Selkot er innan við Stíflisdal. Kjálká rennur framhjá kotinu.
Miklu mun austar er Selfjall. Milli þess og Búrfellshálsar er grösugur dalur. Innst í honum er Selfjall að sunnanverðu. Niður með því er Selgil. Örnefnin eru væntanlega ekki komin af engu. Sonur bóndans á Brúsastöðum hélt að tóft væri þarna við litla tjörn, en hann hafði ekki velt því fyrir sér hvaða tilgangi hún hafði þjónað. Að austanverðu, ofan við bæinn, heitir gilið Náttmálagil. Í gilinu eru leifar af gamalli rafstöð frá árinu 1928. Enn má sjá tréstokkinn í hlíðinni. Neðan við gilið rennur Öxará. Undir því, skammt frá bæjarhól Brúsastaða, eru fornar tóftir Hofs og blótsteinn hjá. Ofar eru aðrir fallegir dalir, s.s. Búrfellsdalur, Kjálkárdalur og Hrossadalur. Suðaustan þeirra voru Grímastaðir, sem nefndir eru í fornsögu. Þær hafa ekki verið staðsettar. Örnefnin gáfu von um áður óþekktar tóftir. Stefnan var þó fyrst tekin á Selkot.
Í Selkoti eru nú einungis tóftir því íbúðarhúsið var jafnað við jörðu á sjöunda ártug síðustu aldar. Enn má þó sjá hlaðna garða; túngarðurinn er heillegur að norðanverðu, en austur og vesturgarðurinn er að mestu skokknir í mýrina. Að sunnan varnaði áin aðgengi að heimatúninu. Tóftaleifar eru vestan við túngarðinn sem og norðvestan hans, sennilega útihús.
Selkot í Nyrðradal Þingvallasveit er eitt dæmi um hin mörgu fjallbýli, sem nú eru fallin í auðn. Þetta býli á ekki ýkjalanga sögu. Það var fyrst byggt árið 1830. Maður sá er byggði þar fyrst bæ og bjó þar lengst var Sigurður Þorkelsson. Hann var fæddur á Heiðarbæ Þingvallasveit 13. apríl 1800. Foreldrar hans hétu Þorkell Loftsson og Salvör Ögmundsdóttir. Sigurður ólst upp á Heiðarbæ með foreldrum sínum. Hann kvæntist Ingveldi Einarsdóttir frá Stíflisdal. Þau fluttust á krossmessu 1830 á eyðimóa þar sem ekki stóð steinn yfir steini og enginn íverukofi var til – ekkert nema fornar selrústir – og höfðu með sér nokkra mánaða gamalt barn, en konan vanfær að næsta barni. Búpeningur Sigurðar ein kýr, sem honum var að hálfu gefin um vorið, sex ær, tveir sauð tvævetrir, sex gemlingar, tvær hryssur og eitt tryppi tvævett. Allir dauðir munir voru léttingstrúss á grannri meri, en eign umfram þetta ein króna í peningum. Hjónin lágu í tjaldi fyrsta sumarið meðan þau voru að koma sér upp bæ.
Hér kemur fram að Selkot hafi byggst upp úr selstöðu. Sigurður var frá Heiðarbæ og Ingveldur frá Stíflisdal. Land undir býlið fékk hann frá mági sínum í Stíflisdal og heimild til beitar á ofurlítinn landskika hjá Þingvallaprest. Í Jarðabókinni 1703 segir um selstöðu Stíflisdals: “Selstöðu á jörðin í Nyrðradal…, en er þó ekki brúkuð nje hefur verið það menn til muna”.
