Tag Archive for: Reykjanesbær

Geirfugl

Valabjargargjá er með fallegri stöðum á Reykjanesi, en þar er m.a að finna eina af elstu sundlaugum landsins. Ólafur P. Sveinsson vitavörður á Reykjanesi lét gera litla laug í gjánni á árunum 1925-30. Hann lét sprengja hraunklöpp þannig að volgur sjór sytlaði í gjánna og einnig byggði hann yfir laugina og útbjó þrep niður í gjánna.

Reykjanes

Sundlaugin á Reykjanesi.

Reykjanes er ysta táin á Reykjanesskaga. Nesið er eldbrunnið, þar eru lág fjöll og hnúkar úr móbergi, jarðhiti, klettótt strönd og hraun runnið í sjó fram. Á Reykjanesi ber mest á Skálafelli, sem er hæsta fellið, og Valahnúk eða Valahnúkum, sem er(u) yst. Mikið brotnar úr Valahnúk á hverju ári, enda brýtur hafaldan úr honum nánast í hverju roki. Yst á tánni eru svokallaðar Skemmur. Þar hefur sjór brotið hella undir efsta hraunlagið og hafa hellisþökin sums staðar brotnað niður. Þetta veldur því að þegar hvasst er og álandsvindur (suðvestan) þá brotnar hafaldan með miklum dyn inn í hellana og standa svo gosstrókar upp um götin. Er þetta oft mikið sjónarspil.

Reykjanes-sundlaug

Reykjanes – sundlaug.

Austan í Valahnúk er draugshellir nokkur er getið er um í þjóðsögum. Austan við Valahnúk er og gjá nokkur, sem nefnd er Valborgargjá. Í henni er hraungjóta nokkur eða sprunga með vatni, sem áður var volgt. Yfir hana var byggt hús eða skúr snemma á 20. öld og þar kennt sund áður en sundlaugar komu til sögu í byggðarlögunum á utanverðum Reykjanesskaga og man enn margt eldra fólk eftir því er það var að læra að synda þar. Á ströndinni utan við Valbjargargjá er Valahnúkamöl, stórgrýtt fjara þar sem allir steinarnir eru lábarðir og núnir. Margir telja að nafnið Valbjargargjá sé afbökun, því að Valahnúkur heitir líka Valabjörg, og gæti gjáin þá augljóslega heitið Valabjargagjá, sem hefði afbakast í Valbjargargjá og Valborgargjá.

Reykjanes

Valbjargargjá.

Á Reykjanesi var fyrsti viti á Íslandi reistur árið 1878. Hann var uppi á Valahnúk. Árið 1896 urðu jarðskjálftar sem röskuðu undirstöðu vitans og varð þá ljóst að byggja varð nýjan vita. Hann var reistur á Bæjarfelli um 400 m frá Valahnúk. Þeirri staðsetningu fylgdi þó sá galli, að Skálafell skyggir á vitann séð úr suðaustri. Þess vegna var reistur annar lítill viti úti á Skemmum og kalla sumir hann hálfvitann. Frá Reykjanesi er óslitið haf allt til Suðurskautslandsins.

Fyrir Reykjanes liggur erfið siglingaleið, sem er sú fjölfarnasta við strendur landsins. Það er sundið á milli Reykjaness og Eldeyjar, sem heitir Húllið. Í Húllinu er Reykjanesröst, sem er straumþung og getur bára orðið þar mjög kröpp í vissum áttum og eftir sjávarföllum.

Clam

Clam á strandsstað.

Reykjanes hefur löngum verið slysasamt fyrir sæfarendur. Eitt mesta strand þar varð árið 1950 er olíuskipið Clam strandaði þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um 50 manns voru í áhöfn, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni „Strandið“ eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.

Heimildir m.a.:
-http://is.wikipedia.org/wiki/Reykjanes

Valahnúkur

Valahnúkur.

Skipsstígur

Genginn var Árnastígur og Skipsstígur frá Húsatóftum til Njarðvíkur – 18 km leið. Þar af er Árnastígurinn 12 km. Gangan var með Strandgönguhópnum og liður í leiðsögunámi svæðaleiðsögumanna Reykjanesi.

Skipsstígur

Skipsstígur.

Örnefnaskrám Grindavíkur er gefin eftirfarandi skýring á örnefninu Árnastígur, sem er gamla þjóðleiðin af Skipsstíg til Húsatófta: „Rétt fyrir suðaustan Klifgjá er vegurinn ruddur og greiðfær. Heitir sá spölur Árnastígur. Árni nokkur, sem fyrrum bjó í Kvíadal, litlu koti í Staðartúni, mun hafa rutt þennan stíg.“ Skipsstígur er gamla þjóðleiðin milli Njarðvíkur og Grindavíkur (Járngerðarstaðahverfis).
Sólin var ofar skýjum og vætan undir til að byrja með. Á landamerkjum Grindavíkur og Hafna urðu vistaskipti og sólin varð ráðandi undir niðri.
Gengið var frá upphafsstað við Húsatóftir upp að fyrstu sýnilegu vörðunni við Árnastíginn skammt ofan við golfvöll Grindvíkinga. Eftir það var stígurinn fetaður með vörðurnar á hægri hönd, að einni undantekinni (þ.e. varða við Skipsstíginn skammt ofan gatnamóta Árnastígs nyrst við Rauðamelinn). Með í för voru fræðarar leiðsögumannanema, Ægir og Þorvaldur. Alla leiðina miðluðu þeir af reynslu sinni og þekkingu svo margir stóðu margfróðari eftir.

Árnastígur

Nefvarða við Árnastíg.

Nú hefur Árnastígurinn að hluta verið ruddur í slóða, en víða í beygjum má sjá upphafleg einkenni hans. Skammt sunnan við Sundvörðuhraun m.a. m.a. sjá hlaðið undir stíginn á einums tað þar sem hann liggur á milli jarðfalla. Þegar komið er suðaustan við Sundvörðuhraun liggur frá honum annar stígur (varða við gatnamótin). Sá stígur liggur framhjá svonefndum „Tyrkjabyrgjum“ í krika sunnan undir Sundvörðuhrauni og áfram inn í Eldvörp. Þar eru hleðslur (garðar), auk svonefnds „Útilegumannahellis“ eða „Brauðhellis“. Í honum sjást hleðslur.

Skipsstígur

Gengið um Skipsstíg.

