Gengið var frá Rannsóknarstöð Skógræktarinnar (áður ríkisins, nú Reykjavíkur) eftir stíg að Hvítá og að Álfakirkju. Síðan var ánni (sem er lítið meira en lækur og um leið vatnsforðabúr) fylgt upp fyrir Nípu í Hvítárbotna og Gunnlaugsskarð skoðað sem og Geithóll ofan við Botnana.
Gengið var undir Rauðhamar og Mógilsá síðan fylgt til baka niður eftir með viðkomu á Rauðhól og Kögunarhól þar sem vetrarblómið og lóan blómstruðu sem aldrei fyrr.
Mógilsá er ríkisjörð í Kollafirði við rætur Esju. Þar er Rannsóknastöð Skógræktar staðsett. Árið 1967 var ákveðið að efla rannsóknir í þágu skógræktar á Íslandi og var Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins á Mógilsá í Kollafirði reist fyrir þjóðargjöf frá Norðmönnum sem gefin var í tilefni af heimsókn Ólafs V. Noregskonungs til Íslands árið 1961. Það er eðlilegur þáttur í rannsóknum að prófa nýjar trjátegundir og hefur mikið af því efni endað í brekkunni fyrir ofan rannsóknastöðina. Þar er því einhver fjölbreyttasti skógur landsins og margt forvitnilegt að sjá. Skógurinn er einna mestur í kringum stöðina sjálfa, en hann er í raun trjásafn með tegundum teknum víða að úr heiminum. Í skóginum eru m.a. fágætar tegundir eins og linditré, broddhlynur og risalerki, svo eitthvað sé nefnt, en flestar trjátegundir eru merkt. Öllum er frjálst aðgengi að skóginum. Fjölmargir stígar liggja um skóginn, yfir læki og bakka, skógi vaxnar hlíða í alpaumgjörð Esju, eins vinsælasta útivistarsvæðis höfuðborgarinnar. Stíganetið á Mógilsá tengist Esjustígum en margir minni stígarnir eru í raun tilvalið tilbrigði við hefðbundna Esjugöngu.
Jarðfræði Esjunnar er samofin Kjalarnesmynduninni og því sérstaklega áhugavert efni til að kynna sér enn frekar. Hér er aðeins farið létt yfir helstu jarðfræðisögu Kjalarness.
„Esjan er aðallega úr eldri grágrýtis móbergi (síð tertíer) frá ísöld. Jarðgrunnurinn í Grundarhverfi og þar í kring er frá ísaldarlokum og yngri, og þar er vatnaset. Brimnes er úr grágrúti frá ísöld, yngra en 0,7 milljón ára. Á Kjalarnesi er líka basískt innskotsberg og má finna þetta berg á Músarnesi, Mógilsá og við Esjuberg. Við Esjuna í Kollafirðinum má líka finna berghlaup.
Kjalarnes er útkulnuð eldstöð Esjan hefur myndast á einni milljón ára. Í henni eru 3 megineldstöðvar og í henni má greina 10 jökulskeið. Í fjallinu skiptast á hraun- og móbergslög og hafa efstu lögin samsvörun í yfirborðslögum á höfuðborgarsvæðinu. Ýmis jarðfræðileg fyrirbrigði eru vel sýnileg í fjallinu sjálfu, ekki síst upp undir brúnum þess.
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaganum. Kjalarnes- og Stardalseldstöðina hefur rekið út af gosbeltinu.
Flest fjöll á Íslandi heita nöfnum sem eru auðskilin. Akrafjall er kennt við akra, Keilir er keilulaga, Herðubreið er herðabreið og Tindfjöll eru tindótt. Nafnið Esja hefur hins vegar vafist fyrir mönnum og fleiri en ein skýring virðist til á því heiti enda er orðið Esja ekki til í íslensku máli.
Vinsælast hefur verið að kenna Esjunafnið við konu af Keltneskum uppruna sem átti að hafa búið að Esjubergi eins og kemur fram í Kjalnesingasögu en hún tók við búi af landnámsmanninum Örlygi Hrappssyni hinum Írska.
