Tag Archive for: Reykjanesbær

Melabergsgata

Ætlunin var að skoða hugsanlegar minjar á afgirtu svæði innan Keflavíkurflugvallar. Svæðið er að mestu óraskað og ættu þar jafnvel að vera minjar frá bæjarkjörnunum vestan Sandgerðis, s.s. selstöður, þjóðleiðir, vörður, skjól o.fl. Af loftmynd að dæma virðist á svæðinu og vera gatnamót gömlu Hvalsnes-/Melabergsleiðarinnar og gamallar götu milli Hafnavegar og Sandgerðis.

Göngusvæðið

Þegar FERLIR leitaði eftir því við fulltrúa öryggissviðs Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli að fá heimild til að ganga um afgirt norðursvæðið, sem nú flokkast sem flugöryggissvæði, en var áður ytra varnarsvæði NATO, voru viðbrögðin strax mjög jákvæð þrátt fyrir að afar ströng skilyrði er gilda um aðgang utanaðkomandi að því. Eftir að tímasetningin hafði verið ákveðin var safnast saman við aðalhliðið inn á svæðið. Skömmu síðar mætti starfsmaður stjórnarinnar á vettvang og opnaði, hleypti þátttakendum inn fyrir og lokaði á eftir þeim. Áætlað hafði verið að leit á svæðinu innan girðingarinnar tæki u.þ.b. þrjár klukkustundir. Svæðið hafði reyndar áður verið skoðað.
Byrjað var á því að ganga yfir að Margvörðum á Margvörðuhól. Hóllinn sá er rétt innan girðingarinnar að austanverðu. Þar kemur gamla Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan upp frá Ró[sa]selsvötunum ofan við Keflavík, fer undir girðinguna og liðast síðan í suðlægan sveig til vesturs innan varnargirðingarinnar, áleiðis að sunnanverðum Melabergsvötnum.

Kaupmannsvarðan

Gatan er mjög greinilega mörkuð í móann og víða hefur verið kastað drjúgum upp úr henni. Kaupmannsvarðan svonefnda setur óneitanlega svip á staðinn.
Frá Margvörðum liggur einig vörðuð gata í sömu átt, áleiðis að norðanverðum Melabergsvötnum. Göturnar koma saman vestan vatnanna. Þó svo að Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan frá Hvalsnesi að Melabergsvötnum beri þess glögg merki að hafa verið endurbætt sem hestvagnavegur hverfur sú endurgerð við norðvestanverð Vötnin. Engin ummerki eru heldur eftir slíka umferð í móanum milli hinnar þráðbeinu vörðuleiðar, þ.e. milli norðanverða Melabergsvatna og Margvarða. Vörðurnar á leiðinni standa hins vegar heilar, flestar a.m.k. Þetta bendir til þess að um hafi verið að ræða endurbætur á gömlu þjóðleiðinni um það leyti er þær reyndust óþarfar.

Hvalsnesleiðin/Melabergsgatan

Nokkur önnur slík dæmi má finna á Reykjanesskaganum, s.s. á Skipsstíg, Árnastíg og Alfaraleiðinni (Almenningsleiðarhlutanum). Þess vegna má ætla að vörðurnar hafi verið reistar um og skömmu eftir aldamótin 1900. Þær eru líka óvenju heillegar, þótt mosavaxnar séu mót austri. Tilkoma varnargirðingarinnar á fimmta áratug síðustu aldar gæti hafa stuðlað að varðveislu þeirra og girðingin þar með risið undir nafni (því varla hefur hún þjónað öðrum tilgangi þennan tíma að fenginni reynslu). Hafa ber í huga að gömlum vörðum hefur stafað fimmföld hætta; jarðskjálftum, ágangi skepna, skemmdarfýsn manna, frostveðrun og þyngdarlögmálinu. Áhrif þeirra margfaldast gjarnan eftir því sem tímalengdin er meiri. Girðingin hefur dregið úr ásókn manna og annarra skepna og þannig verulega líkur á röskun. Jarðskjálftaáhrif eru jafnan lítil á svæðinu svo langvarandi áhrif frostverkunnar og þyngdarlögmálsins eru þau einu sem eftir standa. Þar af virðist áhrif þyngdarlögmálsins hafa verið lítil sem engin því vel hefur verið vandað til verksins í hvíetna.

Fallin varða

Þegar gömlu Hvalsnesleiðinni/Melabergsgötunni var fylgt frá Margvörðum áleiðis að vestanverðri varnargirðingunni mátti sjá fallnar vörður sunnan hennar með reglulegu millibili. Auk þess að vera vel mörkuð í móann hafði leiðin verið vandlega vörðuð. Í raun þarf engan að undra hvers vegna. Hvalsnesprestakalli var um tíma þjónað frá Njarðvíkum og jafnvel Grindavík. Þá var aðalverslunarhöfnin um tíma á Básendum utan við Stafnes. Hún færðist síðan til Keflavíkur eftir Básendaflóðið 1799. Margmenni var í verum á hverfunum á vestanverðu Rosmhvalanesi, s.s. Stafneshverfi, Hvalnsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi, auk Sandgerðis. Hreppsstjórinn í hreppnum bjó um tíma í Fuglavík, auk þess sem, núverandi „hreppsstjóri“ gætir svæðisins sem hinn besti haukur. Gatnamót mátti sjá á leiðinni þegar hún hafði verið gengin 2/3. Af loftmynd að dæma mátti ætla að þarna hefði fyrrum verið leið milli Hafnavegar norðan Ósabotna og Sandgerðis (eða Fuglavíkur/Bæjarskers).

Vatnshólavarða

Við eftirgrennslan mátti sjá vörður sunnan götunnar. Þær lágu að þotubyrgjum NATO, sem varað hafði verið við að nálgast um of. Í ljós kom að „gatan“ á loftmyndinni var samfelld tréstauralína, sem legið hafði á ská niður heiðina. Staurarnir héngu flestir uppi, en verulega skakkir orðnir.
Utan í neðsta holtinu innan varnargirðingarinnar var varða og hlaðið lítið gerði. Frá því var stefnan tekin til norðurs, áleiðis að Vatnshólavörðunni. Hún hefur fyrrum verið bæði breið og há; augljóst leiðarmerki.
Í örnefnalýsingu fyrir Fuglavík segir um þetta svæði: „Rétt ofan við veginn er grjóthæð ílöng, sem heitir Dagmálahæð. Suður frá henni ofan við veg, Neðri-Stekkur og Efri-Stekkur. Langt uppi í haglendinu eru Selhólar, sem lentu í flugvallarlandinu. Ofan við veginn eru rústir eftir nýbýlið Hóla, sem brann. Vatnagarðar er dældin suður af vatninu. Þar hefur verið býli. Markahóll er grasi gróinn hóll upp í heiði á merkjum móti Melabergi. Vatnshólavarða er í brún frá bæ séð. Þar eru margir hólar, Vatnshólar, og draga nafn af Melabergsvötnum.“
Minjar símansTvær stauralínur liggja þarna um svæðið. Báðar hafa þær borið uppi símalínur millum miklvægra leiða á tímum hersetunnar. Frágangur þeirra bendir til tímasetningar í byrjun sjötta áratugs síðustu aldar. Nú hangir engin lína uppi, en staurarnir eru bæði misvísandi (í eiginlegri merkingu) og fagurfræðilegur vitnisburður (í óeiginlegri merkingu) um það sem var.
Þegar skoðuð er örnefnalýsing fyrir  Melaberg, þ.e. viðbót við lýsingu Magnúsar Þórarinssonar, má sjá eftirfarandi: „Til heiðarinnar langt ofan við bæ er svonefnd Grænalág. Austur af bæ norðaustur af Grænulág eru Syðri-Smérklettur og Nyrðri-Smérklettur. Suður af þeim eru tjarnir, sem heita Melabergsvötn. Þar norðaustur af eru Efrivötn. Þau þorna á sumrin. Þar áfram í sömu stefnu eru Brúsastaðir. Þetta er smáholt, en fékk þetta nafn fyrir löngu, af því að þar var maður á ferð með glerbrúsa. Þá er Ólafsvarða. Með gamla veginum ofan við Melabergsvötn er Neðri-Glæsir. Það er varða á hól. Þar rétt ofar er önnur, sem heitir Efri-Glæsir. Þar austur af eru Margvörður, og spotta suðaustur af Glæsi er mýrkenndur mói á sléttri flöt, sem heitir Melabergsengi. Innan við Margvörður er Kaupmannsvarða, sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“

Selvarða

Það má til tíðinda telja að hvergi er minnst á Hvalsnesleiðina/Melabergsgötuna í örnefnalýsingu fyrir Melaberg. Ekkert er heldur um Hvalsnesleiðina í örnefnalýsingu fyrir Hvalsnes. Ástæðan gæti verið sú að frásegjendum hefur þótt svo sjálfsagt að leiðin væri á hvers manns vitorði að ekki hafi verið talin ástæða til að geta hennar sérstaklega. Svo mun og hafa verið fyrrum í fornritum og frásögnum fólks að sjaldan var því lýst er þótt þá bæði sjálfsagt og hefðbundið.
Gengið var yfir að Vatnshólavörðunni og stefnan síðan tekin af henni á vörðu vestan við Fuglavíkursel. Þaðan sást vel til selvörðunnar á Selhólum.
Þegar Fuglavíkurselið var gaumgæft mátti sjá vatnsstæði bæði norðvestan og suðaustan við það. Selið sjálft, sem er mjög gróið, er ólíkt flestum öðrum hinna 250 selstöðva á Reykjanesskaganum (fyrrum landnámi Ingólfs).

Varða á efri Hvalsnesleiðinni

Leifar þriggja húsa eru í selstöðunni. Millum þeirra er hringlaga gerði líku fjárborg. Norðaustar eru hleðslur. Önnur, sú sem er fjær, gæti verið smalaskjól. Frá því er ágætt útsýni yfir efri vatnsstæðið, hugsanlegan nátthaga. Hin gæti hafa verið skjól fyrir refaskyttu í heiðinni, með efasemdum þó, því hleðslurnar voru óvenjumikið mosavaxnar.
Selvarðan er augljós og stendur enn að hálfu leyti. Selstígurinn er hins vegar óljós. Bæði vegna þess og vegna þess að hvorki er getið um eða hafa fundist aðrar selstöður í Miðnesheiðinni, þrátt fyrir margbæi, en Stafnessel ofan við norðanverða Ósabotna, má draga þá ályktun að þarna (í Fuglavíkurseli) hafi verið sameiginleg selstaða fyrir bæina neðan við ströndina (Hvalsneshverfi, Fuglavíkurhverfi og Bæjarskershverfi). Gerðið, sem er óvenju stórt af stekk að vera, gæti og bent til þess. Þá er aðgengi að vatni óvíða í heiðinni, en þarna var hægt að ganga að því sem vísu. Norðurvatnsstæðið var t.d. fullt þótt flest öll önnur væru upp þornuð á þessum tíma. Sveppur dró að sér athyglina.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. Flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli er sérstakleg þökkuð góð viðbrög og sanngjörn viðleytni til sögu- og minjaframlags á svæðinu.

Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Fuglavík.
-Örnefnalýsing fyrir Melaberg.
-Örnefnalýsing fyrir Hvalsnes.

Vatnshólavarða

Þórshöfn

Gengið var að Hunangshellunni er tengist þjóðsögunni um finngálknið (Rauðskinna) og viðureign mannanna við það. Á hellunni, sem er orðin nokkuð gróin, er vörðubrot. Ekki langt frá því lá alllangt etinn fugl (ekki ólíklegt að það geti verið eftir finngálknið forðum).

Hafnarvegur

Hafnarvegur.

Hafnagötunni gömlu var fylgt spölkorn til norðurs, en stefnan síðan tekin óhikað til norðvesturs, yfir móana, framhjá nokkrum vörðum og að áberandi vörðu ofan Djúpavogs. Ef spara á langan útidúr er nauðsynlegt að taka mið af henni því annars þarf að krækja fyrir nefndan Djúpavog, sem er alllangur.

Hunangshella

Hunangshella.