Austan Sundvörðuhraun, á hellunni er yfirborð Eldvarparhrauns, er stígurinn allsléttur og norðaustan við hraunkantinn sést vel hversu markaður hann er í klöppina eftir hófa, klaufir og fætur liðinna alda. Áður en stógurinn beygir til norðurs má sjá gatnamóti í beygjunni. Úr henni liggur stígur til suðurs niður í Járngerðarstaðahverfis (sem loftskeytastöðin hefur reyndar girt af), að Títublaðavörðu.
Áð var áður en komið var yfir Elvarparhraunið. Þar mátti m.a. sjá „landnemaplöntur“, sem óvíða er að sjá annars staðar en á heitari svæðum. Í áningunni sannaði Vogafólkið enn og aftur að fáir kunna sig betur á ferðalögum. Þeir drukku t.a.m. úr postulíni á meðan aðrir sötruðu ú plastílátum.

Árnastígur

Varða við Árnastíg.

Áfram liggur stígurinn í gegnum Eldvörpin og inn á Sandfellshæðarhraunið, með jaðri Eldvarparhrauns austan Lágafells og síðan áfram milli þess og Rauðhóls (Gígs), niður misgengi (Klifgjá) vestan Þórðarfells og áfram norður með því austanverðu. Í misgengisberginu, sem þarna er allhátt, er hrafnslaupur, augsýnilegur.
Við Þórðarfellið er sagt að Hafnfirðingar, Njarðvíkingar, Þjóðverjar og Bessastaðavaldið hafi safnast saman hinn örlagaríka júnídag árið 1532 áður en sótt var að Englendingum ofan við Stóru-Bót vestan við Járngerðarstaðahverfið í Grindavík (sumir segja Greindarvík) þar sem 18 enskir voru vegnir og aðrir heftir til skamms tíma. Mun það hafa verið upphafið að lok „ensku aldarinnar“ hér á landi (sjá Grindavíkurstríði I, II, III og IV. undir fróðleikur (Skrár).

Árnastígur

Árnastígur.

Í brekkunni, við stíginn, er ferningslaga hleðsla. Þegar komið er norðvestur fyrir Þórðarfellið vilja flestir halda áfram eftir slóða, sem þar er, en liggur þar til norðurs við vörðu og liðast síðan djúpt í móanum í hlykkjum áleiðis að Stapafelli. Áður en komið er að Stapafelli endar stígurinn við vörðubrot, enda bíð að raska svæðinu framundan verulega.
Genginn var slóði norðaustur með Stapafellinu, austur fyrir Hrafnagjá og síðan í námunum norður fyrir það. Þar er einstaklega fallegar bólstrabergsmyndun. Að sögn Ægis er þar einnig „stærsti bólstur í heimi“ og hafði það eftir Sigurði heitnum Þórarinssyni, jarðfræðingi. Ekki verður dregið í efa að hann sé stór. Ægir kynnti myndun bólstarbergsins sem og annarra bergmyndana í fjallinu, s.s. móbergs og gosbergs sem og leik jökuls og sjávar við þau eftir myndun, sbr. Rauðamel og myndun hans sem tímabundins skers.
Haldið var áfram norðaustur eftir Árnastíg undir Stapafellsgjá, þar sem stígurinn er allgreinilegur. Vörðubrot eru víða til hliðar við stíginn. Reynt var að gera vörðurnar greinilegri, en þarna hafr að taka til hendinni og reisa vörðubrotin umm úr sverðinum við tækifæri. Ekki fer á milli mála að sá hluti Árnastígsins, þar sem hann hefur ekki verið yfirkeyrður með jarðvinnuvélum, hefur lítt verið genginn í seinni tíð. Mosinn og gróðurinn bera þess glögg merki.

Árnastígur

Árnastígur.

Þegar komið er að gatnamótum Skipsstígs er stólpi er sýnir með óyggjandi hætti hvar þau eru, en fyrir ókunnuga er erfitt að sjá hvor stígurinn er hvað. Við gatnamótin eru gömul vörðubrot, en nýlegri vörður hafa verið reistar í nánd.
Haldið var áfram norður eftir Skipsstíg. Fallegar, háar og heillegar vörður móta þá leið, flestar „karlskyns“. Á kafla má sjá stíginn vel mótaðan í bergið. Þegar komið var að varnargirðingunni var haldið hiklaust áfram í gegnum hana, yfir varnasvæðið og út hinum megin. Krókur um hana til austurs hefði kostað u.þ.b. 45 mín. óþarfa göngu til viðbótar, en Skipsstígurinn liggur í gegnum varnargirðinguna á sama stað og hitaveitulögnin. Yfir svæðið er ekki nema u.þ.b. 300 metra gangur. Þetta þarf að bæta, enda notkun svæðisins aflögð að mestu eða jafn öllu leyti. Ef athygli hins ágæta utanríkisráðherra, sem reyndar hefur gengið með FERLIR, væri vakin á þessu myndi hann án efa bæta um betur. Þaðan var strikið tekið eftir hitaveitlínuveginum að Fitjum. Þar er enn eitt upphafsskiltið er segir að þar sé upphaf Skipsstígs (18 km). Reyndar er upphaf Skipsstígs mun austar þar sem hann liðast um móana í átt að Sjónarhól og síðan áfram í átt að vörðunum sunnan varnargirðingarinnar (Títublaðavörðu). Stígurinn er þó víða horfinn á því svæði vegna landrofs.
Gangan tók 6 klst. Góð ganga með góðu fólki í góðu og sagnaríku umhverfi.

Árnastígur

Mót Árnastígs og Skipsstígs.

Við leit í og við Hafnir skammt utan Reykjaness kom í ljós áður óþekktur skáli, sem líklegt má telja að geti verið allt frá fyrstu tíð landnáms hér á landi.
Hafnir - brunnurSkálatóftin er að mestu orðin jarðlæg og því mjög erfitt að koma auga á hana. Skammt frá henni eru leifar af hlöðnum brunni sem og garðar og gerði, sem nú er komið í sjó fram. Ekki alllangt frá er gróinn hóll úti á ysta tanga; að öllum líkindum kuml fornmanns (sjá mynd hér að ofan).
Meira verður fjallað um svæðið á vefsíðunni síðar.

Ósar

Skálatóft við Ósa.

 

Við skoðun á áður þekktu minjasvæði frá því fyrir miðja 15. öld kom í ljós meint kuml.
Um er að ræða Hafnir-kuml-IIIgróinn manngerður hóll á ysta tanga byggðarinnar. Hóllinn er nú óðum að fjúka burt, auk þess sem sjórinn er smám saman að taka leifar hans til sín.
Á Reykjanesskaganum eru allnokkrar fornmannagrafir; kuml, dysjar eða hvað menn vilja nefna þær. Skamms er að minnast afrakstur fornmannagrafanna við Hafurbjarnastaði, sem nú eru til sýnis í Þjóðminjasafninu.
Þótt ólíklegt megi telja að starfsfólk Fornleifaverndar ríkisins lesi efni vefsíðunnar er því samt sem áður boðið að fara í „kumlferð“ um Reykjanesið til frekari upplýsinga því til handa þá og þegar því hentar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir.

