Færslur

Mosfellsbær - skilti við Reykjalund.

Við Reykjalund í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Reykjalund.

“Vinnuheimilið að Reykjalundi var vígt 1. febrúar 1945. Þá höfðu nokkur íbúðarhús fyrir vistmenn verið reist við svonefnda Efribraut og bröggum frá hernámsárununum var fundið nýtt hlutverk. Braggarnir voru notaðir sem vinnuskálar en að Reykjalundi var rekinn ýmis konar iðnaður frá fyrstu tíð, m.a. smíðuð leikföng í stórum stíl.

Ap Reykjalundi var háð um árabil ötul barátta gegn berklaveikinni sem var einn helsti vágestur íslensks samfélags á fyrri hluta 20. aldar. Eftir að það tókst að vinna bug á berklum hér á landi varð Reykjalundur alhliða endurhægingarstöð en einnig var rekinn hér umfangsmikil plastiðnaður.

Markmið Reykjalundar er að veita læknisfræðilega, atvinnulega og félagslega endurhæfingu. Reykjalundur er í eigu SÍBS, Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga og starfrækir hér einnig vinnustofuna Múlalund.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær – skilti við Reykjalund.

Mosfellsbær

Við Lágafell í Mosfellsbæ er skilti. Á því má lesa eftirfarandi upplýsingar:

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Lágafell; skilti.

“Að Lágafelli var bænahús á miðöldum en Lágafellskirkja var vígð árið 1889 og er að stofni til sú sama og hér stendur. Endurbætur voru gerðar á kirkjunni 1956 og 1979. Lágafellskirkja tekur 160-180 manns í sæti.

Lágafell er gömul bújörð pg prestar Mosfellinga sátu hér í kringum aldamótin 1900, Á þriðja áratug 20. aldar eignaðist athafnamaðurinn Thor Jensen (1863-1947) jörðina og bjó hér á efri árum sínum í íbúðarhúsi sem stendur enn. Á 5. áratugnum keypti Mosfellshreppur hluta af Lágafellslandi og var því skipt niður í nokkur nýbýli þar sem búskapur var um nokkurt skeið. Stór hluti þéttbýliskjarna Mosfellsbæjar hefur risið í landi Lágafells.”

Mosfellsbær

Mosfellsbær – Lágafell; skilti. Mynd: Þessi ljósmynd var tekin af Mosfellingum árið 1901 eftir messu að Lágafelli. Fyrir miðri mynd sitja Guðrún Þorláksdóttir og Sigurður Guðmundsson frá Korpúlfsstöðum sem héldu gullbrúðkaup sitt hátíðlegt þennan dag. Ljósm. Sigfús Eymundsson

Helgafell

Á svonefndum Ásum norðan Helgafells í Mosfellsbæ eru tvö upplýsingaskilti. Annað er um gönguleið á fellið og sjáanlegar minjar. Hitt er um jarðfræði og gróður í Mosfellssveit. Hér má lesa textann á báðum skiltunum:

Helgafell

Horft að bænum Helgafelli á stríðsárunum.

“Helgafell er úr blágrýti og rís 217 m yfir sjávarmáli. Sunnan undir fjallinu stendur samnefnt býli sem fyrst er getið um í heimildum á 16. öld.

Mosfellsbær

Vatnsgeymar á Ásum.

Við erum stödd á svonefndum Ásum, hér reis mikil byggð á hernámsárunum, mest norðan við akveginn, m.a. geysistórt sjúkrahús. Flest mannvirkin eru horfin en þó má sjá hér á hæðinni tvo vatnsgeyma frá stríðsárunum sem miðluðu köldu vatni í bragga og önnur hús. Vatni var dælt úr Köldukvósl í geyminn, sem austar stendur, en í hinn var safnað vatni úr hlíðum Helgafells. Þriðji vatnsgeymirinn, nú hrofinn, var úr stáli og fyrir heitt vatn sem dælt var frá Reykjum og notað til upphitunar hér á Ásunum.

