Tag Archive for: refagildra

Úlfljótsvatnskirkja

Stefnan var tekin að Úlfljóstvatni með það fyrir augum að skoða nokkra staði er getið er um í heimildum, s.s. Brynkastein, Borgarvíkurhelli (fjárskjól), refgildru og gamlar leiðir í nágrenni við bæinn.
BrynkasteinnNorðan við Heiðartjörn sunnan Úlfljótsvatns er stór steinn á heiðinni skammt frá fornri þjóðleið, sem enn sést glögglega í móanum. Tveir aðrir minni steinar eru við þennan þjóðsagnakennda stein. Lóa hafði verpt fjórum eggjum við gömlu götuna.
Leið þessi liggur norður yfir heiðina á milli Bíldsfells og Úlfljótsvatns, austan við Heiðartjörn. Leiðin er allt að 3 m á breidd þar sem mest er og 0,3 – 0,6 m djúp. Hún skiptir sér í a.m.k. 2 rásir á kafla. Nýlegur malarvegur þverar leiðina skammt norður af Heiðartjörn. Þar eru krossgötur þar sem önnur fornleið beygir af í átt að Keramýri (líklega í átt að ferjustað á sunnanverðu vatninu.
Brynkasteinn er nú milli tveggja rafmagnsstaura. „Hann hefur verið nefndur Brynkasteinn síðan 1898, kenndur við Brynjólf Jónsson frá Minna-Núpi. Hann var þá barnakennari á Bíldsfelli og fór til messu á Úlfljótsvatni í miklum snjó og ófærð. Komst hann að steini þessum, en var þá með öllu uppgefinn.

Kirkjuklif

Samferðamenn hans, sem voru tveir, skildu hann þá þarna eftir, en fóru sjálfir alla leið að Úlfljótsvatni, fengu sleða og drógu hann á honum til kirkjunnar“, eins og segir í örnefnalýsingu fyrir Úlfljótsvatn. Steinninn er um 3 x 3 m stór og 2,5 m á hæð. Minnir hann nokkuð á hús með burst.
Skammt norðvestar, efst á hól austanvert í Hádegisholti, er eyktamark, um 70 m vestur af malarvegi. Þetta er varða úr grjóti, 1,3 x 1,7 m (ANA – VSV) og 0,7 m há.
Eyktarmarkið er nokkuð fallið. Neðstu steinarnir eru mosavaxnir.
Þá var haldið í Borgarvík vestan við Úlfljótsvatn eftir viðkomu við kirkjuna. Saga er til tengdu einu leiðanna í kirkjugarðinum, en hún var ekki rifjuð upp að þessu sinni. Í brekkunni gegnt kirkjunni að vestanverðu má greinilega sjá forna götu liggja þar upp klif; Kirkjuklif.

Borgarvikurhellir

Leiðin liggur rétt ofan við kirkjuna og neðan við núverandi malarveg og upp á hálsinn. Í örnefnalýsingunni segir: „Kirkjuklif heitir brekkan, þar sem gatan liggur upp frá bænum upp á þjóðveginn.“
Þá var komið í Borgarvíkurdal. „Borgarvíkurdalur heitir slétt harðvellisflöt vestast í Borgarvíkinni og brattar hæðir til beggja hliða. Borgarvíkurhellir er vestast í Borgarvíkurdalnum að sunnanverðu. Hann var til forna notaður fyrir fjárskýli. Þar sjást enn nokkur mannaverk.“
Engar hleðslur sáust við skoðun né nokkur önnur mannaverk. Hellirinn er innlangur, þröngur og hár; ágætt skjól fyrir nokkrar skjátur. Hugsanlega eru öll fyrrum ummerki komin á kaf í sand eða áfok, sem sjá má á vettvangi. Hellirinn er í mjög áberandi sandsteinskletti sem er sprunginn eða klofinn á nokkrum stöðum.