Þegar á fyrsta ári búskaparins tóku þau hjón á heimili sitt þyngsta sveitarómaga hreppsins, holdsveikan mann sem hafður var á bæjunum til skiptis, og gerðu öll hreppskil sem aðrir. Þau guldu í landskuld á fyrsta ári tuttugu álnir en síðan árlega þrjátíu álnir upp frá því. Þau Sigurður og Ingveldur eignuðust þrettán börn og komu upp níu eða tíu. Með frábærum dugnaði, iðjusemi og nýtni komst Sigurður í dágóð efni og náði meðalbúskap 1855 enda þótt túnrækt hans yrði hvað eftir annað fyrir hnekki af völdum kals og fannalaga og tvívegis missti hann sauðfjárstofn sinn, í annað skiptið 50 kindur en hitt 70 – mun ofviðri hafa grandað fénu, hrakið það í ána eða vatnið.
Árið 1855 fékkst orðið tveggja kúa fóður af túninu í Selkoti í meðalári. Matjurtagarður var þar þá og túngarður 130 faðma langur. Allt þetta höfðu þau hjón og börn þeirra unnið með eigin höndum því ekki var neitt vinnufólk nema stundum eina vinnukonu og einn vinnumann síðustu árin.
Sigurði er þannig lýst að hann hafi verið meira en meðalmaður á allan vöxt og höfðinglegur ásýndum, allvel greindur og viðræðugóður. Snemma ævinnar fór sjón hans að daprast og um 1860 er hann orðinn nær alblindur. Hann bjó blindur í nærri þrjá áratugi og vann verk sín eins og sjándi. Meðal annars smíðaði hann öll áhöld sín og amboð, hlóð úr heyjum og rakaði gærur. Búskaparlag var með fornum háttum: Sækja sem minnst til annarra, hjálpa sér sjálfur og gjalda hverjum sitt á réttum tíma, ástunda réttvísi og heiðarleik í öllum greinum.
Óþarft er að geta þess að engan opinberan stuðning fékk Sigurður til að koma upp nýbýlinu. Nýbýlin sem byggð voru í Þingvallasveitinni fengust ekki einu sinni viðurkennd, því ekki hafði verið til þeirra fyrirtækja boðað eins og hin gömlu nýbýlalög eða tilskipanir kváðu á um. Sigurður Þorkelsson andaðist í Selkoti 12. desember árið 1895 og var þá fullra 95 ára gamall.
Síðasti bóndinn í Selkoti var Sveinn Abel Ingvarsson (1887-1975). Hann var fæddur í Miðdal í Laugardal árið 1887 og stundaði búskap í Selkoti frá 1937 til 1953. Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans hét Helga Pálsdóttir. Hún andaðist árið 1949. Seinni konan hét Ragnhildur Lýðsdóttir. Hún dó árið 1953. Þær eru báðar jarðaðar í Selkoti, sem og Sveinn, honum til sitt hvorrar handar.
Eftir að Sveinn hafði misst báðar konur sínar gafst hann upp á að búa í Selkoti. Hann flutti í eitt ár að Kárastöðum, en síðan bjó hann þrjú ár einn í Stíflisdal. Árið 1957 flutti hann aftur að Kárastöðum. Þegar Sveinn eitt sinn var spurður að því, hvers vegna hann hefði látið jarða konur sínar í Selkoti og hvers vegna hann óskaði sjálfur að liggja þar, svaraði hann: “Það er eitthvað við þennan dal…maður vill helst vera kyrr.” En hvernig er nafnið Stíflisdalur til komið? Í örnefnalýsingu yfir Selkot stendur einfaldlega að stífli merki stöðuvatn og má jafna því við Vatnsdal.
Í bókinni Sunnlenskar byggðir, 3. bindi, bls. 234, er yfirlit yfir ábúendur í Selkoti frá upphafi.
