Tag Archive for: Selbrekkur

Njarðvíkursel

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar um Innri-Njarðvík má lesa eftirfarandi um „Seltjörn og nágrenni„:

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel (Selið) sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

„Jörð eða hverfi næst austan Ytri-Njarðvíkur. Upplýsingar gaf Finnbogi Guðmundsson í Tjarnarkoti og Guðmundur sonur hans.
Uppi í heiðinni upp af vegi, þegar farið er austanverðu, er þar í lægð gömul selstaða við lítið vatn, sem heitir Seljavatn. Þar í er hólmi með litlu kríu- og andavarpi. Norðanvert við vatnið er svonefndur Háibjalli eða Seltjarnarhjalli. Suður af tjörninni eru tættur, sem heita Sel. Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu. Norðvestur af Seljavatni er allstór hóll með vörðu, sem heitir Selhóll.“

Njarðvíkursel

Stekkur norðan Njarðvíkursels sunnan Seljavatns (Seltjarnar).

Forvitnilegt er að sjá að tjörnin hafði áður heitið „Seljavatn“, þ.e. í fleirtölu, sem bendir til þess að fleiri en eitt sel hafi verið við vatnið. Eftir skoðun svæðisins staðfestist að örnefnið hafi verið réttnefni á sínum tíma.

Í „Fornleifaskráningu við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags“ árið 2018 segir: „Í Sýslu- og sóknarlýsingu er tjörnin kölluð Seljavatn og að þar hafi verið sel frá Innri-Njarðvík. „Þessi selstaða, sem er í hrauninu upp frá Stapanum, er nú sökum peningafæðar aflögð.“

Seltjarnarhjallasel

Rjúpa á vörðunni ofan við Selstjarnarhjallasel.

Þetta er skrifað árið 1840. Þó ekki hafi fundist heimildir um að búið hafi verið að staðaldri í Seli, benda minjarnar til þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið búskapur þar þó hann hafi ekki verið nægjanlega lengi til að lenda í heimildum. Alþekkt er að selstöður breyttust í hjáleigur og öfugt, hjáleigur breyttust í selstöður. Sel er mjög líklega dæmi um slíkt.“

Þá segir: „Sex fornleifar voru skráðar á deiliskipulagsreitnum. Vafalítið eru þetta fornleifar sem tengjast búskap eða nytjum í Seli þar sem skepnur voru hafðar og veiðar í Seltjörn mikilvægar“. Um er að ræða seltóftirnar, stekk, rétt og kofa, vörðu og götu.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel.

Seljabúskapur lagðist af á Reykjanesskaganum í lok 19. aldar. Tóftir „Njarðvíkursels“ sunnan Seljavatns (Seltjarnar) hafa enn verið í vitund Njarðvíkurmanna um miðja 20. öld enda eru þær af kynslóð seinni tíma selja. Þegar fyrsti Grindavíkurvegurinn (vagnvegurinn) var lagður af Stapanum árið 1913 lá leiðin niður að vestanverðum Háabjalla, suður með austanverðri Seltjörn og áfram að Arnarseturshraunsbrúninni þar sem stefnan var tekin á Gíghæð. Vegavinnuflokkurinn var í fyrsta áfanga með tjaldbúðir við gatnamót Suðurnesjavegar og hins nýja Grindavíkurvegar. Í öðrum áfanga nýttu vegagerðarmenn sér til skjóls tóftir Njarðvíkursels árið 1914. Þeir hafa eflaust lagfært einhverjar af þeim húsum sem fyrir voru og jafnvel byggt ný. Minjar eftir vegagerðarmennina eru meðfram öllum Grindavíkurveginum, allt þar til þeir komu að endastöðinni niður við Norðurvör Járngerðarstaða 1918.

Seltjarnarhjallasel

Seltjarnarhjallasel – stekkur.

