Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Gavin Lucas skrifa um „Þorpið í Viðey“ í Árbók Hins íslenska fornleifafélags árið 2014:
Elín Ósk Hreiðarsdóttir.
Upphaf Þorpsins í Viðey má rekja til marsmánaðar 1907 þegar hlutafélagið A/S P.J. Thorsteinsson & Co. var stofnað í Kaupmannahöfn. Stofnfélagar voru átta og stærstu eigendur hlutafjár voru tveir þekktir athafnamenn á Íslandi, þeir Pétur Thorsteinsson, sem félagið var kennt við, og Thor Jensen. Þótt fimm menn væru í stjórn félagsins var það fyrstu árin að mestu rekið af þeim Pétri og Thor ásamt Aage Möller.
Fyrstu hugmyndir gerðu ráð fyrir að stofnfé félagsins yrði um 1 milljón króna og því var nýja fyrirtækið risi á íslenskan mælikvarða. Til samanburðar hefur verið nefnt að þessi upphæð var svipuð og allar tekjur landssjóðs þetta ár. Það var því ekki að undra að stofnun fyrirtækisins vekti mikla athygli og umtal. Félagið fékk fljótt viðurnefnið Milljóna(r)félagið og gekk sjaldnast undir öðru nafni hjá almenningi, jafnvel þótt síðar hafi komið í ljós að hlutafé náði aldrei þeim hæðum sem upphaflega var ráðgert.
Upphaflega höfðu hugmyndir gert ráð fyrir því að höfuðstöðvar fyrirtækisins yrðu í Gerðum á Reykjanesi en við stofnun fyrirtækisins á útmánuðum 1907 virðist þegar hafa verið fallið frá þeirri hugmynd og ákveðið að höfuðstöðvar, með tilheyrandi byggingum og hafnarmannvirkjum, yrðu í Viðey.
Gavin Lucas.
Fyrirtækið tók í upphafi á leigu um 40 hektara svæði á suðausturenda Viðeyjar sem áður hafði að mestu verið nýtt fyrir beit og æðardúntekju. Aðeins ári seinna ákvað félagið hins vegar að falla frá hinum nýgerða leigusamningi sem var til 99 ára og kaupa þess í stað alla eyjuna og þ.m.t. Viðeyjarbúið sjálft með húsum þess og tækjum. Markmiðið með stofnun fyrirtækisins var að sögn eigenda m.a. að auka framleiðni Íslands og bæta viðskiptatengsl milli Íslands og annarra landa.
Rekstur fyrirtækisins var nokkuð fjölþættur en megináhersla var lögð á stórfelldar fiskveiðar og -vinnslu, verslun og útflutning. Jafnhliða því veitti fyrirtækið margvíslega þjónustu til stærri skipa en í Þorpinu voru m.a. stórar kola- og olíugeymslur og var snemma komið upp stórum vatnsgeymi til að þjónusta skipin. Eignir íslensku stofnfélaganna tveggja mynduðu að stóru leyti hlutafé fyrirtækisins og tók það yfir margvísleg mannvirki og starfsemi þeirra í Gerðum, Hafnarfirði, á Bíldudal, Vatnseyri og víðar, sem og skuldir þeirra. Nýja fyrirtækið byggði því talsvert á þeim fyrirtækjum sem þeir Pétur og Thor höfðu átt og rekið en bætti mikið við starfsemina og rak m.a. botnvörpunga og þilskip. Stærsta nýjungin var þó án efa vinnslan og þjónustan í Viðey. Þar var gerð vegleg höfn og bryggjur og var stefnt að því að hafnaraðstaðan yrði með því besta sem þekktist á Íslandi. Höfnin í Viðey var fyrsta höfnin á Faxaflóasvæðinu þar sem ekki var búið að gera höfn í Reykjavík á þessum tíma.
Margar búræktunartilraunir hafa verið gerðar í Viðey. Ein þeirra átti sér stað sumarið 1861. Þá fékk August Thomsen nokkra héra með gufuskipi frá Færeyjum, og hleypti þeim lausum í Viðey. Héragreyin voru upphaflega frá Noregi en voru fluttir til Færeyja til manneldis þar sem það hafði gefist vel. Sú var ekki raunin hér á Íslandi. Í raun virðist sem nær ekkert hafi getað þrifist á eyjunni sem var flutt þangað, fyrir utan kúmen og gras. Virðist sem allar aðrar tilraunir hafi farið fyrir bý.