Helgafell

Helgafell – gönguleið.

Héðan liggur stikuð gönguleið upp á Helgafell framhjá leifum af námu þar sem leitað var að gulli snemma á 20. öld. Gönguleiðin liggur austur um fjallið og niður í Stekkjargil þar sem sjá má rústir af fjárstekk frá Helgafelli.

Þar getur göngufólk valið um tvær leiðir og gengið annaðhvort eftir stikaðri leið í áttina að Reykjalundi eða um Skammadal og Mosfellsdal aftur hingað að Ásum.

Mosfellsbær

Hermenn á ferð um vegamót Vesturlandsvegar og Þingvallavegar – Vegatálmar.

Lífseig er sagan um hjúkrunarkonu sem starfaði hér á Ásum á stríðsárunum en fórst með vofveiflegum hætti. Sumir telja að hún sé hér enn á kreiki, stöðvi bíla og dimmum kvöldum og biðji um far. Þegar ökumenn hyggjast spjalla við þennan kynlega farþega eða hleypa honum út er hann á bak og burt!

Mosfellsbær

Helgafells hospital.

Pétur B. Guðmundsson (1906-1978) bóndi á Laxnesi var einn þeirra sem lenti í slíkri lífsreynslu og ritað um hana í bók: “Allt í einu greip hún eldsnöggt með annarri hendinni í stýrið og þverbeygði útaf veginum, svo bíllinn stakkst útaf, en um leið og hún greip í stýrið leið eins og sársaukastuna frá henni.
Ég gerði mér ekki grein fyrir neinu, en rauk út úr bílnum, hljóp aftur fyrir hann, og þegar ég kom að hinni hurðinni þreif ég hana upp og rétti höndina inn í bílinn, því ég var ákveðinn í því, að farþeginn skyldi út hvað sem tautaði. En – hönd mín greip í tómt. Það var enginn í sætinu.”

Velkomin á stikaðar gönguleiðir Mosfellsbæjar

Reykir

Mosfellsbær – herseta ofan Reykja.

Mosfellsbær er um 200 ferkílómetrar að stærð. Hér eru víðáttumikil náttúrleg svæði og einstakir útivistarmöguleikar í lítt snertu landslagi upp til heiða, við vötn og ár og strandlengjuna. Áberandi eru fellin og gróðursælir dalir auk tveggja jarðhitasvæða.

Helgufoss

Helgufoss.

Leirvogur gengur inn úr Kollafirði og í hann falla þrjár ár: Leirvogsá, Kaldakvísl og Varmá. Leirvogur er nefndur í fornsögum, þar var alþekkt skipalægi til forna og þaðan lá leið til Þingavalla og annarra landshluta.
Gönguleiðir eru margar og fjölbreyttar í Mosfellsbæ. Fjöllin eru að vísu ekki há, það hæsta er Grímannsfell, tæplega 500 m.y.s. Náttúruperlur og skoðunarverðir staðir eru víða við gönguleiðirnar. Má þar nefna Leirvogsá og Tröllafoss, sem er friðlýst náttúruvætti, Köldukvísl og Helgufoss, Varmá og Álafosskvos, Nóngilsfoss og Katlagil, Grettistak á Þverfelli og Seljadal. Fornar þjóðleiðir, seljarústir og aðrar sögulegar minjar eru einnig víða við gönguleiðirinar.”

Á hinu skiltinu má lesa um jarðfræði og gróður:

Jarðfræði

Mosfellsheiði

Mosfellsheiði – kort.

“Frá því að Stardalsmegineldstöðin kulnaði fyrir um tveimur milljónum ára hafa roföflin grafið dali og myndað það landslag sem við þekkjum í dag. Berggrunnurinn er að mestu hraun, sem runnu á hlýskeiði, og í fellunum má sjá hraunlög sem hafa hlaðist upp á löngum tíma.
Mosfellsheiði er dyngja og þaðan runnu hraunlög niður á láglendið í Mosfellssveit. Víða er jarðhiti í tengslum við virkar sprungur og misgengi sem teygja sig út frá gosbeltinu. Í Mosfellsdal eru þykk setlög sem benda til þess að þar hafi verið stöðuvatn.

