Tag Archive for: skilti

Fjörukot

Á Miðbakka í Reykjavík eru nokkur skilti um „fornbáta“ í eigu einstaklinga. Þar á meðal er sagt frá „Lukkugefinn„; tveggja manna fari á Suðurnesjum:

Lukkugefinn

Lukkugefinn; skilti.

„Lukkugefinn er talinn hafa verið smíðaður 1880-1890. Lengd, breidd og dýpt bátsins er 6.7 x 1.45 x 0.58 m. Hann er úr ljósum við, súðbyrtur. Hann er með mastur og var róið og siglt til 1954 en þá sett í hann vél. Báturinn er mjór og grunnskreiður og hefur því verið léttur undir árum. Breidd hans bendir til að hann sé tveggja mann far en lengdin er hins vegar svipuð feræringum.
Heimildir greina ekki frá notkun bátsins fyrstu áratugina en vafalaust hefur honum verið róið til fiskjar enda góð fiskimið skammt undan landi.

Fjörukot

Fjörukot – Lukkugefinn.

Fyrsti nafngreindi eigandinn er Einar frá Þingholti í Gerðahreppi, nú Suðurnesjabæ. 1918 keypti Jón Jónsson síðan bátinn. Hann var frá Bárugerði, sem var ein af hjáleigu Bæjarskers í nágrenni Sandgerðis. Það ár fékk báturinn núverandi nafn. Þriðju nafngreidi eigandinn, Gunnar Jónsson, Reynistað í Sandgerði, var sonur Jóns Jónssonar. Þeir feðgar fóru í róðra á bátnum frá Bæjarskersvör.
Lukkugefinn er með elstu Suðurnesjabátum sem varðvesit hafa.“

Lukkugefinn er nú við Fjörukot vestan Sandgerðis þar sem hjónin Gunnhildur Gunnarsdóttir og Guðmundur Sigurbergsson ráða ríkjum.
Fjörukot

Kálfatjörn

Á Miðbakka í Reykjavík eru nokkur skilti um „fornbáta“ í eigu einstaklinga. Þar á meðal er sagt frá „Kálfatjarnarbátnum„; grásleppubát á Vatnsleysuströnd:

Kálfatjarnarbáturinn

Kálfatjarnarbáturinn – skilti.

„Báturinn er opinn vélbátur, smíðaður 1942. Smiður var Ingimundur Guðmundsson í Litlabæ, Vatnsleysuströnd, þ.e. nágranni Kálfatjarnarfólksins: Hann smíðaði marga báta bæði með og án vélar. Stærð: 1.5 tonn. Lengd, breidd og dýpt í m: 6.9 x 1.86 x 0.57.
Báturinn er úr eik og furu, súðbyrtur, með Engeyjarlagi. Vélin frá sex hestafla bensínvél af Göta-gerð. Hún hefur verið í bátnum frá upphafi. Stýri vantar, sennilega týnt.

Kálfatjörn

Kálfatjörn – upplýsingaskilti ofan Kálfatjarnarvarar.

Víða í landi Kálfatjarnar eru garðar, vörður, sjóbúðir og aðrar minjar um sjávarútveg á árabátatímanum. Kálfatjarnarvör er í fjörunni vestan til á jörðinni. Út af vörinni er Lónið innan stærsta skersins, Markakletts. Báturinn var líklega smíðaður fyrir bóndann á Kálfatjörn, Erlend Magnússon (1892-1975). Árið 1920 flutti hann að Kálfatjörn ásamt fjölskyldu sinni. hann rak eigin útgerð um tíma en aflagði jana um 1946.
Kálfatjarnarbáturinn var notaður til grásleppuveiða. Hann var síðasti báturinn sem tekinn var upp í vörina á Kálfatjörn, 7. ágúst 1974. Eftir það var hann notaður á Þingvallavatni.“

Báturinn er nú geymdur í skemmu við Halakot á Vatnsleysuströnd.

Kálfatjarnarbátur

Kálfatjarnarbáturinn t.v. og Halakotsbáturinn t.h. í sjóhúsinu ofan Halakotsvarar.

Reykjanesbær

Við norðanverða Ægisgötu í Reykjanesbæ, neðan Hafnargötu 2, er skilti með yfirskriftinni „Hús Duus kaupmanns“. Á skiltinu má sjá eftirfarandi fróðleik:

Reykjanesbær

Duus-hús; skilti.

„Við Keflavíkurtúnið standa tvö hús sem Hans Pétur Duus lét reisa fyrir verslun sína. Verslunin var rekin í Gömlubúð sem reist var árið 1870. Til móts við það stendur Bryggjuhúsið sem var gríðarstórt og mikið pakkhús, byggt árið 1879. Þessi tvo hús standa enn. Á myndinni sést einnig eldra verslunarhúsið sem nú er horfið.
Kaupmaðurinn lagði áherslu á gott viðhald húsanna. Hann lét á hverju ári bera blöndu af tjöru og lýsi á húsin enda er viðurinn í húsunum enn í góðu ástandi.“
Duus-hús

Stekkjarkot

Við tilgátusmábýlið Stekkjarkot í Ytri-Njarðvík (Reykjanesbæ) er skilti. Á því má lesa eftirfarandi texta:

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

„Á 19. öld risu fjölmörg kot við sjóinn og voru þau fyrsti vísirunn að þéttbýliskjörnum. Stekkjarkot var fyrst reist á árunum 1855-1857 og var þurrabúð. Þurrabúðir stóðu á leigulandi og þurftu ábúendur að reiða sig á sjósókn til að draga fram lífið því ekki máttu þeir halda þar búfénað.
Búseta var stopul í Stekkjarkoti. Árið 1877 lagðist það í eyði en var aftur byggt upp árið 1917. Árið 1921 varð Stekkjarkot grasbýli sem gaf íbúm rétt til þess að halda einhverjar skepnur. Búseta lagðist endanlega af í Stekkjarkoti árið 1924.

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Húsið sem nú stendur hér var reist í tilefni af 50 ára afmæli Njarðvíkurkaupstaðar og opnað almenningi árið 1933. Við byggingu hússins var stuðst við endurminningar eins af síðustu íbúum hússins.
Húsið er byggt úr torfi og grjóti og er tvískipt. Eldri hlutinn á rætur að rekja til 19. aldar. Þar er hlóðaeldur og moldargólf. Yngra húsið er frá síðari búsetudögum. Baðstofa og eldhús eru alþiljuð og kolaeldavél komin í húsið svo ekki virðist hafa farið illa um heimilisfólk.

Stekkjarkot er í umsjón Byggðasafns Reykjanesbæjar. Nánari upplýsingar um opnunartíma má nálgast á vef safnsins.“

Stekkjarkot

Stekkjarkot.

Kaldársel

Í skrautgarðinum Hellisgerði í Hafnarfirði eru sex aðskilin skilti með yfirskriftinni „Kaldársel í 100 ár„.