Við Djúpavog eru tóftir, brunnur, gerði o.fl., líkt og út á Selshellunni skammt sunnar. Einnig er tóft efst á austurbakkanum á móts við miðjan voginn. Gengið var upp eftir voginum og gömlu götunni fylgt, Ósabotnagötunni (Kaupstaðaleiðinni). Stafnesselið hefur skv. heimildum verið sagt týnt, en FERLIR gekk samt sem áður hiklaust fram á það. Tóftirnar eru á grónu barði á efstu hæð, líkt og títt var um selstöður fyrrum.
Kaupstaðaleiðin er falleg vagngata á melhálsi upp af Djúpavogi, en gamla þjóðleiðin liggur sunnar, að Gamla-Kirkjuvogi. Enn önnur leið, greinilega minn farin, liggur frá Djúpavogstóftunum og rétt ofan við strönina að Gamla-Kirkjuvogi. Þar á leiðinni er slétt flöt og gerði. Liggur veggur þess út í sjó, en land mun hafa sigið þarna verulega á umliðnum öldum (nokkra millimetra á ári skv. mælingum).

Gamli-Kirkjuvogur

Manngerður hóll (dys?) við Gamla-Kirkjuvog.

Gamli-Kirkjuvogur er sagður vera mjög gamall, forveri bæjanna handan Ósa. Sumir segja það þar hafi verið landnámsjörð. Sjá má þar tóftir, garða, gerði o.fl. og virðast þær allar mjög komnar við aldur. Mörg dæmi eru um að leiðsögumenn hafi farið um þetta svæði og kynnt Djúpavogsminjarnar sem Gamla-Kirkjuvog. Um hefur verið að ræða útræði og ekki er með öllu útilokað að það hafi tengst gamla býlinu með einhverjum hætti.

 Ósar

Steinhjartað í Ósum.

Gengið var yfir að Þórsmörk, en Þórshöfn var verslunarstaður Þjóðverja á 15. og 16. öld. Á leiðinni þangað var gengið fram á merkilegt náttúrfyrirbæri. Í einni klöppinni var rauðleit hola og var líkt og hún gréti. Fyrirbærið var nefnt steinhjarta. Vatnið í henni gæti verið allra meina bót. Við Þórshöfn er m.a. letrað á klappir, m.a. „HP“ (Hallgrímur Pétursson?). Þar fyrir utan kom timburflutningaskipið Jamestown upp áður fyrr, mannlaust, en fullhlaðið timbri. Segja má að flest merkilegri hús á Reykjanesskaganum og jafnvel víðar hafi verið byggð úr því timbri. (Sjá meira HÉR). Sum standa enn.

Kaupstaðagatan

Kaupstaðagatan norðan Ósa.

Gengið var yfir melholtin vestan Þórshafnar, framhjá Básendum og yfir að Stafnesi með viðkomu í Gálgum.
Rösk ganga með milliliðalausa sjávaranganinnöndun svo til alla leiðina. Gangan tók 3 klst og 2 mín. Frábært veður.

Gamli Kirkjuvogur

Gamli Kirkjuvogur og nágrenni – uppdráttur ÓSÁ.

 

Vatnaborg

Þrátt fyrir dimmviðri lék sólin við Reykjanesbrautina. Ákveðið hafði verið að fara í skoðunarferð um borginar sex sem og nokkra aðra staði við brautina. Byrjað var á því að skoða Vatnaborgina sunnan brautarinnar skammt vestan Kúagerðis. Borgin er á grashól örskammt frá veginum og sést vel. Norðan borgarinnar er hið fallegasta vatnsstæði. Borgin ber þó fremur nafn sitt af bænum Vatnsleysu en vatnsstæðinu, enda í Vatnsleysulandi.

Stóra-Krossskjól

Stóra-Krossskjól á Njarðvíkurheiði.

Næst var staðnæmst við Stóra-Skjólgarð sunnan við Innri-Njarðvík, sunnan Reykjanesbrautar. Um er að erð ræða mikinn hlaðinn skjólgarð á hól skammt frá brautinni. Hann hefur veitt fé skjól fyrir vondum veðrum úr öllum áttum. „Garðinn hlóð Helgi Jónsson sterki, er var húsmaður Þorkels lögrm. Jónssonar, föður Jóns Thorkilli. – Skv. frás. Guðm. A. Finnbogasonar.“ Skv. því hefur garðurinn verið hlaðinn um 1650. Skipsstígurinn á milli Narðvíkur og Grindavíkur, liggur skammt vestan við hólinn.

Rósel

Rósel.

Þá var haldið að Róasaseli vestan Rósaselsvatna og það skoðað. Selið er greinilega mjög gamalt. Við þar er hlaðinn stekkur, fremur lítill. Litið var á borg skammt vestan þjóðvegarins að Garði. Borgin er á litlum hól og er fremur lítil af fjárborg að vera. Hún er greinilega mjög gömul, enda engar sagnir til um tilvist hennar. Hún er hvergi til á kortum, hvorki gömlum né nýjum.

Keflavíkurborg

Keflavíkurborg.

Staldrað var við Keflavíkurborgina, sem er á holti ofan við Grófina. Um er að ræða mjög gamla hlaðna fjárborg. Inn í hana hefur einhvern tímann verið hlaðinn garður og er líklegt að fé hafi verið gefið í borginni. Eins og flestir vita voru ekki til fjárhús á þeim tíma, heldur komu hlaðnar borgir og fjárhellar (fjárskjól/fjárbyrgi) í þeirra stað. Sérstök hús fyrir fé komu löngu síðar( á 20. öldinni).

Berghólar

Berghólar – fjárborg.

Haldið var að Hólmsborginni á Hólmsbergi (Berghólum). Um er að ræða mjög fallega fjárborg, að mestu hlaðna úr torfi og grjóti. Út frá henni til suðurs er garður, en inni í henni miðri er stallur. Hafa ber í huga að fornum fjárborgum var breytt í tímans rás, allt eftir þörfum hverju sinni. Þannig urðu sumar borgir að stekkjum, sbr. Þórustaðaborgin, og til eru dæmi um að borgir hafi þróast í réttir, sbr. Auðnaborgin. Sunnan Hólmsborgar er gerði eða rétt, en austan hvorutveggja liggur gamla þjóðleiðin á milli Keflavíkur og Útskála.

Árnarétt

Árnarétt.

Loks var haldið að Árnarétt við viðkomu við Hríshólavöru, einni fallegustu fjárborginni á Reykjanesi. Hún er stærri að ummáli en Staðarborgin, svo til alveg heil og næstum því jafn há og hún. Norðan hennar er Álaborgin, forn rétt. Álaborgin syðri er ofan Bæjarskerja. Hún er einnig forn rétt og stendur enn að mestu heil. Í bakaleiðinni var skoðuð gömul fjárborg sunnan vegarins að Leifsstöð. Rétt mótar fyrir hringnum innan um leifar hernaðarmannvirka Bretans. Gaman að sjá hvernir hin gamla arfleið hefur lifað hernaðarbröltið vegna þess hversu ómeðvituð þau hafa verið þeim er þar komu að.
Góður dagur. Og hið skemmtilega var að flestir í hópnum, sem ekið hafa margoft þessa leið, höfðu aldrei tekið eftir þessum merku mannvirkjum – sem eru einungis nokkra metra frá einni fjölförnustu þjóðleið nútímans.

Stóri-krossgarður

Stóri-krossgarður.

Keflavík

Gangan hófst við Keflavíkurkirkju, haldið yfir að fyrrum Ungmennafélagshúsinu, gengið um Brunnstíginn, Vallargötu, Íshússtíginn og Hafnargötu að gamla Keflavíkurbænum.

Keflavík

Duushús.