 

Gömlu-Hafnir

Haldið var að Sandhöfn, Kirkjuhöfn og Eyrarhöfn (Eyri) og gengið þaðan vestur götuna áleiðis upp á Hafnaberg. Lýsing hafði fengist af gamalli rétt þar í slakka hægra megin götunnar.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – vörslugarður.

Þrátt fyrir nokkra leit fannst réttin ekki að þessu sinni, enda getur reynst erfitt að greina eitt frá öðru þarna í flæminu. Svæðið virðist eyðilegt, en það leynir á sér. Víða má sjá landnámsplöntur, fjölskúðugt fuglalíf og auk þess ber ýmislegt fyrir augu þegar betur er að gáð. Skúmurinn verpir t.d. þarna í sandinum og getur látið ólíkindalega.
Hlaðið gerði fannst skammt vestan og norðan Sandhafnar. Það er hlaðið nokkrun veginn sporöskjulaga með hringlaga hliðargerði við það norðanvert. Til norðurs út frá því er stuttur leiðigarður. Líklega hefur þarna verið rétt fyrrum. Skammt norðvestan er vörslugarður er liggur til suðvesturs upp að meginvörslugarðinum ofan Hafnabæjanna.

Gömlu Hafnir

Gömlu Hafnir – bæjarhóll.

Gerðinu var bætt inn á uppdrátt, sem gerður hafði verið af svæðinu. Mikið af mannvistarleifum er þarna með ströndinni og ofan hennar, s.s. hákarlabyrgi refagildra o.fl. T.a.m. er þarna sögn um grafreit. Tóft er í honum, auk annarrar utar.
Sigurjón Hinriksson frá Merkinesi sagðist muna vel eftir leifum bæjanna, einkum Kirkjuhafnar, ofan við garðana. Bæjarleifarnar hefðu síðan smám saman fokið í burtu. Lengst af hefðu leifar bæjarins Eyri verið þarna á tanganum. Sandhólarnir væru sandumorpnir klapparhólar, en bein hefðu verið flutt úr kirkjugarðinum yfir í garðinn við Kirkjuvog.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst. og 11 mín. (Sjá meira HÉR og HÉR).

Hafnaberg

Hafnaberg.

Gunnuhver

Fyrrum bjó maður einn á Kirkjubóli á Suðurnesjum, er Vilhjálmur hét. Á dögum hans skyldi hafa verið þar í koti hjá kona sú er Guðrún hét og var Önundardóttir. Hún átti að gjalda Vilhjálmi skuld að Kirkjubóli, en hafði það ekki, er gjalda skyldi. Er þá sagt, að Vilhjálmur hafi tekið pottinn hennar í skuldina.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Litlu síðar kom Gunna heim að Kirkjubóli og bað um að drekka. Fólk sá, að henni var brugðið, og var henni fært helgað messuvín. Hún spyr, hvern þremilinn hún eigi að gjöra við þetta. Dembdi hún því niður, en greip vatnsfötu og s svo mikið, að fólk undraðist stórum. Gekk hún síðan heim. Maður sá, er hjá henni var, hafði róið þennan dag. En er hann kom heim, var Gunna dauð í bæli sínu. Var þá smíðað utan um hana og líkið fært til Útskálakirkju. En er þeir, sem báru líkið, komu miðja leið, þótti þeim kistan furðulétt. Þó var ekki athugað um það meira.

Gunnuhver

Við Gunnuhver á Reykjanesi.

En þegar verið var að taka gröfina, er sagt, að Gunna hafi sést á milli þangkastanna á Útskálum og sagt: „Ekki þarf djúpt að grafa, ekki á lengi að liggja.“
Eftir þetta lagðist sá orðrómur á, að mjög reimt væri á Skaganum.
Nokkru síðar var Vilhjálmur við samkvæmi á Útskálum. Var hann þar fram eftir kvöldinu og vildi þá heim. En þar eð þessi orðrómur lá á, var honum boðin fylgd. En hann var hugmaður og þá kenndur nokkuð og þá því ekki fylgdina, en kom ekki heim um kvöldið. Daginn eftir fannst hann í Hrossalág, illa útleikinn.
Var hann fluttur í bænahús á Kirkjubóli og fengnir tveir menn til að vaka yfir honum. Nær miðri nóttu komu þeir inn og fengust ekki til að fara út aftur.

Gunnuhver

Gunnuhver.

Aðra nótt voru aðrir tveir fengnir. Þeir vöktu að vísu þá nótt út, en fengust ekki til þess lengur. Var þá fenginn til þess presturinn frá Útskálum, og hafi hann sagt það þá örðugustu nótt, sem hann hefði lifað. Síðan var líkið Vilhjálms jarðað, og bar þá ekki á neinu.

En reimleikinn ágerðist eftir það, og sáu allir Gunnu bersýnilega. Reið hún húsum og fældi fénað. Síðan voru fengnir tveir menn hinir ötulustu og sendir til síra Eiríks í Vogsósum og hann beðinn hjálpar. Hann tók þeim stutt og veitti afsvör, unz þeir fengu honum átta potta kút af brennivíni, er þeir höfðu með sér. Hýrnaði hann þá í svari og fékk þeim síðan hnýti og seðil með tveimur hnútum og bað fá Gunnu. Þeir gerðu sem fyrir þá var lagt, og tók Gunna við og leysti af hnútana og leit á.

Gunnuhver

Gunnuhver. Hverinn færist fram og aftur um hverasvæðið.

Er sagt, að henni hafi orðið þetta að orði: „Á andskotanum átti ég von, en ekki á Vogsósakarlinum. En ekki tjáir við að standa.“
Hafi hún látið hnýtið renna fyrir, en elt það, þar til hún kom að hver, sem er á Reykjanesi. Hafi hún hlaupið þar sífellt í kring, uns hnýtið var endað, og þá stungist ofan í hverinn, og heitir þar síðan Gunnuhver.

Jón Árnason I 563

Gunnuhver

Gunnuhver.

