Í Víkurfréttum árið 2020 var umfjöllun um “Rockville á Miðnesheiði“:
“Ratsjárstöð Varnarliðsins í Rockville á Miðnesheiði var byggð árið 1953. Hún var starfrækt til ársins 1997, þegar henni var lokað og ný stöð opnuð skammt frá (M-1). Það eru því tuttugu ár um þessar mundir frá lokun stöðvarinnar. Í dag er fátt sem minnir á tilvist ratsjárstöðvarinnar. Fáein grenitré vekja athygli þegar horft er til svæðisins úr fjarska, tré sem uxu í skjóli húsa sem síðar voru rifin en um áratugur er síðan Rockville var jafnað við jörðu.
Þegar Rockville var og hét voru þar um tuttugu hermannaskálar, mötuneyti, pósthús og íþróttahús. Á staðnum voru einnig áberandi tröllvaxnar hvítar kúlur. Inni í þeim voru ratsjár sem höfðu það hlutverk að fylgjast með flugumferð og þá helst véla frá Sovétríkjunum.
Íslendingar sóttu í klúbbana
Í Rockville var einnig bar eða klúbbur sem naut mikilla vinsælda. Íslendingar sóttu m.a. klúbbinn í Rockville mjög stíft. Í Víkurfréttum árið 1996 var greint frá því í nóvember að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli, sem var sérstakt lögregluembætti, hafi stöðvað stóran hóp Íslendinga sem voru á leið á skemmtun í klúbbi Varnarliðsins í Rockville. Hluti hópsins var kominn inn á klúbbinn og fóru lögreglumenn inn á staðinn og vísuðu fólkinu út. Nálægt eitthundrað manns voru á gestalista og ætluðu á staðinn en fengu ekki inngöngu.
Þorgeir Þorsteinsson, þáverandi sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, sagði í samtali við Víkurféttir á þeim tíma að þetta næði ekki nokkurri átt. Klúbbar varnarliðsins væru fyrst og fremst fyrir varnarliðsmenn og gesti þeirra og að það gengi ekki að stórir hópar Íslendinga væru að sækja varnarliðsklúbba. Helst áttu lögregluyfirvöld erfitt með að hafna Íslendingum inngöngu sem boðið var í klúbbana í varnarstöðinni í gegnum alþjóðleg félög eins og Lions og Kiwanis en þessir klúbbar voru starfandi á Keflavíkurflugvelli. Þorgeir sagði fulla ástæðu til að taka í taumana gagnvart Rockville-klúbbunum en þar höfðu nokkrar „íslenskar“ skemmtanir farið fram þá um haustið. Jafnvel kom til greina að loka alveg á heimsóknir Íslendinga í Rockville.
Veitingamenn fundu fyrir Íslendingaveislum
Veitingamenn á Suðurnesjum fundu mikið fyrir Íslendingaveislunum í klúbbum kanans. Það væri erfitt að keppa við klúbbana á Vellinum og í Rockville en margfalt lægra vín- og bjórverð var sögð ástæða þess að Íslendingar sóttust eftir því að komast í klúbbana.
Ári eftir að Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli vísaði Íslendingunum út úr klúbbnum í Rockville var stöðinni lokað og starfsemin flutt. Þá varð Rockville að draugabæ um nokkurt skeið eða þar til Byrgið gerði samning við utanríkisráðuneytið um afnot af húsakosti í Rockville fyrir meðferðarstöð. Byrgið var með starfsemi í Rockville í nokkur misseri eða þar til í júní 2003 að þeim var gert að yfirgefa staðinn. Byrgið flutti í uppsveitir Árnessýslu, Rockville varð aftur draugabær og nokkrar byggingar urðu eldi að bráð. Byggingar þar höfðu svo vart verið rifnar þegar tilkynnt var um brottför Varnarliðsins frá Íslandi.
Fátt sem minnir á gamla tíð
Eins og áður segir þá er það trjágróður á svæðinu sem er það eina sem minnir á gömlu ratsjárstöðina þegar horft er til svæðisins úr fjarska. Þegar nær er komið þá má ennþá upplifa malbikaðar götur og sökkla þeirra bygginga sem þarna stóðu.”
Í Víkurfréttum 1996 er umfjöllun undir fyrirsögninni “Fyrirhuguð Íslendingaskemmtun í Rockville-klúbbi varnarliðsins – Sýslumaðurinn sendi hundrað manna hóp heim”:
“Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli stöðvaði stóran hóp í Rockville sl. laugardagskvöld. Hluti fólksins var kominn inn á staðinn og fóru lögreglumenn þar inn og vísuðu fólkinu út. Nálægt eitt hundrað manns sem voru á lista og ætluðu á staðinn fengu ekki inngöngu.