Í gegnum aldirnar áttu Keflvíkingar kirkjusókn til Útslála og þarf ekki að hafa mörg orð um hversu óþægilegt það hefr verið fyrir þorpsbúa að fara um svo langan veg til að sækja kirkju. Eftir aðþorpið óx gerðist sú krafa háværari að hér þyrfti að gera bót á. Um 1886 hafði sóknarpresturinn haldi’ guðsþjónustur í einhverju pakkhúsinu í Keflavík, sérstaklega á stórhátíðum, en það þótti ekki fullnægjandi.
Árið 1888 gekk undirskrifalisti milli „húsfeðra“ í Kfelavíkurþorpi þar sem þeir voru hvattir til aðleggja á sig vinnu við kirkjubygingu. Fjörutíuogátta „húsráðendur“ lofuðu 212 dagsverkum til byggingarinnar. Upp frá því fór fram peningasöfnun með ýmsu móti.
Kikrjunni var valinn staður við Hafnargötu, á svonefndum Norðfjörðsreit, norðan Aðalgötu, við hlið Svarta Pakkhússins. Var byggingin formlega samþykkt í mái 1896 og hófts hún innan skamms. Fenginn var til verksins Guðmundur Jakobsson, sem kallaður var kirkjusmiður, og hafði smíðað kirkjur um allt land. Kirkjan var timburkirkja og byggð að mestu eftir sömu teikningu og Akransekikrja, sem Guðmundur hafði nýlokið við. Þett var reisuleg og svipmikil bygging sem breytti þorpsmyndinni umtalsvert, enda stóð hún á áberandi stað í þorpinu. Kirkjan var orðin fokheld árið 1898, en þá stöðvaðist vinna við hana vegna fjárskorts. Um það leyti fluttu Guðmundur kirkjusmiður og kona hans í burtu úr þorpinu.
Keflavík
Aðfaranótt 15. nóvember 1902 gerði aftakaveður víða um land, sem olli tjóni á húsm og öðrum mannvirkjum, þar á meðal kikrjunni í Keflavík. Hún skekktist svo að nauðsynlegt þótti að rífa hana. Efnið var selt á uppboði tila ð greiða niður skuldir. T.d. eru máttarviðir kirkjunnar í húsinu nr. 30 við Vallargötu. Gluggar úr kirkjunni voru m.a. notaðir í girðingar um túnbletti og matjurðtagarða Keflavíkinga. Þett voru járngluggar, bogadregnir, með lituðu gleri.
Þett var mikið áfal fyrir þorpið og ekki var hugsað fyrir kirkjubyggingu fyrst um sinn á eftir. Aftur sóttu Keflavíkingar kirkju að Útskálum, nema um helgar að haldnar voru guðsþjónustur í einu pakkhúsinu. Árið 1906 dró til tíðinda. Ólafur Á. Olavsen, annar eigandi verlsunar H.P.Duus steig á stokk og lýsti því yfir að hann myndi greiða helming gömlu skuldarinnar af fyrri kirkjubyggingu og auk þess greiða helminginn að kostnaði við fyrirhugaða byggingu kikjru í Keflavík. Rögnvaldur Ólafsson var fenginn til að teikna hana og yfirsmiður var Guðni Guðmundsson. Þann 14. febrúar 1915 var kirkjan vígð. Byggingarkostnaður var kr. 17.000. Söfnuðurinn greiddi kr. 7.000 og Ólafyr Á. Olavsen og Kristana Duus gáfu afganginn. Kirkjan er ekki ólík systurbyggingu sinni í Hafnarfirði, traustleg og látlaus. Hún tekur um 300 manns í sæti, jafn marga og allir Keflavíkingar voru þegar hún var byggð. Safnaðarheimilið var í gamla læknisbústaðnum, sem byggður var af Þorgrími Þórðarsyni, lækni, eftir teikningu Rögnvalds Ólafssonar, þeim hinum sama og teiknaði Keflavíkurkirkju.
Gengið var að fyrrum samkomuhúsi Ungmennafélags Keflavíkur, er nefndist Skjöldur. Þar er nú minnismerki um þann atburð, sem hér verður lýst.
KeflavíkHúsið brann 30. desember árið 1935. Um 180 börn voru í húsinu á jólatrésskemmtun og 4-5 fullorðnir. Sverrir Júlíusson, símstöðvarstjóri, var einn þeirra. Honum sagðist svo frá: „Sá ég allt í einu að eldur hafði kviknað í silkipappír, sem var undir jólatrénu, sennilega er að kerti hafi fallið niður á pappírinn. Þreif ég til pappírsins og ætlaði að reyna að slökkva eldinn. En áður en varði, hafði eldurinn læst sig upp í tréð og upp eftir limi þess. Þegar ég sá, að við ekkert var ráðið, ruddist ég að austtari hurðinni á norðurvegg salarins, því mannfjöldinn, sem streymdi að dyrum þeim, var að því kominn að loka hurðinni, en hún opnaðist inn í salinn. Tókst mér að opna furðina, svo aðég taldi tryggt að hún héldist opin. En þá ruddist ég að vestari dyrunum og hélt í þá hurð að innanverðu, meðan ég varð þess var, að fólk leitaði þeirra dyra. Þegar mér virtist fólk vera komið úr salnum, henti ég mér út um næsta glugga við dyrnar, í dauðans ofboði. En hvers vegna ég fór ekki sjálfur út um dyrnar veit ég ekki.“
Tveir menn, þeir Ólafur Ingvarsson og Ragnar J. Guðnason, áttu leið framhjá skemmtuninni og ákváðu að líta inn. Þar var þá mikil gleði og verið að syngja „Göngum við í kringum einibrejarunn“ þegar þeir sáu eldblossa upp með jólatrénu. Varð önnur hlið trésins skyndilega eitt eldhaf. Þei rhurfu undan, en fólkð streumdi út úr salnum. Áður en þeir komust út sáu þeir hvar hurðin var aðlokast undan troðningum að innanverðu. Þeir fleyðu sér af öllu afli áhurðina og héldu henni opinni. Ólafur sagðist hafa viðspyrnu við dyrastafinn, en þvingaði hendinni í hurðina. þannig tróðst fólkiðút úr salnum, undir höndina á honum. Hurðina gátu þeir aldrei opnað betur en svo að hún stæði beint út frá veggnum.
20-30 menn hlutu brunasár í eldsvoðanum, sumir brenndust mjög illa. 13 voru fluttir á sjúkrahús; 4 börn og ein kona brunnu inni. Nú eru liðin um 70 ár frá þessum atburði. Fram að þessu hefur hann að mestu legið í þagnargildi, en nú er orðið verðusgt að minnast hans, eins og hann var, enda skipti þessi atburður sköpum í brunavörnum svæðisins og jafnvel þótt lengra væri leitað.
KeflavíkLæknisbústaðurinn er norðan minningarreitsins um fyrrnefndan bruna. Hann er hús Þorgríms Þórðarsonar, læknis, er byggði það eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar, sem fyrr sagði. Húsið varð síðar safnaðarheimili kirkjunnar og þar var Sparisjóður Keflavíkur stofnaður. Nú býr í húsinu Kristleif nokkur, rithöfundur, ásamt fjölskyldu sinni. Hún skrifaði m.a. barnabókina „Didda og dauði kötturinn“. Kvikmynd var gerð eftir bókinni og komu nokkur húsí gömlu Keflavík þar við sögu.
Gengið var yfir að Brunnsstíg oghan fetaður til austurs. H.P.Duus lét bygga brunn þann, sem enn sést við stíginn. Gatan er nefnd eftir brunninum. Hlaðnir brunnar á Reykjanesskagangum eru yfirleitt frá og um 1900. Fyrir þann tíma sótti fólk vatn sitt í vatnsstæði, leysingarvatn eða á aðra staði, sem hugsanlega gátu gefið einhvern dropa. Lítið er um ár og læki á Reykjanesskaganum, nema helst neðanjarðar.
Brunnarnir voru hlaðnir til að auka hreinlæti og heilnæmi vatnsins. Ýmsir kvillar komu upp og var þá vatninu kennt um. Fyrsti hlaðni brunnurinn við Duusvörina, annar skammt austan við gamla barnaskólann og síðan var þessi brunnur hlaðinn. Duus lét gera brunninn, en íbúarnir ætlu að borga vatnsskatt upp í kostnaðinn og til viðhalds á brunninum. En öðruvísi fór sem horfði. Íbúar Keflavíkurþorpsins neituðu að borga vatnsskattinn. Árin 1947-1949 brunnarnir síðan af. vatnslagnir voru lagðar í öll hús árið 1945, eða fyrir um 60n árum síðan. Þegar grafið var fyrir vatnslögninni var jafnframt grafið fyrir holræsalögn, en fyri þann tíma voru illa lyktandi þrær fyrir framan hvern bæ.
Síminn var lagður til Keflavíkur, Leiru og Garðs árið 1908. Axel Möller bauð þá húsnæði sitt fram. Möllershús var reist árið 1896. Forberg, landssímastjóri, gekk ríkt eftir því að símstöðvarnar væru óháðar öðrum atvinnurekstri, svo sem verslun og póstafgreiðslu. Varð því fyrsta símstöðin í norðurenda Möllershúss og var byggð forstofa við norðurendann þar sem inngangur í símstöðina var.
KeflavíkMarta Valgerður var ráðin símstöðvarstjóri, síðar Sverrir Júlíusson og Jón Tómasson. Fyrsta símaskráin var ekki mikil bók því fyrstu símnotendurnir voru aðeins tveir; Edinborgarverslunin og verslun H.P. Duus. Allir aðrir þurftu að fara á símstöðina til að hringja.
Þorvarðarhús við Vallargötu 28 var reist árið 1884 af Þorvarrði Helgasyni, beyki, en síðar eignaðist Þorsteinn, sonur hans, húsið. Það er byggt úr trjáplönkum úr Jamestown. Þorvarðarhús er talið vera elsta íbúðarhúsið í Keflavík. Í dag búa enn afkomendur í húsinu, Ólafur og sonur hans, Þorvarður. Vinur Ólafs, Jón Jónsson, smíðaði fiðlu úr efniviði Jamestown, sem honum ákotnaðist úr Þorvarðarhúsi.
Það var 26. júní árið 1881 að eitt merkilegasta skipsstrand vrð hér á landi. Þá rak flutningaskipið Jamestown upp í fjörur við Þórshöfn í Ósum. Skipið var eitt alstærsta seglskip sinnar tíðar, yfir 20 m breitt og meira en 100 m langt. Til samanburðar má geta þess að knattspyrnuvellir eru yfirleitt 90-120 m langir.
Áhöfnin hafði yfirgefið skipið undan strönd Ameríku þremur árum fyrr og allar björgunartilraunir reynst árangurslaustar. Farmurinn reyndist vera prýðilegasta timbur, sem þótti hinn mesti happafengur og var fljótlega ráðist í umfangsmikla uppskipun við erfiðar aðstæður. Þegar skipið liðaðist loks í sundur í seinni hluta septembermánuðar, hafði tugum þúsunda planka verið bjargað á land.
Þesi ókjör af timbri urðu vitaskuld til að bæta mjög húsakost víða í Gullbringusýslu og í Reykjavík. Mestar voru framkvæmdirnar þó í Hafnahreppi, en þar voru reist 9 íbúðarhús auk fjárhúsa, fiskihjalla o.fl. úr timbrinu. Einnig féll til mikið magn af köðlum og vír úr skipinu og var það allt hirt til handargagns. Vírinn var nýttur í túngirðingar og voru það e.t.v. fyrstu vírgirðingar hér á landi.
KeflavíkSteingarðar þar við sem íshúsið var (nú malarplan) voru hlaðnir af Símoni Eiríkssyni, steinsmið, líkt og flesta steingarða í Keflavík í fyrri tíð. Bróðir Kristjönu Duus, Ágúst Olavssen, var stórhuga maður og ætlaði að hefja blómarækt og skógrækt innan gaðsins. Garðræktin gekk þó brösulega og það var helst að viðskiptamenn, sem komu til kaupmannsins í Keflavík, skildu hesta sína eftir innan garðsins við litla hrifningu eigandans, en hestarnir fengu þar væna tuggu.
Á áratugnum sitt hvoru megin við aldamótin 1900 fluttist margt fólk til keflavíkur. Það er athyglisvert að flestallir innflytjendurnir voru úr Árnes- Rangárvalla- eða Vestur-Skaftafellssýslu. Einn austanmanna var Ólafur Jónsson, póstur, Eyfellingur, kvæntur Karitas Jóhannsdóttur. Eignuðust þau 10 börn. Hann annaðist p+óstflutninga frá Keflavík suður með skaganum til Eyrarbakka og þaðan til Reykjavíkur. Fór hann það fótgangandi. Árið 1786 voru skipaðir fastir póstar, en þá fór pósturinn frá Bessastöðum um Hafnarfjörð, til Keflavíkur, Básenda, Grindavíkur, Eyrarbakka og um Árnessýslu að Móeiðarhvoli í Rangárvallasýslu og til baka aftur. Um 1872 voru 15 afgreiðslustöðvar á svæðinu.
Magnús Zakaríasson, bókhaldari við Duus verslun, lét smíða gamla skólahúsið, sem síðar var og stendur enn gegnt íshúsinu. Þótti það á þeim tíma stórt og glæsilegt hús. Bjó Magnús þar ásamt konu sinni, Kristínu Eiríksdóttur. þegar Magnús dó seldi Kristín hreppnum húsið og var þar settur á stofn barnaskóli. Skólinn var fyrst settur árið 1897 og var kennt í stofunum á neðri hæðinni, en Kristín bjó á efri hæðinni. Eftir það fékk húsið nafnið Skólinn. Síðan hefur margt yfir þetta hús gengið. var þá stundum á sumrin notað sem sjúkarskýli og jafnvel fyrir sóttvarnahús þegar á þurfti að halda. Síðar varð skólinn reistur þar sem nú er Miðstöð símenntunar Suðurnesja.
Neðan Íshússtígs er listaverk eftir Ásmund Sveinsson, minnismerki um íslenska sjómenn.
KeflavíkÁ suðurvegg Mið-Pakkhússsins er málverk eftir Hermann Árnason; Fiskverkun. Áður voru veðurfréttir og upplýsingar hengdar upp á gafl hússins. Pakkhúsin minna á þá tíð þegar pakkhús og bryggjur kaupmannanna í Keflavík einkenndu víkina, auk stakkstæða til salfiskþurrkunar. Leifar af síðsutu bryggjunni af þremur sjást beint niðurundan Íshússtígnum. Sú bryggja heitir Miðbryggja, en hét um tíma Fischerbryggja. Duusbryggja var norðar og Norfjörðsbryggjan sunnar.
Um 1877 varð Waldimar Fischer eigandi Miðverslunar í Keflavík. hann hafði áður verið kaupmaður í Reykjavík. Þar er gata kennd við hann, Fischersund, sem áður gekk undir nafninu Götuhúsastígur. Miðverslun breytti um nafn og varð Fischerverslun. Waldimar var stórhuga maður. Árið 1881 lét hann flytja húsgrind til landsins, sem sett var upp þar sem nú er Hafnargata 2. Þessi bygging var nokkuð sérstök því hún var tilsniðin í Danmörku og hver spýta tölusett svo ekki yrði ruglingur við samsetningu hússins. Þegar húsið var reist, var ekki einn einasti langli notaður í grindina, því hún var öll geirnegld. Húsið var tvílofta með nokkuð háu risi og kjalli undir því öllu. Á efri hæðinni var íbúð verslunarstjóra og á fyrstu hæð var verslun og skrifstofa og í kjallara voru vörugeymslur.
Árið 1900 keypti Duusverslunin húsið og flutti starfsemi sína þangað. Verslun Duus var seld árið 1920. Eftir það urðu mörg eigandaskipti á húsinu, en árið 1930 keypti Útgerðarfélag Keflavíkur húsið og loks eignaðist bæjarsjóður Keflavíkur það.
Tóftir gamla Keflavíkurbæjarins er á hó norðan Gömlubúðar. Fyrsta vitneskja um byggð þar er að finna í annálum. Þar segir frá Grími Bergssyni, sem varð bráðkvaddur þar árið 1649, en hann bjó þá í Ytri-Njarðvík.
Duushúsalengjan geymir Bryggjuhúsið syðst. Það var reist árið 1877. Bíósalurinn er fast við það að norðanverðu. Sagnir eru uma ð í honum hafi verið bíósýningar þegar um aldamótin 1900, en húsið var reist 1890. Þá taka við þrjár einingar fiskverkunarhúsa, reist af Guðmundi Kristjánssyni um og eftir 1930. Með tilkomu þeirra hljóp nýr kraftur í útgerðina í Keflavík. Hann lét m.a. stækka Miðbryggjuna og gera hana ökufæra vörubílum, en áður hafði hún einungis verið vagnfær.
Þjóðleiðirnar frá Keflavík til nágrannabæjanna lágu upp úr Grófinni. Sjást þær enn.Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Keflavík

Duushús og tóftir gamla keflavíkurbæjarins.