Gamlar götur liggja þarna um þetta landssvæði. Hefur aðalleiðin, Selkotsvegur, verið lagaður til og er nú ein helsta reiðgatan þessa leið til Þingvalla. Örn H. Bjarnason segir m.a. í lýsingum sínum “Gamlar götur-Selkotsvegur”: “Í Selkoti er ekkert eftir af þessu gamla fjallakoti í Nyrðridal annað en fáeinar grjóthleðslur. Samt var hér auðugt mannlíf um árabil. Aðeins austar var býlið Melkot og fyrir svartadauða (1402) var búið í Hólkoti, en sá bær stóð sunnan við Kjálkaá, norðanundir Hádegisholti. Melkot var fyrir austan Stóragil og var það í byggð í stuttan tíma í kringum aldamótin 1900. Framan við Selkot rennur Kjálkaá. Innst tekur við svonefnt Gljúfur. Upp með því liggja reiðgötur austur á Þingvöll. Fyrir framan Gljúfrið er Kirkjuflöt, en þar áði fólkið frá Fellsenda, Stíflisdal og Selkoti, Dalbæjunum svonefndu, þegar farið var í Þingvallakirkju. Langur kirkjuvegur hefur það verið.
Á Teignum svonefnda meðfram Kjálkaá var engjastykki, sem spilltist mjög af umferð ríðandi manna. Sjálf er Kjálkaá alla jafna meinleysisleg, en í vatnavöxtum á vorin getur hún sýnt á sér klærnar og á vetrum lokaðist bærinn gjörsamlega inni milli ófærra lækja og áa. Þetta segir í örnefnalýsingu höfð eftir Bjarna Jónssyni, beyki. Þar segir: “Selkot lá mjög afskekkt. Vegir voru erfiðir, ófærir á vetrum. Ár og lækir lokuðu bæinn af á alla vegu á vetrum og í leysingum. Þjrár leiðir lágu frá bænum. Leiðin til Reykjavíkur lá suður yfir Kjálkaá á tveimur vöðum, yfir Grjótá, og síðan aftur yfir Kjálkaá og suðvestur að Sigurðarhól í Stíflisdalslandi. Síðan lá hún vestur yfir Mosfellsheiði. Guðný (dóttir Jóns Bjarnasonar ábúanda í Selkoti 1918-1936) kveðst þekkja þessa leið var aldrei kölluð annað en Heiði þ.e. að fara austur yfir Heiði, frá Selkoti að Kárastöðum, Brúsastöðum og Þingvöllum. Leiðin lá til austurs eða suðausturs frá Selkoti. Þar voru reiðgötur, en faðir Kristrúnar (önnur dóttir Jóns) lagði þar veg eins og þeir voru í þá daga síðustu árin, sem hann var í Selkoti.”
Þess má geta að frá Skálabrekku og upp að Selkoti og Stíflisdal eru gamlar götur, sem liggja um Skálabrekkusökk og upp á milli Hádegisholta. Eins lágu götur frá Heiðarbæ um Vestra-Hádegisholt. Um þessa heiði var mikil umferð hér áður fyrr, sérstaklega í sambandi við réttir á haustin.
Svona rís landið ef við gefum okkur tíma til að skoða það nánar. Þarna eru m.a. eyktarmörk séð frá Selkoti. Austarlega á Hryggnum svonefnda fyrir norðvestan Einbúa eru Dagmálahólar. Þegar sólin er þar yfir er klukkan nákvæmlega 9. Börnin í Selkoti fengu ekki úr í fermingargjöf, en náttúran sá til þess að þau vissu alltaf nokkurn veginn hvað klukkan var. Dalholtin voru líka eyktarmörk. Þau sýndu nón. Fyrir ofan og vestan bæ var svo Miðaftansvarða.
Í jarðabók Árna og Eggerts er ekki minnst á byggð þarna í Nyrðridal, en á þessum slóðum er mikið um örnefni sem hafa sennilega orðið til á seinni tímum. “Þarna er Bjarnabrekka sem Brúsastaðafólkið sló. Torfmýri er fyrir sunnan Dalholtin niðri undir Kjálkaá. Þar var torf rist. Á árbakkanum rétt vestan við bæinn var mótekja. Líf fólksins fyrrum í dalnum endurspeglast í þessum örnefnum.”
Á gömlum herforingjaráðskortum frá því rétt eftir aldamótin 1900 er sýnd leið hjá Selkoti, en hversu fjölfarin hún hefur verið í gegnum aldirnar er erfitt að fullyrða nokkuð um. Björn Gunnlaugsson sem teiknar sitt kort fyrir miðja nítjándu öld gerir ekki ráð fyrir leið þarna. Af því má marka, að hann hafi ekki litið á þetta sem fjölfarinn ferðamannaveg.