Fyrsta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1925-1945:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli reis fyrsti sumarbúðakálinn sem KFUMfélögin hér á landi eignuðust. Félögin byggðu húsið árið 1925 til sumardvalar fyrir börn og var það vígt 25. júní sama ár.
Jólel Friðrik Ingvarsson var mikill frumkvöðull í KFUK í Hafnarfirði og gegndi lykilhlutverki við stofnun sumarbúðanna í Kaldárseli. Hann fór með sér Friðriki Friðrikssyni, stofnanda KFUM og KFUK í Reykjavík, í Kaldársel og í þeirri ferð fæddist sú hugmynd að þar væri gott fyrir KFUM að eiga bústað.

Kaldársel

Kaldársel 1926.

Náttúrfegurðin í Kaldárseli heillaði alla sem þangað komu. Nokkurra ára aðdragandi var að stofnun sumarbúðanna, þar sem félagar í KFUM báðu fyrir hugmyndinni og söfnuðu í skálasjóð.
Í Vísi árið 1929 lýsti Sigurbjörn Á Gíslason dagsferð í Kaldársel, meðal anars húsakynnum KFUM: „Í skálanum eru 2 smáherbergi, eldhús og svefnstofa, og eitt stórt [herbergi], þar eru 24 rúm. þrísett upp á við og 2 langborð í miðju, til að matast við. Félögin nota skálann sumpart handa sjálfum sér að sumarbústað og sumpart þó eða einkanlega nú sem drengjabústað. Drengirnir voru í þetta sinn flestir 8 til 10 ára gamlir, bæði úr Reykjavík og Hafnarfirði“.

Annað skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1946-1965:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Börnin sem dvalið hafa í Kaldárseli í gegnum tíðina eiga þaðan fallegar minningar um fjölbreytt starf og skemmtilegan leik.
Gyða Gunnarsdóttir skrifaði eftirfarandi orð um sína fyrstu sumarbúðaferð í Kaldársel árið 1958 sem hófst á ferðalaginu þangað; „Það kom rúta á Hverfisgötuna í Hafnarfirði og stoppaði fyrir framan KFUM og K húsið. Við stelpurnar vorum að fara í Kaldársel, ég í fyrsta sinn í fjórar vikur og var aðeins sex ára. Árið 1958. Ég var spennt. Jafngaman að fara í rútu og það var að fara í strætó en núna var að hefjast ævintýri.

Kaldársel

Kaldársel – buslað í Kaldá.

Leiðin lá út Hverfisgötuna og upp Öldugötuna og upp fyrir bæinn. Þegar rútan lagði af stað vinkaði mamma, ég vinkaði á móti og fann strax fryir heimþrá sem svo gleymdist fljótt vegna alls þess sem beið mín og gerðist. Leiðin lá um hraunið fyrir ofan bæinn, framhjá Sléttuhlíð og svo niður brekkuna með klettum á báðar hliðar næstum eins og Alammangjá á Þingvöllum. Svo blasti litla hvíta húsið við, húsið við Kaldána við Kaldársel, þar sem við allar í rútunni ætluðum að dvelja næstu fjórar vikurnar….“

Þriðja skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1966-1985:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í viðtali við Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur matráðskonu í Kaldárseli við tímaritið Bjarma árið 1985 rifjaði hún upp gamla tíma í Selinu eins og flestir kölluðu Kaldársel í daglegu tali: „Eldað var á kolavél sem var um leið eina upphitunin í skálanum. […] Í þá daga voru börnin heilan mánuð í einu í Selinu og þegar þau áttu að fara í bað, eins og nauðsynlegt var, þurfti að hita allt vatn á kolavélinni. Oft bogaði af manni sveitinn við það starfs og eitt sinn var mér orðið svo heitt að ég skutlaði mér út í Kaldá á eftir.

Kaldársel

Kaldársel endurbætt.

Það gefur einnig hugmynd um starfið þá, að eitt af kvöldverkum ráðskonunnar var að hreinsa útikamrana og grafa í jörð það sem í föturnar hafði safnast um daginn. Nú eru aðstæður allar aðrar og munar þar kannski mest um breytinguna sem varð þegar byggt var við skálann og hann endurbættur [árið] 1967. Nú höfum við heitt vatn frá olíuhitun og gasvél er tekinvið af gömlu kolavélinni. Enn höfum við þó ekki fengið rafmagn“.

Fjórða skiltið fjallar um KFUM og KFUK 1986-2005:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í Kaldárseli fá börnin að heyra um Jesú og ýmsar sögur úr Biblíunni. Auk þess læra þau mörg vers og kristilega söngva. Þeir Guðmundur Vignir og Friðfinnur Freyr höfðu þetta að segja í Barnablaðinu árið 1989 þegar þeir voru spurðir að því hvað þeir höfðu helst lært af verunni í Kaldárseli: „Fyrst og fremst höfum við lært um Guð. Það er allatf verið að tala um Guð hérna. Okkur eru sagðar kristilegar sögur og venjulegar sögur sem við eigum að læra eitthvað af. T.d. höfum við lært að fyrirgefa og hvað það er nauðsynlegt að vera vinir, sagði Guðmundur.

Kaldársel

Drengir í Kaldárseli.

Það slettist þó stundum upp á vinskapinn, sagði Friðfinnur, en við leysum alltaf úr öllum hlutum og allir verða vinir aftur.“
Þrisvar sinnum var farið í stækkun á Kaldárseli og aðbúnaðurinn bættur í takt við auknar kröfur samtímans. Ný stór viðbygging var vígð sunnudaginn 24. júní 1990. Sama ár var fengin díselvél sem sá skálanum fyrir rafmagni og hita en fyrir það hafði ekki verið rafmagn í Kaldárseli. Um 250 börn dvöldust í sumarbúðunum það árið og voru þau 38 í einu þegar flokkurinn var fullskipaður“.

Fimmta skiltið fjallar um KFUM og KFUK 2006-2025:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Í 100 ára hafa börn komið í Kaldársel, þar hafa þau fengið dýrmæt tækifæri til að rækta líkama, sál og anda. Umhverfi Kaldársels spilar stórt hlutverk í dagskrá sumarbúðanna og leikjanámskeiðanna. Þar er fjöldi hella og ævintýralegra staða sem gaman er að skoða. Fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir börnin allan daginn. Útileikir, sullað í ánni, búleikir og virki í hrauninu, hellaferðir, fjallganga, samverustundir, fræðsla, föndur, söngur og bænir svo eitthvað sé nefnt. Í Kaldárseli er leitast við að efla og styðja góð samskipti með uppbyggilegri leiðsögn og kristnifræðslu.

Kaldársel

Stúlkur í Kaldárseli.

Ásamt sumarbúðunum hefur Vinasetrið bæst við í starfsemi Kaldársels og er það starfrækt um helgar allan ársins hring. Tilgangur og markmið Vinasetursins er að veita börnum og fjölskyldum þeirra sem þurfa á þéttu stuðningsneti frá fagfólki að halda athvarf og stuðning. Unnið er af heilhug eftir þeirri hugsjón að hvert barn er einstakt og á skilið það allra besta.
Kaldársel hefur verið til staðar fyrir börnin okkar í 100 ár“.