Vatnsnesviti

Keflavík hefur breytt mjög um svip á síðustu árum, ekki síst ströndin. Miklar uppfyllingar og sjóvarnargarðar hafa verið hlaðnir meðfram ströndinni. Fyrir vikið týnast menjar og örnefni sem vert er að halda á lofti.Í dag hefur myndast meðfram ströndinni nýtt landssvæði sem býður upp á marga möguleika til útivistar, einnig hefur verið lagður þar nýr vegur sem nefnist Ægisgata.

Duushús

Duushús.

Í þessari leiðarlýsingu verður farið í göngutúr meðfram ströndinni og gengin nýja Ægisgatan frá Smábátahöfninni að Vatnsnesvita og reynt verður að gera nokkrum örnefnum skil ásamt lýsingu á því sem fyrir augu ber. Smábátahöfnin er í svokallaðri Gróf, sem stundum var nefnd „Keflavíkurgróf“ eða „Duusgróf“en þar var byggð bryggja árið 1928 – 1929. Það var Matthías Þórðarson, eigandi jarðarinnar sem stóð fyrir byggingu bryggjunnar og einnig lét hann grafa þar vísi að skipakví og þaðan skurð til sjávar. Matthías flutti síðan frá Keflavík og féllu þá niður frekari framkvæmdir. Það mætti segja að draumur Matthíasar um skipakví hafi ræst þegar smábátahöfnin var tekin í notkun árið 1993.Rauða húsið á hægri hönd nefnist Bryggjuhús og var vöruhús Duusverslunar. Bryggja gekk niður undan húsinu og út í sjó, nefndist hún Duusbryggja. Steinhleðsla, sem gengur undir túnið sjávarmegin við húsið, er hluti af sjóvarnargarði er var hlaðinn um árið 1900.Þegar beygt er inn á Ægisgötuna má sjá nokkuð stóran stein með uppröðuðum steinum í kring, það er minningarsteinn um skipsskaða sem átti sér stað rétt utan við Stokkavör en svo var þetta svæði kallað.

Duusbryggja

Duusbryggja.

Svæðið sem liggur frá Listaverki Ásgríms að stóru gráu húsi framundan kallast Myllubakki. Þegar gengið er meðfram Myllubakka og horft er til hægri upp á planið þar sem verslunin Nýjung er til húsa þá var á þessum stað byggð fyrsta kirkjan í Keflavík, en sú kirkja skekktist í óveðri og var síðan rifin, síðar var núverandi kirkja byggð á þeim stað sem hún er enn. Í dag stendur á fyrrverandi kirkjuplaninu listaverkið Flug eftir Erling Jónsson.Á vinstri hönd má sjá tröllahjón úr grjóti sem virðast standa vörð um Keflavíkina! Listaverkið er eftir Áka Granz.Þegar gengið er áfram Ægisgötuna er framundan áberandi fallegt og sérkennilega formað hvítt íbúðarhús. Helgi S. Jónsson skátahöfðingi, listamaður o.fl. byggði þetta hús og kallaði það „Heljarþröm,“ hvort sem það var vegna kostnaðar við bygginguna eða staðsetningar því húsið var byggt á kletti út við ströndina. Nokkuð hár grasblettur liggur frá húsinu hans Helga þar má finna tóftir og garðhleðslur bæjar sem nefndist Hæðarendi, kemur nafnið til af því að bærinn stóð uppi á „Hæð.“ (Fyrir heimamenn á miðjum aldri og sem muna eftir Æskulýðsheimilinu og Janusi húsverði þá ólst Janus upp á Hæðarenda).Framundan á vinstri hönd sést Keflavíkurmerkið sem Helgi S. Jónsson teiknaði og Erlingur Jónsson gerði standmynd af.
Þar var uppsátur Keflavíkurbóndans og Keflavíkurkaupmanns, þar lentu áttæringar þeirra og uppskipunarbátar. Uppi á túninu ofan við Gömlu búð (rautt gamalt hús sem stendur eitt og sér við hringtorgið) voru tvö spil til að draga skipin upp.Það var í Stokkavör sem Hallgrímur Pétursson og Guðríður Símonardóttir komu í land þegar þau komu til Íslands eftir Kaupmannahafnardvölina.Gengið er áfram Ægisgötuna og gott að kíkja annað slagið yfir grjóthleðsluna, því enn má sjá Miðbryggjuna sem svo var kölluð. Hún var upphaflega nefnd Fichersbryggja og var þá kennd við verslun Fichers kaupmanns sem lét byggja hana, hann verslaði í húsi því sem nefnt er Fichershús að Hafnargötu 2 (gula húsið á hægri hönd).Á þeim tíma voru hér þrjár bryggjur, Duusbryggja vestast, Fichersbryggja og Norðfjörðsbryggja. Því var Fichersbryggjan nefnd Miðbryggja, að hún var í miðið.Þegar staðið er á móts við hús sem á stendur „Svarta pakkhúsið“ en var Miðpakkhúsið, og horft upp Íshússtíginn sést lítið gult tvílyft hús. Það er fyrsta skólahúsið í Keflavík.Norðfjörðsgata nefnist gatan sem liggur beint frá Kirkjunni, niður að Ungó einsog húsið var nefnt um og uppúr miðri síðustu öld. Þar má staldra við og gera sér í hugarlund umhvefið einsog það var fyrir um það bil einni öld. Í Ungóhúsinu verslaði Knutzonsverslunin og nefndist húsið þá Norðfjörðshús eftir vinsælum verslunarstjóra sem starfaði þar. Neðan frá Norðfjörðshúsi gekk bryggja sem nefnd var Norðfjörðsbryggja, í dag stendur listaverk Ásgríms Jónssonar á móts við Norðfjörðsgötu.

KeflavíkKeflavíkurmerkið stendur á svokölluðum Ósklettum eða Ósnefi, Skollanef nefnist 7-8m hár grágrýtisklettur sem gengur austur úr Ósklettum. Á hægri hönd er gamla Sundhöllin sem var tekin í notkun árið 1939 þegar sjó var dælt í laugina og voru það félagar í Ungmennafélagi Keflavíkur sem áttu veg og vanda af byggingunni. Áfram er haldið og á vinstri hönd framundan má sjá litla vík sem gengur inn í landið og er nefnd Básinn. Árið 1929 hófu þar nokkrir stórhuga athafnamenn að reisa aðstöðu fyrir útgerð. Þeir byggðu myndarlega steinbryggju og upp með henni byggðu þeir allmikil fiskvinnsluhús að þeirra tíma mælikvarða, og standa sum þeirra enn. Básinn hefur verið fylltur upp, en þó sést enn í hluta af bryggjunni.Gengið er áfram með ströndinni þar til komið er að Vatnsnesvita sem stendur á Vatnsnesklettum, vitinn var byggður árið 1921 og er 8,5 m hár. Ef gengið er yfir hlaðna sjóvarnargarðinn við vitann er komið niður á sérkennilegar steinmyndanir þar má finna svonefndann Gatklett.

Heimildir m.a.:
-Byggðasafn Suðurnesja, Örnefni og sögustaðir í Keflavík.
-Sturlaugur Björnsson, Steinabátar.
-Rannveig Kristjánsdóttir tók saman.

Vatnsnesviti

Vatnsnesviti.

Geirfugl

Mannhæðarhár bronsskúlptúr af geirfuglinum sáluga verður afhjúpaður í dag við Valahnjúk á Reykjanesi.
Geirfuglinn er gjöf frá bandaríska listamanninum Todd McGrain en hann sóttist eftir því Listamaðursjálfur að fá að koma fuglinum fyrir í fjörunni neðan við Valahnjúk á Reykjanesi. Verkið er hluti af stærra verkefni sem kallast Lost Bird Project og er tileinkað fimm útdauðum fuglategundum.
„Ég hef unnið að þessu verkefni undanfarin fimm ár og hef gert fimm skúlptúra af fimm útdauðum fuglategundum, þar á meðal geirfuglinum. Geirfuglinn var einn fyrsti fuglinn sem ég stúderaði en segja má að það séu um tíu ár síðan fuglinn „kom“ fyrst til mín,“ segir Todd McGrain.
ListaverkiðListamaðurinn eyddi meðal annars sex mánuðum á Ítalíu, í Róm, þar sem hann grandskoðaði fuglinn, sem verður afhjúpaður í dag klukkan 14. Listaverkið er gert í minningu geirfuglsins en 3. júní árið 1844 voru tveir síðustu geirfuglarnir í heiminum drepnir á syllu í Eldey, suðvestur af Reykjanesi. McGrain kom til landsins fyrir ári til að skoða aðstæður og sá geirfuglinn strax fyrir sér í fjörunni neðan við Valahnjúk. Þá heimsótti hann meðal annars Náttúrufræðistofnun Íslands þar sem uppstoppaður geirfugl er geymdur.
„Við höfum myndað allt ferlið í kringum smíði fuglsins, flutning og uppsetningu og ætlum að vinna heimildarmynd út frá því og ég er viss um að þessi innsetning muni færa gróskufullt menningarlíf bæjarins upp á við. Veður og vindar í fjörunni munu svo gera fuglinn enn fegurri með tímanum en staðsetningin hefur bæði sögulega tilvísun og minnir á dramatísk örlög fuglsins.“

Heimild:
-Fréttablaðið 2. sept. 2010, sérblað bls. 10.

Geirfugl

Geirfuglar á Reykjanesi.

Hvalsnesgata

Gamla þjóðleiðin yfir Miðnesheiði milli Hvalsness og Njarðvíkur hefur verið nefnd Hvalsnesvegur. Melabergsvegur (-gata) hefur hún einnig verið nefnd því hún liggur niður með Melabergi að vestanverðu. Þaðan liðast hún um sléttlendi að Hvelsnesi, nú að mestu gróið.
Í örnefnalýsingum er Hvalsnesvegar (Melabergsvegar) ekki getið. Annað hvort hefur hann þótt of auðsjánlegar til þess að geta hans sérstaklega eða hann hafi hreinlega gleymst. Fáir virðast hafa haft áhuga á gömlu leiðunum eftir að nútímavegirnir komu til á Suðurnesjum (eftir ~1912). Verktakar (ríkis og bæja)og aðrir framkvæmdarmenn virðast ekki einu sinni hafa orðið þeirra varir á leiðum sínum við seinni tíma vegargerð um mela og móa Rosmhvalanessins. Slík eru ummerkin (og frágangurinn) að líkt er og þar hafi blindir menn verið að verki. Nóg um það í bili (því viðhorfið virðist hafa breyst svolítið til hins betra í allra seinustu tíð).
Á háheiðinni, rétt innan varnargirðingarinnar beggja vegna, greinist Hvalsnesvegur, annars vegar í sveig til vesturs þar sem gatan er grópuð í móann eftir uppkast, frákast og ágang og hins vegar í beina leið, svonefnda vetrarleið, vel varðaða.
Margvörður er fyrsti hóllinn við götuna innan varnargirðingarinnar að sunnanverðu (gegn flugstöðinni). Þegar komið er upp fyrir Margvörðuholtið, undir girðinguna, beygir gatan áleiðis til vesturs. „Innan við Margvörður er Kaupmannsvarðan (vestan götunnar með bendil til austurs, aðrar vörður við vetrargötuna benda til vesturs), sem er við krossgötur rétt hjá flugvellinum.“ Þarna eru sem sagt krossgöturnar; annars vegar hinnar gömlu hlykkjóttu götu Hvalsnesleiðar og hins vegar annarrar vel varðaðrar götu – svo til beint að augum.