Milljónafélagið var nokkuð umdeilt frá upphafi og virðist umfang þess og eignarhald hafa vakið nokkurn ugg hjá landsmönnum en margir töldu það aðeins erlendan lepp. Þegar félagið festi svo kaup á Viðey í heild árið 1908 var það enn til að auka á tortryggni landsmanna gagnvart því. Íslenskir stúdentar í Kaupmannahöfn rituðu m.a. undir yfirlýsingu stuttu eftir stofnun félagsins þar sem landsmenn eru varaðir við því að „erlent fjármagn“ geti hæglega kaffært íslenskt atvinnulíf og því þurfi landsmenn að vera á varðbergi.
Um árabil stóð Sundabakkaþorpið á austurenda Viðeyjar, sem var jafnan bara kallað Þorpið. Þar var P. Thorsteinson og co., einnig kallað Milljónafélagið, meðal annars með fiskvinnslustarfsemi. Nokkrum áratugum síðar lagðist þorpið í eyði og húsin voru flutt í Skerjafjörð. Þegar Reykjavíkurflugvöllur var lagður voru húsin flutt austur í Teiga. Flest standa nú við Hrísateig. Á myndinni má sjá lifrarbræðslustöð á vegum Milljónafélagsins. Myndin var tekin um 1910.
Í dagblöðum á þessum tíma má finna margar greinar um stofnun félagsins og í Þjóðólfi segir m.a. í október 1907: Í sambandi við þetta mál hefði mátt minnast á annað því skylt, og það er stofnun hins svo nefnda miljónafélags, er hefur bækistöð sína í Viðey. Í því félagi eru að vísu tveir íslenzkir kaupmenn, en það mun að mestu leyti standa á dönskum fótum, og er að réttu lagi danskt félag, en ekki íslenskt,… […] Það er ekki ólíklegt að þetta danska miljónafélag fari að seilast hér eptir mikilsháttar jarðeignum, er liggja vel við fyrir verzlun þess. En Danir eru útlendingar fyrir oss eða eiga að vera það alveg á sama hátt, sem Englendingar og Þjóðverjar …
Kaup Milljónafélags P.J Thorsteinssonar & Co á Viðey snemma á 20. öldinni vakti ugg hjá Íslendingum og fannst þeim hneisa að erlent félag ætti eyjuna (þó það væri að mestu í eigu Íslendinga). Lagðar voru fram tillögur á Alþingi árin 1907 og 1909 þess efnis að Sundbakki yrði gerður að verslunarstað því talið var að það væri mikilvægt skref fyrir þróun Þorpsins. Tillögurnar voru felldar í bæði skiptin því talið var að það myndi skaða Reykjavík í aðeins til að bæta hag „hálfútlends gróðafélags.“ – Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1 tbl, 2014.
Mörg helstu dagblöð þessa tíma birtu líka fréttir af sölu Viðeyjar og víða er varað við því að hið forna höfuðból sé nú „fallið“ og komið í eigu Dana og bent á að þeir einu sem græði á slíku séu hálfdanskir eða hálfíslenskir „spegúlantar“. Greinilegt er að sumir litu á umsvif Þorpsins sem hreina ógnun við höfuðborgina. Árin 1907 og 1909 voru lagðar fram tillögur á Alþingi um að gera Sundbakka að löggiltum verslunarstað enda var því haldið fram að slíkt væri mikilvægt skref fyrir þróun Þorpsins. Heitar umræður urðu um tillöguna og lauk þeim í bæði skiptin með því að tillagan var felld enda því haldið fram að slíkt myndi skaða Reykjavík í þeim eina tilgangi að bæta hag „hálfútlends gróðafélags“.