Við skoðun og leit að mögulegum minjum undir Seltjarnarhjalla (Háabjalla) komu í ljós selsleifar, s.s. stekkur og hringhlaðið hús auk annarra tófta. Á Bjallanum ofan við tóftirnar var fallin varða á klapparhól. Rjúpa hafði nýtt sér aðstöðuna. Skammt neðan hennar voru nánast jarðlægar leifar fjárborgar. Frá ofanverðu selinu mátti marka götu upp Njarðvíkurheiði áleiðis að Njarðvíkum. Ljóst er að þarna hefur fyrrum verið selstaða, að öllum líkindum mun eldri en sú fyrrnefnda, sennilega forveri hennar. Trjám hefur verið plantað í selstöðuna um nokkurt skeið. Þetta skógræktarsvæði undir Háabjalla (Seltjarnarhjalla) hefur nú verið nefnt „Sólbrekkur“.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Innri-Njarðvíkur. Ari Gíslason skráði.
-Fornleifaskráning við Seltjörn í Reykjanesbæ vegna deiliskipulags, 2018.

Seltjörn

Seltjörn (Seljavatn) og nágrenni.

Njarðvíkursel

Um miðbik 19. aldar munu hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps að sunnan- og vestanverðu hafa verið eftirfarandi: „…úr Hraunsvatnsfelli og þaðan í Vatnskatla í Vatnsfelli norðan Fagradalsfjalls. Úr vatnskötlum liggja mörkin til útsuðurs um Kálffell og í kletta við götuna nyrst í Litla-Skógfelli. Úr Litla-Skógfelli liggja mörkin á Arnarklett, allháan klett og auðkennilegan í brunahrauninu sunnan Snorrastaðatjarna, en þaðan til sjávar yst í grunnri skoru á Vogastapa.“ Það skal tekið fram að lýsing þessi er ekki villulaus. Auk þess eru til fleiri en ein útgáfa af markalýsingum, jafnvel frá sama tímabili.

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel – uppdráttur ÓSÁ.

Kolbeinsvarða var sögð standa á mörkum Gamla-Keflavíkurvegarins og Vatnsleysustrandarhrepps fyrir ofan Grynnri Skor, „grunnri skoru“ sbr. framangreint, (Kolbeinsskor), sem einnig er kölluð Innri Skor. Á þeim slóðum, líklega í Njarðvíkurlandi, er stór varða, nýlega endurbyggð, sem kölluð er Brúnavarðan og er hún mið af sjó. Fleiri nálægar vörður eru tilgreindar, en ofar í Njarðvíkurheiðinni, s.s. Mörguvörður, Stúlkuvarða og „Tyrkjavörður“.
Rétt er að geta þess að frá Mörguvörðum ofan við Stapann liggur gömul gata (akvegur, byrjað á honum 1913) svo til beint niður móana að Selbrekkum (Sólbrekkum/Seltjarnarhjalla)), á ská niður þær og að Seltjörn (Seljavatni).
Gatan hefur eflaust haldið áfram til Grindavíkur, en nýi vegurinn liggur ofan á henni. Ennþá eldri gata (hestagata) liggur svo til samhliða nýrri götunni, en allnokkru austar. Hún sést einnig mjög vel þar sem hún liðast niður Selbrekkur (vestar) og áfram niður að austanverðu Seljavatni (Seltjörn).

Selbrekkur

Varða við gömlu reiðleiðina ofan við Selbrekkur (Seltjarnarhjalla).

Þegar þessi gata er skoðuð er líklegt að hún hafi greinst við vatnið og austari hluti hennar legið áfram til austurs með hraunkantinum, að Snorrastaðatjörnum. Einungis vantar kaflann frá þessari götu og upp að Litla-Skógfelli til að tengja þessa gömlu leið og aðrar þær, sem þar eru, saman.

Njarðavíkurheiði

Varða á Njarðvíkurheiði.