Sjötta skiltið fjallar um Benedikt Arnkelsson og Sigrúnu Sumarrós Jónsdóttur:

Kaldársel

Kaldársel 100 ára; skilti.

„Benedkit forstöðumaður, alltaf kallaður Benni, starfaði í Kaldárseli í rúmlega 45 sumur og lengur ef talin eru sumur þar sem hann kom til aðstoðar í tyttri tíma. Hann var trúr sinni köllun af vera innanlandskristniboði. Hann hafði fastar skorður á hlutunum og náði vel til barnanna.
Sigrún Sumarrós, alltaf kölluð Rúna, var matráðskoma í Kaldárseli í um það bil 50 sumur. Eldhúsið var hjarta Kaldársels og Rúna sá til þess að hjartað sló traustum takti. Rúnu féll aldrei verk úr hendi og naut hún sín hvergi betur en í skarkala og hlátrasköllum barnanna.
Í sameiningu stýrðu Benni og Rúna sumarbúðunum í Kaldárseli með styrkri hendi og hlýju. Vitnisburðir óteljandi barna, sem nú eru löngu orðin fullorðin, segja að þau hafi gengið þeim í föður- og móðurstað meðan á dvöl þeirra stóð í Selinu góða“.

Heimild:
-Skilti í Hellisgerði í Hafnarfirði árið 2025.

Hellisgerði

Hellisgerði 2025.

Reykjavík

Við innganga í Grasagarðinn í Reykjavík eru skilti. Á þeim má lesa eftirfarandi texta:

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

„Velkomin í Grasagarðinn.
Grasagarðurinn var stofnaður árið 1961 og er eitt af söfnun Reykjavíkurborgar. Hlutverk hans er að varðveita og skrá plöntur til fræðslu, rannsókna og yndisauka. Í honum eru átta safndeildir með um 5.000 plöntum. Heildarfjöldi tegunda, undirtegunda, afbrigða og yrkja er rúmlega 3.500. Plöntusafn garðsins sýnir fjölbreytni þess gróðurs sem vex í norðlæga tempraða beltinu.

1. Flóra Íslands
Í safndeildinni er að finna um 300 af þeim u.þ.b. 485 tegundum blómplantna og byrkinga sem teljast til íslensku flórunnar. Reynt er af fremsta megni að líkja eftir náttúrlegum vaxtarsvæðum plantnanna, svo sem votlendi og jarðhitasvæðum.

Reykjavík

Í Grasagarðinum.

2. Fjölærar jurtir
Fjölæringum er raðað í beð eftir flokkun þeirra í plöntuættkvíslir og ættir. Í safndeildinni er að finna bæði tegundir af villtum uppruna, afbrigði þeirra sem og ræktuð yrki.

3. Rósir
Í safndeildinni eru sýnishorn af algengum rósategundum og mörgum þeirra rósayrkja sem eru í ræktun utandyra á Íslandi.

4. Lyngrósir
Safn sígrænna lyngrósarunna. Elsta lyngrósin, skógalyngrós, er frá árinu 1977, blómgast í maí og blómstrar stórum, bleikum, klukkulaga blómum. Einnig eru í safndeildinni ýmsar skógarbotnstegundir sem þrífast í súrum jarðvegi.

Reykjavík

Í Grasagarðinum.

5. Skógarbotnsplöntur
Skógarbotsplöntur safndeildarinnar eiga uppruna sinn á skógarsvæðum tempraða beltisins nyrðra og blómstra margar áður en tré laufgast. Þær þrífast best í skugga og í jarðvegi sem er ríkur af lífrænum plöntuleifum.

6 Trjásafn
Trjásafnið er stærsta safndeild Grasagarðsins og í henni eru fjöldi tegunda trjáa og runna prófaðar utandyra með tilliti til þrifa og harðgerðis.

7. Steinhæð

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

Í steinhæðinni eru erlendar fjölærar háfjallajurtit og smárunnar. Plöntunum er raðað saman eftir upprunalegum heimkynnum þeirra. Þar má finna plöntur frá fjallasvæðum Evrópu, Norður- og Suður-

Ameríku, Asíu og Eyjaálfu.

8. Nytjajurtagarður
Í safndeildinni eru ræktaðar matjurtir, krydd og lækningajurtir. Þar má finna allar helstu tegundir þeirra nytjajurta sem eru ræktaðar í heimilisgörðum á Íslandi.“

Reykjavík

Grasagarðurinn – skilti.

Mosfellsbær

Skammt norðan Hafravatns í Mosfellsbæ, við veg að sumarbústaðarbyggð, er skilti með yfirskriftinni „Jeffersonville„. Á því má lesa eftirfarandi fróðleik:

Mosfellsbær

Jeffersonville – skilti.

„Hinn 10. maí 1940 steig breskt hernámslið á land í Reykjavík og tók fljótlega að hreiðra um sig í Mosfellssveit, í tjöldum og síðan bröggum. Umsvif hernámsliðsins gjörbreytti ásýnd sveitarinnar og mannfjöldinn margfaldaðist; ári síðar kom bandarískt herlið til sögunnar og leysti það breska af hólmi.

Braggahverfi. svonefndir kampar, risu víða í Mosfellssveit og hlutu erlend nöfn, til dæmis Whitehorse, Victoria Park og McArthur. Flestir kamparnir voru í námunda við Varmá og í sunnanverðri sveitinni, meðal annars í grennd við Hafravatn og Geitháls.

Hér norðvestan við hafravatn stóð kampurinn Jeffersonville. Þar var meðal annars bakarí og ekið með framleiðsluna í önnur braggahverfi en einng voru hér skotfæra- og birgðageymslur svo og bílaverkstæði.

Braggabyggðin hér við Hafravatn er horfin en enn má sjá marga húsgrunna á þessum slóðum sem vitna um mannlíf undir bogalaga bárujárni á liðinni öld.“
Mosfellsbær

Hveradalir

Um tíma, á árunum 1927 til 1934, komu Anders Christian Carl Julius Höyer og kona hans, Eriku Höyer, sér fyrir í nýbýli við hverasvæðið í Hveradölum undir vestanverðri Hellisheiði og ræktuðu þar m.a. blóm og aðrar jurtir. Nánast engar leifar eru eftir af býlinu og athafnasvæði þeirra hjóna. Skíðaskálinn í dalnum var síðar byggður þar skammt vestar.

Höyer

Höyershjónin í Hveradölum. Erika Höyer (1900-1982) var húsfreyja í Hveradölum og síðar við Gunnuhver á Reykjanesi. Hún var gift Anders Christian Carl Julius Høyer (1885-1959) og vann ásamt manni sínum að garðyrkju og blómarækt í Hveradölum og síðan að því að herða hveraleir við jarðhita. Endurminningar hennar hafa komið út á íslensku og dönsku.
Erika fæddist í Kúrlandi. Hún flutti á fermingaraldri til Rússlands og að loknu fyrra stríði til Þýskalands. Síðan bjó hún mörg ár sem einyrki á heiðum Íslands. Í seinna stríði urðu Erika og maður hennar innlyksa í Danmörku. Árni Óla þýddi endurminningar hennar á íslensku og komu þær út árið 1942 undir nafninu Anna Iwanowna.

