„Reykjanesfólkvangur“ hefur verið með kennitöluna 581280-0419 og póstfang að Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík í tæplega hálfa öld. Fulltrúar Reykjavíkur áttu á sínum tíma frumkvæði að stofnun fólkvangsins. Nú virðist ætla að verða breyting þar á.
Reykjanesfólkvangur.
Þann 19. apríl 2024 birtist frétt í Fjarðarfréttum undir fyrirsögninni; „Sveitarfélög á leið út úr samstarfi um Reykjanesfólkvang„.
Þar segir m.a. að „Stjórn Reykjanesfólkvangs fjallaði á síðasta fundi sínum um stöðuna sem er komin upp við úrsögn Reykjavíkurborgar úr fólkvanginum. Á fundinum kom fram að einnig Reykjanesbær teldi það ekki þjóna tilgangi né hag sveitarfélagsins að vera inni og muni því segja sig úr fólkvanginum. Bæjarráð Voga hefur lagt til við bæjarstjórn að Sveitarfélagið Vogar fari að fordæmi Reykjavíkurborgar og segi sig frá þátttöku í Reykjanesfólkvangi. Þá kom fram að Seltjarnarnes hefði ekki tekið formlega ákvörðun en líklega yrði úrsögn niðurstaðan.
Reykjanesfólkvangur – kort.
Fram kom að Reykjavík stefni á að ganga út 30. júní 2024 og greiða þá hálft gjald fyrir 2024 sem lokagreiðslu. Miðað við núverandi inneign í sjóði, og að Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík haldi áfram og að hin sveitarfélögin greiði að minnsta kosti hálft gjald þá kemur fram að mögulegt væri reka fólkvanginn út árið 2024 með sama hætti og fram að þessu. Einnig að svigrúm gæfist til að ákveða framtíðarfyrirkomulag.
Fyrir liggur að verkefni í Seltúni hafa vaxið mikið og tekið æ meiri tíma landvarðar og þarf að mati stjórnarinnar að taka það upp við Hafnarfjarðarbæ hvernig bregðast ætti við því. Einnig var nefnt að lista þyrfti upp verkefni landvarðar ef til þess kæmi að fela þyrfti nýjum aðila landvörsluna.“
Bláfjalla- og Reykjanesfólkvangur.
Eins og margir íbúar Reykjanesskagans vita er „Reykjanesfólkvangur ekki á Reykjanesi.
Fólkvangurinn er á sunnanverðum Reykjanesskaga og nær milli Vesturháls í vestri og að sýslumörkum Árnessýslu í austri og niður að sjó. Norðan megin liggja mörk hans meðfram Heiðmörk og Bláfjallafólkvangi. Að honum standa 8 sveitarfélög; Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær. Fólkvangurinn er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar. Þar er meiri gróður en víðast hvar annars staðar á Reykjanesskaga og er landið kjörið til útivistar og náttúruskoðunar.
Krýsuvík seinni tíma – uppdráttur ÓSÁ.
Innan fólkvangsins eru þessir helstu staðir Krýsuvík, Seltún, Kleifarvatn, Grænavatn, Krýsuvíkurberg, Vesturháls (Núpshlíðarháls) og Austurháls (Sveifluháls), Búrfell og Búrfellsgjá, Stóra-Eldborg og Brennisteinsfjöll. Upp á hálsunum eru nokkur smá vötn, Grænavatn, Gestsstaðavatn, Arnarvatn og Spákonuvatn. Í Djúpavatni er silungsveiði eins og í Kleifarvatni. Möguleikar til gönguferða í fólkvanginum eru nánast ótakmarkaðar.
Stærð fólkvangsins er 29.262,7 ha., þ.e. er um 300 km2 að stærð, langstærsta friðlýsta svæðið sinnar tegundar hér á landi.
Reykjanesfólkvangur var stofnaður sem fólkvangur með auglýsingu í Stj.tíð. B, nr. 520/1975 sbr. „Auglýsingu um fólkvang á Reykjanesi„:
Að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Seltjarnarness, Hafnarfjarðar, Keflavíkur og Grindavíkur, hreppsnefnda Garðahrepps, Njarðvíkurhrepps og Selvogshrepps hefur [Umhverfisstofnun] ákveðið að stofna fólkvang á Reykjanesskaga skv. 26. gr. laga nr. 47/1971.