Óvarðaða leiðin er áreiðanlega miklu mun eldri en sú varðaða, enda vörðurnar að öllum líkindum komið af gegnu tilefni, jafnvel ítrekuðum tilefnum. Miðnesheiðin er ekki há á heiðamælikvaðra landsins. Í rauninni er hún flatlendi m.a. við flestar aðrar slíkar. En á móti koma að Miðnesheiðin gat verið mjög villugjörn því fátt er þar um séstök kennileyti. Þau fáu, sem þar eru, virðast öll líkjast hverjum öðrum. Enda urðu margir úti á þessari heiði. Nafngreindi hafa verið í heimildum á þriðja tug manna er létust þar á u.þ.b. tuttugu ára tímabili og á fjörutíu ára tímabili 19. aldar urðu nálægt 60 menn úti í heiðinni á fjörtutíu árum, eða sem svarar einum og hálfum manni á ári að jafnaði. Flestir þessarra manna voru á leið frá kaupmanninum í Keflavík eftir að hafa annað hvort drukkið ótæpilega af áfengistilboði verslunarinnar eða byrjað snemma að dreipa á verslunarvarningnum á heimleiðinni. Nafngiftin Brennivínshóll við Sandgerðisveg ofan Grófarinnar, sá fyrsti ofan byggðar, er ágæt staðfesta þess efnis. Nokkrar „dauðsmannsvörður“ eru í Miðnesheiðinni sem og aðrar vörður heitnar eftir einstaklingum er þar fundust látnir. Þótt ekki hafi verið um langar vegarlengdir að ræða milli byggðalaga eða hverfa (7-8 km) þá hafa þær verið nógu langar til að drukkið illa klætt fólk þess tíma hefur ekki getað varist kulda og vosbúð.

Stundum þurfti ekki áfengi til, s.s. dæmi er um af Sigurðu B. Sívertssen, presti á Útskálum, er hreppti skyndilega íshraglanda og óveður á leið hans um Garðstíg (-veg) á ofanverði 19. öld – en lifaði það af fyrir „miskunnsemi drottins“.
Vörðurnar við vetrarleið Hvalsnesvegar standa enn – þökk sé varnargirðingunni. Allt of margar stæðilegar vörður við gamlar þjóðleiðir sem og garðar var tekið undir önnur seinni tíma mannvirki, s.s. bryggjur og vegi. Þá var vörubílum þess tíma ekið að þessum fyrrum þarflegu mannvirkjum og grjótið úr þeim kastað upp á pallinn. Þægilegra gat það ekki orðið þar sem efnið stóð þarna tilbúið og uppstaflað. Nokkrir „sérvitringar“ þess tíma spynrtu við fótum og fenguð því framgengt að sumum hinna gömlu mannvirkja var þyrmt – sem betur fer. Víða við hinar gömlu leiðir má sjá vörðufót (neðsta umfarið), en ofanáumförin eru horfin.
Ekki er að sjá ummerki eftir umgang milli varða vetrarleiðar Hvalsnesvegar. Ástæðan gæti verið þríþætt. Í fyrsta lagi var þessi leið einungis gengin á klaka, ís, frosinni jörð eða snjó að vetrarlagi. Í öðru lagi eru vörðurnar sennilega ekki mjög gamlar, varla eldri en u.þ.b. eitt hundrað ára. Ástæðan er þessi: „Mikil verslun var stunduð í Keflavík sem gerði hana að stærsta þorpinu á Suðurnesjum, höfuðstað svæðisins. Má rekja verslunarsögu Keflavíkur allt til upphafs 16. aldar og er vitað um þýska kaupmenn þar árið 1518. Undir lok 16. aldar komu Hamborgarkaupmenn til Keflavíkur en þegar Danir settu einokunarverslunina á 1602 féll Keflavík í hendur Kaupmannahafnar.

Þessi dönsku áhrif í verslun í bænum héldust svo alveg fram á 20. öld, þó svo að Einokunarverslunin hafi um síðir liðið undir lok. Keflavíkurhreppur var stofnaður 1908 og þann 22. mars 1949 fékk Keflavík kaupstaðaréttindi.“ Hlutverk hreppanna var í fyrstu fátækrahjálp og sameiginleg framkvæmdagerð, s.s. vegagerð. Þarna gæti kaupmaðurinn í Keflavík hafa haft frumkvæði að því, að gefnu tilefni, að varða erfiðasta hluta Miðnesheiðar (Hvalsnesvegar). Með því hafi hann viljað skora á hreppinn að klára verkið. Hreppar Suðurnesja veittu á þessum tímum fé til úrbóta á aðalleiðum milli byggðalaga. Ástæðan var sú að betra þótti að ráða menn til starfa við slíkar tímabundnar úrbætur og um leið skapa þeim atvinnu en að greiða nauðsynlegar þurfabætur. Ef þetta er rétt verða vörður þessar fornleifar í fyrsta lagi árið 2008. Annars gæti kaupmaðurinn í Keflavík hafa stuðlað að framkvæmdinni mun fyrr, eða eftir að einokunarverslunni var aflétt hér á landi.
Í þriðja lagi gæti umferð um vörðuðu leiðina hafa verið það lítil að framkvæmd lokinni að ekki hafi náðst að myndast slóð milli varðanna. Að athugun lokinni má vel sjá að gamla „hlykkjótta“ leiðin er mun greiðfærari fótgangi fólki en sú varðaða, sem fer svo til beint að augum um holt og lágar hæðir.

Á Hvalsnesleiðinni

Þegar gatan er rakin neðan frá (frá Hvalsnesi) er miklu mun aðgengilegra að rekja sig eftir gömlu leiðinni því sú varðaða er alls ekki augljós frá þeirri hlið.
Ástæður ferða fólks um hinar gömlu leiðir, s.s. Hvalsnesleiðina, hafa verið margþættar. Beggja vegna Hvalsness, annars vegar á Stafnesi, Básendum og í Þórshöfn, og hins vegar í Másbúðum, Nesjum og Fuglavík, voru vermenn á vertíðum. Verslunarstaðir voru fyrrum að vestanverðu, þ.e. við Þórshöfn og að Básendum. Á Stafnesi var væntanlega þungamiðjan um tíma, einkum forðum, því þar eru sagnir um dómhring (sem nú er reyndar búið að planta trjám umhverfis). Fólk á útvegsbæjum strandanna þurfti að fara á milli byggða við afhendingu og öflun varnings og annarra nauðsynja og verslun færðist um 1800 frá Básendum til Keflavíkur. Vinaheimsóknir og annar tilgangur hefur og fyrrum verið svipaður og nú er. Loks er ekki útilokað að fólk hafi fetað þessar gömlu leiðir í þeim tilgangi að skoða og fræðast um staði og svæði, sem það hafði ekki áður augum litið – líkt og nú.

Heimild m.a.:
-Örnefni fyrir Keflavík.
-reykjanesbaer.is – saga.
-Saga Keflavíkur.

Varða

Vörður við Hvalsnesleiðina – vetrarleiðina.

Hvalsnesgata

Gengið var frá Hvalsnesi eftir svonefndri Hvalsnesgötu(Melabergsleið) um Melabergsvötn og Miðnesheiðina yfir að Stakksnípu norðan Helguvíkur. Tilefnið var að feta í fótspor Rauðhöfða sem lið í Ljósahátíð Reykjanesbæjar, þeim er segir frá í samnefndri þjóðsögu. Sagt er að eftir atburði þeim, sem þar er tilgreindur, heiti nú staðir við Faxaflóa, s.s. Stakkur, Stakksfjörður, Hvalfjörður, Glymur, Hvalfell og Hvalvatn.

Hvalsnesvegur

Hvalsnesvegur – varða.

Fengist hafði leyfi til að ganga leiðina innan ytri varnargirðingarinnar, en þegar leggja átti af stað fengust þær upplýsingar að hliðið þar efra, sem átti að ganga út um, hafi verið fest og ekki hægt að opna það. Því var brugðið á það ráð að ganga með girðingunni á þeim kafla leiðarinnar.
Hins vegar er löngu kominn tími til þess að opna þessa fallegu leið fyrir innlendum svo þeir geti notið eigin fornminja, enda þjónar „varnargirðingin“ litlum tilgangi á þessu svæði. Önnur girðing er innar og væri nóg að hafa hana til varnar hersstöðinni.
Gangan hófst á Hvalsnesgötunni skammt sunnan viið Melaberg eftir að þjóðsagan um Rauðhöfða hafði verið rakin í megindráttum.
Hvalsnes er bær og kirkjustaður milli Sandgerðis og Stafness. Hvalsnes var fyrrum prestssetur og útkirkjur í Kirkjuvogi og Innri-Njarðvík. Hvalsnesprestakall var lagt niður 1811 og Hvalsnes og Kirkjuvogskirkjur lagðar til Útskála. Á Hvalsnesi var kirkja helguð guði Maríu guðsmóður, Ólafi konungi og, heilagri Katrínu og öllum guðs heilögum mönnum. Núverandi kirkja var reist á árunum 1886-1887 og vígð á jóladag 1887. Hún er hlaðinn úr tilhöggnum steini. Frægastur prestur á Hvalsnesi er sennilega Hallgrímur Pétursson.

Hvalsnesvegur

Hvalsnesvegur – varða.

Í sögunni (reyndar eru til nokkrar útgáfur) um Rauðhöfða segir frá því að „í fornöld var það mjög tíðkað á Suðurnesjum að fara út í Geirfuglasker til að sækja þangað bæði fugl og egg. Þóttu þær ferðir jafnan hættulegar og varð að sæta til þeirra góðu veðri því bæði eru skerin langt undan landi og svo er líka mjög brimsamt við þau.
Einu sinni sem oftar fór skip eitt út í Geirfuglasker; geymdu sumir skips, en sumir fóru upp í skerin eftir eggjum. Ókyrrði þá sjóinn fljótt svo þeir urðu að fara burtu fyrr en þeir hefðu viljað. Komust eggjatökumennirnir með illan leik upp í skipið allir nema einn. Hann kom seinastur ofan úr skerinu því hann hafði farið lengst og hugsað að ekki mundi liggja svo mikið á. Hann var sonur og fyrirvinna ekkju nokkurrar sem bjó á Melabergi í Hvalsnessókn, og var hinn ötulasti maður og á bezta aldri (sumir nefna manninn Helga). Þegar nú maðurinn kom niður að skipinu þá var hafrótið orðið svo fjarskalegt við skerið að honum varð ekki náð út í skipið hversu mjög sem þar var leitað lags við. Urðu skipverjar að fara burtu við svo búið og töldu þeir manninn af með öllu nema hans yrði bráðlega vitjað. Héldu þeir svo í land og sögðu hvar komið var og átti nú að fara í skerin og vitja mannsins hvenær sem þar gæfist færi á. En eftir þetta varð aldrei framar komizt út í skerin um sumarið fyrir brimi og stórviðrum. Var þá hætt með öllu að hugsa til manns þessa framar eða leiða sér í hug að hann mundi nokkurn tíma sjást lifandi framar.
Nú leið og beið þangað til sumarið eftir. Þá fóru Nesjamenn á skipi út í Geirfuglasker eins og þeir voru vanir. Þegar eggjatökumennirnir komu upp í skerið urðu þeir hissa, þegar þeir sáu þar mann á gangi þar sem þeir áttu sér hér engra manna von. Maðurinn gekk til þeirra og þekktu þeir þar Melabergsmanninn sem eftir hafði orðið sumarið áður í skerinu.

Figlavíkursel

Fuglavíkursel.