Í bókinni Ágrip af sögu Íslands eftir Þorkel Bjarnason (1880) segir svo frá Skúla fógeta: „Skúla var mjög gramt í geði við einokunarverzlunina, og höfðu ýms félög leigt verzlunina frá 1706-1742. Frá 1. janúar 1743 fengu hörmangarar í Kaupmannahöfn verzlunina, og vóru þeir einhverjir hinir harðdrægustu landsmönnum. Skúli vildi fyrir hvern mun hnekkja verzlun þeirra, og sökum þess tók hann fyrir sig, að koma upp iðnaði í landinu sjálfu, svo að ullin yrði unnin á arðsamara hátt, stofna fiskiveiðar á þilskipum, og kenna landsmönnum að salta fisk sinn, o. s. frv., og hugði hann, að þetta myndi með tímanum verða vegr til að vinna svig á einokuninni.“ Má því segja að Innréttingar hans Skúla fógeta hafi verið eitt fyrsta skrefið til að afnema einokunarverslun Dana á Íslandi, en hún hófst árið 1606 og stóð til ársloka 1787.
Framkvæmdir í Viðey hófust strax nokkrum mánuðum eftir stofnun hins nýja félags, eða í upphafi sumars 1907. Á næstu mánuðum var byggt bólvirki, hafskipabryggja, grútarhús og -bryggja, verkamannabústaður, brunnar, salthús, geymsluhús fyrir verkaðan fisk, vörugeymsluhús, íbúðarhús fyrir stöðvarstjóra og járnbrautarteinar lagðir um bryggju, stöðvarplássið og fiskireiti.
Þorpið var frá upphafi tvískipt, annars vegar athafnasvæðið sem gjarnan var nefnt Stöðin eða Viðeyjarstöð og hins vegar íbúðabyggðin. Framkvæmdum og uppbyggingu á svæðinu var haldið áfram næsta árið en um verkið sáu bæði íslenskir og danskir smiðir. Samkvæmt heimildum taldist svæðið fullbyggt 1909.
Klaustrið á Viðey, sem var starfrækt milli 1226 og 1550, var af Ágústínusarreglu. Allavega mestmegnis. Ágústínusarreglan kennir sig við Ágústínus frá Hippó (354-430) en hann var einn kirkjufeðranna. Bréfið sem reglan sækir fyrirmynd sína í er mjög almennt og því mikill sveigjanleiki í túlkun. Hinsvegar, árið 1344, var Ágústínusarreglan afnumin og Benediktsreglu komið á. Sú regla kennir sig við Benedikt frá Núrsíu og er ein stærsta og fjölmennasta klausturregla í kaþólskum sið. Hún entist þó ekki og var Ágústínusarreglu aftur komið á 8 árum síðar. Nokkur Benediktsklaustur voru á Íslandi, eins og til dæmis Þingeyrarklaustur, Munkaþverárklaustur og nunnuklaustrið á Kirkjubæ.
Fyrsta skipið lagðist að bryggju í Viðey í febrúar 1908 með saltfarm til fiskvinnslu en vinnsla fisks hófst þar í maí sama ár. Allar aðstæður í Þorpinu voru góðar, t.d. í samanburði við Reykjavík. Þar var hafskipabryggja og ofan við hana var stór vatnstankur og lágu vatnsleiðslur beint niður að höfn. Þetta var mun meira hagræði en í Reykjavík þar sem vatni var komið til skipa með því að dæla því á tunnur og ferja út til skipanna. Það sama gilti um olíuflutninga, kol og aðra birgðasölu til skipanna þar sem hægt var að landa öllum varningi beint í skipin í stað þess að sigla með hann á bátum frá skipum og í land eins og í Reykjavík.
Nafnið Viðey bendir til þess að þar hafi verið skógur eða kjarr þegar eyjan fékk nafn. Fornleifarannsóknir á eyjunni hafa einmitt sýnt að þar hafi verið gróskumikið á landnámsöld og skógur eða kjarr hafi einkennt hana allt fram á 12. öld. Hér má sjá matjurtarrækt í Viðey.
Nýjungarnar í Viðey vöktu líka verðskuldaða athygli og á fyrstu starfsárum Milljónafélagsins skrifuðu forsvarsmenn þess undir fjölmarga samninga um þjónustu, geymslu og birgðasölu. Slíkir samningar voru m.a. gerðir við Danska olíufélagið um geymslu á allri olíu sem þeir flyttu til Íslands, við danska flotann um geymslu á kolum sem skip flotans notuðu hér á landi og við Sameinaða danska gufuskipafélagið um geymslu og afhendingu umhleðsluvara og kola til landsins. Stöðin þjónustaði einnig ensk, norsk og frönsk fiskveiðiskip og unnu hluta af þeim afla sem þau veiddu. Helstu útflutningsvörur Milljónafélagsins voru flattur þorskur þurrkaður í skreið, saltfiskur, freðýsa, steinbítur, lýsi, þurrkaðir sundmagar, söltuð hrogn, beitusíld og æðardúnn.