Á heiðinni, stutt frá gamla akveginum, er stór hringlaga vörðufótur og leifar af vörðu. Gróið er að fætinum. Þarna mun fyrrum hafa staðið myndarleg varða, að öllum líkindum landamerkjavarða af stærðinni að dæma sem og skv. heimildum. Ólafur frá Knarrarnesi man eftir vörðunni þarna. Enda passar staðsetning hennar við „sjónhendingu“ úr Brúnavörðu ofan Stapabrúnar, jafnvel í Innri Skor, og frá henni í Arnarklett ofan við Snorrastaðatjarnir. Grjótið í vörðunni var tekið úr henni á fyrri hluta 20. aldar og sett undir bryggjuna í Vogum. Það að Vogamenn hafi tekið grjótið bendir til þess að það hafi verið í þeirra landi, a.m.k. helmingurinn. Ef þetta reynist rétt er núverandi „Hollywood“-stafaskilti Reykjanesbæjar innan fyrrum landamerkja Voga.

Njarðvíkursel

Stekkur við Njarðvíkursel.

Í örnefnalýsingu Innri-Njarðvíkur segir: „Suður af tjörninni (Seljatjörn) eru tættur, sem heita Sel. (Í gamalli sóknarlýsingu Njarðvíkursóknar segir: „Frá Njarðvíkum er sel, Njarðvíkursel, við Seljavatn“). Þar suðvestur af eru Hraunslágar. Þær eru við austurenda Rauðamels, en það er melflæmi allmikið hér í hrauninu… vestur af Rauðamel er Stapagjá og Vörðugjá, og suður af henni eru Gíslhellislágar kenndar við Gíslhellir, sem er þarna ofan við Rauðamel. Í Stórugjá er stórt berg á köflum“.
Byrjað var á því að skoða Njarðvíkursel sunnan Seltjarnar/Selvatns.

Njarðvíkursel

Varða ofan Njarðvíkursels.

Selstóttirnar liggja í röð undir hraunbakkanum skammt frá veginum að Stapafelli. Segja má að vegurinn liggi í gegnum selstöðuna. Um er að ræða tvö hús. Annað þeirra, það syðra er stórt með tveimur rýmum. Hleðslur sjást enn vel í innveggjum. Nyrðra húsið er mun stærra og lengra, með a.m.k. sex rýmum. Hleðslur í syðstu tóftunum standa enn vel. Líklegt má telja að vegavinnumenn, sem unnuð við Grindavíkurveginn (1914) hafi nýtt aðstöðuna þarna, einkum syðsta hlutann, enda selið þá aflagt fyrir allnokkru.
Norðan vegarins er hlaðin rétt og stór tvískiptur stekkur, tvöfaldur. Hæðin nú er um 60 cm og sjást a.m.k. þrjú umför greinilega.

Njarðvíkursel

Aðhald við Njarðvíkursel.

Miðað við hversu volduglega stekkurinn er hlaðinn má telja líklegt að hann hafi verið notaður fyrir kýr fremur en fé. Af fjölda rýma í selinu og mismunandi stærð þeirra að dæma gæti þarna hafa verið bæði selstaða fyrir fé og kýr, enda ákjósanlega aðstaða við vatnið.
Þarna hefur einnig verið hin ágætasta aðstaða miðja vegu á milli þjóðleiðanna (Skipsstígur) á milli Njarðvíkur og Grindavíkur annars vegar og Voga og Grindavíkur (Skógfellavegur) hins vegar. Grindvíkingar, og jafnvel fleiri, sóttu lengi vel í ís á tjörninni. Steypta mannvirkið norðvestan hennar er m.a. frá hluta þess tímaskeiðs.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG (1995).

Njarðvíkursel

Njarðvíkursel.

