Færslur

Smalaskáli

Í örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Óttarsstaði kemur fram heitið „smalahús“. FERLIR fannst áhugavert að kanna hvort tilvist þess mannvirkis væri enn í frásögu færandi. Áður hafði verið leitað að Grænhólsskúta og Smalaskálahelli á svipuðum slóðum og hvorutveggja staðsett.

Smalaskáli

Smalaskáli.

Í örnefnalýsingunni segir:
„Þeir eru ofan við Vatnagarðana, sem fyrr voru nefndir. Neðan þeirra er lægð með vatni í, sem heitir Leirlág. Niður og austur af henni, niður við sjó, er Miðaftansvarða. Svo er austur af Sjónarhól flöt, glögg hæð, sem heitir Jakobsvarða. Þar austar er svo önnur, sem heitir Goltrarhóll. Ofan við Jakobsvörðu, upp undir vegi, neðan Smalaskála, er Smalaskálahellir. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið fyrrnefnda, sem er skammt frá Rauðamel. Niður af Goltrarhól er Sigðarhóll, og austur af honum er svo hóll, sem heitir Spói.
SmalaskálafjárskjólNú er að fara upp fyrir þjóðveginn. Þar er ofan við gamla veginn hátt hraunholt, sem heitir Smalaskáli. Á því, á gjárbarmi, eru leifar eftir smalahús. Í þennan hól austanverðan er ker. Smalaskálahæðir heitir hæðin hér í kring.“
Í annarri örnefnalýsingu fyrir Óttarsstaði segir að Smalaskálaskjól sé við Fjárborgargötuna (sjá meira HÉR), neðan við þjóðveginn. Hér er átt við gamla malarþjóðveginn, sem notaður var allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Fjárborgargatan frá Óttarsstöðum lá til suðausturs upp að Fjárborginni vestan við Smalaskálahæð.
Þegar Fjárborgargatan var gengin neðan frá Jakobsvörðu áleiðis upp að Smalaskálahæð kom fljótlega í ljós lítil en fallega hlaðin varða á bergbarmi. Skammt ofar var komið að stóru jarðfalli, grösugu. Grasið var enn gult sem að vori, nema lægðin framan við hellisop. Framan við opið voru leifar af hleðslu. Líklegt má telja að þarna sé Smalaskálaskjól. Smalaskálinn fyrrnefndi er skammt ofar, ofan við þjóðveginn.

Smalaskáli

Smalaskáli.

 

Hvassahraun
Gengið var frá Hvassahrauni. Veður var ekki bara ágætt – það var frábært, logn, hiti og sól. Gengið var eftir stíg, sem liggur til suðurs sunnan Reykjanesbrautar. Stígurinn liggur áfram til suðurs skammt austan við Brugghellinn. Í botni hellisins, beint undir opinu, er ferköntuð upphækkun, sbr. meðfylgjandi mynd. Í botninum var vatn, u.þ.b. fet á dýpt. Gólfið er flórað að hluta svo ganga megi þurrum fótum í hluta hellisns, sem er í rauninni stór rúmgóð hvelfing, um sex metrar á dýpt.

Hvassahraun

Brugghellir ofan Hvassahrauns.

Stígnum var fylgt áfram suður Rjúpnadalshraun og áfram til suðurs í jarði Flatahrauns. Stígurinn gerðist greinilegri eftir því sem ofar dró. Haldið var yfir línuveginn vestan Öskjuholts, áfram upp í Bælin og alveg upp í Höfða. Við efsta hólinn, Sauðhól, var snúið við, en frá honum sést vel til suðurs upp í tiltölulega slétt og víðfeðmt hraunið. Suðvestan í hólnum er Sauðhólsbyrgið. Veðrið var svo gott þarna að því miður gleymdist að taka GPS-punkt á byrgið.

Nú var snúið til norðurs með sólina á bakborða. Fallegt útsýni var niður að Öskjuholti og áfram upp að Brennhólum. Þegar komið var að Öskjuholti úr þessari átt blasti Öskjuholtsbyrgið við sunnan undir holtinu. Opið er tiltölulega lítið þar sem það er þarna í lyngi vöxnum bakkanum. Það er hlaðið, en fyrir innan er mjög rúmgott fjárskjól, enda greinilega mikið notað. Holtið sjálft er klofið eftir endilöngu með mikilli gjá. Annar klapparhóll, en minni, er austan við holtið.

Hvassahraun

Öskjuholtsskúti.

Gengið var til norðurs, upp að Smalaskála. Þar eru vel grónar lægðir og mörg náttúrleg skjól. Efst á Smalaskála er Smalaskálavarða. Gott útsýni er frá henni niður að Hvassahrauni. Í suðsuðaustri sést í háa vörðu á hæð, Jónsvörðu. Húner nokkurs konar „vendivarða“ þegar farið er upp í Hvassahraunssel. Í henni er steinn, sem bendir til austurs, en frá henni er enga vörðu að sjá. Ef hins vegar er gengið frá henni til austurs kemur Hvassahraunsselsvarðan fljótlega í ljós. Norðvestan við hana er selið undir holti.
Sunnan við Smalaskála er náttúrlegt skjól undir hæð, mjög góður hellisskúti með tiltölulega litlu opi. Vel gróið er í kring. Ef smalaskáli ætti að vera í Smalskála þá væri þetta staðurinn. Skammt norðnorðvestan við það er lítið, en djúpt, jarðfall. Í því lá dauð rolla, enn í reifum.
Vestan í Smalaskála er lítið gat, en fyrir innan er rúmgóður skúti, sem greinilega hefur verið notaður sem fjárskjól. Allt í kring er vel gróið. Skammt norðan við hrygginn, sem fjárskjólið er í, er gat, u.þ.b. 5 metrar á dýpt. Ummálið er ca. 2×2 metrar. Við það er lítil varða.
Á smáhól norðan við Smalaskála er grönn og nokkuð há varða. Leitað var í kringum vörðuna, en ekkert markvert fannst. Útsýni er frá henni að Virkishólum og er varðan sennilega greinilegust þar. Hins vegar ber þessa vörðu í Smalaskálavörðuna þegar komið er neðan að austan Bláberjahryggjar. Við hana er gata. Götunni var fylgt til norðurs og var þá komið inn á nokkuð áberandi götu, sem kom að austan ofan við Virkishóla. Gengið var eftir götunni til vesturs. Sást hún vel í kvöldsólinni þangað til hún fór undir nýju Reykjabrautina gegnt gatnamótunum að Hvassahrauni.
Frábært veður.

Öskjuholtsskúti

Í Öskjuholtsskúta.