Færslur

Öskjuhlíð

Í “Byggðakönnun; fornleifaskrá og húsakönnun fyrir Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð” frá árinu 2013 má lesa eftirfarandi um Víkursel:

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð – á kafi í gróðri.

“Vestan í Öskjuhlíðinni er merkilegur staður sem nefnist Víkursel. Nafngiftin bendir til seljabúsakapar þar. Helgi M. Sigurðsson sagnfræðingur rannsakaði sögu selsins og ritaði eftirfarandi:
Elsta ritaða heimild um seljabúskap Reykjavíkurbænda er eignaskrá, öðru nafni máldagi, frá 1379. Er selið þar sagt vera í Víkurholti, sem gæti verið eldra nafn á Öskjuhlíð en einnig eru getgátur um að það hafið verið Skólavörðuholt. Staðsetning selsins framan af er þannig óljós. Selin gætu raunar hafa verið fleiri en eitt og vísast hafa þau verið flutt til í aldanna rás.

Í máldögum frá 1397 og 1505 er ekki getið um selið. Ekki er þó ástæða til að álykta að seljabúskapur hafi legið niðri á því tímabili, því máldagarnir er mjög fáorðir um búskaparefni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Víkursel kom við sögu atburða sem gerðust nálægt aldamótum 1600 og vörðuðu tildrög hjúskapar. Séra Gísli Einarsson, hálfbróðir Odds biskups, „fékk lítilmótlega giftingu, átti mörg börn, en erfitt bú og hjónaband.“ Kona hans var Þórey Narfadóttir bónda í Reykjavík. Frá því er greint að Gísli, þá óvígður, hafi átt leið um Mosfellsheiði og náttað í Víkurseli. Var Þórey í selinu en smalamaður fór heim um nóttina og tilkynnti Narfa bónda mannkomuna. Hann brá við skjótt og var kominn snemma næsta morgun til selsins að óvörum komumanni, gekk hart fram og neyddi Gísla til að taka Þóreyju að sér og ekta hana. Klemens Jónsson, skrásetjari Reykjavíkursögu 1929, dró þá ályktun af frásögn þessari að selið hafi verið undir Mosfellsheiði. En hann hefur í raun ekki á miklu að byggja í því efni.

Víkursel

Víkursel í Öskjuhlíð.

Elsta heimildin sem með vissu greinir frá því að Víkursel hafi verið í Öskjuhlíð er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá 1703. Selsins er getið á eftirfarandi hátt: „Selstaða er jörðinni eignuð þar sem heitir Víkursel undir Undirhlíðum; sumir kalla það gamla Víkursel; þar hefur jörðin brúkað hrís til eldiviðar fyrir selsins nauðsyn.“ Undirhlíðar voru Öskjuhlíð sunnan- og vestanverð. Athyglisvert er að hér er talað um „gamla Víkursel.“ Það styður þá ályktun að löng hefð hafi verið fyrir selinu á þessum stað.

Víkursel

Víkursel – stekkur.

Skýrasta lýsingin á staðsetningu Víkursels er frá upphafi 19. aldar, um það leyti sem það var lagt niður. Kona að nafni Elín Þórðardóttir, Sighvatssonar í Hlíðarhúsum, var síðasta selráðskonan í Víkurseli. Árið 1828 var hún beðin að gefa vitnisburð um landamerki milli Reykjavíkur og Skildinganess og sagði þá meðal annars: „Sel hafði faðir minn og allir hans forfeður vestan og sunnan undir Öskjuhlíð…“ Þessi vitnisburður færir okkur talsvert áleiðis.

Víkursel

Víkursel.

Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur skráði í fornleifaskrá Reykjavíkur Víkursel, en hann taldi fornleifarnar vera ógreinilegar og ekki hægt með vissu að skera úr um hvort um sel væri að ræða. En það sem styrkir þá tilgátu að þetta sé Víkursel eru umhverfisaðstæður, það er að segja lækurinn og beitilandið sem hefur verið gott þarna í kring, auk þess sem stekkur er ekki fjarri. Í dag (2013) er selið hulið barrtrjám sem þarf að fjarlægja.”

Sjá meira um Víkusel HÉR.

Heimild:
-Vatnsmýri – Seljamýri – Öskjuhlíð; Byggðakönnun, Fornleifaskrá og húsakönnun – Reykjavík 2013, bls. 6-7.

Víkursel

Víkursel – fjárborg.