Í Ægi 1985 fjallar Jón Ó. Ísberg um “Sjómennsku í Grindavík“:
Veiðar
“Eitthvað er það á reiki í gömlum heimildum hvenær vetrarvertíð átti að hefjast, en samkvæmt úrskurði lögréttumanna á Alþingi 1578, skyldi vetrarvertíð eigi byrja síðar en á Pálsmessu þ.e. 25. jan. Í Píningsdómi 1490 segir að vetrarvertíð skuli lokið á föstudegi þegar níu nætur eru af sumri. Vetrarvertíð til forna við Suðurland hefur því staðið yfir í 14 vikur.
Grindavík – tíæringur í lendingu.
Þegar hið gregorianska tímatal var lögleitt á Alþingi árið 1700 breyttust dagsetningar er vörðuðu upphaf og lok vertíða. Eftir 1700 skyldi vetrarvertíð hefjast á Kyndilmessu þ.e. 2. febrúar og standa til 12. maí. Sú venja skapaðist að telja 11. maí lokadag því þann dag var farið í síðasta róðurinn.
Við Faxaflóa og víðar gilti sú regla, að úr lokadagsróðri átti að vera lent fyrir kl. 12 á hádegi. Ef formenn hirtu ekki um þessa venju, gátu þeir átt á hættu að hásetarnir sneru skipinu rétt fyrir utan lendinguna, og reru því með skutinn að landi. Var það til mikillar háðungar fyrir formann að ljúka vertíð með þessum hætti.
Öldum saman var færið eina veiðarfærið sem Íslendingar notuðu. Veiðiskapurinn var þá ekki flókið fyrirbæri, menn reru út á miðin beittu sín færi og drógu uns nóg þótti og sneru þá í land.
Með tilkomu annarra veiðarfæra, línu og neta breyttist veiðiskapurinn all verulega. Í Grindavík byrjuðu menn ætíð vetrarvertíð með færaveiðum en er loðnan kom miðin var skipt yfir á net, sumir voru einnig með lóð. Róður hófst vanalega um kl. 5 að morgni. Menn fengu sér eitthvað í svanginn áður en lagt var af stað, vanlega kaffi og brauð. Skipið var sett niður með þessum orðum formannsins: „Setjum nú hendur á það í Herrans nafni”.
Grindavík – Í Norðurvör.
Hver maður hafði sitt rúm og var rúmið stjórnborðsmegin í andófinu talið það virðingarmesta og í því besti maðurinn, að undanskildum formanninum. Þegar skipinu hafði verið ýtt frá, var tekið í á bak og því snúið sólarsinnis til has, þá tóku menn ofan höfuðföt og fóru með sjóferðarbæn. Misjafnt var hvað róður stóð lengi og fór það eftir veðri og fiskdrætti, ef vel fiskaðist var stundum farið í fleiri en einn róður á dag, yfirleitt var þá róðri (róðrum) lokið seinnipart dags (17:00-18:00). Er komið var að landi þurfti fyrst að seila fiskinn á land og síðan setja skipið upp, því höfn var engin. Venja var að menn fengju sér að borða er þessu var lokið. á meðan skipti formaður fengnum.
Árabátur neðan verbúðar.
Að þessu loknu var allur fiskur borinn í verbúðir þar sem hann var þveginn, hausaður, flattur og saltaður. Söltun hófst á 18. öld, en áður var fiskurinn breiddur á klappir og garða og hengdur upp til þerris. Veiðarfæri voru einnig borin til verbúða að kvöldi. Vinnudagurinn vildi oft verða í lengra lagi og stritið mikið, margur slitnaði því fyrir aldur fram.