Efrafjall

Þann 22. október 1944, u.þ.b. kl. 15:00, flaug fyrsti lútenant John J. Custy, meðlimur 33ju orrustusveitar ameríska flughersins, C-64 flugvél sinni, í Efrafjall ofan við Ölfus. Hann, ásamt fjórum farþegum, liðþjálfanum Robert R. Richt, korperálnum Anthony P. Colombo, óbreyttum Leonard T. Damerval og óbreyttum Floyd C. Van Orden, lést er kviknaði í flugvélinni við brotlendinguna. Brak úr henni dreifðist um stórt svæði.
Þremur árum fyrr, eða sunnudaginn 7. desember 1941, fórst önnur herflugvél, af Hudson-gerð/G, þarna í fjallinu, ekki langt frá. Fjórir menn í áhöfninni létust allir. Flugstjórinn hét Eric Stewart, 22 ára Nýsjálendingur.
Ætlunin var að skoða brakið úr vélunum, sem er þarna enn um 65 árum síðar, en líta fyrst á á Hraunssel við Selstíginn undir Lönguhlíðum og athuga hvort tóftir kunni að leynast undir Selbrekkum í austanverðu Efrafjalli.
Gengið var til austurs yfir Eldborgarhraun ofan við Frambrúnir í Þrengslunum og yfir á Selstíginn undir Lönguhlíð. Þar kúrir Hraunsselið. Auðvelt er að fylgja gróinni kindaslóð í gegnum mosahraunið, svo til beint að selinu.
Eftir að hafa skoðað tóftirnar var gengið upp á Litlaberg ofan við Kerlingaberg og inn á Selbrekkur undir Efrafjalli. Ofar eru Vatnsbrekkur og enn ofar Suðurhálsar. Neðar er Neðrafjall ofan við Hjalla.
Altalað var í Ölfusi að búkonurnar á Hrauni hafi fengið nægan efnivið til sauma eftir slysið því fallhlífarnar, sem voru úr silki, fundust skammt frá slysstaðnum og voru notaðar í flest það sem þurfa þótti til sauma næstu daga á eftir, hvort sem um var að ræða klæðnað eða gluggatjöld.
Í bókinni „Styrjaldarárin á Suðurlandi“, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson segir m.a. frá síðarnefnda flugslysinu. Í frásögninni kemur fram að slysið hafi borið upp á sama dag og árás Japana á Pearl Harbour, þann 7. desember 1941. Þrátt fyrir að þetta væri á sunnudegi var búist við því að þessu myndi fylgja óvænt árás þýska hersins einhvers staðar í Evrópu. Að því tilefni var 8 Hudson flugvélar, sem staðsettar voru á Kaldaðarnesflugvelli, sendar á loft um hádegisbil og var hlutverk þeirra að skima eftir eftir óvinaflugvélum, kafbátum eða skipum nálægt suðurströndinni. Þegar líða tók á daginn fór veður versnandi. Flugstjórar vélanna ákváðu því að snúa til baka fyrr en ákveðið hafði verið. Síðastur á loft hafði verið Eric Stewart á Hudson/G, með einkennisstafina T-9416, ásamt þremur öðrum áhafnameðlimum. Samkvæmt áætlun átti vélin að lenda kl. 15:45. Á þeim tíma sást hún fljúga tvo hringi yfir vellinum fyrir lendingu, en mjög lágskýjað var orðið þegar það varð.

Hraunssel

Hraunssel Ölfusi.