Sennilega hafa skálholtsbiskupar farið Selkotsveg á leið sinni til Maríuhafnar, en hún var skammt fyrir vestan þar sem Laxá í Kjós rennur til sjávar. Sú höfn var notuð á 14. öld og tóku biskupar þar land þegar þeir komu frá útlöndum og þaðan sigldu þeir gjarnan. Önnur höfn var við Leiruvog fyrir neðan heiði.? Þó má vel vera að þeir hafi farið frá Þingvöllum í Vilborgarkeldu, en það var þekktur áningarstaður á krossgötum austarlega á Mosfellsheiði. Þaðan svo Þrengslaleið niður með Laxá. Vilborgarkeldu er víða getið m.a. í Ferðabók Sveins Pálssonar og Harðar sögu og Hólmverja, 11. kafla.
Sveinn minnist líka á Stíflisdal. Þann 8. október 1792 fer hann um Nyrðridal. Hann er að koma frá Þingvöllum yfir Kjósarheiði á leið að Meðalfelli í Kjós. Í Ferðabók sinni segir hann: “Kjósarheiði er örstutt en þeim mun verri yfirferðar vegna ótræðisflóa og keldna. Komið er niður í Stíflisdal, sem er fallegt, grösugt dalverpi. Einn bær er þar samnefndur í dalnum.” Engar teljandi torfærur eru á þessari leið í dag.
Jafnframt bætir Örn við: “Ég trúi því að við eigum eftir að endurreisa Prestsvörðu, Brandsvörðu, Stóruvörðu og Miðaftansvörðu. Aftur mun lágfóta smjúga um Skollhóla. Teigurinn og Bjarnabrekka verða slegin á ný og einir mun vaxa á Einiberjaflöt. Kannski munu þeir á Þingvöllum nýta aftur slægjuítak á Neðri-Kjálkum.”
Í dag er Selkotsvegur ein fjölfarnasta reiðleið landsins.
Haldið var upp með gili austast í dalnum [Stíflisdal] og stefnan tekin á Selfjall eftir Kjósarheiðinni. Miklir mýrarflákar eru á þessari leið, en útsýnið bæði fagurt og mikið til Þingvallafjallanna. Á leiðinni eru þrír mosavaxnir melhólar. Á þeim fremsta er grón varða, greinilega mjög gömul. Hestagata liggur þar hjá. Mýrartjörn er ofan við Selfjallið. Efst í giliu er gömul stífla úr torfi, rofin. Líklega þjónaði hún þeim tilgangi, líkt og annars staðar, að hleypa vatni yfir ofanverðar engjarnar á veturnar svo þær kæmu betur undan vorinu. Neðar í gilinu er gömul rafstöð; inntak, fúin tréstokkur og rafstöðvarhús. Vestan þess er unnin gata í sneiðing. Framhald á henni sést sunnan gilárinnar
Í örnefnaslýsingu fyrir Brúsastaði segir um hugsanlegar tóftir við Selfjall: “Hvergi eru rústir sjáanlegar í Selfjalli, og engar sagnir eru um sel þar. Tjörn er þar, kölluð Nautatjörn, ekki er vitað hvers vegna” Í örnefnalýsingu fyrir Kárastaði segir hins vegar: “Vestur af Selgilinu er Einiberjahæð, og þar er einnig Einiberjaskarð og Einiberjaflöt.” Og í svörum við spurningum Örnefnastofnunar kemur fram að “Selgil er á milli Selfjalls og Einiberjahæðar. Í því eru vallgrónar tóftir.” þetta skrifaði Guðbjörn Einarsson frá Kárastöðum árið 1981.