Í Degi árið 1955 mátti lesa eftirfarandi undir fyrirsögninni „Ræktaði blóm í Hveradölum – Landnám í Hveradölum og Reykjanesi„:
„Þau byggðu sér bæ við heitar laugar í Hveradölum við rætur Hellisheiðar, og bjuggu þar í 7 ár. Þar reis þá upp næst fyrsta gróðurhús á Íslandi og þar ræktuðu þau hjónin alls konar suðræn blóm. Þóttu það tíðindi í höfuðstaðnum, er þessi útlendi ræktunarmaður auglýsti að hann mundi hafa torgsölu á blómum.
Hann kom svo akandi með bilfarm af fallegum blómum op þau seldust öll á svipstundu. En með árunum urðu Hveradalir landnám skíðafólksins í æ stærri stíl, og þá var ekki rúm fyrir búskap Höyers. Þá hóf hann annað landnám sitt hér á landi og settist að úti á Reykjanestá, við heitar laugar þar.“

Í Reykvíkingi árið 1928 segir um „Gróðrastöðina í Hveradölum„:
„Þeir, sem farið hafa um Hellisheiði síðastliðið ár, munu flestir hafa tekið eftir nýbýlinu á heiðinni.
Sú var tíðin að engin bygð var á Hellisheiði, frá því er farið var frá Lækjarbotnum og þar til komið var austur yfir fjall.
Má nærri geta að gangandi mönnum á vetrardag hefur þótt leiðin löng þá. Svo var bygt að Kolviðarhóli, með styrk af opinberu fé. En nú er Kolviðarhóll að verða að sumardvalastað Reykvíkinga, og sennilega verður bráðum reist þar hótel, og allir hafa fyrir löngu gleymt að Kolviðarhóll sé nýbýli.
En svo er þetta nýja nýbýli. Það er í Hveradölum.
Það er Dani einn, Höyer að nafni, er dvalið hefur hér nokkur ár, sem reist hefur þar býli, og mun hann hafa fengið landið að erfðafestu hjá landsstjórninni.
Flutti hann þangað 21. ágúst í fyrra, og hafa þau búið um tvö ein, hann, og kona hans, sem er rússnesk.

Höyer

Höyer undir húsvegg í Hveradölum.

Nýlega var Höyer í kaupstað. Sagði hann að þeim hefði liðið vel þarna í vetur. Hann hefur reist býlið þarna til þess að nota jarðhitann og er búinn að koma sér upp 22 vermireitum. Sagðist hann hafa sáð kartöflum 15. apríl í vor, og að fyrstu hreðkurnar væru að verða fullproska hjá sér.
Hveradalir eru í 300 metra hæð yfir sjávarflöt, og spyr Reykvíkvíkingur Höyer, hvort garðaávextir hans muni ekki, svona hátt yfir sjó, vaxa þeim mun hægar, eftir að hann er búinn að planta peim undir bert loft, sem þeir uxu hraðar meðan þeir voru í vermireitum hans. En hann er ekki hræddur um það. Í haust ætlar hann að byggja gróðrarhús en það er sama — þar sem hverahiti er — og að breyta jafnstóru svæði af landinu í hitabelti, þar sem rækta má suðræn aldini allan ársins hring.

Hveradalir

Hveradalir – bær Höyershjóna.

Gróðrarmoldin er ágæt þarna í Hveradölum, segir Höyer, og það er hægt að nota hveravatnið til annars en að hita vermireiti — það er ágætt í kaffi.
Vonandi verður fólkið í Gróðrarstöðinni í Hveradölum heppið í sumar með garðaávexti sína, því allir nýbýlingar og landnemar þurfa að hafa hepnina með sér.“

Í Litla-Bergþóri árið 2012 er m.a. fjallað um „Hveradala Höyer og konu hans„:
„Aldrei í manna minnum hafði rignt svo mikið eins og þetta haust. Allt fór á flot, matur eyðilagðist, enga flík var hægt að þurrka og þeim var ekki svefnsamt um nætur vegna kulda þó þau væru örþeytt eftir 14 til 16 tíma þrældóm við moldarverk.

Höyer

Anders C. Höyer (1885-1959).

En þetta hafðist, þau gátu í lok október flutt í hlýjan kofa þar sem hverahitinn var nýttur og voru þannig í senn útilegufólk í anda Eyvindar og Höllu, og einskonar brautryðjendur. Þann 27. október þetta haust giftu þau sig og voru svaramennirnir Johannes Boeskov garðyrkjumaður og svo sendiherra Dana, sá með langa nafnið, Frank le Sage de Fonteney. Þarna í Hveradölum voru þau að basla til ársins 1934 þegar Skíðafélag Reykjavíkur reisti þar sinn skála og hóf greiðasölu. Þá fannst þeim sér ofaukið og leituðu annað. Þau prófuðu ýmislegt þarna uppfrá, ræktuðu í gróðurhúsum, brugguðu jurtamjöð, reyndu leirbaðslækningar, þjónuðu ferðamönnum og voru fyrst með torgsölu í Reykjavík með afurðir sínar. Þau stunduðu líka rjúpnaveiði sem stundum var happafengur en gaf stundum ekki neitt. Erica sagði löngu seinna er hún leit yfir líf sitt; „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.

Hótel ÍslandEftir að Höyershjónin hurfu úr Hveradölum kom Sveinn Steindórsson frá Hveragerði þar upp baðhúsi, eða árið 1938, sem hann rak um skamman tíma, uns hann lést sex árum síðar þegar Hótel Ísland brann til kaldra kola, sbr: „Aðfararnótt 3. febrúar 1944 kom upp eldur í geymslulofti hótelsins sem breiddist hratt út. Hótelið brann til kaldra kola á tveimur tímum og lést ungur maður í brunanum, Sveinn Steindórsson úr Hveragerði“.

Sjá meira um Höyer HÉR.

Heimildir:
-Dagur, 14. tbl. 16.03.1955, Ræktaði blóm í Hveradölum, bls. 5.
-Reykvíkingur, 4. tb. 06.06.1928, Gróðrastöðin í Hveradölum, bls. 127-128.
-Litli-Bergþór, 2. tbl. 01.12.2012, Hveradala Höyer og kona hans, bls. 20-21.
-https://afangar.com/byggdasaga/hotel-island/

Hveradalir

Hveradalir – Bæjarstæði Höyershjóna.

Hengill

Í Hveradölum undir Hellisheiði er göngubrú um hluta hverasvæðisins. Við brúna eru sex upplýsingaskilti. Á þeim má lesa eftirfarandi fróðleik:

Háhitasvæðið í Hveradölum

Hveradalir

Sprungusveimar Reykjanesskagans.