Siðaskiptin á Íslandi voru heldur blóðug, líkt og á mörgum öðrum stöðum. Við höfum sagt frá því þegar Diðrik van Minden fógeti og menn á hans vegum réðust inn í Viðeyjarklaustur og ráku munkana út með mikilli hörku og ofbeldi. Þetta var sumarið 1539. Í ágúst það ár lést Diðrik en hálfum mánuði síðar var hann og menn hans dæmdir óbótamenn fyrir ýmsar sakir og þar með réttdræpir. Ekki var minnst á töku Viðeyjarklausturs í dómnum enda taldi sýslumaður að hún hafi verið með vilja konungs. Einhverjir gerðust þó svo djarfir að drepa fjóra menn sem höfðu farið til Viðeyjar með Diðriki. Í september 1539 höfðu 13 menn konungs verið drepnir og konungsvaldið var allt í uppnámi.
Sem dæmi um umfangið má nefna að saltfiskútflutningur fyrirtækisins var um 40% af allri saltfisksölu úr landi árið 1910. Árin 1910-1913 voru mikill uppgangstími í Þorpinu. Þá var að meðaltali eitt skip í höfn á dag, árlega landað 50-60.000 smálestum af vörum og mest verkuð um 9200 skipspund af fiski. Fyrirtækið skilaði gróða flest fyrstu árin og Þorpið í Viðey óx. Í upphafi gerðu forsvarsmenn stöðvarinnar ráð fyrir að vinnuaflið í Viðey yrði að stórum hluta farandverkamenn sem ynnu þar á vertíð en ættu sér þar ekki varanlegt heimili. Íbúafjöldi í Þorpinu jókst þó fljótt og árið 1912 hófst barnakennsla í einu af húsunum í Þorpinu fyrir börn starfsmanna Viðeyjarstöðvar.
Á myndinni, sem tekin var 3. – 4. júlí 1910 má sjá Ólafshús, til vinstri, og Glaumbæ, til hægri, sem stóðu í Viðey og voru hluti af Þorpinu sem þar stóð. Ólafshús var byggt af Milljónafélaginu árið 1907. Húsið var upphaflega reist sem hús stöðvarstjóra hvalveiðistöðvarinnar á Framnesi við Dýrafjörð. Milljónafélagið keypti það, reif það niður og endurbyggði á Viðey. Húsið var rifið um 1940. Milljónafélagið reisti líka Glaumbæ árið 1907. Það var um 600m2 og var ætlað að hýsa aðkomufólk sem kom til eyjarinnar til að vinna í fiski yfir vertíðina. Húsið brann í desember, 1931.
Þrátt fyrir að flest gengi hinu nýja fyrirtæki í haginn á yfirborðinu fór fljótt að halla undan fæti. Fyrirtækið hafði fjárfest gríðarlega fyrstu starfsár sín og fyrir hvíldi starfsemi þess að stóru leyti á dýrum lánum. Eigið fé þess var frá upphafi takmarkað og olli það oft vandræðum við að halda fullum rekstri gangandi. Stjórn félagsins var dýr og dreifð og svo virðist sem ósamkomulag hafi snemma orðið á milli stjórnenda þess. Snemma árs 1909 var gert samkomulag þess efnis að Pétur Thorsteinsson viki úr stjórn og hætti öllum afskiptum af fyrirtækinu. Í ævisögu sinni segir Thor Jensen að hann hafi þegar þetta sama ár byrjað að huga að því hvernig hann gæti sagt skilið við fyrirtækið áður en það yrði gjaldþrota. Þó liðu enn þrjú ár þangað til hann sagði upp stöðu sinni við félagið en á þeim tíma tryggði hann sér eignir og togara til að hefja sinn eigin rekstur. Æ erfiðara reyndist að fjármagna fyrirtækið og svo fór að í upphafi árs 1914 voru greiðslur fyrirtækisins stöðvaðar og það því gjaldþrota. Félagið var hins vegar ekki formlega lýst gjaldþrota og því eru ekki til hefðbundin gögn um gjaldþrotaskipti. Stærstu kröfuhafar voru Handelsbanken og Nationalbanken í Kaupmannahöfn sem og Íslandsbanki. Í kjölfarið var mynduð skiptanefnd til að gera upp skuldir þrotabúsins og starfaði hún líklega í nokkur ár þótt lítið sé vitað um starfsemi hennar.