Vorvertíð hófst er vetrarvertíð lauk og stóð hún til Jónsmessu. Á vorvertóð var róið á smærri batum, sexmannaförum og þaðan af minni, aðkomumenn voru því færri en á vetrarvertíð. Veiðarfæri var annað hvort færi eða lóð og eitt var ræksni eða krækling. Grindvíkirngar beittu yfirleitt lóð sín í landi og voru þau því einbeitt, en á móti kom að lóð þeirra voru lengri en hjá þeim er beittu um borð. Venja var að fara út að kvöldi til, um eða upp úr miðnætti, legið var við fram undir morgun, en þá dregið og síðan siglt í land.
Bátar ofan varar.
Haustvertíð hófst í lok september og stóð til jóla, róðra stunduðu þá eingöngu heimamenn og var yfirleitt róið á sexmannaförum. Veiðarnar gengu svipað fyrir sig og á vorvertíð, sömu veiðarfæri voru notuð, en róið síðar um nóttina og verið styttra að.
Á sumrin milli vertíða var ekki verið á sjó, nema hvað menn skruppu öðru hvoru til að fá sér í soðið.
Vélbátur.
Með tilkomu vélbáta urðu litlar breytingar á veiðum Grindvíkinga, skipan vertíða og veiðiaðferðir héldust að mestu óbreytt. Það var ekki fyrr en með tilkomu dekkbáta í kringum seinna heimsstríð að breytingar urðu.
Nýrri og fullkomnari veiðarfæri komu á markaðinn ásamt gjörbreyttum tækjabúnaði um borð, bæði í brú og á dekki. Í kjölfar þessa riðlast öll vertíðarskipan, að undanskilinni vetrarvertíð, sem enn er með hefðbundnum hætti og á sama tíma. Í dag eru vertíðir frekar kenndar við þá fisktegund sem veidd er hverju sinni, s.s. humarvertíð og síldarvertíð.
Nokkuð er því árstíðarbundið hvaða veiðarfæri eru notuð hverju sinni og fer það eftir því í hvað er sótt. Aðalveiðarfærin á vetrarvertíð eru sem fyrr net og lína. Á sumrin fara vertíðarskipin yfirleitt á fiskitroll eða humartroll, en á haustin á síldveiðar, með nót eða reknet, nokkur fara á línuveiðar, en útilega hefur lítið verið stunduð. Á síðustu árum hafa nokkur vertíðarskip farið á úthafsrækju yfir sumartímann, hafa þau þá stundað veiðar fyrir norðan og yfirleitt landað hjá rækjustöðvum við ísafjarðardjúp. Meðan á loðnuvertíð stendur, þ.e. frá október fram í mars, elta loðnuskipin gönguna. Þessi skip hafa mjög lítinn bolfiskkvóta en þeim litla kvóta sem þau hafa, ná þau í troll á sumrin.
Fiskiskip Grindvíkinga stunda veiðar með flestum þeim veiðarfærum sem Íslendingar nota yfirleitt, enda hefur útgerð frá Grindavík verið hvað blómlegust á landinu á síðustu árum og áratugum.
Bátar
Árabátar ofan varar.
Höfundur Laxdælasögu byrjar á að lýsa íslandi þannig, að þar sé veiðistöð á öllum misserum og er auðsýnt að hann telur það góða kosti. Orðið veiðistöð merkir stað þar sem meira en einum bát er haldið til fiskjar, og samkvæmt lögum Jónsbókar merkir orðið stað, þar sem um er að ræða veiði á landi eða við land.
Lúðvík Kristjánsson telur upp í riti sínu Íslenskir sjávarhættir II 326 verstöðvar, allt í kringum landið. Verstöðvarnar eru síðan flokkaðar niður eftir aðstæðum ogfyrirkomulagi.
Þórkötlustaðir gerðu út frá Þórkötlustaðanesi.
