Færslur

Skálafell
Leitað var að Varma í Skálafelli, vestustu dyngju Reykjanesskagans (78 m.y.s.). FERLIR hafði áður skoðað Skálabarmshellir, sem utan í efsta gíg fellsins.
Fara þarf niður í hellinn á bandi því hann er um 5 metra djúpur – til að byrja með. Í allt er hellirinn um 50 metra langur og um 15-17 metra djúpur, frá brún og þar sem hann endar í sandi. Bratti rásarinnar er svipuð og á barmi gígsins utanverðum. Þegar staðið er uppi á hinum formfagra gíg Skálafells má sjá fallegar hrauntraðir til austurs og suðvesturs. Í vestri er gígskál. Ef gengið er til vesturs niður hana í átt að Valbjargargjá (misgengi) má sjá opið á Varma – ef rétt er gengið. Það lítur ekki mikið yfir sér – 2 til 3 m2 að stærð. Í tæplegu frosti, eins og nú var, sést gufa koma upp um opið, líkt og nokkur smáop önnur á leiðinni.
Skálafell er sennilega hluti af lengri gossprungu, líkt og flest gos á Reykjanesskaganum. Hreiðrið í norðnorðaustri er líklega hluti hennar, sem og nokkrir aðrir gígar. Í lok gossins hefur hraun og gjóska haldið áfram að koma upp úr megingígnum, Skálafelli. Dyngjan hefur gefið af sér verulegt magn kvíku því meginhluti Reykjanesstáarinnar er frá henni komin. Líkt og í öðrum dyngjum leita hrauntaumar út úr hliðum þeirra. Þannig hefur suðvesturgígurinn myndast og hrauntaumur leitað úr honum til vesturs. Ein hraunæðin er Varmi.
Háhitasvæði er norðan í Skálafelli þar sem nú er Gunnuhver og nálæg hverasvæði. Vitað er að svæðið allt var mun virkara einungis fyrir áratug síðan. Þar, skammt uppi í hlíðum Skálafells, fæddist m.a. Litli Geysir (eða 1918) skömmu eftir aldamótin 1900 og lifði þar um tíma – en dó síðan. Á unglingsárum sínum gaus hann allt að 20 metra háum vatnsstrókum með ennþá hærri gufutaumum.
Þegar komið var niður í Varma blasti við falleg hraunssúla. Hægt var að fara beggja megin við hana, en vinstri leiðin var valin að þessu sinni, enda sú hægri þrengri og varfarnari. Bæði eru nippur í henni og auk þess meiðir hún hnén. Vinstri leiðin er greiðfærari og augljósari.
Þegar komið var í gegnum rúmgóða þrengingu við súluna lækkaði rásin. Gólfið er slétt, en hrjúft. Fara þarf á hnjánum inn, en fljótlega er komið inn í bæði breiðan og rúmgóðan ráshluta með fínum sandi í botni, líkt og er í fordyrinu. Fögur sjón tekur við góðu ljósmagni – langar rætur úr lofti. Hitinn í hellinum er um 20°C svo auðvelt væri að fara þarna niður að vetrarlagi á stuttbuxum einum fata – ef ekki væru hraunibburnar fyrrnefndu.
Rásin er heil og hækkar þannig að hægt er að ganga hokinn in eftir henni. Vel má sjá hvítar útfellingar á gólfi og á veggjum. Þá breikkar rásin, en hækkar ekki. Fara þarf á hnjánum áfram að gjóskubyng og hruni. Þar er hægt að komast áfram á maganum. Að spolkorn skriðnum virðist hitna enn á ný í rásinni. Loks virðist loftið sigið niður og verulega áhættusamt að halda áfram. Eflaust mætti reyna það með áræðni og sæmilegri fífldirfsku, en hvorutveggja myndi örugglega taka enda skammt þar vestar því bergveggur gjárinnar (misgengisins) getur varla verið langt undan. Sandur er í “endaþarminum”, en fróðlegt er að sjá á leiðinni hvernig hann hefur sigið niður í gegnum bergið, borist niður rásina með aðstoða vinda og vatns um opið og loks lokað henni. Helst er á sjá samlíkingar þessa í Sundhnúkahellunum. Inni í enda virðist ekki var um sama hitauppstreymi og á hinum, fyrrnefndu, köflunum tveimur, sem fyrr er getið.
Haldið var til baka upp eftir rásinni og reynt að njóta þess að skríða á hreinum og fínum sandinum í stað þess að hnjámeiðast á grófum hraunbotni.
Uppi við opið liggur rásin spölkorn upp á við, en lokast með fínum sandi. Ljóst er að sandurinn kemur ofan frá – enda lýtur hann, eins og annað, lögmálum þyngdaraflsins sem og “miðjulögmáls jarðar”. Allt það, sem jörðin hefur gefið, dregur hún til sín og formar síðan til búnings á ný, ýmist sem basalt eða myndbreytt (höfundur fékk 10 á jarðfræðiprófi).
Varmi er um 170 m langur í það heila.
Þegar komið var út var komið myrkur – Reykanesvitarnir lýstu lárétta sjónarröndina, hvor í kapp við annan, hvítir gufustrókar virkjanasvæðis misviturrar mannskepnunnar lýstu hins vegar lóðrétt líkt og fingur “Júlíusar” í “Neðra” – svo til beint upp í loftið í logninu – og bæði Karlinn og Eldey í fjarska birtust sem þjóðsagnakenndir risar við annars spegilsslétta sjónarrönd Ægis – handan hins mikilúðuga Valahnúks. Þvílík sýn. Og ekki spillti dulúðlegt mánaskinið fyrir. Slíka upplifun á sérhver mannsskepna ekki nema einu sinni á lífsleiðinni – og það með mikilli heppni.
Ferðin tók 1 klst og 11 mín.