Gekk það öldungis yfir þá og þóttust sjá að þetta væri ekki einleikið. Forvitnaði þá nú heldur en ekki að vita hvernig á þessu öllu stæði. En maðurinn sagði þeim óljóst frá því sem þeir spurðu, en í skerinu sagðist hann alltaf hafa verið og hefði þar ekki væst um sig. Samt bað hann á að flytja sig í land og gjörðu þeir það fúslega. Var Melabergsmaðurinn hinn glaðasti, en þó fremur fátalaður. Þegar í land kom varð þar hinn mesti fagnaðarfundur og þótti öllum þessi atburður allur undrum gegna, og enga glögga grein vildi maðurinn gjöra um veru sína í skerinu.
Nú leið enn og beið og var hætt að tala um nýlundu þessa. En seint um sumarið, einn góðan veðurdag þegar messað var á Hvalsnesi, varð sá atburður sem alla kynjaði á. Við kirkjuna var fjöldi fólks og þar á meðal Melabergsmaðurinn. En þegar fólkið kom út (aðrir segja inn í kirkjuna og láta allan atburðinn fara fram fyrir messu) úr kirkjunni stóð uppbúin vagga við kirkjudyrnar og lá ungbarn í vöggunni. Ofan á vöggunni lá dýrindisábreiða sem enginn þekkti hvað í var. Á þetta varð öllum starsýnt mjög og enginn leiddi sig að vöggunni eða barninu og enginn lézt þar vita nein deili á. Nú kemur prestur út úr kirkjunni; sér hann vögguna og barnið og furðar á þessu öllu ekki síður en aðra. Spyr hann þá hvort viti nokkur deili á vöggunni og barninu eða hver með það hafi komið eða hvort nokkur vilji að hann skíri barnið. En enginn lézt vita neitt um þetta og enginn þóttist hirða um að hann skírði barnið. En af því presti þótti allur atburður með Melabergsmanninn kynlegur spurði hann hann ítarlegar um allt þetta en aðra, en maðurinn brást þurrlega við og sagðist ekkert vita um vögguna né barnið enda skipti hann sér öldungis ekkert um hvorugt.

Sandgerðisvegur

Gengið um Sandgerðisveg.

En í því bili sem maðurinn sagði þetta stóð þar kvenmaður hjá þeim fríð sýnum og fönguleg, en æði svipmikil. Hún þreif ábreiðuna af vöggunni, snaraði henni inn í kirkjuna og segir:
„Ekki skal kirkjan gjalda.“
Síðan víkur hún sér að Melabergsmanninum og segir við hann mjög reiðulega:
„En þú skalt verða að hinu versta (argasta) illhveli í sjó.“
Greip hún þá vögguna með barninu og hvarf með allt saman og sást ekki síðan. – Presturinn tók ábreiðuna og lét gjöra úr henni altarisklæði handa kirkjunni, og hefur það verið þar til skamms tíma og þótt hin mesta gersemi.
Nú víkur sögunni til Melabergsmannsins. Honum brá svo við orð hinnar ókunnugu konu að hann tók undir eins á rás frá kirkjunni og heim til sín. Ekki stóð hann þar við, heldur æddi sem vitstola norður eftir þangað til hann kom fram á Hólmsberg sem er fyrir vestan Keflavík, en berg það er fram við sjó, býsna hátt og þverhnípt. Þegar hann kom fram á bergsbrúnina staldraði hann við. Varð hann þá allt í einu svo stór og þrútinn að bergið sprakk undir fótum honum og hljóp fram klettur mikill úr hamrinum. Stakkst maðurinn þar fram af í sjóinn og varð í sama augnabragði að feikilega stórum hvalfiski með rauðan haus því maðurinn hafði haft rauða húfu eða hettu á höfðinu þegar hann brást í hvalslíkið. Af þessu var hann síðan kallaður Rauðhöfði. En kletturinn sem fram hljóp með hann í sjóinn stendur enn fram í sjónum austarlega undir Keflavíkurbergi og er kallaður Stakkur.

Stakkur

Stakkur.

Það er sumra manna sögn, að nú hafi það komið upp á Melabergi eftir móður mannsins að hann hefði sagzt hafa dvalið um veturinn í skerinu (skerið var síðan kallað Helgasker) í álfabæ einum í góðu yfirlæti. Hefðu þar allir verið sér vel, en þó hefði hann ekki geta fest þar yndi. Fyrst þegar hann hefði orðið eftir af lagsmönnum sínum í skerinu hefði hann gengið um skerið í eins konar örvilnan og verið að hugsa um að steypa sér í sjóinn og drekkja sér til að stytta hörmungar sínar. En þá sagði hann að til sín hefði komið stúlka fríð og falleg og boðið sér veturvist og sagt að hún væri ein af álfafólki því sem ætti heima í Geirfuglaskeri. Þetta þá hann, en vegna óyndis fékk hann heimfararleyfi sumarið eftir. Þá sagði hann að álfastúlkan hefði sagzt ganga með barni hans og skyldi hann muna sig um að láta skíra það ef hún kæmi því til kirkju þar sem hann væri viðstaddur, en ef hann gjörði það ekki mundi hann gjalda þess grimmilega. Sumir segja að maðurinn hafi sagt móður sinni frá þessu einhvern tíma einslega um sumarið; sumir segja að han hafi gjört það um leið og hann gekk um á Melabergi frá kirkjunni seinast, en sumir segja að hann hafi sagt það einhverjum trúnaðarmanni sínum öðrum. En ekki er þess getið hvers vegna hann brá út af skipun álfkonunnar með barnsskírnina.
En nú víkur aftur sögunni til Rauðhöfða. Hann tók sér aðsetur í Faxaflóa og grandaði þar mönnum og skipum svo engum var óhætt í sjó milli Reykjaness og Akraness. Varð það fjarskinn allur sem hann gjörði illt af sér í skipsköðum og manntjóni, en enginn gat að gjört eða stökkt óvætti þessum burtu, og áttu margir um sárt að binda af hans völdum þó ekki séu þeir nafngreindir neinir sem hann drap eða tölu hafi verið á þá komið. Upp á síðkastið fór hann að halda til á firðinum milli Akraness og Kjalarness og er sá fjörður því síðan kallaður Hvalfjörður.

Sandgerðisvegur

Sandgerðisvegur.

Þá bjó gamall prestur í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd; hann var blindur, en þó ern að öðru leyti. Hann átti tvo syni og eina dóttur. Voru systkini þessi öll uppkomin þegar hér var komið sögunni og hin efnilegustu og ann faðir þeirra þeim mjög. Prestur var forn í skapi og vissi jafnlangt nefi sínu. Synir hans reru oft út á fjörðinn á báti til fiskjar. En einu sinni urðu þeir fyrir Rauðhöfða og drekkti hann þeim báðum. Presturinn faðir þeirra heyrði að synir sínir væru drukknaðir og svo af hvers völdum. Féllst honum mikið um sonamissinn.
Litlu síðar einn góðan veðurdag biður hann dóttur sína að koma og leiða sig niður að firðinum sem er þaðan ekki alllangt frá bænum. Hún gjörir svo, en prestur tekur sér staf í hönd. Staulast hann nú með tilhjálp dóttur sinnar ofan að sjónum og setur stafinn fram undan sér út í flæðarmálið og styðst svo fram á hann. Spyr hann þá dóttur sína hvernig sjórinn líti út. Hún segir hann vera spegilfagran og sléttan. Að lítilli stundu liðinni spyr karl aftur hvernig sjórinn líti út. Stúlkan segir að utan fjörðinn sjái hún koma kolsvarta rák líkt og stórfiskavaður ösli inn fjörðinn. Og þegar hún sagði rák þessa komna nærri á móts við þau biður prestur hana leiða sig inn með fjörunni og gjörir hún það. Var röstin jafnan á móts við þau og gekk það uns komið var inn í fjarðarbotn. En þegar grynna fór sá stúlkan að röstin stóð af ákaflega stórum hval sem synti beint inn eftir firðinum eins og hann væri rekinn eða teymdur. Þegar fjörðinn þraut og þar kom að sem Botnsá kemur í hann bað klerkur dóttur sína að leiða sig upp með ánni að vestanverðu. Hún gjörði það og staulaðist karlinn upp fjallshlíðina með ánni, en hvalurinn öslaði einatt hér um bil jafnframt þeim upp eftir ánni sjálfri, og var honum það þó örðugt mjög sökum vatnsleysis.

Melabergsvötn

Melabergsvötn.

En þegar inn kom í gljúfrið sem áin rennur um fram af Botnsheiði þá urðu þrengslin svo mikil að allt skalf við þegar hvalurinn ruddist áfram, en þegar hann fór upp fossinn hristist jörðin umhverfis eins og í mesta jarðskjálfta. Af því dregur fossinn nafn og heitir síðan Glymur og hæðirnar fyrir ofan Glym eru síðan kallaðar Skjálfandahæðir. En ekki hætti prestur fyrr en hann kom hvalnum alla leið upp í vatn það sem Botnsá kemur úr og síðan er kallað Hvalvatn.
Fell eitt er hjá vatninu og dregur það einnig nafn af atburði þessum og er kallað Hvalfell. Þegar Rauðhöfði kom í vatnið sprakk hann af áreynslunni að komast upp þangað og hefur síðan ekki orðið vart við hann, en fundist hafa hvalbein mjög stór-kostleg við vatnið og þykir það vera sögu þessari til sannindamerkis. – En þegar prestur var búinn að koma hvalnum fyrir í vatninu staulaðist hann heim aftur með dóttur sinni og þökkuðu honum allir vel fyrir viðvikið.“Sagan um Rauðhöfða er til í nokkrum útgáfum, yfirleitt breyttum og styttum. Ein þeirra fjallar um Melabergsmanninn. „Hann hleypur fram af hamri sem kallast Stakksgnípa. Drekkir 19 skipum milli Akraness og Seltjarnarness. Drekkti bæði syni prestsins í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd og prestsins í Saurbæ á Kjalarnesi. Tóku þeir sig saman og kváðu Rauðhöfða inn fjörðinn á milli bæjanna og heitir hann því Hvalfjörður. Varð þá landskjálfti mikill og því heita hæðirnar við Hvalvatn Skjálfandahæðir.“

Í sögunni um Faxa, sem er um sama efni, segir að „þegar upp komust svik mannsins varð hann óður og steypti sér í sjóinn og breyttist í hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af því nafni dregur Faxaflói nafn sitt. Drap tvo syni manns er kunni jafnlangt nefi sínu. Var Faxi rekinn í Hvalvatn þar sem síðan fundust hvalbein til sannindamerkis um þessa atburði.“

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsvarða.

Í sögunni um Melabergs-Helga, enn um sama efni, segir að „ekkja nokkur bjó að Melabergi ásamt sonum sínum þremur og hét einn Helgi. Eitt sinn fóru bræðurnir í Geirfuglasker ásamt öðrum. Þeim varð illt til fengs og fóru því í fleiri sker. En nú fór að brima og komst Helgi ekki í bátinn. Ekki var komist í skerin fyrr en vorið eftir og var leitað eftir beinum Helga. Var undrun manna mikil er hann fannst lifandi og vel á sig kominn. Eftir þetta var skerið kallað Helgasker.
Síðan gerist allt sem í hinum sögunum og er upp komast svik Helga segir hann allt af létta og fer síðan inn þvera heiði og fam af Hólmsbergi. Um leið og hann stakk sér féll úr berginu klettur og er hann hér um 100 faðma fyrir framan bergið og heitir Stakkurinn til þessa dags. Bræður Helga ætluðu heim og komust inn fyrir Melabergsá og urðu þar að steinum. Heita steinar þeir Bræður enn. Helgi breyttist í rauðhöfðaðan hval og hafðist við í Hvalfirði á fjaðrarmótum Kollafjarðar.
Að Reynivöllum bjó prestur og drekkti Rauðhöfði sonum hans tveim. Prestur var skáld og kunnáttusamur. Hann stefndi Rauðhöfða upp í Hvalvatn. Melaberg lagðist í eyði vegna reimleika. En klæðið sem var yfir ruggunni skyldi hafa verið haft fyrir altarisklæði á Hvalsnesi þar til slitið var, þá tekið í sundur og verið lengi til nokkuð af því og ei alllangt síðan eyðilagðist.“

Í sögunni um Mókoll á Melabergi, enn og aftur um sama efni, segir að hann hafi verið „ríkur bóndi á Melabergi. Allt fer sem fyrr en nú er hann finnst er kona ein hjá honum og lætur vel að honum. Segist hún ganga með barn hans og muni koma með það í kirkju til skírnar. En er barnið var til skírnar fært vildi Mókollur ekki kannast við neitt. Hann stekkur úr kirkju og fram á Hólmsberg á snös þá er síðan er kölluð Stakksnös. Þá féll þar úr berginu með honum klettur sá er Stakkur heitir. Á Katanesi bjó karl sem átti tvo sonu sem Mókollur gleypti að karli ásjáandi. Hann kom svo Mókolli fyrir í Hvalvatni.