Þann 24. október 1944 strandaði kanadíska herskipið HMCS Skeena í ofsaveðri við Viðey. Það eyðilagðist og var loks dregið upp í fjöru í Elliðaárvogi. 198 mönnum úr áhöfn skipsins var bjargað en 15 fórust. Myndin er tekin snemma á sjötta áratugnum.
Gjaldþrot Milljónafélagsins var þungt áfall fyrir Þorpið en það reyndist þó engan veginn dauðadómur yfir því. Það var einkum tvennt sem vann með Þorpinu á þessum tíma, annars vegar var þar eina hafskipabryggja svæðisins og í öðru lagi var þar góð aðstaða til þjónustu við skip sem og til vinnslu og verkunar sjávarafurða. Þetta hefur líklega ráðið mestu um það að ekki dró að ráði úr íbúafjölda í Þorpinu á þessum tíma ef frá er talið sjálft gjaldþrotsárið.
Árið 1918 var íbúafjöldi í Þorpinu orðinn meiri en fyrir gjaldþrot, þrátt fyrir að gerð hafnar í Reykjavík árið 1917 hafi dregið úr mikilvægi Viðeyjar fyrir svæðið. Af blaðaauglýsingum frá þessum tíma má sjá að auglýst er eftir starfsfólki til vinnu í Þorpinu flest árin fram til 1920.
Síðara blómaskeið Þorpsins
Viðey.
Um 1920 hófst seinna blómaskeiðið í sögu Þorpsins. Fiskveiðahlutafélagið Kári, eða Kárafélagið eins og það var oftast nefnt var stofnað 1919. Á næstu árum nýtti það sér aðstöðuna í Viðey en árið 1924 keypti það Stöðina og færði höfuðstöðvar sínar út í eyjuna. Rekstur Kárafélagsins í Viðey byggði sem fyrr á fiskveiðum og -verkun ásamt því að vera birgða- og geymslustöð hafskipa.
Í Viðey er eitt elsta berg höfuðborgarsvæðisins. Viðey er liggur á hluta megineldstöðvar sem var virk fyrir um tveimur til þremur milljónum ára og er hún ýmist kennd við Kjalarnes eða Viðey. Þessi eldstöð var virk í um eina milljón ára og var umfangsmikil á sínum líftíma. Kjarni hennar var að mestu rofinn af ísaldarjöklum og er nú komin undir sjó og yngri jarðlög. Á nokkrum stöðum er þó hægt að greina leifar eldstöðvarinnar á yfirborði, svo sem í Gufunesi, við Vatnagarða og yst á Kjalarnesi. Mestu ummerkin eru hinsvegar í sunnanverðri Viðey.
Samkvæmt heimildum höfðu mannvirki í Þorpinu látið nokkuð á sjá á þessum tíma og lýsir Magnús Blöndal Jónsson, einn forvígismanna Kárafélagsins, því sem svo að þegar hann kom á Stöðvarsvæðið árið 1924 hafi þar verið „samsafn nokkurra timburkofa, gamalla og illa meðfarinna og bryggjur með maðketnum og ónýtum undirviðum.“ Þegar Kárafélagið tók við rekstrinum var því þörf á viðhaldi og endurbótum. Forsvarsmenn félagsins beittu sér fyrir því að endurnýja hús og mannvirki auk þess sem þeir lögðu rafmagn í húsin í Þorpinu, komu upp götu- og bryggjuljósum og lögðu rennandi vatn í mörg af húsunum. Þetta var líklega m.a. gert til að gera Þorpið að fýsilegri búsetukosti fyrir fjölskyldur. Uppbygging í Þorpinu hafði tilætluð áhrif og það fylltist af lífi sem aldrei fyrr. Hvert húsrými var fullskipað og ný hús voru byggð.