Skálafell

Skálafell.

Þorlákshafnarsel

Gengið var yfir Eldborgarhraun eftir Lágaskarðsvegi gegnt Raufarhólshelli, norður með Lönguhlíð, inn á Selstíg, upp í Sandali og á Eldborg undir Meitlum, um Lágaskarð milli Litla-Meitils og Stóra-Sandfells og um Lákastíg austan Stóra-Meitils um Stóradal að Hveradölum. Þessi fyrrum fjölfarni vegur var nefndur Lágaskarðsvegur.

Lágaskarðsvegur

Kort af svæðinu – Lágaskarðsvegur fyrir miðju.

Gatnamót eru undir Lönguhlíð þar sem Selstígurinn liggur af honum suður með hlíðinni að Hrauni. Þessi leið hefur einnig verið nefnd Lágaskarðsvegur, líkt og hin, sem liggur frá gatnamótunum til suðvesturs áleiðis niður að Breiðabólstað. Sá hluti götunnar (Selstígur/Lágaskarðsvegur) lá niður að Hjalla í Ölfusi. Hraunsselið er skammt neðan við gatnamótin, fast við hraunbrúnina. Í bakaleiðinni var gengið suður með austanverðum Litla-Meitli, ofan við Innbruna og áð undir Votabergi þar sem Hafnarsel kúrir undir grettistaki.
Lágaskarðsvegur var genginn yfir Eldborgarhraunið frá malarnámusvæðinu við Raufarhólshelli að Lönguhlíð. Ofar er Sanddalahlíðin og Suðurhálsar. Þegar komið var yfir hraunið var gengið spölkorn suður eftir Selstígnum og litið á tóftir Hraunssels.
Þá var haldið áfram upp með Lönguhlíð gengið norður eftir Lágaskarðsvegi, milli hraunsins og hlíðarinnar. Undirhlíðin er grasi gróin og því greiðfar göngufólk.

Litli-Meitill

Litli-Meitill.

Litli-Meitill blasti við í norðvestri og Eldborgin var beint framundan, ofan Sanddala. Undir Litla-Meitli eru fallegir grasbalar, auk þess sem sjá má vísir af skógrækt undir hlíðinni. Nyrðri-Eldborg er framundan. Úr henni liggur falleg hrauntröð á sléttlendið fyrir neðan. Eldborgarhraun, sem rann áleiðis að Hjalla í Ölfusi, kom úr þessari Eldborg. Í raun er það miklu mun eldra en Kristnitökuhraunið norðvestan við Lambafellið, það er myndaði Svínahraunsbrunann.
Gígurinn er mikilfenglegur, ekki síst þar sem hann trjónaði þarna uppi í þokukenndri hlíðinni. Hann hefur hlaðið upp háan gígbarm að vestanverðu.

Eldborg

Eldborg undir Meitlum – hrauntröð.

Gígurinn er opinn mót suðaustri og liggur hrauntröð frá honum fram eftir hrauninu. Reyndar eru gígarnir tveir, þessi er nefnist Nyrði-Eldborg og annar mun minni austar, utan í Stóra-Sandfelli, nefndur Syðri-Eldborg. Hraunið norðan þeirra er úr Eldborg ofan Hveradala, austan í Stóra-Reykjafelli.
Gengið var áfram um Lágaskarð. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar um þræla Ingólfs Arnarssonar, Sviða og Vífil segir m.a.: “Langt fyrir ofan Vífilsstaði er fell eitt sem Vífilfell heitir og liggur þjóðvegur ofan fyrir norðan það þegar farið er Hellisskarð að austan eða Lágaskarð; en rétt vestan undir fellinu liggur Ólafsskarðsvegurinn á þjóðveginn.”

Raufarhólshellir

Í Raufarhólshelli.