Óskar Aðalsteinsson

Gísli Sigurðsson ræðir við hjónin Hönnu Jóhannsdóttur vitavörð og Óskar Aðalstein fyrrum vitavörð á Horni og í Galtarvita um ýmis fyrir bæri þessa heims og annars. Viðtalið átti sér stað þegar Hanna var vitavörður í Reykjanesvita. Hér birtist hluti þess:

Hanna Johannsdottir-1„Ætlar ekki telpan að koma með ykkur inn?“
„Hvaða telpa“, spurði ég forviða.
„Telpan, sem er með ykkur í bílnum“, og Óskar Aðalsteinn bendir á mannlausan bílinn.
„Það er engin telpa með okkur“, áréttaði ég; „hún er að minnsta kosti ekki þessa heims. Hvernig lítur hún út?“
„Hún er með kastaníubrúnt hár og klædd í röndótt pils. Látum það vera; maður sér svo margt og hér við Reykjanesvitann ber ýmislegt fyrir augu. Þetta er eins á torgi lífsins. Stundum allt fullt af fólki. Og fegurðin, — allir þessir hreinu litir. Já, eins og á torgi lífsins. Æjá, ég var að vakna, þegar þú bankaðir. Var að skrifa einn kafla í bókina og lagði mig á eftir. Verst að Hanna er ekki heima. Hún rétt skrapp til Grindavíkur og hlýtur að fara að koma. Hún á að taka veðrið eftir smástund og verður hér á mínútunni. Nú skreppur hún í kaupstað, þegar með þarf. Það er einhver munur eða í Galtarvita. Annars kunnum við alltaf vel við okkur þar, enda búin að vera þar í 24 ár“.
Reykjanesviti-221„Og eftir öll þessi ár ertu orðinn vitavörður á Reykjanesi?“
„Nei, konan mín er tekin við. Hanna er vitavörður í Reykjanesvita og ég er bara goskarl hjá henni, enda tími til kominn. Hún er fyrsta konan á Íslandi, sem skipuð er í embætti vitavarðar. Áður var hún búin að vera aðstoðarvitavörður í Galtarvita og þekkti þetta allt vel. Ég er bara að skrifa og held, að ég sé með efni í ágæta bók. Hún kemur út í haust ef guð lofar og Guðmundur Jakobsson. Það er gott að skrifa hérna. Og gott að rölta um hlaðið og sjá útsýnið. Ég tek menn tali og segi þeim frá kríunni. Hún verður eins og voldugt herlið, þegar líða tekur að hausti, — mikill fjaðraþytur, enda langt flug framundan. Já, þetta er eins og leiksvið, — þannig verkar það á mig: Þessi vin hér í auðninni, hóllinn með tígulegum vitanum og heitir víst Bæjarhóll… bíddu annars; við skulum hafa allt á hreinu og fletta þessu upp í bók. Það er allt um þennan stað í Ferðafélagsárbókinni frá 1936.“
Í þeim svifum kom Hanna vitavörður á Skódanum austan úr Grindavík og með henni ungur drengur, sem er til heimilis í vitavarðarhúsinu ásamt með þeim hjónum. Hann kallar þau afa og ömmu, en er raunar kjörsonur eiginkonu sonar þeirra. Hanna tilkynnir um veðrið, ber gestunum kaffi. Allt hennar fas vitnar um festu og örugg tök á hverju verkefni.
Óskar Aðalsteinn: „Nei, hér sé ég, að hann heitir Húshóll. Og vitinn verður 100 ára nú í desember. Kannski verður þá haldin veizla. Reykjanesvitinn var fyrst reistur á Valahnjúk, sem skagar út í sjóinn og sést hér út um gluggann.

Reykjanesviti-223

En eftir snarpar jarðhræringar þótti ekki ráðlegt að hafa hann þar lengur og þá var hann endurreistur á Húshól.“
Hanna er dóttir Jóhanns Loftssonar á Háeyri á Eyrarbakka og áður í Sölkutótt á sama stað. Jóhann var formaður framanaf og átti fyrsta bílinn, sem komst upp Kamba. Óskar Aðalsteinn er aftur á móti frá Ísafirði og hefur þar til nú átt heima á Vestfjörðum. Hann hefur sinnt ritstörfum jafnframt vitavörzlu og hafa alls komið út eftir hann 15 bækur: sú fyrsta 1939.
Óskar Aðalsteinn: „Aðal vitaævintýrið hófst þegar ég gerðist vitavörður í Galtarvita við Súgandafjörð. Sú varðstaða stóð í 24 ár. Við vorum orðin mjög rótgróin þar eins og nærri má geta. Galtarvitinn stendur á allháum sjávarbakka í Keflavík; sá víkurkriki skerst inní hálendið norðan Súgandafjarðar.
Yfir vitann gnæfa fjöllin Göltur og Öskubakur; hamraborgir, þar sem hvert klettabeltið tekur við af öðru frá sjávarmáli Galtarvititil efstu brúna. Líkt og á Horni er Galtarviti með afskekktustu byggðu bólum á landinu. Þar ríkir sú þögn, sem aldrei verður fundin í fjölmenni. En það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem líkja má við bylgjuhreyfingu túngresis á lognkyrrum sumardegi. Og útnesjaþeyrinn á vorin; enginn lýsir honum svo viðhlýtandi sé.
Við Galtarvita er mjög magnað og dulrænt umhverfi; hafi maður þá gáfu að sjá það sem oft er kallað einu nafni huldufólk, er maður aldrei einn. Í nánd við vitann er ein af meiriháttar álfabyggðum á landinu; þar eru Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Og álagablettir eru þar um allt. Sögur af samskiptum manna og huldufólks á þessum stað eru flestar fallnar í gleymsku, en sumar lifa enn; til dæmis sagan um litlu telpuna, sem týndist og var síðan skilað og ekki hægt að sjá á þriðja degi, að neitt hefði fyrir hana komið. Talið var að álfkona hefði lagt ofurást á barnið og hnuplað því, en skilað aftur þegar hún sá hræðsluna og sorgina á bænum. Mér fannst huldufólkið við Galtarvita bæði gott og listrænt. í Keflavíkurhól var heil sinfóníuhljómsveit.

Hornbjargsviti

Slíka tóna hef ég aldrei heyrt og þeir voru ekki frá venjulegum hljóðfærum. En þar var líka vera af öðrum toga, sem átti eftir að halda tryggð við okkur æði lengi. Á Horni var slangur af verum á sveimi, þar á meðal Breti, sem gekk þar ljósum logum og vildi helzt vera í fjósinu. Ég talaði oft við hann, sem var erfitt, því hann talaði ensku og ég ekki nógu harður af mér í því máli. Ég var alltaf að hvetja hann til að koma sér áfram til æðri heimkynna, en hann var svo jarðbundinn. Hann hefur líklega ekki kunnað sem verst við félagsskapinn við okkur, því hann fluttist með okkur til Galtarvita og einnig þar hélt hann sig í fjósinu. Ég kallaði hann alltaf Gumma og hann var eins og einn af heimilisfólkinu. Stundum stóð hann við bæjardyrnar og þá sagði ég: „Farðu nú frá Gummi minn, — mér leiðist að ganga í gegnum þig. Ég verð alltaf svo þungur af því. Þú ert svo baneitraður“. Gummi var bezta grey. Lengi vel talaði hann bara ensku.