Gróður

Mosfellsdalur

Mosfellsdalur – Katlagil framundan.

Við landnám var Mosfellssveit skógi vaxin en miklar breytingar hafa orðið vegna landnýtingar og uppblásturs. gróður teygir sig frá sjávarsíðunni, ipp dalina og fellin. Ofan tileru fellin gróðursnauð. Þar eru ríkjandi skófir á steinum og klöppum, mosi og hálendisplöntur. Við gönguleiðina um Stekkjargil, sunnan undir Helgafelli, hafa verið merktar nokkrar tegundir úr íslenskri flóru.”

Auk framangreinds texta má hér sjá stutta lýsingu á gönguleiðini frá Ásum á Helgafell:

“Stutt gönguleið sem opnar göngumönnum gott útsýni yfir nyrðri hluta höfuðborgarsvæðisins. Upphaf gönguleiðarinnar er við skilti á Ásum. Skammt ofar má sjá gönguslóðann á ská upp fellið. Honum er fylgt á toppinn og svo sömu leið til baka.

Helgafell

Helgafell – leifar vatnstanka.

Á Ásum má sjá leifar af mannvirkjum frá síðari heimsstyrjöldinni. Þarna voru vatnstankar sem voru notaðir til að dæla vatni í sjúkrahús þarna rétt hjá. Var það kallað Helgafell hospital.

Mosfellsbær

Herminjar norðan Helgafells, á Ásum.

Göngustígurinn liggur á ská upp fjallið og er hann merktur með appelsínugulum stikum. Fara þarf varlega á leiðinni upp og niður.

Rétt áður en lagt er á brattann má sjá litla dæld eða laut í fjallinu. Þetta eru leifar af gullnámu frá því rétt eftir aldamótin 1900. Ekki var mikið leitað að gulli né fannst mikið og var gröftur meira byggður á væntingum en öðru.

Helgafell

Helgafell – vatnstakar/loftmynd.

Þegar upp er komið er um 3 – 400 metra gangur að hæsta punkti fjallsins. Sést vel yfir Mosfellsbæ, Esju og yfir sundin svo og hluta Reykjavíkur. Með því að ganga aðeins út á suðurbrúnir má Stekkjartjörn og niður eftir Stekkjargili þar sem gamlan stekk frá Helgafelli er að finna.

Efst má sjá leifar af gömlu varðbyrgi frá hernámsárunum. “

Helgafell

Helgafell – skilti.

Camp Hopkins

Skammt norðan Nesvegar millum Reykjaness og Reykjanesbæjar hefur tveimur tilbúnum vörðum fyrir komið; nokkurs konar minnismerkjum.  Á sitthvorri vörðunni er skilti þar sem á má lesa eftirfarandi texta:

Varða við Nesveg

Vestari varðan, minnismerki um Camp Hopkins.

Á þeirri vestari; “Bandaríski herinn á Íslandi

Vorið 1941 kom Churchill forsætisráðherra Breta fram með þá tillögu við Fanklin Roosevelt forseta Bandaríkjanna, að bandarískur her leysti sveitir Breta af. Roosevelt var tregur til að senda hermenn án þess að ósk um slíkt kæmi frá íslenskum stjórnvöldum. Engu að síður þá var snemma í júní tekið til við að udnirbúa för bandarísks herliðs til Íslands. Bandarískar könnunarsveitir voru sendar til landsins til að skoða hugsanlega staði fyrir eftirlitsflugvelli og safna gögnum um húsnæði og lífskjör; loftvarnir, varnir við ströndina og við hafnir; og ástand hernaðarmannvirkja.
Bandaríkjamenn fengu formlegt boð frá Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra Íslands, í júlí 1941. Þann sama dag tilkynnti bandaríkjaforseti þinginu um ráðstöfun sveita úr loft-, land- og sjóher til Íslands.