Tómas Jónsson frá Þóroddsstöðum, þá 8 ára, var að sækja hesta út í mýri á þessum tíma, handan Ölfusár. Komið var myrkur. Kl. 16:45 sá hann ógurlegan eldblossa í fjöllunum fyrir ofan Hjall. Hann hafði skömmu áður séð vél koma fljúgandi með blikkandi ljós og stefna beint á fjallið. Bjarminn var eldrauður og u.þ.b. 15 mínútum síðar sá hann annan blossa, hvítan er lýsti sem dagur væri. Fyrr bjarminn gæti hafa stafað af því er kviknaði í flugvélinni er hún snerti jörðina, en síðari blossinn gæti hafa verið kafbátasprengjur að springa, sem höfðu verið um borð í vélinni. Bjarmar þessir sáust vel frá Hveragerði því næstum albjart varð þar þessa örskömmu stund.
Gerður var út 12 manna leitaflokkur frá Hjalla undir leiðsögn þeirra Sigurðar Steindórssonar og Engelberts Hannesson frá Bakka. Flakið af flugvélinni fannst á Efrafjalli ofan við Hjalla síðar um kvöldið. Aðkoman var hroðaleg. Ljóst var af ummerkjum að dæma að vængur hafði rekist í jörðina, vélin steypst í fjallið og síðan allt sprungið í tætlur. Fallhlífar fundust, sem fyrr sagði, skammt frá slyssstað og úr þeim voru saumaðar margar flíkur, allar úr skínandi silki. Og það þóttu nú ekki dónalegur fatnaður til sveita í þá daga.
Öðrum Hudson vélum á Kaldaðarnesflugvelli var síðan flogið til Reykjavíkur og þær gerðar út þaðan. Sem fyrr sagði fórust fjórir með vélinni.
Gengið var frá Raufarhólshelli í Þrengslunum og austur yfir gamburmosahraun, afurð Eldborgar norðaustur undir Litlameitli, með sínum grónu lyngbollum. Gangan tekur innan við 10 mínútur. Hægt er að ganga eftir gamalli götu er liggur upp úr Lyngbrekkum frá Breiðabólstað, um Rauðhól, síðan eftir gróinni kindaslóð yfir hraunið og áfram inn á Selstíginn skammt norðar. Í hraunkantinum, þegar komið er yfir, liggur selið þar sem það kúrir undir lágum hraunkantinum, greinilega miðlungs gamalt. Þetta eru fimm tóttir; baðstofa, búr og eldhús, auk tvískipts stekks. Á bak við tóttirnar er lítið fjárskjól í skúta. Selstígurinn (Skógstígurinn) liggur upp og niður milli hraunkantsins og hlíðarinnar. Bæði ofan og neðan við selið að norðanverðu eru grasi grónar Lönguhlíðarnar.
Eitt af sérkennum seljanna á Reykjanesskaganum er hversu fá þeirra uxu og urðu að kotum til tímabundinnar eða varanlegrar búsetu. Einungis Straumssel, af þeim 165 seljum, sem enn hafa verið skoðuð á svæðinu (landnámi Ingólfs) mun hafa vaxið til heilsársbúsetu, en þó einungis í skamman tíma. Þessu er t.a.m. öfugt farið á öndverðu landinu, Melrakkasléttu. Þar virðist einungis Bakkaselið hafa varðveist í upprunalegri selsmynd, en önnur sel orðið að kotum til heilsársbúsetu. Fróðlegt væri að bera þessi landssvæði saman, því á báðum má finna margar selsminjar og aðstæður eru ekki svo frábrugnar til sauðfjárbeitar og fjarnýtingar frá bæjunum með ströndinni. Sel á Norðurlandi og Vestfjörðum (og jafnvel víðar) virðast hafa verið annarskonar, þ.e. nokkurs konar afrit af bæjunum þangað sem búsmalinn flutti yfir sumartímann.
Gengið var yfir vestanvert Litlaberg og áfram inn á Efrafjall austarn Kerlingabergs. Gott útsýni er þarna yfir fjalllendið sem og niður á Neðrafjall, sem nú hefur víða orðið gróðureyðingunni að bráð. Bændur þar neðra hafa þó reynt að stemma stigu við eyðingunni með víðtækri trjáplöntugróður-setningu.
Þegar horft var yfir fjallshlíðina var erfitt að reyna að gera sér í hugarlund hvar brakið af Hudson/G vélinni gæti verið. Kaldalaðanesflugvallarstæðið sést í austri, handan Ölfusár. Flugvélin hefur væntanlega verið í aðflugsbeygju að vellinum. Stefnan var tekin á brekkuna þar sem hún rís hæst á móti suðvestri, líklegasta slysstaðinn. Eftir u.þ.b. klukkustundar göngu var lagst niður í móann og hann skimaður. Stöng stóð upp úr í norðri. Haldið var þangað. Þar reyndist verða slysstaðurinn með öllu því braki er slíku fylgir.
Heillegt dekk merkt Goodyear, tveir hreyflar, blágrænn litur á áli, leiðslur, hjólaspyrna og hluti mælaborðs, auk annars er fylgir sundurtættu flugvélaflaki var þarna. Ógróið svæði var þar sem flugvélin hafði komið niður og væntanlega brunnið skv. lýsingunni, en smábrak allt um kring. Vel mátti ímynda sér hvernig slysið hafði orðið. Ekki var þó að sjá leifar eftir eld eða sprengingar á vettvangi. Teknar voru myndir af númerum einstakra hluta og sendar sérfræðingi. Mun álit hans væntanlega berast innan skamms.
Ef finna ætti brakið af C-64 flugvélinni í heiðinni myndi það væntanlega verða meiriháttar tilviljun. Samkvæmt lýsingum á það að vera u.þ.b. 2 km sunnan Núpafjalls. Það gæti verið í suðausturhlíðum Skálafells. Ef einhver fróður eða upplýstur maður getur gefið upplýsingar hvar brakið er að finna væru þær upplýsingar vel þegnar.
Þá var gengið upp í Hjallasel og áfram norðaustur upp og yfir Efrafjall. Bóndinn á Hrauni hafði áður sagt að sjá mætti tóftir suðvestan við Hjallaselið, en þar eru víða grónir blettir. Við leit var ekki að sjá ummerki eftir mannvistarleifar, enda geta þær varla verið miklar því vatnsskortur hlýtur að hafa háð viðverandi dvöl manna og skepna í heiðinni.
Á göngunni til vesturs voru þveraðar a.m.k. þrjár veglegar götur, þ.á.m. Sólarlagstígurinn neðan frá Hjalla.
Frábært veður. Lygna og angan af vorgróanda. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-Styrjaldarárin á Suðurlandi, II. útgáfa, bls. 16-217, eftir Guðmund Kristinsson.
-Sævar Jóhannesson.