Skólahúsið á Viðey var reist árið 1928 og tilheyrði þá Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Síðasti ábúandi skólahússins var Steinn Steinarr sem bjó þar um skamma hríð, en sagan segir að hann hafi ekki fengið mikinn svefnfrið fyrir draugangi. Ljósmyndin sýnir skólahúsið í júní 1986 en það var endurbyggt snemma á tíunda áratugnum. Nú er það opið gestum og gangandi yfir sumarmánuðina og það er jafnvel farið að nýta það á ný til kennslu, en námskeiðið Viðey – Friðey fyrir 7-9 ára er haldið þar.
Árið 1928 var byggt skólahús í Þorpinu en áður hafði skólabörnum verið kennt í einu af íbúðarhúsunum. Um 1930 var íbúafjöldi í Þorpinu hærri en nokkru sinni fyrr – eða síðar – en þá voru skráðir þar 138 íbúar með lögheimili. Á vertíðinni var íbúafjöldi hins vegar miklu hærri og þegar mest var er áætlað að um 240 manns hafi haft aðsetur þar. Svo mikill rekstur í eyjunni var þó að mörgu leyti óhagkvæmur. Góð höfn var nú einnig í Reykjavík og mikill tími og kostnaður var fólginn í því að flytja fólk og varning á milli eyjunnar og Reykjavíkur. Um það hversu þungt sá tilkostnaður vó í að knésetja Kárafélagið er erfitt að fullyrða en snemma fór að halla undan fæti í rekstri þess. Árið 1931 krafðist Útvegsbankinn, sem var stærsti lánadrottinn þess, gjaldþrotaskipta og í kjölfarið voru eigur félagsins, stöðvarbyggingar, togarar, og margvísleg tæki og tól boðin upp í Viðey. Fulltrúar þorpsbúa gripu á það ráð að leigja reksturinn og halda starfseminni áfram en fyrir þeim rekstri reyndist ekki grundvöllur og lagðist hann því af árið 1933.
Frá sjálfsþurft til iðnvæðingar og til baka – Vitnisburður manntala og heimildamanna
Árið 2006 komu upp hugmyndir í borgarstjórn um að flytja Árbæjarsafn í Viðey og þangað sem þorp stóð á austurenda eyjarinnar. Eins hefur hugmyndin um að flytja Árbæjarsafn í Hljómskálagarðinn skotið upp kollinum nokkrum sinnum síðustu 40 árin. Myndin sýnir Þorpið á Viðey milli 1935 og 1939.
Þrátt fyrir að hinn eiginlegi rekstur legðist að stóru leyti af í Þorpinu snemma á 4. áratug 20. aldar liðu enn meira en 12 ár áður en Þorpið fór endanlega í eyði. Ástæður þessa voru án efa margvíslegar en þungt hefur þó vegið sú staðreynd að hér á landi eins og víða annars staðar var kreppa á þessum tíma og því ekki hlaupið að því að finna vinnu eða húsnæði annars staðar.
Sóknarmanntöl eru til fyrir Þorpið fyrir öll þau ár sem búið var þar og af þeim má fá talsverðar upplýsingar um þorpsbúa. Manntölin veita upplýsingar um nöfn, störf og aldur íbúa og í sumum tilfellum einnig hvar þeir voru fæddir. Manntölin sýna m.a. að íbúar stöldruðu skemur við á fyrstu árum Þorpsins en síðar og hvernig samsetning íbúa breyttist, barnafólk varð meira áberandi og umskipti á íbúum með lögheimili í eyjunni urðu hægari. Á þeim má sjá hvernig Þorpið breyttist úr því að vera verstöð yfir í að vera fjölskylduvænn byggðakjarni. Af manntölum og viðtölum við þorpsbúa að dæma virðist stærstur hluti þeirra sem fluttu til Þorpsins hafa verið fæddir í sveitum landsins og flestir ólust án efa upp við hálfgerðan sjálfsþurftarbúskap.
Fjósið sem sést hér á myndinni var eitt stærsta og nýtískulegasta fjós og heyhlaða landsins þegar það var byggt af Eggerti Briem stórbónda í byrjun 20. aldarinnar. Fjósið tók 48 kýr og var hægt að geyma gífurlegt magn af heyi í hlöðunni. Mjólkina frá kúnum flutti hann á hverjum degi á bátum yfir sundið til Reykjavíkur og svo á hestvögnum niður í Aðalstræti, þar sem hann var með mjólkurbú.