Reykjanesviti-330

En eftir rúm tuttugu ár var hann töluvert farinn að tala íslenzku og tók framförum. Einu sinni var ég að koma einsamall á báti frá Súgandafirði, þegar vélin bilaði og ég utanvið mig eins og vant er og hafði gleymt að taka árar með. En þá er Gummi allt í einu kominn um borð og knýr bátinn áfram á fullum hraða með fótunum. Hann virtist vita á undan okkur, þegar það skref var tekið að flytja frá Galtarvita og var mjög óánægður, þegar við fórum. Ennþá hefur hann ekki sést hér við Reykjanesvita.
„En eru ekki huldubyggðir hér við Reykjanesvita?“
„Ég hef séð huldufólk hér nærri, en lítið náð sambandi við það, nema einn ungan mann.
Það er truflandi hér, einkum austur undir Grindavík, hvað mikið er um svipi látinna manna. Nokkru áður en við fluttumst að Reykjanesvita, átti ég Reykjanes-brim-2leið hingað frá Grindavík. Veður var vont; rigning og dimmviðri. Þá sá ég einhverja furðulegustu sýn, sem fyrir mín augu hefur borið: Öldur bárust á land, brimöldur og í þeim fjöldi manns, sem barst uppí sjávarlokin. Þessir menn engdust og fórnuðu höndum, — þó var sem þeir væru gagnsæir. Þeir gáfu frá sér lág, en gífurlega sterk hljóð. Ég er ýmsu vanur af þessu tagi, en þarna fylltist ég óhugnaði og varð smeykur. Síðar hef ég oft farið í allskonar veðri til Grindavíkur og alltaf orðið var við eitthvað.
Hér í íbúðarhúsinu hef ég orðið var við karl og konu, sem ganga í gegn annað slagið, en tala ekki við mig. Helzt vildi ég að þau hyrfu og að við gætum fengið að vera hér útaf fyrir okkur. Um það vil ég ekki segja annað í bili.
En hér í kring er allt kvikt og fullt af ljósum, þegar rökkva tekur og það er bara til ánægju. Það eru lituð ljós, oft blá eða ljósgræn og öðruvísi en okkar ljós„.
„En álfar?“
„Ég veit ekki, hvort maður á að kalla það álfa. Líklega hef ég ekki komizt í kynni við þessa blómálfa, sem sumir hafa séð. Aftur á móti sé ég smáfólk, mjög elskulegt og óvíða meira um það en einmitt hér við Reykjanesvitann. Ég veit ekki hvort það er huldufólk. Maður sér það í nánd við uppsprettulindir og eftir að rökkva tekur eru oft heilir skarar að leikjum í nánd við hverina, — það dansar og skemmtir sér. Það er fyrst og fremst þetta, sem er sérstakt við umhverfi Reykjanesvitans.

Reykjanesviti-332

Ég fer varla svo út í ljósaskiptunum, að ég sjái ekki heilu hringdansana: Karlmenn í grænum, rauðum og bláum kirtlum, en kvenfólkið hvítklætt og með slæður. Þetta er mjög fallegt fólk; aðeins smærra en við. Stundum koma hingað heilar fylkingar, sem virðast ná allt upp til fjallanna innar á skaganum. Einn og einn hefur komið til mín án þess að tala til mín. En þeir vita af mér og þeir vita, að ég sé til þeirra. Smáfólkið aftur á móti; það er öðruvísi og við suma þar hef ég talað. Það er tvennskonar, sumt saklaust og elskulegt og virðist lifa áhyggjutaust frá degi til dags. En svo eru þeir, sem sitja löngum hjá villtum blómum og lifa mikið í hugsuninni. Þeir hafa hvatt mig til að skrifa bókina þá arna, sem nú er í smíðum. Þetta er gott fólk og enginn ótugtarskapur er þar á ferðinni. Og það vil ég segja þeim, sem ekki sjá og efast eðlilega, að þeir hefðu gott af návistum
við þetta fólk aungvu síður. Það gerir maður með því að hverfa til svona staða úti í náttúrunni og setjast niður. Fyrst kemur smáfólkið og kannar stemmninguna, en svo koma aðrir stærri og gefa manni styrk.
Sumt huldufólk hefur þá gáfu til að bera, að það skapar eitthvað úr engu og lætur það eyðast jafnóðum. Sumir skrifa til að mynda með fingrinum út í loftið og þá verða til myndir í litum, en eru við lýði í skamma stund og leysast þá upp. Á sama hátt virðast þeir geta skapað sér hús, sem aðeins standa um stundarsakir.