Fjallið Esja var þó ekki nefnt á nafn sem slíkt en bæjarheitið Esjuberg hefur samkvæmt þessu verið til frá upphafi og allt til þessa dags því enn er búið að Esjubergi. Hinsvegar vilja margir fræðingar frekar meina að Esjuheitið sé norrænt að uppruna og standi fyrir eldstæði eða flögusteina sem notaðir eru til slíks brúks (esje í norsku = eldstæði). Einnig getur Esja þýtt lausar aur- eða snjóskriður. Undan vestanverðri Esjunni koma gjarnan hinar ýmsu gerðir af skriðum undan bröttum hlíðunum og því ekki ólíklegt að bæjarheitið Esjuberg hafi upphaflega tengst því. Síðar meir hefur hið umfangsmikla bæjarfjall Reykvíkinga í heild sinni svo verið nefnt eftir bænum og fengið nafnið Esja.
Upprunalegt heiti fjallsins. Frá Reykjavík séð er Esjan mjög aflöng og flöt að ofan en svoleiðis fjöll eru stundum kennd við bátskjöl. Það er allavega ekkert út í hött að hugsa sér að Esjan hafi upphaflega heitið Kjölur og nesið sem gengur út frá henni nefnt Kjalarnes.
Það er þekkt að örnefni eiga það til að flakka á milli staða og því getur verið að Kjalarnafnið hafi vikið til hliðar þegar Esjunafnið var eignað fjallinu og færst yfir á hálendið austur af Kjósinni, sem heitir einmitt Kjölur.
Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.
Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Líklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.
Deilt hefur verið um hæsta punkt Esjunnar. Vegna þess hve víðfeðm og flöt að ofan Esjan er þá er ekki gott að sjá hvar hæsti punkturinn liggur. Lengi vel var talið að hæsti punkturinn væri austur af Kistufelli þar sem lítill tindur skagar uppúr og blasir við úr Mosfellsdal. Tindurinn var mældur 909 metrar og þótti sjálfsagt að kalla hann Hátind. Við nákvæmari mælingar síðar, kom í ljós að hábungan ofan Gunnlaugsskarðs væri nokkrum metrum hærri eða 914 metrar og var þá nefnd því frumlega nafni Hábunga. Á Esjunni eru því bæði að finna Hábungu og Hátind.
Árið 1877 hófst kalknám í Esjuhlíðum við Mógilsá. Námurnar entust ekki lengi og vinnslunni var hætt þegar sífellt erfiðara var að nálgast kalkið. Kalkið var flutt á bátum til Reykjavíkur og brennt í ofni sem stóð nálægt þar sem nú er Seðlabankinn. Gatan þar heitir einmitt Kalkofnsvegur. Eitthvað af kalkbyggðum húsum standa enn í dag, oftast er húsið að Lækjargötu 10 nefnt sem dæmi.
Eftirfarandi vísu má finna um Esjuna:
„Esjan er yndisfögur
utan úr Reykjavík.
Hún ljómar sem litfríð stúlka
í ljósgrænni sumarflík.
En komirðu, karl minn! nærri
kynleg er menjagná.
Hún lyktar af ljótum svita
og lús skríður aftan á.“
Svo orti Þórbergur Þórðarson um bæjarfjallið Esjuna.“
En hvernig myndaðist Esjan? Þannig lýsir Ingvar Birgir Friðleifsson, jarðfræðingur, mynduninni, í doktorsritgerð sinni: „Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs. Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli.
Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.
Einfaldaðar skýringarmyndir, sem sýna hvernig Esja hefur hlaðist upp við eldgos ýmist á hlýskeiðum (þá runnu hraun) eða á jökulskeiðum (þá mynduðust móbergsfjöll við gos undir jöklum). Á fyrstu myndinni renna hraun á þurru landi. Svörtu strikin tákna bergganga, sem eru aðfærsluæðar hraunanna.
Eldstöðvarnar eru vestarlega (til vinstri) og lárétt hraunlög hlaðast upp. Á annarri mynd hefur gosvirknin færst austur, jökulskeið er gengið í garð og í stað láréttra hrauna hleðst nú upp móberg í geil í ísnum. Á næsta hlýskeiði (3. mynd) hafa eldstöðvarnar enn færst austar. Lárétt hraunlög renna upp að móberginu frá næsta jökulskeiði á undan. Jarðlagastaflinn byrjar að hallast undan þunganum. Enn kemur jökulskeið (4. mynd) og nýtt móbergsfjall hleðst upp. Á næsta hlýskeiði ná hraun að renna yfir móbergsfjöllin. Á 6. mynd sést að nú gýs ekki lengur, en rof af völdum ísaldarjökla og veðrunar hefur mótað Esju.