Hveradalir eru grasigrónar hvilftir í suðvestanverðu Stóra-Reykjafelli, í sunnanverðum Henglinum. Stóra-Reykjafell er forn gígur sem myndaðist í gufusprengigosi á íslöld og eru hliðar hans myndaðar úr móbergstúffi. Miðja þess forna sprengigígs nefnist Stóridalur. Hverasvæðið í Hveradölum tilheyrir hverasvæðinu á Hellisheiði, sem er eitt af fjölmörgum háhitasvæðum Hengilssvæðisins.
Eldstöðvakerfi Hengilsins liggur austast í röð fimm eldstöðvakerfa Reykjanesskagans. Gosbeltin raða sér á skýrt afmarkaðar sprungureinar sem liggja skástígar eftir skagagnum endilöngum. Gosbelti Reykjanesskagans er eitt af virkustu eldvirknisvæðum landsins. Eldstöðvakerfi Hengilsins er nokkuð frábrugðið hinum kerfunum þar sem það er eina megineldstöðin á skaganum, með tilheyrandi kvikuhólfi og súrri gosvirkni.

Hengill

Hengill.

Hengillinn er virk megineldstöð og liggur sprungurein eldstöðvakerfisins frá Selvogi á Reykjanesi í suðvestri og um 50 til 60 km leið norðaustur fyrir Þingvallavatn. Eldstöðvarkerfið er um 5 til 10 km breitt. Breiðast er það um Þingvallavatn en mjókkar til suðvesturs.
Eldstöðvakerfið nær yfir um 100 km2 og er eitt af stærstu háhitasvæðum landsins að finna á svæðinu. Eldstöðvarkerfið samanstendur af þremur megineldstöðvum; Hveragerði – Grændalur sem er elsta kerfið (300.000-700.000 ára gamalt); Hrómundartindur (sem er yngri en 115.000 ára) og Hengillinn sem er enn virkur í dag.
Vitað er um þrjú eldgos á nútíma (síðastliðin 10.000 ár) sem tilheyra virkri eldstöð Hengilsins, en þar gaus síðast fyrir um 2000 árum.

Borholur

Hengill

Hengill – borhola.

Árið 1986 var boruð 50 m djúp hola við hliðina á Skíðaskálanum í Hveradölum. Tilgangur borunarinnar var að kanna hvirt nýta mætti jarðhita á svæðinu til upphitunar. Önnur 100 m djúp hola var síðan boruð árið 1993 og er það sú hola sem hér má sjá sunnan megin við stíginn. Í dag er heita vatnið nýtt til upphitunar á Skíðaskálanum.
Lónið sem göngustígurinn liggur yfir er mangert en þar safnast saman heitt vatn sem er afrennsli frá hverasvæðinu. Útfellingarnar sem sjást í vatninu myndast þegar uppleyst steinefni, einkum kísill, falla út þegar hveravatnið kemur upp á yfirborð jarðar og kólnar.

Hvað er háhitasvæði
Um 20 háhitasvæði er að finna á Íslandi og eru þau öll staðsett á og við virk gos- og rekbelti landsins.
HengillHáhitasvæði eru oft staðsett í miðju eldstöðvakerfa og eru skilgreind þar sem hiti jarðhitavökva er yfir 200°C á 1000 m dýpi. Til þess að jarðhitavökvinn nái þessu hitastigi þá þarf hitagjafa sem er annað hvort grunnstætt kvikuhólf eða kvikuinnskot þar sem hiti kvikunnar hetur verið allt að 1000-1200°C.
Við upphitun grunnvatnsins breytist eðlilþyngd þess. Gastegundir sem losna úr heitri kvikunni blandast við grunnvatnið og berast með því til yfirborðs sem eðlislétt súrt jarðhitavatn eða gufa. Dæmi um þessi gös eru brennisteinsvetni (H2S) sem veldur hverafýlu, brennisteinstvíoxið (SO2) og koltvísýringur (CO2),
HengillÁ leið sinni til yfirborðsins þá sýður þessi heiti og súri jarðhitavökvi jarðlögin sem hann fer í gegnum. Við það vera efnaskipti milli vatnsins og bergsins og steindir leysast upp. Í heitu jarðhitavatni er því mikið magn uppleystra efna, svo sem kísill, kalk, brennsiteinn og fleiri efni.
Á hverasvæðinu í Hveradölum koma bæði fryir gufuhverir og leirhverir. Um svæðið rennur lækur og er grunnvatnsborð háhitasvæðisins því nokkuð hátt, en þó breytilegt.
Hæð vatnsyfirborðs í lóninu sveiflast með grunnvatnsstöðu svæðisins. Stundum er hér lón og stundum er allt skrjáfaþurrt á öðrum dögum.
Grunnvatnsstaða jarðhitasvæðsins ræðst af úrkomu og leysingum en háhitavatnið sem kemur upp undir Hengli á uppruna sinn í Langjökli þaðan sem það rennur sem grunnvatn í Þingvallavatn og þaðan undir Hengilinn.

Garðyrkjubúið í Hveradölum

Hveradalir

Hveradalir – hús Höyers.

Undir fótum þínum stóð eitt sinn gróðurhús sem nýtti jarðvarma. Sú bygging var partur af garðyrkjubýli sem byrjað var að byggja hér í Hveradölum árið 1927 af hjónunum Anders C. Höyer frá Danmörku og Ericu Hartmann frá Lettlandi. Árinu eftir að Anders hjálpaði við byggingu fyrsta garðyrkjubýlisins á Íslandi þar sem treyst var á ylrækt, en það býli var Blómvangur í Mosfellsbæ.
Íslenskir bændur höfðu nýtt náttúrulega heitan jarðveg til að rækta kartöflur og annað grænmeti í langan tíma áður en garðyrkja í gróðurhúsum sem nýtti jarðvarma varð til á fyrri hluta 20. aldar, svo þetta var kærkomin nýjung sem auðveldaði ræktun til muna.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir af húsi Höyers.

Anders sem var áhugasamur blaðamaður um garðyrkju var nýkominn til Íslands þegar hann fékk leyfi til að setjast að í Hveradölum ásamt konu sinni sem flutt hafði til íslands frá lettlandi um sumarið. Þau fluttu hingað upp á heiðina um haustið og bjuggu í tjaldi þar til þau höfðu byggt bæinn sinn sem upphitaður var með jarðvarma. Þau gifta sig svo á bænum í viðuvist sendiherra Dana, þann 27. október 1927. Lífið hefur ekki verið auðvelt, að minnsta ekki til að byrja með en hjonin eru fljót að koma sér upp húsaskjóli og geta í framhaldi af því þróað áfram uppbyggingu og tryggt þannig lífsviðurværi sitt.

Hveradalir

Hveradalir – tóftir Höyers.