Reykjanesfólkvangur – friðlýsing.
Takmörk svæðisins eru sem hér segir:
Lína dregin frá punkti í Heiðmerkurgirðingu undir Vífilsstaðahlíð (X-hnit 689007.0 m.) í punkt á mörkum Garðahrepps og Hafnarfjarðar við Kershelli. Þaðan eftir þeim mörkun inn fyrir sumarbústaðahverfi í Sléttuhlíð á hæð er Klifsholt heitir, þaðan beint í Steinshús sem er glöggt og gamalt eyktarmark. Frá Steinshúsi liggur línan beint í norðurhorn Skógræktargirðingarinnar undir Undirhlíðum. Síðan eftir norðvesturhlið girðingarinnar að suðurhorni hennar. Þaðan beint í punkt á mörkum Hafnarfjarðar- og Grindavíkurbæjar undir Markargili með X-hnit 692297.0 m. Síðan eftir mörkum í Markhelluhól.
Markhella.
Frá Markhelluhól stefna mörkin til suðurs eftir mörkum Vatnsleysustrandarhrepps eins og þau eru sýnd á korti gefnu út af U.S. Army Corps of Engineers og Landmælingum Íslands (mælikv. 1:50000), í punkt á þeim mörkum sem er suður af Höskuldarvöllum og austur af Oddafelli, X-hnit 701782.0 m og Y-hnit 388243.0 m. Þaðan beina línu undir Núpshlíðarháls í punkt vestan við Núpshlíð, X-hnit 707653.0m, Y-hnit 379312.0m. Frá þeim punkti beint í Dágon sem er klettur á Seltöngum við sjó fram vestan við Krýsuvíkurberg. Að austanverðu fylgja mörkin sýslumörkum úr Seljabót um Sýslustein og þangað norður sem markalína fólkvangsins í Bláfjöllum sker sýslumörk, þaðan norðvestur eftir mörkum þess fólkvangs í horn Heiðmerkurgirðingar við Kolhól og síðan réttsælis eftir Heiðmerkurgirðingunni að upphafspunkti lýsingar þessarar.
Hraunhóll – varða á mörkum Reykjanesfólksvangs.
Um fólkvanginn gilda eftirtaldar reglur:
1. Fótgangandi fólki er heimil för um allt svæðið og má ekki hindra slíka för með girðingu nema stigar til yfirferðar séu með hæfilegu millibili. Reiðgötum má ekki loka með girðingum. Þessi ákvæði eiga þó ekki við girðingar um vatnsból og ræktað land enda er umferð óheimil innan slíkra girðinga. Á skógræktargirðingu skulu einungis vera stigar.
Seltún – orkuvinnsla.
2. Allt jarðrask er bannað innan fólkvangsins nema leyfi [Umhverfisstofnunar] komi til. Undanskilin er hagnýting jarðhita, t.d. í Krýsuvík, og mannvirkjagerð í því sambandi, sbr. þó 29. gr. laga nr. 47/1971. Jafnframt verði ekki haggað þar eðlilegri nýtingu til búrekstrar, réttur til beitar er ekki skertur innan fólkvangsins og áskilinn er í Krýsuvík réttur til starfsemi í almannaþágu (svo sem heilsuhæli, skólar, gistihús o.þ.u.l.).
Skipulegur námurekstur, sem rekinn er innan fólkvangsins þegar auglýsing þessi verður birt í Stjórnartíðindum, má þó haldast, enda sé umgengni í samræmi við 18. gr. laga nr. 47/197.
Tekið er fram af hálfu sveitarfélaganna allra að með stofnun fólkvangsins telja þau ekki á neinn hátt raskað eignarrétti að landi því sem fólkvangurinn tekur til.
Vafi er talinn leika á hver séu mörk Grindavíkurkaupstaðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Þegar úr þessum vafa hefur verið skorið með samkomulagi eða dómi verða mörk fólkvangsins færð til í samræmi við það.
Trölladyngja á Reykjanesskaga.
Samvinnunefnd sveitarfélaganna allra fer með stjórn fólkvangsins og er hún skipuð einum fullrúa frá hverjum aðila.