„Klúbbar varnarliðsins eru fyrst og fremst fyrir varnarliðsmenn og gesti þeirra,“ sagði Þorgeir Þorsteinsson, sýslumaður, og sagði að það gengi ekki að stórir hópar íslendinga væru að sækja varnarliðsklúbba. Þorgeir sagði fulla ástæðu til að taka í taumana gagnvart Rockville-klúbbnum en þar hafa nokkrar „íslenskar“ skemmtanir farið fram að undanförnu. Jafnvel kæmi til greina að loka alveg fyrir það að Íslendingar færu í Rockville. Hann sagðist ekki þekkja nóg hvað hafi farið fram í Yfirmannaklúbbnum en eftirlit með skemmtanahaldi á vellinum yrði hert.
Keilumenn og þeir sem stunda pílukast á Suðurnesjum fara mikið upp á Keflavíkurflugvöll til að stunda íþróttir sínar. Að sögn eins forráðamanna Keilufélags Suðumesja stendur þetta starfsemi eina keilusalarins á Suðurnesjum fyrir þrifum en talið er að um 30% af allri keiluspilamennsku fari fram á vellinum.”
Í Víkurfréttum 1998 var eftirfarandi umfjöllun um ratsjástöðina Rockville undir fyrirsögninni “Örlögin óráðin“:
“Ratsjárstöð Varnarliðsins í Rockville á Miðnesheiði hefur verið lokað. Mannvirki á svæðinu standa auð. Tækja- og húsbúnaður hefur verið fjarlægður en húsakostur bíður örlaga sinna – sem eru óráðin.
Réttnefni
Vamarliðið reisti fjórar ratstjárstöðvar til eftirlits með flugumferð og til loftvama hér á landi á sjötta áratugnum. Fyrstu ratsjárstöðinni var
valinn staður í heiðinni ofan við Sandgerði og nefnd Rockville, sem þótti réttnefni í hrjóstugum berangrinum á þessum stað.
1953-1997
Byggingar stöðvarinnar voru reistar af verktakafyrirtækinu Sameinuðum verktökum og var hún tekin í noktun í lok októbermánaðar 1953. Hinar þrjár stöðvamar risu síðan á Heiðarfjalli á Langanesi, Stokksnesi við Hornafjörð og á Straumnesfjalli.
Tækni þess tíma leyfði ekki sjálfvirka tengingu stöðvanna og því dvöldu rúmlega 100 liðsmenn bandanska flughersins á hverjum stað og önnuðust eftirlit með umferð flugvéla og stýrðu orrustuþotum varnarliðsins í veg fyrir óþekktar flugvélar til könnunar hver á sínu svæði.
Stöðvum lokað
Liðsmenn 932. loftvamasveitar bandaríska flughersins starfræktu ratsjárstöðina í Rockville frá upphafi og samræmdu auk þess aðgerðir ratsjárkerfisins í heild. Starfsmenn þar voru því í við fleiri en á hinum stöðvunum og bjuggu þeir í íbúðaskálum á staðnum og á Keflavíkurflugvelli.
Tveimur ratsjárstöðvanna var lokað haustið 1960. Það voru stöðvamar á Stokksnesi og Straumnesfjalli. Ástæðan var mikill kostnaður og erfileikar við reksturinn, enda engar sovéskar flugvélar farnar að fljúga í námunda við landið. Þessi í stað var ratsjárbúnaður stöðvanna í Rockwille og á Heiðarfjalli endurbættur. Starfrækslu stöðvarinnar á Heiðarfjalli var hætt í janúar árið eftir er búnaður hennar skemmdist í óveðri. Var sú starfsemi umsvifalaust flutt að Stokksnesi, þar sem rekin hefur verið ratsjárstöð síðan.
Í veg fyrir Sovét
Langdrægar ratsjárflugvélar bandaríska flotans og síðar flughersins, með aðsetur á Keflavíkurflugvelli, önnuðust ratsjáreftirlit úr lofti umhverfis landið um langt árabil. Reglubundið flug af þessu tagi hófst árið 1961 eða skömmu eftir að ratsjárstöðvunum á norðanverðu
landinu var lokað og skömmu áður en iangdrægar sprengju- og könnunarflugvélar Sovétríkjanna hófu að leggja leið sína út á Atlantshafið. Flugvélar þessar gerðu ekki boð á undan sér líkt og flugvélar í reglubundnu millilandaflugi og jókst umferð þeimt stöðugt næsta aldarfjórðunginn og náði hámarki um miðjan níunda áratuginn.