Heimaver var það kallað, er róið var úr heimavör. Gagnstætt því var útver, en þá fóru menn með báta sína og áhafnir að heiman og dvöldu í verbúðum meðan á vertíð stóð. Í sumum verstöðum voru aldrei verbúðir þótt þar væru aðkomubátar og aðkomumenn, var það kallað viðleguver. Viðleguver gátu verið með tvennum hætti. Annars vegar viðlegubátar, þ.e. aðkomubátar með áhöfnum, en hins vegar viðleguhafnir, þ.e. aðkomumenn, er reru á heimabátum verstöðvarinnar. Áhafnirnar bjuggu í heimahúsum í stað verbúða meðan á vertíð stóð og höfðu þar þjónustu.
Grindavík var dæmigerður staður fyrir blandað ver, þar sem löngum var allt í senn, heimaver, útver og viðlegurver, enda var Grindavík ein mikilvægasta verstöð landsins um aldir, önnur aðalverstöð Skálholtsstaðar, og hvergi á landinu var uppsátur metið sérstaklega nema í Grindavík.
Tvíæringur.
Frá aldaöðli hafa íbúar Grindavíkur haft aðallífsbrauð sitt frá sjónum. Þeim skipum er þaðan var róið svipar mjög til annarra er notuð voru í öðrum verstöðvum. Á vetrarvertíð var róið á tólf-, tein- og áttæringum. Á vor og haustvertíð var notast við minni báta, sexæringa og þaðan af minni, allt niður í skektur.
Um miðbik 18. aldar voru nálgæt 60 skip í Grindavík, sexæringar upp í teinæringa. Frá sjötta áratug 19. aldar fram á þann áttunda var mikið eymdarástand í Grindavík. Lítið fiskaðist og var Grindavík talin aumasta veiðiplássið á Suðurlandi, útróðrarmenn vildu ekki lengur róa þaðan og lagðist þá útgerð stærri skipanna niður en smærri bátum fjölgaði. En Grindavík náði sér aftur á strik er veiði fór að glæðast á ný. Árið 1896 eru gerð þaðan út 30 skip flest áttæringar. Algengt var í Grindavík, að áttæringarnir væru tírónir, enda voru þeir margir hverjir í stærra lagi af áttæringum að vera.
Grindavík liggur fyrir opnu hafi, þar sem brimaldan gengu óbrotin á land. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist því lengstum af því, að hægt væri að setja þá á land. Meðal annars af þeirri ástæðu komu vélar mun seinna báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafna skilyrði voru betri frá náttúrunna hendi.
Framtil 1910 var róið á árabátum frá Suðurnesjum, en þá var farið að setja vélar í bátana, allsstaðar nema í Grindavík. Þangað kom fyrsta vélin ekki fyrr en 1926 og 1929 var sett vél í síðasta áraskip Grindvíkinga. Þessir bátar voru uppistaða í flota Grindvíkinga fram yfir stríð, lítið var um nýja báta en nokkrir voru endurbyggðir, og þá dekkaðir. Upp úr stríði er farið að byggja nýja dekkbáta ca. 10 lestir.
Grindavík – Grafið inn í Hópið.
Það sem gerði útgerð þeirra mögulega frá Grindavík var, að 1939 var hafist handa við að grafa leið inn í Hópið þar sem höfnin er nú. Með tilkomu hafnarinnar þurfti ekki lengur að setja bátana, enda var það ekki mögulegt með dekkaða báta vegna þyngdar þeirra. Annað er breyttist með höfninni var að þá lögðust róðrar niður frá Staðar- og Þórkötlustaðahverfi og síðan hefur útgerð eingöngu verið stunduð frá Járngerðarstaðahverfinu. Höfnin var frumskilyrði þess að Grindavík fengi þrifist sem útgerðarbær og að ekki færi þar sem í Höfnum en þar lagðist niður blómleg útgerð sökum hafnleysis.