Ráðuneytið er samþykkt stofnun fólkvangsins og tekur stofnun hans gildi við birtingu þessarar auglýsingar í Stjórnartíðindum. – Menntamálaráðuneytið, 1. desember 1975 – Vilhjálmur Hjálmarsson.
Árið 2011 var auglýst breyting á framangreindri auglýsingu:
Búrfell í Garðabæ.
Á eftir 1. mgr. auglýsingarinnar kemur ný málsgrein sem orðist svo: „Umhverfisráðherra hefur ennfremur að tillögu borgarstjórnar Reykjavíkur, bæjarstjórna Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Reykjanesbæjar og Grindavíkur ákveðið að Sveitarfélagið Vogar verði einnig aðili að stofnun og rekstri fólkvangs á Reykjanesi með þeim skuldbindingum sem í því felast, þ. á m. hafi fulltrúa í samvinnunefnd sveitarfélaganna um stjórn fólkvangsins“. – Umhverfisráðuneytinu, 6. desember 2011 – Svandís Svavarsdóttir.
Í Sogum.
Reykjanesfólkvangur er:
• Fólkvangur sem samkvæmt samkvæmt náttúruverndarlögum er friðlýst sem útivistarsvæði í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög. Fólkvangar eru stofnaðir að frumkvæði sveitarfélaga og sjá þau einnig um reksturinn. Tilgangurinn með fólkvöngum er að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.“
• Var stofnaður 1975 – Með undanþágu vegna jarðvarmanýtingar.
Spákonuvatn – Keilir fjær.
• Fólkvangur í lögsögu Garðabæjar Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Stærsti hluti fólkvangsins er í umdæmi Grindavíkur.
• Samstarf sveitarfélaga, sem nú standa að rekstri hans, eru Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Grindavík, Vogar og Reykjanesbær.
Arnarvatn á Sveifluhálsi.
Í fundargerð stjórnar Reykjanesfólksvangs þann 3. feb. 2021 segir:
Fundurinn var fjarfundur kl. 16.00
Mættir: Líf Magneudóttir, formaður, Andri Steinn Hilmarsson, Þorvaldur Örn Árnason, Þórður Ingi Bjarnason, Jóna Sæmundsdóttir, Sigurgestur Guðlaugsson, Guðmundur Grétar Karlsson og
Steinunn Árnadóttir.
Einnig sátu fundinn Óskar Sævarsson, René Biazone og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.
Kleifarvatn.
„Þetta gerðist:
1. Starfið í fólkvanginum 2020
Rætt um það helsta í starfsemi fólkvangsins á síðasta ári (ÓS). Mikið af Íslendingum á ferðinni. Mikið álag í vor sem var ekki gott fyrir svæðið. Rúturnar vantaði en mikil umferð bílaleigubíla í sumar. Nýtt salernishús sett upp í vor. Vinnuhópur kom í 2 vikur á vegum Umhverfisstofnunar. Unnið var við Eldborg í samvinnu við skipulagssvið Grindavíkur, loka slóða og afmarka bílastæði.
Krýsuvíkurberg – Eystri-Lækur fellur fram af berginu, nafnlaus.
Sinna þurfti kvikmyndaverkefni. Í jarðskjálftanum í okt. urðu skemmdir á Djúpavatnsleið. Einnig hrundi fylla úr Krýsuvíkurbjargi og komu sprungur. Sett var bráðabirgðalokun. Bláfjallavegi verið lokað en samt hægt að komast fram hjá. Þarf að klára frágang á bílastæði. Dreift var moltuefni í fólkvanginum sem var plastmengað á vegum Terra í samvinnu við Gróður fyrir fólk. Fara þarf betur yfir.
Skýrsla landvarðar verður lokið fyrir næsta fund.
Fundi slitið 17:20.“
Valahnúkar og Helgafell.
Í fundargerð stjórnarinnar 24. apríl 2023 segir:
Mættir: Kristinn Jón Ólafsson, Stella Stefánsdóttir, Ásrún Kristinsdóttir (fyrir Sigurveigu M. Önundardóttur), Sverrir B. Magnússon, Ingimar Ingimarsson.
Einnig sátu fundinn René Biasone UST, Óskar Sævarsson landvörður og Þórólfur Jónsson sem ritaði fundargerð.
Sveifluháls.