Endurnýjun búnaðar
Árið 1981 tóku Atlantshafsbandagið og bandaríski flugherinn, sem rak ratsjárstöðvar Vamarliðsins, höndum saman um að endurbæta loftvamakerfið á Íslandi og tók ný stjómstöð loftvarna til starfa í Rockville árið 1988. Annað skrefið í endurnýjun loftvamakerfisins var
síðan stigið með smíði fjögurra nýrra ratsjárstöðva og ratsjármiðstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Ratsjármiðstöðin tók að fullu til starfa 2. október 1997 og var þá starfsemi í Rockville hætt. Það skal þó tekið fram að starfsemi fjarskiptamiðstöðvar norðan við núverandi húsakost Rockville verður áfarm starfrækt.
Hvað verður um Rockville?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað verður um húsakost þann sem áður hýsti liðsmenn 932. loftvarnasveitar Bandaríkjahers.
Nokkrir aðilar hafa sýnt svæðinu áhuga. Stríðsminjasafn hefur verið nefnt, meðferðarstofnun eða jafnvel fangelsi. Það er þó ljóst að
það mun kosta mikla fjármuni að endumýja húsakost á svæðinu. T.a.m. þarf að skipta um allar raflagnir, þar sem 110 volta straumur er á svæðinu. Einnig hafa verið nefndar aðrar lausnir á því hvemig nýta megi svæðið án þess að það þurfi að kosta miklu til. Þarna er kjörinn vettvangur fyrir lögreglu, slökkvilið og björgunarfólk að hafa æfingaaðstöðu og einnig hefur heyrst af aðila sem vilji setja þama upp stríðsleikjagarð. Endalokin verða þó örugglega þau að þama verður haldin heræfing með það að markmiði að fjarlægja öll mannvirki af svæðinu svo eftir standi hrjóstugur berangurinn.”
Í Víkurfréttum 2005 er fjallað um “Síðustu daga Rockville“:
“Eitt helsta kennileiti Suðurnesja hverfur innan tíðar. Rockville, húsin með hvítu kúlunum eins og einhver myndi orða það, verður rifið í ár
en þessi staður á sér langa og á tíðum skemmti lega sögu.
Það var í október 1953 sem 932. ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöð sem nefnd var Rockville. Stöðin, sem byggð var af varnarliðinu á Íslandi, eins og það var kallað, var ein af fjórum stöðvum sem byggðar voru. Ein var á Stokksnesi, önnur á Langanesi og sú þriðja á Straumnessfjalli en Rockville var samt sem áður miðstöð loftvarna á Íslandi.
Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella.
Vökul augu á Miðnesheiði
Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.
Árið 1961 urðu breytingar á starfsemi varnarliðsins í kjölfar þess að sjóherinn tók yfir starfsemi hersins á Keflavíkurflugvelli en þar hafði flugherinn ráðið ríkjum. Ratsjársveitin hélt þó áfram venjubundinni starfsemi í Rockville.
Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni.
Starfsmenn sem sváfu á vistinni í Rockville hófu að flytja sig á brott árið 1996 og var húsakynnum og starfsemi hætt jafnt og þétt það ár. Ekki fóru þó allir því starfsmenn tölvuviðhalds hjá ratsjársveitinni sátu vaktir í Rockville ef eitthvað af þeim búnaði sem þar var þyrfti að nýta. Aðrir í deildinni hófu að flytja burt tæki og hús gögn. Íslenskir verktakar fluttu ýmis fjarskiptatæki fyrir Bandaríkjaher á þeim tíma og kláruðust þeir flutningar í janúar 1998. Þá höfðu allir í 932. ratsjársveit bandaríska flughersins yfirgefið Rockville sem breyttist, eftir 44 ára starfsemi, í draugabæ.
Vopnin og Biblían
Fljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Einu ári síðar eða árið 1999, eftir viðræður forsvarsmanna Byrgisins og Utanríkisráðuneytisins, voru undirritaðir samningar um afnot Byrgisins af mannvirkjum í Rockville. Þessi fyrrum ratsjárstöð Bandaríkjahers var orðin að heimili kristilegs líknarfélags. Þar sem áður fyrr voru hermenn með vopn voru nú áfengis- og fíkniefnaneytendur með biblíu.