Efrafjall

Brak á Efrafjalli.

Áni

Gengið var frá Selvogsréttunum austan við Hlíðarvatn og upp í Selbrekkur neðst í svonefndu Rofi. Þar voru skoðaðar tóftir Vogsósasel við Stekkjardældir, sem sumir hafa álitið vera Hlíðarsel. Tóftirnar eru innan marka Vogsósa. Þórarinn, bóndi, staðfesti að um sel frá þeim bæ væri að ræða.

Hlíðarborg

Hlíðarborg.

Gengið var áfram austur Rofið og stefnan tekin á einn af stærstu hraunhólunum í heiðinni, með stefnu á Katlabrekkur. Þar undir vestanverðum hólnum er Hlíðarborgin. Hún hefur verið allnokkurt mannvirki, en verið breytt síðar því inni í henni er hlaðið hús eða stekkur. Hvorutveggja gæti hafa tengst athöfnum í Hlíðarseli, sem er þarna skammt frá. Selið er í nokkurra mínútna fjarlægð til suðausturs, utan í og á grónum hól. Þar eru talsverðar rústir, sem rissa þarf upp við tækifæri. Austan við tóftirnar er nafngreind fjárborg.

Hlíðarsel

Hlíðarsel – uppdráttur ÓSÁ.

Gengið var til norðurs inn á svonefnda Hlíðargötu, er liggur frá Suðurfaravegi (Selvogsgötu) þar sem hann kemur niður úr Strandardal áleiðis að Strönd í Selvogi, og henni fylgt til vesturs, áleiðis að tóftum bæjarins Hlíðar. Við götuna er fjárborg undir Borgarskörðum og tvær tóftir skammt vestar. Op hellisins Ána birtist á vinstri hönd.
Þegar komið er að Hlíð ofan við Hlíðarvatn verða fyrst fyrir tóftir norðan þjóðvegarins. Þar móta fyrir húsum og görðum. Sunnan þjóðvegarins eru bæjartóftir og skammt vestar með vatninu eru tóftir útihúsa og garðar.
Hlíð var fyrr góðbýli og landnámsjörð í Selvogi. Var hún um aldaraðir eign Strandakirkju og er það enn. Jörðin hefur verið í eyði nú í bráðum 80 ár. Bærinn stóð á Bæjarhól eða lágum hrygg, er lá fram í Hlíðarvatn, en talið er að elsti bæjarhlutinn hafi verið við tanga, sem nú stendur út í vatnið þar fyrir neðan. Þegar hækkaði í vatninu fóru þær rústir í kaf.