Bandarískir sjóliðar fyrstir á staðinn

Camp Hopkins

Ljósmynd á vestari vörðunni.

Fyrsta stórfylki sjóhersins, undir stjórn John Marston, hershöfðingja, var fyrsta bandaríska herliðið sem kom til Íslands. Það lenti við Reykjavíkurhöfn 7. júlí og fékk brátt liðsauka frá flugher, flota og landher.
Sjóliðarnir bjuggu upphaflega til bráðabirgða í Nissenskálum sem bresku hersveitirnar höfðu reist og hófust brátt handa við að byggja nýjar herbúðir. Victoria Park og Camp MacArthur, tvær samliggjandi herbúðir í Mosfellssveit norðaustur af Reykjavík, voru teknar í notkun af fyrsta herfylki. Annað herfylki kom sér fyrir í Camp Baldurshagi. Þriðja herfylki tók yfir breskar búðir, Camp Brautarholt, sem voru staðsettar á klettanesi nálægt innsiglingunni í Hvalfjörð. Þetta voru litlar ókláraðar búðir án rafmagns eða pípulagna. Hlöðu hafði verið breytt í matsal yfirmanna. Fimmta varnarherfylki, loftvarnasveit, var dreift í nokkrar búðir nálægt höfninni og fyrir austan borgina. Stórskotaliðið sá um að manna byggingarflokka sem reistu marga Nissenskála og önnur herbúðarmannvirki og byssustæði.

Camp Hopskins

Ljósmynd á vestari vörðunni.

Sjötta sjóliðasveit sem var hreyfanleg sveit, fékk það verkefni að byggja nýjar herbúðir til að hýsa sveitir landhersins. Litlar búðir með Nissenskálum höfðu áður verið reistar af Bretum, en pípu- og raflagnir og aðra aðstöðu átti enn eftir að útbúa. Sjóliðarnir reistu þess bráðabirgðaskála með hraði sem svefnskála, spítala, kirkjur, matsali, bíósali, vöruhús og skrifstofur. Í janúar 1942 fékk Sjóherinn skipun um að láta Landhernum eftir herbúðir sínar og snúa aftur til Bandaríkjanna þar sem þeim yrði fengin önnur verkefni. Í mars höfðu stórar sveitir bandaríska flotans. landhersins og flugsveita landhersins (AAF) komið sér fyrir á Íslandi.”

Á þeirri austari; “Bandaríkjaher tekur við stjórninni

Varða norðan Nesvegar

Austari minnisvarðinn um Camp Hopkins norðan Nesvegar…

Í apríl 1942 var skiptingunni frá bresku herliði yfir í bandaríkst herlið að mestu lokið. 22. apríl tók Bandaríkjaher við yfirstjórn herliðsins á Íslandi, undir stjórn Charles H. Bonesteel majórs. Boonesteel setti upp aðalstöðvar í Camp Tadcaster (sem var endurskírður Camp Pershing) við Elliðaár í Reykjavík, og var þá 3 km fyrir utan borgina og 1.5 km fyrir austan fyrrum höfuðstöðvar breska hersins í Camp Alabaster.
Hersveitirnar voru dreifðar um fjöldan allan af herbúðum innanbæjar, fyrir austan borgina, í Hafnarfirði í suðri og í Mosfellsbæ í norðaustri. Aðalstöðvar bandaríska flotans voru staðsettar í Camp Knox í norðvesturhluta Reykjavíkur og flugstöðvar flotans tóku yfir tvær stórar herbúðir við norðurströnd Fossvogs nálægt flugvellinum sem Bretar höfðu byggt. Flestar þessara búða hafa nú horfið vegna stækkunar borgarinnar. Þær fáu byggingaleifar sem enn standa eru vel varðveittar steinhleðslur, skorsteinar, vegir, stígar og stöku virki.