En hvernig var reynsla þeirra sem þar dvöldu en báru ekki fána Bandaríkjanna?
„Rockville bjargaði lífi mínu”
Magnús Svavar Emilsson var einn af þeim sem leit á Rockville sem heimili sitt. Víkurfréttir tóku viðtal við hann árið 2002 en þá var hann yfirmatsveinn Byrgisins. Magnús hefur barist við áfengisdjöfulinn meirihlutann af lífsleið sinni en hann er 52 ára í dag. Víkurfréttir höfðu samband við Magnús á dögunum en hann hefur sagt skilið við áfengið fyrir fullt og allt.
„Rockville bjarg aði lífi mínu og þetta var líka besti staðurinn sem ég hef verið á,” sagði Magnús. „Það var erfitt að yfirgefa Rockville sérstaklega þar sem að við unnum svo mikið sjálfir að breytingum og lagfæringum.”
Magnús sagðist ekki hafa orðið var við hermenn á meðan að hann var í Rockville: „Þeir létu okkur alveg í friði og í raun og veru var allt látið í friði í Rockville á meðan við áttum heima þarna.”
Að sögn Magnúsar bjargaði Rockville ekki að eins lífi hans heldur hundruðum mannslífa.
„Það væru fleiri af okkur farnir yfir móðuna miklu ef við hefðum ekki Rockville á sínum tíma, þetta var besti staðurinn.”
En Magnús ásamt u.þ.b. 100 öðrum vistmönnum urðu frá að hverfa árið 2003 þegar Byrgið fékk ekki áframhaldandi samning um afnot af svæðinu.
Magnús sagði það dapurlegt að yfirgefa staðinn sem bjargaði lífi hans. „Það var dapurlegt, mjög dapurlegt.”
Magnús heimsótti Rockville í fyrra en í þeirri ferð vöknuðu skemmtilegar minningar um hann og aðra vistmenn Byrgisins en það sem kastaði skugga á minningar hans var útlit staðarins. „Það er sorglegt að vita til þess hvernig þetta er farið í dag,” sagði Magnús.
100 milljónir faldar í Rockville
Þegar Byrgið yfir gaf Rockville fyrir fullt og allt lokaði Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, hliðinu á táknrænan hátt. Hann henti
lyklinum að hliði Rockville út í móa og sagði að þarna hefðu farið 100 milljónir fyrir lítið en þá vitnaði Guðmundur til þess kostnaðar við uppbyggingu Rockville fyrir starfsemi Byrgisins.
Leitað var eftir því hjá Guðmundi Jónssyni að lýsa sinni reynslu af Rockville en það tókst ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir yfir tæpt mánaðar skeið.
Draugabær enn á ný
Ekki litu þó allir á Rockville sömu augum og vistmenn Byrgisins. Fyrir marga var þetta ágætur staður til að svala skemmdarfíkn, sérstaklega þegar Byrgið var farið og Rockville hóf sitt annað draugatímabil.
Rockville var lagt í rúst á aðeins nokkrum dögum. Það sem áður tók mánuði að byggja upp og lagfæra tók að eins nokkra daga að eyðileggja. Ungmenni vöndu ferðir sínar að gömlu ratsjárstöðinni og brutu rúður, spenntu upp hurðir og kveiktu í allskyns munum sem skildir voru eftir.
Svæðið sem eitt sinn bjargaði mannslífum er nú orðinn höfuðverkur hersins og lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli. Útköll vegna skemmdarverka, mannaferða og annarra verkefna eru þó nokkur. Það sem af er á þessu ári hafa 9 mál komið upp, 8 mannaferðir
og einn bruni sem Víkurfréttir greindu frá.
Rockville hverfur
Heilbrigðisyfirvöld og aðrir hafa lýst yfir áhyggjum sínum vegna þeirrar slysahættu sem stafar af Rockville en auðveldur aðgangur er að svæðinu. Bandaríkjaher hefur reynt að fjármagna rif Rockville í nokkur ár og virðist það verkefni vera á enda en útboð vegna niðurrifsins er lokið.
Rockville sem gegnt hefur hinum ýmsu hlutverkum í gegnum tíðina þ.á.m. verndunar lands og þjóðar og mannúðarstörf um verður horfið af Miðnesheiðinni í ár eftir 52 ára veru á Suðurnesjum.”