Í örnefnalýsingum er fjallað um Lágaskarðsveg. Þar segir m.a. að “Lágaskarð liggur hjá Stakahnúk [en hann er áberandi þegar komið er í skarðið austan við Stóra-Meitil]. Eftir skarðinu liggur Lágaskarðsvegur.
Lágaskarðsvegur hefst við Breiðabólstað. Hann liggur yfir Bæjarlæk [við Breiðabólsstað] rétt fyrir ofan Fossinn, inn Torfdalshraun, austan Torfdalsmels og innan til á móts við Krossfjöll austur yfir Eldborgarhraun, austur að Lönguhlíð og upp á Hveradalaflöt, undir austurhlíðum Lakahnúka og síðan um breitt skarðið yfir slétt og greiðfært helluhraun (að mestu mosagróið) og síðan niður úr skarðinu (sem er meira eins og grunnt dalverpi en skarð) til Þorlákshafnar og í Selvog. Á herforingjaráðskorti frá 1909 (1:50000) er norðurendi leiðarinnar sýndur vestar en hér er lýst. Þar liggur Lágaskarðsleiðin útaf Hellisheiðarvegi undir neðstu brekkum Reykjafells og yfir hraunhólana neðan við Hveradalaflöt en sú leið er mun ógreiðfærari þó hún sé styttri. Á kortinu kvíslast leiðin við Lönguhlíð og liggur ein slóð til Breiðabólstaðar en önnur til Hrauns.”
Varða Vegurinn er lengstaf aðeins kindastígur en nokkur vörðutyppi eru í sjálfu skarðinu (á helluhrauninu) og gætu sum þeirra verið gömul. Á nokkrum stöðum má ímynda sér að hestaumferð hafi gert för í hraunhelluna en hvergi er það skýrt. Þessi leið mun nú ganga undir nafninu Lákastígur, en það nafn er væntanlega komið frá Lakahnúkum austan við stíginn. Austar og sunnar, undir Norðurhálsum, eru Lakakrókur og Lakadalir.
Steindór Sigurðsson lýsir Lágaskarðsleið í Árbók Ferðafélagsins 1936: “Þessi leið liggur að mestu leyti samhliða Þrengslaleiðinni, en um það bil þremur km austar. Og Meitlarnir mynda takmörkin á milli þeirra. Leiðin liggur frá Skíðaskálanum, og stefnir suður yfir lága öldu, um 50 m upp á við af veginum í byrjun. Þegar upp á hana er komið, sér greinilega móta fyrir Lágaskarði. Vestan undir [Lákahnúkum] er víðast hvar graslendi, sem ásamt haganum undir Lönguhlíð, austar á leiðinni, hefir orðið til þess að gera leið þessa vinsælli en Þrengslaleiðina. Lágaskarðsleiðin var ein aðalþjóðleiðin yfir Hellisheiði, allt fram að því að akvegur var gerður yfir heiðina og sjálfsögðust lið allra austanmanna, er um Eyrarbakka komu og fóru yfir Ölfusá í Óseyrarnesi og um Hafnarskeið. Vestan undir Stóra-Sandfelli er hádepill Lágaskarðsleiðar (303 m.y.s.).

Skálafell

Skálafell.

Skammt austar liggur leiðin niður brekku eina talsvert bratta en ei langa, og þegar kemur á brekkubrúnina, sér vegafarandinn hvar Eldborgarhraunið breiðist út vestur með Meitilstöglunum og allt vestur að Sandfelli. Með heiðarbrúninni er greiðfær og götumtroðinn grasmói, og heiðin fyrir ofan hann – að suðurbunga Skálafells, heitir Langahlíð. Norðaustur af Krossfjöllum skiptast leiðir, en gamla aðalleiðin lá suðaustur með Lönguhlíð, niður hjá Kömbum og Kerlingadrögum, vestanvert við brún Hjallafjalls og annaðhvort austur með fjallsbrúninni, að Hjalla eða suðvestur undir hraunið, að hrauni, sem var fyrrum alkunnur viðkomustaður þeirra, sem Lágaskarð fóru.” Hálfdan Jónsson getur Lágaskarðsleiðar í lýsingu Ölfushrepps frá 1703: “Á þessum fjallgarði, er fyrir norðan þessa byggð sveitarinnar liggur, eru þrír vegir vestur á Suðurnes, nefnilega Ólafsskarð, Lágaskarð og Sanddalavegur, hverjir allir saman koma í einn veg á vestanverðu fjallinu, þá byggðarlönd taka til Suðurnesjajarða.”

Lakadalur

Lakadalur.

Í Þjóðólfi 14. september árið 1906 er fjallað um fyrirhugaða járnbrautalagningu milli Reykjavíkur og Ölfuss. Þar segir m.a. um járnbrautarleiðina austur í sýslur að verkfræðingurinn Þorvaldur Krabbe hafi nú athugað leiðina. “Skýrði hann oss frá, að hann hefði fyrst athugað leiðina héðan austur í Ölfus. Er þar um þrjár leiðir að tala: um Ólafsskarð, Lágaskarð og um Hellisheiði niður hjá Reykjaholti og Reykjum, en um þá leið væri naumast að tala. Um Ólafsskarð mætti leggja braut, og væri þá farið fram hjá Vífilfelli, en Lágaskarðsleiðin niður að Hrauni væri greiðust, en á þeirri leið væri um hraun að fara á mjög löngum kafla, og hann vildi ekki leggja til, að járnbrautir væru lagðar yfir hraun. Undirstaðan eða hleðslan undir brautina héldist þar afarilla, sigi niður og skekktist allavega, og það gæti orðið stórhættulegt, því að járnbrautarteinarnir mega ekki haggast hið minnsta, annars er við því búið, að lestin hlaupi út af sporinu.”

Lágaskarðsvegur

Stapi við Lágaskarðsveg.

Framundan var Hveradalaflötin norðan Lakahnúka og Hveradalir suðavestan í Reykjafelli (Stóra-Reykjafelli). Í efsta dalnum, vestan við Eldborg, var skíðastökkpallur og heitir þar Flengingarbrekka. Stærsti dalurinn heitir Stóridalur og ofan við mynni hans er Skíðaskálinn. Hverirnir, sem dalirnir eru við kenndir, eru í litlum hvammi fyrir ofan Skíðaskálann.
Skíðaskálinn í Hveradölum var reistur árið 1934 af Skíðafélagi Reykjavíkur og var hann í eigu þess til 1971 er Reykjavíkurborg keypti hann. Skálinn brann til kaldra kola 21. janúar 1991. Nýr skáli í svipuðum stíl var þá reistur á grunni hins gamla. Hann var tekinn í notkun 4. apríl 1992 og formlega vígður 17. júní það ár.