Skammt vestan við gilið, á vesturbakkanum, mótar fyrir jarðlægum tóftum. Síðar, þegar tal var haft af Garðari Jónssyni bónda á Brúsastöðum, sagðist hann vita til þess að fornar seltóftir hafi átt að vera þarna á þessum slóðum, en erfitt væri að koma auga á þær. Líklega eru þær svolítið vestar en hér er lagt til. Af framangreindu má sjá að Selgil er ranglega merkt á landakort. Það er neðan við suðvestanvert Selfjall, sbr. nafnið Einiberjaflöt, sem þar er.
Grímastadar er getið í Harðarsögu Hólmverja, en ekki er vitað hvar tóftir bæjarins gætu verið. Í Jarðabókinni 1703 segir: “Grimastader heitir hjer eitt örnefni, sem meinast bygt hafa verið fyrir stóru pláguna, en aldrei eftir hana; sjer hjer sumstaðar til garðaleifa og rústa, sem meinast verið hafi bæði túngarður og veggleifar, og vita elstu menn ekkert framar hjer um að segja. Á flötum nokkrum skammt fyrir neðan þessa Grímastaði er annað örnefni, kallað af sumum Bárukot, en af sumum Þverspirna, nokkrir hafa kallað þetta örnefni Fótakefli.”
Bóndinn á Brúsastöðum kvaðst mikið hafa leitað að hugsanlegu bæjarstæði Grímastaða. Hann taldi sig nú vita hvar hann væri að finna, undir hlíðunum langleiðina að Ármannsfelli. Ætlunin er að skoða svæðið með honum fljótlega. Gönguleiðin frá Langastíg um Leggjabrjót liggur um Kerlingarhraun og yfir smálæk sem kenndur er við Grímsgil. Einhversstaðar nálægt þessari litlu sprænu er talið að býlið Grímsstaðir hafi staðið, þótt engar sjáist þar rústir nú. Í Harðarsögu segir, að Grímur litli hafi keypt land “suður frá Kluptum, er hann kallaði á Grímsstöðum”. Sonur Gríms hét Geir. Grímur ól upp Hörð Grímkelsson, fóstbróður Geirs. Samkvæmt sögunni áttu þeir kappar sín bernskuspor á þessum slóðum. FERLIRsfélögum var bent á tóftir Hofs, sem og fornan blótstein, að talið er, utan í hólnum. Skv. Friðlýsingaskránni frá 1990 kemur eftirfarandi fram um Brúsastaði: “1. Leifar af svo nefndri hoftóft í túninu fyrir suðaustan bæinn. 2. Girðing forn með tóft í, vestan við bæinn. Sbr. Árb. 1880: 21; Árb. 1895: 21. Skjal undirritað af MÞ 05.05.1927. Þinglýst 07.09.1927.” Framangreindur steinn er utan í stórri tóft vestan við bæinn. Að sjá virðist þar vera um að ræða signingastein úr kaþólskum sið, sem víða má sjá í fornum tóftum á Reykjanesskaganum. Hafa þeir verið nýttir sem hestaskálar í seinni tíð, en síðan aflagst með bæjunum og liggja nú hlutverkalausir, afskiptir og engum til gagns. Hoftóftin er hins vegar norðan við bæinn, að sögn Ragnars bónda, sem benti á hana.
Um selstöðu Brúsastaða segir: “Selstöðu á jörðin í sínu landi, sem ekki hefur um 60 ára tíð brúkuð verið.” Um selstöðu Kárastaða segir: “Selstöðu á jörðin í sínu landi, hefur þó ei brúkuð verið í lánga tíma.” Um selstöðu Skálabrekku segir: “Selstöðu á jörðin í sínu landi, sem þó hefur ei um lánga tíma brúkuð verið.” Um selstöðu frá Heiðarbæ segir: “Selstöðu góða á jörðin í sínu landi.”
Frábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Heimildir m.a.:
-http://www.847.is/index0.php?pistill_id=39&valmynd=3
-http://brusar.homestead.com/Selkot.html
-Úr bókinni Verkamenn í víngarði… Guðm. Daníelsson.
-Sunnlenskar byggðir III, bls. 134.