Gildruholl

Gengið var upp á Gildruhól skammt norðan þjóðvegarins á mörkum Úlfljótsvatns og Villingavatns. Girðing liggur austan hólsins, sem er aflöng lág hamraborg, nokkuð slétt að ofan. Efst á Gildruhólnum norðanverðum er  refagildran, sem hóllin dregur nafn sitt af. Gildran er óheilleg og að nokkru komin í mosa. Opið hefur trúlega snúið mót VSV. Gildran er nær horfinn í mosa. Hún er byggð úr hellum sem mynda einkonar göng frá opi inn í endann (þar sem agnið hefur trúlega verið sem lokaði fyrir opið þegar refurinn var kominn inn).  Um 7 m suður af gildrunni er varða; um 0,8 – 0,9 m í þvermál og 0,4 m há. Hún er fallin að hluta. Neðstu steinarnir eru vaxnir mosa. Varða þessi hefur væntanlega varðað refagildruna.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Valdimar Briem. „Æfisaga Brynjúlfs Jónssonar frá Minna-Núpi.“ Árbók Hins ísl. fornleifafélags 1915. Reykjavík 1916.
-Örnefnaskrá. Úlfljótsvatn. Handrit 1944. Örnefnastofnun Íslands.

Brynkasteinn

Brynkasteinn.

Eldvörp

Í Fréttablaðinu árið 2012 er umfjöllun;  „Gengu fram á óþekktar minjar„, eftir  Óla Kristján Ármannsson. Fjallað er um minjar í og við Eldvörp ofan Grindavíkur.

Óli Kristján Ármannsson

Óli Kristján Ármannsson.

„Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, fornleifafræðingur og áhugamaður um náttúru og menjar á Reykjanesi, telur að mannvistarleyfar í Eldvarpahrauni við Grindavík kunni að vera enn eldri en talið er. Í félagi við annan gekk hann fyrir nokkrum árum fram á byrgi sem enginn hefur komið nálægt í hundruð ára. Hann leiddi blaðamann og Gunnar V. Andrésson ljósmyndara um svæðið og fræddi um kenningar sínar. Minjarnar séu „Tortóla“ verkafólks við útgerð.

Fornminjar í Eldvarpahrauni þarf að rannsaka mun betur áður en tekin er ákvörðun um aðrar framkvæmdir á svæðinu, sem er í nýtingarflokki í drögum að rammaáætlun. Eldvörp eru norðvestur af Grindavík, ekki ýkja langt frá Bláa lóninu. Þar er að finna lítt rannsakaðar mannvistarleifar.

Gunnar V. Andrésson

Gunnar V. Andrésson.

„Og aldrei að vita hvað annað kæmi í ljós ef fram færi gagnger rannsókn á svæðinu,“ segir Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur, sem safnað hefur margvíslegum fróðleik um náttúrufar og minjar á Reykjanesi. Hann telur að minjar sem er að finna í Eldvörpum séu jafnvel enn eldri en leitt hefur verið líkum að áður, því þær kunni að tengjast útgerð í Grindavík, en heimildir eru um verstöð þar frá miðöldum, allt frá tólftu og fram á fimmtándu öld.
„Menn hafa velt upp alls konar hugmyndum um þessi hlöðnu byrgi, þar á meðal hvort þarna kunni að hafa verið felustaðir sem fólk hafi komið sér upp eftir Tyrkjarán af ótta við fleiri árásir,“ segir hann, en telur sjálfur útilokað að þarna sé um einhverja mannabústaði að ræða, einkum smæðar þeirra vegna.

Ómar Smári Ármannsson

Ómar Smári Ármannsson.