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsvarða endurgerð.

Í annarri útgáfu af sögunni um Rauðhöfða segir að „Árni hafi heitið kvæntur maður og átti hann nokkur börn. Skip hans hvarf við Geirfuglasker en vorið eftir birtist Árni þessi heima hjá sér. Ekki sagði hann hvernig hann hefði komist af. Nú gerist allt sem áður: barn er fært til skírnar og yfir því er dýrindis klæði í rauðum lit. Presturinn reynir árangurslaust að telja Árna á að viðurkenna barnið og álfkonan leggur á að hann verði að hinum versta fiski í sjónum „og granda skipum og mönnum og aldrei komast úr þeim ánauðum, og jafnan skal einhver ógæfumaður vera meðal niðja þinna, allt í átjánda lið.“ Árni var með rauða húfi á höfði er hann tók að tryllast og þrútna út. Stökk hann svo í sjóinn og breyttist í illhveli mikið og hafðist við milli lands og Geirfuglaskerja þar til kraftaskáld nokkur kvað hann upp í Hvalvatn. Mælt er að Einar á Iðu sem var dæmdur til lífláts fyrir barneign í meinum væri kominn að Árna í níunda lið, en nú er komið í hinn tólfta.“

Í sögunni um Álfkonuna í Geirfuglaskeri, sem ein útgáfan af Rauðhöfða, segir að „nú er það presturinn að Útskálum er fær barnið til skírnar og maðurinn kastar sér fram af „Hólsbergi“. Hann drekkir síðan tveim sonum ekkju á Bjarteyjarsandi. Hún var margkunnug og kom illhvelinu fyrir í Hvalvatn.“
Í sögunni um Hvalinn í Hvalvatni segir af Gísla (eða Birni). „Hann hafðist við hjá tveimur konum og gerði þá yngri ólétta. Við messu kemur kona með vöggu og yfir henni er rautt klæði. Þegar Gísli neitar að eiga barnið breytist hann í illhveli og hefst við á Faxaflóa og gengur síðan allt eftir sem fyrr.“

Dauðsmannsvarða

Dauðsmannsvarða við Sandgerðisveg.

Í sögunni um Árna á Melabergi segir að „Árni þessi átti þrjá bræður er bjuggu á næstu bæjum við Melaberg. Hann hvarf við Geirfuglasker um haust og kom fram vorið eftir að Hvalsnesskirkju heill á hófi og vel útlítandi. Nú gengur sem fyrr að kona kemur með vöggu til kirkju og yfir henni er fagur dúkur.
Þegar Árni neitar að meðkenna barnið segir konan: „Illa launar þú mér lífgjöfina og veturvistina enda skaltu í sjóinn fara – og verða að þeim versta og mannskæðasta hval og óhamingja skal fylgja ætt þinni í átjánda lið.“
Árni ærðist og steyptist fram af klettunum hjá Melabergi. Bræður Árna voru við kirkju og urðu þeir allir að steinum á heimleiðinni. Þeir steinar sjást hjá kirkjuveginum og eru stórir drangar og ganga út úr þeim mjóir drangar sem handleggir. Það fylgdi ætt Árna í átjánda lið að í henni var alltaf einhvur ólánsmaður. Seinastur þeirra er talinn Einar á Iðu á Skeiðum sem átti barn með dóttur sinni. Árni varð að versta hval og lagðist inn í Hvalfjörð. Þar var hann þar til hann drekkti tveimur sonum bónda á Kjalarnesi. Þessi bóndi var kraftaskáld og kvað hann hvalinn inn úr Hvalfirði og undir jörðu inn í Hvalvatn þar sem hann sprakk. Eftir hvarf Árna var um langa tíð reimt á Melabergi.“

Á leiðinni, skammt vestan Melabergsvatna, eru hólar að norðanverðu. Þeir heita Smjerhólar. Ofar eru Melabergsvötnin. Þar segir sagan að Tómas nokkur frá Bursthúsum hafi drukknað er hann var að fara yfir brú á vötnunum á 17. öld. Tómasarhóll heitir hóll með fuglaþúfu á nokkur norðaustar í heiðinni, skammt frá horni varnargirðingarinnar. Óvíst er þó að sá hóll tengist atburðinum þótt um sama nafn sé um að ræða.
Norðan við Tómasarhól sést í helsta kennileitið í Miðnesheiði ofan við Norðurkot; Efrivörðu. Sigurður Eiríksson í Norðurkoti hefur hlaðið vörðuna upp ásamt kunningja sínum Guðmundi Sigurbergssyni. Þeir hafa og hlaðið upp nokkrar aðrar nafnkunnar vörður í heiðinni.

Sigurður Eiríksson

Ómar og Sigurður við Dauðsmannsvörðu í Miðnesheiði.

Önnur varða, sem þeir hlóðu upp, er Dauðsmannsvarða, sem er allnokkru austar, fast utan við varnargirðinguna. Sú varða tengist sögn um mann frá Bæjarskeri, sem varð þar úti eins og svo margir aðrir á leið þeirra frá kaupmanninum í Keflavík. Milli þessara varða er Reykhóll.
Margar skráðar heimildir eru til um mannskaða á Miðsnesheiði. Má nefna að á u.þ.b. 40 ára tímabili á 19. öld urðu þar um 60 menn úti á leið þeirra um heiðina.
Melabergsleiðin (Hvalsnesgatan) innan varnarsvæðisins er vel vörðuð þegar komið er upp að og fyrir ofan Melabergsvötn. Þar taka við Efrivötn, mun minni, en ofan við þau þarf að fara í gegnum gat á varnargirðingunni. Venjulega er gatið lokað, en af og til reynist það opið. Annað gat er á girðingunni efra, þ.e. á henni austanverðri. Það er þó oftar lokað en hið neðra.
Götunni var fylgt með augunum þar sem hún liðast upp eftir heiðinni. Norðan við hana er vetrarleiðin, vel vörðuð óröskuðum vörðum.
Austar blasir Vatnshólavarða við. Hún var mun hærri hér áður fyrr, enda lengi notuð sem siglingarvarða í Másbúðarsundið og sem mið af sjó.
Norðar sjást Selhólar, en vestur undan þeim eru tóftir sem og gróin fjárborg. Glæsir er ofar og austar. Þeir, sem fara þurftu um heiðina, töldu sig stundum verða var við draugagang við Glæsi, og sumir beinlínis lögðu lykkju á leið sína til að forðast staðinn, einkum eftir að rökkva tók. Nafnið er til komið eftir að maður, sem átti leið um, lenti þar í miklum ljósagangi.
Þegar komið er upp að svonefndu Margvörðuholti beygir gatan út af götunni og undir girðinguna. Utan hennar var leiðinni síðan fylgt áfram til Keflavíkur.

Melabergsvegur

Melabergsvegur.

Beinvarðaða gatan er yfir háheiðina, frá því að útsýni sleppir að austanverðu uns útsýni næst á ný að Hvalsneskirkju og Melabergi að vestanverðu.
Staðnæmst var á Berginu þar sem Stakksnípa og Stakkur blöstu við. Stakksfjörður er breiður og djúpur fjörður sem gengur til suðurs úr Faxaflóa og afmarkast að austan af Keilisnesi á Vatnsleysuströnd en af Stakksnípu í Hólmsbergi á Rosmhvalanesi að vestan. Viti er á Stakksnípu, reistur 1958. Stakksfjörður dregur nafn af þessum staka klettadrangi, Stakki, sem er undan Hólmsbergi.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Jón Árnason – Þjóðsögur og ævintýri III.
-http://bokasafn.reykjanesbaer.is/
-Sigurður Eiríksson.

Melabergsleið

Vörður við Melabergsleið og Hvalsnesgötu.

Rósel

Við leit að Rósaseli (Róseli) utan Rósaselsvatna (-tjarna) ofan Keflavíkur var eftirfarandi lýsing m.a. höfð að leiðarljósi:
Rósel II„Róselsvötn heita einu nafni tjarnir tvær skammt ofan við Keflavíkurkaupstað, annað vatnið er innan flugvallargirðingar-innar. Þangað er nú byggðin sem óðast að teygjast. „Vötnin“ eru tjarnir kallaðar í daglegu tali manna á milli í bænum, og börn og unglingar greina á milli „Stóru-Vatna“ og „Litlu-Vatna“. Hin síðari tjörn er utan við flugvallargirðinguna og þornar hún upp í þurrkum á sumrin. Fyrri tjörnin er aftur á móti alltaf með vatni í. Nokkuð gras er á bökkum „Stóru-Vatna“ og eins vex einhvers konar vatnagróður í sjálfu vatninu. (Það skal tekið fram að þó tjarnir þessar séu aðeins tvær eru þær nefndar í fleirtölu þó ekki sé átt við nema aðra þeirra). Áður fyrr var tekinn þarna mór og hann fluttur niður í Keflavík, jafnt af konum sem körlum.
Eftir því sem ég veit bezt var þar Rosel Isíðast grafinn mór í kolaskortinum í stríðinu 1914-18. Um nafngift vatnanna er það helzt að segja að hún (Róselsvötn) felur í sér að þar hafi verið sel. Segir frá því í hinum óprentaða hluta Suðurnesjaannáls Sigurðar Sívertsens að Stóri-Hólmur í Leiru hafi haft þar í seli til forna líklega á 18. öld og fyrr. Mér vitanlega eru engar rústir sjáanlegar af kofum á staðnum en vera má að það leynist innan um þúfur og steina sem þar eru á víð og dreif. Róselsvötn eru vestur af Keflavík.“
Við skoðun á svæðinu norðvestan vatnanna komu rústir tveggja selstaða í ljós; Rósel I og Rósel II. Leifar fyrrnefndu selstöðunnar eru suðvestan við „Stóru-Vötn“. Þær virðast mun eldri, en þó má enn sjá móta fyrir hleðslum og rýmum þrátt fyrir gras og mosagróður. Síðarnefnda elstaðan er norðvestan við Vötnin.
Þar eru Rosel Itóftirnar mjög vel greinilegar og má sjá bæði búr og baðstofu sem og hliðsett eldhús. Stekkurinn er skammt norðar (útnorður).
Skógræktarmaður er dundaði við að planta trjám í gömlu Hvalsnesleiðina virtist undrandi er honum var bent á tóftirnar. Hann hafði verið að dunda á svæðinu meira og minna í 30 ár, en aldrei rekið augun í þær (enda kannski upptekinn við annað).
Norðaustan Róselsvatna má sjá hluta Hvalsnesleiðarinnar gömlu. Einkum athyglisvert er að sjá tvíþætt hlutverk hennar á kafla; annars vegar gömlu göngu- og reiðgötuna og hins vegar vagnveg. Á síðarnefnda kaflanum, sem ekki er ýkja langur, má sjá leifar tveggja hlaðinna brúa yfir mýrardrög. Í gömlu reiðgötuna hefur verið plantað trjám líkt og í selstöðuna suðvestan við Vötnin.

Heimild:
-Örnefni við Keflavík á Rosmhvalanesi (Suðurnesjum), [vélritað upp úr ritinu Faxa 1967 (janúar hefti ?) af Skúla Þór Magnússyni], eftir Ragnar Guðleifsson kennara í Keflavík – Örnefnastofnun Íslands.

Rósel

Rósel I og 2 – uppdráttur ÓSÁ.