Skíðaskáli

Skíðaskálinn í Hveradölum.

Uppi í brekkunni fyrir ofan skálann eru tveir minnisvarðar. Annar þeirra er til minningar um Ludvig H. Müller (1879-1952), kaupmann, er var formaður Skíðafélags Reykjavíkur í 26 ár, frá stofnun þess 1914, en hinn um Kristján Ó. Skagfjörð (1883-1951), kaupmann, er var formaður þess næstu 11 árin. Í Hveradölum bjó á árunum milli 1930 og 1940 danskur maður, A.C. Høyer að nafni. Hafði hann þar greiðasölu. Þá hafði hann gufu- og leirböð og vísi að gróðurhúsarækt, líklega einn fyrsti maður hér á landi sem stundaði þann atvinnuveg.
Gengið var til baka um Stóradal, niður í Stórahvamm vestan undir Stóra-Meitli og hlíðinni fylgt til suðurs milli hennar og Lambafellshrauns, framhjá Hrafnakletti og að Votabergi. Undir berginu er Þorlákshafnarsel (Hafnarsel).
RaufarhólshellirÍ örnefnalýsingu segir að “frá fornu fari mun Þorlákshöfn hafa haft í seli í Breiðabólsstaðarlandi í Ölfusi. Þorlákshafnarsel stóð undir Votabergi. Selrústirnar, eins og þær líta út nú á dögum, eru ekki beinlínis við bergið sjálft heldur við stóran klett kippkorn frá. Rústirnar eru vallgrónar en skýrar. Aðalhúsið, sem sýnist vera, er um 4 m á lengd og 2 m á breidd, líklega selbaðstofan, en af enda hennar er örlítið hús, sem gæti hafa verið eldhús, en til hliðar og nær skútanum er þriðja húsið, ef til vill mjólkurhús, rösklega 3 m á lengd og 1.5 m á breidd, en við enda þess örlítill kofi, sem gæti hafa verið smalabyrgi eða hundakofi. Þar hafði Þorlákshafnarbóndi í seli gegn skipsuppsátri Breiðabólsstaðarbóndans í Þorlákshöfn. Sunnar frá selinu er hóll eða klettaborg og þar við lóðréttan, lítinn hamravegg er eitthvert mannvirki, sem gæti verið kvíar og raunar ekki sýnilegt, hvað það gæti verið annað.

Votaberg

Votarberg.

Hamraveggurinn hefur veirð notaður á eina hlið, en síðan hlaðið á þrjá vegu úr grjóti. Þetta er um 7 m á lengd og 2 m á breidd, kynni að hafa tekið um 25-30, en það má þykja helst til lítið fyrir stórbýlið Þorlákshöfn. Þetta gæti þó vel staðist, því fjöldi sauðfjár var þar ekki svo mikill á 18. öld og fram á þá 19.”
Rústirnar voru friðlýstar af Þór Magnússyni í janúar 1976.
Í heimildum er einnig sagt frá Tæpistíg, leið er lá “upp úr grasgeira ofan við Votaberg, sniðgata í snarbrattri hlíðinni, upp á brúnina.”
Gengið var niður með Litla-Meitli og niður Eldborgarhraun að upphafsstað. Á leiðinni var leitað hugsanlegra hella í hrauninu, en engir fundust að þessu sinni.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimild m.a.:
-http://www.bokasafn.is/byggdasafn/fornleifaskra

Þorlákshafnarsel

Þorlákshafnarsel – uppdráttur.

Steðji

Á Vísindavef Háskóla Íslands er m.a. fjallað um Kjós og nokkra staði þar innan marka í svörum við spurningum þess efnis. Taka ber þó svörunum með hæfilegum fyrirvara.

Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Upprunlega hljóðaði spurningin svona:

Kjósarhreppur

Í Hvalfirði er landsvæði sem heitir Kjós. Nálægt Skaftafelli, inn af Morsárdal er líka landsvæði sem heitir Kjós. Spurningin er hvað gerir landsvæði að Kjós? Yfir hverju þarf landsvæði að búa til að það sé kallað Kjós?
Orðið kjós merkti í fornu máli ‚þröng vík‘ en merkir nú ‘kvos, dalur eða dæld’ (Íslensk orðabók, 778; Ásgeir Blöndal Magnússon, 468).
Í Troms og víðar í Norður-Noregi merkir orðið kjos ‘þröngur dalur’ eða ‘laut’ (Norsk stadnamnleksikon, 183).
Auk Kjósar í Kjósarsýslu og í Skaftafellssýslu kemur nafnliðurinn meðal annars fyrir í örnefnum á Snæfellsnesi, í Norður-Ísafjarðarsýslu og Strandasýslu (Íslandsatlas).