Í gróðurhúsum ræktuðu þau fyrst um sinn begóníur en fara síðan að rækta rósir í blómapottum eftir að þau stækka gróðurhúsið árið 1929. Þau veiða líka rjúpur og brugga heimagert öl úr íslenskum jurtum sem þau selja vegfarendum ásamt því að bjóða upp á leirböð. Þau selja einnig vörur sínar á torgum í reykjavík.
Árið 1934 byggir Skíðafélag Reykjavíkur skála við hlið þeirra í Hveradölum og hefur þar greiðasölu. Nálægðin við skálann þrýstir á að þau flytja burt og koma sér upp heimili við Gunnuhver á Reykjanesi, þar sem þau reyna áfram að reka svipaða starfsemi og í Hveradölum, áður en þau flytja til Danmerkur 1937. Reynslan úr Hveradölum virðist hafa verið hjónum góð, því Erica á að hafa sagt þegar hún leit yfir líf sitt: „Bara að við hefðum aldrei farið úr Hveradölum“.
Húsin stóðu hér undir hlíðinni norðanmegin við stíginn þar sem enn sjást tóftir.

Tegundir hvera á háhitasvæðum

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Helstu yfirborðeinkenni háhitasvæða eru margbreytilegir gufu- og leirhverir. Víða má sjá ummyndað berg á yfirborði þessara svæða og er liatdýrð oft mikil vegna hverasalta. Á einstaka háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há, má sjá goshveri sem þeyta vatns- og gufustrókum upp úr jörðu með reglulegu millibili.
Stóri hverinn sem er hér norðan megin viðð göngustíginn er leirhver. leirhverir myndast þar sem bergið hefur brotnað niður vegna efnaveðrunar frá súrri jarðgufu. Til að slík fyrirbæri myndist þarf að vera hæfilega mikið yfirborðsvatn eða þéttivatn í gufunni. Leirinn samanstendur af vatni og soðnu umbreyttu bergi og ræðst þykkt hans af framboði yfirborðvatns.
Hér má sjá jarðhitagufu og

Hverasvæði

Hverasvæði.

gös streyma upp til yfirborðsins. grunnvatnið hitnar og súr vökvinn leyrir upp bergið sem umbreytist í leir. leirinn sýður og vellur, þeytist upp á brúnir hversins og myndar gráleita kápu. Grár litur leirsins stafar yfirleitt af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS).
Á svæðinu má jafnframt finna gufuhveri en þeir myndast þar sem grunnvatn jarðhitakerfis er það fdjúpt að einungis gufa eða gas nær upp til yfirborðs. Hiti í slíkum gufuhverum getur farið yfir 100°C við yfirborð. Vatnsgufan sem kemur upp á háhitasvæðum inniheldur líka kolsýru, vetni og brennisteinsvetni.
Vatnshverir og laugar eru algengari á háhitasvæðum, en það má finna þá hér þar sem gufan hefur blandast yfirborðsvatni.

Fyrsta hveragufubaðið
Vísir þann 27. október 1938:

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

„Lækningakraftur hveragufunnar og hveraleirsins. Býr ísland yfir ónotuðum heilsubrunnum? – Gufuböðin við skíðaskálann í Hveradölum og dvöl manna í Hveragerði…“
„Þeir, sem hafa átt leið austur yfir Hellisheiði hafa efalaust veitt því eftirtekt, að rétt oafn við rústirnar af húsi Höyers í Hveradölum hefir risið upp lítill og snotur kofi. Yfir hann og alt um kring leggur eiminn frá brennisteinshvernum, en rör liggja úr hvernum sjálfum og inn í húsið og út um það að nýju, en þetta mun vera fyrsta baðhús á íslandi, þar sem eingöngu er notast við hveragufu til að orna mönnum og baða þá. Þetta er nýjung, sem verðskuldar full athygli, ekki síst fyrir Reykvíkinga, sem búa í nágrenninu og geta auðveldlega orðið baðanna aðnjótandi, og þá einkum skíðagarpar vorir, sem þarna iðka íþróttina mikinn hluta vetrar.“ (…)

Hveradalir

Hveradalir – tóftir baðhússins.

„Þegar inn í húsið kemur verður fyrst fyrir búningsherbergi, og er þar bekkjum fyrir komið, þannig að menn geta legið þar og fengið nudd sér til heilsubótar og hressingar, hvort sem um íþróttamenn eða sjúklinga er að ræða,…“ (…)
„Innar af baðherberginu er gangur, sem liggur inn í baðklefann og er þar komið fyrir köldu steypibaði, en það er annar þáttur gufubaðsins og engu ónauðsynlegri til þess að baðsins verði notið til fulls, Innst í húsinu er svo baðklefinn sjálfur. Hann er ekki stór, en nógu til þess að nokkrir menn geta tekið bað í einu.

Hveradalir

Hveradalir – hverinn fyrir hús Höyers og baðhúsið.

Liggja rörin frá hvernum í gegnum hann og á þeim er handfang, þannig að hægt er með einu handtaki að hleypa frá gufunni eða loka fyrir hana að fullu eða tempra hana eftir vild. Sveinn Steindórsson frá Ásum í Hveragerði hefir reist baðskála þennan og gengið haganlega frá öllum útbúnaði hans eins og að framan greinir.“ (…)
„Ef það sýnir sig að dvöl við jarðhitasvæðin er jafn heilnæm, og talið er af ýmsum, fást með reynslunni öll önnur skilyrði til frekari athafna, og mætti þá vel svo fara að Ísland yrði hressingarstaður erlendra manna, sem færði þeim flesta meina bót, og væri þá auðveldara um öll vik eftir en áður.“

Uppleyst efni í jarðhitavökva

Hveradalir

Hveradalir – hver.

Við hringrás vatns í jarðhitakerfum vera efnaskipti milli bergs og vatns þegar heitur jarðhitavökvinn leikur um bergið. Þetta ferli leiðir til þess að mikið magn uppleystra efna berst til yfirborðs með heitum vökvanum. Þegar vatnið kemur upp til yfirborðs þá kólnar það og þrýstingur lækkar. Við það mettast vatnið af efnum sem þá falla út úr vatninu.
Við uppstreymi jarðhitavökvans og gufunnar verður ummyndun á yfirborði, fyrst og fremst við suðu bergsins í brennisteinssúru umhverfi. Við þessa ummyndun leysast sumar frumeindir og gler úr berginu upp.

Hveradalir

Hveradalir – skilti.

Aðrar steintegundir endurkristallast og mynda svokallaðar ummyndunarsteindir, sem eru í jafnvægi við þær aðstæður sem ríkja við yfirborð. þannig myndast nýjar steindir við yfirborð háhitasvæða, aðallega leirsteindir, sem birtast sem hvítur, grár, gulur eða rauður leir.

Litadýrð háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – hveraauga.

Leir á háhitasvæðum getur birst í ýmsum litaafbrigðum. Áberandi og einjennandi er gulur litur brennisteins (S), rauður litur steindarinnar hematíts (ferríoxiðs, Fe2O3) og dökkgrár litur leirs, sem virðist yfirleitt stafa af örsmáum kristöllum brennisteinskíss (FeS). Gifs (kalsíumsúlfat, CaSo4) er auðgreinanlegur og myndar hvítmatta kristalla. Gifs getur haft önnur litbrigði svo sem rauðlitað sökum járns eða jafnvel grænleitt vegna kopars, en það er sjaldgæft.