Þetta fólk hefur því lifað mikil umskipti á lífsháttum á ævi sinni. Á velmektarárum Þorpsins var það í raun í fararbroddi hvað varðar alla aðstöðu. Hafnaraðstaðan var til fyrirmyndar og sömu sögu er að segja um fiskvinnsluhús, járnbrautarteina og ýmsar aðrar tækninýjungar sem gerðu það að verkum að aðstaða fyrir verkafólk var þar í raun nýstárlegri en víða í Reykjavík. Sömu sögu er að segja um aðrar aðstæður í Þorpinu, sér í lagi eftir að rafmagn var leitt í húsin. Þetta og ýmislegt fleira olli því að Þorpið fékk á sig orð fyrir að vera vel búinn og nýtískulegur staður sem væri hentugur fyrir fólk með stórar fjölskyldur. Á velmegunartímabili Þorpsins var þar nóga vinnu að fá og jafnvel hægt að fá vinnu fyrir börn allt niður í 8-10 ára aldur. Af manntölum má sjá að fyrstu þrjú árin eftir að Kárafélagið leggst af fækkar fólki í Þorpinu umtalsvert (úr um 130 í um 50 manns) en næstu ár á eftir dró úr fólksflótta.
Viðey 1930-1932.
Eftir endalok Kárafélagsins breyttist umhverfi Þorpsins talsvert. Raflýsingu var hætt og notast var við olíulampa í hennar stað og vatni var aftur dælt úr brunnum í Þorpinu. Einn heimildamanna mundi reyndar þegar fyrrverandi starfsmaður Kárafélagsins, sem séð hafði um rafstöðina, kom í Þorpið jólin eftir gjaldþrotið og kveikti á rafstöðinni yfir jólahátíðina, en svo var aftur slökkt og aldrei kveikt aftur.
Viðey 1931.
Brottför Kárafélagsins markaði endalok umfangsmeiri vinnslu í Þorpinu og eftir hana var þar litla vinnu að fá. Íbúarnir sem áfram bjuggu í Þorpinu öfluðu sér lífsviðurværis á margvíslegan hátt. Olíutankur var enn í Stöðinni og Þorpsbúar sáu um að tappa olíu á tunnur og flytja til Reykjavíkur. Í Þorpinu var bóndi sem seldi mjólk til Reykjavíkur og flestir íbúar komu sér upp einhverjum bústofni s.s. hænum, kindum og kú. Þorpsbúar ræktuðu einnig kartöflur í stórum stíl og sumir seldu bæði kartöflur og rófur til Reykjavíkur á meðan aðrir seldu egg. Sumir þorpsbúa réru einnig til fiskjar til að afla sér matar. Í Þorpinu starfaði tilsjónamaður eigna bankans, barnaskólakennari og einn íbúi hafði það starf að kynda og ræsta skólabygginguna. En þrátt fyrir sjálfsbjargarviðleitni þorpsbúa eftir gjaldþrot Kárafélagsins fækkaði stöðugt á staðnum.
Meðfylgjandi mynd var tekin milli 1908 og 1913 og sýnir seglsskútuna York við bryggju í Viðey og danskt flutningaskip fjær. Fyrsta skipið lagðist að hinni flunkunýju skipabryggju í Viðey í febrúar 1908. Það var ekki byrjað á Ingólfsgarði í Kvosinni í Reykjavík fyrr en 1913.
Þegar heimstyrjöldin braust svo út árið 1940 voru dagar Þorpsins endanlega ráðnir. Komu breska hersins til Íslands fylgdu mikil umsvif og aukin eftirspurn eftir vinnuafli. Íbúar Þorpsins gripu hver á fætur öðrum tækifæri á launaðri vinnu í landi. Árið 1941 var svo komið að Seltjarnarneshreppur, sem Viðey tilheyrði, sá sér ekki lengur fært um að halda úti skóla í Þorpinu og gerði það í raun út um möguleika þeirra sem eftir sátu til búsetu. Þótt nokkrar fjölskyldur byggju enn í eyjunni var það aðeins tímaspursmál hvenær þær gæfust upp. Árið 1943 fluttu síðustu fjölskyldurnar í land og Þorpið lagðist endanlega í eyði.
