þessir staðir dreifðir um allt land að kalla má, sumir úti við sjó en aðrir inn til landsins, venjulegast í grennd við bæi eða beitarhús, þar sem menn fóru of um á vetrum…
Selatangar – refagildra.
Á hraungarði vestan við Selatanga eru nokkrar hlaðnar refagildrur og hjá Grindavík er rúst af gildru.
Greinilegt er af lýsingum þeirra, sem upplýsingar hafa gefið um gildrur þessar, að þær eru flestar af sömu gerð, úr allstóru grjóti, aflangar og munninn látinn snúa undan veðurátt.
Einn heimildarmaður greinir frá slíkri gildru úr tré, aflöngum tréstokki um 3 álnir á lengd og voru lok við báða enda og rann annað fyrir er refurinn var kominn inn í stokkinn, en grjóti var hlaðið umhverfis stokkinn svo að minna bæri á honum utan frá séð.
Gildra á Húsafelli sýnir vel hversu grjótgildrur voru gerðar í meginatriðum. Gildran er hlaðin efst á klettakambi og lítur út til að sjá eins og grjóthrúga. Hefur hún áreiðanlega alla tíð verið mjög áberandi og er svo um aðrar þær gildrur, sem ég hefi séð og hefur greinilega ekki verið reynt að fela þær eða hylja þær jarðvegi. Hefur verið leitast við að hafa gildrurnar þar sem hátt bar svo að þær færu ekki á kaf í snjó og mestu máli skipti, að þær væru þar sem refir fóru um í ætisleit á vetrum, en gildruveiðar munu einkum hafa verið stundaðar að vetrarlagi.
Refagildra á Tjarnholti.
Gildran á Húsafelli er þannig gerð, að á klappirnar hefur verið hlaðið stórum steinum, sem sumir eru vel meðalmannstak. Eru þrír steinar í röð hvorum megin og milli þeirra um 30 cm bil, en fyrir enda tveir steinar. Þannig myndast eins konar gangur, um 150 cm langur, sem er opinn í þann enda sem í norður snýr, og þar er munninn, sem lágfótu hefur verið ætlað að fara inn um. Ofan á grjótganginum eru síðan aðrir stórir steinar, sem mynda þak. Síðan hafa allar glufur og op verið þéttuð með minni steinum oggengið svo frá, að sem minnst op væru á gildrunni nema munninn.
Refagildra ofan við Húsfell.
Milli tveggja fremstu steinanna í þakinu er nokkur glufa. Þar hefur verið skorðað allvænlegt hellublað, sem enn lá hjá gildrunni, um 20 cm breitt neðst og um 30 cm hátt, og gegnum það er klappað smágat ofarlega. Í gatinu hefur verið trétittur, sem legið hefur milli þaksteinanna og hellan þannig hangið uppi. Í tittinn var síðan bundið snæri, sem lá ofan á gildrunni og niður í hana aftast, hinn endinn bundinn í agnið, sem væntanlega heftir tíðast verið kjötbiti. Lá agnið innst í gildrunni og var nú útbúnaðurinn þannig, að þegar tófan skreið inn í gildruna og glefsaði í agnið og dró það til sín, kipptist titturinn úr gatinu og hellan rann niður.
Refagildra ofan Húsatófta.
Rýmið í sjálfri gildrunni hefur verið við það miðað, að tófan kæmist mátulega fyrir en gæti ekki snúið sér við. Þannig átti hún erfitt með hreyfingar og gat með engu móti komist út aftur, enda var hún nú auðunnin í gildrunni, t.d. með broddstaf, sem lagt var inn á milli steinanna.
Gildra af þessari gerð er í raun einföld, en talsverða nákvæmni hefur þurft til að stilla helluna svo vel af, að hún rynni auðveldlega niður og skorðaðist og lokaði refinn inni. Er líklegt, að gildrur þessar hafi verið misvel veiðnar, enda er lágfóta kæn og kvekkist auðveldlega og er vör um sig, ekki síst ef hún finnur mannaþef af agninu. En í hörðum árum, þegar sultur svarf að, hefur svengdin orðið tortryggninni yfirsterkari.
Þessi gildra er hin eina, þar sem ég veit til að hellan hafi verið með gati fyrir trétitt. Annars hefur hellan yfirleitt verið krossbundin og lykkju á hinum enda bandsins bundið um afsleppan trétitt eða hvalbeinshæl innst í gildrunni þar sem agninu var komið fyrir, líklegast oftast smeygt bak við bandið.
Refagildra við Húsatóftir.
Þegar glefsað var í agnið kipptist bandið fram af tittinum og hellan féll niður.“
Rétt er að endurtaka það sem fyrst var sagt; að FERLIR hefur nú staðsett og skoðað um 80 hlaðnar refagildrur, sem hér hefur verið lýst, á Reykjanesskaganum. Sumar þeirra verða að teljast fornar og sennilega eru þær allar eldri en 100 ára og því friðaðar skv. ákvæðum gildandi þjóðminjalaga.
Heimild m.a.:
–Hluti af skrifum Þórs Magnússonar, Hrafnahrekkurinn – sitt af hverju um refagildrur – úr Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1980.