Upp úr 1955 tekur útgerð í Grindavík mikinn fjörkipp og var þar mikið blómaskeið allt fram til 1967. Á þessu tímabili voru keypt fjölmörg ný skip. Orsakir þessa blómaskeiðs eru þær helstar að síldveiði jókst mjög fyrir Norður- og Austurland og gerðu Grindvíkingar mikið út á þær. Fiskigengd var og mikil við suðvesturströndina á þessu tímabili, og raunar allt fram til 1972. Skipin stækkuðu sífellt á þessum árum og urðu stöðugt tæknilega fullkomnari.
Grindavík – innsigling í Hópið.
Hér á eftir kemur tafla yfir fjölda báta í Grindavík á tímabilinu 1945-1985, tekinn er bátafjöldinn á 5 ára tímabili. (Samkvæmt skipaskrá Siglingamálastofnunar).
1945 – 15
1950 – 13
1955 – 12
1960 – 17
1965 – 15
1970 – 24
1975 – 47*
1980 – 43*
1985 – 48
*Togararnir Guðsteinn og Jón Dan meðtaldir.
Jón Dan GK 141.
Skipta má Grindavíkurskipunum í tvo meginhópa, vertíðarskip og lonuskip. Vertíðarskipin voru flest byggð sem síldarskip á árunum 1956-1967, en síðan 1980 hefur farið fram gagnger endurbygging vertíðarflotans og mörg skipanna hafa nú verið yfirbyggð þ.e. tvídekkuð. U.þ.b. helmingur vertíðarflotans eru skip á bilinu 150-200 lestir, hinn helmingurinn þar fyrir neðan. Minni skipin eru flest úr tré en þau stærri stálskip. Loðnuskipin eru mun stærri en vertíðarskipin. Flest þeirra hafa um 600 tonna burðargetu og eitt þeirra, Grindvíkingur GK-606, ber t.d. 1100 tonn.
Fjölbreytni í stærð og búnaði skipa er nauðsynleg til að hægt sé að nýta alla þá möguleika er gefast til veiða. Skuttogaraútgerð hefur þó lítt átt upp á pallborðið hjá Grindvíkingum. Er það bæði vegna þess, að bátarnir hafa alla tíð getað séð fiskvinnslufyrirtækjunum fyrir hráefni, og að fyrirgreiðsla opinberra sjóða, svo sem Byggðasjóðs náði ekki til þessa landshluta.
Guðsteinn GK 140 – fyrsti togari Grindvíkinga.
Fyrsti togarinn sem Grindvíkingar eignuðust var Guðsteinn GK-140, hann var sameign þriggja fyrirtækja í Grindavík, Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar og Barðans h.f. í Kópavogi. Einnig áttu Grindvíkingar hlut í togaranum Jóni Dan GK 141. Reynslan af togaraútgerðinni var ekki nógu góð og hafa Grindvíkingar því selt sinn hluta íbáðum skipunum.
Kjör
Grindvísk aflakló.
Frá upphafi byggðar stunduðu bændur við sjávarsíðuna róðra, aflinn gekk til heimilisins og var einnig notaður í skiptum fyrir landbúnaðarafurðir. Þeir menn er stunduðu róðra, en áttu ekki bát voru ráðnir upp á hlut. Venja var að formaður fengi tvo hluti en báturinn þrjá, þó voru á þessu undantekningar.
Er tímar liðu og kirkja, kóngur og höfðingjar efldust og sölsuðu undir sig sífellt meira jarðnæði versnuðu kjör sjómanna, sem og annarra. Vinnumenn og landsetar voru með kvöðum ýmiss konar látnir róa fyrir húsbændur sína fyrir smánarkaup, en hluturinn varð eign húsbóndans. Á bessu verður breyting til batnaðar með afnámi einokunarverslunarinnar og sölu stólsjarða. Flestir fara að róa fyrir hlut sínum sem áður og afkoman skánar verulega.
Með tilkomu vélbáta var nokkuð um að menn væru ráðnir fyrir fast kaup, líkt og á þilskipunum, sérstaklega átti þetta við ef um aðkomumenn var að ræða, þessi háttur lagðist þó fljótt af. Í kreppunni versnuðu kjör bátasjómanna mikið, sem og hjá öðrum.