Reykjanesviti-334

Einstaka sinnum hef ég upplifað það fyrirbæri að fara sálförum, sem kallað er og þó nokkrir hafa reynt og skýrt frá. Það er afar einkennileg reynsla. Hjá mér hafa þetta verið minni háttar sálfarir að ég held, utan einu sinni, að ég brá mér á kreik svo um munaði. Þá fann ég vel eins og fleiri hafa lýst, hvernig ég losnaði við líkamann og gat horft á hann úr fjarlægð. Síðan hvarf ég á brott og kom í borg, sem ég þekkti ekki og var heldur ekki þessa heims. Hún var alveg ólík þeim borgum, sem við þekkjum, bæði að gerð og efni. Mér þótti sem þar ætti að fara fram ráðstefna og allt í einu var ég kominn á þessa ráðstefnu, sem vann að því að magna upp straum til að bjarga einhverju á jörðinni að ég held. Þarna myndaðist einn vilji; ég hafði vitund þeirra hinna og þeir mína. Á eftir tóku allir í hendina á mér, leifturhratt en þægilega og á eftir leystist borgin upp án þess að hljóð heyrðist. Alltaf hafði ég á tilfinningunni samband við líkamann, en ég varð ekki var við neinn þráð eins og sumir hafa talað um. Um tíma var ég staddur í tómarúmi og var skelkaður og ég minnist þess greinilega, þegar ég fann líkamann aö nýju og smaug inn í hann.“
Hanna: „Þetta átti sér nokkuð oft stað, meðan við bjuggum í Galtarvita, en það ber minna á því hér. Það er næstum því óhugnanlegt að horfa á hann í þessu ástandi. Hann virðist í fyrstu falla í trans eða djúpan svefn, en eftir dálitla stund opnast augun. og þá er hann mjög uppljómaður á svipinn.
Það er þá eins og hann vakni til annars heims og talar þá eitthvað, sReykjanesviti-336em ég skil alls ekki. Þetta ástand varir í fimm til tuttugu mínútur og það er eins og hann haldi í hendina á einhverjum á meðan. Hann virtist alltaf tala við sama fólkið og af lýsingum hans þóttist ég vera farin að þekkja, við hverja hann var að tala. Svo dró allt í einu af honum; hann slappaðist allur og lá eins og dauður maður, ýmist með augun opin eða lokuð. Fyrir kom, að ég hélt hreinlega, að hann væri látinn og fór þá að reyna lífgunartilraunir“.
Óskar Aðalsteinn: „Á eftir man ég yfirleitt vel, hvað hefur gerst. Það er rétt, að ég hitti og ræði við sama fólkið; það er á sjöunda sviði frá jörðu. Sjálfsagt finnst einhverjum það hljóma undarlega. En þarna er unnið að jákvæðum áhrifum og þar er kona, sem mestu ræður. Sjálfur hef ég þegið hjálp, sem þaðan kemur. Á tímabili var ég oft með verk og óþægindi fyrir hjarta, en það var lagað og ég tel mig vita, hvaðan sú hjálp kom.“
Hanna: „Eftir að við fluttum á Reykjanes, hef ég minna orðið vör við þetta fyrirbæri, en þaö átti sér oft stað á árunum, sem við vorum í Galtarvita. Ég skal játa, að ég var talsvert smeyk fyrst, ekki sízt vegna þess að það er ekkert auðhlaupið til læknis úr Galtarvita. Það gegnir öðru máli hér. Sjálf er ég annars eins gersneydd dulrænum hæfileikum og hugsast getur. Ég verð aldrei vör við neitt og er öll í þessu jarðneska. Og satt að segja líkar mér það bezt þannig“.
„Þú hefur haft æfingu í vitavarðarstörfum að vestan og ekki þurft að læra neitt nýtt, þegar hingað kom?“
Gunnuhver-222Hanna: „Frá 1967 var ég aðstoðarvitavörður í Galtarvita og hafði því góða reynslu, þegar hingað kom. Erfiðast er í skammdeginu; maður veit aldrei, hvað fyrir getur komið, ef eitthvað bilar. Vitinn sér að verulegu leyti um sig sjálfur. Í dagsbirtu gefur hann engin merki, en fótósella setur ljósið í gang um leið og skyggir. Bregðist rafmagnið, er dísilstöð til vara.“
„En þarftu að fara ofan að nóttunni til að gá, hvort allt sé með felldu?“
Hanna: „Það er að miinnsta kosti ekki skylda. En ég vakna tvisvar eða þrisvar á nóttu og fylgist þá með ljósinu. Það venst og maður sofnar fljótt aftur. Í Galtarvita vorum við alveg háð vélum. Ljósið í vitanum þar var framleitt með rafmagni frá dísilstöð og lítilli vantsaflsstöð yfir sumarið“.
„Vandistu alveg þessari miklu afskekkt þarna við Galtarvita?“
Hanna: „Þegar illviðri geysuðu þótti mér það dálítið öryggislaust, en reyndin varð sú, að það kom ekki að sök. Við höfum aö verulegu leyti unnið þetta verk saman og allt hefur gengið vel. Stundum er spurt, hvort ekki sé hætta á, að hjón verði leið hvort á öðru í svo mikilli einangrun. En ég tel að svo sé ekki. Sambandið verður mjög náið. Óskar gerði mikið af því aö lesa upphátt fyrir okkur úr bókum. Það var þá skemmtun, sem við upplifðum sameiginlega og svo gátum við rætt efni bókarinnar og gerðum mikið af því.“
Oskar Adalsteinn„Hverjar eru annars daglegar skyldur vitavarðarins?“
Hanna: „Til dæmis það að taka veðrið sex sinnum á sólarhring. Í vitanum verð ég að hreinsa ryk og seltu af gluggum og sjálfri krónunni. Hér er líka radíóviti, sem sendir frá sér mors-merki og ég þarf að fylgjast með honum. Við getum ekki brugðið okkur frá bæði; það er viðleguskylda. Þetta er bindandi ekki síður en að búa með kýr og í rauninni miklu meir.“
Við gengum upp snarbrattan hólinn og síðan upp hringstigann, sem liggur eins og snigill unz komið er að ljósaverkinu. Þar var allt vel málað og hreint og útsýnið fagurt á þessum lognkyrra júlídegi. En þarna er veðravíti eins og gróðurinn sýnir bezt og ólíkt umhorfs í illviðrum og myrkri skammdegisins.
Ég spurði vitavörðinn á leiðinni niður, hvort hún væri ekki smeyk að fara ein upp í vitann í svartamyrkri.
Hanna: „Sem betur fer kemur ekki oft til þess að ég þurfi að fara þangað ein í myrkri. Ég skal játa, að ég mundi ekki fá mér kvöldgöngu þangað að gamni mínu. Tilhugsunin um það þætti mér ekki þægileg, en þegar á ætti að herða, mundi ég fara þangað eins og ekkert væri og ég býst við að reyndin yrði ekki nærri eins vond og tilhugsunin“.
Óskar Aðalsteinn beið eftir okkur á tröppum íbúðarhússins. Það var tekið að kvölda. Ég spurði: „Er dansinn byrjaður við hverina?“ Skáldið strauk augun og gekk austur yfir hlaðið og skyggndi með höndunum, líkt og menn gera þegar þeir horfa á móti sólu. „Það er í það bjartasta ennþá,“ sagði hann. „en dansinn fer að hefjast. Ég finn hreyfinguna. Er þetta ekki stórkostlegt? Og litirnir, svo hreinir, svo bjartir.
Eins og á torgi lífsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 3. sept. 1978, bls. 8-12.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi.

Prestastígur

Farið var Prestastíginn frá Höfnum að Húsatóftum – 16 km leið.

Prestastígur

Varða við Presthól.

Lagt var af stað úr Hundadal og haldið yfir Presthól, um Haugsvörðugjá og Eldvörp. Útsýni yfir að Reykjanesvita og Eldey var stórkostlegt í kvöldsólinni. Komið var við í Tyrkjabyrgjunum í Sundvörðuhrauni, litið á fiskibyrgin ofan við Húsatóftir og gengið að Kóngshellu og Búðarsandi, skoðað í brunn við Vaðla og litið á brunninn á Stað, sem er einn sá stærsti og fallegasti á Reykjanesi.
Prestastígurinn er bæði þægileg og falleg gönguleið. Í fyrstu, þegar farið er frá Höfnum, er hún svolítið á fótinn, sendinn og gróðursnauð, en þegar komið er yfir Haugsvörðugjá verða skörp gróðurskil. Þar taka við mosar og mógróður. Sandfellshæðin, dyngja, er á vinstri hönd, en í henni er stór gígur.

Prestastígur

Prestastígur í Eldvörpum.