Lífríki háhitasvæða

Hveradalir

Hveradalir – leirhver.

Á háhitasvæðum má finna blómlegt líf þrátt fyrir að aðstæður kunni að virðast fjandsamlegar. Í hverum lifa örverur sem hafa aðlagast háum hita. Stundum má jafnvel sjá þær með berum augum, til dæmis sem hvíta þræði eða þykkar og litríkar þekjur. Örveruþekjur myndast gjarnan í affalli frá hverum og við jaðra þeirra. Þær eru oft grænar eða appelsínugular vegna þörunga, blágrænna baktería og annarra örvera sem búa yfir leitarefnum er binda sólarljós.
Í súrum og bullandi leirhverum finnast fábreytt samfélög og mjög hitakærra baktería og arkea. Þær nýta gjarnan jarðhitagasið og geta til dæmis fengið orku úr vetni eða brennisteinssamböndum og bundið koltvísýring í lífræn efni.

Hveradalir

Hveradalir – skiltin.

Gamli Þingvallavegur

Í nýenduruppgerðu og -vígðu sæluhúsi við Gamla Þingvallaveginn á Mosfellsheiði eru tvö upplýsingaskilti. Annað er um „Mosfellsheiðarvegi“ og hitt „Hús sælunnar„. Á þessum skiltum má lesa eftirfarandi:

Hraunið brann og rann til strandar

Mosfellsheiði

Borgarhólar.

Mosfellsheiði er dyngja sem rís hæst í Borgarhólum (410 m.y.s.). Á hlýskeiðum ísaldar rann svonefnt Reykjavíkurgrágrýti frá heiðinni alla leið til sjávar, allt frá Hafnarfirði og upp í Kollafjhörð. Nyrstu leifar þess eru á Brimnesi, á milli Kollafjarðar og Hofsvíkur á Kjalarnesi, en hraunið er einnig að finna í Gróttu og eyjunum á Kollafirði. Mesta þykkt þess hefur mæslt í Árbæ (80 m.y.s.) og í Öskjuhlíð (70 m.y.s.).

Fótspor og hófaför mörkuðu slóð

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur 2025.

Í aldanna rás áttu margir leið um Mosfellsheiði, þar er að finna fjölda þjóðleiðia, um þær fóru gangandi og ríðandi vermenn, bændur í kaupstaðaferðum, erlendi ferðamenn og fólk á leið til og frá Alþingi á Þingvöllum. Fótspor og hofaför mótuðu þessar leiðir um aldir svo ur varð heilt vegakerfi um gervalla heiðina, við þær voru hlaðnar vörður sem urðu samtals um 800 talsins, þær eru flestar hrundar.

Óboðlegt fyrir menn og hesta

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – skilti í nýuppbyggðu sæluhúsinu.

Heiðarleiðarnar voru misgóðar eftir árstíma, veðri og snjóalögum og stundum svo erfiðar yfirferðar að þær voru vart mönnum og hestumbjóðandi. Séra Jens Pálsson á Þingvöllum lýsti óviðunandi ástandi á Mosfellsheiði í blaðinu Ísafold árið 1881: „…zumstaðar er vegurinn órfærð urð, og grjótið svo þjett, að varla er nægilegt bil handa hestfætinum á milli steinanna. Þegar aptur á móti rignir, þótt eigi sje lengur en enn dag eð atvo, blotnar leirmoldin og treðst upp, og myndast þá leirleðjupollur innan um stórgrýtið, má þá vegurinn teljast ófær, jafnvel fyrir lausríðandi mann. Þó er enn verri meðferðin á hestunum þegar þeir eru reknir um slíkanveg með þyngsla-klyfjum, t.d. með borðviðardrögum á haustdegi opt í stormi eða regni, þá er viðbjóðslegt að sjá skepnurnar hrekjast fyrir storminum tilog frá um ófæru þessa…“.

Beinn og breiður vegur

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – skilti í nýuppbyggðu sæluhúsinu.

Seint á 19. öld urðu tímamót í samgöngusögu Mosfellsheiðar. Þá var hestvagnavegur lagður frá Geithálsi við Suðurlandsveg þvert yfir heiðina og austur til Þingvalla, um 33 kílómetra vegalengd. Vegurinn var tímamótamannvirki á sinni tíð, beinn og breiðuur og upphlaðinn á köflum. Um 100 vörður voru hlaðnar meðfram veginum, brýr voru byggðar og vegræsi lögð. Verkinu lauk árið 1896 með smíði brúar yfir Drekkingarhyl á Þingvöllum.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið framundan.

Sama á fór maður á reiðhjóli í fyrsta skipti eftir þessum nýja Þingvallavegi og var hann fimm klukkustundir á leiðinni.
Í nokkra áratugi var vegur þessi sá greiðasti yfir Mosfellsheiði, hér fór Friðrik VIII Danakonungur um með föruneyti sínu árið 1907, séstakur konungsvagn var með í för en konungur vildi heldur fara ríðandi yfir heiðina. Um þetta leyti var bílaöld að renna upp á Íslandi og fyrsti bíllinn fór hér um árið 1913.

Nýr vegur gerist gamall

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur 2025. Fallin varða t.v. Ekkert er minnst á hinn forna Þingvallaveg skammt norðar um Seljadal. Á þeirri leið var og sæluhús, mun eldra en sæluhúsin í Molbrekkum.

Árið 1910 voru þúsund ár liðin frá stofnun Alþingis og efnt til mikillar hátíðar á Þingvöllum, þá var ráðist í vegagerð úr Mosfellsdal og alla leið til Þingvalla, á svipuðum slóðum og Þingvallavegurinn (nr. 36) liggur nú á dögum, 30-35 þúsund manns komu á Alþingishátíðina sem var um þriðjungur þjóðarinnar. Bæði nýi og gamli Þingvallavegurinn voru notaðir yfir hátíðadagana til að liðka fyrir bílaumferð. 14 árum síðar stofnuðu Íslendingar lýðveldi á Þingvöllum, þá var hestvagnavegurinn frá árinu 1896 lagfærður í því aygnamiði að ökuþórar gætu nýtt sér hann á leiðinni til baka til Reykjavíkur. En himnarnir fögnuðu hinu nýstofnaða lýðveldi með úrhellisrigningu, vegurinn kiknaði undan bílabyrðinni og ljóst að dagar hans sem akvegur voru taldir. Hann varð því gamann fyrir aldur fram og gengur undir nafninu Gamli Þingvallavegurinn nú á dögum. Vegurinn hefur síðustu aratugina verið notaður sem göngu-, hjóla- og reiðleið og hefur mikið varðveislugildi.

Sæluhús í tímans rás

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppbyggt sæluhúsið.