Grindavík – síldarbræðslan á fullu.
Er síldveiðin brást 1935 gengu margir allslausir í land eftir vertíðina, og voru ekki einu sinni taldir matvinnungar. Þessi kollsteypa varð til þess að sjómenn settu kröfuna um hlutatryggingu á oddinn. Tryggingin komst fyrst á 1936, hún var að vísu lág, en þó betri en engin. 1958 voru gerðar þær breytingar á kjarasamningum bátasjómanna, er gjörbreyttu aðstöðu beirra, en þá var afnumin sú regla að útgerðarkostnaður bátanna væri greiddur af óskiptum afla. Um svipað leyti komst sú skipan á, að hafa kokka um borð í dagróðrarbátum, en áður höfðu menn haft með sér skrínukost. Næsta stóra breytingin hvað varðar kjörin, verður í samningunum 1977, en þá verður hver mánuðum að sérstöku tryggingartímabili. Áður höfðu tímabilin verið þrjú, þ.e. 1/1-15/516/5-15/9 og 16/9-31/12. Í samningunum 1982 var svo skrefið stigið til fulls, en þá var um það samið að sjómenn hefðu rétt á að fá kauptrygginguna greidda vikulega.
Grindavík – bátar í höfn.
Í dag eru kjör sjómanna á hefðbundnum vertíðarbát 50- 110 rúml. þannig að skipverjar fá 28,5% af brúttóafla miðað við 11 menn, kauptrygging á mánuði fyrir háseta er 27.000 kr. að frádregnum ferðakostnaði. Vinnuskyldan er 18 t. á sólarhring, sex daga vikunnar og skal frídagurinn ætíð vera sunnudagur á tímabilinu 1/4-31/12 en frá 1/1 31/3 annað hvort laugardagur eða sunnudagur. Ýmsa félagsmálapakka hafa sjómenn einnig sem aðrir launþegar, og verða þeir ekki taldir hér, enda verða fáir feitir af þeim pökkum. Sjómennskan getur gefið góðar tekjur ef vel fiskast en ekki er tímakaupið hátt ef einungis er róið fyrir trygginguna, eins og oft vill verða.
Konungsbréf um fiskútveg frá 1758
Magnús á Hrauni í vör.
Nú á dögum fer jafnan um viðskipti sjómanna og útvegsmanna eftir kjarasamningum milli aðila.
En hvernig færi ef kjarasamningar væru ekki fyrir hendi? Þá yrði að fara eftir gildandi lögum að svo miklu leyti sem þau ættu við hverju tilviki. Vegna kjarasamninganna eru mjög fáar lagasetningar um þessi samskipti. Ein slík lög er að finna í Konungsbréfi til stiftamtmanns og amtmanna frá 28. febrúar 1758.
Hér birtast nokkrar glefsur úr þessu bréfi sem enn eru í gildi.
1. Allir formenn og hásetar sem hafa látið sig leigja eður festa til að róa nokkrum fiskibát um vertíðina skulu án forsómunar koma í þann áskilda vissa tíma á þann stað, hvar þeir ætla að róa, og það allir í einu undir það straff að bæta fyrir þann tíma sem þeir koma eigi.
2. Þegar formaðurinn hefur snúið skipinu upp og fengið allar þær tilheyrandi tilfæringar, má enginn af hásetum á nokkurn hátt hindra hann frá því að sækja sjóinn, hvenær sem tækifæri gefst til þess, heldur skal sérhver skyldur vera þegar hann er af formanninum kallaður aðláta sig án dvalar finna við bátinn og á honum róa.
3. Ef nokkur háseti er burtu eina klukkustund, eftir það honum hefur verið sagt til og hinir aðrir eru komnir til bátsins, skal hann gjalda þrjá fiska í sekt fyrir það, nema hann geti sannað lögleg forföll.