Síðustu ár Þorpsins í Viðey hafði Útvegsbankinn, sem enn átti þar talsverðar eignir, reynt að selja þær án árangurs. Einstaka þorpsbúar höfðu þó fest kaup á sínum íbúðum eða húsum. Á þessum tíma var tilfinnanlegur timburskortur í landinu og því fór það svo að flest húsin voru tekin niður og efniviðurinn nýttur í annað. Útvegsbankinn seldi bryggjur Þorpsins og mörg af mannvirkjum Stöðvarinnar til niðurrifs en íbúarnir tóku flestir niður hús sín og fluttu með sér í land. Á örskömmum tíma hvarf bæði fólkið og mannvirkin úr Þorpinu en eftir stóðu húsgrunnar og önnur óveruleg ummerki.
Verslunarfélagið P. J. Thorsteinsson og Co. var stofnað í Kaupmannahöfn vorið 1907. Að félaginu stóðu ríkir kaupsýslumenn í Danmörku, Thor Jensen útgerðarmaður og Pétur J. Thorsteinsson. Félagið hóf starfsemi í Viðey, en það var allajafna kallað „Milljónafélagið“ þar sem fréttir hermdu að hlutafé félagsins hafði verið ein milljón króna. Thor sagði þó að innborgað hlutafé hafi verið aðeins 600 þúsund krónur og hann og Pétur hefðu lagt fram meirihluta þess.
Á meðfylgjandi mynd má sjá fiskvinnslufólk hengja upp saltfisk innandyra, mögulega í fiskþurrkunarhúsi Milljónafélagsins. Það var byggt um 1910 en brann til kaldra kola tveimur árum síðar.
Árin eftir að Þorpið lagðist í eyði urðu nokkur hröð umskipti. Húsin höfðu að mestu leyti horfið áður, en þau sem eftir stóðu féllu í niðurníðslu.
Árið 1963 eignaðist Reykjavíkurborg hluta Þorpsins sem hafði fram að þeim tíma tilheyrt bankanum. Tveimur áratugum síðar eignaðist borgin stærstan hluta eyjunnar og loks, árið 1986, það sem uppá vantaði þegar ríkið gaf Reykjavíkurborg skikann undir Viðeyjarstofu og kirkju.
Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!
Síðan Þorpið lagðist í eyði hafa komið fram margar hugmyndir um framtíðarhlutverk þess, allt frá því að þróa íbúðarbyggð á sama stað, koma þar upp lifandi safni eða húsasafni, hafa aðsetur fyrir fræðimenn eða listamenn á svæðinu eða jafnvel koma þar upp heimili fyrir aldraða sjómenn. Gerðar hafa verið kannanir um hugmyndir fólks um framtíðarnýtingu á eyjunni, stýrihópar og nefndir stofnaðar án þess að endanleg niðurstaða hafi fengist um framtíðarhlutverk Viðeyjar eða Þorpsins á suðausturendanum. Á meðan standa leifar Þorpsins á sínum stað þó að veður, vindar og sjávarrof vinni talsvert á sumum þeirra.“
Heimildir:
-Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 1. tbl. 2014, Þorpið í Viðey – Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Gavin Lucas, bls. 5-18.
-https://borgarsogusafn.is/videy/fraedsla/fjarfraedsla/punktarnir-i-videy
Dansleikir voru haldnir í Viðey líkt og annars staðar þar sem er byggð. Eitt sinn var haldið dansiball í þurrkhúsinu þegar danskt herskip lá við bryggju á þriðja áratug síðustu aldar. Á þessu skipi var Knútur prins, sonur Kristjáns X, sjóliðsforingi. Hann og aðrir áhafnarmenn tóku þátt í skemmtuninni en sagan segir að Knútur prins hafi dansað við einu og sömu stelpuna alla nóttina. Hann var svo hrifinn af henni að daginn eftir þegar hún hélt til vinnu að vaska fisk, þá stóð hann yfir henni og hélt henni félagsskap. Ólíklegt er að í þeim samkomutakmörkunum sem eru nú í gildi að einhver hitti sinn draumaprins, en það er þó aldrei að vita!