Reykjavegurinn kemur inn á Prestastíginn vestan Eldvarpa, en skilur við hann er sá síðarnefndi beygir til suðurs skammt vestan þeirra. Gangan í gegnum Eldvörpin gefa tilefni til að rifja upp Reykjaneseldana 1226 og allar hamfarirnar, sem þær höfðu í för með sér. Verksummerkin má bæði sjá þarna og þreifa á.

Frábært veður – Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Haugur

Prestastígur – Haugur framundan.

Stampahraun

Ætlunin var að ganga upp eftir Tjaldstaðagjá og Haugsvörðugjá að Haug á Reykjanesi og síðan til baka um Hörsl og eldri Stampa. Óvíða eru ummerki skorpuskila Ameríku og Evrópu augljósari en einmitt þarna auk þess sem auðvelt er að staðreyna umbreytingu landsins, bæði gliðnun og misgengi. Einnig var ætlunun að kíkja upp í Hreiðrið, fallegan klepragíg á Rauðhólum milli Sýrfells og Sýrfellsdraga á mörkum Hafnahrepps og Grindavíkur. Mörkin liggja um Haugsvörðugjá.

Í Sýrfellshrauni

Fyrirhuguð er lagning háspennulínu með tilheyrandi möstrum milli Svartsengislínu og Reykjanesvirkjunnar um Haugsvörðugjá og niður með Sýrfelli með tilheyrandi sjónspillingu. Ferðamálasamtökin og Fornleifavernd ríkisins lögðust ekki gegn línulögninni vegna þess að „hún hefði ekki áhrif á ferðamenn og að engar fornleifar væru að finna á svæðinu“. Ætlunin var m.a. að meta staðreyndir þessa.
Byrjað var á því að klifra upp í Hreiðrið og skoða gíganna. Sýrfell er einungis 96 hæst m.y.s. Austan við það er Sýrfellshraun, Stampahraun sunnan þess og Klofningahraun enn austar Stampahraun er einnig suðvestast á Reykjanesinu.
Haldið var eftir landamerkjalínu Hafna og Grindavíkur. Ljóst er að allar borholur Reykjanesvirkjunar nema tvær eru í Grindavíkurlandi.

SýrfellÞann 8. febrúar 1954 var gerður samningur annars vegar milli eigenda og umráðamanna Kirkjuvogshverfisjarða í Hafnarhreppi og hins vegar eigenda Húsatópta í Grindavíkurhreppi. Þau mörk sem samið var um eru þessi: “Lína dregin úr haugum á norðvesturbarmi Haugsvörðugjár beina stefnu á
Stapafellsþúfu á norðausturenda Stapafells, eins og sú þúfa er dregin á korti Zóphóníasar Pálssonar, gerðu 22. september 1953.
Þegar kemur suður undir Sýrfell hafa yngri hraun runnið yfir það, sjá mynd 4.3. Nálægt þeim stað þar sem línuleiðirnar greinast liggur línan yfir Tjaldstaðagjárhraun sem er talið vera 1500 – 1800 ára (Ari Trausti Guðmundsson 2001) og hefur runnið upp að móbergsfjallinu Sýrfelli. Hraunið er úfið og gróft apalhraun, en nokkuð sandorpið þar sem línan fer yfir það. Línan liggur einnig yfir smá totu af Klofningahrauninu sem er sambærilegt apalhraun einnig talsvert sandorpið. Við vesturenda Sýrfells er gígur sem yngra Sýrfellshraun hefur runnið úr (Jón Jónsson 1978).
Reykjanes - kortÞað kom á óvart hversu Stampahraunið er greiðfært eins og það virðist annars illúðlegt við fyrstu sýn. Frá efsta gígnum, stundum nefndur Hörsl, er ágætt útsýni upp að Haugsvörðugjá sem yfir allt undirlendið. Hvorugkynsnafnorðið hörsl er einnig tilgreint í Íslenskri orðabók Eddu og gefin merkingin: ójöfnur, örður á frosnum snjólausum vegi eða annars staðar þar sem farið er. Ásgeir Blöndal Magnússon telur í Íslenskri orðsifjabók (1989:413) að karlkynsorðið hörgull ‘skortur, hörsl, hrjóstur; útjaðar, ystu mörk’ og lýsingarorðið hörgull, sem virðist ungt í málinu, í merkingunni ‘naumur, sem lítið er af’ séu líklega skyld hörgur. Upphaflega merkingu orðsins hörgull telur Ásgeir þá vera ‘grýtt land, hrjóstur’ en að merkingarnar ‘útskikar’ og ‘skortur’ séu afleiddar.

Hreiðrið

Gígurinn Hreiðrið.


Hörsl eru líka til á Stapanum. Erlendur Magnússon á Kálfatjörn Þarna – hjá Grímshól er Vogastapi hæstur, lækkar aflíðandi. Til landsins er er standberg í sjó fram. Vegur liggur suðvestur niður Hraun á sögulegum tíma á ReykjanesskagaGrynnriskoru, í gömlum ritum nefnd Kolbeinskora – Þar eru mörk milli Vatnsleysustrandar og Njarðvíkurhrepps. – Úr Grynnriskoru var farið yfir hæðarbungu og yfir í Dýpriskoru, sem skerts lítið undir?? Stapann. Bilið milli Skoranna heitir Hörsl?? Á því eru 3 smáhæðir, sem eru kallaðar Grynnsta-hörsl? Miðhörsl og Dýpsta hörsl og voru notaðar fyrir mið úti á fiskislóðum.
Stampagígaraðirnar eru a.m.k. fjórar. Elsta gosið er yngra en 8000 ára og það yngsta frá 1226, eins og síðar kemur fram. Svæðið allt er á Náttúruminjaskrá. Skráningin hljómar eins og hér segir: “Reykjanes, Eldvörp og Hafnaberg, Grindavík, Reykjanesbæ, (áður Hafnahreppur), Gullbringusýslu. Mörk liggja úr Mölvík, um 2 km austan við Háleyjabungu, í Þorbjarnarfell og um Lágar og Vörðugjá í Stapafell. Þaðan er bein lína í vestur að eyðibýlinu Eyrarbæ við norðurenda Hafnabergs. Reykjanesið er framhald Reykjaneshryggjarins á landi. Stórbrotin jarðfræði, m.a. gígaraðirnar Eldvörp og Stampar, dyngjurnar Skálafell, Háleyjabunga og Sandfellshæð, ásamt fjölda gjáa, sprungna og hrauntjarna. Allmikið hverasvæði, fjölskrúðugur jarðhitagróður, sérstæð volg sjávartjörn. Hafnaberg er lágt fuglabjarg með fjölmörgum tegundum bjargfugla. Aðgengilegur staður til fuglaskoðunar.“
Stampahraun á Reykjanesi (KS)