Herbúðabyggingar og herbúðalíf

Camp Norflok

Uppbygging braggabyrgðar

Liðsafli verkfræðisveita sem áttu að sjá um byggingu herbúða var lítill og var oft aukinn með mönnum frá öðrum sveitum auk innlendra verkamanna. Verkið sóttist seint vegna óblíðs veðurfars og upp komu alvarleg tæknileg vandamál. Aðflutningar byggingarefnis voru mikið vandamál þar sem Ísland var langt frá birgðastöðvum hersins.
Stórskotalið sem áttu að byggja fleiri herbúðir sendu vinnuflokka á valda staði til að reisa Nissenskála undir verkstjórn fárra manna úr sveit konunglegra verkfræðinga. Ekki var óalgengt að mennirnir ynnu 16 stundir á sólarhring og fjöldinn allur af herbúðum var reistur á nokkrum vikum. Hópur sex eða fleiri manna gat reist skála á nokkrum klukkustundum. Hóparnir luku 16 skálum á dag.

Camp hopkins

Camp Hopkins.

Nissenskálarnir var einfaldur í smíði. Endar hvers skála voru gerðir úr þremur viðareiningum sem mhægt var að setja saman á nokkrum mínútum. Klæðningin að innanverðu var gerð úr viðarplötum á 4×2 stálgrind. Bogadregnir veggirnir og þakið voru klæddir bárujánsplötum. Tvö lög að málmplötum voru sett neðst í hliðarnar en þakið var með einfaldri klæðningu. Byggingunni var haldið uppi af sveigðum burðarbitum (T-bitum) úr stáli. Hverjum skála fylgdi fullkomið sett af verkfærum og tækjum. Það eina sem þurfti að gera á staðnum var að útbúa grunn úr steinsteypu eða hraunkubbum.”

Fyrrnefndir braggar voru nefndir eftir hönnuðinum, Bjorn Farlein Nissen, en hann fæddist í Gjorvik nálægt Osló 1863, fluttist til Ameríku og starfaði þar við hönnun.

Camp Hopkins

Camp Hopkins -uppdráttur.

Hafnaberg

Við bílastæði á Nesvegi ofan við Hafnaberg eru tvö skilti. Annað felur í sér upplýsingar um bjargið og íbúa þess og hitt eru nánari skil á hinum síðarnefndu. Reyndar er textinn orðinn allmáður, en með því að rýna í hann af gaumgæfni má lesa eftirfarandi á textaskiltinu:

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

“Bjargið er myndað úr basalt hraunlögum sem mynda syllur. Sökum þess hve vogskorið það er býður það upp á gott aðgengi til fuglaskoðunar og í því má sjá flestar tegundir íslenskra bjargfugla.

Efst með brúnum verpa fýlar á breiðum hraunsyllum og í litlum skútum. Flestir taka þó eftir ritunni, bæði er mest af henni og að auki er hún hávær fugl. Bjargið ómar af hástemmdum klið frá ritum, blönduðum lágstemmdari röddum svartfuglanna. Rituhreiðrin eru dreifð um allt bjargið og á mjóum syllum byggir ritan upp hreiður úr sinu og gróðri, sem límd eru saman með driti. Langvían er næst ritunni að fjölda. Langvían er frekar hnappdreifð og býr í þéttu sambýli á tiltölulega breiðum syllum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – skilti.

Í bjarginu eru hellar með þéttri langvíubyggð. Stuttnefjan verpir á þrengri syllum en langvían og ekki í eins miklu þéttbýli. Stuttnefjum hefur fækkað mikið í Hafnabergi undanfarna áratugi. Eggjum langvíu og stuttnefju er verp beint á grjótsylluna og skurn eggjanna er frekar þykk. Litamynstur þeirra er fjölbreytt og talið að foreldrarnir þekki egg sitt á því. Lögum eggjanna er þannig að þau velta ekki beint undan halla, heldur í hring.