„Mér finnst líklegra að þarna hafi verið fiskigeymslur. Nokkurs konar „Tortóla“ þess tíma þar sem verkafólk gat skotið fiski undan og sótt í þegar vistir þraut. Útvegsbændur áttu ekkert í þá daga – Skálholtsstóll átti allt. Sækja mátti þarna fisk til nauðþurfta. Um tveggja alda skeið sultu Grindvíkingar heilu hungri. Það skyldi því engan undra að þeir hafi reynt að koma einum og einum fiski í skjól til nota þegar í nauðir rak. Fólk þurfti ekkert að hlaða sér felustaði þarna í hrauninu þar sem nóg er um rúmgóða hella þar sem fjöldi fólks hefur getað látið fyrirberast. Auk þess líkjast byrgin í Eldvörpum öðrum fiskigeymslum með ströndinni, hvort sem er í Strýthólahrauni, við Nótarhól eða á Selatöngum.“

Fundu áður óþekkt byrgi
Um leið áréttar Ómar Smári að kenningar þessar kalli allar á mun meiri rannsóknir til þess að nálgast megi lausnina á þeirri ráðgátu sem þessar mannvistarleifar í Eldvörpum eru. Standist kenningin um undanskotið gæti þarna hins vegar verið um að ræða mannvistarleifar frá því ekki löngu eftir að gaus síðast í Eldvörpum 1228.
EldvörpÞá segir Ómar Smári annað benda til þess að hlöðnu byrgin hafi verið notuð undir eitthvað matarkyns. Á svæðinu eru nefnilega um sjötíu hlaðnar refagildrur sem enn sjást. „Og þá hafa menn viljað koma í veg fyrir að refurinn kæmist í eitthvað.“ Að auki voru refaskinn allmikil verðmæti hér áður fyrr og því eftir nokkru að slægjast með því að veiða refinn.
Eins bendir staðsetning byrgjanna til þess að um felustaði af einhverju tagi hafi verið að ræða. „Það fer enginn hingað lengst inn í torfarið hraun án einhvers sérstaks erindis,“ segir Ómar Smári. Enda er það svo að jafnvel nú, með vegi í grennd og göngufólk ágætlega búið, að handleggur er að komast að byrgjunum.
EldvörpNokkur hlaðin byrgi eru þekkt í Eldvarpahrauni og greinilegt að þangað hefur göngufólk komið til að skoða þau. Það svæði hefur verið þekkt frá því það fannst aftur, að sögn Ómars Smára, árið 1872. Seinna fjallaði Ómar Ragnarsson svo um það í einum af Stiklu-þáttum sínum í Sjónvarpinu. Alls er þar að finna um tólf hleðslur, að sögn Ómars Smára, byrgi og refagildrur.
Ómar Smári og félagi hans Óskar Sævarsson römbuðu svo fram á tvö til viðbótar nokkru fjær árið 2006 í einni af gönguferðum þeirra. „Það var eiginlega Óskar sem rak augun í þetta þar sem við stóðum þarna á gjábarminum. Eru þetta ekki hús, sagði hann og benti? Jú, sagði ég. Tvö!“ Einu sporin í mosanum við þessi byrgi eru eftir Ómar sjálfan. „Þarna væri kjörið að taka jarðvegssýni í öðru hvoru byrginu til aldursgreiningar,“ segir hann.

Verðgildi svæðisins gæti aukist
EldvörpByrgin eru hlaðin úr hraunhellum. „Síðan hefur verið hlaðið rekaviði ofan á og fergt með hraunhellum. Við þetta myndast kjöraðstæður til að geyma þurrkaðan fisk, annað hvort í stæðum eða hengja hann í rjáfur,“ segir Ómar Smári, en hraunið er náttúrulega þannig að ofan í það hverfur raki og svo blæs í gegn um hellurnar sem hjálpar til við að halda fiskinum þurrum. „Ofan í þessum byrgjum má núna sjá hellurnar sem hafa hrunið ofan í þau þegar rekaviðurinn hefur fúnað undan þeim í aldanna rás.“
Byrgin eru svo ekki einu leifarnar um mannvistir í hrauninu. Ekki langt frá borholu HS Orku í Eldvörpum er að finna stóran helli þar sem fjöldi fólks gæti látið fyrir berast. „Og inni í hellinum er hlaðinn garður þannig að ekki sést hvað er fyrir innan,“ segir Ómar Smári.

Eldvörp

Í Brauðhelli.