Heimildir:
-Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók. Reykjavík 1989.
-Íslandsatlas. Fimmta prentun endurskoðuð. Reykjavík 2015.
-Íslensk orðabók. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri: Mörður Árnason. 3. prentun. Reykjavík 2005.
-Norsk stadnamnleksikon. Jørn Sandnes og Ola Stemshaug (útg.). Oslo 1976.

Af hverju heitir Írafell í Kjós þessu nafni og hvað er sá bær gamall?
Írafell er þekkt á nokkrum stöðum á Íslandi, meðal annars í Kjós þar sem bæði fell og bær bera þetta nafn. Bærinn er þekktur í rituðum heimildum allt frá 16. öld en nafn hans kemur fyrst fyrir í fógetareikningum frá 1547-1548 (Íslenskt fornbréfasafn XII:107 og víðar).

Írafell

Írafell.

Í 18. aldar heimildum er getið um Írafell á Reykjanesi í Gullbringusýslu en það er ekki þekkt nú. Auk þess eru nefnd þrjú Írafell á Snæfellsnesi: eitt á Hellisvöllum (Hellnum) í Breiðuvíkurhreppi (nú slétt flöt, samkvæmt örnefnalýsingu), annað í Helgafellssveit og það þriðja suðvestur af Drápuhlíðarfjalli.
Í Skagafirði er bær sem oft er nefndur Írafell en samkvæmt Landnámabók og fleiri heimildum er upphaflega nafn hans Ýrarfell (Byggðasaga Skagafjarðar III (2004), bls. 410 og áfram).
Ekki er vitað hve gamalt bæjarnafnið Írafell í Kjós er né heldur hvort það er kennt við þá Íra sem taldir eru hafa verið hér við upphaf landnáms eða Íra sem hingað komu í verslunarerindum á 15. öld. Hermann Pálsson fjallaði um Íra-örnefni í grein í Skírni 1953 (bls. 105-111) en hann ræðir ekki Írafell sérstaklega.

Írafellssel II

Írafellssel II – uppdráttur ÓSÁ.

Helgi Guðmundsson fjallar um örnefni kennd við Íra, Breta og Pétta1 í bók sinni, Um haf innan (1997, bls. 198-199). Þar nefnir hann meðal annars að á Katanesi í Skotlandi sé fjall með keltnesku nafni, Cnoc an Eireannaich, sem merki ‘Írafell’, en hann telur annars óvíst hvernig eigi að túlka örnefni þau á Íslandi sem kennd séu við erlendar þjóðir (199).
Péttar (e. Picts) voru þjóðflokkur, sem var ef til vill ekki keltneskur að uppruna en bjó á Bretlandseyjum og átti í sífelldum útistöðum við Rómverja. Á níundu öld eða svo runnu þeir saman við Skota.

Hvernig myndaðist Meðalfellsvatn í Kjós?
Stöðuvötn eru vatnsfylltar dældir sem ná niður fyrir grunnvatnsflöt eða myndast þar sem einhver þröskuldur girðir fyrir vatnsrennsli á yfirborði eða grunnvatnsrennsli. Jöklar hafa leikið stórt hlutverk við myndun stöðuvatna á Íslandi og má skipta jökulmynduðum vötnum í nokkra flokka. Nánar er fjallað um myndun stöðuvatna í svari við spurningunni Hver eru dýpstu stöðuvötn á Íslandi? og um jökulrof í svari við spurningunni Hvað er jökulrof? Hvernig verður jökulrof og landmótun jökla á Íslandi?

Meðalfellsvatn

Við Meðalfellsvatn í Kjós.

Langflest íslensk stöðuvötn í jökulsorfnum dældum. Dældirnar hafa myndast þegar ísaldarjökullinn heflaði landið, misdjúpt eftir þykkt jökulsins á hverjum stað og styrk undirlagsins. Eftir stóð mishæðótt landslag með dældum sem fylltust af vatni.
Að öllum líkindum er Meðalfellsvatn í Kjós dæmi um stöðuvatn í jökulsorfinni dæld og þá myndast eins og hér hefur verið lýst.
Meðalfellsvatn er 2 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi vatnsins er tæplega 19 m og meðaldýpi er 4,4 m. Dýpsti hluti þess er í því austanverðu en meginhluti þess er tiltölulega grunnur (2 – 4 m). Vatnasvið Meðalfellsvatns er um 39 km2 . Í það sunnanvert renna smáárnar Flekkudalsá með upptök í Flekkudal í norðanverðri Esju og Sandsá með upptök í norðanverðum Móskarðshnjúkum. Úr Meðalfellsvatni norðvestanverðu fellur áin Bugða sem rennur í Laxá.
Í Meðalfellsvatni er töluvert af bleikju og einnig er þar að finna urriða. Auk þess veiðast í vatninu nokkrir laxar árleg.

Heimildir:
-Flokkun vatna á Kjósarsvæði – Meðalfellsvatn. Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis og Háskólasetrið í Hveragerði. 2004.
-Meðalfellsvatn á NAT Norðurferðir. Sótt 6. 3. 2008.