Meðal annarra fugla sem verpa í bjarginu er álkan, en erfitt getur verið að koma auga á hreiður hennar þar sem það er oftast inni í urðum og skútum.

Hafnaberg

Hafnaberg – textinn.

Lundinn verpir einnig í bjarginu í sprungum og holum, en pörin eru nokkuð fá. Sama er að segja um teistur sem verpa í urðum neðst í bjarginu.

Varp hefst í bjarginu seinni hluta maí og liggja svartfuglar á eggjum í rúma 30 daga. Ungar svartfuglanna hoppa svo ófleygir úr bjarginu um 20 daga gamlir og halda með foreldrunum á haf út. þegar ungarnir hoppa heyrast mikil hljóð í foreldrunum þegar þau hvetja ungana til dáða og tíst í unganum á móti. Þetta gerist helst um lágnættið þegar farið er að skyggja svo skúmar og aðrir ræningjar komi síður auga á ungana þegar þeir taka fyrstu skrefin.”

Hafnaberg

Hafnaberg – hreiður.

Eldey

Við Valahnúk á Reykjanesi er skilti skammt frá bronsstyttu af geirfugli. Á skiltinu er eftirfarandi texti:

Reykjanes

Reykjanes – stytta af geirfugli.

“Reykjanesbær er þátttakandi í alþjóðlegu lisverkefni “The Lost Bird Project”. Listamaðurinn Todd McGrain hefur í nokkur ár unnið að gerð skúlptúra af útdauðum fuglum m.a. geirfuglinum og vill þannig vekja athygli samtímans á umhverfisvernd og ást á náttúrunni.

Hann vinnur fuglana í brons og er hverjum fugli ætlaður staður víðs vegar um heiminn, allt eftir því hvar þeirra upprunulegu heimkynni voru. Verkið er gjöf listamannsins til Reykjanesbæjar.

Í tilefni þess að talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn í Eldey 3. júní 1844 hefur verið ákveðið að styttan afgeirfuglinum verði sett upp neðan við Valahnúk á Reykjanesi og mun fuglinn horfa til Eldeyjar og minna okkur um leið á sameiginlega ábyrgð allra þjóða á náttúru og umhverfisvernd.”

Reykjanes

Reykjanes – skilti.

Brú milli heimsálfa

Við “Brú milli heimsálfa” á vestanverðum Reykjanesskaganum, skammt ofan við Stóru-Sandvík eru tvö skilti, sitt hvoru megin við brúna.

Á vestari skiltinu stendur eftirfarandi:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Vestara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Norður-Ameríkuflekanum, sjötta stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. Fyrir um 200 milljónum ára var hann samfastur Evrasíu-, Afríku, og Suður-Ameríkuflekanum eða allt þar til risa meginlandið Pangea tók að klofna í sundur. Atlantshafið tók að myndast í suðri milli Afríku og Suður-Ameríku fyrir um 135 milljónum ára, en aðskilnaður Ameríku og Evrasíu flekana hófst hins vegar fyrir um 65 milljónum ára.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Ameríkuflekinn.

Í vestanverðri Norður-Ameríku má finna tiltölulega ung fjöll þar sem flekinn lendir í átökum við Kyrrahafsflekann. í austanverðri norður-Ameríku er að finna Appalaciafjöllin sem urðu til fyrir meira en 250 milljónum ára er risameginlandið Pangea var að myndast.

Mikill fjöldi fólks á Norður-Ameríkuflekanum býr í stórborgum. Þar er sömuleiðis að finna mikið landflæmi sem eru óbyggðir að kalla, t.d. á Kanadaskyldinum sem er gífurlega stór forngrýtisskjöldur sem var til fyrir um þremur milljörðum ára.

Brú milli heimsálfa

Brúin milli heimsálfa.

New York er fjölmennasta borgin á Norður-Ameríkuflekanum (19.6 milljónir íbúa árið 2012). Hæsti tindurinn er McKinleyfjall í Bandaríkjunum (6.149 metra yfir sjávarmáli) en mesta dýpið er í Púertó Ríkó rennunni (6.648 metrar undir sjávarmáli).”