„Þetta gerðist:
1. Yfirferð um landvörslu
• Óskar Sævarsson kom á fundinn og kynnti helstu verkefni landvarðar.
• Samningur hefur verið um landvörslu frá 15. apríl til 1. nóv. ár hvert.
• Mikil aukning varð á fjölda ferðamanna 2019 og er ekkert lát á því. Það sést skýrt í talningum Ferðamálastofu sem er með teljara í Seltúni.
Helgadalur – Rauðshellir.
• Undanfarin ár hefur landvörður þurft að sinna mörgum verkefnum utan hefðbundins tímabils, t.d. kvikmyndaverkefni, viðvarandi ferðamannastraumur, eldgos o.fl., og því hefur verið greidd viðbótargreiðsla.
Seltún.
• Landvörður er tilbúinn til að sinna verkefnum áfram á þessu ári.
• Stjórnin samþykkti að gera samning við landvörð á sömu nótum og verið hefur að teknu tilliti til verðlagshækkunar.
2. Aðkoma Umhverfisstofnunar (UST)
• René Biasone fór yfir lagalega umgjörð Reykjanesfólkvangs, aðkomu UST sem m.a. gerir ástandsskoðun á friðlýstum svæðum og tekur saman í skýrslu árlega. Þar kemur m.a. fram slæmt ástand á Djúpavatnsleið.
Stóra-Eldborg og Geitahlíð.
• Samkvæmt náttúruverndarlögum gerir UST stjórnunar- og verndaráætlanir fyrir friðlýst svæði, en ekki hefur farið af stað vinna fyrir Reykjanesfólkvang. Stjórnin hefur áður skorað á UST að hefja slíka vinnu og var samþykkt að senda fyrirspurn til UST um
hvenær hægt verði að hefja vinnu við og ljúka stjórnunar- og verndaráætlun fyrir fólkvanginn.
3. Áform Reykjavíkur
• Kjörnir fulltrúar Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um að skoða grundvöll þess að Reykjavík dragi sig út úr rekstri Reykjanesfólkvangs frá árinu 2024.
Vetrarblóm við Kleifarvatn.
• Rætt var um hvort að fólkvangurinn eða hlutar hans ættu að falla í annan friðlýsingarflokk, jafnvel að verða þjóðgarður eða eitthvað annað fyrirkomulag. Rifjað var upp samtal við Reykjanes Geopark sem laut að því að skoða samstarf á sínum tíma.
• Ákveðið var að stjórnarmenn opnuðu samtal hver í sínu sveitarfélagi um ofangreint og kalla eftir kynningu á Reykjanes Geopark.
Fundi slitið 17:30. Stefnt á að næsti fundur yrði í Grindavík seinni hluta maí.“
Í „Lögum um náttúruvernd“ segir m.a. um landverði: „Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og aðrir starfsmenn. Hlutverk landvarða er m.a. að sjá um eftirlit og fræðslu.
Umhverfisráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Náttúruverndar ríkisins, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.“
Gengið um Selatanga á afmælishátíð Grindavíkur 2009.
Um Samvinnunefnd um rekstur fólkvangs segir í sömu lögum: „Sveitarfélög, sem standa að rekstri fólkvangs, skulu stofna með sér samvinnunefnd sem starfar í samráði við Náttúruvernd ríkisins. Í samvinnusamningi skal kveðið á um fjölda nefndarmanna og starfshætti nefndarinnar. Ef ekki er öðruvísi ákveðið ræður afl atkvæða. Þegar um er að ræða atriði sem hafa sérstakan kostnað í för með sér fer þó um atkvæðisrétt eftir greiðsluhlutföllum aðila, sbr. 56. gr.“
Húshólmi – skáli.
Líklega færi vel á því að þau sveitarfélög, sem eftir verða, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður og Grindavík er munu annast rekstur „Reykjanesskagafólkvangs“ skipi nýja samvinnunefnd, skipaða einum fulltrúa frá hverju sveitarfélagi, nefndarmenn verði ólaunaðir en hafi bæði áhuga og sérþekkingu á fólkvanginum sem slíkum. Fjárveitingum og styrkjum verði varið til landvörslu, einstakra uppbyggjandi verkefna og kynningar á gildi svæðisins.
Sjá meira um Reykjanesfólkvang HÉR, HÉR, HÉR og HÉR.
Kringlóttagjá.