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegin-eldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla. En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.“
Nánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.
Með því að smella á kortið má sjá það stærra þannig að hægt er að lesa skýringarnar hægra megin. Þá má skoða þversnið af Esjunni (frá NV til SA) frá Hvalfirði um Tindstaðahnúk og Hátind í Leirvogsvatn, svo og þversnið frá Móskarðshnúkum yfir Stardalsöskjuna og í Grímmannsfell. Jarðlagahallinn er til suðausturs og því er elsta bergið í Esjunni vestast (til vinstri), en jarðlögin yngjast eftir því sem austar dregur. Í langa þversniðinu má sjá hvernig móbergsfjöll eru grafin í hraunlagastafla.
Stutta sniðið liggur þvert yfir Stardalsöskjuna. Þar má sjá hallandi bergganga úr basalti og líparíti sem stefna inn að miðju eldstöðvarinnar. Stardalshnúkur er stærsta djúpbergsinnskotið í Stardalsmegineldstöðinni. Glæsileg innskot (rauð á kortinu) er einnig að finna í Kjalarneseldstöðinni í Músarnesi (hjá Brautarholti) og í Leiðhömrum og Þverfelli norðan Kollafjarðar.“
En hvað um örnefni og kennileiti í Esjuhlíðum? Í örnefnalýsingu fyrir Kollafjarðarbæinn segir m.a.: „Upp af gamla bænum í Kollafirði er grasivaxið gil Kollsgil. Þar er sagt að Kolli landnámsmaður sé grafinn.“
Í örnefnaskrá má finna fleiri örnefni tengd sögum og sögnum, t.d. er ofan við Kollafjarðartún lítil lág sem nefnist Kaplalág. Hún var talin álagablettur sem ekki mátti slá því ef það var gert dræpist besti gripur í húsi. Í Geithólum eiga að vera álfabyggðir og er sagt frá því er tveggja ára drengur elti þangað konu sem hann taldi vera móður sína. Utan við Djúpagil niður við sjó er klettur sem nefnist Hengingaklettur. Neðan og austan við sandnámið, niður við sjóinn er Leiðvöllur, þar sem er talið að sé hinn gamli þingstaður Kjalnesinga. Hann fer nú á kaf í flóðum. Þá þá nefna að kalknámur voru í landi Mógilsár t.d. við botn Djúpagils en þar var stundaður námugröfur um 1876.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Mógilsá segir m.a.: „Jörð í Kjalarneshrepp næst vestan við Kollafjörð (jörðina). Þar gaf upplýsingar bóndinn Jón Erlendsson. Hann er fæddur 1900 á Mógilsá og var þar til 1964, en býr nú (1967) að Laugarásvegi 1, Reykjavík. „Austan við land jarðarinnar er lækur, sem heitir Hvítá. Nafn sitt hefur hann af því að hann steypist hvítfyssandi niður hlíðina. Hvítá kemur ofan úr Hvítárbotnum, en þeir eru ofan við hæð, sem á korti er 343 m., en við þessa hæð er svonefndur Lyngbrekkubolli, er síðar getur.
Þá er bezt að fara niður að sjó og byrja þar. Með fram sjónum heitir hér Kambur bæði innan frá og út með, neðan við bæ. Hvítárós kemur þar í gegnum kambinn úr tjörn, sem þar er ofan við og er aldrei nefnd annað en Tjörnin. Landið upp af henni heitir Veita, en nú skiptist hún af smálæk í Austur-Veitu og Vestur-Veitu. Lækurinn, sem skiptir þessu, heitir Grundarlækur og kemur hér ofan úr brekkunum. Ofan og austan við Veituna eru þrír bungulagaðir klapparhólar, sem heita Geithólar og eru álfabyggðir.
Þegar Jón Erlendsson var tveggja ára, var faðir hans að slá þarna og drengurinn hjá honum. Þá tók hann allt í einu á rás vestur yfir lækinn. Þegar faðir hans náði honum, sagðist hann vera að elta konu, sem hann sá og hélt vera móður sína. Neðan við Geithóla er túnblettur, sem heitir Geithólatún. En ofan við Geithólana er Geithólamýri. Þar er nú sumarbústaður Arons Guðbrandssonar. Upp frá Geithólamýri er svonefnd Fossbrekka, sem dregur nafn af flúð í Hvítá, sem heitir Hvítárfoss.
