Selkot

Selkot er innan við Stíflisdal. Kjálká rennur framhjá kotinu. Austar er Selfjall. Milli þess og Búrfellshálsar er grösugur dalur. Innst í honum er Selgil. Ofar eru aðrir fallegir dalir, s.s. Búrfellsdalur, Kjálkárdalur og Hrossadalur. Örnefnin gáfu von um áður óþekktar tóftir.
SelkotEin af gömlu götunum lágu um Stardal og Fellsendaflóa. Þaðan lá leiðin hjá Stíflisdalsvatni yfir Grjótá. Fyrir neðan Dalholt þar sem Nyrðridalur og Stíflisdalur mætast er talið besta vaðið á Grjótá, en hún kemur ofan úr Kjölnum og rennur í gljúfrum niður Nyrðridal og í Stíflisdalsvatn. Frá vaðinu er farið Selkotsveg svonefndan í Selkot, en Selkot var hjáleiga frá Stíflisdal og talið nýbýli árið 1840, byggt um 1830. Þarna var vetrarþungt en heyskapur hægur.
Fyrsti bóndinn í Selkoti var Sigurður Þorkelsson. Hann bjó þar árin 1830 til 1890, en síðasti bóndinn Sveinn Abel Ingvarsson bjó þar frá 1937 til 1953. Hann er jarðsettur þar ásamt tveimur konum sínum, þeim Helgu Pálsdóttur og Ragnhildi Lýðsdóttur.
Selkot stendur eins og fyrr segir í Nyrðridal, en eftir honum rennur Kjálkaá. Innst tekur við svonefnt Gljúfur. Upp með því liggja reiðgötur austur á Þingvöll. Fyrir framan gljúfrið er Kirkjuflöt, en þar áði fólkið frá Fellsenda, Stíflisdal og Selkoti, Dalbæjunum svonefndu, þegar farið var í Þingvallakirkju. Langur kirkjuvegur hefur það verið og messur voru all tíðar í þá daga. Á Úlfljótsvatni í Þingvallasveit var t.d. messað þriðja hvern sunnudag á sumrin og fjórða hvern á vetrum.
Selkot-3Á Teignum svonefnda meðfram Kjálkaá var engjastykki, sem spilltist mjög af umferð ríðandi manna. Sjálf er Kjálkaá alla jafna meinleysisleg, en í vatnavöxtum á vorin getur hún sýnt á sér klærnar og á vetrum lokaðist bærinn gjörsamlega inni milli ófærra lækja og áa. Þetta segir í örnefnalýsingu höfð eftir Bjarna Jónssyni, beyki. Þar segir: “Selkot lá mjög afskekkt. Vegir voru erfiðir, ófærir á vetrum og í leysingum. Þrjár leiðir lágu frá bænum. Leiðin til Reykjavíkur lá suður yfir Kjálkaá á tveimur vöðum, yfir Grjótá, og síðan aftur yfir Kjálkaá og suðvestur að Sigurðarhól í Stíflisdalslandi. Síðan lá hún vestur yfir Mosfellsheiði.”
Leiðin í Kjósina lá norðan Stíflisdalsvatns, niður með Stýfingum, austan ár, niður með Þórufossi og norður að Hækingsdal.
Þriðja leiðin frá Selkoti var raunverulega framhald leiðarinnar úr Kjósinni, þ.e. leið Kjósaringa til Þingvalla, Kjósarheiði. Guðný (dóttir Jóns Bjarnasonar ábúanda í Selkoti 1918-1936) kveðst þekkja það nafn, en þessi leið var aldrei kölluð annað en Heiði þ.e. að fara austur yfir Heiði, frá Selkoti að Kárastöðum, Brúsastöðum og Þingvöllum. Leiðin lá til austurs eða suðausturs frá Selkoti. Þar voru reiðgötur, en faðir Kristrúnar (önnur dóttir Jóns) lagði þar veg eins og þeir voru í þá daga síðustu árin, sem hann var í Selkoti.
Þess má geta að frá bænum Skálabrekku og upp að Selkoti og Stíflisdal eru gamlar götur, sem liggja um Skálabrekkusökk og upp á milli Hádegisholta. Eins lágu götur frá Heiðarbæ um Vestra-Hádegisholt. Um þessa heiði var mikil umferð hér áður fyrr, sérstaklega í sambandi við réttir á haustin.
Í Jarðabók Árna og Jóns segir að bóndinn í Stíflisdal sæki skóg til eldunar, kolagerðar og eins rafta í Þingvallaskóg, þó að það sé erfitt vegna “vonds vegar.” Kirkjuvegur þótti langur og erfiður og förumannaflutningur sömuleiðis. Þetta orð förumannaflutningur hef ég ekki heyrt áður, en merkir kannski að bændur hafi komið förufólki af sér frá einum bæ til annars. Þannig vann innbyggð Tryggingastofnun þjóðarinnar í þá daga. Þetta förufólk var svo gangandi fréttablað eða Ríkisútvarp með allt það nýjasta á hraðbergi og slúður í bland.
Þrjú önnur eyðibýli eru á þessum slóðum: Álftabakki í Stíflisdal fyrir sunnan Kjálkárós, Melkot fyrir austan Stóragil rétt hjá Selkoti og Hólkot, en sá bær stóð sunnan við Kjálkaá, norðanundir Hádegisholti. Hólkot fór í eyði í Svarta dauða árið 1402, en í Melkoti var búið í nokkur ár um aldmótin 1900.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimild m.a.:
-Örn H. Bjarnason – Gamlar götur.

Selkotsvegur

Selkotsvegur að Brúsastöðum.