Alveg ofan í borholunni er svo svokallaður Brauðhellir, en hann opnaðist þegar jarðýta braut ofan af honum við framkvæmdir á svæðinu. „En hitaveitan má eiga það að þeir gengu vel frá í kringum hann og pössuðu upp á hann eftir að hann kom í ljós.“ Áður var bara á hellinum lítið op og mikil gufa í honum og hiti sem væntanlega hefur verið nýttur til að seyða brauð og nafnið af því dregið, en í hellinum má líka sjá fornar hleðslur.

Eldvörp

Í Eldvörpum.

„Allt þetta svæði þarf að kanna í leit að fornminjum,“ segir Ómar Smári og telur að varlega þurfi að fara í frekari orkuvinnslu í Eldvörpum. Í drögum að rammaáætlun eru Eldvörp í nýtingarflokki og áform uppi um að reisa þar allt að fimmtíu megavatta jarðhitavirkjun. „Ef þetta fær að vera óraskað í eitt til tvö hundruð ár þá margfaldast verðgildið í náttúruperlum eins og þessum. Nálægðin við þéttbýli gefur svæðinu líka aukið gildi.“

Eldvörp

Hellir nálægt Bláa lóninu.

Ómar Smári Ármannsson er aðstoðaryfirlögregluþjónn í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fornleifafræðingur. Hann er sérstakur áhugamaður um gönguleiðir, náttúru og sögu Reykjanesskagans og heldur úti ferðavefnum Ferlir.is, þar sem boðið er upp á margvíslegan fróðleik um svæðið, auk skipulegra gönguferða fyrir smærri og stærri hópa. Fram kemur á vefnum að upphaflega hafi FERLIR staðið fyrir „FErðahóp Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík“ sem hóf starfsemi árið 1999. Verkefnið vatt svo upp á sig.
„Og ég fór í fornleifafræði, svona til þess að fræðimennirnir gætu ekki slegið mig af borðinu sem áhugamann,“ segir Ómar Smári kankvís.“

Heimild:
-Fréttablaðið, 125 tbl. 15.12.2012, Gengu fram á óþekktar minjar – Óli Kristján Ármannsson, bls. 36.
Eldvörp

Hraun

Eftirfarandi grein birtist í Þjóðviljanum árið 1964 og segir frá „Refagildru á Látrum við Bjargtanga„. Frásögnin er áhugaverð, ekki síst vegna lýsingar höfundar (sem er óþekktur) á grjótgildrunni sjálfri.