Brúnin út frá Hvítárfossi heitir Grjótabrún og er heldur ofan við túnið sem nú er. Svæðið fyrir ofan brúnina er allstórt lautasvæði, sem einu nafni er nefnt Kálfalágar. Þetta eru einar átta lautir, sem sumar hafa sérnöfn.
Næst við Hvítá er allstór molabergsklettur, sem heitir Álfakirkja, móti Kaplalág í Kollafirði. Ofar er hvammur, sem heitir Kirkjuhvammur, ofan við Álfakirkjuna. Þar vestar er annar, sem heitir Fagrihvammmur. Næst Kirkjuhvammi er Djúpalaut. Enn ofar, upp með á, er Innstalaut. Eru Kálfalágar þá búnar.
Norðan við Holtið, upp af bænum og Grjótabrún, er stór dalur, sem heitir Kálfsdalur, og skiptist hann í Neðri-Kálfsdal og Efri-Kálfsdal. Fyrir ofan Kálfsdal er brekkan grónar skriður. Heitir sú brekka Hákinn og er næst austan við Stekkjarmelana. Austan við Hákinn eru Línbrekkur, sem eru ofan við Efri-Kálfsdalinn. Þá er næst Kálfsdalslækur. Hann kemur upp ofan við Línbrekkur, rennur svo um Kálfsdali og fer í Grundarlækinn. Þessi lækur er ekki áberandi ofan til nema í leysingum. Austan við lækinn eru tvær lautir, sem heita Krókar. Allt var þetta slegið áður fyrr.
Austan við og hærra en Línbrekkur er stór laut, sem heitir Línbrekknabolli, skammt vestan við Hvítá. Þar uppaf allangt ofar heita Hvítárbotnar. Þar kemur áin upp í einu lagi neðst í Hvítárbotnum. Hærra uppi við Esju neðan við háfjallið er langur klettahryggur, sem heitir Geithóll, 579 m. hár. Vestur af honum fram með háfjallinu er Rauðhamar, og rétt þar vestur af kemur Mógilsá upp.
Neðan við Geithól og suðvestur af honum heitir Rauðhólsurð, og þar vestur við Mógilsána er Rauðhóll, sem er 441 m. hár. Hjá Geithól er gil, sem heitir Rjúpnagil. Það er upptök Kálfsdalslækjar. Svæðið frá Rauðhól niður á brúnir hjá Kögunarhól heitir einu nafni Rauðhólalautir. Vestast heita þar Fosslautir, sem eru við Mógilsárfoss. Þar var kalknáma vestan við ána. Vestast móti Mógilsárfossi, sem er efst í gljúfrunum, er hár hóll austur frá Fosslautum. Hann heitir Kögunarhóll. Langabrekka er löng brekka austur og vestur niður undan Kögunarhól frá Mógilsánni. Lág klettabrún er ofan við hana. Austur frá Löngubrekku er Sauðagil, nokkuð breitt gil með grasteigingum upp eftir. Þá er Bæjarlækur, sem kemur ofan úr Rauðhólalautum og rennur um túnið rétt við gamla bæinn. Austan við Sauðagil, beggja vegna við Bæjarlæk, heita Stekkjarmelar. Þeir eru sýnilega sig úr brúninni.
Pallurinn neðan þessa er nú orðinn tún. Þar voru áður nafnlausar flesjur, og grjótmói fyrir ofan. Austur á við, milli Bæjarlækjar og Grundarlækjar, heitir Grundarhóll, stór hóll, eða túnbrekkan sunnan í honum, upp af skógræktarstöðinni. Neðan við hann er slétt tún, sem heitir Grundartún og liggur að Veitunni sem fyrr getur. Ofan við gamla bæinn kemur Bæjargil. Tungan sem það myndar milli Bæjarlæks og Bæjargils heitir Hjarta. Hóll vestur af bæ heitir Fjárhúshóll eða Hóll. Þar stóðu fjárhús áður fyrr. Þessi hóll nær vestur að Mógilsá. Ofan við hólinn er Hvammur efst í túninu, sem áin er að brjóta. Þá er blettur, sem er neðan við veg, nefndur aðeins Blettur. Skriða fór yfir allt nema þennan blett. Þá er komið alla leið út að Mógilsá.