Í Vísi 2005 er greint frá eldi í ratsjárstöðinni:
“Mikill eldur var í Rockville, gömlu ratsjárstöðinni á Miðnesheiði, í nótt. Samkvæmt Víkurfréttum var fjölmennt slökkvilið sent á staðinn á þriðja tímanum í nótt og logaði þá mikill eldur í byggingu hjá kúluturnunum sem eru eitt helsta kennileiti staðarins. Engin starfsemi hefur verið á staðnum frá því að Byrgið var þar með aðstöðu. Ekkert rafmagn er á staðnum en samkvæmt Víkurfréttum leikur grunur á íkveikju. Blaðamenn Víkurfrétta voru stöðvaðir af herlögreglumönnum og ekki hleypt að brunavettvangi í nótt. Þeir vildu einnig banna ljósmyndurum að ganga um móann utan girðingar gömlu ratsjárstöðvarinnar þannig að hægt væri að ná myndum af slökkvistarfi. Það var ekki fyrr en blaðamenn settu sig í samband við lögregluna í Keflavík að herlögreglunni var ljóst að ljósmyndurum væri heimilt að ganga um móann. Ljósmyndurum var þó meinaður aðgangur að sjálfum brunavettvangi.”
Í Víkurfréttum 2006 er enn fjallað um Rockville; “Rockville – minningin ein!”:
“Eitt helsta kennileitið á Miðnesheiði er að hverfa. Það er verið að rífa Rockville – gamla ratsjárstöð Varnarliðsins suður með sjó. Tvær gríðarstórar hvítar kúlur hafa verð aðalsmerki Rockville í hálfa öld. Önnur kúlan er fallin og hin verður farin innan nokkurra daga.
Það var í október 1953 sem ratsjársveit bandaríska flughersins kom sér fyrir í nýbyggðri ratsjársstöðinni. Rockville var með sitt eigið orkuver og var stöðin þess vegna sjálfbær hvað varðar rafmagn. Á svæðinu voru u.þ.b. 20 hermannaskálar, matsalur, pósthús, íþróttasalur, bar, verslanir, bíósalur og kapella. Starfsmenn Rockville voru um það bil tvö hundruð talsins. Stór hluti þeirra bjó á vistinni í Rockville en fjölskyldufólkið bjó á Keflavíkurflugvelli.
Rockville gegndi mikilvægu hlutverki í kalda stríðinu en þá fylgdust liðsmenn ratsjársveitarinnar reglulega með ferðum sovéskra herflugvéla hér við land og beindu orrustuflugvélum varnarliðsins í veg fyrir þær til eftirlits.
Ný ratsjárstöð var tekin í notkun á Miðnesheiði í nóvember árið 1992 en í kjölfarið minnkaði starfsemin í Rockville og færðist hún hægt og rólega upp á Keflavíkurflugvöll þar sem þeirra biðu ný húsakynni.
Fljótlega eftir að herinn hafði yfirgefið Rockville voru nokkrir sem sýndu svæðinu áhuga en þar á meðal voru forsvarsmenn meðferðarstöðvarinnar Byrgisins. Þeir fluttu á svæðið árið 1999 en urðu frá að hverfa 2003. Síðan þá hefur stöðin grotnað niður – þar til nú að hún er að verða minningin ein.”
Í Víkufréttum 2010 er frétt: “Kapellu tvívegis forðað frá glötun“:
“Kapella slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli fékk andlitslyftingu fyrir helgi þegar fyrrverandi og núverandi starfsmenn slökkviliðsins komu saman til að mála og bera á tréverkið. Kapellan var vígð af herra Karli Sigurbjörnssyni biskupi Íslands þann 15. desember árið 2000 á 1000 ára afmæli kristnitöku á Íslandi.
Í janúar 1999 kom fram hugmynd meðal slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli að bjarga Kapellunni í Rockville frá glötun, en eftir lokun stöðvarinnar komust skemmdarvargar á kreik og höfðu þegar unnið nokkur spjöll á Kapellunni ásamt öðrum mannvirkjum. Umrædd Kapella á sér nokkuð merka sögu.
Amerískur verktaki, „Metcalf Hamilton“ og íslenskur undirverktaki, „Sameinaðir Verktakar“ reistu húsið sem skrifstofu fyrir eftirlitsaðila með uppbyggingu Radsjárstövarinnar við Stokksnes hjá Höfn í Hornafirði árið 1953. Árið 1956, þegar framkvæmdum var lokið, var húsinu breytt í kapellu, að beiðni staðarmanna, frekar en að rífa hana niður. Skömmu eftir virkjun radsjárstöðvarinnar kom í ljós að byggingin truflaði radarinn, svo annað hvort var að rífa húsið eða flytja það til.