Sæluhús hafa verið byggð á Íslandi síðan á miðöldum, þá var fólk hvatt til að greiða götu ferðafólks og vegfarenda, sjálfu sér til sálubótar. Nokkur sæluhús voru reist á Mosfellsheiði og í grennd við hana, eitt undir Húsmúla skammt frá Henglinum, húsið var þekkt fyrir reimleika, enda kallað Draugakofinn. Það sæluhús var aflagt á 19. öld og nýtt hús byggt á Kolviðarhóli þar í grenndinni. Annað sæluhús var reist í Moldbrekkum á norðanverðri Mosfellsheiði um miðja 19. öld. Ekki komust allir til byggða eða í sæluhús sem fóru yfir heiðina, til dæmis urðu sex vermenn þar úti snemma í marsmánuði árið 1857.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið.

Blómaskeið sæluhúsanna á Mosfellsheiði var á ofanverði 19. öld þegar allt að fimm sæluhús voru til staðar á heiðinni og í grend við hana. Einnig leitaði fólk gistingar á bóndabæjum, til dæmis í Elliðakoti og Miðdal í sunnanverðri Mosfellsveit, á Kárastöðum í Þingvallasveit og á Kolviðarhóli. Á Kárastöðum og Kolviðarhóli var gistiþjónusta um skeið og einnig í Valhöll sem reist var á Þingvöllum árið 1898.

Grágrýtið stendur tímans tönn

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýendurbyggt sæluhúsið. Á skiltatexta er getið um jarðlæga tóft austan (h.m.) við húsið. Um er reyndar að ræða leifar af eldra sæluhúsi með framanverðan brunn. Til eru myndir af sæluhúsinu í heiðinni á meðan var.

Sæluhúsið sem hér stendur var byggt um 1890 úr tilhöggnu grágrýti héðan af heiðinni. Þessi hleðslutækni hafði rutt sér til rúms á íslandi ogvar meðal notuð við byggingu Alþingishússins og Hegningarhússins í Reykjavík. Sigurður Hansson (1834-1896) stýrði byggingu sæluhússins sem var 7×4 metrar að utanmáli og hæð undir þakbrún á langvegg var 1.80 metri. Um fimm metra frá austurgafi var jarðlæg tótt sem er 8.50 m x 6.79 m að utanmáli.
Eftir að umferð um Gamla Þingvallaveginn lagðist að mestu niður var viðhaldi sæluhússins ekki sinnt, svo fór að það hrundi undan eigin þunga. Allt hleðslugrjótið var þó á staðnum en timburverk, hurð, gluggar og þak, höfðu orðið fúa, vindi og ryði að bráð.

Margir lögðu hönd á plóginn

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýuppgert sæluhúsið.

Árið 2019 hóf Ferðafélag Íslands að huga að endurbyggingu sæluhússins og lauk þeirri vinnu árið 2025. Margir lögðu hér hönd á plóg með einum eða öðrum hætti sem hér segir… Síðan eru taldir upp alls kyns pótintátar sem litlu mál skipta, en þeirra merkilegri eru þó hleðslumeistararnir Ævar og Örn Aðasteinssynir, sem eiga mikið lof skilið fyrir handverkið.

Súkkulaði og koníak í nesti
Á öðru skiltinu er eftirfarandi frásögn. „Newcome Wright (1184-1955) var enskur lögfræðingur sem kom til Reykjavíkur með skipinu Botníu í apríllok áerið 1914. Líkt og margir erlendir ferðamenn fyrr og síðar vildi hann heimsækja alþingisstaðinn fornar á Þingvöllum.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – varða við veginn austan sæluhússins.

Hann arkaði fótgangandi af stað og hugðist ganga nýja veginn frá Geithálsi til Þingvalla, allt gekk slysalaust fyrst í stað en síðan skall á blindbylur. Þá komu vörðurnar við veginn í góðar þarfir, stundum sá Wright sæluhúsið í fjarska, taldi vörðurnar þangað og komst að húsinu við illan leik. Er skemmst frá því að segja að sæluhúsið bjargaði lífi ferðalangsins, hann sagði í viðtali í Morgunblaðinu: „Í húsinu fann ég nokkra heypoka, ég tæmdi þá á gólfið, fór í pokana, hvern utan yfir annan og sofnaði, held ég, í rúma hálfa klukkustund. Að öllum líkindum svaf ég ekki lengur, en þegar ég vaknaði við einhvern hálf leiðan draum, langt uppi á heiðum Íslands, kaldur og svangur, þá vissi ég, að nú væri um að gera að flýta sér niður í byggð. Stormurinn og hríðin úti hræddu mig ekki. Ég ráfaði áfram, jafnt og þétt, sá Þingvallavatnið og komst svo kl. 5-6 um morguninn niður í Almannagjá.“

 

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – vegvísir við veginn og gatnamót línuvegar millum Nesvallavegar og Bringna.

P.S. Eitt er svolítið skondið! Búið er að stika leið frá Heiðartjörninni við Þingvallaveg upp að sæluhúsinu í Moldbrekkum og áfram að skilti á línuveginum þvert á Gamla Þingvallaveginn millum Nejavallavegar og Bringna, 5.9 km leið. Á skilti við „gatnamótin“, sem er reyndar ekki fær nema jeppabifreiðum (skrifari, ökumaður og göngumaður fór hana samt sem áður alla leið á fjórhjóladrifinni fólksbifreið, reyndar Toyotu,  sem sannaði þrátt fyrir það að ökumaðurinn skiptir jafnan meira máli en ökutækið sjálft). Ökuferðin niður að skiltinu tók u.þ.b. klukkustund, enda betra að fara bæði rólega varlega í mestu grófningunum þegar varadekkið er ekkert.
Gangan frá skiltinu að sæluhúsinu, fram og til baka, tók u.þ.b. 40 mín. Aksturinn frá skiltinu niður að Bringum tók u.þ.b. hálftíma.
1.7 km eru, skv. skiltinu, að sæluhúsinu frá línuveginum millum Nesjavallavegar og Bringna, 5.9 km frá því niður á Þingvallaveg, sem fyrr sagði, og 5.7 km að Bringum.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – skilti við línuveginn millum Nesjavallavegar og Bringna.

Óskiljanlegt er með öllu hvers vegna mönnum datt í huga að stika þessa leið, enda hefur viðkomandi þar með tekist það ómögulega, að leggja hana niður frá sæluhúsinu áleiðis að Þingvallavegi, án þess að snetra hið minnsta hina fornu neðanverða þjóðleið vermannanna fyrrum, sem og hið gamla sæluhús við Þrívörður þar skammt austar, landamerki Mosfellssveitar og Grafningshrepps! Svona er Ísland víst í dag…

Sæluhúsið er alltaf opið fyrir gesti og gangandi. Göngum vel um þessar merku menningarminjar.

Gamli Þingvallavegur

Gamli Þingvallavegur – nýendurgert sæluhúsið innanvert. Ákveðið hefur verið hafa allt húsið á sama gólfi, en fyrrum var í því timburþilpallur að austanverðu fyrir fólk og aðstaða fyrir hesta í því vestanverðu.  Ólíklegt er að hestum verði boðið þangað inn í framtíðinni, enda sæluhúsið einungis ætlað sem „hús sælunnar“…