Út með sjó er þá fyrst eyrin utan við Mógilsá, sem heitir Eyrar. Þá er Tæpagata, þar sem gamli vegurinn lá áður á standklettabrún. Utar er gil, sem heitir Djúpagil. Ofan við eyrarnar ofan við veg er Kvíabrekka. Kvíaklettur var klettur við Mógilsá inn með henni, vestur undan bænum. Ofan við Kvíabrekku er mýri, sem heitir Grafarmýri, og nafnlausir hólar eru þaðan vestur að Djúpagili. Þar upp af við botn Djúpagils, milli þess og Þvergils, er stór hóll, sem heitir Sandhóll. Þvergil fellur í Mógilsá. Ofar er tunga, sem heitir Smágil. Það eru smáskorningar milli Mógilsár og Þvergils. Svæðið þar ofar milli Þvergils og Mógilsár heitir Fláar. Við botn Djúpagils var kalknáma og sást áður móta fyrir garðlagi þar framan í Sandhól. Hún var starfrækt um 1876.
Ofan við Þvergil eru svonefndir Fögrudalir. Þar austur á hlíðinni upp frá Mógilsá heitir Vestri-Hákinn, snarbrött vestan við Mógilsárfoss. Svæðið upp frá Fögrudölum og Vestri-Hákinn er stór mýrarfláki, sem heitir Einarsmýri, og nær inn undir há-Esju, eitt bezta haglendi framan í fjallinu, brok og valllendi. Innan við Hákinn er gildrag niður, og brekka þar heitir Sumarkinn. Vestan við Mógilsá og ofar, en neðan við Rauðhamar er Grensöxl. Þar var gren nýlega.
Þá er aftur tekið svæðið utan við Djúpagil með sjónum neðan vegarins.
Fyrst er Stýrimannaklettur. Hann var bungumyndaður að ofan, en er nú (1967) að mestu hruninn. Við sjóinn er Djúpagilsklettur. Utar er Hengingarklettur. Því miður er ekki lengur hægt að nota hann á réttan hátt, sökum þess hve hruninn hann er.
Vestar er Leiðvöllur, sem talinn er vera hinn gamli þingstaður Kjalarnesþings. Nú er þar aðeins malareyri, sem fellur yfir í flóðum. Ofar var Leiðtjörn, en sandnámið hefur nú eyðilagt hana nema austast. Í hana rann Markagil. (Í landamerkjabréfum er það nefnt Stangargil eða Festargil).
Ofan við Leiðtjörn er flöt, sem heitir Kirkjuflöt, en ekki er vitað um tildrög þess nafns. Svæðið frá Djúpadal að Markagili er melar og klettar og heitir Kleifar. Ofar er Kleifhóll, ofan við veginn. Grýtt brekka eða hvammur með klettum í er austanverðu í Kleifum, vestan Djúpagils og ofan við veginn. Hún heitir Stórsteinabrekka. Nokkuð upp með Markagili, upp af Kleifhól, er brekka vestan við Festi, í austurátt frá bæ sem heitir Festarbrekka, en Festi er klettarani niður fjallið milli Festarbrekku, sem áður segir, og Stórsteinabrekku.
Fálkaklettur heitir klettur upp af Stórsteinabrekku, en brúnin vestur af honum og upp af Festarbrekku, vestur að Grundará, heitir Skarðabrún, og í hana eru Skörð. Dalirnir upp af Skarðabrún heita Neðri-Skarðadalur, og Efri-Skarðadalur.
Þverfell heitir há-Esjan upp frá Mógilsá, austur að Gunnlaugsskarði, og er Þverfellshorn vestast. Merkin liggja um Skarðadali í Gljúfurdalsháls og síðan í Þverfell og Þverfellshorn.“
Þá er minnst á Nípu, vörðulagaðan klett. „Þar upp af eru Nípulautir, bezta berjalandið í landareigninni“.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.
Heimildir m.a.:
-Emil Heimir Valgeirsson.
-Ingvar Birgir Friðleifsson.
-visindavefur.is
-Guðrún Kvaran.
-Örnefnalýsing Mógilsár – Ari Gíslason.
-wikipedia.com