Starfsmenn stöðvarinnar byggðu því nýjan grunn á viðurkenndum stað og íslenskir verktakar sem voru á svæðinu fluttu bygginguna í heilu lagi eitt kvöldið með tækjum sínum og þáðu nokkra kassa af bjór fyrir vikið og þótti báðum býttin góð. Í upphafi var engin bjalla í Kapellunni en einhvern veginn innviklaðist slökkviliðið í að útvega bjöllu, sem fékkst af gömlum slökkviliðsbíl í Bandaríkjunum og fylgir bjallan Kapellunni enn í dag.
Árið 1988 var starfsemi radsjárstöðvarinnar á Stokksnesi breytt og fyrir atbeina góðra manna var Kapellan flutt frá Höfn til Rockville að fengnu samþykki Bygginarnefndar Varnarsvæða.
Árið 1997 var starfsemi breytt í Rockville og notkun allra mannvirkja þar hætt, þeim lokað og hiti tekinn af þeim. Fljótlega tók að bera á skemmdarvörgum á svæðinu og skemmdarverk unnin á hinum ýmsu mannvirkjum þar ásamt Kapellunni.
Slökkviliðsmenn, sem þekktu til Kapellunnar, rann í brjóst áhugi til að forða henni frá frekari skemmdum og komu að orði við slökkviliðsstjóra með uppástungu um að bjarga henni frá glötun með því að flytja hana á lóð slökkviliðsins og gera hana upp sem Kapellu fyrir slökkviliðsmenn, sem gjarnan þurfa að vinna á stórhátíðisdögum, ennfremur sem athvarf slökkviliðsmanna sem ef til vill þurfa á áfallahjálp að halda eftir stórslys.
Slökkviliðsstjóri bar hugmyndina upp við yfirmann varnarliðsins en hann bauð slökkviliðsstjóra að gera það sem hann teldi kapellunni og hans mönnum fyrir bestu. Að fengnu leyfi Bygginganefndar, enn einu sinni, var húsið flutt á lóð slökkviliðsins, með góðri hjálp verktaka á svæðinu.
Svo ólíklega vildi til að sami starfsmaður hins íslenska verktaka hefur verið viðriðinn tilfærslu á þessu húsi öll þrjú skiptin sem það hefur verið fært til á þessu 44 ára tímabili þ.e. Stefán Ólafsson verkstjóri hjá Íslenskum Aðalverktökum.
Slökkviliðsmenn tóku til óspilltra mála og hafa unnið við uppbyggingu þessarar Kapellu ýmist í fríum sínum eða á milli stunda á vaktinni. Margir fleiri en slökkviliðsmenn hafa lagt hönd á plóginn ýmist einstaklingar eða fyrirtæki auk íslenska ríkisins með fjárframlögum, efni og/eða vinnu. Altaristöflu málaði Erla Káradóttir slökkviliðsmaður.
Nokkuð athyglisverð staðreynd fylgir kapellunni. Strax í upphafi truflaði hún starfsemi radarstöðvarinnar á Stokksnesi. Að endingu var stöðin á Stokksnesi lögð niður. Kapellan var því flutt í Rockville á Miðnesheiði. Það varð hlutskipti Rockville að vera lagt niður. Kapellan var því aftur flutt og nú í Varnarstöðina á Keflavíkurflugvelli. Það varð hlutskipti Varnarliðsins að vera lagt niður. Kapellan þjónar þó enn sínum tilgangi enda slökkviliðið ennþá til staðar en í annarri mynd en áður.
Landamerkjavarða
Syðst á Rockville svæðinu, sunnan vegar sem er í kringum Rockville er vel hlaðin og stæðileg varða. Varðan er hringlaga upphlaðin, um 1.70 m á hæð, ummmál um 1.50 m.
Skjöldur er á vörðunni, á honum stendur að varðan sé hlaðin 1957, og merkt FL4N 3012 Landmælingar Íslands. “Röskun varðar refsingu”.
Heimildir:
-VF – 24. júní 2020 – https://www.vf.is/mannlif/vf-i-40-ar-rockville–a-midnesheidi
-VF – 18. júlí 2010.
-VF – 21. nóvember 1996.
-Vísir – 3. júní 2005.
-VF – 5. febrúar 2006.
-VF – 49. tbl. 17.12.1998.
-VF – 27. tbl. 07.07.2005.
-VF – 2. tbl. 11.01.2007.