Hvernig myndaðist Esjan?
Esjan og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós myndaðist í gosbeltinu sem nú liggur frá Reykjanestá um Þingvallasveit og norður í Langjökul. Í Esju, á svæðinu frá Hvalfirði og austur fyrir Skálafell í Kjalarneshreppi, var eldvirknin stöðug í rúmlega eina milljón ára frá því fyrir um 2,8 milljón árum. Á þessum tíma voru að minnsta kosti 10 jökulskeið með hlýskeiðum á milli.
Esja
Esjan myndaðist vestan til í gosbeltinu og ýttist smám saman frá því til vesturs. Rekhraðinn til vesturs frá flekaskilunum, sem nú liggja um Þingvallasveit, hefur um milljónir ára verið um einn cm á ári, enda stendur heima að vesturendi Esju er um 30 km norðvestan við vestustu virku sprungurnar (gjárnar) á Þingvöllum og í Hengli. Á sama tíma og berggrunnurinn undir Reykjavík, Mosfellssveit og Kjós var að myndast vestan til í gosbeltinu var berggrunnurinn undir Selfossi og Hreppum að myndast austan til í því. Auðvelt er að fá nútímasamlíkingu á Reykjanesskaga með því að hugsa sér að berggrunnurinn undir Reykjavík sé að myndast í Trölladyngju og Sveifluhálsi vestan við Kleifarvatn, og berggrunnurinn undir Selfossi framtíðarinnar sé að myndast í eldstöðvum milli Kleifarvatns og Herdísarvíkur.
Esja
Fyrir tæpum þremur milljón árum var vestasti hluti Esju í vesturjaðri virka gosbeltisins (sem nú liggur um Þingvallasveit). Þetta virka gosbelti teygði sig til norðausturs meðfram Hvalfirði en til suðvesturs yfir Sundin og Vesturbæinn. Á þeim tíma voru þó hvorki Sundin né Hvalfjörður til. Samfellt fjalllendi náði frá hálendinu og miklu lengra í sjó fram en nes og eyjar við innanverðan Faxaflóa nú. Þá var stórt eldfjall í Sundunum, en gjástykki teygðust til norðurs um Kjós og suður yfir Mela. Margt bendir til að stór askja hafi myndast í þessari megineldstöð, Kjalarneseldstöðinni, og mikill fjöldi innskota myndaðist í henni. Stærstu innskotin má nú sjá á yfirborði í Viðey, yst á Kjalarnesi og milli Skrauthóla og Mógilsár.
Gosvirknin færðist smám saman austar, Kjalarnesmegineldstöðin þokaðist til vesturs út úr gosbeltinu en gosvirknin varð mest þar sem Kistufell í Esju er nú. Þá fengu jarðlögin neðst í Kistufelli sinn mikla halla. En ekki leið á löngu þar til gosvirknin var komin austur fyrir Grafardal. Þar myndaðist stórt og myndarlegt eldfjall, Stardalsmegineldstöðin. Í þeirri eldstöð myndaðist askja álíka stór og Kröfluaskjan. Í henni safnaðist vatn, svipað og síðar gerðist í Öskju í Dyngjufjöllum, en askjan fylltist síðan af gosefnum. Þunnfljótandi hraunlög runnu langt vestur úr virka gosbeltinu og mynduðu hinn reglulega hraunlagabunka, sem nú myndar topp Esjunnar allt frá Skálafelli vestur undir Hvalfjörð. Æviskeiði megineldstöðvarinnar í Stardal lauk með líparítgosum undir jökli á bogasprungum umhverfis öskjuna. Glæsilegustu menjar þeirra eldsumbrota eru Móskarðshnúkar, en aldursgreiningar benda til að líparítið í þeim sé um 1,8 milljón ára gamalt.
Eldvirkni færðist enn til austurs, eða öllu heldur megineldstöðina rak vestur úr gosbeltinu og upphleðslu jarðlaga lauk í Esju, Kjós og byggðum hluta Mosfellssveitar. Samfellt fjalllendi náði frá Akrafjalli og Skarðsheiði austur yfir Esju og fellin í Mosfellssveit. Yfir Sundunum og Reykjavík lá meira en þúsund metra þykkur stafli af hraunlögum og móbergi.
Í rúmlega milljón ár eftir að Móskarðshnúkar mynduðust skófu ísaldarjöklar fjalllendið og skáru út það landslag, sem við sjáum í dag. Ekki er vitað um eldvirkni á svæðinu þennan tíma. Esja
Ekki er heldur vitað um fjölda jökulskeiða á þessu tímabili, en margt bendir til að jökulskeið gangi yfir Ísland á um hundrað þúsund ára fresti.
Fyrir þrjú til fimm hundruð þúsund árum varð eldgos undir jökli í Mosfellssveit og þá myndaðist Mosfell. Þá voru dalir Esju svipaðir og í dag og fellin í Mosfellssveit einnig. Á næstu hlýskeiðum runnu þunnfljótandi hraun úr grágrýtisdyngjum í jaðri virka gosbeltisins vestur yfir hið rofna land, þöktu mikið af láglendinu og runnu í sjó fram. Hraunstraumarnir runnu milli Mosfells og Esju, milli Úlfarsfells og Hafrahlíðar, en einkum þó vestur yfir láglendið sunnan Úlfarsfells. Þessi grágrýtishraun mynda Brimnes á Kjalarnesi, yfirborð eyjanna á Sundunum svo og flest klapparholt á höfuðborgarsvæðinu svo sem Grafarholt, Breiðholt, Öskjuhlíð, Valhúsahæð, Digranesháls, Hamarinn í Hafnarfirði og Hvaleyrarholt. Upptök grágrýtishraunanna eru fæst þekkt, en meðal þeirra hafa þó verið Borgarhólar, Lyklafell og Eiturhóll á Mosfellsheiði.
Nánari upplýsingar er að finna í Árbók Ferðafélags Íslands 1985 í grein eftir Ingvar Birgi Friðleifsson. „Jarðsaga Esju og nágrennis“, bls. 141-172.