4. Enginn háseti má á sjónum á nokkurn hátt kúga formanninn til að fara tillands, fyrr en hann skipar það sjálfur.
5. Hver sá háseti er sýnir sig hyskinn eða latan til að fiska og lætur ekki að formannsins áminningu og skipan, sem hann gerir honum í því tilliti, skal gjalda 2 fiska í hvert sinn.
6. Eins og formennirnir eru skyldir til að hafa gætur á, að hásetar verki afla sinn sem best þeim er mögulegt. Í sama máta skal og formaðurinn hafa vakandi auga á, að hásetar sínir haldi sjóklæðum þeirra í góðu standi, svo að enginn þurfi, ef það brestur, að hindrast frá róðri og vera ónýtur til sjósóknarinnar.
7. Enginn háseti má yfirgefa þann fiskibát, á hvern hann er ráðinn, fyrr en formaðurinn hefur sagt upp vertíðinni, nema hann hafi fengið formannsins leyfi þar til vegna mikilvægra orsaka. En strjúki þar á móti nokkur burt án formannsins vitundar og samþykkis, þá skal sá hinn samti takast af sýslumanni og bæta fyrir það fjárlátum eða straffi á líkamanum, eftir málavöxtum.
8. Sérhver formaður skal kostgæfilega sækja fiskveiðar, þegar verðurátt og sjór leyfa það, og má enginn af þeim vera í landi þann dag, sem einn fjórði partur af bátum þeirrar veiðistöðu, hvar hann rær, eru á sjó, nema hann geti sannað, að hann hafi gilda orsök til þessa.
9. Formaðurinn skal einnig hafa vakandi auga á, að fiskibát hans sé altíð haldið í góðu standi með veiðarfærum og öðru tilheyrandi, sem og að hann í hvert sinn verði settur svo hátt upp frá sjónum og skorðaður, að honum geti hvorki grandað sjór eða stormur. Líka skal hann halda sínum hásetum til að gera bátinn jafnaðarlega hreinan. Hann skal og nákvæmlega gæta þess, að hver og einn fari varlega með árar og önnur bátsins og fiskifangsins áhöld.
Verbúð
Líklegt er að verbúðir hafi í öndverðu verið sömu gerðar víðast hvar á landinu, og gerð þeirra hélst svo til óbreytt allt fram undir síðustu aldamót. Teikning sú sem hér er, er af verbúð sem var á Járngerðarstöðum um aldamótin síðustu. Verbúðin var ca. 20 m2 (5,6×3,6). Veggir voru tvöfaldir, annað lagið var grjót en hitt torfstrengir, á milli var troðið mold. Þak var úr torfi, tvöfalt, í sumum búðum var haft þrefalt lag, mold var í gólfi. Svefnbálkar voru með hliðum þrír hvorum megin, í þeim var grjót og urðu vermenn því að finna eitthvað mýkra og var ýmist til notað hey, skeljasandur, lyng eða þang. Eldstæði voru í hverri verbúð, en oft voru erfiðleikar með eldivið, einnig var vatn víða takmarkað.
Vermenn höfðu með sér kost að heiman, smjör og annað feitmeti, einnig sýru eða sýrublöndu. Soðningu höfðu þeir og oftast kaffi, en lítið var um kjöt, helst voru það rifrildi er nýttust best í súpu. Kornmatur var af skornum skammti, sérstaklega hjá þeim er voru fjarri kaupstað. Ekki er þetta þó algild lýsing um mataræði, og undantekningamar æði margar.
Yfirleitt var reynt að búa vel að vermönnum hvað varðar mat, og bjuggu þeir vart við lakari kost en margur annar er ekkert átti nema vinnuaflið.”
Heimild:
-Ægir, 6. tbl. 01.06.1985, Sjómennska í Grindavík – Jón. Ó. Ísberg, bls. 334-342.
Grindavík 2021.