Á austara skiltinu stendur:

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa. Austara skiltið.

“Þú getur ímyndað þér að þú standir nú á Evrasíuflekanum, stærsta jarðskorpufleka jarðarinnar. þar er að finna sumar elstu bergmyndanir jarðskorpunnar,nánar tiltekið í Austur-Síberíu á víðáttumestum sléttum jarðar.

Norður-Ameríkuflekinn fjarlægist Evrasíuflekann í vestri og Atlantshafið víkkar um leið. Í austri streyma Kyrrahafs- og Filippseyjaflekarnir inn undir Evrasíuflekann og mynda eldfjallaeyjaboga, s.s. Japan og Filippseyjar.

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – Evrasíuflekinn.

Í suðri reka Indlands- og Ástralíuflekana í norður. Við árekstur þessara fleka verður til hæsti fjallgarður í heimi, Himalajafjöll.

Um 75% mannkyns búa á Evrasíuflekanum en dreifing íbúanna er ákaflega mosjöfn. Flestir búa í Evrópu, Indlandi, Kína og í Suðaustur-Asíu. þessi svæði eru jafnframt þéttbýlustu svæði jarðar.

Tokyo er fjölmennasta borgin á Evrasíuflekanum (35.7 milljónir íbúa árið 2011). Hæsti tindurinn er Everestfjall í Nepal (8.850 metrar yfir sjávarmáli) en mesta dýpið í Galatheudjúpinu (10.540 metrar undir sjávarmáli).”

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa – austurveggur gjárinnar.

Reykjanes

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Tvö þeirra eru um vitana, annars vegar á Valahnúk og hins vegar á Vatnsfelli. Um fyrrnefnda vitann segir:

Reykjanesviti

Vitinn á Valahnúk.

“Fyrsti ljósvitinn á Íslandi var reistur á Valahnúk árið 1878. Hann var tekinn í notkun 1. desember sama ár. Vitinn var áttstrendur, 4.5 metrar í þvermál og 8.2 metrar á hæð. Hann var hlaðinn úr tilhöggnum íslenskum grásteini. Þykkt veggjanna hefur verið um 1 metri. ljóskerið á vitanum var áttstrent eins og vitinn með koparhvelfingu yfir. Neðan ljóskersins voru vistarverur fyrir tvo vitaverði sem gættu ljóssins á meðan logaðu á honum, frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Vitinn eyddi að meðaltali 16 tunnum af olíu á ári.

Vitinn fór illa í jarðskjálfta 28. október 1887. Þá hrundi mikið úr Valahnúk og allir lampar og speglar í vitanum fóru í gólfið. Næstu nætt var ómögulegt að kveikja á vitanum. Árið 1905 höfðu jarðskjálftar og brim brotið það mikið úr hnúknum að hætta þótti á að vitinn myndi hrynja í sjóinn.

Reykjanesviti

Flóraður stígur milli hús vitavarðar að vitanum á Valahnúk.

Vitavörðurinn var einnig hræddur við að vera á vakt enda ekki nema 10 metrar frá vitanum fram á brún. Því var ákveðið að reisa nýjan vita á Vatnsfelli og stendur hann enn. Gamli vitinn var hins vegar felldur með sprengingu 16. apríl 1908.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – grjótið úr gamla vitanum á Valahnúk.

Grjótið hér til hægri eru leifar vitans.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – leifar af geymsluskúrnum undir Valahnúk.

Hleðslan til vinstri eru leifar geymsluhússins sem þjónaði vitanum.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Valahnúk – skilti.

Reykjanesviti

Við Valahnúk á Reykjanesi eru þrjú upplýsingaskilti. Á einu þeirra eru upplýsingar um Reykjanesvita. Þar stendur eftirfarandi:

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

“Reykjanesviti er elsti vitinn sem nú stendur við Íslandsstrendur, tekinn í notkun 20. mars 1908. Vitinn var fyrsta stórframkvæmdin sem ráðist var í eftir að Íslendingar fengu heimastjórn frá Dönum 1. desember 1904.