Hvað þýðir nafnið Esja?
Bærinn Esjuberg á Kjalarnesi er nefndur á nokkrum stöðum í Landnámu án þess að vikið sé að skýringu á nafninu. Þar bjó Örlygur Hrappsson sem kom til landsins frá Suðureyjum og settist að á Kjalarnesi.

Esja

Esja – örnefni.

Í Kjalnesingasögu er sagt frá því að írskir menn hafi komið á skipi í Leiruvog í Kollafirði. Meðal þeirra var kona, Esja að nafni, og var hún sögð ekkja og mjög auðug. Hún tók við bæ Örlygs og bjó að Esjubergi. Fjallsnafnið er þar ekki nefnt.
Vegna þessara sagna hefur sú tilgáta komið fram (W. Craigie) að nafnið Esja sé af keltneskum uppruna, dregið af Ésa eða Essa (sjá Hermann Pálsson: Keltar á Íslandi. Reykjavík 1996:170).
Flestir hafna þó þessari skýringu og telja að kvenmannsnafnið sé til orðið á eftir bæjarnafninu og fjallsheitinu. Helgi Guðmundsson (Um haf innan 1997:193-94) hefur bent á að í Lewis (Ljóðhúsum) í Suðureyjum séu varðveitt norræn örnefni í gelísku sem komi heim og saman við röð örnefna frá Akranesi og suður í Kollafjörð. Meðal þeirra er Esjufjall. Hugsanlega hafa örnefnin verið gefin um sama leyti á báðum stöðum og flust með norrænum mönnum vestur á bóginn.
Líklegasta skýringin á Esja er því sú að um norrænt nafn sé að ræða. Ásgeir Blöndal Magnússon (Íslensk orðsifjabók 1989:157) bendir á að í eldra máli hafi verið til orðið esja í merkingunni ‘flögusteinn, tálgusteinn’. Í norsku er til esje í sömu merkingu. Af sama uppruna eru norska orðið esje í merkingunni ‘eimyrja’, sænska orðið ässja í sömu merkingu en einnig í merkingunni ‘smiðjuafl’ og síðastnefnda merkingin kemur fram í danska orðinu esse ‘smiðjuafl’. Ásgeir Blöndal telur upphaflega merkingu orðsins esja í íslensku vera ‘eldstæði’ og ‘steintegund höfð til eldstæðis- og ofngerðar’. Fjallsnafnið væri þá af sama stofni.

Hver er uppruni örnefnisins Skálafell og gæti verið að upphaflega hafi það heitið Skálarfell eða Skaflafjell?
Fyrirspyrjandi nefnir ekki hvaða fell hann á við en Skálafell eru tvö í nágrenni Reykjavíkur:
Austan Esju, inn af Mosfellsdal í Kjósarsýslu (774 m).
Upp af Hellisheiði, suðaustur af Hveradölum (574 m).

Skálafell

Skálafell – Stardalur fremst.

Landnámabók segir að Ingólfur Arnarson hafi látið gera skála á Skálafelli (Íslenzk fornrit I, 45) og mun þá átt við Skálafell sunnan Hellisheiðar. Hins vegar segir Kristian Kålund í sögustaðalýsingu sinni að sagnir séu um að Ingólfur hafi haft skála (fjárskála) á Skálafelli austan Esju (Kålund I, 43). Jónas Magnússon í Stardal segir í örnefnaskrá að fellið í Kjós „ætti betur við söguna af Ingólfi Arnarsyni en Skálafell upp af Kömbum, því að Þingvallavatn blasir við af þessu felli.“
Líklega er nafnið á fjallinu austan Esju upphaflega *Skálarfell, af áberandi skál í fjallinu. Þó er önnur skál minni í austurenda fjallsins og gæti því nafnið hafa verið Skálafell í upphafi, segir Egill J. Stardal, sonur Jónasar í Stardal í Árbók Ferðafélagsins 1985, 122-123.
Ekki er líklegt að upphaflega nafnið hafi verið Skaflafjell eða Skavlfjell. Þórhallur Vilmundarson segir að Skálafell sunnan Hellisheiðar minni á húsburst séð úr Ölfusi og gæti því verið líkingarnafn (Grímnir I, 128).

Heimildir:
-Ferðafélag Íslands. Árbók 1985. Rvk. 1985.
-Grímnir I. Rvk. 1980.
-Kristian Kålund. Íslenzkir sögustaðir I. Sunnlendingafjórðungur. Íslenzk þýðing: Haraldur Matthíasson. Rvk. 1984.
-Landnámabók. Íslenzk fornrit. I. Rvk. 1968.

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/search/?q=Kj%C3%B3s

Skálafell

Tóft í Skálafelli.

Skálafell

Skála Ingólfs Arnarssonar í Skálafelli er bæði getið í Íslendingabók Ara fróða og í Landnámu.