Orðið stampur er líklega tökuorð í íslensku, sbr. þýska mállýsku, þar sem stampf merkir ‘kornmælir’. Það merkir í íslensku ‘bali, bytta’, ‘smájarðfall, pyttur’ en einnig ‘hóll, klettur eða sker’ eitthvað sem líktist stampi. Stampur er grasi gróin hvilft eða skál í Hofi í Mjóafirði, en í Snæhvammi í Breiðdal er Stampur sker og í Sandvík í Norðfirði er nafnið um klett í sjó, sem er stamplaga. Flt. Stampar á við graslausa öxl í Vestmannaeyjum, hóla í Hrauni í Ölfusi, gígaröð á Reykjanesi í Gull. og Stampar eru í Stampamýri á Þórisstöðum í Svalbarðsstrandarhr. í S-Þing.
Mest áberandi kennileitið á svæðinu núna er nýtilkomin loftlína. Rýrir hún verulega upplifun ferðamanna á gangi um svæðið. Reykjanesbær, Grindavík, Ferðamálaráð, Fornleifavernd ríkisins og Löggildingarstofa töldu framkvæmdina ekki líklega til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja taldi að meta þyrfi sjónræn áhrif framkvæmdarinnar og Umhverfisstofnun lagði til að kannað yrði með frekari umhverfisáhrif framkvæmdarinnar og bera saman við lagningu jarðstrengs frá suðvesturenda Sýrfellsdraga. Við því var ekki brugðist og mun varla verða úr þessu.

Haugsvörðugjá og Haugur - Þórðarfell fjær

Í umsögn Fornleifaverndar ríkisins var bent á að í skýrslu framkvæmdaraðila komi fram að ekki hafi verið gerð úttekt á fornleifum á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði en það standi til og krefst Fornleifavernd ríkisins að fá þær upplýsingar áður en endanleg umsögn er gefin. Í svörum framkvæmdaraðila kemur fram að fornleifafræðingur hafi skoðað svæðið í júlí 2004 og að hans niðurstaða sé að engar vísbendingar hafi fundist um fornleifar á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði. Fornleifavernd ríkisins var send framangreind niðurstaða fornleifafræðingsins og í frekari umsögn stofnunarinnar kemur fram að stofnunin telji að framkvæmdin skuli ekki háð mati.
Fornleifafræðingurinn, sem á að hafa tekið út svæðið, virðist ekki hafa gengið um Sýrfellshraun og Haugsvörðugjá því þar er bæði að finna gamlar vörður og hleðslur. Auk þess varða landamerkjavörður mörk Hafnahrepps og Grindavíkur. Ein slík er t.a.m. í Haugsvörðugjá, skammt frá einu línumastrinu.
Gengið var niður Tjaldstaðagjána með stefnu á upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Náttúruminjaskrá, 1996.
-Erlendur Magnússon Kálfatjörn.
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Sifjaorðabók.
-Örnefnastofnun Íslands.

Tjaldstaðagjá og Stampar

Reykjanesviti

„Reykjanesið er undarlegur skapnaður“, sagði Jón Trausti. En þrátt fyrir svartsýni hafa miklar vonir verið bundnar í gegnum tíðina við þennan útskaga, nýjasta hluta landsins.

Háleyjar

Tóft á Háleyjabungu.

Gengið var frá Sandvík. Mikill reki er á sandorpnum köflum með ströndinni. Innan um rekann ber margt forvitnilegt fyrir augu. M.a. var þarna hluti úr síðu gamals árabáts. Byrðingurinn var negldur saman með koparnöglum.
Hátt bergið gapið við. „Það er eitthvað hrikalegt og seiðmagnað yfir þessari strönd sem enginn mun gleyma“, sagði séra Gísli Brynjólfsson þegar hann hafði gengið leiðina um 1980. Austast í urðinni undir Háleyjarbungu fannst lík óþekkta sjómannsins, sem nú hvílir í Fossvogskirkjugarði. Það var vorið eftir Skúlastrandið fógeta á Staðarmölum.

Rafnkelsstaðaberg

Gatklettur í [H]Rafnkelsstaðabergi.

Nokkru vestar heitir Hrafnkelsstaðaberg. Undir þessu bergi strandaði Jón Baldvinsson 31. mars 1955. Þar gat nú að líta dauðan búrhval í fullri stærð. Utar heitir Skarfasetur. Þar fyrir utan er eina mannvirkið á þessum slóðum, lágur viti til leiðbeiningar sjófarendum þegar ljósið úr Reykjanesvita hverfur bak við Skálafell. Frá vitanum blasir Eldey við sem og karlinn úti með ströndinni austan Valahnjúka.
Í norðurhlíð Skálafells og þar norður af er hverasvæði það sem gefið hefur nesinu öllu nafn. Einn hveranna mun áður hafa verið nefndur Reykjanes-Geysir, en hann var breytilegur, hvarf um lengri tíma en tók sig upp á ný sem goshver 1918. Þá var hverinn einfaldlega nefndur 1918. Í kringum 1960 varð hann hreyfingarlítill, en við jarðskjálftann haustið 1967 tók hann að gjósa ákaflega, en það stóð ekki lengi. Nú er hann tær atkvæðalítill vatnshver með söltu vatni.

Valahnúkur

Valahnúkur og Valahnúksmöl.

Rétt norðan við Reykjanestána, sem er 78 metra há, skerts smávík inn í bergið, Blásíðubás. Þetta er falleg náttúrusmíð. Oftar en einu sinni hefur lífum sjómanna verið borgið í Blásíðubás þótt þar sé alldrei kyrr sjór.
Vestar er Valahnjúkamölin. Þar fyrir utan strandaði Clam 28. febrúar 1950.
Á skipinu voru 50 manna áhöfn. Af þeim fórst um helmingur er þeir reyndu að komast á land á skipsbátum. Hinum náðu björgunarsveitir.
Á syðri Valahnjúknum var reistur fyrsti viti landsins árið 1878. Hann skemmdist í jarðskjálfta 10 árum síðar. Leifar hans sjást nú neðan við hnúkinn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Árið 1908 var núverandi Reykjanesviti byggður á Bæjarfelli. Hann blasti nú við göngufólkinu frá Valbjargargjá, en þaðan séð er hann eins og klipptur út úr landslagsmálverki.
Endað var með því að skoða hlaðna sundlaug í sprungu skammt ofan við Valahnjúkamalir. Þar lærðu Grindavíkurbörn sund um og í kringum 1930. Þá rann volgt vatn um gjána er blandaðist köldum sjónum. Mannvirkið er enn nokkuð heillegt.

Reykjanes - sundlaug

Sundlaugin á Reykjanesi.