Vitinn er sívalur turn, 9 metrar í þvermál neðst en 5 metrar efst. Hæð hans er 20 metrar og stendur hann á breiðri 2.2 metra hárri undirstöðu. Ljóshúsið er 4.5 metrar á hæð og er heildarhæð vitans 26.7 metrar. veggirnir eru tvískiptir. Ytra byrðið er úr tilhöggnu grjóti en innra byrði úr steinsteypu. Þykkt þeirra við sökkul er 3.2 metrar en efst er veggþykktin 1.2 metrar.

Upphaflegur ljósgjafi vitans var steinolíulampi og var ljós hans magnað með 500 millimetra snúningslinsu. þetta snúningstæki, knúið af lóðum sem vitavörðurinn dró upp með reglulegu millibili. Gastæki var sett í vitann árið 1929 og var þá gasþrýstingurinn látinn snúa linsunni. Vitinn var rafvæddur árið 1957.

Reykjanesviti

Reykjanesviti á Vatnsfelli.

Vitavörður var búsettur á Reykjanesi frá upphafi vitareksturs árið 1878 fram til ársins 1999. Íbúðarhúsið sem nú stendur við vitann var byggt árið 1947. Vitaverðirnir stunduðu búskap samhliða starfi sínu og má víða sjá ummerki um búsetu þeirra m.a. tóftir eldri húsa og hlaðna garða.”

Reykjanesviti

Reykjanesviti – skilti.

Stampar

Neðan gígs á Stampagígaröðinni vestast á Reykjanesskaganum er skilti með eftirfarandi texta:

Stampar

Stampar.

“Tvær gossprungur liggja frá sjó inn í land á vestanverðu Reykjanesi og mynda gígaraðir. Þessar gígaraðir hafa verið kenndar við Stampa. Gígaraðirnar eru frá tveimur tímaskeiðum og fylgja stefnunni SV-NA sem er algengasta sprungustefna á Reykjanesi.

Sú eldri myndaðist í gosi á tæplega 4 kílómetra langri sprungu fyrir 1.800-2000 árum.

Stampar

Gígur á Stampagígaröðinni.

Yngri-Stampagígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á árunum 1210-1240. Gígaröðin er um 4 kílómetrar að lengd og er flatarmál þess hrauns sem þá rann um 4.6 km2. Þeir tveir gígar sem næst eru veginum, nefndir Stampar, eru við norðurenda gígaraðarinnar. Sunnar á gígaröðinni má sjá stæðilega gíga s.s. Miðahól. Eldborg dýpri og Eldborg grynnri sem allir voru notaðir sem mið við fiskveiðar fyrr á tímum. Flestir gígarnir eru þó klepragígar og lítt áberandi.

Þess má geta að í Reykjaneseldum 1210-1240 runnu fjögur hraun í Reykjanes- og Svartsengiskerfunum auk þess sem neðarsjávargos urðu í sjó undan Reykjanesi.

Stampar

Gígar á eldri gígaröðinni.

Hundrað gíga leiðin, merkt gönguleið, liggur að hluta um Stampahraunið. Leiðin hefst við Valahnúk á Reykjanesi og er 13 kílómetra löng. leiðin liggur m.a. um háhitasvæðið á Reykjanesi, fram hjá gjall- og klepragígum og móbergsfjallinu Sýrfelli að Stampagígunum. Þaðan er gengið um úfið helluhraun og sandskafla og þræðir leiðin sig frá vesturhlið gígsins sem er næst veginum, áfram eftir gígaröðinni, sjávarmegin við Reykjanesvirkjun. Gígarnir sem gengið er með fram eru fjölmargir og viðkvæmir.

Leyfilegt er að ganga á gíginn sem er nær veginum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að raska ekki viðkvæmum jarðminjum.”

Stampar

Stampar – skilti.