Íslendingabók

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

„Ari hinn fróði Þorgilsson Gellissonar ritaði fyrstur manna hér á landi að norrænu máli fræði bæði forna og nýja,“ segir Snorri Sturluson í Heimskringlu. „Þykir mér hans frásögn öll merkilegust.“ Í formála kveðst Ari fyrst hafa gert Íslendingabók að frumkvæði biskupanna Þorláks Runólfssonar og Ketils Þorsteinssonar og einnig sýnt hana Sæmundi presti hinum fróða. Hafi hann síðan endurskrifað bókina, en sleppt úr henni „áttartölu og konungaævi“, þ.e. íslenskum ættartölum og ævisögum Noregskonunga.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Fyrri gerð bókarinnar er glötuð, en Snorri hefur hagnýtt „konungaævina“ í Heimskringlu. En yngri gerðin hefur varðveist vel. Hún er samin um 1130 og geymir sögu Íslands frá landnámi fram til dauða Gissurar biskups Ísleifssonar 1118. Þetta er stutt en frábærlega traust heimilda­r­rit. Ari styðst við frásagnir manna sem hann vissi að voru spakir og „langt mundu fram“. Hann kann að telja alla lögsögumenn frá Hrafni Hængssyni sem tók lögsögu 1030 og skorðar tímatal atburða við embættisár þeirra. En mesta áherslu leggur hann á kristnitökuna árið 1000 og sögu fyrstu biskupanna í Skálholti, Ísleifs Gissurarsonar og Gissurar sonar hans.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Í Íslendingabók segir um skála Ingólfs í Skálafelli: “Ingólfr [við Hjöleifshöfða] vetr annann en um sumarit eptir fór hann vestr með sjó hann var hinn þriðja vetr undir Ingólfsfelli fur vestan Ölfusá þau misseri fundu þeir Vífill ok Karli öndvegissúlur hans við Arnarhvol fur neðan heiði 8 Ingólfr fór um vorit ofan um heiði hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komit hann bjó í Reykjarvík þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi En Ingólfr nam land millum Ölvusár ok Hvalfjarðar fur utan Brynjudalsá milli ok Öxarár ok öll nes út þá mælti Karli til ills fórum vèr um góð heröð er vèr skulum byggja útnes þetta hann hvarf á brott ok ambátt með honum Vífli gaf Ingólfr frelsi ók bygði hann á Vífilsstöðum við hann er kendt Vífilsfelt þar bjó hann lengi ok var skilríkr maðr Ingólfr lèt gera skála á Skálafelli þaðan sá hann reyki við Ölvusvatn ok fann þar Karla.”

Landnámabók

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

Landnáma telur helstu landnámsmenn Íslands, segir hvar þeir námu land og greinir nokkuð frá uppruna þeirra og afkomendum. Bókin var sett saman á fyrra hluta 12. aldar, og mun Ari fróði hafa verið riðinn við hina fyrstu gerð, en hún er nú löngu glötuð. Elstu varðveittar gerðir Landnámu eru frá síðara hluta 13. aldar og frá 14. öld, en þær eru mjög auknar með nýjum ættartölum og frásögnum af ýmsu tagi. Elst er Sturlubók, sett saman af Sturlu Þórðarsyni lögmanni (d. 1284). Næst er Hauksbók, gerð af Hauki lögmanni Erlendssyni (d. 1334). Kveðst Haukur hafa ritað sína Landnámabók „eftir þeirri bók sem ritað hafði herra Sturla lögmaður […] og eftir þeirri bók annarri er ritað hafði Styrmir hinn fróði“. Styrmir lést 1245, en Landnámabók hans er glötuð. Þriðja forna gerðin, Melabók, er aðeins varð­veitt í brotum, og er það mikið mein því að hún hefur að mörgu leyti staðið næst frumtext­anum.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.

– Sumt af viðaukum Sturlubókar (og Hauksbókar) er sótt í kunnar heimildir, til að mynda Íslendingasögur (Egils sögu, Eyrbyggju, Vatnsdælu o.fl.). En hin upprunalega Land­náma hefur verið gagnorð og traust heimild í líkingu við Íslendingabók. Sagt hefur verið, að þótt frumtextinn sé víða óvís eða glataður með öllu, séu þær gerðir Landnáma­bókar sem enn eru til merkustu heimildir sem nokkur þjóð á um uppruna sinn.

Í Landnámsbók segir: “Ingólfur fór um vorið ofan um heiði; hann tók sér bústað þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið; hann bjó í Reykjarvík; þar eru enn öndugissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar fyrir utan Brynjudalsá, milli og Öxarár, og öll nes út.
Þá mælti Karli: „Til ills fóru vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta.“
Hann hvarf á brutt og ambátt með honum.
Vífli gaf Ingólfur frelsi, og byggði hann að Vífilstóftum; við hann er kennt Vífilsfell; þar bjó (hann) lengi, varð skilríkur maður.
Ingólfur lét gera skála á Skálafelli; þaðan sá hann reyki við Ölfusvatn og fann þar Karla.”

FERLIR skoðaði meintan skála Ingólfs í Skálafelli, sbr. meðfylgjandi myndir. Auk tóftarinnar má greina fleirri tóftir skammt frá henni.

Heimildir:
-Landnáma – 8. kafli.
-Íslendingabók, bls. 33.

Skálafell

Tóftin í Skálafelli.