Borgarskarðsborg

Borgarskarðsborg.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar er sagt frá bókinni í álfheimum. Í henni segir frá komu skips á Eyrarbakka; var þar á skipherra er leit út fyrir að vera þar eigi allur er hann var séður. Stýrimaður tók Jón nokkurn með sér út í skipið eftir nokkrun aðdraganda og leggur hann þá Jóni á herðar að sækja bók sem væri sama í og þeirri er hann ætti, en bókinni lauk hann upp sem snarast hann kunni og lét strax aftur. Fekk Jón eigi annað að sjá og fer með það. Ræður faðir hans honum að finna Eirík prest á Vogsósum.

Eiríksvarða

Eiríksvarða á Svörtubjörgum.

Eiríkur spyr hann að: „Hvað er þér á höndum ljúfurinn minn?“ Jón segir honum málavöxtu alla. Eiríkur prestur spyr hann hvort hann muni eftir nokkru letri er á henni var eða geti myndað stafi eftir þeim er í henni voru. Jón kveðst það mundi kunna, og er prestur sér stafina mælti hann: „Það hefur verið sú hin versta galdrabók sem til er og mun þér þungt veita að ná henni, en þú verður hérna í nótt.“
Að morgni fær prestur honum bréf og segir honum að ganga beint á Svörtubjörg er standa spölkorn fyrir norðan Hlíð, bóndabýli í Selvogi; muni hann svo um sjá að hann hitti þar kotbæ; skuli hann þar heim ganga og fá bónda bréfið. Jón gerir sem prestur býður honum; kemur hann að bænum og hittir þar konu aldraða og stúlku; aldraðan mann sér hann þar og, og fær Jón honum bréfið. Kall biður hann inn ganga. Er hann hafði lesið bréfið sagði hann: „Sízt hugða eg að Eiríkur prestur vildi mig feigan. Þó skaltu dvelja hér í vetur, en ég mun eigi heima verða, og máttu mig feigan telja verði ég ei kominn á enn fyrsta sumardag.“

Hlíðarkot

Tóft ofan Hlíðar.

Líkar Jóni þar vel og koma þau bóndadóttur sér vel saman. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom karl. Fekk hann Jóni bókina og bréf með til Eiríks prests. Kvaðst hann þann vetur í þyngstar þrautir komið hafa; hefðu þrjár álfkonur geymt bókina í undirheimum og haft að leik að henda henni milli brjósta sinna. Segir hann honum og að dóttir sín sé eigi heilbrigð og muni það vera af hans völdum. Sagðist hann vilja að hann kæmi til sín alfarinn er hann hefði bókinni skilað.

Hlíðarendasel

Hlíðarendasel.

Játaði Jón því og heldur síðan niður að Vogsósum. Fær hann Eiríki presti bréf kalls og bókina. Verður Eiríkur honum feginn og segir hann Jóni að hann hafi hjá álfafólki dvalið þann vetur. Segir hann Jóni að henda bókinni í brjóst stýrimanni er hann komi í land af skipinu.
Síðan heldur Jón austur á Eyrarbakka og bíður þess að skipið kemur; og er stýrimaður rær í land bát sínum rær Jón á móti honum og sendir bókinni á brjóst honum svo stýrimaður fellur aftur á bak í sjóinn og varð eigi bjargað. En með styrk Eiríks prests kemur bókin aftur í höndur Jóni og gefur hann hana Eiríki presti og heldur síðan til kallsins og hefur eigi síðan af honum spurzt.
Segir önnur saga frá því að Eiríkur hafi komið þessari miklu galdrabók, sem síðar var nefnd Gullskinna, fyrir í Kálfgili við Urðarfell ofan við Svörtubjörg. Þess er og getið að í bókinni sé getið um upphaf byggðar á Íslandi og að sú lýsing sé önnur ern segir frá í síðari tíma skrifum.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Hlíð

Hlíð – uppdráttur ÓSÁ.