Grjótgildra„Líklega hafa flest ykkar haldið að verið væri að ljúga að ykkur þegar þið lásuð á forsíðunni að myndin þar væri af refagildru! Þegar ég kom fyrst að Látrum og Ásgeir vitavörður sýndi mannvirki þetta, sem er eigi f jarri Bjargtöngum, varð mér fyrst á að efast um að skýring hans væri rétt. Enda þótt Ásgeir virðist í hópi þeirra manna sem aldrei ljúga vísvitandi gat skýring hans verið röng, en hann talaði um það sem gamla og sjálfsagða vitneskju og staðreynd, að þannig hefðu refagildrur verið áður fyrrum. Á sl. sumri mun hann hafa stungið því að mér að lýsing á slíkum gildrum væri í Atla. Atli er raunar okkar fyrsta búnaðarfræði sem sr. Björn Halldórsson skrifaði 1777, einmitt í þessu byggðarlagi — í Sauðlauksdal og var bókin prentuð í Hrappsey 1780. Og því fór ég að blaða í Atla, sem er skrifaður í formi góðra ráða gamals bónda til manns sem vill byrja búskap. Þar stendur m.a.:
Refur„. . . Allra minnst kostar þig, að gjöra þér tófugildru, viðlíka og þú getur séð hana uppá brúninni hér fyrir ofan bæinn, en hún er gjörð eftir forskrift nokkurs gamals prests, sem gaf mér hana, og með því sá umbúnaður er nú flestum ókenndur hér í grenndinni vil ég segja þér hann. Hún er þessi:
1) Gildran sé hlaðin á hellu eða grjótgrundvelli, sem tóft eða kvíar, nokkuð lengri og hærri en tófa kann að vera, en svo þröng að tófa geti ekki snúið sér þar inni.
2) Í gafli miðjum standi tréhæll afsleppur neðanverðu.
3) Síðan er byggt yfir þessa tóft með grjóti svo það hlað hafi hæð sjálfrar jarðarinnar.
4) Innar við gaflinn skal vera svo mikið op, að þar verði bæði náð inn til að egna og líka að veiðin megi þar út takast ef á þarf að halda.
5) Strengur með lykkju á endanum, smokkaður á hælinn liggur svo uppúr þessu opi yfir á minnstu grjóthlaði, allt til dyra: þar er krossbundin hella (eða með gati) í hans öðrum enda, sem til ætlað er að niður detti, og því skal grjóthlaðið vera svo þykkt, sem hæð hellunnar verður að vera.
refagildra - teikning 5016) Fyrir framan dyrnar standi fallega kantaðir steinar sinn hvoru megin, svo langt frá að hellan hafi nóga þröm eða pláss til að falla í millum þeirra og gildruveggjanna, en fyrir ofan lykkjuna á hælnum hangir agnbiti á annarri lykkju, svo til ætlað er að tófa kippi strengnum fram af undir eins og agninu.
7) Þegar gildran er tvídyruð þá er sín hella við hvorn enda, eins og fyrr segir um þá eindyruðu, en agnhællinn í miðjum vegg annarhvorrar langhliðar og á honum báðir hellustrengirnir.
8) Líklegt er að tófur séu óvarari við þá tvídyruðu. Loksins er agnið með grjóti byrgt, og allt látið verða sem líkast náttúrlegu grjótholti.“
Eftir þennan lestur verður vart um það deilt að skýring þeirra Látramanna, um hæla strengi og fallhellu, hafi hvorki verði staðlaus þjóðsaga né hugarórar. heldur gömul raunhæf vitneskja.
Ósagt skal látið hvort annað mannvirki þessarar tegundar fyrirfinnist óhrunið á landinu, en sé svo væri gaman að vita það. — Þegar þið athugið myndina getið þið nokkuð séð stærð gildrunnar með samanburði við filmupakkann sem er á hellunni framan við innganginn.“

Heimild:
Þjóðviljinn 16.02.1964, bls. 53.

Borgarkot

Borgarkot – refagildra.

Vífilsstaðir

Ólafur Marteinsson fann hlaðna refagildru í gönguferð um Urriðavatnslandnám og Svínahraun 11.12.2005. Gildran er ca. 660 m frá Vífilstaðaspítala. Hann skoðaði síðan gildruna nánar þann 26.12.2005. Ólafur taldi gildruna, sem er utan alfaraleiðar, greinilega forna, „þakið á gildruhólfi er fallið að hluta en veggir heilir og inngangur sömuleiðis“.

Refagildra

Refagildran.

Við skoðun á mannvirkinu kom í ljós að þar gæti hafa verið um refagildru að ræða, en þar sem hún er hvorki í lægð undir brún, á brún eða á „tilleiðanlegum“ stað fyrir tófuna, heldur á litlum hraunhól, er líklegast að hún hafi verið gerð í tilteknum tilgangi. Þegar umhverfið er skoðað nánar má sjá að hlaðið hefur verið sunnan við gildruna, eins og umhverfis op á greni. Gildran sjálf er svo til hliðar við grenið. Þarna gæti verið komin skýringin á tilvist refagildrunnar á þessum stað. Hún hafi verið gerð til að leiða rebba „rétta“ leið að greninu og þá…. – tófubandið snarast af hælnum og lokhellan féll. Enn mátti heyra ámótlegt vælið í dýrinu.
Skoða mætti nánar hliðarhleðslurnar.

Svínahraun

Í Svínahrauni.