Hafnavegur

Ætlunun var að rekja hina gömlu leið „Hafnaveg“ milli Hafna og Ytri-Njarðvíkur. Vörður og vörðubrot eru við leiðina.
Gatan sést enn vel sunnan Ósa og Ósabotna (innsta hluta Ósa) og um Bringur og Ketilsbrekku. Þar var byggður Vindmyllustandurherkampur (Camp Hopkins)
 ofan á götuna á stríðsárunum seinni. Hún sést norðan hans og áfram undir varnargirðinguna. Innan hennar taka við gamlir sorphaugar, en handan þeirra sést gatan á kafla. Reyna átti að rekja götuna í gegnum Vallarsvæðið og áfram um Háaleiti, en svæðinu hefur verulega verið raskað þar, að því er virðist algerlega að óþörfu.
Þegar á enda var komið og upphafsreiturinn endurmetinn var ljóst að „Hafnavegur“ er tvískiptur; annars vegar gamla gatan (göngu- og reiðleiðin) og hins vegar vagngata (gæti verið frá því rétt fyrir 1900). Síðarnefnda gatan hefur verið lögð ofan í elstu götuna á köflum, einkum næst Höfnum/Kirkjuvogi (vestan Ósabotna) og í Bringum. [Gamlir kallar hér í Kirkjuvogshverfi töluðu um Bringa (ofan við „í vötnum’’) – flt. Bringar, þ.e. í karlkyni – hef séð báðar útgáfurnar notaðar.] Ofan við Ósabotna (austan Hunangshellu) greinist gatan í þrennt; götu áfram út með Ósum, elstu götuna og vagnveginn (syðst). Ofan við Ketilsbrekku greinist gatan aftur í tvennt og er vagngatan þá ofan (norðan) við hina.
StrokkhóllHin forna þjóðleið milli Rosmhvalaness (Keflavíkur/Ytri-Njarðvíkur) og Hafna lág um Hafnaveg. Gatan er glögg þar sem hún liggur frá Höfnum austan þorpsins ofan við eyðibýlið Teig, út með Ósum að Ósabotnum, um Bringur áleiðis upp í Ketilsbrekku og að varnargirðingunni. Innan hennar voru gerðir sorphaugar svo gatan hverfur þarna undir þá.
Í frásögn Leós M. Jónssonar í Höfnum kemur eftirfarandi fram um svæðið frá Þrívörðuhæð að Höfnum: „Af veginum á Þrívörðuhæð, beint af augum, sjást Ósar, eða Kirkjuvogur, en svo nefnist fjörðurinn sem talinn er hafa myndst vegna landsigs. Vísbendingar um það er að minnst er á 50 kúa flæðiengi, sem lægi undir jörðina Vog sem var norðan Ósa, í Vilkinsmáldaga frá 1397. Ósar eru eitt af náttúruverndarsvæðum landsins. Þar er óvenjuleg fjölbreytni í lífríki fjöruborðsins auk fuglalífs. Ofan af Þrívörðuhæð liggur vegurinn niður slakka og nefnist hann Bringar. Þegar komið er niður á jafnsléttu eru vegamót á hægri hönd. Þar er Suðurstrandarvegur og liggur hann til Sandgerðis.

Hafnavegur

Stuttum spöl lengra, næst veginum, er vík sem nefnist Ósabotn. Hún liggur á milli Þjófhellistanga að vestanverðu og Steinboga sem er lítill klettatangi að austanverðu (nær Bringum). Spölkorni lengra er Hunangshella klöpp norðvestan vegarins (á hægri hönd). Gamall niðurgrafinn vegur í Hafnir lá í gegn um skarð sem er í klöppinni – nú grasi gróið. Sjálf Hunangshellan er stærri hluti klapparinnar sjávarmegin, nokkuð löng klöpp sem hallar móti norðvestri. Á háflóði eru 25-30 metrar frá Hunangshellu til sjávar. Þjóðsagan segir að á þessum stað hafi skrímsli legið fyrir ferðamönnum í myrku skammdeginu og gert þeim ýmsa skráveifu. En þessi meinvættur var svo vör um sig að engin leið reyndist að komast í færi til að vinna á henni – ekki fyrr en einhverjum hugkvæmdist að smyrja hunangi á klöppina.
Á meðan dýrið sleikti hunangið skreið maður með byssu að því og komst í skotfæri. Sagt er að hann hafi til öryggis Vagngatanrennt þrísigndum silfurhnappi í hlaup framhlaðningsins en fyrir slíku skoti stenst ekkert, hvorki þessa heims né annars.
Þegar ekið er áfram og nú í vestur meðfram Ósum er komið að gamalli heimreið. Á hægri hönd sést eins konar steyptur strompur. Það mun vera það eina sem eftir er af mannvirkjum býlis sem hét Teigur og er reyndar ekki strompur heldur gömul undirstaða vindrafstöðvar sem framleiddi rafmagn fyrir loðdýra- og síðar svínabú sem þar var sett á stofn snemma á 6. áratug síðustu aldar. Það var rekið fram á síðari hluta 8. áratugarins og mun hafa verið eitt fyrsta stóra svínabú landsins og sem slíkt merkilegur áfangi í nútímaiðnvæðingu en fóðrið var matarúrgangur frá mötuneytum í herstöðinni á Miðnesheiðinni (en með honum streymdu hnífapör og annað dót í Hafnir). Bóndinn í Teigi hét Guðmundur Sveinbjörnsson, var frá Teigi í Fljótshlíð, lærður skósmiður og hafði rekið skósmíðastofu í Reykjavík þegar hann setti upp búið í Teigi. Og þótt það sé aukaatriði má geta þess að Guðmundur í Teigi mun hafa verið einna fyrstur manna til að kaupa og nota japanskan ,“pikköpp-bíl“ hérlendis – en Guðmundur í Teigi mun hafa verið á undan sínum samtíðarmönnum í ýmsu sem laut að tækni. [Við leifar útihúss má t.d. sjá nokkur járnherfi frá byrjun síðustu aldar.]

Hafnavegur

Þá er komið í Kirkjuvogshverfi sem nú nefnast Hafnir í daglegu tali en þar hafa búið 80-130 manns s.l. 3 áratugi. Fyrr á öldum voru Hafnir ein af stærstu verstöðvum landsins en þær eru samheiti fyrir 3 hverfi (lendingar), þ.e. Kalmanstjörn, Merkines og Kirkjuvog.“
Hafnavegurinn er mjög greinilegur, sem fyrr sagði. Kastað hefur verið upp úr götunni svo hún sést vel þar sem hún liðast upp lágheiðina (Bringurnar). Nokkrar heilar vörður (sennilega endurhlaðnar) eru við götuna og auk þeirra má víða sjá fallnar vörður. Herkampur, Camp Hopkins, var settur yfir götuna á kafla. Má enn sjá ummerki eftir mannvirkin, ekki síst „vörðu“ glerbrota bjórflaska. Hlutaðeigendur virðast því hafa notið dvalarinnar meðan á stóð.
Tvær vörður hafa nýlega verið hlaðnar á kampssvæðinu. Á þær eru fest upplýsingaspjöld um tilkomu Bandaríkjahers hér á landi 1941 er þeir tóku við af breska hernámsliðinu. Ýmsir kampar voru vítt og breitt um Suð-Vesturland.
HafnavegurÍ fyrstu var búið í skálum Bretanna. Bandaríkjamenn reistu síðan aðra tegund af bröggum, Nissen-bragga, sem þóttu bæði reisulegri og betri mannabústaðir. 

Um Ketilsbrekku segir m.a. í gamalli þjóðsögu: „Eitt sumar var Ketill í Kotvogi á heimleið frá Keflavík. Hann hvíldi sig í brekku einni á Hafnaheiði, sem kölluð er Ketilsbrekka. Þar hafði hann skamma viðdvöl en lagði síðan af stað aftur.
Skömmu áður en að hann kom að Þrívörðum á miðri heiðinni, sá hann stúlku koma gangandi móti sér sunnan að. Honum varð nokkuð starsýnt á stúlkuna, af því að búnaður hennar allur og fas var með nokkurum öðrum hætti en þá tíðkaðist. Litla tágakörfu hafði hún í hendi, fulla af margvíslega litum, skrautlegum blómum.
Stúlka þessi var svo Glerbrot grönn í vexti að það vakti sérstaka athygli Ketils. Er hún varð Ketils vör virtist koma á hana hik og ókyrrð nokkur. Hún hélt þó áfram eftir veginum þar til á að giska 30 metrar voru á milli þeirra. Þá nam hún skyndilega staðar og blíndi á hann, en vék síðan af vegi og gekk á svig við hann svo að alltaf var jafn langt á milli.
Katli fannst kona þessi undarleg mjög og þegar hún vék úr vegi kallaði hann til hennar og heilsaði henni. Ekki svaraði hún einu orði, en hélt áfram að stara unz hún var komin jafn langt aftur fyrir og hún hafði verið fyrir framan hann er hún fór út af veginum. Gekk hún þá aftur inn á götuna og hélt áfram austur eftir henni. Alltaf horfðumst þau í augu, en eftir að hún kom á þjóðveginn aftur virtist hún ekki hafa eins mikinn beyg honum. Þó leit hún oft um öxl. Ketill reyndi ekki frekara að ná tali af henni eða grennslast eftir hver hún væri. En ekki kannaðist hann við hana úr nærsveitunum því að þar þekkti hann hvert mannsbarn.“
Á leiðinni frá Höfnum er farið fyrir ofan Stekkjarnes og framhjá Hunangshellu. Um hana segir ein þjóðsagan: „Finngálkn Hunangshellaer það dýr kallað sem köttur og tófa geta saman. Er það grimmt mjög og öllum vargi skaðlegri fyrir sauðfé manna og skotharðast allra dýra. Vinnur engin kúla á finngálknið og verður það ekki skotið nema með silfurhnapp eða silfurkúlu. Það er og styggt mjög og ákaflega frátt á fæti.
Einu sinni lagðist finngálkn á sauðfé Hafnamanna og annara þar nærlendis. Hélt það sig mest umhverfis Ósana, sem kallaðir eru og gjörði tjón mikið. Reyndu menn á allar lundir að drepa finngálknið en það tókst ekki. Gekk svo lengi þangað til loksins að maður einn sem vissi jafnlangt nefi sínu hitti upp á því að hann makaði hellu eina við Ósabotnana með hunangi. Vissi hann að finngálkn er mjög sólgið í sætindi, helzt hunang. Síðan lagði maðurinn sig í leyni skammt frá hellunni. Dýrið rann á hunangslyktina og fór að sleikja helluna. Skaut þá maðurinn dýrið og hafði silfurhnapp af bol sínum fyrir kúlu. Þótti öllum mjög vænt um verk þetta.
Hellan er síðan kölluð Hunangshella og er hún við landsuður-horn Ósanna hjá alfaraveginum milli Keflavíkur og Hafna.“

Varða

Ofar, ofan núverandi þjóðvegs, eru Þríhólar og Strokkhóll vestar. Í honum eru álfar eða huldufólk sagt búa. Hæðin norðar, þaðan sem fyrst sést að Höfnum er núverandi þjóðvegur er ekinn, heitir Þrívörðuhæð – (Þrívörður skv. örnefnalýsingu fyrir Hafnir).
Þótt auðvelt sé fyrir vana sporgöngumenn að rekja Hafnaveginn er hann ekki sjálfgefinn. Augljóst er þó að vagngatan frá því í lok 19. aldar hefur verið lögð ofan á gömlu leiðina á köflum, sem fyrr sagði, en eldri leiðina má vel greina þar sem hún liggur hlykkjóttari með vöngum lágra hjalla. Báðar leiðirnar stefndu þó augljóslega að sama marki – til byggðalaganna beggja enda. Ein varðan stendur ein í lægð undir Bringum. henni hefurverið haldið við til langs tíma einhverra hluta vegna. Frá henni liggur vörðuð gata til norðurs, áleiðis að enda Djúpavogs. Þar gæti verið um að ræða hluta „Kaupstaðaleiðarinnar“. Vegna vanhugsaðra framkvæmda á svæðinu millum Ósabotna og Bringa hefur vagngatan verið eyðilögð að hluta. Í raun er hér um að ræða eina merkilegustu einstöku fornleif svæðisins – sem þó virðist vera á fárra vitorði og lítill sómi hefur verið sýndur.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Rauðskinna I 4, Þjóðsagnabókin I 30.
-Jón Árnason I 611.
-Örnefnalýsing fyrir Hafnir.
-leoemm.com

Hafnavegur